Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

102/2017 Nónhæð

Árið 2017, föstudaginn 29. september, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 102/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 18. september 2017, kærir A, Foldarsmára 18, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. júní 2017 að auglýsa breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 og ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 10. ágúst s.á. um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Nónhæð. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Málsatvik og rök: Á fundi sínum 13. júní 2017 samþykkti bæjarstjórn Kópavogs að auglýsa til kynningar tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins og á fundi 10. ágúst s.á., samþykkti bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi Nónhæðar. Frestur til athugasemda beggja skipulagstillagnanna var auglýstur til 29. september 2017.

Kærandi telur auglýsingu tillögu að breyttu aðalskipulagi ólögmæta þar sem í skipulagslögum sé gert ráð fyrir endurskoðun þess að loknum sveitarstjórnarkosningum og að tilkynna skuli Skipulagsstofnun um þá endurskoðun. Hin auglýsta tillaga að breyttu deiliskipulagi Nónhæðar byggi á greindri aðalskipulagsbreytingu og beri því að afturkalla hana.

Bæjaryfirvöld Kópavogs benda á að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun í hinum kærðu málum. Bæði deiliskipulags- og aðalskipulagstillagan séu ennþá í auglýsingu með athugasemdafrest til 29. september 2017.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. málsl. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að lögum að staðfesta ekki kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar, en það á við um hina kærðu aðalskipulagsbreytingu skv. 3. og 5. mgr. 32. gr. laganna.

Einungis ákvörðun sem bindur enda á mál verður kærð til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun um að auglýsa fyrrgreinda deiliskipulagstillögu er er liður í málsmeðferð en ekki lokáákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar. Ákvörðun um deiliskipulag tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingar um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda.

Af framangreindum ástæðum  verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

__________________________________________
Ómar Stefánsson