Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

105/2017 Vatnsstígur

Árið 2018, föstudaginn 14. september tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 105/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2017 á beiðni kæranda um að skráðar yrðu með formlegum hætti þrjár íbúðir í húsinu að Vatnsstíg 9a.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 23. september 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kærir eigandi, Jökulgrunni 23, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2017 að synja beiðni kæranda um að skráðar yrðu með formlegum hætti þrjár íbúðir í húsinu að Vatnsstíg 9a.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. desember 2017.

Málsatvik og rök: Kærandi sendi byggingarfulltrúanum í Reykjavík ódagsett erindi þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um „hvort leyft yrði eða samþykktar yrðu þrjár íbúðir, ein á hæð“ í húsinu að Vatnsstíg 9a. Hinn 7. júní 2016 var erindið tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og ákveðið að vísa því til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 1. júlí s.á. kom fram að ekki væru gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið en tekið fram að íbúðir þyrftu að uppfylla skilmála byggingarreglugerðar fyrir íbúðarhúsnæði. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. júlí 2016 var erindið afgreitt með vísan til athugasemda á fyrirspurnablaði og umsagnar skipulagsfulltrúa. Hinn 25. ágúst 2017 fékk kærandi tölvupóst frá byggingarfulltrúa þar sem tekið var fram að samkvæmt Þjóðskrá Íslands væri húsið Vatnsstígur 9a skráð sem ein eign með einu fastanúmeri. Til þess að mögulegt væri að samþykkja íbúðir í þegar byggðum húsum þyrftu þær að standast ákvæði byggingarreglugerðar um íbúðir. Hvorki ris hússins að Vatnsstíg 9a né kjallari stæðust ákvæði byggingarreglugerðar, t.a.m. hvað varðaði lofthæðir og niðurgröft kjallara, sbr. gr. 6.7.2. og 6.7.4 byggingarreglugerðar. Því væri ekki mögulegt samkvæmt gildandi byggingarreglugerð, að samþykkja nýjar sjálfstæðar íbúðir í húsinu að Vatnsstíg 9a.

Af hálfu kæranda er á því byggt að krafa um samræmi við gildandi byggingarreglugerð eigi ekki við í því tilviki sem hér um ræði þar sem húsið hafi lengi verið notað sem þriggja íbúða hús og byggingarreglugerðin gildi ekki afturvirkt að þessu leyti. Í húsinu við hliðin á Vatnsstíg 11, hafi verið gefið leyfi til að innrétta 25 litlar íbúðir og því sé eðlilegt að veita leyfi fyrir skráningu þriggja íbúða í húsinu að Vatnsstíg 9a með tilliti til jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar sem lögfest sé í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Reykjavíkurborg krefst frávísunar málsins frá úrskurðarnefndinni. Kærandi hafi leitað eftir skoðun stjórnvaldsins, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þegar hann hafi sent byggingarfulltrúa fyrirspurn og óskað eftir upplýsingum um hvort fjölga mætti íbúðum í greindu hús. Hins vegar hafi ekki verið send inn byggingarleyfisumsókn í samræmi við gr. 2.4.1 byggingarreglugerðar nr. 112/2012, sbr. 9. og 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í afgreiðslu byggingarfulltrúa hafi því ekki falist stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga sem kæranleg hafi verið til úrskurðarnefndarinnar. Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segi síðan að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð. Kæra í máli þessu verði því ekki borin undir úrskurðarnefndina. Breyti þar engu þótt byggingarfulltrúa hafi verið sendur tölvupóstur þar sem óskað var eftir skýringum þar sem málinu hafi aldrei verið til lykta leitt með þeim hætti.

Niðurstaða: Breytingar á húsi, svo sem fjölgun íbúða, eru háðar byggingarleyfi samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Erindi kæranda til byggingarfulltrúa sem hér er til umfjöllunar var sett fram á eyðublaði fyrir byggingarleyfisumsókn. Strikað var yfir titilinn „Byggingarleyfisumsókn“ en ritað á blaðið „Fyrirspurn“. Þá bendir orðalag erindisins ótvírætt til þess að um fyrirspurn var að ræða þar sem óskað var upplýsinga um hvort heimilaðar yrðu þrjár íbúðir í húsinu að Vatnsstíg 9a. Ekki fylgdu erindinu tilskilin gögn sem fylgja þurfa byggingarleyfisumsókn skv. 1. mgr. 10. gr. fyrrgreindra laga, svo sem aðaluppdrættir og skráningartafla. Var erindi kæranda meðhöndlað af borgaryfirvöldum sem fyrirspurn og henni svarað en ekki afgreitt með ákvörðun.

Liggur því ekki fyrir í máli þessu stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar skv. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.