Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

58/2014 Reykjavíkurflugvöllur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2014, kæra á nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar sem auglýst var í B-deild Stjórnatíðinda 6. júní 2014.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2014, er barst nefndinni 4. s.m., kærir eigandi skýlis 35F í Fluggörðum, Reykjavík, nýtt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem samþykkt var í borgarstjórn 1. apríl 2014 og auglýst  í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní s.á. Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi.

Með fimm bréfum, dags. 3. og 4. júlí 2014, er bárust nefndinni 4. og 7. s.m., kæra eigendur skýlis 21 í Fluggörðum, Reykjavík, skýlis 31B, skýlis 31D, skýlis 35A, skýlis 33C, og Guðjón Ármannsson hrl., f.h. áðurnefndra kærenda og eigenda skýla 21, 31B, 31D, 33C, 35A og 35F, auk eigenda og/eða umráðamanna skýla 22A, 22B, 24, 25, 26, 27C, 27E, 28A, 28C, 28D, 28E, 29C, 29D, 29E, 30B, 30E, 31A, 31C, 33A, 33D, 33E, 33F, 34C, 34E, 35B, 35C, 35D, 35E og 36, sem öll eru á sama stað, sömu ákvörðun með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem kærurnar lúta allar að sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verða greind kærumál, sem eru nr. 59/2014, 60/2014, 63/2014, 64/2014 og 67/2014, sameinuð kærumáli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 14. júlí 2014, og í nóvember og desember 2015.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 18. desember 2013 var lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar. Samþykkt var að auglýsa tillöguna samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu 19. s.m. Tillagan var auglýst frá 23. s.m. til og með 3. febrúar 2014 og bárust athugasemdir við hina kynntu tillögu.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 26. mars 2014 var lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs um innsendar athugasemdir, dags. 10. s.m. Var deiliskipulagstillagan samþykkt með vísan til umsagnarinnar. Málið var tekið fyrir á fundi borgarráðs 27. s.m. og samþykkt. Var málinu síðan vísað til staðfestingar borgarstjórnar með vísan til 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. Á fundi borgarstjórnar 1. apríl 2014 var lögð fram fundargerð borgarráðs frá 27. mars 2014 og var 17. liður hennar, tillaga að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar, samþykktur.

Með bréfi, dags. 4. apríl 2014, var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til yfirferðar, sbr. 42. gr. skipulagslaga. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 28. s.m., kom fram að um væri að ræða endurskoðun á gildandi deiliskipulagi, með síðari breytingum, en upphaflegt deiliskipulag hefði verið samþykkt árið 1986. Með endurskoðuninni væri skipulagssvæði flugvallarins minnkað og nokkur svæði yrðu því utan hinnar nýju afmörkunar án þess að grein væri gerð fyrir skipulagslegri stöðu þeirra eftir breytinguna. Fram kæmi í auglýsingu á tillögunni að gildandi deiliskipulag flugvallarins, með síðari breytingum, m.a. frá 1999, félli úr gildi við gildistöku þessa deiliskipulags. Skipulagsstofnun teldi að ekki væri hægt að fella úr gildi deiliskipulag fyrir lóð eða svæði sem þegar væri byggt samkvæmt skipulaginu án þess að nýtt skipulag kæmi í staðinn. Stofnunin teldi því að upphaflegt deiliskipulag frá 1986, með síðari breytingum, gilti enn fyrir þau svæði sem yrðu utan marka hins nýja deiliskipulags. Reykjavíkurborg þyrfti að útskýra hvernig gerð yrði grein fyrir skipulagi þessara svæða áður en Skipulagsstofnun tæki afstöðu til deiliskipulagsins.

Með bréfi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, dags. 13. maí 2014, var deiliskipulagsuppdráttur sendur Skipulagsstofnun að nýju til yfirferðar. Í bréfinu var gerð grein fyrir breytingum sem gerðar hefðu verið í samræmi við ábendingar Skipulagsstofnunar. Var meðal annars tekinn út texti um að deiliskipulag fyrir flugvöllinn, sem samþykkt hefði verið 15. júní 1999, og breytingar og skilmálar vegna flugvallarsvæðisins féllu úr gildi við gildistöku þessa skipulags. Þá var ákveðið að deiliskipulagið frá 1986, með síðari breytingum, skyldi gilda áfram fyrir svæði í kringum lóð Loftleiðahótels og hluta af Litla Skerjafirði þar til annað deiliskipulag yrði unnið fyrir þessi svæði. Texta um afmörkun deiliskipulagssvæðisins var jafnframt breytt til samræmis við framangreint.

Með bréfi, dags. 26. maí 2014, sendi Reykjavíkurborg Skipulagsstofnun minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. s.m., bréf frá Isavia, dags. 23. apríl s.á., bréf skipulagsfulltrúa til Isavia, dags. 20. maí 2014, og leiðrétta umsögn um athugasemdir sem bárust við auglýsingu deiliskipulagsins. Ástæða þess að umsögnin var leiðrétt var sú að í áðurnefndu bréfi Isavia voru gerðar athugasemdir við efni hennar. Í áðurnefndu minnisblaði, dags. 20. maí 2014, var greint frá meginefni fyrrgreindra bréfa, auk þess sem upplýst var um breytingar á umsögninni.

Í nefndu bréfi Isavia frá 23. apríl 2014 var athygli vakin á staðreyndavillum í umsögninni, nánar tiltekið í svörum við liðum 1c og 1d á blaðsíðu 3, og þess óskað að þær yrðu leiðréttar. Því var lýst að í svari við lið 1c segði: „Samkvæmt niðurstöðu áhættumatsnefndar Isavia „nothæfisstuðull fyrir sjúkraflugvélar á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli“ er stuðullinn fyrir tvær flugbrautir í Reykjavík og tvær í Keflavík fyrir sjúkraflugvélar af tegundinni [Beechcraft] King Air 200 samanlagt 99,5% fyrir allt árið…“ Í svarinu hafi ranglega verið vísað til „áhættumatsnefndar Isavia“ með tilvísun í bréf forstjóra Isavia til innanríkisráðherra í desember 2013, sem hafi falið í sér ábendingu um nothæfisstuðul fyrir sjúkraflugvélar miðað við ákveðnar forsendur, m.a. tvær flugbrautir á Reykjavíkurflugvelli og tvær á Keflavíkurflugvelli til vara. Áhættumat og nothæfisstuðull séu tveir óskyldir þættir sem þarna hafi verið blandað saman. Segja megi að nothæfisstuðull sé þjónustustig flugvallar en áhættumat sé mat á áhrifum breytinga og lúti fyrst og fremst að mati á öryggi. Áhættumat sé alveg óháð notkunarstuðli þótt stuðullinn geti skipt máli við áhættumat. Unnið sé að gerð áhættumats vegna fyrirhugaðrar lokunar NA/SV-flugbrautar Reykjavíkurflugvallar, sem sent verði Samgöngustofu er taka muni afstöðu til niðurstöðunnar. Réttara væri að segja: „Samkvæmt ábendingu Isavia til innanríkisráðherra er nothæfisstuðull fyrir tvær flugbrautir í Reykjavík og tvær í Keflavík…“ Þá var á það bent að í svari við lið 1d í umsögninni segði: „Stefna um þessa þætti flugstarfseminnar í Vatnsmýri rímar einnig við áform um lokun NA-SV brautar sem hefur verið mikið notuð fyrir æfinga- og kennsluflug á undanförnum áratugum.“ Hér væri ranglega fullyrt að umrædd flugbraut hefði verið mikið notuð fyrir æfinga- og kennsluflug. Staðreyndin væri sú að notkun hennar í þessu skyni hefði ekki verið meiri en annarra flugbrauta á undanförnum áratugum og miklu minni eftir að notkun hennar hefði eingöngu verið miðuð við lendingar í hvössum vindi. Lagt væri til að umrædd setning yrði felld út úr málsgreininni.

Í bréfi Skipulagsstofnunar til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, dags. 4. júní 2014, var tiltekið að Isavia hefði gert athugasemdir við tvö atriði í umsögnum Reykjavíkurborgar um athugasemdir sem borist hefðu við auglýsta deiliskipulagstillögu. Reykjavíkurborg hefði leiðrétt þessi atriði. Skipulagsstofnun hefði farið yfir innsend gögn og teldi að Reykjavíkurborg hefði brugðist við ábendingum stofnunarinnar frá 28. apríl 2014. Stofnunin gerði því ekki athugasemd við að Reykjavíkurborg auglýsti samþykkt deiliskipulagsins. Tók deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní 2014.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að við gerð hins kærða deiliskipulags hafi ekkert samráð verið haft við hagsmunaaðila á Fluggarðasvæðinu, eins og skylt væri samkvæmt 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, þrátt fyrir að skipulagið mæli öðrum þræði fyrir um að leggja skuli Fluggarða niður strax á árinu 2015. Einungis einum aðila Fluggarðasvæðisins hafi verið boðið á hagsmunaaðilakynningu 10. desember 2013. Forsvarsmaður ByggáBIRK, hagsmunafélags eigenda einkabygginga á Reykjavíkurflugvelli, hafi frétt af fundinum og þurft að beita sér sérstaklega til að fá að senda fulltrúa á hann. Byggingar á Fluggarðasvæðinu séu í eigu 63 einstaklinga og lögaðila. Með vísan til ákvæða skipulagsreglugerðar um samráðsskyldu og með tilliti til þess að um veruleg áhrif á hagsmuni fasteignareigenda á svæðinu sé að ræða, hafi Reykjavíkurborg borið að hafa virkt samráð við þá. Skylda borgarinnar til að hafa samráð við hagsmunaaðila sé enn ríkari en ella þar sem deiliskipulagstillagan miði að eignaupptöku og vegi að eignarréttindum sem varin séu af ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Deiliskipulagið mæli meðal annars fyrir um niðurrif flugskólabyggingar við Þorragötu 21. Reykjavíkurborg hafi ekki þinglýsta eignarheimild á umræddu svæði og geti því ekki talist eigandi þess. Borgin hafi því engan rétt til eignaupptöku á svæðinu.

Mótsagna gæti í hinu kærða deiliskipulagi. Á deiliskipulagsuppdrætti komi eftirfarandi fram: „Fluggarðar við Njarðargötu verða innan skipulagssvæðisins þar til gert er ráð fyrir að flugvallarstarfsemi sé víkjandi á svæði Fluggarðanna samkvæmt aðalskipulagi. Ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum á því svæði í þessu deiliskipulagi.“ Á skipulagsuppdrætti séu öll mannvirki í Fluggörðum merkt með brúnum lit, sem auðkenna eigi „núverandi byggingar samkvæmt landupplýsingakerfi Reykjavíkur“. Þótt ekki sé gert ráð fyrir breytingum á Fluggarðasvæðinu hafi verið settur inn texti á grunnmynd á uppdrættinum þar sem segi: „Fluggarðar notkun (FV) 2013-2015“. Þar sé vísað til stefnu í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og jafnframt dregin rauð punktalína þétt utan um Fluggarðasvæðið með skýringum: „Framtíðar mörk öryggisgirðingar“ og „Öryggisgirðing eftir niðurlögn Fluggarða“. Samkvæmt framansögðu sé í öðru orðinu sagt að ekki sé gert ráð fyrir neinum breytingum á Fluggarðasvæðinu en í hinu orðinu sé mælt fyrir um að Fluggarða skuli leggja niður og að þeir skuli settir utan öryggisgirðingar. Þessi óskýrleiki deiliskipulagsins sé ótvírætt brot á ákvæði gr. 5.5.2. í skipulagsreglugerð en þar segi að skilmálar skuli vera skýrir og greinargóðir, sbr. einnig gr. 5.5.3. Þá segi í skilmálum skipulagsins að skipulagsreglur flugvallarins séu til fyllingar deiliskipulaginu og að skipulagsreglurnar, er lúti að flugöryggi, séu víðfeðmari en deiliskipulagið. Byggt sé á því að deiliskipulagið sé beinlínis í andstöðu við skipulagsreglurnar og framangreint orðalag í skilmálum deiliskipulagsins sé því villandi. Deiliskipulagið sé haldið þeim alvarlega ágalla að það geri á engan hátt grein fyrir samspili skipulagsreglna flugvallarins og skilmála deiliskipulagsins.

Brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar enda liggi ekki fyrir áhættumat vegna áforma í deiliskipulaginu um niðurlagningu NA/SV-flugbrautar. Lokun hennar virðist að auki til þess fallin að Reykjavíkurflugvöllur uppfylli ekki ákvæði reglugerðar um flugvelli nr. 464/2007. Við gerð deiliskipulags sé þó grundvallaratriði að gætt sé að kröfum annarra laga og reglugerða, sbr. gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð. Í gr. 3.1.1. í VI. kafla reglugerðar um flugvelli segi að fjöldi og stefna flugbrauta á flugvelli ætti að vera slíkur að notkunarstuðull flugvallarins sé ekki minni en 95% fyrir flugvélarnar sem flugvöllurinn þjóni. Samkvæmt hollenskri rannsókn frá árinu 2006 muni nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar falla langt undir viðmiðunarmörk verði NA/SV-flugbrautin lögð niður. Að þessu sé ekki vikið í deiliskipulagstillögunni, en Reykjavíkurborg hafi borið að kanna sérstaklega hvort flugvöllurinn án NA/SV-flugbrautar uppfyllti ákvæði reglugerðar nr. 464/2007. Niðurstaða athugunar á flugvallarkostum hafi ekki legið fyrir og samgönguyfirvöld hafi ekki markað stefnu um flutning allrar flugvallarstarfsemi úr Vatnsmýri.

Reykjavíkurflugvöllur sé miðstöð innanlandsflugs á Íslandi jafnframt því að bera uppi æfinga- og kennsluflug. Niðurlagning NA/SV-flugbrautar dragi úr öryggi fyrir flugfarþega, sjúkraflug og alla aðra sem noti flugvöllinn. Vísað sé til a-liðar gr. 1.1. í skipulagsreglugerð þar sem fram komi það markmið reglugerðarinnar að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi sé haft að leiðarljósi.

Að lokum er vísað til þess að málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagstillögu hafi ekki verið í samræmi við lög, sbr. 41. og 42. gr. skipulagslaga. Skipulagsstofnun hafi gert athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins með bréfi, dags. 28. apríl 2014. Athugasemdir stofnunarinnar hafi ekki komið til umræðu í sveitarstjórn heldur hafi skipulagsfulltrúi breytt skipulagsuppdrættinum og sent Skipulagsstofnun bréf, dags. 13. maí s.á., þar sem upplýst hafi verið um þær lagfæringar sem hafi verið gerðar, ásamt leiðréttum uppdrætti. Með bréfi, dags. 26. s.m., hafi umhverfis- og skipulagssvið svo sent Skipulagsstofnun minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, bréf frá forstjóra Isavia, dags. 23. apríl s.á., bréf skipulagsfulltrúa til Isavia, dags. 20. maí 2014, og breytta umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 10. mars s.á. Hið kærða deiliskipulag hafi verið samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 10. mars 2014, eins og hún hafi litið upphaflega út, en umsögnin hafi þá innihaldið staðreyndavillur og rangar fullyrðingar. Skipulagsfulltrúi hafi síðar gert breytingar á umsögninni til samræmis við ábendingar Isavia og sent breytta umsögn til Skipulagsstofnunar, en breytingarnar hafi ekki verið lagðar fram, ræddar og samþykktar í sveitarstjórn áður. Þá hafi áðurnefnd gögn, þ.e. minnisblað skipulagsstjóra, bréf forstjóra Isavia og bréf skipulagsfulltrúa til Isavia, ekki heldur verið lögð fram, rædd eða samþykkt í sveitarstjórn.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er á það bent að málsmeðferð hins kærða deiliskipulags hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um sé að ræða endurskoðun á eldra deiliskipulagi fyrir Reykjavíkurflugvöll frá 1986. Með deiliskipulaginu sé skipulagssvæði flugvallarins minnkað. Deiliskipulagstillagan hafi verið unnin í samvinnu Reykjavíkurborgar og Isavia á grundvelli samkomulags ríkis og borgar frá 19. apríl og 25. október 2013 og Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030.

Málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar hafi verið samkvæmt 41. gr. skipulagslaga. Allar meginforsendur deiliskipulagsins hafi legið fyrir í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og því hafi Reykjavíkurborg ekki borið skylda til að taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu eða halda kynningarfund, sbr. 40. gr. skipulagslaga. Engu að síður hafi verið ákveðið að halda kynningarfund með helstu hagsmunaaðilum á flugvellinum 10. desember 2013, þar sem breytingar á deiliskipulaginu hafi verið kynntar. Lengi hafi legið fyrir í aðalskipulagi að starfsemi tengd einkaflugi og flugkennslu væri víkjandi í Vatnsmýrinni og framfylgi hið nýja deiliskipulag einfaldlega þeirri stefnu. Því eigi það ekki að koma á óvart að Fluggarðar séu víkjandi starfsemi í nýju deiliskipulagi. Málsmeðferð deiliskipulagsins og samráð við hagsmunaaðila hafi verið samkvæmt skipulagslögum.

Kærendur hafi vísað til þess að deiliskipulagið sé óskýrt og þversagnakennt. Því til stuðnings virðist þeir vísa í tillögu að deiliskipulagi, en orðalagi hafi verið breytt í hinu samþykkta deiliskipulagi. Nú segi þar: „Fluggarðar við Njarðargötu verða innan skipulagssvæðisins þar til gert er ráð fyrir að flugvallarstarfsemi sé víkjandi á svæði Fluggarðanna samkvæmt aðalskipulagi. Ekki er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á svæðinu.“ Engin uppbygging muni því eiga sér stað á Fluggörðunum á meðan þeir séu innan skipulagssvæðisins. Reykjavíkurborg telji deiliskipulagið uppfylla kröfur gr. 5.2.2. í skipulagsreglugerð og að ekki gæti mótsagna í skipulaginu.

Hvað varði heimild til niðurrifs flugskólabyggingar við Þorragötu 21 sé vísað til þess að í aðalskipulagi hafi lengi verið ráðgert að æfinga- og kennsluflug og öll starfsemi sem því tengdist viki af flugvellinum fyrr en síðar. Því ætti ekki að koma á óvart að í deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir að rífa megi bygginguna við Þorragötu 21, þar sem sú starfsemi sem þar fari fram sé víkjandi, líkt og Fluggarðar. Stefnan um þessa þætti flugstarfseminnar í Vatnsmýri rími einnig við áform um lokun NA/SV-flugbrautar, sem hafi verið mikið notuð fyrir æfinga- og kennsluflug undanfarna áratugi. Tímasett markmið aðalskipulags beinist hins vegar fyrst og fremst að breyttri landnotkun á Fluggarðasvæðinu og sé deiliskipulagið í samræmi við það markmið. Samkvæmt sjálfsákvörðunar- og skipulagsvaldi sveitarfélaga geti deiliskipulag lagt á kvöð um niðurrif húsa. Deiliskipulag mæli fyrir um byggingarheimildir og byggðarþróun en taki ekki afstöðu til eignarréttinda. Valdi skipulagsákvörðun tjóni á gildum eignarheimildum reiknist bætur samkvæmt 51. gr. skipulagslaga að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins.

Í reglugerð nr. 464/2007 um flugvelli sé ekki fjallað um gerð áhættumats, hvaða þætti eigi að leggja mat á eða framkvæmd matsins. Ekki komi þar heldur fram hvort framkvæma eigi áhættumat fyrir eða eftir samþykkt deiliskipulags. Hins vegar sé vakin athygli á því að ef framkvæma eigi áhættumat fyrir samþykkt deiliskipulags geti neikvæð niðurstaða slíks mats sett deiliskipulag í uppnám. Með þeirri niðurstöðu væri í raun búið að flytja skipulagsvald yfir til rekstraraðila flugvalla, sem gætu hindrað samþykkt deiliskipulags. Það myndi ganga gegn sjálfsákvörðunarrétti og skipulagsvaldi sveitarfélaga, sem tryggt sé í stjórnarskrá og skipulagslögum. Í 25. gr. reglugerðarinnar sé ekki kveðið á um það hver eigi að eiga frumkvæði að gerð áhættumats, en með vísan til 7., 16. og 22. gr. hennar megi álykta að það sé handhafi rekstrar- og flugvallarskírteinis sem hlutast skuli til um það.

Innanríkisráðuneytið hafi fengið Isavia til að skoða afleiðingar lokunar NA/SV-flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli. Í bréfi Isavia til ráðuneytisins, dags. 13. desember 2013, hafi komið fram að samkvæmt athugun Veðurstofu Íslands væri nothæfisstuðull fyrir sjúkraflugvélar á Reykjavíkurflugvelli, ef miðað væri við tvær flugbrautir í Reykjavík ásamt óbreyttu flugbrautakerfi í Keflavík, umtalsvert hærri en ef miðað væri við Reykjavíkurflugvöll í núverandi mynd með þremur flugbrautum, eða 99,5%, vegið meðaltal yfir árið. Ef eingöngu væri miðað við lokun NA/SV-flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli yrði notkunarstuðull hans 97,5%, vegið meðaltal yfir árið, sem væri yfir lágmarki samkvæmt gr. 3.1.1. í VI. kafla reglugerðar um flugvelli. Samstarf hafi verið með ríki og borg í aðdraganda deiliskipulagsins sem endurspeglist í samkomulagi þeirra frá 19. apríl og 25. október 2013. Í samkomulaginu frá 19. apríl komi eftirfarandi fram: „Að NA/SV flugbrautin verði lögð af og það land sem við það losnar sunnan vallarins verði skipulagt undir blandaða byggð. Innanríkisráðuneytið auglýsi lokun flugbrautar samhliða auglýsingu deiliskipulags nýrrar flugstöðvar.“ Því sé vísað á bug að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar eða ákvæðum reglugerðar um flugvelli.

Í viðbótargreinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að hið kærða deiliskipulag hafi verið sent Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Í svarbréfi stofnunarinnar, dags. 28. apríl 2014, hafi ekki verið gerðar athugasemdir heldur einungis óskað eftir leiðréttingum á texta í greinargerð á deiliskipulagsuppdrætti, en gera þyrfti betur grein fyrir skipulagslegri stöðu svæða sem áður hefðu verið innan deiliskipulagsins en væru felld út með nýja deiliskipulaginu. Athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi ekki lotið að form- eða efnisgöllum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga, heldur hafi stofnunin einungis óskað eftir betri skýringum frá Reykjavíkurborg á framangreindum atriðum. Því hafi hvorki þurft né verið skylt að fara aftur með málið fyrir borgarráð til samþykktar, en tekið væri fram í nefndu bréfi að ekki yrði tekin afstaða til erindisins fyrr en skýringar lægju fyrir.

Í bréfi Isavia, dags. 23. apríl 2014, hafi aðeins verið gerðar athugasemdir við villur í umsögn um innsendar athugasemdir, dags. 10. mars 2014, sem send hafi verið þeim sem gerðu athugasemdir, en ekki hafi verið gerðar athugasemdir við hina auglýstu deiliskipulagstillögu. Þar að auki hafi bréf Isavia borist 15. maí 2014, eða tveimur mánuðum eftir að lögbundinn athugasemdafrestur hafi runnið út.

Í minnisblaði skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, komi fram að skipulagsfulltrúi hefði ritað bréf til forstjóra Isavia sama dag, þar sem þakkað hefði verið fyrir ábendingarnar er vörðuðu villur í umsögn embættisins. Umsögn skipulagsfulltrúa hafi svo verið leiðrétt til samræmis við ábendingar Isavia og með bréfi, dags. 26. maí 2014, hafi hún verið send Skipulagsstofnun til yfirferðar, sbr. 42. gr. skipulagslaga, ásamt minnisblaði skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, bréfi frá Isavia, dags. 23. apríl s.á, og bréfi skipulagsfulltrúa til Isavia, dags. 20. maí s.á. Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2014, komi fram að Isavia hafi gert athugasemdir við tvö atriði í umsögn Reykjavíkurborgar um athugasemdir sem borist hafi við auglýsta tillögu og að Reykjavíkurborg hafi leiðrétt þessi atriði. Skipulagsstofnun hafi farið yfir innsend gögn og talið að Reykjavíkurborg hefði brugðist við ábendingum stofnunarinnar frá 28. apríl 2014. Stofnunin hafi ekki gert athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.

Minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, og bréf Isavia, dags. 23. apríl 2014, hafi verið lögð fram til kynningar á fundi borgarráðs 5. júní 2014, ásamt deiliskipulagi Hlíðarenda, en deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar hafi verið samþykkt í borgarstjórn 1. apríl 2014 og málinu því lokið af hálfu borgarinnar. Bréfin hafi af þeim sökum verið lögð fram til kynningar með deiliskipulagi Hlíðarenda, þar sem staða flugvallarins hafi m.a. verið mikið til umræðu. Ekki verði séð að lagðar hafi verið fram athugasemdir eða bókanir vegna þessa.

Að lokum er ítrekað að ábendingar Skipulagsstofnunar í bréfi, dags. 28. apríl 2014, hafi ekki verið á þá leið að nauðsynlegt hafi verið að leggja bréf stofnunarinnar fram til samþykktar, hvorki í umhverfis- og skipulagsráði né borgarráði, enda hafi ekki verið um að ræða athugasemdir sem vörðuðu form- eða efnisgalla, sbr. 42. gr. skipulagslaga, heldur einungis ósk um ítarlegri skýringar á skipulagslegri stöðu svæða sem féllu utan deiliskipulagsins en hefðu verið innan þess í eldra skipulagi flugvallarins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi nýs deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar og ber málatilbúnaður kærenda með sér að fyrst og fremst standi ágreiningur um þá ráðagerð borgaryfirvalda að aðstaða þeirra fyrir einkaflugsstarfsemi í svonefndum Fluggörðum á skipulagssvæðinu eigi að víkja.

Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur liggja fyrir allar meginforsendur hins kærða deiliskipulags, svo sem að einkaflugsstarfsemi á svæðinu skuli víkja. Var borgaryfirvöldum því heimilt að falla frá gerð lýsingar á skipulagsverkefninu samkvæmt 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og kynningu tillögunnar fyrir íbúum sveitarfélagsins og hagsmunaaðilum, sbr. 3. mgr. 40. gr. laganna. Deiliskipulagstillagan var auglýst til kynningar í samræmi við 41. gr. skipulagslaga og bárust athugasemdir við tillöguna. Að kynningu lokinni var málið til meðferðar hjá umhverfis- og skipulagsráði. Samþykkti ráðið deiliskipulagstillöguna með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagssviðs frá 10. mars 2014, sem hafði að geyma svör við fram komnum athugasemdum. Var sú afgreiðsla samþykkt í borgarráði 27. mars 2014 og staðfest í borgarstjórn hinn 1. apríl s.á. Þess skal getið í tilefni af málatilbúnaði kærenda að ákvörðun um deiliskipulag felur ekki í sér ráðstöfun á beinum eða óbeinum eignarréttindum, en standi slík réttindi í vegi fyrir framkvæmd skipulags getur komið til eignarnáms skv. 50. gr. skipulagslaga eða eftir atvikum til greiðslu bóta í samræmi við 51. gr. laganna. Slík álitaefni heyra ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum undir dómstóla.

Eins og rakið er í málavöxtum voru gerðar breytingar á texta í greinargerð á hinum samþykkta skipulagsuppdrætti og fyrrgreindri umsögn skipulagssviðs, sem umhverfis- og skipulagsráð skírskotaði til við afgreiðslu málsins. Greindar breytingar á skipulagsuppdrætti voru gerðar vegna fyrirspurnar Skipulagsstofnunar í bréfi, dags. 28. apríl 2014. Þá var og breytt umsögn skipulagssviðs í tilefni af ábendingum Isavia, dags. 23. s.m. Voru þessar breytingar allar gerðar eftir lokaafgreiðslu borgarstjórnar á deiliskipulagstillögunni hinn 1. apríl 2014.

Sveitarstjórnir bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Eðli máls samkvæmt verður það stjórnvald sem tók upprunalega ákvörðun í skjóli stjórnsýsluvalds síns sjálft að standa að breytingum á henni og er það einnig í samræmi við ákvæði VI. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um afturköllun ákvörðunar o.fl. Ekki liggur fyrir að borgarráð eða borgarstjórn hafi tekið málið til umfjöllunar eftir nefndar breytingar og tekið afstöðu til þeirra, en skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga ber sveitarstjórn að taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á skipulagstillögu. Í því sambandi skal áréttað að breytingar þær sem gerðar voru á áðurgreindri umsögn umhverfis- og skipulagssviðs eftir afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar í borgarstjórn lutu að svörum við fram komnum athugasemdum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þar sem títtnefndar breytingar gátu haft áhrif á afgreiðslu málsins, verður að telja að hið kærða deiliskipulag, sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. júní 2014, sé haldið slíkum annmörkum að fella beri það úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hið kærða deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar, er tók gildi með auglýsingu nr. 539/2014 í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní 2014, er fellt úr gildi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                           Ásgeir Magnússon

_____________________________             ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                               Þorsteinn Þorsteinsson

66/2013 Miðbraut

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 17. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 12. júní 2013 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna Miðbrautar 34, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júlí 2013, er barst nefndinni 12. s.m., kærir Í, Miðbraut 34, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 12. júní 2012 að synja um breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna Miðbrautar 34, Seltjarnarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Seltjarnarnesbæ 27. nóvember 2014 og í nóvember 2015. 

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Lóðin að Miðbraut 34 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Vesturhverfis, sem markast af Lindarbraut, Melabraut, Valhúsabraut og Hæðarbraut. Tilgreind lóð er staðsett innan svæðis sem merkt er A á deiliskipulaginu. Þar er að finna einbýlishús og er þar hvorki heimilt að fjölga íbúðum né bæta við viðbótarhæð. Heimilað nýtingarhlutfall á svæðinu er 0,3. Nefnt deiliskipulag tók gildi 7. ágúst 2007, en var kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, m.a. af kærendum þessa máls. Kvað nefndin upp úrskurð 28. apríl 2008 í því kærumáli, sem er nr. 94/2007, og hafnaði kröfu um ógildingu samþykktar deiliskipulagsins.

Fyrirspurn kærenda um deiliskipulagsbreytingu vegna hækkunar þaks hússins á nefndri lóð var tekin fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 19. júní 2012. Var bókað að nefndin tæki jákvætt í fyrirspurnina og óskaði eftir frekari gögnum. Umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi, vegna hækkunar á nefndu húsi úr einni hæð í eina og hálfa hæð, var móttekin 2. ágúst s.á. og fylgdu henni uppdrættir, dags. 24. júlí s.á. Á fundi nefndarinnar 21. ágúst 2012 var umsóknin tekin fyrir og hún samþykkt til auglýsingar. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 12. september s.á. Var tillagan auglýst í kjölfarið og tekið fram í auglýsingu að tillagan fæli í sér hækkun þaks og breytingu húss úr einni hæð í eina og hálfa hæð að hámarki. Var gefinn kostur á að koma að athugasemdum til 17. desember s.á. Með bréfi, dags. 11. desember s.á., gerðu íbúar að Melabraut 29, 30, 31, 32, 33 og 34, auk íbúa að Miðbraut 36, athugasemdir við auglýsta tillögu.

Málið var tekið fyrir á ný á fundi bæjarstjórnar 13. febrúar 2013 og samþykkt að tillagan um breytingar á deiliskipulaginu yrði auglýst að nýju í Lögbirtingablaði og með áberandi hætti í dagblaði sem gefið væri út á landsvísu. Skyldi athugasemdafrestur eigi vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingarinnar skv. 1. mgr. 43. skipulagslaga nr. 123/2010. Í auglýsingu var tekið fram að breytingin vegna Miðbrautar 34 væri hækkun um hálfa hæð, þ.e.a.s. valmaþak með mæni 2,7 m yfir núverandi þaki. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 16. apríl s.á. var bókað að athugasemdir hefðu borist frá tilgreindri lögfræðistofu: „… fyrir hönd flestra eigenda á Melabraut 29 til 34 og á Miðbraut 36 um að hækkun yki skuggavarp á lóð og byrgði útsýn“. Frestaði nefndin afgreiðslu þar til aflað hefði verið frekari gagna. Á fundi sömu nefndar 14. maí s.á. var málið enn tekið fyrir og bókað að móttekin væri beiðni umsækjanda: „… um að fá að setja upp létta grind með útlínum þakhækkunar til að skýra erindi sitt betur“. Féllst nefndin á beiðnina og bókaði að hún myndi „… meta grenndaráhrif af uppsetningu á staðnum“.

Tillagan var næst tekin fyrir á fundi nefndarinnar 6. júní s.á. og var bókað að umfang þakhækkunar hefði verið markað með listum og snúrum á húsið til skoðunar fyrir nefndina. Á fundinum var umsóknin afgreidd með svofelldri bókun: „Nefndin hefur kynnt sér málavexti og hafnar áformum um hálfa efri hæð vegna grenndaráhrifa.“ Var fundargerð nefndarinnar lögð fram á fundi bæjarstjórnar hinn 12. s.m. og staðfest. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að fyrir nokkrum misserum hafi komið í ljós að húsþak á fasteign þeirra að Miðbraut 34 væri ónýtt. Vegna þessa hafi þeir farið fram á breytingu á deiliskipulagi þannig að leyfð yrði hálf hæð undir valmaþaki ofan á hús sitt og yrði það þá ein og hálf hæð. Synjun bæjarstjórnar vegna andmæla nokkurra nágranna brjóti í bága við jafnræðis-, meðalhófs- og réttmætisreglu stjórnsýslulaga. Ákvarðanir um byggingarmagn í deiliskipulagi Vesturhverfis virðist ráðast af geðþótta sem mismuni fasteignareigendum í hverfinu. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins sé heimilt að reisa hús sem séu ein og hálf eða tvær hæðir á lóðum sem standi næst kærendum, vestan, sunnan og suðaustan við lóð þeirra. Þetta skapi talsverða mismunun á milli einstakra eigenda fasteigna á skipulagsreitnum í nýtingarheimildum lóða. Þá hafi enginn rökstuðningur fylgt hinni kærðu ákvörðun.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að fyrir liggi nýlegt skipulag af því svæði þar sem hús kærenda standi. Deiliskipulagið hafi átt sér langan aðdraganda og hafi verið umdeilt, m.a. vegna mismunandi heimilda til uppbyggingar á svæðinu, hæða húsa, byggingarmagns o.fl. Skipulagið hafi áður sætt kæru, m.a. á þeim grunni að það væri andstætt jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Á því álitaefni hafi verið tekið í úrskurði úrskurðanefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 94/2007. Með vísan til þeirra forsendna sem liggi að baki úrskurðinum um skipulagið í heild sinni stangist hin kærða ákvörðun, þ.e. synjun á breytingu á skipulaginu, ekki á við jafnræðisreglu, meðalhófsreglu eða réttmætisreglu stjórnsýslulaga. Lögmæt og málefnaleg sjónarmið hafi búið að baki synjuninni. Borgarar megi almennt búast við því að nokkur festa sé í skipulagsmálum og ekki séu gerðar breytingar á skipulagi nema þegar nauðsyn krefji, það styðjist við almannaþörf og lögmæt og málefnaleg sjónarmið.

Athugasemdir hafi borist frá nágrönnum í sjö húsum sem mótmælt hafi breytingunni vegna grenndaráhrifa. Að beiðni kærenda hafi verið veittur kostur á að sýna breytinguna með uppsetningu grindar á húsið. Sveitarfélagið hafi hafnað breytingunni eftir að hafa kynnt sér framangreint, þá með hliðsjón af andmælum nágranna og grenndaráhrifum.

Kærendur hafi farið fram á rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar með bréfi, dags. 27. ágúst 2013, og beri að líta á málsrök sveitarfélagsins sem frekari rökstuðning fyrir synjun erindisins. 

Loks hafi tillaga að deiliskipulagsbreytingu verið endurauglýst til að lengja athugasemdafrest og tryggja lögmæti meðferðar málsins, en fyrri auglýsing hafi ekki birst í Lögbirtingablaði. Athugasemdir sem borist hafi við fyrri auglýsingu hafi því verið látnar halda gildi sínu við endurauglýsingu.

Athugasemdir kærenda við umsögn Seltjarnarnesbæjar: Vísað er til þess að sveitarstjórn hafi ákveðið að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við umsókn kærenda. Hefði því samkvæmt skipulagslögum átt að vinna tillöguna eins og um nýtt deiliskipulag væri ræða. Það hafi ekki verið gert og sé hin kærða ákvörðun og málsmeðferð hennar haldin svo verulegum ágöllum að ógildingu hljóti að varða.

Ekki hafi verið gætt að lagaskyldu um samráð við gerð tillögunnar, sbr. 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bæjarstjórn hafi samþykkt að auglýsa tillöguna á fundi sínum 13. febrúar 2013 og hefði tillagan þá þegar þurft að fullnægja skilyrðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Hins vegar hafi ekki verið gætt að ákvæði gr. 5.2.1. í reglugerðinni, en þar segi að ef tillaga að deiliskipulagi, eða tillaga að breytingu á því, taki til svæðis sem liggi að lóðamörkum, landamörkum eða sveitarfélagamörkum skuli haft samráð við eiganda þess lands, lóðarhafa eða viðkomandi sveitarfélag áður en tillagan sé samþykkt til auglýsingar. Ákvæðið verði ekki skilið öðruvísi en svo að þegar um sé að ræða breytingartillögu um deiliskipulag einnar lóðar beri að hafa samráð við lóðarhafa aðliggjandi lóða, áður en tillagan sé auglýst.

Ekki hafi heldur verið gætt að ákvæðum í gr. 5.8.5.1. og 5.8.5.2. í sömu skipulagsreglugerð við meðferð málsins, en þar komi m.a. fram að í greinargerð skuli lýsa breytingunni, forsendum hennar, rökstuðningi fyrir henni, samráði við hagsmunaaðila og samræmi við aðalskipulag. Auglýst tillaga sé þegar samþykkt af sveitastjórn og verði ráðið af því að komi ekki fram athugasemdir þurfi ekki að taka tillöguna aftur fyrir í sveitarstjórn heldur nægi þá fyrri samþykkt hennar til auglýsingar, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Leiði af þessu að ljúka þurfi gerð skipulagstillögu fyrir auglýsingu hennar. Allar meginforsendur eigi að liggja fyrir, svo og upplýsingar um grenndaráhrif tillögunnar. Annars skorti á að fullnægt hafi verið rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við undirbúning málsins. Af sömu ástæðu ætti það að heyra til undantekninga að athugasemdir sem fram hafi komið við auglýsta tillögu leiði til þess að frá henni sé fallið.

Bera verði áhrif þeirrar hækkunar á húsi kærenda sem um sé deilt saman við þá hæð sem húsið geti haft miðað við gildandi skipulagsskilmála. Á lóðinni sé jafnframt ónýttur byggingarreitur fyrir viðbyggingu og þótt sú viðbygging megi aðeins vera á einni hæð sé ekkert í skipulaginu um hæðarsetningu gólfplötu eða um þakgerð, en ekki sé kvöð um flöt þök á svæðinu. Þá liggi fyrir að erindi kærenda sé til komið vegna þess að þak á húsi þeirra leki og sé vandséð að mögulegt sé að neita þeim um byggingarleyfi fyrir mænisþaki eða valmaþaki á húsið án nýtanlegs rýmis, enda sé það ekki andstætt skipulagi svæðisins. Engin athugun á þessum mismunandi kostum hafi farið fram og því hafi skort á rannsókn málsins.

Fyrrverandi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi hafnað kröfu um ógildingu á deiliskipulagi Vesturhverfis, þrátt fyrir að í skipulaginu fælist talsverð mismunun milli lóðarhafa á svæðinu. Í ljósi þessa hljóti bæjaryfirvöld að þurfa að taka til skoðunar einstök tilvik á svæðinu þar sem um óeðlilega mismunun sýnist vera að ræða. Augljóst sé að betra væri að fallast á umsókn kærenda og samræma þannig stærðir húsa, yfirbragð og nýtingar-
hlutfall lóða, sbr. markmið skipulagsins.

Athugasemdir sem borist hafi við fyrri auglýsingu tillögunar virðist hafa ráðið úrslitum um afstöðu bæjaryfirvalda. Þær hafi hins vegar legið fyrir þegar bæjarstjórn samþykkti 13. febrúar 2013 að skipulagstillagan yrði auglýst að nýju. Með því að samþykkja að auglýsa tillöguna, þrátt fyrir fram komin mótmæli, hafi bæjarstjórn í raun hafnað mótmælunum. Þegar málið hafi verið tekið fyrir í skipulags- og mannvirkjanefnd 16. apríl 2013 eftir endurtekna auglýsingu hafi verið bókað á þann veg að skilja megi að athugasemdir hafi komið fram við þá auglýsingu. Málsgögn beri með sér að um sömu athugasemdir sé að ræða og bókað hafi verið um 18. desember 2012. Séu þessi vinnubrögð ámælisverð og til þess fallin að villa þeim sýn er komi ókunnugir að málinu. Þá hafi fram komnum mótmælum verið safnað og þeirra aflað með því að gefa ranga mynd af fyrirhugaðri breytingu. Bæjaryfirvöldum hafi borið að kanna uppruna þeirrar myndar og upplýsa hið sanna um umfang stækkunarinnar. Að afla ekki þeirra gagna sé brot á rannsóknarreglu.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 12. júní 2013 að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna lóðar nr. 34 við Miðbraut. Umsótt breyting fól í sér að bæta mætti við hús kærenda á lóðinni hálfri hæð undir valmaþaki þannig að húsið yrði ein og hálf hæð.

Um deiliskipulagsáætlanir er fjallað í VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga, en landeigandi eða framkvæmdaraðili getur m.a. óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað, sbr. 2. mgr. 38. gr. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laganna skal fara með breytingar á samþykktu deiliskipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða að öðru leyti en því að ekki er skylt að taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu skv. 1. mgr. 40. gr. Um gerð deiliskipulags, kynningu og samráð er fjallað í 40. gr. og um auglýsingu og samþykkt þess í 41. gr. Þá gilda um skipulagsmál almennt ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, sem tók gildi 31. janúar 2013, en áður gilti skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Kærendur telja þá ágalla vera á meðferð málsins að leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar, og hafa í því sambandi m.a. vísað til þess að ekki hafi verið gætt að lagaskyldu um samráð við gerð tillögunnar, sbr. 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Hafa kærendur um þá samráðsskyldu bent á gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sem kveður á um að ef tillaga að breytingu deiliskipulags tekur til svæðis sem m.a. liggi að lóðamörkum, skuli haft samráð við eiganda þess lands og lóðarhafa áður en tillagan er samþykkt til auglýsingar. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í eldri skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Í máli þessu háttar svo til að bæjarstjórn staðfesti á fundi sínum 12. september 2012 að tillagan um deiliskipulagsbreytingarnar væri samþykkt til auglýsingar og var hún auglýst 3. nóvember s.á., hvoru tveggja í gildistíð skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. Bæjarstjórn samþykkti tillöguna til auglýsingar að nýju á fundi sínum 13. febrúar 2013 og var hún auglýst 14. s.m. Hafði skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þá tekið gildi. Í 9. kafla þeirrar reglugerðar er að finna ákvæði til bráðabirgða og segir þar í 4. tl. að ákvæði hennar gildi ekki um tillögur að breytingum á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga sem sveitarstjórn hafi fyrir gildistöku hennar samþykkt að auglýsa í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Þá gildi ákvæði eldri skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var ástæða endurauglýsingar umræddrar breytingartillögu til kynningar sú að láðst hafði við fyrri auglýsingu að birta hana í Lögbirtingablaði, svo sem áskilið er í 1. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Var bæjarstjórn því rétt að auglýsa tillöguna að deiliskipulagsbreytingunni að nýju til þess að uppfylla skilyrði um form auglýsingarinnar að lögum. Um lagaskil verður hins vegar að miða við fyrri samþykkt til auglýsingar, enda var endurauglýsing samþykkt vegna framangreindra formskilyrða og var um eina samfellda málsmeðferð að ræða. Þá eru að öðru leyti ekki efni til þess að ætla að ónógt samráð hafi farið fram í skilningi 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Kærendur halda því jafnframt fram að það leiði af 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga að fyrir auglýsingu skipulagstillögu þurfi að ljúka gerð hennar, m.a. í samræmi við gr. 5.8.5.1. og 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, þannig að hægt sé að samþykkja hana að óbreyttu. Að öðrum kosti hafi rannsókn ekki verið sinnt nægjanlega, en nefnd reglugerð hafi tekið gildi fyrir ákvörðun sveitarstjórnar um endurauglýsingu tillögunnar. Að sama skapi hafi sveitarfélaginu við endanlega ákvörðun ekki verið heimilt að líta til athugasemda sem fram hefðu komið við fyrri auglýsingu tillögunnar þar sem hún hefði í raun hafnað þeim þegar ákveðið hafi verið að endurauglýsa.

Í 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga segir að sveitarstjórn skuli taka tillögu til umræðu að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar þegar frestur til athugasemda sé liðinn. Í þeirri umfjöllun skuli taka afstöðu til athugasemda sem borist hafi. Ef engar athugasemdir séu gerðar við tillöguna sé ekki skylt að taka hana aftur til umræðu í sveitarstjórn heldur skuli senda hana Skipulagsstofnun. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni komu fram athugasemdir í kjölfar fyrri auglýsingar deiliskipulagsbreytingartillögunnar, en engar nýjar athugasemdir bárust við endurauglýsingu. Ljóst er af bókun bæjarstjórnar 13. febrúar 2013 að ekki var þá tekin afstaða til þeirra athugasemda sem þá voru fram komnar, heldur sneri afgreiðsla bæjarstjórnar þá eingöngu að því að auglýsa breytinguna á ný. Verður hvorki séð að ákvæði skipulagslaga eða reglugerðar hafi staðið endurauglýsingu í vegi né því að líta til áður fram kominna athugasemda við endanlega afgreiðslu málsins, enda er beinlínis skylt lögum samkvæmt að taka afstöðu til þeirra áður en mál er afgreitt. Þá er ljóst, að gr. 5.8.2.1. og 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um framsetningu breytinga á deiliskipulagi koma ekki til skoðunar, sbr. það sem áður hefur komið fram um skil milli eldri og yngri skipulagsreglugerðar, og þar sem breyting sú sem að var stefnt að beiðni kærenda kom greinilega fram í auglýsingu og kynningargögnum var skilyrðum þar um í skipulagslögum og þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 fullnægt.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Á því svæði sem hér um ræðir hefur bæjarstjórn nýtt sér framangreint skipulagsvald með deiliskipulagi Vesturhverfis, sem úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála tók afstöðu til í kærumáli nr. 97/2007. Þá hefur sveitarstjórn í skjóli skipulagsvalds síns synjað kærendum um breytingu á því skipulagi. Kemur þá til skoðunar hvort að sveitarstjórn hafi beitt valdi sínu á málefnalegan hátt og í samræmi við það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. nefndra laga að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Á svæði merktu A í deiliskipulagi Vesturhverfis sem hér á við, er ekki gert ráð fyrir hækkun húsa í tvær hæðir. Tillaga kærenda að breyttu deiliskipulagi fól í sér hækkun húss um hálfa hæð með gerð valmaþaks á húsið í stað núverandi flats þaks, en við þá breytingu yrði mænishæð 2,7 m. Í breytingartillögunni kemur fram að skuggavarp eykst við breytinguna á nærliggjandi lóðir. Við meðferð málsins komu fram athugasemdir nágranna, sem lutu m.a. að skuggavarpi, og var bókað um þær athugasemdir, svo sem nánar greinir í málavöxtum. Þá liggur fyrir að umfang umbeðinnar þakhækkunar var markað með listum og snúrum til kynningar og skoðunar og kynntu fulltrúar skipulagsyfirvalda bæjarins sér aðstæður á vettvangi. Var það mat sveitarfélagsins að hafna bæri tillögu um hækkun húss kærenda með tilliti til grenndaráhrifa. Þrátt fyrir að fallast megi á að grenndaráhrif hinnar umþrættu breytingar séu ekki mikil er hin kærða ákvörðun studd efnisrökum og verður ekki talið að réttur kærenda hafi verið fyrir borð borinn í skilningi 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þeirrar staðreyndar að íbúum sveitarfélags er almennt ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja fram breytingu á gildandi deiliskipulagi, verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Seltjarnarnesbæjar frá 12. júní 2013 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna Miðbrautar 34, Seltjarnarnesi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

98/2011 Túngötureitur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 8. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2011, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. nóvember 2011 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir Túngötureit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. nóvember 2011, er barst nefndinni 3. desember s.á., kæra G, Hávallagötu 53, og H, Hávallagötu 48, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. nóvember 2011 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir Túngötureit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 24. janúar 2014.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur 12. desember 2007 var samþykkt að kynna forsögn að deiliskipulagi Túngötureits fyrir hagsmunaaðilum á reitnum. Forkynning fór fram frá 17. desember 2007 til 8. janúar 2008 og bárust athugasemdir. Ný tillaga að deiliskipulagi Túngötureits, dags. 25. maí 2009, var lögð fram á fundi skipulagsráðs 27. s.m. og var samþykkt að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á reitnum og hverfisráði Vesturbæjar. Tillagan var kynnt frá 5. til og með 22. júní 2009. Athugasemdir bárust.

Á fundi skipulagsráðs 27. apríl 2011 var lögð fram endurskoðuð tillaga skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur að deiliskipulagi Túngötureits, dags. 8. apríl 2011. Samþykkt var að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á reitnum, sem og þeim sem höfðu gert athugasemdir við fyrri hagsmunaaðilakynningar, auk hverfisráðs Vesturbæjar. Tillagan var kynnt frá 6. til 27. maí 2011 og bárust athugasemdir.

Hinn 22. júní 2011 var tillagan lögð fram að nýju á fundi skipulagsráðs ásamt umsögn skipulags- og byggingarsviðs, dags. 21. júní 2011, um athugasemdir sem komu fram við hagsmunaaðilakynningu. Samþykkt var að auglýsa tillöguna og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 30. júní 2011. Tillagan var auglýst frá 6. júlí til og með 17. ágúst 2011. Athugasemdir bárust. Á fundi skipulagsráðs 12. október 2011 var tillagan tekin fyrir á ný og samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 3. október 2011, um innsendar athugasemdir. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 3. nóvember 2011. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins og öðlaðist það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 16. desember 2011.

Túngötureitur afmarkast af Túngötu, Bræðraborgarstíg, Hávallagötu og Hofsvallagötu. Um er að ræða gróna byggð en á reitnum standa 22 hús sem öll voru byggð á árunum 1934-1939, að undanskildu húsinu að Bræðraborgarstíg 31, sem er eldra. Með hinu kærða deiliskipulagi var meðal annars tekin afstaða til verndunar húsa, garðveggja og trjágróðurs, auk þess sem lagt var til að reiturinn nyti svæðisbundinnar verndunar. Skilgreindar voru heimildir til að byggja eða stækka bílskúra og breytingar voru gerðar á lóðinni nr. 31 við Bræðraborgarstíg, sem meðal annars fólu í sér að ekki var lengur gert ráð fyrir almennum bílastæðum á lóðinni.

Málsrök kæranda:
Kærendur skírskota til þess að borgarráð hafi samþykkt hina kærðu deiliskipulagstillögu rúmum 11 vikum eftir að frestur til athugasemda hafi runnið út. Það samræmist ekki 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem kveði á um að senda skuli Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hafi verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð, ásamt athugasemdum og umsögnum um þær, innan átta vikna frá því að athugasemdafrestur hafi runnið út.

Tillagan geri meðal annars ráð fyrir verulegri fækkun bílastæða á horni Bræðraborgarstígs og Hávallagötu en mikill skortur sé á bílastæðum á þessu svæði. Fækkun bílastæða við Hávallagötu varði hagsmuni allra íbúa við götuna en þrátt fyrir það hafi tillagan aðeins verið kynnt fyrir íbúum öðrum megin götunnar, þ.e. íbúum á Hávallagötu 30-48, með bréfi skipulagsstjóra Reykjavíkur, dags. 4. maí 2011. Hún hafi hins vegar ekki verið kynnt fyrir íbúum sunnan megin götunnar, við Hávallagötu nr. 35-55, þótt þeir hafi sömu eða jafnvel meiri hagsmuna að gæta varðandi fækkun bílastæða. Íbúum við Bræðraborgarstíg vestanverðan hafi ekki heldur verið kynnt tillagan og hið sama megi segja um íbúa við Sólvallagötu 28-55 og við norðanverða Túngötu.

Að lokum benda kærendur á að framkvæmdir hafi hafist á horni Bræðraborgarstígs og Hávallagötu áður en deiliskipulagstillagan hafi verið samþykkt. Kantsteinn hafi verið hækkaður svo ekki væri lengur mögulegt að aka inn á bílastæðin með góðu móti. Hafi þær framkvæmdir verið um garð gengnar þegar skipulagsráð og borgarráð hafi tekið athugasemdir íbúa til umfjöllunar og afgreiðslu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg vísar til þess að ekkert í skipulagslögum nr. 123/2010 leiði til þess að deiliskipulag verði ógilt þótt frestur samkvæmt 42. gr. laganna sé ekki virtur. Borgaryfirvöld hafi veitt Skipulagsstofnun skýringar á ástæðum þess að dregist hafi að senda tillöguna til umfjöllunar og Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemdir við tillöguna að þessu leyti. Þessi óverulegi ágalli á málsmeðferðinni valdi ekki ógildi deiliskipulagsins, enda verði ekki séð að neinir hagsmunir hafi farið forgörðum þrátt fyrir hann.

Ekki sé heldur fallist á að skort hafi á kynningu á deiliskipulagstillögunni en bent sé á að bréf, sem kærendur vísi til, hafi falið í sér hagsmunaaðilakynningu en ekki grenndarkynningu samkvæmt ákvæðum skipulagslaga. Kynningin hafi eðli máls samkvæmt eingöngu náð til þeirra hagsmunaaðila sem átt hafi eignir á reitnum. Afar vandlega hafi verið staðið að kynningu deiliskipulagsins. Tillagan hafi verið auglýst í samræmi við ákvæði skipulagslaga og allir þeir sem hafi talið sig eiga hagsmuna að gæta hafi getað komið að athugasemdum.

Umfjöllun um mögulega uppbyggingu á lóð nr. 31 við Bræðraborgarstíg hafi staðið yfir í nokkur ár og ýmsar breytingar verið gerðar, m.a. vegna ítrekaðra athugasemda hagsmunaaðila. Í stað þess að heimila nýtt hús á lóðinni sé nú gert ráð fyrir að gamla húsið standi áfram en heimilt verði að byggja við það. Þá hafi verið horfið frá hugmyndum um skiptingu lóðarinnar. Málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við lög og kappkostað hafi verið að halda íbúum upplýstum um efni og innihald tillögunnar.

Lóðin númer 31 við Bræðraborgarstíg sé í einkaeigu samkvæmt þinglýsingabókum. Þótt íbúar í nágrenninu hafi lagt bílum sínum inni á lóðinni í einhvern tíma skapi það þeim engan rétt. Þá hvíli engin skylda á Reykjavíkurborg til að láta útbúa þar almenningsstæði til frambúðar. 

Niðurstaða: Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skyldi senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hafði verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan átta vikna frá því að frestur til athugasemda rann út. Frestur til athugasemda við hina kærðu skipulagsákvörðun rann út hinn 17. ágúst 2011. Deiliskipulagið var sent Skipulagsstofnun eftir fyrrgreindan átta vikna frest, eða 10. nóvember 2011. Þessi annmarki, er lýtur að hraða og samfellu í meðferð máls, verður ekki talinn þess eðlis að hann hafi haft áhrif á efni hinnar kærðu ákvörðunar eða réttarstöðu kærenda og verður ekki talinn geta ráðið úrslitum um gildi ákvörðunarinnar.

Kærendur gera jafnframt athugasemd við það að deiliskipulagið hafi eingöngu verið kynnt fyrir íbúum innan skipulagsreitsins en ekki íbúum við jaðar hans. Er þar vísað til hagsmunaaðilakynningar sem fram fór í maí 2011. Fallast má á það með kærendum að íbúar við jaðar skipulagsreitsins kunni að hafa átt hagsmuna að gæta vegna hins kærða deiliskipulags. Með vísan til þess að deiliskipulagstillagan var auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga, sbr. 31. gr. laganna, verður þó ekki talið að skort hafi á kynningu skipulagsins með þeim hætti að haft hafi áhrif á efni hinnar kærðu ákvörðunar, enda gafst kærendum sem og öðrum kostur á að koma athugasemdum sínum við deiliskipulagstillöguna á framfæri áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

Kærendur gera athugasemd við verulega fækkun bílastæða á horni Bræðraborgarstígs og Hávallagötu. Með makaskiptasamningi milli bæjarstjórnar Reykjavíkur og eigenda Bræðraborgarstígs 31, dags. 25. júlí 1951, voru gerðar breytingar á lóðarmörkum Bræðraborgarstígs 31, en lóðin er eignarlóð. Kvað samningurinn meðal annars á um að bæjarstjórn Reykjavíkur seldi eigendum Bræðraborgarstígs 31 spilduna þar sem bílastæðin voru staðsett og var hún sameinuð lóðinni. Bæjarstjórnin hefði þó endurgjaldslausan afnotarétt af spildunni þar til húsið Bræðraborgarstígur 31 yrði endurbyggt, nýtt hús reist á lóðinni og Bræðraborgarstígur breikkaður. Umræddur makaskiptasamningur er einkaréttarlegur samningur á milli Reykjavíkurborgar og fyrri eigenda lóðarinnar, sem núverandi eigandi leiðir rétt sinn af, og geta aðrir ekki byggt rétt á honum. Er Reykjavíkurborg jafnframt heimilt að afsala sér afnotarétti af spildunni sem er innan lóðarmarka Bræðraborgarstígs 31. Fækkun bílastæðanna átti sér því eðlilegar skýringar og til þess ber einnig að líta að ekki er að finna í lögum eða reglugerðum fyrirmæli um lágmarksfjölda bílastæða til almenningsnota á íbúðarsvæðum.

Að öllu framangreindu virtu er hið kærða deiliskipulag ekki haldið þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar þess.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. nóvember 2011 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir Túngötureit.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

100/2011 Grundarstígur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 1. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 100/2011, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. september 2011 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Grundarstígsreit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. desember 2011, er barst nefndinni 20. s.m., kæra eigendur Grundarstígs 9, og eigandi 1. hæðar á Grundarstíg 12, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. september 2011 að samþykkja deiliskipulag fyrir Grundarstígsreit. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 9. desember 2011. Gera kærendur þá kröfu að sérskilmálar fyrir lóðina Grundarstíg 10, er heimila byggingu samkomusalar sem taki allt að 50 manns í sæti, kaffihús sem taki allt að 45 manns í sæti, rekstur veitingasalar og samkomu- og tónleikahald í húsinu, verði felldir úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að með úrskurði í máli nr. 58/2009, uppkveðnum 8. febrúar 2010, felldi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úr gildi byggingarleyfi, þar sem m.a. var heimilað að byggja við kjallara og hækka þak hússins að Grundarstíg 10 og heimila þar blandaða atvinnustarfsemi í stað íbúðar. Taldi úrskurðarnefndin að um svo verulega breytingu hefði verið að tefla að ekki hefðu verið skilyrði til þess að fara með umsókn um byggingarleyfi eftir undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, auk þess sem hinni kærðu ákvörðun og rökstuðningi fyrir henni hefði verið áfátt. Í kjölfarið var forsögn að deiliskipulagi Grundarstígsreits kynnt fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu, Íbúasamtökum miðborgar Reykjavíkur og hverfisráði miðborgar. Athugasemdir bárust á kynningartíma.

Tillaga að deiliskipulagi umrædds skipulagsreits var lögð fram á fundi skipulagsráðs 9. mars 2011 ásamt m.a. húsakönnun, og var á fundinum bókað að í tillögunni fælist stefnumörkun um þróun byggðar á reitnum. Var samþykkt að kynna tillöguna fyrir hagsmunaðilum á svæðinu og bárust athugasemdir við hana. Tók skipulagsstjóri afstöðu til fram kominna athugasemda og hinn 22. júní 2011 samþykkti skipulagsráð að auglýsa fyrrgreinda tillögu í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu 30. s.m. Tillagan var auglýst frá 6. júlí til 17. ágúst 2011 og á fundi skipulagsfulltrúa 19. s.m. var tekin ákvörðun um að framlengja athugasemdafrestinn til 30. s.m. Athugasemdabréf bárust á kynningartíma tillögunnar frá Íbúasamtökum miðborgar og 25 íbúum, þ. á m. þremur kærenda. Tillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs 14. september 2011 og samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra um fram komnar athugasemdir, dags. 12. s.m. Var málinu vísað til borgarráðs, er staðfesti greinda samþykkt á fundi hinn 22. september 2011.

Deiliskipulagið var síðan sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu með bréfi, dags. 28. september 2011. Með bréfi, dags. 14. október s.á., gerði stofnunin athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins, m.a. „… þar sem ósamræmi er á milli áforma deiliskipulagsins og gildandi aðalskipulagi 2001-2024 gr. 3.1.2 og þróunaráætlun miðborgar um íbúðarsvæði á miðborgarsvæði“. Í kjölfarið var gerð breyting á skipulagstillögunni og svofelld áritun gerð á uppdrátt hennar: „Breytt 21.11.2011 til samræmis við bréf skipulagsstofnunar dags. 14.10.2011. Texti varðandi landnotkun og aðalskipulag í kafla 4 í almennum skilmálum er yfirfarinn og lagfærður og tilvísun í skilmála úr þróunaráætlun miðborgar greinargerð I er tekin út af uppdrættinum, þar sem þeir skilmálar eru ekki bindandi hluti aðalskipulags.“ Leiðréttur uppdráttur var sendur Skipulagsstofnun ásamt bréfi, dags. 24. nóvember 2011, þar sem athugasemdum stofnunarinnar er svarað og rökstutt að ekki væri nokkurt ósamræmi að finna við gildandi aðalskipulag en rétt þætti að leiðrétta uppdráttinn aðallega til að auka skýrleika skipulagsgagna. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 9. desember 2011.

Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 15. desember 2011, kom fram að erindi Reykjavíkurborgar, dags. 24. nóvember s.á., yrði ekki tekið til afgreiðslu fyrr en m.a. breytingar þær sem gerðar voru á deiliskipulaginu eftir kynningu yrðu teknar til umfjöllunar og samþykktar í borgarráði, sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Hinn 11. janúar 2012 var á fundi skipulagsráðs samþykktur skipulagsuppdráttur, lagt fram fyrrgreint bréf skipulagsstjóra, dags. 24. nóvember 2011, og lögð fram ný umsögn umhverfis- og samgöngusviðs varðandi umferð, dags. 10. janúar 2012, og svarbréf skipulagsstjóra til Skipulagsstofnunar, dags. 11. s.m. Á fundi borgarráðs 12. janúar 2012 var eftirfarandi bókað: „Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um tillögu að deiliskipulagi Grundarstígsreits … Samþykkt.“ Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 26. janúar 2012, segir að komið hafi í ljós að umrætt deiliskipulag hafi tekið gildi og því muni stofnunin birta hinn upphaflega deiliskipulagsuppdrátt sem samþykktur hafi verið í borgarráði 22. september 2011. Stofnunin geri athugasemdir við málsmeðferð á deiliskipulaginu auk þess sem vanti upplýsingar um það hvort niðurstaða sveitarstjórnar hafi verðið auglýst.

Hið kærða deiliskipulag er af Grundarstígsreit en hann afmarkast af Grundarstíg, Spítalastíg, Þingholtsstræti og Skálholtsstíg. Þær byggingar sem eru innan svæðisins eru Grundarstígur 2-10 (sléttar tölur) og Þingholtsstræti 25 og 27. Í sérskilmálum fyrir lóðina að Grundarstíg 10 segir: „Í húsinu er heimilt að reka menningartengda starfsemi. Í því er heimilt að innrétta samkomusal sem tekur allt að 50 manns í sæti og kaffihús sem tekur allt að 45 manns í sæti. Auk þess er heimilt að innrétta nauðsynlega aðstöðu fyrir starfsemina og vinnuaðstöðu fyrir fræðimenn. Gerður er nýr byggingarreitur á norðvesturhluta lóðarinnar. Innan hans er heimilt að reisa nýbyggingu, heimil mænishæð er allt að 5 m. Tenging nýbyggingar við eldra hús skal vera á forsendum hins síðarnefnda. Ný uppbygging er háð niðurrifi bílskúrs á lóðinni. Halda skal í steyptan garðvegg umhverfis lóðina og heimilt er að setja hlið í hann út að Skálholtsstíg. Ef valið er að nýta húsið sem íbúðarhús er heimilt að innrétta tvær íbúðir í því. Um mannfagnaði og veitingarekstur í húsinu fer eftir „Málsmeðferðarreglum Borgarráðs um veitingastaði og gististaði“ og Aðalskipulagi Reykjavíkur hverju sinni. Reksturinn skal vera tengdur starfsemi hússins.“

Með úrskurði í máli nr. 84/2012, uppkveðnum 24. janúar 2013, vísaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frá kæru á byggingarleyfi vegna Grundarstígs 10 þar sem hún barst utan kærufrests.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að skilmálar deiliskipulagsins sem heimili að húsinu að Grundarstíg 10 verði breytt úr íbúð í aðstöðu til skemmtanahalds séu í andstöðu við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024, þar sem Grundarstígur sé á íbúðarsvæði.

Þá stangist hin kærða ákvörðun á við ákvæði gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sem segi m.a. að á íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði. Svonefnd menningartengd starfsemi í nefndu húsi muni að langmestu leyti nýtast öðrum en íbúum hverfisins og geti því ekki talist starfsemi sem eðlilegt sé að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis samkvæmt greindu ákvæði skipulagsreglugerðar. Þá sé ekki hægt að skilgreina fyrirhugað margmiðlunarsafn sem þjónustu við íbúana og geti það varla talist þjónusta að gera ýmsum menningarverðmætum úr nánasta umhverfi skil. Í næsta nágrenni Grundarstígs sé fjöldi veitinga- og kaffihúsa auk tónleika- og fundarsala, þar sem hægt sé að stunda starfsemi á borð við þá sem fyrirhuguð sé, og sé umrædd starfsemi á þessum stað því ekki nauðsynleg. Ætla megi að samkomusalur sem nefndur sé í skilmálunum verði oft notaður til tónleikahalds og auk þess sé gert ráð fyrir útleigu á sal til einkaaðila. Starfsemi sem beinlínis sé ætlað að framleiða hljóð muni valda ónæði vegna hávaða sem stangist á við fyrrnefnt ákvæði skipulagsreglugerðar. Þá sé ótalinn hávaði sem ávallt myndist við það að fólk safnist saman utandyra til að reykja og vegna umferðar í kringum húsið, m.a. þegar leigubílar bíði eftir fólki o.þ.h. Ef staðurinn fái leyfi sem veitingastaður án vínveitingaleyfis sé verið að leyfa starfsemi sem megi hafa opna allan sólarhringinn hvort sem eigendur hússins ætli að nýta sér það eða ekki, sbr. 3. gr. málsmeðferðarreglna borgarráðs um veitingastaði og gististaði. Loks snúist starfsemin um að draga að sér umferð sem fari gegn umræddu ákvæði skipulagsreglugerðar. Ef enginn mæti á kaffihúsið eða fundi, veislur, tónleika og aðrar uppákomur, sé engin starfsemi. Ólíklegt sé að gestir staðarins fari að leggja bílum sínum í 200-300 m fjarlægð frá honum heldur muni þeir leggja bílum í öll stæði við Grundarstíg, nálægar götur og upp á gangstéttir. Íbúar í kringum Grundarstíg 10 búi á svæði þar sem talsverður bílastæðaskortur sé nú þegar og muni þeir sjá fram á aukinn bílastæðaskort, einkum á kvöldin. Þá sé ótalið að engin áætlun sé sýnileg um sérstök bifreiðastæði fyrir fatlaða.

Ef menningarstarfsemi sú sem fyrirhuguð sé í húsinu leggist af sé eins víst að húsið verði nýtt til skemmtanahalds. Í svari skipulags- og byggingarsviðs við athugasemdum Íbúasamtaka miðborgar segi að áfengisveitingar séu óheimilar á íbúðarsvæðum en þess sé ekki getið að samkvæmt 5. gr. fyrrgreindra málsmeðferðarreglna geti borgarráð veitt undantekningu frá þessu í jaðri miðborgar. Í deiliskipulaginu sé svæðið kallað jaðarsvæði og falli því undir framangreint undanþáguákvæði.

Í þróunaráætlun miðborgar sé kveðið á um að núverandi íbúðarhúsnæði og íbúðarlóðum beri að halda sem slíkum nema í þeim tilvikum þar sem aðstæður mæli gegn því, svo sem: a) verulegur kostnaður, b) sýnt sé fram á að breyting á notkun sé nauðsynleg til að tryggja byggingarlistar- og sögulegt gildi, c) breytingar á notkun styðji við íbúðareinkenni svæðisins, t.d. kaupmaðurinn á horninu, eða d) fella eigi húsnæði eða lóð að umfangsmikilli endurbyggingu í samræmi við gildandi skipulag. Umrætt sérákvæði deiliskipulagsins um Grundarstíg 10 gangi gegn nefndu ákvæði þar sem verið sé að breyta notkun íbúðarhúsnæðis án þess að nokkrar aðstæður mæli gegn því að hafa húsið áfram sem íbúðarhús.

Þá standist hin kærða ákvörðun ekki aðalskipulag þar sem ekki hafi farið fram úttekt á framboði á nærþjónustunni í viðkomandi hverfi og áhrif starfseminnar á umhverfið, s.s. vegna aukinnar umferðar, hávaða eða annars ónæðis af starfseminni, eins og áskilið sé í aðalskipulaginu. Í deiliskipulagi Grundarstígsreits standi í lið 4, um megin markmið og áherslur, að deiliskipulag Grundarstígsreits skuli vera í samræmi við stefnumörkun borgaryfirvalda eins og hún birtist í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, en hafa skuli til hliðsjónar að í vinnslu sé nýtt aðalskipulag þar sem áhersla sé m.a. lögð á sjálfbærari hverfi, ekki síst í jaðri miðborgar. Samkvæmt þessu ætli skipulagsyfirvöld að hafa hliðsjón af reglum sem séu í vinnslu og ekki sé búið að samþykkja.

Íbúar hverfisins eigi að njóta vafans um lögmæti skilmálanna en ekki rekstraraðilar, enda sé Grundarstígur í rótgrónu og rólegu íbúðarhverfi sem íbúar hafi valið vegna nálægðar við miðbæinn í góðri trú um að farið verði eftir skipulagsreglugerð, aðalskipulagi og þróunaráætlun miðborgar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að hið kærða deiliskipulag muni ekki skapa hættu á óþægindum fyrir íbúa hverfisins og muni starfsemin að Grundarstíg 10 þjóna þeim íbúum sem og öðrum íbúum borgarinnar. Ákvörðunin standist skipulagsreglugerð sem kveði sérstaklega á um að leyfa megi aðra starfsemi en þá sem eðlileg sé til þjónustu fyrir íbúa, enda muni hún ekki valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar eða draga að sér óeðlilega mikla umferð. Starfsemin muni jafnvel verða hverfinu til framdráttar og gefa því aukið gildi, en vilji eigenda Grundarstígs 10 standi til þess að hagsmunir þeirra og hverfisins fari saman.

Í fyrrgreindu húsi verði ekki heimilaður rekstur skemmtistaðar með ótakmörkuðum opnunartíma heldur verði í því menningartengd starfsemi, kaffihús án áfengis, tónleikahald í sal sem rúmi um 70 (sic) manns og útleiga á sal fyrir veislur og fundahöld. Um mannfagnaði og veitingarekstur í húsinu fari eftir málsmeðferðarreglum borgarráðs um veitingastaði og gististaði og aðalskipulagi Reykjavíkur. Árið 2009 hafi verið þinglýst kvöð á fasteignina Grundarstíg 10 um að „Mannfagnaðir í nýbyggingu skuli ekki standa lengur en til kl. 23:00 á kvöldin, þetta gildi um alla daga vikunnar.“ Við yfirferð byggingarleyfisumsóknar sé farið yfir tæknileg atriði, s.s. hljóðvistarkröfur, og því sé ekki talin nein hætta á að íbúar verði fyrir óþægindum vegna óeðlilegs hávaða. Óheimilt sé að veita rekstrarleyfi til áfengisveitingastaða á skilgreindu íbúðarsvæði samkvæmt nefndum málsmeðferðarreglum og eingöngu heimilt að veita undanþágu frá því ef um sé að ræða staðsetningu í jaðri miðborgar/miðsvæðis og rekstur í flokki II. Húsið að Grundarstíg 10 sé ekki staðsett í jaðri miðborgar/miðsvæðis og verði því að óbreyttum reglum ekki um neinar áfengisveitingar að ræða í því. Í skilmálum deiliskipulagsins sé einnig tekið fram að reksturinn skuli vera tengdur starfsemi í húsinu.

Engin bílastæði séu á lóðinni og umferð muni ekki aukast merkjanlega í samhengi við stærð hússins. Gera megi ráð fyrir að umferð aukist um u.þ.b. 30 ferðir á sólahring, þ.e. úr 5-10 ferðum í 35-40, við það að breyta húsinu úr íbúðarhúsnæði í hús undir menningarstarfsemi. Til samanburðar sé umferð á Skálholtsstíg um 1.500 bílar á sólarhring og hafi fyrirhuguð starfsemi á Grundarstíg 10 því óveruleg áhrif á umhverfið. Óþægindi nágranna gætu þó falist í auknu álagi á bílastæði í grenndinni. Umtalsverður fjöldi bílastæða sé í um 200-300 m fjarlægð frá húsinu og muni fyrirsvarsmenn stofnunarinnar vinna gagngert að því að fá viðskiptavini hússins til að nýta sér þau. Mögulegt umferðarálag og/eða bílastæðavandamál geti eitt og sér ekki valdið ógildi deiliskipulagsins. Fjölmörg dæmi séu um atvinnustarfsemi á íbúðarsvæðum og í miðborginni, bæði veitingahús og verslanir, þar sem íbúar geti orðið fyrir tímabundnum óþægindum vegna umferðar. Almenningsstæði í miðborginni séu ætluð almenningi öllum en ekki eingöngu til að þjóna íbúum viðkomandi hverfa. Bílaeign á landinu hafi aukist mjög á undanförnum árum, en hverfið hafi ekki verið skipulagt fyrir slíkan fjölda bíla. Borgaryfirvöld vilji hvetja borgarbúa til að nýta sér betur almenningssamgöngur, ganga meira og hjóla. Þá megi eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt eiga von á því að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér t.d. skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.

Hið kærða deiliskipulag sé ekki í andstöðu við þróunaráætlun miðborgar og fyrirhuguð starfsemi að Grundarstíg 10 feli hvorki í sér léttiðnað né skrifstofustörf. Í þróunaráætlun miðborgar, íbúðarsvæði, komi m.a. fram að halda beri núverandi húsnæði sem slíku nema í tilvikum þar sem aðstæður mæli gegn því. Tekin séu nokkur dæmi um slíkar aðstæður, þar á meðal að breytingar á notkun séu nauðsynlegar til að tryggja byggingarlistar- og sögulegt gildi. Sú stefnumörkun sem vísað sé til hafi verið lögð fram til samþykktar í skipulags- og umferðarnefnd og borgarráði til nánari útfærslu í aðal- og deiliskipulagi á miðborgarsvæði. Stefnumörkunin sé ekki bindandi hluti af aðalskipulagi Reykjavíkur og komi ekki í stað samþykktra landnotkunarákvæða í aðalskipulagi. Stefnumörkun í þróunaráætlun miðborgar, m.a. um íbúðarsvæði, sé góðra gjalda verð og nytsamleg við vinnslu deiliskipulags í miðborg, en geti einungis verið gott skýringargagn við vinnslu bindandi áætlana. Hún geti þó aldrei haft svo víðtæk áhrif að koma í veg fyrir að heimila landnotkun á einstaka lóðum á miðborgarsvæði.

Deiliskipulagið sé í samræmi við ákvæði aðalskipulags Reykjavíkur enda komi fram í grein 3.1.2 í gildandi aðalskipulagi að á íbúðarsvæðum sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu. Nærþjónusta innan íbúðarsvæða er t.d. verslun, þjónusta, stofnanir, leikvellir og opin svæði sem einkum þjóni íbúum viðkomandi hverfis. Ekki hafi þurft að vinna úttekt vegna þeirrar starfsemi sem gert sé ráð fyrir á Grundarstígsreit. Í deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir að heimilt verði að reka verslanir á þeim lóðum þar sem hefð sé fyrir slíkum rekstri. Nýjar umsóknir um slíkan rekstur séu alltaf háðar ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og öðrum lögum og reglugerðum sem um slíkar umsóknir gildi. Þá sé það mat skipulagsyfirvalda að fyrirhuguð menningarstarfsemi falli vel að umhverfinu og sé líkleg til að bæta það. Þá sé málsmeðferðin öll og þeir sérskilmálar sem settir hafi verið án vafa í samræmi við lög og reglur.

Athugasemdir eigenda Grundarstígs 10: Af hálfu eigenda Grundarstígs 10 er bent á að starfsemin í Hannesarholti uppfylli skilyrði gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um að sinna þjónustu við íbúa hverfisins á margvíslegan máta. Dæmi um slíka þjónustu sé að safnað verði upplýsingum um sögu hverfisins, bæði menningarsögu og byggingarsögu. Fjallað verði um nafntogaða fyrrum íbúa hverfisins en einnig sé fyrirhugað að skrifa, í samstarfi við íbúa hverfisins, sögu venjulegs fólks sem búið hafi í hverfinu. Sama eigi við um kaffihús þar sem áhersla verði lögð á heimilislegar veitingar gegn sanngjörnu verði. Þá verði boðið upp á hverfiskvöld eða nágrannasamkomur sem yrðu lokaðar öðrum en íbúum hverfisins. Þjónusta á hverjum tíma taki mið af þörfum neytenda og það sé því eðli hennar að taka breytingum í takt við ný viðhorf, þarfir og áhugamál neytendanna. Þjónusta við íbúa felist ekki eingöngu í að selja þeim vörur eða gera við bilaða hluti og nái til andlegra ekki síður en til líkamlegra þarfa einstaklingsins. Starfræksla stofnunar í íbúðarhverfi, sem hafi m.a. það markmið að sinna sérstaklega menningartengdum þáttum hverfisins og að verða vettvangur fyrir jákvæð og uppbyggjandi samskipti við nágranna, sinni einnig mikilsverðri hverfisþjónustu. Færa megi gild rök fyrir því að þjónusta sem veitt verði í Hannesarholti falli í dag betur að skilgreiningu á hugtakinu þjónusta samkvæmt fyrrgreindu ákvæði í skipulagsreglugerð heldur en t.d. fiskbúð eða skósmiður. Vitaskuld muni aðrir Reykvíkingar notfæra sér þjónustu Hannesarholts en slíkt hið sama gildi um aðra þjónustu, eins og jólabúð, sem hafi verið starfrækt á Grundarstíg fyrir nokkrum árum.

Í greinargerð frá verkfræðistofu komi fram að hljóðmyndun í viðbyggingu sem samsvari 80 dB(A) verði við útvegg um 39 dB(A), en gera verði ráð fyrir að tónlist og talað mál verði að jafnaði lægra en 80 dB(A) í viðbyggingunni. Hljóð sem hugsanlega bærist út fyrir veggi verði því augljóslega undir þeim viðmiðum sem sett séu um íbúðarsvæði í reglugerð nr. 724/1998 um hávaða. Stærð salarins sé um 70 m², sem sé svipuð stærð og meðalstór skólastofa eða stofa ásamt borðstofu í heimahúsi, enda séu áform um að nýta salinn einkum til sýninga á vegum stofnunarinnar, stofutónleika, fyrirlestra og fræðakvölda. Önnur notkun, s.s. fyrir samkomur, verði undirskipuð og hávær raftónlist verði vitaskuld ekki leyfð. Vissulega fylgi hljóð tónlist en þau séu ekki bönnuð í íbúðarhverfum. Gerðar hafi verið ýmsar ráðastafarnir til að fyrirbyggja að hljóðmyndun verði að óþægilegum hávaða fyrir nágrennið. Vandað verði mjög til viðbyggingar með góðri hljóðeinangrun og góðri loftræsingu, þannig að ekki gerist þörf á að hreinsa loftið með því að opna glugga eða hurðir. Þá hafi forsvarsmenn Hannesarholts að eigin frumkvæði þinglýst þeirri kvöð á starfsemi í viðbyggingunni að henni skuli ljúka eigi síðar en kl. 23 alla daga vikunnar. Það sé álíka langsótt að banna fyrrgreinda viðbyggingu vegna hugsanlegs hávaða eins og það væri að banna byggingu bílskúrs vegna þess möguleika að hávær unglingahljómsveit hreiðraði um sig í skúrnum og truflaði nágrennið með leik sínum.

Stofnun Hannesarholts sé menningar- og fræðasetur þar sem ætlunin sé að meginþungi starfseminnar snúist um samræður og skoðanaskipti, halda menningar- og sögutengdar sýningar og halda lágstillta tónleika í viðbyggingu sem muni ljúka ekki síðar en kl. 23. Sú mynd sem kærendur setji fram sé í talsverðri mótsögn við framangreinda lýsingu. Þar sem fyrrgreindur salur sé lítill muni umferð ekki vera í líkingu við umferð við stærri samkomuhús, sem taki við hundruðum manna. Verði hvatt til þess, og jafnvel sett sem skilyrði fyrir samkomum, að gestir leggi bílum sínum í bílastæðahús eða á öðrum opinberum bílastæðum í nágrenninu. Fjölmörg bílastæði í hverfinu séu nýtt á daginn af ýmsum fyrirtækjum og stofnunum en standi síðan auð á kvöldin en meginþungi bílaumferðar vegna Hannesarholts verði einmitt á kvöldin.

Ótækt sé að byggja kæru á því sem geti skeð í framtíðinni ef fyrirhuguð starfsemi myndi leggjast af og á þeirri forsendu að borgaryfirvöld eða lögregluyfirvöld framfylgi ekki lögum og reglum. Húsið að Grundarstíg 10 sé eitt af merkari húsum í Reykjavík út frá byggingarlistarlegu og sögulegu tilliti eins og áskilið sé í þróunaráætlun miðborgar þegar breyta eigi notkun íbúðarhúsnæðis. Aðalmarkmið með stofnun Hannesarholts sé að opna hið merka hús fyrir nágrönnum þess og almenningi til að kynna það og sögu þess fyrir sem flestum. Saga þess sé samofin sögu Hannesar Hafstein og þeirri umbótahugsun og bjartsýnisanda sem hafi fylgt tilkomu fyrsta ráðherra Íslands.

Niðurstaða: Hið kærða deiliskipulag var staðfest í borgarráði hinn 22. september 2011. Breytingar þær sem gerðar voru á greinargerð þess eftir þann tíma voru hvorki til umfjöllunar né voru þær staðfestar í borgarráði áður en skipulagið tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. desember 2011. Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags og í 3. mgr. 41. gr. laganna er kveðið á um að sveitarstjórn skuli taka deiliskipulagstillögu til umræðu að lokinni kynningu og að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar um hana ef athugasemdir hafa borist á kynningartíma. Í umfjöllun sveitarstjórnar skal m.a. taka afstöðu til þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Með hliðsjón af nefndum ákvæðum skipulagslaga verða þær breytingar sem gerðar voru á skipulagstillögunni eftir afgreiðslu borgarráðs ekki taldar hluti gildandi deiliskipulags svæðisins.

Með bréfi, dags. 14. október 2011, gerði Skipulagsstofnun athugasemd við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda um samþykkt umdeilds deiliskipulags fyrir Grundarstígsreit. Með bréfinu er tekið fram: „… ósamræmi er á milli áforma deiliskipulagsins gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, gr. 3.1.2 og þróunaráætlun miðborgar um íbúðarsvæði á miðborgarsvæði. Auk þess sem ekki er skýrt hvernig komið verði í veg fyrir ónæði og aukna umferð vegna fyrirhugaðra breytinga að Grundarstíg 10. Ennfremur er ósamræmi á milli settra skilmála og þeirra hugmynda eigenda fyrir starfsemina notaðar eru sem grundvöllur fyrir umsögn Reykjavíkurborgar við athugasemdum. Jafnframt vantar að heimild til verslunarreksturs, á jarðhæðum þeirra húsa sem hafa áður hýst verslanir, sé skilyrt með úttekt, sbr. ákvæðum gr. 3.1.2. í gildandi aðalskipulagi.“

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga skal sveitarstjórn taka athugasemdir Skipulagsstofnunar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form deiliskipulags. Fallist sveitarstjórn ekki á athugasemdir Skipulagsstofnunar um efni deiliskipulags skal hún gera rökstudda grein fyrir ástæðum þess. Í greinargerð með frumvarpi til skipulagslaga segir í athugasemdum með 42. gr. að lagt sé til það nýmæli að sveitarstjórn sé skylt að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar vegna deiliskipulagsins og gera nauðsynlegar breytingar á því varðandi form þess ef þörf sé á. Slíkar athugasemdir varði t.d. hvort deiliskipulag sé í samræmi við aðalskipulag og að athugasemdum á auglýsingatíma hafi ekki verið svarað.

Fyrrgreindar athugasemdir Skipulagsstofnunar voru ekki afgreiddar af borgarstjórn í samræmi við fyrrgreint ákvæði 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga áður en auglýsing um deiliskipulagið var birt í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt framangreindu er málsmeðferð hins kærða deiliskipulags haldin slíkum annmörkum að fella ber það úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. september 2011 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Grundarstígsreit.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

96/2011 Hafnarfjörður miðbær

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 1. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 31. ágúst 2011 um að breyta deiliskipulagi, Hafnarfjörður miðbær 1981, reitur 15.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. nóvember 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hrl., f.h. A, Austurgötu 27b, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 31. ágúst 2011 að breyta deiliskipulagi, Hafnarfjörður miðbær 1981, reitur 15. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 9. febrúar 2011 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi reits sem afmarkast af Mjósundi, Austurgötu, Gunnarssundi og efri lóðamörkum húsa við Hverfisgötu 31-49 (oddatölur). Stærsti hluti svæðisins tilheyrði deiliskipulagi er nefnist Hafnarfjörður Miðbær 1981, en hús ofan við Hverfisgötu 31-49 voru á ódeiliskipulögðu svæði. Í bréfi skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar til Skipulagsstofnunar, dags. 22. febrúar 2011, var tekið fram að markmið skipulagsvinnunnar væri að fella deiliskipulagið að skipulagslögum nr. 123/2010 með því að sýna byggingarreiti, yfirfara nýtingarhlutfall og lóðamörk. Með bréfinu var leitað umsagnar stofnunarinnar vegna áforma um að falla frá gerð og kynningu lýsingar skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga og féllst hún á þá málsmeðferð með bréfi, dags. 2. mars 2011, með vísan til upplýsinga bæjarins um að tillagan væri að öllu leyti í samræmi við meginforsendur aðalskipulags.

Tillagan var auglýst í Fréttablaðinu 21. mars 2011 með athugasemdafresti til 7. maí s.á. og var kynningarfundur vegna hennar haldinn 24. mars 2011. Á fundi bæjarstjórnar 20. apríl 2011 var samþykkt að auglýsa tillöguna að nýju vegna tilmæla Skipulagsstofnunar um að vísa þyrfti í skipulagslög, bæði við afgreiðslu bæjarstjórnar og í auglýsingu. Deiliskipulagstillagan var auglýst í Fréttablaðinu að nýju til kynningar 18. maí 2011 með athugasemdafresti til 29. júní s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, m.a. frá kæranda, og á fundi skipulags- og byggingarráðs 5. júlí 2011 var skipulags- og byggingarsviði falið að taka saman athugasemdir og gera drög að svörum. Skipulags- og byggingaráð samþykkti skipulagstillöguna á fundi hinn 23. ágúst 2011 og fyrirliggjandi svör skipulags- og byggingarsviðs við fram komnum athugasemdum. Tillagan var tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 31. ágúst 2011 og samþykkt.

Þeim sem gert höfðu athugasemdir við hina kynntu tillögu voru send svör bæjaryfirvalda með bréfi, dags. 5. september 2011. Deiliskipulagið var síðan sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu með bréfi, dags. 6. september s.á., þar sem fram kom að Byggðasafn Hafnarfjarðar hefði gert fornleifaskráningu, húsakönnun hefði verið gerð, aldursákvörðun húss að Austurgötu 27b verið leiðrétt, eftir kynningu tillögunnar, og að bætt hefði verið við skýringu á lit á opinberu gróður- og útivistarsvæði. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 16. september 2011, kemur fram að ekki sé unnt að taka afstöðu til deiliskipulagsbreytingarinnar fyrr en skilmálum hafi verið breytt.

Skilmálar deiliskipulagsins voru lagfærðir 26. september 2011 með þeim hætti að heiti deiliskipulagsins var breytt úr „Hafnarfjörður nýtt skipulag: Hverfisgata – Austurgata milli Mjósunds og Gunnarssunds“ í „Breytt skipulag: Hafnarfjörður miðbær 1981 (reitur 15)“. Þá var bætt við svohljóðandi sérskilmálum: „Hverfisgata 31, heimilt er að byggja 13 m² gróðurskála hámarks vegg hæð 1.8 m. Mjósund 13, heimilt er að byggja geymslu á einni hæð með flötu þaki. Austurgata 33, heimilt að byggja bílskúr með 28 m² grunnflöt og hámarksvegghæð 2.7 m. Þá er heimilt að endurbyggja geymsluskúr í sömu mynd og sá sem fyrir er.“ Þá var setningu um að deiliskipulagið hefði fengið meðferð skv. 42. gr. skipulags- og byggingarlaga breytt í að það hefði fengið meðferð skv. 43. gr. og auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Lagfærður skipulagsuppdráttur var sendur Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 27. september 2011, og gerði stofnunin ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagstillögunnar. Var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. október 2011.

Samkvæmt greinargerð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er stærð 16 lóða breytt, þ. á m. stærð lóðar kæranda við Austugötu 27b, sem var tilgreind fyrir breytingu 453 m² en verður eftir breytingu 503,9 m², og stærð lóðarinnar við Austurgötu 29b, sem liggur samhliða lóð kæranda, en hún stækkar úr 472 m² í 568,8 m².

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að hin kærða skipulagsbreyting geri ráð fyrir breytingum á lóð hans án þess að gerð sé grein fyrir því í texta eða á uppdrætti í hverju þær breytingar felist. Varðandi afmörkun lóða sé þar vísað til mæliblaða sem gerð verði en þannig hafi Hafnarfjarðarbær sjálfdæmi um afmörkun lóðar kæranda. Í ljósi fyrri samskipta við sveitarfélagið telji kærandi að þótt gert sé ráð fyrir að lóð hans stækki í fermetrum, eigi að taka af lóðinni til hagsbóta fyrir lóðarhafa lóðarinnar Austurgötu 29b. Framsetning af þessum toga í þegar byggðu hverfi, þar sem lóðarmörk séu skýr og hægt að mæla þau út, samræmist ekki kröfum skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar um framsetningu skipulagsáætlana enda sé algjörlega ómögulegt að átta sig á þeim breytingum sem skipulagið feli í sér. Mikilvæg réttindi séu í húfi sem varði grenndarhagsmuni og verðmæti fasteignar. Breytingin sé sett fram á óljósan hátt til að villa um fyrir lóðarhöfum. Þá samræmist framsetningin hvorki sjónarmiðum og meginreglum laganna um samvinnu við hagsmunaaðila né markmiðum þeirra um réttaröryggi. Framsetning tillögunnar sé einnig í andstöðu við ákvæði 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rannsókn máls og andmælarétt. Þá sé jafnræðisregla ekki virt gagnvart eigendum fasteigna á reitnum, enda nýtingarhlutfall lóða og heimildir til bygginga mjög misjafnar án þess að getið sé á hvaða forsendum sú mismunun byggi.

Meðferð málsins hafi brotið gegn 41. gr. skipulagslaga um samráð og samvinnu við gerð tillögunnar, en sérstaklega sé nauðsynlegt að hafa samráð við hagsmunaaðila sé ætlunin að breyta fyrirliggjandi lóðamörkum eða skerða réttindi aðila.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Bæjaryfirvöld skírskota til þess að lóðamörk séu skýrt afmörkuð í hinu kærða deiliskipulagi en hins vegar séu mæliblöð ávallt í nákvæmari mælikvarða en deiliskipulag. Ekki sé verið að skerða lóðina að Austurgötu 27b á mörkum hennar og Austurgötu 29b. Stækkun á lóð kæranda til austurs teljist honum til hagsbóta og muni verðmæti lóðarinnar aukast við hið breytta deiliskipulag.

Þá séu lóðamörk í þessum gamla bæjarhluta ekki alltaf skýr þar sem lóðasamningar séu yfirleitt frá árunum 1910-1930, byggðir á gömlum mælieiningum, svo sem álnum og fetum, og með tilvísun til kennileita, svo sem hlaðinna garða og mannvirkja sem löngu séu horfin. Því verði að styðjast við þær takmörkuðu upplýsingar sem lóðasamningar gefi, gamlar ljósmyndir og uppdrætti sem ekki gefi mikla nákvæmni ásamt þeim kennileitum sem enn séu sýnileg. Lóðarsamningur Austurgötu 27b sé frá árinu 1908 og lóðarsamningur Austurgötu 29b sé frá árinu 1929.

Haft hafi verið samráð við íbúa og skipulagstillagan unnin í samvinnu við þá. Kynningarfundur hafi verið auglýstur og haldinn 24. mars 2011. Einnig hafi tilkynning um fundinn verið borin í öll hús á svæðinu. Hafi ákvæði laga um kynningu verið uppfyllt og að auki hafi hagsmunaaðilum verið tilkynnt umfram það sem lög geri kröfu um. Haldinn hafi verið fundur snemma árs 2010, að beiðni kæranda, að viðstöddum lögmanni, arkitekt og eiginmanni kæranda. Jafnframt hafi verið haldinn fundur í júní 2010 með lóðarhöfum Austurgötu 29b. Ekki hafi verið hægt að sætta sjónarmið lóðahafa á þeim fundum, en þau lóðamörk sem tillagan sýni geti verið ásættanleg fyrir báða eigendur. Auk þess hafi skipulagsyfirvöld verið í tölvupóstasamskiptum við fyrrnefndan arkitekt. Farið hafi verið nákvæmlega yfir öll gögn sem varði lóðamörkin, þ.e. lóðsamninga, gamlar ljósmyndir, álit nefnds arkitekts og þá uppdrætti sem til hafi verið, ásamt þeim kennileitum sem enn séu til staðar, en ekkert hafi stutt röksemdir um önnur lóðamörk eða aðra aðkomu að húsunum. Þá hafi lögboðnu ferli varðandi kynningu, auglýsingu og athugasemdafrest skipulagsins verið fylgt.

Nýtingarhlutfall sé mjög illa fallið til að stýra uppbyggingu í eldri hverfum þar sem lóðastærðir séu mismundi og stórar lóðir gefi meira rúm til byggingar en minni lóðir, hlið við hlið. Eins og fram komi í töflu um nýtingarhlutfall fyrir breytingu deiliskipulagsins, sé það mjög breytilegt í þessum bæjarhluta, eða frá 0,23 í allt að 1,46. Þá hafi stærðir lóða á reitnum fyrir breytinguna verið allt frá 85 m² upp í 667 m². Markmið skipulagsins hafi m.a. verið að yfirfara lóðamörk, setja skilmála um viðbyggingar og tryggja að gæði götumynda skerðist ekki við breytingu á einstöku húsum. Sérstaklega þurfi að huga að öllum breytingum á útliti húsa, með heildarsvip hverfisins að leiðarljósi, eins og fram komi í skilmálunum. Þetta gildi jafnt fyrir öll hús á reitnum og geti því ekki talist brot á jafnræðisreglu. Forsendur fyrir því hvernig breyting skuli metin komi einnig fram í skilmálum.

Niðurstaða: Í máli þessu er fyrst og fremst deilt um lóðastærðir, en í bréfi sem arkitekt ritaði í umboði kæranda, dags. 20. apríl 2011, og vísað er til í kæru, er farið fram á það við skipulagsyfirvöld að sameiginleg mörk lóðar kæranda að Austurgötu 27b og lóðarinnar Austurgötu 29b verði áfram í samræmi við lóðarblað bæjarverkfræðingsins í Hafnarfirði, sem sé merkt 21.844.6.

Í bréfi Skipulagsstofnunar til Hafnarfjarðarbæjar, dags. 16. september 2011, voru gerðar þær athugasemdir við skipulagsbreytinguna að skilmálar fyrir umrætt svæði væru ekki nægjanlega skýrir og að breyta þyrfi texta á uppdrætti og tilvísun í málsmeðferð til samræmis við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga skal sveitarstjórn taka athugasemdir Skipulagsstofnunar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form deiliskipulags. Fallist sveitarstjórn ekki á athugasemdir stofnunarinnar um efni deiliskipulags skal hún gera rökstudda grein fyrir ástæðum þess. Í greinargerð með frumvarpi til skipulagslaga segir í athugasemdum með 42. gr. að lagt sé til það nýmæli að sveitarstjórn sé skylt að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar vegna deiliskipulags og gera nauðsynlegar breytingar á því varðandi form þess ef þörf sé á. Slíkar athugasemdir varði t.d. hvort deiliskipulag sé í samræmi við aðalskipulag og að athugasemdum á auglýsingatíma hafi ekki verið svarað. Fyrrgreindar athugasemdir Skipulagsstofnunar voru ekki afgreiddar af bæjarstjórn í samræmi við tilvitnað ákvæði skipulagslaga áður en auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda. Þá voru heldur ekki afgreiddar á fundi bæjarstjórnar þær breytingar sem gerðar voru á deiliskipulagstillögunni 26. september 2011.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykja slíkir annmarkar vera á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 31. ágúst 2011 um að breyta deiliskipulagi, Hafnarfjörður miðbær 1981, reitur 15.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

57/2013 Egilsgata

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 4. júní 2013 um að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júní 2013, sem barst nefndinni 29. s.m., kærir Þ, f.h. Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarbyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 4. júní 2013 að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 11. ágúst 2014 og 2. og 17. september 2015.

Málavextir: Á 60. afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Borgarbyggð 3. apríl 2013 var tekin fyrir umsókn frá 8. febrúar s.á., þar sem sótt var um leyfi til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Á fundinum var samþykkt að grenndarkynna fram lagða tillögu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með samhljóða bréfum umhverfis- og skipulagssviðs, dags. sama dag, var afgreiðsla byggingarfulltrúans kynnt fyrir lóðarhöfum nærliggjandi lóða og gefinn frestur til athugasemda til 3. maí s.á. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 15. apríl s.á. voru lagðar fram til kynningar fundargerðir afgreiðslufunda byggingarfulltrúa nr. 58, 59, 60 og 61 og eftirfarandi bókað: „Málið kynnt.“ Var sú fundargerð samþykkt af sveitarstjórn á fundi hennar 18. s.m.

Á 65. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. maí s.á. var lagt fram bréf kæranda, dags. 2. s.m., þar sem óskað var eftir frekari gögnum. Hinn 23. s.m. voru kæranda send frekari gögn er vörðuðu fram lagða tillögu og honum veittur frestur til 31. s.m. til þess að tjá sig frekar um tillöguna. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda innan frestsins, en hann mun hafa beiðst frekari frests með bréfi, dags. 3. júní s.á, sem sent var með tölvupósti að kvöldi þess dags.

Tillagan var tekin fyrir á ný á 69. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. júní s.á. að aflokinni þeirri grenndarkynningu sem að framan er lýst. Var eftirfarandi bókað: „Í ljósi þess að ekki hafa komið athugasemdir við grenndarkynningu er samþykkt að gefa út byggingarleyfi.“ Sú afgreiðsla var lögð fram til kynningar á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 7. s.m. og bókað á sama veg og áður: „Málið kynnt.“ Beindi kærandi bréfi, dags. 11. s.m., til sveitarstjórnar og óskaði þess að erindi hans yrði tekið fyrir á næsta fundi hennar. Í bréfinu krafðist kærandi þess að fá að koma að athugasemdum vegna grenndarkynningarinnar og hélt kærandi því fram í bréfinu að kynningin hefði ekki hlotið „… lögformlega umfjöllun eða afgreiðslu í umhverfis- og skipulagsnefnd Borgarbyggðar heldur aðeins kynningu“. Á fundi sveitarstjórnar 13. s.m. var fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar frá 7. júní 2015 samþykkt samhljóða, að undangenginni umræðu þar sem m.a. var greint frá bréfi kæranda.

Á fundi byggðarráðs 20. júní 2015 var áðurnefnt bréf kæranda frá 11. s.m. lagt fram og var bókað að grenndarkynning vegna breytinga á Egilsgötu 6 hefði verið framkvæmd með þeim hætti sem lög og reglugerðir gerðu ráð fyrir. Tekið var fram að engar athugasemdir hefðu borist innan þess frests sem gefinn hefði verið og ekki heldur eftir að hann hefði verið framlengdur og því hefði framkvæmdaleyfi verið gefið út. Framkvæmdaleyfið hefði verið staðfest á fundi sveitarstjórnar 13. s.m. Loks var bókað: „Byggðaráð telur því að málið sé fullafgreitt af hálfu sveitarfélagsins og gerir engar athugasemdir við vinnubrögð embættismanna Borgarbyggðar í málinu.“

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að um verulegar breytingar á fasteigninni að Egilsgötu 6 sé að ræða. Verið sé breyta einbýlishúsi í fjórar íbúðir. Aðgengi að íbúð efri hæðar hússins sé um stiga í eigu lóðarhafa Egilsgötu 4 og sé nánast að öllu leyti á þeirri lóð. Hvorki hafi verið samið um umferðarrétt né samningur þar um gerður milli eigenda Egilsgötu 4 og 6. Byggingarfulltrúa hafi mátt vera þetta kunnugt vegna eignaskiptayfirlýsingar fyrir Egilsgötu 4. Í gögnum greindrar grenndarkynningar hafi ekki verið að finna afstöðumynd með hnitum sem sýni lóðarmörk eða afstöðu á milli eigna á Egilsgötu 4 og 6.

Hafi bréf, dags. 23. maí 2013, ekki fullnægt kröfum um grenndarkynningu með svarfresti til 31. s.m. Hafi athugasemdafrestur verið of stuttur. Veita skuli hagsmunaaðilum að minnsta kosti fjögurra vikna frest. Sé eðlilegt að líta svo á að ákvæðið gangi út frá því að veittar séu fullnægjandi upplýsingar, líkt og mælt sé fyrir um í gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Kærandi hafi óskað eftir frekari gögnum þar sem upplýsingar um afstöðumynd og bílastæði hafi ekki verið fullnægjandi. Þau gögn sem síðar hafi borist hafi ekki fullnægt kröfum skipulagsreglugerðar. Hefði átt að veita fjögurra vikna lágmarksfrest frá 23. maí, þegar kærandi hafi beðið um frekari gögn, þar sem bæjaryfirvöld hafi viðurkennt að gögn hafi verið ófullnægjandi í grenndarkynningu.

Brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Til þess að mál teljist nægjanlega upplýst þurfi að afla nauðsynlegra upplýsinga um málsatvik. Tengist rannsóknarreglan náið andmælareglunni og stundum verði mál ekki nægilega upplýst nema aðila hafi verið gefinn kostur á að kynna sér gögn og koma að athugasemdum. Þá beri stjórnvaldi að leiðbeina þeim aðila sem gert sé að skila inn upplýsingum og láta vita ef þær séu ekki fullnægjandi.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að sú starfsemi sem fyrirhuguð sé í húsinu samræmist landnotkun svæðisins, líkt og hún sé skilgreind í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022, en um sé að ræða svokallaða blandaða landnotkun fyrir íbúðarbyggð, þjónustustofnanir, verslun og þjónustu.

Hinn 3. apríl 2013 hafi verið samþykkt að setja málið í grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi málið verið kynnt lóðarhöfum aðliggjandi lóða þar sem fyrirhuguð breyting hafi verið í byggðu hverfi. Með grenndarkynningu hafi fylgt afrit af framlögðum teikningum, þ.e. grunnmynd, snið, útlitsteikningar og afstöðumynd. Frestur til að skila inn athugasemdum hafi verið gefinn til 3. maí 2013. Með bréfi, dags. 2. maí s.á., hafi kærandi óskað eftir ítarlegri gögnum um málið, með vísan til skipulagsreglugerðar, til að hann gæti tekið afstöðu til málsins. Í kjölfarið hafi honum verið send afrit af deiliskipulagi gamla miðbæjarins, afstöðumynd úr skjalasafni byggingarfulltrúa, sem sýni afstöðu húsa í nágrenni við Egilsgötu 6, og bréf frá leyfishafa, þar sem upplýst hafi verið að fyrirhugað væri að leigja húsið út til lengri eða skemmri tíma. Vegna óska kæranda um frekari gögn hafi honum verið gefinn lengri tími til að gera skriflegar athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir áður en málið yrði endanlega afgreitt frá byggingarfulltrúa, eða til föstudagsins 31. maí 2013. Hafi engar frekari athugasemdir borist frá kæranda og erindið því verið tekið fyrir á vikulegum afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og málið afgreitt.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að fyrirhugaðar lagfæringar og breytingar á húsinu við Egilsgötu 6 hafi verið kynntar kæranda um miðjan marsmánuð 2013. Hafi honum þá verið afhentar teikningar hússins og haft þær til skoðunar í hálfan mánuð. Í framhaldi hafi kærandi neitað að árita teikningar að fyrirhuguðum breytingum til samþykkis. Í enda marsmánaðar hafi breytingin verið sett í grenndarkynningu. Í umræddum breytingum felist aðallega að verslunarrými á jarðhæð sé breytt í stúdíóíbúðir. Í aðalskipulagi fyrir svæðið sé gert ráð fyrir blandaðri byggð íbúða og atvinnuhúsnæðis. Hafi verið heimild fyrir verslunarrekstri í húsinu. Engar stórvægilegar breytingar séu gerðar á ytra byrði hússins utan þess að útidyrum sé bætt við á þá hlið sem snúi að götu. Að öðru leyti hafi húsið einungis verið lagfært að utan, enda verulega farið að láta á sjá, og flokkist lagfæringarnar því sem eðlilegt viðhald.

Þá sé bent á að leyfishafi sé ekki aðili að eignaskiptayfirlýsingu sem gerð hafi verið 3. apríl 2013 og geti því ekki talist bundinn af henni. Verði að skoða lögmæti þess hvort umræddur eignaskiptasamningur taki til alls stigans í því samhengi að aðilar samningsins séu eigendur þess sem um sé samið. Fullyrðingu kæranda um eignarhald hans og full yfirráð yfir greindum stiga sé því vísað á bug. Stiginn hafi ávallt fylgt Egilsgötu 6 að hálfu.

Löng hefð sé fyrir atvinnustarfsemi á svæðinu í samræmi við aðalskipulag. Af svæðinu og nærliggjandi götum hafi horfið á brott starfsemi, s.s. Kaupfélag Borgfirðinga, Póstur og sími og Sparisjóður Mýrarsýslu, ásamt smærri verslunum og þjónustu. Því sé nóg af bílastæðum í eigu sveitarfélagsins á svæðinu til að þjóna þeim íbúðum sem þar séu. Breytingar á atvinnustarfsemi að Egilsgötu 6 skapi því engan vanda hvað varði bílastæði. Þá sé bent á að á ofanverðri lóð Egilsgötu 6 séu tvö bílastæði sem tilheyri þeirri lóð og muni þau nýtast íbúum hússins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um veitingu byggingarleyfis vegna breytinga á húsinu að Egilsgötu 6.

Byggingarfulltrúum viðkomandi sveitarfélaga er veitt vald til tiltekinna leyfisveitinga með lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Þá er sveitarstjórnum falið skipulagsvald samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og er náið samspil milli laganna tveggja.

Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir það svæði þar sem fasteignin að Egilsgötu 6 er staðsett. Þegar svo háttar að sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og ekkert deiliskipulag liggur fyrir skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Kemur skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynnt skuli í slíkum tilvikum. Er því með ótvíræðum hætti lögð sú skylda á sveitarfélög að sjá til þess að grenndarkynning fari fram samkvæmt lögunum áður en leyfi er veitt til framkvæmda á ódeiliskipulögðu svæði. Gildir það þrátt fyrir að framkvæmd sé í samræmi við aðalskipulag. Í 2. mgr. 44. gr. er nánar fjallað um framkvæmd grenndarkynningar og segir að hún felist í því að skipulagsnefnd kynni nágrönnum, sem taldir séu geta átt hagsmuna að gæta, leyfisumsókn og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Segir jafnframt að þegar sveitarstjórn hafi afgreitt málið skuli þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar. Er það því í höndum skipulagsnefndar hvers sveitarfélags að taka ákvörðun um grenndarkynningu og sjá um framkvæmd hennar og þarf síðan samþykki sveitarstjórnar til, að liðnum fresti til athugasemda. Fyrr er byggingarfulltrúa ekki heimilt að veita byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði.

Eins og nánar er lýst í málavöxtum er ljóst að ákvörðun um grenndarkynningu var tekin af byggingarfulltrúa. Sú ákvörðun var kynnt fyrir umhverfis- og skipulagsnefnd og var bókað að málið hefði verið kynnt. Ekki er hægt að fallast á að í því hafi falist ákvörðun skipulagsnefndar skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga um að grenndarkynning skuli fara fram, enda felur kynning á máli fyrir stjórnvaldi hvorki í sér afstöðu þess til samþykkis né synjunar. Að sama skapi verður ekki séð að sveitarstjórn hafi afgreitt málið skv. 2. mgr. 44. gr. að grenndarkynningu lokinni. Raunar hafði byggingarfulltrúi þegar samþykkt hið kærða byggingarleyfi áður en málið kom næst til kasta sveitarstjórnar, og þá í þeim búningi að sveitarstjórn samþykkti fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar, en í þeirri fundargerð var bókað að kynnt væri afgreiðsla byggingarfulltrúa á byggingarleyfi. Samkvæmt framansögðu var málsmeðferð og ákvörðunartaka vegna hins kærða byggingarleyfis ýmsum annmörkum háð. Með hliðsjón af þeirri verkaskiptingu byggingar- og skipulagsyfirvalda sem löggjafinn hefur ákveðið verður að telja þá annmarka svo verulega að ekki verði hjá því komist að fella leyfið úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 4. júní 2013 um að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

58/2015 Njálsgata

Með
Árið 2015, föstudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að byggja steinsteypta hæð og ris með kvistum á götuhlið, byggja svalir á garðhlið og innrétta tvær nýjar íbúðir í fjölbýlishúsi á lóð nr. 78 við Njálsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. júlí 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Stefán Geir Þórisson hrl., f.h. E, Njálsgötu 76, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita leyfi til að byggja steinsteypta hæð og ris með kvistum á götuhlið, byggja svalir á garðhlið og innrétta tvær nýjar íbúðir í fjölbýlishúsi á lóð nr. 78 við Njálsgötu. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 12. ágúst 2015.

Málavextir: Á árinu 2013 bárust byggingarfulltrúanum í Reykjavík tvær fyrirspurnir sem teknar voru fyrir á afgreiðslufundum hans 9. apríl og 21. maí s.á. Annars vegar var spurst fyrir um byggingu kvista á hús nr. 78 við Njálsgötu og hins vegar um hækkun þess um eina hæð. Umsagnir skipulagsfulltrúa um nefndar framkvæmdir voru jákvæðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og lagðist hann ekki gegn þeim.

Hinn 6. maí 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn þar sem sótt var um leyfi til að byggja steinsteypta hæð og ris með kvistum á götuhlið, byggja svalir á garðhlið og innrétta tvær nýjar íbúðir í fjölbýlishúsi á lóð nr. 78 við Njálsgötu. Var erindinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn hans, dags. 15. s.m., var lagt til að uppdrættir yrðu lagfærðir, m.a. að svalir yrðu minnkaðar, gömlum gluggum yrði ekki breytt og að húsið yrði ekki hærra en Njálsgötu 80. Hinn 6. júní s.á. var á fundi skipulagsfulltrúa samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Njálsgötu 76, 77, 79, 80, 81 og Bergþórugötu 53 og 55 þegar búið væri að lagfæra uppdrætti. Var umsóknin grenndarkynnt frá 9. október til og með 7. nóvember 2014. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Var þeim svarað með umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. nóvember s.á. Hinn 26. s.m. var greind umsögn skipulagsfulltrúa samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs og erindinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.

Hinn 21. apríl 2015 var umsóknin samþykkt af byggingarfulltrúanum í Reykjavík og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
 
Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að um óhjákvæmilega notkun á sinni fasteign sé að ræða og að framkvæmdaraðili muni nýta austurgafl fasteignar kæranda við hækkunina. Húsin tvö, þ.e. Njálsgata 76 og 78, séu aðliggjandi en austurgafl fasteignar kæranda sé séreign hans og hafi hann því einn ráðstöfunarrétt yfir veggnum. Ef talið verði að austurgaflinn sé sameign sé á því byggt að óheimilt sé að nýta vegginn án samþykkis kæranda. Samkvæmt meginreglum eignarréttar geti sameigandi aðeins nýtt eða ráðstafað sameign ef nýting eða ráðstöfun sé öðrum sameigendum að bagalausu. Ráðstöfun eða nýting sameigenda á sameign megi ekki ganga inn á rétt annarra sameigenda. Þá verði sameigandi að sýna öðrum sameigendum tillitssemi við nýtingu eignar eða ráðstöfun.

Fyrirhugaðar framkvæmdir muni valda kæranda verulegu óhagræði og jafnvel umtalsverðu tjóni. Húsin að Njálsgötu séu byggð á árunum 1927-1930, séu því hátt í 90 ára gömul og þoli því illa framkvæmdir líkt og þær sem séu fyrirhugaðar. Fyrir u.þ.b. 30 árum hafi þáverandi eigandi húss nr. 74 við Njálsgötu byggt tvær hæðir á hús sitt, en húsið hafi áður verið ein hæð og ris. Við þessar framkvæmdir hafi myndast miklar sprungur á veggjum og lofti í húsi kæranda. Þótt margsinnis hafi verið gert við sprungurnar myndist þær alltaf aftur. Byggingarfróðir menn hafi sagt að um sé að kenna hinum mikla þunga sem bættist á sameiginlegan vegg húsanna við hækkun á nr. 74. Í kjölfar viðbyggingar við Njálsgötu 74 hafi þótt sýnt að burðarþol veggjanna hafi ekki þolað álagið og hafi eigendum að Njálsgötu 76 verið greiddar bætur vegna málsins. Megi ganga út frá því að burðarþol sameiginlegra veggja húsanna, þ.e. Njálsgötu 76 og Njálsgötu 78, hafi miðast við tvær hæðir. Ljóst sé að ef byggt verði ofan á Njálsgötu 78 megi búast við enn frekari skemmdum á eign kæranda.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. nóvember 2014, komi fram að krafa sé gerð um að ekki verði byggt ofan á vegg nágrannans að Njálsgötu 76 heldur verði byggðir nýir sjálfstæðir veggir. Ekki séu nein fyrirmæli í byggingarreglugerð sem kveði á um samþykki aðliggjandi lóðarhafa fyrir framkvæmdum á lóðarmörkum öðrum en girðingum.

Röksemdum kæranda um umtalsverð óþægindi og tjón sé vísað á bug sem ósönnum og ósönnuðum. Almennt verði borgarar að sætta sig við einhver tímabundin óþægindi eða rask á meðan á byggingarframkvæmdum standi í nágrenninu. Geti íbúar ekki vænst þess að byggingar taki engum breytingum í tímans rás og megi því alltaf búast við að einhver óþægindi skapist, ekki síst þar sem þröngt sé byggt í borginni. Auk þess beri byggingarleyfishafa að haga framkvæmd þannig að sem minnst rask verði og beri hann enn fremur ábyrgð á mögulegu tjóni sem hann kunni að valda gagnvart kæranda eftir almennum reglum skaðabótaréttar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita leyfi til að byggja hæð og ris á fjöleignarhúsið að Njálsgötu 78. Telur kærandi að ekki sé heimilt að hækka húsið án hans samþykkis auk þess sem hækkunin muni valda honum tjóni.

Fjallað er um hús í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og er þar átt við byggingu sem varanlega er skeytt við land og stendur sjálfstæð og aðgreind frá öðrum húsum eða skilur sig þannig frá þeim þótt sambyggð eða samtengd séu að eðlilegt og haganlegt sé að fara með hana sem sjálfstætt hús. Húsin að Njálsgötu 76 og 78 standa á aðskildum lóðum. Byggingarnar voru reistar á mismunandi tímum og það sama á við um þær breytingar sem gerðar hafa verið á þeim. Þá er útlit þeirra mismunandi er varðar litaval og útfærslu á kvistum og gluggum. Þegar litið er til byggingarsögu og útlits húsaraðar þeirrar, þar sem umrædd hús standa, verður ekki annað séð en að líta beri á hvert hús sem sjálfstæða einingu. Með vísan til framangreinds verður hvorki talið að 30. gr. fjöleignarhúsalaga, sem áskilur samþykki meðeiganda, né 2. mgr. 3. gr. laganna þess efnis að lögin geti átt við um málefni sem sameiginleg séu á milli tveggja eða fleiri sjálfstæðra húsa, eigi við um hið kærða byggingarleyfi. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun verða reistir nýir sjálfstæðir gaflveggir í framhaldi af steyptum einingum 3. hæðar og slitnir frá gaflveggjum aðliggjandi húsa. Ekki er að finna nein þau ákvæði í gildandi lögum eða reglum þar sem áskilið er samþykki aðliggjandi lóðarhafa í slíkum tilvikum. Þurfti því ekki til samþykki kæranda af þeim sökum við veitingu hins umdeilda byggingarleyfis. Hvað varðar þá málsástæðu kæranda að tjón verði af þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru telur úrskurðarnefndin að með hinni kærðu ákvörðun sé leitast við að koma í veg fyrir slíkt tjón en bendir jafnframt á að rísi ágreiningur þess efnis á undir dómstóla en ekki úrskurðarnefndina. 

Eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis er að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir umrætt svæði en til þess að veita megi byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum án þess að deiliskipulag liggi fyrir skal fyrirhuguð framkvæmd vera í samræmi við landnotkun, byggðarmynstur og þéttleika byggðar, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem íbúðarsvæði, ÍB Grettisgata. Um það svæði segir að það hafi byggst upp að stórum hluta fyrir 1920. Fjölbreytni í húsagerð og byggingarstíl einkenni svæðið en gatnakerfið sé að mestu reglubundið. Þá er það eitt af markmiðum aðalskipulagsins að skapa heildstæðari og þéttari borgarbyggð og kanna frekari þéttingarmöguleika. Verður ekki annað séð en að hin kærða ákvörðun sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags.

Loks liggur fyrir að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar var í samræmi við mannvirkja- og skipulagslög. Ítarleg gögn lágu til grundvallar ákvörðuninni, þ.á m. fjórar umsagnir frá skipulagsfulltrúa þar sem hann gerði athugasemdir við uppdrætti, setti skilyrði um að þeim yrði breytt til að samræma hækkun hússins við byggingarmynstur á reitnum og að ekki yrði byggt ofan á vegg húss kæranda heldur nýir sjálfstæðir veggir byggðir upp. Eftir að uppdrættir höfðu verið lagfærðir var umsóknin grenndarkynnt og athugasemdum svarað. Umsóknin var samþykkt af umhverfis- og skipulagsráði, sbr. gr. 2.3.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, og síðar samþykkt af byggingarfulltrúa eftir að nefnd skilyrði skipulagsfulltrúa höfðu verið uppfyllt.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að hin kærða ákvörðun sé haldin neinum þeim annmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar og er kröfu kæranda þar um hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að byggja steinsteypta hæð og ris með kvistum á götuhlið, byggja svalir á garðhlið og innrétta tvær nýjar íbúðir í fjölbýlishúsi á lóð nr. 78 við Njálsgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

37/2015 Urðarhvarf

Með
Árið 2015, föstudaginn 14. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 12. maí 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Vatnsendahvarf – athafnasvæði vegna lóðar nr. 4 við Urðarhvarf.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. maí 2015, er barst nefndinni 20. s.m., kærir Hjörleifur B. Kvaran hrl., f.h. Húsa & lóða ehf., eiganda Urðarhvarfs 2, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. maí 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Vatnsendahvarf – athafnasvæði vegna lóðar nr. 4 við Urðarhvarf. Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin fresti réttaráhrifum hennar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni. Var kröfu um frestun réttaráhrifa hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 22. júní 2015.

Með bréfi, dags. 3. júlí 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 3. júlí 2015 um að veita leyfi fyrir hækkun hússins á lóð nr. 4 við Urðarhvarf um eina hæð. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 50/2015, sameinað máli þessu. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 28. maí og 13. júlí 2015.

Málavextir: Hinn 19. janúar 2015 var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar umsókn, dags. 15. s.m., um breytt deiliskipulag vegna Urðarhvarfs 4, en þar er í gildi deiliskipulagið Vatnsendahvarf – athafnasvæði. Í breytingunni fólst að hús á lóðinni yrði hækkað um tvær hæðir með inndregna efstu hæð og að það yrði sjö hæðir auk kjallara. Heildarbyggingarmagn myndi aukast um 530 m2 og nýtingarhlutfall fara úr 0,8 í 0,93. Samþykkt var að auglýsa framlagða tillögu og var sú afgreiðsla staðfest af bæjarráði 22. janúar 2015 og bæjarstjórn 27. s.m. Tillagan var auglýst í fjölmiðlum 3. febrúar 2015 með athugasemdafresti til 23. mars s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Að lokinni kynningu var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 23. mars s.á. og málinu vísað til frekari meðferðar hjá skipulags- og byggingardeild Kópavogsbæjar. Á fundi skipulagsnefndar hinn 4. maí 2015 var hinni kynntu skipulagstillögu hafnað en fallist á hækkun umrædds húss um eina hæð í stað tveggja í samræmi við umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. sama dag. Heildarbyggingarmagn myndi þá aukast um 350 m2 og nýtingarhlutfall yrði 0,89. Var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest af bæjarráði 7. s.m. og í bæjarstjórn 12. s.m. Skipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2015. Byggingarfulltrúi samþykkti hinn 3. júlí 2015 umsókn um leyfi til að hækka húsið á lóð nr. 4 við Urðarhvarf um eina hæð.

Hefur kærandi skotið fyrrgreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að hækkun hússins að Urðarhvarfi 4 muni leiða til þess að það verði hærra en fasteign hans að Urðarhvarfi 2 og brjóti í bága við skipulags- og útlitshönnun hverfisins í heild. Engin frambærileg rök hafi verið færð fyrir hækkuninni en hún muni jafnframt hafa í för með sér þrengra umhverfi en áður hafi verið með aukinni umferð. Kærandi leigi út fasteign sína fyrir líkamsræktarstöð og gistiheimili. Eitt aðalsmerki gistiheimilisins sé víðfeðmt útsýni frá efstu hæðum hússins. Það útsýni muni skerðast verulega með heimilaðri hækkun hússins að Urðarhvarfi 4. Verði að gera þá kröfu til skipulagsyfirvalda sveitarfélaga og bæjarstjórna að deiliskipulagstillaga sé vönduð og að henni fylgi rökstuðningur. Gengið sé á grenndarhagsmuni kæranda og leiði breytingin til þess að fasteign hans muni lækka í verði.

Að auki sé á það bent að deiliskipulagstillagan standist ekki ákvæði 38. gr. sbr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem kveðið sé á um að sveitarstjórn/framkvæmdaraðili taki saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram komi hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við deiliskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhuguð skipulagsferli, s.s. um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaðilum. Hafi Kópavogsbær virt þessi lagaákvæði að vettugi og beri því að fella hina ólögmætu stjórnvaldsákvörðun úr gildi.

Séu gerðar verulegar athugasemdir við þau gögn sem fylgdu afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarstjórnar Kópavogsbæjar við afgreiðslu deiliskipulagsins. Hafi skýringarmyndir verið villandi og þá hafi kærandi ekki fengið vitneskju um sumar myndirnar fyrr en eftir að deiliskipulagið hafi verið samþykkt af bæjarstjórn. Lóðin nr. 4 við Urðarhvarf hafi verið fullbyggð samkvæmt breyttu deiliskipulagi sem hafi verið samþykkt 2007. Loks sé á það bent að afgreiðsla bæjarstjórnar stríði gegn ákvæðum skipulagslaga. Í 4. mgr. 41. gr. laganna sé kveðið á um að ákveði sveitarstjórn að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagins er skírskotað til þess að umrætt svæði sé skipulagt sem atvinnuhúsnæði og verði að telja að aðrar kröfur séu gerðar til útsýnis á atvinnuhúsalóðum en á íbúðarhúsalóðum. Umsótt skipulagsbreyting hafi falið í sér hækkun um tvær hæðir, efsta hæðin yrði inndregin og byggingarmagn myndi aukast um 530 m2. Við meðferð málsins hafi verið talið rétt að koma til móts við athugasemdir kæranda að hluta og heimila hækkun um eina hæð í stað tveggja og aukið byggingarmagn um 350 m2. Hafi hin samþykkta tillaga því gengið skemur en hin kynnta tillaga og hafi því ekki verið þörf á að auglýsa tillöguna að nýju.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulagsbreytingar og veitingu byggingarleyfis sem heimilar hækkun húss að Urðarhvarfi 4 um eina hæð. Umrætt hús stendur á svæði sem hefur blandaða landnotkun verslunar og þjónustu og athafnasvæðis í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald í lögsagnarumdæmi sveitarfélags nema á annan veg sé mælt í lögum og annast gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við töku skipulagsákvarðana ber að líta til markmiða sem tíunduð eru í a-c lið 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga um að við þróun byggðar sé tekið mið af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum landsmanna, að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og tryggja að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, en þar er tekið fram að ekki þurfi að gera lýsingu vegna breytinga á deiliskipulagi. Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar, fram komnum athugasemdum svarað, breytingin samþykkt og gildistaka hennar auglýst í samræmi við ákvæði 41. og 42. gr. skipulagslaga. Sú breyting sem gerð var á skipulagstillögunni eftir kynningu fól í sér að heimiluð var hækkun húss um eina hæð í stað tveggja og þar með dregið úr byggingarmagni og nýtingarhlutfall lækkað. Var því ekki þörf á að kynna tillöguna að nýju samkvæmt 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Heimilað nýtingarhlutfall lóða á þeim hluta skipulagsreits sem hér um ræðir er á bilinu 0,74-1,26 og hús 5-8 hæða. Með umþrættri skipulagsbreytingu verður nýtingarhlutfall lóðarinnar Urðarhvarfs 4 0,89 og hús á lóðinni hækkar um eina hæð og verður sex hæðir. Nýting umræddrar lóðar og umfang húss á henni telst því ekki óhófleg í samanburði við aðrar lóðir á skipulagssvæðinu. Vegna landhalla stendur Urðarhvarf 4 lægra en hús kæranda að Urðarhvarfi 2. Eftir heimilaða hækkun húss að Urðarhvarfi 4 yrði þakkóti þess 120,3 en þakkóti húss kæranda er 122,7 og rís húsið að Urðarhvarfi 4 því 2,4 m lægra en hús kæranda.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum að raskað geti gildi hennar.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi á sér stoð í gildandi deiliskipulagi. Með vísan til þess og þar sem ekki verður talið að annmarkar hafi verið á undirbúningi og töku ákvörðunar um veitingu byggingarleyfisins, verður kröfu kæranda um ógildingu þess hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 12. maí 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsendahvarf – athafnarsvæði vegna lóðar nr. 4 við Urðarhvarf.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 3. júlí 2015 um að veita leyfi fyrir hækkun hússins á lóð nr. 4 við Urðarhvarf um eina hæð.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Hólmfríður Grímsdóttir                                            Þorsteinn Þorsteinsson

43/2015 Hamraborg

Með
Árið 2015, föstudaginn 14. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 4. júní 2015 um að veita leyfi til að breyta 2. og 3. hæð hússins að Hamraborg 11 í gistiheimili.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júní 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Lárentsínus Kristjánsson hrl., f.h. Þvottabjarnarins ehf. og Catalinu ehf., rekstraraðila og eigenda þriggja eignarhluta í fasteigninni Hamraborg 11, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 26. maí 2015 að samþykkja að breyta 2. og 3. hæð hússins að Hamraborg 11 í gistiheimili. Verður að skilja málskot kærenda svo að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 4. júní s.á. að samþykkja greind byggingaráform. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 18. júní 2015.

Málavextir: Með úrskurði, uppkveðnum 30. janúar 2015, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi byggingarleyfi er heimilaði að breyta notkun hluta 2. og 3. hæðar hússins að Hamraborg 11 í Kópavogi í gistiheimili Var sú niðurstaða reist á því að byggingarleyfisumsóknin sem samþykkt var hafði ekki verið grenndarkynnt í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en deiliskipulag var ekki í gildi fyrir umrætt svæði.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Kópavogi 12. febrúar 2015 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að innrétta gistiheimili í vesturhluta 2. og 3. hæðar í húsinu að Hamraborg 11, en þar munu áður hafa verið skrifstofur. Var erindinu vísað til skipulagsnefndar í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hinn 16. s.m. var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar. Var samþykkt að grenndarkynna fram lagða tillögu fyrir lóðarhöfum Hamraborgar 9, 22 og 24 og Álfhólsvegar 2, 2A, 4, 4A og 15A. Var kynningartími frá 18. mars til 27. apríl s.á. og bárust athugasemdir m.a. frá kærendum. Var þeim svarað með umsögn skipulagsstjóra, dags. 18. maí s.á. Sama dag var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar og það samþykkt. Var sú afgreiðsla staðfest af bæjarráði 21. s.m. og af bæjarstjórn 26. maí 2015. Á afgreiðslufundi hinn 4. júní 2015 samþykkti byggingarfulltrúinn í
Kópavogi fyrrgreinda byggingarleyfisumsókn og skaut kærandi veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
 
Málsrök kæranda: Kærendur skírskota til þess að fyrra kærumálið hafi byggt á því að ekki hafi verið leitað eftir samþykki frá eigendum annarra eigna í húsinu sem sameigenda. Hafi kærendur átt von á því, eftir að byggingarleyfið hafi verið fellt úr gildi á þeim grundvelli að ekki hafi farið fram grenndarkynning, að þeim yrði gefinn kostur á andmælum. Augljóst sé að verið sé að breyta hagnýtingu séreignar í húsinu frá því sem áður hafi verið og þurfi sameigendur að samþykkja slíkt líkt og komi fram í ákvæði 27. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Byggingarfulltrúanum í Kópavogi hafi hvorki verið fengið úrskurðarvald né dómsvald og sé það ekki í hans verkahring að ákveða hvenær þau gögn sem lög áskilji skuli fylgja umsókn um byggingarleyfi, en hann hafi ákveðið að ekki hafi þurft að uppfylla fortakslaust ákvæði 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Þurfi afstaða annarra eigenda ætíð að liggja fyrir og fylgja byggingarleyfisumsókn.

Brotið hafi verið gegn skýru ákvæði laga um að leita afstöðu annarra eigenda séreignarhluta í húsinu sem sameigenda hússins þar sem umrædd starfsemi muni hafa mikil áhrif á starfsemi þá sem fyrir sé í húsinu. Að auki sé brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar, s.s. lögmætisreglunni, réttmætisreglunni og rannsóknarreglunni en einnig hafi andmælaréttur ekki verið virtur.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að samkvæmt 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 meðal þeirra gagna sem fylgja skuli umsókn um byggingarleyfi. Þegar veitt sé byggingarleyfi fyrir breytingu á séreignarhluta í fjöleignarhúsi, hvort sem um sé að ræða breytingu á húsnæðinu eða notkun þess, gildi ákvæði laga um fjöleignarhús um það hvort og hvenær og þá hvers kyns samþykki þurfi að liggja fyrir frá sameigendum. Sé samþykkis þörf skuli það fylgja umsókn um byggingarleyfi. Ekki tíðkist að viðhafa grenndarkynningu gagnvart sameigendum í fjöleignarhúsum enda hafi það enga þýðingu. Réttur sameigenda gangi lengra því veiting leyfis sé háð samþykkis þeirra í ákveðnum tilvikum sem nánar sé kveðið á um í 27. gr. laga um fjöleignarhús. Samkvæmt því ákvæði sé samþykki meðeigenda einungis áskilið þegar um sé að ræða breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem hafi verið gert ráð fyrir í upphafi. Í umræddu tilviki sé um að ræða fjöleignarhús þar sem gert hafi verið ráð fyrir atvinnuhúsnæði frá upphafi. Á upphaflegum samþykktum uppdráttum hafi verið getið um verslun, skrifstofur, vinnusali, lager og vörumóttöku en síðar hafi m.a. verið samþykkt að þar væri veitingarstaður og skemmtistaður. Húsið sé á miðsvæði þar sem heimiluð sé fjölbreytileg atvinnustarfsemi. Með því að heimila þar rekstur gistiheimilis sé ekki verið að breyta hagnýtingu viðkomandi séreignahluta frá því sem áður hafi verið gert ráð fyrir í upphafi. Því sé ekki talin þörf á samþykki meðeigenda. Þá hafi verið talið að breytingin hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum annarra eigenda, sbr. 2. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga. Hafi verið sérstaklega haft í huga að inngangur gistiheimilisins sé í vesturenda hússins en bæði veitingastaður og skemmtistaður í húsinu hafi sér inngang að sínu húsrými.

Að auki sé bent á að eigendur starfsemi sem fyrir sé í húsi sem skipulagt sé sem atvinnuhúsnæði geti ekki borið fyrir sig að gistiheimili feli í sér bindingu fyrir þá vegna kröfu íbúa um næturfrið enda verði eigendur og rekstaraðilar fyrirhugaðs gistiheimilis að sætta sig við aðra atvinnustarfsemi sem fram fari í húsinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytta notkun rýmis á 2. og 3. hæð í fjöleignarhúsi að Hamraborg 11. Telja kærendur að hin breytta nýting muni hafa í för með sér fyrirsjáanlega röskun og óhagræði fyrir starfsemi þeirra sem fyrir er í húsinu og sé af þeim sökum háð samþykki allra húseigenda. Einnig er því haldið fram að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið lögum samkvæmt þar sem hún hafi ekki verið kynnt kærendum með grenndarkynningu.  

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal fara fram grenndarkynning á byggingarleyfisumsókn þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag í þegar byggðu hverfi. Felst grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynnir nágrönnum, sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta, leyfisumsókn og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana innan tilskilins frests, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Kærendur eru sameigendur leyfishafa í greindu fjöleignarhúsi og eiga því ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 við um réttarstöðu þeirra og teljast þeir ekki nágrannar í þessu tilfelli í skilningi 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt 27. gr. fjöleignarhúsalaga eru breytingar á hagnýtingu séreignar í fjöleignarhúsi frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum eru háðar samþykki allra eigenda hússins. Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er Hamraborg 11 á svokölluðu miðsvæði þar sem gert er ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi s.s. verslunum, hótelum og veitinga- og gistihúsum. Er sú skilgreining í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, sbr. b-lið 2. mgr. gr. 6.2. Samkvæmt framangreindu er hin kærða ákvörðun í samræmi við gildandi skipulag svæðisins hvað landnotkun varðar, sem ákvarðar réttindi fasteignareigenda á svæðinu til nýtingar eigna sinna.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að umþrættur rekstur gistiheimilis í séreignarhluta leyfishafa sé háður samþykki annarra eigenda umrædds atvinnuhúsnæðis skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga enda vandséð að sá rekstur geti valdið rekstri skemmtistaðar í eignarhluta kærenda í húsinu verulegu óhagræði.

Að öllu framangreindu virtu og þar sem ekki liggja fyrir þeir annmarkar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði, verður kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 4. júní 2015 um að veita leyfi til að breyta 2. og 3. hæð hússins að Hamraborg 11 í gistiheimili.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Hólmfríður Grímsdóttir                                            Þorsteinn Þorsteinsson

28/2015 Ingólfsstræti

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja leyfi til að „byggja veislustofu með þaksvölum við núverandi 3. hæð, koma fyrir útibekkjum og gróðurbelti, framlengja lyftu og flóttaleið frá Bankastræti 7 á þaksvölum, Gamla Bíós“, Ingólfsstræti 2A.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. apríl 2015, sem barst nefndinni 24. s.m., kærir Einar Þór Sverrisson hrl., f.h. 101 Hótel ehf., Hverfisgötu 8-10 og IP-Studium Reykjavík ehf., eiganda fasteignarinnar við Hverfisgötu 8-10, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja leyfi til að „byggja veislustofu með þaksvölum á 3. hæð, koma fyrir útibekkjum og gróðurbelti, framlengja lyftu og flóttaleið frá Bankastræti 7 á þaksvölum, Gamla Bíós“. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 13. maí og 4. júní 2015.

Málavextir: Hinn 10. júní 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til áðurgreindra framkvæmda, m.a. á þaksvölum Gamla Bíós. Málinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa og barst hún 16. s.m. Þar var lagt til að grenndarkynna umsóknina, þar sem ekkert deiliskipulag væri í gildi, auk þess sem aukin notkun þaksvala gæti haft áhrif á nærliggjandi byggingar. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 20. s.m. var samþykkt að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum í nærliggjandi húsum. Erindið var grenndarkynnt frá 26. s.m. til og með 24. júlí s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum, og var þeim svarað með umsögn skipulagsfulltrúa. Að lokinni grenndarkynningu var erindinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem tók það fyrir á fundi 27. ágúst s.á. Ráðið gerði engar athugsemdir við erindið, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 25. s.m., og vísaði því til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Erindið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa en afgreiðslu málsins var frestað þar sem afla þurfti frekari gagna, s.s. hljóðvistarskýrslu og umsagnar Minjastofnunar Íslands. Hljóðvistarskýrsla lá fyrir 22. október 2014. Minjastofnun gerði ekki athugasemdir við umræddar breytingar í umsögn sinni, dags. 16. mars 2015. Var erindið tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. mars 2015 og það samþykkt.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að útgáfa byggingarleyfisins sé í andstöðu við lög. Hafi hvorki verið gætt réttra réttarreglna um grennd og hljóðvist né tekið tillit til lögmætra réttinda og væntinga kærenda og hótelstarfsemi þeirra við útgáfu leyfisins. Hótelstarfsemin hafi verið rekin frá því um síðustu aldamót en núverandi rekstaraðili Gamla Bíós sé að breyta starfsemi þess húss í grundvallaratriðum á kostnað kærenda. Sé augljóst að verði leyfi veitt fyrir byggingu svalanna, og þar með gefið út leyfi fyrir veitingarekstri, muni það leiða til aukins ónæðis.

Fyrir liggi yfirlýsing forsvarsmanns húseigenda Gamla Bíós þess efnis að sótt verði um útiveitingaleyfi á svölum hússins þegar fyrirhuguðum framkvæmdum verði lokið. Með því sé verið að koma upp torgi á þaki hússins, við hliðina á hótelinu, með skemmtanaleyfi og tilheyrandi reykingum sem komi til með að raska ró gesta hótelsins. Eigi kærendur réttmæta kröfu til þess að geta tryggt næturró gestanna.

Ekki verði séð af gögnum málsins að húseigandi hafi verið krafinn um snið- og afstöðumyndir, sem sýni áhrif skuggavarps á 101 Hótel og hvernig sjónlína frá fyrirhugaðri þakbyggingu komi til með að hafa áhrif inn í herbergi hótelsins. Þá hafi engar hljóðvistarmælingar farið fram. Sé það brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins. Grundvallarbreyting á rekstri Gamla Bíós hafi átt sér stað og við það sé starfsemi hótelsins stefnt í tvísýnu. Séu hagsmunir kærenda vegna þessara breytinga mun meiri en leyfishafa. Það sé grundvallarregla stjórnsýsluréttar að minni hagsmunir víki fyrir meiri.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er því hafnað að afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi verið ólögmæt.

Mótmælt sé þeirri staðhæfingu kærenda að rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin. Hvað skuggavarp varði þá tíðkist það ekki við afgreiðslu byggingarleyfisumsókna hjá embættinu að óskað sé eftir skýrslu um skuggavarp vegna byggingaráforma. Að auki sé ekki gerð krafa til þess í kafla 2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að byggingarfulltrúi afli slíkra gagna. Þá skuli á það bent að í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 25. ágúst 2014, sem gerð hafi verið í kjölfar athugasemda sem borist hafi á grenndarkynningartíma, komi fram að ekki sé þörf á skuggavarpsteikningum þar sem breytingin hafi engin áhrif á birtu, auk þess sem núverandi þak fasteignarinnar varpi skugga á fasteign 101 Hótels ehf. Loks sé því mótmælt að ekki hafi verið framkvæmd almennileg rannsókn á hljóðvist. Lögð hafi verið fram hljóðvistarskýrsla á fundi byggingarfulltrúa 24. mars 2015. Í skýrslunni sé lagt mat á hljóðmengun frá lyftustokki og veislusal/þaksvölum á 3. hæð fasteignarinnar og sé niðurstaða skýrslunnar sú að fyrirhuguð starfsemi uppfylli settar reglugerðarkröfur m.t.t. hávaða. Byggingarfulltrúi hafi lagt efnislegt mat á innihald skýrslunnar við töku ákvörðunar í málinu og hafi ekki talið ástæðu til að draga réttmæti hennar í efa.

Því sé hafnað að við samþykkt erindisins hafi grenndarsjónarmiða ekki verið nægjanlega gætt. Erindið hafi verið grenndarkynnt hagsmunaaðilum og athugasemdum svarað af hálfu skipulagsfulltrúa. Því hafi ekki verið neitað að ónæði kynni að leiða af notkun svalanna og til þess að draga úr því hafi „svalir verið minnkaðar frá því sem áður var með þeim hætti að þær eru minnkaðar til norðurs í átt að hótelinu“. Jafnframt hafi komið fram í umsögn skipulagsfulltrúa að uppsetningu gróðurbelta og skjólgirðinga væri ætlað að minnka innsýn og hljóð.

Kærendur hafi haldið því fram að samþykkt byggingaráforma hafi í raun falið í sér samþykki á leyfi fyrir veitingarekstri á svölunum. Sveitarfélagið bendi hins vegar á að um veitingaleyfi gildi lög nr. 85/2007 en ekki lög um mannvirki nr. 160/2010. Byggingarfulltrúi veiti því ekki leyfi til útiveitinga með því að samþykkja byggingaráform.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að breytingar á húsinu hafi verið gerðar til samræmis við kröfur laga og reglugerða. Séu breytingarnar í fullkomnu samræmi við þá starfsemi sem þegar sé fyrir og feli þær ekki í sér nýja eða breytta starfsemi. Í Gamla Bíói hafi frá öndverðu verið rekið fjölbreytt skemmti- og menningarstarfsemi með tilheyrandi hávaða. Svo virðist sem ekki hafi verið gerðar fullnægjandi ráðstafanir til að tryggja nægjanlega hljóðeinangrun í húsinu sem hýsi starfsemi kærenda og sé það tæplega á ábyrgð leyfishafa. Hann hafi boðist til samvinnu til að leysa þennan vanda og skapa grundvöll til að starfsemi þessara tveggja atvinnubygginga geti þrifist hlið við hlið, en af hálfu kærenda hafi ekki verið áhugi á að vinna málið á þann hátt.

Flestar efnislegar kvartanir kærenda varði ekki byggingarleyfið sem slíkt heldur fyrirhugaðan rekstur á staðnum. Þannig geti athugasemdir um meinta hávaðamengun frá samkomusal leyfishafa ekki varðað það hvort veita beri byggingarleyfi fyrir lagfæringum á svölum hússins. Auk þess sé á það bent að byggingarleyfisumsóknin varði ekki byggingu þaksvala, sem hafi verið á húsinu frá öndverðu, heldur sé tilgangur breytinganna að gera svalirnar betur úr garði til að geta gegnt hlutverki sínu í samræmi við nútímakröfur.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 28. maí 2015.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi fyrir veislustofu á þaksvölum Gamla Bíós. Telja kærendur að hin kærða ákvörðun muni hafa í för með sér neikvæð grenndaráhrif, m.a. með tilliti til rekstrar 101 Hótels.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir umrætt svæði en til þess að veita megi byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum án þess að deiliskipulag liggi fyrir skal fyrirhuguð framkvæmd vera í samræmi við landnotkun, byggðarmynstur og þéttleika byggðar, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem Miðborgarkjarni, M1a. Svæðinu er lýst sem hjarta höfuðborgarinnar þar sem sérstök áhersla sé lögð á smásöluverslun, veitingastarfsemi og afþreyingu, sem og þjónustu lykilstofnana í stjórnsýslu, menningu og menntun. Á svæðinu gilda almennar veitingaheimildir, en í því felst að allar tegundir veitingastaða eru heimilaðar þar sem lengst má vera opið til kl. 3.00 um helgar. Að auki sé heimilt að veita leyfi fyrir útiveitingum, þó aldrei lengur en til kl. 23.00. Í miðborgarstefnu aðalskipulagsins er jafnframt lögð áhersla á að miðborgin geti tekið vel á móti öllum sem hana sæki og að hún geti sinnt ólíkum hlutverkum. Loks er fjallað um þá þróun sem átt hafi sér stað í miðborginni á undanförnum áratugum, sem hafi falist í að ólík starfsemi hafi í auknum mæli tengst sömu rekstrar- og húsnæðiseiningum. Er síðan áréttað að mikilvægt sé að stuðla að því að miðborgin haldi áfram að vera ákjósanlegur vettvangur fyrir sem fjölbreyttasta þjónustu. Að teknu tilliti til þessa verður ekki annað séð en að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags.

Ítarleg gögn lágu fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar, þ. á m. hljóðvistarskýrsla, yfirlýsing vegna umsóknar um útiveitingaleyfi og umsögn Minjastofnunar Íslands. Verður ekki annað ráðið en að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið tekin að ígrunduðu máli og er ekki hægt að fallast á að við töku þeirrar ákvörðunar hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er ekki að sjá að málsmeðferðin hafi verið haldin öðrum annmörkum. Þannig fór grenndarkynning fram fyrir hagsmunaraðilum í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga og athugasemdum var svarað, s.s. varðandi skuggavarp. Í kjölfarið var erindið samþykkt. Þá liggur fyrir að Minjastofnun lagðist ekki gegn umræddri framkvæmd í umsögn sinni sem gefin var í samræmi við lög nr. 80/2012 um menningarminjar.

Loks felur hin kærða ákvörðun ekki í sér breytingar á formi þaksvalanna sem eru upprunalegar og hafa verið nýttar í tengslum við þá starfsemi sem hefur verið í húsinu á hverjum tíma. Verður ekki séð að staðsetning umræddrar veislustofu á svölunum muni hafa teljandi áhrif á nærliggjandi hótelrekstur en í hinu kærða leyfi felst m.a. að gerðar verði ráðstafanir til að draga úr mögulegum grenndaráhrifum, t.a.m. með því að takmarka notkunarflöt svalanna, sem og með því að koma fyrir skjólvegg og gróðri. Verður því ekki séð að hin kærða ákvörðun brjóti gegn grenndarhagsmunum kærenda þannig að ógildingu varði.

Af öllu framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að fella úr gildi þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja leyfi til að „byggja veislustofu með þaksvölum við núverandi 3. hæð, koma fyrir útibekkjum og gróðurbelti, framlengja lyftu og flóttaleið frá Bankastræti 7 á þaksvölum, Gamla Bíós“, Ingólfsstræti 2A.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson