Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/2015 Ferjuvað

Árið 2016, föstudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 um að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. apríl 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir S Ferjuvaði 3, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að byggingarleyfishafa verði gert að ganga frá sérmerktu bílastæði fyrir fatlaða í bílageymslu í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti frá 21. febrúar 2012. Þá er gerð krafa um að lokaúttekt byggingarfulltrúa verði felld úr gildi. Að auki var farið fram á að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði uppkveðnum 22. júní 2015 og verður kærumál þetta nú tekið til efnislegrar úrlausnar.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 28. maí 2015 og 22. desember 2016.

Málsatvik: Hinn 21. febrúar 2012 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa samþykkt umsókn um leyfi til að reisa fjögurra hæða steinsteypt fjölbýlishús með 34 íbúðum á lóð Ferjuvaðs 1-3 í Reykjavík. Samkvæmt byggingarlýsingu á samþykktri afstöðumynd voru 42 bílastæði á lóð og 26 stæði í bílageymslu, alls 68 bílastæði. Gert var ráð fyrir tveimur sérmerktum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð og einu í bílageymslu. Í júlí 2013 festi kærandi kaup á íbúð 01-06, ásamt stæði í bílageymslu, merktu B-17, og var eignin afhent á árinu 2014. Er íbúð kæranda ætluð fyrir fatlaða samkvæmt samþykktum teikningum. Á tímabilinu janúar til apríl 2014 mun kærandi ítrekað hafa vakið athygli byggingarleyfishafa á því að dyr við bílastæði í bílageymslu væri ranglega staðsett og gert þá kröfu að hún yrði færð til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti hússins. Mun það ekki hafa verið gert og 2. maí 2014 gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt hússins. Í kjölfar þessa mun kærandi hafa haft samband við Reykjavíkurborg vegna málsins.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. maí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á innra skipulagi í húsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað en afgreiðslu málsins frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Með tölvubréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa 13. ágúst s.á. var tilkynnt að hafnað væri ósk um tilfærslu á dyrum á milli brunastúku og bílastæðis merktu B-17, en umrætt stæði væri ætlað fyrir hreyfihamlaða og yrði að uppfylla ákveðin skilyrði. Munu byggingarfulltrúi og leyfishafi hafa fundað um málið 22. september 2014. Með bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 30 október s.á., var honum veittur þrjátíu daga frestur til gera lagfæringar í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti eða uppfæra þá til samræmis við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og fá samþykkt byggingarleyfi fyrir þeim breytingum. Jafnframt var tekið fram í bréfinu að endurtaka yrði lokaúttekt byggingarfulltrúa.

Hinn 17. mars 2015 samþykkti byggingarfulltrúi á afgreiðslufundi sínum umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á byggingartíma á innra skipulagi hússins á fyrrgreindri lóð. Fólust breytingarnar m.a. í því að eldvarnarhurð var hliðrað til í eldvarnarvegg fyrir brunastúku á milli stigahúss og bílgeymslu og stæði kæranda í bílageymslu breytt.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að samkvæmt samþykktri afstöðumynd fyrir Ferjuvað 1-3 sé íbúð 01-06 sérstaklega hönnuð fyrir þarfir fatlaðra. Fylgi henni bílastæði merkt B-17 í bílageymslu samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu. Með samþykktri breytingu sé því bílastæði breytt í venjulegt bílastæði án aðgengis fyrir fatlaða. Sé um meiri háttar og grófa aðför að lögvörðum réttindum fatlaðra að ræða. Íbúðum fyrir fatlaða skuli fylgja sérmerkt bílastæði. Stæði fyrir fatlaða á sameiginlegri lóð hússins séu sameign allra og óheimilt að sérmerkja þau einstökum íbúðum löngu eftir að búið sé að selja allar íbúðir í húsinu. Gangi hin kærða ákvörðun gegn ákvæðum fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, laga um mannvirki nr. 160/2010, byggingarreglugerð nr. 112/2012 og eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið.

Eigi ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 við í máli þessu en þegar byggingarleyfishafi hafi sótt um byggingarleyfi fyrir fasteigninni hafi ekki legið fyrir ósk hans um að ákvæði eldri byggingarreglugerðar nr. 441/1998 myndu gilda um viðkomandi mannvirkjagerð. Engu máli skipti hvenær umsókn um byggingarleyfi sé lögð inn til samþykktar. Það sem ráði því hvort ákvæði eldri byggingarreglugerðar eða núgildandi reglugerðar gildi sé hvenær byggingaráform séu samþykkt og hvort útgáfa byggingarleyfis sé fyrir eða eftir gildisdag reglugerðarinnar. Fram hafi komið við samþykkt byggingaráforma hússins að umsóknin samræmdist ákvæðum mannvirkjalaga. Þá séu gerðar athugasemdir við að byggingarfulltrúi hafi byggt ákvarðanatöku sína á áliti lögmanns sem vart geti talist hlutlaust og líti eingöngu til þeirra atriða sem réttlæti og verji framgöngu byggingarleyfishafa.

Við lokaúttekt hafi verið stuðst við samþykkta aðaluppdrætti en ekki hafi verið byggt í samræmi við þá. Hafi byggingaraðili ekki upplýst byggingarfulltrúa um breytingar í bílakjallara. Ekki hafi verið gerð úttekt á aðgengi fyrir fatlaða við lokaúttekt eins og lög og reglur geri ráð fyrir. Hafi enginn rökstuðningur verið lagður fram af hálfu byggingarfulltrúa um nauðsyn þess að samþykkja umræddar breytingar. Sé samþykkt teikning frá 21. febrúar 2012 í samræmi við lög og reglugerðir og hafi bæði byggingarfulltrúi og Eldvarnareftirlit staðfest að svo sé. Þá sé vakin sérstök athygli á ákvæðum 2. mgr. 3. gr. laga nr. 160/2010 um aðgengi fyrir alla.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Fram komi í áliti sem sveitarfélagið hafi aflað sér að ljúka hafi átt meðferð umsóknar frá 31. janúar 2012 um byggingarleyfi fyrir Ferjuvað 1-3 á grundvelli byggingarreglugerðar nr. 441/1998, eins og í raun virðist hafa vera gert. Því sé eðlilegt að breytingar á byggingartíma, sem áttu sér stað við byggingu bílageymslu, séu metnar með tilliti til sömu reglugerðar. Þá sé tekið fram í fyrrgreindu áliti að samkvæmt gr. 30.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skuli þess gætt að „allar samþykktar breytingar séu skráðar“ og „reyndarteikningar skuli afhentar byggjanda áður en lokaúttekt fer fram“. Hvorutveggja hafi verið gert af hálfu framkvæmdaaðila og aðalhönnuðar hússins og óskað eftir samþykki fyrir breytingunum með umsókn þann 20. maí 2014, en afgreiðslu hennar hafi síðan verið frestað af byggingarfulltrúa. Að mati álitsgjafa hafi umræddar breytingar verið samkvæmt því óverulegar og réttmætar á byggingartíma og ekki hafi þurft samþykki meðeigenda fyrir þeim, enda hafi þeir ekki verið til staðar á framkvæmdatíma. Hliðrun á eldvarnarhurð hafi verið gerð til að skapa aukna fjarlægð á milli eldvarnarhurða í brunastúkunni. Að auki hafi bílastæði merkt B-17, fyrir hreyfihamlaða í bílageymslu, verið breytt í venjulegt bílastæði vegna fyrrgreindrar hliðrunar.

Samkvæmt gr. 64.4 reglugerðarinnar þurfi að gera ráð fyrir einu bílastæði fyrir hreyfihamlaða fyrir Ferjuvað 1-3, að lágmarki. Enginn sérstök skylda hvíli á húsbyggjendum að hafa bílastæði fatlaðra í bílageymslum sé kröfum um fjölda bílastæða fullnægt á annað borð. Í þessu tilviki hafi það verið gert með gerð tveggja bílastæða fyrir fatlaða á lóð. Sérstaklega sé bent á að um minniháttar nauðsynlegar breytingar hafi verið að ræða, sem gerðar hafi verið á byggingartíma, en ekki verði annað séð en að breidd stæðisins sé sú sama og áður. Þá séu engar forsendur til að fella úr gildi lokaúttektina og þess megi og geta að engar sérúttektir séu gerðar á aðgengi fatlaðra enda engin skylda til slíks.

Málsrök leyfishafa:
Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru, en hann hefur ekki látið málið til sín taka. Í fyrirliggjandi gögnum hjá úrskurðarnefndinni kemur fram að verktaki hússins og aðalhönnuður þess hafi á fundi með byggingarfulltrúa bent á að byggingin hafi verið samþykkt í tíð byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Því hafi ekki verið talið að gera þyrfti grein fyrir breytingum á byggingartíma fyrr en að framkvæmdum loknum. Jafnframt væri fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða í samræmi við þá reglugerð.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 20. desember 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi fjölbýlishússins við Ferjuvað 1-3. Voru breytingarnar gerðar á byggingartíma þess og fólust m.a. í að dyraopi fyrir eldvarnarhurð í vegg brunastúku milli stigahúss og bílageymslu var hliðrað til og bílastæði, sem merkt er B-17 í bílageymslu og ætlað er fyrir fatlaða, breytt af því tilefni. Álitaefni varðandi upphaflegt byggingarleyfi, svo sem um tilhögun bílastæða í bílageymslu og á lóð, sæta ekki endurskoðun í máli þessu umfram þær breytingar sem gerðar voru með hinni kærðu ákvörðun.
Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en það fellur utan valdheimilda hennar að fjalla um aðrar kröfur kæranda.
Kærandi festi kaup á íbúð sinni með kaupsamningi, þinglýstum 19. júlí 2013, og lágu þá fyrir samþykktar teikningar að húsinu, dags. 21. febrúar 2012. Samkvæmt þeim teikningum er íbúð kæranda hönnuð fyrir fatlaða og fylgir henni áðurgreint bílastæði B-17 ásamt hlutfallslegri eign í sameign bílageymslunnar, heildarhúsi og lóð. Er umrætt bílastæði séreign kæranda en í því felst einkaréttur hans til umráða og hagnýtingar þess með þeim takmörkunum sem leiðir af lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús, reglum nábýlisréttar og eðli máls, skv. 2. tl. 12. gr. fjöleignarhúsalaga. Fyrir liggur að kærandi var ekki samþykkur umræddum breytingum og hafði hann haft samband við embætti byggingarfulltrúa af því tilefni.
Með hinni kærðu breytingu var m.a. samþykkt að fyrrgreindar dyr væru innan fyrri markalínu bílastæðis kæranda og þar með þrengdist stæði hans vegna gönguleiðar frá dyrunum sem nemur um einum metra frá markalínunni að steinsteyptri stoð. Því hefur verið haldið fram að hin umdeilda breyting hafi verið nauðsynleg til að skapa aukna fjarlægð milli eldvarnardyra í brunastúku og um minniháttar breytingar hafi verið að ræða. Ekki liggur þó fyrir í málinu að upphafleg hönnun umræddrar bílageymslu hafi verið ábótavant m.t.t. brunavarna en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum samþykkti eldvarnareftirlit Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins aðaluppdrætti upphafslegs byggingarleyfis. Hins vegar er ljóst að þessi breyting hefur í för með sér töluverð áhrif á notagildi bílastæðis kæranda frá því sem áður var og óhagræði vegna lengri leiðar frá bílastæði að lyftu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir á skorta að fullnægjandi rök hafi legið að baki hinni kærðu ákvörðun, sem var íþyngjandi gagnvart kæranda. Ekki var haft samráð við eða aflað samþykkis hans við málsmeðferð og töku umræddrar ákvörðunar sem hafði bein áhrif á séreign kæranda. Verður hin kærða ákvörðun af þessum sökum felld úr gildi að því er varðar fyrrgreinda hliðrun dyra fyrir eldvarnarhurð og breytingu á bílastæði B-17 í bílageymslu umrædds húss. Með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir rétt að ákvörðunin standi óhögguð að öðru leyti.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 um að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað að því er varðar hliðrun á eldvarnardyrum í eldvarnarvegg á milli stigahúss og bílgeymslu og breytingar á bílastæði merktu B-17 í bílageymslu.

______________________________
Ómar Stefánsson

______________________________            ____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson