Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

112/2014 Markavegur

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 30. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 112/2014, kæra á synjun Kópavogsbæjar frá 19. september 2014 um að fjarlægja rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla á lóðinni nr. 1 við Markaveg, sem og að fjarlægja jarðvegstipp á lóð nr. 2 við Markaveg í Kópavogi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. október 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra lóðarhafar Markavegar 1, Kópavogi, þá ákvörðun Kópavogsbæjar frá 19. september 2014 um að hafna því að fjarlægja rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla á lóðinni nr. 1 við Markaveg og jarðvegstipp á lóð nr. 2 við Markaveg í Kópavogi. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að lagt verði fyrir Kópavogsbæ að fjarlægja umræddan rafmagnskassa, háspennustrengi, spindla og jarðvegstipp.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 13. nóvember 2014 og í mars 2016.

Málavextir: Árið 2008 fengu kærendur úthlutað hesthúsalóð að Markavegi 1, á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag fyrir Kjóavelli, hesthúsahverfi. Með bréfum kærenda til bæjarstjóra Kópavogs, dags. 1. ágúst 2014, var farið fram á að Kópavogsbær fjarlægði rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla af lóð kærenda og að bærinn hætti að nota lóðina að Markavegi 2-3 sem jarðvegstipp. Gerð var krafa um að sveitarfélagið yrði við nefndum kröfum eigi síðar en 19. september s.á., ella yrði litið svo á að Kópavogsbær hefði synjað erindunum. Mun sveitarfélagið ekki hafa orðið við kröfum kærenda.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að Kópavogsbær hafi brotið gegn ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og mannvirkjalaga nr. 160/2010. Fari umrætt ástand og ákvarðanir bæjarins um athafnaleysi gegn eignarréttindum kærenda, sbr. 72. gr. stjórnarskrár.

Eftir að kærendur hafi fengið lóðinni úthlutað hafi deiliskipulagi fyrir umrætt svæði verið breytt, lóð þeirra snúið um 90° og hesthús á lóðinni fært í norðurenda hennar. Hafi kærendur aldrei verið upplýstir um fyrirhugaðar breytingar eða verið leitað eftir sjónarmiðum þeirra, eins og borið hafi að gera lögum samkvæmt. Samkvæmt eldra skipulagi hafi rafmagnskassi staðið við suðausturhorn húss á lóðinni. Eftir breytingu sé hann sex metra inn á lóðinni sunnanverðri. Á mæliblaði sem afhent hafi verið áður en umrætt hús hafi verið teiknað hafi engin merki verið um rafmagnskassa á lóðinni og engin kvöð tilgreind.

Þegar kærendur hafi fengið lóð sína afhenta hafi legið í henni háspennustrengir sem ekki hafi verið upplýst um. Geti þeir verið hættulegir mönnum og dýrum. Ekki sé hægt að girða lóðina og nýta hana til fulls með eðlilegum hætti. Í sunnanverðri lóðinni liggi vatnslagnir frá austri til vesturs og standi spindlar vegna þeirra upp úr jarðveginum. Sé af þeim sjónmengun. Nefndur rafmagnskassi, lagnir og spindlar hindri afnot kærenda að lóð sinni og minnki gæði hennar og verðmæti.

Kvaðir ofangreinds efnis hafi verið settar í deiliskipulag löngu eftir afhendingu greindrar lóðar og smíði hesthúss á henni eða í maí 2012. Séu rafmagnskassinn og lagnirnar skipulagskvöð, sbr. 20. tl. 2. gr. skipulagslaga en kvaðir og staðsetningar lagna skuli koma fram á lóðarblöðum, sbr. 1.3. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Þau séu gefin út af stjórnvöldum og megi borgarar teysta slíkum opinberum skjölum. Hafi kærendur mátt ganga út frá því að engar kvaðir væru til staðar á lóðinni. Verði þeim ekki gert að bera hallan af „mistökum“ Kópavogsbæjar. Þá sé ekki hægt að íþyngja kærendum með afturvirkri breytingu á lóðarkvöðum.

Í aðalskipulagi sé lóðin að Markavegi 2-3 skipulögð sem hesthúsalóð og svo sé einnig í deiliskipulagi fyrir Kjóavelli. Engin ákvörðun virðist liggja fyrir um að umrædd lóð skuli gerð að jarðvegstipp. Verði að gera þá kröfu að Kópavogsbær fari eftir skipulagi og haldi umhverfi lóða snyrtilegu. Skuli hér sérstaklega bent á 1. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga og 1. og 2. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Hafi kærendur ekki getað lokið frágangi við lóð sína vegna þessa. Brjóti hinar kærðu ákvarðanir gegn lögvörðum hagsmunum kærenda um hagkvæma og hnökralausa nýtingu lóðar þeirra. Sé óhagræði kærenda mun meira en þörf bæjarfélagsins á að viðhalda hinu ólögmæta ástandi.

Málsrök Kópavogsbæjar: Sveitarfélagið tekur fram að málsmeðferð við umrædda breytingu á deiliskipulagi hafi verið í fullu samræmi við ákvæði þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1993. Með ítrekuðum auglýsingum hafi verið tryggt að aðilar sem hagmuna ættu að gæta, hefðu tök á að koma athugasemdum sínum á framfæri. Engar slíkar hafi komið frá kærendum. Þá hafi í bréfi til kærenda, þar sem tilkynnt  hafi verið um úthlutun lóðarinnar, verið tekið fram að úthlutunin væri gerð með fyrirvara um að deiliskipulagi kynni að verða breytt.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir bílastæðum og gangstétt meðfram Markavegi og að hestagerði nái ekki nær götu en 8 m. Umræddur rafmagnskassi sé staðsettur á svæði sem sé utan hestagerðis. Lagnir sem þjóni hesthúsum liggi á þessu svæði og þ.m.t. nefndur rafmagnskassi. Þá sé vakin athygli á kvöð um lagnir á lóðinni í deiliskipulagi og samþykktu mæliblaði, dags. 3. mars 2010. Greindir háspennustrengir liggi undir bílastæði á lóðinni og sé slíkt fyrirkomulag víða. Séu strengirnir utan byggingarreits og gerðis. Þá séu spindlar fyrir utan lóð kærenda. Hafi umrætt svæði ekki enn verið fullklárað en við frágang á því verði jarðvegur við spindlana settur í eðlilega hæð líkt og tíðkist.

Láðst hafi að gera grein fyrir lögnum sem fyrir væru á svæðinu við breytingu á eldra skipulagi fyrir Markaveg 1. Á hinn bóginn séu þær utan byggingarreits og gerðis og hafi engin áhrif á nýtingarmöguleika lóðarinnar og hún því eins að gæðum og ef engar lagnir lægju í jörðu.  Raflagnir liggi t.d. við lóðamörk að vestanverðu og við lóðamörk að sunnanverðu þar sem gildandi skipulag geri ráð fyrir að verði bílastæði.  Rafmagnskassi sé staðsettur við austurenda bílastæða og muni ekki skerða nýtingu lóðarinnar eða hafa að öðru leyti áhrif á hagsmuni lóðarhafa. Þá muni Kópavogsbær hafa forgöngu um að moldarhaugar á lóðinni að Markavegi 2-3 verði fjarlægðir.

Athugasemdir kærenda við greinargerð Kópavogsbæjar: Kærendur árétta sjónarmið sín og telja jafnframt að almennur fyrirvari við úthlutun um að deiliskipulag kunni að breytast geti ekki átt við um jafn stórvægilegar breytingar og gerðar hafi verið. Hafi borið að leita eftir sjónarmiðum kærenda. Sú fullyrðing Kópavogsbæjar um að kvaðir á lóð séu lögmætar og utan hestagerðis sé röng. Augljóst sé að rafmagnskassi hefði ekki verið staðsettur á umræddum stað hefðu lóðir upphaflega snúið á þann hátt sem þær gerðu eftir 90° snúning. Samkvæmt greinargerð með deiliskipulagi hafi hestagerði átt að ná að Markavegi og hafi kærendur átt að geta treyst því þegar þeir hafi keypt lóðina. Sé lóðin ekki í samræmi við væntingar þeirra eða það sem um hafi verið samið.

Niðurstaða: Með bréfum, dags. 1. ágúst 2014, beindu kærendur þeim kröfum til Kópavogsbæjar að fjarlægja rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla á lóð þeirra að Markavegi 1, sem og jarðvegstipp á lóðinni að Markavegi 2-3. Kom fram í nefndum erindum að yrði ekkert aðhafst yrði litið svo á að í því fælist ákvörðun sveitarfélagsins um að synja kröfu kærenda. Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ hefur fyrrgreindum erindum kærenda hvorki verið svarað né þau tekin fyrir á fundum hjá sveitarfélaginu.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Þá er það meginregla stjórnsýsluréttar að hver sá er ber skriflegt erindi undir stjórnvald eigi rétt á skriflegu svari við því. Verður að líta svo á að nefnd erindi kærenda séu óafgreidd, en eins og atvikum er hér háttað verður meint athafnaleysi sveitarfélagsins ekki túlkað sem svo að það feli í sér ákvörðun um synjun á kröfum kærenda. Liggur því ekki fyrir að nein sú ákvörðun hafi verið tekin sem bindur enda á málið, en það er skilyrði þess að það verði borið undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Verður af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni, enda hefur málið ekki enn verið til lykta leitt.

Þó er rétt að benda á að unnt er að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem stjórnvaldsákvörðun í málinu verður kærð til, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, en kæra þess efnis liggur ekki fyrir úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

13/2014 Garðahverfi – Selskarð

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 7. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 21. nóvember 2013 um að samþykkja deiliskipulag Garðahverfis á Álftanesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. febrúar 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðarinnar Selskarðs á Álftanesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 21. nóvember 2013 að samþykkja deiliskipulag Garðahverfis á Álftanesi. Verður að skilja kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er þess krafist að eignarréttindi kærenda verði viðurkennd og þeim úrskurðað endurgjald vegna kostnaðar við kæru.
   
Gögn málsins bárust frá Garðabæ 17. nóvember 2015.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda. Á opnum íbúafundi 19. janúar 2011 voru frumdrög að skipulagi Garðahverfis kynnt íbúum Garðabæjar. Í kjölfarið tók við frekari mótun deiliskipulagstillögunnar. Hinn 11. nóvember 2011 auglýsti síðan skipulagsnefnd Garðabæjar forkynningu á deiliskipulagstillögu fyrir Garðahverfi, sbr. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Frestur til að skila athugasemdum við forkynninguna var til 12. desember s.á. Kærendur komu að athugasemdum sínum og töldu að við skipulagsgerð yrði að taka tillit til réttinda sem tilheyrðu jörðinni Selskarði á Álftanesi, þ.e.a.s. sandnámuréttar, fjöruréttar og réttar til búðarstæðis og uppsáturs á svæðinu.

Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 17. janúar 2012 var samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillögu Garðahverfis, sbr. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Deiliskipulagstillagan var auglýst 9. febrúar 2012 með athugasemdafresti til 27. mars. s.á. Alls bárust sjö athugasemdir, m.a. frá kærendum. Skipulagsnefnd tók málið til afgreiðslu á fundi sínum 20. júní 2012 og 16. ágúst s.á. samþykkti bæjarstjórn deiliskipulagstillögu fyrir Garðahverfi.

Í kjölfar athugasemda Skipulagsstofnunar ákvað skipulagsnefnd á fundi sínum 23. maí 2013 að gera breytingar á deiliskipulagstillögunni og auglýsa hana að nýju. Ný deiliskipulagstillaga fyrir Garðahverfi var auglýst 14. ágúst 2013, sbr. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga, með fresti til athugasemda til 25. september s.á. Ein athugasemd barst frá kærendum með bréfi, dags. 24. september 2013, þar sem þeir ítrekuðu fyrri athugasemdir sínar. Hinn 21. nóvember 2013 samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar deiliskipulag fyrir Garðahverfi, að tillögu skipulagsnefndar frá 7. s.m. Deiliskipulagið tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. febrúar 2014.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þeir séu eigendur jarðarinnar Selskarðs. Um sé að ræða forna jörð, en hennar sé fyrst getið í þekktum heimildum á 13. öld. Eigendur Selskarðs eigi lögvarinn nýtingarrétt á þeim jörðum sem séu á því svæði sem deiliskipulag Garðahverfis taki til, en með deiliskipulaginu fari þau réttindi forgörðum.

Heimildir séu til staðar um eignarréttindi jarðarinnar Selskarðs. Samkvæmt þeim fylgi jörðinni fjöruréttur skilgreindur „að einum þriðja í Eggjum í hálfan ósinn móts við Hlið á miðja Kringlu“. Einnig fylgi búðarstæði og réttur til skipsuppsáturs í landi Hausastaða. Við landskipti á öllu heimalandi Garðakirkju 1932-1935 hafi jörðin Selskarð m.a. hlotið sandnámurétt í Garðaholti. Kærendur hafi aldrei verið löglega sviptir þessum réttindum eða afsalað sér þeim.

Mótmælt sé staðhæfingum Garðabæjar þess efnis að ekki sé um að ræða skýran og ótvíræðan rétt kærenda. Hafi kærendur hingað til nýtt sér þessi réttindi, m.a. með útleigu, sérstaklega beitarrétt jarðarinnar. Þá hafi kærendur sjálfir nýtt sér beitarréttinn. Fjöruréttur jarðarinnar hafi verið nýttur í gegnum aldirnar. Útræði, búðarstæði og uppsátur jarðarinnar hafi lengst af verið nýtt og til standi að nýta þessar eignir í framtíðinni. Virðist sem Garðabær ætli ekki að virða fornan rétt jarðarinnar Selskarðs, sem hafi verið til staðar áður en sveitarfélagið varð til.

Þess sé krafist að úrskurðarnefndin ákveði kærendum endurgjald fyrir þeim kostnaði sem þeir hafi haft af vinnu vegna kæru til nefndarinnar. Í lögum nr. 130/2011 segi að kostnaður vegna úrskurðarnefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Ekkert í lögunum kveði á um að úrskurðarnefndin geti ekki úrskurðað aðilum endurgjald, hvort sem það yrði greitt af hinum kærða eða úr ríkissjóði. Það sé einfaldlega eðlilegt og sanngjarnt og þurfi ekki lagafyrirmæli til.
   
Skipulagsáform Garðabæjar hafi ekkert gildi og þar af leiðandi verði ekki heimilaðar framkvæmdir á svæðinu fyrr en samið hafi verið um eignarréttindi jarðarinnar Selskarðs eða þau sætt eignarnámi í samræmi við lög og reglur.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að í 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi skýrt fram að sveitarstjórnir beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags. Á grundvelli þeirra heimilda hafi bæjarstjórn Garðabæjar samþykkt deiliskipulag fyrir Garðahverfi á Álftanesi. Deiliskipulagið sé í samræmi við gildandi aðalskipulag, en þar sé svæðinu lýst sem minja- og íbúðarsvæði. Við gerð deiliskipulagsins sé stefna aðalskipulagsins lögð til grundvallar og sérstök áhersla lögð á að stuðla að varðveislu menningar- og náttúruminja í Garðahverfi, sem og að gera það aðgengilegt til útivistar og náttúruskoðunar samhliða því að tryggja byggð á svæðinu.
   
Varðandi þær málsástæður kærenda að Garðabær hafi ekki haft heimild til að samþykkja skipulag svæðisins, þar sem slíkt fari í bága við eignarrétt þeirra til lands og gæða á svæðinu, megi vísa til áðurgreindra heimilda skipulagslaga um forræði og ábyrgð sveitarstjórna á gerð skipulags. Byggi það á þeirri meginreglu að sveitarfélög fari með skipulagsvald innan sinna marka, óháð eignarrétti til landsins í heild eða til einstakra hluta þess. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu kærenda um ógildingu.

Af skipulagsuppdrætti fyrir svæðið megi sjá að afmörkun þess taki til landsvæðis sem sé alfarið í eigu Garðabæjar, sbr. kaupsamning Garðabæjar og landbúnaðarráðuneytisins um jarðir á Garðaholti frá 28. júlí 1992.

Telji kærendur, á grundvelli óbeins eignarréttar sem Garðabær geri reyndar fyrirvara um að sé til staðar, að gengið sé á rétt þeirra eða hagsmuni með samþykki skipulagsins kunni að stofnast bótaréttur þeim til handa, enda geti þeir sýnt fram á tjón, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Slíkar aðstæður geti þó á engan hátt takmarkað rétt Garðabæjar til að samþykkja deiliskipulag fyrir afmarkað svæði innan marka sveitarfélagsins, sbr. 3. gr. skipulagslaga. Þá sé einnig ljóst að úrlausn um þann þátt málsins heyri ekki undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála heldur matsnefnd eignarnámsbóta eða dómstóla.

Í öllum atriðum hafi verið farið að lögum um málsmeðferð við undirbúning, kynningu og samþykki deiliskipulagsins.

——-

Kærendur hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags Garðahverfis á Álftanesi, en kærendur telja að með ákvörðun um samþykkt þess sé gengið á réttindi sem fylgi jörð þeirra, Selskarði. Sé þar um að ræða sandnámurétt, fjörurétt og rétt til búðarstæðis og uppsáturs.

Á þéttbýlisuppdrætti Aðalskipulags Garðabæjar 2004-2016 kemur fram að svæðið, sem nú hefur verið deiliskipulagt, sé minjasvæði/íbúðarsvæði og að litlum hluta blönduð byggð. Á uppdrættinum kemur einnig fram stofnstígur meðfram strandlínu deiliskipulagssvæðisins. Í kafla 1.5 í greinargerð aðalskipulags er fjallað um helstu skipulagsforsendur þess. Þar kemur fram að hið deiliskipulagða svæði tilheyri svokölluðu Vestursvæði. Um deiliskipulagða svæðið segir nánar að meðfram suðvesturströnd sé strjál byggð, sem rekja megi til smábýla sem reist hafi verið, meðal annars til að stunda róðra á Faxaflóa, og séu þar víða merki um byggð frá fyrri öldum. Gert sé ráð fyrir að þar verði tekið mið af minjasvæði, svæði Garðakirkju og kirkjugarðs, svo og skógarsvæði við hábungu holtsins, og ný byggð löguð að þessum þáttum. Við strönd að suðvestanverðu séu mörk byggðar dregin um 50 m frá bökkum, ofan við fjörur. Þá segir í kafla 2.1.2 um takmörkun á landnotkun að á suðurhluta Garðaholts séu merki um minjar frá fyrri öldum byggðar í Garðahverfi og muni fornleifar á svæðinu hafa áhrif á útfærslu skipulags og umfang byggðar og sé tekið tillit til þess í aðalskipulagsáætlun.

Hið kærða deiliskipulag felur í sér nánari útfærslu á því sem fram kemur í aðalskipulagi, en landnotkun er óbreytt. Eins og lýst er í aðalskipulagi er rótgróin byggð á svæðinu og í greinargerð hins umdeilda deiliskipulags er tekið fram að þar sé búið á 14 bæjum og séu íbúar um 20 talsins. Þar sé stundaður smábúskapur, bæði með sauðfé og hross. Fram kemur í greinargerðinni að megintilgangur deiliskipulagsins sé að festa í sessi framtíðarsýn fyrir Garðahverfi með því að setja skilmála fyrir mannvirkjagerð og verndun náttúru og búsetuminja á svæðinu. Áhersla er lögð á viðhald byggðar og minja, en einnig eru skilgreindar 11 bæjartorfur sem fyrir gildi almennir og sérstakir skilmálar. Endurnýjun og viðhald skal taka mið af upprunalegri mynd húsa og byggðar. Sama gildir um viðbyggingar og er heimilt að reisa þær við eldri íbúðarhús. Þá er gert ráð fyrir möguleika á tveimur nýjum íbúðarhúsum á hverri bæjartorfu, í þeim tilgangi að viðhalda og styrkja byggð á svæðinu. Við hvert nýtt íbúðarhús er heimilt að byggja einnar hæðar útihús. Nánari skilmálar gilda um nýbyggingar þessar og skilgreind er lóð og byggingarreitur fyrir hvert nýtt íbúðarhús, þ.m.t. útihús.

Verður ekki séð að sú útfærsla á byggð sem að framan er lýst geti snert umdeild óbein eignarréttindi kærenda umfram það sem þegar er orðið með gildistöku aðalskipulags og þeirri byggð sem risin er á grundvelli eldri heimilda. Er enda landnotkun óbreytt, eins og áður er lýst, auk þess sem ákvarðanir í deiliskipulagi fela ekki í sér ráðstöfun eignarréttinda, hvorki beinna né óbeinna. Skortir því á að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála gerir að skilyrði fyrir kæruaðild og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt er að benda á að samkvæmt 1. gr. fyrrnefndra laga nr. 130/2011 er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem lög kveða á um. Ágreiningur um eignarréttindi þau sem kærendur hafa vísað til verður því ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni, heldur heyrir hann undir dómstóla. Undir dómstóla heyra einnig eftir atvikum álitaefni um bótarétt vegna skipulagsákvarðana, sbr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en ekki undir úrskurðarnefndina.

Kærendur krefjast þess jafnframt að úrskurðarnefndin ákveði þeim endurgjald fyrir kostnaði vegna kæru í málinu. Lagaheimild skortir til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni. Verður að telja að það leiði m.a. af lögmætisreglu stjórnsýsluréttar að málskostnaður verði ekki ákvarðaður sé slík heimild ekki til staðar. Kemur krafa kærenda þar um því ekki til álita.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson
    

5/2016 Hlíðarendi í Vatnsmýri

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 23. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2016, kæra á samþykktum borgarstjórnar Reykjavíkur frá 2. desember 2014 og 17. febrúar 2015 um breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda í Vatnsmýri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra Flugfélag Íslands ehf. og Icelandair ehf. samþykktir borgarstjórnar Reykjavíkur frá 2. desember 2014 og 17. febrúar 2015 um breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda í Vatnsmýri. Tóku hinar kærðu deiliskipulagsbreytingar gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. janúar og 15. maí 2015. Gera kærendur þá kröfu að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Mýflug hf. fyrrgreinda deiliskipulagsbreytingu er tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. maí 2015 og gerir þá kröfu að umrætt deiliskipulag verði fellt úr gildi. Þar sem málatilbúnaður kærenda er á sömu lund verður greint kærumál, sem er nr. 7/2016, sameinað kærumáli þessu.

Málsatvik og rök:
Hinn 30. apríl 2014 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu að breytingum á deiliskipulagi Hlíðarenda í Vatnsmýri frá árinu 2007. Fól tillagan m.a. í sér aukningu á íbúðarhúsnæði og breytingu á fermetrafjölda atvinnuhúsnæðis á skipulagssvæðinu. Borgarstjórn staðfesti afgreiðslu ráðsins 16. júní 2014 og var skipulagstillagan síðan auglýst til kynningar og bárust nokkrar athugasemdir á kynningartíma, m.a. af hálfu kærenda. Urðu lyktir mála þær að breyting á deiliskipulagi Hlíðarenda var samþykkt í borgarstjórn 2. desember 2014 og tók gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 14. janúar 2015. Þá var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 28. janúar 2015 samþykkt að auglýsa breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda er lutu m.a. að skilgreiningum kvaða um útbyggingar, svalir og fjölda uppdeildra húseininga. Sú afgreiðsla var samþykkt í borgarstjórn 17. febrúar s.á. og var tillagan auglýst til kynningar. Engar athugasemdir bárust og að kynningu lokinni var málið tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 17. apríl 2015 og samþykkt á grundvelli viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar um embættisafgreiðslur skipulagsfulltrúa. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. maí 2015.

Kærendur vísa til þess að deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem gerði ráð fyrir að NA/SV flugbraut vallarins yrði lögð niður hafi fallið úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 58/2014. Deiliskipulag Hlíðarenda byggi á þeirri forsendu og séu m.a. hæðir húsa við það miðaðar. Óhjákvæmilegt sé að fella hið kærða deiliskipulag úr gildi sökum þess að greind forsenda skipulagsins væri brostin. Kærendur hafi mikla hagsmuni af því að flugstarfsemi á Reykjavíkurflugvelli haldi áfram í óbreyttri mynd og að ekki verði dregið úr notagildi flugvallarins með óafturkræfum hætti án þess að um það verði sátt með hagsmunaaðilum og framtíðarlausn sé fundin fyrir innanlandsflug á Íslandi. Umrædd flugbraut hafi nýst í neyðartilfellum, svo sem vegna sjúkraflugs, þegar aðrar flugbrautir vallarins hafi lokast.

Reykjavíkurborg fer fram á að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni sökum þess að eins mánaðar kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi verið liðinn þegar málið barst úrskurðarnefndinni. Málið verði því ekki borið undir nefndina samkvæmt tilvitnuðu ákvæði, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um kærufrest mála sem skotið verður til nefndarinnar. Er hann ákveðinn einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um viðkomandi ákvörðun nema lög þau sem kæranleg ákvörðun byggist á mæli fyrir um annan kærufrest. Þá er og tekið fram að ef um sé að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hinar kærðu ákvarðanir byggjast á skipulagslögum nr. 123/2010 og í lokamálslið 1. mgr. 42. gr. þeirra laga er mælt fyrir um að birta skuli auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og á það einnig við um breytingu á deiliskipulagi, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna. Í 52. gr. laganna kemur fram að um aðild, kærufrest og málsmeðferð kærumála samkvæmt þeim lögum fari eftir lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kærufrestur vegna hinna kærðu deiliskipulagsbreytinga byrjaði samkvæmt framansögðu að líða hinn 15. janúar 2015 annars vegar og 16. maí s.á. hins vegar, sbr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og lauk að liðnum mánuði frá greindum dagsetningum. Kærur í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni hinn 15. og 17. janúar 2016 eða um sjö og ellefu mánuðum eftir lok kærufrests.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Ógildingarkröfur í máli þessu eru fyrst og fremst reistar á þeirri málsástæðu að með úrskurði um ógildingu deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar sé brostin sú forsenda deiliskipulags Hlíðarenda að SA/NV flugbraut vallarins verði lögð niður. Er því um að ræða atvik sem ekki voru fyrir hendi er hinar kærðu ákvarðanir voru teknar og snerta ekki undirbúning og málsmeðferð þeirra ákvarðana. Breyttar eða brostnar forsendur gildandi deiliskipulags geta eftir atvikum leitt til viðbragða stjórnvalda sem hafa á hendi skipulagsvald á viðkomandi svæði og geta ákvarðanir af því tilefni eftir atvikum verið kæranlegar.
 
Af framangreindum ástæðum þykja undantekningaákvæði 1. og 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sem skýra ber þröngt, ekki eiga hér við og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 1. mgr. 28. gr. nefndra laga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir

16/2016 Vegamótastígur

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 30. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 16/2016, kæra á ákvörðun borgarstjórnar frá 17. nóvember 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.5 vegna lóðanna nr. 7 og nr. 9 við Vegamótastíg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er móttekið var 29. janúar 2016, kærir H, f.h. íbúa og eigenda Grettisgötu 3, 3a og 5 þá ákvörðun borgarstjórnar frá 17. nóvember 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.5 vegna lóða nr. 7 og nr. 9 við Vegamótastíg í Reykjavík. Erindi sama efnis frá sömu aðilum var móttekið hjá innanríkisráðuneytinu 10. febrúar 2016 og framsent úrskurðarnefndinni. Barst það nefndinni 18. s.m. Skilja verður málsskot kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg 10. mars 2016.

Málsatvik og rök: Árið 2002 var samþykkt deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.5 sem afmarkast af Laugavegi, Klapparstíg, Grettisgötu og Vegamótastíg. Gerði deiliskipulagið m.a. ráð fyrir því að fjarlægja mætti núverandi byggingu á lóðinni nr. 9 við Vegamótastíg, en nefnd lóð er á horni Grettisgötu og Vegamótastígs. Einnig yrði byggingarreitur lóðarinnar stækkaður og heimilt að reisa þar fjögurra hæða byggingu með inndreginni efstu hæð og kjallara. Á aðliggjandi lóð að Laugavegi 18b var gert ráð fyrir sambærilegum byggingarheimildum á nýjum byggingarreit syðst á lóðinni en að hús við Laugaveg væri óbreytt. Árið 2005 var samþykkt breyting á nefndu deiliskipulagi er fól m.a. í sér að síðargreindu lóðinni var skipt í tvær og önnur þeirra varð nr. 7 við Vegamótastíg. Árið 2008 tók gildi breytt deiliskipulag vegna lóðanna nr. 7 og nr. 9 við Vegamótastíg. Fól það í sér, samkvæmt greinargerð þess, að á lóðunum væri byggt nokkurn veginn í samræmi við fyrra deiliskipulag, en að gamall steinbær sem áður hafði staðið á lóðinni að Vegamótastíg nr. 7 yrði endurreistur á þaki nýbyggingar og einnig að gamla húsið á lóðinni við Vegamótastíg nr. 9 yrði flutt upp á þak.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 15. maí 2015 var lögð fram umsókn um leyfi til að breyta deiliskipulagi lóðanna að Vegamótastíg nr. 7 og nr. 9. Gerði tillagan ráð fyrir að á nefndum lóðum yrðu fimm hæða byggingar og yrði efsta hæð inndregin, sem og 1. hæð. Kjallari á einni hæð yrði undir húsunum. Einnig yrði hætt við að endurreisa gamla steinbæinn á þaki nýbyggingar og að færa gamla húsið á lóðinni að Vegamótastíg nr. 9 upp á þak. Málinu var vísað til umsagnar verkefnisstjóra og á fundi skipulagsfulltrúa 5. júní s.á. var því vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem á fundi 1. júlí s.á. samþykkti að auglýsa framlagða tillögu.  Samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu 9. s.m. Að lokinni auglýsingu var umsóknin lögð fram að nýju á embættisafgreiðslufundum skipulagsfulltrúa 4. og 18. september 2015 og samþykkt í tvígang að framlengja frest til athugasemda vegna beiðni kærenda þar um. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 25. september s.á. var erindinu vísað til umsagnar verkefnisstjóra og á fundi skipulagsfulltrúa 2. október s.á. var því vísað til umhverfis- og skipulagsráðs. Ráðið tók málið fyrir 21. s.m. og samþykkti meirihluti þess tillöguna með þeim breytingum er fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa. Samþykkti borgarstjórn tillöguna 17. nóvember 2015. Öðlaðist breytingin gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember s.á.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum telja kærendur að fimm hæða byggingar við Vegamótastíg muni raska verulega ásýnd svæðisins, enda séu húsin við Grettisgötu umtalsvert lægri. Sé ekki tekið mið af heildarsýn hverfisins í deiliskipulaginu. Fyrirhugaðar byggingar muni t.a.m. skerða útsýni og birtu, valda skuggamyndun og ýta undir sterka vindsveipa. Lífsgæði kærenda muni rýrna sem og virði eigna þeirra. Hætta sé á tjóni af framkvæmdunum, t.d. vegna sprengingar klappar. Gera megi ráð fyrir miklum hávaða og ónæði af fyrirhuguðum hótelrekstri í húsunum. Muni staðsetning og aðkoma að bílastæði/kjallara valda kærendum miklum óþægindum og ónæði. Kærendur hafi séð auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins nokkrum dögum áður en kæra barst úrskurðarnefndinni.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæra sé of seint fram komin með vísan til 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæra í máli þessu hafi borist úrskurðarnefndinni 29. janúar 2016. Frestur til að kæra hafi verið til 11. janúar 2016 og hafi hann því verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Beri þegar að þeirri ástæðu að vísa máli frá enda hafi engin rök verið færð fyrir því hvers vegna víkja ætti frá skýrum ákvæðum laga að þessu leyti.

Lóðarhafi nefndra lóða gerir kröfu um frávísun málsins með vísan til þess að lögbundinn kærufrestur hafi verið liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni. Þá uppfylli kæran ekki þau skilyrði sem sett séu í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður, nema á annan veg sé mælt í lögum. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu miðast upphaf frestsins við birtingu ákvörðunar. Kæra í máli þessu var móttekin hjá úrskurðarnefndinni 29. janúar 2016, eða rúmum mánuði eftir birtingu hinnar kærðu ákvörðunar, og var þá kærufrestur til nefndarinnar liðinn samkvæmt tilvitnuðu ákvæði. Ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________
Nanna Magnadóttir

103/2014 Hlaðvellir

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 17. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2014, kæra vegna aðkomu frá Hlaðavöllum inn á lóð Austurvegar 28, Selfossi, og vegna bílastæða þar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. september 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir R, persónulega og f.h. eigenda Reynivalla 6 og Hlaðavalla 5, 6, 8 og 10, Selfossi, sveitarfélagið Árborg m.a. fyrir að „… veita með athafnaleysi gistiheimilinu á Austurvegi 28 á Selfossi óleyfisheimild til að opna á lóð sinni 300 m2 bílaplan og innkeyrslu, hvort tveggja með aðkomu frá íbúðagötunni Hlaðavöllum, að húsinu að Austurvegi 28, til að þjónusta gisti¬heimilið sem þar er til húsa“.

Gögn málsins bárust frá Árborg 9. janúar 2015 og í febrúar og mars 2016.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að í fasteigninni við Austurveg 28 var áður rekið Sjúkrahús Suðurlands og síðar hjúkrunardeildin Ljósheimar, eða allt til ársins 2007. Hinn 10. febrúar 2010 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Árborgar aðaluppdrætti vegna breytinga á innra skipulagi og breyttrar notkunar fasteignarinnar að Austurvegi 28, auk lítilsháttar breytinga utanhúss, í þá veru að þar væri mögulegt að reka farfuglaheimili. Þar hefur síðan verið rekið slíkt heimili á grundvelli rekstrarleyfa útgefnum af Sýslumanninum á Selfossi. Rekstrar¬leyfi var fyrst gefið út á árinu 2010 vegna gististaðar í flokki III, þ.e. gististaðar með veitingum, þó ekki áfengisveitingum.

Sumarið 2010 voru fullgerð bílastæði á lóð farfuglaheimilisins, með aðkomu frá Hlaðavöllum. Þar munu áður hafa verið til staðar bílastæði, í minna mæli þó, sem íbúar við Hlaðavelli munu hafa haft afnot af samkvæmt óformlegu samkomulagi. Einn kærenda, fyrir hönd íbúa við Hlaðavelli, beindi fyrirspurn til byggingarfulltrúa með tölvupósti 13. júlí 2010. Var m.a. spurt hvort framkvæmdaleyfi hefði verið gefið út fyrir nefndum bílastæðum og hvernig skipulags-yfirvöld hygðust bregðast við þeim framkvæmdum hefði leyfi ekki verið gefið út vegna þeirra. Sami kærandi lýsti áhyggjum sínum vegna umfangs framkvæmdanna í tölvupósti til byggingarfulltrúa 19. s.m. og svaraði skipulags- og byggingarfulltrúi því til að embætti hans myndi kanna aðstæður á vettvangi sama dag. Fyrra erindinu svaraði síðan skipulags- og byggingarfulltrúi í tölvupósti 3. ágúst s.á. Tók hann fram að ekki hefði verið gefið út framkvæmdaleyfi og að til að byrja með yrði rætt við hlutaðeigandi aðila, líkt og ákveðið hefði verið á fundum.

Fundur mun hafa verið haldinn 19. ágúst 2010 með fulltrúum sveitarfélagsins og húseigendum við Hlaðavelli. Með bréfi, dags. 20. s.m., var farið fram á við skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar að hann, eða annað það embætti sveitarfélagsins er málið kynni að heyra undir, lokaði aðkomu frá Hlaðavöllum að Austurvegi 28 og bílastæðum á lóðinni. Sumarið 2012 áttu frekari samskipti sér stað milli kærenda og sveitarfélagsins vegna greindrar aðkomu og bílastæða. Mun m.a. hafa verið haldinn fundur þar um 24. júlí það ár og í kjölfarið var þess krafist með bréfi, dags. 14. ágúst 2012, stíluðu á framkvæmdastjóra sveitarfélagsins og skipulags- og byggingarfulltrúa, að sveitarfélagið gripi þegar til aðgerða til að koma í veg fyrir áfram¬haldandi aðkomu um Hlaðavelli að Austurvegi 28.

Með bréfi, dags. 12. mars 2013, var óskað eftir rökstuddum svörum við nánar tilgreindum spurningum varðandi hina umdeildu aðkomu og bílastæði Austurvegar 28. Var tekið fram í bréfinu að tæp þrjú ár væru frá því að íbúar við Hlaðavelli hefðu sent byggingarfulltrúa sína fyrstu kröfu um að greindri aðkomu yrði lokað. Þá væru liðnir nokkrir mánuðir frá því að íbúarnir hefðu sent beiðni um lokun aðkomunnar og fundur verið haldinn um það erindi í kjölfarið. Formlegt erindi með kröfum íbúa hefði verið sent og bæjarráð óskað eftir minnisblaði frá byggingarfulltrúa um málið. Loks var tekið fram að íbúar hefðu ekki orðið varir við hreyfingu á málinu síðan þá.

Sveitarfélagið leitaði álits lögmanns vegna aðkomu og umferðar um Hlaða¬velli að Austurvegi 28 og samþykkti bæjarráð á fundi sínum 27. júní 2013 að senda hagsmunaðilum minnisblað lögmannsins, dags. 7. s.m., og fól jafnframt byggingarfulltrúa að fara yfir aðgengismál. Hinn 23. júlí s.á. mótmæltu nánar tilgreindir íbúar við Hlaðavelli því bréflega að bréfi þeirra frá ágúst 2012 væri svarað tæpu ári síðar án þess að afstaða væri tekin til þeirra krafna sem þar hefðu verið settar fram. Jafnframt var ítrekuð sú krafa íbúanna að komið yrði þegar í stað í veg fyrir hina umdeildu aðkomu. Á fundi bæjarráðs 21. nóvember s.á. var framkvæmdastjóra sveitarfélagsins falið að svara greindu erindi íbúa við Hlaðavelli frá 23. júlí s.á. Í bréfi framkvæmdastjórans, dags. 27. nóvember s.á., er tekið fram að sveitarfélög geti ekki skert eignarréttindi aðila með ákvörðunum í deiliskipulagi nema greiða bætur fyrir þann skaða sem skerðing hafi í för með sér. Vegna þessa hefði sveitarfélagið ekki í hyggju að láta vinna tillögu að deiliskipulagi þar sem kveðið yrði á um bann við aðkomu frá Hlaðavöllum að lóð Austurvegar 28. Öðrum kröfum hefði verið svarað áður, þ.e. að ekki væri á valdsviði sveitarfélaga að staðfesta hvort réttindi hefðu skapast fyrir hefð, auk þess sem ekki hefði þurft að grenndarkynna starfsemi í húsnæði Austurvegar 28 sökum þess að skipulag svæðisins gerði ráð fyrir að starfsemi af því tagi gæti farið þar fram.

Með bréfi, dags. 29. júlí 2014, leituðu tveir kærenda að nýju til sveitarfélagsins og óskuðu eftir tilgreindum gögnum og upplýsingum. Í bréfinu kom m.a. fram að á fundi framkvæmdastjóra og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins með húseigendum við Hlaðavelli hinn 24. júlí 2012 hefðu íbúar spurt hvers vegna sveitarfélagið hefði ekki farið fram á að sótt væri um framkvæmdaleyfi vegna breyttrar aðkomu að Austurvegi 28. Svar sveitarfélagsins hefði verið á þann veg að ástæða þessa væri sú að einungis væri verið að gera upp bílastæði sem hefðu verið til staðar. Í bréfinu var óskað frekari upplýsinga um þau bílastæði sem fyrir hefðu verið og óskað eftir afriti af framkvæmdaleyfi fyrir þeim. Ef ekki hefði verið fyrir þeim framkvæmdarleyfi var spurt hvort ekki hefði þurft framkvæmdaleyfi fyrir þeim breytingum sem mál þetta snýst um. Auk þessa var óskað eftir rökstuðningi ef svar sveitarfélagins yrði á þá leið að ekki hefði þurft framkvæmdaleyfi.

Rekstraraðili sótti um nýtt rekstrarleyfi 14. maí 2014, leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, gististað án veitinga. Gaf sýslumaður út rekstrarleyfi 2. september s.á. að fenginni jákvæðri umsögn skipulags- og byggingarnefndar Árborgar.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að brotið hafi verið á rétti íbúa við Hlaðavelli vorið 2010 þegar sveitarfélagið samþykkti fyrir sitt leyti að veitt yrði rekstrarleyfi fyrir gistiheimili, án þess að erindið væri grenndarkynnt gagnvart nágrönnum, en baklóðin snúi að nefndri götu. Mat bæjaryfirvalda hafi verið að það væri óveruleg breyting á notkun hússins að breyta því úr lítilli langlegudeild fyrir aldraða í gistiheimili með leyfi fyrir 63 næturgestum. Annað hafi komið í ljós. Grenndarkynning á leyfi til rekstrar gistiheimilisins hefði m.a. getað komið í veg fyrir þau mistök að gistiheimilið fengi leyfi til rekstursins svo til án bílastæða.

Nokkrum sinnum hafi verið sótt um leyfi til vínveitinga og leyfi til að leigja út sali til samkomuhalds í miðju íbúðarhverfinu. Það hafi kostað íbúa hverfisins harða baráttu að hrinda ásóknum á íbúðarbyggðina.

Þá hafi embætti skipulags- og byggingarfulltrúa vantalið þau bílastæði sem til staðar hafi verið fyrir Austurveg 28, þegar sveitarfélagið samþykkti rekstrarleyfið vorið 2010. Hafi rekstraraðilar því ákveðið að gera 300 m² bílaplan á baklóð fasteignarinnar, 22×10 m bílastæði og samhliða því 8 m breiða innkeyrslu frá Hlaðavöllum. Þeim framkvæmdum hafi verið lokið sumarið 2010 og þannig hafi öll 30 m suðurhlið lóðarinnar opnast út á Hlaðavelli. Sú ráðstöfun hafi breytt íbúðargötunni í þjónustugötu.
   
Gestir, starfsfólk og aðrir njóti aðkomu frá Hlaðavöllum. Húseigendur við Hlaðavelli, sem keypt hafi húseignir við rólega íbúðargötu, eigi nú allt í einu heima við þjónustutorg fyrir gistiheimili. Fyrir íbúa Hlaðavalla snúist óheimil yfirtaka Hlaðavalla um stöðugt áreiti af ýmsum toga og á öllum tímum sólarhringsins, gífurlega aukningu og eðlisbreytingu umferðar, missi götunnar sem íbúðargötu og að auki hafi u.þ.b. sex bílastæði tapast. Gatan sé lítil og afar þröng botngata. Hvert farartæki sem fari inn götuna verði að fara sömu leið til baka. Ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir bílastæðinu á baklóð Austurvegar 28 og hafi sveitarfélaginu borið að stöðva þær framkvæmdir strax í upphafi.

Málsrök sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að allt frá árinu 2010 hafi kærendur sent sveitarfélaginu erindi vegna rekstrarins að Austurvegi 28, sem og vegna útgáfu rekstrarleyfa og umferðar um Hlaðavelli að Austurvegi 28. Kærendum hafi verið bent á að sýslumaður fari með útgáfu rekstarleyfa og að sveitarfélagið fari ekki með ákvörðunarvald í þeim efnum þrátt fyrir að gefin sé umsögn um afgreiðslutíma og veittar séu upplýsingar um það hvort staðsetning sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagins kveði á um, sbr. 24. gr. reglugerðar nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Sveitarfélagið geti ekki einhliða ákveðið að loka aðkomu frá Hlaðavöllum að lóðinni Austurvegi 28 nema með deiliskipulagi, en slíkt skipulag sé ekki til staðar fyrir Hlaðavelli. Sveitarfélagið hafi ekki í hyggju að gera deiliskipulag sem innihaldi skilmála sem kunni að leiða til þess að sveitarfélagið verði skaðabótaskylt gagnvart eiganda Austurvegs 28, sbr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Þótt ekki sé að fullu ljóst hvers sé krafist fyrir úrskurðarnefndinni af hálfu kærenda virðist kröfugerðin annars vegar snúa að því að sveitarfélaginu verði gert að loka aðkomu að Austurvegi 28 frá Hlaðavöllum og hins vegar að viðurkennt verði að sveitarfélagið hafi brotið gegn ákvæðum laga þegar jákvæð umsögn hafi verið gefin til sýslumanns vegna umsóknar rekstraraðila gistiheimilisins. Ekki verði séð að úrskurðarnefndin hafi heimild til þess að kveða á um skyldu sveitarfélags til athafna af því tagi sem greinir í kröfugerð kærenda. Þá virðist ekki vera nein nákvæm tilgreining á því hvaða ákvæði laga eða reglugerða sveitar¬félagið eigi að hafa brotið þegar jákvæð umsögn var gefin sýslumanni.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 25. september 2014 og er í þremur liðum. Tveir þeirra snúa að starfsemi gististaðar að Austurvegi 28, Selfossi, en skipulags- og byggingarfulltrúi veitti leyfi 10. febrúar 2010 fyrir breyttri notkun fasteignarinnar svo þar mætti reka slíkan stað. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar er löngu liðinn. Þá eru rekstrarleyfi vegna nefndrar starfsemi gefin út af sýslumanninum á Selfossi að fenginni umsögn sveitarfélagsins. Rekstrar¬leyfi útgefin af sýslumanni eru ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, heldur eftir atvikum til viðeigandi ráðuneytis. Lögbundnar umsagnir sveitarfélaga eru liður í málsmeðferð við útgáfu slíkra leyfa og fela því ekki í sér neina þá ákvörðun sem bindur enda á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því ekki fjallað frekar um þessar kröfur kærenda.

Lóðin Austurvegur 28 liggur milli Austurvegar og Hlaðavalla á ódeiliskipulögðu svæði. Í húsakynnum á lóðinni er rekið farfuglaheimili, en samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er um að ræða fjóra matshluta, sem byggðir voru á árunum 1935, 1959 og 1966. Matshlutarnir eru sambyggðir og ná yfir lóðina þvera. Lýtur þriðji liður kærunnar að aðkomu að lóðinni frá Hlaðavöllum, en kærendur eiga aðkomu að sínum húsum frá þeirri götu. Kæruefnið snýr jafnframt að innkeyrslu og bílaplani tengdu aðkomunni. Framkvæmdum vegna greindrar aðkomuleiðar, innkeyrslu og bílastæða var lokið á árinu 2010 og hafa ýmis samskipti átt sér stað vegna þeirra milli kærenda og sveitarfélagsins, svo sem nánar greinir í málavaxtalýsingu. Frekari samskipti hafa einnig átt sér stað um sama deiluefni vegna umsagna sveitarfélagsins í tilefni af útgáfu rekstrarleyfa, sem og vegna gerðar aðalskipulags, en þau samskipti verða ekki rakin frekar hér.
   
Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur m.a. fram að hlutverk nefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum á þessu sviði. Frá gildistöku nefndra laga 1. janúar 2012 hefur nefndin verið til þess bær að úrskurða m.a. í málum varðandi leyfisskyldu framkvæmda, þvingunar¬úrræði byggingarfulltrúa og deiliskipulagsgerð, en fyrir þann tíma tók úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarlaga slík mál til úrlausnar.
   
Eins og nánar greinir í málavaxtalýsingu var athygli skipulags- og byggingarfulltrúa vakin á þeim framkvæmdum sem deilt er um í máli þessu, og mögulegri leyfisskyldu þeirra, þegar sumarið 2010. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá sveitarfélaginu fór skipulags- og byggingarfulltrúi á vettvang og skoðaði framkvæmdirnar. Var það mat hans að þær væru ekki leyfisskyldar, en sveitarfélagið hefur upplýst að formleg staðfesting á þeirri afstöðu hans liggi ekki fyrir og að hún hafi ekki verið tilkynnt íbúum við Hlaðavelli með formlegum hætti. Með bréfum kærenda, dags. 20. ágúst 2010 og 14. ágúst 2012, var m.a. skorað á skipulags- og byggingarfulltrúa að koma í veg fyrir aðkomu að Austurvegi 28 um Hlaðavelli, en hann er valdbær til þess að taka ákvörðun um leyfisskyldu framkvæmda og eftir atvikum um þvingunarúrræði sem beita skuli vegna þeirra. Það er meginregla stjórnsýsluréttar að hver sá sem beri skriflegt erindi undir stjórnvald eigi rétt á skriflegu svari við því. Bar skipulags- og byggingarfulltrúa því ótvíræð skylda til þess að svara kærendum með skriflegum hætti um hvort hann hygðist beita valdheimildum sínum til að verða við kröfum þeirra um lokun aðkomu að Austurvegi 28 um Hlaðavelli. Það verður hins vegar ekki litið fram hjá því að samkvæmt gögnum málsins hafa verið haldnir fundir með íbúum Hlaðavalla þar sem sú afstaða sveitarfélagsins hefur komið fram, m.a. af hálfu skipulags- og byggingarfulltrúa, að ekki verði komið í veg fyrir nefnda aðkomu nema þá eftir atvikum með gerð deiliskipulags. Verður við það að miða, eins og atvikum er hér háttað, að kærendum hafi verið það ljóst, í síðasta lagi á fundi með m.a. skipulags- og byggingarfulltrúa 24. júlí 2012, að hann hygðist ekki beita valdheimildum sínum í því skyni og jafnframt að hann teldi framkvæmdirnar ekki leyfis¬skyldar. Kæra í máli þessu barst meira en ári síðar eða 25. september 2014 og verður því ekki frekar um þennan hluta kærunnar fjallað, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þá skal tekið fram að þrátt fyrir að vafi um leyfisskyldu framkvæmda verði borinn undir úrskurðarnefndina er einungis gert ráð fyrir því að það sé gert í tengslum við framkvæmdir sem eru fyrirhugaðar eða hafnar, eða í beinu og eðlilegu framhaldi af þeim. Kemur því ekki til álita að taka til úrlausnar leyfisskyldu framkvæmda sem fyrir löngu er lokið, sér í lagi þegar afstaða skipulags- og byggingarfulltrúa þar um hefur jafnframt legið fyrir um langt skeið.

Vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags en í því eru teknar ákvarðanir um skipulagsforsendur innan sveitarfélagsins, m.a. lóðir og aðkomu að þeim, sbr. nánari ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 þar um. Í bréfi framkvæmdastjóra sveitarfélagsins frá 27. nóvember 2013 kom fram að sveitarfélagið hygði ekki á deiliskipulagsgerð til að loka aðkomu þeirri sem hér er um deilt. Með hliðsjón af forsögu málsins, og í ljósi þess að samskipti vegna hinnar umdeildu aðkomu höfðu áður átt sér stað með margvíslegum hætti og af ýmsu tilefni, verður að líta svo á að um hafi verið að ræða upplýsingagjöf og skýringar til kærenda um afstöðu sveitarfélagsins í tilefni af margítrekuðum erindum þeirra vegna nefndrar aðkomu. Í bréfinu fólst hins vegar ekki nein sú ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til alls þess sem rakið hefur verið verður ekki hjá því komist að vísa frá úrskurðarnefndinni þeim kröfum kærenda sem lúta að framangreindum atriðum.

Eins og nánar er rakið í málavöxtum beindu tveir kærenda erindi til sveitarfélagsins með bréfi, dags. 29. júlí 2014, þar sem leitað var eftir nánar tilgreindum gögnum og upplýsingum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá sveitarfélaginu mun erindinu ekki hafa verið svarað formlega, en sveitarfélagið vísar til þess að kærendur hafi þegar haft undir höndum öll þau gögn og upplýsingar sem óskað hafi verið eftir. Svo sem áður er rakið hafa margvísleg samskipti átt sér stað milli kærenda og sveitarfélagsins. Þess sér þó ekki stað í gögnum málsins að kærendur hafi fengið upplýsingar um það hvort framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út vegna bílastæða þeirra sem til staðar voru áður en hinar umdeildu framkvæmdir hófust. Óskað var eftir þessum upplýsingum í áðurgreindu erindi sem og rökstuðningi fyrir afstöðu sveitarfélagins. Verður því að líta svo á að nefndu erindi sé enn ósvarað, en eins og áður hefur verið rakið ber sveitarfélaginu að svara slíku erindi skriflega í samræmi við áðurnefndar meginreglur stjórnsýsluréttar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

13/2016 Fiskeldi

Með

Árið 2016, þriðjudaginn 8. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar um að verða ekki við kröfu um að hafna frummatsskýrslu vegna eldis á allt að 19.000 tonnum af laxi og regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra Geiteyri ehf. og Akurholt ehf., eigendur Haffjarðarár í Hnappadal, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar sem fram kemur í bréfum hennar 16. desember 2015 og 12. janúar 2016 að verða ekki við kröfu um að hafna frummatsskýrslu vegna eldis á allt að 19.000 tonnum af laxi og regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði. Er þess aðallega krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara að málsmeðferð Skipulagsstofnunar frá og með 20. október 2015 verði ógilt.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 9. febrúar 2016.

Málavextir: Skipulagsstofnun barst 12. október 2015 frummatsskýrsla Dýrfisks hf. og Fjarðalax ehf. vegna mats á umhverfisáhrifum eldis á allt að 19.000 tonnum af laxi og regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði. Skýrslan var lögð fram til kynningar með fresti til athugasemda til 2. desember s.á.

Með bréfi, dags. 1. desember 2015, komu kærendur athugasemdum við frummatsskýrsluna á framfæri við Skipulagsstofnun. Jafnframt var farið fram á að frummatsskýrslunni yrði hafnað. Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 16. s.m., var því lýst að svo sem lög gerðu ráð fyrir hefði stofnunin komið athugasemdunum á framfæri við framkvæmdaraðila sem myndi taka afstöðu til þeirra í matsskýrslu sem send yrði til stofnunarinnar. Væri stofnuninni skylt að fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á nefndum athugasemdum, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000. Jafnframt að ekki væri ljóst að svo stöddu hvort eða hvaða áhrif athugasemdirnar myndu hafa á matsskýrslu framkvæmdaraðila og álit Skipulagsstofnunar, en ekki væri loku fyrir það skotið að þær myndu endurspeglast í þeim skilyrðum og/eða mótvægisaðgerðum sem stofnunin kynni að setja, sbr. 2. mgr. 11. gr., sem og í mati hennar á áhrifum eldisins á umhverfið.

Með tölvubréfi 30. desember 2015 fóru kærendur fram á að Skipulagsstofnun legði mat á frummatsskýrslu þá sem um ræddi, að teknu tilliti til fram kominna athugasemda. Einnig beindu þeir tilmælum til stofnunarinnar um að leitað yrði umsagnar Veiðimálastofnunar, Landssambands veiðifélaga og umhverfisverndarsamtaka eins og Náttúruverndarsamtaka Íslands og Landverndar. Þá óskuðu kærendur þess að stofnunin staðfesti að hún myndi verða við kröfu þeirra um höfnun frummatsskýrslunnar. Skipulagsstofnun svaraði kærendum með bréfi, dags. 12. janúar 2016, þar sem tekið var fram að stofnunin hefði í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 lagt mat á það hvort að frummatsskýrslan uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru í 9. gr. laganna og væri í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr. Það hefði verið mat stofnunarinnar að ekki væru forsendur til að hafna því að taka skýrsluna til athugunar, enda hefðu umrædd lagaskilyrði verið uppfyllt. Jafnframt upplýsti stofnunin að umsagnar Veiðimálastofnunar hefði verið leitað og að Landssamband veiðifélaga hefði gert athugasemdir við frummatsskýrsluna. Þá tók stofnunin fram að hún teldi ekki tilefni til að leita umsagnar Náttúruverndarsamtaka Íslands og Landverndar en benti á að samtök þessi, sem og önnur slík á sviði umhverfis- og náttúruverndar, ættu þess kost að gera athugasemdir við framlagða frummatsskýrslu. Loks ítrekaði stofnunin það sem fram hefði komið í bréfi hennar frá 16. desember 2015 að hún myndi ekki verða við kröfu kærenda um að hafna frummatsskýrslunni.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að í niðurstöðu Skipulagsstofnunar, þar sem fjallað var um kröfu þeirra um að hafna frummatsskýrslu, hafi falist ákvörðun sem telja verði kæranlega samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála eins og þau verði skýrð með hliðsjón af ákvæðum Árósasamningsins, sbr. einkum 2. mgr. 9. gr., og af ákvæðum tilskipunar 2011/92/ESB, sbr. 1. mgr. 11. gr. Úrskurðarnefndin sé hin óháða og óhlutdræga stofnun sem komið hafi verið á fót hér á landi og hagsmunaaðilar geti skotið málum sínum til í þeim tilgangi að „vefengja efnislegt lögmæti ákvarðana eða málsmeðferðina við töku þeirra, aðgerðir eða aðgerðarleysi sem falla undir ákvæðin um þátttöku almennings samkvæmt þessari tilskipun“ eins og fram komi í lokaákvæði nefndrar 1. mgr. 11. gr. Framkvæmd sú er um ræði sæti mati á umhverfisáhrifum og það séu ekki aðeins endanlegar ákvarðanir sem verði vefengdar heldur einnig málsmeðferð við töku ákvarðana, aðgerðir eða aðgerðarleysi. Tilvitnaðar lagaheimildir hafi þann tilgang að tryggja víðtækan aðgang almennings að réttlátri og virkri málsmeðferð í umhverfismálum. Í því felist m.a. að í umhverfismálum njóti aðilar jafnréttis á við framkvæmdaraðila (e. „equality of arms“). Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 hefði framkvæmdaraðili getað kært til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun Skipulagsstofnunar um að hafna frummatsskýrslu. Með sama hætti sé það réttur hagsmunaaðila að eiga færi á að kæra þá ákvörðun eða úrlausn stofnunarinnar um að hafna ekki frummatsskýrslu eða taka kröfu þar að lútandi ekki til meðferðar.

Hvað varði varakröfu kærenda sé bent á að Skipulagsstofnun hafi 20. október 2015 ritað framkvæmdaaðila bréf, þar sem fram hafi komið að „athugun“ hennar verði auglýst, og komi sá skilningur fram í bréfi stofnunarinnar til kærenda hinn 16. desember 2015 að meðferð frummatsskýrslunnar hafi þar verið lokið. Á þeim tíma hafi stofnuninni ekki verið heimilt að ljúka meðferð skýrslunnar, enda hafi hún ekki framkvæmt mat á henni skv. lögum nr. 106/2000.

Fjölmargar og alvarlegar athugasemdir hafi borist við frummatsskýrsluna. Verði ekki betur séð en að Veiðimálastofnun telji þar um að ræða falsanir og rangfærslur á tilvitnunum í vísindagögn, auk rangra staðhæfinga. Burðarþolsmat liggi ekki fyrir og engin grein sé gerð fyrir hættu vegna lúsafárs, sjúkdómasmits og erfðamengunar, auk þess sem lítt sé fjallað um magn úrgangs. Fiskistofa telji mikið skorta á grunnþekkingu á lífríki ferskvatna á Vestfjörðum og nauðsynlegt sé að skýra það áður en meiri uppbygging verði í fiskeldi þar. Möguleikinn á því að erfðablöndun verði og geti valdið tjóni sé raunverulegur. Sé því mikilvægt að leggja mat á hættuna og afleiðingar af erfðablöndun við villta stofna en áhrifin ekki afgreidd sem „óveruleg og afturkræf“, eins og gert sé í frummatsskýrslu. Landssamband veiðifélaga geri margar alvarlegar athugasemdir við frummatsskýrsluna og bendi m.a. á rangar fullyrðingar. Alvarlegar athugasemdir hafi einnig komið frá NASF, verndarsjóði villtra laxastofna, sem og Veiðifélagi Laxár á Ásum. Hins vegar veki umsagnir Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar furðu  og þurfi þær að kynna sér betur varúðarreglu náttúruverndarlaga, markmiðsákvæði 1. gr. laga um fiskeldi, sem og álit Veiðimálastofnunar um sjókvíaeldi með norskum erfðabreyttum laxastofni.

Augljóst sé að Skipulagsstofnun hafi ekki rannsakað málið sérstaklega og með sjálfstæðum og víðfeðmum hætti með tilliti til allra þeirra atriða sem máli skipti.

Málsrök Skipulagsstofnunar:
Skipulagsstofnun telur að kæru þessari eigi að vísa frá. Stofnunin bendir á að í 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé fjallað um það hvaða ákvarðanir hennar séu kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar. Burtséð frá því hvort hin kærða ákvörðun teljist stjórnvaldsákvörðun sé í 1. mgr. 14. gr. ekki minnst á að hún sé kæranleg til nefndarinnar. Í 3. mgr. sömu greinar segi að framkvæmdaraðili geti kært til nefndarinnar ákvörðun stofnunarinnar samkvæmt 1. mgr. 10. gr. um að frummatsskýrsla uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu í 9. gr. eða sé ekki í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr. Samkvæmt þessari málsgrein hafi löggjafinn ákveðið að ákvörðun um höfnun á frummatsskýrslu sé kæranleg til nefndarinnar. Samkvæmt orðanna hljóðan sé ákvörðun stofnunarinnar um að hafna ekki frummatsskýrslunni hins vegar ekki kæranleg til nefndarinnar. Þá komi ekki fram í umræddri 14. gr. að unnt sé að kæra málsmeðferð Skipulagsstofnunar frá ákveðnum tíma eins og varakrafa kærenda gangi út á.

Vegna tilvísunar kærenda til EES-réttar bendi Skipulagsstofnun á að skýringarreglu 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið hafi verið lýst í dómum Hæstaréttar. Í dómum réttarins í málum nr. 79/2010 og nr. 92/2013 hafi eftirfarandi komið fram: „Í 3. gr. laga nr. 2/1993 er mælt svo fyrir að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur, sem á honum byggja. Slík lögskýring tekur eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo framast er unnt gefin merking, sem rúmast innan þeirra og næst kemst því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu, en hún getur á hinn bóginn ekki leitt til þess að litið verði fram hjá orðum íslenskra laga.“ Ákvæði 14. gr. laga nr. 106/2000 um málskot til úrskurðarnefndarinnar séu skýr. Með tilliti til þess og greindra dóma sé úrskurðarnefndin bundin af 1. og 3. mgr. lagagreinarinnar. Atbeina löggjafans þurfi til að breyta lagagreininni, sé hún í ósamræmi við Árósasamninginn og EES-rétt.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Fjarðalax ehf. telur að kröfum kærenda beri skilyrðislaust að hafna. Í fyrsta lagi sé Skipulagsstofnun ekki heimilt samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum að hafna því að taka frummatsskýrslu til athugunar að kröfu þriðja aðila. Niðurstaða stofnunarinnar þar um geti einungis byggst á sjálfstæðu mati og veiti lög kærendum enga aðild að mati Skipulagsstofnunar skv. 1. mgr. 10. gr. laganna. Kærendur eigi því ekki lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun um þetta atriði, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Í öðru lagi eigi kærendur ekki málsskotsrétt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Leiði það annars vegar af eðli máls þar sem krafa kærenda á hendur Skipulagsstofnun eigi sér ekki stoð í lögum nr. 106/2000, svo sem að framan sé rakið. Hins vegar leiði það af því að í 14. gr. nefndra laga séu athafnir og ákvarðanir stjórnvalda sem sæti málskoti tæmandi taldar. Árósasamningurinn veiti aðildarríkjum talsvert svigrúm um innleiðingu meginreglna samningsins. Sú staðreynd að ekki hafi verið gerð breyting á 3. mgr. nefndrar 14. gr. um hverjir eigi málsskotsrétt á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. staðfesti að löggjafinn hafi metið réttindi almennings nægjanlega trygg með öðrum hætti.

Í þriðja lagi sé kærufrestur liðinn og í fjórða lagi sé ekki fótur fyrir því að Skipulagsstofnun hafi ekki framkvæmt mat á því hvort skilyrði væru til að taka frummatsskýrsluna til athugunar, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000. Ekkert hafi komið fram í málinu sem styðji að mat hafi ekki verið framkvæmt við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun eða að málsmeðferð hafi verið áfátt að þessu leyti. Í fimmta lagi sé ákvæði 2. málsl. 1. mgr. nefndrar 10. gr. heimildarákvæði. Skipulagsstofnun hafi heimild til að hafna því að taka frummatsskýrslu til athugunar en sé það ekki fortakslaust skylt, jafnvel þótt stofnunin telji skýrsluna háða einhverjum annmörkum. Stofnunin hafi þannig ríkt svigrúm til að taka frummatsskýrslu til kynningar í samræmi við 2. mgr. 10. gr. framangreindra laga.

Loks sé áréttað að sú málsmeðferð Skipulagsstofnunar að kynna frummatsskýrslu lögum samkvæmt hafi ekki nokkur áhrif á hagsmuni kærenda, beint eða óbeint, enda hafi þeir átt þess kost eins og aðrir að gera athugasemdir við skýrsluna, sem þeir og hafi gert.

——

Dýrfiski hf., sem einnig er framkvæmdaraðili, var einnig gefinn kostur á að tjá sig um fram komna kæru en athugasemdir bárust ekki innan tilskilins frests.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er gerð grein fyrir markmiðum þeirra. Eiga þau að tryggja að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd sem kann, vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Jafnframt er það markmið laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar, að stuðla að samvinnu aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða, sem og að kynna umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir vegna framkvæmda fyrir almenningi og gefa honum kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Til að ná þessum markmiðum mæla lögin fyrir um ákveðna málsmeðferð, sem framkvæmdir háðar mati á umhverfisáhrifum fara í gegnum. Gefinn er kostur á að koma að athugasemdum í því ferli og eftir atvikum veitt heimild til kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 14. gr. áðurnefndra laga.

Þannig skal framkvæmdaraðili gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar og kynna hana umsagnaraðilum og almenningi, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga 106/2000. Stofnunin skal svo taka ákvörðun um tillöguna, að fenginni umsögn leyfisveitenda og eftir atvikum annarra aðila, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Fallist stofnunin á tillögu að matsáætlun með athugasemdum eða synji hún tillögunni getur framkvæmdaraðili kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eftir því sem segir í 14. gr. nefndra laga. Að lokinni málsmeðferð skv. áðurnefndri 8. gr. vinnur framkvæmdaraðili frummatsskýrslu á grundvelli samþykktrar matsáætlunar, sbr. 9. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. skal Skipulagsstofnun meta hvort slík skýrsla uppfylli kröfur 9. gr. og sé í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr., en sé svo ekki er stofnuninni heimilt að hafna því að taka skýrsluna til athugunar. Framkvæmdaraðili hefur einnig heimild í 14. gr. sömu laga til að kæra þá ákvörðun. Frummatsskýrslan er kynnt samkvæmt nánari ákvæðum þar um í 10. gr. og er öllum heimilt að gera athugasemdir við hana, sbr. 4. mgr. lagagreinarinnar. Þá leitar Skipulagsstofnun umsagna skv. 5. mgr. ákvæðisins. Stofnunin skal svo skv. 6. mgr. 10. gr. senda framkvæmdaraðila umsagnir og athugasemdir og skal framkvæmdaraðili gera grein fyrir þeim og taka afstöðu til þeirra í matsskýrslu sem hann vinnur á grundvelli frummatsskýrslu. Að ferli þessu loknu skal Skipulagsstofnun gefa rökstutt álit sitt á matsskýrslunni, sbr. 11. gr. sömu laga. Auk framangreindra ákvarðana eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar skv. 6. gr., skv. 2. mgr. 5. gr. sem og skv. 12. gr. laganna kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar, sbr. áðurgreinda 14. gr.

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að neyta ekki heimildar þeirrar sem hún hefur í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 að hafna því að taka frummatsskýrslu til athugunar. Eins og áður greinir gæti framkvæmdaraðili kært slíka synjun til úrskurðarnefndarinnar, en aðra kæruheimild vegna ákvarðana samkvæmt þessari grein er ekki að finna í 14. gr. laganna.

Ísland hefur tekið á herðar sér ákveðnar skuldbindingar með aðild sinni að Árósasamningnum um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Þar á meðal eru skuldbindingar er varða aðgang að réttlátri málsmeðferð. Samhliða tillögu til þingsályktunar um fullgildingu nefnds samnings, og til að standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt honum, hlutu meðferð Alþingis frumvörp sem síðan urðu að lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sem og lögum nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Eins og áður hefur verið rakið er kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar að finna í 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, en þau lög sættu breytingum með áðurnefndum lögum nr. 131/2011. Löggjafinn hefur því tekið afstöðu til þess með lögum hvernig uppfylla skuli samningsskyldur Íslands skv. Árósasamningnum, þ. á m. hvaða ágreiningur verði borinn undir úrskurðarnefndina. Annar ágreiningur, svo sem sá sem mál þetta snýst um, sem kann að rísa um framkvæmd laga nr. 106/2000 og ekki er tilgreindur í 14. gr. þeirra laga, sætir samkvæmt framangreindu og orðanna hljóðan þá ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar, enda er ekki mælt fyrir um það í lögum, eins og fyrrnefnd 1. gr. laga nr. 130/2011 áskilur.

Með vísan til framangreinds verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

82/2015 Kjalvegur

Með
Árið 2016, þriðjudaginn 8. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 82/2015, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 21. ágúst 2015 um að breytingar á Kjalvegi skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. september 2015, er barst nefndinni 28. s.m., kærir Ó, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 21. ágúst 2015 að breytingar á Kjalvegi, á um þriggja km kafla norðan Hvítár, skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 29. október 2015.

Málavextir: Kærandi sendi Skipulagsstofnun fyrirspurn í tölvubréfi 13. nóvember 2014 er laut að mati á umhverfisáhrifum vegagerðar á Kili. Honum var svarað sama dag og hann upplýstur um að fyrirspurn sama efnis hefði borist skömmu áður og að unnið væri að öflun upplýsinga. Sama dag sendi stofnunin erindi til Bláskógabyggðar þar sem óskað var upplýsinga um leyfi vegna framkvæmda á Kjalvegi allt frá árinu 2006. Kærandi sendi tölvubréf á ný til Skipulagsstofnunar 2. apríl 2015, vísaði til óformlegrar fyrirspurnar sinnar og spurði hvort niðurstaða lægi fyrir. Í svarpósti Skipulagsstofnunar 10. s.m. kom fram að stofnunin hefði fengið upplýsingar frá sveitarfélaginu en að fyrirhugað væri að leita frekari skýringa hjá Vegagerðinni.

Í kjölfar nokkurra samskipta Skipulagsstofnunar og Vegagerðarinnar var fyrrnefndri stofnuninni send tilkynning, dags. 3. júlí 2015, frá hinni síðarnefndu um fyrirhugaðar framkvæmdir skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Var um að ræða breytingar á Kjalvegi á þriggja km kafla, norðan Hvítár, að Árbúðum. Kom fram í meðfylgjandi greinargerð að gert væri ráð fyrir að vegarkaflinn myndi fylgja núverandi vegi á rúmlega eins km kafla en á um tveggja km kafla yrði hann lagður utan núverandi vegstæðis. Gert væri ráð fyrir að vegurinn yrði sex metra breiður og nokkuð byggður upp, eða um 0,5-0,7 m yfir aðliggjandi landi, en fyllingar kynnu að verða hærri á sumum köflum. Var og tekið fram að framkvæmdin raskaði náttúruverndarsvæði sem skilgreint væri í svæðisskipulagi miðhálendisins.

Skipulagsstofnun leitaði álits Bláskógabyggðar, Ferðamálastofu, forsætisráðuneytis, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Minjastofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar áður en tekin var ákvörðun um matsskyldu. Með ákvörðun sinni 21. ágúst 2015 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi í tvígang beint fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um matsskyldu vegagerðar á Kili, sbr. 8. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hafi hann þar með orðið aðili að máli því sem lokið hafi með hinni kærðu ákvörðun stofnunarinnar. Um aðild sína vísi hann einnig til dóms Hæstaréttar í máli nr. 231/2002, þar sem fjallað sé um hvaða aðilar teljist hafa lögvarða hagsmuni í ómerkingarmálum um mat á umhverfisáhrifum.

Vegagerðin hafi unnið að endurbyggingu Kjalvegar á síðustu tveimur áratugum. Þannig hafi um 45 km kafli verið endurbyggður í áföngum og sé þar með talinn þriggja km kafli vegarins sem hin kærða ákvörðun lúti að. Kærandi taki undir það með Skipulagsstofnun að huga hefði átt að málsmeðferð skv. lögum nr. 106/2000 þegar endurbygging Kjalvegar hafi hafist fyrir um 20 árum, enda sé um að ræða vegagerð sem sé 10 km eða lengri og lúti framkvæmdin því nefndum lögum. Það að hluti framkvæmdar hafi farið fram án viðeigandi málsmeðferðar réttlæti ekki að matsskylduákvörðun sé ekki tekin þar um. Lagðir hafi verið a.m.k. 20 km á undanförnum árum án þess að málsmeðferð samkvæmt greindum lögum hafi farið fram auk þess sem um 15 km hafi verið lagðir fram til ársins 2007, einnig án slíkrar málsmeðferðar. Þannig væri unnt að leggja heilu hálendisleiðirnar án þess að nokkurn tíma kæmi til mats á umhverfisáhrifum þeirra svo framarlega sem það væri gert í óleyfi og smábútar framkvæmdarinnar síðan tilkynntir. Slíkt fari augljóslega í bága við meginreglur og tilgang laganna og stríði gegn alþjóðlegum skuldbindingum um þátttöku almennings í ákvörðunum um umhverfismál.

Afdráttarlaust sé að umhverfisáhrif vegagerðar á Kili skuli meta skv. 5. gr. laga nr. 106/2000, enda sé ávallt skylt að meta vegagerð sem sé 10 km eða lengri. Framkvæmdaraðila sé ekki heimilt að búta framkvæmdir niður í nokkurra kílómetra búta og líta á hvern þeirra sem sjálfstæða framkvæmd. Skipulagsstofnun hafi borið að taka ákvörðun um matsskyldu með hliðsjón af þeirri endurbyggingu vegarins sem staðið hafi yfir undanfarin ár. Stofnuninni hafi við ákvörðunartöku sína jafnframt borið að líta til samfélagsins sem hluta af umhverfinu en á það sé ekki minnst í hinni kærðu ákvörðun. Sé það í ósamræmi við i-lið 3. gr. laganna. Þá sé það ágalli á hinni kærðu ákvörðun að þar sé ekki fjallað um þau umhverfisáhrif sem muni stafa af þeirri starfsemi er fylgja muni uppbyggingu vegarins. Umfjöllun Skipulagsstofnunar sé ekki í samræmi við m-lið 3. gr. laganna og hafi henni borið að fjalla um þá breytingu á eðli umferðar og þeirrar starfsemi sem óhjákvæmilega hljótist af uppbyggðum vegi á samfélag og atvinnu, m.a. ferðaþjónustu á hálendinu.

Vísað sé til þágildandi 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um að framkvæma skuli mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar ef líklegt sé að þau verði veruleg vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar hennar. Víðernin á hálendi Íslands séu eðli málsins samkvæmt það svæði þar sem framkvæmdir hafi nánast alltaf í för með sér veruleg umhverfisáhrif. Yfirstandandi framkvæmd sé í næsta nágrenni við, og sé beinlínis leiðin inn í, náttúruverndarsvæðið og ferðamannastaðinn Kerlingafjöll. Loks sé umfang framkvæmdarinnar þannig að þrátt fyrir að litið yrði á hana sem skemmri en 10 km þá væri ótækt annað en að líta þannig á að hún gæti haft í för með sér veruleg umhverfisáhrif. Skipulagsstofnun hafi borið að líta til þess að framkvæmdin sé inni í miðju miðhálendi Íslands og hafi henni einnig borið að líta til sammögnunaráhrifa vegagerðarinnar með fyrirhugaðri hótelbyggingu í Kerlingafjöllum, sem hafi verið til meðferðar hjá stofnuninni á sama tíma. Loks sé gerð athugasemd við að Skipulagsstofnun hafi ekki leitað eftir umsögnum samtaka almennings er hafi umhverfisvernd á hálendi Íslands á stefnuskrá sinni, sbr. 3. mgr. 6. gr. fyrrgreindra laga.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að málinu beri að vísa frá þar sem kærandi eigi ekki þeirra hagsmuna að gæta sem skapi honum kærurétt, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kærandi eigi ekki beinna einstaklingsbundinna og verulegra hagsmuna að gæta í skilningi stjórnsýsluréttar. Hann eigi lögheimili eða búsetu fjarri framkvæmdum þeim sem um sé deilt. Fyrirspurnir kæranda til stofnunarinnar skapi honum ekki aðild að máli því sem lokið hafi með hinni kærðu ákvörðun heldur þurfi meira til, þ.e. að hann eigi lögvarða hagsmuni af málinu í samræmi við almennrar reglur stjórnsýsluréttar og áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Ákvæði 8. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 feli aðeins í sér að almenningi og framkvæmdaraðila sé heimilt að bera fram fyrirspurn til stofnunarinnar, en slíkt stjórnsýslufyrirkomulag leiði ekki sjálfkrafa til aðildar í stjórnsýslumáli.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 231/2002 hafi ekki fordæmisgildi. Aðalkrafa Náttúruverndarsamtaka Íslands og þriggja einstaklinga hafi verið að úrskurði umhverfisráðherra yrði hnekkt og að honum yrði gert að staðfesta úrskurð Skipulagsstofnunar. Í dóminum komi fram að um aðild að því dómsmáli fari eftir almennum reglum, þar á meðal þeirri grunnreglu að dómstólar leysi ekki úr sakarefni nema sýnt sé að það skipti að lögum máli fyrir stöðu stefnanda að fá dóm um það. Verði því ekki fallist á að heimild sóknaraðila til að eiga aðild að dómsmáli um kröfuna geti verið rýmri en leiði af almennum reglum af þeim sökum einum að þeir hafi átt aðild að undanfarandi málsmeðferð stjórnvalda. Að því er varði varakröfu þess efnis að úrskurður ráðherra yrði ómerktur segi Hæstiréttur að sá sem aðild hafi átt að máli fyrir stjórnvaldi njóti almennt réttar til að bera undir dómstóla hvort farið hafi verið að lögum við meðferð og úrlausn. Ljóst sé að þarna hafi reynt á álitaefni um aðild að dómsmáli en ekki aðild að stjórnsýslumáli. Bendi Skipulagsstofnun á að lagaumhverfi hafi verið með öðrum hætti þegar dómur féll en þá hafi hver sem er, óháð því hvort hann hefði lögvarinna hagsmuna að gæta eða ekki, haft heimild til að kæra úrskurð Skipulagsstofnunar til ráðherra, sbr. þágildandi 4. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000. Kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sé hins vegar bundin við það að kæruaðili máls þurfi að hafa „lögvarða hagsmuni“, að undanskildum umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum með minnst 30 félaga.
   
Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sæta m.a. ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er tekið fram í ákvæðinu að um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varði kæruna fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina, en þau eru nr. 130/2011. Í 3. mgr. 4. gr. þeirra laga segir að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi. Sú undantekning er þó gerð að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geti m.a. kært ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lúti að.

Kærandi hefur um aðild sína vísað til þess að hann hafi beint fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um matsskyldu þeirrar framkvæmdar sem stofnunin tók síðan hina kærðu ákvörðun um. Heldur kærandi því fram að fyrir þær sakir hafi hann öðlast aðild að því stjórnsýslumáli og þar með eigi hann kæruaðild fyrir úrskurðarnefndinni. Löggjafinn hefur með margvíslegum sérlögum tryggt almenningi leiðir til þess að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um úrlausn mála, sérstaklega þegar þau snerta umhverfið. Getur þá hver sem er komið að máli án þess að eiga að því aðild. Slíkt ákvæði er t.a.m. að finna í 8. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, en þar segir að öllum skuli heimilt að bera fram fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um hvort tiltekin framkvæmd falli í flokk B eða flokk C í 1. viðauka við nefnd lög og skuli stofnunin þá leita upplýsinga um framkvæmdina hjá framkvæmdaraðila og leyfisveitanda og taka ákvörðun um hvort hún eigi undir grein þessa. Ljóst er af orðalagi ákvæðisins að hver sem er getur borið fram slíka fyrirspurn án þess að eiga af því nokkra hagsmuni. Þá er og ljóst að slík fyrirspurn getur leitt til þess að Skipulagsstofnun taki ákvörðun um matsskyldu að fengnum þeim upplýsingum sem mælt er fyrir um í ákvæðinu. Hins vegar skapar almenn heimild til að bera fram fyrirspurn þeim sem hana ber fram hvorki aðild að því máli né að kærumáli vegna matsskylduákvörðunar verði hún tekin. Vísar enda áðurnefnd 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, sbr. kæruheimild 14. gr. laga nr. 106/2000, til lögvarinna hagsmuna þess sem að kæru stendur.

Við meðferð Alþingis á frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 var horfið frá því fyrirkomulagi að allir gætu, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, kært þær ákvarðanir sem taldar eru í þremur stafliðum í 3. mgr. 4. gr. laganna. Kærandi í máli þessu er einstaklingur og er kæruaðild hans því bundin við lögvarða hagsmuni hans, sbr. það sem áður hefur verið rakið. Til að meta hvort kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu verður að líta til almennra reglna stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, en þær áskilja að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Kærandi er landeigandi, en land hans liggur fjarri hinni fyrirhuguðu framkvæmd. Þá verður ekki séð að hann eigi neinna annarra hagsmuna að gæta sem leitt geta til kæruaðildar í skilningi nefndrar lagagreinar. 

Með vísan til alls framangreinds verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              ____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

57/2014 Garðastræti

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 3. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2014, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 14. maí 2014 um að breyta deiliskipulagi Grjótaþorps vegna sameiningar lóðanna nr. 17 og 17a við Garðastræti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júlí 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Mjóstræti 6, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 14. maí 2014 að breyta deiliskipulagi Grjótaþorps vegna sameiningar lóðanna nr. 17 og 17a við Garðastræti. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að Reykjavíkurborg sé óheimilt að gera frekari breytingar er lúta að Garðastræti 17a á grundvelli ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. september 2013.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. ágúst 2014.

Málavextir: Samkvæmt deiliskipulagi Grjótaþorps frá árinu 2002 var heimilt að sameina lóðirnar nr. 6 við Mjóstræti og nr. 17a við Garðastræti. Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur 7. júní 2006 var sameining fyrrgreindra lóða samþykkt að kröfu eigenda Mjóstrætis 6. Garðastræti 17a er baklóð lóðanna Mjóstrætis 6 og Garðastrætis 17.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 11. september 2013 var samþykkt, í samræmi við greinargerð byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 14. desember 2012, og umsögn borgarlögmanns frá 19. mars 2013, að lóðarmörk lóðarinnar að Garðastræti 17 yrðu færð í það horf sem lóðin hefði verið í við samþykkt byggingarleyfa fyrir bygginguna sem á lóðinni standi, en fyrsta leyfið var frá 27. júní 1931. Í fundargerð þess fundar kemur fram að austurmörk lóðarinnar Garðastrætis 17 fylgi landfræðilegum hæðarskilum við lóðarmörk Mjóstrætis 6, en samkvæmt þeirri afmörkun hafi lóðin verið nýtt og skráð alla tíð síðan og gjöld verið af henni greidd. Til samræmis við þetta var samþykkt að gildandi deiliskipulagi yrði breytt vegna lóðarinnar nr. 17 við Garðastræti ásamt því að lóðin nr. 17a yrði aflögð. Sú afgreiðsla var samþykkt á fundi borgarráðs 12. september 2013.

Hinn 31. janúar 2014 var á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa lögð fram tillaga að breytingu deiliskipulags Grjótaþorps, sem fólst í því að sameina lóðirnar nr. 17 og 17a við Garðastræti í eina lóð í samræmi við fyrrgreinda samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. september 2013. Með því var fallið frá þeirri sameiningu sem gert hafði verið ráð fyrir árið 2002. Samþykkt var að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaraðilum að Garðastræti 15 og 17 og Mjóstræti 4 og 6. Tillagan var grenndarkynnt frá 7. febrúar til 7. mars 2014 og bárust athugasemdir frá eigendum fasteignarinnar að Mjóstræti 6.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 14. maí 2014 var breytingartillagan lögð fram ásamt umsögn um fram komnar athugasemdir. Tillagan var samþykkt með vísan til framangreindrar umsagnar þar sem fram kemur m.a. að með breytingunni sé verið að framfylgja ákvörðun borgarráðs frá 12. september 2013. Breytingin var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní 2014 og með bréfi, dags. 6. s.m., var tillagan send Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 14. október 2015 var lögð fram tilkynning úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um kæru í máli þessu. Var eftirfarandi bókað: „ Með vísan til úrskurða Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málunum nr. 1/2014, 37/2014 og 51/2014, þar sem kærum var vísað frá á grundvelli þess að viðaukar við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp Borgarstjórnar hafi ekki verið í gildi á þeim tíma þegar þau voru afgreidd í Umhverfis- og skipulagsráði og málin því ekki hlotið endanlega afgreiðslu sveitarstjórnar, er samþykkt Umhverfis- og skipulagsráðs á breytingu deiliskipulags vísað til staðfestingar borgarráðs.“ Var deiliskipulagsbreytingin samþykkt á fundi borgarráðs 29. október 2015.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að sú breyting sem gerð hafi verið með hinni kærðu ákvörðun sé til þess fallin að breiða yfir ítrekuð mistök Reykjavíkurborgar við veitingu byggingarleyfa til handa eigendum Garðastrætis 17 á kostnað eigenda Mjóstrætis 6. Árið 2009 hafi lögfræðingur Reykjavíkurborgar bent á að eigendur Mjóstrætis 6 hafi lagt fram eignarheimildir vegna lóðarinnar nr. 17a við Garðastræti sem eigendur Garðastrætis 17 hafi hins vegar ekki gert. Þá hafi lögfræðingar borgarinnar ásamt byggingarfulltrúa lagst gegn því að fyrrgreindar lóðir nr. 17 og 17a yrðu sameinaðar meðan einkaréttarlegur ágreiningur hafi ekki verið leystur fyrir dómstólum. Það sé ekki á valdi opinberra aðila að skerða eignarréttindi með færslu lóðamarka nema um það náist samningur eða með eignarnámi samkvæmt sérstakri lagaheimild. Hin kærða ákvörðun sé ekki byggð á traustum grunni og málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotnar, einkum rannsóknarreglan, jafnræðisreglan, meðalhófsreglan og reglur um rökstuðning, sbr. 10., 11., 12. og 21. gr. laganna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfu kæranda verði hafnað. Þegar tillaga að deiliskipulagi fyrir Grjótaþorp hafi verið kynnt árið 2002 hafi lóðamörk Garðastrætis 17 og Mjóstrætis 6 verið sýnd við hæðarskil lóðanna í samræmi við uppdrætti landmælingadeildar Reykjavíkur. Athugasemdir eigenda Mjóstrætis 6 hafi orðið til þess að lóðin nr. 17a hafi verið færð inn á skipulagsuppdrátt án þess að fyrir lægju upplýsingar um tilvist hennar í þinglýsingar- eða fasteignaskrá. Þá hafi ekki verið lokið við að formgera samþykkt frá árinu 2006 um sameiningu Mjóstrætis 6 og Garðastrætis 17a. Eftir að eigendur Garðastrætis 17 hafi andmælt þeirri sameiningu hafi byggingarfulltrúi talið að aðeins yrði heimilað að sameina lóðina Garðastræti 17a við Garðastræti 17 með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum. Borgarlögmaður hafi lýst sig sammála þeirri tillögu byggingarfulltrúa. Hafi málsmeðferð við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu verið í samræmi við ákvæði 2. mgr. 43. gr., sbr. 44. gr., skipulagslaga nr. 123/2010. Því sé mótmælt að við málsmeðferð hafi verið brotið gegn skráðum meginreglum stjórnsýsluréttar.

Athugasemdir húsfélagsins Garðastræti 17: Bent er á að samkvæmt dagbók mælingamanns frá árinu 1922 hafi lóðin Garðastræti 17 orðið til við sameiningu tveggja lóða. Þær hafi legið samhliða og náð frá Garðastræti að bakmörkum Mjóstrætis 6. Þar komi jafnframt fram að austurmörk lóðar Garðastrætis 17 takmarkist af hlöðnum og steinlímdum palli eða mannhæðarháum kampi, sem greinilega sjáist enn. Hafi eigendur Garðastrætis 17 greitt afgjöld af þessari eignarlóð allar götur síðan. Reykjavíkurborg hafi talið þetta eðlileg lóðamörk milli Garðastrætis 17 og Mjóstrætis 6 ef undan sé skilin vanhugsaður tímabundinn tilbúningur á sérstakri lóð sem kölluð hafi verið Garðastræti 17a.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Grjótaþorps frá árinu 2002, en umdeild breyting tekur einungis til sameiningar lóðanna nr. 17 og 17a við Garðastræti.

Úrskurðarnefndin hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt því tekur úrskurðarnefndin til úrlausnar lögmæti ákvarðana stjórnvalda sem kæranlegar eru til nefndarinnar, en það er utan valdsviðs hennar að taka stjórnvaldsákvarðanir á viðkomandi lagasviðum. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að úrskurðað verði að Reykjavíkurborg sé óheimilt að gera frekari breytingar er lúta að Garðastræti 17a.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags og er heimild til framsals þess valds undantekning frá þeirri meginreglu. Heimild 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 til valdframsals innan sveitarfélaga er almenns eðlis, en í 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn veitt sérstök heimild til framsals valds síns samkvæmt þeim lögum. Er ljóst af orðalagi ákvæðanna að valdframsal þetta fer fram með sérstakri samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélaga, en kveðið er á um slíkar samþykktir í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga.

Sú ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. maí 2014 að samþykkja umrædda deiliskipulagsbreytingu byggði á 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var af borgarstjórn 18. desember 2012. Í henni er vísað til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Samþykkt þess efnis nr. 715/2013 var staðfest af innanríkisráðherra 8. júlí 2013 og öðlaðist hún gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 25. s.m. Í VI. kafla samþykktarinnar er fjallað um fastanefndir, ráð og stjórnir, aðrar en borgarráð. Í 58. gr. hennar er kveðið á um fullnaðarafgreiðslu og er orðalag greinarinnar áþekkt orðalagi 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Segir nánar í 1. mgr. 58. gr. að borgarstjórn geti ákveðið, með viðauka við samþykktina, að fela nefnd, ráði eða stjórn á vegum Reykjavíkurborgar fullnaðarafgreiðslu mála með sömu skilyrðum og sé að finna í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Slíkur viðauki við samþykktina um valdframsal til umhverfis- og skipulagsráðs til töku skipulagsákvarðana hafði ekki verið samþykktur og birtur þegar hin kærða deiliskipulagsbreyting var afgreidd í ráðinu 14. maí 2014.

Samkvæmt framansögðu brast umhverfis- og skipulagsráð vald til að taka til lokaafgreiðslu umþrætta deiliskipulagsbreytingu og verður að líta svo á að í samþykkt hennar hafi falist tillaga til sveitarstjórnar til afgreiðslu málsins, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga.

Þegar auglýsing um gildistöku deiliskipulagstillögunnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní 2014 hafði sveitarstjórn ekki samþykkt fyrrgreinda tillögu í samræmi við 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Það var fyrst á fundi borgarráðs hinn 29. október 2015 að umrædd deiliskipulagsbreyting hlaut staðfestingu borgarráðs. Deiliskipulagsbreytingin var hvorki send Skipulagsstofnun til yfirferðar né birt í B-deild Stjórnartíðinda í kjölfar þeirrar afgreiðslu, svo sem áskilið er í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Verður ekki talið viðhlítandi í þessu sambandi að styðjast við auglýsingu um gildistöku skipulagsbreytingarinnar, sem birt var 2. júní 2014, eða um 17 mánuðum áður en ákvörðunin lá fyrir. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Framangreind ákvörðun borgarráðs hefur ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda en slík auglýsing er skilyrði gildistöku hennar og markar jafnframt upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er lögboðinni meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og af þeim sökum verður kærumáli þessu vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

107/2013 Kópavogsbakki

Með
Árið 2016, föstudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir, forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. september 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kópavogstúns vegna lóðanna nr. 2 og 4 við Kópavogsbakka.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. nóvember 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Kópavogsbakka 3, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. september 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kópavogstúns vegna lóðanna nr. 2 og 4 við Kópavogsbakka. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 19. september 2014.

Málsatvik og rök: Mál þetta á sér nokkra forsögu en deiliskipulag fyrir Kópavogstún er frá árinu 2005. Samkvæmt því var heimilt að reisa einnar hæðar einbýlishús á lóðum með jöfn númer 2-10 neðan götu við Kópavogsbakka. Máttu húsin vera allt að 230 m² að grunnflatarmáli en hús ofan götu, nr. 1-15, stök númer, allt að 175 m². Tekið var fram í greinargerð með skipulaginu að ekki væri heimilt að hafa kjallara. Breyting var gerð á deiliskipulaginu árið 2006 sem fólst í því að gatan var færð um 2 m til suðurs og lóðir ofan götu stækkaðar sem því nam. Þá var byggingarreitur þeirra stækkaður í 187 m². Lóðir neðan götu hliðruðust um 2 m og lengdust um 4 m til suðurs auk þess sem þær voru breikkaðar.  Byggingarreitir húsa neðan götu stækkuðu. Hámarksgrunnflötur húss nr. 2 varð 307 m² og hámarksgrunnflötur húsa nr. 4-10 varð 271 m². Landhalli er nokkur á svæðinu og eru húsin nr. 2 og 4 við Kópavogsbakka byggð á sökklum, en þar er hæðarmunur innan lóðar mestur neðan götu. Önnur hús neðan götunnar eru byggð á jarðvegspúða. Árið 2007 fékk fyrrum eigandi Kópavogsbakka 2 leyfi til að hafa „óuppfyllt ónotað“ rými í sökkli hússins og árið 2008 fengu eigendur Kópavogsbakka 4 leyfi til að nýta gluggalaust rými undir húsi sínu. Ágreiningur varð um frágang á lóðamörkum Kópavogsbakka 4 og 6, en samkomulag varð þar um með lóðarhöfum framangreindra lóða árið 2011.

Árið 2011 sótti eigandi Kópavogsbakka 2 um leyfi til að nýta áðurnefnt rými í sökkli hússins, en við þá breytingu yrði heildarflatarmál þess 465 m². Í kjölfarið var gerð tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna Kópavogsbakka 2 og 4 þar sem gert var ráð fyrir að húsin yrðu með kjallara. Var nefndri tillögu hafnað á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 24. maí 2011. Eigandi Kópavogsbakka 2 kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem felldi synjunina úr gildi með úrskurði uppkveðnum 6. maí 2013.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 27. maí 2013 var lagður fram fyrrgreindur úrskurður úrskurðarnefndarinnar ásamt tillögu að deiliskipulagsbreytingu vegna Kópavogsbakka 2 og 4. Samþykkti nefndin að auglýsa tillöguna og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 11. júní 2013. Samkvæmt tillögunni var heimilt að nýta sökkulrými undir einbýlishúsum á umræddum lóðum fyrir geymslur og íveruherbergi og að heildarflatarmál hússins nr. 2 yrði 465 m² og hússins nr. 4 yrði 445 m². Athugasemdir bárust, m.a. frá kærendum, á auglýsingatíma tillögunnar. Hinn 27. ágúst 2013 var tillagan lögð fram að nýju á fundi skipulagsnefndar sem samþykkti hana ásamt fyrirliggjandi greinargerð skipulags- og byggingardeildar, dags. 23. s.m., þar sem m.a. var tekin afstaða til athugasemda kærenda. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu nefndarinnar 10. september 2013 og var deiliskipulagsbreytingin síðan send Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar sem gerði ekki athugasemd við birtingu hennar. Öðlaðist breytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. október s.á.

Kærendur benda á að skipulags- og byggingaryfirvöld hafi ítrekað misfarið með vald sitt til hagsbóta fyrir tvo húseigendur við Kópavogsbakka, sem ítrekað hafi farið freklega gegn gildandi skipulagi. Ómaklega og með íþyngjandi hætti hafi verið brotið gegn umtalsverðum hagsmunum annarra húseigenda við fyrrnefnda götu.
 
Góð sátt hafi náðst um það skipulag sem til hafi orðið við færslu götunnar og stækkunar lóða á árinu 2006. Þá hafi lóðin að Kópavogsbakka 2 verið stækkuð úr 626 m² í 724 m² án athugasemda nágranna. Jafnframt hafi allar þær smávægilegu breytingar sem einstakir lóðarhafar hafi fengið í gegn verið gerðar í góðri sátt við nágranna sem fengin hafi verið áður en farið hafi verið í framkvæmdir hverju sinni. Lóðahafar í nýjum hverfum, sem hafi keypt lóðir á verulega háu verði, hljóti að ætlast til þess að skipulagsyfirvöld hlutist til um að gera breytingar á samþykktu skipulagi í a.m.k. einhverri sátt við meginþorra lóðarhafa. Í þessu máli hafi skipulags- og byggingaryfirvöld hins vegar haft í fyrirrúmi hagsmuni þeirra sem ekki hafi farið að leikreglum skipulagsmála á kostnað þeirra sem fari að þeim reglum í hvívetna.

Mál þetta eigi sér langa forsögu og varði kæra þessi alla málsmeðferð skipulagsyfirvalda í Kópavogi frá upphafi til enda. Vegna ónákvæmrar meðferðar á grenndarkynningum málsins á fyrri stigum hafi ítarlegar athugasemdir annarra íbúa götunnar ekki komist fyllilega til skila í þeim kærumálum sem úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi haft til meðferðar á árunum 2011, 2012 og 2013. Heimild til að nýta kjallara undir norður hluta hússins að Kópavogsbakka nr. 15 undir eitt herbergi, þvottahús og snyrtingu geti ekki talist sambærileg eða verið fordæmi fyrir fyrirætlunum húseigenda að Kópavogsbakka 2. Aldrei verði hægt að breyta rýminu að Kópavogsbakka 15 í sjálfstæða íbúð eða nýta með verulega breyttum hætti. Þriggja metra hæðarmunur á plötu og lóð að Kópavogsbakka 2, sem haldið sé fram að sé við suðurhlið Kópavogsbakka 2, sé litlu meiri en gert hafi verið ráð fyrir í upphaflegu skipulagi götunnar, en þá skyldu hús vera á einni hæð með jarðvegspúða. Lítið sem ekkert hafi breyst í þessu efni við færslu götunnar.

Verðmat húsnæðis miðist við meðal fermetraverð við fyrri sölur í nágrenni þess. Stóru húsin að Kópavogsbakka 2 og 4 muni lækka meðalfermetraverðið í götunni og þar með verðmæti annarra húsa þar. Eftir ærinn tilkostnað hljóti fólk að hafa þær væntingar til samþykkts skipulags að því verði ekki breytt verulega með íþyngjandi hætti, m.a. til að klóra yfir margendurtekin mistök skipulagsyfirvalda.

Vandræði við frágang lóðarinnar nr. 6 við Kópavogsbakka hafi eingöngu komið til vegna framkvæmda við Kópavogsbakka nr. 4 sem hafi verið í andstöðu við samþykkt skipulag. Þá beri nokkuð á því að bílum sé lagt í götuna við áðurnefnt hús nr. 2 svo nálægt gatnamótum að beygja inn í götuna verði það þröng að hætta sé á óhappi, sér í lagi í hálku. Þannig hafi áhrif frá umferð verið veruleg við mikla fjölgun íbúa í nefndu húsi.

Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til þess að málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi eigandi Kópavogsbakka 2 sótt um byggingarleyfi með umsókn, dags. 11. október 2013, sem hafi verið samþykkt af byggingarfulltrúa hinn 22. s.m. Það sé mat Kópavogsbæjar að hin kærða breyting á deiliskipulagi og afgreiðsla byggingarleyfis hafi verið lögmæt.

——-

Kærendur hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi fyrir Kópavogstún sem felur í sér að í stað einnar hæðar einbýlishúsa af gerðinni E2 að Kópavogsbakka nr. 2 og 4 megi á lóðunum standa húsagerð E3, sem er einbýlishús á einni hæð með kjallara. Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti stækkar lóðin nr. 2 við nefnda götu til vesturs úr 724 m² í 777 m² sem veldur því að legu sameiginlegra bílastæða við Urðarbraut er breytt, en fjöldi þeirra er hins vegar óbreyttur. Stendur einbýlishús kærenda handan götu við Kópavogsbakka gegnt fyrrgreindum lóðum.

Byggingarreitum lóðanna að Kópavogsbakka 2 og 4 er ekki breytt með umdeildri skipulagsbreytingu og ekki er hróflað við notkun, fjölda íbúða eða ytra byrði húsa. Verður því ekki um að ræða aukin grenndaráhrif vegna skuggavarps eða skerðingar á útsýni. Í máli þessu er eingöngu til skoðunar lögmæti hinnar kærðu breytingar á deiliskipulagi, en ekki tekin afstaða til eldri ákvarðana um skipulag umrædds svæðis.

Þegar litið er til þess sem að framan er rakið verður ekki séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting raski einstaklingsbundnum lögvörðum hagsmunum kærenda þótt með henni sé heimiluð nýting rýmis í sökkli áðurnefndra húsa, sem hefur verið til staðar frá byggingu þeirra. Skortir því á að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála gerir að skilyrði fyrir kæruaðild og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að álitaefni um bótarétt vegna skipulagsákvarðana á ekki undir úrskurðarnefndina, sbr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, heldur eftir atvikum undir dómstóla.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Aðalheiður Jóhannsdóttir   

64/2013 Hverfisgata

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 28. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2013, kæra á synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 11. júní 2013 á umsókn um leyfi til að rífa anddyri og skúr, byggja nýtt anddyri og viðbyggingu og hækka portveggi og ris á húsinu að Hverfisgötu 23 í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2013, er móttekið var sama dag, kæra eigendur, Hverfisgötu 23, Hafnarfirði, þá ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar frá 11. júní 2013 að synja umsókn um leyfi til að rífa anddyri og skúr aftan við húsið að Hverfisgötu 23, reisa anddyri og viðbyggingu, sem og að hækka portveggi og ris umrædds húss. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að veitt verði leyfi til framkvæmda í samræmi við erindi kærenda.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 8. ágúst 2013 og á árinu 2015.

Málavextir: Árið 2001 festu kærendur kaup á fasteigninni að Hverfisgötu 23 í Hafnarfirði. Um er að ræða bárujárnsklætt timburhús sem er hæð og portbyggt ris, byggt ofan á steinsteyptan kjallara. Húsið var reist árið 1920 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Það er 119,7 m² að stærð, en þar af mun rishæð vera 13,4 m² og skúr/geymsla á baklóð 12,1 m². Hinn 24. apríl 2013 var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn kærenda um leyfi til að rífa anddyri og skúr aftan við húsið, reisa nýtt anddyri og viðbyggingu og hækka portveggi og ris. Var erindinu vísað til skipulags- og byggingarráðs, er tók það fyrir á fundi 30. s.m. og frestaði afgreiðslu þess. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi ráðsins 14. maí s.á. og eftirfarandi fært til bókar: „Á hluta Hverfisgötu er skilgreind hverfisvernd í deiliskipulagi og telur ráðið að fara þurfi varlega í breytingar á húsum sem liggja að götu einnig á þeim svæðum sem ekki eru þegar hluti af deiliskipulögðu svæði. Af þeim sökum er óskað eftir frekari kynningu á tillögunni á næsta fundi. Jafnframt er starfsmönnum Skipulags- og byggingarsviðs falið að taka saman upplýsingar um stækkun nærliggjandi húsa miðað við upphaflega stærð.“ Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 28. maí 2013 kynnti arkitekt kærenda nefnt erindi en afgreiðslu málsins var frestað til næsta fundar.

Hinn 11. júní 2013 var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Meirihluti skipulags- og byggingarráðs, fulltrúar Samfylkingar og Vinstri Grænna, hafna erindinu eins og það liggur fyrir þar sem stækkun er vel umfram þau almennu viðmið og markmið sem sett eru um stækkun og breytingar á húsum í eldri byggð í Hafnarfirði og er þá m.a. vísað í stefnumótun um húsvernd frá 2002 og deiliskipulagsskilmála fyrir Suðurbæinn, Miðbær-Hraun (2011 skilmálar fyrir eldri byggð), Hverfisgata-Austurgata milli Mjósunds og Gunnarssunds (2011) Suðurgata-Hamarsbraut (2011) ofl. Þá felur tillagan í sér talsverða útlitsbreytingu sem hefur áhrif á götumynd, sem felst m.a. í hækkun húss um 90 cm og gerð kvists við götu. Hins vegar má útfæra stækkun húss baka til í lóðina í samræmi við það sem gert hefur verið víða í húsum sem standa við Hverfisgötu, sé þess gætt að hlutföll og götumynd breytist ekki nema að óverulegu leyti og að hlutfall stækkunar sé í samræmi við meginmarkmið þau sem fram koma í stefnumótun um húsverndun frá 2002, en Hverfisgata 23 [er] á því svæði sem í skýrslunni er tekið fram að njóta skyldi mestrar verndar í skipulagi bæjarins.“ Færði minnihluti ráðsins til bókar að fyrirhugaðar breytingar væru í góðu samræmi við nærliggjandi byggð og féllu vel inn í götumynd. Hefðu þær fengið jákvæða umsögn frá fagaðilum og væru til þess fallnar að auka lífsgæði íbúa. Þá var talið að synjun væri byggð á huglægu mati og að ekki væri farið eftir ráðum sérfróðra aðila.

Kærendum var tilkynnt um greinda afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 19. júní 2013.

Málsrök kærenda: Kærendur telja málsmeðferð skipulags- og byggingarráðs ólögmæta. Hún brjóti gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og sé í ósamræmi við góða og vandaða stjórnsýsluhætti.

Ekki sé í gildi deiliskipulag á því svæði sem fasteignin standi á. Í þeim tilvikum verði að haga breytingum til samræmis við eignir í nágrenninu. Til að tryggja að svo yrði hefði verið leitað til arkitekts sem teiknað hafi breytingar á fjölda fasteigna í nágrenninu, m.a. sambærilega breytingu að Smyrlahrauni 5. Hafi kærendur lagt fram gögn til að sýna fram á að umræddar breytingar væru í góðu samræmi við umhverfið. Þar komi m.a. fram að meðalstærð fasteigna á umræddu svæði sé 207,3 m² og meðalhæð mænis 8,7 m. Eftir breytingar yrði hús kærenda 201,4 m² og hæð mænis 8,8 m. Hafi öllum eignum, sem eigi lóðarmörk að eða standi handan götu á móts við fasteign kærenda, verið breytt. Jafnframt séu öll húsin, utan eins, með portbyggða veggi og hækkuð þök. Kærendur hafi mátt vænta þess að erindi þeirra yrði afgreitt með sambærilegum hætti. Sé hin kærða ákvörðun í ósamræmi við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sjónarmið meirihluta skipulags- og byggingarráðs verði að telja ómálefnaleg. Lítið sem ekkert mið hafi verið tekið af umsögnum þeirra sérfræðinga sem mætt hafi fyrir ráðið. Ef ráðið hefði byggt á fyrirliggjandi mati, ráðleggingum fagaðila og 11. gr. stjórnsýslulaga og heimilað breytingar í takt við umhverfi hefði það verið til þess fallið að ná fram markmiði því sem skipulagslög og aðrar réttarheimildir á því sviði stefni að. Virðist sem geðþótti og tilviljun hafi ráðið niðurstöðu ráðsins, en á sama tíma hafi verið samþykkt að kynna drög að breytingu á deiliskipulagi vegna nýbyggingar Austurgötu 22 í 75 m fjarlægð frá fasteign kærenda. Verði af framangreindum sökum að telja ákvörðunina ólögmæta.

Nefnd ákvörðun sé íþyngjandi fyrir kærendur og komi í veg fyrir að þau geti nýtt eign sína eins og þörf sé á og að óbreyttu verði ákvörðunin til þess að þau verði að selja eignina og flytja. Ákvarðanatakan sé ekki byggð á tilhlýðilegum stoðum og réttarheimildum heldur sé vísað til stefnumótunar frá árinu 2002, sem hvorki hafi lagastoð né hafi verið farið eftir þegar komi að nokkrum fjölda mála vegna eigna í næsta nágrenni við kærendur. Enn fremur fái ekki staðist að byggja á skilmálum annarra deiliskipulaga innan sveitarfélagsins. Um mánuði eftir að umsókn kærenda hafi verið lögð fram hafi verið samþykkt að skipuleggja svæði það sem fasteign kærenda standi. Undirstriki þetta skort á lagaheimild fyrir ákvarðanatökunni og sé tilraun til að veita hana með afturvirkum hætti. Í það minnsta sé þetta tilraun til að fyrirbyggja að kærendur geti fengið aðrar breytingartillögur eða nýjar málamiðlanir samþykktar. Hafi borið að gæta meðalhófs við ákvarðanatökuna og velja það úrræði sem vægast sé, en nefnd ákvörðun gangi eins langt og hugsast geti og nái engan veginn því markmiði sem stefnt sé að.

Hófsemi og samræmi við umhverfið hafi verið leiðarljós í öllum tillögum kærenda. Fyrir liggi afstaða Minjastofnunar Íslands er telji að með breytingunum sé tekið tillit til stærðarhlutfalla. Auk þess fari þær að óverulegu leyti út fyrir útveggi núverandi byggingar. Anddyri sé breikkað um 1,20 m og gólfflötur geymslunnar á bak við eignina sé sömuleiðis breikkaður með sama hætti. Breytingin felist að öðru leyti að stærstum hluta í því að við hækkun þaks reiknist fleiri fermetrar á gólffleti efstu hæðar, auk þess sem efri hæð viðbyggingar verði ný. Feli tillögurnar ekki í sér að núverandi eign verði kollvarpað.

Kærendur byggja jafnframt á því að brotið hafi verið gegn andmælarétti aðila. Annar kærenda hafi óskað þess að fá að vera viðstaddur kynningu á málinu á fundi skipulags- og byggingarráðs en því hafi verið synjað. Hafi honum, sem aðila málsins, borið að fá að vera viðstaddur fundinn en um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða er varði nýtingu á fasteign sem lúti eignarrétti kærenda, sem og bæði fjárhagslega og persónulega hagsmuni þeirra. Þá hafi kærendum aldrei verið afhent afrit af samantekt um stækkun nærliggjandi húsa er starfsmönnum skipulags- og byggingarsviðs hafi verið falið að safna. Sé um verulega annmarka að ræða er leiða beri til ógildingar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Sveitarfélagið tekur fram að flestar breytingar á húsum í nánasta umhverfi við fasteign kærenda hafi verið samþykktar áður en „Stefnumörkun um húsverndun í Hafnarfirði“ hafi verið gerð, nema á Smyrlahrauni 1. Byggingarleyfi vegna þeirrar breytingar hafi verið veitt samkvæmt skilmálum sem samþykktir hafi verið í skipulagsnefnd árið 1993 og hafi breytingin jafnframt verið grenndarkynnt. Hverfisgata 16 hafi verið portbyggð árið 1930. Húsin við Austurgötu 22 og Strandgötu 19 séu á miðbæjarsvæði þar sem nýtingarhlutfall sé almennt hærra en á aðliggjandi svæðum. Ekkert hús sé nú á lóð nr. 23 við Austurgötu.

Í 48. gr. samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar komi fram að fundi ráðs/nefndar skuli að jafnaði halda fyrir luktum dyrum. Ráð eða nefnd geti kvatt á sinn fund einstaka starfsmenn bæjarins. Enn fremur geti ráð/nefnd boðið aðila að koma á sinn fund til viðræðna um tiltekin mál. Þá sé bent á að ákvörðun um að vinna deiliskipulag fyrir þetta svæði hafi verið tekin í maí 2013, en vinna við undirbúning þess hafi hafist haustið 2012. Hafi skipulags- og byggingarráð fengið útreikninga á nýtingarhlutfalli á umræddu svæði. Ekki hafi verið reiknað út hve mikil stækkun nærliggjandi húsa væri í prósentum þar sem upprunalegar teikningar væru ekki aðgengilegar. Sum húsanna hafi verið stækkuð oftar en einu sinni.

——

Aðilar hafa fært fram frekari sjónarmið varðandi efni máls þessa.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs frá 11. júní 2013 að hafna erindi kærenda um breytingu á húsinu að Hverfisgötu 23 í Hafnarfirði, en á þeim tíma var ekki í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði.

Samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða leyfi Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Varði breyting á mannvirki útlit þess og form skal leita samþykkis skipulagsnefndar áður en byggingarleyfi er veitt nema að breyting sé óveruleg, sbr. 5. mgr. 9. gr. Sé mannvirki háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skal hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins, sbr. 10. gr. laganna.

Í þágildandi 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sagði enn fremur að þegar sótt væri um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem væri í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag lægi ekki fyrir eða um væri að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skyldi skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu. Felur tilvitnað ákvæði í sér að skipulagsnefnd tekur ákvörðun um hvort veita megi byggingar- eða framkvæmdaleyfi án deiliskipulags. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum mannvirkjalaga sem áður eru rakin.

Sveitarstjórn er þó heimilt með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. mannvirkjalaga að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa, að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Hafnarfjarðarbær mun ekki hafa sett sér slíka samþykkt, en skv. 6. mgr. 7. gr. skal samþykkt sem sett er samkvæmt lagagreininni lögð fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skal hún færð inn í rafrænt gagnasafn Mannvirkjastofnunar.

Hafnarfjarðarbær hefur hins vegar sett sér samþykkt um stjórn og fundarsköp bæjarstjórnar. Þegar hin kærða ákvörðun var tekin var í gildi samþykkt þess efnis nr. 637/2002, með síðari breytingum. Í 82. gr., eins og henni var breytt með 17. gr. samþykktar nr. 854/2011, var tiltekið að skipulags- og byggingarráð færi með mál sem heyrðu undir skipulagslög, lög um mannvirki, lög um mat á umhverfisáhrifum og lög sem sneru að umferðarmálum. Skyldi ráðið gera tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála sem það fengi til meðferðar. Þá gæti bæjarstjórn falið skipulags- og byggingarráði fullnaðarafgreiðslu mála nema lög mæltu á annan veg. Einnig sagði m.a. eftirfarandi: „Í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð er byggingarfulltrúa falin veiting byggingarleyfa í samræmi við 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Telji byggingarfulltrúi að erindi sé bersýnilega í ósamræmi við skipulagsáætlanir, skipulagsskilmála og/eða byggingarreglugerð eða óvissu ríkja um hvort uppfyllt séu ákvæði laga, reglugerða eða samþykkta, skal hann vísa málinu til afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs sem þá fjallar um byggingaráformin í samræmi við 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.“ Samþykkt nr. 637/2002, með síðari breytingum, er sett með stoð í sveitarstjórnarlögum og var hún staðfest af félagsmálaráðherra, en breytingasamþykkt nr. 854/2011 var staðfest af innanríkisráðherra. Er ljóst að samþykktin telst ekki vera sett með stoð í 7. gr. mannvirkjalaga, enda hefur hún ekki verið sett með þeim hætti sem þar er mælt fyrir um. Getur hún því ekki vikið frá ákvæðum þeirra laga þess efnis að samþykkt byggingaráforma og útgáfa byggingarleyfis sé á forræði byggingarfulltrúa. Synjun skipulags- og byggingarráðs á erindi kærenda batt því ekki enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður að telja að hún hafi falið í sér ákvörðun samkvæmt 44. gr. skipulagslaga um að án deiliskipulags mætti ekki veita umbeðið byggingarleyfi. Var ákvörðunin þannig hluti af lögboðinni málsmeðferð við afgreiðslu byggingarleyfisumsóknarinnar. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði stjórnsýslulaga verður sú ákvörðun ekki borin undir úrskurðarnefndina fyrr en málið hefur verið til lykta leitt, en þá fyrst sætir öll meðferð málsins lögmætisathugun hennar.

Kemur þá til skoðunar hvort lokaákvörðun byggingarfulltrúa samkvæmt mannvirkjalögum liggi fyrir í málinu. Eins og fram hefur komið var umsókn kærenda um leyfi til breytinga á umræddri fasteign tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúa 24. apríl 2013 og henni vísað til skipulags- og byggingarráðs, sem á fundi sínum 11. júní s.á. hafnaði erindi kærenda. Hinn 12. s.m. var á ný tekið fyrir erindi frá kærendum, um breytingar á fasteign þeirra, á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa undir B-lið, skipulagserindi, og eftirfarandi m.a. fært til bókar: „Frestað á síðasta fundi. Meirihluti skipulags- og byggingarráðs synjaði erindinu 11.06.13 eins og það liggur fyrir. Hönnuður óskar eftir leiðbeiningum um hvað leyft er í þessu tilviki. Málinu er vísað til skipulags- og byggingarráðs.“ Fundargerð skipulags- og byggingarfulltrúa frá 12. júní 2013 var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 27. s.m. og tekið fram að A-liður hefði verið afgreiddur af byggingarfulltrúa samkvæmt mannvirkjalögum. Þá var afgreiðsla skipulags- og byggingarráðs frá 11. s.m. lögð fram til kynningar á fundi bæjarstjórnar 19. s.m. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 19. júní 2013, var kærendum tilkynnt um afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs frá 11. s.m. Efni bréfsins einskorðaðist við tilvísun til bókunar ráðsins, en afstöðu eða afgreiðslu byggingarfulltrúa á umsókn kærenda var hins vegar í engu getið. Verður ekki með neinu móti séð af bréfinu, framangreindum bókunum eða öðrum gögnum málsins, að byggingarfulltrúi hafi, í samræmi við fortakslaus ákvæði mannvirkjalaga sem áður eru rakin, tekið afstöðu til erindis kærenda, svo sem honum bar að gera ef ætlunin var að ljúka málinu á þeim tíma. Þá verður ekki annað ráðið af bókun byggingarfulltrúa frá 12. júní 2013 en að málið sé enn til meðferðar og að því hafi verið vísað að nýju til skipulags- og byggingarráðs. Í greinargerð sveitarfélagins til úrskurðarnefndarinnar er þó ekki að því vikið.

Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir lokaákvörðun í málinu sem kærð verði til nefndarinnar og verður því ekki hjá því komist að vísa því frá nefndinni með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson