Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

110/2015 Drekahlíð

Árið 2017, fimmtudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2015, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skagafjarðar um synjun á umsókn kæranda um leyfi til að breikka innkeyrslu Drekahlíðar 4 á Sauðárkróki.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. desember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Drekahlíð 4, Sauðárkróki, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skagafjarðar frá 3. september 2014 að hafna umsókn hennar um leyfi fyrir breikkun á innkeyrslu Drekahlíðar 4. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að bæði sé kærð ákvörðun sveitarstjórnar um synjun á umsókn kæranda og ákvörðun um að synja beiðni hans um endurupptöku málsins.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu Skagafirði 11. janúar 2016 og 27. janúar 2017.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skagafjarðar hinn 22. ágúst 2014 var hafnað umsókn eigenda Drekahlíðar 4 um framkvæmdaleyfi fyrir breikkun innkeyrslu að nefndu húsi. Á fundinum var bókað að ekki væri hægt að fallast á breikkun innkeyrslu þar sem það myndi hafa í för með sér fækkun almennra bílastæða í götunni. Á fundi sínum 3. september s.á. samþykkti sveitarstjórn afgreiðslu nefndarinnar og var sú niðurstaða tilkynnt með bréfi, dags. 5. s.m. Með bréfi, dags. 2. október s.á., óskuðu umsækjendur eftir endurupptöku á synjun sveitarstjórnar. Á fundi sínum 15. s.m. hafnaði skipulags- og byggingarnefnd þeirri beiðni og á fundi sínum 29. s.m. staðfesti sveitarstjórn afgreiðslu nefndarinnar. Var tilkynning þess efnis send 3. nóvember 2014.

Í kjölfar þess að umsækjendur létu í ljós þá ætlun sína að kæra niðurstöðu sveitarstjórnar taldi sveitarfélagið rétt að fá lögfræðilegt álit á því hvort ástæða gæti verið til þess að taka málið upp að nýju. Með bréfi, dags. 26. maí 2015, var umsækjendum tilkynnt sú niðurstaða að ekki væri tilefni til endurupptöku málsins. Hins vegar var tekið fram að þar sem í fyrri tilkynningu hefði láðst að geta um kæruleiðir og kærufrest liti sveitarfélagið svo á að kærufrestur væri ekki liðinn heldur myndi hann hefjast við móttöku nefnds bréfs. Var jafnframt leiðbeint um kæruleið og kærufrest. Bréfinu fylgdi rökstuðningur fyrir ákvörðunum sveitarstjórnar um synjun um leyfi frá 3. september 2014 og um synjun á endurupptöku frá 29. október s.á., en einnig var vísað til þess að í samræmi við 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu umsækjendur óskað eftir frekari rökstuðningi.

Hinn 3. júní 2015 óskaði lögmaður umsækjenda eftir frekari rökstuðningi fyrir höfnun á beiðni þeirra. Með bréfi, dags. 5. nóvember s.á., barst umbeðinn rökstuðningur og kom fram að vegna dráttar á því að svara beiðninni samþykkti sveitarfélagið að veita mánaðar kærufrest til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Barst kæra síðan í máli þessu hinn 4. desember 2015, eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:
Kærandi tekur fram að ekki hafi borist sannfærandi rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Enn fremur gæti ósamræmis í afgreiðslu sambærilegra mála hjá sveitarfélaginu þar sem víða hafi verið samþykktar breikkanir á innkeyrslum í hverfi kæranda.

Það varði kæranda miklu að fá samþykkta umsótta breikkun á innkeyrslu þar sem lagning bifreiða í götunni þrengi mjög að aðkomu inn á lóð kæranda, sem geri það að verkum að ómögulegt sé að nýta hana sem geymslustað fyrir hjólhýsi eða kerru, svo dæmi sé tekið. Kærandi viti ekki til þess að umsókn aðila í sambærilegri stöðu hafi verið hafnað. Engin skrifleg stefna sé til um þessi mál hjá sveitarfélaginu og þau rök sem borin hafi verið á borð fái ekki staðist, enda engin gögn eða rannsóknir sem fylgi þeim. Þannig virðist að um geðþóttaákvörðun sé að ræða.

Málsrök Skagafjarðar:
Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að við afgreiðslu umræddrar umsóknar hafi verið viðhöfð sömu vinnubrögð og við afgreiðslu sambærilegra mála í tíð núverandi skipulags- og byggingarnefndar og þeirrar sem starfað hafi sl. kjörtímabil. Skriflegar umsóknir séu teknar fyrir og þær metnar með tilliti til umferðaröryggis, skipulags, fagurfræði og heildarhagsmuna íbúa sveitarfélagsins. Í þessu tiltekna máli hafi það ekki verið talið þjóna heildarhagsmunum íbúanna að leggja eitt almenningsbílastæði í götunni undir aðkomu að lóð kæranda. Um sé að ræða litla botnlangagötu þar sem bestu möguleikar á að leggja bílum utan lóða muni vera fyrir framan þrjú hús, þ. á m. hús kæranda. Sú skoðun muni hafa verið ríkjandi í skipulags- og byggingarnefnd þegar umrætt mál hafi verið afgreitt að aðkoma að lóðinni ætti að vera/væri mjög rúm og góð. Breidd heimkeyrslu sé 6 m og fjarlægð hússins frá lóðarmörkum 6 m.

Benda megi á að íbúðarhúsalóðir séu ekki ætlaðar sem geymslustaðir fyrir hjólhýsi, sbr. m.a. gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, en í kæru sé ein röksemdin sú að erfitt sé að koma hjólhýsi til geymslu inni á lóðinni. Vitni kærandi til afgreiðslu annarra mála sem hann telji sambærileg. Ljóst sé að mörg þeirra séu það ekki, sé litið til þeirra atriða sem ráði mati og áður séu nefnd. Sérstaklega hafi verið talið mikilvægt að gæta að umferðaröryggi við afgreiðslu mála, þótt að slíkt kunni að leiða til fækkunar almenningsbílastæða, enda hafi markmiðið verið að fækka þeim tilvikum að bílum sé lagt á akbraut í götustæðinu.

Niðurstaða: Mál þetta snýst um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Skagafjarðar um að hafna umsókn kæranda og eiginmanns hennar um breikkun á innkeyrslu að húsi þeirra að Drekahlíð 4 og lögmæti synjunar sveitarstjórnar á beiðni þeirra um endurupptöku þeirrar ákvörðunar.

Hin kærða ákvörðun um synjun um breikkun aðkomu inn á lóð Drekahlíðar 4 var tekin 3. september 2014 og tilkynning þess efnis var send á annað heimilisfang en lögheimili kæranda með bréfi, dags. 5. s.m. Umsækjendur fóru fram á endurupptöku málsins 2. október s.á. og verður því við það að miða að þeim hafi þá verið kunnugt um fyrrgreinda ákvörðun sveitarstjórnar. Endurupptökubeiðninni var synjað af hálfu sveitarstjórnar og var sú niðurstaða tilkynnt með bréfi, dags. 3. nóvember 2014, sem ekki var sent á lögheimilisfang kæranda og einungis stílað á meðumsækjanda hans. Verður ekki fullyrt að tilkynning sveitarstjórnar um synjun á beiðni kæranda um endurupptöku hafi borist honum fyrr en með bréfi, dags. 26. maí 2015. Í því bréfi var tilkynnt að afstaða sveitarstjórnar, að fengnu áliti lögmanns sveitarfélagsins, til beiðni um endurupptöku ákvörðunarinnar frá 5. september 2014 væri óbreytt og fylgdi rökstuðningur lögmannsins bréfinu. Var kæranda veittur 14 daga frestur til að fara fram á frekari rökstuðning fyrir synjun endurupptöku málsins, sem hann gerði með bréfi, dags. 3. júní 2015. Jafnframt var þar farið fram á afhendingu málsgagna og upplýsingar um afgreiðslu sambærilegra mála. Því bréfi var svarað fyrir hönd sveitarfélagsins með bréfi lögmanns þess, dags. 5. nóvember s.á.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Í 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er mælt fyrir um að sé beðist endurupptöku máls rofni kærufrestur. Hafni stjórnvaldið hins vegar að taka málið til meðferðar á ný haldi kærufrestur áfram að líða að nýju frá þeim tíma þegar sú ákvörðun er tilkynnt aðila. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kæra verður þó ekki tekin til efnismeðferðar ef meira en ár er liðið síðan ákvörðun var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. 28. gr.

Eins og að framan greinir barst kæranda tilkynning um synjun á endurupptöku ákvörðunar um höfnun á umsókn kæranda hinn 26. maí 2015 og fylgdi þeirri tilkynningu rökstuðningur fyrir þeirri synjun. Rann frestur til að kæra upphaflega ákvörðun frá 3. september 2014 því út í síðasta lagi í lok júní 2015, eða rúmum fimm mánuðum áður en kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni og rúmum 14 mánuðum eftir að kæranda hlaut að vera kunnugt um synjun umsóknar sinnar og beðið var um endurupptöku ákvörðunarinnar. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar sveitarstjórnar Skagafjarðar frá 3. september 2014 því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga.

Í tilkynningu um höfnun á beiðni um endurupptöku málsins frá 26. maí 2015 var kæranda gefinn kostur á að óska frekari rökstuðnings fyrir þeirri ákvörðun, sem og hann nýtti sér hinn 3. júní s.á. Sá rökstuðningur barst ekki fyrr en með bréfi sveitarfélagsins, dags. 5. nóvember 2015, og telst því kæra þeirrar ákvörðunar hafa borist innan kærufrests, eða hinn 4. desember s.á.

Í rökstuðningi sveitarfélagsins fyrir synjun á beiðni um endurupptöku kemur m.a. fram að aðkoma að lóð kæranda sé þegar rúm. Tvö bílastæði séu fyrir framan húsið og hafi verið frá upphafi samkvæmt uppdráttum og ekki hafi komið fram haldbær rök fyrir þeirri kröfu að nauðsynlegt sé að hafa þrjú bílastæði á lóðinni. Þá komi einnig fram að þau hús sem kærandi vísi til í endurupptökubeiðni sinni séu töluvert stærri en hús kæranda, sem réttlæti þá stærri innkeyrslu. Með fjölgun bílastæða við Raftahlíð 71, 73 og 77 hafi bílar, sem lagt hafi verið við akbraut, flust á viðkomandi lóðir, en það eigi ekki við í tilfelli kæranda. Kærandi telur hins vegar að ekki búi fullnægjandi rök að baki ákvörðuninni um synjun á endurupptöku máls og honum sé mikilvægt að fá aðkomu inn á lóð sína breikkaða.

Heimild fyrir endurupptöku ákvörðunar stjórnvalds er í 24. gr. stjórnsýslulaga og eru þar skilyrði endurupptöku þau að ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Ekki verður séð af þeim gögnum og upplýsingum sem fyrir liggja í máli þessu að umrædd ákvörðun hafi byggst á röngum eða ófullnægjandi gögnum, en málsaðila greinir á hinn bóginn á um réttmæti ákvörðunarinnar og um mat sveitarstjórnar á þeim sjónarmiðum sem búa henni að baki. Að þessu virtu verður ekki talið að skilyrði endurupptöku skv. nefndri 24. gr. stjórnsýslulaga hafi verið fyrir hendi og verður kröfu um ógildingu þeirrar ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skagafjarðar frá 3. september 2014 um að hafna umsókn um leyfi fyrir breikkun á innkeyrslu Drekahlíðar 4 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skagafjarðar frá 29. október 2014 um að synja um endurupptöku fyrrgreindrar ákvörðunar.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson