Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

114/2015 Golfvöllur Blikastaðanesi

Með
Árið 2016, þriðjudaginn 19. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 114/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. nóvember 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna golfvallarins Blikastaðanesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. desember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Óðinn Elísson hrl., f.h. J, Þrastarhöfða 53 í Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. nóvember 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna golfvallarins Blikastaðanesi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdum verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni.

Gögn málsins bárust frá Mosfellsbæ 17. desember 2015 og 19. janúar 2016.

Málsatvik og rök: Tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna golfvallar Blikastaðanesi var auglýst til kynningar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan fól í sér breytingu á deiliskipulagi fyrir Blikastaðanes frá árinu 2004 með síðari breytingu. Athugasemdafrestur var til 30. október 2015 og bárust athugasemdir kæranda á kynningartíma. Á fundi sínum 18. nóvember s.á. samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar auglýsta breytingu með leiðréttingu á gólfkóta golfskála. Í deiliskipulagsbreytingunni felst í meginatriðum að afmörkuð lóð stækkar og færist ásamt byggingarreit fyrir golfskála frá íbúðarbyggð. Þá er fyrirkomulag bílastæða sýnt og skipulagssvæðið stækkað svo þau lendi innan þess. Deiliskipulagsbreytingin var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu er gerði athugasemd með bréfi, dags. 14. janúar 2016, við að birt yrði auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um samþykkt breytingarinnar.

Kærandi telur að staðsetning bílastæða og breytt starfsemi húsnæðis golfklúbbsins hafi í för með sér veruleg grenndaráhrif fyrir sig. Umferð bíla og umfangsmikil starfsemi muni valda skerðingu á lífsgæðum og óhagræði.

Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða skipulagsbreyting hafi ekki tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Hin kærða ákvörðun hefur ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda en slík auglýsing er skilyrði gildistöku hennar og markar jafnframt upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagaákvæði. Þar sem lögboðinni meðferð málsins er enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skilyrði þess að vísa því til úrskurðarnefndarinnar er ekki uppfyllt verður því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

12/2015 Jöldugróf

Með
Árið 2015, mánudaginn 21. desember, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 12/2015, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. janúar 2015 um að synja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámum á lóð nr. 6 við Jöldugróf í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. febrúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Sýrfell ehf., lóðarhafi lóðarinnar nr. 6 við Jöldugróf, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. janúar 2015 að synja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámum á nefndri lóð. Krefst kærandi þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og stöðuleyfi veitt. Til vara er gerð krafa um að ákvörðunin verði ógild og að málið verði tekið fyrir að nýju af óhlutdrægum aðila og til þrautavara er krafist ógildingar ákvörðunarinnar og að málið verði tekið fyrir að nýju og afgreitt á málefnalegan hátt. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg 29. apríl og 15. og 18. desember 2015.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. janúar 2015 var tekin fyrir umsókn kæranda um stöðuleyfi fyrir tveimur gámum á lóð nr. 6 við Jöldugróf. Var afgreiðslu málsins frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Erindið var lagt fram á ný á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. s.m., því synjað og fært til bókar að það teldist ekki samræmast deiliskipulagi.

Kærandi gerir athugasemdir við þær leiðbeiningar sem hann hafi fengið hjá Reykjavíkurborg vegna umsóknar hans um umrætt stöðuleyfi. Þá hafi umsókn hans verið afgreitt án þess að kærandi hafi fengið að svara athugasemdum sveitarfélagsins við umsóknina eða koma að andmælum. Öllum skilyrðum um stöðuleyfi í kafla 2.6 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 hafi verið fullnægt. Það sé rökleysa að hafna umsókninni á þeirri forsendu að hún samræmist ekki deiliskipulagi. Virðist sem tekin hafi verið afstaða til málsins líkt og um umsókn um byggingarleyfi væri að ræða og hafi það leitt málið á villigötur. Lóðin að Jöldugróf 6 sé óbyggð en í grónu hverfi. Megi reisa þar allt að 240 m² íbúðarhús og ekki verði séð að tveir gámar, samtals um 60 m² geti verið til ama. Hljóti það að vera réttur lóðarhafa að nýta sér eign sína innan eðlilegra marka.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 31. mars 2015 hafi verið lagt fram minnisblað frá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar þar sem lagt hefði verið til að hin kærða synjun yrði afturkölluð. Hafi svo verið gert og eigi kærandi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn hennar. Kæranda hafi verið tilkynnt afgreiðslan.

Í frekari athugasemdum sínum bendir kærandi á að hann hafi ekki fengið neina tilkynningu um lyktir málsins. Hafi málið ekki verið afgreitt af hálfu byggingarfulltrúa, hvorki til samþykktar né synjunar. Sé málið því ekki í eðlilegum farvegi.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.

Með bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, f.h. byggingarfulltrúa, dags. 27. apríl 2015, var úrskurðarnefndinni tilkynnt að á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 31. mars 2015 hafi verið lagt fram minnisblað skrifstofu sviðsstýru þar sem mælst hafi verið til þess að [hin kærða] synjun byggingarfulltrúa frá 13. janúar s.á. yrði afturkölluð með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Málið hafi verið afgreitt með eftirfarandi bókun: „afgreitt“. Var jafnframt tekið fram í téðu bréfi að af hálfu embættis byggingarfulltrúans hafi fyrrnefnd afgreiðsla byggingarfulltrúa frá 13. janúar s.á. verið afturkölluð. Hefur hin kærða ákvörðun af þeim ástæðum því ekki lengur réttarverkan að lögum og á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Í nefndu minnisblaði kemur fram að jafnframt sé mælst til þess að umsækjanda verði tilkynnt um afturköllunina og hann upplýstur um rétt sinn til að senda inn nýja umsókn um stöðuleyfi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Reykjavíkurborg mun hafa misfarist að senda slíka tilkynningu til kæranda og bendir úrskurðarnefndin á að umsókn hans um stöðuleyfi bíður þar með enn afgreiðslu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Nanna Magnadóttir

101/2013 Dalsbraut Akureyri

Með

Árið 2015, þriðjudaginn 8. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2013, kæra vegna framkvæmdar deiliskipulags við Dalsbraut á Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til innanríkisráðuneytisins, dags. 9. október 2013, er framsent var 17. s.m. til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og móttekið þar 21. s.m., kærir E, Heiðarlundi 8a, Akureyri, þá ákvörðun framkvæmdaráðs Akureyrar að fylgja ekki auglýstu deiliskipulagi við gatnagerð og fresta framkvæmdum við uppsetningu umferðar- og gangbrautarljósa, sem og gangbrautar, við Dalsbraut norðan Skógarlundar. Er þess krafist að framkvæmdaráði Akureyrar verði gert að ljúka nefndum framkvæmdum í samræmi við gildandi deiliskipulag og að hagsmunaðilum verði gert að víkja sæti í framkvæmdaráði við meðferð mála er varði Dalsbraut.

Gögn málsins bárust frá Akureyrarbæ 13. desember 2013 og í desember 2015.

Málavextir: Dalsbraut norðan Skógarlundar er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag fyrir „Dalsbraut, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut“, ásamt síðari breytingum sem gildi tóku 30. nóvember 2012. Svæðið sem deiliskipulagið nær til er götustæði Dalsbrautar, frá Þingvallastræti í norðri að Miðhúsabraut í suðri, ásamt nokkrum fullbyggðum íbúðarsvæðum sem liggja að götunni.

Í kafla 4.5.4 í greinargerð með deiliskipulaginu er m.a. fjallað um umferðaröryggi og segir m.a: „Útfærsla á Dalsbraut norðan Skógarlundar miðast við að takmarka hámarksumferðarhraða við 30 km/klst. Meðal aðgerða eru gangbrautarljós með miðeyju á tveimur stöðum sem verða þannig útfærð að rautt ljós verður að staðaldri bæði á akandi og gangandi umferð. Umferð akandi mun ekki fá grænt ljós nema skynjarar gefi til kynna að engin umferð gangandi sé í nánd við gangbraut. Ef akandi umferð er yfir leyfilegum hámarkshraða mun grænt ljós ekki birtast fyrr en umferð hefur stöðvast við gangbraut. Gangandi vegfarendur þurfa alltaf að ýta á hnapp við umferðarljós til að fá grænt ljós sem heimilar þeim að ganga yfir götuna.“

Framkvæmdaleyfi vegna framlengingar á Dalsbraut frá Þingvallastræti til Miðhúsabrautar var gefið út 17. febrúar 2012, en framkvæmdir munu hafa frestast. Síðan hafa verið gefin út tvö framkvæmdaleyfi. Annars vegar 14. júní s.á. fyrir fyrri hluta sömu framkvæmdar og hins vegar 14. desember s.á. vegna seinni hluta framkvæmdarinnar.

Kærandi, fyrir hönd hverfisnefndar Lunda- og Gerðahverfis, beindi erindi til Akureyrarbæjar með tölvupósti 9. september 2013 til að athuga hvað liði frágangi á gangbraut yfir Dalsbraut til móts við Heiðarlund 8, sem og við hljóðmön á „Heiðarlundarsvæðinu“. Var kærandi upplýstur um gang mála með tölvupósti og í svari hans kom fram að hverfisnefndin hygðist ekki bíða um óákveðinn tíma eftir framkvæmdarlokum. Sendi hann í kjölfarið erindi fyrir hönd hverfisnefndarinnar til framkvæmdaráðs Akureyrar með bréfi, dags. 12. s.m. Var þar óskað svara um það hvers vegna framkvæmdum hefði verið frestað við gangbraut og upplýsinga um hvenær stæði til að hækka hljóðmanir við Heiðarlund. Erindið var tekið fyrir á fundi framkvæmdaráðs 24. s.m. og var bæjartæknifræðingi falið að svara erindinu auk þess sem ákveðið var að fara í umferðar- og hraðamælingar á umræddu svæði við Dalsbraut. Í kjölfar slíkra mælinga bauð bæjartæknifræðingur fulltrúum hverfisnefndarinnar á fund til að ræða niðurstöður þeirra. Í svari kæranda frá 22. október s.á. var fundarboði hafnað og kom fram sú afstaða að hverfisnefndin teldi sig ekki hafa umboð til að „… ákveða fyrir hönd hverfisbúa eitthvað annað en stendur í deiliskipulaginu, þ.e. ef hugmyndin er sú að gera eitthvað annað“. Jafnframt kom fram sú afstaða að samþykkt deiliskipulag hlyti að gilda.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að óeðlileg frestun hafi orðið á mikilvægum hluta framkvæmda við Dalsbraut norðan Skógarlundar, sem sé ný gata á Akureyri. Gangbraut sem sé á auglýstu skipulagi hafi ekki verið tekin í gagnið, en auk þess að vera gangbraut með ljósum þá eigi gangbrautarljósin einnig að vera hraðatakmarkandi, líkt og tekið sé fram í greinargerð með deiliskipulagi.

Skipulagsstjóri hafi tilkynnt kæranda að þessi framkvæmd ætti að fara fram áður en skólar hæfust haustið 2013 og hafi bent kæranda á að hafa samband við framkvæmdaráð Akureyrar. Framkvæmdaráðið hafi svarað fyrirspurn kæranda á þann veg að gagnsemi gangbrautarinnar væri til skoðunar auk þess sem aðrar útfærslur yrðu athugaðar, m.a. að teknu tilliti til hraðamælinga og aðstæðna. Síðan hafi liðið þrír mánuðir. Framkvæmdir hafi ekki verið hafnar við gangbrautina, en það sé skylda Akureyrarbæjar að framkvæma samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Við undirbúning deiliskipulagsins hafi íbúar á svæðinu ítrekað óskað eftir því að hraðahindranir yrðu á götunni. Slíkum beiðnum hafi verið hafnað og vísað til þess að yfir götuna yrðu tvær gangbrautir sem myndu gegna því hlutverki að hægja á umferðarhraða. Íbúar séu afar ósáttir við þessi vinnubrögð, enda sé hraði og hávaði óbærilegur. Umferðareyjan sem gangbrautin liggi yfir sé komin, sem og staurar fyrir ljósabúnaði, en engin ljós. Þetta skapi mikla slysahættu þar sem óljóst sé hvort þarna sé gangbraut eða ekki. Einnig sé hætta fyrir akandi umferð. Gatan standi aukinheldur við grunnskóla og íþróttasvæði og því sé þar mikil umferð barna og ungmenna um svæðið.

Hæfi einstakra nefndarmanna framkvæmdaráðsins sé dregið í efa. Sérstaklega þeirra sem þannig séu búsettir að þeir þurfi að fara um Dalsbraut. Þeir hafi hagsmuni af því að komast leiðar sinnar sem hraðast og þá á kostnað íbúa við vegstæðið.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að engar ákvarðanir hafi verið teknar um að breyta út af framkvæmd gildandi deiliskipulags Dalsbrautar. Fjármagn á hverjum tíma og samþykkt framkvæmdaáætlun ráði framkvæmdum hvers tímabils.

Þar sem engin stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin þess efnis að breyta deiliskipulagi og hætta við þau umferðarstýrðu gangbrautarljós á Dalsbraut sem hér um ræði sé ekki fyrir hendi kæranleg ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Hvert og eitt sveitarfélag verði að haga framkvæmdum sínum samkvæmt samþykktu deiliskipulagi í samræmi við framkvæmdaáætlun hverju sinni og það fjármagn sem sé fyrir hendi til framkvæmda. Því sé ekki ástæða til að taka afstöðu til hæfis nefndarmanna.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur m.a. fram að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Er slíka kæruheimild að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Stjórnvöldum er heimilt samkvæmt skipulagslögum að þróa byggð og landnotkun með bindandi skipulagsáætlunum. Kemur nánar fram í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að hvaða leyti skuli fjallað um samgöngur í aðalskipulagi og hvernig skuli háttað umfjöllun í deiliskipulagi um samgöngukerfi og umferðarmannvirki. Svo sem nánar er lýst í málavöxtum koma fram tiltekin útfærsla þar um í deiliskipulaginu Dalsbraut, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut, en tilefni kærumáls þessa er að framkvæmdum hefur ekki verið lokið í samræmi við hana. Hafa nokkur samskipti orðið milli kæranda og sveitarfélagsins vegna þessa og verður af þeim ráðið að kærandi vilji knýja fram lok framkvæmdanna. Hins vegar liggur ekki fyrir ákvörðun um að breyta þeim hluta deiliskipulagsins sem um ræðir eða að framkvæma á annan veg en þar er mælt um fyrir. Í 37. gr. skipulagslaga kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reit þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Það má þó ljóst vera að framkvæmdaraðili verður ekki knúinn til framkvæmda samkvæmt deiliskipulagi, hvort sem leyfi hefur verið gefið út vegna þeirra eða ekki, enda geta framkvæmdir eðli málsins samkvæmt verið háðar ýmsum ytri aðstæðum, s.s. fjármagni. Þar sem ekki verður séð að fyrir liggi nein sú ákvörðun samkvæmt skipulagslögum sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. áðurnefnda 52. gr. þeirra laga, verður kærumáli þessu vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir

_______________________________               ______________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

96/2008 Krikahverfi

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 10. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2008, kæra á ákvörðun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 17. júlí 2008 um breytingu á deiliskipulagi Krikahverfis vegna Krikaskóla.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. október 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir hdl., f.h. D, Stórakrika 3, Þ, Stórakrika 5, S, Stórakrika 7, Þ, Stórakrika 9 og B, Stórakrika 11, Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 17. júlí 2008 að breyta deiliskipulagi Krikahverfis vegna Krikaskóla. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins hafa ekki borist úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málsatvik og rök: Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar breytingu á deiliskipulagi Krikahverfis hinn 17. júlí 2008 að undangenginni grenndarkynningu skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Fólst breytingin í því að aðkomu að lóð Krikaskóla við Sunnukrika og bílastæðum var breytt, lóðin stækkuð til norðausturs og breytingar gerðar á byggingarreit. Þá var heimiluð hækkun hluta húss í tvær hæðir í stað einnar. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 13. ágúst s.á. og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. september 2008.

Skírskota kærendur til þess að um hafi verið að ræða verulega breytingu á nýlegu deiliskipulagi sem hefði átt að sæta almennri meðferð skipulags- og byggingarlaga en ekki aðeins grenndarkynningu. Kærendur hafi mátt treysta því að ekki yrði hróflað við nýlegu skipulagi hverfisins, sem sé frá árinu 2005, en útsýni það sem það deiliskipulag tryggði hafi verið forsenda fyrir kaupum kærenda á lóðum á svæðinu. Með hækkun skólabyggingar úr einni hæð í tvær, sem heimiluð sé með hinni kærðu ákvörðun, sé útsýni kærenda frá fasteignum þeirra verulega skert.

Niðurstaða: Eftir að kæra barst í máli þessu leituðu kærendur eftir bótum frá bæjaryfirvöldum Mosfellsbæjar vegna gildistöku hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Farið var fram á dómkvaðningu matsmanna til að meta áhrif skipulagsbreytingarinnar á verðmæti viðkomandi fasteigna. Lá sú matsgerð fyrir hinn 15. mars 2011. Í kjölfar þess voru greiddar bætur til kærenda að Stórakrika 3, 5, 7 og 9. Kærandi að Stórakrika 11 krafðist yfirmats og er sú matsgerð dagsett 19. júní 2012. Bæjaryfirvöld voru ekki tilbúin að greiða bætur í samræmi við matsgerðina og stefndi kærandi að Stórakrika 11 Mosfellsbæ fyrir dóm til greiðslu bóta vegna gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar. Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 15. apríl 2015 í máli nr. E-2550/2014 og greiddi Mosfellsbær kæranda bætur í kjölfar dómsins. Eru greind málsatvik rakin í nefndum dómi.

Í 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var kveðið á um bætur til handa þeim sem sýnt gátu fram á að gildistaka deiliskipulags hefði í för með sér verðrýrnun á fasteign þeirra. Hafa kærendur nýtt sér þessa lagaheimild og hafa þegið bætur vegna gildistöku hinar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Af þeim sökum verða þeir taldir una gildistöku skipulagsins og geta ekki samhliða viðtöku bóta krafist ógildingar skipulagsákvörðunarinnar sem er grundvöllur bótanna. Hafa kærendur af þessum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. nú 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.   

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og þar sem beðið var niðurstöðu dóms í máli um bætur vegna hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson

48/2015 Friðarstaðir

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 10. desember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 48/2015, kæra á áskorun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hveragerði frá 27. maí 2015 um úrbætur á heimalóð og mannvirkjum að Friðarstöðum í Hveragerði.
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. júní 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir D, Friðarstöðum, Hveragerði, áskorun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hveragerði frá 27. maí 2015 þar sem boðað sé „nýtt dagsektamál“.

Gögn málsins bárust frá Hveragerðisbæ 30. júní og 9. desember 2015.

Málavextir: Hinn 27. maí 2015 ritaði skipulags- og byggingarfulltrúi Hveragerðisbæjar bréf til kæranda þar sem skorað var á hann að koma ástandi mannvirkja á jörðinni Friðarstöðum í viðunandi horf. Kom þar fram að ásigkomulagi og viðhaldi heimalóðar Friðarstaða, og nokkurra mannvirkja sem á henni stæðu, væri verulega ábótavant svo að hætta stafi af. Einkum væri ástand gróðurhúsa á lóðinni, skráðum í Þjóðskrá sem matshlutar 07, 18 og 19, afar slæmt. Umgengni á heimalóð væri einnig afar slæm og mætti sjá mikinn fjölda lausamuna og væri farið fram á að kærandi fjarlægði ónýta lausamuni og gengi snyrtilega frá nýtanlegum lausamunum. Var í bréfinu tekið fram að ábúanda væri veittur frestur til 31. júlí 2015 til að ljúka úrbótum á greindum gróðurhúsum. Yrði úrbótum ekki lokið innan frests yrði dagsektum beitt til að knýja á um aðgerðir á grundvelli 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þar kom og fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar væru á grundvelli laga um mannvirki væru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og hver frestur væri til að skjóta máli til nefndarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að efni bréfs skipulags- og byggingarfulltrúa sé í meginatriðum sama mál og úrskurðarnefndin hafi fjallað um í úrskurði sínum frá 6. nóvember 2014 í máli nr. 113/2012. Leiðbeint hafi verið um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar en kærandi dragi í efa að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða.

Varðandi matshluta 07 þá sé þar um að ræða gróðurhús sem sé sambyggt gömlu íbúðarhúsi. Um þann matshluta sé nú fjallað af hálfu úrskurðarnefndar um viðlagatryggingu. Málið sé enn í meðferð þeirrar nefndar, matsmenn hafi verið dómkvaddir og nýlega verið að störfum á jörðinni. Ekki sé hægt að taka ákvörðun varðandi umrætt gróðurhús fyrr en niðurstaða liggi fyrir í því máli. Varðandi matshluta 18 og 19 þá séu þau hús hluti af dómsmáli þar sem kærandi og sveitarfélagið séu aðilar. Dómur Héraðsdóms Suðurlands í máli E 70/2014 hafi verið kveðinn upp 22. maí 2015, en bréf byggingarfulltrúa sé dagsett 27. s.m. Líkur séu á að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar Íslands, en áfrýjunarfrestur sé ekki liðinn. Kærandi telji sig ekki geta átt við þessi hús þar til lyktir þess máls liggi fyrir. 

Að öðru leyti sé umgengni á lögbýlinu ekki verri en hjá öðrum aðilum í atvinnurekstri í bænum. Á lögbýlinu séu tveir bílar í eigu aðila sem misst hafi hús sitt í jarðskjálftanum í maí 2008 og flutt burt úr bænum. Hafi þeir lofað að taka bíla sína burtu og verið í samskiptum við sveitarfélagið þar að lútandi. Þá sé erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvað við sé átt í bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa varðandi véla- og tækjahluti.

Loks hafi skipulags- og byggingarfulltrúi, auk lögmanns bæjarins, komið fram fyrir hönd sveitarfélagsins í nefndu dómsmáli. Því sé ljóst að skipulags- og byggingarfulltrúi sé óhæfur til að koma framvegis að málum lögbýlisins Friðarstaða. Vísist um þetta til 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skrifa fræðimanna.  

Málsrök Hveragerðisbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að ekki sé formlega búið að leggja á dagsektir þó að kæranda hafi verið tilkynnt um að skipulags- og byggingarfulltrúi myndi beita þeim frá og með 1. ágúst 2015 yrði kærandi ekki við áskorun um úrbætur á þremur matshlutum á heimalóð jarðarinnar Friðarstaða. Umrædd gróðurhús hafi verið í niðurníðslu allt frá því að þau hafi verið úrelt árið 2007 með sérstöku samkomulagi milli ábúenda og landbúnaðarráðherra.

Niðurstaða: 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segir að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar, eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Í 2. mgr. 56. gr. sömu laga er mælt fyrir um að Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa sé heimilt að leggja á dagsektir til þess að knýja menn til þeirra aðgerða. Samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga eru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.  Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt.

Tilefni máls þessa er bréf skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda með áskorun um úrbætur vegna mannvirkja á jörð kæranda innan tiltekins frests. Segir þar jafnframt að verði kærandi ekki við áskoruninni innan frestsins megi hann búast við að gripið verði til aðgerða skv. 56. gr. mannvirkjalaga til þess að knýja fram úrbætur. Í bréfinu er bent á leiðbeiningarskyldu sveitarfélagsins gagnvart kæranda og andmælarétt hans samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 sem og kæruheimild vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á grundvelli mannvirkjalaga. Ekki verður talið að bréfið feli í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins tilkynningu um að til álita komi að beita þvingunarúrræðum 56. gr. mannvirkjalaga verði kærandi ekki við áskorun byggingarfulltrúa um úrbætur. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá sveitarfélaginu hafa dagsektir nú verið lagðar á kæranda. Sú stjórnvaldsákvörðun hefur ekki sætt kæru, en á það skal bent að hún er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

11/2013 Brekknaás

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 24. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 11/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2013 um að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi og bæta við aðstöðu fyrir verslun, hestaleigu, hestaferðir, hestakerruleigu og kaffihús/veitingastofu á lóð nr. 9 við Brekknaás í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. febrúar 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Brekknaás 9 ehf., afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2013 um að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi og bæta við aðstöðu fyrir verslun, hestaleigu, hestaferðir, hestakerruleigu og kaffihús/veitingastofu á lóðinni að Brekknaási 9, Reykjavík.

Gögn bárust frá Reykjavíkurborg í september og desember 2014 sem og í október og nóvember 2015.

Málsatvik og málsrök. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála uppkveðnum 20. september 2012 var felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar s.á. um að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins á lóðinni nr. 9 við Brekknaás í Reykjavík. Byggðist niðurstaða nefndarinnar á því að við afgreiðslu málsins hefði ekki verið tekin afstaða til þess hvort téð umsókn samræmdist landnotkun í deiliskipulagi. Hinn 8. janúar 2013 tók byggingarfulltrúi fyrir nýja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi að Brekknaási 9 og bæta við aðstöðu fyrir verslun, hestaleigu, hestaferðir, hestakerruleigu og kaffihús/veitingastofu. Var umsókninni synjað með vísan til umsagnar lögfræði- og stjórnsýslu, dags. 18. desember 2012, en í umsögn var talið að ekki væri gert ráð fyrir verslun eða veitingarhúsarekstri í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið.

Kærandi vísar m.a. til þess að sveitarfélagið hafi ekki sýnt fram á með neinum rökum að fyrirhuguð starfsemi gangi í berhögg við skipulag svæðisins. Þá hafi við meðferð málsins verið brotið á lögvörðum rétti kæranda sem t.a.m sé varin af ákvæðum stjórnarskrár og stjórnsýslulögum.

Reykjavíkurborg bendir á að rétt sé að vísa málinu frá. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 18. febrúar 2014 hafi verið tekin fyrir ný umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum innanhúss að Brekknaási 9 sem í sér fælu að útbúin væri aðstaða fyrir verslun, móttöku fyrir hestaleigu, hestakerruleigu, kaffistofu og dýralækningarráðgjöf. Umsókninni hafi verið vísað til umsagnar skrifstofu sviðsstjóra Umhverfis- og skipulagssviðs sem hafi í umsögn, dags. 24. febrúar 2014, ekki gert skipulagslegar athugasemdir við að nefndar breytingar yrðu leyfðar. Hafi umsóknin verið samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 22. september 2015. Eigi kærandi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.

Vegna frávísunarkröfu sveitarfélagsins bendir kærandi á að umsókn sú sem samþykkt hafi verið sé ekki sú umsókn sem hafnað hafi verið 8. janúar 2013. Um sjálfstætt mál sé að ræða og eðlilegt að fá efnislegan úrskurð þar sem gróflega hafi verið brotið á kæranda með þeirri synjun og málsmeðferð í heild sinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Upplýst hefur verið af hálfu borgaryfirvalda að eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni í máli þessu hafi kærandi lagt fram nýja umsókn til borgarinnar, dags. 11. febrúar 2014. Í nefndri umsókn er sótt um leyfi fyrir breytingum innanhúss að Brekknaási 9, m.a. fyrir kaffihúsi. Segir um umsóknina í umsögn skrifstofu sviðsstjóra Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá 24. febrúar 2014 að sótt sé um sambærilegar breytingar og gert hafi verið árið 2012. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 22. september 2015 var umsóknin tekin fyrir og eftirfarandi bókað: „Sótt er um samþykki fyrir áður gerðum breytingum innanhúss, m.a. innrétting á verslun, móttöku fyrir hestaleigu, hestakerruleigu, kaffistofu í flokki II og dýralæknaráðgjöf….“. Var umsóknin samþykkt og talin samræmast ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki. Fyrir úrskurðarnefndinni liggja bæði sú umsókn sem kærumál þetta lýtur að og synjað var 8. janúar 2013 og umsókn sú sem samþykkt var 22. september 2015. Verður ekki annað af þeim ráðið en að þær séu sambærilegar að efni til.

Hvað sem líður gildi hinnar kærðu ákvörðunar verður að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið ekki séð að úrlausn þar um hafi lengur raunhæft gildi fyrir réttarstöðu kæranda. Þar sem á þykir skorta að kærandi hafi sýnt fram á að hann eigi lögvarða hagsmuni í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun og mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Nanna Magnadóttir

24//2013 Kotabyggð

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 4. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 24/2013, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúa Svalbarðsstrandarhrepps frá 4. febrúar 2013 um að synja útgáfu byggingarleyfis fyrir frístundahúsi á lóð nr. 44 í Kotabyggð, Svalbarðsstrandarhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. mars 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson, hrl., f.h. BB bygginga ehf., leigutaka lóðar nr. 44 að Kotabyggð, Svalbarðsstrandarhreppi, þá afgreiðslu byggingarfulltrúa Svalbarðsstrandarhrepps frá 4. febrúar 2013 að hafna útgáfu byggingarleyfis fyrir frístundahúsi á lóðinni nr. 44 í Kotabyggð. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu en hinn 23. maí 2012 mun kærandi hafa lagt inn erindi til byggingarfulltrúa um byggingu frístundahúss á lóð nr. 44 í Kotabyggð. Málið var til meðferðar hjá sveitarfélaginu þá um sumarið og á fundi sveitarstjórnar hinn 4. júlí s.á. var eftirfarandi fært til bókar um það: „Áður á dagskrá sveitarstjórnar á 30. fundi þann 12. júní s.l. Leitað hefur verið álits lögmannsstofu á þeirri stöðu sem uppi er varðandi gildi deiliskipulags í Kotabyggð. Þótt gert sé ráð fyrir tímabundinni blöndun frístundabyggðar og íbúðarbyggðar í Kotabyggð í greinargerð aðalskipulags er það niðurstaða sveitarstjórnar að ekki sé að finna í textanum skýra heimild til byggingar nýrra frístundahúsa heldur sé þar aðeins gert ráð fyrir að eldri byggð haldi sér. Til að leyfa slíkt frávik hefði heimild til þess þurft að koma fram með skýrum hætti í aðalskipulaginu að mati lögfræðinga. Afstaða sveitarstjórnar er því að ekki sé heimilt að gefa út byggingarleyfið. Niðurstaða sveitarstjórnar er meðal annars byggð á áliti Skipulagsstofnunar og lögmannsstofnunnar […]“. Á fundi sveitarstjórnar hinn 15. janúar 2013 var samþykkt breyting á Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 og með bréfi, dags. 17. s.m., fór sveitarstjóri fram á það við Skipulagsstofnun að farið yrði með tillöguna sem óverulega. Jafnframt því var birt tilkynning um afgreiðslu sveitarstjórnar og sagði þar að samkvæmt tillögunni yrði heimilt að skilgreina frístundalóðir á umræddu svæði í deiliskipulagi og að veita byggingarleyfi fyrir frístundahúsum að uppfylltum vissum skilyrðum.

Hinn 1. febrúar 2013 lagði kærandi inn umsókn til byggingarfulltrúa um byggingu frístundahúss á fyrrgreindri lóð. Var erindi hans sent samdægurs með tölvupósti til sveitarstjóra Svalbarðsstrandarhrepps sem svaraði byggingarfulltrúa sama dag með svohljóðandi tölvupósti: „…Skipulagsstofnun hefur hafnað beiðni okkar um að staðfesta óverulega breytingu á aðalskipulagi. Staða aðalskipulagsins er því óbreytt og þar af leiðandi óheimilt að gefa út byggingarleyfi á svæðinu“. Framsendi byggingarfulltrúi svar sveitarstjóra til kæranda með tölvupósti 4. s.m. og tók fram í póstinum: „…hér færðu svar frá sveitarstjóra […]“. Eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni, eða með bréfi, dags. 13. maí s.á., tilkynnti sveitarstjóri kæranda að erindið hefði í raun ekki hlotið formlega afgreiðslu hjá byggingarfulltrúa og að ákveðið hefði verið að taka það til efnislegrar afgreiðslu. Var kæranda gefið færi á að koma á framfæri athugasemdum við niðurstöðu sveitarstjórnar frá 4. júlí 2012, sem áður er getið. Málið var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 18. júní 2013 og lágu þá fyrir athugasemdir kæranda. Var fært til bókar að ekki þætti ástæða til að taka afstöðu til málsins að svo stöddu þar sem það hefði verið kært. Jafnframt var tekið fram að niðurstaða skipulagsnefndar og sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps væri að ekki væri unnt að veita kæranda byggingarleyfi en í aðalskipulagi væri lóð nr. 44 í Kotabyggð á íbúðarsvæði. Þá var bent á að í vinnslu væri deiliskipulag sem væri í samræmi við aðalskipulag. Tók deiliskipulag Kotabyggðar gildi hinn 21. febrúar 2014.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki,  og eftir atvikum í samræmi við samþykkt skv. 1. mgr. 7. gr. sömu laga, veiti byggingarfulltrúi byggingarleyfi, en að öðrum kosti sé hin formlega ákvörðunartaka í höndum sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Telja verði að tölvupóstur byggingarfulltrúa geti tæplega uppfyllt formskilyrði laganna um að ákvörðun sé tekin af valdbærum aðila og því sé um valdþurrð að ræða. Breyti hér engu þótt vísað hafi verið til tölvupóstar frá sveitarstjóra. Umsóknina hafi átt að taka formlega fyrir í skipulagsnefnd og eftir atvikum í sveitarstjórn. Beri að skilja 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga með þeim hætti að byggingarfulltrúi taki ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis, sem sé í andstöðu við grundvallarreglur um stjórnsýsluskipulag sveitarfélaga, sé ljóst að tölvupóstur byggingarfulltrúa geti ekki falið í sér ákvörðun.

Birting og afgreiðsla erindisins sé í ósamræmi við 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og almennar meginreglur stjórnsýsluréttar. Brotið sé gegn ákvæðum 10., 13., 15., og 20. gr. sömu laga. Skriflegu erindi skuli svara skriflega, einkum þegar um synjun sé að ræða. Rökstyðja þurfi ákvörðun og veita leiðbeiningar um kæruheimild og kærufresti. Í engu hafi verið uppfyllt lagaskylda 1. mgr. 7. gr. laganna um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds. Byggi hin meinta ákvörðun á undanfarandi málsmeðferð um sambærilegt erindi árið 2012 þar sem í engu hafi verið gætt að andmælarétti. Þess utan sé ákvörðunin svo efnislega óljós að kærandi sé með öllu óupplýstur um annmarka umsóknar sinnar. Ekki sé vísað til laga eða reglna og því óljóst á hvaða lagagrundvelli hin meinta ákvörðun sé byggð. Séu engin efni til að telja að það ósamræmi sé á gildandi aðal og deiliskipulagi að komi í veg fyrir útgáfu hins umbeðna byggingarleyfis. Þá komi m.a. fram í lóðarleigusamningi og á álagningarseðlum vegna fasteignagjalda að um sumarbústaðarland sé að ræða.

Málsrök Svalbarðsstrandarhrepps: Svalbarðsstrandarhreppur vísar til þess að tölvupóstur byggingarfulltrúa hafi ekki falið í sér afgreiðslu á umsókn um byggingarleyfi og að hún sé enn óafgreidd. Um hafi verið að ræða tilkynningu um stöðu málsins. Ekki hafi verið tilefni til að bera málið undir skipulagsnefnd eða sveitarstjórn þar sem forsendur hefðu ekki breyst. Eigi ákvæði stjórnsýslulaga um birtingu, rökstuðning og kæruleiðbeiningar ekki við um þessi óformlegu samskipti. Jafnframt séu ákvæði 15. gr. laganna um upplýsingarétt málinu óviðkomandi þar sem kærandi hafi hvorki óskað eftir upplýsingum eða gögnum. Ekki hafi verið brotið gegn ákvæði 1. mgr. 7. gr. laganna. Málið hafi verið í réttum farvegi og eðlilegt að álykta að kæranda, sem sé húsasmíðameistari, mætti vera fullkunnugt um ferli byggingarleyfisumsókna og kröfur gerðra til þeirra. Ítarleg skoðun hafi átt sér stað á árinu 2012 og þar hafi sjónarmið kæranda legið fyrir með ótvíræðum hætti. Sé hvorki málsmeðferð ólögleg né erindin sambærileg.
Það sé afstaða sveitarstjórnar að ósamræmis gæti í veigamiklum atriðum á milli aðalskipulags og deiliskipulags varðandi Kotabyggð og séu allar nýbyggingar óheimilar þar til skipulagsáætlanir hafi verið samræmdar. Þá sé lóðarleigusamningur, skilgreining lóðarinnar í fasteignaskrá og innheimta fasteignagjalda málinu óviðkomandi, enda hafi þessi atriði ekki skipulagslegt gildi. Auk þessa hafi kæranda mátt vera kunnugt um stefnu sveitarstjórnar sem sett væri fram í aðalskipulaginu um þróun byggðarinnar í íbúðarbyggð þegar hann hafi yfirtekið lóðarleigusamninginn árið 2010. Engar ákvarðanir hafi verið teknar eftir það sem rýri rétt eða stöðu lóðarhafa. 

Niðurstaða: Byggingarfulltrúi annast meðferð byggingarleyfisumsókna og veitir leyfi með samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis, sbr. 9., 11., og 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Sveitarstjórn er þó heimilt skv. 1. mgr. 7. gr. nefndra laga að setja sérstaka samþykkt um að í sveitarfélaginu skuli starfa byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsóknir áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Þá er sveitarstjórn það heimilað í 2. mgr. ákvæðisins að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna. Samþykkt sem sett er samkvæmt ákvæði þessu skal lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt í B–deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt gögnum málsins hafði slík samþykkt ekki verið birt skv. fyrrnefndum ákvæðum 7. gr. mannvirkjalaga við afgreiðslu málsins.

Eins og greint hefur verið sendi byggingarfulltrúi umsókn kæranda um byggingarleyfi með tölvupósti til sveitarstjóra, en í umsókninni kom fram að sótt væri um leyfi til að byggja frístundahús á lóðinni nr. 44 við Kotabyggð. Fram kom í tölvupósti byggingarfulltrúa að um nýja umsókn væri að ræða og að í samtali við umsækjanda hefði komið hefði til tals auglýsing um breytingu á aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps. Þá var tekið fram að umsækjandi óskaði eftir skriflegu svari um hvort veitt yrði byggingarleyfi á nefndri lóð. Sendi sveitarstjóri tvö svarbréf til byggingarfulltrúa samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Hið fyrra víkur að því að málið hafi verið sent til Skipulagsstofnunar eins og fram komi í auglýsingu og enn sé beðið svars hennar. Í hinu síðara, er framsent var kæranda, kemur fram að Skipulagsstofnun hafi hafnað beiðni um að staðfesta óverulega breytingu á aðalskipulagi. Staða aðalskipulagsins sé því óbreytt og þar af leiðandi „óheimilt að gefa út byggingarleyfi á svæðinu.“

Framsendingu og vísan til svars sveitarstjóra er ekki hægt að skilja svo að byggingarfulltrúi hafi tekið sjálfstæða afstöðu til samþykkis eða synjunar á byggingarleyfisumsókn kæranda. Liggur því ekki fyrir endanleg ákvörðun hans þar um samkvæmt þeim ákvæðum mannvirkjalaga sem áður eru rakin og skýr eru um hlutverk byggingarfulltrúa. Verður ekki annað ráðið af aðdraganda málsins og afgreiðslu þess en að hin kærða afgreiðsla hafi aðeins falið í sér þær upplýsingagjöf til kæranda um að skipulagsleg staða á svæðinu væri óbreytt. Þar sem ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

71/2013 Ægisgata Stykkishólmi

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 5. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 71/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 24. apríl 2013 um að samþykkja að heimila viðbyggingu við Ægisgötu 11, Stykkishólmi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2013, er barst nefndinni 17. s.m., kærir B, Ægisgata 9, Stykkishólmur, þá ákvörðun Stykkishólmsbæjar að heimila viðbyggingu við Ægisgötu 11, Stykkishólmi, en ákvörðunin var tekin 24. apríl 2013. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust frá Stykkishólmsbæ 22. ágúst 2013.

Málavextir: Á lóðinni nr. 11 við Ægisgötu stendur einbýlishús með bílskúr. Í kjallara bílskúrsins er rými sem mun vera tilgreint sem bátaskýli, en lóðin snýr út að sjó við Svartatanga á Stykkishólmi.

Aðdragandi hinnar kærðu ákvörðunar er nokkuð langur en á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 15. ágúst 2011 var tekin fyrir fyrirspurn lóðarhafa nefndrar lóðar um leyfi til að byggja „létta útbyggingu úr gleri fyrir framan bátaskýli á lóð“ og var byggingarfulltrúa falið að skoða málið. Eftir þá skoðun var bókað á fundi sömu nefndar 5. desember s.á. að veggurinn á norðurmörkum yrði að vera brunaveggur og að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar þyrfti að liggja fyrir áður en leyfi væri veitt. Með bréfi til nefndarinnar, dags. 1. júní 2012, greindi lóðarhafi frá því að hann hefði stillt upp burðarvirki fyrir viðbygginguna sem uppstillingu. Á fundi nefndarinnar 9. s.m. var bókað að kynning á fyrirspurn lóðarhafa hefði ekki farið fram fyrir lóðarhöfum aðliggjandi lóðar. Framkvæmdir væru hafnar án leyfis og bæri að fjarlægja „uppstillinguna“ þá þegar. Á fundi bæjarráðs 9. ágúst s.á. var lóðarhafa gefin frestur til þess að skila inn fullnægjandi gögnum fyrir 1. október s.á.. Að öðrum kosti yrði hann að fjarlægja „uppstillinguna“. Á fundi bæjarstjórnar 16. s.m. var bókað á sama veg.

Með bréfi, dags. 6. september 2012, óskaði lóðarhafi Ægisgötu 11 eftir heimild til að byggja útbyggðan glugga á rými sem kallað væri bátaskýli. Stærð gluggans yrði 8,95 m² og fylgdu erindinu teikningar sem og lýsing á byggingunni og efnisvali. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 10. september 2012 og var ákveðið að grenndarkynna það fyrir eigendum húsa á lóðum nr. 9 og 12 við Ægisgötu. Sú afgreiðsla nefndarinnar var staðfest á fundi bæjarstjórnar 25. s.m. Kærendur komu á framfæri athugasemdum sínum með bréfi, dags. 8. október 2012.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 22. október 2012 var nefndu erindi synjað þar sem fyrirhuguð viðbygging væri ekki innan byggingarreits, auk þess sem ekki lægi fyrir deiliskipulag af svæðinu, sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar skorti og þar sem gert væri ráð fyrir byggingu á lóðarmörkum uppfyllti tillagan ekki skilyrði gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð um frágang á brunahólfum byggingarhluta. Afgreiðslu málsins var frestað á fundi bæjarstjórnar 8. nóvember 2012 og í kjölfarið leitaði bæjarstjóri álits hjá Mannvirkjastofnun og Skipulagsstofnun. Að umsögnunum fengnum var eftirfarandi bókað á fundi bæjarstjórnar 24. apríl 2013: “Samþykkt að heimila bygginguna að uppfylltum skilyrðum byggingarreglugerðar og mannvirkjalaga…“. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur telja þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar að samþykkja að heimila viðbyggingu við Ægisgötu 11 ólögmæta. Bendi þeir máli sínu til stuðnings á synjun skipulags- og byggingarnefndar sem hafi m.a. byggt á þeim rökstuðningi að viðbyggingin væri ekki innan byggingarreits og ekki lægi fyrir deiliskipulag af svæðinu.

Uppteiknuð afstöðumynd af bílskúr á nefndri lóð hafi verið röng og sé skúrinn í reynd alveg að lóðarmörkum lóðar kærenda. Hafi bílskúrinn orðið lengri og breiðari en heimilað hafi verið þegar hann hafi verið byggður og nái því að lóðarmökum, eða jafnvel yfir þau. Eins og sjá megi af uppdráttum sé áætlað að brunaveggur verði við lóðamörk lóðanna nr. 11 og 9 við Ægisgötu. Samt virðist vera gert ráð fyrir gluggum sem snúi að síðarnefndri lóðinni og því mótmæli kærendur. Jafnframt mótmæli kærendur frekari mannvirkjum og raski á eða við lóðamörk lóðanna þar sem slíkt yrði umhverfinu til lýta.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að ákvörðun bæjarstjórnar hafi byggt á því að samkvæmt aðalskipulagi sé byggingin innan skilgreinds íbúðasvæðis, viðbyggingin falli ofan í landslagið, veiti hvorki skuggavarp né byrgi fyrir útsýni nágranna.

Ekki sé til deiliskipulag af svæðinu. Eftir grenndarkynningu hafi athugasemdir kærenda eingöngu snúist um að bílskúrinn hafi verið byggður stærri en heimilt hafi verið á sínum tíma og hann væri því staðsettur á lóðarmörkum, sem og að brunaveggur sýndi glugga. Bæjarstjórn hafi snúið ákvörðun byggingarnefndar um synjun við til að gefa lóðarhafa Ægisgötu 11 möguleika á að skila inn fullgerðum uppdráttum samkvæmt byggingarreglugerð og mannvirkjalögum þar sem gluggi yrði tekinn úr brunavegg og/eða hannaður eins og reglugerð segði til um á lóðarmörkum og sökkull og plata væru byggð upp eins og reglugerð segði til um. Endanlegur frágangur á lóð nýbyggingar yrði þá skilgreindur á uppdrætti og um leið væri hægt að sjá hvort bílskúr væri stærri en eldri gögn segi til um og fá staðfest að bílskúr væri ekki á lóðarmörkum. Byggingarfulltrúa hafi verið falið að fylgja því eftir að byggingin fullnægði skilyrðum byggingarreglugerðar og mannvirkjalaga.

Athugasemdir lóðarhafa: Lóðarhafi ítrekar rétt sinn til að byggja útbyggðan glugga, rúma 9 m², fyrir framan bátaskýli í kjallara bílskúrsins. Engin byggð sé þeim megin sem glugginn snúi að, aðeins óhindrað útsýni til hafs. Hvergi við meðferð málsins hafi lóðarhafi talað um viðbyggingu við íbúðarhús, enda sé það ekki inni í myndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 24. apríl 2013 að samþykkja að heimila viðbyggingu við Ægisgötu 11, en þar er ekki í gildi deiliskipulag.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki gilda þau m.a. um öll mannvirki sem reist eru á landi, ofan jarðar eða neðan, með ákveðnum undantekningum þó sem taldar eru í 2. mgr. lagagreinarinnar. Í 1. mgr. 9. gr. laganna er kveðið á um að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. Skal byggingarleyfisskyld framkvæmd vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Þó er gert ráð fyrir því þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir að skipulagsnefnd skuli láta fara fram grenndarkynningu í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að grenndarkynningu aflokinni og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 44. gr., og er byggingarfulltrúa í samræmi við þá niðurstöðu ýmist heimilt eða óheimilt að gefa út byggingarleyfi.

Eins og nánar er lýst í málavöxtum fór fram grenndarkynning á erindi lóðarhafa Ægisgötu 11 í samræmi við framangreind lagaákvæði og afgreiddi bæjarstjórn málið með því að samþykkja að „…heimila bygginguna að uppfylltum skilyrðum byggingarreglugerðar og mannvirkjalaga…“. Er ljóst af orðalagi hinnar kærðu ákvörðunar, og að teknu tilliti til þeirra lagaákvæða sem að framan eru rakin, að með afgreiðslu sinni heimilaði bæjarstjórn byggingarfulltrúa að veita umbeðið byggingarleyfi teldi byggingarfulltrúi að skilyrðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar væri fullnægt. Ekki liggur hins vegar fyrir í málinu nein afgreiðsla byggingarfulltrúa á umræddri byggingarleyfisumsókn, en samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki er endanleg ákvörðun um samþykkt eða synjun byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis á hendi byggingarfulltrúa. Liggur því ekki fyrir í málinu ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

86/2013 Brekkutún

Með
Árið 2015, mánudaginn 26. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

mál nr. 86/2013, kæru á þeirri ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 25. júlí 2013 að hafna því að veita megi byggingarleyfi fyrir sólskála á vesturhlið íbúðarhússins við Brekkutún 13, stækkun hússins á þremur öðrum stöðum og byggingu glerþaks ofan á viðbætur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. ágúst 2013, er barst nefndinni 23. s.m., kærir Árni Friðriksson arkitekt, f.h. T, Brekkutúni 13, Kópavogi, synjun skipulagsnefndar Kópavogs um viðbyggingu við Brekkutún 13. Skilja verður málskot kærenda svo að kærð sé ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 25. júlí 2013 um að hafna því að veita megi byggingarleyfi fyrir sólskála á vesturhlið íbúðarhússins við Brekkutún 13, stækkun hússins á þremur öðrum stöðum og byggingu glerþaks ofan á viðbætur, og að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 12. ágúst 2014.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 26. febrúar 2013, sóttu kærendur um byggingarleyfi fyrir sólskála á vesturhlið íbúðarhússins við Brekkutún 13, stækkun hússins á þremur öðrum stöðum og byggingu glerþaks ofan á viðbætur. Heildarstækkun yrði 36,1 m2 og myndi nýtingarhlutfall hækka úr 0,52 í 0,6 skv. uppdráttum, dags. 19. febrúar 2013. Byggingar-fulltrúi vísaði erindinu til skipulagsdeildar til ákvörðunar um grenndarkynningu.

Á fundi skipulagsnefndar 5. mars 2013 var umsóknin tekin fyrir og var samþykkt, með vísan til 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, að grenndarkynna hana. Grenndarkynning fór fram frá 14. mars til 18. apríl 2013 og bárust athugasemdir frá lóðarhöfum að Brekkutúni 11. Á fundi skipulagsnefndar 7. maí s.á. var lögð fram umsögn skipulags- og byggingardeildar um innsendar athugasemdir við grenndarkynningu, dags. sama dag. Var skipulags- og byggingar¬deild falið að vinna áfram að málinu í samráði við málsaðila.

Á fundi skipulagsnefndar 23. júlí 2013 var erindi kæranda lagt fram að nýju í breyttri mynd, en sólskálinn hafði þá verið minnkaður um 50 cm á breiddina og lengdur um 1,25 m til norðurs. Áætluð heildarstækkun hússins var þá 37,9 m2 í stað 36,1 m2 samkvæmt fyrri tillögu. Skipulagsnefnd hafnaði erindinu á fundinum og staðfesti bæjarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 25. júlí 2013. Var kærendum tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 26. júlí 2013.

Kærendur skírskota til þess að synjunin byggist einvörðungu á mótmælum íbúa í Brekkutúni 11, en rökin sem mótmælin byggist á standist ekki skoðun. Ekki sé farið í bága við byggingarreglugerð, hvorki varðandi eldvarnarákvæði né fjarlægð milli húsa, og ekki sé um að ræða innsýn umfram það sem almennt sé í íbúðahverfum. Mjög svipuð viðbygging hafi verið leyfð við Daltún 10 auk þess sem samþykktar hafi verið stækkanir við fleiri hús í hverfinu, til dæmis Daltún 6 og 29. Þá telji þau viðbygginguna fyllilega í samræmi við þau sjónarmið sem skipulag hverfisins og húsin þar hafi verið unnin út frá.

Kópavogsbær mótmælir því ekki að umræddar breytingar á húsinu við Brekkutún 13 samræmist ákvæði 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, um bil á milli bygginga. Því sé hins vegar hafnað að innsýn og nánd milli húsa nr. 11 og 13 í Brekkutúni verði ekki umfram það sem almennt megi finna í íbúðarhverfum og einstaklingar þurfi að þola samkvæmt reglum nábýlisréttar. Fjarlægð á milli fyrirhugaðrar viðbyggingar og húss nr. 11 við Brekkutún yrði ekki nema 6,5 m. Ekki sé lagst gegn tillögu um breytingar á hliðum hússins heldur aðeins viðbyggingu á vesturgafli þess, en hún falli ekki vel að ásýnd hverfisins og myndi valda íbúum í Brekkutúni 11 miklum óþægindum. Skipulagsnefnd hafi því ekki talið sig geta samþykkt þann hluta breytinga¬tillögunnar. Ekki hafi borist nýtt erindi frá lóðarhöfum Brekkutúns 13 sem gangi styttra með tilliti til innsýnar og nándar milli húsanna. Þá séu þær viðbyggingar sem samþykktar hafi verið á öðrum lóðum í sveitarfélaginu ekki sambærilegar hvað varði innsýn og nánd. Grenndaráhrif þeirra séu minni og þær geti ekki talist vera fordæmi í þessu tilviki.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun á byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og stækkun hússins við Brekkutún 13 í Kópavogi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er ekki í gildi deiliskipulag á svæðinu.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er m.a. óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, breyta því, breyta útliti þess eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa og skal byggingarleyfisskyld framkvæmd vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Þó er gert ráð fyrir því þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir að skipulagsnefnd skuli láta fara fram grenndarkynningu í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að grenndarkynningu aflokinni og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 44. gr., og er byggingarfulltrúa í samræmi við þá niðurstöðu ýmist heimilt eða óheimilt að gefa út byggingarleyfi. 

Af gögnum málsins verður ráðið að byggingarfulltrúi tók við byggingarleyfisumsókn kærenda og vísaði henni til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu skv. nefndri 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Grenndarkynningin fór fram og í kjölfar hennar tók skipulagsnefnd á fundi sínum 23. júlí 2013 afstöðu til erindis kærenda og hafnaði því. Bæjarráð gerði slíkt hið sama á fundi sínum 25. s.m. Verður að líta svo á í ljósi þeirra lagaákvæða sem að framan eru rakin að með afgreiðslu sinni hafi bæjarráð hafnað því að veita mætti umbeðið byggingarleyfi. Ekki liggur hins vegar fyrir í málinu afgreiðsla byggingarfulltrúa á umræddri byggingarleyfisumsókn, en samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki er endanleg ákvörðun um samþykkt eða synjun byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis á hendi byggingarfulltrúa. Liggur því ekki fyrir í málinu ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

69/2015 Nökkvavogur

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 21. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:
Mál nr. 69/2015, kæra á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. ágúst 2015 að innheimta viðbótarlosunargjald vegna sorphirðu við fasteignirnar Nökkvavog 8 og 10.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. september 2015, er barst nefndinni 2. s.m., kæra íbúar, Nökkvavogi 8 og Nökkvavogi 10, Reykjavík, ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. ágúst  um að innheimta aukalega skrefagjald vegna sorphirðu við fasteignir kærenda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 4. september og 16. og 21. október 2015.

Málsatvik og rök: Með bréfi frá Reykjavíkurborg, dags. 19. ágúst 2015, var kærendum tilkynnt um breytingu á fasteignagjöldum fyrir árið 2015. Fólst breytingin í því að lagt var á kærendur svokallað skrefagjald, þ.e. viðbótarlosunargjald vegna sorphirðu skv. 2. mgr. 4. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg nr. 228/2013 þar sem fram kemur að af sorpílátum sem draga þarf lengra en 15 metra frá sorpgeymslu eða -gerði að sorpbíl til losunar skuli greiða viðbótarlosunargjald skv. gjaldskrá fyrir sorphirðu í Reykjavík. Kærendur hafa kært þessa gjaldtöku til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Kærendur telja að heimild til innheimtu viðbótarlosunargjalds geti ekki átt við fasteignir þeirra þar sem leið að sorpílátum sé innan við 15 metrar. Gjaldið hafi verið lagt á án nokkurs fyrirvara. Þegar grennslast hafi verið fyrir um málið hafi sú skýring verið gefin að aspir á lóðinni við Nökkvavog 6 næðu út á innkeyrslu að fasteignum kærenda og sorphirðumenn treystu sér ekki til að aka inn að þeim fasteignum. Kærendur telja það vera í verkahring borgarinnar að sjá til þess að trjágróður af öðrum lóðum hafi ekki áhrif á sorphirðu frá fasteignum þeirra.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að umdeilt viðbótarlosunargjald hafi verið fellt niður og hafi kærendur því ekki lengur lögvarinna hagsmuna að gæta. Beri af þeim sökum að vísa málinu frá.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í kjölfar tölvupóstsamskipta kærenda og starfsmanna Reykjavíkurborgar var kærendum send tilkynning, dags. 16. september 2015, um breytingu á fasteignagjöldum 2015 þar sem hið umdeilda gjald var fellt niður. Telst hin kærða ákvörðun samkvæmt framangreindu ekki lengur hafa réttarverkan að lögum, enda er kæruefni ekki lengur til staðar. Verður því ekki séð að kærandi eigi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir