Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

79/2014 Tryggvagata

Árið 2015, fimmtudaginn 28. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að synja umsókn um uppsetningu auglýsingaskiltis á húsið nr. 10 við Tryggvagötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júlí 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir Ottó Magnússon f.h. M 14. ehf., rekstraraðila veitingastaðarins Reykjavík Fish, Tryggvagötu 8, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi til þess að setja upp auglýsingaskilti á hús nr. 10 við Tryggvagötu vegna veitingastaðarins. Verður að skilja málskot kæranda sem svo að krafist sé að synjunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 5. september 2014.

Málavextir: Hinn 24. júní 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík tekin fyrir umsókn kæranda, dags. 12. s.m., um leyfi til að setja upp 2,7×1,3 m auglýsingaskilti utan á húsið nr. 10 við Tryggvagötu vegna rekstrar kæranda. Var umsókninni synjað með vísan til þess að það samræmdist ekki samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkurborgar.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að í núgildandi skipulagslögum segi að kveða skuli á um skilti í deiliskipulagi. Í deiliskipulagi fyrir umrætt svæði sé ekkert að finna um fyrirkomulag auglýsingaskilta. Byggingarfulltrúa hafi því verið óheimilt að synja umsókn kæranda um uppsetningu auglýsingaskiltis.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að í 8. mgr. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að í skipulagsreglugerð skuli m.a. kveða á um auglýsingaskilti. Í gr. 5.3.2.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segi að í skilmálum deiliskipulags skuli sérstaklega kveðið á um upplýsinga- og auglýsingaskilti. Í 1. mgr. gr. 2.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé kveðið á um að stærð og staðsetning skilta skuli vera í samræmi við ákvæði gildandi skipulags. Segi jafnframt í 2. mgr. sömu greinar að skilti yfir 1,5 m2 séu byggingarleyfisskyld, þó með ákveðnum undanþágum.

Í gildandi deiliskipulagi sé ekkert fjallað um skilti enda hafi ekki verið gert ráð fyrir slíkri umfjöllun í deiliskipulagi á þeim tíma sem það hafi verið samþykkt. Í gildi sé samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur og gildi hún um hvers konar skilti og auglýsingar sem sótt sé um leyfi fyrir hjá embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík. Samkvæmt gr. 6.6.4 í samþykktinni sé hvorki heimilt að setja upp veggspjöld utanhúss né líma upp aðrar auglýsingar nema á þar til gerðum skiltastöndum í eigu Reykjavíkurborgar. Verði ekki annað séð en að kærandi sé að sækja um leyfi til að setja upp veggspjald utanhúss. Slíkt sé bannað samkvæmt ofangreindu ákvæði. Byggingarfulltrúanum í Reykjavík hafi því ekki verið heimilt að samþykkja umsókn kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á byggingarleyfi fyrir uppsetningu auglýsingaskiltis utan á húsið nr. 10 við Tryggvagötu.

Við afgreiðslu málsins vísaði byggingarfulltrúi til þess að skiltið samræmdist ekki samþykkt um skilti í Reykjavík. Nefnd samþykkt var sett 6. ágúst 1997 í gildistíð byggingarlaga nr. 54/1978. Samkvæmt 5. gr. þeirra laga var sveitarstjórnum heimilt að setja í sérstaka byggingarsamþykkt fyllri ákvæði, m.a. um stjórn og meðferð byggingarmála. Skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 tóku við af byggingarlögum og gat sveitarstjórn með stoð í 6. mgr. 37. gr. þeirra laga sett staðbundna samþykkt með viðbótarreglum við þær reglur sem byggingareglugerð hafði að geyma, þ. á m. um uppsetningu auglýsingaskilta. Í 6. tl. ákvæðis til bráðabirgða í gildandi skipulagslögum nr. 123/2010 segir að byggingarsamþykktir sem settar hafi verið á grundvelli 37. gr. laga nr. 37/1997 og varði skipulagsákvarðanir haldi gildi sínu að svo miklu leyti sem þær samrýmist ákvæðum laga þessara. Þá segir í gildistökuákvæði gr. 17.1.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að við gildistöku hennar falli úr gildi eldri byggingarreglugerð sem og samþykktir sveitarfélaga sem settar hafi verið á grundvelli fyrri skipulags- og byggingarlaga og brjóti í bága við reglugerð nr. 112/2012.

Fjallað er um viðfangsefni og efnistök deiliskipulags í gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar segir að setja skuli skipulagsskilmála um þau viðfangsefni sem tilgreind eru í greininni, eftir því sem við eigi, miðað við aðstæður á skipulagssvæðinu, markmið og áherslur aðalskipulags og aðrar forsendur fyrir skipulagsvinnunni. Í gr. 5.3.2.3., sbr. 8. mgr. 45. gr. skipulagslaga, er kveðið á um að í deiliskipulagi skuli vera skilmálar um upplýsinga- og auglýsingaskilti. Þá segir í gr. 5.3.2.4. að í deiliskipulag skuli setja ákvæði um upplýsinga- og auglýsingaskilti þar sem gera megi ráð fyrir slíku. Í kafla 2.5 í gildandi byggingarreglugerð er fjallað um skilti og segir í gr. 2.5.1. að skilti skuli vera í samræmi við gildandi skipulag og þau sem séu stærri en 1,5 m2 að flatarmáli séu byggingarleyfisskyld. Í kafla 6.6. í samþykktinni er fjallað um skilti sem bönnuð eru í miðborg Reykjavíkur. Samkvæmt gr. 6.6.2. skulu þjónustuskilti ekki vera stærri en 1,5 m2 og skulu önnur einstök skilti ekki vera stærri en 2,5 m2. Þá segir í gr. 6.6.4. að ekki sé heimilt að setja upp veggspjöld utanhúss og ekki sé heimilt að líma upp aðrar auglýsingar nema á þar til gerðum skiltastöndum í eigu Reykjavíkurborgar. Verður ekki séð að nefnd ákvæði samþykktarinnar brjóti í bága við þau laga- og reglugerðarákvæði sem áður eru rakin. Umrætt skilti er 2,7×1,3 m að stærð eða 3,91 m2, og var byggingarfulltrúa því rétt að synja umsókn kæranda með vísan til áðurnefndrar samþykktar, enda er Tryggvagata 10 á miðborgarsvæði. Þá átti uppsetning hins umdeilda auglýsingaskiltis sér ekki heldur stoð í gildandi deiliskipulagi Naustreits 1.132.1, sem samþykkt var 7. október 2003. Verður kröfu kæranda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að synjun byggingarfulltrúans um uppsetningu auglýsingaskiltis á húsið nr. 10 við Tryggvagötu verði felld úr gildi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson