Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

31/2017 Tunguháls

Árið 2017, föstudaginn 21. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2017 um að fjarlægja skuli bílastæði af lóðinni Tunguhálsi 17.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir VDO ehf., lóðarhafi Tunguháls 19, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2017 að fjarlægja skuli bílastæði af lóðinni Tunguhálsi 17. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. mars 2017.

Málavextir: Hálsahverfi í Reykjavík er athafnasvæði fyrir léttan iðnað, sem hefur ekki í för með sér mengun. Þar er í gildi deiliskipulag frá árinu 2000. Árið 1999 gerðu þáverandi eigendur Tunguháls 17 og 19 með sér samning um afnotarétt á lóðarræmu frá norðvesturhorni húss nr. 17, sem er um 3,5 m breið og 20 m löng, og var utan girðingar Tunguháls 17. Samningurinn náði til þess að lóðarhafi Tunguháls 19 fengi afnot af lóðarræmunni til að hafa á henni bílastæði og myndi samningurinn falla úr gildi yrði um aðra nýtingu að ræða. Þessu samkomulagi var þinglýst á lóðina nr. 17 við Tunguháls. Hinn 3. nóvember 2016 barst eigendum Tunguháls 19 áskorun frá eigendum húss nr. 17 um að láta af notkun á umræddum bílastæðum innan þeirrar lóðar.

Með bréfi, dags. 15. febrúar 2017, gerði byggingarfulltrúinn í Reykjavík þá kröfu á hendur eiganda Tunguháls 17 að bílastæði á norðurhluta lóðarinnar við lóðamörk Tunguháls 17 og 19 yrðu fjarlægð. Fram kom í bréfi byggingarfulltrúa að það væri afstaða hans að ekki væru heimildir fyrir þessum bílastæðum á lóðinni, hvorki á lóðaruppdrætti né í deiliskipulagi.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun sé haldin stórfelldum ágöllum. Í fyrsta lagi verði ekki séð að byggingarfulltrúi hafi gætt að því að kanna þinglýstar heimildir og réttindi þriðju aðila til umræddrar lóðarræmu. Hafi málið hafist að frumkvæði lóðarhafa Tunguháls 17 og verði að ætla að sú skylda sem hvíli á byggingarfulltrúa að rannsaka málið sé enn ríkari en ella. Það að aðili kvarti undan tilvist bílastæða á eigin lóð hljóti að kalla á sérstaka eftirgrennslan á tilefni slíkrar kvörtunar. Ljóst sé að brotið var gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi kæranda, sem hafi augljósra hagsmuna að gæta í máli þessu, ekki verið gefinn kostur á að gæta réttinda sinna og koma að sjónarmiðum í málinu. Með því hafi verið brotið gegn andmælarétti hans.

Við ákvörðun byggingarfulltrúa hafi skort með öllu á að gerð væri grein fyrir þeim lagaheimildum sem hún hafi verið reist á og að gætt hafi verið að leiðbeiningarskyldu. Ekki sé vísað til kæruheimilda í erindinu eða réttinda aðila til að fá rökstuðning fyrir ákvörðun. Hafi þannig verið brotið gegn öllum skyldum stjórnvalds skv. V. kafla stjórnsýslulaga.

Kærandi sé á öndverðri skoðun við lóðarhafa Tunguháls 17, sem hafi allt frá árinu 2009 verið meðvitaður um réttindi kæranda um að þau væru brott fallin. Telji kærandi yfir vafa hafið að hann eigi lögvarða hagsmuni af nýtingu lóðarinnar, enda sé samkomuleg þess efnis skýrt og óumdeilt. Skipti þar engu þó svo að fyrir mistök hafi bílstæðanna ekki verið getið í deiliskipulagi. Auðsótt mál sé að leiðrétta það og sýna fram á tilvist réttindanna, enda einsýnt að byggingarfulltrúi hafi ekki haft nauðsynleg gögn við höndina þegar hann hafi tekið ákvörðun um að bílastæði kæranda skyldu fjarlægð. Um augljós mistök sé að ræða í þessu máli, enda hafi þrír starfsmenn byggingarfulltrúa lýst því yfir í samtali við lögmann kæranda að byggingarfulltrúi muni ekkert aðhafast í málinu, þó að skýr og afdráttarlaus fyrirmæli hans væru hundsuð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið fram að í máli þessu hafi byggingarfulltrúi tekið ákvörðun um að lóðin Tunguháls 17 skuli nýtt í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti, mæliblað og deiliskipulag. Einkaréttarlegir samningar geti ekki rutt úr vegi þeirri kröfu að umgengni um lóð sé í samræmi við þau hönnunargögn og þær ákvarðanir sem teknar hafi verið um nýtingu lóðar. Kærð ákvörðun byggi á 1. mgr. gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt því ákvæði beri byggingarfulltrúa að aðhafast, verði hann þess var, að lóðarfrágangur sé ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti, lög, reglugerðir eða byggingarlýsingu.

Athugasemdir lóðarhafa Tunguháls 17: Lóðarhafi tekur fram að hann telji ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2017 rétta og hyggst framfylgja henni. Þá sé því mótmælt að samkomulag frá árinu 1999 geti talist þess eðlis að það hafi áhrif á gildi umræddrar ákvörðunar byggingarfulltrúa.

Samkvæmt samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið sé ekki gert ráð fyrir bílastæðum á umræddri lóðarræmu við Tunguháls 17. Þessi skilningur hafi ítrekað fengist staðfestur hjá þar til bærum aðilum. Þýðing þessa sé að það samræmist ekki settum reglum að hafa bílastæði á þessu svæði. Þar af leiðandi geti samkomulagið ekki hafa talist gilt frá upphafi því að hér sé um að ræða samkomulag sem hafi frá undirritun verið andstætt þeim reglum sem aðilar hafi verið bundnir af. Með öðrum orðum hafi þáverandi eigendur ekki getað ráðstafað lóðarræmunni undir bílastæði þrátt fyrir mögulegan vilja þeirra þar um.

Aðstæður á svæðinu beri þess glöggt vitni að það henti engan veginn að nýta umrædda lóðarræmu undir bílastæði. Lóðin að Tunguhálsi 17 sé vinnulóð. Þar séu því vinnutæki á ferð um alla lóð auk þess sem þar sé mikið magn af stálstöplum og fleiru slíku sem tilheyri verktakafyrirtækjum.

Þrátt fyrir að margnefndu samkomulagi hafi verið þinglýst á árinu 1999 þá hafi því ekki verið fylgt eftir samkvæmt efni sínu og sé það mat lóðarhafa að það hafi fallið niður af þeim sökum, enda sé gerður skýr fyrirvari í orðalagi samkomulagsins um nýtingu ræmunnar sem bílastæðis en að öðrum kosti skildi afnotarétturinn falla niður. Lóðarhafi hafi verið eigandi Tunguháls 17 frá árinu 2009 en það hafi ekki verið fyrr en vorið 2016 að eigendur að Tunguhálsi 19 hafi krafist notkunar á lóðarræmunni með vísan til samkomulagsins. Þá hafi eigendur að Tunguhálsi 19 ekki virt ákvæði samkomulagsins um viðhald á malbiki og girðingu á svæðinu líkt og áskilnaður sé gerður um.

Kærandi hafi, allt frá því að málið hafi komið upp árið 2016, verið upplýstur um þá afstöðu lóðarhafa að samkomulagið eigi ekki rétt á sér, enda ógilt frá upphafi vegna áðurgreindra ástæðna, og sé til verulegs óhagræðis fyrir lóðarhafa og löngu fallið niður.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2017 um að lóðarhafi Tunguháls 17 skuli fjarlægja bílastæði af lóðinni sem kærandi telur sig hafa afnotarétt yfir samkvæmt þinglýstum samningi frá árinu 1999.

Ef ekki er gengið frá lóð samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skal gera eiganda eða umráðamanni lóðarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Byggingarfulltrúi getur krafist úrbóta eða beitt dagsektum sé leyfislausri notkun ekki hætt samkvæmt 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ákvörðun um beitingu þessa þvingunarúrræðis er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs.

Í gögnum málsins liggur fyrir að embætti byggingarfulltrúa telur staðsetningu bílastæða ekki vera í samræmi við samþykkta uppdrætti af lóðum nr. 17 og 19 við Tunguháls, svo sem fram kemur í bréfi embættisins til eiganda lóðar nr. 17, dags. 15. febrúar 2017. Kom þar fram að honum væri veittur 14 daga frestur til að koma með athugasemdir um málið eða að öðrum kosti fjarlægja bílastæðin innan 30 daga frá móttöku bréfsins. Í rökstuðningi byggingarfulltrúans í Reykjavík fyrir hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir þessum bílastæðum á samþykktum aðaluppdráttum eða deiliskipulagi. Kæranda var ekki tilkynnt um þessa ákvörðun byggingarfulltrúans, þó að ljóst sé að hann eigi hagsmuna að gæta í málinu á grundvelli áðurnefnds þinglýsts samkomulags um afnotarétt bílastæða við lóðamörk umræddra lóða. Það samkomulag var gert á árinu 1999 eða fyrir gildistöku deiliskipulags svæðisins. Kærandi fékk ekki vitneskju um hina kærðu ákvörðun fyrr en að athugasemdafresti liðnum, þegar honum var gert að láta af notum bílastæðanna.

Með gildandi deiliskipulagi frá árinu 2000 er ekki tekin ákvörðun um staðsetningu bílastæða á lóðum skipulagssvæðisins, en samkvæmt gildandi afstöðumynd fyrir lóð nr. 17 við Tunguháls, samþykktri af byggingarfulltrúa 20. ágúst 2013, er gert ráð fyrir bílastæðum á þessum hluta lóðarinnar. Verður því að telja að byggingarfulltrúi hafi byggt ákvörðun sína á röngum forsendum að þessu leyti.

Með vísan til þess er að framan greinir verður að telja að málsmeðferð og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðun sé svo áfátt að ógildingu varði.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2017 um að fjarlægja skuli bílastæði af lóðinni Tunguháls 17.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson