Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2014 Hverfisgata Reykjavík

Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 8/2014, kæra á þeirri framkvæmd að fjarlægja skábraut að inngangi hússins að Hverfisgötu 52, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. febrúar 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir eigandi eignarhluta 01-0101 í húsinu að Hverfisgötu 52, Reykjavík, þá framkvæmd að fjarlægja skábraut að inngangi nefnds húss. Er þess krafist að skábrautin verði endurbyggð. Þá er kærð sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að skipuleggja gangstétt fyrir framan húsið þannig að ekki sé gert ráð fyrir nefndri skábraut.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 28. febrúar 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 4. desember 2007 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um samþykki á leyfi fyrir skábraut og tröppum við fjöleignarhúsið á lóð nr. 52 við Hverfisgötu. Árið 2011 keypti kærandi atvinnuhúsnæði í greindu fjöleignarhúsi og lá skábrautin að inngangi eignarhluta hans. Á árinu 2013 barst í tal eigenda fjöleignarhússins hvort fjarlægja ætti skábrautina. Húsfélagið sendi eigendum allra eignarhluta hússins tölvupóst 31. júlí 2013 þess efnis að ekki þyrfti samþykki allra eigenda til að fjarlægja umrædda skábraut. Í kjölfarið var skábrautin fjarlægð af einum eigenda fjölbýlishússins. Hinn 28. ágúst s.á. sendi Húseigendafélagið, fyrir hönd kæranda, bréf þar sem skorað var á greindan eiganda að koma húsinu aftur í fyrra horf en ekki var orðið við þeirri áskorun. Hafði kærandi samband við Reykjavíkurborg eftir að greind skábraut var fjarlægð og leitaði eftir svörum við því hvort heimilt væri að koma henni aftur fyrir. Hinn 8. janúar 2014 barst kæranda svar frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík þar sem hann upplýsti kæranda um að vafi væri um gildi byggingarleyfisins frá 2007 þar sem framkvæmdin hefði hugsanlega ekki uppfyllt nauðsynleg formatriði, þyrfti því að kanna gildi leyfisins betur.

Kærandi skírskotar til þess að skábrautin hafi verið samþykkt sem hluti af ytra byrði hússins af byggingarfulltrúanum í Reykjavík í desember 2007. Kærandi hafi fest kaup á atvinnuhúsnæði að Hverfisgötu 52 með það í huga að reka þar sálfræðistofu. Aðgengi fatlaðra hafi verið eitt þeirra atriða sem réði kaupunum. Sé aðgengið aðallega hagsmunamál fyrir kæranda þar sem umrædd aðkoma sé að sérinngangi eignarhluta hans. Í kjölfar niðurrifs skábrautarinnar geti kærandi ekki lengur boðið fötluðum þjónustu sína. Að auki virðist Reykjavíkurborg hafa teiknað og byggt götuna á þann hátt að bílastæði hafi verið bætt inn á upphaflegu teikningu sem geri það að verkum að ekki sé gert ráð fyrir að skábrautin verði endurbyggð. 

Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að ekki sé annað ráðið en að kærður sé skortur á byggingarleyfi. Kæru sé beint að tilteknum framkvæmdum við inngang að húsinu á lóð nr. 52 við Hverfisgötu. Hafi húsfélag hússins tekið þá ákvörðun að fjarlægja skábrautina. Um ágreining milli húseigenda sé að ræða enda hafi engin ákvörðun verið tekin um hana af hálfu Reykjavíkurborgar. Sé því ekki um kæranlega ákvörðun að ræða skv. 1. gr. laga nr. 130/2011, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og beri að vísa málinu frá.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirra framkvæmdar að fjarlægja skábraut við inngang í hús nr. 52 að Hverfisgötu.

Samkvæmt 52. gr. skiplagslaga nr. 123/2010 og 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Slíkar stjórnvaldsákvarðanir verða jafnframt að binda endi á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Eins og nánar er lýst í málavöxtum var umrædd skábraut fjarlægð af einum eiganda fjölbýlishússins að Hverfisgötu 52. Liggur fyrir að kærandi leitaði eftir svörum frá Reykjavíkurborg vegna hinna umdeildu framkvæmda í því skyni að fá skábrautina endurbyggða. Lauk þeim samskiptum með tölvupósti byggingarfulltrúans í Reykjavík þar sem hann gerði kæranda grein fyrir því að kanna þyrfti frekar lögmæti hins upprunalega byggingarleyfis fyrir hinni umræddu skábraut. Verður ekki séð að svar byggingarfulltrúa eða önnur svör starfsmanna Reykjavíkurborgar feli í sér stjórnvaldsákvörðun sem varði hina kærðu framkvæmd. Þá verður ekki séð að framkvæmdin hafi að öðru leyti komið til formlegrar málsmeðferðar og ákvörðunartöku hjá borginni á grundvelli skipulagslaga vegna gatnaframkvæmda þeirra sem kærandi vísar til.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir er ekki fyrir hendi nein sú ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar og bundið getur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaganna. Af þeim sökum verður málinu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist í máli þessu sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir