Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

69/2015 Nökkvavogur

Árið 2015, miðvikudaginn 21. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:
Mál nr. 69/2015, kæra á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. ágúst 2015 að innheimta viðbótarlosunargjald vegna sorphirðu við fasteignirnar Nökkvavog 8 og 10.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. september 2015, er barst nefndinni 2. s.m., kæra íbúar, Nökkvavogi 8 og Nökkvavogi 10, Reykjavík, ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. ágúst  um að innheimta aukalega skrefagjald vegna sorphirðu við fasteignir kærenda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 4. september og 16. og 21. október 2015.

Málsatvik og rök: Með bréfi frá Reykjavíkurborg, dags. 19. ágúst 2015, var kærendum tilkynnt um breytingu á fasteignagjöldum fyrir árið 2015. Fólst breytingin í því að lagt var á kærendur svokallað skrefagjald, þ.e. viðbótarlosunargjald vegna sorphirðu skv. 2. mgr. 4. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg nr. 228/2013 þar sem fram kemur að af sorpílátum sem draga þarf lengra en 15 metra frá sorpgeymslu eða -gerði að sorpbíl til losunar skuli greiða viðbótarlosunargjald skv. gjaldskrá fyrir sorphirðu í Reykjavík. Kærendur hafa kært þessa gjaldtöku til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Kærendur telja að heimild til innheimtu viðbótarlosunargjalds geti ekki átt við fasteignir þeirra þar sem leið að sorpílátum sé innan við 15 metrar. Gjaldið hafi verið lagt á án nokkurs fyrirvara. Þegar grennslast hafi verið fyrir um málið hafi sú skýring verið gefin að aspir á lóðinni við Nökkvavog 6 næðu út á innkeyrslu að fasteignum kærenda og sorphirðumenn treystu sér ekki til að aka inn að þeim fasteignum. Kærendur telja það vera í verkahring borgarinnar að sjá til þess að trjágróður af öðrum lóðum hafi ekki áhrif á sorphirðu frá fasteignum þeirra.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að umdeilt viðbótarlosunargjald hafi verið fellt niður og hafi kærendur því ekki lengur lögvarinna hagsmuna að gæta. Beri af þeim sökum að vísa málinu frá.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í kjölfar tölvupóstsamskipta kærenda og starfsmanna Reykjavíkurborgar var kærendum send tilkynning, dags. 16. september 2015, um breytingu á fasteignagjöldum 2015 þar sem hið umdeilda gjald var fellt niður. Telst hin kærða ákvörðun samkvæmt framangreindu ekki lengur hafa réttarverkan að lögum, enda er kæruefni ekki lengur til staðar. Verður því ekki séð að kærandi eigi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir