Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2013 Langabrekka

Árið 2015, fimmtudaginn 21. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 5. febrúar 2013 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr á lóð Löngubrekku 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. febrúar 2013, er barst nefndinni 5. s.m., kærir K, Löngubrekku 5, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 18. desember 2012 að hafna að endurupptaka mál er varðaði heimild til að byggja við bílskúr á lóð Löngubrekku 5. Eins og atvikum er háttað verður að skilja málskot kæranda svo að kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 5. febrúar 2013 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr á lóð Löngubrekku 5, sem felur í sér lyktir málsins. Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 12. mars 2013 og 10. mars 2015.

Málavextir: Kærandi sótti um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr á lóð sinni við Löngubrekku 5 með umsókn, dags. 23. mars 2012, en umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt. Var gert ráð fyrir að í viðbyggingunni yrði geymsla. Umsóknin var tekin fyrir hjá byggingarfulltrúa, sem vísaði henni til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsnefnd samþykkti á fundi sínum 26. apríl 2012 að grenndarkynna umsóknina og bárust athugasemdir frá lóðarhöfum Álfhólsvegar 61.

Á fundi skipulagsnefndar 18. desember 2012 var erindið tekið fyrir að nýju og var það afgreitt með svohljóðandi bókun: „Með tilvísan til 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga hafnar skipulagsnefnd að endurupptaka mál er varðar heimild til að byggja við bílskúr þar sem ekki liggur fyrir samþykki þeirra er málið varðar.“ Bæjarstjórn Kópavogsbæjar afgreiddi málið á sama veg á fundi sínum hinn 8. janúar 2013. Hinn 5. febrúar 2013 sendi byggingarfulltrúi kæranda bréf þar sem tilkynnt var að umsókninni hefði verið synjað „… með tilvísun í afgreiðslu skipulagsnefndar 15. janúar 2013“.

Fyrir liggur að kærandi hefur áður sótt um byggingarleyfi fyrir stækkun umrædds bílskúrs til suðurs og var þeim umsóknum synjað. Tvívegis hefur úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála fengið til meðferðar kærur vegna synjunar um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúrinn, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum nr. 97/2006 og 34/2007.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi áður sótt um byggingarleyfi fyrir stækkun á umræddum bílskúr. Umsókn hans hafi verið synjað í júní 2006 á þeim grundvelli að þinglýst samþykki lóðarhafa Álfhólsvegar 61 skorti, en slíkt samþykki hafi þá verið áskilið samkvæmt gr. 75.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Synjunin hafi verið kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Nefndu ákvæði byggingarreglugerðar hafi verið breytt í desember 2006 og hafi kærandi sótt aftur um byggingarleyfi á árinu 2007. Skipulagsnefnd hafi hafnað því að veita leyfið þrátt fyrir jákvæða umsögn bæjarskipulags Kópavogsbæjar.

Með umsókn sinni, dags. í mars 2012, hafi kærandi sótt um að stækka bílskúrinn samkvæmt nýrri og breyttri teikningu þótt deila megi um hvort teikningin hafi verið mikið eða lítið breytt frá teikningunum sem lagðar hafi verið fram með umsóknunum 2006 og 2007. Með nýrri umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrsins hafi ekki verið farið fram á endurupptöku máls heldur hafi verið um að ræða nýja umsókn og nýja teikningu sem ekki hafi verið lögð fyrir skipulagsnefnd áður. Eigi 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 því ekki við í málinu. Þá hafi skipulagsnefnd látið fara fram grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga og skuli að henni lokinni ljúka við afgreiðslu málsins og taka það til efnislegrar umfjöllunar en ekki vísa því frá eins og gert hafi verið.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að um endurupptöku stjórnvaldsákvarðana fari eftir 24. gr. stjórnsýslulaga. Þar sé mælt fyrir um að eftir að stjórnvald hafi tekið stjórnvaldsákvörðun og hún hafi verið tilkynnt aðila máls eigi hann rétt á að fá mál endurupptekið, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Fyrst megi nefna það skilyrði að ákvörðun stjórnvalds hafi byggst á röngum upplýsingum um málsatvik eða atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Eigandi Löngubrekku 5 hafi ítrekað frá árinu 2005 sótt um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs og verið hafnað í öll skiptin. Erindi hans hafi verið hafnað í júní 2006, aftur í apríl 2007, beiðni um endurupptöku hafi verið hafnað í maí 2007, nýrri umsókn hafi verið hafnað í janúar 2009 og að síðustu hafi því verið hafnað á fundi skipulagsnefndar 18. desember 2012 að taka erindið upp að nýju. Málið hafi margsinnis áður fengið efnismeðferð hjá skipulagsyfirvöldum og verið hafnað m.a. á grundvelli grenndaráhrifa. Ekkert nýtt hafi komið fram eða atvik breyst verulega.

Auk þessa sé vakin athygli á því að ef þrír mánuðir séu liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun verði beiðni um endurupptöku ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Við meðferð málsins hafi ítrekað komið fram andmæli frá íbúum að Álfhólsvegi 61, en sú lóð liggi að lóðarmörkum Löngubrekku 5. Til að unnt sé að taka málið upp að nýju sé fortakslaust skilyrði skv. 24. gr. stjórnsýslulaga að samþykki allra aðila máls liggi fyrir. Aðilar máls í skilningi ólögfestra meginreglna stjórnsýsluréttarins séu þeir sem eigi lögmætra hagsmuna að gæta varðandi stjórnvaldsákvörðun. Ljóst sé að allir þeir sem sent hafi inn andmæli í kjölfar grenndarkynningar verði taldir „aðilar“ málsins og að málið verði ekki endurupptekið án þess að samþykki þeirra liggi fyrir. Í þessu sambandi breyti engu þótt hin nýja beiðni sé lögð fram í búningi nýs máls. Ljóst sé af efnislegum atvikum þessa máls að verið sé að óska eftir því að skipulagsnefnd endurupptaki mál, sem áður hafi margsinnis verið til meðferðar hjá skipulagsyfirvöldum í Kópavogi, án þess að fyrrgreind skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu uppfyllt, og því beri að hafna. Er þess krafist að ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs um synjun á endurupptöku málsins verði staðfest.

Niðurstaða: Fyrir liggur að kærandi lagði inn byggingarleyfisumsókn hjá byggingarfulltrúa um stækkun bílskúrs á lóð Löngubrekku 5 til suðurs að lóðarmörkum Álfhólsvegar 61. Samkvæmt tilkynningu til kæranda, dags. 5. febrúar 2013, hafnaði byggingarfulltrúi umsókninni „… með tilvísun í afgreiðslu skipulagsnefndar 15. janúar 2013“. Ekki verður þó séð af fundargerð skipulagsnefndar frá 15. janúar 2013 að nefndin hafi fjallað um þá umsókn kæranda sem deilt er um í málinu en á fundinum var hins vegar fjallað um aðra umsókn kæranda um byggingarleyfi vegna breytinga á íbúðarhúsi hans. Skipulagsnefnd afgreiddi hins vegar umsókn kæranda um viðbyggingu við bílskúr á fundi sínum 18. desember 2012 að undangenginni grenndarkynningu og var þá farið með umsóknina sem umsókn um endurupptöku, svo sem áður greinir.

Í málinu er um það deilt hvort heimilt hafi verið að fara með umsókn kæranda um byggingarleyfi sem beiðni um endurupptöku eldra máls. Fyrir liggur að kærandi lagði inn umsókn um byggingarleyfi ásamt nýjum uppdráttum og fékk hún lögboðna meðferð umsóknar í ljósi þess að um ódeiliskipulagt svæði var að ræða. Var umsóknin grenndarkynnt eins og áður greinir í samræmi við 44. gr. skipulagslaga. Þá hefur sveitarfélagið ekki vísað til tiltekins máls sem umsóknin hafi falið í sér beiðni um endurupptöku á, heldur skírskotað til þriggja eldri umsókna kæranda. Af gögnum málsins verður þó ekki ráðið að þær séu að öllu leyti sambærilegar við þá umsókn sem hér er til umfjöllunar.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar og rökstuðning haldinn slíkum annmörkum að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 5. febrúar 2013 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr á lóð Löngubrekku 5.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson