Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

110/2017 Hverfisgata

Árið 2018, föstudaginn 14. september tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 110/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á hagnýtingu sameignar fjöleignarhússins að Hverfisgötu 98.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 23. september 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kærir eigandi, Hverfisgötu 98 Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2017 að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á sameign fjöleignarhússins að Hverfisgötu 98. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. október 2017.

Málsatvik og rök: Hinn 29. ágúst 2017 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík á afgreiðslufundi sínum umsókn um byggingarleyfi fyrir innréttingu kaffihúss í flokki I á jarðhæð fjöleignarhússins Hverfisgötu 98. Í verklýsingu á samþykktum teikningum kom m.a. fram að „Loftræsting frá matseld er leyst í gegnum aðliggjandi skorstein, lögn frá rými tengd við skorstein, í lögn verður komið fyrir brunaloku þar sem lögn tengist skorstein til að viðhalda brunaskilum. Komið verður fyrir útsogsblásara ofan á skorstein sem dregur loft frá rými“.

Kærandi bendir á að í verklýsingu samþykktri af byggingarfulltrúa komi fram að framkvæmdaraðili hafi í hyggju að sölsa undir sig skorstein hússins til lagningar loftræsistokks og að staðsetja eigi útsogsblásara ofan á skorsteininum. Með þessum framkvæmdum sé gengið freklega á hagsmuni annarra eigenda hússins auk þess sem óvíst sé með hljóðvist og lyktarmengun sem kunni að stafa frá blásara í þaki. Ekki hafi verið leitað samþykkis sameigenda fyrir þessum framkvæmdum líkt og gerð sé krafa um í 35. og 36. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús auk c- og d-liðar gr. 2.4.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi hafi enga hagsmuni af því að fá skorið úr kærumálinu. Breyting hafi verið gerð á áður samþykktu byggingarleyfi á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. október 2017. Með þeirri breytingu hafi loftræsing fyrir kaffihúsið verið tekin úr sameign og engar framkvæmdir því fyrirhugaðar lengur á sameign fjöleignarhússins.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var heimiluð breyting á nýtingu skorsteins fjöleignarhússins að Hverfisgötu 98 sem er í sameign eigenda hússins. Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni var umsókn um breytingu á byggingarleyfinu samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. október 2017. Fólst breytingin í því að fallið var frá loftræsingu um skorstein hússins og hvorki yrðu gerðar breytingar á ytra útliti hússins né sameign.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Með samþykkt hins nýja byggingarleyfis hinn 10. október 2017 féll hin kærða ákvörðun úr gildi og hefur hún ekki lengur réttarverkan að lögum. Hefur því enga þýðingu að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar og taka afstöðu til kröfu kæranda um ógildingu hennar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.