Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

39/2011 Fjörður 1 – Mjóafjörður

Með
Árið 2015, föstudaginn 17. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 20. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði, Fjarðabyggð, og að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsi á sama stað.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. júní 2011, er barst nefndinni 16. s.m., kærir, annar sameigenda jarðarinnar Fjarðar 1 í Mjóafirði, Fjarðabyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Fjarðabyggð frá 20. maí 2011 að samþykkja byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði og að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsi á sama stað. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun um afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar verði felld úr gildi og að leyfishafa verði gert að fjarlægja byggingarnar.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. júní 2011, er barst nefndinni 16. s.m., kærir sami kærandi ákvörðun eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 12. maí 2011 um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vegar í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að nefnd ákvörðun verði felld úr gildi og framkvæmdaaðila verði gert að fjarlægja veginn og afmá jarðrask vegna hans.

Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 42/2011, sameinað máli þessu.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Fjarðabyggð 11. júlí 2011 og viðbótargögn 26. febrúar 2015.

Málavextir: Jörðin Fjörður 1 var í óskiptri sameign kæranda og framkvæmdaaðila, en þau eignuðust hana með gjafaafsali frá móður sinni 9. janúar 1984. Íbúðarhús sem stendur á jörðinni var selt frá henni árið 1978 ásamt útihúsum og keypti framkvæmdaaðili það árið 1995. Í kaupsamningum um íbúðarhúsið, dags. 5. júní 1978 og 3. febrúar 1995, segir meðal annars: „Í kaupunum [felst] leiga á 5000 fermetra lóð umhverfis húsið. Um lóðamörk skal gera nánari samning síðar.“ Ekki verður af gögnum málsins ráðið að sú fyrirætlan hafi gengið eftir en þrátt fyrir það var lóðin skráð í fasteignaskrá á árinu 2006 án þess að staðsetning hennar væri afmörkuð. Með úrskurði innanríkisráðuneytisins, dags. 5. mars 2013, var ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 10. nóvember 2006 um að breyta fasteignaskráningu fasteignarinnar Fjarðar 1, landnr. 158124, og stofna með því 5.000 m2 lóð með landnr. 209836 í fasteignaskrá, felld úr gildi og lagt fyrir Þjóðskrá Íslands að taka málið til nýrrar meðferðar.

Kærandi sendi byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar erindi hinn 3. ágúst 2010 vegna framkvæmda í landi Fjarðar 1, annars vegar við geymsluhús yfir tvo 20 feta gáma og hins vegar við rafstöðvarhús. Húsin höfðu þá þegar verið reist. Einnig var þar nefndur nýr 400 m langur vegur frá Mjóafjarðarvegi og að íbúðarhúsinu sem lægi um 50 m innar í dalnum en eldri vegur. Í bréfinu vísaði kærandi til þess að ekki hefði verið aflað leyfis fyrir framkvæmdunum og skort hefði samþykki sameigenda að landinu fyrir þeim. Farið var fram á að framkvæmdaaðila yrði gert að afla tilskilinna leyfa auk samþykkis sameigenda, ellegar yrði honum gert að fjarlægja byggingarnar og veginn.

Framkvæmdaaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri skýringum vegna áðurnefndra framkvæmda og gerði hann það með bréfi til byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar, dags. 23. september 2010. Í því segir að reistur hafi verið bráðabirgðaskúr yfir rafstöð sökum lélegs ástands fjóss sem áður hýsti rafstöðina. Hann hafi talið skúrinn vera undir þeim stærðarmörkum sem sækja þyrfti um byggingarleyfi fyrir. Geymsluhúsið hafi verið endurbygging og viðhald á gömlu fjárhúsi og hafi engar breytingar haft í för með sér á útliti gamla hússins. Hann hafi því talið að ekki væri um leyfisskylda framkvæmd að ræða. Þá hafi vegurinn upp frá Mjóafjarðarvegi verið lagður meðfram læknum Beljanda. Lækurinn beri ávallt talsvert magn af framburði og meðfram austurbrún hans hafi hlaðist upp mikið af grjóti sem slétt hafi verið út í umræddan veg ásamt einhverju af aukaefni, en vegurinn hafi verið lagður í september 2007. Enginn vegur hafi áður legið upp að fasteigninni en ekið hafi verið upp eftir túni Fjarðar 1.

Byggingarfulltrúi svaraði erindi kæranda með bréfi, dags. 20. desember 2010, þar sem viðhorfum byggingaryfirvalda var lýst og tekið fram að eigendum umræddra bygginga yrði gert að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim og um framkvæmdaleyfi fyrir veginum. Í kjölfarið kærði kærandi afgreiðslu byggingarfulltrúa á erindinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem vísaði kærunni frá hinn 1. apríl 2011 með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem ekki hafi legið fyrir lokaákvörðun í málinu sem borin yrði undir úrskurðarnefndina.

Framkvæmdaaðili sótti hinn 1. apríl 2011 um byggingarleyfi fyrir 42 m2 geymsluhúsi og 9,6 m2 rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1. Erindið var tekið fyrir á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 11. s.m. og samþykkti nefndin að byggingarfulltrúi gæfi út byggingarleyfi fyrir báðum húsunum. Byggingarfulltrúi tilkynnti framkvæmdaaðila um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 18. apríl 2011, og upplýsti jafnframt að málið hefði verið tekið fyrir á fundi nefndarinnar sem fyrirspurn og að á þeim grundvelli hefði verið veitt undanþága frá kröfum um hönnunargögn samkvæmt gr. 12.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Teikningum af húsunum tveimur hefði verið skilað inn og hefðu teikningar vegna rafstöðvarhússins verið metnar fullnægjandi með hliðsjón af stærð og eðli byggingarinnar. Byggingarfulltrúi kallaði hins vegar eftir frekari hönnunargögnum vegna geymsluhússins og var þess óskað að þeim yrði skilað eigi síðar en 13. maí 2011.

Með bréfi, dags. 20. maí 2011, tilkynnti byggingarfulltrúinn í Fjarðabyggð framkvæmdaaðila að umbeðnar teikningar af geymsluhúsinu hefðu ekki borist og yrði erindi um byggingarleyfi vegna þess því hafnað og eigendum gert að fjarlægja það. Leyfi væri hins vegar veitt fyrir rafstöðvarhúsi. Kæranda var tilkynnt um þessa niðurstöðu með bréfi byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar, dags. 24. maí 2011.

Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 12. maí 2011 var tekið fyrir erindi framkvæmdaaðila þar sem sótt var um framkvæmdaleyfi fyrir veglagningu í landi Fjarðar 1. Samkvæmt bókun í fundargerð þess fundar hafði Fjarðabyggð með óformlegum hætti leitað umsagnar Skipulagsstofnunar vegna vegagerðarinnar, sbr. bráðabirgðaákvæði 1 í skipulagslögum nr. 123/2010. Stofnunin var ekki tilbúin að mæla með veglagningunni, sem þegar hafði farið fram, auk þess sem samþykki allra landeigenda þyrfti að liggja fyrir áður en framkvæmdaleyfi yrði gefið út. Um óleyfisframkvæmd væri að ræða sem félli undir 53. gr. skipulagslaga, en í 3. mgr. þeirrar greinar segði að skipulagsfulltrúi gæti krafist þess að hin ólöglega framkvæmd yrði fjarlægð. Niðurstaða eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar var svohljóðandi: „Nefndin getur ekki gefið út framkvæmdaleyfi nema fyrir liggi samþykki allra landeigenda. Að öðrum kosti þurfa landeigendur að fjarlægja veginn.“ Framkvæmdaaðila var tilkynnt um niðurstöðu nefndarinnar með bréfi, dags. 18. maí 2011, og fékk kærandi afrit af því bréfi hinn 27. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að byggingarfulltrúinn í Fjarðabyggð hafi, við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi og geymsluhúsi í landi Fjarðar 1, litið fram hjá því skilyrði laga að samþykki meðeigenda þyrfti að liggja fyrir ef um sameign væri að ræða. Afgreiðsla byggingarleyfisumsóknarinnar hafi verið ólögmæt af þessum sökum. Telur kærandi sig ekki geta unað við þetta enda sé það verulegt hagsmunamál fyrir hann að skipulags- og byggingaryfirvöld virði friðhelgan eignarrétt hans. Þá gerir kærandi þá athugasemd við afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar á umsókn um framkvæmdaleyfi vegna veglagningar í landi Fjarðar 1 að með ákvörðun nefndarinnar séu aðrir landeigendur, sem hvergi hafi komið nálægt veglagningunni, gerðir ábyrgir til jafns við framkvæmdaaðila fyrir því að fjarlægja veginn. Rétt hefði verið að krefja framkvæmdaaðila um að fjarlægja hann og afmá jarðrask vegna hans innan tiltekins frests. Afgreiðsla nefndarinnar hafi verið illa ígrunduð eða byggst á geðþótta nefndarmanna fremur en lögum og því sé rétt að fella hana úr gildi.

Íbúðarhúsið á umræddri jörð hafi verið skráð á landnúmer 158124 allt til ársins 2006 en þá hafi verið stofnuð 5.000 m2 lóð innan sameignarinnar með landnúmeri 209836, án vitundar og samþykkis kæranda. Afgreiðsla byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar á byggingarleyfisumsókninni hafi meðal annars byggst á hugmyndum um eignarrétt framkvæmdaaðila á lóð umhverfis íbúðarhúsið. Í minnisblaði byggingarfulltrúa til eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 8. apríl 2011, komi til að mynda fram að afmörkun lóðarinnar sjáist greinilega á loftmynd. Byggingarfulltrúi hafi virst líta svo á að framkvæmdir við geymsluhúsið og rafstöðvarhúsið væru kæranda óviðkomandi og að framkvæmdaaðili væri ekki bundinn af kröfu um samþykki meðeiganda vegna mannvirkjagerðar í landi sem kærandi væri þinglýstur eigandi að. Bent sé á að þegar framkvæmdaaðili hafi keypt íbúðarhúsið hafi ekkert fjárhús fylgt því heldur aðeins tóft af fjárhúsi. Í fasteignaskrá séu ekki önnur hús en íbúðarhúsið skráð á lóð nr. 209836.

Hvað veglagninguna varðar bendir kærandi á að ekki hafi verið gefið út framkvæmdaleyfi fyrir veginum vegna þess að Skipulagsstofnun hafi áður hafnað því að gefa út meðmæli fyrir framkvæmdinni þar sem ekki hafi legið fyrir samþykki allra landeigenda. Í kjölfarið hafi eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar tekið ákvörðun um að aðhafast ekkert í málinu og framkvæmdaaðila hafi ekki verið gefinn ákveðinn frestur til þess að fjarlægja veginn. Ljóst sé að sú afgreiðsla eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar sé ekki til þess fallin að knýja á um að framkvæmdaaðili afli samþykkis allra landeigenda fyrir veginum eða fjarlægi hann. Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd hafi með afgreiðslu sinni tekið ákvörðun um að það sé ekki sveitarfélagsins að hafa afskipti af veglagningunni og jafnframt að það sé kæranda að fjarlægja óleyfisframkvæmdina uni hann því ekki að framkvæmdin standi.

Málsrök Fjarðabyggðar:
Í athugasemdum byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar vegna kæru á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsi og rafstöðvarhúsi kemur fram að ástæða þess að kærandi hafi upphaflega borið upp erindi sitt við Fjarðabyggð hafi verið sú að ekki hafi náðst sátt milli landeigenda um landskipti hluta jarðarinnar Fjarðar 1, landnr. 158124. Kærandi hafi sent erindi til Fjarðabyggðar um að umræddar byggingar yrðu fjarlægðar en þá hafi þær þegar staðið í um tvö ár með vitneskju kæranda. Röksemdir kæranda fyrir kröfu um niðurrif bygginga hvíli á því að þær standi á sameignarlandi Fjarðar 1, landnr. 158124. Á hinn bóginn hafi framkvæmdaaðili vísað til þess að hann leiði rétt sinn af kaupsamningi, dags. 5. júní 1978, og afsali, dags. 29. desember 1979. Kaupsamningurinn frá 1978 feli í sér að húseignir á svæðinu fái tiltekin lóðarréttindi sem hafi óskilgreind mörk. Ljóst sé að eignaréttarlegur ágreiningur sé um þýðingu skjalsins út frá texta þess og meginreglum eignaréttar.

Erindi kæranda hafi komið til umfjöllunar eftir að umdeildar húseignir voru reistar. Þegar til umfjöllunar sé krafa um niðurrif húseigna komi meðal annars til skoðunar sjónarmið um eignarétt framkvæmdaaðila og meðalhóf. Kröfur kæranda hvíli á eignaréttarlegu ágreiningsatriði sem sveitarfélagið taki ekki afstöðu til en eðli máls samkvæmt verði þó að leggja til grundvallar einfalda skýringu á efnisinntaki þinglýstra skjala. Kaupsamningurinn frá 1978 vísi til sölu íbúðarhúss og útihúsa og ekki virðist óvarfærið að álykta á þá leið að 5.000 m2 lóðin liggi undir hinum seldu mannvirkjum, enda verði ekki annað ráðið en að ætlun aðila hafi verið að þau hefðu einhvers konar lóðarréttindi. Þær framkvæmdir sem kæran nái til séu í eða við tóftir útihúsa, sem kaupsamningurinn frá 1978 vísi til, og þar með á svæði sem lóðarréttindi nái til. Afgreiðsla Fjarðabyggðar hafi jafnframt hvílt á meðalhófssjónarmiðum, sjónarmiðum um stöðu stjórnvalda við töku íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana og meginreglum um að forðast eyðileggingu verðmæta. Sveitarfélagið hafi lagt til grundvallar að umræddar húseignir væru innan 5.000 m2 svæðis sem væri í umráðum framkvæmdaaðila. Afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi fyrir umdeildum mannvirkjum hafi tekið mið af jafnræðisreglu, meðalhófsreglu og framlagningu framkvæmdaaðila á umkröfðum gögnum.

Í athugasemdum frá fasteigna- og framkvæmdafulltrúa Fjarðabyggðar vegna kæru á afgreiðslu umsóknar um framkvæmdaleyfi vegna veglagningar í landi Fjarðar 1 er áréttað að framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út fyrir veglagningunni. Í bókun sveitarfélagsins hafi komið fram að án samþykkis allra landeigenda væri ekki unnt að gefa út framkvæmdaleyfi og kæmi þá til þess að fjarlægja þyrfti framkvæmdina. Í upphaflegu erindi kæranda hafi því verið beint til Fjarðabyggðar að framkvæmdaaðila yrði gefinn kostur á að afla samþykkis sameigenda fyrir framkvæmdunum. Erindi kæranda hvíli í raun á því að fullreynt verði hvort sameigendur Fjarðar samþykki umdeilda veglagningu. Afgreiðsla eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar hafi tekið mið af þessum sjónarmiðum kæranda og sé í samræmi við meðalhófsreglur, sérstaklega þegar komi til skoðunar að beita íþyngjandi úrræðum eins og fylgi kröfu um að mannvirki verði fjarlægð. Í ljósi þessa hafi bókun sveitarfélagsins falið í sér að svigrúm væri fyrir aðila til að fullreyna að ná samkomulagi. Ljóst sé að bókun eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar geri ráð fyrir að landeiganda og framkvæmdaaðila verði sett nákvæmari skilyrði síðar fyrir fjarlægingu vegarins, svo sem um tímafrest og hvaða kröfur verði gerðar til svæðisins eftir að vegurinn hafi verið fjarlægður. Vegurinn sé að nokkrum hluta byggður á uppmokstri úr árfarvegi til að verja land og því kunni það aðeins að fela í sér minni háttar framkvæmdir að fjarlægja hann. Af hálfu Fjarðabyggðar hafi ekki staðið til að leggja á kæranda ábyrgð á að fjarlægja veginn enda sé ljóst að bókun sveitarfélagsins verði ekki grundvöllur slíkra þvingunarúrræða.

Athugasemdir framkvæmdaaðila: Í athugasemdum framkvæmdaaðila kemur fram að geymsluhúsið sem fjallað sé um í málinu sé gamla fjárhúsið í Firði. Auk þess sé í málinu fjallað um bráðabirgðaskúr yfir rafstöð. Byggingarfulltrúi hafi synjað um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsinu sökum ófullnægjandi teikninga en unnið sé að því að útbúa teikningar og stefnt sé að því að leggja þær fram.

Geymsluhúsið sé séreign framkvæmdaaðila samkvæmt kaupsamningi frá 1995 en með honum, sem og kaupsamningnum frá 1978, hafi íbúðarhúsið verið selt „ásamt útihúsum“. Fasteignamat frá 25. nóvember 1978 varpi skýrara ljósi á það hvaða útihús átt sé við en þá hafi útihúsin í Firði verið fjós, fjárhús, hlaða og geymsla. Lýsingar á áðurnefndum útihúsum sé að finna í allsherjarfasteignamati frá 20. öld, þar sem finna megi ítarlegar lýsingar á jörðum á Íslandi og öllum eignum sem þeim fylgdu. Leggur framkvæmdaaðili meðal annars fram upplýsingar úr viðbótar- og endurmati frá 1955 og 1967, ásamt fasteignamatinu frá 1978. Engar ákvarðanir séu til um niðurrif mannvirkjanna sem tiltekin séu í fasteignamatinu frá 1978 og ljóst sé að fjósið og fjárhúsið standi enn. Vel megi vera að skráningu útihúsa í núverandi fasteignaskrá sé ábótavant en það sé ekki óeðlilegt í ljósi þess að á jörðinni fari ekki lengur fram búskapur.

Bygging bráðabirgðaskúrs yfir rafstöð hafi verið neyðarframkvæmd vegna slæms ásigkomulags fjóssins, þar sem rafstöðin hafi áður verið, en þak þess hafi fokið af í óveðri í janúar 2011. Megi hér vísa til 6. mgr. 61. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Fjarðabyggð hafi ekki borið skylda til að leita samþykkis kæranda vegna veitingar leyfis fyrir framkvæmd á gamla fjárhúsinu, en það sé ekki í eigu kæranda.

Framkvæmdaaðili eigi 5.000 m2 leigulóð sem fylgja eigi íbúðarhúsinu en mörk lóðarinnar séu óákveðin nema að því leyti að hún nái umhverfis íbúðarhúsið í Firði og útihúsin. Að lokum sé á það bent að framkvæmdin á geymsluhúsinu hafi fyrst og fremst verið viðhald og endurbygging gamla fjárhússins sem tilheyri séreign framkvæmdaaðila. Framkvæmdin hafi ekki átt að hafa neinar breytingar á útliti gamla fjárhússins í för með sér en henni hafi ekki verið lokið hvað varði framhlið hússins.

Sú staðhæfing kæranda sé beinlínis röng að eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar hafi tekið ákvörðun um að aðhafast ekkert vegna hinnar umdeildu veglagningar. Nefndin hafi þvert á móti synjað um framkvæmdaleyfi á þeirri forsendu að ekki lægi fyrir samþykki allra landeigenda. Þá geri nefndin aðra landeigendur ekki ábyrga fyrir því að fjarlægja veginn og hvergi í afgreiðslu nefndarinnar á umsókninni sé tilgreint að kærandi eigi að fjarlægja veginn. Óskað hafi verið eftir samþykki kæranda fyrir veginum en það hafi ekki fengist. Engin haldbær rök séu fyrir því að vegurinn verði fjarlægður þar sem hann varni bæði ágangi vatns og umferðar á tún Fjarðar 1.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar á umsókn um byggingarleyfi fyrir þegar reistu geymsluhúsi og rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1 og afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins á umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir vegi sem þegar hefur verið lagður þar.

Með hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa var m.a. synjað um leyfi fyrir fyrrgreindu geymsluhúsi og fyrir liggur að eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd hafnaði umsókn framkvæmdaaðila um framkvæmdaleyfi fyrir umræddri veglagningu. Kærandi var ekki umsækjandi leyfanna og verður ekki séð að hann eigi lögvarða hagsmuni af því að framangreindar ákvarðanir verði felldar úr gildi, enda höfðu þær ekki í för með sér breytingu á stöðu hans frá því sem áður var. Hvað varðar þessa þætti málsins er skilyrði kæruaðildar þágildandi 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 því ekki fyrir hendi og verður þessum hluta kærumálsins af framangreindum ástæðum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Vegna krafna kæranda fyrir nefndinni um að framkvæmdaaðila verði gert skylt að fjarlægja geymsluhús, rafstöðvarhús og veg og afmá jarðrask skal tekið fram að valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana eru bornar. Úrskurðarnefndin getur því ekki tekið ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða svo sem krafist er. Sambærilegar kröfur voru þó gerðar í erindi kæranda til byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar, dags. 3. ágúst 2010, en þar var þess krafist að framkvæmdaaðila yrði veittur frestur til að afla tilskilinna leyfa ásamt samþykki meðeigenda vegna geymsluhúss, rafstöðvarhúss og veglagningar, en yrði ella gert að fjarlægja byggingarnar og veginn tafarlaust og afmá jarðrask vegna þeirra. Af gögnum málsins verður þó ekki séð að erindi kæranda hafi hlotið formlega afgreiðslu hjá sveitarfélaginu. Af framangreindum ástæðum verður því ekki fjallað frekar um þessar kröfur kæranda.

Eins og áður var rakið veitti byggingarfulltrúi Fjarðabyggðar byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1 en sú fasteign er á ódeiliskipulögðu svæði. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Heimildir til frávika frá þessari reglu er annars vegar að finna í 44. gr. laganna, sem fjallar um grenndarkynningu einstakra framkvæmda í þegar byggðum hverfum, og hins vegar í bráðabirgðaákvæði 1 með sömu lögum þar sem heimilað er að veita byggingarleyfi fyrir einstökum mannvirkjum, að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar, án þess að fyrir liggi staðfest svæðis- eða aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag. Eins og málum er háttað getur 44. gr. laganna ekki átt við í umræddu tilviki og ekki liggur fyrir að leitað hafi verið meðmæla Skipulagsstofnunar fyrir veitingu hins kærða byggingarleyfis á grundvelli áðurnefnds bráðabirgðaákvæðis. Skorti af þessum sökum lagaskilyrði fyrir veitingu hins kærða byggingarleyfis.

Ekki liggur fyrir í gögnum málsins að gerður hafi verið sérstakur samningur um afmörkun 5.000 m2 leigulóðar leyfishafa, svo sem kaupsamningar um íbúðarhúsið í Firði 1 mæla fyrir um. Fyrir liggur að ágreiningur er með kæranda og framkvæmdaaðila um yfirráð þess lands sem rafstöðvarhúsið stendur á. Í ljósi þess réttarágreinings sem uppi er um heimildir framkvæmdaaðila var það því ekki á færi byggingarfulltrúa að veita umdeilt byggingarleyfi fyrr en úr þeim réttarágreiningi hefði verið skorið, eftir atvikum fyrir dómstólum.

Að því virtu verður að líta svo á að það land sem tilheyri Firði 1 sé í óskiptri sameign og að framkvæmdir þar séu háðar samþykki meðeiganda. Var byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar því óheimilt eins og á stóð að veita byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi án þess að fyrir lægi samþykki meðeiganda, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun um veitingu byggingarleyfis fyrir rafstöðvarhúsi sé haldin slíkum annmörkum að leiði til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Fjarðabyggð frá 20. maí 2011 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsi í landi Fjarðar 1 og um ógildingu ákvörðunar eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 12. maí 2011 um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi vegna veglagningar, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Felld er úr gildi sú ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 20. maí 2011 að veita byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

48/2014 Borgarhólsstekkur

Með
Árið 2014, föstudaginn 19. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 12. júlí 2007 um að veita leyfi fyrir stækkun á sumarhúsi um 7,8 m2 og byggingu 25,8 m2 gestahúss á lóð nr. 1 við Borgarhólsstekk, Miðfellslandi í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júní 2014, sem barst nefndinni 5. s.m., kærir J,  þá ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu, dags. 12. júlí 2007, að veita leyfi fyrir stækkun á sumarhúsi um 7,8 m2 og byggingu 25,8 m2 gestahúss á lóð nr. 1 við Borgarhólsstekk, Miðfellslandi í Bláskógabyggð.

Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi að því er varðar heimild til byggingar gestahúss á nefndri lóð. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 18. júní og viðbótargögn 29. ágúst og 3. september 2014.

Málavextir: Árið 2005 sótti lóðarhafi Borgarhólsstekks nr. 1 í Bláskógabyggð um leyfi til að stækka sumarhús á lóðinni um 8,2 m2 og að byggja 21,7 m2 geymslu á lóðinni. Með umsókninni fylgdi yfirlýsing, dags. 15. mars 2005, frá eiganda lóðar nr. 3 við Borgarhólsstekk þar sem hann gerir engar athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir. Var umsóknin samþykkt á fundi byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 29. mars 2005, sem staðfest var af byggðaráði Bláskógabyggðar 12. apríl s.á og af sveitarstjórn Bláskógabyggðar 19. s.m. Árið 2007 sótti leyfishafi um breytingu frá fyrri umsókn. Fólst breytingin í því að í stað geymslu yrði byggt 25,8 m2 gestahús og stækkun sumarhúss yrði 9,5 m2. Var umsóknin afgreidd af byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu hinn 12. júlí 2007 og veitt leyfi fyrir stækkun sumarhúss um 7,8 m2 og byggingu 25,8 m2 gestahúss. Var afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest af byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu 17. s.m., af byggðaráði Bláskógabyggðar 31. s.m. og af sveitarstjórn Bláskógabyggðar 4. september s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að umrædd frístundabyggð við Þingvallavatn eigi sér áratuga sögu og sé hún mjög þétt í samanburði við aðrar frístundabyggðir. Stækkun húsa eða nýbyggingar geti því breytt ásýnd byggðar og haft veruleg áhrif á næstu lóðir. Kærandi hafi fyrst orðið þess áskynja við komu í frístundahús sitt hinn 12. maí 2014 að verið væri að reisa nýbyggingu á lóð nr. 1 við Borgarhólsstekk. Við nánari eftirgrennslan hafi komið í ljós að framkvæmdirnar væru gerðar í skjóli byggingarleyfis frá árinu 2007 og hinn 14. maí 2014 hafi verið óskað eftir teikningum frá skipulagsfulltrúa af umræddu húsi. Beiðni um gögn og upplýsingar hafi verið ítrekuð 22. s.m. og umbeðin gögn borist 27. maí 2014.

Hvorki hafi farið fram grenndarkynning vegna umdeilds byggingarleyfis né hafi nágrönnum, sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna ákvörðunarinnar, verið sent bréf til upplýsingar um veitingu leyfisins. Hafi sveitarfélagið því brotið gegn 43. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem og gr. 12.5 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998. Að auki séu teikningar hins umþrætta gestahúss villandi en þar segi að verið sé að byggja skúr þegar um nýtt hús sé að ræða. Samkvæmt 45. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga og 13. og 14. gr. þágildandi byggingareglugerðar, sem og gr. 2.4.7. í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012, falli byggingarleyfi úr gildi séu framkvæmdir ekki hafnar innan 12 mánaða frá útgáfu leyfisins. Af framangreindu sé því ljóst að byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu og byggðaráð Bláskógabyggðar hafi brotið alvarlega á hagsmunum þeirra aðila sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta. Grenndarréttur sé ótvíræður í frístundabyggð og sé ekki hægt að sættast á að lóðarhafi fái að reisa nýbyggingu sem rýri útsýni og ásýnd nágrannalóða verulega með mögulegri verðrýrnun á nærliggjandi frístundahúsum.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að framkvæmdir við stækkun á bústaðnum og undirstöður gestahúss hafi hafist árið 2007. Hafi framkvæmdum við viðbyggingu verið lokið 2008 en þær hins vegar stöðvast við gestahúsið. Framkvæmdum við byggingu gestahússins hafi verið haldið áfram árið 2014.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að hann hafi í kjölfar veitingar leyfisins hafist handa við framkvæmdir. Lokið hafi verið við viðbygginguna og borað fyrir súlum og settir upp bitar fyrir umþrætt gestahús. Hafi verið beðið með frekari framkvæmdir til 29. mars 2014 þegar vinna hafi byrjað við klæðningu á botni og uppsetningu grindar á gestahúsinu. Telji leyfishafi kæruna of seint fram komna. Ráðist hafi verið í framkvæmdir við gestahúsið árið 2007, þó svo að grind þess hafi ekki risið fyrr en í lok mars 2014. Bent sé á að kærandi nýti sumarhús sitt mikið og ótrúverðugt sé að hann hafi ekki orðið framkvæmdanna var fyrr en 12. maí sl., enda hafi verið unnið við framkvæmdirnar helgarnar 29.-30. mars, 25.-27. apríl og 3.-4. maí 2014. Hafi kærufrestur því verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni.

Ekki verði talið að grenndarkynning hefði haft úrslitaráhrif á ákvörðun byggingarnefndar. Með grenndarkynningu sé nágrönnum sem eigi lögvarða hagsmuni aðeins gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri en það sé ekki þar með sagt að athugasemdir sem kunni að berast hafi áhrif á útgáfu greinds leyfis. Sé skortur á grenndarkynningu því aðeins formgalli og hafi því ekki áhrif á efnislega niðurstöðu. Að auki hafi byggingarnefnd metið það svo að þeir sem ættu hagsmuna að gæta í málinu hefðu verið með í ráðum og af því leiði að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda umdeildu leyfi. Áréttað sé að almennt hafi ekki verið farið í grenndarkynningu á þessu svæði á þeim árum sem um ræði og ekki sé heldur um brot á deiliskipulagi að ræða. Séu hagsmunir kæranda ekki miklir af því hvort gestahúsið standi. Þær myndir sem kærandi hafi tekið við enda sólpalls hans séu til þess fallnar að gera eins mikið úr hinu skerta útsýni og mögulegt sé. Þá séu lóðir nær vatninu þar sem sumarhús muni rísa. Geti kærandi því ekki búist við að útsýni hans í átt að vatninu haldist óbreytt til frambúðar.

Niðurstaða: Hið kærða byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við sumarhúsið að Borgarhólsstekk 1 og byggingu gestahúss á lóðinni var samþykkt af byggingarfulltrúa og staðfest í sveitarstjórn Bláskógabyggðar á árinu 2007. Heimiluð viðbygging við sumarhúsið mun hafa verið risin á árinu 2008 en unnið var við að reisa umdeilt gestahús frá lokum mars og fram í maí 2014 samkvæmt upplýsingum leyfishafa. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 5. júní 2014.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kæranda varð kunnugt um tilvist og efni hinnar kærðu ákvörðunar eða mátti af aðstæðum vera ljóst að leyfi hafi verið veitt fyrir byggingu gestahússins, svo sem af framkvæmdum við bygginguna.

Ekki verður af fyrirliggjandi gögnum málsins ráðið með óyggjandi hætti hvenær framkvæmdir hafi byrjað við undirstöður gestahússins en ekki er til að dreifa formlegri úttekt byggingarfulltrúa á verkþáttum þeirrar byggingar. Framkvæmdir við gestahúsið hófust síðan í lok mars 2014 og stóðu fram í maí samkvæmt upplýsingum leyfishafa. Þótt framkvæmdir kunni að hafa átt sér stað við undirstöður hússins á árinu 2008 leikur verulegur vafi á að kærandi hafi mátt ráða af því hvað til stæði. Í ljósi þess að um er að ræða frístundabyggð verður heldur ekki sú ályktun dregin að honum hafi verið kunnugt um framkvæmdir þær við gestahúsið sem fram fóru á árinu 2014 fyrr en 12. maí það ár, þegar kærandi kvaðst hafa orðið áskynja um framkvæmdirnar. Í kjölfar þess leitaði hann til skipulagsyfirvalda og fékk í hendur upplýsingar og gögn varðandi bygginguna. Verður því við það að miða að kæra í máli þessu hafi borist innan lögmælts kærufrests. Kærandi á sumarhús sem stendur í næsta nágrenni við umrædda lóð og getur uppbygging á þeirri lóð snert lögvarða grenndarhagsmuni hans, svo sem áskilið er í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður mál þetta af greindum ástæðum tekið til efnisúrlausnar.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna varð veiting byggingarleyfis að styðjast við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Sú undantekning var gerð í 7. mgr. ákvæðisins, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna, að unnt var að veita byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi þótt ekki lægi fyrir deiliskipulag, en þá að undangenginni grenndarkynningu. Loks var skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laganna unnt að veita leyfi fyrir einstökum framkvæmdum þótt ekki lægi fyrir staðfest aðal- eða svæðisskipulag eða samþykkt deiliskipulag, en þá að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar.

Fyrir liggur að við veitingu umdeilds byggingarleyfis var ekki í gildi deiliskipulag fyrir umrædda frístundabyggð og að leyfið var veitt án undangenginnar grenndarkynningar. Þá er ekki að sjá að meðmæla Skipulagstofnunar hafi verið aflað. Brast því lagaskilyrði fyrir veitingu byggingarleyfisins og verður því fallist á kröfu kæranda um ógildingu þess að því er varðar heimild til byggingar greinds gestahúss.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu, dags. 12. júlí 2007, sem sveitarstjórn Bláskógabyggðar staðfesti 4. september s.á, að því er varðar heimild fyrir byggingu 25,8 m2 gestahúss á lóð nr. 1 við Borgarhólsstekk, Miðfellslandi í Bláskógabyggð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

29/2013 Aðalstræti Patreksfjörður

Með

Árið 2013, miðvikudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 29/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Vesturbyggðar um álagningu sorpgjalds fyrir árið 2013 vegna fasteignarinnar nr. 120 við Aðalstræti á Patreksfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. mars 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl., f.h. Eignarhaldsfélagsins Fagrahvamms ehf., Fagrahvammi, Patreksfirði, þá ákvörðun sveitarstjórnar Vesturbyggðar að leggja sorphirðu- og sorpeyðingargjald fyrir árið 2013 á íbúðarhúsnæði félagsins að Aðalstræti 120, Patreksfirði, fnr. 212-3788 og 212-3787.  Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar vegna fasteignar sem er með fastanúmer 212-3787. 

Málavextir:  Álagningarseðlar fasteignagjalda fyrir árið 2013 bárust kæranda 28. janúar það ár.  Honum var gert að greiða 40.800 krónur í sorpgjald vegna Aðalstrætis 120, fnr. 212-3787, og sömu upphæð vegna fasteignar á sama stað, með fnr. 212-3788.  Í bréfi er fylgdi álagningarseðlunum kom fram að sorpgjald væri lagt á fyrir bæði sorphirðu og sorpeyðingu.  Með bréfi kæranda til sveitarfélagsins, dags. 11. febrúar 2013, krafðist hann þess m.a. að frá sorpgjaldi fyrir Aðalstræti 120 drægjust samtals 40.800 krónur, þar sem aðeins væri notast við eina tunnu.  Kærandi ítrekaði erindi sitt með bréfi, dags. 27. s.m., en ekki verður ráðið af gögnum málsins að bréfunum hafi verið svarað af hálfu sveitarfélagsins. 

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að við álagningu nefndra gjalda beri að byggja á útgjöldum sveitarfélaganna vegna hinnar veittu þjónustu, sbr. 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 1. og 3. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. 

Sorphirðu- og sorpeyðingargjöld falli í flokk þjónustugjalda.  Slík gjöld verði að meginreglu að byggja á lagaheimild og megi ekki vera hærri en sem nemi kostnaðinum sem almennt fylgi því að veita þjónustuna.  Séu þau hærri sé ekki lengur um þjónustugjöld að ræða heldur almenna tekjuöflun hins opinbera sem byggja verði á fullnægjandi skattlagningarheimild, sbr. 40. og 77. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944.  Þjónustugjöld verði þannig að miðast við þá þjónustu sem sveitarfélagið hafi sannanlega innt af hendi. 

Fyrirsvarsmenn kæranda hafi aðsetur í þeim fasteignarhluta sem sé nr. 212-3788.  Hluti nr. 212-3787 hafi aðeins verið nýttur sem geymsla og því sé sorphirðu- eða sorpeyðingarþjónusta sveitarfélagsins ekki nýtt vegna hans.  Kærandi hafi aðeins eina sorptunnu við húsið. 

Með vísan til framangreindra lagaheimilda og eðlis þjónustugjalda krefjist kærandi þess að frá kröfu sveitarfélagsins vegna fasteignagjalda fyrir 2013 dragist 15.800 krónur vegna sorphirðugjalds og 25.000 krónur vegna sorpeyðingargjalds fyrir fasteignina nr. 212-3787.  Í gjaldskrá sveitarfélagsins vegna fasteignagjalda árið 2013 sé miðað við ákveðið verð fyrir hverja nýtta tunnu. 

Málsrök sveitarfélagsins Vesturbyggðar:  Af hálfu Vesturbyggðar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað.  Umhverfisgjöld hafi verið lögð á í sveitarfélaginu skv. gjaldskrá umhverfisgjalda í Vesturbyggð nr. 1237/2012.  Sé þar kveðið á um álagningu og innheimtu árlegs eyðingargjalds, sem sé 25.000 krónur fyrir íbúðarhúsnæði, og árlegs hirðingargjalds, 15.800 krónur fyrir hverja sorptunnu í þéttbýli.  Sé hið álagða gjald í samræmi við a-lið 2. gr. gjaldskrárinnar.  Heimilt sé samkvæmt samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Vesturbyggð nr. 214/2004 að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu, sbr. 2. mgr. 9. gr.  Þá skuli gjöld lögð á hverja fasteign skv. 3. mgr. 9. gr. samþykktarinnar. 

Vesturbyggð veiti þjónustu við að safna sorpi, sækja það til íbúðarhúsa og flytja til eyðingar á sorpurðunarstað.  Umhverfisgjaldi sé ætlað að standa undir kostnaði við að sækja og eyða sorpi sem falli til frá íbúðarhúsnæði.  Gjaldið sé lagt á hverja íbúðarhúsaeiningu eða fastanúmer og sé við það miðað að sveitarfélagið láti hverri íbúð í té eina sorptunnu.  Sumir þeirra sem búi í fasteign sem skráð sé sem tvö fastanúmer hafi kosið að nota aðeins eina sorptunnu þótt þeir eigi rétt á tveimur. 

Sveitarfélagið vísi einnig til þess að tekjur vegna sorphirðu í Vesturbyggð á árunum 2009-2011 hafi verið 76.874.329 krónur og gjöld 101.557.111 krónur.  Innifalin í þessum fjárhæðum sé gatnahreinsun og hreinsun opinna svæða.  Kostnaður sé þannig mun hærri en tekjur og gjaldskráin hafi verið of lág á þessum árum. 

Niðurstaða:  Álagningarseðlar bárust kæranda 28. janúar 2013 og var tekið fram í bréfi er fylgdi seðlunum að kærufrestur vegna álagningarinnar væri til 28. febrúar 2013 en ekki var tilgreint hvert kæra skyldi.  Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að ákvörðun var tilkynnt, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en kæra barst úrskurðarnefndinni 15. mars 2013 eða um hálfum mánuði eftir lok kærufrests.  Krafðist kærandi endurskoðunar á hinni umdeildu álagningu með bréfum til sveitarfélagsins, dags. 11. og 27. febrúar 2013, en ekki verður af málsgögnum ráðið að þeim bréfum hafi verið svarað.  Var því kærufrestur ekki liðinn þegar kæra barst nefndinni, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Í málinu er deilt um álagningu sorpgjalds vegna Aðalstrætis 120 á Patreksfirði.  Um sorphirðu gilda ákvæði laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs.  Í 11. gr. nefndra laga er mælt fyrir um heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku fyrir meðhöndlun úrgangs.  Heimilt er að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi.  Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. 2. mgr. 11. gr.  Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. skal gjaldið aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, en í greinargerð með ákvæðinu segir að heildartekjur sveitarfélags á grundvelli gjaldsins megi ekki vera hærri en heildarkostnaður við meðhöndlun úrgangsins.  Birta skal gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. 11. gr. 

Vesturbyggð hefur, með vísan til 3. ml. 5. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs og 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sett samþykkt nr. 214/2004 um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu.  Samþykktin var staðfest af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. mars 2004.  Þá hefur sveitarfélagið, með vísan til 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, sett gjaldskrá fyrir umhverfisgjöld í Vesturbyggð nr. 1237/2012, sem birt var 4. janúar 2013.  Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum var heildarkostnaður Vesturbyggðar við sorphirðu og sorpeyðingu árin 2009 til og með 2012 123.546.133 krónur og álögð gjöld vegna sorphirðu og sorpeyðingar sömu ár námu 109.523.640 krónum.  Er álagningin samkvæmt því í samræmi við skilyrði laganna um að álagning umræddra gjalda fari ekki fram úr  kostnaði sveitarfélagsins við veitta þjónustu. 

Í framangreindri samþykkt segir að heimilt sé að ákveða gjald fyrir meðhöndlun úrgangs sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta eða þjónustustig, sbr. 2. mgr. 9. gr.  Einnig segir að gjöld skuli lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóti þjónustunnar, sbr. 3. mgr. 9. gr.  Í gjaldskránni er kveðið á um að umhverfisgjald að fjárhæð 25.000 krónur skuli innheimt árlega fyrir einstakar íbúðir, sbr. a-lið 1. mgr. 2. gr. a.  Þá skuli hirðingargjald innheimt árlega, að fjárhæð 15.800 krónur á hverja sorptunnu, sbr. a-lið 2. mgr. greinds ákvæðis. 

Samkvæmt framangreindu ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs og 2. og 3. mgr. 9. gr. samþykktar sveitarfélagsins er heimilt að haga gjaldtöku svonefnds umhverfisgjalds á þann veg að heildarkostnaði sveitarfélagsins sé jafnað á hverja gjaldskylda fasteign.  Hirðingargjaldið að fjárhæð 15.800 krónur miðast hins vegar samkvæmt gjaldskrá við fjölda sorptunna.  Ekki er fyrir hendi heimild fyrir sveitarfélagið til þess að ákveða fjölda sorptunna fyrir hverja fasteign en óumdeilt er að aðeins ein tunna er við hús kæranda.  Skortir því lagastoð fyrir því að leggja hirðingargjald vegna tveggja sorptunna á eiganda Aðalstrætis 120 og verður umdeild álagning af þeim sökum felld úr gildi að því er varðar sorpílát umfram eitt. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning hirðingargjalds vegna fasteignar kæranda að Aðalstræti 120, Patreksfirði, að fjárhæð 15.800 krónur. 

______________________
Ómar Stefánsson

_______________________________              ______________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

    

 

 

    

 

 

7/2012 Dalsbraut

Með

Árið 2012, föstudaginn 8. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 6. desember 2011 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Dalsbraut, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut, á Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. febrúar 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. fimm íbúa og eigenda fasteigna að Hjarðarlundi 11, Kolgerði 3, Hörpulundi 19 og Grenilundi 11, Akureyri, þá ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 6. desember 2011 að samþykkja deiliskipulag fyrir Dalsbraut, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar Akureyrar 9. febrúar 2011 óskaði formaður nefndarinnar eftir því að vinna við deiliskipulag vegna fyrirhugaðrar gerðar Dalsbrautar yrði hafin.  Var skipulagsstjóra falið að hefja undirbúning þess og var verkefnisnefnd skipuð í því skyni.  Á fundi skipulagsnefndar 1. júní 2011 var lögð fram tillaga að skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðs deiliskipulags og á fundi nefndarinnar 29. júní var lagt til við bæjarstjórn að skipulagslýsingin yrði kynnt almenningi og leitað umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila um skipulagslýsinguna og matsskyldu framkvæmdarinnar.  Bæjarráð samþykkti þá tillögu í umboði bæjarstjórnar hinn 7. júlí s.á. 

Á fundi skipulagsnefndar 24. ágúst 2011 kynntu höfundar skipulagslýsingarinnar tillögu að deiliskipulagi og veghönnun fyrirhugaðrar Dalsbrautar.  Þá var og lögð fram umsögn Skipulagsstofnunar ásamt ábendingum íbúa sem borist höfðu við kynningu skýrslunnar.  Ábendingunum var vísað áfram til vinnuhópsins við skipulagsgerðina til frekari úrvinnslu og lagt til að haldinn yrði íbúafundur um fyrirhugaða skipulagstillögu.  Sá fundur var haldinn 8. september 2011 þar sem m.a. var kynnt ný aðkoma að Lundarskóla.  Hinn 14. s.m. samþykkti meirihluti skipulagsnefndar á fundi sínum að leggja til við bæjarstjórn að tillaga að deiliskipulagi um fyrirhugaða Dalsbraut, dags. 12. s.m., yrði auglýst til kynningar, en þá lá frammi húsakönnun, dags. sama dag.  Samþykkti bæjarstjórn þá tillögu 20. september 2011.

Deiliskipulagstillagan var auglýst frá 28. september til 10. nóvember 2011 og lá þá frammi húsakönnun, ásamt skipulagslýsingu, dags. 30. maí s.á., og skýrslum um hljóðstig við Dalsbraut og Miðhúsabraut frá árinu 2003, athugun á þörf fyrir lagningu Dalsbrautar frá árinu 2010, umsögn um ávinning og kostnað og endurskoðun hljóðvarna við Dalsbraut frá sama ári. 

Að lokinni kynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 23. nóvember 2011 og fjallað um 54 athugasemdir sem borist höfðu.  Hinn 30. s.m. voru tillögur að svörum skipulagsnefndar við fram komnum athugasemdum til umfjöllunar ásamt umsögnum Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar.  Af hálfu Umhverfisstofnunar voru ekki gerðar athugasemdir við tillöguna, en Skipulagsstofnun taldi  að rökstyðja þyrfti betur hvers vegna svokallaður núllkostur, sem fól í sér óbreytt ástand, hefði neikvæð áhrif á samgöngur.  Lögð voru til svör við þeim athugasemdum sem borist höfðu og gerðar tillögur um breytingar á hinni kynntu skipulagstillögu.  Ákveðið var að fella niður tillögu að nýrri aðkomu að Lundarskóla, útfærslu vegtengingar að skólanum frá Dalsbraut var breytt, kvöð var sett um girðingu milli íþróttasvæðis og Dalsbrautar og settir inn skilmálar um hámarkshæð bygginga á þegar byggðum lóðum.  Lagði nefndin til við bæjarstjórn að skipulagstillagan svo breytt yrði samþykkt.  Bæjarstjórn samþykkti hana síðan hinn 6. desember 2011 og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 16. janúar 2012, að undangenginni athugun Skipulagsstofnunar lögum samkvæmt. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Á því er byggt að skilyrði Aðalskipulags Akureyrar 2005-2018 fyrir afgreiðslu hins kærða deiliskipulags séu ekki uppfyllt.  Í aðalskipulaginu séu sett fram tiltekin skilyrði sem skipulagsyfirvöld þurfi að uppfylla áður en ráðist verði í umdeilda tengibraut og ákvörðun um nýtingu svæðisins tekin í deiliskipulagi.  Þau skilyrði séu að áhrif af lagningu Miðhúsabrautar verði könnuð, aðrir möguleikar hafi verið reyndir til þrautar og að samráð hafi verið haft við íbúa og hverfisnefndir um hönnun. 

Raunveruleg samfélagsþörf og nauðsyn fyrir umræddri tengibraut séu ekki til staðar.  Fram komi í nýlegri skýrslu að Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis sé ekki nauðsynleg vegna umferðarþunga í fyrirséðri framtíð.  Núverandi gatnakerfi anni umferð nema á mótum Þingvallastrætis og Miðhúsabrautar, en við þeim vanda megi bregðast, t.d. með gerð hringtorgs.  Af því myndi leiða að umferð á götum eins og Mýrarvegi minnkaði.  Þá komi einnig fram í umræddri skýrslu að tilkoma Dalsbrautar sunnan Þingvallastrætis myndi ekki nema að litlu leyti draga úr umferð á Þórunnarstræti.  Við mat á því hvort Dalsbraut kunni að létta á eða draga úr umferð, t.d. á Þórunnarstræti og Hlíðarbraut, þurfi að líta til þess að stór hluti umferðar um Þórunnarstræti eigi sér upphaf eða endi við þá götu og því sé ekki víst að tilkoma Dalsbrautar myndi draga þar úr umferð.  Þá liggi fyrir að Naustahverfi, sem umræddri tengibraut sé ætlað að þjóna, sé ekki eins fjölmennt og stefnt hafi verið að og sé fyrirséð að uppbygging hverfisins verði hægari en gert hafi verið ráð fyrir.  Ljóst sé að tilkoma þessarar  fyrirhuguðu tengibrautar muni að litlu eða engu leyti létta á umferð um Þórunnarstræti þar sem bein leið í miðbæinn úr Naustahverfi sé um þá götu en ekki Dalsbraut. 

Framangreindar niðurstöður séu í samræmi við eldri skýrslu sem einnig liggi fyrir í málinu.  Þar komi fram að ekki sé þörf á lagningu Dalsbrautar heldur ætti fremur að draga úr umferðarhraða á Þórunnarstræti og leggja Mjólkursamlagsveg þegar umferðin um Þórunnarstræti og um megin gatnamót þeirrar götu yrði of mikil.  Að öllu þessu virtu verði ekki talin raunveruleg samfélagsleg þörf eða nauðsyn fyrir tengibrautinni og því ekki uppfyllt skilyrði aðalskipulags fyrir slíkri framkvæmd. 

Bent sé á að Skipulagsstofnun hafi gert athugasemdir við þá afstöðu bæjaryfirvalda að óbreytt gatnakerfi hefði neikvæð umhverfisáhrif með tilliti til samgangna fremur en óveruleg áhrif.  Með því að fallast á þessa athugasemd Skipulagsstofnunar eftir auglýsingu tillögunnar hafi bæjaryfirvöld í raun samþykkt að ekki væru forsendur fyrir umræddri framkvæmd miðað við skilyrði aðalskipulags. 

Þá liggi fyrir að ekki hafi verið haft samráð við íbúa eða hverfisnefndir um hönnun umræddrar tengibrautar, líkt og áskilið sé í aðalskipulagi, en í þeim áskilnaði felist aukin samráðsskylda fyrir sveitarfélagið frá því sem mælt sé fyrir um í 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Á fundi bæjaryfirvalda með íbúum, sem haldinn hafi verið 8. september 2011, hafi verið kynntur annar skipulagsuppdráttur en sá sem bæjarstjórn hafi samþykkt að auglýsa á fundi sínum 20. s.m.  Meirihluti skipulagsnefndar hafi þá lagt til við bæjarstjórn að tillagan yrði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga.  Sú tillaga hafi ekki verið í samræmi við þá tillögu sem kynnt hafi verið íbúum skv. 40. gr. sömu laga.  Annmarkar séu því á málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar og afgreiðsla hennar í andstöðu við fyrirmæli þeirrar lagagreinar.  

Talsverðar breytingar hafi verið gerðar á áður auglýstum skipulagsgögnum við afgreiðslu skipulagstillögunnar.  Sú ákvörðun bæjarstjórnar að auglýsa ekki tillöguna að nýju hafi því verið í andstöðu við 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga, en í ákvæðinu felist skylda sveitarstjórnar til að auglýsa deiliskipulagstillögu að nýju sé henni breytt í grundvallaratriðum.  Ekki sé skýrt hvað felist í þessu hugtaki en hafa beri í huga að skipulagslög byggi á þeirri meginreglu að gefa skuli hagsmunaaðilum kost á að gera athugasemdir við efni skipulagstillagna áður en þær séu endanlega afgreiddar.  Verði að telja heimild sveitarstjórnar til að auglýsa ekki breytta tillögu undantekningarreglu sem skýra eigi þröngt.  Skyldan til að auglýsa breytta tillögu sé enn ríkari en ella þegar sérstök eða ströng skilyrði séu sett fyrir málsmeðferð í aðalskipulagi og þegar mál varði hagsmuni íbúa í nágrenni hins umrædda deiliskipulags og um sé að ræða framkvæmdir í þegar byggðu, rótgrónu íbúðarhverfi.  Með deiliskipulaginu sé verið að breyta nærliggjandi byggð mikið enda sé verið að kljúfa skóla- og íbúðarhverfi með tengibraut.  Slíkar brautir eigi ekki erindi inn á slíkt svæði og framkvæmdin sé í mótsögn við t.d. fyrirkomulag tengibrauta í nýrri hverfum á Akureyri.

Hafa verði í huga þau réttaröryggissjónarmið sem bundin séu við opinbera kynningu deiliskipulags.  Borgarar þurfi að geta gert sér grein fyrir umfangi tillögunnar með skýrum hætti.  Umboðsmaður Alþingis hafi ítrekað lagt áherslu á þessi sjónarmið og hið sama hafi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála gert í sínum úrskurðum.  Farist slík kynning fyrir að meira eða minna leyti, verði að telja slíkt verulegan ágalla á málsmeðferð tillögunnar, sem leitt geti til ógildingar hennar.  Hin umdeilda tillaga sem hér um ræði sé íþyngjandi í garð kærenda og annarra eigenda fasteigna og íbúa í næsta nágrenni, sem geri kröfu til vandaðrar málsmeðferðar í hvívetna. 

Ekki hafi verið efnisleg skilyrði fyrir hinni kærðu ákvörðun og jafnframt brjóti hún gegn lögmætum væntingum íbúa, sem hafi mátt treysta því að fyrirmælum og skilyrðum aðalskipulags yrði mætt, færi svo að ráðist yrði í gerð tengibrautar á þessu svæði.  Hin umdeilda ákvörðun feli í sér skerðingu á verðmæti fasteigna kærenda og einnig inngrip í fjölskyldulíf þeirra. 

Af öllu framangreindu sé ljóst að fyrirliggjandi deiliskipulag uppfylli hvorki skilyrði aðalskipulags né taki tillit til réttmætra hagsmuna kærenda og ekki sé þar heldur gætt meðalhófs.  Ákvörðun bæjarstjórnar feli í sér verulegt inngrip í réttindi kærenda og brotið sé gegn grenndar- og nábýlisrétti þeirra og lögmætum væntingum.  Ákvörðunin fari gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 í mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og beri með hliðsjón af greindum ágöllum að ógilda hana. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að ógildingarkröfu kærenda verði hafnað. 

Gert hafi verið ráð fyrir tengibrautinni Dalsbraut í aðalskipulagi Akureyrar allt frá árinu 1975, þó að í Aðalskipulagi 1998-2018 hafi skipulagi svæðis Dalsbrautar verið frestað.  Hafi íbúum því mátt vera ljóst að ráðist yrði í vegtenginguna enda hafi uppbygging á íbúðarsvæðunum í nágrenni vegstæðisins borið þess merki.  Árið 2004 hafi fyrsti hluti Dalsbrautar, frá Borgarbraut að Þingvallastræti, verið lagður og hafi núverandi meirihluti bæjarstjórnar lofað fyrir kosningar að vegtengingin yrði kláruð. 

Í Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 sé gert ráð fyrir lagningu Dalsbrautar og byggi hið kærða deiliskipulag á því aðalskipulagi.  Áætlun um hana sé ekki ný af nálinni og margar skýrslur hafi verið unnar á meðgöngutíma hennar.  Sú skýrsla sem kærendur vitni til máli sínu til stuðnings sé frá árinu 2000 og sé þar nánast ekkert tillit tekið til uppbyggingar í Naustahverfi og þarfa íbúa þess hverfis fyrir góðar tengingar á milli hverfa enda hafi hverfið þá ekki verið byggt.  Þá hafi ýmislegt breyst síðan þau ákvæði aðalskipulags hafi verið sett sem kærendur vísi til.  Megi í því sambandi benda á skýrslu um athugun á þörf fyrir lagningu Dalsbrautar, dags. 29. mars 2010, þar sem segi að Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis sé ekki nauðsynleg vegna umferðarþunga í fyrirséðri framtíð, en lagning hennar muni engu að síður létta á eða draga úr vexti umferðar á öðrum leiðum eins og á Þingvallastræti, Þórunnarstræti og Hlíðarbraut.  Jafnframt sé í skýrslunni talið að aðrar ástæður en umferðarþungi kunni að liggja því að baki að leggja Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis.  Augljósasti kostur Dalsbrautar sunnan Þingvallastrætis sé að leiðir muni styttast, samgöngur milli hverfa verða greiðari og umferðarkerfi Akureyrar heilsteyptara, sem stuðli að jafnari dreifingu umferðar.  Einnig megi nefna skýrsluna  „Dalsbraut/Miðhúsabraut – hvaða leið skuli valin m.t.t. umferðartækni og hljóðvistar, maí 2004“, en þar sé lagt til að fyrst verði farið í lagningu Dalsbrautar og síðar, ef uppbygging nýrra hverfa í norðvesturhluta bæjarins hefjist, verði farið að huga að lagningu Miðhúsabrautar.  Þó hafi sú ákvörðun verið tekin á árinu 2006 að leggja Miðhúsabraut fyrst. 

Hvað varði samfélagslega þörf fyrir Dalsbraut sé tekið fram að tengibrautum sé ætlað að tengja saman hverfi og auka þægindi íbúa í fleiri hverfum en þeim sem tengibrautir liggi um.  Þannig verði íbúar einstakra hverfa að sæta því að um hverfi þeirra liggi tengibrautir sem þjóni því hverfi aðeins að hluta.  Sérstaklega eigi það við þegar ný hverfi séu að byggjast upp sem kalli á betri tengingar.  Uppbygging Naustahverfis muni taka lengri tíma en upphaflegar áætlanir hafi gert ráð fyrir, en I. og II. hluti Naustahverfis séu nánast fullbyggðir og þar séu nú 1.628 íbúar með lögheimili.  Hverfisnefnd Naustahverfis hafi ítrekað sent áskorun til bæjaryfirvalda um að Dalsbraut yrði lögð sem fyrst.  Uppbygging hverfisins muni halda áfram á næstu árum með væntanlegum auknum þrýstingi um lagningu Dalsbrautar ef ekki hefði verið brugðist við.  Þess megi einnig geta að þegar tillaga að Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 var auglýst fyrst hafi ekki verið gert ráð fyrir Dalsbraut sem tengibraut en vegna mótmæla frá um 1.270 manns við þeirri tillögu hafi ný tillaga verið auglýst, þar sem gert hafi verið ráð fyrir Dalsbrautinni.  Að lokum sé vert að geta þess að legið hafi fyrir álit um að áætlaður fjárhagslegur ávinningur við lagningu Dalsbrautar yrði um 15-43 milljónir króna árlega. 

Forhönnun götunnar, þ.e. lega hennar og umfang í landi, gönguleiðir, umferðarstýringar og umferðarhraði, hvar hljóðvarnir yrðu og útfærsla þeirra, hafi verið kynnt á opnum íbúafundi í Lundarskóla 8. september 2011, þar sem tillaga að deiliskipulaginu hafi einnig verið kynnt.  Lokahönnun götunnar hafi þá ekki legið fyrir þar sem deiliskipulagið hafi enn verið í vinnslu.  Fáar athugasemdir hafi þar komið fram og hafi þær ekki snúist efnislega um hönnun götunnar.  Hafi hún því í framhaldi verið fullhönnuð í samræmi við kynnta hugmynd.  Hugmynd um að setja götuna í stokk að hluta við Lundarskóla hafi verið slegin út af borðinu vegna kostnaðar og með hliðsjón af því að með umferðarljósum og hraðatakmörkun við skólalóðina yrði umferðaröryggi fullnægjandi.  Fyrirliggjandi skipulagstillaga, sem kynnt hafi verið á fyrrgreindum íbúafundi, hafi falið í sér hugmyndir um breytingar á aðkomu að Lundarskóla sem sýnd hafi verið á viðkomandi uppdrætti til skýringar.  Við endanlega vinnslu deiliskipulagstillögunnar, sem auglýst hafi verið til kynningar, hafi ekki verið gert ráð fyrir þeirri vegtengingu, en hún hefði náð inn á annað deiliskipulagssvæði.  Þess í stað hafi verið sýndur stútur, innan marka skipulagstillögunnar, sem möguleiki fyrir nýja aðkomu.  Síðar hafi verið fallið frá þeirri tengingu. 

Skipulagslög geri ráð fyrir að tillögur geti tekið breytingum frá kynningarfundi þar til að ákvörðun sé tekin um að auglýsa hana, enda vandséð hvaða markmið væri með slíkri kynningu ef ekki væri unnt að taka til skoðunar athugasemdir sem fram kæmu.  Hafi íbúar athugasemdir við breytingar sem kunni að hafa verið gerðar á tillögu, á tímabilinu frá kynningarfundi og þar til hún sé auglýst, geti þeir alltaf sent inn athugasemdir sínar sem skipulagsyfirvöld þurfi að taka afstöðu til og meta hvort gera skuli breytingar á tillögunni eftir auglýsingu, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. 

Að lokinni kynningu skipulagstillögunnar hafi verið ákveðið, vegna fjölda athugasemda, að falla frá tillögu að nýrri aðkomu að Lundarskóla og gera aðrar tilteknar breytingar til að koma til móts við þær athugasemdir.  Með þeim breytingum, sem telja verði minni háttar, hafi verið dregið úr vægi og áhrifum skipulagstillögunnar á umhverfi grunnskólans og hafi því ekki verið þörf á að auglýsa tillöguna að nýju skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga.  Akureyrarkaupstaður hafi síðan auglýst samþykkt deiliskipulagsins, þar sem umræddar breytingar séu taldar upp, eins og tilskilið sé í 41. gr. laganna. 

Dalsbrautarsvæðið hafi verið skilgreint fyrir tengibraut í aðalskipulagi frá árinu 1975, þó framkvæmd hennar hafi verið frestað í nokkur skipti eins og heimilt hafi verið samkvæmt þágildandi skipulagslögum.  Íbúum í nágrenninu hafi því mátt vera ljóst frá þeim tíma að gatan kæmi.  Öll uppbygging á íbúðarsvæðunum í nágrenni vegstæðisins beri þess einnig merki að gert hafi verið ráð fyrir lagningu hennar.  Þegar á árinu 2004 hafi fyrsti hluti Dalsbrautar, frá Borgarbraut að Þingvallastræti, verið lagður.  Hið kærða deiliskipulag byggi á gildandi aðalskipulagi og skipulagsstefnu bæjaryfirvalda og hafi þverpólitísk samstaða verið fyrir lagningu Dalsbrautar. 

Þrír af kærendum búi við götur sem séu næst hinu fyrirhugaða vegstæði Dalsbrautar, við Hjarðarlund, Hörpulund og Grenilund.  Tveir af kærendum hafi hins vegar enga lögmæta hagsmuni, með vísan til grenndarsjónarmiða og væntinga, en þeir búi við Kolgerði í Gerðahverfi, sem sé fjarri vegstæði Dalsbrautar.  Því sé eðlilegt að vísa kærumáli þessu frá hvað þá kærendur varði, enda eigi þeir engra hagmuna að gæta með tilliti til grenndarsjónarmiða eða mögulegrar skerðingar á verðmæti fasteigna þeirra. 

Hvað varði mögulega skerðingu á verðmæti fasteigna þeirra þriggja kærenda sem búi næst umræddu vegstæði verði að hafa í huga að þeim sé tryggður réttur til skaðabóta skv. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, ef um slíkt sé að ræða.  Möguleg skerðing á verðmæti fasteigna geti því ekki leitt til þess að ógilda eigi umdeilt deiliskipulag. 

Með deiliskipulagi Dalsbrautar, sunnan Þingvallastrætis að Miðhúsabraut, hafi verið unnið að lögmætum skipulagsmarkmiðum, sem séu í samræmi við gildandi aðalskipulag.  Skipulagsferillinn hafi verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010.  Skipulagshugmyndir fyrir svæðið hafi verið kynntar á íbúafundi og skipulagstillagan hafi verið auglýst til kynningar lögum samkvæmt.  Hin kærða ákvörðun sé því hvorki haldin þeim form né efnisannmörkum sem raskað geti gildi hennar. 

—-

Málsaðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er tekist á um gildi ákvæða hins kærða deiliskipulags um framlengingu Dalsbrautar á Akureyri til suðurs, frá vegtengingu við Lundarskóla að Miðhúsabraut.  Með þeim framkvæmdum myndi Dalsbraut tengja Þingvallastræti við Miðhúsabraut. 

Við undirbúning deiliskipulagsgerðarinnar var tekin saman lýsing, þar sem fram komu áform bæjarstjórnar, forsendur og stefna að baki skipulagsgerðinni ásamt áformum um fyrirhugaða kynningu og samráð við skipulagsgerðina.  Kynningarfundir voru haldnir með einstökum hagsmunaaðilum og almenningi og leitað var umsagnar Skipulagsstofnunar um skipulagslýsinguna áður en bæjarstjórn tók ákvörðun um að auglýsa deiliskipulagstillögu til kynningar.  Þótt vikið sé frá kynntum fyrirætlunum í skipulagslýsingu eða skipulagsdrögum breytt áður en sveitarstjórn samþykkir að auglýsa skipulagstillögu til kynningar, er ekki gerð krafa í lögum um að endurtaka þurfi undirbúningsferlið, líkt og kveðið er á um í 5. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þegar auglýstri skipulagstillögu er breytt í grundvallaratriðum.  Var undirbúningur tillögunnar því í samræmi við ákvæði 40. gr. skipulagslaga. 

Skipulagstillagan var auglýst til kynningar með lögboðnum athugasemdafresti, hún tekin til umfjöllunar í bæjarstjórn að þeim fresti loknum, að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar, og afstaða tekin til fram kominna athugasemda skv. 1. og 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga.  Niðurstaða bæjarstjórnar var auglýst, svo sem áskilið er í 4. mgr. sömu lagagreinar.  Með tilliti til fram kominna athugasemda ákvað bæjarstjórn að gera breytingar á hinni kynntu skipulagstillögu þar sem fallið var frá nýrri aðkomu að Lundarskóla og aðrar breytingar gerðar í tengslum við þá ákvörðun.  Lega Dalsbrautar var hins vegar í samræmi við kynnta tillögu og þykir áðurgreind breyting á aðkomu að nefndri skólalóð ekki breyta tillögunni í grundvallaratriðum þannig að auglýsa hefði þurft tillöguna að nýju skv. 5. mgr. 41. gr. skipulagslaga.  Ekki liggur annað fyrir en að skipulagstillagan hafi fengið lögboðna meðferð skv. 42. gr. laganna eftir að bæjarstjórn hafði samþykkt hana. 

Hin kærða deiliskipulagsákvörðun fékk samkvæmt framangreindu lögformlega rétta málsmeðferð eftir ákvæðum skipulagslaga. 

Gert hefur verið ráð fyrir umdeildri legu Dalsbrautar í aðalskipulagi Akureyrar um árabil og er enn gert ráð fyrir henni í núgildandi Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 Hefur hluti brautarinnar þegar verið lagður.  Ákvæði deiliskipulags um lagningu brautarinnar fer því ekki gegn réttmætum væntingu kærenda um þróun samgöngumannvirkja á skipulagssvæðinu. 

Í gr. 7.3.3 skipulagsgreinargerðar gildandi Aðalskipulags Akureyrar 2005-2018 kemur fram að í tillögu að því skipulagi hafi verið lagt til að Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis yrði felld út, en vegna innsendra athugasemda hafi verið fallið frá því.  Hins vegar hafi verið ákveðið að framkvæmdir við götuna yrðu ekki hafnar fyrr en áhrif af lagningu Miðhúsabrautar hafi verið könnuð og aðrir kostir reyndir til þrautar og að samráð yrði haft við íbúa og hverfisnefndir um hönnun götunnar ef ráðist yrði í framkvæmdir.  Hafa kærendur skírskotað til þess að við hina kærðu ákvörðun hafi ekki verið farið að þessum fyrirmælum í aðalskipulagi. 

Skipulagsvald innan marka sveitarfélags er í höndum viðkomandi sveitarstjórnar og í skipulagsáætlunum er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, þar á meðal varðandi samgöngukerfi, sbr. 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga.  Bera sveitarstjórnir þannig ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags.  Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar lágu fyrir skýrslur um kosti og galla Dalsbrautar sem tengibrautar og um umhverfisáhrif hennar, ásamt mögulegum öðrum kostum.  Með ákvörðuninni tók sveitarstjórn afstöðu til þess hvaða kostur skyldi valinn í samgöngumálum viðkomandi svæðis, að undangenginni umfjöllun og samráði samkvæmt núgildandi skipulagslögum, sem hafa að geyma mun formfastari og ítarlegri reglur um samráð við skipulagsgerð en í gildi voru við afgreiðslu gildandi aðalskipulags Akureyrar.  Að því virtu verður ekki fallist á að gengið hafi verið gegn fyrirmælum aðalskipulags að þessu leyti við deiliskipulagsgerðina. 

Á uppdrætti gildandi aðalskipulagi er Dalsbraut auðkennd sem tengibraut.  Ekki er þar gert ráð fyrir tengingum inn á brautina, milli Skógarlundar og Þingvallastrætis.  Hins vegar eru á þeim kafla markaðar þrjár tengingar við brautina á uppdrætti hins kærða deiliskipulags, og eru þær að Lundarskóla og íþróttasvæði KA.  Er því misræmi milli aðalskipulags og hins kærða deiliskipulags að þessu leyti. 

Í gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er kveðið á um að tengingar við stofn- og tengibrautir skuli sýndar á uppdrætti aðalskipulags og standa umferðarskipulagsleg rök að baki því ákvæði.  Í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga er tekið fram að gildandi skipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag.  Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að hnekkja hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun vegna þess misræmis sem er milli aðal- og deiliskipulags hvað varðar framangreindar tengingar við Dalsbraut.  Svæði það sem hið kærða deiliskipulag tekur til skiptist með skýrum hætti um Skógarlund, í suður- og norðurhluta, og eru nefndir ágallar bundnir við norðurhluta svæðisins.  Þykir með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga rétt að ógilda hina kærðu ákvörðun aðeins hvað varðar svæðið norðan Skógarlundar en deiliskipulag suðurhluta svæðisins, milli Miðhúsabrautar og Skógarlundar, skal standa óhaggað. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 6. desember 2011, um að samþykkja deiliskipulag fyrir Dalsbraut frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut, er felld úr gildi að því er tekur til svæðisins milli Skógarlundar og Þingvallastrætis.  Að öðru leyti skal hin kærða ákvörðun standa óröskuð. 

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

61/2007 Kópavogsbakki

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 23. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2007, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 18. október 2006 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 11 við Kópavogsbakka í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. júlí 2007, er barst nefndinni hinn 3. sama mánaðar, kærir S, Víðigrund 59, Kópavogi, lóðarhafi Kópavogsbarðs 14, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 18. október 2006 að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 11 að Kópavogsbakka.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 24. október 2006.  Með bréfi, dags. 17. júlí 2007, sem móttekið var næsta dag, kæra S og J, Kópavogsbarði 18 og K og V, Kópavogsbarði 20 sömu ákvörðun.  Liggja lóðir kærenda beint ofan við og skáhallt við lóðina nr. 11 við Kópavogsbakka.  Að baki kærunum búa svipuð sjónarmið og þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi að kærumálin verði sameinuð og verður því svo gert.

Gera kærendur þá kröfu að úrskurðað verði um réttmæti gluggabyggingar á þaki hússins að Kópavogsbakka 11.  Jafnframt er gerð krafa um að þakglugginn verði fjarlægður eða lækkaður niður á þakflöt hússins.  Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar byggingarleyfis fyrir húsið að Kópavogsbakka 11.

Málavextir:  Í marsmánuði 2006 tók gildi deiliskipulag fyrir Kópavogstún og tekur það m.a. til lóðarinnar nr. 11 við Kópavogsbakka.  Deiliskipulaginu var breytt sama ár og fólust breytingar m.a. í stækkun byggingarreita og var auglýsing um gildistöku breytts deiliskipulags birt í B- deild Stjórnartíðinda hinn 25. október 2006.  

Hinn 18. október 2006 var lögð fram á fundi byggingarnefndar Kópavogs umsókn lóðarhafa Kópavogsbakka 11 um leyfi til að byggja einbýlishús á lóðinni.  Bókað var að erindið hefði hlotið afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarráðs í samræmi við 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og var byggingarfulltrúa falið að ljúka afgreiðslu málsins, að uppfylltum framlögðum athugasemdum.  Fundargerð byggingarnefndar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 24. október 2006.  Erindið var síðan samþykkt af byggingarfulltrúa hinn 25. október 2006.

Með tölvupósti til byggingarfulltrúa Kópavogs, dags. 4. júní 2007, kom lóðarhafi Kópavogsbarðs 14 á framfæri athugasemdum við byggingu hússins að Kópavogsbakka 11 um það er væri líklega þakgluggi.  Fór hann þess á leit við byggingarfulltrúa að hann hlutaðist til um að bygging hússins yrði færð til samræmis við byggingarleyfið og að hann tæki af öll tvímæli um byggingu þakglugga á téðu húsi. 

Í kjölfar þessa fól byggingarnefnd byggingarfulltrúa að vinna að málinu og afla frekari gagna og með bréfi, dags. 12. júní 2007, tilkynnti byggingarfulltrúi lóðarhafa Kópavogsbakka 11 að til skoðunar væri hvort stöðva þyrfti framkvæmdir við hús hans þar sem byggingarleyfið samræmdist ekki gildandi deiliskipulagi.  Með bréfi, dags. 15. júní 2007, setti arkitekt hússins að Kópavogsbakka 11 fram þá skoðun sína að hönnun hússins væri samkvæmt skipulagsskilmálum fyrir Kópavogstún og benti á að hvorki byggingarnefnd né skipulagsnefnd hefðu gert athugasemd við þakgluggann en hann hefði verið sýndur á teikningum.   

Þá rituðu lóðarhafar Kópavogsbarðs 18 og 20 byggingarfulltrúa bréf, dags. 19. júní 2007, og fóru fram á að svokallaður þakgluggi hússins að Kópavogsbakka 11 yrði fjarlægður þar sem hann væri í andstöðu við skipulag á svæðinu.  Með svarbréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. júní 2007, var bent á að málinu hefði verið vísað til skipulagsstjóra sem myndi kynna þeim lóðarhöfum sem málið varðaði rétt sinn.   

Í bréfi skipulagsstjóra, dags. 25. júní 2007, var vikið að því að samþykkt tillaga að breyttu deiliskipulagi frá júlí 2006 fyrir lóðina að Kópavogsbakka 11 hefði verið kynnt lóðarhöfum Kópavogsbakka 10 og 13 og Kópavogsbarðs 16 og 18 og að engar athugasemdir hefðu borist.  Jafnframt sagði m.a. svo í fyrrnefndu bréfi:  „Í kynningargögnum sem send voru á […] lóðarhafa var tekið fram sbr. erindi lóðarhafa að fá leyfi til að bílageymsla fari út fyrir byggingarreit en ekki tekið fram að þakkvistur fari upp fyrir hæð byggingarreits.  Þar sem ekki var tekið fram að um hækkun á byggingarreit væri að ræða fór kynning ekki víðar en til […] lóðarhafa.  Byggingarleyfi hefur þegar verið gefið út.“  

Hafa kærendur skotið framangreindri samþykkt byggingarnefndar frá 18. október 2006 til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er getið.

Málsrök kærenda:  Lóðarhafi Kópavogsbarðs 14 bendir á að beiðni lóðarhafa Kópavogsbakka 11 um að hafa hallandi þak á húsi sínu hafi verið synjað af hálfu skipulagsyfirvalda.  Í bókunum skipulagsnefndar Kópavogs hafi hvergi verið vakin athygli á umræddum þakglugga en ætla megi að breytingin svari til hæðar hússins með hallandi þaki eins og áður hafi verið synjað.  Hafi hvorki útfærsla á bílageymslu né hækkun á þakglugga verið kynnt kæranda en síðarnefnd breyting snerti þó engan fremur en hann.

Téð gluggabygging skyggi verulega á útsýni frá aðalhæð húss kæranda en hún rísi um einum og hálfum metra hærra en það sem almennt tíðkist í götunni.

Lóðarhafar að Kópavogsbarði 18 og 20 benda á að í skipulagsskilmálum fyrir nýbyggingarsvæðið, sem legið hafi til grundvallar við lóðarúthlutun einbýlis- og parhúsalóða, sé sérstaklega kveðið á um hámarkshæðir bygginga og tekið fram að þök þeirra skuli vera flöt.  Lóðarhafi Kópavogsbakka 11 hafi reist ofanljósglugga, sem brjóti í bága við þessar hámarkshæðir og skyggi á útsýni kærenda yfir Kópavoginn til vesturs. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Kópavogsbær krefst þess aðallega að kröfum kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærur séu of seint fram komnar.  Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt um þá samþykkt sem hann kæri.  Byggingarleyfið hafi verið samþykkt 25. október 2006 og breytingar á því í janúar og mars 2007 og kærufrestir þar af leiðandi þegar liðnir.  Fokheldisvottorð fyrir mannvirkið hafi verið gefið út 23. maí 2007 og hafi kærendum þá mátt vera ljóst að umræddur þakgluggi hafi verið reistur.

Til vara sé þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað þar sem útgefið byggingarleyfi sé að fullu í samræmi við gildandi skipulag.  Í 4. gr. skilmála deiliskipulags fyrir Kópavogsbakka segi eftirfarandi:  „Húshæð er gefin upp sem a) bindandi hæðafjöldi b) hámarkshæð byggingar yfir aðkomukóta.  Efsti hluti þaks má ná upp í uppgefna hámarkshæð, en getur verið lægri.  Hæðarkótar fyrir aðkomuhæðir húsa eru sýndir á hæðarblaði.  Hámarkshæð húsa er gefin upp á skilmálateikningu og er hún miðuð við hæð yfir tilgreindum hæðarkóta aðkomuhæðar.  Mesta hæð húss talið frá aðkomuhæð er 4,0 metrar.  Þakgluggar, skorsteinar og loftræstibúnaður mega þó fara upp fyrir hámarkshæð þaks.“

Í skilmálum sé ekki kveðið á um form eða útlit þakglugga eða aðrar skorður settar við hönnun þeirra.  Umræddur þakgluggi sé því í fullu samræmi við samþykkta deiliskipulagsskilmála.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá.  Er sú krafa á því byggð að kærur séu allt of seint fram komnar.  Samkvæmt niðurlagi 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé frestur til að skjóta máli til nefndarinnar einn mánuður frá því að kærendum varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Byggingarleyfi hafi verið veitt 28. október 2006 og þá hafi teikningar sem sýndu umræddan þakglugga og hæðarkóta hans verið fyrirliggjandi en þær upplýsingar hafi legið fyrir frá fyrstu teikningum að húsinu. 

Kært sé í máli þessu rúmlega níu mánuðum eftir að byggingarleyfið hafi verið veitt og jafnvel þótt litið yrði til þeirra breytinga á byggingarleyfi sem samþykktar hafi verið í janúar, mars og apríl 2007 og talið að þau tímamörk marki upphaf kærufrests hafi kærufrestur allt að einu verið löngu liðinn þegar umræddar kærur hafi borist.  Kærendum hafi einnig mátt vera löngu kunnugt um áhrif þakgluggans en lokið hafi verið við að steypa húsið í byrjun apríl 2007 og þá þegar hafi þeim mátt vera vel kunnugt um áhrif hans.  Atvik málsins séu öll með þeim hætti að kærur berist mun síðar en lögbundnir kærufrestir áskilji.

Byggingarleyfishafi eigi að geta treyst því að útgefið byggingarleyfi sé lögmætt og afar mikilvægt sé að ákveðinn varanleiki sé tryggður eftir útgáfu leyfa enda fari fram mikil verðmætasköpun á grundvelli þeirra.  Sé þetta meðal þeirra lagaraka sem búi að baki þeim tiltölulega stutta kærufresti sem veittur sé í skipulags- og byggingarlögum og einkar mikilvægt sé að eftir honum sé farið.  Þannig krefjist hinir ríku hagsmunir byggingarleyfishafa þess að kærufrestur sé túlkaður þröngt og eftir orðanna hljóðan settra lagaákvæða og að þau tímamörk sem lögin áskilji gildi varðandi fram komnar kærur.

Til vara krefjast byggingarleyfishafar þess að kröfum kærenda verði hafnað.  Tekið sé að öllu leyti undir og vísað til málsástæðna sem fram komi í greinargerð Kópavogsbæjar þeirri kröfu til stuðnings.  Sé sérstaklega á það bent að umræddur þakgluggi sé í samræmi við skilmála deiliskipulags fyrir Kópavogstún en í 4. gr. þeirra sé þess sérstaklega getið að þakgluggar, skorsteinar og loftræstibúnaður megi fara upp fyrir hámarkshæð þaks.  Skipulagsskilmálar takmarki ekki þessa undanþágu eða afmarki hana frekar.  Feli skýrt orðalag skilmálanna, sem kærendum hafi mátt vera fullkunnugt um, í sér að umræddur þakgluggi sé heimill.  Skilji bæði veitingavaldshafi og hönnuður skipulagsins skilmálana á þann veg að umdeildur þakgluggi samræmis þeim fyllilega.  Einnig sé bent á að af kærum málsins verði séð að ekki sé deilt um að umræddur gluggi teljist þakgluggi.

Bent sé á að veruleg og alvarleg röskun felist í því að gera nú breytingar á fyrrgreindum þakglugga.  Kalli það á verulega breytta heildarhönnun hússins ef nú eigi að fara að breyta skipulagi þakgluggans eftir að húsið sé nánast fullklárað, bæði að innan að utan.  

Þá mótmæla byggingarleyfishafar því að beiðni þeirra um hallandi þak hafi verið hafnað, en um fyrirspurn af þeirra hálfu hafi verið að ræða sem hafi verið svarað með þeirri ábendingu að slíkt samræmdist ekki gildandi skipulagi.  Jafnframt sé bent á að þeir hafi fyrstir lóðarhafa byrjað framkvæmdir í Kópavogstúni en íbúar við Kópavogsbarð nokkru seinna.

Sjónarmið um greinargerð Kópavogsbæjar:  Lóðarhafi Kópavogsbarðs 14 tekur fram að honum hafi ekki verið ljóst að þessi viðbót við húsið að Kópavogsbakka 11 stæði til fyrr en í júlí 2007 þegar mót hafi verið tekin utan af húsi kæranda og útsýni hafi opnast út um stofugluggann.  Þá rýri umræddur þakgluggi söluverðmæti húss kæranda og lífsgæði þeirra er þar búi.     

                                                                  —————————

Málsaðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi hinn 27. maí 2008.

Niðurstaða:  Af hálfu Kópavogsbæjar og byggingarleyfishafa er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærur hafi borist að liðnum kærufresti. 
Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Skal, samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti, nema talið verði afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 28. gr. laganna. 

Kærendur máls þessa eru lóðarhafar í næsta nágrenni við Kópavogsbakka 11 en varhugavert verður þó að fullyrða að þeim hafi mátt vera kunnugt um hinn umdeilda byggingarhluta á þaki hússins fyrr en það var að fullu risið.  Fokheldisvottorð vegna hússins var gefið út 23. maí 2007 og gerðu kærendur máls þessa athugasemdir við byggingu svonefnds þakglugga með bréfum, dags. 4. júní og 19. júní 2007. 

Með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 25. júní 2007, var kærendum tilkynnt að byggingarleyfi hefði verið gefið út og bent á að byggingarnefnd hefði fjallað um málið á fundi 20. júní s.á. og frestað til næsta fundar 4. júlí.  Var jafnframt bent á að þeir sem teldu rétti sínum hallað gætu skotið máli sínu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingamála innan mánaðar frá dagsetningu bréfsins skv. 8. gr. laga nr. 73/1997, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997.  Verður að telja, eins og atvikum er hér háttað, að kærendum máls þessa hafi fyrst mátt vera kunnugt um að hinn umdeildi byggingarhluti hafi í raun verið samþykktur af byggingaryfirvöldum er þeim barst ofangreint svarbréf skipulagsstjóra.  Þegar litið er til þessa er það álit úrskurðarnefndarinnar að kærur í málinu hafi borist innan kærufrests.

Í máli þessu er um það deilt hvort leyfi byggingarnefndar frá 18. október 2006, fyrir byggingu húss að Kópavogsbakka 11 sé í samræmi við deiliskipulag fyrir umrætt svæði að því er varðar umdeildan byggingarhluta á þaki hússins.  Deiliskipulag fyrir Kópavogstún tók gildi árið 2006 og í skilmálum þess er umfjöllun um hæð húsa í 4. grein.  Þar segir m.a. að mesta hæð húss talið frá aðkomuhæð sé 4,0 m en að „…þakgluggar, skorsteinar og loftræstibúnaður mega þó fara upp fyrir hámarkshæð þaks.“ 

Ekki er í skipulaginu kveðið á um ákveðna gerð eða útlit þakglugga.  Verður hins vegar  að telja að tilvitnaða undanþágu frá leyfðri hámarkshæð þaks verði að túlka þröngt og að hún taki einungis til þeirra byggingarhluta sem þar eru nefndir berum orðum og að miða verði við hefðbundna orðanotkun.

Samkvæmt teikningum rís umþrættur byggingarhluti 1,24 m upp fyrir efri brún útveggja hússins og er um 6 m á breidd fyrir miðju húsi.  Veit þakflötur mót norðri með um 30º þakhalla en að sunnanverðu er lóðréttur gluggi sem veitir birtu inn í miðrými hússins.

Úrskurðarnefndin telur að umfang umrædds byggingarhluta sé talsvert meira en búast hafi mátt við þegar litið sé til gildandi skipulagsskilmála og líta verði á byggingarhlutann sem einhvers konar kvist fremur en þakglugga.  Er sú niðurstaða í samræmi við það mat byggingarnefndar, sem getið er um í fyrirliggjandi bréfi byggingarfulltrúa frá 11. júní 2007, að ekki sé eðlilegt að skilgreina byggingarhlutann sem þakglugga, heldur sem einskonar kvist.

Samkvæmt því sem að framan er rakið fellur umdeildur byggingarhluti ekki undir undanþáguheimild skipulagskilmála um hámarkshæð húsa og verður því fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.  Með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður hið kærða byggingarleyfi þó aðeins fellt úr gildi að því er varðar hinn umdeilda byggingarhluta á þaki hússins.
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 18. október 2006 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 11 við Kópavogsbakka í Kópavogi að því er varðar umdeildan byggingarhluta á þaki hússins.

 

 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

 

57/2005 Holtsgata

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2005, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 29. júní 2005 um að heimila sameiningu lóðanna nr. 1 og 3 við Holtsgötu og nr. 32A við Bræðraborgarstíg í eina lóð, að rífa húsið nr. 32A við Bræðraborgarstíg og bílskúr á lóðinni nr. 1 við Holtsgötu ásamt því að byggja fjölbýlishús úr steinsteypu með 13 íbúðum og bílageymslu í kjallara fyrir 13 bíla á hinni sameinuðu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. júlí 2005, sem barst nefndinni sama dag, kærir Þorsteinn Einarsson hrl., f.h. H, Holtsgötu 5, Reykjavík, ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 29. júní 2005 um að heimila sameiningu lóðanna nr. 1 og 3 við Holtsgötu og nr. 32A við Bræðraborgarstíg í eina lóð, að rífa húsið nr. 32A við Bræðraborgarstíg og bílskúr á lóðinni nr. 1 við Holtsgötu ásamt því að byggja fjölbýlishús úr steinsteypu með 13 íbúðum og bílgeymslu í kjallara fyrir 13 bíla á hinni sameinuðu lóð. 

Kærandi setti einnig fram kröfu um stöðvun framkvæmda, en með úrskurði úrskurðarnefndarinnar hinn 16. september 2005 hafnaði nefndin þeirri kröfu. 

Krefst kærandi ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málavextir:  Hinn 9. febrúar 2005 samþykkti skipulagsráð deiliskipulag svokallaðs Holtsgötureits, svæðis er markast af Holtsgötu, Bræðraborgarstíg, Sólvallagötu og Vesturvallagötu.  Hin kærða deiliskipulagsákvörðun fól m.a. í sér að heimilt yrði að  byggja á óbyggðum lóðum á svæðinu ásamt því að byggja við nokkur hús sem fyrir væru á reitnum.  Samkvæmt deiliskipulaginu er nýtingarhlutfall óbyggðra lóða að hámarki 1,5.  Eitt bílastæði er fyrir hverja 50 m² í viðbótarbyggingarmagni atvinnuhúsnæðis og eitt bílastæði er fyrir hverja íbúð.  Lóðir á horni Bræðraborgarstígs og Holtsgötu eru sameinaðar og heimilt er að byggja á lóðinni 13 íbúða þriggja hæða hús með risi og neðanjarðarbílgeymslu með aðkomu frá Bræðraborgarstíg.  Kærandi máls þessa kærði einnig fyrrgreinda deiliskipulagsákvörðun skipulagsráðs.  

Á fundi skipulagsráðs hinn 29. júní 2005 var tekin fyrir umsókn um leyfi til sameiningar lóðanna nr. 1 og 3 við Holtsgötu og nr. 32A við Bræðraborgarstíg í eina lóð, að rífa húsið nr. 32A við Bræðraborgarstíg og bílskúr á lóðinni nr. 1 við Holtsgötu og loks leyfi til að byggja fjölbýlishús úr steinsteypu með 13 íbúðum og bílgeymslu í kjallara fyrir 13 bíla á hinni sameinuðu lóð.  Umsóknin var samþykkt á fundinum með eftirfarandi bókun:  „Samþykkt.  Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.  Frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.  Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“

Kærandi hefur skotið framangreindri ákvörðun skipulagsráðs til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að svo virðist sem hin kærða samþykkt byggi á deiliskipulagi svokallaðs Holtsgötureits frá 9. febrúar 2005 sem sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Sé vísað til þeirra röksemda sem reifaðar hafi verið vegna kæru um gildi deiliskipulagsins.  Telur kærandi m.a. að hið kærða leyfi til framkvæmda brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrár nr. 33/1944 um friðhelgi eignarréttar o.fl., ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, ákvæðum reglugerðar nr. 400/1998 og ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10., 11., 12. og 13. gr. laganna.

Þá telur kærandi að hin kærða samþykkt sé í andstöðu við deiliskipulag svæðisins ásamt því að vera ólögmæt og því beri að fella hana úr gildi.   

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að kærandi geri ekki neinar efnislegar athugasemdir við hina kærðu samþykkt þrátt fyrir kröfu um ógildingu hennar eða bendi á nein atriði sem leitt geti til ógildingar hennar.  Kröfu um ógildingu sé því hafnað enda ekkert komið fram í málinu sem bendi til þess að byggingarleyfið sé háð einhverjum annmörkum.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kæranda mótmælt.  Komið hafi verið til móts við athugasemdir kæranda, m.a. með því að færa aðkomu að bílgeymslu frá Holtsgötu yfir á Bræðraborgarstíg.  Athugasemdir um nýtingarhlutfall hefðu þurft að koma fram á meðan unnið hafi verið að gerð skipulagsins en þær hafi ekki komi fram fyrr en síðar.

Álit Brunamálastofnunar og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins:  Úrskurðarnefndin leitaði álits Brunamálsstofnunar á því hvort deiliskipulag Holtsgötureits samræmdist reglum og kröfum um eldvarnir í íbúðabyggð.  Í bréfi Brunamálastofnunar, dags. 31. ágúst 2005, kom fram að vesturgafl hússins nr. 3 við Holtsgötu gæti ekki talist vera fullnægjandi eldvarnarveggur þar sem umbúnaður reykræstiops þar rýrði brunamótstöðu og væri það í andstöðu við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Framangreindu mótmælti Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sem taldi að fyrirkomulag brunavarna á aðaluppdráttum samræmdist ákvæðum byggingarreglugerðar.  

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er krafa kæranda um ógildingu hins umdeilda byggingarleyfis studd þeim rökum að leyfið byggist á deiliskipulagi sem kærandi telur ólögmætt og hefur kært til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar.  Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði fyrr í dag hafnað kröfu kæranda um ógildingu deiliskipulags þess sem hið umdeilda byggingarleyfi á stoð í.  Ekki verður heldur séð að byggingarleyfið brjóti gegn rétti kæranda sem varinn sé af stjórnarskrá nr. 33/1944 eða að undirbúningur þess hafi verið í andstöðu við ákvæði stjórnsýslulaga nr.  37/1993 líkt og kærandi heldur fram.  

Samkvæmt deiliskipulagi Holtsgötureits er gert ráð fyrir því að byggingarreitur hússins nr. 3 við Holtsgötu nái að lóðarmörkum Holtsgötu 5, þó með þeirri takmörkun að nýting hans þrjá metra frá lóðarmörkum Holtsgötu 5 er háð samþykki eiganda þess húss.  Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir að við vesturgafl hússins nr. 3 við Holtsgötu verði komið fyrir reykræstiopi sem nái einn metra út fyrir húsið í átt að Holtsgötu 5.  Ekki liggur fyrir leyfi eiganda Holtsgötu 5 til hagnýtingar byggingareitsins með framangreindum hætti svo sem áskilið er í deiliskipulagi svæðisins og er byggingarleyfið því að þessu leyti í andstöðu við það.  Þá liggja ekki fyrir fullnægjandi niðurstöður um það að veggurinn uppfylli kröfur um eldvarnarveggi, sem Brunamálastofnun taldi vera forsendu deiliskipulagsins.  Verður af þessum sökum ekki hjá því komist að fallast á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ógildingin þó takmörkuð við þann hluta leyfisins er varðar húsið nr. 3 við Holtsgötu. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun skipulagsráðs frá 29. júní 2005 um að heimila sameiningu lóðanna nr. 1 og 3 við Holtsgötu og nr. 32A við Bræðraborgarstíg í eina lóð, að rífa húsið nr. 32A við Bræðraborgarstíg og bílskúr á lóðinni nr. 1 við Holtsgötu ásamt því að byggja fjölbýlishús úr steinsteypu með 13 íbúðum og bílageymslu í kjallara fyrir 13 bíla á hinni sameinuðu lóð er felld úr gildi hvað varðar húsið nr. 3 við Holtsgötu. 

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________            _____________________________
  Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

36/2005 Brákarbraut

Með

Ár 2006, þriðjudaginn 24. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2005, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar um samþykki og gildistöku deiliskipulags fyrir gamla miðbæinn í Borgarnesi.

Í málinu er nú til kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með símbréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 29. apríl 2005 kærir Pétur Kristinsson hdl., f.h. I, Brákarbraut 11, Borgarbyggð, ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar um samþykki og gildistöku deiliskipulags um „gamla miðbæinn í Borgarnesi“, sbr. auglýsingu sem birtist í Stjórnartíðindum þann 31. mars 2005.

Kærandi krefst þess í fyrsta lagi að deiliskipulagið verði ógilt og að lagt verði fyrir bæjarstjórn Borgarbyggðar að auglýsa skipulagið að nýju og til vara að fram fari grenndarkynning vegna viðbyggingar við húsin Brákarbraut 13 og 15.  Þá er þess krafist að engar framkvæmdir sem byggja á hinu samþykkta deiliskipulagi verði leyfðar fyrr en bætt hafi verið úr og að þær ákvarðanir sem teknar hafi verið á grundvelli þess verði ógiltar.

Málavextir:  Hinn 4. ágúst 2004 var auglýst tillaga að deiliskipulagi gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Lá tillagan frammi til kynningar á bæjarskrifstofum Borgarbyggðar til 2. september 2004, en frestur til athugasemda var til 16. sama mánaðar.  Athugasemdir bárust við tillöguna, m.a. frá kæranda, en á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar hinn 5. október 2004 var gerð svofelld bókun:

„Erindi frá bæjarráði þar sem óskað er umsagnar nefndarinnar um framkomnar athugasemdir við deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Nefndin telur að þrátt fyrir innsendar athugasemdir sé ekki þörf á breytingum á deiliskipulaginu.“

Skipulagstillagan mun síðan hafa verið samþykkt í bæjarstjórn hinn 14. október 2004 en síðar, eða hinnn 11. nóvember 2004, samþykkti bæjarstjórn þó svör við framkomnum  athugasemdum þar sem fallist var á minni háttar breytingar í tilefni af þeim.

Þrátt fyrir að umhverfis- og skipulagsnefnd hafi ekki talið þörf á að breyta skipulaginu var fallist á nokkrar breytingar og kemur fram í bréfi bæjarstjóra til kæranda, dags. 19. nóvember 2004, að tekið hafi verið undir ábendingu hans um mörk skipulagssvæðis og að eðlilegt sé að geta í skipulaginu um umferðarétt um lóðina að Brákarbraut 13 að lóð kæranda.  Þá kemur fram í bréfinu að hugmyndir séu uppi um tengibyggingu milli Brákarbrautar 13 og 15 sem meðal annars eigi að þjóna starfsemi Egilsstofu og því ekki óeðlilegt að gert sé ráð fyrir byggingarreit vegna þess auk lýsingar á þeirri starfsemi sem þar sé fyrirhuguð. 

Með bréfi bæjarverkfræðings Borgarbyggðar, dags. 30. nóvember 2004, var umrætt deiliskipulag sent Skipulagsstofnun til yfirferðar.  Gerði stofnunin, með bréfi, dags. 20. desember 2004, verulegar athugasemdir við skipulagið, bæði um form og efni.  Voru þessar athugasemdir teknar til athugunar og bera málsgögn það með sér að breytingar hafi verið gerðar bæði á uppdrætti skipulagsins og greinargerð, en ekki verður séð að sveitarstjórn hafi fjallað um þær breytingar.  Var skipulagið, svo breytt, sent að nýju til Skipulagsstofnunar til yfirferðar með bréfi, dags. 2. mars 2005.

Með bréfi, dags. 10. mars 2005, lýsti Skipulagsstofnun þeirra afstöðu sinni að ekki væru gerðar athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda, en benti þó á að gera þyrfti smávægilegar lagfæringar á skipulagsgögnunum.  Auglýsing um gildistöku skipulagsins var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 31. mars 2005.  Skaut kærandi ákvörðun sveitarstjórnar um samþykkt og auglýsingu skipulagsins til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 29. apríl 2005, svo sem að framan greinir.

Með kæru, dags. 22. desember 2005, krafðist kærandi ógildingar byggingarleyfis fyrir margnefndri tengi- og viðbyggingu að Brákarbraut 13 og15 og krafðist þess jafnframt að framkvæmdir sem þá voru hafnar við bygginguna yrðu stöðvaðar meðan kærumál hans væru til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Féllst nefndin á þá kröfu kæranda með rökstuddum úrskurði, uppkveðnum 5. janúar 2006.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að greinargerð sú með deiliskipulaginu, sem kynnt hafi verið og auglýst, sé frá því í maí 2004.  Hafi kærandi fengið hana afhenta á bæjarskrifstofu Borgarbyggðar í tilefni af því að skipulagið var  auglýst.  Til séu að minnsta kosti fjórar útgáfur af greinargerðinni og verði ekki annað séð en það skipulag sem auglýst hafi verið 31. mars 2005 byggi á greinargerð sem dagsett sé í febrúar 2005 og lagfærð í mars 2005.  Þrátt fyrir þessar dagsetningar sé áritun á greinargerðinni um að hún hafi verið samþykkt í nóvember 2004.

Greinargerðin frá því í maí 2004 sem auglýst hafi verið geri hvorki ráð fyrir tengi- né viðbyggingu við húsin Brákarbraut 13 og 15.  Greinargerðin sem öðlast hafi gildi þann 31. mars 2005 geri hinsvegar ráð fyrir bæði tengi- og viðbyggingu við þau hús.  Kæranda sé ekki kunnugt um að sú breyting hafi verið auglýst né að grenndarkynning hafi farið fram.

Rétt sé að taka fram að greinargerð sú sem öðlast hafi gildi þann 31. mars 2005 beri ekki með sér að þær breytingar sem á henni hafi verði gerðar frá upphaflegu greinargerðinni byggi á athugasemdum sem við hana hafi verið gerðar. 

Samkvæmt 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé gert ráð fyrir því að deiliskipulag sé kynnt með uppdrætti og greinargerð.  Tilgangur þess sé sá að þeir sem hagsmuna eigi að gæta geti gert athugasemdir við skipulagsskilmálana.  Sé því ljóst að þeim megi ekki breyta eftir að þeir hafa verið kynntir nema breytingarnar séu auglýstar eða að grenndarkynning fari fram. 
    
Kærandi, sem sé eigandi húseignarinnar að Brákarbrautar 11, telji sig ekki hafa haft tækifæri til að gera athugasemdir við að sú viðbygging sem nefnd sé í síðustu útgáfu skipulagsskilmálanna verði heimiluð við húsin Brákarbraut 13 og 15.  Hann hafi gert athugasemdir við skipulagið með bréfi, dags. 15. september 2004, m.a. varðandi nýtingu lóðarinnar að Brákarbraut 15, en hafi ekki haft ástæðu til að mótmæla viðbyggingu við húsið þar sem hún hafi ekki verið nefnd í greinargerðinni.  Athugasemdum hans hafi verið svarað með bréfi bæjarstjóra Borgarbyggðar, dags. 19. nóvember 2005, þar sem fram komi m.a. að uppi séu hugmyndir um tengibyggingu milli húsanna að Brákarbrautar 13 og 15 án þess að þar hafi verið minnst á viðbyggingu við þau hús.  Virðist upphaflegri greinargerð þannig hafa verið breytt í grundvallaratriðum eftir kynningarauglýsingu og samþykkt bæjarstjórnar, m.a. með þeim afleiðingum að þeir sem hagsmuna hafi átt að gæta hafi ekki getað ekki komið að athugasemdum.  Beri því með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997 að auglýsa skipulagið að nýju áður en það öðlist gildi. 

Verði ekki fallist á kröfu kæranda um að skipulagið verði auglýst að nýju styðji hann varakröfu sína þeim rökum að ákvörðun um tengi- og viðbygging við og á milli húsanna að Brákarbraut 13 og 15 feli í sér breytingu á því deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn Borgarbyggðar þann 11. nóvember 2004 og þurfi því a.m.k. að fara fram ítarleg grenndarkynning, sbr. 26. gr. laga nr. 73/1997, eigi breyting á þeim að öðlast gildi.

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar er kröfum kæranda mótmælt og því haldið fram að rétt hafi verið staðið að undirbúningi og gerð hinnar umdeildu ákvörðunar.  Skipulagið hafi verið auglýst lögum samkvæmt og hlotið lögboðna meðferð Skipulagsstofnunar, sem ekki hafi lagst gegn auglýsingu þess í B-deild Stjórnartíðinda eftir að lagfæringar hafi verið gerðar á því í tilefni af athugasemdum stofnunarinnar.

Á fundi bæjarráðs Borgarbyggðar 29. júlí 2004 hafi verið samþykkt að sveitarfélagið skipaði fulltrúa í byggingarnefnd fyrir Landnámssetur í Borgarnesi, en fram hefðu komið hugmyndir um að setrið yrði hýst í húsi sveitarfélagsins að Brákarbraut 15.  Nefndin hafi gert það að tillögu sinni að byggð yrði tengibygging á milli húsanna að Brákarbraut 13 og 15, en eigendur hússins nr. 13 hefðu tekið jákvætt í þá tillögu.  Á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar þann 9. desember 2004 hafi verið samþykkt að veita fjármagni til byggingar tengibyggingar á milli Brákarbrautar 13 og 15.  Gengið hafi verið frá samkomulagi eigenda húsanna um tengibygginguna í mars 2005.  Þá hafi umhverfis- og skipulagsnefnd Borgarbyggðar samþykkt bygginguna, en það hafi verið var gert á fundi nefndarinnar 30. mars 2005.  Einnig hafi Húsafriðunarnefnd veitt umsögn um teikningar að byggingunni og hafi nefndin talið að skálinn raskaði ekki götumyndinni og væri í sátt við gömlu húsin sem fyrir væru auk þess sem hann myndi styðja við starfsemi í báðum húsum, en slíkt stuðlaði að varðveislu húsanna.

Bæjaryfirvöld telji að breytingar á deiliskipulagstillögunni frá því að hún hafi verið auglýst og þar til hún hafi verið staðfest hafi verið unnar í samræmi við skipulagslög nr. 73/1997.  Óskað hafi verið eftir leiðbeiningum Skipulagsstofnunar við þá vinnu, m.a. hvort mögulegt væri að setja umræddan byggingarreit inn á skipulagsuppdrátt.  Telji sveitarfélagið að ekki hafi þurft að auglýsa skipulagstillöguna að nýju þó svo að gerðar hafi verið á henni minniháttar breytingar og lagfæringar.  Með bréfi bæjarstjóra, dagsettu 19. nóvember 2004, til kæranda hafi verið vakin athygli á því að áformað væri að reisa tengibyggingu á milli Brákarbrautar 13 og 15.  Hlutverk byggingarinnar sé að tengja þá safnastarfsemi sem fyrirhuguð sé að Brákarbraut 15 við veitingarekstur í húsinu að Brákarbraut 13.  Bæjaryfirvöld telji að byggingin muni falla vel að umhverfinu enda sé umsögn Húsafriðunarnefndar um hana afar jákvæð.  Það hafi verið mat skipulagsyfirvalda í Borgarbyggð að ekki þyrfti að fara með þessa breytingu á skipulagstillögunni í sérstaka grenndarkynningu, enda um óverulega breytingu á þegar samþykktu skipulagi að ræða.  Þá verði ekki heldur séð að umrædd breyting á skipulaginu raski hagsmunum kæranda sem eiganda hússins að Brákarbraut 11. 

Bæjaryfirvöld í Borgarbyggð telja að öll vinna við skipulagstillöguna hafi farið fram í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997.  Þá sé ljóst að með bréfi sínu dagsettu 10. mars 2005 geri Skipulagsstofnun ekki athugasemdir við að samþykkt skipulagsins sé auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Með vísan til ofanritaðs telji bæjaryfirvöld að hafna beri kærunni og þar með öllum kröfum kæranda vegna deiliskipulags fyrir gamla miðbæinn í Borgarnesi.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki veriða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 12. janúar 2006 að viðstöddum kæranda og fulltrúum Borgarbyggðar.

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á deiliskipulagi gamla miðbæjarins í Borgarnesi og að lagt verði fyrir bæjarstjórn Borgarbyggðar að auglýsa skipulagið að nýju.  Til vara er þess krafist að fram fari grenndarkynning vegna viðbyggingar við húsin Brákarbraut 13 og 15.  Eru kröfur kæranda studdar þeim rökum að undirbúningi og gerð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið verulega áfátt og að ekki hafi verið gætt ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við meðferð málsins.

Fallast verður á með kæranda að málsmeðferð sveitarstjórnar við gerð skipulagsins hafi að ýmsu leyti verið áfátt.  Verður m.a. ekki ráðið af málsgögnum hvenær fallist hafi verið á þær breytingar sem gerðar voru í tilefni af athugasemdum kæranda þótt fyrir liggi upplýsingar um svör við athugasemdum sem gefi nokkra vísbendingu þar um.  Verður og að átelja að svo virðist sem skort hafi á að gögn sem send voru Skipulagsstofnun til meðferðar væru árituð um samþykki sveitarstjórnar og gætir misræmis milli þeirra gagna annars vegar og gagna sveitarstjórnar hins vegar í því efni.

Þrátt fyrir þessa annmarka verður að telja að breytingar þær sem gerðar voru í tilefni af athugasemdum kæranda, þar sem komið var til móts við sjónarmið hans, hafi rúmast innan þeirra marka sem telja verður að sveitarstjórn hafi með stoð í 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 til að gera breytingar á skipulagstillögu í tilefni af framkomnum athugasemdum, en ráðið verður af bréfi bæjarstjóra til kæranda, dags. 19. nóvember 2004, að ákvörðun um breytingar þessar hafi legið fyrir áður en skipulagsákvörðunin var send Skipulagsstofnun til afgreiðslu með bréfi hinn 30. nóvember 2004.  Verður ekki fallist á að með umræddum breytingum hafi skipulagstillögunni verði breytt í grundvallaratriðum þannig að skylt hafi verið að auglýsa hana að nýju samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997.  Verður því ekki fallist á með kæranda að ógilda beri hið umdeilda skipulag af þessum sökum. 

Ekki verður heldur fallist á að ógilda beri skipulagið vegna þeirrar skerðingar sem með því er gerð á lóð kæranda.  Leiðir af staðháttum og stærð lóðarinnar að umrædd skerðing verður ekki talin fela í sér ólögmætt inngrip í rétt kæranda, enda er honum tryggður réttur til skaðabóta fyrir það tjón sem hann kann að verða fyrir af þessum sökum, sbr. ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Eftir stendur að ákvörðun um stærð og fyrirkomulag tengi- og viðbyggingar að Brákarbraut 13 og 15, og um byggingarreit hennar, virðist fyrst hafa verið tekin eftir að sveitarstjórn samþykkti skipulagstillöguna og sendi Skipulagsstofnun til afgreiðslu.  Í þessu felst að efnisbreyting var gerð á skipulagstillögunni án atbeina sveitarstjónar og virðist bæði greinargerð og uppdrætti hafa verið breytt eftir samþykkt sveitarstjórnar.  Samrýmist slík málsmeðferð ekki ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um undirbúning og gerð skipulagsáætlana og er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki sé í hinu umdeilda skipulagi fullnægjandi heimild fyrir umdeildri tengi- og viðbyggingu að Brákarbraut 13 og 15.

Telja verður að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda umræddri breytingu, bæði vegna sjónrænna áhrifa og aukinnar umferðar, sem gera verður ráð fyrir að fylgi auknu byggingarmagni á svæðinu.  Verður krafa kæranda um ógildingu því tekin til úrlausnar en með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki koma til álita að ógilda skipulagið í heild heldur verður einugis leyst úr kröfu kæranda að því er tekur til tengi- og viðbyggingarinnar að Brákarbraut 13 og 15.  Þykir rétt, vegna réttaráhrifa auglýsingar um skipulagið í B-deild Stjórnartíðinda, að ógilda þá heimild sem er í auglýstu skipulagi til byggingar tengi- og viðbyggingar að Brákarbraut 13 og15 í Borgarnesi.

Engin efni eru til að fallast á kröfu kæranda um að úrskurðarnefndin kveði á um að fram fari grenndarkynning á þeim hluta skipulagsins sem sætir ógildingu samkvæmt úrskurði þessum og verður þeirri kröfu vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu skipulagsákvörðunar er hafnað að öðru leyti en því að felld er úr gildi heimild fyrir tengi- og viðbyggingu að Brákarbraut 13 og 15 í Borgarbyggð, sem gert er ráð fyrir í auglýstu skipulagi.  Kröfu kæranda um að fram fari grenndarkynning vegna viðbyggingar við húsin Brákarbraut 13 og 15 er vísað frá. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson      

 

 
_____________________________            ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                     Aðalheiður Jóhannsdóttir

 

30/2004 Grund

Með

Ár 2005, miðvikudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2004, kæra eiganda lóðar í landi Grundar, Mosfellsbæ á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 21. janúar 2004 að samþykkja deiliskipulag frá Reykjalundarvegi að Húsadal og ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 9. mars 2004 um að hafna erindi kæranda um samþykki fyrir tveimur byggingarreitum á nefndri lóð.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. apríl 2004, er barst nefndinni hinn 7. maí s.á. og með bréfi, dags. 7. maí 2004, er barst nefndinni sama dag, kærir L, Grund Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 21. janúar 2004 að samþykkja deiliskipulag frá Reykjalundarvegi að Húsadal og ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 9. mars 2004 að hafna beiðni kæranda um að gert yrði ráð fyrir tveimur nýbyggingarreitum á lóð hans í landi Grundar, Mosfellsbæ í nefndu skipulagi.  Bæjarstjórn Mosfellsbæjar staðfesti greinda ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar hinn 17. mars 2004 og auglýsing um gildistöku hins kærða deiliskipulags birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. apríl 2004.

Kærandi, L, er nú látinn en eftirlifandi maki hans, sem hefur fengið leyfi til setu í óskiptu búi, hefur tekið við rekstri kærumálsins.  Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Málavextir:  Kærandi er eigandi að u.þ.b. 5000 fermetra landspildu er liggur að Varmá í Mosfellsbæ og hefur þar staðið sumarhús sem mun hafa verið í eigu hans um áratuga skeið.

Á árinu 2003 var unnið að deiliskipulagsbreytingu fyrir Reykjalund er tók til um 42 hektara svæðis við Varmá frá Reykjalundarvegi að Húsadal í Mosfellsbæ og er spilda kæranda innan þess skipulagssvæðis.  Gerði tillagan ráð fyrir að á umræddu svæði yrði íbúðarbyggð en áður hafði svæðið verið nýtt undir sumarhús og blandaða byggð. Skipulagstillagan gerði ráð fyrir 54 nýjum byggingarlóðum undir heilsárshús.  Við auglýsingu deiliskipulagstillögunnar setti kærandi fram athugasemdir við fyrirhugaða nýtingu á landspildu hans í bréfi, dags. 25. nóvember 2003, og gerði kröfu um að í deiliskipulaginu yrði gert ráð fyrir lóðum undir tvö hús auk lóðar undir hús það sem á landspildunni stendur.

Skipulagstillagan var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar hinn 13. janúar 2004 þar sem fjallað var um framkomnar athugasemdir og samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillöguna með áorðnum breytingum.  Í tillögunni var ekki gert ráð fyrir öðru húsi á landi kæranda en því sem fyrir var með heimilaðri stækkun úr 50 fermetrum í 110 fermetra.  Var kröfu kæranda um aukna nýtingu á landi hans svarað með svofelldri bókun á fundinum:  „Nefndin getur ekki fallist á framkomið erindi um fjölgun bygginga á landinu.  Fjölgun bygginga á þessum stað mun breyta þeirri ásýnd sem Varmáin og næsta nágrenni hefur sem gróðurvin í þéttbýli og samræmist ekki stefnumörkun í aðalskipulagi og umhverfisskipulagi sem samþykkt var fyrir Varmársvæðið.  Til þess að fjölga byggingum á landinu þarf að fella mikið af þeim skógi sem fyrir er, sem mun hafa neikvæð áhrif á ásýnd svæðisins.  Einn byggingarreiturinn sem þið óskið eftir er alveg á árbakkanum, sem er óásættanlegt.  Landhalli gerir aðkomu inn á landið erfiða og og húsin munu að mati nefndarinnar fara illa í landi vegna landhalla.”   Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu þessa á fundi sínum hinn 21. janúar 2004 og var deiliskipulagstillagan send Skipulagsstofnun til umfjöllunar og síðan auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. apríl 2004.

Í kjölfar tilkynningar Mosfellsbæjar til kæranda um fyrrgreinda afgreiðslu bæjarstjórnar sendi hann bæjarverkfræðingi Mosfellsbæjar bréf, dags. 26. febrúar 2004, þar sem farið var fram á endurskoðun bæjaryfirvalda á umræddri deiliskipulagsákvörðun og að heimilaðar yrðu lóðir undir tvö ný hús á landi hans.  Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 9. mars 2004 og því hafnað með skírskotun til fyrri afstöðu um það efni við meðferð deiliskipulagstillögunnar fyrir greint svæði.  Bæjarstjórn staðfesti afstöðu nefndarinnar á fundi sínum hinn 17. mars sama ár.

Kærandi undi ekki þessum málalyktum og skaut téðri deiliskipulagsbreytingu og synjun á endurskoðun hennar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að hann hafi átt umrædda landspildu og búið þar í yfir hálfa öld.  Með hinu kærða skipulagi hafi landnotkun svæðisins verið breytt að mestu í íbúðarsvæði og í fyrstu drögum að skipulaginu hafi verið gert ráð fyrir tveimur nýjum byggingarreitum á landi kæranda sem síðar hafi verið teknir út af lokauppdrætti án skýringa eða raka.  Flestir ef ekki allir landeigendur á svæðinu hafi hins vegar fengið heimildir til nýtingar sinna landa með eðlilegum hætti.  Í svari Mosfellsbæjar við óskum kæranda um nýtingu landsins felist engin efnisleg rök fyrir því hvers vegna honum sé óheimilt að nýta land sitt til jafns við aðra á svæðinu og bendir hann á að aðkeyrsla að landi hans og bílastæði séu þegar til staðar.

Engin hagsmunarök séu tilgreind né sýnileg fyrir afstöðu bæjaryfirvalda til athugasemda og erinda kæranda sem eigi verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta að fá að nýta eign sína með eðlilegum hætti á við aðra á svæðinu.  Hinar kærðu ákvarðanir fari því í bága við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga og feli jafnframt í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. sömu laga og beri því að fella þær úr gildi.

Málsrök Mosfellsbæjar:  Bæjaryfirvöld gera þær kröfur að synjun skipulags- og byggingarnefndar frá 7. mars 2004 á umsókn kæranda um tvær byggingarlóðir í landi Grundar verði staðfest og kæru vegna staðfestingar umdeilds deiliskipulags verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfu kæranda þar að lútandi verði hafnað.

Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 fari skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna og annist þær gerð aðal- og deiliskipulags vegna alls lands innan sveitarfélags sem skuli vera í innbyrðis samræmi.  Umrætt deiliskipulag, er taki m.a. til lands kæranda, hafi verið samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 21. janúar 2004 og hafi þau helstu markmið skv. gr. 1.1 í skipulagsskilmálum að mynda heildstætt skipulag fyrir Varmá með grænu yfirbragði, að þétta og styrkja núverandi byggð og viðhalda núverandi einkennum, að bæta umhverfi Varmár og aðgengi að henni, að bæta umferðarkerfi og tengingar við núverandi götur og tekið sé tillit til núverandi umhverfisskipulags.  Jafnframt sé því ætlað að efla þau náttúrulegu landgæði sem séu á svæðinu, sbr. gr. 1.3 í nefndum skilmálum.  Þessum markmiðum sé m.a. náð með því að gera 50 metra breitt belti beggja vegna Varmár að hverfisverndarsvæði þar sem nýbyggingar séu bannaðar nema þeirra sé sérstaklega getið í deiliskipulagi, en það heimili 54 nýjar lóðir á skipulagssvæðinu. 

Hvað varði umsókn kæranda frá 26. febrúar 2004 um tvær byggingarlóðir sé það mat Mosfellsbæjar að ekki hafi verið heimilt að verða við þeirri beiðni kæranda þar sem slíkt hafi ekki átt stoð í nýsamþykktu deiliskipulagi en ástæða þess að svo hafi ekki verið sé sú að fjölgun bygginga á umræddum stað breytti ásýnd hans sem gróðurvinjar í þéttbýli og færi gegn stefnu aðal- og umhverfisskipulags.  Ef fallist yrði á ósk kæranda um nýjar byggingarlóðir yrði að fella mikið af þeim skógi er fyrir væri á svæðinu er hefði neikvæð áhrif á ásýnd svæðisins og væru lóðirnar auk þess innan 50 metra fyrrgreinds hverfisverndarsvæðis.

Umdeild synjun hafi ekki falið í sér brot á meðalhófsreglu eða jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.  Þeir sem sækja kunni um fjölgun byggingarlóða á skipulagsvæðinu frá því sem ráð sé fyrir gert í skipulaginu muni hljóta sömu afgreiðslu sem kærandi.  Beinlínis hafi verið óheimilt að verða við óskum kæranda um nýjar byggingarlóðir þar sem bæjaryfirvöld hafi brostið vald til slíkrar afgreiðslu.  Jafnframt hefði sú niðurstaða getað leitt til málskots af hálfu eigenda nágrannalóða vegna brota á deiliskipulagi.

Málsmeðferð og afgreiðsla Mosfellsbæjar á beiðni kæranda frá 26. febrúar 2004 hafi verið í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir, skipulags- og byggingarlög og stjórnsýslulög og beri því að hafna ógildingarkröfu kæranda. 

Vísa beri kæru, dags. 7. maí 2004, vegna staðfestingar umrædds deiliskipulags frá sökum vanreifunar.  Kæran sé stuttorð og vísi í kæru, dags. 30. apríl 2004, á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á beiðni kæranda um tvær nýjar byggingarlóðir á landi hans.  Ekki sé hægt að átta sig á því um hvað kæran snúist og í hverju hún sé frábrugðin kærunni frá  30. apríl 2004.  Hún sé órökstudd og því ekki unnt að verjast henni.  Sé kæran af þeim sökum ekki tæk til málsmeðferðar fyrir úrskurðarnefndinni með hliðsjón af 3. gr. reglugerðar nr. 621/1997.

Verði kæran engu að síður tekin til efnismeðferðar vísa bæjaryfirvöld til röksemda þeirra sem raktar séu í umfjöllun um málskot kæranda frá 30. apríl 2004 og snerti téð deiliskipulag.  Bent er á að málsmeðferð skipulagsins hafi verið í fullu samræmi við lög enda hafi ekki öðru verið haldið fram af hálfu kæranda.  Sé því ekki efni til að ógilda deiliskipulagsákvörðunina.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin fór hinn 22. október 2004 á vettvang og kynnti sér staðhætti á umræddu svæði. 

Niðurstaða:  Með bréfum kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags, 30. apríl og 7. maí 2004, er skotið til nefndarinnar samþykkt umdeilds deiliskipulags og höfnun á beiðni kæranda um að í deiliskipulaginu yrði gert ráð fyrir tveimur byggingarreitum til viðbótar þeim sem fyrir var á eignarlandi hans. Telja verður að í því erindi hafi falist beiðni um endurupptöku skipulagsákvörðunarinnar en heimild fyrir slíkri beiðni er í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Fyrir liggur að ástæðan fyrir kæru á nefndum ákvörðunum er sú að kærandi telur deiliskipulagið skerða óhæfilega nýtingarmöguleika á eignarlandi hans á skipulagssvæðinu.  Verður samkvæmt þessu ekki fallist á kröfu bæjaryfirvalda Mosfellsbæjar um frávísun á kæru vegna samþykktar umrædds deiliskipulags vegna vanreifunar enda hlýtur frávísun máls á stjórnsýslustigi af þeim sökum að heyra til algerrar undantekningar með hliðsjón af leiðbeiningarskyldu og rannsóknarreglu 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga. 

Umrætt skipulagssvæði liggur beggja vegna Varmár og er með hinu kærða deiliskipulagi að meginstefnu til gert að íbúðarsvæði.  Í greinargerð deiliskipulagsins kemur fram að nýtingarhlutfall á svæðinu hafi verið um eða innan við 0,1 en með skipulaginu  séu heimilaðar 54 nýjar byggingarlóðir á skipulagssvæðinu.  Ekki verður af skipulagsuppdrættinum ráðið hvernig mörkum einstakra eignarlanda á svæðinu er háttað en unnt er að finna út nýtingarhlutfall einstakra lóða með samanburði á lóðarstærð, þar sem hún er tilgreind á uppdrætti, og heimiluðu byggingarmagni á þeim lóðum samkvæmt töflu þar um í deiliskipulagsgreinargerð.  Þannig er nýtingarhlutfall tveggja lóða við húsagötu A nr. 4 og 6 í næsta nágrenni við land kæranda 0,08 og 0,1 og nýtingarhlutfall lóðanna nr. 6 og 10 við húsagötu B 0,26 og 0,19, en greindar lóðir liggja allar nærri bökkum Varmár.  Land kæranda, sem merkt er nr. 10 við húsagötu A, mun vera um 5000 fermetrar en heimilað byggingarmagn er 110 fermetrar og er nýtingarhlutfallið því 0,02.  Blasir við að heimiluð nýting lands kæranda er miklum mun minni en á ýmsum öðrum lóðum á skipulagssvæðinu.

Ekki verður séð að fleiri byggingar á landi kæranda breyti ásýnd skipulagssvæðisins umfram ýmsar aðrar heimilaðar nýbyggingar á svæðinu og ekki hefur verið sýnt fram á með hvaða hætti væri brotið gegn aðalskipulagi Mosfellsbæjar þótt heimilað yrði aukið byggingarmagn á landi kæranda.  Þá verður ekki fallist á þau rök fyrir synjun á frekari nýtingu landsins að trjágróður í eigu kæranda þyrfti að víkja af þeim sökum.  Í hinu kærða deiliskipulagi eru ekki ráðagerðir um að bæjaryfirvöld hyggist taka hluta af landi kæranda til almannanota.  Landhalli er að sönnu nokkur í landi kæranda sem takmarkar nýtingarmöguleika þess, en hvorki sú staðreynd né álitamál varðandi aðkomu inn á svæðið getur, að mati úrskurðarnefndarinnar, réttlætt svo takmarkaðar heimildir til nýtingar landsins sem raun ber vitni þegar litið er til nýtingarrétta á ýmsum öðrum lóðir á svæðinu.

Sveitarstjórnir hafa skipulagsvald á sínu landsvæði samkvæmt 2. mgr. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en við beitingu þess valds verður að gæta að ýmsum meginreglum stjórnsýsluréttarins, svo sem meðalhófs- og jafnræðisreglu.  Þá verður að hafa í huga markmið skipulags- og byggingarlaga sem tíunduð eru í 1. gr. laganna, en í 4. mgr. þess ákvæðis er tekið fram að tryggja skuli réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið þykja ekki framkomin haldbær rök fyrir því að takmarka nýtingarmöguleika á landi kæranda svo verulega sem raun ber vitni.  Hefur ekki verið sýnt fram á almannaþörf eða aðrar máefnalegar ástæður fyrir slíkri takmörkun og ekki þykir í ljós leitt að þau skipulagsmarkmið, sem sett eru fram í greinargerð hins umdeilda skipulags væru fyrir borð borin þótt komið yrði til móts við óskir kæranda um aukna nýtingu á landi hans.

Verður því fallist á kröfu kæranda um ógildingu hins kærða deiliskipulags en þar sem rökin að baki þeirri niðurstöðu lúta einungis að nýtingu á landspildu kæranda verður látið við það sitja með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga að fella skipulagsákvörðunina úr gildi að því er varðar land kæranda.

Að þessari niðurstöðu fenginni er ekki tilefni til að taka afstöðu til lögmætis þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 17. mars 2004 að synja beiðni kæranda um endurskoðun hins kærða deiliskipulags.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 21. janúar 2004, að samþykkja deiliskipulag frá Reykjalundarvegi að Húsadal er fellt úr gildi að því er tekur til lóðarspildu kæranda í landi Grundar, Mosfellsbæ.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                         Ingibjörg Ingvadóttir

13/2002 Skuggahverfi

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 13. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2002, kærur 71 íbúa og eigenda íbúða við Klapparstíg og Skúlagötu í Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. apríl 2002 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Skugghverfi, Eimskipafélagsreit.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi, dags. 15. maí 2002, kæra K, G og Þ f.h. íbúa á Völundarlóð ákvörðun um deiliskipulag í Skuggahverfi.  Kæru þeirra fylgja undirskriftarlistar með kærum 59 íbúa á svæðinu. Með bréfi, dags. 16. maí 2002, kærir Kristján Stefánsson hrl., f.h. H og Á, eigenda íbúðar að Skúlagötu 10, breytt skipulag Skugghverfis, sbr. samþykkt borgarráðs 16. apríl 2002.  Loks kæra 7 íbúar að Skúlagötu 10 sömu ákvörðun, með ódagsettu bréfi sem barst úrskurðarnefndinni hinn 17. maí 2002.  Erindi þessi lúta öll að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. apríl 2002, sem staðfest var á fundi borgarráðs hinn 16. apríl 2002, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir svæði í Skuggahverfi, sem afmarkast af Sæbraut (áður Sætún) til norðurs, Snorrabraut til austurs, Hverfisgötu til suðurs og Ingólfsstræti til vesturs.  Hafa framangreind kærumál verið sameinuð, enda er um sama úrlausnarefni að tefla í öllum málunum og fara hagsmunir kærenda saman.

Kröfur kærenda eru eftirfarandi:

K, G og Þ, f.h. íbúa á Völundarlóð krefjast þess að hæðir húsa og fjöldi íbúða verði færður til samræmis við áður samþykkt nýtingarhlutfall svæðisins og jafnræðis verði gætt.  Þá krefjast þeir þess að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda skipulagi verið ekki hafnar meðan úrskurðarnefndin hafi kærumál þeirra til meðferðar.

Af hálfu sjö íbúa að Skúlagötu 10 er þess krafist að horfið verði til áður samþykkts nýtingarhlutfalls og byggingar lækkaðar verulega.

Kristján Stefánsson hrl., f.h. H og Á, krefst þess aðallega að nýtt deiliskipulag fyrir Skuggahverfi Reykjavíkurborgar verði ógilt, en til vara að því verði breytt á þann veg að byggingar á reitnum, er liggi að Skúlagötu 10, verði færðar fjær lóðarmörkum og Skúlagötu, auk þess verði byggingar á horninu ekki leyfðar hærri en 2 hæðir.

Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í kröfugerð kærenda að í henni felist krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Ekki hefur komið til þess að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda skipulagi hæfust og verður krafa kærenda um stöðvun framkvæmda því ekki tekin sérstaklega til úrlausnar.

Málavextir:  Hinn 19. september 1985 var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur deiliskipulag Skúlagötusvæðis eða Skuggahverfis, sem afmarkast af Sætúni til norðurs, Snorrabraut til austurs, Hverfisgötu til suðurs og Ingólfsstræti til vesturs.  Skipulag þetta hlaut afgreiðslu Skipulagsstjórnar ríkisins og var staðfest af félagsmálaráðherra hinn 13. maí 1986.  Var í skipulagi þessu gert ráð fyrir að á svæðinu risi þétt íbúðabyggð auk húsnæðis fyrir ýmsa miðbæjarstarfsemi, stjórnsýslu, verslun, þjónustu og smáiðnað.  Í greinargerð skipulagsins var tekið fram að hugsanlegt væri að á svæðinu risi hótel og/eða íbúðir aldraðra og að við framhald vinnu við skipulag svæðisins yrði gerð nánari grein fyrir húsagerðum, endurbyggingarrétti einstakra lóða, skilmálum um form o.fl., götuhönnun, umhverfismótun og göngustígum meðfram sjávarlínu, ásamt öðrum þáttum sem því tengdust að færa tillöguna á framkvæmdastig.

Breytingar hafa verið gerðar á deiliskipulagi þessu eftir gildistöku þess varðandi einstaka reiti innan skipulagssvæðisins.  Þannig var snemma árs 1990 gerð sú breyting að á reit innan Frakkastígs, Lindargötu, Vatnsstígs og Sætúns mætti reisa hótel og koma fyrir bílastæðum en jafnframt voru gerðar breytingar á skipulagi aðliggjandi reits vestan Vatnsstígs, tengdar þessum áformum.  Þá voru breytingar gerðar á deiliskipulagi lóðanna nr. 1-7 við Klapparstíg og nr. 10 við Skúlagötu seint á árinu 1996.

Á árinu 2000 hófst vinna við endurskoðun á gildandi skipulagi svæðis sem afmarkast af Skúlagötu til norðurs, Frakkastíg til austurs, Hverfisgötu til suðurs og Klapparstíg til vesturs í samráði við eigendur stærsta hluta óbyggða svæðisins norðan Lindargötu.  Kynntu eigendur óbyggða svæðisins tillögu sína að deiliskipulagi þess fyrir skipulags- og umferðarnefnd á fundi nefndarinnar þann 6. mars 2000.  Með bréfi, dags. 13. mars 2000, var hagsmunaaðilum á svæðinu tilkynnt um að vinna við endurskoðun skipulags svæðisins væri hafin og tillaga að skipulagi þess yrði kynnt innan tíðar.  Tillaga að skipulagi svæðisins var næst kynnt fyrir skipulags- og umferðarnefnd þann 22. maí 2000 og aftur 10. júlí s.á.  Á þeim fundi ákvað nefndin að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu og var tillagan kynnt frá 15. júlí til 17. ágúst 2000.

Eftir kynninguna var endurskoðuð tillaga að skipulagi svæðisins lögð fyrir skipulags- og byggingarnefnd þann 22. nóvember 2000.  Þann 29. nóvember sama ár samþykkti nefndin að kynna tillögu, dags. 13. nóvember 2000, fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu með þeirri breytingu að hæðarkótar hæstu húsa tækju mið af hæð þeirra húsa sem hæst hefðu verið samþykkt við Skúlagötu.  Var sú samþykkt staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur þann 27. desember 2000.

Málið var á ný tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd þann 21. febrúar 2001 en þá var kynnt ný tillaga að skipulagi svæðisins þar sem tekið hafði verið mið af athugasemdum nefndarinnar frá 29. nóvember 2000.  Á þeim fundi var einnig lögð fram umsögn Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur um skólaþörf vegna fjölgunar íbúa í hverfinu, dags. 24. janúar 2001.  Samþykkti nefndin að unnið yrði áfram með tillöguna á grundvelli framlagðrar tillögu um hæð fremstu húsa.  Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum þann 27. febrúar s.á.

Í kjölfar framangreinds voru hagsmunaaðilar boðaðir til kynningarfundar um tillögu að skipulagi svæðisins í sal Borgarbókasafns að Tryggvagötu 15 þann 3. apríl 2001.  Á þeim fundi var tillagan kynnt, gerð grein fyrir framvindu málsins og hagsmunaaðilum gefið færi á að leita svara við ýmsum spurningum varðandi málið, en fundurinn var mjög fjölmennur.  Málið var lagt fyrir skipulags- og byggingarnefnd þann 7. nóvember 2001 og samþykkt að kynna tillöguna á ný fyrir hagsmunaðilum þar sem hún hefði tekið nokkrum breytingum, auk þess sem fallið hafði verið frá umfangsmiklum breytingum á skipulagi reitanna sunnan Lindargötu, en mestar athugasemdir við skipulagið höfðu komið frá eigendum húsa á því svæði.  Í þessu skyni var haldinn kynningarfundur í Tjarnarsal ráðhúss Reykjavíkurborgar þann 27. nóvember 2001.

Málið var enn tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 17. desember 2001 og bókað að kynna ætti tillöguna fyrir hagsmunaðilum.  Var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs þann 18. desember s.á.  Afgreiðsla þessi var leiðrétt á fundi nefndarinnar þann 16. janúar 2002 þar sem í raun hafði verið samþykkt að auglýsa tillöguna til kynningar en ekki að kynna hana fyrir hagsmunaaðilum.  Var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs þann 22. janúar 2002.  Í kjölfar þess var tillaga að deiliskipulagi reitsins auglýst til kynningar skv. ákvæði 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var tillagan til kynningar frá 30. janúar 2002 til 13. mars 2002 og var athugasemdafrestur til sama tíma.  Athugasemdabréf bárust frá fjölmörgum íbúum á svæðinu, svo og frá Fornleifavernd ríkisins.

Tillagan var tekin fyrir á ný, að lokinni auglýsingu, á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 10. apríl 2002 ásamt athugasemdum og umsögn  skipulagsfulltrúa um þær, dags. 8. apríl 2002.  Á þeim fundi var hin auglýsta tillaga samþykkt og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum þann 16. apríl s.á.  Var athugasemdaaðilum tilkynnt um þá afgreiðslu tillögunnar með bréfi, dags. 17. apríl 2002.  Tillagan var að því loknu send til skoðunar Skipulagsstofnunar.  Með bréfi, dags. 18. júní 2002, óskaði stofnunin eftir lagfæringum og skýringum á nokkrum atriðum áður en málið yrði afgreitt.  Lagfærður uppdráttur í samræmi við athugasemdir Skipulagsstofnunar var sendur stofnuninni til meðferðar.  Var um að ræða lagfæringar til að skýra efni skipulagsins betur, en engar efnislegar breytingar voru gerðar á tillögunni.  Með bréfi, dags. 21. október 2002, tilkynnti Skipulagsstofnun að hún gerði ekki athugasemd við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda þegar Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 hefði tekið gildi en staðfesting þess hafði tafist.  Þrátt fyrir framangreindan fyrirvara Skipulagsstofnunar var, fyrir mistök, birt auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda þann 30. október 2002 en auglýsing um gildistöku hins nýja aðalskipulags hafði þá ekki verið birt.  Ný auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins og afturköllun fyrri auglýsingar birtist í B-deild Stjórnartíðinda þann 15. janúar 2003.

Á sama tíma og unnið var að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar var unnið að gerð nýs aðalskipulags Reykjavíkur.  Auglýsing um tillögu að nýju aðalskipulagi var auglýst til kynningar hinn 23. janúar 2002 og stóð kynningin til 6. mars 2002.  Var tillagan samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 18. apríl 2002 en vegna dráttar á staðfestingu þess var auglýsing um gildistöku þess ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda fyrr en hinn 10. janúar 2003.

Málsrök kærenda:  Nokkur blæbrigðamunur er á málatilbúnaði einstakra kærenda.  Í meginatriðum er á því byggt að nýtingarhlutfall samkvæmt hinu breytta skipulagi sé hærra en verið hafi samkvæmt eldra skipulagi.  Þá sé hámarkshæð húsa aukin verulega.  Þar við bætist að salarhæð sé meiri en almennt gerist og auki það enn á hæð nýbygginga samkvæmt skipulaginu.  Íbúar á deiliskipulögðu svæði eigi ekki að þurfa að sæta því að skipulagi sé breytt á þann veg að íþyngjandi sé fyrir þá.  Auknu byggingamagni fylgi aukið skuggavarp og umferð, svo og skerðing á útsýni.  Þá séu rangfærslur í umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir kærenda og annarra nágranna.  Nokkrir kærenda telja að ekki megi leyfa íbúðarbyggingar í þeirri nálægð við bensínstöð, sem ráðgert sé í hinu umdeilda skipulagi.   

Í kæru Kristjáns Stefánssonar hrl., f.h. eigenda íbúðar að Skúlagötu 10, er vísað til þess að kærendur hafi mótmælt tillögunni þar sem þau telji hana skerða útsýni og varpa meiri skugga á fasteign sína en eldra skipulag hafi gert ráð fyrir.  Eldra skipulag hafi tryggt þeim betra útsýni og sólarljós, en það hafi þau lagt til grundvallar við kaup á íbúð sinni og greitt hærra verð fyrir hana af þessum ástæðum.  Þá halda þessir kærendur því fram að ekki hafi verið tekið sérstaklega á athugasemdum þeirra í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. apríl 2002, og að staðhæfing í umsögninni um að haft hafi verið til hliðsjónar við gerð tillögunnar að hún skerti ekki gæði byggðarinnar sem fyrir væri á svæðinu stangist á við staðreyndir.  Kærendur telja einnig að skipulagsuppdrátturinn sé ekki réttur og vísa í því sambandi til þess að útbyggingar á austurhlið hússins að Skúlagötu 10 séu ekki sýndar og lóðarmörk ráðin fast við austurgafl hússins án samráðs við þau.  Í tillögum sem hafi áður verið kynntar hafi hæð húsa á vesturmörkum verið bundin við 2-3 hæðir en ákvarðaðar +4 í skipulaginu.  Undrar kærendur að endurtekin þörf sé á breytingum á aðeins 10 ára gömlu skipulagi á kostnað eldri byggðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kærum Kristins Gunnarssonar, Gunnars M. Hanssonar og Þorsteins B. Eggertssonar, f.h. íbúa á Völundarlóð, kæru sjö íbúa að Skúlagötu 10 sem og varakröfu Kristjáns Stefánsson hrl., f.h. Helga Vignis Kristinssonar og Ásgerðar F. Guðbrandsdóttur, eigenda íbúðar að Skúlagötu 10, verði vísað frá nefndinni.  Að frávísunarkröfum frátöldum er þess krafist að hin kærða ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur, um samþykkt deiliskipulagsins, standi óröskuð og að hafnað verði kröfu um stöðvun framkvæmda.

Í framhaldsgreinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 19. febrúar 2003, þar sem reifuð eru sjónarmið borgarinnar um álitaefni er varða málsmeðferð við skipulagsgerðina, sem úrskurðarnefndin hafði gefið borgaryfirvöldum kost á að tjá sig um, er sett fram sú krafa að hin kærða ákvörðun verði einungis ógilt að hluta, þ.e. einungis að því er varðar þann hluta svæðisins þar sem skipulagsákvörðunin felur í sér breytingu á landnotkun.

Frávísunarkröfu sína styður Reykjavíkurborg þeim rökum að þær kærur og sú krafa sem krafist sé frávísunar á verði ekki skildar á annan hátt en að þess sé krafist að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála breyti deiliskipulaginu eins og nánar greini í kærum.  Úrskurðarnefndin fari ekki með skipulagsvald og geti því aðeins fellt skipulagið úr gildi eða staðfest það.  Í þeim kærum og þeirri kröfu sem krafist sé frávísunar á sé ekki gerð krafa um að deiliskipulagið í heild verði fellt úr gildi.  Í ljósi framangreinds, beri nefndinni að vísa tilgreindum kærum og kröfu frá.  Að auki sé kæra 7 íbúa að Skúlagötu 10 vanreifuð og sé einnig krafist frávísunar hennar á þeirri forsendu, sbr. m.a. 3. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefnd skv. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Að öðru leyti er þess krafist að hin kærða ákvörðun standi óröskuð. Telja borgaryfirvöld að málsmeðferð skipulagstillögunnar, samráð og kynning hafi verið vönduð og í fullu samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Ljóst sé því að hin kærða ákvörðun verði ekki felld úr gildi á þeim grundvelli að gallar hafi verið á meðferð hennar að þessu leyti.

Reykjavíkurborg mótmælir því að athugasemdum kærenda hafi ekki verið svarað í umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir, sbr. t.d. umfjöllun í 3. mgr. undir liðnum „Hæðir húsa“.  Hvað varði athugasemdir um að skipulagsuppdrátturinn sé ekki réttur, þ.e. að útbyggingar á austurhlið Skúlagötu 10 séu ekki sýndar, þá sé það rétt ábending. Svo virðist vera að við gerð tillögunnar hafi þessar útbyggingar fallið út.  Það hafi þó ekki þýðingu í málinu enda útbyggingar þessar ekki verulegar og Reykjavíkurborg kunnugt um þær sem og skipulagshöfundum.  Þessi smávægilega villa hafi engin áhrif á skipulagstillöguna.  Lóðarmörkin samkvæmt tillögunni séu hins vegar rétt og eins og fram komi á mæliblaði séu kvaðir á báðum lóðunum um að heimilt sé að byggja svalir og glugga út fyrir lóðarmörkin.   

Með hliðsjón af umfjöllun í kæru Kristjáns Stefánssonar hrl., f.h. eigenda íbúðar að Skúlagötu 10, verði að telja að þeir kærendur byggi kröfu sína um ógildingu skipulagsins fyrst og fremst á grenndarréttarlegum sjónarmiðum um skerðingu útsýnis og aukið skuggavarp.  Í því sambandi verði að bera saman gildandi skipulag af svæðinu frá 1990 og hið kærða skipulag.  Skipulagið frá 1990 hafi gert ráð fyrir að byggt yrði hús sem væri 4, 6, 7 og 9 hæðir skammt sunnan við húsið nr. 10 við Skúlagötu, alveg að austurlóðarmörkum þess.  Í hinu kærða deiliskipulagi hafi verið fallið frá þessu og byggingarnar færðar frá lóðarmörkunum og sé 9 hæða byggingin bæði austar og sunnar á lóðinni en áður hafi verið ráðgert.  Leiði þessi breyting til þess að útsýni til suðurs verði meira og skuggavarp minna upp úr hádegi en samkvæmt eldra skipulagi.  Norðar á lóðinni, á móts við austurgafl hússins nr. 10 við Skúlagötu, verði hins vegar 4 hæða byggingar þar sem engar byggingar hafi áður verið fyrirhugaðar auk þess sem 13-15 hæða turnbygging rísi austast á reit nr. 1.  Muni sú breyting auka skuggavarp snemma á morgnana og skerða útsýni til austurs.  Breytingin hafi því bæði neikvæð og jákvæð áhrif.  Það sé mat Reykjavíkurborgar að þessi breyting sé hvorki svo mikil né áhrif hennar svo neikvæð að leitt geti til ógildingar hins kærða skipulags á grundvelli almennra reglna grenndarréttarins.

Hafa verði í huga að í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sé gert ráð fyrir að sveitarstjórnir hafi heimildir til þess að breyta gildandi skipulagsáætlunum, sbr. t.d. 21. og 26. gr. laganna.  Ekkert sé því óeðlilegt við það að endurskoðað sé 10 ára gamalt skipulag.  Eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, umferðaraukningu eða aðrar breytingar.  Verði íbúar og eigendur fasteigna almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.

Hvað varði nálægð húsa skv. skipulaginu þá sé heimilt í deiliskipulagi að ákveða að lágmarksfjarlægð frá lóðarmörkum og bil milli húsa megi vera minna en kveðið sé á um í grein 75.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 en þá geti þurft að grípa til sérstakra aðgerða til að tryggja brunavarnir.  Rétt sé að benda á að á sömu forsendum hafi verið leyft að byggja húsið nr. 10 við Skúlagötu á lóðarmörkum.
 
Um þá málsástæðu kærenda að óheimilt hafi verið að hækka nýtingarhlutfall við skipulagsbreytinguna benda borgaryfirvöld á að samkvæmt breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðisins, varðandi lóðina nr. 1-7 við Klapparstíg, sem staðfest hafi verið af umhverfisráðherra þann 7. ágúst 1996, sé nýtingarhlutfall þeirrar lóðar 2,5.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé byggingarmagn á lóðinni 14.836m² en lóðin sé 5518m². Nýtingarhlutfall hennar sé því 2,6 miðað við samþykktar byggingar.  Nýtingarhlutfall á deiliskipulagssvæðinu sé hins vegar 2,73 án bílageymslna en með bílageymslum 3,32. Nýtingarhlutfall reits 1 og 2 með bílageymslum sé 2,7 en 2,1 án þeirra. Samanlagt nýtingarhlutfall reita 1 og 2 ásamt Lindargötu 29 sé 2,8 með bílageymslum en 2,2 án bílageymslna en hafi áður verið 1,2 samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni frá 1990.  Nýtingarhlutfall reitanna næst lóðinni nr. 1-7 við Klapparstíg sé því sambærilegt við nýtingarhlutfall þeirrar lóðar.  Nýtingarhlutfall reita 3, 4, 5 og 6 sé hins vegar nokkru hærra eða samanlagt 3,18 án bílageymslna en 3,85 með bílageymslum.  Nýtingarhlutfall þeirra reita hafi áður verið 2,85 samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni frá 1990.  Þegar bílageymslur séu reiknaðar með sé um nokkra hækkun á nýtingarhlutfalli reitanna að ræða miðað við það sem eldra skipulag hafi gerti ráð fyrir.  Í því sambandi verði hins vegar að hafa í huga að þær séu að mestu neðanjarðar og hafa því ekki grenndaráhrif eins og húsbyggingar ofanjarðar heldur bæti þær umhverfið og gæði byggðarinnar.  Ekki verði hins vegar séð að hækkað nýtingarhlutfall geti leitt til ógildingar hins kærða skipulags enda sé nýtingarhlutfall þeirra reita sem liggi að lóðinni nr. 1-7 við Klapparstíg svipað og þeirrar lóðar.  Nýtingarhlutfall hinna reitanna sé hærra enda hægara um vik að skipuleggja svo þétta byggð þegar eignarhald svæðisins sé á einni hendi og skipulagið hafi þar ekki áhrif á þá byggð sem fyrir sé.

Að auki sé framangreind aukning á nýtingarhlutfalli í samræmi við stefnumörkun Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024 um þéttingu byggðar en í því sé umrætt deilskipulagssvæði tilgreint sem þéttingarsvæði nr. 5 og gert ráð fyrir um 250 íbúðum á svæðinu.  Hið aukna nýtingarhlutfall og mismunur á nýtingarhlutfalli lóðarinnar að Klapparstíg 1-7 og austari reita hins kærða deiliskipulags byggi því á málefnalegum sjónarmiðum og nýrri stefnumörkun aðalskipulags. Hafi tillaga að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 verið auglýst til kynningar á sama tíma og hin kærða deiliskipulagstillaga, en í aðalskipulagstillögunni hafi framangreind ákvæði um þéttingu byggðar m.a. komið fram.  Raunar hefði breytt nýtingarhlutfall getað samræmst ákvæðum áður gildandi Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016, en samkvæmt ákvæðum þess hafi með deiliskipulagsákvörðun verið heimilt að fara verulega yfir viðmiðunarnýtingarhlutfall aðalskipulags á einstökum svæðum.

Sú fullyrðing kærenda, að frá fyrsta deiliskipulagi svæðisins, Skúlagötuskipulaginu, hafi verið gert ráð fyrir að hús væru ekki hærri en 12 hæðir, sé ekki rétt. Umræða um þetta hafi þó ekki þýðingu þar sem sveitarstjórn sé heimilt að breyta deiliskipulagi svæðisins eins og gert hafi verið.  Það sé ekki rétt að íbúar eigi skýlausan rétt á því að skipulagi sé ekki breytt.  Reykjavíkurborg hafni því einnig alfarið að grenndarréttarleg sjónarmið geti leitt til ógildingar skipulagsins á þessum forsendum enda hafi hæð húsanna óveruleg áhrif á hagsmuni kærenda eins og háttað sé innbyrðis afstöðu húsa á svæðinu.  Varðandi umfjöllun um salarhæð húsanna vísist til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 8. apríl 2002.

Andmæli lóðarhafa:  Af hálfu 101 Skuggahverfis hf., sem er eigandi allra lóða á deiliskipulagssvæðinu, er áréttað að fyrirliggjandi deiliskipulag af svæðinu sé í samræmi við gildandi aðalskipulag.  Öll málsmeðferð hjá borgaryfirvöldum hafi verið vönduð og í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Fyrir liggi greinargerð Reykjavíkurborgar um ofangreint efni og sé hún ítarleg og vel rökstudd.  Efni hennar sé skilmerkilega aðgreint í form og efni og þykir félaginu sem flestum sjónarmiðum kærenda hafi verið svarað með fullnægjandi hætti.

Því sé þó við að bæta að félagið vilji mótmæla harðlega öllum kröfum um að beitt verði úrræðum um frestun hvers kyns framkvæmda.  Afar brýnt sé að unnt verði að hefja þegar framkvæmdir, að fengnu leyfi, enda gríðarlegir hagsmunir tengdir því að framkvæmdir gangi hratt fyrir sig, þar sem þegar liggi mikið fjármagn bundið í uppkaupum á landi og húsum og skipulags- og hönnunarvinnu.  Að mati félagsins séu engir hagsmunir þannig vaxnir í málinu að fresta verði upphafsaðgerðum framkvæmda.  Hagsmunir félagsins af því að hefja byggingarframkvæmdir séu miklu mun meiri en hagsmunir kærenda.  Kærur í málinu hafi borist nefndinni í maí 2002 og hafi meðferð þeirra dregist síðan, m.a. vegna þess að beðið hafi verið greinargerðar Reykjavíkurborgar.  Við lestur greinargerðar borgaryfirvalda virðist sem málið sé að fullu upplýst um sjónarmið aðila og staðreyndir máls.  Séu því skilyrði uppfyllt til að fella úrskurð í málinu að mati 101 Skuggahverfis hf.  Sé þess því sérstaklega óskað að málinu verði hraðað.

Frekari gagnaöflun:  Í greinargerð Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. janúar 2003, var þess sérstaklega óskað að Reykjavíkurborg yrði gefinn kostur á að tjá sig um málsástæður sem kynnu að koma til skoðunar hjá nefndinni þótt þær hefðu ekki verið hafðar upp af hálfu kærenda og því ekki þegar komið til umfjöllunar.  Af þessu tilefni var borgaryfirvöldum tilkynnt að úrskurðarnefndin myndi, auk þeirra atriða sem málsaðilar hefðu reifað, m.a. taka til athugunar hvort ekki hafi verið þörf á því að taka fram í auglýsingu um hið umdeilda deiliskipulag að það yrði sett með stoð í nýju aðalskipulagi, sem jafnframt væri til kynningar.  Jafnframt væri til skoðunar hvort borgarráð hafi getað samþykkt deiliskipulag á grundvelli hins nýja aðalskipulags áður en aðalskipulagið hefði verið samþykkt í borgarstjórn eða hvort talið yrði að deiliskipulagið ætti sér stoð í eldra aðalskipulagi og loks hvort fullnægjandi teldist að í svörum við athugasemdum, dags. 8. apríl 2002, hafi verið vísað til nýs Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024 án þess að fram kæmi að um væri að ræða tillögu að aðalskipulagi, sem ekki hefði verið samþykkt og að ekki hafi verið vikið að því í svörunum hvað sérstaklega segði um hið umdeilda svæði í aðalskipulagstillögunni.  Jafnframt voru sömu álitaefni kynnt lóðarhafa og forsvarsmönnum kærenda. 

Úrskurðarnefndin tók fram að það væri ávallt matsatriði að hvað marki nefndin ætti að gera aðilum grein fyrir þeim atriðum sem hún tæki af sjálfsdáðum til athugunar varðandi lögmæti kærðrar ákvörðunar eða túlkun laga og annarra réttarheimilda.

Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila og hafi kynning deiliskipulagstillögunnar verið ítarleg.  Frá upphafi hafi legið fyrir að breyta þyrfti Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 vegna tillögunnar þar sem hluti svæðisins hafi verið verslunar- og þjónustusvæði samkvæmt aðalskipulagi.  Hafi m.a. verið gerð grein fyrir þessu á kynningarfundum.  Engar athugasemdir hafi komið frá hagsmunaaðilum varðandi þá breytingu.  Þegar skipulags- og byggingarnefnd hafi samþykkti að auglýsa deiliskipulagstillöguna til kynningar hafi verið búið að afgreiða til borgarstjórnar tillögu að nýju aðalskipulagi fyrir Reykjavík, Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024.  Ekki hafi því þótt ástæða til að auglýsa sérstaklega breytingu á eldra aðalskipulagi varðandi umræddan reit þar sem gert hafi verið ráð fyrir breytingu á landnotkun svæðisins í íbúðarsvæði í tillögu að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Tillögurnar hafi hins vegar verið auglýstar samhliða með heimild í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Tillaga að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur hafi verið auglýst til kynningar frá 23. janúar 2002 með athugasemdafresti til 6. mars 2002, en deiliskipulagstillagan viku síðar eða frá 30. janúar 2002 með athugasemdafresti til 13. mars s.á.

Ekki hafi verið talin ástæða til þess að taka sérstaklega fram í auglýsingu um deiliskipulagið að gert væri ráð fyrir að það yrði sett með stoð í hinu nýja aðalskipulagi enda aðalskipulagstillagan auglýst og kynnt lögum samkvæmt og í raun mun ítarlegar.  Bæði aðalskipulagstillagan og deiliskipulagstillagan hafi því hlotið meðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og því verði að gera ráð fyrir að hagsmunaaðilar hafi séð auglýsingu aðalskipulagsins eins og auglýsinguna um kynningu deiliskipulagsins og því haft tækifæri til þess að gera athugasemd við breytinguna, teldu þeir þess þörf.  Það hafi þeir hins vegar ekki gert enda hafði ekki komið fram nein andstaða af hálfu hagsmunaaðila við landnotkunarbreytinguna.  Tillögurnar hafi verið til kynningar í sama sal og hafi aðalskipulagstillagan þar verið mjög fyrirferðarmikil og því ekki getað farið fram hjá neinum sem þangað hafi komið.

Í auglýsingu um deiliskipulagið komi hins vegar glögglega fram að verið sé að breyta landnotkun á svæðinu, enda sé þar fallið frá heimild til byggingar hótels á reitnum en þess í stað heimilað að byggja þar fjölbýlishús.  Í deiliskipulaginu sjálfu komi þetta einnig skýrt fram.  Jafnvel þótt úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að æskilegt hefði verið að gera grein fyrir þessu í auglýsingu um deiliskipulagstillöguna þá væri það ekki svo verulegur ágalli á meðferð málsins að leitt gæti til ógildingar, enda hvergi kveðið á um að þegar svo hátti til skuli geta þess sérstaklega í auglýsingu eða að tillögurnar skuli birtar í sömu auglýsingu.

Við mat á því verði einnig að hafa í huga að athugasemdaaðilar hafi ekki gert athugasemdir við kynningu málsins hvað þetta atriði varði auk þess sem ekki sé byggt á málsástæðu þessari í fyrirliggjandi kærum eða fjallað um landnotkun yfir höfuð.  Bendi það til þess að þeir hafi einmitt gert sér grein fyrir þessu, enda hefði mátt ætla að ella hefðu þeir byggt á því að tillagan væri ekki í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016 hvað landnotkun varðaði.  Ekki verði heldur séð hvaða þýðingu þetta hafi fyrir hagsmuni kærenda sem fyrst og fremst geri athugasemdir við byggðina næst sér en hún sé á íbúðarsvæði samkvæmt gamla aðalskipulaginu og því fyllilega í samræmi við það.

Af hálfu borgaryfirvalda er því vísað á bug að ágallar kunni að hafa verið á afgreiðslu þeirra á umræddum skipulagstillögum.  Hið kærða deiliskipulag hafi verið afgreitt á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 10. apríl 2002.  Fyrsta mál á sama fundi hafi verið tillaga að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Bæði málin hafi verið send borgarráði Reykjavíkur til afgreiðslu og tekin fyrir á sama fundi ráðsins þann 16. apríl 2002.  Hafi afgreiðsla nefndarinnar á deiliskipulaginu verið samþykkt með vísan til heimildar í 4. mgr. 51. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 638/2001.  Samkvæmt þeirri grein sé borgarráði heimilt að afgreiða mál sem ekki varði verulega hagsmuni borgarsjóðs eða stofnana hans, enda sé ekki ágreiningur um þau í ráðinu.  Hins vegar hafi verið talið að borgarráð gæti ekki afgreitt nýtt aðalskipulag á grundvelli þessarar heimildar.  Aðalskipulagstillögunni hafi því verið vísað til afgreiðslu borgarstjórnar Reykjavíkur sem hafi samþykkt hana á fundi sínum þann 18. apríl 2002.  Á þeim fundi hafi einnig verið til umfjöllunnar fundargerð borgarráðs frá fundi þess 16. apríl.  Borgarstjórn hefði því, sem æðra stjórnvald, getað tekið afgreiðslu borgarráðs á deiliskipulagi Skuggahverfis til umfjöllunnar og endurskoðunar á fundinum.  Því verður að líta svo á að endanleg niðurstaða um deiliskipulag Skuggahverfis hafi ekki legið fyrir fyrr en að loknum fundi borgarstjórnar þann 18. apríl 2002 og að tillögurnar hafi því í raun verið afgreiddar á sama tíma.

Reykjavíkurborg telji að afgreiðsla málsins með þessum hætti sé í samræmi við ákvæði 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. breytingu sem gerð hafi verið á lögunum með 5. gr. laga nr. 170/2000, jafnvel þótt litið væri svo á að tveggja daga munur hefði verið á afgreiðslu tillagnanna.  Með 5. gr. laga nr. 170/2000 um breytingu á skipulags- og byggingarlögum hafi ætlun löggjafans augljóslega verið sú að heimila slíka málsmeðferð.  Í lok greinargerðar með breytingunni segi m.a. : „Eftir sem áður verði þó óheimilt að auglýsa gildistöku deiliskipulags í Stjórnartíðindum fyrr en auglýst hefur verið í Stjórnartíðindum gildistaka samsvarandi breytingar á aðalskipulagi.“  Þessa setningu í greinargerðinni telji Reykjavíkurborg sýna með skýrum hætti að löggjafinn hafi beinlínis gert ráð fyrir því að tillögurnar væru ekki nauðsynlega afgreiddar á nákvæmlega sama tíma, enda væri hún óþörf ella.

Eins og að framan greini hafi það alltaf verið ætlun borgaryfirvalda að hið kærða deiliskipulag byggði á hinu nýja aðalskipulagi, enda hafi deiliskipulagstillagan ekki verið í samræmi við eldra aðalskipulag hvað varði landnotkun á hluta svæðisins.  Sá fyrirvari hafi því legið fyrir að skilyrði fyrir gildistöku deiliskipulagsins væri að áður hefði umhverfisráðherra staðfest aðalskipulagið og birt auglýsingu um gildistöku þess.  Næði aðalskipulagið ekki fram að ganga af einhverjum ástæðum væri deiliskipulagstillagan í uppnámi, a.m.k. hvað varðaði hluta svæðisins.  Í raun hafi þetta þótt svo sjálfsagt að ekki hafi verið talin ástæða fyrir skipulags- og byggingarnefnd eða borgarráð að bóka sérstaklega þar um.  Framangreind málsmeðferð hafi verið í samræmi við málsmeðferð sem tíðkuð hafi verið um langan tíma þegar samtímis hafi verið gerðar breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi.  Hafi Skipulagsstofnun ekki gert athugasemdir við þessa málsmeðferð en undir hana hafi löggjafinn skotið frekari stoðum með 5. gr. laga nr. 170/2000 um breytingu á skipulags- og byggingarlögum.

Fallist er á að nákvæmara hefði verið að taka fram í umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir vegna deiliskipulagsins að Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2014 hefði enn ekki verið samþykkt og staðfest.  Hins vegar verði að hafa í huga að kynningu þess hafi verið lokið og að gert hafi verið ráð fyrir að aðalskipulagið yrði afgreitt á sama fundi þegar umsögnin hafi verið unnin.  Ekki verður hins vegar séð að þetta hafi getað villt um fyrir athugasemdaaðilum en það hljóti að vera það sem skipti máli.  Öðru máli gegndi ef þetta hefði leitt til þess að þeir hefðu misst af kærurétti vegna þessa.  Það skuli ítrekað að kærendur hafi hvorki byggt athugasemdir sínar við tillöguna né kærur á málsástæðum er varði landnotkun.  Þá sé ítrekað að skýrt hafi komið fram í deiliskipulagstillögunni sjálfri að verið væri að breyta landnotkuninni úr lóð fyrir hótel í íbúðarsvæði.  Reykjavíkurborg telji framangreint fráleitt ógildingarástæðu enda verði ekki séð hverju það hefði breytt fyrir framhald málsins þótt tekið hefði verið fram að hið nýja aðalskipulag ætti eftir að hljóta samþykki og staðfestingu.  Þrátt fyrir að það hafi ekki verið gert hafi kærendum verið í lófa lagið að kynna sér hið „nýja aðalskipulag“ og staðreyna að tillagan væri í samræmi við það.

Rétt sé að ekki hafi verið vikið nákvæmlega að því í umsögn skipulagsfulltrúa hvað segi um hið umdeilda svæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Hins vegar sé gerð grein fyrir því að tillagan sé í samræmi við þá stefnumörkun sem þar komi fram.  Það sé ávallt matsatriði hve langt eigi að ganga í slíkum umsögnum.  Í því tilviki sem hér um ræði telji Reykjavíkurborg að umsögnin hafi verið fullnægjandi m.t.t. þeirra athugasemda og málsástæðna sem fram hafi komið  Með afgreiðslu sinni á tillögunni hafi Skipulagsstofnun einnig fallist á að svo hafi verið.

Fari svo að úrskurðarnefndin telji ákvörðun borgaryfirvalda ólögmæta og að fella beri skipulagið úr gildi telji Reykjavíkurborg að slík niðurstaða geti með engu móti átt við um skipulagið í heild.  Reitirnir vestan Vatnsstígs, sem merktir séu nr. 1 og 2, auk lóðarinnar að Lindargötu 29 hafi verið skilgreindir sem íbúðarsvæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016.  Deiliskipulagið hvað þessa reiti varði hafi því verið í fullu samræmi við það.  Fordæmi sé fyrir því að úrskurðarnefndin ógildi skipulagsákvörðun aðeins að hluta með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.  Reykjavíkurborg telji sömu sjónarmið eiga við í því máli sem hér sé til umfjöllunnar og krefjist þess að sá hluti deiliskipulagsins sem samræmst hafi eldra aðalskipulagi standi a.m.k. óraskaður.  Önnur niðurstaða væri ekki í samræmi við ákvæði 26. gr. stjórnsýslulaga og meginreglu stjórnsýsluréttarins um meðalhóf.  Ekki þurfi að hafa um það mörg orð hve miklir hagsmunir séu í húfi fyrir eiganda þeirra lóða sem skipulagið taki til, enda hafi hann í hyggju að hefja framkvæmdir um leið og úrskurðað hafi verið í kærumáli þessu.  Hafi framkvæmdir þegar frestast vegna þess tíma sem kærumeðferðin hafi tekið.

Af hálfu lóðarhafa, sem er eigandi allra lóða á deiliskipulagssvæðinu og framkvæmdaaðili að fyrirhuguðum byggingum, er þess vænst að úrskurðað verði um efnisatriði málsins þannig að ágreiningsefni verði endanlega til lykta leidd.

Ítrekað sé að miklir fjárhagslegir hagsmunir séu bundnir því að framkvæmdir geti hafist nú þegar við byggingar á svæðinu.  Að mati lóðarhafa séu engir hagsmunir það ríkir í málinu að fresta eigi eða skilyrða leyfi til framkvæmda. 

Þau atriði sem nefnd séu í bréfi úrskurðarnefndarinnar snúi einungis að formi, en þessi formsatriði hafa á engan hátt skaðað hagsmuni kærenda.  Þá sé ekki byggt á eða vikið að þessum formsatriðum í kærunum.  Með fyrirliggjandi greinargerðum borgaryfirvalda séu málavextir og efnisatriði að fullu upplýst um sjónarmið aðila og staðreyndir máls.  Séu því skilyrði uppfyllt til að fella efnisúrskurð í málinu. 

Niðurstaða:  Af hálfu borgaryfirvalda er krafist frávísunar á kærum K, G og Þ, f.h. íbúa á Völundarlóð og kæru sjö íbúa að Skúlagötu 10.  Frávísunarkröfu sína styður Reykjavíkurborg þeim rökum að kærur þessar verði ekki skildar á annan hátt en að þess sé krafist að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála breyti deiliskipulaginu eins og nánar greini í kærum. 

Úrskurðarnefndin hafnar þessum sjónarmiðum og telur að skilja verði kröfur þessara kærenda á þann veg að þeir vilji ekki una hinni kærðu ákvörðun og leitist með kærum sínum eftir því að fá henni hnekkt.  Bar úrskurðarnefndinni, með hliðsjón af 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að leiðbeina kærendum ef talið hefði verið að málatilbúnaði þeirra hefði verið áfátt að þessu leyti.  Hefur úrskurðarnefndin lagt þann skilning í kröfugerð framangreindra kærenda að í henni fælist krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og verða kæru þeirra teknar til efnisúrlausnar á þeirri forsendu.  Verður frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar því hafnað að því er varðar framangreindar kærur.

Á hitt verður hins vegar fallist að úrskurðarnefndin sé ekki til þess bær að breyta hinni kærðu ákvörðun efnislega.  Verður því ekki fjallað um þær kröfur kærenda sem fela það í sér að nefndin breyti hinu umdeilda deiliskipulagi.  Af sömu ástæðu ber að fallast á kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun varakröfu Kristjáns Stefánssonar hrl., f.h. eigenda íbúðar að Skúlagötu 10, enda felst í henni krafa um að úrskurðarnefndin breyti hinni kærðu ákvörðun.

Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar borgaryfirvalda um breytingu á deiliskipulagi afmarkaðs svæðis í Skuggahverfi, svo sem þegar hefur verið rakið.  Hefur úrskurðarnefndin af sjálfsdáðum tekið til athugunar hvort lögformlega hafi verið rétt staðið að gerð og undirbúningi þessarar ákvörðunar.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fer að meginstefnu um breytingar á deiliskipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða.  Tillögu að breytingu á deiliskipulagi ber því að auglýsa til kynningar í samræmi við ákvæði 25. gr. laga nr. 73/1997 en jafnframt skal við undirbúning slíkrar tillögu gæta ákvæða 9. gr. laganna um samráð við hagmunaaðila og önnur atriði er þar greinir.  Deiliskipulag skal, skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997, gera á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 23. gr., sem bætt var inn í greinina með ákvæði 5. gr. laga nr. 170/2000 um breytingu á skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, getur sveitarstjórn þó auglýst tillögu að deiliskipulagi samhliða auglýsingu tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.

Með hinu nýja ákvæði var fallið frá því skilyrði að tillaga að deiliskipulagi þyrfti að vera í samræmi við gildandi aðalskipulag, enda væri samhliða auglýst tillaga að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.  Var ákvæði þetta sett í því skyni að stytta þann tíma sem það tæki að afgreiða tillögu að deiliskipulagi sem ekki yrði sett nema jafnframt væri gerð breyting á aðalskipulagi.  Var ákvæðinu ætlað að gera skipulagsyfirvöldum kleift að nýta sama tíma til kynningar á deiliskipulagstillögu og tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi og stytta þannig afgreiðslutíma málsins.  Verður að telja, með hliðsjón af 1. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997, að heimilt sé að neyta þessarar heimildar við meðferð tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem farið er með eftir tilvitnuðu ákvæði.

Í máli því sem hér er til meðferðar voru aðstæður þær að tillaga að hinu umdeilda deiliskipulagi var auglýst til kynningar hinn 30. janúar 2002.  Í tillögunni fólst m.a. að landnotkun á hluta skipulagssvæðisins yrði breytt frá því sem kveðið var á um í eldra deiliskipulagi og þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016.  Skömmu áður, eða hinn 23. janúar 2002, hafði verið auglýst til kynningar tillaga að nýju Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sem eðli máls samkvæmt hafði að geyma fjölmargar tillögur um breytingar af ýmsu tagi.  Voru þar á meðal tillögur um breytta landnotkun umrædds svæðis og um þéttingu byggðar á svonefndum Eimskipsreit í Skuggahverfi, sem er það svæði sem hið umdeilda deiliskipulag tekur til.  Virðist það hafa verið ætlan borgaryfirvalda að nýta með þessum hætti áðurgreinda heimild til þess að auglýsa samtímis til kynningar deiliskipulagstillögu og samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.  Þess var þó ekki getið í auglýsingu deilskipulagstillögunnar að henni tengdist breyting á aðalskipulagi sem fælist í tillögu að nýju aðalskipulagi sem auglýst hefði verið.

Úrskurðarnefndin telur að skort hafi á að fullnægt væri því skilyrði 2. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 að samhliða auglýsingu tillögunnar að hinu umdeilda deiliskipulagi væri auglýst tillaga að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.  Auglýsingar um þessar tillögur voru ekki birtar samhliða eða á sama tíma og ekki var vakin athygli á þeirri aðalskipulagsbreytingu sem hér skiptir máli og fólgin var í heildartillögu að nýju aðalskipulagi sem fól í sér ótaldar aðrar breytingartillögur, stórar og smáar.  Verður að gera þá kröfu til stjórnsýslunnar að athafnir hennar séu í senn skýrar og skiljanlegar þegar kynnt eru áform eða ákvarðanir sem skylt er að lögum að kynna almenningi.  Getur óljós framsetning skipulagsáforma jafnvel leitt til réttarspjalla fyrir hagsmunaaðila, t.d. á þann veg að þeim láist að gera athugasemdir við skipulagstillögu eða leita réttarúrræða svo sem málskots til æðra stjórnvalds.

Ef talið yrði að framsetning sú á umræddum skipulagstillögum, sem að framan er lýst, hefði fullnægt lagaskilyrðum hefðu tillögurnar þurft að hljóta lögmæta afgreiðslu borgaryfirvalda.  Aðalskipulagstillagan og tillagan að hinu umdeilda deiliskipulagi voru báðar samþykktar á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 10. apríl 2002.  Deiliskipulagstillagan var að því búnu samþykkt í borgarráði hinn 16. apríl 2002 en aðalskipulagstillagan hlaut samþykkt borgarstjórnar hinn 18. apríl 2002.  Það liggur því fyrir að hin umdeilda deiliskipulagstillaga hlaut samþykki sveitarstjórnar í skilningi 25. gr. laga nr. 73/1997 áður en nýtt aðalskipulag, sem vera átti grundvöllur deiliskipulagsákvörðunarinnar, hlaut samþykki sveitarstjórnar.  Áttu borgaryfirvöld þá eftir að afla lögbundinnar staðfestingar ráðherra á hinu nýja aðalskipulagi og auglýsa það áður en það gat orðið grundvöllur ákvörðunar um samþykkt deiliskipulags.  Fellst úrskurðarnefndin ekki á þá túlkun borgaryfirvalda að nægt hafi að bíða með auglýsingu deiliskipulagsákvörðunarinnar þar til nýtt aðalskipulag hefði tekið gildi.  Telur úrskurðarnefndin að heimildin í 2. mgr. 23. gr. l. nr. 73/1997 verði ekki skýrð svo rúmt að með ákvæðinu hafi verið vikið frá því skilyrði að deiliskipulag þyrfti að vera í samræmi við aðalskipulag þegar til samþykktar þess kæmi, heldur hafi einungis verið ætlan löggjafans að heimila að undirbúningur ákvarðana um deiliskipulag og samsvarandi breytingu aðalskipulags gæti átt sér stað á sama tíma.  Verða engar víðtækar ályktanir dregnar af þeim ummælum í greinagerð með frumvarpi til umrædds lagaákvæðis, að óheimilt verði eftir sem áður að auglýsa gildistöku deiliskipulags fyrr en auglýst hafi verið gildistaka samsvarandi breytingar á aðalskipulagi, enda verður að ætla að löggjafinn hafi lagt til grundvallar að ákvarðanir þær sem koma eigi til auglýsingar hafi verið teknar með lögformlegum hætti.  Hafi svo ekki verið verður ekki úr því bætt með auglýsingu, enda er auglýsing sem slík ekki stjórnvaldsákvörðun heldur er hún birtingarmáti slíkra ákvarðana.

Loks var sá ágalli á meðferð hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar að vitnað var til nýs aðalskipulags í umsögn um athugasemdir þegar þeim var svarað án þess að fram kæmi að aðalskipulagstillagan hefði þá ekki hlotið samþykki eða öðlast gildi.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin umdeilda skipulagsákvörðun hafi ekki verið samþykkt með stoð í nýju Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Verður hin umdeilda ákvörðunin því felld úr gildi að minnsta kosti að því marki sem gildistaka hins nýja aðalskipulags var nauðsynleg forsenda hennar.  Á það augljóslega við um þann hluta svæðisins þar sem breyta þurfti landnotkun í aðalskipulagi, þ.e. svæðið sem afmarkast af Vatnsstíg, Skúlagötu, Frakkastíg og Lindargötu.  Er þetta jafnframt sá hluti deiliskipulagssvæðisins þar sem nýtingarhlutfall er hæst.

Þegar hin umdeilda ákvörðun var samþykkt var enn í gildi Aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016.  Samkvæmt því var sá hluti deiliskipulagssvæðisins sem er vestan Vatnsstígs skilgreint íbúðarsvæði.  Gat breytt deiliskipulag að svæðinu vestan Vatnsstígs samkvæmt hinni kærðu ákvörðun því samræmst þágildandi aðalskipulagi, a.m.k. hvað landnotkun varðar.  Tillagan var auglýst án vísunar til nýs aðalskipulags og þykir, með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, mega fallast á að taka til úrlausnar hvort staðfesta megi hina kærðu ákvörðun að hluta, þ.e. fyrir svæðið vestan Vatnstígs, eins og krafist er af hálfu Reykjavíkurborgar í framhaldsgreinargerð í málinu, en unnt er að afmarka með nægilega skýrum hætti hvaða hluta hinnar kærðu ákvörðunar kemur til álita að staðfesta.

Deiliskipulag fyrir þann hluta svæðisins sem er vestan Vatnsstígs, þ.e. reiti 1 og 2 og lóðina nr. 29 við Lindargötu, samræmist, svo sem þegar var getið, skilmálum Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 um landnotkun.  Nýtingarhlutfall þessara reita er 2,17 og 2,10 fyrir reiti 1 og 2 og 2,73 fyrir lóðina að Lindargötu 29.  Rúmast þessi gildi innan heimilda Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 um nýtingarhlutfall og samræmast raunar einnig ágætlega upphaflegum áformum deiliskipulagsins frá 1986 þar sem nýtingarhlutfall á umræddu svæði mátti nema allt að 2,5 að bílgeymslum meðtöldum.  Þá fellur nýtingarhlutfall umræddra reita og lóðar vel að nýtingarhlutfalli aðliggjandi lóðar til vesturs við Klapparstíg og Skúlagötu þar sem raunnýting lóðar er 2,6.  Fullnægir hið umdeilda deiliskipulag því lagaskilyrðum um samræmi við aðalskipulag að því er varðar umrætt svæði vestan Vatnsstígs.

Kemur þá til skoðunar hvort aðrar ástæður standi í vegi fyrir því að hið umdeilda deiliskipulag verði staðfest fyrir ofangreindan hluta skipulagssvæðisins, svo sem hvort réttur kærenda standi til þess að geta búið við óbreytt skipulag eða hvort reglur grenndaréttarins standi í vegi fyrir staðfestingu umrædds hluta deiliskipulagsins.

Eins og að framan er rakið var deiliskipulag staðfest þegar árið 1986 fyrir allt svæðið milli Hverfisgötu og Sætúns, (nú Sæbrautar), vestan frá Ingólfsstræti allt austur að Snorrabraut.  Á þessu stóra svæði var fyrir töluverð byggð og einsýnt að uppbygging þess í samræmi við deiliskipulagið kæmi til með að taka langan tíma.  Í greinargerð skipulagsins kom fram að gera þyrfi frekari grein fyrir einstökum þáttum, svo sem húsgerðum, formum o.fl. og var gert ráð fyrir áframhaldandi vinnu við skipulagið.  Bar greinargerðin þannig með sér að skipulagið væri ekki endanlegt í öllum atriðum.

Með hliðsjón af þessari framsetningu, og því hversu langan tíma mátti búast við að uppbygging svæðisins tæki, telur úrskurðarnefndin að íbúar svæðisins og aðrir hagsmunaaðilar hafi ekki mátt vænta þess að ekki gæti komið til breytinga á skipulaginu eða endurskoðunar þess við nánari útfærslu og ákvarðanir um uppbyggingu einstakra reita innan svæðisins.  Hefur raunin og orðið sú að skipulagið hefur verið tekið til endurskoðunar í tilefni af áformum um uppbyggingu einstakra reita, eins og framan er lýst.  Verður því að fallast á með borgaryfirvöldum að réttur hagsmunaaðila hafi ekki átt að standa í vegi fyrir því að breytingar yrðu gerðar á skipulaginu, þótt almennt gildi að íbúar eigi að geta treyst því að deiliskipulag feli í sér endanlega ákvörðun um byggingarmál skipulagssvæðis, sem ekki verði breytt nema ríkar málefnalegar ástæður standi til þess.  Verður því ekki, eins og hér stendur á, fallist á þau sjónarmið kærenda að þeir hafi mátt treysta því að ekki yrði vikið frá því nýtingarhlutfalli eða áformum um hæð og gerð húsa sem fram voru sett í deiliskipulagi svæðisins 1986.  Er nýtingarhlutfall á mestum hluta svæðisins vestan Vatnsstígs, þ.e. reitum 1 og 2, raunar lægra en heimilað var samkvæmt upphaflegu skipulagi sem heimilaði nýtingarhlutfall allt að 2,5 á umræddu svæði.  Stangast fullyrðing í umsögn skipulagsfulltrúa frá 8. apríl 2002 um að nýtingarhlutfall þessa svæðis hafi verið 2,0 á við töflu um nýtingarhlutfall sem er hluti greinargerðar skipulagsins frá 1986 sem úrskurðarnefndin telur eiga við í málinu.  Þá telur úrskurðarnefndin að staðhæfing í kæru íbúa á Völunarlóð um að nýtingarhlutfall hafi verið talið hækka úr 1,7 í 2,5 eigi ekki við rök að styðjast þar sem þar sé vísað til tölugilda sem ekki séu samanburðarhæf, annar vegar nýtingarhlutfalls lóðar og hins vegar reitanýtingar þar sem auð svæði hafi áhif til lækkunar.

Ekki verður fallist á að hið umdeilda skipulag fyrir svæðið vestan Vatnsstígs hafi í för með sér svo aukið skuggavarp eða skerðingu á birtu og útsýni frá því sem ráðið var í eldra skipulagi að leiða eigi til ógildingar skipulagsins hvað umrætt svæði varðar.  Byggingar, sem í eldra skipulagi voru staðsettar við lóðamörk skammt sunnan við suðausturhorn Skúlagötu 10, eru færðar fjær því húsi og dregur sú breyting verulega úr skuggavarpi úr suðri.  Það hús sem hæst er á umræddu svæði er fjærst Skúlagötu 10 og stenst á við gafl þess húss.  Verður ekki séð að grenndaráhrif þess verði umtalsvert meiri fyrir kærendur en verið hefði þótt húsið hefði verið 2-3 hæðum lægra en áformað er.

Hvað varðar nálægð við bensínstöð vísast til ákvæðis 157. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem byggingaryfirvöldum ber að gæta við hönnun mannvirkja nærri bensínstöðinni, en ekki verður séð að hið umdeilda skipulag fari út af fyrir sig í bága við settar öryggisreglur um brunavarnir.

Af hálfu eigenda íbúðar að Skúlagötu 10 eru gerðar athugasemdir við það að lóðamörk séu ráðin fast við austurgafl þess húss.  Lóðamörkin voru með þessum hætti í því skipulagi sem áður gilti á svæðinu og felst ekki í hinni kærðu ákvörðun breyting á þeim við umrætt hús.  Hefur lega lóðamarkanna því enga þýðingu um gildi hinnar kærðu ákvörðunar.  Aðrar ástæður, svo sem að vikið hafi verið frá fyrstu tillögum við skipulagsgerðina, þykja ekki heldur eiga að leiða til ógildingar ákvörðunarinnar, enda verða skipulagsyfirvöld ekki talin bundin af tillögum sem kunna að hafa verið kynntar á undibúningsstigi skipulagsgerðar.

Með hliðsjón af framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hina kærðu skiplagsákvörðun að því er tekur til svæðisins vestan Vatnsstígs, reita 1 og 2 og lóðarinnar að Lindargötu 29.  Að öðru leyti verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.  Til þess verður hins vegar að líta að hið umdeilda deiliskipulag hlaut ekki lögboðna afgreiðslu Skipulagsstofnunar fyrr en 21. október 2002 og að auglýsing um gildistöku þess var fyrst birt hinn 15. janúar 2003.

Úrskurðarorð:

Varakröfu eigenda íbúðar að Skúlagötu 10 og kröfum annarra kærenda um að úrskurðarnefnin breyti hinni kærðu ákvörðun er vísað frá úrskurðarnefndinni.  Fellt er úr gildi hið kærða deiliskipulag að því er tekur til svæðis sem afmarkast af Skúlagötu, Frakkastíg, Lindargötu og Vatnsstíg.  Að öðru leyti skal hin kærða ákvörðun standa óröskuð.

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                        Óðinn Elísson