Árið 2018 miðvikudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 115/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. september 2017 um að samþykkja takmarkað byggingarleyfi vegna Vegamótastígs 7 og 9 og ákvörðun hans frá 24. október s.á., sem staðfest var af borgarráði 2. nóvember s.á., um að samþykkja byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fimm hæða húsi á nefndum lóðum.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2017, er barst nefndinni 6. s.m., kæra eigendur, Grettisgötu 3, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. september 2017 að samþykkja takmarkað byggingarleyfi vegna Vegamótastígs 7 og 9. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. nóvember 2017, er barst nefndinni 23. s.m., kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. október 2017, sem staðfest var af borgarráði 2. nóvember s.á., um að samþykkja byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fimm hæða húsi með gististað í flokki IV á efri hæðum og veitingastað á jarðhæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Verður kærumál þetta, sem er nr. 137/2017, sameinað þessu máli þar sem hinar kærðu ákvarðanir lúta að sömu byggingarframkvæmd og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. nóvember 2017 og 25. janúar 2018.
Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.5, svonefndan Laugavegs- og Skólavörðustígsreit, frá árinu 2002. Með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 tók gildi breyting á því skipulagi þar sem heimilað var að reisa fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara að Vegamótastíg 7 og 9. Í kjallara skyldu vera bílastæði. Á lóðunum var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hverja 100 m2 verslunar- og þjónustuhúsnæðis og eitt stæði fyrir hverja 130 m2 hótelrýmis eða fyrir sambærilega starfsemi. Þá var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða til nota fyrir nefndar lóðir. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. október 2016 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli á Vegamótastíg 7 og 9 auk kjallara á tveimur hæðum.
Með úrskurði, uppkveðnum 31. mars 2017, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun úr gildi á þeim forsendum að fjöldi hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis færi gegn gildandi deiliskipulagi. Þá var einnig vísað til þess, í nefndum úrskurði, að eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða, handan götu, sem ekki var sérstaklega ætlað að þjóna starfsemi viðkomandi byggingar, uppfyllti ekki kröfur gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um bílastæði fyrir hreyfihamlaða.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. maí 2017 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða sambyggðum byggingum á lóðum 7 og 9 við Vegamótastíg ásamt kjallara á tveimur hæðum. Gert var ráð fyrir gististað í flokki V á efri hæðum og veitingasal fyrir allt að 130 gesti á fyrstu hæð og í efri kjallara og tveimur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða í neðri kjallara hússins ásamt geymslurými.
Með úrskurði, uppkveðnum 6. september s.á., felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun úr gildi á þeim forsendum að fjöldi hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis færi gegn gildandi deiliskipulagi. Þá var einnig vísað til þess í nefndum úrskurði að tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða í neðri kjallara uppfylli ekki skilyrði byggingarreglugerðar, ásamt því að þinglýst kvöð á lóð nr. 7 við Vegamótastíg afmarkaði byggingarreit lóðarinnar vegna brunastiga og flóttaleiðar frá Laugavegi 18b og rýmis fyrir sorptunnur.
Í kjölfarið var sótt um takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum í grunni fyrirhugaðs húss 13. september 2017 sem var samþykkt samdægurs.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. október 2017 var samþykkt byggingarleyfi fyrir fimm hæða steinsteyptu húsi með hóteli á efri hæðum og veitingastað á jarðhæð á fyrrgreindum lóðum. Á fundi borgarráðs hinn 2. nóvember s.á. var ákvörðun byggingarfulltrúa staðfest.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að eftir að nýtt byggingarleyfi hafi verið gefið út hafi fleygun haldið stanslaust áfram með öllum þeim óþægindum sem því fylgi. Enn sé haldið áfram að bora undir hús þeirra án þeirra samþykkis. Þá muni fyrirhugaður veitingastaður á jarðhæð hótelsins valda kærendum miklu ónæði vegna hávaða. Þá sé mikill hæðarmunur á hinu leyfða hóteli og Grettisgötu 3 og 5 sem þýði að slík bygging verði mun hærri en áætlað hafi verið í byrjun.
Einnig sé gerð athugasemd við málsmeðferð Reykjavíkurborgar og vanvirðingu við íbúa og næstu nágranna. Aldrei hafi verið rætt við eða hlustað á kærendur og í þau skipti sem þeim hafi verið svarað hafi það verið með útúrsnúningi. Hvorki hafi verið vilji til að koma á staðinn og mæla hávaða vegna fleygunar, sem kærendur hafi þurft að búa við í sex mánuði, né að athuga skemmdir sem hafi orðið á eign kærenda.
Þá vísi kærendur til ástæðna sem raktar hafi verið í fyrri kærum þeirra vegna fyrirhugaðs hótels í málum nr. 16/2016, 17/2017 og 70/2017.
Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til þess að athugasemdir kærenda snúist m.a. um hæð húsa, skuggavarp og nýtingarhlutfall, en þau atriði ráðist af ákvæðum gildandi deiliskipulags. Kærufrestur vegna þess skipulags sé löngu liðinn. Deiliskipulagið heimili fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði og hótel eða sambærilega starfsemi. Engin rök séu sett fram af kærendum um að verið sé að brjóta ákvæði deiliskipulags og skilmála fyrir umræddar lóðir.
Í skilmálum deiliskipulagsins segi í liðum a) og b): „Á lóðunum verða byggingar sem verða alls fimm hæðir, efsta hæð verður inndregin sem og 1. hæð. Kjallari á einni hæð verður undir húsunum. Hæð bygginga er til samræmis við hæð hússins við Laugaveg 18, inndregin efsta hæð Vegamótastígs 7 og 9 er í sömu hæð og inndregin efsta hæð Laugavegs 18, í kóta 38,62.“ Þá komi fram í lið k) að heimilt sé að lyftur og stigahús nái upp fyrir hámarkshæðir, þó að hámarki 3,5 m. Byggingarnefndarteikningar sýni að ekki sé farið yfir kóta deiliskipulagsskilmála. Bílastæðaþörf bygginganna sé uppfyllt en samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins skuli vera kjallari undir húsunum sem notaður verði fyrir bílastæði. Á byggingarnefndarteikningu séu sýnd fjögur bílastæði, þ. á m. tvö sérmerkt fyrir hreyfihamlaða. Í skilmálum deiliskipulagsins komi fram að ef ekki sé hægt að uppfylla bílastæðakröfur í kjallara sé heimilt að borga sig frá þeim. Á fyrstu hæð beggja húsa sé samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins gert ráð fyrir millihæð á hluta hæðarinnar. Teikningar séu í samræmi við þennan áskilnað deiliskipulagsins.
Eins og fram komi í deiliskipulaginu sé það á svæði sem Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 skilgreini sem Miðsvæði M1A. Í aðalskipulaginu, sem og í breytingu á því frá ágúst 2017, segi um tillögu að landnotkun á svæði M1A sem samþykkt hafi verið: „Í miðborgarkjarnanum má finna lykilstofnanir stjórnsýslu, menningar og mennta, líflegustu verslunargötur landsins, litríka flóru veitingastaða auk fjölbreyttrar sérfræðiþjónustu. Sérstök áhersla er á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingu sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga- og menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum skrifstofu- og íbúðarhúsnæði, auk gistiþjónustu.“
Í aðalskipulagsbreytingunni frá því í ágúst 2017 komi fram að gera þurfi grein fyrir hótelum/gististöðum í deiliskipulagi. Í deiliskipulagi fyrir Vegamótastíg, Grettisgötu, Klapparstíg og Laugaveg segi um Vegamótastíg 7-9 að gert sé ráð fyrir verslunum og þjónustu á 1. hæð en íbúðum og/eða ferðatengdri þjónustu/hóteli á efri hæðum.
Í kæru sé því haldið fram að í nýju byggingarleyfi komi fram heimild til að reka veitingastað í flokki III. Byggingarfulltrúi veiti ekki veitingaleyfi, hann samþykki einvörðungu uppdrætti sem geti sýnt veitingastað. Sýslumenn gefi úti rekstrarleyfi fyrir veitingarekstur að uppfylltum þeim skilyrðum sem talin séu upp í 25. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Engar ákvarðanir hafi verið teknar um veitingastað með næturopnun eins og kærendur gefi í skyn. Um starfsemi veitingastaða gildi sérstakar reglur sem borgaryfirvöld framfylgi. Aðalskipulag heimili þrenns konar opnunartíma veitingastaða á skilgreindu miðsvæði M1A og verði rekstraraðili veitingastaðar að Vegamótastíg 7-9 að hlíta skilmálum og ákvörðunum stjórnvalda á hverjum tíma.
——–
Reykjavíkurborg var gefinn kostur á að koma að athugasemdum í kærumáli þessu en hún hefur ekki nýtt sér þann rétt.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. september 2017 um að samþykkja takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum við Vegamótastíg 7 og 9 og ákvörðun hans frá 24. október s.á., sem staðfest var af borgarráði 2. nóvember s.á., að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða steinsteyptu hóteli ásamt veitingastað á jarðhæð á framangreindum lóðum. Varða bæði byggingarleyfin sömu byggingarframkvæmdina.
Í kjallara byggingarinnar er gert ráð fyrir fjórum bílastæðum, þar af tveimur fyrir hreyfihamlaða. Í 6. kafla byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er að finna þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við eða á lóðum bygginga sem falla undir skilyrði kaflans um algilda hönnun. Í gr. 6.2.4. segir: „Ef fjöldi bílastæða á lóð annarra bygginga en falla undir 5. og 6. mgr. er ákvarðaður í skipulagi skal lágmarksfjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóð vera skv. töflu 6.03. Þegar um fleiri stæði er að ræða bætist við eitt stæði fyrir hver byrjuð 200 stæði. Ætíð skal að lágmarki gera ráð fyrir einu stæði fyrir hreyfihamlaða.“ Samkvæmt nefndri töflu er því lágmarkskrafa fyrir heimilað hótelrými að gert verði ráð fyrir einu bílastæði á lóð. Í töflu 6.02 í sömu grein kemur fram að við veitingastaði með 1-100 sæti skuli vera eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða að lágmarki en samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir veitingasal með sætum fyrir allt að 100 manns. Þarf því eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða vegna fyrirhugaðs veitingahúss.
Lóðirnar sem um ræðir eru staðsettar á reit M1A samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Er þar m.a. gert ráð fyrir veitingastarfsemi á jarðhæð og gististarfsemi á efri hæðum. Deiliskipulag svæðisins, eftir breytingu árið 2015, gerir ráð fyrir 5 hæða byggingu sem nær yfir báðar lóðirnar með bílakjallara. Á fyrstu hæð, sem er með millilofti, er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og á efri hæðum verði íbúðir og/eða ferðatengd þjónusta/hótel. Fer hámarkshæð húss ekki yfir uppgefinn kóta í deiliskipulagi. Verður því ekki annað ráðið en að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags og ákvæði byggingarreglugerðar og hafi því ekki meiri grenndaráhrif en vænta mátti samkvæmt skilmálum skipulagsins.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. september 2017 um að samþykkja takmarkað byggingarleyfi vegna lóðanna Vegamótastígs 7 og 9.
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. október 2017, sem staðfest var í borgarráði 2. nóvember s.á, um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða steinsteyptu húsi á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9.