Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála
Mánaðarlega Skjalasafn

desember 2021

Forstöðumaður og formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála lætur af störfum.

Með Fréttir

Forstöðumaður og formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, Nanna Magnadóttir, hefur verið skipaður héraðsdómari frá 3. janúar 2022. Hún hefur fengið lausn frá núverandi embætti frá sama tíma.

Nanna var skipuð forstöðumaður og formaður úrskurðarnefndarinnar frá 1. janúar 2014 og hefur því gegnt starfinu í átta ár. Á þeim tíma hefur úrskurðarnefndinni með samstilltu átaki tekist að snúa við neikvæðri þróun málshraða og er hann nú innan lögboðinna tímamarka. Samhliða hefur fjöldi kærumála aukist, auk þess sem viðameiri mál eru nú fyrirferðarmikil í störfum nefndarinnar. Við þökkum Nönnu samstarfið og óskum henni farsældar í nýju embætti.

Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndarinnar, er staðgengill forstöðumanns lögum samkvæmt, og mun sinna því starfi þar til nýr forstöðumaður verður skipaður. Ómar hefur starfað hjá nefndinni, áður úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, frá árinu 2002.

Gleðilega hátíð

Með Fréttir

Athugið að afgreiðslan er lokuð frá hádegi á þorláksmessu og milli jóla og nýárs.

Kærur og gögn eru móttekin á netfangið uua@uua.is og í póstkassa í anddyri.

 

Starfsfólk uua

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála búin að stíga fimm græn skref.

Með Fréttir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tekur þátt í verkefninu Græn skref og lauk á dögunum þremur síðustu skrefunum undir handleiðslu sérfræðings Umhverfisstofnunar. Varð nefndin þar með nítjánda stofnunin af þeim 148 sem þátt taka í verkefninu til að ljúka öllum fimm skrefum þess.

Verkefnið Græn skref er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Hvert skref inniheldur á bilinu 20-40 aðgerðir sem stofnanir þurfa að innleiða í sinn rekstur og miðast aðgerðirnar við venjulega skrifstofustarfsemi. Megintilgangur fimmta skrefsins er að viðhalda öflugu umhverfisstarfi eftir að öll skrefin hafa verið stigin og er þannig frábrugðið fyrstu fjórum skrefunum.

Úrskurðarnefndin lauk tveimur grænum skrefum í byrjun ársins 2018 en eftir flutninga á skrifstofu nefndarinnar og langdregið farsóttarástand var allt gefið í botn og síðustu þrjú skrefin kláruð á árinu 2021.

Tengiliðir nefndarinnar hafa m.a. verið öflugir við að fræða samstarfsfólk sitt um umhverfismál, flokkun hefur verið aukin og sóun minnkuð, auk þess sem markvisst hefur verið unnið með þætti eins og samgöngur og rekstur mötuneytis hússins þar sem nefndin er staðsett.

Með skrefunum fimm hefur úrskurðarnefndin lagt sitt á vogarskálarnar til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi ríkisins. Nefndin þakkar Umhverfisstofnun fyrir leiðsögnina og hlakkar til að fylgja árangrinum eftir með frekari aðgerðum.