Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

36/2016 Miðbraut

Árið 2018, fimmtudaginn 11. janúar kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 24. febrúar 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna fjölgunar íbúða og bílastæða á lóðinni nr. 28 við Miðbraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. apríl 2016, er barst nefndinni 5 s.m., kæra eigendur, Miðbraut 26, og eigendur Miðbraut 21, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 24. febrúar s.á. að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna fjölgunar íbúða og bílastæða á lóðinni nr. 28 við Miðbraut. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að fjöldi bílastæða verði aukinn á lóðinni Miðbraut 28 í samræmi við kröfur kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 10. maí 2016.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir svokallað Vesturhverfi sem skiptist í svæði A, B og C. Lóðin að Miðbraut 28 er á svæði C. Deiliskipulagsbreyting fyrir lóðina nr. 28 við Miðbraut var grenndarkynnt 30. desember 2015 með athugasemdafresti til 5. febrúar 2016. Sú tillaga gerði m.a. ráð fyrir því að hámarksfjöldi íbúða á lóðinni yrðu fjórar í stað tveggja og að bílastæðum myndi fjölga úr tveimur í fjögur. Jafnframt yrði þar eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Tveir undirskriftarlistar með athugasemdum bárust á kynningartíma tillögunnar, með nöfnum samtals 23 aðila. Athugasemdirnar voru efnislega samhljóða. Í þeim var gerð krafa um að bílastæðum við húsið að Miðbraut 28 yrði fjölgað.

Að lokinni grenndarkynningu var skipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar 9. febrúar 2016 og hún samþykkt. Jafnframt var skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum í samræmi við umræður á fundinum. Á fundi bæjarstjórnar 24. s.m. var afgreiðsla skipulags- og umferðarnefndar staðfest.

Málsrök kærenda:
Af hálfu kærenda er þess krafist að bílastæðum við fyrirhugað fjórbýlishús að Miðbraut 28 verði fjölgað úr fjórum í átta. Ljóst megi vera að mjög líklegt sé að hverri íbúð fylgi að minnsta kosti tveir bílar. Kveða þurfi því á um að bílastæði innan lóðar verði átta talsins, svo sem skipulags- og mannvirkjanefnd hafi gert áskilnað um við samþykki byggingar fjórbýlishúss við Melabraut 27 á fundi sínum hinn 21. júní 2011. Aukabílastæði við Miðbraut séu alls ekki mörg og það myndi þrengja mjög að íbúum og umferð ef fjölgaði í hópi þeirra sem leggi ökutækjum sínum að staðaldri við gangstétt götunnar.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:
Bæjaryfirvöld benda á að í deiliskipulagi svæðisins séu svohljóðandi ákvæði um bílastæði: „Geymsla fyrir bíl skal vera fyrir a.m.k. helming íbúða í hverju húsi. Auk þess er kvöð um a.m.k. 2 bílastæði á hverri lóð. Þar sem fleiri en ein íbúð verður heimiluð á lóð er kvöð um a.m.k. 1 aukastæði á lóð fyrir hverja viðbótar íbúð.“

Tillagan sé því í samræmi við ákvæði deiliskipulagsins um fjölda bílastæða innan lóðar. Þrátt fyrir athugasemdir íbúa hafi ekki verið talið rétt að víkja frá þeirri meginreglu nema hún yrði endurskoðuð fyrir svæðið í heild. Bent sé á að fjölgun bílastæða innan lóðar fækki bílastæðum sem standi almenningi opin utan lóðar, eins og aðstæður séu á umræddri lóð. Við slíka tilfærslu bílastæða minnki sveigjanleiki á nýtingu bílastæða í hverfinu. Að auki sé illmögulegt að koma fyrir átta bílastæðum á lóðinni.

Til viðbótar framangreindu myndi slíkur fjöldi bílastæða sem kærendur krefjist breyta ásýnd húss og lóðar og leiða til þess að framgarður hússins færi nánast að öllu leyti undir bílastæði. Í byggingarreglugerð sé gert ráð fyrir að í slíkum fjöleignarhúsum sé eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Með vísan til þess og framkominna athugasemda hafi verið gerð krafa um eitt bílastæði á lóðinni fyrir hreyfihamlaða.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun felur í sér þá breytingu á deiliskipulagsskilmálum fyrir lóðina Miðbraut 28 að heimilað er að fjölga íbúðum í húsi því sem stendur á lóðinni úr tveimur í fjórar, að fjölga bílastæðum innan lóðar úr tveimur í fjögur og að bæta við einu bílastæði fyrir hreyfihamlaða.

Deiliskipulagsbreytingin fékk málsmeðferð samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt því ákvæði er sveitarstjórn heimilt að gera breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins og skal þá fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi telst óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Ljóst er að umrædd deiliskipulagsbreyting hefur ekki í för með sér breytingu á notkun eða nýtingarhlutfalli lóðarinnar. Hins vegar breytist yfirbragð svæðisins að því leyti að þremur bílastæðum er bætt við á lóðinni. Dæmi eru um að á svæðinu séu lóðir með jafn margar eða fleiri íbúðir. Breytingin rúmast innan upphaflegra deiliskipulagsskilmála fyrir svokallað C-svæði, sem er hluti umrædds deiliskipulagssvæðis. Í greinargerð skipulagsins kemur fram að byggð á svæði C sé sundurleitari en á svæðum A og B. Þar standi elstu og minnstu húsin, en einnig þau stærstu, og dæmi séu um allt að sex íbúðir á lóð. Stefnt sé að þéttingu byggðar og aðlögun minni húsa að þeim stærri svo hverfið fái samræmdara yfirbragð. Þar sé nýtingarhlutfall heimilað 0,5, heimiluð nokkur fjölgun íbúða og í stöku tilvikum hækkun húsa um hálfa til eina hæð. Með hliðsjón af þessu verðu að telja að sveitarstjórn hafi verið heimilt að fara með hina kærðu deiliskipulagsbreytingu samkvæmt fyrrgreindri 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og einnig þess að ekki verður séð að form eða efnisannmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun, verður kröfu kærenda um ógildingu hennar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 24. febrúar 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis, vegna fjölgunar íbúða og bílastæða á lóðinni nr. 28 við Miðbraut.