Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

108/2018 Krókatún

Árið 2018, mánudaginn 10. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 108/2018, kæra á ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar frá 12. júlí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grenja hafnarsvæðis vegna Krókatúns 22-24.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 10. ágúst 2018, er barst nefndinni 12. ágúst s.á., kæra eigendur Krókatúni 18 og Krókatúni 20, Akranesi, þá ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grenja hafnarsvæðis vegna Krókatúns 22-24, sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 13. júlí 2018. Kæran verður skilin á þann hátt að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með tölvupósti 22. ágúst gerðu kærendur kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök: Hinn 13. júlí 2018 tók gildi breyting á deiliskipulagi Grenja hafnarsvæðis vegna Krókatúns 22-24. Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda felur breytingin í sér að „byggingarreitur á lóðinni verður stækkaður til norðausturs, þannig að byggingarreitslína færist til norðausturs um 5 metra. Húsagerð og skilmálar haldast óbreyttir að öðru leyti en því að byggt verður efnisskýli til norðausturs sem samsvarar færslu byggingarreits“. Takmarkað byggingarleyfi var gefið út 28. ágúst 2018 fyrir jarðvegsframkvæmdum og sökklum fyrir opnu efnisskýli.

Af hálfu kæranda er á því byggt að ekki hafi nægt að láta fara fram grenndarkynningu um breytinguna, líkt og gert var, heldur hefði breytingin átt að fara í opinbera auglýsingu, sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Deiliskipulagsbreytingin sé veruleg og framkvæmdir sem henni tengist muni hafa mikil og neikvæð áhrif á nærliggjandi svæði. Áætluð stækkun, sem sé upp á 300 m² að grunnfleti og 6,5 m á hæð, sé stærri að grunnfleti en samanlagður grunnflötur fasteigna kærenda og í örfárra metra fjarlægð frá næstu húsum. Þá hafi deiliskipulagið verið illa unnið og sumum athugasemdum kærenda verið svarað í bréfi frá sviðsstjóra umhverfissviðs Akraness með rangfærslum eða án rökstuðnings.

Akraneskaupstaður mótmælir kröfur um stöðvun framkvæmda og telur að vísa beri henni frá úrskurðarnefndinni. Kærendur hafi í raun ekki fært fram neinar málsástæður fyrir kröfu um stöðvun. Engin þörf sé á að stöðva framkvæmdir en einungis hafi verið gefið út byggingarleyfi fyrir takmörkuðum framkvæmdum við jarðvegsframkvæmdir og sökkla sem muni vera lokið samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa.

Meginregla stjórnsýsluréttar sé að kæra fresti ekki réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Stöðvun framkvæmda sé því undantekningarheimild sem skýra beri þröngt og beita eigi í takmarkatilvikum þegar sérstakar aðstæður eða hagsmunir séu fyrir hendi og veigamikil rök standi til beitingar úrræðisins. Réttaráhrif stöðvunar séu jafn afdrifarík og sambærileg áhrif lögbanns sem fjallað sé um í 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Hins vegar sé ekki krafist tryggingar vegna tjóns sem orðið getur við beitingu stöðvunar líkt og við beitingu lögbanns, sem er þó settar frekar þröngar skorður. Því þurfi að túlka heimildina til beitingu stöðvunar mjög þröngt og enn þrengra en heimild til lögbanns.

Kærendur hafi ekki fært fram neinar málsástæður eða rök fyrir að slíkar aðstæður séu upp í máli þessu sem réttlæti beitingu svo harkalegs úrræðis. Augljóst sé að ef framkvæmdir verði stöðvaðar, þó ekki væri nema í stuttan tíma, muni það hafa í för með sér verulegt tjón fyrir leyfishafa. Engar forsendur séu því til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri við úrskurðarnefndina athugasemdum og sjónarmiðum sínum vegna stöðvunarkröfunnar, en engar athugasemdir hafa borist nefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr.

Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfu byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14 og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna slíkra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestun réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til eðlis þeirra ákvarðana og fyrrgreindra lagaákvæða verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé að fallast á kröfu kærenda um stöðvun þeirra framkvæmda sem hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða er hafnað.