Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

48/2015 Friðarstaðir

Árið 2015, fimmtudaginn 10. desember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 48/2015, kæra á áskorun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hveragerði frá 27. maí 2015 um úrbætur á heimalóð og mannvirkjum að Friðarstöðum í Hveragerði.
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. júní 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir D, Friðarstöðum, Hveragerði, áskorun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hveragerði frá 27. maí 2015 þar sem boðað sé „nýtt dagsektamál“.

Gögn málsins bárust frá Hveragerðisbæ 30. júní og 9. desember 2015.

Málavextir: Hinn 27. maí 2015 ritaði skipulags- og byggingarfulltrúi Hveragerðisbæjar bréf til kæranda þar sem skorað var á hann að koma ástandi mannvirkja á jörðinni Friðarstöðum í viðunandi horf. Kom þar fram að ásigkomulagi og viðhaldi heimalóðar Friðarstaða, og nokkurra mannvirkja sem á henni stæðu, væri verulega ábótavant svo að hætta stafi af. Einkum væri ástand gróðurhúsa á lóðinni, skráðum í Þjóðskrá sem matshlutar 07, 18 og 19, afar slæmt. Umgengni á heimalóð væri einnig afar slæm og mætti sjá mikinn fjölda lausamuna og væri farið fram á að kærandi fjarlægði ónýta lausamuni og gengi snyrtilega frá nýtanlegum lausamunum. Var í bréfinu tekið fram að ábúanda væri veittur frestur til 31. júlí 2015 til að ljúka úrbótum á greindum gróðurhúsum. Yrði úrbótum ekki lokið innan frests yrði dagsektum beitt til að knýja á um aðgerðir á grundvelli 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þar kom og fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar væru á grundvelli laga um mannvirki væru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og hver frestur væri til að skjóta máli til nefndarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að efni bréfs skipulags- og byggingarfulltrúa sé í meginatriðum sama mál og úrskurðarnefndin hafi fjallað um í úrskurði sínum frá 6. nóvember 2014 í máli nr. 113/2012. Leiðbeint hafi verið um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar en kærandi dragi í efa að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða.

Varðandi matshluta 07 þá sé þar um að ræða gróðurhús sem sé sambyggt gömlu íbúðarhúsi. Um þann matshluta sé nú fjallað af hálfu úrskurðarnefndar um viðlagatryggingu. Málið sé enn í meðferð þeirrar nefndar, matsmenn hafi verið dómkvaddir og nýlega verið að störfum á jörðinni. Ekki sé hægt að taka ákvörðun varðandi umrætt gróðurhús fyrr en niðurstaða liggi fyrir í því máli. Varðandi matshluta 18 og 19 þá séu þau hús hluti af dómsmáli þar sem kærandi og sveitarfélagið séu aðilar. Dómur Héraðsdóms Suðurlands í máli E 70/2014 hafi verið kveðinn upp 22. maí 2015, en bréf byggingarfulltrúa sé dagsett 27. s.m. Líkur séu á að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar Íslands, en áfrýjunarfrestur sé ekki liðinn. Kærandi telji sig ekki geta átt við þessi hús þar til lyktir þess máls liggi fyrir. 

Að öðru leyti sé umgengni á lögbýlinu ekki verri en hjá öðrum aðilum í atvinnurekstri í bænum. Á lögbýlinu séu tveir bílar í eigu aðila sem misst hafi hús sitt í jarðskjálftanum í maí 2008 og flutt burt úr bænum. Hafi þeir lofað að taka bíla sína burtu og verið í samskiptum við sveitarfélagið þar að lútandi. Þá sé erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvað við sé átt í bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa varðandi véla- og tækjahluti.

Loks hafi skipulags- og byggingarfulltrúi, auk lögmanns bæjarins, komið fram fyrir hönd sveitarfélagsins í nefndu dómsmáli. Því sé ljóst að skipulags- og byggingarfulltrúi sé óhæfur til að koma framvegis að málum lögbýlisins Friðarstaða. Vísist um þetta til 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skrifa fræðimanna.  

Málsrök Hveragerðisbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að ekki sé formlega búið að leggja á dagsektir þó að kæranda hafi verið tilkynnt um að skipulags- og byggingarfulltrúi myndi beita þeim frá og með 1. ágúst 2015 yrði kærandi ekki við áskorun um úrbætur á þremur matshlutum á heimalóð jarðarinnar Friðarstaða. Umrædd gróðurhús hafi verið í niðurníðslu allt frá því að þau hafi verið úrelt árið 2007 með sérstöku samkomulagi milli ábúenda og landbúnaðarráðherra.

Niðurstaða: 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segir að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar, eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Í 2. mgr. 56. gr. sömu laga er mælt fyrir um að Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa sé heimilt að leggja á dagsektir til þess að knýja menn til þeirra aðgerða. Samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga eru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.  Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt.

Tilefni máls þessa er bréf skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda með áskorun um úrbætur vegna mannvirkja á jörð kæranda innan tiltekins frests. Segir þar jafnframt að verði kærandi ekki við áskoruninni innan frestsins megi hann búast við að gripið verði til aðgerða skv. 56. gr. mannvirkjalaga til þess að knýja fram úrbætur. Í bréfinu er bent á leiðbeiningarskyldu sveitarfélagsins gagnvart kæranda og andmælarétt hans samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 sem og kæruheimild vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á grundvelli mannvirkjalaga. Ekki verður talið að bréfið feli í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins tilkynningu um að til álita komi að beita þvingunarúrræðum 56. gr. mannvirkjalaga verði kærandi ekki við áskorun byggingarfulltrúa um úrbætur. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá sveitarfélaginu hafa dagsektir nú verið lagðar á kæranda. Sú stjórnvaldsákvörðun hefur ekki sætt kæru, en á það skal bent að hún er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni

____________________________________
Nanna Magnadóttir