Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

71/2011 Hvannalundur

Árið 2015, föstudaginn 17. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 71/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 13. september 2011 um að samþykkja leyfi til að stækka sumarhús á lóðinni nr. 8 við Hvannalund í Miðfellslandi, Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. september 2011, er barst nefndinni 27. s.m., kæra eigendur Hvannalundar 10 í Bláskógabyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 13. september 2011 að samþykkja leyfi til að stækka sumarhús á lóðinni að Hvannalundi 8 í Bláskógabyggð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og hið umdeilda hús fjarlægt.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu í febrúar og mars 2015.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Hinn 26. apríl 2011 var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps fyrirspurn lóðarhafa Hvannalundar 8 um hvort leyft yrði að stækka sumarhús á lóðinni úr 48 m² í 73 m². Var erindinu hafnað og tekið fram að hámarksbyggingarmagn á lóð skyldi vera 60 m². Byggingarfulltrúi tók fyrir samsvarandi erindi frá lóðarhafa hinn 9. júní s.á. Bókað var að fyrir lægi tillöguteikning að húsi í samræmi við fyrrgreinda bókun skipulags- og byggingarnefndar og ákveðið að grenndarkynna umsóknina í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefnd fundargerð byggingarfulltrúa var kynnt á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 23. s.m. og staðfest. Í kjölfar þess var grenndarkynnt beiðni um stækkun umrædds sumarhúss. Komu kærendur að athugasemdum.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 28. júlí 2011. Fært var til bókar að skipulags- og byggingarnefnd teldi athugasemdir eigenda Hvannalundar 10 réttmætar hvað varðaði hæð fyrirhugaðrar viðbyggingar og lengd hennar að lóðarmörkum. Var þess farið á leit við umsækjanda að ekki yrði aukið við byggingarmagn meðfram mörkum lóða nr. 8 og 10, heldur yrði byggt inn á lóðina. Nefndin tók ekki undir aðrar athugasemdir og fól byggingarfulltrúa að svara þeim í samræmi við umræður á fundinum. Hinn 25. ágúst s.á. var málið til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar, er taldi að með teikningum sem þá lágu fyrir væri komið til móts við athugasemdir lóðarhafa Hvannalundar 10. Jafnframt væru teikningar í samræmi við áðurgreinda bókun nefndarinnar frá 23. júlí s.á. þar sem ekki væri aukið við byggingarmagn með lóðarmörkum frá því sem áður var og hæð hússins væri innan þeirra marka sem almennt teldist hófleg hæð á sumarhúsi, eða innan við 5 m. Samþykkti nefndin framlagða teikningu og fól byggingarfulltrúa að afgreiða málið. Umsókn um leyfi til að stækka sumarhús á nefndri lóð í 61 m² var tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúa hinn 13. september 2011 og hlaut svofellda afgreiðslu: „Samþykkt í samræmi við bókun skipulags- og byggingarnefndar hinn 25. ágúst sl. Ekki er tekin afstaða til lóðamarka á afstöðumynd.“ Var fundargerðin kynnt á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 22. s.m. og staðfest.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að mun hærri bygging en fyrir hafi verið rísi á mörkum lóðar þeirra og lóðarinnar Hvannalundur 8. Verið sé að reisa nýtt hús frá grunni þar sem svo lítið verði eftir af gömlu byggingunni að ekki geti verið um viðbyggingu að ræða, líkt og byggingarfulltrúi telji. Verði að meta málið út frá þeim forsendum. Snúi byggingin að suðurhlið sumarhúss og lóðar kærenda og að þeim hluta sem mest sé nýttur. Jafnframt sé útliti hússins gjörbreytt. Á þeirri hlið eldri byggingarinnar er snúið hafi að Hvannalundi 10 hafi verið einn lítill gluggi en nú verði tveir stórir gluggar á neðri hæð og miklu stærri gluggi á efri hluta sömu hliðar.

Við meðferð málsins hafi ekki verið höfð til hliðsjónar sjónarmið um brunavarnir. Sé fjarlægð milli bygginga langt innan lágmarksákvæða um fjarlægð milli húsa og ákvæða um brunamótsstöðu, sem kveðið sé um í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Jafnframt sé vísað til leiðbeiningaskjals 135.7 BR1 um val og frágang útveggjaklæðninga m.t.t. brunavarna. Með því að reisa nálægt tvöfalt hærra hús en áður aukist brunahætta mikið, en einnig geti smáhýsi sem sé á lóðinni haft áhrif á brunahættu. Verði að taka mið af því í þessu samhengi.

Gerðar hafi verið athugasemdir við að á aðstöðumynd sem fylgt hafi grenndarkynningu hafi húsið verið teiknað fjær lóðarmörkum en það sé í raun. Byggingarfulltrúi hafi hafnað því að taka afstöðu til lóðarmarka þar sem um einkalóð væri að ræða, þrátt fyrir ítrekaðar óskir kærenda þar um. Samræmist það álit sveitarfélagsins hvorki lögum né reglugerðum. Þá segi í 4. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um frístundabyggðir að byggingarreitir skuli ekki staðsettir nær lóðarmörkum en 10 m og hafi borið að virða nefnt ákvæði.

Í svarbréfi byggingarfulltrúa til kærenda hafi komið fram að ekki væri verið að auka byggingarmagn meðfram lóðarmörkum umfram það sem fyrir hafi verið á lóðinni. Standist þetta engan veginn, en verið sé að bæta hæð ofan á húsið. Þá hafi byggingarnefnd heimilað hækkun hússins eftir lok grenndarkynningar en samkvæmt nýjum teikningum að húsinu sé hæð þess 4,9 m. Telja verði það afar óeðlilega afgreiðslu, einkum með tilliti til staðsetningar hússins. Svo há bygging sé ekki dæmigerð fyrir skipulag hverfisins og ekki séu fyrir hendi fordæmi um slíkt. Sé byggingarnefnd ekki að meta nánasta umhverfi á faglegan hátt. Muni breytingin skerða gæði fasteignar kærenda þar sem aukið skuggavarp verði á lóð þeirra, meira ónæði og sjónmengun. Verðrýrnun verði á eign kærenda og notagildi hennar minnki.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar taka fram að hluti umrædds sumarhúss hafi verið reistur árið 1959, þegar aðrar áherslur hafi verið um glugga og brunavarnir. Þeir hafi orðið eigendur hússins árið 1991. Hluti af undirstöðum eldri hluta hússins hafi verið farinn að síga og því hafi verið ráðist í endurbætur. Hæsti punktur á hluta hússins sé 4,67 m og í samræmi við það sem byggingarfulltrúi hafi lagt upp með áður en leyfið hafi verið samþykkt. Farið hafi verið að lögum og reglugerðum um frístundahús en um sé að ræða frekar litlar lóðir. Hækkun hússins sé mest aftan við miðju þess og muni skuggavarp á lóð Hvannalundar 10 vegna hækkunarinnar verða aftan til á sumarhúsi kærenda.

Samkvæmt reglugerð um brunavarnir hafi borið nauðsyn til að hafa stærri glugga en áður með opnanlegu fagi. Jafnframt sé ekki hægt að fara fram á það að á meginhlið hússins sé einungis 20-30 cm stór gluggi. Hvað varði sjónmengun bendi leyfishafi að báðir bústaðirnir snúi að Þingvallavatni og þar skyggi hús leyfishafa ekkert á útsýni kærenda. Hafi kærendur mátt gera sér grein fyrir því þegar þeir festu kaup á bústað sínum að hann væri nálægt öðrum bústað í þéttri sumarhúsabyggð.

———-

Sveitarfélaginu var tilkynnt um framkomna kæru og því gefinn kostur á að tjá sig um kæruefnið en athugasemdir þeirra hafa ekki borist.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir stækkun frístundahúss að Hvannalundi 8 í Miðfellslandi, Þingvallasveit í Bláskógabyggð. Umrædd lóð er samkvæmt uppdrætti gildandi aðalskipulags á frístundasvæði sem jafnframt nýtur hverfisverndar H4, sem samkvæmt greinargerð stendur fyrir hverfisvernd á láglendissvæðum Þingvallasveitar. Svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt.

Í greinargerð Aðalskipulags Bláskógabyggðar, Þingvallasveit, 2004-2016, er sett fram stefna um uppbyggingu sumarhúsasvæða almennt í Þingvallasveit. Tekur hún til „núverandi byggðar, varðandi endurbyggingar sumarhúsa, viðbyggingar og viðhald húsa og til nýbygginga innan núverandi svæða og á svæðum sem bætast við“. Skiptist stefnumörkunin í almenn markmið aðalskipulags, sem ná til allra láglendissvæða í Þingvallasveit, nema annað sé tekið sérstaklega fram, og sértækari stefnuatriði sem taka skal tillit til við gerð skilmála í deiliskipulagi allra svæða, innan vatnasviðsins auk sértækra ákvæða sem taka til mismunandi svæða eða aðstæðna innan áhrifasviðsins. Fram kemur í almennum markmiðum aðalskipulagsins að unnið verði lögformlegt deiliskipulag fyrir öll eldri sumarhúsasvæði í Þingvallasveit. Skuli sveitarstjórn hafa forgöngu um að landeigendur, lóðarhafar og sumarhúsafélög láti vinna deiliskipulag á viðkomandi svæði innan fjögurra ára frá gildistöku aðalskipulagsins. Jafnframt er tekið fram að ekki verði gefin út byggingarleyfi á þeim svæðum þar sem ekki liggi fyrir deiliskipulag að liðnum þessum fjórum árum. Fram að því verði mögulegt að gefa út byggingarleyfi í samræmi við ákvæði aðalskipulagsins.

Jafnframt segir svo í greinargerð aðalskipulagsins: „Framfylgd almennra og sérstækra markmiða aðalskipulagsins um deiliskipulag og uppbyggingu á svæðum fyrir frístundabyggð, miða öll að því að draga sem mest úr umhverfisáhrifum sumarhúsabyggðarinnar, einnig þeirrar byggðar sem fyrir er. Lögð er áhersla á að gert verði lögformlegt deiliskipulag fyrir eldri svæði til að tryggja framfylgd þessara ákvæða, en meðan það liggur ekki fyrir verður að taka mið af þessum reglum við veitingu einstakra byggingarleyfa. Til að undirstrika mikilvægi þessara markmiða og reglna og að þeim verði fylgt eftir í hvívetna, eru öll láglendissvæði Þingvallasveitar innan áhrifa- og vatnasviðsins, sett undir hverfisvernd (H3 og H4 auk hverfisverndar vatnsverndar), sem lýtur fyrst og fremst að reglum um uppbyggingu (sbr. almenn og sérstæk markmið hér að framan).“ Í greinargerð aðalskipulagsins er enn fremur að finna umfjöllun um hverfisvernd á láglendissvæðum Þingvallasveitar. Er þar tilgreint að á núverandi byggðum svæðum, einkum sumarhúsasvæðum, og þar sem fyrirhuguð er þétting og viðbætur við núverandi svæði, verði sérstökum ákvæðum um uppbyggingu, endurbyggingu og viðhald húsa fylgt í hvívetna og öðrum ákvæðum sem lúta að því að draga úr áhrifum byggðar á ásýnd og vistkerfi.

Í þágildandi gr. 4.22.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 var áskilið að öll svæði sem væru undir hverfisvernd samkvæmt aðalskipulagi skyldu deiliskipulögð væru framkvæmdir fyrirhugaðar. Áðurgreint aðalskipulag Bláskógabyggðar tók gildi með birtingu auglýsingar þar um 2. júní 2006 og hafði að geyma fyrrgreind fjögurra ára tímamörk fyrir veitingu byggingarleyfa á ódeiliskipulögðum svæðum. Samkvæmt því og með vísan til fyrrgreinds reglugerðarákvæðis var ekki heimilt að veita hið umdeilda byggingarleyfi án undangenginnar deiliskipulagsgerðar og verður þegar af þeirri ástæðu að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar. Úrskurðarnefndin getur því ekki tekið ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða, svo sem um að umdeild bygging verði fjarlægð. Verður því ekki tekin afstaða í máli þessu til kröfu kærenda þar að lútandi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 13. september 2011 um að samþykkja leyfi til að stækka sumarhús á lóðinni að Hvannalundi 8 í Miðfellslandi, Bláskógabyggð.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson