Forstöðumaður og formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, Nanna Magnadóttir, hefur verið skipaður héraðsdómari frá 3. janúar 2022. Hún hefur fengið lausn frá núverandi embætti frá sama tíma.
Nanna var skipuð forstöðumaður og formaður úrskurðarnefndarinnar frá 1. janúar 2014 og hefur því gegnt starfinu í átta ár. Á þeim tíma hefur úrskurðarnefndinni með samstilltu átaki tekist að snúa við neikvæðri þróun málshraða og er hann nú innan lögboðinna tímamarka. Samhliða hefur fjöldi kærumála aukist, auk þess sem viðameiri mál eru nú fyrirferðarmikil í störfum nefndarinnar. Við þökkum Nönnu samstarfið og óskum henni farsældar í nýju embætti.
Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndarinnar, er staðgengill forstöðumanns lögum samkvæmt, og mun sinna því starfi þar til nýr forstöðumaður verður skipaður. Ómar hefur starfað hjá nefndinni, áður úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, frá árinu 2002.
Nýlegar athugasemdir