Á árinu 2020 bárust úrskurðarnefndinni 141 kærumál (5% aukning frá 2019), en 180 var lokið (9% aukning frá 2020). Á árinu voru kveðnir upp 151 úrskurðir (8% aukning frá 2019) og var meirihluti þeirra, eða alls 96, efnisúrskurðir. Lokaúrskurðir voru 143 talsins og skiptust svo eftir niðurstöðum:
Undir tegundina Ógildingu hafnað falla bæði mál þar sem það á við um allar kröfur og mál þar sem það á bara við um hluta krafna, að því gefnu að engin ákvörðun eða hluti ákvörðunar hafi verið felld úr gildi.
Þau stjórnvöld sem áttu flest mál sem lauk á árinu 2020 voru Reykjavíkurborg (58), Hafnarfjarðarbær (14), Skipulagsstofnun (10), Garðabær (9), Árneshreppur (7), Borgarbyggð (6) og Kópavogur (6).
Á árinu lauk þremur málum sem voru endurupptekin. Tvö voru endurupptekin í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis og eitt vegna nýrra gagna.
Í lok ársins 2020 voru hjá nefndinni 44 óafgreidd mál, en í upphafi ársins voru þau 83 talsins. Staðan heldur því áfram að batna að þessu leyti og er málahali nefndarinnar nú í eðlilegu horfi.
Lögbundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er ýmist allt að þremur mánuðum, eða allt að sex mánuðum í viðameiri málum, og telst frá því tímamarki er henni berast gögn frá viðkomandi stjórnvaldi. Nefndinni hafa ekki borist gögn í 18 málum af þeim 44 sem eru óafgreidd og eru því 26 mál tæk til meðferðar hjá nefndinni og eru þau komin mismunandi langt í vinnslu.
Meðalafgreiðslutími lokinna mála var 1,9 mánuðir sl. sex mánuði (2,9 mánuðir á sex mánaða tímabilinu sem lauk 30. september 2020) og meðaltal ársins 2020 var 3,5 mánuðir. Því markmiði úrskurðarnefndarinnar hefur því verið náð að meðalafgreiðslutími sé kominn undir fimm mánuði, en viðaminni mál taki skemmri tíma. Öllum málum var lokið innan sex mánaða á fjórða ársfjórðungi eins og á þriðja ársfjórðungi.
Aldur elsta óafgreidda málsins er nú um fjórir og hálfur mánuður miðað við hvenær gögn bárust nefndinni og er það á dagskrá nefndarinnar í janúar. Í öðru álíka gömlu kærumáli fer fram samráð aðila en leiði það ekki til lausnar málsins er stefnt að afgreiðslu þess í febrúar. Öll önnur kærumál eru innan við þriggja mánaða gömul miðað við gagnaskil viðkomandi stjórnvalda.
Árið 2020 voru haldnir 79 nefndarfundir og 13 þeirra sat fullskipuð nefnd, en lögum samkvæmt sitja fimm nefndarmenn í þeim málum sem eru viðamikil eða fordæmisgefandi. Á þessum 13 fundum voru kveðnir upp úrskurðir í sex kærumálum. Því fóru rúmlega 16% funda nefndarinnar á árinu í að afgreiða ríflega 3% þeirra kærumála sem afgreidd voru það árið. Viðamest voru kærumál nr. 22/2020 (og 27/2020 sem sameinað var hinu fyrra) sem vörðuðu framkvæmdaleyfi fyrir Vestfjarðavegi á milli Bjarkalundar og Skálaness. Voru þau mál til umfjöllunar á sjö fundum nefndarinnar. Sýnir þetta glögglega þann mikla mun sem getur verið á umfangi þeirra mála sem koma til kasta úrskurðarnefndarinnar.
Áhugasömum er sem áður bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og meðalafgreiðslutíma nefndarinnar í gegnum tíðina og eru nýjar upplýsingar birtar ársfjórðungslega.
Nýlegar athugasemdir