Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

101/2013 Dalsbraut Akureyri

Árið 2015, þriðjudaginn 8. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2013, kæra vegna framkvæmdar deiliskipulags við Dalsbraut á Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til innanríkisráðuneytisins, dags. 9. október 2013, er framsent var 17. s.m. til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og móttekið þar 21. s.m., kærir E, Heiðarlundi 8a, Akureyri, þá ákvörðun framkvæmdaráðs Akureyrar að fylgja ekki auglýstu deiliskipulagi við gatnagerð og fresta framkvæmdum við uppsetningu umferðar- og gangbrautarljósa, sem og gangbrautar, við Dalsbraut norðan Skógarlundar. Er þess krafist að framkvæmdaráði Akureyrar verði gert að ljúka nefndum framkvæmdum í samræmi við gildandi deiliskipulag og að hagsmunaðilum verði gert að víkja sæti í framkvæmdaráði við meðferð mála er varði Dalsbraut.

Gögn málsins bárust frá Akureyrarbæ 13. desember 2013 og í desember 2015.

Málavextir: Dalsbraut norðan Skógarlundar er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag fyrir „Dalsbraut, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut“, ásamt síðari breytingum sem gildi tóku 30. nóvember 2012. Svæðið sem deiliskipulagið nær til er götustæði Dalsbrautar, frá Þingvallastræti í norðri að Miðhúsabraut í suðri, ásamt nokkrum fullbyggðum íbúðarsvæðum sem liggja að götunni.

Í kafla 4.5.4 í greinargerð með deiliskipulaginu er m.a. fjallað um umferðaröryggi og segir m.a: „Útfærsla á Dalsbraut norðan Skógarlundar miðast við að takmarka hámarksumferðarhraða við 30 km/klst. Meðal aðgerða eru gangbrautarljós með miðeyju á tveimur stöðum sem verða þannig útfærð að rautt ljós verður að staðaldri bæði á akandi og gangandi umferð. Umferð akandi mun ekki fá grænt ljós nema skynjarar gefi til kynna að engin umferð gangandi sé í nánd við gangbraut. Ef akandi umferð er yfir leyfilegum hámarkshraða mun grænt ljós ekki birtast fyrr en umferð hefur stöðvast við gangbraut. Gangandi vegfarendur þurfa alltaf að ýta á hnapp við umferðarljós til að fá grænt ljós sem heimilar þeim að ganga yfir götuna.“

Framkvæmdaleyfi vegna framlengingar á Dalsbraut frá Þingvallastræti til Miðhúsabrautar var gefið út 17. febrúar 2012, en framkvæmdir munu hafa frestast. Síðan hafa verið gefin út tvö framkvæmdaleyfi. Annars vegar 14. júní s.á. fyrir fyrri hluta sömu framkvæmdar og hins vegar 14. desember s.á. vegna seinni hluta framkvæmdarinnar.

Kærandi, fyrir hönd hverfisnefndar Lunda- og Gerðahverfis, beindi erindi til Akureyrarbæjar með tölvupósti 9. september 2013 til að athuga hvað liði frágangi á gangbraut yfir Dalsbraut til móts við Heiðarlund 8, sem og við hljóðmön á „Heiðarlundarsvæðinu“. Var kærandi upplýstur um gang mála með tölvupósti og í svari hans kom fram að hverfisnefndin hygðist ekki bíða um óákveðinn tíma eftir framkvæmdarlokum. Sendi hann í kjölfarið erindi fyrir hönd hverfisnefndarinnar til framkvæmdaráðs Akureyrar með bréfi, dags. 12. s.m. Var þar óskað svara um það hvers vegna framkvæmdum hefði verið frestað við gangbraut og upplýsinga um hvenær stæði til að hækka hljóðmanir við Heiðarlund. Erindið var tekið fyrir á fundi framkvæmdaráðs 24. s.m. og var bæjartæknifræðingi falið að svara erindinu auk þess sem ákveðið var að fara í umferðar- og hraðamælingar á umræddu svæði við Dalsbraut. Í kjölfar slíkra mælinga bauð bæjartæknifræðingur fulltrúum hverfisnefndarinnar á fund til að ræða niðurstöður þeirra. Í svari kæranda frá 22. október s.á. var fundarboði hafnað og kom fram sú afstaða að hverfisnefndin teldi sig ekki hafa umboð til að „… ákveða fyrir hönd hverfisbúa eitthvað annað en stendur í deiliskipulaginu, þ.e. ef hugmyndin er sú að gera eitthvað annað“. Jafnframt kom fram sú afstaða að samþykkt deiliskipulag hlyti að gilda.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að óeðlileg frestun hafi orðið á mikilvægum hluta framkvæmda við Dalsbraut norðan Skógarlundar, sem sé ný gata á Akureyri. Gangbraut sem sé á auglýstu skipulagi hafi ekki verið tekin í gagnið, en auk þess að vera gangbraut með ljósum þá eigi gangbrautarljósin einnig að vera hraðatakmarkandi, líkt og tekið sé fram í greinargerð með deiliskipulagi.

Skipulagsstjóri hafi tilkynnt kæranda að þessi framkvæmd ætti að fara fram áður en skólar hæfust haustið 2013 og hafi bent kæranda á að hafa samband við framkvæmdaráð Akureyrar. Framkvæmdaráðið hafi svarað fyrirspurn kæranda á þann veg að gagnsemi gangbrautarinnar væri til skoðunar auk þess sem aðrar útfærslur yrðu athugaðar, m.a. að teknu tilliti til hraðamælinga og aðstæðna. Síðan hafi liðið þrír mánuðir. Framkvæmdir hafi ekki verið hafnar við gangbrautina, en það sé skylda Akureyrarbæjar að framkvæma samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Við undirbúning deiliskipulagsins hafi íbúar á svæðinu ítrekað óskað eftir því að hraðahindranir yrðu á götunni. Slíkum beiðnum hafi verið hafnað og vísað til þess að yfir götuna yrðu tvær gangbrautir sem myndu gegna því hlutverki að hægja á umferðarhraða. Íbúar séu afar ósáttir við þessi vinnubrögð, enda sé hraði og hávaði óbærilegur. Umferðareyjan sem gangbrautin liggi yfir sé komin, sem og staurar fyrir ljósabúnaði, en engin ljós. Þetta skapi mikla slysahættu þar sem óljóst sé hvort þarna sé gangbraut eða ekki. Einnig sé hætta fyrir akandi umferð. Gatan standi aukinheldur við grunnskóla og íþróttasvæði og því sé þar mikil umferð barna og ungmenna um svæðið.

Hæfi einstakra nefndarmanna framkvæmdaráðsins sé dregið í efa. Sérstaklega þeirra sem þannig séu búsettir að þeir þurfi að fara um Dalsbraut. Þeir hafi hagsmuni af því að komast leiðar sinnar sem hraðast og þá á kostnað íbúa við vegstæðið.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að engar ákvarðanir hafi verið teknar um að breyta út af framkvæmd gildandi deiliskipulags Dalsbrautar. Fjármagn á hverjum tíma og samþykkt framkvæmdaáætlun ráði framkvæmdum hvers tímabils.

Þar sem engin stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin þess efnis að breyta deiliskipulagi og hætta við þau umferðarstýrðu gangbrautarljós á Dalsbraut sem hér um ræði sé ekki fyrir hendi kæranleg ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Hvert og eitt sveitarfélag verði að haga framkvæmdum sínum samkvæmt samþykktu deiliskipulagi í samræmi við framkvæmdaáætlun hverju sinni og það fjármagn sem sé fyrir hendi til framkvæmda. Því sé ekki ástæða til að taka afstöðu til hæfis nefndarmanna.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur m.a. fram að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Er slíka kæruheimild að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Stjórnvöldum er heimilt samkvæmt skipulagslögum að þróa byggð og landnotkun með bindandi skipulagsáætlunum. Kemur nánar fram í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að hvaða leyti skuli fjallað um samgöngur í aðalskipulagi og hvernig skuli háttað umfjöllun í deiliskipulagi um samgöngukerfi og umferðarmannvirki. Svo sem nánar er lýst í málavöxtum koma fram tiltekin útfærsla þar um í deiliskipulaginu Dalsbraut, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut, en tilefni kærumáls þessa er að framkvæmdum hefur ekki verið lokið í samræmi við hana. Hafa nokkur samskipti orðið milli kæranda og sveitarfélagsins vegna þessa og verður af þeim ráðið að kærandi vilji knýja fram lok framkvæmdanna. Hins vegar liggur ekki fyrir ákvörðun um að breyta þeim hluta deiliskipulagsins sem um ræðir eða að framkvæma á annan veg en þar er mælt um fyrir. Í 37. gr. skipulagslaga kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reit þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Það má þó ljóst vera að framkvæmdaraðili verður ekki knúinn til framkvæmda samkvæmt deiliskipulagi, hvort sem leyfi hefur verið gefið út vegna þeirra eða ekki, enda geta framkvæmdir eðli málsins samkvæmt verið háðar ýmsum ytri aðstæðum, s.s. fjármagni. Þar sem ekki verður séð að fyrir liggi nein sú ákvörðun samkvæmt skipulagslögum sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. áðurnefnda 52. gr. þeirra laga, verður kærumáli þessu vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir

_______________________________               ______________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson