Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

93/2017 Egilsgata

Árið 2018, föstudaginn 21. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 3. ágúst 2017 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð Egilsgötu 6 og breyta annarri hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2017, er barst nefndinni 24. s.m., kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 3. ágúst 2017 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð Egilsgötu 6 og breyta annarri hæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 2. október 2017.

Málsatvik og rök: Með úrskurði í máli nr. 57/2013, uppkveðnum 24. september 2015, felldi úrskurðarnefndin úr gildi byggingarleyfi fyrir Egilsgötu 6. Fól byggingarleyfið í sér heimild til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóðinni í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Með bréfi, dags. 28. september 2015, sótti leyfishafi að nýju um framangreindar breytingar. Á fundi sveitarstjórnar 8. október s.á. var samþykkt að fram færi grenndarkynning vegna umsóknarinnar. Fór hún fram og á fundi sveitarstjórnar 9. júní 2016 voru lögð fram og samþykkt drög að svörum við athugasemdum sem bárust. Var skipulags- og byggingarfulltrúa jafnframt falið að gefa út byggingarleyfi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. ágúst 2017 var byggingarleyfisumsóknin samþykkt og var byggingarleyfi gefið út 21. s.m.

Kærandi bendir á að bókanir nefnda sveitarfélagsins og sveitarstjórnar séu ekki í samræmi við kröfur 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 eða leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarfélaga, sem settar séu með stoð í nefndu ákvæði. Í fundargerð umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar frá 6. júní 2016 sé ekki skráð dagsetning máls eða gagna sem til umfjöllunar hafi verið. Þá vanti einnig upplýsingar um aðila máls og meginefni máls og hvaða atriði máls séu til umfjöllunar. Einnig séu gerðar aðrar alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð sveitarfélagsins við samþykkt á umsókn um hið kærða byggingarleyfi.

Af hálfu Borgarbyggðar er tekið fram að sveitarfélagið mótmæli öllu því sem fram komi í kæru hvað varði það að málsmeðferð skipulags- og byggingarfulltrúa, umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar eða sveitarstjórnar hafi verið ábótavant við meðferð umsóknar um og afgreiðslu á hinu kærða byggingarleyfi. Umsókn leyfishafa hafi fengið þá afgreiðslu í stjórnsýslu sveitarfélagsins sem áskilin sé í skipulagslögum, mannvirkjalögum og skipulags- og byggingarreglugerðum. Þannig hafi umsókn verið grenndarkynnt, sveitarfélagið hafi tekið afstöðu til þeirra atriða sem fram hafi komið í athugasemdum hagsmunaaðila og kæranda verið greint skriflega frá. Umsóknin hafi svo verið samþykkt af byggingarfulltrúa, umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd og sveitarstjórn.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna málsins en hann hefur ekki látið málið til sín taka fyrir nefndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 3. ágúst 2017 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð Egilsgötu 6 og breyta annarri hæð.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning.

Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal grenndarkynning fara fram að nýju áður en leyfi er veitt, hafi byggingar- eða framkvæmdarleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar samkvæmt 2. mgr. 44. gr. Eins og rakið var í málavöxtum þá voru á sveitarstjórnarfundi 9. júní 2016 samþykkt svör við þeim athugasemdum er bárust við grenndarkynningu og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. ágúst 2017 var umsóknin tekin fyrir og samþykkt. Var þá liðið rúmt ár frá afgreiðslu sveitarstjórnar. Hefði því þurft að láta fara fram grenndarkynningu að nýju áður en byggingarleyfi var samþykkt og gefið út.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 3. ágúst 2017 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð Egilsgötu 6 og breyta annarri hæð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                          Þorsteinn Þorsteinsson