Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

65/2016 Númerslaus bifreið

Árið 2017, þriðjudaginn 3. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2016, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. maí 2016 um að fjarlægja bifreið af einkalóð í Grindavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 16. júní 2016, kærir A, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. maí 2016 um að fjarlægja ökutæki af lóð hennar, Garði í Grindavík. Kærandi krefst þess að fá kostnað af geymslu og flutningi bættan, alls kr. 72.282.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 18. júlí 2016.

Málavextir:
Hinn 10. maí 2016 límdi starfsmaður Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja miða á bifreið kæranda, þar sem fram kom að fjarlægja bæri bifreiðina hið fyrsta og var gefinn til þess vikufrestur. Bifreiðin var síðan fjarlægð 19. s.m. og komið fyrir í geymsluporti Vöku í Reykjavík. Kærandi sætti sig ekki við þetta og bar fram kæru sem móttekin var 16. júní s.á. Verður að skilja kæruna á þann veg að krafist sé ógildingar á framangreindri ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins um fjarlægingu bifreiðarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafa flutt ökutæki af einkalóð hans. Samkvæmt 110. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hafi heilbrigðiseftirlitið ekki leyfi til þess að hirða bifreiðina af einkalóð hans án hans vitneskju, en þar segi að standi ökutækið á svæði, sem ekki sé ætlað til almennrar umferðar, skuli það því aðeins flutt á brott, að eigandi eða umráðamaður lóðar krefjist þess. Bifreiðin hafi staðið fyrir utan bílskúr og til hafi staðið að ryðbæta og gera hana tilbúna til sprautunar. Hún hafi verið í ökuhæfu ástandi og ekki hafi smitast frá henni nein spilliefni. Í samtölum við starfsmann heilbrigðiseftirlitsins hafi hann vitnað í lagagrein um úrgang sem ekki verði séð að eigi við í umræddu tilfelli. Þegar honum hafi verið bent á framangreint ákvæði umferðarlaganna hafi hann sagt að heilbrigðiseftirlitið túlkaði ekki lögin svona.

Kærandi kveður atvikið hafa valdið sér bæði andlegum og fjárhagslegum skaða og vilji hann fara fram á að fá að minnsta kosti endurgreiddan reikning frá Vöku að fjárhæð kr. 28.282, sem og flutningskostnað, kr. 44.000, alls kr. 72.282.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Heilbrigðiseftirlitið kveður starfsmann á vegum embættisins hafa límt áminningarmiða á rúðu bifreiðar í Garði, Grindavík, 10. maí 2016. Hafi þar komið fram að gefinn væri einnar viku frestur til að fjarlægja bifreiðina en hún hafi verið númerslaus og mjög til lýta fyrir umhverfið að mati eftirlitsins. Eigendur bifreiðarinnar hafi ekki brugðist við tilmælunum innan gefins frests og hafi hún því verið fjarlægð 19. s.m. og komið fyrir í geymsluporti Vöku í Reykjavík.

Heilbrigðiseftirlitið telji sig hafa staðið löglega að því að fjarlægja umrædda bifreið með vísan til heimilda í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, ásamt 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti og 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Niðurstaða: Heilbrigðisnefndir starfa samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt þágildandi 13. gr. laganna, nú 47. gr., sbr. lög nr. 66/2017 um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, ber heilbrigðisnefnd að sjá um að framfylgt sé ákvæðum þeirra og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Gilda og stjórnsýslulög nr. 37/1993 um störf nefndarinnar. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 15. gr. laga nr. 7/1998, nú 49. gr., ráða heilbrigðisnefndir á hverju svæði heilbrigðisfulltrúa til að annast eftirlit sveitarfélaganna með þeim viðfangsefnum sem undir lögin falla. Heilbrigðisfulltrúar starfa í umboði heilbrigðisnefndar samkvæmt sama ákvæði.

Ákvæði um valdsvið og þvingunarúrræði voru í VI. kafla laga nr. 7/1998, nú í XVII. kafla. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr., nú 60. gr., geta heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt eftirfarandi aðgerðum til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum með stoð í þeim: 1. veitt áminningu, 2. veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta eða 3. stöðvað eða takmarkað viðkomandi starfsemi eða notkun, þar með lagt hald á vörur og fyrirskipað förgun þeirra. Samkvæmt 2. mgr. skal aðeins beita síðastnefnda úrræðinu í alvarlegri tilvikum, við ítrekuð brot eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests. Samkvæmt framangreindu er ljóst að heilbrigðisnefndir og heilbrigðiseftirlit hafa lagaheimildir fyrir þvingunaraðgerðum, sem m.a. fela í sér haldlagningu á lausamunum og förgun þeirra vegna brota á lögum nr. 7/1998 eða reglugerðum settum með stoð í þeim. Valdheimildir þessar eru óháðar ákvæðum umferðarlaga.

Reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti er sett með heimild í 4. gr. laga nr. 7/1998 og reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs með heimild í 4. og 5. gr. sömu laga, sem og  43. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Heimildir til að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök er að finna í ákvæðum 21. gr. reglugerðar um hollustuhætti og 17. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs. Í nefndri 21. gr. er að finna heimild heilbrigðisnefndar til að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum. Í áðurnefndri 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 segir m.a. að heilbrigðisnefnd sé heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun.

Samkvæmt gögnum málsins var umrædd bifreið kæranda staðsett á einkalóð og gat því ekki talist vera á almannafæri í skilningi 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Áðurnefnd 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 fjallar um almennan þrifnað utanhúss, m.a. á einkalóðum, og segir í 1. mgr. að umráðamönnum lóða sé skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum. Samkvæmt 5. mgr. er heilbrigðisnefnd heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og af samhengi ákvæðisins má ráða að framangreint gildi um númerslausar bifreiðar á einkalóðum. Ljósmynd, sem Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja lagði fram í málinu, sýnir að bifreið kæranda var númerslaus, ryðguð og í slæmu ástandi. Kemur fram í greinargerð heilbrigðiseftirlitsins að miði var límdur á bifreiðina 10. maí 2016 og eiganda gefinn viku frestur til að fjarlægja hana. Kom fram á nefndum miða að yrði hún ekki fjarlægð að útrunnum fresti yrði hún tekin í vörslu í einn mánuð og síðan fargað á kostnað eiganda. Kom einnig fram að hægt væri að hafa samband við fulltrúa heilbrigðiseftirlits í ákveðið símanúmer og einnig að hægt væri að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja innan sinna valdheimilda þegar það lét fjarlægja bifreið kæranda. Andmælaréttar kæranda var gætt og fékk hann ráðrúm til að fjarlægja bifreiðina sjálfur áður en gripið yrði til frekari ráðstafana með tilheyrandi kostnaði. Verður ekki annað séð en að hin kærða ákvörðun hafi stefnt að markmiðum 1. gr. laga nr. 7/1998 og 1. gr. reglugerðar nr. 737/2003 og þannig byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum. Var og málsmeðferð í samræmi við lög. Með vísan til þessa verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. Þá skal tekið fram að úrskurðarnefndin er ekki bær til að fjalla um fjárkröfur kæranda og koma þær því ekki til úrlausnar í máli þessu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. maí 2016 um að fjarlægja bifreið af einkalóð hans í Grindavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________________              __________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                                    Ásgeir Magnússon