Í upphafi ársins 2022 voru 48 kærumálum ólokið en 44 í upphafi árs 2021. Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 bárust úrskurðarnefndinni 26 kærumál en 32 málum var lokið á sama tíma. Á sama tímabili í fyrra bárust 41 kærumál en 37 málum var lokið. Á fyrsta ársfjórðungi 2022 voru haldnir 14 nefndarfundir og kveðnir upp 33 úrskurðir og voru óafgreidd kærumál í lok tímabilsins 42 talsins. Meðalafgreiðslutími lokinna kærumála á fyrsta ársfjórðungi 2022 var 3,8 mánuðir.
Fjarvistir starfsmanna stofnunarinnar sökum veikinda höfðu talsverð áhrif á starfsemi úrskurðarnefndarinnar á fyrsta ársfjórðungi þessa árs auk þess sem starfandi lögfræðingum fækkaði um einn um síðastliðin áramót. Vegna mikils fjölda kærumála sem bárust nefndinni um miðbik síðasta árs var fyrirséð að afgreiðslutími mála myndi lengjast á lokamánuðum síðasta árs og fyrstu mánuðum þessa árs enda reyndist meðalafgreiðslutími lokinna kærumála fjórða ársfjórðungs ársins 2021 vera 3,4 mánuðir.
Lögbundinn málsmeðferðartími kærumála hjá úrskurðarnefndinni er jafnan allt að þrír mánuðir frá því að málsgögn berast frá stjórnvaldi en sex mánuðir frá sama tímamarki í viðameiri málum.
Nýlegar athugasemdir