Á fyrstu þremur mánuðum ársins bárust úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 41 kærumál (2020: 24) en 37 (2020: 55) var lokið. Á tímabilinu voru kveðnir upp 42 (2020: 46) úrskurðir og voru 60% þeirra efnisúrskurðir. Einnig var afgreidd ein beiðni um endurupptöku kærumáls, fyrirspurnum umboðsmanns Alþingis svarað og umsögn veitt ríkislögmanni. Á ársfjórðungnum voru sex og hálft stöðugildi hjá nefndinni en á sama tíma í fyrra voru þau um tíu talsins.
Í lok fyrsta ársfjórðungs voru hjá nefndinni 48 óafgreidd mál, en í upphafi ársins voru þau 44 talsins.
Lögbundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er ýmist allt að þremur mánuðum, eða allt að sex mánuðum í viðameiri málum, og telst frá því tímamarki er henni berast gögn frá viðkomandi stjórnvaldi. Nefndinni hafa ekki borist gögn í 17 málum af þeim 48 sem eru óafgreidd og eru því 31 mál tæk til meðferðar hjá nefndinni og eru þau komin mismunandi langt í vinnslu.
Meðalafgreiðslutími lokinna mála var 2,2 mánuðir sl. sex mánuði (1,9 mánuðir á sex mánaða tímabilinu sem lauk 31. desember 2020). Öllum málum var lokið innan sex mánaða á ársfjórðungnum og aðeins eitt mál tók lengri tíma en fimm mánuði í meðferð.
Aldur elsta óafgreidda málsins er nú rúmlega fjórir mánuðir miðað við hvenær gögn bárust nefndinni og er það á dagskrá nefndarinnar í lok apríl eða byrjun maí. Svipaða sögu er að segja um tvö önnur mál en þessi þrjú snúast öll um fiskeldi og eru nokkuð viðamikil. Öll önnur kærumál eru innan við þriggja mánaða gömul miðað við gagnaskil viðkomandi stjórnvalda.
Áhugasömum er sem áður bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og meðalafgreiðslutíma nefndarinnar í gegnum tíðina og eru nýjar upplýsingar birtar ársfjórðungslega.
Nýlegar athugasemdir