Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

54/2012 Skútuvogur

Með
Árið 2015, föstudaginn 24. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2012, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. maí 2012  um að hafna beiðni um afskipti stofnunarinnar af málsmeðferð skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar vegna umsóknar um leyfi til að innrétta húsvarðaríbúð í atvinnuhúsnæði að Skútuvogi 12.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júní 2012, sem barst nefndinni 4. s.m., kærir Garðar Briem hrl., f.h. SP fasteignafélags ehf., þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. maí 2012 að hafna beiðni um afskipti stofnunarinnar af málsmeðferð skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar vegna umsóknar um leyfi til að innrétta húsvarðaríbúð í atvinnuhúsnæði að Skútuvogi 12. Til vara er kærð sú ákvörðun skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar að halda ekki áfram upphaflegu umsóknarferli. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.
   
   
   
Gögn málsins bárust frá Mannvirkjastofnun 20. júní 2012 og frá Reykjavíkurborg 14. ágúst s.á.

Málavextir: Hinn 5. janúar 2012 felldi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úr gildi synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík um leyfi til að innrétta húsvarðaríbúð í eignarhluta 03 0103 í húsi nr. 12 við Skútuvog. Hinn 20. s.m. lagði kærandi inn beiðni til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar um að upprunaleg umsókn hans frá 2009 yrði tekin aftur fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa. Var greindri beiðni kæranda hafnað með bréfi lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs, dags. 22. febrúar s.á., og þess krafist að sótt yrði um nýtt byggingarleyfi. 

Með bréfi, dags. 29. febrúar 2012, beindi kærandi þeirri kröfu til Mannvirkjastofnunar að hún tæki til skoðunar synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á að taka umsókn kæranda aftur til meðferðar. Kallaði stofnunin eftir skýringum frá byggingarfulltrúanum 21. mars s.á., sem bárust 3. apríl s.á. Var greindri beiðni kæranda synjað með bréfi frá Mannvirkjastofnun, dags. 4. maí s.á., en þar segir m.a:  „ Að mati stofnunarinnar er það háð mati byggingarfulltrúa hvort hann óski eftir því að umsækjandi fylli út nýtt umsóknareyðublað og skili til byggingarfulltrúa ásamt nýjum uppdráttum, eftir atvikum samskonar og þeim sem fylgdu fyrri umsókn, eða hvort byggt sé á fyrri umsókn og þeim gögnum sem þeim fylgdu.“
Hinn 11. febrúar 2014 var upphafleg umsókn kæranda frá 2009 tekin fyrir á ný á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík. Var málinu frestað og kallað eftir frekari gögnum, s.s. samþykki nýrra meðeigenda.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að ferli hafi hafist þegar hann hafi lagt inn umsókn til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar og sé því ekki lokið. Hafi skipulags- og byggingarsvið synjað erindi kæranda en úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála fellt þá afgreiðslu úr gildi. Úr því að synjun embættisins hafi ekki verið talin gild liggi beint við að hin upprunalega umsókn, sem móttekin hafi verið 2009, sé í fullu gildi og embættið þurfi að taka nýja ákvörðun í stað þeirrar ákvörðunar sem úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi.

Það sé misskilningur embættisins að hinu upprunalega umsóknarferli hafi lokið og að tilefni sé til þess að lögð verði inn ný umsókn. Hafi úrskurðarnefndin talið að hin kærða ákvörðun væri hvorki reist á málefnalegum grunni né studd haldbærum rökum. Af þeim sökum yrði að taka málið á ný til meðferðar og úrskurðar, annaðhvort með samþykki eða synjun. Ekki sé hægt að ætlast til að lögð verði inn ný umsókn um byggingarleyfi. Hafi lögformleg umsókn verið afhent á sínum tíma og eigi það ferli sem þá hafi hafist að ganga sinn veg á enda.

Að auki sé ekki hægt að sætta sig við þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar að það sé háð mati byggingarfulltrúa hvort hann óski eftir því að umsækjandi fylli út nýtt umsóknareyðublað. Virðist stofnunin misskilja ferli umsókna um byggingarleyfi þar sem hún hafi talið að unnt sé að sækja um nýtt byggingarleyfi þegar afstaða hafi ekki verið tekin til fyrri umsóknar um sama erindi og sú umsókn hafi ekki runnið sitt skeið á enda. Með því að taka við erindi kæranda og kalla eftir skýringum frá byggingarfulltrúa hafi málið farið í löglegt ferli innan stofnunarinnar. Ekki séu því haldbær rök til að halda því fram að stofnuninni beri ekki að sinna kærum frá almennum borgurum.

Málsrök Mannvirkjastofnunar: Vísað er til þess að 18. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 feli í sér heimild stofnunarinnar til íhlutunar sem eigi  aðeins að beita í undantekningartilvikum. Heimildinni sé ekki ætlað að vera kæruleið fyrir hinn almenna borgara. Um sé að ræða heimild eins stjórnvalds til afskipta af stjórnsýslu annars stjórnvalds, háð mati þess fyrrnefnda, og sé því eðli máls samkvæmt ekki ákvörðun sem beint sé að borgurunum. Ákvörðunin sé ekki ákvörðun um rétt eða skyldu aðila máls. Af þeim sökum sé ákvörðun um að beita ekki heimild 18. gr. mannvirkjalaga til íhlutunar í stjórnsýslu byggingarfulltrúa ekki stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á grundvelli 59. gr. laganna. Beri því að vísa kærunni frá.

Af hálfu stofnunarinnar hafi það verið talið háð mati byggingarfulltrúa hvort hann óskaði eftir því að umsækjandi fyllti út nýtt umsóknareyðublað og skilaði til byggingarfulltrúa ásamt nýjum uppdráttum, eftir atvikum samskonar og þeim sem fylgt hafi fyrri umsókn, eða hvort byggt yrði á fyrri umsókn og þeim gögnum sem henni hafi fylgt. Við meðferð umsóknar, eftir að mál hafi verið tekið fyrir að nýju, sé byggingarfulltrúa ávallt heimilt á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýslulaga að óska nýrra afrita af uppdráttum eða frekari gagna, gerist slíks þörf, t.d. ef í ljós kæmi að uppdrættir hafi ekki uppfyllt ákvæði laga og reglugerða eða að afla þyrfti nýrra umsagna. Hafi ekki verið talið að afgreiðsla byggingarfulltrúa hvað þetta varðaði færi í bága við lög. Snúist ágreiningurinn einungis um það hvort umsækjanda sé skylt að fylla út umsóknareyðublað að nýju og sé hann ekki þess eðlis að tilefni sé til íhlutunar á grundvelli 18. gr. laga um mannvirki. Sé bent á að heimildin sé neyðarúrræði sem einungis skuli beitt undantekningartilvikum. Það sé háð mati stofnunarinnar hvort 18. gr. mannvirkjalaga sé beitt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að í þeim tilvikum þar sem úrskurðarnefnd hafi fellt úr gildi synjanir á byggingarleyfisumsóknum hafi það verið venja hjá embætti byggingarfulltrúa að óska eftir nýrri byggingarleyfisumsókn og nýjum uppdráttum stæði vilji til að fá mál tekin fyrir að nýju. Hafi verið litið svo á að með úrskurðum úrskurðarnefndarinnar sé bundinn endir á tiltekið mál og því þurfi að stofna nýtt mál sé óskað frekari meðferðar. Sé á það bent að úrskurðarnefndin hafi ekki lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka málið fyrir að nýju. Mál líkt og það sem hér um ræði sé því ekki tekið upp að frumkvæði embættisins heldur verði að koma fram ósk um það. Hafi embættið því litið svo á að eðlilegast væri að bera þá ósk fram í formi nýrrar umsóknar, sem fái þá nýja umfjöllun.

Sú krafa að umsækjandi leggi fram nýja uppdrætti sé bæði eðlileg og nauðsynleg. Sé í því sambandi vísað til þeirra skýringa sem áður hafi komið fram af hálfu embættisins að ekki þyki viðeigandi að notast við uppdrætti sem áður hafi verið stimplaðir með synjun. Slík notkun á gögnum embættisins geti verið til þess fallin að valda ruglingi eða misskilningi síðar meir, enda sé um opinber skjöl að ræða sem lýsi sjálfstætt tilteknum lyktum máls og geti haft þýðingu síðar, t.d. í dómsmálum. Megi af þeim sökum einnig halda því fram að það sé með öllu óheimilt að breyta slíkum gögnum með nýjum eða breyttum áritunum.

Verði ekki með nokkru móti séð að sú einfalda gagnaöflun, þ.e. að fylla út byggingarleyfisumsókn og útvega afrit uppdrátta, sé svo íþyngjandi, kostnaðarsöm, erfið eða ósanngjörn fyrir umsækjanda að ekki megi beina þeim tilmælum til hans að leggja þau fram, enda sé málið til orðið að hans frumkvæði. Sérstaklega sé vísað til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í þeim efnum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar Mannvirkjastofnunar um að hafna beiðni um afskipti stofnunarinnar af málsmeðferð skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar. Að auki er deilt um þá málsmeðferð borgarinnar vegna umsóknar kæranda um byggingarleyfi.

Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðunin verður þó að binda endi á mál til þess að hún sé kæranleg, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Á grundvelli 18. gr. mannvirkjalaga getur Mannvirkjastofnun tekið til athugunar hvort afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi farið í bága við lög. Stofnunin kallaði eftir gögnum frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík á grundvelli 1. mgr. nefndrar lagagreinar en niðurstaða stofnunarinnar var að ekki væri tilefni til íhlutunar. Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. skal stjórnsýsla máls vera í höndum byggingarfulltrúa þegar meðferð Mannvirkjastofnunar er lokið og er málið nú til meðferðar hjá byggingarfulltrúa á grundvelli upphaflegrar umsóknar kæranda, eins og nánar er lýst í málavöxtum. Sætir meðferð málsins ekki lögmætisathugun nefndarinnar fyrr en endanleg niðurstaða liggur fyrir, sem eftir atvikum er þá kæranleg til nefndarinnar. Ljóst er af framangreindu að málinu er ólokið og liggur því ekki fyrir nein sú ákvörðun sem bundið getur endi á mál í skilningi áðurgreindrar 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

39/2011 Fjörður 1 – Mjóafjörður

Með
Árið 2015, föstudaginn 17. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 20. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði, Fjarðabyggð, og að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsi á sama stað.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. júní 2011, er barst nefndinni 16. s.m., kærir, annar sameigenda jarðarinnar Fjarðar 1 í Mjóafirði, Fjarðabyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Fjarðabyggð frá 20. maí 2011 að samþykkja byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði og að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsi á sama stað. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun um afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar verði felld úr gildi og að leyfishafa verði gert að fjarlægja byggingarnar.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. júní 2011, er barst nefndinni 16. s.m., kærir sami kærandi ákvörðun eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 12. maí 2011 um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vegar í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að nefnd ákvörðun verði felld úr gildi og framkvæmdaaðila verði gert að fjarlægja veginn og afmá jarðrask vegna hans.

Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 42/2011, sameinað máli þessu.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Fjarðabyggð 11. júlí 2011 og viðbótargögn 26. febrúar 2015.

Málavextir: Jörðin Fjörður 1 var í óskiptri sameign kæranda og framkvæmdaaðila, en þau eignuðust hana með gjafaafsali frá móður sinni 9. janúar 1984. Íbúðarhús sem stendur á jörðinni var selt frá henni árið 1978 ásamt útihúsum og keypti framkvæmdaaðili það árið 1995. Í kaupsamningum um íbúðarhúsið, dags. 5. júní 1978 og 3. febrúar 1995, segir meðal annars: „Í kaupunum [felst] leiga á 5000 fermetra lóð umhverfis húsið. Um lóðamörk skal gera nánari samning síðar.“ Ekki verður af gögnum málsins ráðið að sú fyrirætlan hafi gengið eftir en þrátt fyrir það var lóðin skráð í fasteignaskrá á árinu 2006 án þess að staðsetning hennar væri afmörkuð. Með úrskurði innanríkisráðuneytisins, dags. 5. mars 2013, var ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 10. nóvember 2006 um að breyta fasteignaskráningu fasteignarinnar Fjarðar 1, landnr. 158124, og stofna með því 5.000 m2 lóð með landnr. 209836 í fasteignaskrá, felld úr gildi og lagt fyrir Þjóðskrá Íslands að taka málið til nýrrar meðferðar.

Kærandi sendi byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar erindi hinn 3. ágúst 2010 vegna framkvæmda í landi Fjarðar 1, annars vegar við geymsluhús yfir tvo 20 feta gáma og hins vegar við rafstöðvarhús. Húsin höfðu þá þegar verið reist. Einnig var þar nefndur nýr 400 m langur vegur frá Mjóafjarðarvegi og að íbúðarhúsinu sem lægi um 50 m innar í dalnum en eldri vegur. Í bréfinu vísaði kærandi til þess að ekki hefði verið aflað leyfis fyrir framkvæmdunum og skort hefði samþykki sameigenda að landinu fyrir þeim. Farið var fram á að framkvæmdaaðila yrði gert að afla tilskilinna leyfa auk samþykkis sameigenda, ellegar yrði honum gert að fjarlægja byggingarnar og veginn.

Framkvæmdaaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri skýringum vegna áðurnefndra framkvæmda og gerði hann það með bréfi til byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar, dags. 23. september 2010. Í því segir að reistur hafi verið bráðabirgðaskúr yfir rafstöð sökum lélegs ástands fjóss sem áður hýsti rafstöðina. Hann hafi talið skúrinn vera undir þeim stærðarmörkum sem sækja þyrfti um byggingarleyfi fyrir. Geymsluhúsið hafi verið endurbygging og viðhald á gömlu fjárhúsi og hafi engar breytingar haft í för með sér á útliti gamla hússins. Hann hafi því talið að ekki væri um leyfisskylda framkvæmd að ræða. Þá hafi vegurinn upp frá Mjóafjarðarvegi verið lagður meðfram læknum Beljanda. Lækurinn beri ávallt talsvert magn af framburði og meðfram austurbrún hans hafi hlaðist upp mikið af grjóti sem slétt hafi verið út í umræddan veg ásamt einhverju af aukaefni, en vegurinn hafi verið lagður í september 2007. Enginn vegur hafi áður legið upp að fasteigninni en ekið hafi verið upp eftir túni Fjarðar 1.

Byggingarfulltrúi svaraði erindi kæranda með bréfi, dags. 20. desember 2010, þar sem viðhorfum byggingaryfirvalda var lýst og tekið fram að eigendum umræddra bygginga yrði gert að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim og um framkvæmdaleyfi fyrir veginum. Í kjölfarið kærði kærandi afgreiðslu byggingarfulltrúa á erindinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem vísaði kærunni frá hinn 1. apríl 2011 með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem ekki hafi legið fyrir lokaákvörðun í málinu sem borin yrði undir úrskurðarnefndina.

Framkvæmdaaðili sótti hinn 1. apríl 2011 um byggingarleyfi fyrir 42 m2 geymsluhúsi og 9,6 m2 rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1. Erindið var tekið fyrir á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 11. s.m. og samþykkti nefndin að byggingarfulltrúi gæfi út byggingarleyfi fyrir báðum húsunum. Byggingarfulltrúi tilkynnti framkvæmdaaðila um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 18. apríl 2011, og upplýsti jafnframt að málið hefði verið tekið fyrir á fundi nefndarinnar sem fyrirspurn og að á þeim grundvelli hefði verið veitt undanþága frá kröfum um hönnunargögn samkvæmt gr. 12.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Teikningum af húsunum tveimur hefði verið skilað inn og hefðu teikningar vegna rafstöðvarhússins verið metnar fullnægjandi með hliðsjón af stærð og eðli byggingarinnar. Byggingarfulltrúi kallaði hins vegar eftir frekari hönnunargögnum vegna geymsluhússins og var þess óskað að þeim yrði skilað eigi síðar en 13. maí 2011.

Með bréfi, dags. 20. maí 2011, tilkynnti byggingarfulltrúinn í Fjarðabyggð framkvæmdaaðila að umbeðnar teikningar af geymsluhúsinu hefðu ekki borist og yrði erindi um byggingarleyfi vegna þess því hafnað og eigendum gert að fjarlægja það. Leyfi væri hins vegar veitt fyrir rafstöðvarhúsi. Kæranda var tilkynnt um þessa niðurstöðu með bréfi byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar, dags. 24. maí 2011.

Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 12. maí 2011 var tekið fyrir erindi framkvæmdaaðila þar sem sótt var um framkvæmdaleyfi fyrir veglagningu í landi Fjarðar 1. Samkvæmt bókun í fundargerð þess fundar hafði Fjarðabyggð með óformlegum hætti leitað umsagnar Skipulagsstofnunar vegna vegagerðarinnar, sbr. bráðabirgðaákvæði 1 í skipulagslögum nr. 123/2010. Stofnunin var ekki tilbúin að mæla með veglagningunni, sem þegar hafði farið fram, auk þess sem samþykki allra landeigenda þyrfti að liggja fyrir áður en framkvæmdaleyfi yrði gefið út. Um óleyfisframkvæmd væri að ræða sem félli undir 53. gr. skipulagslaga, en í 3. mgr. þeirrar greinar segði að skipulagsfulltrúi gæti krafist þess að hin ólöglega framkvæmd yrði fjarlægð. Niðurstaða eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar var svohljóðandi: „Nefndin getur ekki gefið út framkvæmdaleyfi nema fyrir liggi samþykki allra landeigenda. Að öðrum kosti þurfa landeigendur að fjarlægja veginn.“ Framkvæmdaaðila var tilkynnt um niðurstöðu nefndarinnar með bréfi, dags. 18. maí 2011, og fékk kærandi afrit af því bréfi hinn 27. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að byggingarfulltrúinn í Fjarðabyggð hafi, við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi og geymsluhúsi í landi Fjarðar 1, litið fram hjá því skilyrði laga að samþykki meðeigenda þyrfti að liggja fyrir ef um sameign væri að ræða. Afgreiðsla byggingarleyfisumsóknarinnar hafi verið ólögmæt af þessum sökum. Telur kærandi sig ekki geta unað við þetta enda sé það verulegt hagsmunamál fyrir hann að skipulags- og byggingaryfirvöld virði friðhelgan eignarrétt hans. Þá gerir kærandi þá athugasemd við afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar á umsókn um framkvæmdaleyfi vegna veglagningar í landi Fjarðar 1 að með ákvörðun nefndarinnar séu aðrir landeigendur, sem hvergi hafi komið nálægt veglagningunni, gerðir ábyrgir til jafns við framkvæmdaaðila fyrir því að fjarlægja veginn. Rétt hefði verið að krefja framkvæmdaaðila um að fjarlægja hann og afmá jarðrask vegna hans innan tiltekins frests. Afgreiðsla nefndarinnar hafi verið illa ígrunduð eða byggst á geðþótta nefndarmanna fremur en lögum og því sé rétt að fella hana úr gildi.

Íbúðarhúsið á umræddri jörð hafi verið skráð á landnúmer 158124 allt til ársins 2006 en þá hafi verið stofnuð 5.000 m2 lóð innan sameignarinnar með landnúmeri 209836, án vitundar og samþykkis kæranda. Afgreiðsla byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar á byggingarleyfisumsókninni hafi meðal annars byggst á hugmyndum um eignarrétt framkvæmdaaðila á lóð umhverfis íbúðarhúsið. Í minnisblaði byggingarfulltrúa til eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 8. apríl 2011, komi til að mynda fram að afmörkun lóðarinnar sjáist greinilega á loftmynd. Byggingarfulltrúi hafi virst líta svo á að framkvæmdir við geymsluhúsið og rafstöðvarhúsið væru kæranda óviðkomandi og að framkvæmdaaðili væri ekki bundinn af kröfu um samþykki meðeiganda vegna mannvirkjagerðar í landi sem kærandi væri þinglýstur eigandi að. Bent sé á að þegar framkvæmdaaðili hafi keypt íbúðarhúsið hafi ekkert fjárhús fylgt því heldur aðeins tóft af fjárhúsi. Í fasteignaskrá séu ekki önnur hús en íbúðarhúsið skráð á lóð nr. 209836.

Hvað veglagninguna varðar bendir kærandi á að ekki hafi verið gefið út framkvæmdaleyfi fyrir veginum vegna þess að Skipulagsstofnun hafi áður hafnað því að gefa út meðmæli fyrir framkvæmdinni þar sem ekki hafi legið fyrir samþykki allra landeigenda. Í kjölfarið hafi eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar tekið ákvörðun um að aðhafast ekkert í málinu og framkvæmdaaðila hafi ekki verið gefinn ákveðinn frestur til þess að fjarlægja veginn. Ljóst sé að sú afgreiðsla eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar sé ekki til þess fallin að knýja á um að framkvæmdaaðili afli samþykkis allra landeigenda fyrir veginum eða fjarlægi hann. Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd hafi með afgreiðslu sinni tekið ákvörðun um að það sé ekki sveitarfélagsins að hafa afskipti af veglagningunni og jafnframt að það sé kæranda að fjarlægja óleyfisframkvæmdina uni hann því ekki að framkvæmdin standi.

Málsrök Fjarðabyggðar:
Í athugasemdum byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar vegna kæru á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsi og rafstöðvarhúsi kemur fram að ástæða þess að kærandi hafi upphaflega borið upp erindi sitt við Fjarðabyggð hafi verið sú að ekki hafi náðst sátt milli landeigenda um landskipti hluta jarðarinnar Fjarðar 1, landnr. 158124. Kærandi hafi sent erindi til Fjarðabyggðar um að umræddar byggingar yrðu fjarlægðar en þá hafi þær þegar staðið í um tvö ár með vitneskju kæranda. Röksemdir kæranda fyrir kröfu um niðurrif bygginga hvíli á því að þær standi á sameignarlandi Fjarðar 1, landnr. 158124. Á hinn bóginn hafi framkvæmdaaðili vísað til þess að hann leiði rétt sinn af kaupsamningi, dags. 5. júní 1978, og afsali, dags. 29. desember 1979. Kaupsamningurinn frá 1978 feli í sér að húseignir á svæðinu fái tiltekin lóðarréttindi sem hafi óskilgreind mörk. Ljóst sé að eignaréttarlegur ágreiningur sé um þýðingu skjalsins út frá texta þess og meginreglum eignaréttar.

Erindi kæranda hafi komið til umfjöllunar eftir að umdeildar húseignir voru reistar. Þegar til umfjöllunar sé krafa um niðurrif húseigna komi meðal annars til skoðunar sjónarmið um eignarétt framkvæmdaaðila og meðalhóf. Kröfur kæranda hvíli á eignaréttarlegu ágreiningsatriði sem sveitarfélagið taki ekki afstöðu til en eðli máls samkvæmt verði þó að leggja til grundvallar einfalda skýringu á efnisinntaki þinglýstra skjala. Kaupsamningurinn frá 1978 vísi til sölu íbúðarhúss og útihúsa og ekki virðist óvarfærið að álykta á þá leið að 5.000 m2 lóðin liggi undir hinum seldu mannvirkjum, enda verði ekki annað ráðið en að ætlun aðila hafi verið að þau hefðu einhvers konar lóðarréttindi. Þær framkvæmdir sem kæran nái til séu í eða við tóftir útihúsa, sem kaupsamningurinn frá 1978 vísi til, og þar með á svæði sem lóðarréttindi nái til. Afgreiðsla Fjarðabyggðar hafi jafnframt hvílt á meðalhófssjónarmiðum, sjónarmiðum um stöðu stjórnvalda við töku íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana og meginreglum um að forðast eyðileggingu verðmæta. Sveitarfélagið hafi lagt til grundvallar að umræddar húseignir væru innan 5.000 m2 svæðis sem væri í umráðum framkvæmdaaðila. Afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi fyrir umdeildum mannvirkjum hafi tekið mið af jafnræðisreglu, meðalhófsreglu og framlagningu framkvæmdaaðila á umkröfðum gögnum.

Í athugasemdum frá fasteigna- og framkvæmdafulltrúa Fjarðabyggðar vegna kæru á afgreiðslu umsóknar um framkvæmdaleyfi vegna veglagningar í landi Fjarðar 1 er áréttað að framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út fyrir veglagningunni. Í bókun sveitarfélagsins hafi komið fram að án samþykkis allra landeigenda væri ekki unnt að gefa út framkvæmdaleyfi og kæmi þá til þess að fjarlægja þyrfti framkvæmdina. Í upphaflegu erindi kæranda hafi því verið beint til Fjarðabyggðar að framkvæmdaaðila yrði gefinn kostur á að afla samþykkis sameigenda fyrir framkvæmdunum. Erindi kæranda hvíli í raun á því að fullreynt verði hvort sameigendur Fjarðar samþykki umdeilda veglagningu. Afgreiðsla eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar hafi tekið mið af þessum sjónarmiðum kæranda og sé í samræmi við meðalhófsreglur, sérstaklega þegar komi til skoðunar að beita íþyngjandi úrræðum eins og fylgi kröfu um að mannvirki verði fjarlægð. Í ljósi þessa hafi bókun sveitarfélagsins falið í sér að svigrúm væri fyrir aðila til að fullreyna að ná samkomulagi. Ljóst sé að bókun eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar geri ráð fyrir að landeiganda og framkvæmdaaðila verði sett nákvæmari skilyrði síðar fyrir fjarlægingu vegarins, svo sem um tímafrest og hvaða kröfur verði gerðar til svæðisins eftir að vegurinn hafi verið fjarlægður. Vegurinn sé að nokkrum hluta byggður á uppmokstri úr árfarvegi til að verja land og því kunni það aðeins að fela í sér minni háttar framkvæmdir að fjarlægja hann. Af hálfu Fjarðabyggðar hafi ekki staðið til að leggja á kæranda ábyrgð á að fjarlægja veginn enda sé ljóst að bókun sveitarfélagsins verði ekki grundvöllur slíkra þvingunarúrræða.

Athugasemdir framkvæmdaaðila: Í athugasemdum framkvæmdaaðila kemur fram að geymsluhúsið sem fjallað sé um í málinu sé gamla fjárhúsið í Firði. Auk þess sé í málinu fjallað um bráðabirgðaskúr yfir rafstöð. Byggingarfulltrúi hafi synjað um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsinu sökum ófullnægjandi teikninga en unnið sé að því að útbúa teikningar og stefnt sé að því að leggja þær fram.

Geymsluhúsið sé séreign framkvæmdaaðila samkvæmt kaupsamningi frá 1995 en með honum, sem og kaupsamningnum frá 1978, hafi íbúðarhúsið verið selt „ásamt útihúsum“. Fasteignamat frá 25. nóvember 1978 varpi skýrara ljósi á það hvaða útihús átt sé við en þá hafi útihúsin í Firði verið fjós, fjárhús, hlaða og geymsla. Lýsingar á áðurnefndum útihúsum sé að finna í allsherjarfasteignamati frá 20. öld, þar sem finna megi ítarlegar lýsingar á jörðum á Íslandi og öllum eignum sem þeim fylgdu. Leggur framkvæmdaaðili meðal annars fram upplýsingar úr viðbótar- og endurmati frá 1955 og 1967, ásamt fasteignamatinu frá 1978. Engar ákvarðanir séu til um niðurrif mannvirkjanna sem tiltekin séu í fasteignamatinu frá 1978 og ljóst sé að fjósið og fjárhúsið standi enn. Vel megi vera að skráningu útihúsa í núverandi fasteignaskrá sé ábótavant en það sé ekki óeðlilegt í ljósi þess að á jörðinni fari ekki lengur fram búskapur.

Bygging bráðabirgðaskúrs yfir rafstöð hafi verið neyðarframkvæmd vegna slæms ásigkomulags fjóssins, þar sem rafstöðin hafi áður verið, en þak þess hafi fokið af í óveðri í janúar 2011. Megi hér vísa til 6. mgr. 61. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Fjarðabyggð hafi ekki borið skylda til að leita samþykkis kæranda vegna veitingar leyfis fyrir framkvæmd á gamla fjárhúsinu, en það sé ekki í eigu kæranda.

Framkvæmdaaðili eigi 5.000 m2 leigulóð sem fylgja eigi íbúðarhúsinu en mörk lóðarinnar séu óákveðin nema að því leyti að hún nái umhverfis íbúðarhúsið í Firði og útihúsin. Að lokum sé á það bent að framkvæmdin á geymsluhúsinu hafi fyrst og fremst verið viðhald og endurbygging gamla fjárhússins sem tilheyri séreign framkvæmdaaðila. Framkvæmdin hafi ekki átt að hafa neinar breytingar á útliti gamla fjárhússins í för með sér en henni hafi ekki verið lokið hvað varði framhlið hússins.

Sú staðhæfing kæranda sé beinlínis röng að eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar hafi tekið ákvörðun um að aðhafast ekkert vegna hinnar umdeildu veglagningar. Nefndin hafi þvert á móti synjað um framkvæmdaleyfi á þeirri forsendu að ekki lægi fyrir samþykki allra landeigenda. Þá geri nefndin aðra landeigendur ekki ábyrga fyrir því að fjarlægja veginn og hvergi í afgreiðslu nefndarinnar á umsókninni sé tilgreint að kærandi eigi að fjarlægja veginn. Óskað hafi verið eftir samþykki kæranda fyrir veginum en það hafi ekki fengist. Engin haldbær rök séu fyrir því að vegurinn verði fjarlægður þar sem hann varni bæði ágangi vatns og umferðar á tún Fjarðar 1.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar á umsókn um byggingarleyfi fyrir þegar reistu geymsluhúsi og rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1 og afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins á umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir vegi sem þegar hefur verið lagður þar.

Með hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa var m.a. synjað um leyfi fyrir fyrrgreindu geymsluhúsi og fyrir liggur að eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd hafnaði umsókn framkvæmdaaðila um framkvæmdaleyfi fyrir umræddri veglagningu. Kærandi var ekki umsækjandi leyfanna og verður ekki séð að hann eigi lögvarða hagsmuni af því að framangreindar ákvarðanir verði felldar úr gildi, enda höfðu þær ekki í för með sér breytingu á stöðu hans frá því sem áður var. Hvað varðar þessa þætti málsins er skilyrði kæruaðildar þágildandi 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 því ekki fyrir hendi og verður þessum hluta kærumálsins af framangreindum ástæðum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Vegna krafna kæranda fyrir nefndinni um að framkvæmdaaðila verði gert skylt að fjarlægja geymsluhús, rafstöðvarhús og veg og afmá jarðrask skal tekið fram að valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana eru bornar. Úrskurðarnefndin getur því ekki tekið ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða svo sem krafist er. Sambærilegar kröfur voru þó gerðar í erindi kæranda til byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar, dags. 3. ágúst 2010, en þar var þess krafist að framkvæmdaaðila yrði veittur frestur til að afla tilskilinna leyfa ásamt samþykki meðeigenda vegna geymsluhúss, rafstöðvarhúss og veglagningar, en yrði ella gert að fjarlægja byggingarnar og veginn tafarlaust og afmá jarðrask vegna þeirra. Af gögnum málsins verður þó ekki séð að erindi kæranda hafi hlotið formlega afgreiðslu hjá sveitarfélaginu. Af framangreindum ástæðum verður því ekki fjallað frekar um þessar kröfur kæranda.

Eins og áður var rakið veitti byggingarfulltrúi Fjarðabyggðar byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1 en sú fasteign er á ódeiliskipulögðu svæði. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Heimildir til frávika frá þessari reglu er annars vegar að finna í 44. gr. laganna, sem fjallar um grenndarkynningu einstakra framkvæmda í þegar byggðum hverfum, og hins vegar í bráðabirgðaákvæði 1 með sömu lögum þar sem heimilað er að veita byggingarleyfi fyrir einstökum mannvirkjum, að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar, án þess að fyrir liggi staðfest svæðis- eða aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag. Eins og málum er háttað getur 44. gr. laganna ekki átt við í umræddu tilviki og ekki liggur fyrir að leitað hafi verið meðmæla Skipulagsstofnunar fyrir veitingu hins kærða byggingarleyfis á grundvelli áðurnefnds bráðabirgðaákvæðis. Skorti af þessum sökum lagaskilyrði fyrir veitingu hins kærða byggingarleyfis.

Ekki liggur fyrir í gögnum málsins að gerður hafi verið sérstakur samningur um afmörkun 5.000 m2 leigulóðar leyfishafa, svo sem kaupsamningar um íbúðarhúsið í Firði 1 mæla fyrir um. Fyrir liggur að ágreiningur er með kæranda og framkvæmdaaðila um yfirráð þess lands sem rafstöðvarhúsið stendur á. Í ljósi þess réttarágreinings sem uppi er um heimildir framkvæmdaaðila var það því ekki á færi byggingarfulltrúa að veita umdeilt byggingarleyfi fyrr en úr þeim réttarágreiningi hefði verið skorið, eftir atvikum fyrir dómstólum.

Að því virtu verður að líta svo á að það land sem tilheyri Firði 1 sé í óskiptri sameign og að framkvæmdir þar séu háðar samþykki meðeiganda. Var byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar því óheimilt eins og á stóð að veita byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi án þess að fyrir lægi samþykki meðeiganda, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun um veitingu byggingarleyfis fyrir rafstöðvarhúsi sé haldin slíkum annmörkum að leiði til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Fjarðabyggð frá 20. maí 2011 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsi í landi Fjarðar 1 og um ógildingu ákvörðunar eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 12. maí 2011 um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi vegna veglagningar, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Felld er úr gildi sú ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 20. maí 2011 að veita byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

71/2011 Hvannalundur

Með
Árið 2015, föstudaginn 17. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 71/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 13. september 2011 um að samþykkja leyfi til að stækka sumarhús á lóðinni nr. 8 við Hvannalund í Miðfellslandi, Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. september 2011, er barst nefndinni 27. s.m., kæra eigendur Hvannalundar 10 í Bláskógabyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 13. september 2011 að samþykkja leyfi til að stækka sumarhús á lóðinni að Hvannalundi 8 í Bláskógabyggð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og hið umdeilda hús fjarlægt.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu í febrúar og mars 2015.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Hinn 26. apríl 2011 var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps fyrirspurn lóðarhafa Hvannalundar 8 um hvort leyft yrði að stækka sumarhús á lóðinni úr 48 m² í 73 m². Var erindinu hafnað og tekið fram að hámarksbyggingarmagn á lóð skyldi vera 60 m². Byggingarfulltrúi tók fyrir samsvarandi erindi frá lóðarhafa hinn 9. júní s.á. Bókað var að fyrir lægi tillöguteikning að húsi í samræmi við fyrrgreinda bókun skipulags- og byggingarnefndar og ákveðið að grenndarkynna umsóknina í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefnd fundargerð byggingarfulltrúa var kynnt á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 23. s.m. og staðfest. Í kjölfar þess var grenndarkynnt beiðni um stækkun umrædds sumarhúss. Komu kærendur að athugasemdum.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 28. júlí 2011. Fært var til bókar að skipulags- og byggingarnefnd teldi athugasemdir eigenda Hvannalundar 10 réttmætar hvað varðaði hæð fyrirhugaðrar viðbyggingar og lengd hennar að lóðarmörkum. Var þess farið á leit við umsækjanda að ekki yrði aukið við byggingarmagn meðfram mörkum lóða nr. 8 og 10, heldur yrði byggt inn á lóðina. Nefndin tók ekki undir aðrar athugasemdir og fól byggingarfulltrúa að svara þeim í samræmi við umræður á fundinum. Hinn 25. ágúst s.á. var málið til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar, er taldi að með teikningum sem þá lágu fyrir væri komið til móts við athugasemdir lóðarhafa Hvannalundar 10. Jafnframt væru teikningar í samræmi við áðurgreinda bókun nefndarinnar frá 23. júlí s.á. þar sem ekki væri aukið við byggingarmagn með lóðarmörkum frá því sem áður var og hæð hússins væri innan þeirra marka sem almennt teldist hófleg hæð á sumarhúsi, eða innan við 5 m. Samþykkti nefndin framlagða teikningu og fól byggingarfulltrúa að afgreiða málið. Umsókn um leyfi til að stækka sumarhús á nefndri lóð í 61 m² var tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúa hinn 13. september 2011 og hlaut svofellda afgreiðslu: „Samþykkt í samræmi við bókun skipulags- og byggingarnefndar hinn 25. ágúst sl. Ekki er tekin afstaða til lóðamarka á afstöðumynd.“ Var fundargerðin kynnt á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 22. s.m. og staðfest.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að mun hærri bygging en fyrir hafi verið rísi á mörkum lóðar þeirra og lóðarinnar Hvannalundur 8. Verið sé að reisa nýtt hús frá grunni þar sem svo lítið verði eftir af gömlu byggingunni að ekki geti verið um viðbyggingu að ræða, líkt og byggingarfulltrúi telji. Verði að meta málið út frá þeim forsendum. Snúi byggingin að suðurhlið sumarhúss og lóðar kærenda og að þeim hluta sem mest sé nýttur. Jafnframt sé útliti hússins gjörbreytt. Á þeirri hlið eldri byggingarinnar er snúið hafi að Hvannalundi 10 hafi verið einn lítill gluggi en nú verði tveir stórir gluggar á neðri hæð og miklu stærri gluggi á efri hluta sömu hliðar.

Við meðferð málsins hafi ekki verið höfð til hliðsjónar sjónarmið um brunavarnir. Sé fjarlægð milli bygginga langt innan lágmarksákvæða um fjarlægð milli húsa og ákvæða um brunamótsstöðu, sem kveðið sé um í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Jafnframt sé vísað til leiðbeiningaskjals 135.7 BR1 um val og frágang útveggjaklæðninga m.t.t. brunavarna. Með því að reisa nálægt tvöfalt hærra hús en áður aukist brunahætta mikið, en einnig geti smáhýsi sem sé á lóðinni haft áhrif á brunahættu. Verði að taka mið af því í þessu samhengi.

Gerðar hafi verið athugasemdir við að á aðstöðumynd sem fylgt hafi grenndarkynningu hafi húsið verið teiknað fjær lóðarmörkum en það sé í raun. Byggingarfulltrúi hafi hafnað því að taka afstöðu til lóðarmarka þar sem um einkalóð væri að ræða, þrátt fyrir ítrekaðar óskir kærenda þar um. Samræmist það álit sveitarfélagsins hvorki lögum né reglugerðum. Þá segi í 4. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um frístundabyggðir að byggingarreitir skuli ekki staðsettir nær lóðarmörkum en 10 m og hafi borið að virða nefnt ákvæði.

Í svarbréfi byggingarfulltrúa til kærenda hafi komið fram að ekki væri verið að auka byggingarmagn meðfram lóðarmörkum umfram það sem fyrir hafi verið á lóðinni. Standist þetta engan veginn, en verið sé að bæta hæð ofan á húsið. Þá hafi byggingarnefnd heimilað hækkun hússins eftir lok grenndarkynningar en samkvæmt nýjum teikningum að húsinu sé hæð þess 4,9 m. Telja verði það afar óeðlilega afgreiðslu, einkum með tilliti til staðsetningar hússins. Svo há bygging sé ekki dæmigerð fyrir skipulag hverfisins og ekki séu fyrir hendi fordæmi um slíkt. Sé byggingarnefnd ekki að meta nánasta umhverfi á faglegan hátt. Muni breytingin skerða gæði fasteignar kærenda þar sem aukið skuggavarp verði á lóð þeirra, meira ónæði og sjónmengun. Verðrýrnun verði á eign kærenda og notagildi hennar minnki.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar taka fram að hluti umrædds sumarhúss hafi verið reistur árið 1959, þegar aðrar áherslur hafi verið um glugga og brunavarnir. Þeir hafi orðið eigendur hússins árið 1991. Hluti af undirstöðum eldri hluta hússins hafi verið farinn að síga og því hafi verið ráðist í endurbætur. Hæsti punktur á hluta hússins sé 4,67 m og í samræmi við það sem byggingarfulltrúi hafi lagt upp með áður en leyfið hafi verið samþykkt. Farið hafi verið að lögum og reglugerðum um frístundahús en um sé að ræða frekar litlar lóðir. Hækkun hússins sé mest aftan við miðju þess og muni skuggavarp á lóð Hvannalundar 10 vegna hækkunarinnar verða aftan til á sumarhúsi kærenda.

Samkvæmt reglugerð um brunavarnir hafi borið nauðsyn til að hafa stærri glugga en áður með opnanlegu fagi. Jafnframt sé ekki hægt að fara fram á það að á meginhlið hússins sé einungis 20-30 cm stór gluggi. Hvað varði sjónmengun bendi leyfishafi að báðir bústaðirnir snúi að Þingvallavatni og þar skyggi hús leyfishafa ekkert á útsýni kærenda. Hafi kærendur mátt gera sér grein fyrir því þegar þeir festu kaup á bústað sínum að hann væri nálægt öðrum bústað í þéttri sumarhúsabyggð.

———-

Sveitarfélaginu var tilkynnt um framkomna kæru og því gefinn kostur á að tjá sig um kæruefnið en athugasemdir þeirra hafa ekki borist.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir stækkun frístundahúss að Hvannalundi 8 í Miðfellslandi, Þingvallasveit í Bláskógabyggð. Umrædd lóð er samkvæmt uppdrætti gildandi aðalskipulags á frístundasvæði sem jafnframt nýtur hverfisverndar H4, sem samkvæmt greinargerð stendur fyrir hverfisvernd á láglendissvæðum Þingvallasveitar. Svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt.

Í greinargerð Aðalskipulags Bláskógabyggðar, Þingvallasveit, 2004-2016, er sett fram stefna um uppbyggingu sumarhúsasvæða almennt í Þingvallasveit. Tekur hún til „núverandi byggðar, varðandi endurbyggingar sumarhúsa, viðbyggingar og viðhald húsa og til nýbygginga innan núverandi svæða og á svæðum sem bætast við“. Skiptist stefnumörkunin í almenn markmið aðalskipulags, sem ná til allra láglendissvæða í Þingvallasveit, nema annað sé tekið sérstaklega fram, og sértækari stefnuatriði sem taka skal tillit til við gerð skilmála í deiliskipulagi allra svæða, innan vatnasviðsins auk sértækra ákvæða sem taka til mismunandi svæða eða aðstæðna innan áhrifasviðsins. Fram kemur í almennum markmiðum aðalskipulagsins að unnið verði lögformlegt deiliskipulag fyrir öll eldri sumarhúsasvæði í Þingvallasveit. Skuli sveitarstjórn hafa forgöngu um að landeigendur, lóðarhafar og sumarhúsafélög láti vinna deiliskipulag á viðkomandi svæði innan fjögurra ára frá gildistöku aðalskipulagsins. Jafnframt er tekið fram að ekki verði gefin út byggingarleyfi á þeim svæðum þar sem ekki liggi fyrir deiliskipulag að liðnum þessum fjórum árum. Fram að því verði mögulegt að gefa út byggingarleyfi í samræmi við ákvæði aðalskipulagsins.

Jafnframt segir svo í greinargerð aðalskipulagsins: „Framfylgd almennra og sérstækra markmiða aðalskipulagsins um deiliskipulag og uppbyggingu á svæðum fyrir frístundabyggð, miða öll að því að draga sem mest úr umhverfisáhrifum sumarhúsabyggðarinnar, einnig þeirrar byggðar sem fyrir er. Lögð er áhersla á að gert verði lögformlegt deiliskipulag fyrir eldri svæði til að tryggja framfylgd þessara ákvæða, en meðan það liggur ekki fyrir verður að taka mið af þessum reglum við veitingu einstakra byggingarleyfa. Til að undirstrika mikilvægi þessara markmiða og reglna og að þeim verði fylgt eftir í hvívetna, eru öll láglendissvæði Þingvallasveitar innan áhrifa- og vatnasviðsins, sett undir hverfisvernd (H3 og H4 auk hverfisverndar vatnsverndar), sem lýtur fyrst og fremst að reglum um uppbyggingu (sbr. almenn og sérstæk markmið hér að framan).“ Í greinargerð aðalskipulagsins er enn fremur að finna umfjöllun um hverfisvernd á láglendissvæðum Þingvallasveitar. Er þar tilgreint að á núverandi byggðum svæðum, einkum sumarhúsasvæðum, og þar sem fyrirhuguð er þétting og viðbætur við núverandi svæði, verði sérstökum ákvæðum um uppbyggingu, endurbyggingu og viðhald húsa fylgt í hvívetna og öðrum ákvæðum sem lúta að því að draga úr áhrifum byggðar á ásýnd og vistkerfi.

Í þágildandi gr. 4.22.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 var áskilið að öll svæði sem væru undir hverfisvernd samkvæmt aðalskipulagi skyldu deiliskipulögð væru framkvæmdir fyrirhugaðar. Áðurgreint aðalskipulag Bláskógabyggðar tók gildi með birtingu auglýsingar þar um 2. júní 2006 og hafði að geyma fyrrgreind fjögurra ára tímamörk fyrir veitingu byggingarleyfa á ódeiliskipulögðum svæðum. Samkvæmt því og með vísan til fyrrgreinds reglugerðarákvæðis var ekki heimilt að veita hið umdeilda byggingarleyfi án undangenginnar deiliskipulagsgerðar og verður þegar af þeirri ástæðu að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar. Úrskurðarnefndin getur því ekki tekið ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða, svo sem um að umdeild bygging verði fjarlægð. Verður því ekki tekin afstaða í máli þessu til kröfu kærenda þar að lútandi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 13. september 2011 um að samþykkja leyfi til að stækka sumarhús á lóðinni að Hvannalundi 8 í Miðfellslandi, Bláskógabyggð.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

12/2011 Selvogsgata

Með
Ár 2015, fimmtudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. október 2010 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar frá 1981 að því er varðar lóðina Selvogsgötu 1, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. janúar 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnar Þór Stefánsson hdl., f.h. J, Brekkugötu 26, Hafnarfirði, ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. október 2010 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar frá 1981 að því er varðar lóðina Selvogsgötu 1. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Kærendur hafa verið eigendur kjallaraíbúðar að Brekkugötu 26 frá árinu 2007. Forsaga málsins er sú að árið 1993 var samþykkt byggingarleyfi, m.a. fyrir stækkun anddyris hússins að Selvogsgötu 1 og fyrir bílastæði á lóðinni meðfram vegg hússins að Brekkugötu 26, en ekkert varð af framkvæmdum. Árið 1994 var samþykkt leyfi fyrir íbúð í kjallara Brekkugötu 26 með tveimur ljósopum, þ.e. eldföstum glersteinum á suðurhlið hússins við lóðarmörk Selvogsgötu 1. Byggingarleyfið fyrir Selvogsgötu 1 frá árinu 1993 var endurnýjað árið 2005 og aftur árið 2008. Í lok árs 2008 var lögð inn ný umsókn fyrir stækkun 1. hæðar og kjallara að Selvogsgötu 1. Umsóttar breytingar voru grenndarkynntar og í janúar 2009 var byggingarleyfi fyrir þeim breytingum samþykkt. Í kjölfarið gerðu kærendur athugasemdir við framkvæmdirnar, þar sem steypt væri fyrir glugga kjallaraíbúðar þeirra að Brekkugötu 26. Byggingaryfirvöld stöðvuðu framkvæmdirnar að hluta og leitað var álits Skipulagsstofnunar, sem komst að þeirri niðurstöðu með bréfi, dags. 8. desember 2009, að þurft hefði að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi hefði sveitarstjórn metið það svo að umrædd byggingarleyfisumsókn samræmdist ekki gildandi deiliskipulagi. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar felldi byggingarleyfið úr gildi á fundi sínum hinn 7. apríl 2010 og á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 27. s.m. var fallist á kröfu kærenda um að fjarlægð yrðu ummerki um framkvæmdir, en nægilegt væri að fjarlægja það sem sneri að Brekkugötu 26 ef sátt næðist um það.

Eigandi Selvogsgötu 1 fór fram á að unnin yrði tillaga að breytingu á deiliskipulagi er heimilaði uppbyggingu á lóðinni í samræmi við áður veitt byggingarleyfi og á fundi skipulags- og byggingarráðs 22. júní 2010 var skipulags- og byggingarsviði falið að gera tillögu að deiliskipulagsbreytingu í samræmi við umsóknina en skipulags- og byggingarfulltrúi ítrekaði tilmæli um að uppsláttur yrði fjarlægður frá kjallaraglugga Brekkugötu 26. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 24. ágúst s.á. var eiganda Selvogsgötu 1 heimilað að steypa þann vegg sem snýr að Brekkugötunni, sökum hættu á hruni, og skipulags- og byggingarfulltrúa falin endaleg afgreiðsla málsins. Á sama fundi var samþykkt að senda í grenndarkynningu tillögu að breytingu að deiliskipulagi fyrir lóðina að Selvogsgötu 1, sem heimilaði viðbyggingu að lóðamörkum Brekkugötu 26 og Selvogsgötu 1. Kærendur skiluðu inn athugasemdum, sem var svarað með bréfi skipulags- og byggingarsviðs, dags. 15. október 2010, og hinn 27. s.m. samþykkti bæjarstjórn tillöguna um hið breytta deiliskipulag. Tók skipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 29. desember 2010.

Umrædd breyting tekur til svæðis sem afmarkast af Selvogsgötu, Brekkugötu og Suðurgötu og í henni fólst að byggingareitir húsa á lóðunum Selvogsgötu 1 og Suðurgötu 27 voru stækkaðir og heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar að Selvogsgötu 1 fór úr 0,73 í 1,31.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að hin kærða deiliskipulagsbreyting geti ekki talist óveruleg og því hefði þurft að auglýsa hana í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Húsið að Selvogsgötu 1 standi á horni Selvogsgötu og Brekkugötu, en við þær götur standi mörg gömul hús og íbúar hafi margir hverjir lagt talsvert af mörkum til að halda við upprunalegu útliti húsa og götumynd. Skipulagsyfirvöld Hafnarfjarðarbæjar myndu leggjast gegn miklum breytingum á flestum þessara húsa.

Með umdeildri breytingu sé gert ráð fyrir að viðbygging að Selvogsgötu 1 verði í um 0,5 m fjarlægð frá báðum suðurgluggum kjallaraíbúðar kærenda, en sú fjarlægð sé alls ófullnægjandi. Fyrirhugað plan, sem eigandi Selvogsgötu 1 vilji byggja, sé það hátt fyrir ofan gluggaopin að birta inn um þau skerðist verulega. Umræddir gluggar séu þeir einu í kjallaraíbúðinni sem snúi í suður og því sérstaklega mikilvægir birtugjafar vegna dýptar hennar. Þó að ekki eigi að loka fyrir gluggana með umdeildu deiliskipulagi sé verið að loka fyrir birtuna, sem sé megintilgangurinn með hinum steyptu gluggaflísum á suðurhlið íbúðarinnar. Nái tillagan fram að ganga verði íbúðin ólögmæt, m.a. með vísan til gr. 78.3, 92.1 og 104.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Jafnframt sé bent á að fyrirhuguð viðbygging verði tengd við Brekkugötu 26 og þrengi því um of að eign kærenda.

Augljóst sé að með hinni kærðu ákvörðun muni verðmæti fasteignarinnar að Brekkugötu 26 rýrna og þar með væri brotið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Bæjaryfirvöld fara fram á að ógildingarkröfu kærenda verði hafnað. Í greinargerð með skipulags- og byggingarlögum komi ekkert fram um það hvað teljist veruleg eða óveruleg breyting. Ráðist það því af mati þar til bærra skipulagsyfirvalda hverju sinni og hafi skipulagsyfirvöld talið að um óverulega breytingu á deiliskipulagi hafi verið að ræða.

Viðbygging jarðhæðar Selvogsgötu 1 breyti ásýnd Brekkugötu óverulega þar sem viðbyggingin sé einnar hæðar, nái ekki fram að götu og verði með sama þakhalla og húsið. Stækkun kjallara nái aðeins 50 cm upp fyrir gangstétt og sé með flötu þaki. Af þeim aðilum sem grenndarkynning hafi náð til hafi aðeins eigendur tveggja íbúða af þremur að Brekkugötu 26 andmælt breytingartillögunni. Kynningin hafi verið send til allra þeirra sem hafi verið taldir eiga hagsmuna að gæta og því hefði málsmeðferð samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga engu breytt efnislega. Af forsögu málsins megi ráða að afstaða bæjaryfirvalda myndi ekki breytast þótt deiliskipulagsbreytingin yrði auglýst í stað grenndarkynningar.

Hleðslugler en ekki gluggar hafi verið samþykkt á suðurhlið hússins nr. 26 við Brekkugötu og því uppfylli íbúðin hvorki skilyrði gr. 79.1 né gr. 96 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Samkvæmt reglugerð nr. 269/1978 um brunavarnir og brunamál hafi ekki mátt setja stærra op á eldvarnarvegg er snúi að aðlægri lóð en 600 cm² án skriflegs samþykkis lóðarhafa, en slíkt samþykki hafi þáverandi eigandi Selvogsgötu 1 ekki veitt. Auk þess hleypi hleðslugler aðeins um 75% af birtu í gegn. Með byggingarleyfinu hafi verið gert ráð fyrir að byggt væri að fullu fyrir kjallaragluggann en samkvæmt skipulagsbreytingunni verði geil milli hússins og viðbyggingar Selvogsgötu 1. Þar sem geilin sé mjóst sé hún 50 cm en breikki og verði 95 cm við vestara ljósopið. Birtuopin séu ofarlega í geilinni og hafi deiliskipulagsbreytingin ekki afgerandi áhrif á gæði kjallaraíbúðar að Brekkugötu 26.

Viðbyggingin nái á styttri kafla að lóðamörkum við Brekkugötu 26 en fylling að húsinu sem samþykkt hafi verið árið 1993 og nái sú fylling fyrir þá glugga/ljósop sem síðar hafi verið gerð. Samþykktar teikningar að íbúð kærenda hafi sýnt aðra herbergjaskipan en nú sé, þannig að ekki hafi verið sýnt sérherbergi fyrir innan umrædda glugga, og hefðu áhrif glugga/glersteins því ekki haft afgerandi þýðingu. Sú breyting sem síðar hafi verið gerð hafi ekki hlotið samþykki byggingaryfirvalda og sé því á ábyrgð fyrri eigenda.

Samkvæmt formála greinargerðar með skipulaginu Hafnarfjörður, miðbær 1981, hafi eitt af markmiðum þess verið að uppbygging gæti átt sér stað án þess að fórnað væri miklu af þeim sérkennum sem setji svip á miðbæinn í dag. Skipulaginu hafi verið skipt í reiti og umrætt svæði sé á reit 19, en þar séu engir nánari skilmálar um hvernig heimila megi stækkun húsa. Sökum þessa hafi skapast sú hefð að grenndarkynna fyrirhugaðar framkvæmdir á reitnum án þess að breyta deiliskipulaginu.

Forsaga málsins lýsi eindregnum vilja bæjaryfirvalda til að heimila stækkun á húsinu nr. 1 við Selvogsgötu. Viðbyggingin samkvæmt gildandi deiliskipulagi raski ekki götumynd Brekkugötu, þar sem hún sé að mestu leyti neðan götu, og því sé um óverulega breytingu að ræða.

Málsrök lóðarhafa Selvogsgötu 1: Samkvæmt hinum nýju skipulagslögum nr. 123/2010 skuli við mat á því hvort breytingar séu óverulegar eða ekki líta til þess að hve miklu leyti tillaga víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Það sé því rétt mat að breytingar sem samþykktar hafi verið á deiliskipulaginu hafi verið óverulegar. Ekki sé fyrirhuguð nein breyting á notkun svæðisins og þær breytingar sem samþykktar hafi verið varðandi útlit og form séu mjög takmarkaðar. Götumynd muni lítið sem ekkert breytast og nýtingarhlutfall aðeins að óverulegu leyti.

Þegar leyfi hafi verið veitt til að breyta kjallara Brekkugötu 26 úr geymslum í íbúð hafi verið í gildi byggingarleyfi til eigendum Selvogsgötu 1 sem hafi gert ráð fyrir mun meiri tengingu við Brekkugötu 26 en verði með deiliskipulagsbreytingunni. Deilur hafi risið vegna breytinga á kjallara Brekkugötu 26 og framkvæmdir hafi verið stöðvaðar við að setja glugga á suðurhlið hússins. Leyfi hafi verið fyrir ljósopi en ekki gluggum eins og gerðir hafi verið. Á þeim tíma þegar umrædd breyting hafi verið heimiluð hafi verið í gildi byggingarreglugerð nr. 177/1992. Um brunavarnir hafi farið samkvæmt reglugerð nr. 269/1978, en ekki hafi legið fyrir samþykki samkvæmt gr. 3.1.7 og því séu gluggaop á suðurvegg Brekkugötu 26 í núverandi mynd ólögleg. Fyrirhugaðar framkvæmdir muni ekki draga úr birtustigi í íbúð kærenda umfram það sem vænta megi við að koma ljósopunum í lögmætt form. Verði um einhverja verðrýrnun að ræða á eigninni sé það vegna ólögmætrar framkvæmdar fyrri eigenda. Ekki verði séð hvernig fyrirhugaðar framkvæmdir komi til með að þrengja að húsnæði sem standi að lóðamörkum og ekki fylgi umferðaréttur um lóðina að Selvogsgötu 1.

————–

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi.

Niðurstaða: Fyrir liggur að veitt var byggingarleyfi fyrir viðbyggingu hússins að Selvogsgötu 1 og að framkvæmdir hófust áður en hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt og ekki liggur fyrir að nýtt byggingarleyfi hafi verið samþykkt og gefið út eftir gildistöku deiliskipulagsbreytingar.

Þegar hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Í 4. mgr. 56. gr. þeirra laga var kveðið á um að óheimilt væri að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefði verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefði verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 137/2012 reyndi á túlkun þessa lagaákvæðis, en þar var komist að þeirri niðurstöðu að fella bæri úr gildi umdeilda ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi svæðis á grundvelli ákvæðisins. Í dóminum er lagt til grundvallar að stærð margra húsa á svæðinu hafi verið í ósamræmi við skilmála deiliskipulags eins og þeir hafi verið fyrir hina umdeildu breytingu. Var nefndu ákvæði beitt án tillits til þess hvort hliðstætt ákvæði væri að finna í skipulagslögum nr. 123/2010, sem tóku gildi hinn 1. janúar 2011. Gögn kærumáls þessa bera ekki með sér að byggingarframkvæmdir þær sem ráðist var í eftir veitingu byggingarleyfis á árinu 2009 hafi verið fjarlægðar og jarðrask afmáð fyrir gildistöku hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður því ekki hjá því komist að ógilda hina kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. október 2010 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar frá 1981.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson

17/2015 Brú í landi Elliðakots

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2015, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 4. febrúar 2015 og á ákvörðun bæjarstjórnar frá 11. s.m. um að samþykkja að veita megi byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni Brú í landi Elliðakots í Mosfellsbæ.

Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana verði frestað til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Hjalti Steinþórsson hrl., f.h. eigenda fasteignarinnar Elliðakots í Mosfellsbæ, ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 4. febrúar 2015 og ákvörðun bæjarstjórnar frá 11. s.m. um að samþykkja að veita megi byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni Brú í landi Elliðakots. Er þess krafist að ákvörðunum verði hnekkt. Jafnframt er þess krafist að úrskurðarnefndin fresti réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar fyrir nefndinni.

Málsatvik og rök: Árið 2014 brann sumarhúsið Brú sem var í landi lögbýlisins Elliðakots í Mosfellsbæ. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar hinn 1. júlí 2014 var tekin fyrir fyrirspurn eiganda hússins um hvort leyft yrði að endurbyggja sumarbústað á lóðinni er yrði samkvæmt framlögðum gögnum að hámarksstærð 130 m² með útgröfnum skriðkjallara/tæknirými með 179 cm lofthæð. Var fært til bókar að samkvæmt aðalskipulagi væri heildarhámarksstærð húss á lóðinni 130 m². Jafnframt var bókað að nefndin væri neikvæð fyrir gerð skriðkjallara undir húsi og verönd en að heimiluð yrði grenndarkynning á málinu þegar breyttir uppdrættir lægju fyrir. Í kjölfar þess var grenndarkynnt umsókn um leyfi til að reisa 130 m² sumarbústað með kjallara í stað bústaðar þess sem brann. Komu kærendur að athugasemdum við fyrirhugaða byggingu og kváðust hafna þessari endurbyggingu. Athugasemdum kærenda var svarað með bréfum, dags. 9. september 2014, og þeim gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum, sem þeir og gerðu með bréfum, dags. 18. og 22. s.m.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar hinn 11. nóvember 2014. Taldi nefndin að hafna bæri umsókninni þar sem stærð hússins væri yfir stærðarmörkum í aðalskipulagi. Jafnframt var þeim athugasemdum hafnað að meðferð málsins hefði ekki verið í samræmi við lög. Þá var tekið fram að nefndin tæki ekki afstöðu til ágreinings aðila um túlkun á lóðarleigusamningi. Með bréfum, dags. 20. nóvember 2014, var kærendum að nýju grenndarkynnt umsókn um leyfi til að reisa frístundahús að Brú í Elliðakotslandi og var nú ekki lengur gert ráð fyrir kjallara undir húsinu. Var andmælum og sjónarmiðum kærenda komið á framfæri við bæjaryfirvöld með bréfi, dags. 2. desember s.á. Hinn 4. febrúar 2015 var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Nefndin samþykkir framlögð drög að svörum og samþykkir jafnframt að hún gerir ekki athugasemdir við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi skv. fyrirliggjandi umsókn þegar hann telur hönnunargögn vera orðin fullnægjandi.“ Var forsvarsmanni kærenda tilkynnt um þá niðurstöðu skipulagsnefndar með bréfi, dagsettu sama dag, og vakin athygli á því að nefnd ákvörðun væri kæranleg. Staðfesti bæjarstjórn samþykkt skipulagsnefndar hinn 11. febrúar 2015.

Kærendur vísa til þess að veiting fyrirhugaðs byggingarleyfis fari í bága við gildandi aðalskipulag Mosfellsbæjar. Að auki hafi ekki verið skilyrði til að viðhafa grenndarkynningu í málinu. Loks telji kærendur að fyrirhuguð bygging húss á lóð þeirra sé háð samþykki þeirra. Engin stoð sé fyrir slíkum byggingarrétti í lóðarleigusamningi.

Krafa um frestun réttaráhrifa sé á því byggð að hin kærða samþykkt skipulagsnefndar veiti heimild til útgáfu byggingarleyfis án frekari undangenginnar málsmeðferðar. Skilja verði ákvæði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, svo sem því hafi verið breytt með lögum nr. 59/2014, að skipulagsnefnd ákveði að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning, og að sú ákvörðun sé endanleg en háð staðfestingu eða samþykki sveitarstjórnar. Megi þannig segja að samþykkt skipulagsnefndar jafngildi samþykkt byggingaráforma skv. 11. gr. laga um mannvirki og standi öll efnisrök til þess að fresta beri réttaráhrifum. Telji kærendur að óeðlilegt væri þegar svona standi á, að gera þeim að bíða þess að byggingarfulltrúi veiti leyfið enda sé skipulagsnefnd í raun búin að taka lokaákvörðun um veitingu þess. Eigi kærendur ríka hagsmuni því tengda að ekki verði byggt á lóðinni stærra eða varanlegra mannvirki en réttur lóðarhafa standi til, m.a. þegar litið sé til mögulegrar innlausnar kærenda í lok leigutíma skv. lögum nr. 75/2008.

Af hálfu Mosfellsbæjar er þess krafist að kröfu um frestun réttaráhrifa verði hafnað. Fyrirhugað hús samræmist fyllilega aðalskipulagi hvað varði landnotkun, stærð og fjölda húsa/lóða á svæðinu. Hvað varði kröfu um frestun réttaráhrifa verði að hafa í huga að ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 kveði á um þá meginreglu að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Heimild til stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða sé undantekning frá meginreglunni sem beri að túlka þröngt. Þurfi ríkar ástæður eða veigamikil rök að liggja til grundvallar slíkri íhlutun. Ekki verði séð að slíkar ástæður eða rök séu fyrir hendi í máli þessu. Þá verði að líta til þess að í hinni kærðu ákvörðun felist aðeins að ekki sé gerð athugasemd við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi skv. fyrirliggjandi umsókn þegar hann telji hönnunargögn vera orðin fullnægjandi, en ekki að byggingarfulltrúi skuli veita byggingarleyfi. Þá leiði af 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að önnur skilyrði ákvæðisins verði jafnframt að vera uppfyllt.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar eru undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi þeirrar afgreiðslu skipulagsnefndar, sem staðfest var af bæjarstjórn, um að samþykkja að gera ekki athugasemdir við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi í samræmi við umsókn leyfishafa. Fela hinar kærðu ákvarðanir ekki í sér heimild til að hefja framkvæmdir og geta þær ekki hafist áður en til útgáfu byggingarleyfis kemur, sbr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Eru framkvæmdir því ekki yfirvofandi í skilningi nefndrar 5. gr. laga nr. 130/2011 og er þar með ekki tilefni til að kveða á um stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

71/2010 Garðarsbraut

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 71/2010, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 13. október 2010 á erindi vegna framkvæmda við setlaug á þaksvölum Garðarsbrautar 48, Húsavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni 18. nóvember 2010, kærir E, Túngötu 18, Húsavík, afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 13. október 2010 á erindi vegna framkvæmda við setlaug á þaksvölum Garðarsbrautar 48, Húsavík. Samkvæmt gögnum málsins samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings, á fundi sínum 13. október 2010, leyfi fyrir setlaug á þaki hússins og verður að líta svo á að það sé sú ákvörðun er sætir kæru í máli þessu. Þá verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings 10. nóvember 2014.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Garðarsbraut 48 er fjöleignarhús sem í eru sjö eignarhlutar, þar af er einn eignarhluti íbúðarhúsnæði og sex eignarhlutar eru skráðir sem atvinnuhúsnæði. Kærandi er eigandi þriggja eignarhluta undir iðnaðarstarfsemi á jarðhæð hússins en leyfishafi er eigandi íbúðarhúsnæðis á jarðhæð og 2. hæð. Eignarhlutar kæranda og leyfishafa mynda matshluta 1 í húsinu. Af 2. hæð í eignarhluta leyfishafa er útgengt á flatt þak hússins, en húsnæði kæranda er staðsett undir því. Ágreiningur hefur verið með kæranda og leyfishafa um heimildir leyfishafa til framkvæmda á þakinu.

Kærandi eignaðist eignarhluta sína í húsinu með þremur afsölum sem öll eru undirrituð 1. janúar 2008 og kemur fram í þeim öllum að hann hafi tekið við eigninni sama dag. Leyfishafi var seljandi allra þriggja eignarhlutanna. Leyfishafi hafði þá skömmu áður, eða hinn 7. desember 2007, undirritað nýja eignaskiptayfirlýsingu fyrir Garðarsbraut 48, matshluta 1, og þinglýst henni.

Með bréfi til skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings, dags. 4. október 2010, óskaði kærandi eftir því að nefndin léti til sín taka og stöðvaði allar framkvæmdir á þaki Garðarsbrautar 48. Í bréfinu kom fram að unnið væri að uppsetningu á setlaug á þakinu án samráðs við kæranda og án leyfis sveitarstjórnar.

Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings 13. október 2010 og á sama fundi var tekin fyrir umsókn leyfishafa um byggingarleyfi fyrir setlaug á þaki umrædds húss. Samkvæmt fundargerð var erindi leyfishafa tekið fyrir á undan erindi kæranda og samþykkti nefndin umsóknina „… að því tilskildu að setlaugin sé sett niður í samræmi við ákvæði 69. gr. byggingarreglugerðar, umsækjandi sýni fram á að burðarvirki hússins beri það álag sem af setlauginni getur hlotist og frágangur lagna verði á þann veg að ekki sé líklegt til að valda nágranna óþægindum eða tjóni“. Erindi kæranda um stöðvun framkvæmda var síðan tekið fyrir og í niðurstöðu nefndarinnar er vísað til þess að í fyrri lið fundargerðarinnar hafi nefndin samþykkt leyfi fyrir setlauginni sem unnið væri að á þaki hússins. Var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að skrifa leyfishafa bréf og fara fram á að framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar til leyfi sveitarstjórnar hefði fengist fyrir þeim. Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar var staðfest á fundi sveitarstjórnar Norðurþings hinn 19. október 2010 og var kæranda tilkynnt um afgreiðslu nefndarinnar á báðum erindunum með bréfi, dags. 20. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að leyfishafa hafi verið óheimilt að koma fyrir setlaug á þaki Garðarsbrautar 48 án þess að samráð væri haft við hann sem meðeiganda og án þess að leyfi sveitarstjórnar lægi fyrir. Hann hafi reynt að fá byggingarfulltrúa Norðurþings til að beita sér í málinu en byggingarfulltrúinn hafi borið því við að kærandi hafi þegar veitt skjalfest samþykki fyrir þeim byggingum sem hefðu risið á þakinu sem og því sem unnið væri að, þ.e. uppsetningu á setlaug. Kærandi hafi bent á að hann hafi veitt samþykki fyrir sólstofu sem þegar hafi verið byggð en lengra hafi samþykkið ekki náð. Þá hafi engin könnun verið gerð á því hvort niðurfall það sem sett hafi verið á þakið flytji allt það vatnsmagn sem komi úr pottinum eða hvort rennslið sé þétt og temprað, en allt vatn sem lendi á þakinu fari nánast óhindrað niður í eignarhluta kæranda við núverandi aðstæður.

Málsrök Norðurþings: Í athugasemdum Norðurþings kemur fram að í þinglýstum afsölum til kæranda vegna eignarhlutanna á neðri hæð hússins að Garðarsbraut 48 segi: „Þakið yfir hinni seldu eign tilheyrir afsalsgjafa og er honum heimilað að gera þar þær framkvæmdir sem hann óskar og bæjaryfirvöld samþykkja, en þegar hefur verið samþykkt á þakinu bygging sólstofu.“ Skipulags- og byggingarnefnd hafi litið svo á að þessi texti í afsölunum gæfi leyfishafa nokkuð frjálsar hendur við afnot og framkvæmdir á sérafnotafleti ofan á þakinu. Nefndin hafi einnig horft til álits kærunefndar fjöleignarhúsamála í máli nr. 60/2002 þar sem niðurstaðan hafi virst vera sú að setlaug á svölum félli innan ramma þess svigrúms sem eigandi sérafnotaflatar hefði til notkunar á sinni eign. Setlaugin á þaki Garðarsbrautar 48 sé lítið og léttvægt mannvirki og litið hafi verið svo á að ákvæði byggingarreglugerðar um setlaugar snerust fyrst og fremst um öryggismál fremur en skipulagsmál. Þar sem eign kæranda sé iðnaðarhúsnæði sé vart um að ræða truflun vegna hávaða við notkun laugarinnar. Í skýrslu verkfræðistofu, dags. 24. maí 2011, sem leyfishafi hafi aflað, sé rökstutt að þakvirki þoli álag frá setlauginni. Fráveita frá henni hafi verið tengd inn á þakniðurfall sem eigi auðveldlega að anna losun úr henni.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi fer fram á að niðurstaða skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings standi óhögguð. Fullnægjandi úrbætur hafi verið gerðar til að stöðva leka sem bent hafi verið á í ástandsmati í október 2010 og fyrir liggi í álitsgerð verkfræðistofu að burðarþol þaksins standist það álag sem nú sé á þakinu. Þakið sé nú notað sem einkasvalir með sólstofu og setlaug og frekari framkvæmdir séu ekki fyrirhugaðar þar. Í afsölum kæranda hafi hann samþykkt þá takmörkun á eignarrétti sínum að leyfishafi hefði eignar- og ráðstöfunarrétt á þaki eignarinnar. Í þeim komi fram að leyfishafa sé heimilt að ráðast í þær framkvæmdir sem hann óski og bæjaryfirvöld samþykki. Þessa samningsskilmála hafi kærandi samþykkt án fyrirvara með undirskrift sinni á afsölin. Þá hafi kæranda verið kunnugt um að húsnæðið væri í lélegu ástandi þegar hann keypti það en leyfishafi hafi unnið að úrbótum á fasteigninni, þar á meðal á niðurfalli af þakinu, til að gæta sameiginlegra hagsmuna eigenda. Þakið sé sérafnotaflötur/svalir leyfishafa og því beri að hafna beiðni kæranda vegna skorts á lögvörðum hagsmunum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar um veitingu byggingarleyfis fyrir setlaug á þaki Garðarsbrautar 48. Kærandi heldur því fram í málinu að óheimilt hafi verið að koma setlauginni fyrir á þakinu án samráðs við hann. Í eignaskiptayfirlýsingu Garðarsbrautar 48, matshluta 1, kemur fram að eignarhluta leyfishafa tilheyri svalir 0203 og er þar um að ræða þaksvalirnar þar sem setlaugin er staðsett. Þá er í afsölum til kæranda vegna eignarhluta í fasteigninni tiltekið að afsalsgjafi, þ.e. leyfishafi, hafi full umráð umrædds þakflatar.

Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru er hin kærða ákvörðun var tekin, skal sá sem óskar byggingarleyfis senda um það skriflega umsókn til hlutaðeigandi byggingarnefndar ásamt nauðsynlegum hönnunargögnum og skilríkjum, þar með talið samþykki meðeigenda ef um sameign er að ræða.

Um Garðarsbraut 48 gilda lög um fjöleignarhús nr. 26/1994. Samkvæmt 1. tl. 8. gr. laganna, sbr. 6. gr. þeirra, telst allt ytra byrði húss, þar á meðal þak, í sameign allra eigenda fjöleignarhússins. Í 8. tl. 5. gr. sömu laga kemur hins vegar fram að innra byrði svalaveggja og gólfflötur svala teljist til séreignar, en húsfélag hafi ákvörðunarvald um allar breytingar, búnað og annað á svölum sem áhrif hafi á útlit hússins og heildarmynd. Gólfflötur svalanna telst því séreign leyfishafa þótt þakið sé að öðru leyti í sameign.

Í 26. gr. laga um fjöleignarhús segir að eigandi hafi einn rétt til hagnýtingar og umráða yfir séreign sinni með þeim takmörkunum einum sem greinir í lögunum eða öðrum lögum sem leiðir af óskráðum grenndarreglum eða eðli máls eða byggjast á löglegum ákvörðunum og samþykktum húsfélagsins. Er eiganda skylt á sinn kostnað að halda allri séreign sinni vel við og að haga afnotum og hagnýtingu hennar með þeim hætti að aðrir eigendur eða afnotahafar í húsinu verði ekki fyrir ónauðsynlegu og óeðlilegu ónæði, þ.e. meiri ama, ónæði og óþægindum en óhjákvæmilegt er og eðlilegt þykir í sambærilegum húsum.

Af gögnum málsins er ljóst að framkvæmdir við uppsetningu á setlaug á þaki hússins hófust eftir að kærandi eignaðist eignarhluta sína í húsinu. Í 27. gr. laga um fjöleignarhús er fjallað um breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi og er þar gert ráð fyrir að meðeigendur samþykki breytta hagnýtingu nema sýnt sé að hún hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum þeirra. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur ekki fyrir að hagnýting þaksvalanna undir setlaug raski ein og sér hagsmunum kæranda með þeim hætti að samþykki hans þurfi fyrir breytingunni samkvæmt nefndu lagaákvæði. Er þá litið til þess að hið umdeilda byggingarleyfi var meðal annars veitt með því skilyrði að frágangur lagna yrði á þann veg að ekki væri líklegt til að valda nágranna óþægindum eða tjóni.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið bar ekki nauðsyn til að afla samþykkis kæranda fyrir umdeildri setlaug áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Verður kröfu hans um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 13. október 2010 um að veita leyfi fyrir setlaug á þaki Garðarsbrautar 48, Húsavík.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson
 

100/2014 Löngubrekka

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 5. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 100/2014, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2014, sem barst nefndinni 12. s.m., kæra eigendur fasteignar að Löngubrekku 1 þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 14. janúar 2015, sem barst nefndinni 16. s.m., kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 18. desember 2014 um að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús að Löngubrekku 2. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að baki síðari kærunni verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 7/2015, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 30. október 2014 og 23. janúar 2015.

Málavextir: Hinn 18. mars 2014 var á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar tekin fyrir umsókn frá 13. s.m. um breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2. Í henni fólst bygging tveggja hæða fjölbýlishúss með kjallara. Gert var ráð fyrir fimm íbúðum í húsinu og 10 bílastæðum á lóðinni, tveimur með aðkomu frá Löngubrekku og átta frá Laufbrekku. Var samþykkt að grenndarkynna tillöguna og var það gert 25. s.m. með athugasemdafresti til og með 2. maí s.á. Bárust athugasemdir frá hagsmunaðilum, þ.á m. frá kærendum. Var þeim svarað af skipulagsnefnd með bréfi, dags. 20. s.m. Sama dag var tillagan tekin fyrir á ný á fundi skipulagsnefndar þar sem henni var hafnað og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Hinn 22. s.m. var erindið tekið fyrir á fundi bæjarráðs og afgreiðslu þess frestað. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi bæjarráðs hinn 5. júní s.á. og því vísað aftur til skipulagsnefndar til úrvinnslu. Hinn 21. júlí s.á. var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar og þá bókað að erindið væri lagt fram að nýju ásamt viðbótargögnum lóðarhafa, þar sem komið væri til móts við innsendar athugasemdir. Var málinu frestað en það tekið fyrir að nýju hinn 28. júlí og þá bókað að heildarbyggingarmagn yrði 512 m², nýtingarhlutfall yrði 0,65 og bílastæði yrðu áfram tíu, líkt og í gildandi deiliskipulagi. Var framlögð tillaga samþykkt með áorðnum breytingum og sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarráðs hinn 14. ágúst s.á. Var hagsmunaaðilum tilkynnt um afgreiðsluna með bréfi, dags. 18. ágúst 2014, og hún síðan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 21. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að forsögu málsins megi rekja til ársins 2006 þegar deiliskipulagsgerð fyrir Löngubrekku 2 hafi hafist. Henni hafi frá upphafi verið mótmælt af hálfu íbúa í nágrenninu. Sé ekki vilji fyrir því að hafa svona stóra byggingu í eins litlum botnlanga og Langabrekka sé, sem hafi aðeins að geyma fasteignir með nýtingarhlutfall í kringum 0,3, en nýtingarhlutfall hins umdeilda fjölbýlishúss sé 0,7. Eldra skipulag, sem samþykkt hafi verið árið 2007, hafi leyft byggingu þríbýlis á lóðinni. Með tillögu að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið sótt um sjö íbúðir. Þeim hafi síðan verið fækkað niður í fimm, en þær séu þó enn of margar. Ekki sé hægt að sættast á fleiri en þrjár íbúðir líkt og áður hafi verið gert ráð fyrir.

Í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 sé tekið fram að fyrirhugaðar breytingar á einstökum lóðum eða hluta götureita í eldri hverfum bæjarins skuli ekki raska yfirbragði aðliggjandi byggðar þar sem m.a. sé gætt samræmis hvað varði götumynd, hlutföll bygginga og byggingarlistar. Með hliðsjón af framangreindu sé það óskiljanlegt hvernig hægt sé að heimila fjölbýli í götu þar sem aðeins sé að finna einbýli- og tvíbýli.

Í svari skipulagsnefndar við þeim athugasemdum sem borist hafi vegna breytingartillögunnar sé viðurkennt að hin kærða deiliskipulagsbreyting muni hafa í för með sér aukinn bílastæðavanda. Einnig sé viðurkennt að fyrirhuguð nýbygging sé stærri og meiri en nærliggjandi hús, sem og að nokkrar lóðir á umræddum reit séu stærri að flatarmáli en lóðin við Löngubrekku 2. Geti umrædd bygging því verið fordæmisgefandi. Telji kærendur þetta ekki í samræmi við aðalskipulag bæjarins. Á árinu 2012, þegar kærendur hafi keypt húsið að Löngubrekku 1, hafi þau kannað hvort að framkvæmdir væru fyrirhugaðar á lóðinni Löngubrekku 2. Hafi þeim þá verið tjáð af starfsmönnum skipulags- og byggingarsviðs bæjarins að byggingarleyfi, sem hafi átt stoð í greindu deiliskipulagi frá 2007, væri fallið úr gildi og ef byggja ætti á lóðinni yrði aldrei gert ráð fyrir fleiri en þremur íbúðum, líkt og heimilað væri í deiliskipulaginu.

Að auki megi velta því fyrir sér hvort að um sé að ræða pólitíska ákvörðun þar sem breytingartillögunni hafi verið hafnað fyrir síðustu kosningar en hún hafi svo verið send aftur til úrvinnslu skipulagsnefndar strax að loknum kosningum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að fyrra deiliskipulag hafi heimilað byggingu á tveggja hæða húsi og kjallara með þremur íbúðum. Hið breytta skipulag sé innan þess byggingarreits sem samþykktur hafi verið árið 2007. Sé stærð hússins því í samræmi við skipulag. Að auki hafi umfang hússins verið minnkað frá því sem upphaflega hafi verið lagt til og sé nýtingarhlutfall nú 0,65.

Hafnað sé ályktunum um að um pólitíska ákvörðun hafi verið að ræða. Skipulagsnefnd hafi ekki fullnaðarvald í málum sem varði breytingar á skipulagi heldur sé endanlegt ákvörðunarvald í höndum bæjarstjórnar, eða eftir atvikum bæjarráðs. Sé því mögulegt að mál sé sent á ný til skipulagsnefndar til frekari skoðunar hafi bæjarráð ekki fallist á tillögu nefndarinnar. Við meðferð málsins hjá skipulagsnefnd, eftir að bæjarráð hafi vísað erindinu til baka, hafi verið lögð fram ný gögn með breytingum sem hafi falið í sér minna flatarmál hússins. Hafi greindar breytingar verið forsenda fyrir því að breytingartillagan hafi verið samþykkt. Sé því ekki að sjá að ómálefnaleg eða pólitísk sjónarmið hafi ráðið niðurstöðunni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að við kaup hans á lóðinni Löngubrekku 2 haustið 2013 hafi verið í gildi deiliskipulag fyrir lóðina sem heimilað hafi þriggja hæða 615 m2 byggingu, tvö bílastæði í Löngubrekku og átta bílastæði við Laufbrekku/Bröttubrekku. Hafi samþykkt nýtingarhlutfall verið 0,77 og byggingarreiturinn 276 m2. Deiliskipulagið hafi einnig gert ráð fyrir sléttu þaki, sem ekki hafi samræmst götumyndinni. Upphaflega hafi verið skilað inn breytingartillögu til Kópavogsbæjar sem hafi gert ráð fyrir sjö íbúðum, en endanleg tillaga hafi hljóðað upp á fimm íbúðir. Fyrirhuguð bygging samkvæmt hinni kærðu breytingartillögu sé rúmum 100 m2 minni en gert hafi verið ráð fyrir í eldra deiliskipulagi. Að auki sé nýtingarhlutfallið nú 0,65 og gert sé ráð fyrir hallandi bárujárnsþaki, sem sé í samræmi við götumynd. Muni byggingin því verða minni en eldra deiliskipulag hafi gert ráð fyrir.

——————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarráðs á breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2 sem gerir ráð fyrir fimm íbúða fjölbýli ásamt 10 bílastæðum á lóð. Er og deilt um gildi byggingarleyfis þess er styðst við hið breytta deiliskipulag.

Á árinu 2007 var samþykkt deiliskipulag fyrir lóðina eina og sér þar sem heimiluð var bygging 615 m2 fjölbýlis, með þremur íbúðum og hámarksnýtingarhlutfalli 0,77, ásamt sex bílastæðum á lóð og fjórum stæðum í bílgeymslu. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er hins vegar veitt heimild fyrir 511,9 m2 fjölbýli með fimm íbúðum, hámarksnýtingarhlutfalli 0,65 og 10 bílastæðum á lóð. Deiliskipulagsbreytingin var grenndarkynnt samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og áttu kærendur þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar. Að lokinni grenndarkynningu var tekin afstaða til athugasemda kærenda og þeim svarað. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð hennar því í samræmi við skipulagslög.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting tekur til lóðar á svæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er merkt íbúðarsvæði, ÍB2, Digranes. Svæðinu er lýst sem fastmótaðri byggð með mjög blönduðum húsagerðum, þó mest fjölbýli, og er gert ráð fyrir fjölgun íbúða á svæðinu. Í aðalskipulaginu er lögð áhersla á góða nýtingu lands og landgæða og að mótun byggðarinnar tryggi sjálfbærni og hagkvæma uppbyggingu, sem felist m.a. í þéttingu byggðar. Jafnframt er lögð áhersla á blandaða byggð með fjölbreyttu framboði húsnæðis, þjónustu og útivistar. Verður ekki annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana sé jafnframt fullnægt.

Sveitarstjórnum er veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Fallast má á að einhver grenndaráhrif geti fylgt heimiluðum framkvæmdum en svo sem áður er rakið er með hinni kærðu ákvörðun dregið úr byggingarmagni og hámarksnýtingarhlutfalli frá gildandi deiliskipulagi. Þá er gert ráð fyrir sama fjölda bílastæða og áður og að þau verði öll ofanjarðar og innan lóðar. Er áfram gert ráð fyrir aðkomu að sama fjölda þeirra frá Löngubrekku. Verður ekki séð að fjölgun íbúða um tvær muni hafa í för með sér teljandi aukningu á umferð eða annað óhagræði fyrir nágranna fjölbýlisins.

Umrædd lóð er deiliskipulögð ein og sér og tekur deiliskipulagið því ekki til svæðis sem myndar heildstæða einingu í skilningi 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Lögun þaks byggingarinnar var breytt við meðferð skipulagstillögunnar og þegar litið er til þess að við sömu götu er að finna annað fjölbýli, bæði þríbýli og fjórbýli, verður ekki á það fallist að umrædd bygging sé í ósamræmi við götumynd.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi á sér stoð í gildandi deiliskipulagi. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvarðanatöku, verður kröfu kærenda um ógildingu leyfisins hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2, Kópavogi.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 18. desember 2014 um að samþykkja leyfi til að byggja fjölbýlishús að Löngubrekku 2, Kópavogi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

1/2015 Hólmbergsbraut

Með
Árið 2015, föstudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2015, kæra á samþykkt byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 13. nóvember og 10. desember 2014 um að veita leyfi fyrir smávægilegum breytingum á innra skipulagi og til að bæta við innkeyrsludyrum á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101, Reykjanesbæ, og á samþykkt byggingarfulltrúa einnig frá 10. desember 2014 á teikningum vegna breytinga á frárennsli og niðursetningu olíuskilju á sömu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. janúar 2015, sem barst nefndinni 8. s.m., kærir Björg Ásta Þórðardóttir lögfræðingur, f.h. Summus ehf., eiganda eignarhluta 0110 við Hólmbergsbraut 1, þá samþykkt byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 13. nóvember og 10. desember 2014 að veita leyfi fyrir breytingu á innra skipulagi og bæta við innkeyrsludyrum á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi hvað varðar innkeyrsludyr. Að auki er þess krafist að ákvörðun byggingarfulltrúans frá 10. desember s.á. um að samþykkja teikningar vegna breytinga á frárennsli og niðursetningu olíuskilju á sömu lóð verði felld úr gildi og að leyfishafa verði gert að fjarlægja nefnda olíuskilju að viðlögðum dagsektum. Loks er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Var fallist á þá kröfu í úrskurði uppkveðnum 30. janúar 2015.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 20. janúar og 18. febrúar 2015.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar hinn 13. nóvember 2014 var samþykkt umsókn Blue Car Rental ehf. um leyfi til að breyta innra skipulagi og setja innkeyrsludyr á vesturhlið Hólmbergsbrautar 2 [svo], matshluta 0101, en húsið er fjöleignarhús sem skiptist í 10 séreignarhluta. Sama dag var haldinn fyrsti aðalfundur húsfélagsins Hólmbergsbraut 1, þar sem leyfishafi gerði grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum, sem og því að koma ætti fyrir olíuskilju sem væri í hans eigu. Með bréfi, dags. 19. s.m., var leyfishafa tilkynnt um samþykkt á umsókn hans um byggingarleyfi fyrir smávægilegum breytingum á innra skipulagi og innkeyrsludyrum á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1 samkvæmt aðaluppdráttum, dags. 27. október 2014. Hinn 24. nóvember s.á. var greindri olíuskilju komið fyrir.

Hinn 10. desember 2014 samþykkti byggingarfulltrúi annars vegar uppdrætti, dags. 27. október s.á., vegna breytinga á innra skipulagi og nýrra innkeyrsludyra og hins vegar uppdrætti, dags. 5. nóvember s.á., vegna olíuskilju og breytinga á frárennsli tengdum henni.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að hin kærða framkvæmd sé byggingarleyfisskyld á grundvelli 9. gr. laga um mannvirki og beri að afla samþykkis sameigenda svo slík framkvæmd sé heimil, sbr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Ótækt sé að leyfishafi hafi það í hendi sér hvernig heildarútlit fasteignarinnar sé án nokkurs samráðs við aðra eigendur fasteignarinnar. Hafi leyfishöfum borið að leita samþykkis annarra eigenda áður en umsókn hafi verið lögð inn. Að auki hafi leyfishafar fengið leyfi til að framkvæma breytingu á sameignarlóð án fyrirliggjandi samþykkis ⅔ hluta eigenda fasteignarinnar, sbr. 2. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga. Framkvæmdin felist í niðursetningu á tæplega 7 m langri olíuskilju sem tengist sameiginlegum frárennslislögnum. Sé greind framkvæmd byggingarleyfisskyld og eigi sér stað utan við sérafnotaflöt matshluta 0101 samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu. Takmarki framkvæmdin möguleika annarra meðeigenda til að setja niður olíuskilju vegna starfsemi sinnar. Sé ljóst að samþykki sameigenda lóðarinnar hafi ekki legið fyrir og hafi byggingarfulltrúa því verið óheimilt að samþykkja teikninguna sem hafi legið umræddum framkvæmdum til grundvallar. Af þeim sökum beri að fella ákvörðun byggingarfulltrúa úr gildi og skylda leyfishafa til að fjarlægja umrædda olíuskilju. Sé ljóst að hin kærða ákvörðun sé ólögmæt og að umþrættar framkvæmdir séu til tjóns fyrir aðra meðeigendur, þ.á m. kæranda.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að kæran sé of seint fram komin þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið tekin 13. nóvember 2014 en kæran hafi ekki borist fyrr en tæpum tveimur mánuðum síðar.

Leyfishöfum hafi verið bent á að ræða við meðeigendur og fá formlegt samþykki vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Að auki hafi verið bent á að þar sem húsið væri fjöleignarhús væri rétt að koma á fót formlegu húsfélagi. Hafi umræða meðeigenda um útlitsbreytingu, þ.e. að bæta við innkeyrsludyrum, verið jákvæð og sumir upplýst að þeir hefðu áhuga á að gera slíkt hið sama við sína eignarhluta. Afgreiðsla byggingarfulltrúa á umsókn leyfishafa um byggingarleyfi fyrir minniháttar breytingum á innra skipulagi og óverulegri útlitsbreytingu hafi því verið jákvæð. Að mati embættisins feli framkvæmdin ekki í sér aukin umsvif í starfsemi leyfishafa og sé hún á engan hátt íþyngjandi fyrir meðeigendur hússins. Kostnaður við framkvæmdina sé alfarið á hendi eigenda eignarhluta 0101 og viðhaldskostnaður á ytri skel hússins muni ekki aukast.

Byggingarfulltrúi hafi tekið tillit til þeirra sjónarmiða leyfishafa að ekki sé fýsilegt að deila olíuskilju með samkeppnisaðilum. Hafi leyfishafi sótt það fast að vera með sjálfstæðan búnað á sérafnotafleti lóðar. Rökin séu fyrst og fremst þau að ekki sé samkomulag milli meðeigenda um sameiginlega olíuskilju fyrir allt húsið. Grundvallist útgáfa starfsleyfis frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja á því að viðurkenndur hreinsibúnaður sé á frárennsli frá mengandi starfsemi og hafi heilbrigðiseftirlitið ekki gert athugasemdir við umþrætta olíuskilju.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi telur að vísa eigi málinu frá þar sem kæran sé of seint fram komin. Verði ekki fallist á þau rök sé á það bent að leyfishafi sé í beinni samkeppni við kæranda málsins. Teikningar hafi fylgt með byggingarleyfisumsókn, sem hafi sýnt greinilega hvað fælist í fyrirhuguðum framkvæmdum og hafi þær verið kynntar byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar. Nauðsynlegt hafi verið að setja upp umþrætta olíuskilju þar sem heilbrigðisnefnd Suðurnesja hafi gert það að skilyrði fyrir starfsleyfi.

Á húsfundi hafi leyfishafi kynnt fyrir fundarmönnum samþykkt byggingaráform um að bæta við innkeyrsludyrum og setja niður olíuskilju. Hafi hvorki verið gerðar athugasemdir af hálfu kæranda á fundinum né annarra eigenda. Á fundinum hafi kærandi komið með þá tillögu að allir eigendur skyldu í sameiningu koma upp olíuskilju og hafi hann ætlað að leita eftir tilboðum. Hafi leyfishafi ekki getað beðið eftir þeirri athugun og því farið í framkvæmdir í samræmi við útgefið byggingarleyfi. Fylgi því áhætta að hafa sameiginlega olíuskilju en að auki myndi slík framkvæmd taka tíma sem leyfishafi hefði ekki haft. Þrátt fyrir að ekki hafi fylgt formlegt samþykki annarra eigenda með byggingarleyfisumsókninni þá liggi engu að síður fyrir að byggingarleyfið hafi verið kynnt öðrum sameigendum á húsfundi 13. nóvember 2014, án sérstakra athugasemda. Hafi því mátt líta svo á að sameigendur væru samþykkir framkvæmdinni. Framkvæmdirnar séu ekki verulegar og þarfnist ekki samþykkis allra sameigenda skv. 1. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga. Þær snúi fyrst og fremst að séreign leyfishafa og snerti ekki aðra sameigendur. Olíuskiljan sé að öllu leyti niðurgrafin á sérafnotafleti leyfishafa og hvíli lögboðin skylda á honum að koma henni fyrir. Um slíkar framkvæmdir gildi 2. mgr. 37. gr. fjöleignarhúsalaga, sem heimili leyfishafa framkvæmdina án sérstaks samþykkis. Þá sé því mótmælt að olíuskilja leyfishafa komi á einhvern hátt í veg fyrir að kærandi geti sett niður olíuskilju á eigin sérafnotafleti.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingar á innra skipulagi og uppsetningu á innkeyrsludyrum á einum eignarhluta af tíu í atvinnuhúsnæði við Hólmbergsbraut 1. Er og deilt um samþykkt byggingarfulltrúa á teikningum vegna greindra framkvæmda sem og á teikningum vegna breytinga á frárennsli og niðursetningar olíuskilju á sömu lóð. Auk þess krefst kærandi þess að úrskurðarnefndin geri leyfishafa að fjarlægja olíuskiljuna að viðlögðum dagsektum. Beiting slíkra þvingunarúrræða er ekki á forræði úrskurðarnefndarinnar, sbr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og tekur nefndin því aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests ræðst af því hvenær kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um efni kæranlegrar ákvörðunar miðað við málsatvik.

Í málinu liggur fyrir að byggingaráform voru samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. nóvember 2014. Bókun byggingarfulltrúa tilgreinir umsókn um byggingarleyfi að Hólmbergsbraut 2 fyrir smávægilegum breytingum á innra skipulagi og að einnig sé verið að bæta við innkeyrsludyrum á vesturhlið samkvæmt aðaluppdráttum, dags. 27. október s.á. Þeir uppdrættir voru hins vegar ekki samþykktir fyrr en 10. desember s.á, eða tæpum mánuði eftir að byggingaráform voru samþykkt. Hafa þær skýringar fengist af hálfu sveitarfélagsins að þær hafi verið ranglega merktar Hólmbergsbraut 2 í stað Hólmbergsbraut 1 og því hafi verið farið fram á leiðréttar teikningar. Hvorki byggingarleyfisumsóknin né samþykkt byggingarfulltrúa á byggingaráformum ber með sér framkvæmdir vegna olíuskilju. Hins vegar liggur fyrir í málinu uppdráttur, dags. 5. nóvember 2014, þar sem gert er ráð fyrir niðursetningu á tæplega sjö metra olíuskilju og breytingum á frárennsli vegna þess. Er sá uppdráttur einnig áritaður um samþykki 10. desember s.á. Með hliðsjón af framangreindu verður að líta svo á kærandi hafi ekki getað gert sér fyllilega grein fyrir því hvaða framkvæmdir hefðu verið samþykktar fyrr en með áritun aðaluppdrátta þar um, eins og áður er lýst. Miðast upphaf kærufrests við það tímamark, þ.e. 10. desember 2014. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 8. janúar 2015, eða innan lögmælts kærufrests, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 8. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, sbr. einnig 6. gr. laganna, telst allt ytra byrði húss í sameign allra eigenda fjöleignarhúss. Gildir það þótt fjöleignarhús samanstandi af einingum sem eru sjálfstæðar eða aðgreindar að einhverju leyti, sbr. 2. mg. nefndrar 6. gr. Þá fellur öll lóð húss og mannvirki, búnaður og tilfæringar á henni undir sameign fjöleignarhúss, sbr. 5. tl. 8. gr. Allir eigendur sameignar í fjöleignarhúsi eiga óskoraðan rétt á að taka þátt í öllum ákvörðunum er varða sameignina, bæði innan húss sem utan, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna. Samkvæmt 30. gr. sömu laga verða ekki gerðar breytingar á sameign nema með samþykki meðeiganda. Hvað sem líður fyrirkomulagi sérafnotaflata leyfishafa og annarra eigenda Hólmbergsbrautar 1 sem lýst er í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu stendur fjöleignarhúsið samkvæmt sömu eignaskipatyfirlýsingu á lóð sem er í „hlutfallslegri en óskiptri sameign“. Er af öllu því sem að framan er rakið ljóst að samþykkis meðeiganda var þörf fyrir hinum umþrættu byggingaráformum að því er varðaði innkeyrsludyr, breytingar á frárennsli og lagningu olíuskilju, enda um að ræða hluta sameignar fjöleignarhússins. Þá var ekki um að ræða framkvæmdir sem ekki gátu þolað bið í skilningi 2. mgr. 37. gr. fjöleignarhúsalaganna.

Áskilið er í 10. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 að hönnunargögn og önnur nauðsynleg gögn fylgi með umsókn um byggingarleyfi, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum fjöleignarhúsalaga. Samkvæmt gögnum málsins lá slíkt samþykki ekki fyrir við ákvarðanatöku byggingarfulltrúa. Voru því ekki lagaskilyrði fyrir samþykkt hinna umþrættu byggingaráforma og teikninga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verða hinar kærðu ákvarðanir byggingarfulltrúa felldar úr gildi, en með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir rétt að ógilda þær einungis að hluta. Eru þær því felldar úr gildi að öðru leyti en varðar breytingar á innra skipulagi Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi samþykkt byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 13. nóvember og 10. desember 2014 að því er varðar að veitingu leyfis til að bæta við innkeyrsludyrum á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101.

Felld er úr gildi samþykkt byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 10. desember 2014 á teikningum vegna breytinga á frárennsli og niðursetningu olíuskilju á lóðinni að Hólmbergsbraut 1.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

108/2014 Hleinar

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2014, kæra á ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2014 og á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 29. s.m., í umboði bæjarstjórna greindra sveitarfélaga, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum fyrir lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. október 2014, sem barst nefndinni 10. s.m., kæra íbúar við Drangagötu, Herjólfsgötu, og Klettagötu þá ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2014 og  ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 29. s.m. að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum fyrir lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu, Hafnarfirði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Að auki er gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. Var kröfu kærenda um að yfirvofandi framkvæmdir yrðu stöðvaðar hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum, 2. desember 2014.

Með bréfi, dags. 9. janúar 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir W Drangagötu 1, Hafnarfirði, ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 5. nóvember 2014 um að veita leyfi til að byggja tvö 16 íbúða fjölbýlishús ásamt sameiginlegri bílgeymslu. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og einn af kærendum fyrra málsins stendur að baki síðari kærunni verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 5/2015, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til síðari stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðabæ 22. október 2014 og 21. janúar 2015.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar hinn 11. mars 2014 og hjá skipulagsnefnd Garðabæjar hinn 10. apríl s.á., var tekin fyrir umsókn um breytingu á sameiginlegu deiliskipulagi Garðabæjar og Hafnarfjarðar fyrir Hleina að Langeyrarmölum vegna lóðanna Herjólfsgötu 30-34. Fólst breytingin í því að lóðirnar Herjólfsgata 30, 32 og 34 yrðu sameinaðar í eina lóð þar sem gert væri ráð fyrir tveimur fjögurra hæða byggingum með 32 íbúðum og bílakjallara. Samþykkt var að auglýsa tillöguna til kynningar og var það gert 6. maí 2014 með fresti til athugasemda til 18. júní s.á. Athugasemdir bárust frá ellefu einstaklingum, þ. á m. frá kærendum. Hin kynnta skipulagstillaga var síðan tekin fyrir og samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar hinn 8. júlí 2014 og í skipulagsnefnd Garðabæjar 28. s.m. Bæjarráð Hafnarfjarðar staðfesti samþykki tillögunnar í umboði bæjarstjórnar 10. júlí 2014 og bæjarráð Garðabæjar gerði slíkt hið sama 29. s.m., einnig í umboði bæjarstjórnar. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2014.

Hinn 5. nóvember 2014 var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir áður greindum fjölbýlishúsum við Herjólfsgötu 30-34 á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar og hefur sú ákvörðun jafnframt verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að grenndarréttur nágranna fyrirhugaðra fjölbýlishúsa sé verulega skertur. Muni íbúar Herjólfsgötu 26 og Drangagötu 1 búa í 25 metra fjarlægð frá fyrirhuguðum nýbyggingum og útsýni þeirra muni skerðast. Útsýni muni einnig skerðast hjá íbúum við Klettagötu. Þá muni fjölbýlishúsin varpa skugga á lóðir húsa í 25 m fjarlægð sérstaklega á þeim árstíma þegar sól sé lágt á lofti. Að auki muni innsýn valda óþægindum vegna háreistari nýbygginga í sjónlínu við glugga húsanna og aukið ónæði verði vegna aukinnar umferðar um götu.

Undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi í ýmsu verið ábótavant. Vindálag á núverandi byggingar sé óþekkt en vitað sé að vindasamt geti verið á svæðinu. Nauðsynlegt hafi verið að reikna út hvaða áhrif trekkur geti haft á milli húsa enda geti slíkir vindsveipir valdið húseigendum tjóni. Ekki hafi verið auglýst af hálfu bæjaryfirvalda að eldra deiliskipulag skyldi falla úr gildi og ekki hafi verið leitað umsagna frá viðeigandi stofnunum, s.s. Umhverfisstofnun, sem eigi hagsmuna að gæta vegna breyttrar landnýtingar við friðlýst svæði við Hleina. Þá sé ekki í anda aðalskipulags Hafnarfjarðar að breyta grónu íbúðarhverfi hjá vinsælum friðlýstum útivistarstað í fjölbýlishúsahverfi. Aðalskipulag gangi framar deiliskipulagi og beri að taka fullt tillit til þess við breytingar á deiliskipulagi.

Svör skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar við athugasemdum við deiliskipulagið séu ekki fullnægjandi. Svörin einkennist af huglægu mati og séu án nokkurs rökstuðnings eða rannsókna. Ekki hafi verið komið til móts við athugasemdir íbúa eins og krafa sé um. Tilgangslaust sé að auglýsa eftir athugasemdum ef þeim sé ekki svarað með rökum. Að auki hafi ekki verið sýnt fram á nokkra útreikninga varðandi skuggavarp á svæðinu heldur hafðar uppi órökstuddar staðhæfingar í því efni. Útgáfur umrædds skipulags hafi verið með ýmsu móti undanfarin ár og sé orðið tímabært að Hafnarfjörður haldi sig við útgefið deiliskipulag lengur en nokkur ár í senn svo íbúar viti hverju þeir gangi að þegar þeir flytji í hverfi bæjarins.

Umdeildar fjölbýlishúsabyggingar falli ekki að eldri byggð og óeðlilegt sé að Hafnarfjarðarbær semji eða gefi loforð um breytt deiliskipulag áður en íbúar hafi haft tækifæri til að koma að athugasemdum, en íbúðir í fyrirhuguðum húsum hafi þegar verið auglýstar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að ekki hafi verið farið með deiliskipulagsbreytinguna sem óverulega, heldur hafi málsmeðferðin verið í samræmi við almenn ákvæði 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við gerð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið reynt að minnka þau áhrif sem nýbyggingarnar gætu haft, t.d. með því að minnka byggingarmagn frá eldri tillögu sem úrskurðarnefndin á sínum tíma felldi úr gildi. Að auki hafi byggingarnar verið færðar aftar í lóðina og fjær lóðarmörkum en fyrri tillaga hafi gert ráð fyrir til að minnka áhrif skuggavarps á lóð við Drangagötu. Þá hafi þær verið stallaðar til að draga úr skerðingu útsýnis, sem nú teljist óveruleg. Þakform húsanna taki mið af húsum sunnan við lóðina, en hæðin taki mið af húsum við Herjólfsgötu 36-40.

Markmið Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013-2025 sé að þétta núverandi byggð þar sem það eigi við, m.a. með endurskipulagningu vannýttra svæða. Sama markmið hafi verið sett fram í eldra aðalskipulagi. Telji bæjaryfirvöld að lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu séu vannýttar og sé þar kjörið þéttingarsvæði í anda gildandi og eldra aðalskipulags. Að auki sé bent á að athugasemdum kærenda hafi verið svarað skriflega og athugun vegna skuggavarps hafi legið fyrir 8. júlí 2014.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Leyfishafi bendir á að lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu standi utan við friðlýst svæði en mörk þess liggi við ofanverð lóðarmörk þeirra, sbr. auglýsingu nr. 399/2009 sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 3. apríl 2009. Sé lögð áhersla á að hinu friðlýsta svæði verði ekki raskað. Undirbúningur að breytingu á deiliskipulagi svæðisins hafi þegar verið byrjaður þegar leyfishafi hafi tekið við skyldum lóðarleigutaka árið 2014. Breytingarnar hafi miðast við að ná fram aukinni hagkvæmni við uppbyggingu á lóðunum til samræmis við yfirlýst markmið aðalskipulags Hafnarfjarðar um þéttingu byggðar og nýtingu á óbyggðum lóðum innan sveitarfélagsins. Skipulagsbreytingin hafi verið gerð í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og afgreiðsla því verið í samræmi við málsmeðferðarreglur. Þó að breytingarnar séu ekki óverulegar sé ekki gerð krafa um að gert sé nýtt deiliskipulag fyrir allt svæðið og eldra deiliskipulag fellt úr gildi nema fyrirhugað sé að gera grundvallarbreytingar, t.d. varðandi landnotkun, byggðamynstur eða yfirbragð alls svæðisins.

Umtalsverð uppbygging hafi átt sér stað á svæðinu á undanförnum árum og hafi m.a. verið reist 4-5 hæða fjölbýlishús á Herjólfsgötu 36-40. Fyrirhugaðar nýbyggingar samræmist vel þeim fjölbýlishúsum, þrátt fyrir að vera nokkuð lágreistari, og muni húsin mynda samfellda götumynd í jaðri hverfisins. Geti eigendur fasteigna alltaf vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagsáætlunum sem geti leitt til skerðingar á útsýni, aukinnar umferðar eða annars konar breytinga á umhverfi þeirra. Þurfi íbúar að sæta því að slík gæði séu skert með almennum hætti. Þótt eigendur fasteigna í grónum íbúðarhverfum megi almennt reikna með stöðugleika í skipulagi verði ekki hjá því litið að hér sé um að ræða lóðir sem hafi verið verulega vannýttar. Þær hafi ýmist verið óbyggðar um nokkurra ára skeið eða með mannvirkjum í niðurníðslu.

Við útfærslu á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið tekið tillit til hagsmuna kærenda. Byggingarreitir hafi verið færðir fjær eignum kærenda og innar á lóðina og byggingarmagn minnkað frá upphaflegri tillögu. Hafi Hafnarfjarðarbær látið vinna sérstaka athugun á skuggavarpi nýbygginganna og af þeim gögnum sé ljóst að ekkert skuggavarp verði af þeim á nærliggjandi hús á þeim tíma sem sól sé hæst á lofti. Þá sé að sama skapi ljóst að aðeins lítils háttar skuggavarp verði af byggingunum að kvöldlagi sem aðeins hafi áhrif á íbúðarhús eins kæranda að Drangagötu 1. Ekkert skuggavarp verði á fasteignir annarra kærenda. Áhrif skuggavarpsins sé ekki meira en fólk þurfi almennt að búa við í þéttbýli. Eigi fullyrðingar um innsýn ekki við rök að styðjast. Byggingarnar hafi verið færðar eins langt frá mörkum lóða kærenda og kostur hafi verið og hafi einnig verið gert ráð fyrir að hraunklettur yrði látinn óhreyfður til þess að lágmarka áhrif nýbygginganna á hagsmuni kærenda.

——————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum fyrir lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu í Hafnarfirði. Felur skipulagsbreytingin í sér að lóðir við Herjólfsgötu verða sameinaðar og er gert ráð fyrir tveimur fjögurra hæða fjölbýlishúsum. Er einnig deilt um samþykki umsóknar um byggingarleyfi fyrir þeim framkvæmdum.

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga nr. 123/2010 um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna, og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar. Að lokinni auglýsingu var tekin afstaða til athugasemda kærenda og þeim svarað. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð tillögunnar þannig í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting tekur til lóða á svæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 er merkt íbúðarsvæði, ÍB3, Vesturbær. Svæðinu er lýst sem gömlum bæjarhluta í nábýli við miðbæ Hafnarfjarðar sem fyrirhugað sé að haldi yfirbragði sínu. Í aðalskipulaginu er lögð áhersla á að fullnýta byggingarmöguleika sem eru í nánasta umhverfi við miðbæinn áður en uppbygging hefjist á svæðum sem fjær eru. Að auki er þétting byggðar eitt af markmiðum þess sem og endurnýting vannýttra lóða. Með hinni kærða deiliskipulagsbreytingu er stefnt að þéttingu byggðar á svæði í göngufjarlægð við miðbæ Hafnarfjarðar með uppbyggingu á fyrrgreindum lóðum. Á næstu lóðum, nr. 36-40, við götuna hafa verið reist sambærileg fjölbýlishús og að því leyti falla fyrirhuguð hús að götumynd sem fyrir er. Gefa teikningar af hinum umdeildu framkvæmdum til kynna að húsin verði ekki stærri en fjölbýlishúsin sem fyrir standa við götuna. Með hliðsjón af framangreindu voru hinar umdeildu deiliskipulagsbreytingar í samræmi við stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana jafnframt fullnægt.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvaldið og bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Er sveitarstjórnum því veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga markmið þau sem tíunduð eru í a- til c-liðum 1. mgr. 1. gr. laganna um að við þróun byggðar sé tekið mið af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum landsmanna, að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og að tryggja að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Fallast má á að einhver grenndaráhrif geti fylgt heimiluðum framkvæmdum samkvæmt umdeildri skipulagsbreytingu sem felast einkum í útsýnisskerðingu, auknu skuggavarpi og umferð, en við undirbúning skipulagstillögunnar var leitast við að draga úr þeim áhrifum með því að minnka byggingar og breyta staðsetningu þeirra miðað við eldri tillögu frá árinu 2006. Samkvæmt fyrirliggjandi könnun sveitarfélagsins á skuggavarpi mun það ekki verða verulegt gagnvart fasteignum kærenda.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar á hið kærða byggingarleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi. Með vísan til þess og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvarðanatöku verður gildi leyfisins ekki raskað.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2014 og á ákvörðun Garðabæjar frá 29. s.m., í umboði bæjarstjórna greindra sveitarfélaga, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum fyrir lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu, Hafnarfirði.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. nóvember 2014 um að samþykkja leyfi til að byggja tvö 16 íbúða fjölbýlishús ásamt sameiginlegri bílgeymslu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

67/2013 Hólmgarður

Með
Árið 2015, föstudaginn 13. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. desember 2012 um að veita byggingarleyfi til að hækka ris hússins á lóð nr. 19 við Hólmgarð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júlí 2013, er barst nefndinni 12. s.m., kærir G, Hólmgarði 17, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. desember 2012 að heimila með byggingarleyfi notkun á öðru þakefni en því sem upprunalega var samþykkt á teikningum frá 1994 á húsi nr. 19 við Hólmgarð. Verður að skilja málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hið kærða leyfi verði fellt úr gildi hvað varðar val á þakefni á húsi nr. 19 við Hólmgarð.

Með bréfi, dags. 2. desember 2014, kærir sami aðili ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júlí 2014 um að samþykkja núverandi innra og ytra fyrirkomulag hússins á lóðinni nr. 19 við Hólmgarð. Verður að skilja kröfugerð kærenda með sama hætti og áður, þ.e. að ákvörðunin verð felld úr gildi hvað varðar val á þakefni á húsi nr. 19 við Hólmgarð. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðilinn stendur að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 122/2014, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 7. nóvember 2014.

Málavextir: Húsið við Hólmgarð 17-19 er sambyggt fjórbýlishús. Á fundi byggingarnefndar Reykjavíkurborgar 13. október 1994 var tekin fyrir sameiginleg umsókn kæranda og þáverandi eiganda efri hæðar Hólmgarðs 19 um leyfi til að lyfta þaki hússins nr. 17-19 við Hólmgarð. Umsókninni fylgdi samþykki allra eigenda húseignarinnar um að lyfta þaki hússins að fengnu samþykki byggingarfulltrúa og var tekið fram hver kostnaðarskipting yrði við framkvæmdina. Mun hafa verið fjallað um umsóknina sem tvær umsóknir og umsækjendum tilkynnt með bréfum, dags. 14. október 1994, um samþykki þeirra. Í bréfunum var tekið fram að veiting byggingarleyfa fyrir greindum framkvæmdum á þaki Hólmgarðs 17 og á þaki Hólmgarðs 19 væri háð því skilyrði að ráðist yrði í framkvæmdir samhliða á báðum húseignum. Á fundi sömu nefndar 27. s.m. var umsóknin aftur tekin fyrir að því er varðaði leyfi til að lyfta þaki hússins við Hólmgarð 17. Var svohljóðandi bókað: „Umsækjandi [kærandi] óskar eindregið eftir því að byggingarnefnd falli frá fyrri bókun um framkvæmdir þar sem hann hafi þegar hafið framkvæmdir með efniskaup.“ Féllst nefndin á erindi kæranda og samþykkti án skilyrða leyfi til að lyfta þaki hússins nr. 17 við Hólmgarð. Í kjölfarið hófust framkvæmdir við það hús. Ekkert varð úr framkvæmdum á þaki hússins að Hólmargarði 19.

Árið 2008 samþykkti byggingarfulltrúinn umsókn um endurnýjun á fyrra leyfi til að hækka ris hússins við Hólmgarð 19. Aftur urðu tafir á framkvæmdum og hinn 2. desember 2012 var sótt um endurnýjun á fyrri leyfum hvað varðaði Hólmgarð 19. Var takmarkað byggingarleyfi til þess að hækka ris samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 4. desember 2012 og eftirfarandi bókað: „Samþykktin fellur úr gildi við útgáfu á endanlegu byggingarleyfi.“ Hinn 11. mars 2014 sótti leyfishafi um nýtt byggingarleyfi á grundvelli reyndarteikninga og var jafnframt sótt um að hið takmarkaða byggingarleyfi yrði fellt úr gildi. Var umsóknin samþykkt af byggingarfulltrúa 8. júlí s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að sérstakt sé að ekki þurfi að fara eftir stimpluðum útlitsteikningum sem hafi verið gefnar út af hálfu byggingarfulltrúans í Reykjavík. Liggi teikningar hjá embættinu sjálfu og hafi gert það síðan 1994. Þar sem kærandi hafi það ár lagt sjálfur út í þann kostnað að láta teikna upphækkun á þaki Hólmgarðs 17-19 ætti hann að vita hvers var óskað. Kærandi, ásamt fyrri eigendum Hólmgarðs 19, hafi ákveðið að fara út í greindar framkvæmdir á húseigninni og hafi verið komist að samkomulagi um efnisval á þeim tíma. Hafi sú ásýnd sem verið var að skapa í hverfinu á þeim tíma verið höfð til hliðsjónar, en á öllum húsum þar sem farið hafi verið út í samskonar breytingar hafi stallað þakjárn verið notað.

Málsrök sveitarfélags: Af hálfu sveitarfélagsins er á því byggt að þakklæðningin sé í samræmi við samþykkta uppdrætti frá 13. október 1994. Á séruppdráttum með byggingarleyfinu sé þakefni tilgreint sem þakjárn og með teiknimáta uppdráttanna sé gefið í skyn að um bárujárn sé að ræða.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að ákvörðun byggingafulltrúa byggi á samþykktum gögnum hjá embættinu frá 1. júlí 2008 og 4. desember 2012, ásamt stimpluðum séruppdráttum sem fylgt hafi með samþykktum frá árinu 1994. Komi hvergi fram á séruppdráttum að notast skuli við stallað svart þakefni heldur hafi komið fram á sérteikningum bylgjað bárujárn. Að auki hafi þakefni á Hólmgarði 17 verið á þakinu í 19 ár og upplitast á þeim tíma. Ef nýtt svart efni hefði verið sett á Hólmgarð 19 og rennukassi málaður svartur hefði slíkt dregið fram hversu mikið þakið á Hólmgarði 17 hefði upplitast. Að auki sé það umhugsunarvert ef eigendur að einni íbúð í fjöleignarhúsi hafi lagt út í vinnu og kostnað við breytingarteikningar á heilu fjöleignarhúsi og fengið samþykki fyrir þeim breytingum hjá byggingarfulltrúa. Við breytingu á þaki Hólmgarðs 17 hafi verið notast við þakefni sem ekki hafi verið í neinu samræmi við þakefni annarra húsa í hverfinu.

——————-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er uppi ágreiningur um val á þakefni við framkvæmdir á Hólmgarði 19. Byggingarleyfi var upphaflega veitt árið 1994 og endurnýjað nokkrum sinnum. Var takmarkað byggingarleyfi samþykkt 4. desember 2012 og kært til úrskurðarnefndarinnar, en að framkvæmdum loknum var umsókn ásamt reyndarteikningum samþykkt 8. júlí 2014. Við það féll hið takmarkaða byggingarleyfi úr gildi, svo sem nánar er rakið í málavöxtum. Þar sem leyfið hefur ekki lengur réttarverkan að lögum verður þeim hluta málsins vísað frá nefndinni.

Í gildi er deiliskipulag fyrir Bústaðarhverfi frá 2004 og er fjöleignarhúsið Hólmgarður 17-19 af húsgerð B. Samkvæmt deiliskipulaginu eru um þá húsgerð aðeins sett skilyrði er varða lögun húsþaka, þ.e. valmaþök, hæð þeirra og breidd, en ekki hvað varðar þakklæðningu. Samkvæmt ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 ber að haga byggingarleyfiskyldum framkvæmdum í samræmi við samþykkta aðal- og séruppdrætti og skipulagsáætlanir, sbr. 11. og 13. gr. greindra laga. Í byggingarlýsingu á þeim teikningum sem samþykktar voru af byggingarnefnd 13. október 1994 segir að ysta þakhúð sé „bárað þakstál“. Af teikningunum verður ekki með ótvíræðum hætti ráðið um gerð þakklæðningar. Á sérteikningar aðalhönnuðar, mótteknum af byggingarfulltrúa 7. apríl 1995, er ritað orðið þakjárn og verður af þeim ráðið að um bárað form sé að ræða. Með hliðsjón af greindri byggingarlýsingu og sérteikningum verður ekki talið að byggingarleyfið frá 1994 hafi bundið efnisval við stallaða þakklæðningu, svo sem kærandi hefur haldið fram. Við málsmeðferð sveitarfélagsins á seinni byggingarleyfisumsóknum á árunum 2008 og 2012 kom fram að um endurnýjun á hinu upphaflega leyfi frá 1994 hefði verið að ræða og var þar gert ráð fyrir bárujárnsklæðningu á þaki Hólmgarðs 19. Verður ekki séð að um efnislega breytingu hafi verið að ræða. Af öllu framangreindu verður ekki annað ráðið en að val leyfishafa á hefðbundinni bárujárnsklæðningu sé í samræmi við samþykktar teikningar allt frá árinu 1994 og að fullnægt sé áðurnefndum ákvæðum mannvirkjalaga.

Svo sem áður er lýst er húsið Hólmgarður 17-19 fjöleignarhús og telur kærandi að samskonar þakefni skuli vera á þaki alls hússins. Kærandi og þáverandi eigandi efri hæðar Hólmgarðs 19 stóðu sameiginlega að upphaflegri umsókn um byggingarleyfi á árinu 1994 og fylgdi henni samþykki allra eigenda hússins. Leyfi voru veitt samkvæmt þeim teikningum sem fylgdu umsókninni og fylgja þær teikningar þinglýstum eignaskiptayfirlýsingum fyrir bæði Hólmgarð 17 og 19. Kærandi hefur haldið því fram að sátt hafi verið um efnisval en sú fullyrðing er ekki studd neinum gögnum, s.s. fundargerðum húsfélags. Samkvæmt framangreindu er ekki við annað að miða en að þáverandi eigendur Hólmgarðs 17 og 19 hafi allir verið samþykkir þeim breytingum sem fram koma á teikningunum og að samráð hafi þannig farið fram um hvernig útliti hússins skyldi háttað að framkvæmdum loknum, eins og áskilið var í þágildandi lögum nr. 59/1976 um fjölbýlishús og áskilið er nú samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Þar sem úrskurðarnefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að hin kærða framkvæmd hafi verið í samræmi við teikningarnar frá 1994 og ákvæði fjöleignarhúsalaga þykja ekki standa því í vegi var leyfishafa heimilt að ráðast í hinar kærðu framkvæmdir án frekara samráðs við aðra eigendur.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu.


Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. desember 2012, um að veita byggingarleyfi til þess að hækka ris hússins á lóð nr. 19 við Hólmgarð, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júlí 2014 um að veita byggingarleyfi til þess að hækka ris hússins á lóð nr. 19 við Hólmgarð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson