Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

9/2016 Kalkþörungaset í Miðfirði

Árið 2017, þriðjudaginn 3. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. desember 2015 um að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Húnaþing vestra þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. desember 2015 að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 22. febrúar 2016.

Málavextir: Með umsókn, dags. 14. maí 2015, sótti Icecal ehf. um leyfi til Orkustofnunar fyrir hagnýtingu á 1.200 m³ af kalkþörungaseti á ári innan ákveðins svæðis í Miðfirði. Óskað var eftir nýtingarleyfi til 30 ára, eða frá 2015 til 2045. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins skal gætt ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum við veitingu leyfa samkvæmt lögunum.

Framkvæmdin var talin falla í flokk C, samkvæmt lið 2.04 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Liðurinn tekur til efnistöku og/eða haugsetningar á landi eða úr hafsbotni þar sem áætlað er að raska minna en 25.000 m² svæði eða efnismagn er minna en 50.000 m³. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki C í 1. viðauka sé hún háð öðrum leyfum en samkvæmt skipulagslögum eða lögum um mannvirki eða háð leyfi Mannvirkjastofnunar.

Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu, með ákvörðun dags. 9. desember 2015, að umrædd framkvæmd væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Kærandi hefur nú kært þá ákvörðun með kæru, dags. 19. janúar 2016, eins og áður segir.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst vera sveitarfélag við Húnaflóa þar sem hin fyrirhugaða nýting kalkþörungasets sé fyrirhuguð og að efnisnám úr sjó innan sveitarfélagsins, sem hafi áhrif á og raski svæðinu, varði eðli málsins samkvæmt hagsmuni þess. Kærandi hafi því ríka ástæðu og lögvarða hagsmuni af málinu og að fram fari mat á umhverfisáhrifum á áhrifum framkvæmdanna. Auk þess sé eitt af markmiðum laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafi hagsmuna að gæta eða láti sig málið varða, sbr. 1. gr. laganna.

Samkvæmt 2. viðauka laga nr. 106/2000 hafi Skipulagsstofnun, við ákvörðun sína, borið að taka mið af eðli framkvæmdanna, staðsetningu framkvæmdanna og eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmdanna. Þetta hafi ekki verið gert með fullnægjandi hætti.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er því haldið fram að kærandi, sem sé sveitarfélag, eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi. Almennt hafi verið litið svo á í stjórnsýslurétti að stjórnvald sé ekki aðili máls. Við sérstakar aðstæður geti stjórnvald verið aðili þegar það eigi sambærilegra hagsmuna að gæta og einstaklingur eða fyrirtæki. Skipulagsstofnun fái ekki séð að framangreind rök kæranda geti leitt til þess að sveitarfélagið eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Það sé framkvæmdaraðili sem eigi hina lögvörðu hagsmuni og hann sem ákvörðunin varði. Staðsetning framkvæmdasvæðisins og markmiðsákvæði í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum skapi kæranda ekki aðild. Í málinu séu ekki fyrir hendi sérstakar aðstæður, á borð við þær sem nefndar séu að framan, sem réttlæti það að sveitarfélagið eigi aðild.

Stofnunin hafi við ákvörðun sína tekið mið af þeim viðmiðum sem skylt sé að líta til samkvæmt 2. viðauka við lög nr. 106/2000, sem og öðrum viðmiðum.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili bendir á að samkvæmt bráðabirgðaákvæði í 11. gr. laga nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, séu framkvæmdir þær sem falli í flokk C í 1. viðauka við lögin ekki háðar ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum skv. 6. gr. laganna fyrr en 1. júní 2015. Varðandi aðra starfsemi á svæðinu þá sé þar engin starfsemi, sem framkvæmdaraðila sé kunnugt um, sem ætti að verða fyrir skakkaföllum vegna fyrirhugaðrar efnistöku, en við mat á slíku skuli líta til jafnræðis og meðalhófs.

Niðurstaða: Kæruheimildir til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er að finna í ýmsum sérlögum, þ. á m. í 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt lagaákvæðinu sæta ákvarðanir skv. 6. gr. um matsskyldu framkvæmdar, sem tilgreind er í flokki B og flokki C í 1. viðauka við lögin, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina. Þau lög eru nr. 130/2011 og er fjallað um kæruaðild í 3. mgr. 4. gr. þeirra. Þar er tekið fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta þó kært nánar tilgreindar ákvarðanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Kærandi í máli þessu er ekki slík samtök heldur sveitarfélag og er lögfesta kæruheimild honum til handa hvorki að finna í lögum nr. 130/2011 né lögum nr. 106/2000.

Í kæru vísar kærandi til þess að það svæði sem hið umdeilda leyfi til kalkþörungavinnslu taki til sé innan sveitarfélagins. Efnisnám sem þetta hafi áhrif og raski svæðinu og varði því eðli málsins samkvæmt hagsmuni sveitarfélagsins. Kærandi hafi því lögvarða hagsmuni í málinu sem og af því að fram fari mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna.

Samkvæmt meginsjónarmiðum stjórnsýsluréttarins um það hverjir geti átt aðild að stjórnsýslumáli hefur verið litið svo á að sá sem eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta sem beinlínis reyni á við úrlausn máls verði hann yfirleitt talinn eiga aðild að því. Sama máli gegni um lögaðila. Þeim hagsmunum sem sveitarfélagið telur sig eiga af úrlausn málsins er lýst hér að framan. Um almannahagsmuni er að ræða sem hvorki geta talist einstaklegir né sérstakir, enda er sveitarfélagið sjálfstætt stjórnvald, sbr. 3. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og ber því að vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa þess, sbr. 7. gr. laganna. Slík almannahagsmunagæsla skapar kæranda ekki kæruaðild.

Að öllu framangreindu virtu er ljóst að kærandi á ekki aðild að kærumáli þessu og verður kæru hans af þeirri ástæðu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon