Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

45/2010 Langabrekka

Árið 2015, fimmtudaginn 21. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2010, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogsbæjar frá 25. maí 2010 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingu á innra skipulagi bílskúrs að Löngubrekku 5 og stoðvegg sunnan við hann.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. júní 2010, er barst nefndinni 6. júlí s.á., kæra J, Álfhólsvegi 61, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 25. maí 2010 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingu á innra skipulagi bílskúrs að Löngubrekku 5 og stoðvegg sunnan við hann. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að bæjaryfirvöldum verði gert að láta fjarlægja undirstöður og botnplötu sem byggð hafi verið í óleyfi. Bæjarstjórn samþykkti hina kærðu ákvörðun hinn 8. júní 2010.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 21. mars 2013, 13. febrúar 2014, og 10. og 31. mars 2015.

Málavextir: Hinn 27. ágúst 2008 kvað úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurð í máli nr. 12/2006, þar sem ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs um að veita leyfi fyrir þegar gerðum stoðvegg á lóð Löngubrekku 5 var felld úr gildi sökum galla á málsmeðferð. Í kjölfarið vísaði byggingarnefnd Kópavogsbæjar umsókn um leyfi fyrir stoðveggnum til skipulagsnefndar til afgreiðslu að nýju. Ákvað skipulagsnefnd hinn 17. febrúar 2009 að grenndarkynna erindið fyrir lóðarhöfum Löngubrekku 1, 3 og 7 og Álfhólsvegar 59, 61 og 63 skv. þágildandi 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en svæðið er ódeiliskipulagt.

Grenndarkynning fór fram frá 19. mars til 20. apríl 2009 og sendu kærendur inn athugasemdir. Á fundi skipulagsnefndar 21. apríl s.á. var ákveðið að fela bæjarskipulagi Kópavogs að taka saman umsögn um innsendar athugasemdir. Á fundi skipulagsnefndar 10. júní 2009 var umsögn skipulags- og umhverfissviðs, dagsett sama dag, lögð fram. Niðurstaða hennar var á þá leið að með hliðsjón af andmælum eigenda Álfhólsvegar 61 væri ljóst að samþykki þeirra fengist ekki fyrir framkvæmdinni, sem væri á mörkum lóðanna, en fyrir lægi að eigandi Löngubrekku 5 hefði hafið framkvæmdir án þess að byggingarleyfis hefði verið aflað. Eðlilegt væri að leyfi eigenda aðliggjandi lóðar lægi fyrir vegna framkvæmda á lóðamörkum. Þá var minnt á 56. gr. skipulags- og byggingarlaga varðandi framkvæmdir sem brytu í bága við skipulag eða væru án leyfis. Skipulagsnefnd hafnaði erindinu á fundinum og vísaði því til afgreiðslu bæjarráðs og byggingarnefndar. Bæjarráð hafnaði svo erindinu á fundi sínum 11. júní 2009.

Í bréfi leyfishafa til byggingarnefndar Kópavogs, dags. 7. júlí 2009, rituðu í tilefni af áðurnefndri umsögn skipulags- og umhverfissviðs frá 10. júní 2009, vakti hann athygli á eldri umsögn um stoðvegginn frá því í desember 2005, þar sem mælt hefði verið með því að veggurinn yrði samþykktur. Skipulagsnefnd hefði samþykkt að veita leyfi fyrir stoðveggnum 19. desember 2005 og bæjarráð hefði tekið sömu afstöðu á fundi 19. janúar 2006. Þá kemur fram í bréfinu að leyfishafi telji ekki eðlilegt að lóðarhafar aðlægrar lóðar geti haft úrslitaáhrif á það hvort byggingarleyfi verði veitt fyrir stoðveggnum án rökstuðnings eða útskýringa.

Á fundi í byggingarnefnd 21. júlí 2009 var gerð svofelld bókun: „[Leyfishafi], Löngubrekku 5, Kópavogi, sækir um leyfi til að byggja við bílskúr að Löngubrekku 5. […] Málið hefur verið grenndarkynnt og athugasemdir bárust. Byggingarnefnd óskar eftir umsögn lögmanns skipulags- og umhverfissviðs.“ Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 28. apríl 2010, kemur fram að misritað hafi verið í fundargerð þess fundar að sótt hafi verið um að byggja við bílskúr. Þar hafi átt að standa að sótt hafi verið um að breyta innra skipulagi og fá að láta þegar byggðan stoðvegg standa. Sú umsögn sem bókun fundarins vísar til liggur ekki fyrir í málinu þrátt fyrir eftirgrennslan af hálfu úrskurðarnefndarinnar.

Hinn 28. júlí 2009 skilaði leyfishafi inn nýrri umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingu á innra skipulagi bílskúrs á lóð Löngubrekku 5 og stoðvegg sunnan hans. Á fundi byggingarnefndar Kópavogs 25. maí 2010 var umsóknin tekin fyrir og afgreidd með svofelldri bókun: „Samþykkt, þar sem teikningar eru í samræmi við byggingar- og skipulagslög nr. 73/1997, með síðari breytingum. Nefndin leggur til að bæjarstjórn samþykki afgreiðslu byggingarnefndar.“ Bæjarstjórn samþykkti fundargerð nefndarinnar eins og að framan greinir og skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Samkvæmt afstöðumynd, dags. í júlí 2009, sem samþykkt var með hinni kærðu ákvörðun, er hluti nefnds stoðveggjar byggður þvert á suðurhlið viðbyggingar við bílskúr, samsíða lóðarmörkum Löngubrekku 3, og er þessi hluti 2,5 m langur. Á veggnum er 90° horn og liggur hinn hluti hans, sem er 7 m að lengd, meðfram lóðarmörkum Álfhólsvegar 61 í 0,5 m fjarlægð frá þeim. Hæð veggjarins er sýnd 130 cm og er hann samkvæmt afstöðumyndinni í sömu hæð og jarðvegur á lóðamörkum Löngubrekku 5 og Álfhólsvegar 61. Þá er merkt inn á afstöðumyndina stétt á fleti sem afmarkast af suðurhlið viðbyggingarinnar og stoðveggnum.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að byggingarnefnd hafi, samkvæmt fundargerð, byggt ákvörðun sína eingöngu á því að teikningar væru í samræmi við skipulags- og byggingarlög með síðari breytingum. Ákvörðunin standist ekki vegna þess að skipulagsnefnd og bæjarstjórn hafi áður hafnað því að veita leyfi fyrir framkvæmdinni. Skipti því engu hvernig teikningar séu úr garði gerðar. Þá hafi samþykkt byggingarnefndar verið gegn betri vitund nefndarinnar og byggingarfulltrúa um að það mannvirki sem sótt hafi verið um leyfi fyrir væri undirstöður og botnplata fyrirhugaðrar viðbyggingar við bílskúr leyfishafa en ekki stoðveggur. Vísa kærendur um þetta til bréfs byggingarfulltrúa, dags. 20. júlí 2005, og staðfestingar byggingarnefndar frá 3. ágúst s.á., en byggingarnefndin staðfesti á fundi sínum þann dag stöðvun framkvæmda við stækkun bílskúrs á lóð Löngubrekku 5 og tók undir kröfur byggingarfulltrúa um að fjarlægja þá þegar „… þær undirstöður og þá botnplötu að viðbyggingu bílskúrs sem steyptar hafa verið í óleyfi“. Leyfishafi hafi ítrekað sótt um leyfi til að byggja ofan á undirstöðurnar og botnplötuna, sem stundum hafi verið nefnd stétt, og þessi niðurstaða byggingarfulltrúa hafi þannig verið staðfest og viðurkennd af leyfishafa og arkitekt á hans vegum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er bent á að mál varðandi Löngubrekku 5 hafi verið til umfjöllunar með hléum a.m.k. frá árinu 2005. Af málavöxtum sem raktir séu í greinargerð Kópavogsbæjar megi leiða fullgildar skýringar á samþykki byggingarnefndar 25. maí 2010 fyrir stoðveggnum. Þá sé vísað til málsgagna í máli nr. 8/2013 sem einnig sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að ferli umsóknar um byggingarleyfi fyrir umræddum stoðvegg megi rekja aftur til ársins 2005. Þá hafi stoðveggurinn verið samþykktur af skipulagsnefnd Kópavogs en úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi fellt ákvörðunina úr gildi. Í maí 2010 hafi aftur verið samþykkt að veita leyfi fyrir stoðveggnum og sú ákvörðun hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar af sömu aðilum og í fyrra málinu. Áður en byggingarnefnd hafi tekið málið fyrir í maí 2010 hafi hann sent nefndinni bréf og vakið athygli á því að umsagnaraðili skipulagsnefndar Kópavogs hafi mælt með því að veitt yrði leyfi fyrir stoðveggnum árið 2005 en sami umsagnaraðili hafi mælt gegn því árið 2009 án þess að útskýra hvað lægi til grundvallar stefnubreytingunni.

Í kærunni sé ekki minnst á hvaða grein byggingarreglugerðar hafi verið brotin eða útskýrt á hvern hátt stoðveggurinn sé íþyngjandi fyrir kærendur eða valdi þeim ama eða óþægindum. Rökin séu einvörðungu þau að stoðveggurinn sé rangnefndur, hann sé sökkull en ekki stoðveggur. Í þessu tilfelli hafi verið sótt um leyfi fyrir stoðvegg og stoðveggur verið samþykktur af byggingarnefnd, hvað svo sem síðar kunni að verða. Vandséð sé hvaða hvatir ráði för hjá kærendum eða hvaða hagsmuni þeir hafi að verja með því að fá viðurkennt að um sé að ræða sökkul en ekki stoðvegg. Kærendum hafi verið gert ljóst þegar árið 2005 að til stæði að byggja stoðvegg á umræddum stað og þeir hafi þá ekki gert athugasemdir.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarnefndar Kópavogsbæjar um að veita byggingarleyfi fyrir þegar byggðum stoðvegg sunnan við bílskúr á lóð Löngubrekku 5. Stoðveggurinn liggur samsíða lóðarmörkum kærenda í um 0,5 m fjarlægð á um 7 m kafla og verður að telja að tilvist hans geti snert lögvarða hagsmuni kærenda. Eiga kærendur því aðild að kærumáli þessu skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem hér eiga við.

Byggingarnefndir fara með byggingarmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, sbr. 1. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga. Í 7. mgr. 43. gr. laganna kemur fram að þegar sótt er um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir skuli skipulagsnefnd fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en það hlýtur afgreiðslu byggingarnefndar. Að grenndarkynningu lokinni og þegar niðurstaða skipulagsnefndar liggur fyrir skuli byggingarnefnd taka málið til afgreiðslu. Ekki verður ráðið af lögunum að byggingarnefnd sé bundin af niðurstöðu skipulagsnefndar.

Fyrir liggur að grenndarkynning fór fram á grundvelli eldri umsóknar leyfishafa um byggingarleyfi og að umsókn leyfishafa, dags. 28. júlí 2009, kom ekki til umfjöllunar í skipulagsnefnd og var ekki grenndarkynnt, eins og áðurnefnd 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga gerir ráð fyrir. Samanburður á skýringaruppdrætti, dags. 19. mars 2009, sem sendur var í grenndarkynningu samkvæmt ákvörðun skipulagsnefndar 17. febrúar 2009 annars vegar og uppdrætti (afstöðumynd) sem fylgdi umsókn leyfishafa, dags. 28. júlí 2009, hins vegar leiðir þó í ljós að umsóknirnar tvær eru sambærilegar hvað stoðvegginn varðar en hæð hans og staðsetning er hin sama. Eins og hér stendur á þykir því ekki tilefni til að ógilda ákvörðun byggingarnefndar af þessum sökum.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu tók bæjarráð afstöðu til erindisins áður en byggingarnefnd tók það til afgreiðslu og verður það að teljast aðfinnsluvert. Þá má fallast á það með kæranda að nokkuð hafi skort á rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun byggingarnefndar. Hins vegar verður að líta til þess að með ákvörðuninni var nefndin að samþykkja umsókn um byggingarleyfi. Verður að meta kröfur um rökstuðning skv. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997 með hliðsjón af meginreglum stjórnsýsluréttarins um rökstuðning, sbr. 2. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verða því ekki gerðar ríkar kröfur um rökstuðning fyrir jákvæðum afgreiðslum byggingarleyfisumsókna.

Eins og hér stendur á er málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar ekki haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði og hefur umdeildur stoðveggur ekki raskað grenndarhagsmunum kærenda að marki þegar litið er til staðsetningar hans og hæðar miðað við jarðvegshæð á lóðamörkum Löngubrekku 5 og Álfhólsvegar 61.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar. Ákvarðanir, svo sem um að mannvirki skuli fjarlægð á grundvelli ákvæða skipulags- og byggingarlaga, falla utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar. Af þeim sökum verður ekki tekin afstaða til kröfu kærenda þar að lútandi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarnefndar Kópavogsbæjar frá 25. maí 2010, sem staðfest var í bæjarstjórn 8. júní s.á., um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingu á innra skipulagi bílskúrs að Löngubrekku 5 og stoðvegg sunnan við hann.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson