Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

36/2016 Miðbraut

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 11. janúar kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 24. febrúar 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna fjölgunar íbúða og bílastæða á lóðinni nr. 28 við Miðbraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. apríl 2016, er barst nefndinni 5 s.m., kæra eigendur, Miðbraut 26, og eigendur Miðbraut 21, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 24. febrúar s.á. að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna fjölgunar íbúða og bílastæða á lóðinni nr. 28 við Miðbraut. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að fjöldi bílastæða verði aukinn á lóðinni Miðbraut 28 í samræmi við kröfur kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 10. maí 2016.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir svokallað Vesturhverfi sem skiptist í svæði A, B og C. Lóðin að Miðbraut 28 er á svæði C. Deiliskipulagsbreyting fyrir lóðina nr. 28 við Miðbraut var grenndarkynnt 30. desember 2015 með athugasemdafresti til 5. febrúar 2016. Sú tillaga gerði m.a. ráð fyrir því að hámarksfjöldi íbúða á lóðinni yrðu fjórar í stað tveggja og að bílastæðum myndi fjölga úr tveimur í fjögur. Jafnframt yrði þar eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Tveir undirskriftarlistar með athugasemdum bárust á kynningartíma tillögunnar, með nöfnum samtals 23 aðila. Athugasemdirnar voru efnislega samhljóða. Í þeim var gerð krafa um að bílastæðum við húsið að Miðbraut 28 yrði fjölgað.

Að lokinni grenndarkynningu var skipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar 9. febrúar 2016 og hún samþykkt. Jafnframt var skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum í samræmi við umræður á fundinum. Á fundi bæjarstjórnar 24. s.m. var afgreiðsla skipulags- og umferðarnefndar staðfest.

Málsrök kærenda:
Af hálfu kærenda er þess krafist að bílastæðum við fyrirhugað fjórbýlishús að Miðbraut 28 verði fjölgað úr fjórum í átta. Ljóst megi vera að mjög líklegt sé að hverri íbúð fylgi að minnsta kosti tveir bílar. Kveða þurfi því á um að bílastæði innan lóðar verði átta talsins, svo sem skipulags- og mannvirkjanefnd hafi gert áskilnað um við samþykki byggingar fjórbýlishúss við Melabraut 27 á fundi sínum hinn 21. júní 2011. Aukabílastæði við Miðbraut séu alls ekki mörg og það myndi þrengja mjög að íbúum og umferð ef fjölgaði í hópi þeirra sem leggi ökutækjum sínum að staðaldri við gangstétt götunnar.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:
Bæjaryfirvöld benda á að í deiliskipulagi svæðisins séu svohljóðandi ákvæði um bílastæði: „Geymsla fyrir bíl skal vera fyrir a.m.k. helming íbúða í hverju húsi. Auk þess er kvöð um a.m.k. 2 bílastæði á hverri lóð. Þar sem fleiri en ein íbúð verður heimiluð á lóð er kvöð um a.m.k. 1 aukastæði á lóð fyrir hverja viðbótar íbúð.“

Tillagan sé því í samræmi við ákvæði deiliskipulagsins um fjölda bílastæða innan lóðar. Þrátt fyrir athugasemdir íbúa hafi ekki verið talið rétt að víkja frá þeirri meginreglu nema hún yrði endurskoðuð fyrir svæðið í heild. Bent sé á að fjölgun bílastæða innan lóðar fækki bílastæðum sem standi almenningi opin utan lóðar, eins og aðstæður séu á umræddri lóð. Við slíka tilfærslu bílastæða minnki sveigjanleiki á nýtingu bílastæða í hverfinu. Að auki sé illmögulegt að koma fyrir átta bílastæðum á lóðinni.

Til viðbótar framangreindu myndi slíkur fjöldi bílastæða sem kærendur krefjist breyta ásýnd húss og lóðar og leiða til þess að framgarður hússins færi nánast að öllu leyti undir bílastæði. Í byggingarreglugerð sé gert ráð fyrir að í slíkum fjöleignarhúsum sé eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Með vísan til þess og framkominna athugasemda hafi verið gerð krafa um eitt bílastæði á lóðinni fyrir hreyfihamlaða.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun felur í sér þá breytingu á deiliskipulagsskilmálum fyrir lóðina Miðbraut 28 að heimilað er að fjölga íbúðum í húsi því sem stendur á lóðinni úr tveimur í fjórar, að fjölga bílastæðum innan lóðar úr tveimur í fjögur og að bæta við einu bílastæði fyrir hreyfihamlaða.

Deiliskipulagsbreytingin fékk málsmeðferð samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt því ákvæði er sveitarstjórn heimilt að gera breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins og skal þá fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi telst óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Ljóst er að umrædd deiliskipulagsbreyting hefur ekki í för með sér breytingu á notkun eða nýtingarhlutfalli lóðarinnar. Hins vegar breytist yfirbragð svæðisins að því leyti að þremur bílastæðum er bætt við á lóðinni. Dæmi eru um að á svæðinu séu lóðir með jafn margar eða fleiri íbúðir. Breytingin rúmast innan upphaflegra deiliskipulagsskilmála fyrir svokallað C-svæði, sem er hluti umrædds deiliskipulagssvæðis. Í greinargerð skipulagsins kemur fram að byggð á svæði C sé sundurleitari en á svæðum A og B. Þar standi elstu og minnstu húsin, en einnig þau stærstu, og dæmi séu um allt að sex íbúðir á lóð. Stefnt sé að þéttingu byggðar og aðlögun minni húsa að þeim stærri svo hverfið fái samræmdara yfirbragð. Þar sé nýtingarhlutfall heimilað 0,5, heimiluð nokkur fjölgun íbúða og í stöku tilvikum hækkun húsa um hálfa til eina hæð. Með hliðsjón af þessu verðu að telja að sveitarstjórn hafi verið heimilt að fara með hina kærðu deiliskipulagsbreytingu samkvæmt fyrrgreindri 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og einnig þess að ekki verður séð að form eða efnisannmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun, verður kröfu kærenda um ógildingu hennar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 24. febrúar 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis, vegna fjölgunar íbúða og bílastæða á lóðinni nr. 28 við Miðbraut.

31/2017 Tunguháls

Með
Árið 2017, föstudaginn 21. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2017 um að fjarlægja skuli bílastæði af lóðinni Tunguhálsi 17.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir VDO ehf., lóðarhafi Tunguháls 19, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2017 að fjarlægja skuli bílastæði af lóðinni Tunguhálsi 17. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. mars 2017.

Málavextir: Hálsahverfi í Reykjavík er athafnasvæði fyrir léttan iðnað, sem hefur ekki í för með sér mengun. Þar er í gildi deiliskipulag frá árinu 2000. Árið 1999 gerðu þáverandi eigendur Tunguháls 17 og 19 með sér samning um afnotarétt á lóðarræmu frá norðvesturhorni húss nr. 17, sem er um 3,5 m breið og 20 m löng, og var utan girðingar Tunguháls 17. Samningurinn náði til þess að lóðarhafi Tunguháls 19 fengi afnot af lóðarræmunni til að hafa á henni bílastæði og myndi samningurinn falla úr gildi yrði um aðra nýtingu að ræða. Þessu samkomulagi var þinglýst á lóðina nr. 17 við Tunguháls. Hinn 3. nóvember 2016 barst eigendum Tunguháls 19 áskorun frá eigendum húss nr. 17 um að láta af notkun á umræddum bílastæðum innan þeirrar lóðar.

Með bréfi, dags. 15. febrúar 2017, gerði byggingarfulltrúinn í Reykjavík þá kröfu á hendur eiganda Tunguháls 17 að bílastæði á norðurhluta lóðarinnar við lóðamörk Tunguháls 17 og 19 yrðu fjarlægð. Fram kom í bréfi byggingarfulltrúa að það væri afstaða hans að ekki væru heimildir fyrir þessum bílastæðum á lóðinni, hvorki á lóðaruppdrætti né í deiliskipulagi.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun sé haldin stórfelldum ágöllum. Í fyrsta lagi verði ekki séð að byggingarfulltrúi hafi gætt að því að kanna þinglýstar heimildir og réttindi þriðju aðila til umræddrar lóðarræmu. Hafi málið hafist að frumkvæði lóðarhafa Tunguháls 17 og verði að ætla að sú skylda sem hvíli á byggingarfulltrúa að rannsaka málið sé enn ríkari en ella. Það að aðili kvarti undan tilvist bílastæða á eigin lóð hljóti að kalla á sérstaka eftirgrennslan á tilefni slíkrar kvörtunar. Ljóst sé að brotið var gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi kæranda, sem hafi augljósra hagsmuna að gæta í máli þessu, ekki verið gefinn kostur á að gæta réttinda sinna og koma að sjónarmiðum í málinu. Með því hafi verið brotið gegn andmælarétti hans.

Við ákvörðun byggingarfulltrúa hafi skort með öllu á að gerð væri grein fyrir þeim lagaheimildum sem hún hafi verið reist á og að gætt hafi verið að leiðbeiningarskyldu. Ekki sé vísað til kæruheimilda í erindinu eða réttinda aðila til að fá rökstuðning fyrir ákvörðun. Hafi þannig verið brotið gegn öllum skyldum stjórnvalds skv. V. kafla stjórnsýslulaga.

Kærandi sé á öndverðri skoðun við lóðarhafa Tunguháls 17, sem hafi allt frá árinu 2009 verið meðvitaður um réttindi kæranda um að þau væru brott fallin. Telji kærandi yfir vafa hafið að hann eigi lögvarða hagsmuni af nýtingu lóðarinnar, enda sé samkomuleg þess efnis skýrt og óumdeilt. Skipti þar engu þó svo að fyrir mistök hafi bílstæðanna ekki verið getið í deiliskipulagi. Auðsótt mál sé að leiðrétta það og sýna fram á tilvist réttindanna, enda einsýnt að byggingarfulltrúi hafi ekki haft nauðsynleg gögn við höndina þegar hann hafi tekið ákvörðun um að bílastæði kæranda skyldu fjarlægð. Um augljós mistök sé að ræða í þessu máli, enda hafi þrír starfsmenn byggingarfulltrúa lýst því yfir í samtali við lögmann kæranda að byggingarfulltrúi muni ekkert aðhafast í málinu, þó að skýr og afdráttarlaus fyrirmæli hans væru hundsuð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið fram að í máli þessu hafi byggingarfulltrúi tekið ákvörðun um að lóðin Tunguháls 17 skuli nýtt í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti, mæliblað og deiliskipulag. Einkaréttarlegir samningar geti ekki rutt úr vegi þeirri kröfu að umgengni um lóð sé í samræmi við þau hönnunargögn og þær ákvarðanir sem teknar hafi verið um nýtingu lóðar. Kærð ákvörðun byggi á 1. mgr. gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt því ákvæði beri byggingarfulltrúa að aðhafast, verði hann þess var, að lóðarfrágangur sé ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti, lög, reglugerðir eða byggingarlýsingu.

Athugasemdir lóðarhafa Tunguháls 17: Lóðarhafi tekur fram að hann telji ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2017 rétta og hyggst framfylgja henni. Þá sé því mótmælt að samkomulag frá árinu 1999 geti talist þess eðlis að það hafi áhrif á gildi umræddrar ákvörðunar byggingarfulltrúa.

Samkvæmt samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið sé ekki gert ráð fyrir bílastæðum á umræddri lóðarræmu við Tunguháls 17. Þessi skilningur hafi ítrekað fengist staðfestur hjá þar til bærum aðilum. Þýðing þessa sé að það samræmist ekki settum reglum að hafa bílastæði á þessu svæði. Þar af leiðandi geti samkomulagið ekki hafa talist gilt frá upphafi því að hér sé um að ræða samkomulag sem hafi frá undirritun verið andstætt þeim reglum sem aðilar hafi verið bundnir af. Með öðrum orðum hafi þáverandi eigendur ekki getað ráðstafað lóðarræmunni undir bílastæði þrátt fyrir mögulegan vilja þeirra þar um.

Aðstæður á svæðinu beri þess glöggt vitni að það henti engan veginn að nýta umrædda lóðarræmu undir bílastæði. Lóðin að Tunguhálsi 17 sé vinnulóð. Þar séu því vinnutæki á ferð um alla lóð auk þess sem þar sé mikið magn af stálstöplum og fleiru slíku sem tilheyri verktakafyrirtækjum.

Þrátt fyrir að margnefndu samkomulagi hafi verið þinglýst á árinu 1999 þá hafi því ekki verið fylgt eftir samkvæmt efni sínu og sé það mat lóðarhafa að það hafi fallið niður af þeim sökum, enda sé gerður skýr fyrirvari í orðalagi samkomulagsins um nýtingu ræmunnar sem bílastæðis en að öðrum kosti skildi afnotarétturinn falla niður. Lóðarhafi hafi verið eigandi Tunguháls 17 frá árinu 2009 en það hafi ekki verið fyrr en vorið 2016 að eigendur að Tunguhálsi 19 hafi krafist notkunar á lóðarræmunni með vísan til samkomulagsins. Þá hafi eigendur að Tunguhálsi 19 ekki virt ákvæði samkomulagsins um viðhald á malbiki og girðingu á svæðinu líkt og áskilnaður sé gerður um.

Kærandi hafi, allt frá því að málið hafi komið upp árið 2016, verið upplýstur um þá afstöðu lóðarhafa að samkomulagið eigi ekki rétt á sér, enda ógilt frá upphafi vegna áðurgreindra ástæðna, og sé til verulegs óhagræðis fyrir lóðarhafa og löngu fallið niður.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2017 um að lóðarhafi Tunguháls 17 skuli fjarlægja bílastæði af lóðinni sem kærandi telur sig hafa afnotarétt yfir samkvæmt þinglýstum samningi frá árinu 1999.

Ef ekki er gengið frá lóð samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skal gera eiganda eða umráðamanni lóðarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Byggingarfulltrúi getur krafist úrbóta eða beitt dagsektum sé leyfislausri notkun ekki hætt samkvæmt 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ákvörðun um beitingu þessa þvingunarúrræðis er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs.

Í gögnum málsins liggur fyrir að embætti byggingarfulltrúa telur staðsetningu bílastæða ekki vera í samræmi við samþykkta uppdrætti af lóðum nr. 17 og 19 við Tunguháls, svo sem fram kemur í bréfi embættisins til eiganda lóðar nr. 17, dags. 15. febrúar 2017. Kom þar fram að honum væri veittur 14 daga frestur til að koma með athugasemdir um málið eða að öðrum kosti fjarlægja bílastæðin innan 30 daga frá móttöku bréfsins. Í rökstuðningi byggingarfulltrúans í Reykjavík fyrir hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir þessum bílastæðum á samþykktum aðaluppdráttum eða deiliskipulagi. Kæranda var ekki tilkynnt um þessa ákvörðun byggingarfulltrúans, þó að ljóst sé að hann eigi hagsmuna að gæta í málinu á grundvelli áðurnefnds þinglýsts samkomulags um afnotarétt bílastæða við lóðamörk umræddra lóða. Það samkomulag var gert á árinu 1999 eða fyrir gildistöku deiliskipulags svæðisins. Kærandi fékk ekki vitneskju um hina kærðu ákvörðun fyrr en að athugasemdafresti liðnum, þegar honum var gert að láta af notum bílastæðanna.

Með gildandi deiliskipulagi frá árinu 2000 er ekki tekin ákvörðun um staðsetningu bílastæða á lóðum skipulagssvæðisins, en samkvæmt gildandi afstöðumynd fyrir lóð nr. 17 við Tunguháls, samþykktri af byggingarfulltrúa 20. ágúst 2013, er gert ráð fyrir bílastæðum á þessum hluta lóðarinnar. Verður því að telja að byggingarfulltrúi hafi byggt ákvörðun sína á röngum forsendum að þessu leyti.

Með vísan til þess er að framan greinir verður að telja að málsmeðferð og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðun sé svo áfátt að ógildingu varði.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2017 um að fjarlægja skuli bílastæði af lóðinni Tunguháls 17.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

17/2017 Vegamótastígur

Með
Árið 2017, föstudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir flutningi einbýlishúss af lóðinni nr. 9 við Vegamótastíg yfir á lóðina Grettisgötu 54b í Reykjavík og ákvörðun hans frá 18. október s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingum á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. janúar 2017, er barst nefndinni 4. febrúar s.á., kæra eigendur, Grettisgötu 3 og 3a, og eigendur, Grettisgötu 5, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2016 að samþykkja byggingarleyfi fyrir flutningi einbýlishúss af lóðinni nr. 9 við Vegamótastíg yfir á lóðina Grettisgötu 54b, Reykjavík, og þá ákvörðun hans frá 18. október s.á. að veita byggingarleyfi fyrir byggingum á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9 í Reykjavík. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 22. febrúar 2017.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.5, svonefndan Laugavegs- og Skólavörðustígsreit, frá árinu 2002. Með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 tók gildi breyting á því skipulagi þar sem heimilað var að reisa fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara að Vegamótastíg 7 og 9. Í kjallara skyldu vera bílastæði, og á lóðunum var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hverja 100 m2 verslunar- og þjónustuhúsnæðis og eitt stæði fyrir hverja 130 m2 hótelrýmis eða sambærilegrar starfsemi. Þá var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða til nota fyrir nefndar lóðir.

Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. febrúar 2016 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir flutningi friðaðs einbýlishúss frá árinu 1904, af lóðinni nr. 9 við Vegamótastíg, á steyptan sökkul á lóðinni nr. 54b við Grettisgötu. Þá var hinn 31. maí 2016 tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli á lóðunum nr. 7 og 9 við Vegamótastíg með 39 herbergjum fyrir 78 gesti auk bílageymslu í kjallara fyrir sex bíla. Þeirri umsókn var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn hans frá 1. júlí s.á. var tekið jákvætt í að minnka bílakjallara, en bent var á að lóðarhafi þyrfti að greiða fyrir stæðin sem upp á vantaði samkvæmt kröfum deiliskipulags og tryggja jafnframt stæði fyrir hreyfihamlaða við bygginguna. Á afgreiðslufundi sínum 20. september 2016 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn um leyfi fyrir flutningi fyrrgreinds húss og hinn 18. október s.á. var samþykkt byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli auk kjallara á tveimur hæðum. Er gert ráð fyrir 39 herbergjum fyrir 78 gesti og veitingastað í efri kjallara, en ekki er gert ráð fyrir bílastæðum í neðri kjallara á samþykktum teikningum og engin bílastæði á lóð eru merkt á uppdrætti.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir muni rýra verulega lífsgæði þeirra. Heimiluð sé bygging fimm hæða hótels með tveggja hæða bílakjallara og veitingastað með næturopnun. Útsýni frá fasteignum kærenda muni skerðast, birta minnka og ónæði muni skapast vegna hótelgesta, veitingastaðar og bílakjallara. Kærendur hafi komið á framfæri rökstuddum andmælum sem ekki hafi verið tekin gild. Kærendur kæri einnig niðurrif á húsi á sömu lóð. Framkvæmdir séu hafnar en kærendur telji að byggingarleyfi og framkvæmdarleyfi hafi ekki verið gefin út.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld taka fram að byggingaráform hafi verið samþykkt með vísan til gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í ákvæðinu sé fjallað um samþykkt byggingaráforma en slík samþykkt feli það eitt í sér að fyrirhuguð byggingarframkvæmd uppfylli ákvæði laga, reglugerða og skipulags. Með ákvörðun um samþykki byggingaráforma sé umsækjanda veittar réttmætar væntingar til þess að byggingarleyfi fáist útgefið. Samþykkt byggingaráforma heimili umsækjanda aftur á móti ekki að hefja framkvæmdir fyrr en að byggingarleyfi hafi verið gefið út sbr., 1. mgr. gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Óheimilt sé að hefja byggingarframkvæmd fyrr en að leyfi hafi verið gefið út.

Í kærumáli þessu liggi fyrir að byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út á grundvelli samþykktra byggingaráforma. Umsækjandi hafi ekki enn uppfyllt skilyrði gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð til þess að fá útgefið byggingarleyfi. Yfirferð séruppdrátta sé enn ekki lokið og ekki hafi enn verið gefið út takmarkað byggingarleyfi á grundvelli fyrrnefndra ákvæða. Á þeim grundvelli sé það mat byggingarfulltrúa að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. gr., sbr. 2. mgr. 4. gr., laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Beri því að vísa kærunni frá nefndinni.

Í kæru sé að finna röksemdafærslu fyrir kröfu kærenda sem byggi á skipulagslegum sjónarmiðum. Við gerð skipulagsáætlunar skuli m.a. litið til hæðar húsa, skuggavarps, starfsemi, birtu o.s.frv., sbr. gr. 5.3.2. og 5.1.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Samkvæmt 1. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð verði byggingarleyfisumsókn ekki samþykkt nema að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlun. Því geti ekki komið til greina að leggja mat á atriði sem taka skuli afstöðu til við skipulagsgerð þegar lagt sé mat á lögmæti byggingarleyfisumsóknar. Öðru máli gegni þegar kæra varði byggingarleyfi sem sé að mati kærenda ekki í samræmi við skipulagsskilmála. Ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir niðurrifi húss á lóðunum en aftur á móti hafi verið samþykkt byggingarleyfi fyrir flutningi húss af annarri lóðinni hinn 20. september s.á.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skuli í kæru koma fram hvaða ákvörðun sé kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru. Í kærunni sé ekki tiltekið með nákvæmum hætti hvaða stjórnvaldsákvörðun sé verið að kæra, en í upphafi segi að verið sé að kæra „framkvæmdir og byggingarleyfi vegna áætlaðrar byggingar við Vegamótastíg 7-9“. Í niðurlagi kærunnar segi að kærendur telji „að byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út“. Þá sé niðurrif á húsi á sömu lóð einnig kært. Flutningur gamals húss á lóðinni hafi farið fram nokkrum vikum fyrir dagsetningu kærunnar. Vandséð sé að kæra uppfylli almenn skilyrði stjórnvaldskæru.

Þá hafi deiliskipulagi reitsins verið breytt með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 en breytingin hafi tekið til lóðanna Vegamótastígs 7 og 9. Byggingarleyfið sem samþykkt hafi verið í október á síðasta ári sé að öllu leyti í samræmi við hið samþykkta deiliskipulag. Í kærunni sé ekki á nokkurn hátt reynt að sýna fram á að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við deiliskipulag. Aðeins sé verið að endurtaka þær athugasemdir sem gerðar hafi verið við deiliskipulagið á sínum tíma. Til þess að taka megi kæru til efnismeðferðar verði kærendur að tiltaka með skýrum hætti hvað það sé í útgefnu byggingarleyfi sem ekki sé í samræmi við lög eða gildar stjórnvaldsákvarðanir, þ.e. hvort eða með hvaða hætti byggingarleyfið sé ekki í samræmi við samþykkt og auglýst deiliskipulag. Það sé ekki gert í kærunni. Þegar af þessari ástæðu beri að hafna kærunni.

Niðurstaða: Kveðið er á um það í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun þeirri sem kæra á. Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2016 fól í sér heimild til flutnings mannvirkis af lóð. Kærendur hafa ekki teflt fram réttarhagsmunum sínum sem gætu raskast við flutning hússins, en telja verður að slík framkvæmd sé almennt ekki til þess fallin að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna. Skortir því á að fyrir liggi að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda ákvörðun byggingarfulltrúa um flutning hússins af lóð Vegamótastígs 9 sem veiti þeim kæruaðild í þeim þætti málsins. Verður kæru vegna greindrar ákvörðunar byggingarfulltrúa því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kæra í málinu er skrifleg og undirrituð. Þar kemur fram hverjir kærendur eru og má af henni ráða hvaða kröfur þeir geri. Úrskurðarnefndin starfar eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og hefur því bæði leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu um það hvað liggi að baki kæru. Með hliðsjón af framangreindu þykir skilyrðum um form kæru uppfyllt, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. október 2016 var umsókn leyfishafa um byggingarleyfi samþykkt. Sú ákvörðun var tekin í skjóli stjórnsýsluvalds og skapaði rétt til handa leyfishafa með tilteknum skilyrðum sem leyfishafa bar að uppfylla áður en að ráðist yrði í framkvæmdir. Samþykki byggingaráforma er því stjórnvaldsákvörðun sem ekki verður dregin til baka eða afturkölluð nema eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, en útgáfa byggingarleyfis fer fram í skjóli þeirrar ákvörðunar. Hin kærða ákvörðun um samþykki byggingaráforma um nýbyggingu á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9 verður því borin undir úrskurðarnefndina skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í skilmálum gildandi deiliskipulags sem tekur til lóðanna Vegamótastígs 7 og 9 segir: „Á lóðunum verða byggingar sem verða alls 5 hæðir, efsta hæð verður inndregin sem og 1. hæð. Kjallari á einni hæð verður undir húsunum“. Þá segir einnig: „Einnar hæðar kjallari verður undir húsunum og verður hann notaður fyrir bílastæði.“ Samkvæmt þeim aðaluppdráttum sem samþykktir voru af byggingarfulltrúa hinn 18. október 2016 verður kjallarinn undir húsunum á tveimur hæðum. Í neðri kjallara er gert ráð fyrir geymslum, þvottaherbergi o.fl. og í efri kjallara er gert ráð fyrir veitingasal. Liggur því fyrir að byggingarleyfið fer í bága við skilmála skipulagsins hvað varðar fjölda hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis. Skortir því á að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi skipulag eins og kveðið er á um í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki.

Í 6. kafla byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er að finna þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við eða á lóðum bygginga sem falla undir skilyrði kaflans um algilda hönnun. Í gr. 6.2.4. segir: „Ef fjöldi bílastæða á lóð annarra bygginga en falla undir 5. og 6. mgr. er ákvarðaður í skipulagi skal lágmarksfjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóð vera skv. töflu 6.03. Þegar um fleiri stæði er að ræða bætist við eitt stæði fyrir hver byrjuð 200 stæði. Ætíð skal að lágmarki gera ráð fyrir einu stæði fyrir hreyfihamlaða.“

Í byggingarlýsingu hins kærða byggingarleyfis fyrir nýbyggingum á fyrrgreindum lóðum kemur fram að samkvæmt deiliskipulagsskilmálum þyrftu að vera 15 bílastæði á lóðunum tveimur og greiða þurfi fyrir þau stæði. Á samþykktum aðaluppdráttum er ekki gert ráð fyrir bílastæðum í kjallara nýbyggingarinnar eða á lóðunum. Hinn 16. september 2016 var undirritað samkomulag milli Eignasjóðs Reykjavíkurborgar og leyfishafa vegna afnotaréttar af bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Samkvæmt samkomulaginu skyldi útvegað eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar. Stæðið skyldi merkt sem stæði fyrir hreyfihamlaða, en það yrði ekki sérmerkt Vegamótastíg 7 og 9. Fyrirhugað er að bílastæðið verði í um 10 m fjarlægð frá inngangi hótelsins, meðfram götu gegnt hótelinu.

Kröfur 6. kafla byggingarreglugerðar um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða og staðsetning þeirra gagnvart byggingum styðst við markmið algildrar hönnunar sem tryggja skal að sem flestir eigi kost á viðunandi aðgengi að tilteknum byggingum. Verður ekki talið að heimild 19. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, til þess að greiða bílastæðagjald ef ekki er hægt að koma bílastæðum fyrir á lóð, geti vikið til hliðar kröfum reglugerðarinnar um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða. Eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða, handan götu og sem ekki er sérstaklega ætlað að þjóna starfsemi á umræddum lóðum, uppfyllir ekki kröfur byggingarreglugerðar til bílastæða fyrir hreyfihamlaða.

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2016 um að samþykkja flutning á húsi af Vegamótastíg 9.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. október 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingum á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

110/2015 Drekahlíð

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2015, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skagafjarðar um synjun á umsókn kæranda um leyfi til að breikka innkeyrslu Drekahlíðar 4 á Sauðárkróki.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. desember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Drekahlíð 4, Sauðárkróki, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skagafjarðar frá 3. september 2014 að hafna umsókn hennar um leyfi fyrir breikkun á innkeyrslu Drekahlíðar 4. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að bæði sé kærð ákvörðun sveitarstjórnar um synjun á umsókn kæranda og ákvörðun um að synja beiðni hans um endurupptöku málsins.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu Skagafirði 11. janúar 2016 og 27. janúar 2017.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skagafjarðar hinn 22. ágúst 2014 var hafnað umsókn eigenda Drekahlíðar 4 um framkvæmdaleyfi fyrir breikkun innkeyrslu að nefndu húsi. Á fundinum var bókað að ekki væri hægt að fallast á breikkun innkeyrslu þar sem það myndi hafa í för með sér fækkun almennra bílastæða í götunni. Á fundi sínum 3. september s.á. samþykkti sveitarstjórn afgreiðslu nefndarinnar og var sú niðurstaða tilkynnt með bréfi, dags. 5. s.m. Með bréfi, dags. 2. október s.á., óskuðu umsækjendur eftir endurupptöku á synjun sveitarstjórnar. Á fundi sínum 15. s.m. hafnaði skipulags- og byggingarnefnd þeirri beiðni og á fundi sínum 29. s.m. staðfesti sveitarstjórn afgreiðslu nefndarinnar. Var tilkynning þess efnis send 3. nóvember 2014.

Í kjölfar þess að umsækjendur létu í ljós þá ætlun sína að kæra niðurstöðu sveitarstjórnar taldi sveitarfélagið rétt að fá lögfræðilegt álit á því hvort ástæða gæti verið til þess að taka málið upp að nýju. Með bréfi, dags. 26. maí 2015, var umsækjendum tilkynnt sú niðurstaða að ekki væri tilefni til endurupptöku málsins. Hins vegar var tekið fram að þar sem í fyrri tilkynningu hefði láðst að geta um kæruleiðir og kærufrest liti sveitarfélagið svo á að kærufrestur væri ekki liðinn heldur myndi hann hefjast við móttöku nefnds bréfs. Var jafnframt leiðbeint um kæruleið og kærufrest. Bréfinu fylgdi rökstuðningur fyrir ákvörðunum sveitarstjórnar um synjun um leyfi frá 3. september 2014 og um synjun á endurupptöku frá 29. október s.á., en einnig var vísað til þess að í samræmi við 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu umsækjendur óskað eftir frekari rökstuðningi.

Hinn 3. júní 2015 óskaði lögmaður umsækjenda eftir frekari rökstuðningi fyrir höfnun á beiðni þeirra. Með bréfi, dags. 5. nóvember s.á., barst umbeðinn rökstuðningur og kom fram að vegna dráttar á því að svara beiðninni samþykkti sveitarfélagið að veita mánaðar kærufrest til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Barst kæra síðan í máli þessu hinn 4. desember 2015, eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:
Kærandi tekur fram að ekki hafi borist sannfærandi rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Enn fremur gæti ósamræmis í afgreiðslu sambærilegra mála hjá sveitarfélaginu þar sem víða hafi verið samþykktar breikkanir á innkeyrslum í hverfi kæranda.

Það varði kæranda miklu að fá samþykkta umsótta breikkun á innkeyrslu þar sem lagning bifreiða í götunni þrengi mjög að aðkomu inn á lóð kæranda, sem geri það að verkum að ómögulegt sé að nýta hana sem geymslustað fyrir hjólhýsi eða kerru, svo dæmi sé tekið. Kærandi viti ekki til þess að umsókn aðila í sambærilegri stöðu hafi verið hafnað. Engin skrifleg stefna sé til um þessi mál hjá sveitarfélaginu og þau rök sem borin hafi verið á borð fái ekki staðist, enda engin gögn eða rannsóknir sem fylgi þeim. Þannig virðist að um geðþóttaákvörðun sé að ræða.

Málsrök Skagafjarðar:
Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að við afgreiðslu umræddrar umsóknar hafi verið viðhöfð sömu vinnubrögð og við afgreiðslu sambærilegra mála í tíð núverandi skipulags- og byggingarnefndar og þeirrar sem starfað hafi sl. kjörtímabil. Skriflegar umsóknir séu teknar fyrir og þær metnar með tilliti til umferðaröryggis, skipulags, fagurfræði og heildarhagsmuna íbúa sveitarfélagsins. Í þessu tiltekna máli hafi það ekki verið talið þjóna heildarhagsmunum íbúanna að leggja eitt almenningsbílastæði í götunni undir aðkomu að lóð kæranda. Um sé að ræða litla botnlangagötu þar sem bestu möguleikar á að leggja bílum utan lóða muni vera fyrir framan þrjú hús, þ. á m. hús kæranda. Sú skoðun muni hafa verið ríkjandi í skipulags- og byggingarnefnd þegar umrætt mál hafi verið afgreitt að aðkoma að lóðinni ætti að vera/væri mjög rúm og góð. Breidd heimkeyrslu sé 6 m og fjarlægð hússins frá lóðarmörkum 6 m.

Benda megi á að íbúðarhúsalóðir séu ekki ætlaðar sem geymslustaðir fyrir hjólhýsi, sbr. m.a. gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, en í kæru sé ein röksemdin sú að erfitt sé að koma hjólhýsi til geymslu inni á lóðinni. Vitni kærandi til afgreiðslu annarra mála sem hann telji sambærileg. Ljóst sé að mörg þeirra séu það ekki, sé litið til þeirra atriða sem ráði mati og áður séu nefnd. Sérstaklega hafi verið talið mikilvægt að gæta að umferðaröryggi við afgreiðslu mála, þótt að slíkt kunni að leiða til fækkunar almenningsbílastæða, enda hafi markmiðið verið að fækka þeim tilvikum að bílum sé lagt á akbraut í götustæðinu.

Niðurstaða: Mál þetta snýst um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Skagafjarðar um að hafna umsókn kæranda og eiginmanns hennar um breikkun á innkeyrslu að húsi þeirra að Drekahlíð 4 og lögmæti synjunar sveitarstjórnar á beiðni þeirra um endurupptöku þeirrar ákvörðunar.

Hin kærða ákvörðun um synjun um breikkun aðkomu inn á lóð Drekahlíðar 4 var tekin 3. september 2014 og tilkynning þess efnis var send á annað heimilisfang en lögheimili kæranda með bréfi, dags. 5. s.m. Umsækjendur fóru fram á endurupptöku málsins 2. október s.á. og verður því við það að miða að þeim hafi þá verið kunnugt um fyrrgreinda ákvörðun sveitarstjórnar. Endurupptökubeiðninni var synjað af hálfu sveitarstjórnar og var sú niðurstaða tilkynnt með bréfi, dags. 3. nóvember 2014, sem ekki var sent á lögheimilisfang kæranda og einungis stílað á meðumsækjanda hans. Verður ekki fullyrt að tilkynning sveitarstjórnar um synjun á beiðni kæranda um endurupptöku hafi borist honum fyrr en með bréfi, dags. 26. maí 2015. Í því bréfi var tilkynnt að afstaða sveitarstjórnar, að fengnu áliti lögmanns sveitarfélagsins, til beiðni um endurupptöku ákvörðunarinnar frá 5. september 2014 væri óbreytt og fylgdi rökstuðningur lögmannsins bréfinu. Var kæranda veittur 14 daga frestur til að fara fram á frekari rökstuðning fyrir synjun endurupptöku málsins, sem hann gerði með bréfi, dags. 3. júní 2015. Jafnframt var þar farið fram á afhendingu málsgagna og upplýsingar um afgreiðslu sambærilegra mála. Því bréfi var svarað fyrir hönd sveitarfélagsins með bréfi lögmanns þess, dags. 5. nóvember s.á.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Í 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er mælt fyrir um að sé beðist endurupptöku máls rofni kærufrestur. Hafni stjórnvaldið hins vegar að taka málið til meðferðar á ný haldi kærufrestur áfram að líða að nýju frá þeim tíma þegar sú ákvörðun er tilkynnt aðila. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kæra verður þó ekki tekin til efnismeðferðar ef meira en ár er liðið síðan ákvörðun var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. 28. gr.

Eins og að framan greinir barst kæranda tilkynning um synjun á endurupptöku ákvörðunar um höfnun á umsókn kæranda hinn 26. maí 2015 og fylgdi þeirri tilkynningu rökstuðningur fyrir þeirri synjun. Rann frestur til að kæra upphaflega ákvörðun frá 3. september 2014 því út í síðasta lagi í lok júní 2015, eða rúmum fimm mánuðum áður en kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni og rúmum 14 mánuðum eftir að kæranda hlaut að vera kunnugt um synjun umsóknar sinnar og beðið var um endurupptöku ákvörðunarinnar. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar sveitarstjórnar Skagafjarðar frá 3. september 2014 því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga.

Í tilkynningu um höfnun á beiðni um endurupptöku málsins frá 26. maí 2015 var kæranda gefinn kostur á að óska frekari rökstuðnings fyrir þeirri ákvörðun, sem og hann nýtti sér hinn 3. júní s.á. Sá rökstuðningur barst ekki fyrr en með bréfi sveitarfélagsins, dags. 5. nóvember 2015, og telst því kæra þeirrar ákvörðunar hafa borist innan kærufrests, eða hinn 4. desember s.á.

Í rökstuðningi sveitarfélagsins fyrir synjun á beiðni um endurupptöku kemur m.a. fram að aðkoma að lóð kæranda sé þegar rúm. Tvö bílastæði séu fyrir framan húsið og hafi verið frá upphafi samkvæmt uppdráttum og ekki hafi komið fram haldbær rök fyrir þeirri kröfu að nauðsynlegt sé að hafa þrjú bílastæði á lóðinni. Þá komi einnig fram að þau hús sem kærandi vísi til í endurupptökubeiðni sinni séu töluvert stærri en hús kæranda, sem réttlæti þá stærri innkeyrslu. Með fjölgun bílastæða við Raftahlíð 71, 73 og 77 hafi bílar, sem lagt hafi verið við akbraut, flust á viðkomandi lóðir, en það eigi ekki við í tilfelli kæranda. Kærandi telur hins vegar að ekki búi fullnægjandi rök að baki ákvörðuninni um synjun á endurupptöku máls og honum sé mikilvægt að fá aðkomu inn á lóð sína breikkaða.

Heimild fyrir endurupptöku ákvörðunar stjórnvalds er í 24. gr. stjórnsýslulaga og eru þar skilyrði endurupptöku þau að ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Ekki verður séð af þeim gögnum og upplýsingum sem fyrir liggja í máli þessu að umrædd ákvörðun hafi byggst á röngum eða ófullnægjandi gögnum, en málsaðila greinir á hinn bóginn á um réttmæti ákvörðunarinnar og um mat sveitarstjórnar á þeim sjónarmiðum sem búa henni að baki. Að þessu virtu verður ekki talið að skilyrði endurupptöku skv. nefndri 24. gr. stjórnsýslulaga hafi verið fyrir hendi og verður kröfu um ógildingu þeirrar ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skagafjarðar frá 3. september 2014 um að hafna umsókn um leyfi fyrir breikkun á innkeyrslu Drekahlíðar 4 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skagafjarðar frá 29. október 2014 um að synja um endurupptöku fyrrgreindrar ákvörðunar.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

65/2015 Guðrúnartún

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 23. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2015, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 16. febrúar 2016 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits vegna lóðarinnar Guðrúnartúns 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. ágúst 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Húsfélagið Sætún 1, Reykjavík, þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 16. febrúar 2016, að synja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits vegna lóðarinnar Guðrúnartúns 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 29. apríl 2016.

Málavextir: Lóðin Guðrúnartún 1 er á svæði sem deiliskipulag Borgartúnsreits vestur, frá árinu 2011, tekur til. Árið 2012 var gerð breyting á deiliskipulaginu þar sem heimiluð var aukning byggingarmagns á lóðinni um 1.500 m2. Jafnframt var samþykkt stækkun á bílakjallara þannig að bílastæðum fjölgaði þar um 27 en að bílastæðum á þaki bílakjallarans fækkaði að sama skapi. Þá tók gildi breyting á deiliskipulaginu hinn 29. apríl 2013, með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, þar sem heimiluð var stækkun hússins að Guðrúnartúni 1 um 250 m2 en bílastæðafjöldi yrði áfram óbreyttur, eða 140 stæði. Með umsókn, dags. 16. september 2014, óskaði kærandi eftir því að bílastæðum á umræddri lóð yrði fjölgað um 27 og að þau yrðu staðsett á þaki bílageymslunnar. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 29. september s.á., kom fram að við deiliskipulagsbreytingu árið 2013 hefði verið lögð áhersla á að fjölgun bílastæða ætti sér aðeins stað neðanjarðar. Meginmarkmið umferðarstefnu aðalskipulags Reykjavíkur væri að bæta borgarumhverfi, stýra umferðarflæði og stuðla að breyttum ferðavenjum og vistvænni samgöngum. Í stað fjölgunar bílastæða var lagt til að athuguð yrði stýring bílastæða á lóðinni með lokun og/eða gjaldtöku. Var umsókninni hafnað 8. október 2014.

Með umsókn, dags. 12. maí 2015, fór kærandi enn fram á breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Guðrúnartúns 1 og var hún efnislega samhljóða fyrri umsókn frá árinu 2014. Í umsögn skipulagsfulltrúa, sem lögð var fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 10. júní s.á., kom fram að þar sem ekkert nýtt hefði komið fram í málinu væri vísað til fyrri umsagnar frá 29. september 2014. Með bréfi, dags. 14. júlí 2015, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið hafnað á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 10. júní s.á. og að sú afgreiðsla hefði verið staðfest af borgarráði. Það var hins vegar ekki fyrr en 11. febrúar 2016 að borgarráð staðfesti afgreiðslu ráðsins og var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarstjórnar 16. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að að ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 mæli fyrir um að deiliskipulag skuli innihalda skipulagsskilmála þar sem nánar sé fjallað um útfærslu skipulags, m.a. um fjölda bílastæða. Af ákvæðum skipulagslaga verði ráðið að rík áhersla sé lögð á að lóðarhafar tryggi að til staðar sé nægilegur fjöldi bílastæða til þess að mæta þeim kröfum sem gerðar séu til viðkomandi svæðis með hliðsjón af þeirri starfsemi sem borgaryfirvöld hafi skipulagt á svæðinu. Á þessum áður svokölluðu Borgartúnsreitum, sem nú tilheyri Miðsvæði aðalskipulags (M1b), þ.m.t. lóð kærenda, sé gert ráð fyrir atvinnustarfsemi, s.s. skrifstofu-, verslunar- og þjónustustarfsemi, sem krefjist tiltekins fjölda bílastæða. Skipulagsyfirvöldum sé fullkunnugt um að ófremdarástand ríki á umræddu svæði að þessu leyti og sé þeim bæði rétt og skylt að tryggja viðunandi lausn vandans með fjölgun bílastæða, eftir því sem aðstæður leyfi, og jafnframt að gæta jafnræðis og meðalhófs gagnvart lóðarhöfum við afgreiðslu mála. Umsókn kæranda hafi verið í samræmi við áherslur umhverfis- og skipulagsráðs um að fjölgun bílastæða eigi sér einungis stað neðanjarðar.

Hús á Borgartúnsreitum/Miðsvæði hafi verið byggt á ólíkum tímaskeiðum og þá að gættum gildandi reglum á hverjum tíma. Þegar litið sé til þess hvernig afgreiðslu deiliskipulags hafi verið háttað á undanförnum árum til dagsins í dag komi í ljós að borgaryfirvöld hafi brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við afgreiðslu á umsókn kæranda. Í henni hafi verið farið fram á að stæðafjöldi á lóð hans færi úr einu stæði á hverja 48,0 m2 í eitt stæði á hverja 40,3 m2. Á svokölluðum Höfðatorgsreit, sem einnig tilheyri svæði Borgartúnsreita/Miðsvæði, hafi verið samþykkt hinn 13. febrúar 2014 breyting á deiliskipulagi þar sem staðfestir hafi verið sömu skilmálar og voru í áðurgildandi deiliskipulagi frá árinu 2007. Hafi þar verið miðað við að lágmarki eitt bílastæði fyrir hverja 50 m2 flatarmáls bygginga en að hámarki eitt stæði á hverja 30 m2. Engin rök séu færð fram fyrir því í deiliskipulagi hvers vegna lóðarhöfum á þessu svæði sé veitt slík ívilnun á sama tíma og kæranda sé neitað um hófstilltari fjölgun stæða.

Framkvæmdum við stækkun húsnæðis um ríflega þriðjung að Guðrúnartúni 1 sé að mestu lokið. Sú stækkun, sem sé tilkomin vegna brýnna þarfa eigenda, hefði með réttu átt að leiða til þess að eigendum yrði heimilað, eða í raun gert skylt, í samræmi við skipulagslög að fjölga bílastæðum á lóðinni því til samræmis. Borgaryfirvöld hafi lýst því yfir að fjölgun bílastæða skuli einungis eiga sér stað neðanjarðar og þá röksemd geti kærandi fallist á. Hann standi hins vegar frammi fyrir þeirri sérkennilegu kröfu borgaryfirvalda að hann láti fjarlægja 27 stæði af yfirborði jarðar og byggja yfir stæðin neðanjarðar. Ekki þurfi að fjölyrða um að slíkt hefði í för með sér mikil fjárútlát fyrir eigendur húsnæðisins, án nokkurs ávinnings. Með mótsagnakenndri afstöðu sinni og rökstuðningi hafi borgaryfirvöld þannig lagt íþyngjandi kvöð á kæranda og þverbrotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að með breytingu á deiliskipulagi fyrir reit 1.216.1, vegna lóðarinnar nr. 1 við Guðrúnartún á árinu 2014, hafi verið heimilað að stækka núverandi fjögurra hæða tengibyggingu, milli norður- og suðurhúss, um allt að 250 m2. Bílastæðafjöldi á lóð hafi ekki breyst. Hann hafi verið eitt stæði á 35,6 m2 húsnæðis, en verði eftir stækkunina eitt stæði á hverja 48,0 m2. Gert hafi verið ráð fyrir að 27 bílastæðum sem séu á lóðinni yrði komið fyrir í stækkuðum bílakjallara undir tengibyggingunni.

Kærandi hafi áður freistað þess að sækja um hina umþrættu breytingu, en á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 8. október 2014 hafi verið samþykkt neikvæð umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 29. september s.á., vegna óska um breytingu á deiliskipulagi reitsins, sem fæli í sér fjölgun bílastæða. Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi komið fram að við meðferð málsins hafi umhverfis- og skipulagsráð lagt áherslu á að fjölgun bílastæða ætti sér aðeins stað neðanjarðar. Einnig hafi verið tiltekið að fjölgun bílastæðanna samræmdist ekki markmiðum aðalskipulags Reykjavíkur, en meginmarkmið umferðarstefnu aðalskipulagsins væri að bæta borgarumhverfi, stýra umferðarflæði og stuðla að breyttum ferðavenjum og vistvænni samgöngum. Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur sé Guðrúnartún á svæði 1 og þar sé viðmiðið að hámarki eitt bílastæði á hverja 50 m2 atvinnuhúsnæðis. Umsókn kæranda sem hafnað hafi verið feli í sér að fjöldi bílastæða færi úr einu stæði fyrir hverja 48,0 m2 húsnæðis í eitt stæði fyrir hverja 40,3 m2 og hafi hún því ekki samræmst ákvæðum aðalskipulagsins um fjölda bílastæða.

Samkvæmt skipulagslögum skuli fjöldi bílastæða ákveðinn í deiliskipulagi og geti ólíkar aðstæður á lóðum leitt til mismunandi krafna um fjölda bílastæða á hverjum tíma. Slíkt feli ekki í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og sé á það bent að bílastæði á Höfðatorgsreitnum sé að stærstum hluta neðanjarðar. Því sé ekki til að dreifa á lóð kæranda, en hann  fari nú fram á að fá að halda í stæði sem þegar séu ofanjarðar, en eigi samkvæmt gildandi deiliskipulagi að færast niður í stækkaðan bílakjallara.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur um að synja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi er fæli í sér heimild fyrir 27 bílastæðum ofanjarðar á lóðinni Guðrúnartúni 1, sem í gildandi deiliskipulagi skulu víkja þaðan.

Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. laganna. Í skipulagsáætlunum er sett fram stefna skipulagsyfirvalda um þróun byggðar og landnotkun og teknar ákvarðanir um samgöngur og mannvirki sem þeim tengjast. Við beitingu skipulagsvalds ber að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Við töku skipulagsákvarðana eru sveitarstjórnir enn fremur bundnar af lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er til að ná þeim markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Samkvæmt bíla- og hjólastæðisstefnu í gildandi aðalskipulagi, bls. 154-155, er Guðrúnartún 1 á svæði 1 þar sem miðað er við eitt bílastæði að hámarki á hverja 50 m2  atvinnuhúsnæðis. Hins vegar má víkja  frá því til hækkunar eða lækkunar í hverfis- eða deiliskipulagi en rökstyðja þarf slíkt frávik sérstaklega. Í gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir 140 bílastæðum á lóðinni Guðrúnartúni 1, eða einu bílastæði á hverja 48 m2,  að teknu tilliti til heimilaðra bygginga.

Í umsögn skipulagsfulltrúa vegna umsóknar kæranda, sem hin kærða ákvörðun studdist við, kemur fram að við breytingu deiliskipulags umrædds svæðis árið 2013 hafi verið lögð áhersla á að fjölgun bílastæða ætti sér aðeins stað neðanjarðar. Þá komi fram í aðalskipulagi að lagt sé til að settar verði reglur um hámarksfjölda bílastæða á völdum svæðum og að fjölgun bílastæða hafi í för með sér aukna umferð. Í umsögninni var og vísað til þess meginmarkmiðs umferðarstefnu aðalskipulags Reykjavíkur að bæta borgarumhverfi, stýra umferðarflæði og stuðla að breyttum ferðavenjum og vistvænni samgöngum. Studdist ákvörðun Reykjavíkurborgar því við efnisrök og stefnu gildandi aðalskipulags.

Að öllu framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim annmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgstjórnar Reykjavíkur frá 16. febrúar 2016 um að synja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits vegna lóðarinnar Guðrúnartúns 1.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

26/2015 Ferjuvað

Með
Árið 2016, föstudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 um að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. apríl 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir S Ferjuvaði 3, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að byggingarleyfishafa verði gert að ganga frá sérmerktu bílastæði fyrir fatlaða í bílageymslu í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti frá 21. febrúar 2012. Þá er gerð krafa um að lokaúttekt byggingarfulltrúa verði felld úr gildi. Að auki var farið fram á að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði uppkveðnum 22. júní 2015 og verður kærumál þetta nú tekið til efnislegrar úrlausnar.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 28. maí 2015 og 22. desember 2016.

Málsatvik: Hinn 21. febrúar 2012 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa samþykkt umsókn um leyfi til að reisa fjögurra hæða steinsteypt fjölbýlishús með 34 íbúðum á lóð Ferjuvaðs 1-3 í Reykjavík. Samkvæmt byggingarlýsingu á samþykktri afstöðumynd voru 42 bílastæði á lóð og 26 stæði í bílageymslu, alls 68 bílastæði. Gert var ráð fyrir tveimur sérmerktum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð og einu í bílageymslu. Í júlí 2013 festi kærandi kaup á íbúð 01-06, ásamt stæði í bílageymslu, merktu B-17, og var eignin afhent á árinu 2014. Er íbúð kæranda ætluð fyrir fatlaða samkvæmt samþykktum teikningum. Á tímabilinu janúar til apríl 2014 mun kærandi ítrekað hafa vakið athygli byggingarleyfishafa á því að dyr við bílastæði í bílageymslu væri ranglega staðsett og gert þá kröfu að hún yrði færð til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti hússins. Mun það ekki hafa verið gert og 2. maí 2014 gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt hússins. Í kjölfar þessa mun kærandi hafa haft samband við Reykjavíkurborg vegna málsins.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. maí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á innra skipulagi í húsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað en afgreiðslu málsins frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Með tölvubréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa 13. ágúst s.á. var tilkynnt að hafnað væri ósk um tilfærslu á dyrum á milli brunastúku og bílastæðis merktu B-17, en umrætt stæði væri ætlað fyrir hreyfihamlaða og yrði að uppfylla ákveðin skilyrði. Munu byggingarfulltrúi og leyfishafi hafa fundað um málið 22. september 2014. Með bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 30 október s.á., var honum veittur þrjátíu daga frestur til gera lagfæringar í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti eða uppfæra þá til samræmis við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og fá samþykkt byggingarleyfi fyrir þeim breytingum. Jafnframt var tekið fram í bréfinu að endurtaka yrði lokaúttekt byggingarfulltrúa.

Hinn 17. mars 2015 samþykkti byggingarfulltrúi á afgreiðslufundi sínum umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á byggingartíma á innra skipulagi hússins á fyrrgreindri lóð. Fólust breytingarnar m.a. í því að eldvarnarhurð var hliðrað til í eldvarnarvegg fyrir brunastúku á milli stigahúss og bílgeymslu og stæði kæranda í bílageymslu breytt.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að samkvæmt samþykktri afstöðumynd fyrir Ferjuvað 1-3 sé íbúð 01-06 sérstaklega hönnuð fyrir þarfir fatlaðra. Fylgi henni bílastæði merkt B-17 í bílageymslu samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu. Með samþykktri breytingu sé því bílastæði breytt í venjulegt bílastæði án aðgengis fyrir fatlaða. Sé um meiri háttar og grófa aðför að lögvörðum réttindum fatlaðra að ræða. Íbúðum fyrir fatlaða skuli fylgja sérmerkt bílastæði. Stæði fyrir fatlaða á sameiginlegri lóð hússins séu sameign allra og óheimilt að sérmerkja þau einstökum íbúðum löngu eftir að búið sé að selja allar íbúðir í húsinu. Gangi hin kærða ákvörðun gegn ákvæðum fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, laga um mannvirki nr. 160/2010, byggingarreglugerð nr. 112/2012 og eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið.

Eigi ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 við í máli þessu en þegar byggingarleyfishafi hafi sótt um byggingarleyfi fyrir fasteigninni hafi ekki legið fyrir ósk hans um að ákvæði eldri byggingarreglugerðar nr. 441/1998 myndu gilda um viðkomandi mannvirkjagerð. Engu máli skipti hvenær umsókn um byggingarleyfi sé lögð inn til samþykktar. Það sem ráði því hvort ákvæði eldri byggingarreglugerðar eða núgildandi reglugerðar gildi sé hvenær byggingaráform séu samþykkt og hvort útgáfa byggingarleyfis sé fyrir eða eftir gildisdag reglugerðarinnar. Fram hafi komið við samþykkt byggingaráforma hússins að umsóknin samræmdist ákvæðum mannvirkjalaga. Þá séu gerðar athugasemdir við að byggingarfulltrúi hafi byggt ákvarðanatöku sína á áliti lögmanns sem vart geti talist hlutlaust og líti eingöngu til þeirra atriða sem réttlæti og verji framgöngu byggingarleyfishafa.

Við lokaúttekt hafi verið stuðst við samþykkta aðaluppdrætti en ekki hafi verið byggt í samræmi við þá. Hafi byggingaraðili ekki upplýst byggingarfulltrúa um breytingar í bílakjallara. Ekki hafi verið gerð úttekt á aðgengi fyrir fatlaða við lokaúttekt eins og lög og reglur geri ráð fyrir. Hafi enginn rökstuðningur verið lagður fram af hálfu byggingarfulltrúa um nauðsyn þess að samþykkja umræddar breytingar. Sé samþykkt teikning frá 21. febrúar 2012 í samræmi við lög og reglugerðir og hafi bæði byggingarfulltrúi og Eldvarnareftirlit staðfest að svo sé. Þá sé vakin sérstök athygli á ákvæðum 2. mgr. 3. gr. laga nr. 160/2010 um aðgengi fyrir alla.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Fram komi í áliti sem sveitarfélagið hafi aflað sér að ljúka hafi átt meðferð umsóknar frá 31. janúar 2012 um byggingarleyfi fyrir Ferjuvað 1-3 á grundvelli byggingarreglugerðar nr. 441/1998, eins og í raun virðist hafa vera gert. Því sé eðlilegt að breytingar á byggingartíma, sem áttu sér stað við byggingu bílageymslu, séu metnar með tilliti til sömu reglugerðar. Þá sé tekið fram í fyrrgreindu áliti að samkvæmt gr. 30.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skuli þess gætt að „allar samþykktar breytingar séu skráðar“ og „reyndarteikningar skuli afhentar byggjanda áður en lokaúttekt fer fram“. Hvorutveggja hafi verið gert af hálfu framkvæmdaaðila og aðalhönnuðar hússins og óskað eftir samþykki fyrir breytingunum með umsókn þann 20. maí 2014, en afgreiðslu hennar hafi síðan verið frestað af byggingarfulltrúa. Að mati álitsgjafa hafi umræddar breytingar verið samkvæmt því óverulegar og réttmætar á byggingartíma og ekki hafi þurft samþykki meðeigenda fyrir þeim, enda hafi þeir ekki verið til staðar á framkvæmdatíma. Hliðrun á eldvarnarhurð hafi verið gerð til að skapa aukna fjarlægð á milli eldvarnarhurða í brunastúkunni. Að auki hafi bílastæði merkt B-17, fyrir hreyfihamlaða í bílageymslu, verið breytt í venjulegt bílastæði vegna fyrrgreindrar hliðrunar.

Samkvæmt gr. 64.4 reglugerðarinnar þurfi að gera ráð fyrir einu bílastæði fyrir hreyfihamlaða fyrir Ferjuvað 1-3, að lágmarki. Enginn sérstök skylda hvíli á húsbyggjendum að hafa bílastæði fatlaðra í bílageymslum sé kröfum um fjölda bílastæða fullnægt á annað borð. Í þessu tilviki hafi það verið gert með gerð tveggja bílastæða fyrir fatlaða á lóð. Sérstaklega sé bent á að um minniháttar nauðsynlegar breytingar hafi verið að ræða, sem gerðar hafi verið á byggingartíma, en ekki verði annað séð en að breidd stæðisins sé sú sama og áður. Þá séu engar forsendur til að fella úr gildi lokaúttektina og þess megi og geta að engar sérúttektir séu gerðar á aðgengi fatlaðra enda engin skylda til slíks.

Málsrök leyfishafa:
Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru, en hann hefur ekki látið málið til sín taka. Í fyrirliggjandi gögnum hjá úrskurðarnefndinni kemur fram að verktaki hússins og aðalhönnuður þess hafi á fundi með byggingarfulltrúa bent á að byggingin hafi verið samþykkt í tíð byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Því hafi ekki verið talið að gera þyrfti grein fyrir breytingum á byggingartíma fyrr en að framkvæmdum loknum. Jafnframt væri fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða í samræmi við þá reglugerð.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 20. desember 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi fjölbýlishússins við Ferjuvað 1-3. Voru breytingarnar gerðar á byggingartíma þess og fólust m.a. í að dyraopi fyrir eldvarnarhurð í vegg brunastúku milli stigahúss og bílageymslu var hliðrað til og bílastæði, sem merkt er B-17 í bílageymslu og ætlað er fyrir fatlaða, breytt af því tilefni. Álitaefni varðandi upphaflegt byggingarleyfi, svo sem um tilhögun bílastæða í bílageymslu og á lóð, sæta ekki endurskoðun í máli þessu umfram þær breytingar sem gerðar voru með hinni kærðu ákvörðun.
Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en það fellur utan valdheimilda hennar að fjalla um aðrar kröfur kæranda.
Kærandi festi kaup á íbúð sinni með kaupsamningi, þinglýstum 19. júlí 2013, og lágu þá fyrir samþykktar teikningar að húsinu, dags. 21. febrúar 2012. Samkvæmt þeim teikningum er íbúð kæranda hönnuð fyrir fatlaða og fylgir henni áðurgreint bílastæði B-17 ásamt hlutfallslegri eign í sameign bílageymslunnar, heildarhúsi og lóð. Er umrætt bílastæði séreign kæranda en í því felst einkaréttur hans til umráða og hagnýtingar þess með þeim takmörkunum sem leiðir af lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús, reglum nábýlisréttar og eðli máls, skv. 2. tl. 12. gr. fjöleignarhúsalaga. Fyrir liggur að kærandi var ekki samþykkur umræddum breytingum og hafði hann haft samband við embætti byggingarfulltrúa af því tilefni.
Með hinni kærðu breytingu var m.a. samþykkt að fyrrgreindar dyr væru innan fyrri markalínu bílastæðis kæranda og þar með þrengdist stæði hans vegna gönguleiðar frá dyrunum sem nemur um einum metra frá markalínunni að steinsteyptri stoð. Því hefur verið haldið fram að hin umdeilda breyting hafi verið nauðsynleg til að skapa aukna fjarlægð milli eldvarnardyra í brunastúku og um minniháttar breytingar hafi verið að ræða. Ekki liggur þó fyrir í málinu að upphafleg hönnun umræddrar bílageymslu hafi verið ábótavant m.t.t. brunavarna en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum samþykkti eldvarnareftirlit Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins aðaluppdrætti upphafslegs byggingarleyfis. Hins vegar er ljóst að þessi breyting hefur í för með sér töluverð áhrif á notagildi bílastæðis kæranda frá því sem áður var og óhagræði vegna lengri leiðar frá bílastæði að lyftu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir á skorta að fullnægjandi rök hafi legið að baki hinni kærðu ákvörðun, sem var íþyngjandi gagnvart kæranda. Ekki var haft samráð við eða aflað samþykkis hans við málsmeðferð og töku umræddrar ákvörðunar sem hafði bein áhrif á séreign kæranda. Verður hin kærða ákvörðun af þessum sökum felld úr gildi að því er varðar fyrrgreinda hliðrun dyra fyrir eldvarnarhurð og breytingu á bílastæði B-17 í bílageymslu umrædds húss. Með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir rétt að ákvörðunin standi óhögguð að öðru leyti.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 um að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað að því er varðar hliðrun á eldvarnardyrum í eldvarnarvegg á milli stigahúss og bílgeymslu og breytingar á bílastæði merktu B-17 í bílageymslu.

______________________________
Ómar Stefánsson

______________________________            ____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

43/2016 Golfvöllur Blikastaðanesi

Með
Árið 2016, þriðjudaginn 24. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 43/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 27. apríl 2016 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæða við golfvöllinn á Blikastaðanesi og aðkomuvegar að þeim.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir J, Þrastarhöfða 53 í Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 27. apríl 2016 að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæða við golfvöllinn á Blikastaðanesi og aðkomuvegar að þeim. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir sem heimilaðar séu í hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarnefndinni barst greinargerð frá Mosfellsbæ 11. maí 2016 í tilefni af framkominni stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Breyting á deiliskipulagi Blikastaðanes frá árinu 2004 vegna golfvallar öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2016. Í deiliskipulagsbreytingunni felst í meginatriðum að afmörkuð lóð stækkar og færist ásamt byggingarreit fyrir golfskála frá íbúðarbyggð. Þá er fyrirkomulag bílastæða sýnt og skipulagssvæðið stækkað svo stæðin ásamt vegtengingu verði innan þess. Hefur kærandi skotið þeirri deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar.

Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 19. apríl 2016 var samþykkt umsókn bæjarins og Golfklúbbs Mosfellsbæjar um leyfi fyrir áður greindum framkvæmdum og skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfi. Afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt af bæjarstjórn 27. s.m. og framkvæmdaleyfið gefið út 28. s.m. Hið kærða leyfi tekur til nauðsynlegra jarðvegsskipta, fyllinga og yfirborðsfrágangs 130 bílastæða og vegar með malarlagi auk annars lokafrágangs s.s. grjóthleðslna og þökulagningar. Umrædd bílastæði eru staðsett vestan við íbúðarhúsalóð kæranda.

Kærandi byggir kröfur sínar á því að um gríðarlega hagsmuni sé að ræða fyrir hann þar sem staðsetning bílastæða sé samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti rétt um 4,7 m frá lóðarmörkum fasteignar hans. Bílastæði svo þétt upp við nefnd lóðarmörk hafi í för með sér veruleg grenndaráhrif sem muni valda skerðingu á lífsgæðum. Þá hafi framkvæmdir verið hafnar fyrir útgáfu framkvæmdaleyfisins, eða 24. apríl. Samkvæmt 16. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi sé m.a. skýrlega tekið fram, að ef framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd sé hafin án þess að framkvæmdaleyfi sé fengið fyrir henni, skuli skipulagsfulltrúi stöðva slíka framkvæmd tafarlaust og leita staðfestingar sveitastjórnar.

Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins sé fjarlægð bílastæða frá lóðarmörkum kæranda 12,5 m. Felld hafi verið niður níu stæði miðað við upphaflega tillögu deiliskipulagsbreytingar frá árinu 2016 til að koma til móts við kæranda og gæta meðalhófs. Hafi framkvæmdir hafist áður en framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út, hafi það ekki verið með vitund eða samþykki sveitarfélagsins. Fyrir liggi að núverandi framkvæmdir séu hins vegar í samræmi við útgefið leyfi.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi framkvæmdaleyfis vegna bílastæða og vegar með malarlagi. Vinna við umdeilda framkvæmd er þegar hafin og líta verður til þess að ætla má að stöðvun verksins nú muni hafa í för með sér umtalsverða röskun og fjártjón með hliðsjón af þegar gerðum samningum við verktaka. Þegar litið er til framangreindra lagaákvæða og að um er að ræða afturtæka framkvæmd, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kæranda, að fallast á kröfu hans um stöðvun framkvæmda enda ber framkvæmdaaðili af þeim alla áhættu verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi og verður kröfu kæranda því hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

15/2013 Laugarvatn

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 8. nóvember 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir þéttbýlið Laugarvatn í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 11. febrúar 2013, kærir Þórir Þórisson, f.h. E, Reykjabraut 5, Laugarvatni, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 8. nóvember 2012 að samþykkja deiliskipulag fyrir þéttbýlið við Laugarvatn í Bláskógabyggð. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi að því er varði reit 5, Íbúðarbyggð við Laugar-, Bjarkar-, Lindar-, Dal-, og Reykjarbraut.

Greinargerð sveitarfélagsins og gögn í málinu bárust úrskurðarnefndinni 13. mars 2013 og á árunum 2014 og 2015.

Málavextir: Lýsing á skipulagsverkefni fyrir þéttbýlið Laugarvatn var kynnt á íbúafundi á Laugarvatni í september 2011. Tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis var kynnt á almennum fundi í mars 2012 og íbúar og hagsmunaaðilar hvattir til að koma að athugasemdum og ábendingum til skipulagsfulltrúa. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 25. júlí s.á. var lögð fram endurskoðuð tillaga að deiliskipulagi Laugarvatns. Gerði nefndin ekki athugasemd við hana og vísaði henni til afgreiðslu hjá sveitarstjórn. Hinn 26. s.m. samþykkti byggðarráð Bláskógabyggðar að auglýsa fyrrgreinda tillögu til kynningar. Var hún m.a. auglýst í Dagskránni, Fréttablaðinu og Lögbirtingarblaðinu og bárust nokkrar athugasemdir á kynningartíma. Samhliða var auglýst tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 innan þéttbýlisins Laugarvatns.

Að loknum kynningartíma deiliskipulagstillögunnar var hún til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar 25. október 2012 og var eftirfarandi m.a. fært til bókar: „Níu athugasemdabréf bárust á kynningartíma auk þess sem fyrir liggja umsagnir frá Vegagerð ríkisins og Fornleifavernd ríkisins. Að auki liggur fyrir tillaga Skógræktar ríkisins að nýrri staðsetningu áfangastaðar inn í skógi ofan þjóðvegar. Þá liggur fyrir tillaga skipulagsráðgjafa að umsögn um innkomnar athugasemdir og þær ábendingar sem fram koma í umsögnum Vegagerðar og Fornleifaverndar. Nefndin samþykkir fyrirliggjandi umsögn um athugasemdir og mælir með að sveitarstjórn samþykki fyrirliggjandi deiliskipulag óbreytt í helstu meginþáttum. Gerðar eru minniháttar breytingar sem felast í breytingu á orðalagi varðandi akstursheimild upp göngustíg að grafreit, bætt er við áningarstað í skógi ofan við þjóðveg og bætt er við bílastæðum á lóðinni Dalbraut 4.“ Málið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 8. nóvember 2012, og samþykkti hún nefnda afgreiðslu, sem og umsögn um fram komnar athugasemdir. Deiliskipulagið var í kjölfar þess sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 10. desember 2012, kom fram að hún teldi að nánari skýringa væri þörf áður en stofnunin tæki afstöðu til erindisins. Að skýringum fengnum tók Skipulagsstofnun erindið fyrir að nýju og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda 11. janúar 2013. Tók fyrrgreind breyting á aðalskipulagi Laugardalshrepps gildi 10. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er gerð athugasemd við staðsetningu byggingarreits fyrir bílskúr að Dalbraut 4, með aðkomu frá Reykjabraut. Muni staðsetningin hindra aðkomu og aðgengi að húsi kæranda og sé til þess fallin að skapa hættu. Töluverð þrengsli séu við enda götunnar og muni stækkun veitingahúss við Dalbraut 6 auka á þann vanda. Götumyndin muni einnig breytast, en byggingarreitur hússins sé ekki í línu við aðra byggingarreiti. Líta þurfi til þess hvort téðar breytingar séu í samræmi við lög og reglugerðir um íbúðahverfi og athuga fjölda bílastæða fyrir umrædda starfsemi. Göngustígur, sem áætlaður sé á milli Reykjabrautar 3 og 5, skerði lóð kæranda. Loks sé gerð athugasemd við kynningu málsins sem hafi verið villandi og ófullnægjandi.

Málsrök Bláskógabyggðar: Sveitarfélagið bendir á að ekki hafi verið bílastæði innan lóðarinnar að Dalbraut 4 og að borist hafi beiðni um byggingu bílskúrs á téðri lóð. Hafi skipulagsyfirvöld metið það svo að ekki væri hægt að gera ráð fyrir aðkomu að honum frá Dalbraut, m.a. vegna götumyndar, heldur frekar frá Reykjabraut. Bílskúrsreiturinn sé 2,5 m frá lóðarmörkum og kanti gangstígs við götu. Hann sé nokkuð inn á lóðinni með rúmu plássi fyrir bíl milli bílskúrs og lóðarmarka. Hvorki sé verið að þrengja að núverandi aðkomu þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir séu allar innan lóðarmarka né skerða möguleikann á því að leggja bifreið meðfram gangstétt fyrir framan íbúðarhús kæranda. Haldist gatan og snúningssvæði hennar óbreytt. Þá sé ekki verið að þrengja að Reykjabrautinni eða snúningsási götunnar með mögulegri stækkun veitingahúss á lóðinni að Dalbraut 6. Eingöngu sé gert fyrir aðgengi að húsinu frá Dalbraut, en ekki frá Reykjabraut. Sé því ekki talin hætta á að mikil ásókn verði í að leggja bílum við síðarnefnda götuna. Þá sé byggingarlína núverandi húsa mismunandi.

Vegna athugasemda um göngustíg sé tekið fram að töluverð óvissa hafi verið um nákvæm lóðarmörk margra eldri lóða innan Laugarvatns. Samkvæmt grunni sem deiliskipulagið hafi verið unnið eftir sé bil á milli lóða nr. 3 og 5 við Reykjabraut. Ef í ljós komi að grunnurinn sé ekki réttur og ekki sé vilji til að hafa göngustíg á þessum stað verði það skoðað sérstaklega. Jafnframt sé bent á að málsmeðferð deiliskipulagsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010. Hafi frá upphafi máls þessa verið lögð áhersla á mikið og gott samráð við hagsmunaðila innan Laugarvatns, bæði íbúa, rekstraraðila, umsagnaraðila og eigendur fasteigna.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags fyrir þéttbýlið Laugarvatn. Er hið skipulagða svæði um 147 ha að stærð, skipt í nokkra skipulagsreiti og eru sérskilmálar fyrir hvern þeirra. Í greinargerð hins umdeilda deiliskipulags er m.a. tekið fram að því sé aðallega ætlað að ná utan um skipulagsmál byggðarinnar og tryggja samræmi í lóðarskilmálum um leið og veitt sé svigrúm fyrir eðlilega stækkun og þróun þéttbýlis. Við gildistöku deiliskipulagsins féllu úr gildi fimm deiliskipulagsáætlanir fyrir svæðið en hluti svæðisins var þó ekki deiliskipulagður. Fram kemur í téðri greinargerð að ekki sé um neinar eðlisbreytingar á stefnumiðum að ræða. 
Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar og annast hún og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. laganna. Við beitingu þess ber m.a. að fylgja markmiðssetningu nefndra laga sem tíunduð er í 1. gr. þeirra. Þar er t.a.m. kveðið á um að stuðla skuli að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða. Jafnframt skal tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Ljóst er að sveitarstjórnum er að lögum ætlað víðtækt vald til ákvarðana um skipulag. Þá gera skipulagslög ráð fyrir að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignaréttindum og kveða lögin m.a. á um rétt til bóta að vissum skilyrðum uppfylltum.

Gera þarf grein fyrir fyrirkomulagi göngustíga í deiliskipulagi eftir því sem þurfa þykir samkvæmt 6. mgr. gr. 4.16.2 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Á uppdrætti hins umdeilda deiliskipulags er sýndur göngustígur á milli lóða nr. 3 og 5 við Reykjabraut, sem kærandi telur að fari inn á lóð hans. Þar sem kærandi á hagsmuna að gæta um nýtingu umræddrar lóðar hefði verið rétt að leita samráðs við hann við gerð hins umdeilda deiliskipulags ef nefndur stígur fæli í sér skerðingu á lóð hans. Áhöld eru hins vegar um hvort téður göngustígur fari inn á nefnda lóð. Af efni lóðarleigusamnings, sem þinglýst var á árinu 1970, má ráða að lóðin Reykjabraut 5 liggi á milli tveggja lóða. Samningurinn sker þó ekki með óyggjandi hætti úr um lóðamörk og ekki liggja fyrir úrskurðarnefndinni nein önnur þau gögn, svo sem lóðarblað, er renna stoðum undir fullyrðingar kæranda. Verður því ekki fullyrt að tilefni hafi verið til samráðs við kæranda umfram það sem mælt er fyrir um almennt. Þá skal á það bent að deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignarréttindum nema að undangengnum samningi, eða eftir atvikum eignarnámi, verði talin til skilyrði þess.

Fram kemur í almennum skilmálum skipulagsins að gert sé ráð fyrir bílgeymslu við hvert íbúðarhús, ýmist sambyggðri eða stakri, og skal hún ávallt rúmast innan byggingarreits. Samkvæmt upplýsingum úr skrám fasteignamats Þjóðskrár Íslands er lóðin nr. 4 við Dalbraut um 900 m² og er á henni 218 m² einbýlishús. Á uppdrætti deiliskipulagsins er markaður byggingarreitur sunnan við húsið og er aðkoma að honum frá Reykjabraut. Var svo jafnframt á uppdrætti auglýstrar tillögu, sem kærandi gerði ekki athugasemdir við. Einnig er gert ráð fyrir nokkrum bílastæðum norðan við húsið og er aðkoma að þeim frá Dalbraut, en sú heimild var samþykkt eftir kynningartíma tillögunnar og voru því bílastæðin ekki sýnd á uppdrætti er hún var auglýst. Ekki mun hafa verið bílskúr á lóðinni áður og ljóst er að heimiluð staðsetning hans innan þess byggingarreits sem er með aðkomu frá Reykjabraut getur haft áhrif á grenndarhagsmuni lóðarhafa aðlægra lóða, t.d. vegna aukinnar umferðar. Það verður þó ekki séð að þau áhrif séu umfram það sem almennt má búast við og þola þarf í þéttbýli. Þá verður að líta til þess að framangreindir skipulagsskilmálar eru í samræmi við það markmið skipulagsins að tryggja samræmi í lóðarskilmálum, enda hafa lóðarhafar þá jafnan rétt til bílgeymslu við íbúðarhús sín.

Lóðin að Dalvegi 6, þar sem starfræktur mun vera veitingastaður, er á skilgreindu miðsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Laugardalshrepps 2002-2012. Þar skal skv. gr. 4.4.1 í þágildandi skipulagsreglugerð fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, s.s. verslunum, skrifstofum, þjónustustofnunum, veitinga- og gistihúsum, menningarstofnunum og hreinlegum iðnaði. Er því starfsemi í húsinu í samræmi við þá starfsemi sem almennt er starfrækt á miðsvæðum. Umrædd lóð er á reit 5 í hinu umdeilda deiliskipulagi. Ekki er í skilmálum fyrir reitinn tekið fram hver skuli vera fjöldi bílastæða á lóðinni, en kvöð er um akstur á milli lóða nr. 6 og 8 annars vegar og lóða nr. 10 og 12 hins vegar. Í almennum skilmálum deiliskipulagsins er tilgreint að sameiginleg bílastæði verði við nýja götu milli Laugarbrautar og Hverabrautar og skuli þau þjóna öllu miðsvæðinu. Einnig segir að gerð sé grein fyrir núverandi bílastæðum við opinberar stofnanir, verslun og þjónustu á uppdrætti. Þá skuli bílastæði á nýjum lóðum almennt vera í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar þar um og fjöldi sérmerktra stæða fyrir hreyfihamlaða samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í umsögn sveitarfélagsins við fram komnum athugasemdum var lagt til að fyrirkomulag bílastæða á lóðum nr. 4 og 6 yrði endurskoðað. Jafnframt var tekið fram að fjöldi bílastæða ætti að vera 19, en að þau væru 13 og væri það vegna samnýtingar við lóð nr. 8. Hið umdeilda deiliskipulag tók gildi í gildistíð skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. Þar var í gr. 3.1.4 kveðið á um lágmarksfjölda bílastæða en jafnframt tekið fram að unnt væri að víkja frá þeim í deiliskipulagi ef sýnt væri fram á að bílastæðaþörf væri minni eða unnt væri að uppfylla hana með öðrum hætti. Eins og áður greinir er í deiliskipulaginu fjallað um sameiginleg bílastæði fyrir miðsvæðið og verður ekki annað af því ráðið en að þar með hafi bílastæðaþörf verið uppfyllt í samræmi við framangreint ákvæði. Skal og á það bent að ekki er gerð krafa um fjölda bílastæða í núverandi skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sem tók gildi skömmu eftir gildistöku deiliskipulagsins, og að við frekari framkvæmdir á skipulagsreitnum ber að taka tillit til ákvæða í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða.

Loks var málsmeðferð í samræmi við skipulagslög. Lýsing á skipulagsverkefninu og tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis voru kynntar á íbúafundum áður en tillagan var auglýst til kynningar. Tekin var afstaða til fram kominna athugasemda við tillöguna og þeim svarað. Þá verður ekki talið, eins og hér stendur á, að tillögunni hafi verið breytt í grundvallaratriðum eftir auglýsingu hennar. Tillagan var samþykkt af sveitarstjórn og að lokinni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar var gildistaka deiliskipulagsins auglýst.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið að neinir þeir annmarkar séu fyrir hendi á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 8. nóvember 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir þéttbýlið Laugarvatn í Bláskógabyggð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_______________________________              ______________________________
Hildigunnur Haraldsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson

5/2010 Fróðengi og Spöngin

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 24. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 5/2010, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. desember 2009 um að breyta deiliskipulagi Spangarinnar, verslun og þjónusta í Borgarholti, vegna lóðanna nr. 1-11 við Fróðengi og Spönginni 43 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. janúar 2010, er barst nefndinni 29. s.m., kærir H, Fróðengi 14, Reykjavík, ákvörðun borgarráðs frá 10. desember 2009 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Spangarinnar vegna lóðanna Fróðengi 1-11 og nr. 43 við Spöngina í Reykjavík. Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2010. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að öðrum kosti verði borgaryfirvöldum gert að kaupa fasteign kæranda.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Í nóvember 2007 tók gildi breyting á deiliskipulagi Spangarinnar, verslun og þjónusta í Borgarholti, er fól í sér að á svæðinu yrðu tvær lóðir með tvíþættri og samtengdri uppbyggingu, annars vegar þjónustuhús með aðkomu frá Spönginni og hins vegar allt að 112 þjónustuíbúðir fyrir aldraða með aðkomu frá Fróðengi.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 17. júlí 2009 var lagt fram minnisblað ásamt uppdrætti að breytingu á deiliskipulagi Spangarinnar við Fróðengi, er fól í sér að bílastæðaskilmálum fyrir lóðirnar að Spönginni 43 og Fróðengi 1-11 yrði breytt. Var málinu vísað til meðferðar hjá verkefnisstjóra svæðisins og á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 30. s.m. var samþykkt að kynna það formanni skipulagsráðs. Hinn 12. ágúst 2009 var tillagan tekin fyrir á fundi skipulagsráðs og samþykkt að auglýsa hana til kynningar þegar uppdrættir hefðu verið lagfærðir „…í þeim tilgangi að auka hlutverk gróðurs og landslagshönnunar á bílastæðalóðum“. Jafnframt var málinu vísað til borgarráðs er samþykkti þá afgreiðslu hinn 20. s.m. Að loknum kynningartíma tillögunnar var hún lögð fram á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 23. október 2009 ásamt fram komnum athugasemdum og tillögum til úrbóta, þ.á m. frá kæranda, og samþykkt að framlengja frest til athugasemda. Málið var á ný tekið fyrir hjá skipulagsráði hinn 25. nóvember s.á. og hin kynnta tillaga samþykkt með þeim breytingum sem lagðar voru til í umsögn skipulagsstjóra, dags. 20. s.m. Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 10. desember s.á. Í kjölfar þess var málið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar sem gerði ekki athugasemd við að auglýsing um samþykkt breytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að í upphaflegu deiliskipulagi umrædds svæðis hafi verið gert ráð fyrir byggingu kirkjusels Grafarvogssóknar og hafi það átt að vera tiltölulega smátt í sniðum. Auglýst hafi verið breyting á deiliskipulagi við Spöng, verslun og þjónusta, sem rétt hefði verið að auglýsa sem breytt deiliskipulag fyrir Fróðengi/Spöng, en Fróðengi teljist íbúðarsvæði en ekki þjónustusvæði. Með breytingunni sé þeirri stefnu Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024 kollvarpað að ekki sé gert ráð fyrir sérstökum þéttingarreitum innan Engjahverfis né breytingum á landnotkun. Ljóst sé að borgaryfirvöldum hafi orðið á mikil mistök við að heimila í skipulagi þjónustubyggingar sem séu mjög stórar og auk þess gert ráð fyrir miklum fjölda bílastæða á kostnað íbúa og annarra fasteignareigenda á svæðinu. Sé staðsetningu bílastæða norðan Fróðengis 14-16 og sunnan Borgarholtsskóla sérstaklega mótmælt.

Mjög óheppilegt sé að blanda saman íbúðarsvæði og þjónustusvæði enda sé starfsemi á þjónustusvæðum allan sólarhringinn árið um kring, mikil umferð og stór svæði lögð undir bílastæði. Megi vænta aukinnar umferðar við svefnherbergisglugga íbúa að Fróðengi 14 er raskað geti svefnfriði. Þá verði hávaði og loftmengun vegna umferðar. Komið hafi verið á framfæri athugasemdum og tillögum að hugsanlegum úrbótum, til að mynda um breytta aðkomu að bílastæðum, en þær hafi verið hafðar að engu. Með góðu móti hafi verið hægt að draga úr áhrifum umferðar með hljóðmön. Deiliskipulagið hafi í för með sér óhæfilega röskun á hagsmunum kæranda og annarra íbúa og verði þau lífsgæði kæranda sem felist í að búa við botngötu að engu gerð. Þá muni breytingin valda töluverði verðrýrnun á fasteign kæranda. Mál þetta snúist ekki aðeins um réttindi íbúa heldur einnig um lýðræði og rétt til þátttöku í ákvörðunum er snerti nánasta umhverfi þeirra.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er því hafnað að hin kærða ákvörðun feli í sér slíka hagsmunaröskun að ógildingu varði. Að auki sé bent á að úrskurðarnefndin sé ekki bær um taka afstöðu til kröfu kæranda um skyldu borgarinnar til kaupa á fasteign hans.

Meðferð umræddrar deiliskipulagstillögu hafi að öllu leyti verið í samræmi við reglur skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Við meðferð málsins hafi verið komið til móts við þær athugasemdir sem kærandi hafi sett fram um aukið umferðarálag. Fyrirhuguð 48 bílastæði á lóð Borgarholtsskóla hafi verið færð norðar á lóðina, sem nemi fimm metrum, svo unnt væri að koma fyrir auknum gróðri og jarðvegsmön til að draga úr ásýnd bíla frá nálægum íbúðarhúsum. Einnig hafi bílastæðunum verið fækkað úr 48 í 42 til samræmis við eldra skipulag.

Sérstaklega skuli áréttað að ekki sé um fjölgun bílastæða að ræða frá eldra deiliskipulagi. Einungis sé verið að draga úr sameiginlegum heildarfjölda bílastæða lóðanna tveggja, þ.e. við Spöngina 43 og Fróðengi 1-11, sem gæti aukið nokkuð nýtingu stæðanna við Fróðengi. Einnig hafi í ljósi athugasemda verið talin ástæða til að bæta við heiti deiliskipulagstillögunnar.

Ekki verði séð hvernig breytingin geti talist íþyngjandi fyrir kæranda en yfirleitt sé talið mjög heppilegt að blanda saman íbúðum og þjónustu þar sem hægt sé m.a. að samnýta bílastæði. Fullyrðingum kæranda um að breytingin muni valda hávaða og loftmengun og raska hagsmunum hans og lífsgæðum sé mótmælt sem órökstuddum og ósönnum. Það sé umferð í Reykjavík alla daga, alls staðar, og geti kærandi ekki vænst þess að borgarskipulag taki sérstaklega mið af svefnvenjum hans. Geti eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.

Að því er varði meinta rýrnun á verðmæti eignar kæranda sé bent á að ekki sé gerð nein tilraun af hálfu kæranda til að renna stoðum undir þá fullyrðingu með haldbærum rökum. Þá sé jafnframt bent á bótaákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga. Valdi þessi málsástæða því ekki að deiliskipulagsbreytingin teljist ógildanleg.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi breytingar á deiliskipulagi Spangarinnar fyrir lóðirnar Spöngin 43 og Fróðengi 1-11. Fram hefur komið að bygging þjónustuhúss og þjónustuíbúða var heimiluð með deiliskipulagsákvörðun er tók gildi árið 2007 og jafnframt voru í greinargerð deiliskipulagsins ákvæði um bílastæði fyrir húsin og fyrirkomulag þeirra sýnt á uppdrætti. Sætir sú ákvörðun ekki lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar enda er eins mánaðar kærufrestur skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 löngu liðinn.

Hin kærða ákvörðun fól í sér breytingar á tilhögun bílastæða fyrir umrædd hús. Gerði ákvörðunin ráð fyrir fækkun bílastæða fyrir þjónustuhús. Í stað 160 stæða, þ.e 29 ofanjarðar og 131 í bílakjallara, var gert ráð fyrir 86 stæðum. Bílastæðum fyrir 1. hæð, alls 56 stæði yrði fullnægt á lóð og fyrir 2. hæð yrði allt að 40 bílastæði samnýtt með Fróðengi 1-11. Aðkoma að stæðum á lóð þjónustuhúss yrði frá Spönginni líkt og áður. Sem fyrr er gert ráð fyrir samnýtingu bílastæða skóla og þjónustuíbúða norðan við þjónustuíbúðir aldraðra að Fróðengi 1-11.  Samnýtt eru 56 bílastæði norðvestan við fasteign kæranda og 42 bílastæði norðan við fasteignina. Ekið er að þeim bílastæðum um Fróðengi, framhjá fjölbýlishúsinu að Fróðengi 14. Við meðferð skipulagsbreytingarinnar var fallið frá því að auka fjölda stæða norðan við hús kæranda, sem eru sameiginleg þjónustuíbúðum og skóla, úr 42 í 48. Þá var sett kvöð um gróður og landmótun framan við þau bílastæði, sem og framan við þau stæði sem eru norðvestan við fasteign kæranda. Þeim bílastæðum á svæðinu sem ekið er að um Fróðengi var ekki fjölgað. Bílastæði sem staðsett eru vestan og norðan við fasteign kæranda að Fróðengi 14 færast samkvæmt uppdrætti deiliskipulagsins fjær fasteigninni frá því sem áður hafði verið.

Samkvæmt ákvæðum þágildandi skipulags- og byggingarlaga höfðu sveitarstjórnir víðtækt skipulagsvald innan marka sveitarfélags, sbr. 2. mgr. 3. gr., 23. gr. og 26. gr. laganna. Fækkun bílastæða við þjónustuhús að Spönginni 43 kann að auka umferð um Fróðengi vegna samnýtingar nefndra bílastæða norðan við þjónustuíbúðir aldraðra við Fróðengi, en hafa verður í huga að fjöldi stæðanna er óbreyttur og heimild til að samnýta þau stæði var fyrir hendi fyrir umdeilda skipulagsbreytingu. Breytingin er og að nokkru til hagsbóta fyrir kæranda með færslu bílastæða frá fasteign hans og kvöð um gróður til að skerma af stæði sem eru norðan við fasteignina. Hins vegar skal bent á að valdi gildistaka skipulags því að verðmæti fasteignar lækkar, nýtingarmöguleikar hennar skerðast frá því sem áður var heimilt eða hún muni rýrna svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður, á sá er sýnt getur fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði eða að hann leysi fasteignina til sín, sbr. 33. nefndra laga. Það er þó ekki í verkahring úrskurðarnefndarinnar að fjalla um mögulegan bótarétt samkvæmt nefndu ákvæði og verður því ekki fjallað um kröfu kæranda í þá veru.

Með vísan til þess sem að framan greinir og þar sem ekki verður annað af gögnum ráðið en að meðferð umdeildrar deiliskipulagsbreytingar hafi verið lögum samkvæmt er kröfu kæranda um ógildingu hennar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 10. desember 2009 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Spangarinnar, verslun og þjónusta, vegna lóðanna Fróðengi 1-11 og Spöngin 43.

___________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________            ___________________________
Ómar Stefánsson                                       Þorsteinn Þorsteinsson

15/2014 Silfurgata

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 30. janúar 2014 um stækkun á lóð Silfurgötu 15 með útgáfu nýs lóðarblaðs.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2014, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir I, Bókhlöðustíg 9, Stykkishólmi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 30. janúar 2014 að samþykkja stækkun á lóð Silfurgötu 15 með útgáfu nýs lóðarblaðs. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði nú tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa.

Málsgögn bárust úrskurðarnefndinni frá Stykkishólmsbæ 10. mars 2014.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 22. apríl 2013 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa að Silfurgötu 15 um að stækka lóð og minnka landhæð til að koma fyrir bílastæði, sem og um að endurnýja og stækka geymsluskúr. Lóðin er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Var lagt til að leyfa eingöngu stækkun lóðar og yrði stækkunin grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir eigendum húsa við Bókhlöðustíg 7 og 9 og Silfurgötu 13. Var sú afgreiðsla staðfest í bæjarráði 16. maí s.á. og af bæjarstjórn 23. s.m. Athugasemdir frá kæranda bárust á grenndarkynningartíma.

Nýtt lóðarblað vegna stækkunar á nefndri lóð var samþykkt af skipulags- og byggingarnefnd 13. nóvember 2013. Var það grenndarkynnt fyrir sömu aðilum og áður, sem og fyrir eigendum Silfurgötu 17. Bæjarráð og bæjarstjórn frestuðu afgreiðslu málsins þar til grenndarkynningu væri lokið. Kom kærandi athugasemdum sínum á framfæri á grenndarkynningartíma. Að grenndarkynningunni lokinni fór umsóknin aftur fyrir fund skipulags- og byggingarnefndar 13. janúar 2014, sem vísaði til fyrri fundar síns 13. nóvember 2013. Jafnframt var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gera „smá breytingu á lóðarblaði“ og svara athugasemdum. Mun breytingin hafa verið fólgin í því að sneitt var af austurhorni hinnar stækkuðu lóðar til að forðast skörun við lóð kæranda. Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarráðs 23. janúar s.á. og á fundi bæjarstjórnar 30. s.m.  Athugasemdum kæranda var svarað með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 31. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi mótmælir því að með lóðarblaði sé sett bílastæði á lóð sem hafi frá árinu 1903 verið óaðskiljanlegur hluti lóðar sinnar, en þar hafi m.a. verið matjurtagarður. Hafi þessi áratugalanga notkun myndað hefðarrétt á þessari nýtingu skv. 2., 3. og 8. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Þá sé byggt á lóðarlýsingu í erfðafestubréfi, dags. 8. maí 1916. Kærandi telji að Stykkishólmsbær hafi ekki sýnt fram á að lega lóðarinnar hafi frá öndverðu verið sú sem nú sé gengið út frá samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.

Kærandi hafi í bréfi sínu til skipulags- og byggingarfulltrúa Stykkishólmsbæjar, dags. 2. júní 2010, vegna deiliskipulagstillögu fyrir Þinghúshöfða í Stykkishólmi, m.a. bent á að samkvæmt tillögunni væru mörk lóðanna Bókhlöðustígs 9 og Silfurgötu 15 í ósamræmi við nýtingu lóðar sinnar. Hafi kærandi tekið fram að sér hefði verið tjáð af seljanda eignarinnar að umrætt bílastæði hefði áður tilheyrt Bókhlöðustíg 9 og þá nýlega verið tekið í notkun af eigendum Silfurgötu 15. Kærandi hafi beðið Stykkishólmsbæ um upplýsingar um þetta fyrirkomulag en ekki hlotið nein viðbrögð vegna þessa.

Fyrri grenndarkynning vegna stækkunar umræddrar lóðar hafi verið ófullkomin og ógerningur hafi verið að átta sig á áhrifum fyrirhugaðra breytinga. Upplýsingar um hæðarpunkta hafi vantað og hafi þær teikningar sem fylgdu tillögunni verið óljósar. Þá hafi við grenndarkynningu tillögu að nýju lóðarblaði verið ómögulegt að gera sér grein fyrir í hverju breytingin væri fólgin eða hvaða áhrif hún kynni að hafa á nálægar lóðir og notkunarmöguleika þeirra. Þá hafi ekki verið orðið við kröfu kæranda um nýtt lóðarblað sem sýndi afstöðu annarra lóða.

Að mati kæranda sé það óásættanlegt að aðkoma vélknúinna ökutækja verði á þrjá vegu um eign sína og að bílastæði verði við stofugluggann. Slíkt fyrirkomulag sé í andstöðu við þann staðaranda sem hverfið á Þinghúshöfða búi yfir. Eðlileg aðkoma að Silfurgötu 15 sé frá Silfurgötu en ekki með aðkomu frá Bókhlöðustíg á kostnað venjuhelgaðrar nýtingar eignar sinnar. Silfurgata sé öll utan þess deiliskipulagssvæðis sem nái til Bókhlöðustígs en að mati kæranda sé óeðlilegt að breyta skipulagi þannig að það hafi bein áhrif á annað skipulagssvæði. Þá sé lega lóða og staðhættir þannig að fyrirhugaðar breytingar virðist óeðlilegar.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að skúr sem tilheyri Silfurgötu 15 hafi sennilega staðið þar í 50 til 60 ár, ef ekki lengur, og að umrætt bílastæði hafi verið notað af Silfurgötu 15 árum saman. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum skerði stækkun lóðar að Silfurgötu 15 á engan hátt lóð kæranda þar sem stækkunin hafi ekki verið á kostnað þeirrar lóðar. Sé í raun ekki verið að breyta neinu heldur staðfesta þau not sem verið hafi. Kærandi hafi hvorki lagt fram uppdrátt sem sýni hvernig hann telji að lóð sín liggi né hvernig hann telji að lóðin eigi að vera samkvæmt lóðarsamningi frá árinu 1916. Umrædd stækkun sé úr landi sveitarfélagsins og byggist sú niðurstaða m.a. á erfðafestubréfi frá 1916, en þar sé lóðin mæld í álnum. Miði sveitarfélagið við löggilta danska alin frá 1776 sem teljist vera 24 þumlungar, eða 62,7 cm, að lengd. Þá sé höfð hliðsjón af uppdrætti af Stykkishólmi frá árunum 1942-1943, sem sýni girðingu við Bókhlöðustíg 9 og loftmynd sem tekin hafi verið áður en Bókhlöðustígur 7 hafi verið rifinn og nýtt hús byggt á þeirri lóð. Þá sé byggt á deiliskipulagi fyrir Þinghúshöfða frá árinu 2011. Telja verði ólíklegt að fyrri eigandi hafi átt landið undir þeim matjurtagarði sem kærandi vísi til og virðist eldri uppdráttur gefa til kynna að matjurtagarður hafi verið upp við húsið sjálft. Þegar kærandi hafi keypt eignina hafi matjurtagarðurinn verið farinn. Fyrri eigandi hafi gert munnlegt samkomulag um að nota mætti þá spildu sem bílastæði. Hafi kærandi haft vitneskju um þetta.

Þrjár íbúðir hafi verið að Silfurgötu 15 frá árinu 1981 og hafi aðgengi íbúa þar að bakhluta hússins verið til staðar fyrir kaup kæranda á eign sinni árið 2004. Með lóðarblaðinu sé ekki verið að breyta legu umræddrar lóðar þannig að leiði til skerðingar á lóð kæranda. Þá nái deiliskipulag frá árinu 2011 ekki inn á það svæði sem um sé deilt og því tilheyri það ekki Bókhlöðustíg 9.

Loks sé því hafnað að Stykkishólmsbær hafi ekki upplýst kæranda um málið. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi sent kæranda gögn til rökstuðnings því að umdeild landspilda tilheyri ekki eign hans og sé vísað til bréfasamskipta við kæranda frá 30. desember 2013 og 31. janúar 2014.

———–

Úrskurðarnefndin tilkynnti lóðarhafa Silfurgötu 15 um fram komna kæru og veitti honum frest til að koma að athugasemdum en þær hafa ekki borist nefndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 30. janúar 2014 að samþykkja stækkun lóðar að Silfurgötu 15. Er gert ráð fyrir því á lóðarblaði að stækkunin sé til austurs, að lóð kæranda.

Í máli þessu liggur fyrir samþykkt sveitarstjórnar fyrir breyttum lóðarmörkum Silfurgötu 15, svo sem áskilið er í 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að nefndri grein undanskilinni er ekki að finna neinar þær sérstöku reglur í lögunum sem eiga við um málsmeðferð þegar lóðarmörkum er breytt. Sveitarfélagið kaus að grenndarkynna hina umdeildu tillögu að lóðarblaði á grundvelli 44. gr. laganna, en að öðru leyti fór um meðferð málsins eftir almennum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fyrir liggur að samskipti kæranda og Stykkishólmsbæjar hafa verið töluverð í aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar. Þannig kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum vegna málsins og var þeim svarað af hálfu sveitarfélagsins. Af þeim svörum og öðrum gögnum málsins verður ráðið að sveitarfélagið hefur rannsakað þinglýstar heimildir hvað varðar lóð kæranda og þá lóð sem stækkuð var, sem og litið til tiltækra uppdrátta og loftmynda við rannsókn sína. Við grenndarkynningu tillögu að hinu umdeilda lóðarblaði í nóvember 2013 var tekið fram að stækkun lóðarinnar væri úr óskiptu landi sveitarfélagsins en auk þess fylgdi hnitaskrá. Kærandi vísar til þess að í ákvörðuninni  sé gert ráð fyrir bílastæði á spildu sem hafi frá árinu 1903 verið óaðskiljanlegur hluti lóðar hans og m.a. verið þar nýtt sem matjurtagarður. Hafi þessi áratugalanga notkun myndað hefðarrétt á þessari nýtingu. Úr slíkum eignarréttarlegum ágreiningi verður ekki skorið fyrir úrskurðarnefndinni heldur á hann undir almenna dómstóla. Af öllu framangreindu er því ljóst að sveitarfélagið uppfyllti skyldu sína til rannsóknar máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, kynnti fyrirhugaða breytingu á grundvelli 44. gr. skipulagslaga og veitti kæranda andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, auk þess að svara fram komnum andmælum. Þá verður ekki séð að málsmeðferð umdeildrar ákvörðunar hafi að öðru leyti verið áfátt.

Silfurgata 15 er ekki á deiliskipulögðu svæði en húseign kæranda er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag á Þinghúshöfða, sem tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. júní 2011. Hefur nefndu deiliskipulagi ekki verið hnekkt, en úrskurðarnefndin hafnaði ógildingu þess í úrskurði sínum fyrr í dag, í máli nr. 57/2011. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir aðkomu að Silfurgötu 13 og 15 með vegi milli húss kæranda að Bókhlöðustíg 9 og hússins að Bókhlöðustígs 11. Gerir hin kærða ákvörðun ráð fyrir því að nefnd aðkoma verði nýtt til þess að komast að bílastæðum á hinni stækkuðu lóð. Verður ekki séð að hin kærða ákvörðun leiði að þessu leyti til aukinna grenndaráhrifa gagnvart kæranda frá því sem verið hefur.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 30. janúar 2014 um stækkun á lóð Silfurgötu 15 með útgáfu nýs lóðarblaðs.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson