Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

43/2015 Hamraborg

Árið 2015, föstudaginn 14. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 4. júní 2015 um að veita leyfi til að breyta 2. og 3. hæð hússins að Hamraborg 11 í gistiheimili.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júní 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Lárentsínus Kristjánsson hrl., f.h. Þvottabjarnarins ehf. og Catalinu ehf., rekstraraðila og eigenda þriggja eignarhluta í fasteigninni Hamraborg 11, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 26. maí 2015 að samþykkja að breyta 2. og 3. hæð hússins að Hamraborg 11 í gistiheimili. Verður að skilja málskot kærenda svo að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 4. júní s.á. að samþykkja greind byggingaráform. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 18. júní 2015.

Málavextir: Með úrskurði, uppkveðnum 30. janúar 2015, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi byggingarleyfi er heimilaði að breyta notkun hluta 2. og 3. hæðar hússins að Hamraborg 11 í Kópavogi í gistiheimili Var sú niðurstaða reist á því að byggingarleyfisumsóknin sem samþykkt var hafði ekki verið grenndarkynnt í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en deiliskipulag var ekki í gildi fyrir umrætt svæði.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Kópavogi 12. febrúar 2015 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að innrétta gistiheimili í vesturhluta 2. og 3. hæðar í húsinu að Hamraborg 11, en þar munu áður hafa verið skrifstofur. Var erindinu vísað til skipulagsnefndar í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hinn 16. s.m. var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar. Var samþykkt að grenndarkynna fram lagða tillögu fyrir lóðarhöfum Hamraborgar 9, 22 og 24 og Álfhólsvegar 2, 2A, 4, 4A og 15A. Var kynningartími frá 18. mars til 27. apríl s.á. og bárust athugasemdir m.a. frá kærendum. Var þeim svarað með umsögn skipulagsstjóra, dags. 18. maí s.á. Sama dag var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar og það samþykkt. Var sú afgreiðsla staðfest af bæjarráði 21. s.m. og af bæjarstjórn 26. maí 2015. Á afgreiðslufundi hinn 4. júní 2015 samþykkti byggingarfulltrúinn í
Kópavogi fyrrgreinda byggingarleyfisumsókn og skaut kærandi veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
 
Málsrök kæranda: Kærendur skírskota til þess að fyrra kærumálið hafi byggt á því að ekki hafi verið leitað eftir samþykki frá eigendum annarra eigna í húsinu sem sameigenda. Hafi kærendur átt von á því, eftir að byggingarleyfið hafi verið fellt úr gildi á þeim grundvelli að ekki hafi farið fram grenndarkynning, að þeim yrði gefinn kostur á andmælum. Augljóst sé að verið sé að breyta hagnýtingu séreignar í húsinu frá því sem áður hafi verið og þurfi sameigendur að samþykkja slíkt líkt og komi fram í ákvæði 27. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Byggingarfulltrúanum í Kópavogi hafi hvorki verið fengið úrskurðarvald né dómsvald og sé það ekki í hans verkahring að ákveða hvenær þau gögn sem lög áskilji skuli fylgja umsókn um byggingarleyfi, en hann hafi ákveðið að ekki hafi þurft að uppfylla fortakslaust ákvæði 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Þurfi afstaða annarra eigenda ætíð að liggja fyrir og fylgja byggingarleyfisumsókn.

Brotið hafi verið gegn skýru ákvæði laga um að leita afstöðu annarra eigenda séreignarhluta í húsinu sem sameigenda hússins þar sem umrædd starfsemi muni hafa mikil áhrif á starfsemi þá sem fyrir sé í húsinu. Að auki sé brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar, s.s. lögmætisreglunni, réttmætisreglunni og rannsóknarreglunni en einnig hafi andmælaréttur ekki verið virtur.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að samkvæmt 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 meðal þeirra gagna sem fylgja skuli umsókn um byggingarleyfi. Þegar veitt sé byggingarleyfi fyrir breytingu á séreignarhluta í fjöleignarhúsi, hvort sem um sé að ræða breytingu á húsnæðinu eða notkun þess, gildi ákvæði laga um fjöleignarhús um það hvort og hvenær og þá hvers kyns samþykki þurfi að liggja fyrir frá sameigendum. Sé samþykkis þörf skuli það fylgja umsókn um byggingarleyfi. Ekki tíðkist að viðhafa grenndarkynningu gagnvart sameigendum í fjöleignarhúsum enda hafi það enga þýðingu. Réttur sameigenda gangi lengra því veiting leyfis sé háð samþykkis þeirra í ákveðnum tilvikum sem nánar sé kveðið á um í 27. gr. laga um fjöleignarhús. Samkvæmt því ákvæði sé samþykki meðeigenda einungis áskilið þegar um sé að ræða breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem hafi verið gert ráð fyrir í upphafi. Í umræddu tilviki sé um að ræða fjöleignarhús þar sem gert hafi verið ráð fyrir atvinnuhúsnæði frá upphafi. Á upphaflegum samþykktum uppdráttum hafi verið getið um verslun, skrifstofur, vinnusali, lager og vörumóttöku en síðar hafi m.a. verið samþykkt að þar væri veitingarstaður og skemmtistaður. Húsið sé á miðsvæði þar sem heimiluð sé fjölbreytileg atvinnustarfsemi. Með því að heimila þar rekstur gistiheimilis sé ekki verið að breyta hagnýtingu viðkomandi séreignahluta frá því sem áður hafi verið gert ráð fyrir í upphafi. Því sé ekki talin þörf á samþykki meðeigenda. Þá hafi verið talið að breytingin hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum annarra eigenda, sbr. 2. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga. Hafi verið sérstaklega haft í huga að inngangur gistiheimilisins sé í vesturenda hússins en bæði veitingastaður og skemmtistaður í húsinu hafi sér inngang að sínu húsrými.

Að auki sé bent á að eigendur starfsemi sem fyrir sé í húsi sem skipulagt sé sem atvinnuhúsnæði geti ekki borið fyrir sig að gistiheimili feli í sér bindingu fyrir þá vegna kröfu íbúa um næturfrið enda verði eigendur og rekstaraðilar fyrirhugaðs gistiheimilis að sætta sig við aðra atvinnustarfsemi sem fram fari í húsinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytta notkun rýmis á 2. og 3. hæð í fjöleignarhúsi að Hamraborg 11. Telja kærendur að hin breytta nýting muni hafa í för með sér fyrirsjáanlega röskun og óhagræði fyrir starfsemi þeirra sem fyrir er í húsinu og sé af þeim sökum háð samþykki allra húseigenda. Einnig er því haldið fram að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið lögum samkvæmt þar sem hún hafi ekki verið kynnt kærendum með grenndarkynningu.  

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal fara fram grenndarkynning á byggingarleyfisumsókn þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag í þegar byggðu hverfi. Felst grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynnir nágrönnum, sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta, leyfisumsókn og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana innan tilskilins frests, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Kærendur eru sameigendur leyfishafa í greindu fjöleignarhúsi og eiga því ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 við um réttarstöðu þeirra og teljast þeir ekki nágrannar í þessu tilfelli í skilningi 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt 27. gr. fjöleignarhúsalaga eru breytingar á hagnýtingu séreignar í fjöleignarhúsi frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum eru háðar samþykki allra eigenda hússins. Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er Hamraborg 11 á svokölluðu miðsvæði þar sem gert er ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi s.s. verslunum, hótelum og veitinga- og gistihúsum. Er sú skilgreining í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, sbr. b-lið 2. mgr. gr. 6.2. Samkvæmt framangreindu er hin kærða ákvörðun í samræmi við gildandi skipulag svæðisins hvað landnotkun varðar, sem ákvarðar réttindi fasteignareigenda á svæðinu til nýtingar eigna sinna.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að umþrættur rekstur gistiheimilis í séreignarhluta leyfishafa sé háður samþykki annarra eigenda umrædds atvinnuhúsnæðis skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga enda vandséð að sá rekstur geti valdið rekstri skemmtistaðar í eignarhluta kærenda í húsinu verulegu óhagræði.

Að öllu framangreindu virtu og þar sem ekki liggja fyrir þeir annmarkar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði, verður kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 4. júní 2015 um að veita leyfi til að breyta 2. og 3. hæð hússins að Hamraborg 11 í gistiheimili.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Hólmfríður Grímsdóttir                                            Þorsteinn Þorsteinsson