Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

96/2008 Krikahverfi

Árið 2015, fimmtudaginn 10. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2008, kæra á ákvörðun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 17. júlí 2008 um breytingu á deiliskipulagi Krikahverfis vegna Krikaskóla.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. október 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir hdl., f.h. D, Stórakrika 3, Þ, Stórakrika 5, S, Stórakrika 7, Þ, Stórakrika 9 og B, Stórakrika 11, Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 17. júlí 2008 að breyta deiliskipulagi Krikahverfis vegna Krikaskóla. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins hafa ekki borist úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málsatvik og rök: Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar breytingu á deiliskipulagi Krikahverfis hinn 17. júlí 2008 að undangenginni grenndarkynningu skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Fólst breytingin í því að aðkomu að lóð Krikaskóla við Sunnukrika og bílastæðum var breytt, lóðin stækkuð til norðausturs og breytingar gerðar á byggingarreit. Þá var heimiluð hækkun hluta húss í tvær hæðir í stað einnar. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 13. ágúst s.á. og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. september 2008.

Skírskota kærendur til þess að um hafi verið að ræða verulega breytingu á nýlegu deiliskipulagi sem hefði átt að sæta almennri meðferð skipulags- og byggingarlaga en ekki aðeins grenndarkynningu. Kærendur hafi mátt treysta því að ekki yrði hróflað við nýlegu skipulagi hverfisins, sem sé frá árinu 2005, en útsýni það sem það deiliskipulag tryggði hafi verið forsenda fyrir kaupum kærenda á lóðum á svæðinu. Með hækkun skólabyggingar úr einni hæð í tvær, sem heimiluð sé með hinni kærðu ákvörðun, sé útsýni kærenda frá fasteignum þeirra verulega skert.

Niðurstaða: Eftir að kæra barst í máli þessu leituðu kærendur eftir bótum frá bæjaryfirvöldum Mosfellsbæjar vegna gildistöku hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Farið var fram á dómkvaðningu matsmanna til að meta áhrif skipulagsbreytingarinnar á verðmæti viðkomandi fasteigna. Lá sú matsgerð fyrir hinn 15. mars 2011. Í kjölfar þess voru greiddar bætur til kærenda að Stórakrika 3, 5, 7 og 9. Kærandi að Stórakrika 11 krafðist yfirmats og er sú matsgerð dagsett 19. júní 2012. Bæjaryfirvöld voru ekki tilbúin að greiða bætur í samræmi við matsgerðina og stefndi kærandi að Stórakrika 11 Mosfellsbæ fyrir dóm til greiðslu bóta vegna gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar. Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 15. apríl 2015 í máli nr. E-2550/2014 og greiddi Mosfellsbær kæranda bætur í kjölfar dómsins. Eru greind málsatvik rakin í nefndum dómi.

Í 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var kveðið á um bætur til handa þeim sem sýnt gátu fram á að gildistaka deiliskipulags hefði í för með sér verðrýrnun á fasteign þeirra. Hafa kærendur nýtt sér þessa lagaheimild og hafa þegið bætur vegna gildistöku hinar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Af þeim sökum verða þeir taldir una gildistöku skipulagsins og geta ekki samhliða viðtöku bóta krafist ógildingar skipulagsákvörðunarinnar sem er grundvöllur bótanna. Hafa kærendur af þessum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. nú 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.   

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og þar sem beðið var niðurstöðu dóms í máli um bætur vegna hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson