Á árinu 2021 bárust úrskurðarnefndinni 184 kærumál sem er meira en fjórðungs aukning miðað við árið 2020. Aldrei hafa fleiri kærumál borist úrskurðarnefndinni á einu ári en fyrra met er frá árinu 2016 þegar nefndinni bárust 175 kærumál. Á árinu 2021 var lokið 180 kærumálum og kveðnir voru upp 175 úrskurðir. Jafnmörgum kærumálum var lokið árið 2020 en með 151 úrskurði. Í lok ársins 2021 voru hjá nefndinni 48 óafgreidd mál, eða einungis fjórum fleiri en við upphafi ársins þótt borist hafi 43 fleiri mál en á árinu 2020.
Haldnir voru 97 nefndarfundir árið 2021 og 24 þeirra sat fullskipuð nefnd, en lögum samkvæmt sitja fimm nefndarmenn í þeim málum sem eru viðamikil eða fordæmisgefandi. Á þessum 24 fundum voru kveðnir upp úrskurðir í átta kærumálum. Því fóru rúm 25% funda nefndarinnar á árinu í að afgreiða ríflega 4% þeirra kærumála sem afgreidd voru. Mun þyngri og viðameiri mál voru því til meðferðar hjá nefndinni þetta ár en áður og má nefna til samanburðar að haldnir voru 79 nefndarfundir árið 2020, þar af 13 með fullskipaðri nefnd. Viðamest árið 2021 voru kærumál vegna fiskeldis í Reyðarfirði (mál nr. 107, 111 og 119/2020) og kærumál vegna Suðurnesjalínu 2 (mál nr. 41, 46, 53 og 57/2021). Voru haldnir níu fundir fullskipaðrar nefndar vegna fiskeldismálanna en 14 slíkir vegna Suðurnesjalínu 2.
Lögbundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er ýmist allt að þremur mánuðum, eða allt að sex mánuðum í viðameiri málum, og telst frá því tímamarki er henni berast gögn frá viðkomandi stjórnvaldi. Nefndinni hafa ekki borist gögn í 13 málum af þeim 48 sem eru óafgreidd og eru því 35 mál tæk til meðferðar hjá nefndinni.
Meðalafgreiðslutími lokinna mála var 3 mánuðir síðastliðna sex mánuði (2,3 mánuðir á sex mánaða tímabilinu sem lauk 30. september 2021) og meðaltal ársins 2021 var 2,7 mánuðir. Meðalafgreiðslutími mála fyrir úrskurðarnefndinni er því undir lögbundnum málsmeðferðartíma viðaminni mála. Einungis einu máli (kærumáli nr. 119/2020) var ekki lokið innan lögbundins afgreiðslutíma, en ástæður þess vörðuðu ekki úrskurðarnefndina heldur var því frestað á meðan fjallað var um atriði því tengdu hjá öðru stjórnvaldi.
Áhugasömum er sem áður bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og meðalafgreiðslutíma nefndarinnar í gegnum tíðina og eru nýjar upplýsingar birtar ársfjórðungslega.
Nýlegar athugasemdir