Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

87/2015 Selsund í landi Svínhaga

Árið 2017, föstudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2015, kæra á ákvörðun byggðarráðs Rangárþings ytra frá 19. ágúst 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina SH-17 í landi Svínhaga.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. október 2015, er barst nefndinni 9. s.m., kæra eigendur jarðarinnar Selsunds, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun byggðarráðs Rangárþings ytra frá 19. ágúst 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina SH-17 í landi Svínhaga. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en að auki var farið fram á að framkvæmdir sem þegar væru hafnar yrðu stöðvaðar. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 3. nóvember 2015.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu í maí og júlí 2017.

Málavextir: Í maí 2014 var auglýst tillaga að deiliskipulagi lóða úr landi Svínhaga, SH-17 og SH-21. Að loknum kynningartíma var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar Rangárþings ytra 7. júlí 2014 og hafði þá borist athugasemd frá landeigendum Selsunds þar sem lýst var ágreiningi um eignarhald á tilteknum landspildum. Samþykkti skipulagsnefnd tillöguna og færði til bókar að hún teldi sig ekki hafa forsendur til að vefengja eignarhald umsækjanda og rétt hans til að deiliskipuleggja land sitt þrátt fyrir framkomnar athugasemdir. Tók deiliskipulagið gildi hinn 14. október s.á. Fól það í sér heimild fyrir allt að 200 m² íbúðarhúsi og þremur gestahúsum á hvorri lóð. Aðkoma að lóðunum yrði af Þingskálavegi nr. 268 og um nýjan aðkomuveg.

Með bréfi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til Rangárþings ytra, dags. 8. maí 2015, veitti ráðuneytið undanþágu frá gr. 5.3.2.14. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um 50 m fjarlægðar-mörk mannvirkja frá vötnum, ám eða sjó vegna byggingar íbúðarhúss á lóðinni SH-17. Í bréfi ráðuneytisins var m.a. vísað til þess að í bréfi sveitarfélagsins til ráðuneytisins, dags. 12. mars 2015, kæmi fram að búið væri að steypa hluta hússins, um 92 m² kjallara/geymslu í 36 m fjarlægð frá Selsundslæk sem ekki væri innan afmarkaðs byggingarreits samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Byggðist niðurstaða ráðuneytisins m.a. á því að bygging hússins væri þegar hafin og að verið væri að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi svæðisins í samræmi við staðsetningu byggingarinnar.

Eigendur jarðarinnar Selsunds komu á framfæri athugasemdum við byggingarfulltrúa Rangárþings ytra með bréfi, dags. 15. maí 2015, vegna afgreiðslu sveitarfélagsins á erindum sem vörðuðu skipulags- og byggingarmál á jörðunum Svínhaga og Selsundi. Vakin var athygli á því að þeir hefðu mótmælt á öllum stigum skipulagningar lands Svínhaga og tilkynnt sveitarfélaginu að verið væri að ganga á land þeirra. Jafnframt var í bréfinu bent á að samkvæmt fyrri bókunum sveitarstjórnar ætti að fá samþykki eigenda Selsunds fyrir ákveðinni deiliskipulagsvinnu er m.a. hafi tekið til lóðarinnar SH-17. Var skorað á sveitarfélagið að afgreiða ekki fleiri erindi á hinu umdeilda svæði og afturkalla þær ákvarðanir sem þegar hefðu verið teknar.

Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings ytra 8. júní 2015 var lagt til að auglýsa til kynningar tillögu að breytingu á umræddu deiliskipulagi vegna lóðarinnar SH-17. Fól tillagan í sér að aðkomuvegi innan lóðarinnar yrði breytt sem og bílastæðum og byggingarreitum fjölgað í tvo. Á byggingarreit B1 var gert ráð fyrir íbúðarhúsi sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafði veitt undanþágu fyrir vegna fjarlægðar þess frá Selsundslæk. Á byggingareit B2 var gert ráð fyrir þremur smáhýsum og yrði fjarlægð byggingarreits 50 m frá Selsundslæk. Var greind afgreiðsla staðfest af sveitarstjórn Rangárþings ytra 10. s.m.

Kærendur komu á framfæri athugasemdum á kynningartíma tillögunnar og bentu m.a. á að nú lægju fyrir opinber gögn um sölu Svínhaga og kort og hefði skipulagsnefnd því forsendur til að meta hvort rétt væri að halda áfram með skipulagsvinnu á svæðinu gegn mótmælum eigenda Selsunds. Væri sveitarfélaginu skylt að stöðva skipulagsferlið. Skipulagsnefnd tók málið fyrir 17. ágúst 2015 og var eftirfarandi m.a. fært til bókar: „Áréttað er að deiliskipulags-breytingin tekur til lóðarinnar Svínhagi SH-17, landnr. 218364 eins og hún er afmörkuð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og í þinglýstum gögnum. Eðli málsins samkvæmt verður skipulagsnefnd að leggja hina opinberu skráningu til grundvallar við meðferð skipulags-tillögunnar. Þá er rétt að líta til þess að fyrir liggur óáfrýjaður dómur Héraðsdóms Suðurlands frá 18. október 2010 í máli nr. E-189/2010 um landamerki milli Selsunds og Svínhaga. Í málinu voru eigendur landspildna úr jörðinni Svínhaga sýknaðir af dómkröfum eigenda Selsunds. Skipulagsnefnd tekur að öðru leyti enga afstöðu til þess ágreinings sem er uppi meðal landeigenda á svæðinu.“ Staðfesti byggðarráð afgreiðslu skipulagsnefndar 19. ágúst 2015 Í kjölfar þess var tillagan send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og gerði stofnunin ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt tillögunnar. Öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 5. október 2015.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að fyrir liggi að landamerki Svínhaga og Selsunds hafi verið teiknuð upp á kort og samþykkt af kaupanda Svínhaga árið 2002. Leiði núverandi eigendur skipulagssvæðisins rétt sinn til lands úr landi Svínhaga til ofangreindra kaupa. Beri opinber gögn með sér að skipulagssvæðið liggi innan merkja Selsunds að nær öllu leyti. Geti sveitarfélagið ekki hundsað fram komin gögn og skorist undan því að hafa skoðun á málinu. Þurfi sveitarfélagið að taka rökstudda ákvörðun um það hvort halda eigi áfram með skipulags-ferlið á landi sem öll gögn bendi til að tilheyri ekki þeim er óski breytinga á skipulagi þótt viðkomandi hafi þinglýsta eignarheimild.

Skipulagsnefnd hafi áður samþykkt að halda ekki áfram með skipulag á því svæði sem núverandi breytingartillaga taki til nema samþykki landeigenda Selsunds lægi fyrir. Aldrei hafi verið leitað eftir nefndu samþykki.

Í Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022 sé umrætt svæði skipulagt sem landbúnaðar-svæði. Geri breytingartillagan ráð fyrir að reist verði einbýlishús og þrjú smáhýsi á lóðinni án þess að þar komi fram hvernig þær byggingar tengist landbúnaðarstarfsemi. Sé breyting þessi í andstöðu við fyrrnefnt aðalskipulag og samræmist ekki skilgreiningu þess. Hefði þurft að breyta skilgreiningu landsins í aðalskipulagi og afla samþykkis viðkomandi ráðuneytis fyrir lausn þess úr landbúnaðarnotum skv. II. kafla jarðalaga nr. 81/2004 áður en tillagan fengi samþykki.

Umrædd lóð liggi að veiðivatni og framkvæmdir séu hafnar á henni. Samkvæmt 33. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006 sé áskilið að sérstakt leyfi Fiskistofu þurfi áður en heimilaðar séu framkvæmdir á, í eða við veiðivatn. Hafi sveitarfélaginu borið að kanna hvort umrætt leyfi til framkvæmda hafi legið fyrir, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Rotþró fyrir umrætt einbýlishús liggi utan byggingarreits. Hún sé í 16 m fjarlægð frá Selsundslæk og siturlögn um 7 m frá læknum. Leiða megi líkur að því að siturlögnin eða affall hennar sé í raun komið undir grunnvatnsstöðu vegna hæðar lagnarinnar miðað við yfirborð lækjar. Ekki liggi fyrir að undanþága sú er veitt hafi verið frá fjarlægð byggingarreits frá vatni heimili slíkt.

Málsrök Rangárþings ytra: Sveitarfélagið tekur fram að Hæstiréttur Íslands hafi í janúar 2017 vísað frá dómi máli kærenda er lotið hafi að landamerkjum milli Svínhaga og Selsunds. Ástæða þess sé sú að Héraðsdómur Suðurlands hafi sýknað eigendur Svínhaga af sömu dómkröfum árið 2010. Verði sá ágreiningur ekki borinn að nýju undir dómstóla. Sé því vart lengur ágreiningur um að umþrættar framkvæmdir séu allar innan merkja Svínhaga og að hið umdeilda deiliskipulag sé utan við merki Selsunds.

———-

Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Fyrir liggur að með dómi í máli E-189/2010, uppkveðnum 18. október 2010, voru eigendur lands jarðarinnar Svínhaga sýknaðir af kröfu kærenda um tiltekin landamerki jarðanna Selsunds og Svínhaga og var þeim dómi ekki áfrýjað. Á árinu 2015 var máli vegna sama landamerkjaágreinings vísað frá Héraðsdómi Suðurlands og var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar frá 13. janúar 2017 í máli nr. 837/2016. Var ástæða frávísunar málsins sú að um sama sakarefni væri að ræða og dæmt hefði verið í fyrrgreindu dómsmáli frá árinu 2010. Afmörkun skipulagssvæðisins og lóðarmörk samkvæmt hinni kærðu deiliskipulags-breytingu eru óbreytt frá eldra deiliskipulagi svæðisins frá árinu 2014. Af framangreindum ástæðum, auk þess að eignarréttindum verður ekki ráðstafað með deiliskipulagi, verður í máli þessu einungis tekin afstaða til lögmætis þeirra breytinga sem hin kærða ákvörðun fól í sér en ekki tekin afstaða til annarra álitaefna vegna eldra deiliskipulags, svo sem um mörk lóða að landi kærenda og landamerki milli jarðanna Selsunds og Svínhaga.

Hin kærða ákvörðun lýtur einungis að breytingum innan lóðar SH-17 í landi Svínhaga sem fólust í nýjum byggingarreit vegna færslu íbúðarhúss, sem heimilað var að byggja samkvæmt eldra deiliskipulagi, auk breytinga á bílastæðum og aðkomu að húsi af því tilefni. Veitti umhverfis- og auðlindaráðuneytið undanþágu frá gr. 5.3.2.14. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 frá 50 m fjarlægðarmörkum mannvirkja frá vötnum, ám eða sjó vegna nýrrar staðsetningar íbúðarhússins í um 36 m fjarlægð frá Selsundslæk. Var sú undanþága veitt samkvæmt heimild í 12. mgr. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar.

Samkvæmt 33. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 er sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, háð leyfi Fiskistofu. Í 59. tl. 1. mgr. 3. gr. laganna er hugtakið veiðivatn skýrt með þeim hætti að það sé „Á eða stöðuvatn sem veiði er í eða mætti í vera ef fiskur væri ræktaður þar.“ Fyrirliggjandi gögn og upplýsingar bera ekki með sér að Selsundslækur geti talist veiðivatn í skilningi fyrrgreindra laga og var af þeim sökum ekki þörf á að afla leyfis Fiskistofu fyrir staðsetningu fyrrgreinds íbúðarhúss.

Gert er ráð fyrir að staðsetning rotþróa sé sýnd á lóðaruppdrætti, sbr. gr. 4.4.4. í byggingar-reglugerð nr. 112/2012 sem er hluti byggingarleyfisteikninga. Um frágang og búnað rotþróa gilda lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og ákvæði laga um fráveitur nr. 9/2009 ásamt reglugerðum settum samkvæmt þeim. Við veitingu byggingarleyfis ber að ganga úr skugga um að farið sé að þeim reglum um rotþrær og frágang þeirra en ekki við gerð deiliskipulags.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þær ástæður sem raskað geta gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfu þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggðarráðs Rangárþings ytra frá 19. ágúst 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina SH-17 í landi Svínhaga.

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________            ____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                Þorsteinn Þorsteinsson