Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

5/2024 Hólmbergsbraut

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 6. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Halldóra Vífilsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2024, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 9. janúar 2024 um að heimila frávik á deiliskipulagi Helguvíkur, iðnaðar- og hafnarsvæði, vegna byggingar atvinnuhúsnæðis á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. janúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Hólmbergsbraut 17, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 9. janúar 2024 að heimila frávik á deiliskipulagi Helguvíkur, iðnaðar- og hafnarsvæði, vegna byggingar atvinnuhúsnæðis á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. janúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili útgáfu byggingarleyfis, dags. 19. janúar 2024, fyrir atvinnuhúsnæði á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut, sbr. þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 11. s.m. að samþykkja byggingaráform hússins. Verður kærumál það, sem er nr. 6/2024, sameinað máli þessu þar sem um samofin mál er að ræða sem sami aðili stendur að, enda þykja hagsmunir hans ekki standa því í vegi.

Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 25. janúar 2024.

Málsatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 6. október 2023 var tekin fyrir beiðni lóðarhafa Hólmbergsbrautar 13 um frávik á deiliskipulagi Helguvíkar, iðnaðar- og hafnarsvæði, er fólst m.a. í því að byggingarreitur yrði staðsettur í 6 m fjarlægð frá austanverðum lóðamörkum í stað 10 m. Var erindinu frestað til aukafundar ráðsins 13. október s.m. Á þeim fundi var beiðnin samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var frávikið grenndarkynnt með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 27. s.m., með vísan til 5. mgr. 13. gr., 2. mgr. 43. gr. og 1. og 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Hinn 27. nóvember 2023 kom kærandi á framfæri andmælum vegna „[fyrirhugaðra breytinga] á samþykktu deiliskipulagi fyrir Hólmbergsbraut 13“ og staðhæfði m.a. að byggingarfulltrúi hefði brotið lögbundnar skyldur sínar við úttekt mannvirkisins á Hólmbergsbraut 17. Óskaði kærandi eftir því að afgreiðslu málsins yrði frestað þar til skorið hefði verið úr um skaðabótaskyldu sveitarfélagsins. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 20. desember 2023 var fyrrgreind beiðni um frávik á skipulagi tekin fyrir að nýju. Bókaði ráðið að lóðarhafi Hólmbergsbrautar 13 væri ekki aðili máls varðandi Hólmbergsbraut 17 og samþykkti að vikið yrði frá deiliskipulagi svæðisins þannig að „byggingarreitur stækkar til austurs og að mörk byggingar til suðurs og norðurs verði þau sömu og eldri byggingar á sama reit.“ Bæjarstjórn samþykkti afgreiðsluna á fundi 9. janúar 2024. Á grundvelli þess samþykkti byggingarfulltrúi 11. s.m. umsókn lóðarhafa Hólmbergsbrautar 13 um byggingarleyfi fyrir steinsteyptu húsi á lóðinni. Leyfið var gefið út 16. s.m.

Kærandi álítur að mannvirkið að Hólmbergsbraut 17 hafi ekki verið byggt í samræmi við byggingarleyfi, lög og reglugerðir. Mannvirkið sé rangt staðsett eða 2,67 m út fyrir byggingarreit samkvæmt útgefnu lóðarblaði. Það rýri notagildi þeirrar lóðar verulega. Við fyrirhugaða breytingu á samþykktu deiliskipulagi fyrir Hólmbergsbraut 13 hafi kærandi komið á framfæri andmælum, en engin efnisleg svör hafi borist þrátt fyrir lögbundna skyldu þar um skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Hinar kærðu ákvarðanir brjóti á skýran hátt gegn réttindum kæranda. Ekki hefði verið tilefni til að taka umrædda ákvörðun áður en skorið hefði verið úr um skaðabótaskyldu sveitarfélagsins og byggingarstjóra mannvirkisins á lóð Hólmbergsbrautar 17. Í því sambandi sé bent á að byggingarfulltrúi hafi brotið gegn lögbundnum skyldum sínum samkvæmt þágildandi lögum skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, svo og byggingarreglugerð nr. 441/1998, enda hefði við lögbundnar úttektir átt að koma í ljós að mannvirkið væri ekki staðsett rétt í samræmi við útgefið lóðarblað. Kærandi hafi verið í góðri trú um að byggt hafi verið í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.

Reykjanesbær hafnar kröfum kæranda.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum en engar bárust.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 9. janúar 2024 að heimila frávik á deiliskipulagi Helguvíkur, iðnaðar- og hafnarsvæði, vegna byggingar atvinnuhúsnæðis á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut. Jafnframt er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 11. s.m. um að samþykkja byggingaráform hússins.

Í skipulagsrétti gildir sú meginregla að framkvæmdir skulu vera í samræmi við skipulag, sbr. 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skal gera deiliskipulag á svæðum þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Í þeim tilvikum þar sem fyrirhuguð framkvæmd samræmist ekki deiliskipulagi svæðisins ber að gera breytingu á deiliskipulagi áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmdinni. Fer um þá breyting eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna, nema breytingin sé óveruleg og skal þá fara fram grenndarkynning, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Í 3. mgr. er svo kveðið á um að sveitarstjórn geti heimilað að vikið sé frá kröfu 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu „þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.“ Óskylt er samkvæmt orðalagi greinarinnar að grenndarkynna slík frávik.

Fyrir liggur í máli þessu ódagsett bréf leyfishafa þar sem óskað er eftir „fráviki frá skipulagi/lóðarblaði“ fyrir lóðina Hólmbergsbraut 13. Var m.a. óskað eftir því að byggingarreitur yrði staðsettur í 6,0 m fjarlægð frá austanverðum lóðamörkum í stað 10 m.  Með því leitaði leyfishafi eftir heimild bæjarstjórnar til að víkja frá kröfu um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Þrátt fyrir það var erindið tekið fyrir sem „breyting á deiliskipulagi“ og samþykkt að grenndarkynna það skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Að endingu fór þó svo að bæjarstjórn samþykkti frávik á skipulagi og liggur beinast við að álykta að það hafi verið gert á grundvelli 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Ákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga felur í sér undanþágu frá áðurnefndri meginreglu um að framkvæmdir skuli vera í samræmi við skipulag og ber því að túlka ákvæðið þröngt. Er skýrt af orðalagi þess að hagsmunir nágranna mega í engu skerðast hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Líta verður svo á að tilfærsla byggingarreits Hólmbergsbrautar 13 um 4 m í átt að lóð kæranda hafi grenndaráhrif gagnvart honum umfram það sem hefði verið að óbreyttu skipulagi. Með því voru ströng skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga ekki uppfyllt þegar hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar var tekin og verður því að fella hana úr gildi af þeim sökum. Þar sem ekki liggur fyrir samkvæmt þessu gild heimild til að víkja frá skipulagi svæðisins verður hið kærða byggingarleyfi einnig fellt úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 9. janúar 2024 að heimila frávik á deiliskipulagi Helguvíkur, iðnaðar- og hafnarsvæði, vegna byggingar atvinnuhúsnæðis á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 11. janúar 2024 um að samþykkja byggingaráform atvinnuhúsnæðis á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut.

112/2023 Skerðingsstaðir

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 6. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Halldóra Vífilsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar frá 9. mars 2023, um að samþykkja deiliskipulag Skerðingsstaða í Grundarfjarðarbæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðarinnar Mýrarhúsa í Eyrarsveit, nú Grundarfjarðarbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar frá 9. mars 2023 að samþykkja deiliskipulag Skerðingsstaða í Grundarfjarðarbæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 16. október 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grundarfjarðarbæ 28. september 2023.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Grundarfjarðarbæjar 4. apríl 2018 var fallist á umsókn landeiganda Skerðingsstaða að deiliskipuleggja jörðina auk þess sem landnotkun svæðisins í aðalskipulagi yrði breytt. Var ákvörðun nefndarinnar samþykkt á fundi bæjarstjórnar sama dag. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 17. október s.á. var samþykkt að skipulagslýsing vegna deiliskipulags fyrir Skerðingsstaði yrði sett í kynningu samkvæmt 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 18. s.m. Skipulagslýsingin var send umsagnaraðilum og landeigendum nærliggjandi jarða til umsagnar auk þess að vera auglýst í blöðum og á heimasíðu sveitarfélagsins. Bárust tíu umsagnir og athugasemdir og var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að taka saman viðeigandi gögn og kynna landeigendum/framkvæmdaraðila og veita honum hæfilegan frest til að tjá sig. Skipulags- og umhverfisnefnd tók fyrir svör við umsögnum og athugasemdum sem bárust á kynningartíma skipulagslýsingar á fundi 13. nóvember s.á. og beindi því til skipulagshöfunda að móta deiliskipulag og vinna umhverfisskýrslu.

Með nýju Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2019–2039 var afmarkað nýtt verslunar- og þjónustusvæði í landi Skerðingsstaða þar sem gert var ráð fyrir hótelbyggingu og stakstæðum bústöðum.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti á fundi sínum 1. mars 2022 að auglýst yrði tillaga að deiliskipulagi fyrir jörðina Skerðingsstaði með umhverfisskýrslu og að hvoru tveggja yrði sent umsagnaraðilum, sbr. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og 15. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Umrætt skipulagssvæði er um 4,5 ha að stærð og liggur á tanga sem gengur út á Lárvaðal undir Skerðingsstaðafjalli. Gert var ráð fyrir allt að 100 herbergja hóteli og allt að fimm smáhýsum. Hæð hótelbyggingarinnar yrði allt að 22,5 m frá botnplötu 1. hæðar og hámarks byggingarmagn 5.500 m2. Hæð smáhýsanna yrði mest 4,5 m frá botnplötu og hámarks byggingarmagn þeirra 300 m2. Nýtingarhlutfall yrði að hámarki 0,13. Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar samþykkti afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar á fundi sínum 10. s.m. Skipulagstillagan var auglýst frá 20. júlí 2022 með athugasemdafresti til og með 14. september s.á auk þess sem auglýsingin var send til þeim sem gert höfðu athugasemdir á kynningartíma skipulagslýsingarinnar árið 2018. Alls bárust athugasemdir frá 30 aðilum, þar á meðal kærendum, og var skipulagsfulltrúa falið að vinna tillögur að svörum við þeim. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 20. febrúar 2023 samþykkti nefndin, með 13 nánar tilteknum skilyrðum, deiliskipulag fyrir Skerðingsstaði og svör við athugasemdum sem bárust á auglýsingatíma tillögunnar. Var afgreiðsla nefndarinnar samþykkt á fundi bæjarstjórnar 9. mars s.á. og tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 24. ágúst 2023.

 Málsrök kærenda: Land kærenda liggi að Lárvaðli gegnt landi Skerðingsstaða og sé í um 700 m fjarlægð frá hinu fyrirhugaða hóteli. Fyrirhugaðar framkvæmdir muni hafa í för með sér verulega aukna hljóð-, ljós og loftmengun, bæði vegna aukinnar umferðar ökutækja á svæðinu og vegna hótelstarfseminnar sjálfrar. Hávaða- og ljósmengun muni berast yfir á land Mýrarhúsa og rýra verðmæti fasteignar kærenda auk þess sem framkvæmdirnar muni raska lífríki Lárvaðals, sem skerði hagsmuni kærenda þar sem land þeirra liggi að vaðlinum. Fyrirhuguð hótelbygging muni hafa í för með sér umtalsverða sjónmengun, en byggingarmagn samkvæmt deiliskipulaginu sé umtalsvert og gert sé ráð fyrir að hótelbyggingin verði allt að 22,5 m á hæð. Þar að auki hafi bílastæði við hótelbygginguna í för með sér sjónmengun. Kærendur hafi látið sig málið varða frá upphafi þess. Fyrst hafi verið sendar inn athugasemdir við verkefnalýsingu skipulags- og umhverfisnefndar Grundarfjarðarbæjar. Þá hafi kærendur einnig komið á framfæri athugasemdum við breytingar á Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar og vegna hins umdeilda deiliskipulags.

Ekki hafi verið tekin næg afstaða til allra þeirra athugasemda sem kærendur hafi gert við deiliskipulagstillöguna, t.d. hafi lítið verið fjallað um áhrif framkvæmdarinnar á frístundabyggð í nágrenninu með tilliti til ljós-, hljóð og loftmengunar vegna starfseminnar og aukinnar bílaumferðar.

Í kafla 5.1 í greinargerð með Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2019–2039 komi fram sú framtíðarstefna sveitarfélagsins að standa skuli vörð um landslag, lífríki og minjar sem dýrmætan arf. Það komi fram að það sé markmið sveitarfélagsins að fjölbreytni fuglalífs og gróðurs viðhaldist, í því skyni verði staðinn vörður um merkileg og viðkvæm búsvæði fugla og gróðurs til að viðhalda heilbrigði vistkerfa og líffræðilegri fjölbreytni. Á öðrum stað komi fram að við deiliskipulagsgerð, mannvirkjagerð og landnýtingu verði tekið tillit til verðmætra vistkerfa og búsvæða, fjarlægðar frá ám og vötnum og fornleifa og annarra búsetuminja. Náttúruvernd og vernd menningarminja sé eitt af meginmarkmiðum aðalskipulagsins. Deiliskipulagið nái yfir viðkvæmt verndarsvæði sem einkennist af lítt snortinni náttúru og einstöku fuglalífi, auk þess sem mikið sé um fornminjar á svæðinu. Deiliskipulagið sé ekki í samræmi við stefnu og markmið aðalskipulagsins að þessu leyti enda ljóst að 100 herbergja hótelbygging í landi Skerðingsstaða muni hafa í för með sér verulega röskun á náttúru, lífríki, fornminjum og landgæðum á svæðinu. Hin kærða ákvörðun brjóti í bága við 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga þar sem segi að við gerð deiliskipulags skuli byggt á stefnu aðalskipulags og 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.

Ekki sé gerð grein fyrir fyrirkomulagi fráveitu og umhverfisáhrifum hennar í umræddu deiliskipulagi líkt og kveðið sé á um í ákvæði aðalskipulagsins um Skerðingsstaði. Við undirbúning deiliskipulagsins hafi ekki verið metið hvaða tjón kynni að verða á umhverfinu, einkunn lífríki í Lárvaðli, af völdum fráveitu. Fráveitulagnir séu ekki merktar inn á deiliskipulagsuppdrátt og ekki sýnt hvort og þá hvernig þær verði leiddar út í vaðalinn. Mat á áhrifum af seyru, fitu og sápu frá mögulegum hreinsibúnaði fráveitu og starfseminni allri hafi ekki hafi farið fram. Þar sem ekki hafi verið gerð grein fyrir fyrirkomulagi fráveitu og áhrifum hennar í deiliskipulaginu sjálfu verði að telja að deiliskipulagið brjóti í bága við skilmála gildandi aðalskipulags. Ekki hafi verið tekin afstaða til ýmissa annarra mikilvægra atriða í deiliskipulaginu, svo sem vatnsveitu og vegtengingar. Þá sýni deiliskipulagið ekki hvernig eigi að útvega hótelinu slökkvi- og neysluvatn, en slíkt kynni að valda vandkvæðum í framkvæmd, enda frjósi Lárvaðall við landið á veturna og ekki virðist ætlun að taka vatn úr Hólalæk.

Hin kærða ákvörðun fari í bága við meginmarkmið skipulagslaga nr. 123/2010 að tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll. Hagsmunir einstaks landeiganda hafi verið teknir fram fyrir almannahagsmuni á sviði umhverfis- og náttúruverndar og markmið skipulagslaga um umhverfisvernd hafi verið fyrir borð borin. Þá verði skipulagsáætlanir sveitarfélaga einnig að vera í samræmi við ákvæði annarra laga. Í 7. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd komi fram að við töku ákvarðana sem hafi áhrif á náttúruna skuli stjórnvöld taka mið af meginreglum og sjónarmiðum 8.–11. gr. laganna, þar á meðal varúðarreglu 9. gr. þar sem segi að þegar ákvörðun sé tekin, án þess að fyrir liggi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hafi á náttúruna, skuli leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum. Við afgreiðslu sveitarfélagsins á deiliskipulagi fyrir hótel í landi Skerðingsstaða hafi ekki verið gengið nægilega úr skugga um að fyrirhuguð framkvæmd muni ekki hafa verulega skaðleg og óafturkræf áhrif á landslag, náttúru, lífríki og aðrar auðlindir á svæðinu, til dæmis fiskalíf í Lárvaðli. Ekki hafi átt að samþykkja deiliskipulagið fyrr en að lokinni fullnægjandi rannsókn sveitarfélagsins á áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfi og náttúru svæðisins.

Umhverfismat framkvæmdarinnar sé haldið annmörkum þar sem ekki hafi farið fram fullnægjandi rannsókn á ýmsum mikilvægum atriðum, einkum áhrifum framkvæmdarinnar á hljóð- og loftmengun, lífríki og gróður. Kærendur telji að ekki hafi verið upplýst á fullnægjandi hátt við afgreiðslu skipulagsins hvaða skaðlegu áhrif fyrirhuguð hótelbygging hefði í för með sér á þessi atriði. Af umhverfis- og framkvæmdaskýrslu vegna deiliskipulagsins sé ljóst að í umhverfismati framkvæmdarinnar hafi ekki verið metin áhrif fyrirhugaðrar hótelbyggingar á frístundabyggð 1, sem sé beint hinum megin við Lárvaðal í minna en 1 km fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu, og hvort framkvæmdin muni koma til með að rýra verðmæti fasteigna á því svæði eða valda eigendum þeirra ónæði, óþægindum eða tjóni að öðru leyti. Við afgreiðslu deiliskipulagsins hafi ekki verið metin áhrif framkvæmdarinnar á frístundabyggð í nágrenninu hvað varði hljóð-, ljós-, loft- og sjónmengun. Fasteign kærenda sé innan frístundabyggðarinnar og telji kærendur að framkvæmdirnar muni valda þeim talsverðu ónæði og skerða verðmæti fasteignar þeirra. Athugasemdum kærenda sem vörðuðu áhrif framkvæmdarinnar að þessu leyti hafi enginn gaumur verið gefinn af hálfu sveitarfélagsins. Hefði bersýnilega þurft að meta þessi umhverfisáhrif áður en deiliskipulagið hafi verið samþykkt.

Byggingarreitur hins fyrirhugaða hótels liggi á sérstaklega viðkvæmum stað við Lárvaðal, sem sé á verndunarsvæði Breiðafjarðar, sbr. lög nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar, og sé fjaran friðlýst. Mikið sé af bleikju og bleikjuseiði í Lárvaðli, en vaðallinn hafi einnig verið notaður við laxeldi og sé hann mikilvægt uppeldissvæði fyrir laxfiska. Þá nái deiliskipulagið að stórum hluta yfir verndunarsvæði friðaðra fornminja. Í viðauka 6 með umhverfisskýrslu framkvæmdanna komi fram að áhrif þeirra á vatnalífríki ættu að vera óveruleg, að því gefnu að fráveitumál verði í lagi. Hið sama segi um áhrif á fuglalíf og gróður í viðauka 5. Hins vegar hafi engin grein verið gerð fyrir áhrifum fráveitu og hreinsibúnaðar í greinargerð með deiliskipulaginu og hafi áhrif þessa á lífríki, gróður og fuglalíf því ekki verið rannsökuð nægilega. Þá hafi ekki farið fram mat á áhrifum umferðar ökutækja og manna á fuglalíf og gróður í nágrenni fyrirhugaðs hótels. Ekki hafi heldur farið fram rannsókn á því hvort fyrirhugaðar framkvæmdir muni hafa áhrif á Hólalæk og lífríki í læknum, en lækurinn sé mikilvæg uppeldisstöð fyrir laxafiska. Hafi sveitarfélaginu borið að leita eftir afstöðu Fiskistofu til þess hvort framkvæmdirnar myndu skaða fiskigengd í læknum, afkomu laxastofna eða lífríki að öðru leyti. Loks hafi ekki farið fram fullnægandi rannsókn á fornleifum og fornum kirkjugarði sem gögn bendi til þess að sé á landi Skerðingsstaða.

Ágallar hafi verið á auglýsingu deiliskipulagstillögunnar þar sem myndir sem sýndar hafi verið af svæðinu við kynningu tillögunnar hafi verið blekkjandi. Á kynningarfundi 23. ágúst 2022 hafi komi fram af hálfu framkvæmdaraðila að myndir væru ekki í réttum hlutföllum. Kærendur og aðrir íbúar sveitarfélagsins hafi af þeim sökum ekki getað tekið afstöðu til sjónrænna áhrifa framkvæmdanna með fullnægjandi hætti, enda hafi sjónræn áhrif virst mun minni en þau séu í reynd. Í þessu sambandi sé bent á að þegar kærendum hafi verið sent kynningarbréf með auglýsingu á hinu nýja deiliskipulagi fyrir Skerðingsstaði hafi komið fram að hótelbyggingin yrði mest 2,5 m að hæð frá botnplötu 1. hæðar. Í auglýsingu deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda 24. ágúst 2023 hafi einnig komi fram að hæsti punktur byggingarinnar yrði 2,5 m frá botnplötu 1. hæðar, en auglýsingin hafi verið leiðrétt 28. ágúst og nú segi að hæsti punktur sé 22,5 m. Röng tilgreining á hæð hótelbyggingarinnar við auglýsingu hafi valdið kærendum óvissu um raunverulega hæð hennar og þeir hafi því ekki getað tekið afstöðu til hæðar byggingarinnar.

Ekki sé nægjanlegt að setja það skilyrði í deiliskipulagið að engar framkvæmdi verði innan 50 m frá Lárvaðli, þrátt fyrir að slíkt séu lágmarkskröfur skv. gr. 5.3.2.14 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Sveitarfélaginu hafi borið að fara eftir tillögu Umhverfisstofnunar um 100 m fjarlægð frá fjöru í ljósi þess að um viðkvæmt verndarsvæði sé að ræða. Þá sé á deiliskipulagsuppdrætti gert ráð fyrir að fyrirhugað hótel nái inn á 15 m friðhelgað svæði umhverfis fornminjar á svæðinu, án þess að leyfi Minjastofnunar hafi komið til, sbr. 21. og 22. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Enn fremur séu framkvæmdir í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka þess, sem áhrif geti haft á fiskigengd, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, háðar leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiðar. Ekki hafi verið gengið úr skugga um að framkvæmdir á grundvelli deiliskipulagsins hafi engin áhrif á lífríki í Lárvaðli, fiskigengd, fiskstofna eða aðstöðu til veiði í vatninu og ekki hafi farið fram fullnægjandi mat þar að lútandi í umhverfismati framkvæmdarinnar. Telji kærendur að sveitarfélaginu hefði borið að hlutast til um að Fiskistofa rannsakaði áhrif framkvæmdanna á fiskalíf í Lárvaðli að þessu leyti, til þess að kanna hvort þörf væri á leyfi til framkvæmdanna samkvæmt 33. gr. laga nr. 61/2006, enda séu umræddar framkvæmdir staðsettar innan 100 m frá bakkanum.

 Málsrök Grundarfjarðarbæjar: Vísað er til þess að vafi leiki á um hvort kærendur uppfylli skilyrði laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála um lögvarða hagsmuni. Í 3. mgr. 4. gr. laganna sé kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Verði að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið sé að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Verði því að meta í hverju tilviki hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins til að komast að niðurstöðu um hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Líta verði til þess að jörð kærenda sé í um það bil 700–900 m fjarlægð frá fyrirhugaðri hótelbyggingu. Lárvaðall liggi á milli deiliskipulagssvæðisins og jarðar kæranda. Ekki liggi fyrir hvernig grenndarhagsmunir kærenda muni skerðast að nokkru marki hvað varði landnotkun eða upplifun, svo sem sjónræn áhrif eða hljóðvist. Aðrar málsástæður kærenda lúti að atriðum er tengist skipulagslegum hagsmunum sem teljist til almannahagsmuna. Ekki verði séð hvernig umdeild bygging raski lögvörðum grenndarhagsmunum kærenda, en ásýnd byggingarinnar ein og sér geti ekki varðað einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni þeirra.

Deiliskipulagið hafi hlotið meðferð í samræmi við 41. og 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 24. ágúst 2023, með minniháttar breytingu 28. s.m. Þeim sem gert höfðu athugasemdir við tillöguna á auglýsingatíma hennar hafi verið tilkynnt um gildistökuna með tölvupósti ásamt samantekt athugasemda og umsögn skipulags- og umhverfisnefndar.

Deiliskipulagið sé í samræmi við Aðalskipulag Grundarfjarðarbæjar 2019–2039, en þar sé svæðið skilgreint fyrir verslun og þjónustu. Í aðalskipulaginu væri beinlínis gert ráð fyrir að hið umdeilda deiliskipulag yrði gert og að það fæli í sér hótelbyggingu. Slík sértæk tilgreining í aðalskipulagi geti ekki talist ganga gegn almennum ákvæðum. Gripið hafi verið til ráðstafana til að bregðast við neikvæðum umhverfisáhrifum með þeim skilyrðum sem sett hafi verið fyrir samþykkt deiliskipulagsins og þannig tekið tillit til þeirra atriða sem tilgreind séu í aðalskipulagi, þar með talið áhrifa á viðkvæm vistkerfi, búsvæði og aðrar náttúruminjar, aðgengi almennings, fjarlægð frá vötnum, fornleifar og fleiri þætti. Samkvæmt þeim skilmálum, sem hið kærða deiliskipulag kveði á um, sé það innan þeirra heimilda sem aðalskipulag mæli fyrir um.

Við meðferð deiliskipulagstillögunnar hafi til samræmis við 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga verið gerð grein fyrir umhverfisáhrifum áætlunarinnar og stefnumiða hennar. Í samræmi við ákvæðið hafi skýrslugerð um skipulagstillöguna og skýrslugerð um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um nr. 111/2021 verið sameinað. Í umhverfisskýrslunni hafi verið fjallað um þá umhverfisþætti sem deiliskipulagstillagan væri talin hafa áhrif á, þar með talið vatn, gróður, dýralíf, öryggi og samgöngur, efnahag og atvinnulíf, verslun og þjónustu, fornminjar og ásýnd lands. Stefnumörkun á áætlanastigi sé yfirleitt almenns eðlis, borið saman við það sem eigi við um einstakar framkvæmdir. Þrátt fyrir það hafi verið unnar ítarlegar skýrslur og rannsóknir við undirbúning deiliskipulagsins, meðal annars á lífríki og fornleifum. Í ljósi stöðu deiliskipulagsins í stigskiptri áætlanagerð hafi umhverfismat þess uppfyllt skilyrði skipulagslaga.

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 20. febrúar 2023 hafi verið bókað að nefndin samþykkti skipulagstillöguna með nánar tilgreindum skilyrðum. Í bókuninni hafi verið tekið tillit til framkominna athugasemda, þar með talið athugasemda kærenda, með 13 skilyrðum sem sett hafi verið fyrir deiliskipulaginu. Bæjarstjórn hafi samþykkt þá afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 9. mars s.á. Gildistaka deiliskipulagsins feli ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þurfi að koma til sérstök stjórnvaldsákvörðun, svo sem veiting byggingar- eða framkvæmdarleyfis auk þess sem tiltekin starfsemi sé háð sérstökum starfsleyfum frá þar til bærum yfirvöldum. Við slíka meðferð komi fram nákvæmari upplýsingar um ýmis atriði hönnunar væntanlegs mannvirkis sem kæran virðist lúta að.

Varðandi fullyrðingar kærenda um að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til tiltekinna atriða í athugasemdum kæranda við afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar er vísað til skilyrða 4, 6 og 11 í bókun nefndarinnar og umsagnar skipulags- og umhverfisnefndar til kærenda vegna athugasemda hans. Í ljósi athugasemdar um mannvirkjagerð, hönnun og skipulag á viðkvæmum stöðum, svo sem í lítt snortinni náttúru sé bent á að um sé að ræða gamalt bæjarstæði með túnum sem hafi verið nýtt til beitar um árabil. Við meðferð málsins hafi verið fjallað um mögulega ljós- og/eða hljóðmengun og lögð áhersla á að starfsemi á svæðinu skyldi vera innan viðmiðunarmarka samkvæmt lögum og reglum, en um sé að ræða atriði sem lögbundnir umsagnaraðilar leggi mat á við meðferð starfsleyfisumsóknar, sbr. skilyrði 11 sem sett hafi verið fyrir deiliskipulaginu.

Frá upphafi hafi legið fyrir sérstakt minnisblað varðandi fráveitumál, dags. 26. september 2019. Í skilyrði 4 í bókun skipulags- og umhverfisnefndar sé áskilið að gerðar verði ítrustu kröfur um fráveitu- og hreinsibúnað. Með því hafi verið gætt að og tekið tillit til sjónarmiða kærenda. Þá sé bent á að í skyldu sveitarfélags til samráðs felist ekki að fallast beri á allar þær athugasemdir sem fram komi, enda sé sveitarstjórnum með lögum veitt víðtækt skipulagsvald þótt því beri að beita að teknu tilliti til málsmeðferðarreglna skipulags- og stjórnsýslulaga. Þá sé bent á að vegna athugasemda Skipulagsstofnunar frá 15. júní 2023 hafi uppdráttur og greinargerð verið uppfærð til samræmis og hafi ekki sætt athugasemdum stofnunarinnar. Ekki séu gerðar kröfur um það í deiliskipulagi að einstakir þættir í hönnun mannvirkja séu tilgreindir enda falli þeir undir framkvæmdaleyfi, byggingaleyfi, starfsleyfi og önnur leyfi fyrir mannvirkjum og starfsemi. Deiliskipulagið geri ítrustu kröfur um fráveitu og vatnsöflun, sbr. skilyrði 3 og 4 í bókun skipulags- og umhverfisnefndar. Í bókun 4 sé lögð á það sérstök áhersla að fráveitu og heilbrigðismál verði með þeim hætti að ekki stafi af þeim hætta á mengun. Í umsögn Heilbrigðis­stofnunar Vesturland sé bent á að stofnunin þurfi að samþykkja þann fráveitubúnað sem settur verði upp. Í skilyrði 13 í bókun nefndarinnar sé áskilið að færðar verði inn á skipulagsuppdráttinn 1 m hæðarlínum leiðbeinandi staðsetning rotþróar, leiðbeinandi staðsetning hreinsibúnaðar fráveitukerfis og að öðru leyti sé vísað til 7. kafla skipulags­reglugerðar nr. 90/2013. Orðið hafi verið við þessum áskilnaði í fyrirliggjandi deiliskipulags­uppdrætti.

Tekið hafi verið tillit til lífríkis og fornleifa á svæðinu og gerðar hafi verið ítarlegar rannsóknir sbr. viðauka 1, 4, 5 og 6 við greinargerð deiliskipulagsins. Til þessara greininga og rannsókna hafi verið tekið tillit til í upphaflegum deiliskipulagstillögum og í skilyrðum sem sett hafi verið fyrir því. Um umhverfisáhrif sé vísað sértaklega til kafla 3 í greinargerð, umhverfis- og framkvæmdaskýrslu og annarra viðauka og fyrirliggjandi skilyrða við deiliskipulagið, sbr. og umsögn skipulags- og umhverfisnefndar. Miðað við fyrirliggjandi áform um byggingu hótels ættu áhrif framkvæmdarinnar á vatnalífríki að vera óveruleg að því gefnu að fráveitumál verði í lagi og starfsemin í samræmi við það sem skipulagið geri ráð fyrir. Framkvæmd hafi verið ítarleg rannsókn á fornleifum, sbr. viðauka 4 og ráðist staðsetning fyrirhugaðra bygginga af fornminjum. Þá sé skilyrði 2 í ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar að fornminjar á skipulagssvæðinu verði verndaðar á framkvæmdatíma og að landeigandi geri grein fyrir verndaráformum í umsókn um byggingar- og/eða. framkvæmdaleyfi.

Í kafla 4.7 í umhverfis- og framkvæmdaskýrslu og minnisblaði, dags. 9. september 2019, sé fjallað um möguleika á öflun neysluvatns fyrir hótel. Þá sé í skilyrði 5 í bókun skipulags- og umhverfisnefndar áskilið að vatnsból og lagnir frá því skuli uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 536/2001 um neysluvatn.

Í skilyrði 10 í bókun nefndarinnar hafi verið settar fram kröfur um vegtengingu þar sem komi fram að vegtenging við þjóðveginn verði útfærð nánar í hönnun svæðisins og að það verði gert í fullu samráði við Vegagerðina eins og gildi um allar framkvæmdir innan 50 m veghelgunarsvæðis. Kalli hönnun vegstæðis á verulega breytingu skuli það gert á grundvelli breytingar á deiliskipulagi.

Hvað varði þörf á leyfum samkvæmt 21.–22. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar og 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax og silungsveiði þá sé vísað til þess að þessi ákvæði vísi til leyfa til framkvæmda eða mannvirkjagerðar. Slík atriði komi til skoðunar á síðari stigum, við veitingu byggingarleyfis eða framkvæmdaleyfis, en ekki við meðferð deiliskipulags. Ítarleg greining hafi verið unnin um fornleifar á svæðinu. Þá sé í umsögn minjastofnunar áréttað að samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 80/2012 skuli stöðva framkvæmdir án tafar ef ókunnar fornminjar finnist. Ítarleg greining liggi jafnframt fyrir um fuglalíf og gróður á svæðinu sbr. viðauka 5 og í umhverfisskýrslu sé áhrif á þessa þætti metin auk þess sem aflað hafi verið umsagna frá viðeigandi aðilum.

Deiliskipulagið gangi ekki gegn meginmarkmiðum skipulagslaga líkt og staðhæft sé í kæru. Skipulagið og meðferð þess sé í samræmi við skipulagslög auk viðeigandi ákvæða laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Við málsmeðferð hafi verið lögð áhersla á að leggja mat á áhrif skipulagsins á allt nærumhverfið. Í skilyrði 11 í bókun skipulags- og umhverfisnefndar komi fram að leita beri leiða til að lágmarka ljós- og hávaðamengun sem starfsemin kunni að valda utan svæðisins og að lögbundnir aðilar skuli leggja mat á þennan þátt við meðferð starfsleyfisumsóknar. Þá sé einnig vísað til skilyrða 4 og 6 í bókuninni um að lágmörkuð séu neikvæð áhrif starfseminnar. Skipulagslög geri hins vegar ráð fyrir því að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á beinum eða óbeinum eignarréttindum, en standi slík réttindi í vegi fyrir framkvæmd skipulags geti komið til eignarnáms skv. 50. gr. skipulagslaga eða eftir atvikum til bótagreiðslna í samræmi við 51. gr. laganna.

Deiliskipulagið gangi ekki gegn friðlýsingu Breiðafjarðar. Gripið hafi verið til ráðstafana og skipulag miði að því að vernda fornminjar á svæðinu. Skilyrði skipulagsins geri ráð fyrir að gerðar verði ítrustu kröfur á fráveitu og sem leiða eigi til þess að áhrif framkvæmda samkvæmt deiliskipulaginu á vatnalífríki verði óveruleg. Sett hafi verið skilyrði um að í deiliskipulaginu kæmi fram að Lárvaðall sé sjávarlón og að það ásamt fjörum falli undir lög nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar og a. lið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Í greinargerð deiliskipulagsins komi fram að þar sé mikilvægt vistkerfi með fjölbreyttu lífríki og að hönnun hótelsins og starfsemi þess skuli taka mið af því. Ákvæði laga um vernd Breiðafjarðar nái til eyja, hólma og skerja á Breiðafirði ásamt fjörum í innri hluta fjarðarins, þar með talið fjörunnar umhverfis Lárvaðal þar sem fyrirhugað framkvæmdasvæði sé staðsett í um 50 m fjarlægð frá Lárvaðli. Fjarlægðarmörkin séu í samræmi við gr. 5.3.2.14 skipulagsreglugerðar.

Þeirri fullyrðingu að kynning á ásýnd mannvirkja hafi verið villandi sé hafnað. Unnar hafi verið ítarlegar kynningar, myndbönd og sjónlínugreining þar sem sjá megi áhrif mannvirka. Þá hafi komið leiðrétting á augljósri prentvillu sem hafi verið í upphaflegri auglýsingu og henni hafi verið komið á framfæri um leið og hennar hafi orðið vart, sbr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og auglýsing í Stjórnartíðindum leiðrétt. Deiliskipulagsuppdrátturinn sjálfur, sem hafi verið auglýstur, hafi frá upphafi innihaldið rétta hæð húss, sem og öll önnur gögn á fyrri stigum.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Þeirri fullyrðingu sveitarfélagsins að kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins sé hafnað. Vegalengd milli lands Skerðingsstaða og fasteignar kærenda sé ekki nema 700 m í beinni sjónlínu. Veruleg hætta sé á að fyrirhuguð hótelbygging muni hafa sjónræn áhrif á fasteignir kærenda og leiða til aukinnar loft-, ljós- og hávaðamengunar, sem skerða muni verðmæti fasteigna kærenda. Þá komi hótel í landi Skerðingsstaða til með að raska umhverfi og lífríki í kringum fasteign þeirra. Ljóst sé að áhrif framkvæmdanna takmarkist ekki við sjónræna þætti og bent sé á að fasteign kæranda liggi að Lárvaði og eigi kærendur því réttindi 115 m út í vatnið, en kærendur séu auk þess handhafar veiðiréttinda í vaðlinum þar á meðal í almenningi stöðuvatnsins. Þeir eigi því bersýnilega lögvarða hagsmuni af úrlausn um gildi deiliskipulags fyrir hótel sem líklegt sé að hafi áhrif á lífríki í Lárvaðli.

Ekki sé hægt að fallast á það með sveitarfélaginu að ítarlegar rannsóknir hafi verið gerðar á lífríki í tengslum við gerð deiliskipulagsins. Í greinargerð sveitarfélagsins hafi ekki verið vísað með nákvæmum hætti til þess hvaða rannsóknir um hafi verið að ræða. Talning á silungs- og laxaseiðum í einn dag verði í öllu falli ekki talin ítarleg rannsókn. Þá sé ljóst að Fiskistofa hafi ekki veitt umsögn um deiliskipulagstillöguna. Hins vegar hafi Fiskistofa bent á að veiðihagsmunir væru í Lárvaðli og að rétt væri að kalla eftir sjónarmiðum frá veiðiréttareigendum til að leiða í ljós hvort framkvæmdirnar kynnu að spilla veiðihagsmunum í vatninu, en ekki verði sé að það hafi verið gert. Þannig liggi ekki fyrir að við afgreiðslu deiliskipulagsins hafi verið gengið nægilega úr skugga um að framkvæmdir muni ekki hafa verulega skaðleg og óafturkræf áhrif á náttúru, lífríki og auðlindir á svæðinu. Þrátt fyrir að upphaf framkvæmda sé háð því að byggingar- eða framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út beri sveitarfélaginu eftir sem áður að sjá til þess að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir við samþykkt deiliskipulagsins. Þá sé ekki nægjanlegt að skipulags- og umhverfisnefnd hafi sett skilyrði um að ítrustu kröfur um fráveitu- og hreinsibúnað yrði uppfylltar. Hvorki í greinargerð né deiliskipulagsuppdrætti sé sýnt hvar útrás frá rotþró og yfirfallsvatni eigi að fara út í Lárvaðal. Því liggi ekki fyrir hversu miklu fráveituvatni verði veitt út í vaðalinn og hvergi sé gerð grein fyrir áhrifum mengunar af völdum fráveitu á lífríki eða umhverfi. Deiliskipulagið sé að þessu leyti ekki í samræmi við aðalskipulag Grundfjarðarbæjar þar sem segi að í deiliskipulagi verði tryggt að gerð verði grein fyrir fyrirkomulagi fráveitu og umhverfisáhrifum þess.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar frá 9. mars 2023 að samþykkja deiliskipulag Skerðingsstaða í Grundarfjarðarbæ.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Hið umdeilda deiliskipulag heimilar byggingu hótels í landi Skerðingsstaða, en gert er ráð fyrir að byggingin verði allt að 22,5 m há og byggingarmagn verði allt að 5.500 m2 ofan jarðar, auk nokkurra smáhýsa. Við mat á því hvort kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun þarf að líta til staðhátta allra, en kærendur eru eigendur jarðarinnar Mýrarhúsa sem liggur handan Lárvaðals og gegnt skipulagssvæðinu. Í þessu sambandi má hafa hliðsjón af umsögn skipulags- og umhverfisnefndar Grundarfjarðarbæjar um framkomnar athugasemdir um deiliskipulagstillöguna varðandi áhrif á sjónræna upplifun. Þar sagði: „Hver svo sem einstaklingsbundin upplifun af framkvæmdinni er, þ.e. góð eða slæm, þá má ljóst vera að vegna hæðar sinnar verður hótelið meira áberandi frá ákveðnum sjónarhornum, sérstaklega frá þjóðveginum þegar ekið verður fram hjá byggingunni og handan Lárvaðals.“ Til þess er einnig að líta að kærendur telja til veiðiréttar í Lárvaðli, en álitið er hugsanlegt að hin ráðgerða uppbygging geti haft í för með sér áhrif á umhverfisgæði í vatninu.

Með hliðsjón af framanröktu verður að álíta að kærendur verði fyrir verulegum áhrifum af ráðgerðum framkvæmdum umfram aðra. Að því virtu verða þeir taldir eiga þá lögvörðu hagsmuni sem krafist er til kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

—-

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er mælt fyrir um að gera skuli deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga og ber sveitarstjórn skv. 38. gr. sömu laga ábyrgð á gerð deiliskipulags. Við gerð skipulagsáætlana ber að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Meðal þeirra markmiða er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið. Að gættum þessum markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað, svo fremi það mat byggi á lögmætum sjónarmiðum. Í d-lið nefndrar 1. gr. kemur fram það markmið laganna að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að almenningi sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð þeirra.

Tekin var saman lýsing á hinu fyrirhugaða skipulagsverkefni í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga og var lýsingin kynnt fyrir almenningi og umsagnaraðilum. Tillaga að deiliskipulagi og umhverfisskýrsla var auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og 15. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Að lokinni auglýsingu var tekin afstaða til athugasemda sem bárust við tillöguna skv. 3. mgr. 41. gr. laganna. Fyrir liggur að í auglýsingu deiliskipulagstillögunnar, sem og auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsins í Stjórnartíðindum, var að finna villu hvað varðaði heimila hámarkshæð hótelsins. Verður ekki talið að um slíka annmarka sé að ræða að leitt geti til ógildingar enda liggur fyrir að hæð hótelsins var rétt í öðrum gögnum, þar með talið á deiliskipulagsuppdrætti. Þá var auglýsing deiliskipulagsins í Stjórnartíðindum leiðrétt 28. ágúst 2023. Var málsmeðferð deiliskipulagsins að þessu virtu í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Samkvæmt 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal við gerð deiliskipulags byggt á stefnu aðalskipulags. Í 7. mgr. 12. gr. laganna kemur enn fremur fram að skipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi og að aðalskipulag sé rétthærra en deiliskipulag.

Aðalskipulag Grundarfjarðarbæjar 20192039 heimilar að reisa allt að 100 herbergja hótel og allt að 5 stakstæð gistihús á skipulagssvæði Skerðingsstaða. Hefur aðalskipulagið með því að geyma skýra afmörkun á heimiluðu byggingarmagni. Til viðbótar kemur fram það skilyrði að tryggt verði í deiliskipulagi að byggingar falli vel að landslagi, hvað varði hæð, form, efni og lit. Einnig verði þess gætt að mannvirki falli vel að Kirkjufelli og sett verði fram sjónrænt áhrifamat í þeim tilgangi.

Umhverfi Skerðingsstaða, þ.e. vestanverð Eyrarsveit, einkennist af brattlendi og skriðum þar sem undirlendi er á kjálkum milli hlíðar og sjávar og í dalbotnum. Gróður ber einkenni beitarlandslags. Mikið ber á Kirkjufelli í austur átt, sem er hátt fjall og kringt hamrabeltum. Telja verður viðmið um að mannvirki falli vel að þessu landslagi hvað varði hæð, form, efni og lit séu svo almenn að á þeim verði að takmörkuðu leyti byggt við mat á því hvort deiliskipulag samræmist stefnu aðalskipulags. Þó má færa rök að því að svo mikil heimiluð hámarks hæð mannvirkis á fyrirhuguðu byggingarsvæði, sem er á lægsta punkti á tanga sem skarar út í Lárvaðal, muni ekki falla vel að landslaginu.

Fyrir liggur að við undirbúning hins kærða deiliskipulags var tekin rökstudd afstaða til skilmála aðalskipulags að þessu leiti. Fyrir liggur umsögn skipulags- og umhverfisnefndar við framkomnum athugasemdum um sjónræn áhrif við kynningu deiliskipulagsins og var það álit nefndarinnar að „heildaráhrifin“ væru þannig að „ekki sé tilefni til að girða fyrir áform framkvæmdaraðilans þótt skoðanir kunni að vera skiptar um byggingarlist og fyrirkomulag mannvirkja.“ Í deiliskipulaginu voru sett nánari skilyrði um gerð og útlit hótelbyggingarinnar, m.a. skyldi hún stallast upp til að falla betur að landslagi og að útlit hennar „falli vel að Kirkjufelli“. Einnig voru sett skilyrði um klæðningarefni, efnisval og gróðurþekju á þökum. Verður að álíta að með þessu hafi við gerð deiliskipulags verið byggt á stefnu aðalskipulags.

Samkvæmt gr. 5.3.2.15. í skipulagsreglugerð 90/2013 skal gera grein fyrir veitum og helgunarsvæðum þeirra, ofan jarðar og neðan, á uppdráttum og/eða í greinargerð. Í greinargerð deiliskipulagsins kemur fram að uppfylla skuli ítrustu kröfur um fráveitu- og hreinsibúnað, vöktun og mótvægisaðgerðir komi til bilana og/eða skyndimengunar í fráveitukerfi byggingar og/eða svæða utanhúss. Þar sem um sé að ræða sérstaklega viðkvæman stað við Lárvaðal, sem sé á verndarsvæði Breiðafjarðar, skuli við veitingu byggingar- og/eða framkvæmdaleyfis leggja sérstaka áherslu á að fráveitu- og heilbrigðismál séu með þeim hætti að ekki stafi af þeim hætta á mengun. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, sem aflað var við meðferð málsins, er fjallað um hreinsivirki vegna uppbyggingar á svæðinu. Fram kemur að vanda þurfi til verka við staðarval og útfærslu á slíku mannvirki og gæta þess að fráveitan skaði ekki lífríkið og útivistarmöguleika gesta í fjörunni við Lárvaðal og bent er á að heilbrigðiseftirlitið komi til með að þurfa að samþykkja þann fráveitubúnað sem settur verði upp við hótelið á Skerðingsstöðum og að mögulega þurfi að vakta ástand vatns í Lárvaðli með sýnatökum. Verður að telja að hið kærða deiliskipulag uppfylli framangreind ákvæði skipulagsreglugerðar að þessu leiti.

Sá ágalli er á umfjöllun í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins að hún er ekki sett í nægilegt samhengi við þær skyldur sem leiða af lögum um stjórn vatnamála nr. 36/2011, sbr. meðal annars 2. mgr. 28. gr. laganna. Viðtaki frárennslis frá ráðgerðri starfsemi á Skerðingsstöðum er Lárvaðall. Flatarmál lónsins er 2,01 km2 og samkvæmt lögum um stjórn vatnamála flokkast Lárvaðall sem árósavatn og hefur vatnshlotanúmerið 101‐620‐T. Með lögum um stjórn vatnamála eru m.a. gerðar kröfur til leyfisveitingarstjórnvalds um rökstuðning fyrir því að framkvæmdir á borð við þær sem hér eru til umfjöllunar, feli eigi í sér hnignun vatnsgæða sem fari í bága við meginreglur laga um stjórn vatnamála. Með hliðsjón af þeirri lýsingu sem þó er í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins á ráðgerðum framkvæmdum við fráveitu verður þó eigi talið að undirbúningur skipulagsins sé háður slíkum annmörkum að ógildingu varði, en til þess er þá einnig að líta að ákvæði laga um stjórn vatnamála hafa þýðingu við leyfisveitingu til framkvæmda, sbr. 3. mgr. 28. gr. laganna.

Við undirbúning skipulagstillögunnar leitaði sveitarfélagið umsagnar Fiskistofu. Í umsögn stofnunarinnar var bent á að framkvæmdir í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka þess, kunni að vera háðar leyfi Fiskistofu sbr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, en slíkt leyfi þarf, eftir atvikum, að liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast.

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga, sbr. 14. gr. laga nr. 111/2021, skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma, og umhverfismati áætlunarinnar. Fjallað var um þrjá valkosti í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins. Auk valkosts framkvæmdaraðila var þar lýst óbreyttu ástandi og öðrum möguleika á uppbyggingu hótels og orlofsþorps. Fram kom að aðrar útfærslur hefðu verið ræddar við skipulagsnefnd og bæjarstjórn, en þar hefði verið af þýðingu að verulega væri þrengt að mögulegu framkvæmdasvæði vegna fornminja. Takmarkaðir möguleikar væru á framkvæmdum annars staðar innan deiliskipulags­reitsins. Mögulegt væri að færa hótelið norðan við stærstu fornminjarnar og stakstæð hús á nyrsta hluta þar sem nú væri sýnd hótelbyggingin, en gera yrði ráð fyrir því að umhverfisáhrif framkvæmda, jákvæð eða neikvæð, væru þau sömu við það. Að teknu tilliti til stefnu aðalskipulags um uppbyggingu á þeim skipulagsreit sem er til umfjöllunar í máli þessu verður ekki álitið að mat á valkostum um uppbyggingu á svæðinu hafi verið háð annmörkum.

Um umhverfismat deiliskipulags er fjallað í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar skal við gerð deiliskipulags meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar, svo sem á vistkerfi, auðlindir, landslag, ásýnd, útsýni, hljóðvist, loftgæði, hagkvæmni, veðurfar, varðveislugildi og svipmót byggðar og einstakra bygginga o.fl. umhverfisþætti eftir því sem efni skipulagsins gefi tilefni til. Í 2. mgr. segir að áætla skuli áhrif af landmótun, skógrækt, umferð, hávaða, umfangsmiklum mannvirkjum, svo sem háhýsum, ásamt fleiri atriðum sem talin eru þar upp. Þá er kveðið á um í 3. mgr. að gera skuli grein fyrir matinu og niðurstöðu þess í greinargerð deiliskipulagsins. Jafnframt skuli því lýst hvernig skipulagið samræmist markmiðum skipulagsreglugerðar, sbr. gr. 1.1., og markmiðum deiliskipulags, sbr. gr. 5.1.1. Að lokum er tekið fram í 4. mgr. að ef í ljós komi að fyrirhugaðar framkvæmdir eða starfsemi geti haft neikvæð áhrif á umhverfið skuli gera breytingar á deiliskipulagstillögunni til að draga úr hinum neikvæðu áhrifum eða rökstyðja af hverju það sé ekki gert. Setja skuli skilmála um vöktun áhrifa og um hvernig bregðast eigi við umhverfisvandanum eftir því sem þörf sé á.

Í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins var fjallað um þá umhverfisþætti sem deiliskipulags­áætlunin var talin líkleg til að hafa áhrif á, nánar tiltekið: vatnafar, neysluvatn, loftslag, gróðurfar, dýralíf, heilsu og öryggi, efnahag, atvinnulíf og íbúaþróun, verslun, þjónustu, útivist og tómstundir, ferðaþjónustu, samgöngur, efnisleg verðmæti, landnotkun, fornminjar, ásýnd lands og vernduð svæði. Markmið umhverfismats á áætlunarstigi er að huga að umhverfis­áhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku. Þar sem stefnumörkun á áætlanastigi er yfirleitt almenns eðlis, borið saman við það sem á við um einstakar framkvæmdir sem háðar eru umhverfismati, verður að ganga út frá því að umhverfismat áætlana sé tiltölulega almennt mat, sem oft fer fram án sérstakra rannsókna á umhverfi og umhverfisáhrifum. Í umhverfisskýrslu hins kærða deiliskipulags er að finna mat á því hver séu líkleg áhrif framkvæmdarinnar á greinda umhverfisþætti og hvaða mótvægisaðgerða og/eða eftirfylgni eigi grípa til. Þá voru auk umhverfis- og framkvæmdaskýrslu meðfylgjandi deiliskipulags­áætluninni skýrslur um gróður og fugla, vatnalíf, fornminjar og skýrsla um vatnsöflun og fráveitu. Að framangreindu virtu og að teknu tilliti til stöðu deiliskipulagsins í stigskiptri áætlanagerð verður að telja að umhverfismat skipulagsins hafi uppfyllt skilyrði skipulagslaga.

Að lokum er bent á að þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi falla undir tl. 12.04 laga nr. 111/2021. Þarf því álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 14. gr. skipulagslaga, að liggja fyrir áður en leyfi verða veitt vegna þeirra framkvæmda sem heimilaðar eru samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það álit úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun sé ekki haldin slíkum annmörkum að fella verði hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar frá 9. mars 2023, um að samþykkja deiliskipulag Skerðingsstaða í Grundarfjarðarbæ.

114/2023 Krossavík

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 31. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 114/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 19. júlí 2023, um að samþykkja nýtt deiliskipulag Krossavíkurbaða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi að Hraunsási 18, Hellissandi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 19. júlí 2023, að samþykkja nýtt deiliskipulag Krossavíkurbaða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 10. nóvember 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá bæjarstjórn Snæfellsbæjar 23. október 2023.

Málavextir: Krossavík er vík vestan við kauptúnið Hellissand þaðan sem áður fyrr var útgerð. Að undangenginni auglýsingu skv. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samþykkti sveitarstjórn Snæfellsbæjar á fundi sínum 17. júlí 2023 tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Snæfellsbæjar 2015-2031 vegna fyrirhugaðs baðstaðar í Krossavík. Tók breytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. ágúst s.á. Samhliða aðalskipulagsbreytingunni var unnið að gerð deiliskipulags fyrir svæðið en í deiliskipulagstillögunni kom fram að svæðið hentaði einkar vel fyrir baðstað þar sem slík starfsemi styddi við verndun hafnarmannavirkja í Krossavík auk þess að fram kom að á svæðinu væri mikið útsýni. Uppbygging gerði ráð fyrir byggingum allt að 500 fermetrum að stærð, með þjónustubyggingu á einni hæð, með búningsherbergjum, móttöku og þjónustusvæði fyrir gesti, aðstöðu fyrir starfsfólk, tæknirýmum o.fl. Fram kom að á svæðinu yrði aðstaða til gufubaða og mismunandi gerðir af pottum með heitu og köldu vatni. Gert var einnig ráð fyrir 1.800 m² svæði fyrir um 40 bílastæði og umferðarsvæði milli baðs og bílastæða. Deiliskipulagstillagan fékk meðferð samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010 og var samþykkt í bæjarstjórn Snæfellsbæjar 19. júlí 2023. Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 30. ágúst 2023.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að undirbúningur hins kærða deiliskipulags hafi verið haldinn verulegum annmörkum. Með hinu nýja deiliskipulagi verði náttúru í Krossavík og á Brimnesi stórlega spillt og mikil áhætta tekin með fágætar vistgerðir með hátt verndargildi og fuglalíf. Engir brýnir almannahagsmunir standi til þess að þessi leið verði farin heldur þvert á móti krefjist almannahagsmunir þess að hentugri staðsetning verði fundin fyrir baðstað. Aðrir raunhæfir og sambærilegir staðarvalkostir hafi aldrei verið skoðaðir. Ekki hafi verið sinnt af hálfu Snæfellsbæjar að ráðast í grunnrannsóknir sem umsagnaraðilar hafi ítrekað bent á að skorti og séu nauðsynlegar. Við gerð umhverfismatsskýrsla hafi sveitarfélagið brotið gegn b. og c. lið 12. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Hafi kynning og afgreiðsla bæjarstjórnar á nýju deiliskipulagi auk þess hvorki verið í samræmi við 4. mgr. 40. gr. og 3. mgr. 41 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 né 1. mgr. 41. gr. laga nr. 138/2011

 Þá sé framsetning hins kærða deiliskipulags ekki verið í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Hafi Skipulagsstofnun bent á það í bréfi  til sveitarfélagsins, dags. 2. ágúst 2023, að áður en deiliskipulagið yrði birt með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þyrfti að lagfæra m.a. hnitsetningu lóða. Því hafi ekki verið sinnt af hálfu sveitarfélagsins. Einnig hafi umhverfismat nýs deiliskipulags í Krossavík ekki verið í samræmi við c. lið 14. gr laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þá séu athugasemdir gerðar við umfjöllun í umhverfismatsskýrslu. Sem dæmi sé mikið gert úr því að svæðið sé raskað og þar hafi verið athafnasvæði áður. Hið rétta sé að engin starfsemi, utan við rekstur á lágstemdri listamannaíbúð og litlu galleríi í stuttan tíma hafi verið í Krossavík í yfir 50 ár.

 Málsrök Snæfellsbæjar: Bent er á að hið kærða deiliskipulag sé í samræmi við aðalskipulag sem tekið hafi gildi með auglýsingu Skipulagsstofnunar í ágúst 2023. Deiliskipulagið sé einnig í samræmi við meginstefnu Snæfellsbæjar sem mótuð hafi verið við síðustu endurskoðun aðalskipulags um afþreyingar og ferðamannasvæði vegna fjölgunar ferðamanna. Lýsingar vegna aðalskipulagsbreytingar og nýs deiliskipulags og vinnslutillögur beggja skipulagsstiga hafi verið kynntar á almennum auglýstum fundum. Áður en lýsing og matslýsing hafi verið kynntar hefði staðsetning baðlóns í gömlu sundlauginni á Hellissandi verið metin en hafnað þar sem metið var að hún hefði valdið verulegri slysahættu fyrir börn. Eftir kynningu lýsingar hafi verið skoðað að koma baðlóni fyrir á Rifi, en það hafi einnig verið metið óraunhæft. Þar færi umferð um gönguleiðir og leiksvæði barna ef núverandi vegir yrðu notaðir, en að öðrum kosti hefði þurft að útbúa nýjan aðkomuveg með tilheyrandi raski fyrir svæðið. Einnig hafi verið metnir staðir milli Hellisands og Rifs en þeir hefðu kallað á nýjan veg og rask á ósnortnu landi. Alvanalegt sé að skoðaðir séu ýmsir kostir sem ekki sé fjallað frekar um séu þeir álitnir ónothæfir.

Umhverfismatsskýrslan sé miðuð við Krossavík, á þegar röskuðu svæði, og sé gerð miðað við að um litla framkvæmd sé að ræða, sem hvorki sé tilkynningarskyld né matsskyld í samræmi við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í umhverfisskýrslu sé gert ráð fyrir að annað hvort verði fyrirhugaðar framkvæmdir við Krossavík eða engar framkvæmdir, því aðrir kostir hafi þegar verið útilokaðir. Eftir kynningu lýsingar og gerð nákvæmrar gróðurgreiningar hafi verið gerð tillaga um að færa fyrirhuguð mannvirki úr fjöru og upp fyrir gróðurkant við fjöru og minnka framkvæmdasvæðið verulega.

 Viðbótarathugasemdir kæranda:  Í tilefni af málsrökum Snæfellsbæjar er bent á að í stefnu bæjarins í umhverfismálum í aðalskipulagi komi fram í kafla 2 á bls. 15: „Í Snæfellsbæ er rík meðvitund um gildi umhverfisverndar og vilji til að stuðla að sjálfbærri uppbyggingu innan sveitarfélagsins, með áherslu á samþættingu náttúru, efnahags og mannlífs. Lögð er áhersla á vitundarvakningu um landslag og verndun þess. Leitað er leiða til að geta tekið á móti vaxandi umferð um svæðið, án þess að umhverfið verði fyrir skaða. Tekið verði tillit til þolmarka íbúa.” Hið kærða deiliskipulag stangist á við þessa stefnu í öllum meginatriðum. Vegna viðkvæms gróðurs og fuglalífs á svæðinu sé alls ekki æskilegt að ýta undir frekari umferð fólks í Krossavík þar sé fyrir. Sérstaklega ekki þar sem rannsóknir skorti á fuglalífi og mati á þolmörkum þess. Það sama gildi um þolmörk íbúa gagnvart ferðamönnum.

Málsrök framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna málsins en engar bárust.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 19. júlí 2023 um að samþykkja deiliskipulag Krossavíkurbaða á Hellissandi.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.

Kærandi er íbúi að Hraunási 18, á Hellissandi og hefur greint frá því að hann hafi útsýni til Krossavíkur þar sem ráðgert er samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi að reisa baðstað og leggja bílastæði. Hann nýti sér svæðið til útivistar og heilsubótar með daglegum gönguferðum og fuglaskoðunarferðum í fjörunni og á fjörukambinum og hafi látið sig málefni svæðisins varða sem náttúruperlu og útivistarsvæðis. Hjá því verður þó eigi litið að fasteign kæranda er í nokkurri fjarlægð, eða rúmlega 800 metra frá ráðgerðum byggingum og verður ekki með hliðsjón því séð að hagsmunir hans muni skerðast á nokkurn hátt að því er varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn. Þá verður ekki séð að grenndaráhrif verði vegna aukinnar umferðar við hús kæranda. Þrátt fyrir að ásýnd umrædds landsvæðis muni breytast og ráðgerð mannvirki verði greinanleg frá húsi kæranda verður ekki talið að grenndaráhrif slíkrar útsýnisbreytingar séu með þeim hætti að varðað geti hagsmuni hans á þann veg að hann eigi með því einstaklingsbundna hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun umfram aðra. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

122/2023 Gefjunarbrunnur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 30. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 122/2023, kæra vegna dráttar á afgreiðslu máls „til fullnustu úrskurðar ÚUA frá 22. mars 2023 þar sem ekkert hefur verið gert til lúkningar niðurstöðu og úrskurðarorða ÚUA af hendi byggingarfulltrúa Reykjavíkur“.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. október 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Freyjubrunns 9 drátt á afgreiðslu máls „til fullnustu úrskurðar ÚUA frá 22. mars 2023 þar sem ekkert hefur verið gert til lúkningar niðurstöðu og úrskurðarorða ÚUA af hendi byggingarfulltrúa Reykjavíkur“.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 14. nóvember 2023.

Málavextir: Mál þetta hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar. Á afgreiðslufundi skilmálaeftirlits umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar 26. september 2022 var tekin fyrir ábending kæranda um að lóðarhafar Gefjunarbrunns 10 og 12 nýttu götuna Freyjubrunn til geymslu byggingarefnis sem og ósk hans um að dyrum að húsi að Gefjunarbrunni 12 með umgengni út í Freyjubrunn yrði lokað. Byggingarfulltrúi sat fundinn og bókað var í fundargerð að dyrnar og veggur undir svölum væru í lagi og ekki stæði til að aðhafast í málinu. Í tilkynningu til kæranda um afgreiðsluna kom fram að dyrnar, aðkoman og geymslupláss undir tröppum væru að mati byggingarfulltrúa í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Af hálfu eftirlitsdeildar og byggingarfulltrúa væri því ekki ástæða til að aðhafast í málinu og teldist því lokið. Með úrskurði í máli nr. 109/2022, uppkveðnum 22. mars 2022, felldi úrskurðarnefndin úr gildi þessa ákvörðun þar sem misræmis virtist gæta milli teikninga á aðaluppdráttum hússins að Gefjunarbrunni 12 að því er varðaði jarðvegsyfirborð undir svölum. Í því ljósi taldi nefndin að telja mætti að vafi léki á því hvort ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirki eða lóðar væri ábótavant, sbr. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Því hefði verið tilefni til þess fyrir byggingarfulltrúa að rannsaka málið að nýju, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að ekkert hafi verið gert til að fullnusta niðurstöðu og úrskurðarorð úrskurðarnefndarinnar síðan úrskurður hafi legið fyrir í máli nr. 109/2022. Krafa kæranda sé óbreytt, þ.e. að steypa skuli upp í skarð á vegg Gefjunarbrunns 12 á mörkum bílastæða Freyjubrunns og loka fyrir umgengni út á bílastæði Freyjubrunns. Í framhaldi af steyptum svalavegg verði að steypa þriggja metra langan vegg. Ástandið í götunni hafi versnað þegar brotið hafi verið fyrir gluggum á kjallara Gefjunarbrunns 12 og hann leigður út til fyrirtækis sem hafi umgengni að honum frá Freyjubrunni. Byggingarfulltrúi hafi engar athugasemdir gert við þetta ástand þrátt fyrir ábendingar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telji sig hafa heimild til eftirfylgni en geri ekkert. Málið hafi hafi víða fengið umfjöllun vegna geymslunnar undir svölum, en engin viðbrögð megi merkja.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að uppdrættir séu í samræmi við deiliskipulag Úlfarsárdals frá árinu 2018 að því er varði aðgengi lóðarhafa Gefjunarbrunns 12 um Freyjubrunn og geymslu undir svölum hússins. Byggingarfulltrúi standi við fyrri afstöðu sína um að ekki verði aðhafst vegna dyranna sem snúi að Freyjubrunni enda sé um lögmætt ástand að ræða. Í fyrra máli hafi verið fallist á að misræmi væri í uppdráttum að því er varði jarðvegsyfirborð. Í máli úrskurðarnefndarinnar nr. 109/2022 hafi úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að þetta misræmi leiddi til þess að vafi léki á því hvort ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss væri ábótavant, sbr. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ákveðið hafi verið að grípa til aðgerða vegna Gefjunarbrunns 12 í kjölfar úrskurðarins en samband hafi verið haft við eigandann. Hann hafi boðið fram skýringar og verið veittur frestur til þess að skila inn leiðréttum uppdrætti og endanlegri útfærslu lóðarmarka milli Gefjunarbrunns 10 og 12.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að breytingar á teikningum Gefjunarbrunns 12 breyti engu um kröfu um að lokað verði skarði á vegg og lokað fyrir aðgengi frá svalageymslu út í Freyjubrunn. Þess sé krafist að veggjum verði bætt á nýjar teikningar sem loki fyrir aðgengi.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærður dráttur á afgreiðslu máls „til fullnustu úrskurðar ÚUA frá 22. mars 2023 þar sem ekkert hefur verið gert til lúkningar niðurstöðu og úrskurðarorða ÚUA af hendi byggingarfulltrúa Reykjavíkur“.

 Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt framanröktu hefur Reykjavíkurborg til meðferðar mál sem varðar Gefjunarbrunn 12. Engin ákvörðun liggur fyrir í því máli sem borin verður undir nefndina og verður því að vísa frá kröfu kæranda að því leyti sem hún varðar það mál.

 Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er sú kæruheimild undantekning frá þeirri meginreglu 2. mgr. 26. gr. sömu laga að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir sem ekki binda endi á mál fyrr en það hefur verið til lykta leitt. Einungis aðili máls getur borið slíka kæru fram og verður því að vísa einnig frá kröfu kæranda að því leyti sem hún varðar málsmeðferð Reykjavíkurborgar, enda er hann ekki aðili að málinu þótt hann kunni að njóta kæruréttar vegna ákvörðunar sem síðar kann að liggja fyrir.

Með vísan til framangreinds verður kæru í máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

133/2022 Kuggavogur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 30. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 133/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. nóvember 2022 um að aðhafast ekki vegna kvartana um ágalla á hönnun og frágangi fjölbýlishússins að Kuggavogi 15.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 30. nóvember 2022, kærir Umhyggja – félag langveikra barna, eigandi íbúðar í fjölbýlishúsinu að Kuggavogi 15, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. nóvember 2022 að aðhafast ekki vegna kvartana kæranda um ágalla á hönnun og frágangi fjölbýlishússins að Kuggavogi 15. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að byggingar­fulltrúa verði gert að aðhafast í málinu í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993, lög nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 22. nóvember 2023.

Málavextir: Kærandi er félag sem samkvæmt lögum þess gætir hagmuna langveikra barna og fjölskyldna þeirra, en í því skyni festi félagið kaup á íbúð í fjölbýlishúsinu að Kuggavogi 15 26. júní 2019 sem ætluð er til afnota fyrir fjölskyldur langveikra barna utan af landi. Lokaúttekt byggingarinnar fór fram 22. mars 2021 og sama dag gaf byggingarfulltrúinn í Reykjavík út vottorð um lokaúttekt án athugasemda. Með bréfi kæranda til byggingarfulltrúa og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 13. september 2022, var bent á að ásigkomulagi og frágangi er varðaði aðgengis- og loftræsismál í fjölbýlishúsinu væri verulega ábótavant. Væru þessir ágallar í ósamræmi við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Með vísan til 56. gr. laga um mannvirki skoraði kærandi því á byggingarfulltrúa og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að beina því til „hlutaðeigand[a]“ að framkvæma úrbætur á ágöllum að viðlögðum dagsektum svo kærandi og félagsmenn þess yrðu ekki fyrir afnota­missi af eigninni. Starfsmaður embættis byggingarfulltrúa svaraði erindi kæranda með tölvu­pósti 29. september 2022. Kom þar m.a. fram að kröfur um úrbætur vegna meintra ágalla þyrftu að berast til byggingaraðila og seljanda, ábyrgðaraðila á byggingarleyfi og þeirra aðila sem hafi yfirumsjón með hönnun og framkvæmd. Einnig væri hægt að kæra stjórnvaldsákvarðanir og ágreiningsmál til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvort skilja mætti svör byggingarfulltrúa á þann hátt að í þeim fælist afstaða embættisins um að það gæti ekki beitt úrræðum 56. gr. laga nr. 160/2010 eða öðrum úrræðum. Hinn 15. nóvember 2022 ítrekaði byggingarfulltrúi fyrra svar sitt og er það hin kærða ákvörðun í þessu máli.

Undir rekstri máls þessa hjá úrskurðarnefndinni tók byggingarfulltrúi þá ákvörðun að taka til skoðunar þau atriði sem kærandi gerði athugasemdir við og eftir atvikum krefja byggingaraðila um úrbætur. Í tölvupósti 18. janúar 2023 fór embættið því fram á við kæranda að hann samþykkti að beðið yrði með að úrskurða í kærumálinu og varð kærandi við þeirri beiðni. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 1. febrúar 2023, skoraði hann á byggingaraðila að gera úrbætur vegna aðgengis- og loftræsismála í umræddu fjölbýlishúsi og tilgreindi byggingarfulltrúi níu atriði sem þörfnuðust lagfæringa. Í lok bréfsins gerði hann þá kröfu, með vísan til gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð, sbr. 56. gr. laga um mannvirki, að úrbæturnar yrðu gerðar innan 60 daga frá dagsetningu bréfsins. Yrði framkvæmdum ekki lokið innan þess tímafrests myndi byggingarfulltrúi íhuga að beita þvingunarúrræðum sem gætu falist í dagsektum eða að ráðist yrði í úrbætur „á kostnað eigenda“. Í kjölfarið var af hálfu byggingaraðila óskað eftir fundi með byggingarfulltrúa sem fór fram 15. febrúar 2023, en á fundinum var farið nánar yfir þau atriði sem byggingaraðila átti að gera úrbætur á. Kærandi og byggingarfulltrúi áttu svo í nokkrum samskiptum um stöðu málsins frá maí til júlí sama ár.

Með umsókn, dags. 9. ágúst 2023, sótti byggingaraðili um leyfi fyrir breytingum á inngangi hússins að Kuggavog 15. Hinn 10. s.m. sendi kærandi tölvupóst til byggingarfulltrúa og óskaði eftir upplýsingum um það hvort umsóknin yrði afgreidd innan einhvers tiltekins tíma. Einnig var óskað eftir afstöðu embættisins til þess umkvörtunarefnis kæranda er sneri að úrbótum vegna bílastæða fyrir hreyfihamlaða. Í tölvupósti kæranda 4. september s.á. var fyrirspurnin ítrekuð og jafnframt bent á að byggingaraðili hefði ekki lagfært þá ágalla sem byggingarfulltrúi hefði nú þegar staðfest að væru til staðar og krefðust ekki byggingarleyfis. Var erindið ítrekað 12., 21. og 26. s.m., en í síðasta skiptið var jafnframt krafist að úrbætur yrðu gerðar án tafar ella yrði óskað eftir því að úrskurðarnefndin héldi meðferð kæru­málsins áfram. Sama dag svaraði byggingarfulltrúi erindinu og vísaði til þess að dregist hefði úr hömlu að samþykkja breytingar á inngangi Kuggavogs 15. Leyfisumsókn yrði afgreidd eins fljótt og auðið væri, en að lokinni afgreiðslu hennar og „stöðutöku á öðru sem krafist var lagfæringa á“ yrði tekin ákvörðun um frekari aðgerðir. Hafi byggingaraðili verið krafinn skýringa á því af hverju engar framkvæmdir hafi verið gerðar í samræmi við kröfur embættisins. Hinn 17. nóvember 2023 óskaði kærandi eftir því við úrskurðarnefndina að meðferð málsins yrði haldið áfram.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að svör byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. september 2022, 26. október s.á. og 15. nóvember s.á. feli í sér ákvörðun um rétt og skyldu kæranda, þ.e. að ekki verði brugðist við með lögmætum úrræðum til að verja einkaréttarlega hagsmuni kæranda og félagsmanna hans, en auk þess varði ákvörðunin almannahagsmuni annarra íbúa til algildrar hönnunar. Vísað sé til umfjöllunar í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 30/2022 þar sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi bent kærendum á að hægt væri að beina kröfum um athugun á sambærilegum atriðum um ágalla eftir lokaúttekt til byggingarfulltrúa á grundvelli 56. gr. laga um mannvirki. Í niðurstöðu nefndarinnar hafi verið staðfest að ákvörðun byggingar­fulltrúa sem tekin væri á grundvelli þeirrar lagagreinar væru kæranlegar.

Telja verði að kærufrestur hafi byrjað að líða við síðustu svör byggingarfulltrúa, þ.e. 15. nóvember 2022. Líti nefndin svo á að fresturinn hafi byrjað að líða 29. september s.á. sé bent á að tafir í svörum Reykjavíkurborgar hafi verið verulegar og ekki við kæranda að sakast, sem hafi ítrekað óskað eftir frekari skýringum og leiðbeiningum um hlutverk byggingarfulltrúa og heimildir til beitingu úrræða. Verði því í öllu falli að líta svo á að um afsakanlegar ástæður í skilningi 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé að ræða. Þá hafi verið ljóst af orðalagi í tölvu­pósti byggingafulltrúa 15. nóvember 2022 að embættið myndi ekkert aðhafast í málinu.

Byggingarfulltrúi hafi gefið út vottorð um lokaúttekt byggingarinnar að Kuggavogi 15 án þess að gera athugasemdir við atriði sem varði algilda hönnun. Eftir að félagsmenn kæranda hafi byrjað að nota íbúð kæranda í fjölbýlishúsinu hafi komið í ljós að ásigkomulagi og frágangi er varðaði aðgengis- og loftræsismál væri verulega ábótavant, þannig að alvarlegar áskoranir og hindranir væru fyrir hendi, en félagsmenn séu margir hverjir langveikir og hreyfihamlaðir. Synjun byggingarfulltrúa á að viðhafa eftirlit eða beita úrræðum sé í andstöðu við hlutverk hans samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki og leiði til þess að ólögmætt ástand sé við lýði án þess að úrbótaskylda eða refsiábyrgð viðeigandi byggingaraðila sé metin, sbr. gr. 17.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Athafnaleysi embættisins sé því ólögmætt og feli auk þess í sér brot gegn rannsóknarskyldu stjórnvaldsins skv. 10. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi hafi bent byggingarfulltrúa á ýmis atriði sem ekki væru í samræmi við byggingar­reglugerð. Nánar tiltekið að halli á skábraut frá bílageymslu væri of mikill, að of hár þröskuldur væri um inngangsdyr í bílgeymslu frá skáhallandi braut, að ekki væri hægt að komast úr/inn í bílgeymslu að/frá stigagangi og lyftuhúsi með sjálfvirkum eða rafdrifnum opnunarbúnaði, að engin bílastæði fyrir hreyfihamlaða væru til almennra nota þar sem öll stæði væru þinglýst á tilteknar íbúðir, að aðkeyrsla í bílgeymslu væri ekki hönnuð til samræmis við stærri bifreiðar sem væru hannaðar til að ferja fólk í hjólastólum, að aðgengi um aðalinngang væri ófært hjólastólanotendum, að þröskuldar innan íbúðar og út á svalir væru of háir, að brunahurðir væru of þungar og án sjálfvirks opnunarbúnaðar og að útsog á salerni væri í ósamræmi við kröfur byggingarreglugerðar.

Athafnaleysi byggingarfulltrúi til að kanna hvort tilefni sé til að beita úrræðum skv. 56. gr. laga nr. 160/2010 sé ekki í samræmi við skyldur og hlutverk embættisins. Í því samhengi sé vísað til þess að byggingarfulltrúi sé eftirlitsaðili og leyfisveitandi í skilningi byggingarreglugerðar og fari því með forræði á að beina kröfum um úrbætur til eiganda eða umráðamanns mann­virkis. Einnig sé ljóst að svör byggingarfulltrúa og rökstuðningur fyrir því að embættið muni ekki bregðast við erindi kæranda sé í ósamræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 134/2020, en kæruefni þess sé að nokkru leyti sambærilegt við fyrirliggjandi mál.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að ekki verði séð að nein formleg synjun á erindinu kæranda frá 13. september 2022 liggi fyrir í málinu. Þá sé þess krafist að kærunni verði vísað frá þar sem byggingarfulltrúi hafi sannarlega gripið til aðgerða í málinu. Byggingarfulltrúi hafi með tölvupósti 18. janúar 2023 tilkynnt kæranda að hann hafi ákveðið að taka til skoðunar þau atriði sem kærandi hafi gert athugasemdir við. Hinn 1. febrúar s.á. hafi byggingaraðila svo verið sent bréf með kröfu um úrbætur á atriðum sem listuð hafi verið upp í níu liðum. Jafnframt hafi verið haldinn fundur með byggingaraðila hinn 17. febrúar 2023, að ósk hans, þar sem farið hafi verið yfir þau atriði sem bæta þyrfti úr.

Þá liggi fyrir að byggingaraðili hafi gert sátt vegna lagfæringa á ýmsum göllum í húsinu og standi endurbætur á því yfir, en áhöld séu uppi á milli aðila um hvort sáttin nái til þeirra úrbóta sem byggingarfulltrúi hafi krafist úrbóta á. Reykjavíkurborg taki þó enga afstöðu til þessa álitaefnis. Þess megi geta að til meðferðar hjá byggingarfulltrúa sé umsókn um byggingarleyfi þar sem sótt sé um breytingar á aðalinngangi til að uppfylla skilyrði um algilda hönnun og gerð bílastæðis fyrir hreyfihamlaða á borgarlandi. Í ljósi þess að byggingarfulltrúi hafi orðið við áskorun kæranda um að krefjast úrbóta hafi kærandi ekki lengur hagsmuni af því að fá úr kærumálinu skorið. Beri því að vísa kærunni frá.

 Athugasemdir byggingaraðila: Af hálfu byggingaraðila er bent á að allsherjarsátt hafi verið gerð við húsfélag Kuggavogs 15 vegna gallamála og eigi aðfinnslur kæranda þar undir. Byggingarstjóri hússins sé enn að störfum við úrbætur og hafi byggingarfulltrúi verið upplýstur um það.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Vegna þeirra ummæla í umsögn Reykjavíkurborgar, þess efnis að ekki verði séð að nein formleg synjun á erindi kæranda frá 13. september 2022 liggi fyrir, bendir kærandi á að í svari byggingarfulltrúa frá 15. nóvember s.á. hafi verið að finna ábendingu um að kröfur um úrbætur yrðu að berast til ábyrgðaraðila á byggingarleyfi og þeirra sem hafi yfirumsjón með hönnun og framkvæmd hússins. Líta verði svo á að í þeirri bendingu hafi falist formleg synjun á að taka ákvörðun í samræmi við þær lagaskyldu sem hvílt hafi á embætti byggingarfulltrúa.

Í bréfi byggingarfulltrúa til byggingaraðila, dags. 1. febrúar 2023, hafi þess verið krafist að úrbætur yrðu gerðar innan 60 daga frá dagsetningu bréfsins ellegar myndi byggingarfulltrúi íhuga að beita þvingunarúrræðum sem gætu falist í dagsektum eða að ráðist yrði í úrbætur á eigin kostnað eigenda. Það sé staðreynd að engar úrbætur hafi verið gerðar innan 60 daga frá dagsetningu bréfsins en þrátt fyrir það hafi byggingarfulltrúi ekki beitt þvingunarúrræðum. Hafi því ekki verið tekin nein ákvörðun um beitingu þvingunarúrræðis og sé því fullt tilefni til að leysa efnislega úr kærumálinu. Vilji svo ólíklega til að úrskurðarnefndin telji að vísa beri kröfu kæranda frá um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar sé áréttað að enn standi eftir sá hluti kröfugerðar kæranda að byggingarfulltrúa verði gert að aðhafast í málinu, enda ljóst að beiting þvingunarúrræða hafi ekki farið fram þrátt fyrir að úrbætur hafi ekki verið gerðar á húsnæðinu.

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Kæra þessa máls lýtur að svari byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. nóvember 2022 vegna áskorunar kæranda frá 13. september s.á. um að byggingarfulltrúi beindi því til hlutaðeiganda að framkvæma úrbætur á þeim ágöllum sem kærandi telur vera á fjöl­býlishúsinu að Kuggavogi 15 og snúa að kröfum um algilda hönnun, aðgengi fyrir alla og loft­ræsingu. Var í áskorun kæranda m.a. vísað til 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sem fjallar um beitingu þvingunarúrræða. Í svari byggingarfulltrúa kom fram sú afstaða embættisins að slíkum kröfum um úrbætur bæri að beina að byggingaraðila og seljanda, ábyrgðaraðila byggingarleyfis og þeirra aðila sem hafi yfirumsjón með hönnun og framkvæmd. Verður að teknu tilliti til þessa og atvika málsins að öðru leyti að líta svo á að í þeirri afstöðu byggingar­fulltrúa hafi falist synjun um að aðhafast í málinu.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en telur það falla utan vald­heimilda sinna að leggja fyrir stjórnvöld að aðhafast með tilgreindum hætti í málum. Verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að úrskurðarnefndin leggi fyrir byggingar­fulltrúa að aðhafast í málinu.

Svo sem nánar er rakið í málavöxtum var málsmeðferð þessa kærumáls frestað hjá úrskurðar­nefndinni 18. janúar 2023 að beiðni Reykjavíkurborgar og með samþykki kæranda. Var sú beiðni lögð fram vegna þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa að taka til skoðunar þau atriði sem kærandi hafði gert athugasemdir við í kæru. Fyrir liggur að stuttu eftir það, eða hinn 1. febrúar 2023, sendi byggingarfulltrúi bréf til byggingaraðila og skoraði á hann að ráðast í úrbætur er varða aðgengis- og loftræsismál með vísan til gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. 56. gr. laga um mannvirki, auk þess sem byggingarfulltrúi tók fram að yrði ekki brugðist við áskoruninni innan 60 daga myndi hann íhuga að beita þvingunarúrræðum sem gætu falist í dagsektum eða að ráðist yrði í úrbætur á kostnað eiganda. Með hliðsjón af því verður að líta svo á að kærandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 15. nóvember 2022 um að aðhafast ekki í málinu. Af þeim sökum verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Fyrir liggur að töluverður dráttur hefur orðið á framkvæmd þeirra úrbóta sem byggingarfulltrúi lagði fyrir byggingaraðila að ráðast í. Af því tilefni telur úrskurðarnefndin rétt að vekja athygli kæranda á því að í byrjun janúar 2024 var af hálfu nefndarinnar óskað eftir upplýsingum frá Reykjavíkurborg um stöðu umsóknar byggingaraðila frá 9. ágúst 2023 um leyfi til að breyta inngangi Kuggavogs 15 og hvort hann væri að störfum við þær úrbætur sem byggingarfulltrúi hefði krafið hann um. Bárust þau svör frá borgaryfirvöldum 12. janúar 2024 þess efnis að byggingarleyfis­umsóknin væri enn til meðferðar og að byggingaraðili hefði verið í samskiptum við byggingar­fulltrúa og tjáð embættinu að úrbætur yrðu gerðar, en að þær hefðu tafist vegna veikinda og fjarveru.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðar­nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

142/2023 Efnistaka austan Karlseyjarvegar

Með

Árið 2024, mánudaginn 29. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 142/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps frá 11. október 2023 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í námu E-27.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 14. desember 2023, kærir eigandi, Miðjanesi, Reykhólahreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps frá 11. október 2023 að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í námu E-27, austan Karlseyjarvegar á Reykhólum. Er þess krafist að leyfið verði fellt úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykhólahreppi 15. janúar 2024.

Málsatvik og rök: Samkvæmt Aðalskipulagi Reykhólahrepps 2022–2034 eru í hreppnum nokkur fjöldi efnistökusvæða. Með óverulegri breytingu á skipulaginu, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 29. september 2023, var nýrri námu bætt við austan Karlseyjarvegar á Reykhólum, E27. Í kjölfar þeirrar breytingar eru í sveitarfélaginu 20 efnistökusvæði. Framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í námunni var gefið út í nóvember s.á. en áður hafði sveitarstjórn á fundi sínum 11. október s.á. falið skipulagsfulltrúa að gefa leyfið út. Er ákvörðun sveitarstjórnar hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Kærandi vísar m.a. til þess að með vinnubrögðum sveitarstjórnar sé bæði brotið gegn meðalhófi og jafnræði. Stjórnsýsla við breytingu á aðalskipulagi hafi verið óvönduð. Hagsmunir kæranda felist fyrst og fremst í því að hinn almenni íbúi sitji við sama borð og stjórnvald, en hann hafi sjálfur þurft að ganga í gegnum tæplega tveggja ára ferli til að fá landnotkun á jörð sinni breytt. Hagsmunir hans séu einnig fjárhagslegir en í landi kæranda sé opin grjótnáma og sé kærandi eigandi einu löglegu grjótnámunnar á Reykjanesi í Reykhólahreppi. Gert hafi verið ráð fyrir námu hans í aðalskipulaginu og sveitarfélagið hefði getað keypt efni úr henni. Verðmæti þeirra 20.000 m3 sem sveitarfélaginu vanti í framkvæmdir sé sennilega á milli 300-400 kr. pr. m3 og því ljóst að hagsmunir hans séu ríkir. Til staðar séu þúsundir rúmmetrar af góðu og sprengdu efni sem tilbúið sé til mölunar í rétta stærð. Þá hefur kærandi komið á framfæri varakröfu um að ákvörðun um „breytingu á aðalskipulagi varðandi námu E-27 verði tekin upp“.

Af hálfu Reykhólahrepps er m.a. bent á að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og eigi því ekki kæruaðild, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærandi er eigandi jarðarinnar Miðjanes í Reykhólahreppi. Sú jörð er í nokkurri fjarlægð frá hinni umdeildu námu austan við Karlseyjarveg. Verður því ekki séð að leyfi til námunnar geti varðað grenndarhagsmuni hans og er heldur ekki á því byggt. Aftur á móti hefur kærandi fært fram sjónarmið um fjárhagslega eða samkeppnislega hagsmuni. Almennt leiða þeir óbeinu hagsmunir sem kærandi hefur með því vísað til ekki til kæruaðildar samkvæmt stjórnsýslurétti og verður ekki séð að í skipulagslögum nr. 123/2010 sé gert ráð fyrir því við töku ákvörðunar um veitingu framkvæmdaleyfis, sbr. 13. gr. laganna. Þar sem ekkert liggur fyrir um að kærandi hafi aðra þá lögvörðu hagsmuni sem veitt geta honum kæruaðild verður kröfu hans vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kærandi hefur einnig krafist þess að úrskurðarnefndin láti sig breytingu á Aðalskipulagi Reykhólahrepps 2022–2034  varða. Í 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga kemur fram að aðalskipulag er háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Þær ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta verða ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga.

 

Af framangreindu virtu verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

116/2023 Glerárgata

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Halldóra Vífilsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 6. júní 2023 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Akureyrar­bæjar vegna Glerárgötu 7.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. október 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Glerárgötu 1 og Strandgötu 13a, Akureyri, þá ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 6. júní 2023 að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Akureyrarbæjar sem varðar Glerárgötu 7. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 25. október 2023.

Málavextir: Lóð nr. 7 við Glerárgötu er hornlóð á gatnamótum Gránufélagsgötu og Glerárgötu annars vegar og Gránufélagsgötu og Geislagötu hins vegar. Frá því að nýtt deiliskipulag miðbæjar Akureyrarbæjar tók gildi árið 2014 hefur verið vísað til lóðarinnar sem Glerárgötu 7. Í deiliskipulaginu kom fram að lóðirnar Glerárgata 3, 5 og 7 væru sameinaðar undir heiti þeirrar síðastnefndu, en í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eru þær enn skráðar sem þrjár lóðir. Kemur þar fram að Akureyrarbær sé eigandi lóðar nr. 3, en lóðir nr. 5 og 7 séu í eigu einkahlutafélags sem jafnframt er umsækjandi hinnar umdeildu breytingar. Á þeim hluta lóðarinnar sem snýr að Gránufélagsgötu, stendur hús sem hýsir samkomustaðinn Sjallann.

Fulltrúar einkahlutafélagsins sem um ræðir hafa frá árinu 2018 átt í viðræðum við bæjaryfirvöld um að breyta skipulaginu. Með erindi, dags. 24. ágúst 2022, var f.h. félagsins leitast eftir breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar þar sem óskað var eftir að hámarkshæð hússins yrði aukin ásamt byggingarmagni í bílakjallara, hækkun á nýtingarhlutfalli og stækkun á byggingarreit. Á fundi skipulagsráðs 14. desember s.á. var samþykkt að kynna tillögu um breytingu deili­skipulagsins skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hinn 18. janúar 2023 voru drög að breytingartillögu kynnt í Dagskránni og á heimasíðu Akureyrarbæjar og kom fram að frestur til að koma að ábendingum væri til 5. febrúar s.á. Samþykkti bæjarstjórn tillöguna 7. mars s.á. og að hún yrði auglýst til kynningar skv. 41. gr. skipulagslaga.

Tillagan var auglýst í Dagskránni, Lögbirtingablaðinu og á heimasíðu Akureyrarbæjar 29. mars 2023. Kom þar fram að hún ætti við um lóðina Glerárgötu 7, athugasemdafrestur væri til 14. maí s.á. og að unnt væri að kynna sér tillöguna á heimasíðu bæjarins og í Ráðhúsinu. Þá sendu bæjaryfirvöld nærliggjandi hagsmunaaðilum sérstaka tilkynningu 28. apríl 2023 þar sem upplýst var um að tillagan væri í auglýsingu og um athugasemdafrest. Var kærandi á meðal þeirra sem fengu slíka tilkynningu og einn þeirra sem kom athugasemdum sínum á framfæri.

Á fundi skipulagsráðs 24. maí 2023 var skipulagsfulltrúa falið að vinna drög að svörum við fram­komnum athugasemdum og leggja fyrir fund bæjarstjórnar. Var jafnframt lagt til við bæjar­stjórn að tillagan yrði samþykkt. Bæjarstjórn tók tillöguna fyrir á fundi sínum 6. júní 2023 og var hún samþykkt. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu. Á fundinum voru jafnframt samþykkt framlögð drög skipulagsfulltrúa að svörum við efni athugasemda. Var kæranda og öðrum umsagnaraðilum tilkynnt um niðurstöðuna með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 12. júlí s.á., þar sem athugasemdum þeirra var svarað og leiðbeint um kæruleið og kærufrest til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála. Auglýsing um gildistöku skipulagsins var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda 11. september 2023 og kom þar fram að breytingin fæli í sér að heimilað yrði að reisa 5 – 6 hæða hótel á lóðinni. Meðfram Glerárgötu væri leyfilegt að byggja fimm hæðir þar sem efsta hæðin yrði inndregin frá Glerárgötu, en sex hæðir meðfram Gránufélagsgötu þar sem efstu tvær hæðirnar yrðu inndregnar frá Gránufélagsgötu og Geislagötu.

Málsrök kæranda: Með hinni kærðu breytingu á deiliskipulagi er að mati kæranda vegið að eignarétti hans og grenndarhagsmunum. Verðmæti fasteigna hans lækki verulega verði af fyrirhugaðri hótelbyggingu sem muni gnæfa yfir nærliggjandi hús og standa nánast á sameiginlegum mörkum lóða hans og umræddrar lóðar. Hámarkshæð fyrirhugaðrar byggingar á Glerárgötu 7 sé umtalsvert hærri en kveðið hefði verið á um í eldra skipulagi, mun hærri en nærliggjandi byggingar og í ósamræmi við byggingar sunnan við hana. Í Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 sé kveðið á um að halda skuli yfirbragði miðbæjarsvæðis í samræmi við aðliggjandi húsaraðir. Framlögð gögn um skuggavarp séu ófullnægjandi enda ekki af þeim ljóst hvort tekið hafi verið tillit til þess að heimilað sé í skipulagstillögu að svalir, stigapallar og skyggni nái allt að tvo metra út fyrir húshlið og út fyrir byggingarreit. Sé hið síðasttalda breyting frá eldra deiliskipulagi en ekki sé innbyrðis samræmi um þetta í greinar­gerð skipulagsins. Í skipulagstillögunni hafi sagt að lóðirnar Glerárgata 3, 5 og 7 hafi verið sameinaðar og heiti nú Glerárgata 7. Samkvæmt fasteignaskrá hafi slík sameining ekki átt sér stað og hver lóð sé enn skráð með sitt númer. Þá komi stærð lóðarinnar í skipulagstillögunni ekki heim og saman við samanlagt skráð flatarmál lóðanna. Eftir því sem kærandi komist næst sé flatarmál lóðanna 2.388,7 m2 en í skipulagstillögunni komi fram að það sé 2.409,9 m2. Forsendur sem gefnar séu um stærð lóðar séu rangar og þ.a.l. sé reiknað nýtingarhlutfall rangt.

Málsrök Akureyrarbæjar: Bæjaryfirvöld telja að verðmæti lóða á miðbæjarsvæðinu muni aukast við uppbyggingu, sérstaklega á svæðum þar sem ástand hafi ekki verið til fyrirmyndar í langan tíma eins og eigi við um Glerárgötu 7. Í Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 sé gert ráð fyrir þéttingu byggðar í miðbænum en ekki getið um hæð bygginga. Við deiliskipulagningu reits sé horft til hæða nærliggjandi bygginga. Eðlilegt sé að þéttleiki og hæð byggðar í miðbæ sé meiri en í öðrum hverfum og geti fasteignaeigendur ekki gert ráð fyrir að byggingar í ná­grenninu taki ekki breytingum, sérstaklega ekki í miðbæ þar sem þéttleiki sé almennt meiri en í öðrum hverfum. Þá sé ekki um að ræða verulegar breytingar frá upphaflegu deiliskipulagi. Í deiliskipulagi miðbæjarins frá 2014 hafi verið gert ráð fyrir fimm hæðum á lóðinni en hin kærða breyting gerir ráð fyrir að heimilt verði að byggja allt að sex hæðir en ólíklegt sé að sá hluti hafi neikvæð áhrif á fasteignir kæranda vegna fjarlægðar. Sá hluti fyrirhugaðrar byggingar sem liggi að henni hækki um 2 m frá upphaflega deiliskipulaginu, úr 16,2 m í 18,2 m. Breytingin sé í samræmi við ákvæði aðalskipulags og stefnu gildandi deiliskipulags. Í deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar sé þegar gert ráð fyrir verulegri uppbyggingu á lóðum í næsta nágrenni og megi sjá að stefna bæjar­yfir­valda sé að á svæðinu megi almennt byggja töluvert hærri hús en þau sem fyrir séu. Upp­bygging á lóð Glerárgötu 7 falli vel að þeirri stefnu. Þar sem lóðin sé fyrir norðan fasteign kæranda muni skuggavarp á lóð hans vera í algjöru lágmarki en skuggi muni að mestu falla á aðliggjandi götusvæði, þ.e. Gránufélagsgötu og Glerárgötu. Þá leiði skuggavarp sem afleiðing af skipulagsbreytingu almennt ekki til ógildingar deiliskipulags og hafa skipulagsyfirvöld nokkuð svigrúm við mat á því hvert sé ásættanlegt skuggavarp hverju sinni. Varðandi sam­einingu lóða hafi hún ekki enn verið framkvæmd en lóðin muni verða stofnuð áður en fram­kvæmdir hefjist. Eðlilegt sé að einhver munur sé á skráðri stærð lóða samkvæmt fasteignaskrá og tilgreindri stærð í deiliskipulagi, sérstaklega þegar um sé að ræða gamlar lóðir eins og hér um ræði. Lóðin Glerárgata 5 sé t.a.m. skráð í samræmi við lóðarleigusamning frá 1930 og því eðlilegt að einhver skekkjumörk séu til staðar. Í þessu tilviki sé munurinn innan við 1% og teljist það í raun óvenju lítið miðað við aldur lóðanna. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim hafi verið send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi stofnunin ekki gert athugasemdir við að samþykkt deiliskipulag yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Af hálfu umsækjanda hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar var því komið á framfæri við úrskurðarnefndina að tekið væri undir sjónarmið og málsástæður Akureyrarbæjar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 6. júní 2023 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrarbæjar sem varðar lóðina Glerárgötu 7.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hefur með því áhrif á þróun byggðar og umhverfis með bindandi hætti, gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Skal deiliskipulag vera í samræmi við stefnu aðalskipulags og rúmast innan heimilda þess, sbr. 3. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Við töku skipulagsákvarðana er sveitarstjórn bundin af meginreglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. lögmætisreglunni sem felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum framangreindum meginreglum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á því skuli háttað.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um breytingar á samþykktu deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. þeirra. Í samræmi við ákvæðið fór um breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða og var tillaga að henni auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. laganna, en áður höfðu drög verið kynnt opinberlega, sbr. 4. mgr. 40. gr. þeirra. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga og tók skipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. september 2023. Var formleg málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar því í samræmi við lög.

Samkvæmt Aðalskipulagi Akureyrar 2018 – 2030 tilheyrir svæðið sem hér um ræðir miðbæ, M1. Í greinargerð skipulagsins kemur fram að á miðsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjóni heilu landsvæði, bænum í heild sinni eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslunum, skrifstofum, þjónustustofnunum, veitinga- og gistihúsum, menningarstofnunum, bílastæðahúsum og hreinlegum iðnaði. Halda skuli yfirbragði miðbæjarsvæðisins. Nýbyggingar og breytingar einstakra húsa skuli vera í samræmi við aðliggjandi húsaraðir. Í miðbænum séu nokkur af elstu húsum bæjarins og halda þurfi í einkenni þeirra og gera það í samræmi við reglugerðir um húsvernd. Fyrir nýbyggingar og viðbyggingar í samfelldum húsaröðum s.s. við Hafnarstræti gildi þær reglur að útlit og hæðir húsanna skuli vera í samræmi við byggð á aðliggjandi svæði. Þá skuli vanda sérstaklega allan frágang og hönnun mannvirkja og umhverfis við aðkomuleiðir að miðbænum, þá sérstaklega við Glerárgötu og Drottningarbraut. Í skipulaginu eru afmörkuð sem hverfisverndarsvæði þau svæði þar sem ástæða þyki til að vernda yfirbragð byggðar, en Geislagata, Gránufélagsgata og Glerárgata eru ekki þeirra á meðal. Verður ekki annað ráðið en að umdeild breyting á deiliskipulagi sé í samræmi við gildandi aðalskipulag.

Glerárgata 7 tilheyrir svæði 3 í deiliskipulagi miðbæjarins frá 2014 og er þar vísað til svæðisins sem Sjallareits. Var í skipulaginu greint frá því að innan svæðisins væri miðbæjarstarfsemi af ýmsum toga og ægði saman byggingum af ólíkum stærðum og gerðum. Líkt og fram kom í málavöxtum voru lóðirnar Glerárgata 3, 5 og 7 sameinaðar undir heiti þeirrar síðastnefndu og var veitt heimild til að byggja á lóðinni fimm hæða hótel þar sem efsta hæðin væri inndregin. Þar sem aðstæður leyfðu mættu svalir, stigar og stigapallar ná allt að 2 m út fyrir húshlið og 2 m út fyrir byggingarreit nema á lóðarmörkum. Með hinni kærðu breytingu á deiliskipulaginu var hámarkshæð húss á lóðinni hækkuð úr 16,2 m í 18,2 – 21,2 m og úr fimm hæðum í fimm – sex hæðir. Meðfram Gránufélagsgötu er nú heimilt að byggja sex hæða hús með efstu tvær hæðirnar inndregnar frá götu, en meðfram Glerárgötu fimm hæðir og efstu hæðina inndregna frá götu. Grunnflötur fimmtu og sjöttu hæðar er að hámarki 75% af grunnfleti fjórðu hæðar, en samkvæmt eldra skipulagi hafði hann verið 60% af fleti hæðarinnar fyrir neðan. Hækkar hámarkshæðin um 2 m næst lóðum kæranda.

Fram kemur í 1. mgr. b-liðar í gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr.  90/2013 að við ákvörðun um fjarlægð á milli einstakra byggingarreita skuli taka tillit til sólarhæðar og skuggavarps, vindstrengja o.fl., eftir því hver notkun bygginganna sé. Við afgreiðslu málsins hjá bæjarstjórn lágu fyrir skuggavarpsteikningar vegna áformaðrar hótelbyggingar. Sýna þær skuggavarp 20. júní og 20. september kl. 12:00, 15:00 og 17:00. Af þeim verður ráðið að fyrirhuguð bygging muni hafa í för með sér einhver grenndaráhrif vegna skuggavarps. Þess ber að geta að áform hafa verið í skipulagi um byggingu fimm hæða hótels á lóðinni frá árinu 2014. Verður ekki séð að sú hækkun hússins sem hér er um deilt hafi veruleg áhrif á grenndarhagsmuni kæranda, umfram þau sem þegar var gert ráð fyrir að yrðu af uppbyggingu á lóðinni. Hvað skuggavarp varðar er litið til þess að áformuð hótelbygging er norðan við lóðir kæranda og hækkun frá fyrri heimildum er 2 m.

Vegna athugasemdar kæranda um stærð lóðarinnar sem um ræðir skal það nefnt að deiliskipulag getur hvorki myndað né fellt niður bein eða óbein eignarréttindi, svo sem lóðar­réttindi, sem byggjast á heimildarskjölum hverju sinni. Þinglýstar heimildir um slík réttindi, hvort sem um eignarland eða leigulóð er að ræða, eru stofnskjöl þeirra. Komi að því að byggingaráform verði samþykkt á grundvelli hins umdeilda deiliskipulags þarf byggingarfulltrúi á þeim tíma að taka afstöðu til þess hvort áformin séu í samræmi við deiliskipulag, þ. m. t. um nýtingarhlutfall.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður hvorki talið að hagsmunir kæranda hafi verið fyrir borð bornir í skilningi c-liðar 1. gr. skipulagslaga né að þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiði til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Rétt þykir að benda á að geti kærandi sýnt fram á tjón vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar getur hann átt rétt á bótum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 6. júní 2023 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Akureyrarbæjar vegna Glerárgötu 7.

100/2023 Holtsvegur

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Halldóra Vífilsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 100/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 15. júní 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga norðurhluta Urriðaholts vegna lóðarinnar Holtsvegar 20.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. ágúst 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi að Holtsvegi 16 þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 15. júní 2023 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga norðurhluta Urriðaholts vegna lóðarinnar Holtsvegar 20. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Gerði kærandi jafnframt kröfu um að réttaráhrifum hennar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Var kröfu um frestun réttaráhrifa hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 30. ágúst 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 9. október 2023.

Málavextir: Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 16. desember 2022 í máli nr. 124/2022 var fellt úr gildi byggingarleyfi fyrir sex deilda leikskóla að Holtsvegi 20, Garðabæ, þar sem leyfið var ekki talið í samræmi við gildandi deiliskipulag norðurhluta Urriðaholts, 1. áfanga.

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 28. febrúar 2023 var samþykkt að fela skipulagsnefnd að móta tillögu að breytingu á deiliskipulagi norðurhluta Urriðaholts, 1. áfanga, vegna lóðarinnar Holtsvegar 20 þannig að upphafleg hönnum byggingar leikskóla félli að skilmálum deiliskipulagsins. Á fundi bæjarráðs 14. mars s.á. var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á umræddu deiliskipulagi í samræmi við 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var ákvörðunin samþykkt á fundi bæjarstjórnar 16. s.m. Tillagan var lögð fram að nýju í skipulagsnefnd 22. maí s.á. að lokinni kynningu ásamt athugasemdum sem bárust á auglýsingatíma og var málinu vísað til úrvinnslu hjá umhverfissviði og skipulagsráðgjöfum. Tillagan var tekin fyrir að nýju ásamt drögum að svörum við innsendum athugasemdum á fundi skipulagsnefndar 2. júní s.á. Samþykkti ráðið tillöguna með þeim breytingum sem lagðar voru fram sem viðbrögð við athugasemdum. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 13. s.m. var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu skipulagsnefndar um breytingu á deiliskipulagi norðurhluta Urriðaholts, 1. áfanga, og samþykkti bæjarstjórn tillöguna á fundi sínum 15. s.m. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 14. júlí 2023.

 Málsrök kæranda: Vísað er til þess að útsýni og sólríki sé meðal þeirra þátta sem helst hafi áhrif á virði fasteigna. Takmörkun á þessum eiginleikum sé veigamikil og það beri að veita þeim sérstakan gaum þegar skipulagsbreytingar séu annars vegar. Mikilvægi þessara þátta sé meðal annars ítrekað í greinargerð deiliskipulags fyrir norðurhluta Urriðaholts. Í rammaskipulagi fyrir Urriðaholt komi einnig fram að við skipulagningu byggðarinnar sé mikilvægt að huga að útsýni frá íbúðarhúsum og opnum svæðum. Það megi t.d. gera með því að tryggja gott útsýni frá sem flestum vistarverum íbúðarhúsa.

Í sölukynningum fyrir íbúðir að Holtsvegi 14–18 hafi útsýni verið gert hátt undir höfði og hafi það verið ein helsta ákvörðunarásæða kæranda fyrir kaupum á sinni íbúð að geta notið útsýnis, enda felist í því fjárhagslegir hagsmunir og persónulegir. Í öllu markaðs- og kynningarefni fyrir hverfið og íbúðir þar hafi verið gert mikið úr útsýni og sólríki. Það hafi verið meðal forsendna kæranda að geta notið þessara gæða og hafi hann greitt aukalega fyrir þau gæði. Um verulega hagsmuni sé að ræða og gæta hefði þurft sérstaklega að þeim við málsmeðferð bæjarins, sérstaklega þar sem nær allar athugasemdir íbúa til bæjarins hafi snúið að útsýni og skuggavarpi. Ákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 bendi til þess að í útsýni og skuggavarpi felist sérstakir hagsmunir þeirra sem búi í nágrenni við skipulagssvæði, enda geti verið um að ræða verulega fjárhagslega og persónulega hagsmuni. Garðabær hafi verið meðvitaður um sérstakt eðli þessara hagsmuna og nýtt sér þá til að kynna hverfið á sínum tíma.

Líta verði til skuggavarps á allri lóðinni Holtsveg 14–18 en ekki einungis á íbúðarbyggingarnar sjálfar. Felist hagsmunir í sólríki á opnum almenningssvæðum, svo sem bílastæðum fyrir framan byggingarnar og göngustíga milli íbúðarlóðarinnar og leikskólalóðarinnar sem taka verði tillit til. Gefa hefði þurft athugasemdum íbúa sem snúið hafi að skuggavarpi og skerðingu útsýnis sérstakan gaum við meðferð málsins. Það hafi ekki verið gert og hafi bæjaryfirvöld í svörum sínum gert lítið úr athugasemdum íbúa og afgreitt þær á einu bretti án þess að hafa aflað frekari gagna og lagt þau fyrir aðila málsins til umsagnar. Að auki hafi verið vísað til gagna í svörum við athugasemdum íbúa sem ekki hafi verið kynnt aðilum málsins. Sveitarfélagið hafi staðið fast við samþykkta hönnun og breytt deiliskipulagi til að aðlagast henni í stað þess að kanna hvort aðrir hönnunarkostir hefðu komið til greina.

Athugasemdir íbúa við deiliskipulagsbreytinguna hafi flestar varðað mögulegt tjón vegna aukins skuggavarps og skerðingu útsýnis. Þegar svo hátti til hafi sveitarfélagið borið sérstaka skyldu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, til að rannsaka hve mikil skerðing á útsýni og hve mikið skuggavarp yrði við breytinguna. Samkvæmt svörum bæjarins hafi það ekki verið gert heldur hafi athugasemdir íbúa verið afgreiddar með einföldum fullyrðingum um að skerðing á útsýni og aukið skuggavarp væri óverulegt. Engin gögn þessu til stuðnings hafi verið kynnt íbúum. Það rétta sé að hin nýja hæð skerði verulega útsýni til fjalla og yfir Urriðavatn.

Í svörum sveitarfélagsins hafi komið fram að skuggavarpsmyndir sýni fram á að skuggavarp af leikskólabyggingunni sé óverulegt, hvort sem byggingin sé hækkuð um 2 m eða ekki. Kærandi telji hæpið að aukið skuggavarp sé minniháttar þar sem hin nýja hæð komi þvert á sólargang kvöldsólar. Ómögulegt sé hins vegar um það að segja enda hafi athugasemdir íbúa ekki verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti. Þá feli deiliskipulagsbreytingin í sér að hámarkshæð leikskólans sé hækkuð um þrjá metra en ekki tvo eins og segi í svörum bæjarins.

Í bókun skipulagsnefndar Garðabæjar hafi verið vikið að samfélagslegum hagsmunum sem fælust í að geta veitt byggingarleyfi samkvæmt samþykktri hönnunartillögu. Á fundi með íbúum 4. janúar 2023 hafi fulltrúar bæjarins tjáð þeim að reynt yrði að koma til móts við þá með því að lækka hæð leikskólans miðað við upphaflegar teikningar. Lækkunin gæti þó ekki orðið nema að hámarki um 0,5 m, enda væri búið að panta timbureiningar sem gerði það að verkum að ómögulegt væri að lækka bygginguna meira. Á fundi með fulltrúum bæjarins 2. nóvember 2022, áður en byggingarleyfi leikskólans hafði verið fellt úr gildi af úrskurðarnefndinni, hafi komið fram að ekki væri búið að panta téðar einingar. Raunveruleg ástæða þess að sveitarfélagið hafi haldið fast í samþykkta hönnunartillögu, í stað þess að meta aðrar hönnunartillögur sem hefðu verið í samræmi við eldra deiliskipulag, hafi verið sú að pantaðar hafi verið timbureiningar samkvæmt teikningum sem hafi verið í trássi við eldra deiliskipulag. Verið sé að reyna að forðast aukinn kostnað vegna timbureininga fremur en að horft sé til almennra samfélagssjónarmiða. Ekki verði séð hvernig samfélagslegir hagsmunir af því að velja eina tiltekna hönnun sem hafi verið í ósamræmi við deiliskipulag í stað annarrar hönnunartillögu, vegi svo mikið þyngra en réttmætar væntingar íbúa samkvæmt eldra deiliskipulagi og hagsmunir þeirra af útsýni og sólríki að ákvörðun bæjarins sé réttlætanleg.

Þrátt fyrir að sveitarfélögum sé almennt veitt umtalsvert svigrúm við mat á nauðsyn skipulagsbreytinga telji kærandi að ekki hafi verið stefnt að lögmætu markmiði með ákvörðuninni, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Það séu ekki málefnaleg sjónarmið við mat á meðalhófi breytingar á deiliskipulagi að sveitarfélagið reyni að takmarka sjálfbakaðan kostnað sem hafi einungis fallið til þar sem timbureiningarnar hafi verið pantaðar fyrir teikningum sem hafi verið í ósamræmi við deiliskipulag. Einingarnar hafi verið pantaðar á þeim tíma sem sveitarfélaginu hafi verið kunnugt um framkomna kæru á byggingarleyfinu,

 Málsrök Garðabæjar: Bent er á að sveitarfélög fari með skipulagsvald innan marka sveitarfélaga og að í skipulagslögum nr. 123/2010 sé áskilnaður um málsmeðferð sem fylgt hafi verið í öllum atriðum. Gætt hafi verið meginreglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvað varði meðalhóf og samráð við íbúa sem hagsmuna eigi að gæta. Þó að almennt verði að telja að stjórnvöld eigi að gæta meðalhófs samkvæmt stjórnsýslulögum þá eigi það ekki við með beinum hætti í þessu tilviki þar sem ekki sé um að ræða beina stjórnvaldsákvörðun heldur stjórnvaldsfyrirmæli. Um þau fyrirmæli gildi skipulagslög, en með þeim sé hagsmunaaðilum tryggð sanngjörn málsmeðferð en ekki sé endilega gerð krafa um að valin sé sú leið sem minnst raski hagsmunum aðila heldur felist í skipulagsvaldinu heimildir til að velja þær leiðir sem best þyki þjóna hagsmunum heildarinnar. Gert sé ráð fyrir því að hagsmunir einstakra lóðarhafa séu skertir, sbr. 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga. Ákvæði skipulagslaga verði ekki skilin á annan veg en að sveitarfélög hafi í krafti skipulagsvaldsins heimild til að skerða rétt einstakra lóðarhafa jafnvel þótt bent sé á aðra leið sem unnt sé að fara, enda sé sú leið sem valin sé hagkvæmari kostur þegar litið sé til hagsmuna heildarinnar, sbr. c. lið 1. gr. skipulagslaga.

Íbúar í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukningu umferðar eða aðrar breytingar á umhverfi íbúanna. Úrskurðarnefndin hafi iðulega tekið undir þessi sjónarmið í úrskurðum sínum. Í þessu tilviki megi augljóst vera að útsýnisskerðing geti ekki talist umtalsverð og að vegna staðsetningar íbúðarhúss við Holtsveg 14–18 muni íbúar áfram njóta útsýnis sem sé almennt meira er gerist í þéttbýli. Þessi megi geta að bygging leikskólans sé með lægri byggingum í hverfinu.

Bygging leikskólans hafi frá upphafi verið kynnt sem tveggja hæða bygging að hluta og hafi upphaflegt byggingarleyfi verið gefið út með það að markmiði. Það hafi verið sjónarmið bæjaryfirvalda að miða ætti við aðkomukóta lóðar en ekki hæðarkóta aðkomuhæðar líkt og úrskurðarnefndin hafi fallist á að ætti að gera samkvæmt úrskurði hennar um ógildingu á umræddu byggingarleyfi. Það sé því ágreiningur um túlkun á skipulagsskilmála sem valdi þeirri stöðu sem uppi sé í málinu og það hljóti að teljast eðlileg viðbrögð að breyta skipulaginu þannig að tekin væru af öll tvímæli um hæðarsetningu mannvirkja á lóð leikskólans. Það sé gert á grundvelli samfélagslegra sjónarmiða um að tryggja ungum barnafjölskyldum sem búi í hverfinu leikskóladvöl fyrir börn sín frá 12 mánaða aldri og verði það að teljast málefnalegar ástæður að baki hinni kærðu ákvörðun.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Vakin er athygli á að röksemdir Garðabæjar um að stjórnsýslulög gildi ekki um ákvörðun um breytingu deiliskipulags þar sem það sé ekki stjórnvaldsákvörðun heldur stjórnvaldsfyrirmæli sé ekki í samræmi við áralanga framkvæmd úrskurðarnefndarinnar þar sem byggt hafi verið á að deiliskipulagsbreytingar séu háðar stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Telji úrskurðarnefndin að um stjórnvaldsfyrirmæli sé að ræða byggi kærandi á því að þau séu svo sértæk að jafna megi þeim við stjórnvaldsákvörðun. Meta verði aðdraganda ákvörðunarinnar heildstætt enda liggi fyrir að með skipulagsbreytinginunni sé verið að bregðast við fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Óumdeilt sé að tilgangur deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið sá að heimila útgáfu nýs byggingarleyfis sem hafi verið í ósamræmi við fyrra deiliskipulag. Skipulagsbreytingin beinist að íbúum í nágrenninu með sama hætti og ef um útgáfu byggingarleyfis væri að ræða. Hún hafi einkum og sér í lagi áhrif á íbúa í þremur fasteignum, þ.e. Holtsvegi 14, 16 og 18.

Forsenda þess að gæta meðalhófs sé að mál sé upplýst með fullnægjandi hætti. Hvorki hafi verið brugðist við athugasemdum íbúa með rannsóknum á útsýnisskerðingu og skuggavarpi né aðrar útfærslur á leikskólabyggingunni metnar. Vísað sé til þess að skuggavarp sé óverulegt samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafi verið. Þær skuggavarpsmyndir hafi ekki verið lagðar fram í málinu þrátt fyrir umfjöllun kæranda í kæru. Skylda hvíli á bænum að kanna væntanlega útsýnisskerðingu, sér í lagi vegna athugasemda nágranna. Hafi aðrir kostir ekki verið skoðaðir sé útilokað að fullyrða um hvort meðalhófs hafi verið gætt.

Ekki hafi verið haft nægilegt samráð við íbúa þar sem það krefjist þess að brugðist sé við athugasemdum sem berist í samráðsferli. Réttur aðila máls til að veita andmæli sé til þess hugsaður að aðstoða stjórnvöld við að upplýsa málið og taka ákvörðun á grundvelli fullnægjandi upplýsinga. Þess sé krafist af stjórnvöldum að þau raunverulega taki andmæli og athugasemdir til skoðunar og bregðist við þeim efnislega, eftir atvikum með frekari gagnaöflun. Það væri ekki nóg að safna athugasemdum og svara þeim á standandi fæti til að kröfum stjórnsýslulaga sé fullnægt. Séu gerðar vægari kröfur sé hætt við að samráð við íbúa sé eingöngu til málamynda.

Sveitarfélagið hafi ekki haft neinar forsendur til að meta hagkvæmustu leiðina þar sem ekkert í gögnum málsins bendi til þess að aðrar leiðir hafi nokkurn tímann verið til skoðunar hjá bænum. Vinningstillaga úr hönnunarsamkeppni, sem byggt hafi á forsendum sem hafi verið í ósamræmi við þágildandi deiliskipulag, hafi verið eini kosturinn sem hafi komið til skoðunar. Nú hafi deiliskipulaginu verið breytt til að koma til móts við þá tillögu án þess að til íhugunar hafi komið aðrar útfærslur sem ekki hafi krafist deiliskipulagsbreytingar eða sem ekki hefðu í för með sér sama tjón gagnvart nágrönnum.

Í greinargerð bæjarins sé fullyrt að útsýnisskerðing geti ekki talist umtalsverð án þess að lögð séu fram gögn þeirri fullyrðingu til stuðnings. Auk þess sé haldið fram að íbúar við Holtsveg 14-18 muni áfram njóta útsýnis sem sé meira en almennt gerist í þéttbýli og á það bent að leikskólabyggingin sé með þeim lægri í hverfinu. Kærandi fái ekki séð að það skipti máli við úrlausn þessa máls. Útsýnisskerðing og skuggavarp verði ekki minna fyrir þær sakir að áfram sé eitthvað útsýni eða að leikskólabygging sé lægri en aðliggjandi íbúðarblokkir.

Sú fullyrðing að leikskólinn hafi í öndverðu verið kynntur sem tveggja hæða bygging sé öfugsnúin leið til að réttlæta breytingar á deiliskipulagi með sjónarmiðum um að væntingar bæjarins hafi verið ranglega reistar á grundvelli eldra skipulags. Skipulagsáætlanir hafi það markmið að sýna byggðarþróun til framtíðar og skapa þannig fyrirsjáanleika. Eðlileg við brögð við fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar hefðu verið að skoða fyrst hvort hægt væri að finna lausn sem samrýmdist því deiliskipulagi og næði þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að áður en ráðist væri í íþyngjandi deiliskipulagsbreytingar.

Stjórnsýsluskipan byggi á því að málsmeðferðar- og efnisreglur séu meira en formsatriði. Tryggja skuli að ákvarðanir séu teknar á grundvelli fullnægjandi upplýsinga og án þess að hagsmunir einstaklinga séu látnir líða án fullnægjandi réttlætingar og rökstuðnings. Bæjaryfirvöld hafi fyrirfram ákveðið niðurstöðu málsins á ómálefnalegum grundvelli og stytt sér leið um lögbundna málsmeðferð til að komast að henni. Samráð við íbúa og rannsóknir á öðrum hugsanlegum útfærslum hafi verið í skötulíki og það leiði óumflýjanlega til þess að málið sé ekki upplýst með fullnægjanlegu, hætti.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagsbreytingar á 1. áfanga norðurhluta Urriðaholts vegna lóðarinnar Holtsvegar 20. Skipulagsbreytingin var gerð í kjölfar þeirrar niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að fella bæri úr gildi byggingarleyfi fyrir leikskóla á umræddri lóð þar sem leyfið var ekki talið í samræmi við gildandi deiliskipulagsskilmála lóðarinnar.

Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga og geta þær með því haft áhrif á og þróað byggð og umhverfi með bindandi hætti. Sveitastjórnir annast og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga. Við beitingu þessa skipulagsvalds ber að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Meðal þeirra markmiða er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið ákvæðisins. Þá eru sveitarstjórnir jafnframt bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Breytir þar engu um það álitaefni hvort deiliskipulag eða breytingar á því teljist stjórnvaldsfyrirmæli eða stjórnvaldsákvörðun. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað og heimild til að breyta deiliskipulagi, sbr. 43. gr. skipulagslaga.

Fjallað er um skuggavarp í 1. mgr. b-liðar í gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð. Þar kemur fram að við ákvörðun um fjarlægð milli einstakra byggingarreita skuli taka tillit til sólarhæðar og skuggavarps eftir því hver notkun bygginganna sé. Þá er fjallað um skýringarmyndir og önnur fylgiskjöl deiliskipulagstillögu í gr. 5.5.4. og kemur þar fram að ef skýringaruppdrættir fylgi skuli vísa til þeirra í deiliskipulagi og að skýringaruppdrætti, svo sem skuggavarpsteikningar, sé heimilt að nota til að sýna áhrif af og dæmi um útfærslu deiliskipulags.

Kærandi, ásamt öðrum íbúum að Holtsvegi 14–18, gerðu athugasemdir á auglýsingatíma umdeildrar skipulagsbreytingar hvað varðaði skuggavarp. Ekki lágu fyrir skuggavarps­teikningar við kynningu breytingarinnar en vísað var til slíkra uppdrátta í svörum við fram­komnum athugasemdum. Þá var ekki gerð grein fyrir breytingu á skuggavarpi í hinu samþykkta deiliskipulagi. Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni var óskað eftir að þær skuggavarps­teikningar sem vísað hefði verið til í svörum við athugasemdum yrðu afhentar nefndinni og bárust þær með tölvupósti 18. desember 2023. Þær skuggavarpsteikningar sýna skuggavarp í júlí, apríl/september og desember kl. 9:00, 13:00 og 18:00. Af þeim gögnum verður ráðið að breyting á heimilaðri hæð umræddrar leikskólabyggingar muni hafa í för með sér óverulega breytingu hvað skuggavarp varðar. Þrátt fyrir að skuggavarpsteikningar hafi ekki legið fyrir við kynningu skipulagsbreytingarinnar þá hafa áhrif skuggavarps vegna umræddrar deiliskipulagsbreytingar verið könnuð í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar. Þótt heimiluð hækkun byggingarinnar í umræddri skipulagsbreytingu hafi vissulega einhver áhrif á útsýni frá fasteign kæranda verður að telja að sú útsýnisskerðing sé ekki umfram það sem íbúar í þéttbýli mega almennt búast við en horfa verður til þess að hækkun byggingarinnar samkvæmt skipulagsbreytingunni er einungis ein hæð og samkvæmt fyrirliggjandi skuggavarps­teikningum mun skuggi frá leikskólabyggingunni aðeins ná inn á lóð kærenda í desember­mánuði.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að umþrætt grenndaráhrif verði talin svo veruleg að réttur kæranda sé fyrir borð borinn í skilningi c-liðar 1. gr. skipulagslaga og þar sem aðrir ágallar liggja ekki fyrir sem áhrif geta haft á gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar verður kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Rétt þykir að benda á að telji kærandi sig geta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi getur hann eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla.

Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 15. júní 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga norðurhluta Urriðaholts vegna lóðarinnar nr. 20 við Holtsveg.

107/2023 Suðurnesjalína 2

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra Hraunavinir, Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 28. september 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 17. nóvember 2023.

Málavextir: Áform Landsnets um lagningu Suðurnesjalínu 2 eiga sér langan aðdraganda. Fjallað var um framkvæmdina í áliti Skipulagsstofnunar frá 17. september 2009 um mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína. Með dómum Hæstaréttar, uppkveðnum 12. maí 2016, í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015, voru felldar úr gildi heimildir til eignarnáms á nánar tilteknum jörðum vegna lagningar línunnar. Ákvörðun Orkustofnunar frá 5. desember 2013, um að veita Landsneti leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2, var felld úr gildi með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 13. október 2016, í máli nr. 796/2015.

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 22. júlí 2016 í máli nr. E-1121/2015 var felld úr gildi ákvörðun Sveitarfélagsins Voga um að veita framkvæmdaleyfi til að leggja Suðurnesjalínu 2, 220kV háspennulínu í lofti innan sveitarfélagsins. Staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu með dómi frá 16. febrúar 2017 í máli nr. 575/2016. Álitið var að matsferlið og umhverfismatsskýrsla framkvæmdarinnar uppfyllti eigi áskilnað laga, en umhverfisáhrifum jarðstrengs í samanburði við aðra framkvæmdakosti hefði ekki verið lýst á fullnægjandi hátt. Í kjölfarið felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi ákvarðanir Reykjanesbæjar, Grindavíkurbæjar og Hafnarfjarðarbæjar um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 með úrskurðum í málum nr. 75/2014, 42/2015 og 109/2015.

Í framhaldi var unnið nýtt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Hinn 6. júlí 2018 féllst Skipulagsstofnun á tillögu Landsnets að matsáætlun með nánar tilgreindum athugasemdum og 28. maí 2019 móttók stofnunin frummatsskýrslu Landsnets. Í skýrslunni kom fram að valkostir til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum væru sex talsins. Aðalvalkostur væri valkostur C, en samkvæmt honum væri um að ræða loftlínu sem færi um Hrauntungur og lægi hún samhliða Suðurnesjalínu 1 frá sveitarfélagamörkum Hafnarfjarðarbæjar og Sveitarfélagsins Voga. Frá Njarðvíkurheiði að Rauðamel lægi línan samhliða Fitjalínu 1. Jarðstrengur væri í báðum endum og lengd línunnar væri alls um 33,9 km. Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga samþykkti umsögn um frummatsskýrsluna á fundi 24. júní 2019 og lagði til að línan yrði lögð í jörð í stað loftlínu líkt og aðalvalkosturinn gerði ráð fyrir.

Í janúar 2020 lagði Landsnet fram matsskýrslu og óskaði eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í matsskýrslunni kom m.a. fram að ein 132kV raflína, Suðurnesjalína 1, sæi um allan flutning til og frá Suðurnesjum. Lægi hún frá Hamranesi í Hafnarfirði að Fitjum í Reykjanesbæ og væri flutningsgeta línunnar um 150MW. Áformaði Landsnet að byggja 220kV raflínu, Suðurnesjalínu 2, milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja sem yrði hluti af meginflutningskerfi raforku. Línan myndi liggja frá tengivirki í Hamranesi í Hafnarfirði og að tengivirki á Rauðamel í Grindarvík og færi óháð valkostum um fjögur sveitarfélög, þ.e. Hafnarfjarðarbæ, Sveitarfélagið Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ. Valkostir sem metnir hefðu verið í mati á umhverfisáhrifum væru sex. Þeir væru jarðstrengir (valkostir A og B), loftlínur (valkostir C og C2) og blönduð leið (valkostir D og E). Aðalvalkostur Landsnets var sem fyrr valkostur C.

Hinn 22. apríl 2020 lá fyrir álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í því kom m.a. fram að við þær aðstæður sem væru á áhrifasvæði framkvæmdarinnar teldi stofnunin margt mæla með því að leggja jarðstreng alla leið og þá sérstaklega valkost B, meðfram Reykjanesbraut. Ávinningur af því með tilliti til umhverfis­áhrifa, borið saman við loftlínuvalkosti, fælist í minni áhrifum á landslag og ásýnd, ferða­þjónustu og útivist, vistgerðir og gróður, svo og fuglalíf. Aðalvalkostur Landsnets hefði mest neikvæð áhrif allra skoðaðra valkosta á framangreinda þætti. Með tilliti til náttúruvár gæti jafnframt verið ávinningur af því að leggja línuna sem jarðstreng meðfram Reykjanesbraut fremur en sem loftlínu eða jarðstreng meðfram Suðurnesjalínu 1. Að auki mælti ýmislegt tengt byggða- og atvinnuþróun á Suðurnesjum með því að línan yrði lögð í jörð. Taldi stofnunin mat á umhverfisáhrifum Suðurnesjalínu 2 sýna fram á að lagning hennar sem jarðstrengs væri best til þess fallin að draga eins og kostur væri úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar, sbr. markmiðsákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum, og að þá væri valkostur B æskilegastur.

Í desember 2020 sótti Landsnet um framkvæmdaleyfi til Sveitarfélagsins Voga fyrir 220kV Suðurnesjalínu 2 innan sveitarfélagsins samkvæmt valkosti C. Á fundi bæjarstjórnar 24. mars 2021 var staðfest niðurstaða skipulagsnefndar frá fundi 16. s.m. þar sem m.a. var fært til bókar að mikilvægt væri að Suðurnesjalína 2 yrði lögð sem jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut. Með því móti væri áhætta sem kynni að verða af völdum náttúruhamfara minnkuð og þá væri sá valkostur í samræmi við álit Skipulagsstofnunar. Væri það niðurstaða bæjarstjórnar að umhverfismat Suðurnesjalínu 2 sýndi að lagning línunnar sem jarðstrengs væri best til þess fallin að draga eins og kostur væri úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar, sbr. markmiðsákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Æskilegasti framkvæmdakosturinn væri valkostur B meðfram Reykjanesbraut, en ekki valkostur C sem sótt hefði verið um. Var umsókninni því hafnað. Greind ákvörðun sætti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 4. október 2021 í máli nr. 53/2021, var ákvörðunin felld úr gildi.

Í úrskurði sínum tók nefndin m.a. fram að niðurstaða Skipulagsstofnunar væri lögð til grundvallar um ávinning jarðstrengs umfram loftlínu þegar kæmi að áhrifum framkvæmdarinnar á landslag og ásýnd, án þess að bæjarstjórn rökstyddi þessi atriði sérstaklega að teknu tilliti til umsagnar Umhverfisstofnunar. Væri rökstuðningurinn því haldinn sama ágalla og álit Skipulagsstofnunar hvað þetta varðaði. Meira máli skipti þó að ekki væri tekin afstaða til meginsjónarmiða Landsnets um öryggi loftlínu umfram jarðstreng. Yrði að telja að mat á þeim sjónarmiðum andspænis þeim sem lytu að umhverfislegum ávinningi og sem bæjarstjórn hefði byggt á hefði getað haft þýðingu fyrir afdrif umsóknarinnar. Þegar hafðir væru í huga þeir miklu hagsmunir sem undir væru, langur aðdragandi umsóknar um framkvæmdaleyfi og ítarleg málsmeðferð á þeim tíma, þættu greindir annmarkar á rökstuðningi bæjarstjórnar til þess fallnir að vekja réttmætan vafa um hvort synjun hennar hefði verið reist á málefnalegum grundvelli að teknu tillit til atvika allra. Var niðurstaða nefndarinnar sem fyrr greinir því sú að ógilda bæri hina kærðu ákvörðun.

Hinn 4. október 2021 kvað úrskurðarnefndin jafnframt upp úrskurði í kærumálum nr. 41, 46 og 57/2021 er lutu að ákvörðunum bæjarstjórna Grindavíkur, Reykjanesbæjar og Hafnarfjarðar um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 samkvæmt valkosti C innan marka viðkomandi sveitarfélags. Urðu lyktir greindra mála þær að ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar var felld úr gildi vegna annmarka á rökstuðningi, en að öðru leyti var kröfum um ógildingu hafnað. Þá taldi úrskurðarnefndin að álit Skipulagsstofnunar frá 22. apríl 2020 um mat á umhverfisáhrifum Suðurnesjalínu 2 væri haldið nokkrum ágöllum, en þó ekki þannig að á því eða mati á umhverfisáhrifum yrði ekki byggt við ákvörðun um framkvæmdaleyfi.

Í kjölfar þessa tók Sveitarfélagið Vogar umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi að nýju til meðferðar. Á fundi skipulagsnefndar 22. apríl 2022 kom fram að óskað hefði verið eftir afstöðu Skipulagsstofnunar til meintra ágalla sem úrskurðarnefndin hefði talið vera á áliti stofnunarinnar frá 22. apríl 2020. Jafnframt hefði verið ákveðið að fá sérfræðinga til að leggja mat á sjónarmið Landsnets um öryggi loftlínu í ljósi eldhræringa á Reykjanesi. Lögð var fram ný skýrsla um náttúru og eldgosavá í Sveitarfélaginu Voga sem var unnin af sérfræðingum hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, dags. í apríl 2022. Jafnframt var lagt fram svarbréf Skipulagsstofnunar, dags. 28. janúar 2022, en í því kom m.a. fram að stofnunin teldi að álit stofnunarinnar hefði ennþá lögformlegt gildi. Lagði skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að áður en málið yrði tekið til endanlegrar afgreiðslu yrði Landsneti veitt færi á að tjá sig um það, m.a. um þá fullyrðingu sem fram kæmi í niðurstöðukafla fyrrgreindrar skýrslu um að sú staðreynd að ný hrina eldsumbrota væri hafin á Reykjanesi kallaði á endurskoðun fyrri áætlana um staðsetningar á mikilvægum innviðum eins og Suðurnesjalínu 2. Teldi Landsnet ekki þörf á slíkri endurskoðun væri óskað eftir ítarlegum rökstuðningi fyrir þeirri afstöðu og endurskoðuðu áhættumati. Svarbréf Landsnets, dags. 6. maí s.á., var lagt fram á fundi skipulagsnefndar 14. júní 2022 og sviðstjóra umhverfis- og skipulagssviðs falið að vinna áfram að málinu.

Skipulagsnefnd tók málið fyrir að nýju á fundi 29. ágúst 2022. Taldi nefndin óumdeilt, með vísan til niðurstöðu matsskýrslu, álits Skipulagsstofnunar frá 22. apríl 2020 og úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 53/2021, að lagning Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu samkvæmt fyrirliggjandi umsókn, þ.e. samkvæmt valkosti C, hefði í heildina flest neikvæð umhverfisáhrif. Mælti margt með því að leggja línuna í jarðstreng alla leið innan sveitarfélagsins Voga, samkvæmt valkosti B í umhverfismatinu, en sá valkostur væri að auki í samræmi við ákvæði aðalskipulags sveitarfélagsins. Þá yrði ekki dregin önnur ályktun af framangreindri skýrslu um náttúru- og eldgosavá í sveitarfélaginu en að vegna áhættu á hraunrennsli væri, hvað sem öðru liði, ekki skynsamlegt að byggja Suðurnesjalínu 2 við hlið Suðurnesjalínu 1 á miðju áhættusvæði sem erfitt væri að verja. Það myndi raska afhendingaröryggi rafmagns á Suðurnesjum og lína á öðrum stað myndi strax auka afhendingaröryggi. Taldi skipulagsnefndin því að það væri andstætt sjónarmiðum um afhendingaröryggi rafmagns á Suðurnesjum að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir byggingu línu samkvæmt valkosti C og lagði til við bæjarstjórn að umsókninni yrði hafnað.

Umsókn um framkvæmdaleyfi var tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar 6. október 2022, en málinu hafði verið frestað á fundi bæjarstjórnar 31. ágúst s.á. Kom fram að haldinn hefði verið fundur með fulltrúum Landsnets 16. september s.á. og að meðfylgjandi útsendri dagskrá væru fylgigögn sem þeir hefðu kynnt á fundinum. Jafnframt fylgdu útsendri dagskrá eftirfarandi ný fylgigögn frá Landsneti: „1. Minnisblað Landnets um mekanískt þol jarðstrengja, dagsett 3.10.2022, móttekið 3.10.2022. 2. Minnisblað SN2 – Mat á náttúruvá, rýni á skýrslu Jarðvísindastofnunar, tekið saman af Verkfræðistofunni Eflu fyrir Landsnet dagsett 2.7.2020, móttekið 22.09.2022. 3. Hafnarfjörður – Suðurnes, Suðurnesjalína 2, glærukynning Landsnets af fundi með fulltrúum bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga, dagsett 16.09.2022, móttekið 21.09.2022. 4. Drög að skýrslu um Jarðvá á Reykjanesi og greiningu á viðbúnaði veitufyrirtækja vegna orkuinnviða, dagsett mars 2021, móttekið 21.09.2022.“ Forseti bæjarstjórnar lagði til að skipulagsnefnd yfirfæri tillögu sína að afgreiðslu með hliðsjón af þeim upplýsingum sem lagðar hefðu verið fram og var það samþykkt samhljóða. Var málið til umræðu á fundum skipulagsnefndar 24. október 2022 og 13. desember s.á.

Málið var tekið fyrir á ný á fundi skipulagsnefndar 17. janúar 2023. Á fundinum kom fram að farið hefði verið yfir nýjustu gögn Landsnets í málinu. Lægi fyrir greinargerð jarðeðlisfræðings um bergsprungur í nágrenni Voga og minnisblað Lotu verkfræðistofu um rýni á mekanísku þoli jarðstrengja. Einnig lægi fyrir umsögn Landsnets vegna framangreindra gagna. Óskaði skipulagsnefnd eftir því að áður en tekin yrði endanleg ákvörðun myndi Landsnet upplýsa um hver væri kostnaðarmunur á valkosti B og valkosti C. Jafnframt að veitt yrðu nánari gögn sem gerðu á hlutlægan hátt grein fyrir þeim áhrifum á kerfi Landsnets að leggja Suðurnesjalínu 2 sem jarðstreng, þ.m.t. upplýsingum um hvar þörf væri á að leggja slíka strengi í framtíðinni sem mögulega gæti haft áhrif á ráðstöfun jarðstrengja vegna Suðurnesjalínu 2. Auk þess taldi nefndin að nauðsynlegt væri að óska álits Skipulagsstofnunar á því hvort endurskoða þyrfti umhverfismat framkvæmdarinnar í heild eða hluta. Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 27. janúar 2023, kom fram stofnunin hefði ekki heimild til að taka ákvörðun um endurskoðun matsskýrslu vegna Suðurnesjalínu 2, en skilyrðum 1. mgr. 12. gr. áðurgildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum væri ekki fullnægt. Þá fundaði skipulagsnefnd 22. febrúar s.á. með aðilum frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Landsneti um málið.

Hinn 29. júní 2023 var umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar og fyrirliggjandi drög að greinargerð bæjarstjórnar samþykkt. Lagði nefndin til að fallist yrði á umsóknina samkvæmt valkosti C með vísan til rökstuðnings og þeirra skilyrða sem fram kæmu í 5. kafla í tillögu að greinargerð bæjarstjórnar, m.a. um að hluti Suðurnesjalínu 1, þar sem hún lægi næst Reykjanesbraut og þéttbýlinu í Vogum, yrði strax lagður sem jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut. Var í því sambandi vísað til samkomulags milli Sveitarfélagsins Voga og Landsnets þess efnis og nánari rökstuðningur færður fyrir ákvörðuninni. Greind afgreiðsla var staðfest á fundi bæjarstjórnar 30. júní 2023 og fyrirliggjandi tillaga að greinargerð bæjarstjórnar, dagsett í júní 2023, samþykkt. Þá var m.a. fært til bókar að andstaða sveitarfélagsins hefði að mestu byggt á sjónrænum áhrifum af nýrri og stærri línu við hlið núverandi línu og sjónarmiðum um öryggi, einkum vegna jarðvár. Nú lægi fyrir samkomulag á milli aðila um að um að taka bæri niður núverandi loftlínu, Suðurnesjalínu 1, í öllu sveitarfélaginu, og leggja hana þess í stað sem jarðstreng ekki seinna en innan 25 ára. Með samkomulagi þessu teldi bæjarstjórn að komið væri til móts við sjónarmið sveitarfélagsins um að til framtíðar litið lægju ekki tvær háspennulínur í lofti um sveitarfélagið með tilheyrandi sjónrænum áhrifum. Með því að leggja Suðurnesjalínu 1 í jörðu norðan við línustæði núverandi línu, yrði afhendingaröryggi kerfisins í heild aukið til muna m.t.t. jarðvár eftir að þeim framkvæmdum yrði lokið. Samþykkti bæjarstjórn umsóknina, með þeim skilyrðum fyrir framkvæmdinni sem fram kæmu í umsókn Landsnets, matsskýrslu, áliti Skipulagsstofnunar og skipulagi auk skilyrðis um að eftir að framkvæmdum við Suðurnesjalínu 2 lyki yrði hluti Suðurnesjalínu 1 strax tekinn niður og lagður sem jarðstrengur á þeim hluta þar sem línan lægi næst Reykjanesbraut og þéttbýlinu í Vogum, á um 5 km kafla í austurátt frá Grindavíkurvegi að Vogaafleggjara, háð frekari greiningu og útfærslu við hönnun. Var skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið að uppfylltum skilyrðum.

Fyrirhuguð Suðurnesjalína 2 er alls um 33,9 km og yrðu 103 möstur á línuleiðinni. Samkvæmt umsókn um framkvæmdaleyfi er línuleiðin innan sveitarfélagsins Voga 17,26 km löng. Alls eru 52 möstur á línuleiðinni og er meðalhæð burðarmastra 22,7 m og meðalhæð horn/fastmastra 19,11 m. Meðalhaflengd milli mastra er 337 m.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að verulegir form- og efnisannmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun. Afgreiðsla bæjarstjórnar hafi hvorki verið í samræmi við 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 né 3. mgr. 13. gr. áðurgildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Við ákvörðun um leyfisveitingu hafi niðurstaða í áliti Skipulagsstofnunar frá 22. apríl 2020 ekki verið lögð til grundvallar, líkt og áskilið sé í lögum. Verulega skorti á rökstuðning fyrir því hvers vegna vikið hafi verið frá niðurstöðu álitsins og þeirri niðurstöðu sem lýst sé á blaðsíðu 66 í greinargerð sveitarfélagsins með framkvæmdaleyfinu um að lagning línunnar sem jarðstreng sé best til þess fallin að draga eins og kostur sé úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar. Álit Skipulagsstofnunar sé bindandi fyrir sveitarstjórnir nema til komi algjörlega sérstök og málefnaleg rök sem styðji aðra niðurstöðu. Að öðrum kosti myndi álitið ekki þjóna neinum tilgangi og hlutverk Skipulagsstofnunar væri gert að engu sem væri í andstöðu við lögin. Þá hafi sveitarfélagið ekki sinnt á fullnægjandi hátt rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ljóst sé af því sem fram komi á blaðsíðum 69–70 í greinargerð bæjarstjórnar með framkvæmdaleyfinu að færðar séu fram röksemdir gegn leyfinu í stað þess að hin kærða ákvörðun sé rökstudd. Öll greinargerðin lúti að því að rökstyðja kröfu sveitarfélagsins, byggða á áliti Skipulagsstofnunar, um að Suðurnesjalínu 2 beri að leggja í jörð. Sveitarfélagið hafi hvað öryggi varðar gegnt rannsóknarskyldu sinni þar um og m.a. lagt fram nýja skýrslu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands sem bendi einnig til að jarðstrengur norðar á svæðinu, til viðbótar við núverandi Suðurnesjalínu 1, sé betri kostur með tilliti til jarðvár og öryggis raforkuflutnings en tvær samsíða loftlínur. Almennt verði að líta svo á að í rökstuddri afstöðu sveitarstjórnar í skilningi 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga verði að felast efni rökstuðnings sem uppfylli áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga. Sé vísað til úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindmála í málum nr. 46/2016 og nr. 95/2016 í þessu sambandi.

Engin grenndarkynning hafi farið fram vegna framkvæmdarinnar, en ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir umrætt framkvæmdasvæði. Ekki sé fjallað ítarlega um framkvæmdina í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Þótt tvær 220kV loftlínur séu á skipulaginu komi jafnframt fram í greinargerð aðalskipulagsins að gert sé ráð fyrir því að nýjar rafmagnslínur verði lagðar í jörð, þar sem því verði við komið. Þar sem rafmagnslínur verði ofanjarðar (loftlínur) verði leitast við að draga úr sjónrænum áhrifum eins og frekast sé kostur. Í greinargerð sveitarfélagsins sé haft eftir úr svörum Landsnets um grenndarkynningu í stað þess að sveitarfélagið hafi sinnt sjálfstæðri rannsóknarskyldu sinni. Það standist ekki skoðun að vísa til úrskurða úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 41 og 57/2021 vegna framkvæmdaleyfa Grindavíkurbæjar og Reykjanesbæjar við ákvörðun Sveitarfélagsins Voga á því hvort grenndarkynningar hafi verið þörf. Línuleið innan lands Grindavíkur séu aðeins þrjú möstur. Meira en helmingur línuleiðarinnar sé innan Sveitarfélagsins Voga, eða 17,26 km og fjöldi mastra 52 talsins. Sýnileiki nýrrar loftlínu með Reykjanesbrautinni verði gríðarlegur í Sveitarfélaginu Vogum og að mestu á einkalandi, þar sem ekki hafi náðst samningar við alla landeigendur. Hagsmunir hagsmunaaðila séu því gerólíkir milli sveitarfélaga. Aðilum málsins hafi því ekki verið gefið færi á andmælarétti, hvorki náttúruverndarsamtökum sem hafi látið sig málið varða frá upphafi, landeigendum eða öðrum hagsmunaaðilum. Hin kærða ákvörðun, sem sé í andstöðu við fyrri ákvörðun hljóti að kalla fram andmælarétt eins og lög geri ráð fyrir, sérstaklega í ljósi þess að framkvæmdaleyfið hafi verið fellt úr gildi fyrir Hæstarétti og augljóst sé að framkvæmdin sé umdeild.

Samkvæmt 14. gr. skipulagslaga sé óheimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Jafnframt sé vísað til 25. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana varðandi leyfi til framkvæmda. Leyfi Orkustofnunar í Kerfisáætlun 2018–2027 geti ekki staðist sem grundvöllur fyrir veitingu framkvæmdaleyfis þar sem umhverfismati framkvæmdarinnar hafi ekki lokið fyrr en með áliti Skipulagsstofnunar 22. apríl 2020. Í Kerfisáætlun 2018–2027 sé valkostur C, loftlína, lögð fram með fyrirvara um niðurstöður umhverfismats Suðurnesjalínu 2. Hluti kærenda máls þessa hafi gert athugasemdir við drög að áætluninni um að Suðurnesjalína 2 væri sett á framkvæmdaráætlun og þegar þá valinn einn valkostur umfram aðra þótt nýtt umhverfismat hafi verið á upphafsstigi og samanburði valkosta ekki lokið. Niðurstaða umhverfimatsins hafi verið sú að jarðstrengur með Reykjanesbraut væri besti valkosturinn en ekki 220kV loftlína. Landsneti hafi því borið að endurskoða valkostinn í kerfisáætlun eins og boðað hafi verið. Sveitarfélagið hafi ekki kannað réttmæti leyfis Orkustofnunar um framkvæmdina og leiði það eitt og sér til ógildingar framkvæmdaleyfisins.

Við afgreiðslu Orkustofnunar á kerfisáætlun Landsnets hafi almenningur verið sviptur lögbundnum þátttökurétti við undirbúning ákvörðunarinnar sem og kærurétti. Vanræksla Orkustofnunar á því að viðurkenna aðild náttúruverndarsamtaka að málsmeðferð um afgreiðslu framkvæmdarhluta kerfisáætlunar, þá alveg sérstaklega að því er varði Suðurnesjalínu 2, svo og vanræksla íslenska ríkisins á því að veita náttúruverndarsamtökum rétt til kæru á leyfi/samþykki Orkustofnunar fyrir framkvæmdinni hjá óháðri og óhlutdrægri stofnun og svipta þau slíkum rétti með breytingu á lögum, verði að teljast brot á reglum EES-réttarins og íslenskum lögum.

Að lokum sé markleysa og andstætt umhverfismatslöggjöf að höfða til stefnu stjórnvalda um lagningu raflína til að rökstyðja valkost framkvæmdaraðila. Sú stefna, sem ákvörðuð sé á grundvelli þingsályktunar nr. 11/144, hafi ekkert gildi andspænis óyggjandi niðurstöðu umhverfismats og áliti Skipulagsstofnunar skv. lögum nr. 106/2000. Slík röksemd fyrir valkosti sé svo fráleit að hún hljóti að valda ógildingu þeirra stjórnarathafna sem á henni byggi.

Málsrök Sveitafélagsins Voga: Sveitarfélagið áréttar að álit Skipulagsstofnunar frá 22. apríl 2020 hafi verið lagt til grundvallar við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Tekið hafi verið mið af álitinu og niðurstöðu þess, en einnig því sem gerst hafi eftir að álitið hafi legið fyrir. Þegar málið hafi verið tekið fyrir að nýju hjá sveitarfélaginu hafi það leitast við að afla nýrra gagna og upplýsinga til að upplýsa málið enn frekar, einkum að teknu tilliti til þeirra annmarka á rökstuðningi bæjarstjórnar sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi talið vera fyrir hendi í máli nr. 53/2021. Vegna jarðhræringa á Reykjanesi, sem upp hafi komið eftir fyrri umfjöllun sveitarfélagsins, hafi sjónum sérstaklega verið beint að öryggi línanna.

Sveitarfélagið hafi óskað eftir afstöðu Skipulagsstofnunar til þeirra athugasemda sem fram hafi komið í úrskurði úrskurðarnefndarinnar og varðað hafi álit stofnunarinnar. Jafnframt hafi verið farið fram á við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands að stofnunin ynni skýrslu um áhrif eldgosa og náttúruvá innan sveitarfélagsins og lagt yrði mat á línuleiðir sem mögulegar væru innan þess. Í framhaldinu hafi verið óskað eftir afstöðu Landsnets m.a. með tilliti til þess hvort ný hrina eldsumbrota á Reykjanesi kallaði á endurskoðun fyrri áætlana um staðsetningu á mikilvægum innviðum eins og Suðurnesjalínu 2. Jafnframt hafi verið beðið um ítarlegan rökstuðning teldi Landsnet ekki þörf á slíkri endurskoðun og endurskoðuðu áhættumati, m.a. með tilliti til villu í fyrra mati, þar sem borin væri saman áhætta vegna höggunarhreyfinga og hraunflæðis á umsóttri framkvæmd og jarðstreng meðfram Reykjanesbraut m.a. með hliðsjón af því að hafin væri ný hrina eldsumbrota. Í svarbréfi Landsnets hafi m.a. komið fram að það hefði unnið með Almannavörnum og Veðurstofunni að áhættumati fyrir Suðurnesjalínu 1 vegna eldgosa og látið bera saman öryggi loftlína og jarðstrengs m.t.t. höggunarhreyfinga sem væru á línuleiðum Suðurnesjalínu 2. Niðurstöður þessara greininga styddu niðurstöðu Landsnets að loftlína samkvæmt valkosti C væri ákjósanlegasti kosturinn þegar litið væri til allra nauðsynlegra þátta við ákvarðanatöku.

Landsnet hafi í kjölfarið lagt fram ný gögn í málinu. Hafi sveitarfélagið óskað eftir mati óháðra aðila á þeim gögnum og veitt síðan Landsneti tækifæri til að tjá sig um það mat. Í svari þess hafi komið fram að það teldi að gögnin staðfestu fyrirliggjandi upplýsingar um sprunguhreyfingar á því svæði sem umsókn um framkvæmdaleyfi lyti að og um mekanískt þol jarðstrengja. Óskað hefði verið upplýsinga frá Landsneti um hver væri kostnaðarmunur á valkosti B og valkosti C og nánari gagna sem gerðu á hlutlægan hátt grein fyrir þeim áhrifum á kerfi Landsnets að leggja Suðurnesjalínu 2 sem jarðstreng, þ.m.t. upplýsingum um hvar þörf væri á að leggja slíka strengi í framtíðinni sem mögulega gætu haft áhrif á ráðstöfun jarðstrengja vegna Suðurnesjalínu 2. Í svarbréfi Landsnets hefði m.a. komið fram að skýrslur sem unnar hefðu verið fyrir báða aðila staðfestu það mat fyrirtækisins að jarðstrengur væri ekki valkostur enda hefðu mælingar á hreyfingum á svæðinu í nýjustu goshrinu mælst yfir þoli jarðstrengja. Þá hafi verið sent erindi til Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þyrfti  umhverfismat framkvæmdarinnar í heild eða hluta.

Þrátt fyrir framangreinda upplýsingaöflun og gögn hafi sveitarfélagið enn talið misræmi í gögnum málsins. Svör Landsnets vegna skýrslna frá sérfræðingum hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og jarðeðlisfræðings hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, m.a. í bréfum, dags. 6. maí 2022, 31. ágúst s.á. og 10. janúar 2023, væru í grófum dráttum á þá lund að greindar skýrslur og gögn breyttu ekki því meginsjónarmiði Landsnets að loftlínur væru öruggari en jarðstrengir við þær aðstæður sem væru á framkvæmdasvæðinu. Sveitarfélagið hafi talið, m.a. eftir fundi með höfundum skýrslnanna, að niðurstöður þeirra bentu í aðra átt, þ.e. að öryggi m.t.t. jarðvár myndi ekki aukast með nýrri loftlínu samsíða núverandi línu. Vegna þessa og til að leitast við að skýra málið enn frekar og fá milliliðalausa umfjöllun um það hafi skipulagsnefnd boðað greinda sérfræðinga á fund nefndarinnar ásamt fulltrúum Landsnets til að fara yfir fyrirliggjandi gögn og ræða þau.

Sérfræðingar á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hafi m.a. bent á að eins og umsókn Landsnets lægi fyrir væri Suðurnesjalína 2 loftlína sem lægi samsíða Suðurnesjalínu 1 sunnan við Reykjanesbraut. Það fyrirkomulag setti línurnar tvær á sama áhættusvæði og gerðist eitthvað á því svæði færu því báðar línurnar út. Með tilliti til öryggis af völdum jarðvár væri skynsamlegra að hafa línurnar á sitthvoru áhættusvæðinu jafnvel þótt ekki væri farið norður fyrir Reykjanesbraut. Þannig væri áhættu vegna mögulegrar náttúruvár dreift og betur stuðlað að afhendingaröryggi raforku til og frá svæðinu. Hafi sérfræðingar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands verið sammála um að því norðar sem línan færi því minni áhætta væri að báðar línur færu út af völdum jarðvár. Töluvert meiri áhætta væri sunnan Reykjanesbrautar en norðan m.t.t. eldsumbrota. Miða yrði við að líklega væri hafið langt tímabil eldsumbrota á Reykjanesi og að endurskoða þyrfti fyrri áætlanir um lagningu línunnar. Norðan við Reykjanesbraut væru t.d. fáar og litlar sprungur og harla ólíklegt að þar kæmi til eldsumbrota. Afskriftartími línunnar væri um 50 ár og fastlega mætti búast við að gysi á þeim tíma og líklegra en ekki að það yrði fleiri en eitt gos.

Fram hafi komið að það væru sérstaklega tvö svæði sem væru erfið hvað hraunrennsli varðaði, þ.e. Kúagerði og „upp á höfða“. Farið hafi verið yfir mögulegar lausnir til þess að verja línurnar fyrir hraunrennsli. Þá væri mögulega hægt að hafa línuna í jörð meginhluta leiðarinnar en taka hana upp á mestu áhættusvæðunum og staðsetja möstur þar sem minnst áhætta væri á hraunflæði. Sérfræðingarnir hafi talið að fara þyrfti yfir allar mögulegar breytur enda hafi forsendur breyst verulega frá því verkefnið hafi farið af stað og umhverfismat vegna verkefnisins hafi verið unnið. Fara þyrfti yfir hvar myndi líklegast  gjósa, hvernig hraunið myndi haga sér, hvert það myndi renna o.fl. Jafnframt að allar lausnir þyrftu að vera hugsaðar til enda. Ávallt þyrfti að skoða hvert flæðigarðar og varnargarðar myndu beina hrauninu og hvar það myndi enda. Komið hafi fram á fundinum að Landsnet hefði ekki gert sérstakar greiningar varðandi gerð flæðigarða og staðsetningu þeirra eða áætlanir um viðbrögð. Þá hafi komið fram að gera þyrfti skýran greinarmun á jarðskjálftum annars vegar og bergsprunguhreyfingum hins vegar.

Aðspurð hafi jarðeðlisfræðingurinn sagt að ekki væri miklar líkur á að jarðskjálftar ættu upptök sín norðan við Reykjanesbraut og vel mætti finna leið norðan Reykjanesbrautar þar sem hraunið væri ekki sprungið. Á fundinum hafi fulltrúar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands bent á að við mat á kostnaði þyrfti mögulega að taka tillit til áætlaðs kostnaðar við gerð flæðigarða og annarra mótvægisaðgerða vegna náttúruvár á þeirri leið sem aðalvalkostur Landsnets hafi gert ráð fyrir að línan myndi liggja um. Fulltrúar Landsnets hafi upplýst um að slíkar áætlanir eða mat á kostnaði á þeim lægju ekki fyrir. Í kjölfar fundarins hafi Landsnet aflað skýrslu frá verkfræðistofunum EFLU og Verkís. Meginniðurstaða hennar hafi verið sú að með tilliti til raforkuöryggis á Suðurnesjum vegna tjónnæmis gagnvart jarðvá væri Suðurnesjalína 2 sem loftlína betri kostur en jarðstrengur. Í því mati vægi þungt að viðgerðartími vegna tjóns á jarðstreng væri verulega lengri en loftlínu og þar af leiðandi væri ótiltæki jarðstrengs meiri. Auk þessa hafi embættismenn sveitarfélagsins og kjörnir fulltrúar fundað um málið með hinum ýmsu stjórnvöldum, þ.m.t. ráðherrum, í þeim tilgangi að gera þeim grein fyrir fyrirliggjandi gögnum og stöðu málsins og leita lausna án þess þó að slíkar fyndust.

Ljóst sé að sveitarfélagið hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 áður en ákvörðun hafi verið tekin í málinu. Um leið hafi bæjarstjórn bætt úr umfjöllun sinni og aflað ítarlegra upplýsinga um áhrif jarðvár á val á línuleið og mismun loftlínu og jarðstrengja. Þá hafi bæjarstjórn sérstaklega fjallað um álit Umhverfisstofnunar um röskun á jarðminjum skv. a-lið 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Því sé mótmælt að álit Skipulagsstofnunar sé bindandi. Úrskurðarnefndin hafi talið að svo væri ekki, sbr. t.d. umfjöllun þar um í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 95/2016. Á blaðsíðum 65–71 í niðurstöðukafla greinargerðar sveitarfélagsins með framkvæmdaleyfinu sé gerð grein fyrir því að bæjarstjórn taki enn undir álit Skipulagsstofnunar um valkost B, en jafnframt sé rökstutt hvers vegna fallist sé að veita framkvæmdaleyfi fyrir valkosti C. Að auki sé ítarlegur rökstuðningur í bókun bæjarstjórnar við afgreiðslu málsins. Rökstuðningurinn sé ítarlegur, skýr og í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga. Færð séu lögmæt og málefnaleg rök fyrir því að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 samkvæmt valkosti C, þrátt fyrir álit Skipulagsstofnunar. Eigi forsendur niðurstöður úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 46/2016 og nr. 95/2016 ekki við í máli þessu. Rannsókn og undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið ítarlegur og málefnalegur. Málsmeðferð, málavextir og rökstuðningur sveitarstjórna í greindum málum sé á engan hátt sambærilegur og styðji niðurstaða téðra úrskurða frekar þá niðurstöðu, á grundvelli gagnályktunar, að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Ekki hafi verið talin ástæða til að grenndarkynna umsókn um framkvæmdaleyfi með vísan til umfjöllunar um framkvæmdina í aðalskipulagi og svæðisskipulagi og þá ítarlegu málsmeðferð sem málið hafi fengið. Bæjarstjórn hafi við þá ákvörðun jafnframt byggt á niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 57/2021 og 41/2021. Auk framangreinds varði grenndarkynningin ekki lögvarða hagsmuni kærenda og geti þeir ekki byggt á þeirri málsástæðu. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga beinist grenndarkynning að nágrönnum, þ.e. þeim sem eigi einstaklegra og lögákveðinna hagsmuna að gæta, en ekki að öðrum. Kærendur séu félagasamtök sem hvorki eigi fasteignir á línuleiðinni né nálægt henni eða annars konar einstaklega og lögvarða hagsmuni. Aðild þeirra sé sérstök og lögákveðin á grundvelli almennra sjónarmiða. Ekki hafi borist kæra frá eigendum fasteigna á svæðinu og enn síður hafi þeir gert athugasemd við að umsóknin hafi ekki verið grenndarkynnt. Hinn meinti ágalli um skort á grenndarkynningu hafi enga þýðingu varðandi þá hagsmuni sem kærendum sé ætlað að gæta né breyti neinu um möguleika þeirra á frekari aðkomu að málinu.

Þá sé ekki talin ástæða til að tjá sig um aðrar málsástæðurekærenda, en vísað til gagna málsins og gildandi laga varðandi athugasemdir um leyfi Orkustofnunar í Kerfisáætlun 2018-2027.

Athugasemdir Landsnets: Leyfishafi hafnar því sem röngu og ósönnuðu að hin kærða ákvörðun sem og öll afgreiðsla málsins sé haldin verulegum form- og efnisannmörkum.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi sveitarfélagið staðið að gagnaöflun og margvíslegri vinnu til grundvallar ákvörðunartöku sinni. Ítrekað hafi verið fjallað um fyrirhugað framkvæmdaleyfi á fundum skipulagsnefndar og bæjarstjórnar. Beri ákvörðunin og öll gögn málsins með sér að stjórnvaldið hafi rannsakað málið ítarlega og kynnt sér gögn frá öðrum, metið gildi þeirra og vegið lögmæt sjónarmið er mæli með útgáfu leyfisins. Í ítarlegri greinargerð bæjarstjórnar með framkvæmdaleyfinu hafi verið tekin rökstudd afstaða til álits Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar, matsskýrslu framkvæmdar og greinargerðar Landsnets. Sérstaklega hafi verið samið milli aðila um breytingu á Suðurnesjalínu 1 í þágu atvinnuþróunar innan sveitarfélagsins og hafi þau lögbundnu sjónarmið við ákvörðunina verið sérstaklega vel ígrunduð. Athyglisvert sé að kærendur víki ekki að þeim forsendum sem legið hafi að baki ákvörðuninni, m.a. nefndu samkomulagi sem byggi á því að afhending raforku verði eins örugg og mögulegt sé á svæðinu og muni þá einnig hafa jákvæð umhverfisáhrif í för með sér. Ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að rannsóknarskyldu hafi ekki verið fullnægt.

Því sé hafnað að verulegir ágallar hafi verið á rökstuðningi bæjarstjórnar eða hún hafi ekki fylgt lögum við töku ákvörðunarinnar. Láti kærendur enda undir höfuð leggjast að fjalla um þýðingu allra þeirra gagna sem fylgt hafi umsókn um framkvæmdaleyfi og sem einnig hafi verið grundvöllur ákvörðunarinnar, svo og gagna sem sveitarfélagið hafi aflað og útbúið sjálft til undirbúnings og rökstuðnings ákvörðuninni. Fyllilega sé ljóst af lestri rökstuðningsins í greinargerð hvers vegna ákveðið hafi verið að fallast á umsóknina og hafi verið tekin afstaða til ýmissa atriða allt frá upphafsblaðsíðum greinargerðarinnar. Ítarlega sé gerð grein fyrir því að framkvæmdin sé í samræmi við svæðisskipulag og aðalskipulag svæðisins, skilgreind verndarsvæði og vatnsverndarsvæði samkvæmt skipulagi og skilgreindar náttúruminjar sem taka þurfi tillit til. Þá komist sveitarfélagið að þeirri niðurstöðu að öll áskilin gögn hafi legið fyrir þannig að heimilt sé að taka umsóknina til afgreiðslu og að umsótt framkvæmd sé í samræmi við þá framkvæmd sem lýst sé í matsskýrslu.

 Í greinargerðinni komi fram að þar sem sveitarfélagið og Landsnet hafi gert samkomulag um að Suðurnesjalína 2 verði lögð samkvæmt valkosti C sé ekki sérstök ástæða til að fjalla nánar um afstöðu Umhverfisstofnunar hvað varði 220kV jarðstreng, enda fallist á þá leið sem stofnunin hafi talið besta kostinn innan sveitarfélagsins. Áhrif á eldhraun og jarðmyndanir verði því minni en við framkvæmdir vegna 220kV jarðstrengs. Með samkomulagi við Landsnet um að taka niður Suðurnesjalínu 1 innan sveitarfélagsins og leggja sem jarðstreng að loknum hinum umdeildu framkvæmdum hafi sjónarmiðum sveitarfélagsins verið mætt. Rökstuðningur hafi verið færður fyrir því að öryggi á afhendingu raforku í heild yrði aukið til muna með tilliti til hugsanlegrar jarðvár og komið hafi verið til móts við sjónarmið um neikvæð sjónræn áhrif. Ljóst sé að sveitarfélagið hafi metið þau umhverfisáhrif sem verði af lagningu Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu og borið saman við þá brýnu hagsmuni sem felist í styrkingu á flutningskerfi raforku og talið nauðsynlega styrkingu kerfisins réttlæta þá framkvæmd sem hin kærða ákvörðun varði. Engir þeir annmarkar séu á rökstuðningi sem leiða skuli til ógildingar ákvörðunarinnar.

Álit Skipulagsstofnunar sé ekki bindandi fyrir Sveitafélagið Voga og í lögum sé hvergi gerð krafa um að framkvæmdaleyfi sé í samræmi við álit stofnunarinnar. Í 3. mgr. 13. gr. áðurgildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé beinlínis gert ráð fyrir því að leyfisveitandi geti með rökstuddum hætti vikið frá áliti stofnunarinnar. Því fari fjarri að álitið sé eina gagnið sem stuðst sé við ákvörðunartöku um hvort veita eigi leyfi. Sá verulegi ágalli sé á rökstuðningi í kæru að kærendur taki ekki heildstæða afstöðu til þeirra lögbundnu sjónarmiða sem bæjarstjórn hafi borið að taka tillit til við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Byggi það einkum á þeim skyldum sem hvíli á sveitarstjórnum samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011, sbr. 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna, svo og 2. mgr. 24. gr. þeirra. Þetta sé einnig staðfest með dómaframkvæmd Hæstaréttar, t.d. í máli nr. 575/2016. Einnig hafi verið fjallað um þetta atriði í úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málum nr. 41, 46, 53 og 57/2021. Af gögnum málsins sé ljóst að sveitarfélagið hafi lagt álit Skipulagsstofnunar til grundvallar við meðferð málsins og sé ítarlega og ítrekað fjallað um þýðingu þess í gögnunum. Bæjarstjórn hafi framfylgt öllum lögbundnum skyldum sínum við ákvörðunartöku í máli þessu.

Það hafi ekki áhrif á mat á þörf fyrir grenndarkynningu hversu löng línuleiðin sé innan Sveitarfélagsins Voga. Hagsmunir þeirra sem kynningunni sé beint að séu enda almennt jafn ríkir, en almennt ráðist fjöldinn hlutlægt séð af því hvort línuleiðin sé löng eða stutt. Um sambærilegar aðstæður sé að ræða og í úrskurðum nefndarinnar í málum nr. 41/2021 og 57/2021. Þar sem ítarlega sé fjallað um framkvæmdina í aðalskipulagi, svæðisskipulagi, umhverfisskýrslu Kerfisáætlunar 2018–2027 og mati á umhverfisáhrifum hafi hvorki þurft að liggja fyrir deiliskipulag né grenndarkynning að fara fram. Til viðbótar verði ekki séð hverju grenndarkynning hefði skilað til viðbótar við þegar fyrirliggjandi gögn, samráðsferli og mat á umhverfisáhrifum. Þá sé ljóst að Suðurnesjalína 2 liggi í talsverðri fjarlægð frá íbúabyggð og vandséð hverjir gætu talist nágrannar sem kynna ætti framkvæmdina fyrir.

Landsnet sé ósammála þeirri túlkun kærenda að hagsmunaaðilum hafi ekki verið veittur andmælaréttur og að aukinn andmælarétt hafi þurft að veita þar sem niðurstaða sveitarfélagsins hafi orðið önnur en áður, þar sem framkvæmdin sé umdeild og þar sem fyrra framkvæmdaleyfi hafi verið fellt úr gildi í Hæstarétti. Þau sjónarmið sem kærendur tefli fram í kærunni um valkost B hafi í megindráttum legið fyrir við allar ákvarðanir sem teknar hafi verið um framkvæmdina. Lögmætt tillit hafi verið tekið til þeirra og þau vegin og metin við mótun opinberrar stefnu og við töku lögbundinna ákvarðana, þar með einnig við hina kærðu ákvörðun. Framkvæmdin hafi fengið mikla umfjöllun að frumkvæði Landsnets langt umfram lagaskyldu. Bæði almenningur og náttúruverndarsamtök hafi ítrekað fengið tækifæri til að tjá sig um fyrirhugaða framkvæmd. Landsnet hafi haft samráð við bæði sveitarfélög, náttúruverndarsamtök og hagaðila í gegnum verkefnaráð, sem m.a. hafi verið skipað fulltrúum frá tveimur kærenda, á undirbúningstíma framkvæmdarinnar. Þá hafi verið haldnir reglulegir fundir með landeigendum. Fyrir liggi ítrekaðar umsagnir umsagnaraðila sem tekið hafi verið tillit til. Í tengslum við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi verið haldnir opnir íbúafundir þar sem framkvæmdin hafi verið kynnt ítarlega.

Röksemdum kærenda um kerfisáætlun sé hafnað sem röngum. Það sé alveg ljóst að endanleg ákvörðun um valkost hafi ekki legið fyrir áður en mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram. Allir valkostir hafi verið metnir til jafns í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og því rangt að grundvöllur umhverfismatsins hafi verið brostinn. Þá hafi komið fram í kerfisáætlun að ef niðurstaða umhverfismats einstakra framkvæmda skilaði annarri niðurstöðu en fengist með valkostagreiningu í framkvæmdaáætlun myndi það vera afgreitt í öðru ferli en kerfisáætlun. Verði ekki séð að hvaða leyti kerfisáætlun Orkustofnunar hafi verið ólögmæt. Því sé að auki alfarið hafnað að sveitarfélaginu hafi borið að fjalla um ágalla á áætluninni enda hafi það enga lagaheimild til þess þar sem Skipulagsstofnun hafi ekki fjallað um það í áliti sínu, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Þá sæti afgreiðslur Orkustofnunar á kerfisáætlun kæru til úrskurðarnefndar raforkumála skv. 3. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Hafi málsástæður kærenda þar að lútandi ekki þýðingu við úrlausn málsins. Þá hafi mat kærenda á því hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum Árósasamningsins við breytingu á raforkulögum heldur enga þýðingu.

Landsnet hafni því að fjárhagsleg sjónarmið hafi ráðið ferðinni og að með öllu hafi verið litið framhjá umhverfisáhrifum í trássi við fyrirmæli laga um mat á umhverfisáhrifum. Í matsskýrslu komi fram að ákvörðun um aðalvalkost grundvallist á að vega og meta nokkra meginþætti. Einn þeirra sé umhverfi, annar að tryggja að framkvæmdin uppfylli kröfur um öryggi á afhendingu rafmagns og að lokum þurfi að horfa til verðmætis og efnahagslegra þátta sem byggi á kostnaði eða ávinningi framkvæmdarinnar. Sömu atriði komi fram í greinargerð Landsnets með framkvæmdaleyfisumsókn.

Niðurstaða mats á umhverfisáhrifum leiði ekki sjálfkrafa til þess að ákvörðun um aðalvalkost skuli vera sá kostur sem hafi vægustu áhrifin. Aukin áhersla sé lögð á það að leggja mat á valkosti framkvæmdar. Matsferlið gerist í nokkrum þrepum, sem unnin sé með aðkomu fagstofnana, hagsmunaaðila, leyfisveitenda og almennings. Ábendingar sem fram komi skapi forsendur fyrir tillögum að valkostum, rannsóknum, mótvægisaðgerðum og hönnun mannvirkja mótist með þeim hætti að dregið sé úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Í dómum Hæstaréttar í málum nr. 511/2015, 512/2015, 513/2015 og 541/2015 komi fram að þótt kostnaður við framkvæmdir teljist ekki til umhverfisáhrifa geti fjárhagsleg sjónarmið ráðið úrslitum við endanlega ákvörðun.

Leyfisveitandi verði að horfa til margvíslegra atriða og sjónarmiða við afgreiðslu umsóknar um framkvæmdaleyfi. Raforkulög leggi þá skyldu á Landsnet að byggja flutningskerfi raforku upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Niðurstaðan byggi á heildstæðu mati allra atriða. Þingsályktun um stefnu stjórnvalda sé meðal þess sem þurfi að horfa til eins og dómstólar hafi staðfest. Sé í þessu sambandi vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. mars 2017 í máli nr. E-1/2017, en niðurstaða hans hafi verið staðfest í máli Hæstaréttar nr. 193/2017. Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 41, 46 og 57/2021 sé lögð áhersla á að þar sem mati á umhverfisáhrifum sleppi sé það framkvæmdaraðili sem leggi til framkvæmdir samkvæmt þeim kosti sem hann meti æskilegastan. Hafi framkvæmdaraðili forræði á framkvæmd sinni innan marka gildandi laga og reglna. Fyrir liggi að brýn þörf sé á framkvæmdinni og séu uppfyllt skilyrði laga um náttúruvernd á svæðinu burtséð frá því hvort um loftlínu eða jarðstreng sé að ræða og hafi fjárhagslegar ástæður engin áhrif á það mat.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka framkomnar röksemdir í kæru. Jafnframt sé bent á að ekki sé alls kostar rétt að farið sé að stefnu stjórnvalda enda komi fram í þingsályktun nr. 11/144 að ef kostnaður við að leggja jarðstreng sé ekki meiri en tvisvar sinnum kostnaður við loftlínu á viðkomandi kafla skuli miða við að leggja jarðstreng, nema ef ekki sé talið tæknilega mögulegt að leggja jarðstreng eða ef loftlína sé í umhverfismati talin betri kostur á grundvelli umhverfissjónarmiða. Fram komi í matsskýrslu að kostnaður við valkost B sé áætlaður 4.358 milljónir króna og kostnaður við valkost C 2.329 milljónir króna. Jarðstrengsvalkostur B sé því 1,87× dýrari en valkostur C og uppfylli þar af leiðandi skilyrði þingsályktunar nr. 11/144 um að vera ekki meira en tvisvar sinnum kostnaðarsamari en loftlína. Samkvæmt matsskýrslu sé lagning jarðstrengs í þessu tilfelli æskilegri út frá umhverfissjónarmiðum og því ljóst að vilji löggjafans sé að jarðstrengsvalkostur eigi að vera valinn, enda séu þeir jafnframt innan kostnaðarmarka samkvæmt téðri þingsályktun. Landsnet hafi því ekki lagalegt svigrúm til að telja að umhverfissjónarmið gefi ekki tilefni til þess að vikið sé frá þeirri meginreglu stjórnvalda um að notast skuli við loftlínu í meginflutningskerfi raforku. Með vali sínu sé Landsnet að fara gegn vilja löggjafans.

Því sé hafnað að niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 46/2021 hafi ekki fordæmigildi í máli þessu. Fyrirliggjandi gögn styðji höfnun framkvæmdaleyfisins og lagningu jarðstrengs, en ekki veitingu framkvæmdaleyfis með loftlínu. Það komi margoft fram í greinargerð sveitarfélagsins með framkvæmdaleyfinu. Þá sé bent á að fundir með landeigendum hafi verið einhliða kynningarfundir en ekki samráðsfundir.

Samkomulag milli Sveitarfélagsins Voga og Landsnets kveði á um lagningu Suðurnesjalínu 1 í jörð á 5 km kafla frá Grindavíkurvegi að Vogaafleggjara, eftir að Suðurnesjalína 2 verði komin í rekstur og lagningu línunnar í heild í jörð innan 25 ára. Þótt 5 km af Suðurnesjalínu 1 verði lagðir í jörðu auki það raforkuöryggi með tilliti til jarðvár mjög lítið, enda meirihluti 33,9 km langrar línunnar enn ráðgerð sem loftlína. Það verði fyrst þegar öll línan verði komin í jörð sem ætla megi að raforkuöryggi geti aukist. Umhverfismat og álit Skipulagsstofnunar fyrir Suðurnesjalínu 2 liggi fyrir þar sem mælt sé með jarðstreng með Reykjanesbraut. Samningar byggðir á óljósum lagaheimildum um síðari tíma 5 km jarðstreng í annarri framkvæmd hafi ekki verið hluti af umhverfismati framkvæmdar þeirrar er hér um ræði og hafi hvorki undirgengist umhverfismat sem sjálfstæð framkvæmd eða sem einhvers konar mótvægisaðgerð við Suðurnesjalínu 2. Í þessu sambandi sé vísað til niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness í dómi frá 22. júlí 2016 í dómsmáli sem landeigendur í Vogum hafi höfðað til ógildingar á fyrra framkvæmdaleyfi Sveitarfélagsins Voga. Talið hafi verið að sveitarfélagið hafi ekki byggt ákvörðun sína um samþykkt framkvæmdaleyfis á hlutlægum og málefnalegum grunni heldur frekar á því samkomulagi sem það hafði gert á árinu 2008 við Landsnet. Af þeirri ástæðu einni bæri að ógilda umþrætt framkvæmdaleyfi. Þessu hafi Hæstiréttur ekki hafnað við áfrýjun í máli nr. 575/2016. Hafi niðurstaða héraðsdóms fordæmisgildi í máli þessu og um aðra samninga sveitarfélagsins við Landsnet.

Röksemdarfærsla sveitarfélagsins hafi átt að koma fram í greinargerð þess en hvorki í greinargerð Landsnets með umsókn eða öðrum fylgigögnum, s.s. fyrrnefndu samkomulagi. Þá sé ítrekað að engin grenndarkynning hafi farið fram um framkvæmdina skv. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og aðilum málsins hafi ekki verið gefið færi á andmælarétti. Jafnframt sé því hafnað að það að loftlína liggi fjarri íbúabyggð útiloki að grenndarkynning eigi að fara fram, ekkert í 2. mgr. 44. gr. laganna styðji þá skýringu. Grenndarkynning hafi átt að ná til íbúa þar sem loftlínumöstur verði sýnileg og landeigenda þess lands sem áætlað línustæði muni liggja um. Samhliða því hafi átt að leita umsagna eins og 5. mgr. 13. gr. laganna mæli fyrir um. Nái sú umsagnarskylda, auk opinberra ráðgjafar- og stjórnsýslustofnana, til nokkuð stórs hóps í þessu tilviki, enda ákvörðunin í andstöðu við fyrri ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna framkvæmdinni sem og í andstöðu við framkvæmd sveitarfélagsins sjálfs þegar það hafi fjallað um framkvæmdaleyfisumsókn Landsnets fyrir nokkrum árum.

Úrskurðarnefndinni beri m.a. að fjalla um þýðingu annarra leyfisveitinga, sbr. úrskurði hennar í málum nr. 74/2023, 58/2022, 25/2016 og 115/2012. Í máli því sem hér um ræði hafi í kerfisáætlunum Landsnets ekki verið fjallað um samræmi við vatnaáætlun svo sem skylt sé skv. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Samþykki Orkustofnunar á framkvæmdum á framkvæmdahluta kerfisáætlunar sé því þeim annmarka háð og sé hann verulegur. Augljóslega sé hið kærða framkvæmdaleyfi heldur ekki í samræmi við áskilnað 3. mgr. 28. gr. laganna. Eftir gildistöku breytingalaga nr. 26/2015 sé ferli framkvæmdaleyfis leyfisveitanda eini möguleiki almennings til að kæra kerfisáætlun Landsnets og samþykki Orkustofnunar fyrir henni. Fjalli úrskurðarnefndin ekki um þetta atriði sé það í andstöðu við þjóðréttarskuldbindingar skv. 3. mgr. 9. gr. Árósasamningsins.

Þingsályktunin geti haft gildi fyrir Landsnet á fyrsta undirbúningsstigi framkvæmda en ekki þegar óyggjandi niðurstaða umhverfismats og álits Skipulagsstofnunar liggi fyrir. Hafi þingsályktunin það gildi sem Landsnet vilji ljá henni sé ekki einu sinni heimilt að meta jarðstrengskost í umhverfismati einstakra framkvæmda. Þá sé vísað til þess sem fram komi í áliti Skipulagsstofnunar um stefnumörkun stjórnvalda.

Niðurstaða: Samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði aðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta þegar um er að ræða ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. laganna, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Kærendur eru náttúruverndarsamtök sem uppfylla skilyrði kæruaðildar skv. 3. og 4. mgr. 4. gr laga nr. 130/2011 og verður þeim því játuð kæruaðild í málinu.

 Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir lagningu 220kV Suðurnesjalínu 2. Áform um lagningu línunnar eiga sér langan aðdraganda líkt og nánar er rakið í málavaxtalýsingu. Nýtt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar fór fram í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 16. febrúar 2017, í máli nr. 575/2016, þar sem talið var að umhverfisáhrifum jarðstrengs í samanburði við aðra framkvæmdakosti hefði ekki verið lýst á fullnægjandi hátt og matsferlið og umhverfismatsskýrslan hefðu því ekki uppfyllt þann áskilnað sem gerður væri í þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslögum nr. 123/2010 og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Hinn 20. janúar 2020 lagði Landsnet fram matsskýrslu til Skipulagsstofnunar um Suðurnesjalínu 2 og óskaði eftir áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Kom fram að áformað væri að byggja 220kV raflínu milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja sem yrði hluti af meginflutningskerfi raforku. Línan myndi liggja milli tengivirkis í Hamranesi í Hafnarfirði og tengivirkis á Rauðamel í Grindavík. Skoðaðir hefðu verið margir valkostir til að ná markmiði framkvæmdarinnar og væri lagður fram samanburður á sex valkostum. Niðurstaða fyrirtækisins væri að leggja fram sem aðalvalkost, svonefndan valkost C, loftlínu sem fylgdi að mestu Suðurnesjalínu 1, með stuttum jarðstrengsköflum næst tengivirki í Hafnarfirði og tengivirki á Rauðamel. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 22. apríl 2020. Taldi stofnunin matið m.a. sýna fram á að lagning línunnar sem jarðstrengs væri best til þess fallin að draga eins og kostur væri úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar, sbr. markmiðsákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum, og þá væri æskilegasti kosturinn valkostur B, meðfram Reykjanesbraut.

Í árslok 2020 sótti Landsnet um framkvæmdaleyfi hjá Sveitarfélaginu Vogum, Reykjanesbæ, Hafnarfjarðarbæ og Grindarvíkurbæ fyrir lagningu 220kV og 33,9 km raflínu er liggja myndi samhliða núverandi Suðurnesjalínu 1 um sveitarfélögin. Gert var ráð fyrir að reisa loftlínu í gegnum öll sveitarfélögin og jarðstrengi í þéttbýlinu í Hafnarfirði og við tengivirki við Rauðamel í Grindavík, þ.e. í samræmi við valkost C í mati á umhverfisáhrifum. Hinn 24. mars 2021 synjaði bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga umsókninni, m.a. þar sem lagning línunnar sem jarðstrengs væri best til þess fallin að draga eins og kostur væri úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar, svo sem að framan er rakið. Var þessi ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði, uppkveðnum 4. október 2021 í máli nr. 53/2021, felldi hana úr gildi vegna annmarka á rökstuðningi, sem álitnir voru svo verulegir að vektu réttmætan vafa um hvort ákvörðunin hefði verið reist á málefnalegum grundvelli. Sama dag kvað nefndin upp úrskurði í kærumálum nr. 41, 46 og 57/2021 er lutu að ákvörðunum Hafnarfjarðarbæjar, Reykjanesbæjar og Grindavíkurbæjar um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 samkvæmt valkosti C.

Verður nú fjallað um hvort skilyrðum til veitingar framkvæmdaleyfis Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 hafi verið fullnægt í máli því sem hér er til úrlausnar. Um leyfisveitingu vegna matsskyldra framkvæmda þar sem umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana var lokið við gildistöku laganna 1. september 2021 fer samkvæmt ákvæðum eldri laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 1. ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 111/2021. Er ljóst að skyldur sveitarstjórnar sem leyfisveitanda eru ríkar við útgáfu leyfis til framkvæmdar sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum og er í lögum kveðið á um ákveðna málsmeðferð og skilyrði þess að leyfi verði veitt. Auk skipulagslaga nr. 123/2010 og laga nr. 106/2000 geta komið til skoðunar þágildandi lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana sem og stjórnsýslulög nr. 37/1993 og önnur lög, eftir því sem við á hverju sinni.

—–

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 er það hlutverk flutningsfyrirtækis, þ.e. Landsnets, að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Markmið raforkulaga er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og skal í því skyni m.a. stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku, tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda, auk þess að taka tillit til umhverfissjónarmiða. Samkvæmt 9. gr. a skal flutningsfyrirtæki árlega leggja fyrir Orkustofnun til samþykktar kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfisins. Fer stofnunin yfir og samþykkir áætlunina með hliðsjón af markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflínu og um uppbyggingu flutningskerfis raforku, sbr. 9. gr. b í sömu lögum.

Á 144. löggjafarþingi var samþykkt þingsályktun nr. 11 um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína í samræmi við 39. gr. a í lögum nr. 65/2003, sem kærendur fjalla um í málsrökum sínum, en í henni kemur fram að við uppbyggingu dreifi- og flutningskerfis raforku, þ.m.t. við gerð kerfisáætlunar, verði sú stefna sem hún hafi að geyma höfð að leiðarljósi að því er varði þau álitamál hvenær skuli leggja raflínur í jörð og hvenær reisa þær sem loftlínur. Í lið 1.3. í þingsályktuninni segir að í meginflutningskerfi raforku skuli meginreglan vera sú að notast við loftlínur nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra, m.a. út frá tæknilegum atriðum eða umhverfis- eða öryggissjónarmiðum sem meta skuli hverju sinni á grundvelli nánar rakinna viðmiðana, sem geti réttlætt að dýrari kostur verði valinn. Stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku hefur samkvæmt þessu þýðingu fyrir kerfisáætlun Landsnets, sbr. 5. mgr. 9. gr. a og 2. mgr. 9. gr. b í lögum nr. 65/2003.

Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar m.a. á því að samþykki Orkustofnunar vegna kerfisáætlunar hafi verið ólögmætt, en í framkvæmdaáætlun þeirrar kerfisáætlunar var gert ráð fyrir því að ráðist yrði í framkvæmd Suðurnesjalínu 2 og að aðalvalkostur yrði 220kV loftlína lögð samhliða Suðurnesjalínu 1, þ.e. valkostur C. Skylt hefði verið að endurskoða kerfisáætlun í ljósi niðurstöðu Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar enda hafi í Kerfisáætlun 2018–2027 verið gerður fyrirvari um niðurstöður umhverfismatsins. Það að sveitarfélagið hafi ekki tekið tillit til þessa, þ.e. „kannað réttmæti leyfis Orkustofnunar um framkvæmdina“, varði gildi hins kærða leyfis. Þá hafi almenningur verið sviptur lögbundnum þátttöku- og kærurétti við málsmeðferð og samþykki kerfisáætlunar sem brjóti í bága við 6. og 9. gr. Árósasamningsins svo og tiltekin ákvæði tilskipunar 2011/92/ESB, eins og henni hafi verið breytt með tilskipun 2014/52/ESB. Skerðing á þeim rétti almennings leiði til þess að „leyfi Orkustofnunar fyrir Suðurnesjalínu 2“ sé ógilt að lögum og þar með sé mikilvæg forsenda fyrir útgáfu framkvæmdaleyfisins brostin.

Kerfisáætlun skv. 9. gr. a í raforkulögum féll undir gildissvið þágildandi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, sem giltu um umhverfismat þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytinga á þeim sem mörkuðu stefnu er varðaði leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar væru í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Tilgangur mats á umhverfisáhrifum áætlunar er m.a. að huga að umhverfisáhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku og skal í slíku mati m.a. felast mat á samlegðaráhrifum margra framkvæmda á tiltekna umhverfisþætti eða tiltekin svæði. Sú kerfisáætlun sem var í gildi við undirbúning leyfisveitingar þeirrar sem um er deilt í máli þessu náði til áranna 2018–2027, sætti mati á umhverfisáhrifum og öðlaðist samþykki Orkustofnunar skv. 9. gr. b í lögum nr. 65/2003. Um samráð við gerð kerfisáætlunar er mælt fyrir um í 2. mgr. 9. gr. sömu laga, sbr. einnig 6. mgr. 9. gr. a laganna. Vegna athugasemda kærenda skal tekið fram að úrskurðarnefndin er ekki bær til að fjalla um hvort fyrirkomulag þessa samráðs fari í bága við ákvæði Árósasamningsins. Verður auk þess ákvörðun um samþykkt eða synjun kerfisáætlunar ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 9. gr. b í lögum nr. 65/2003.

Kerfisáætlun 2018–2027, sem hér um ræðir, fól í sér tvo meginþætti, þ.e. langtímaáætlun sem sýndi þá hluta í meginflutningskerfinu sem fyrirhugað væri að byggja upp eða uppfæra á næstu tíu árum og framkvæmdaáætlun sem sýndi áætlaðar fjárfestingar í flutningskerfinu sem Landsnet hyggðist ráðast í á næstu þremur árum. Í framkvæmdaáætluninni var valkostagreining fyrir öll þau verkefni þar sem umhverfismat hafði ekki farið fram. Fram kom að á þann hátt væri mögulegt að taka afstöðu til valkosta og leggja fram þann valkost sem best uppfyllti áðurnefnd markmið og væri í samræmi við stefnu stjórnvalda. Þó væri ljóst að slík valkostagreining mundi alltaf verða háð þeim fyrirvara að umhverfismat framkvæmdarinnar gæti skilað annarri niðurstöðu. Með þessu var eðlilegt að Landsnet byggði á kerfisáætlun við val á aðalvalkosti í matsskýrslu Suðurnesjalínu 2 um leið og félagið legði mat á aðra valkosti til samanburðar, sem eftir atvikum gætu leitt til minni eða meiri breytinga á framkvæmdinni.

Að lokum er til þess að líta, svo sem rakið var í niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 41, 46 og 57/2021, að þar sem mati á umhverfisáhrifum sleppir er það framkvæmdaraðili sem leggur til framkvæmdir samkvæmt þeim kosti sem hann metur æskilegastan. Hefur framkvæmdaraðili með því forræði á framkvæmd innan marka gildandi laga og reglna.

—–

Mælt er fyrir um í 13. gr. skipulagslaga að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Nánar er kveðið á um skilyrði fyrir samþykkt framkvæmdaleyfis í ákvæðinu og í 14. gr. laganna er fjallað um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldra framkvæmda. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. skal sveitarstjórn við umfjöllun um umsókn um framkvæmdaleyfi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem lýst sé í matsskýrslu. Þá skal sveitarstjórn leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar til grundvallar. Sveitarstjórn skal enn fremur taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 skyldi leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar. Jafnframt skyldi leyfisveitandi skv. 3. mgr. sömu greinar taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð væri grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu væri vikið frá niðurstöðu álitsins. Í greinargerðinni skyldi leyfisveitandi einnig taka afstöðu til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni væri til ef um það væri fjallað í áliti Skipulagsstofnunar.

Í úrskurðum úrskurðarnefndarinnar í kærumálum nr. 41, 46 og 57/2021, sem vörðuðu lagningu Suðurnesjalínu 2 í öðrum sveitarfélögum en í Sveitarfélaginu Vogum, var komist að þeirri niðurstöðu að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum væri haldið nokkrum ágöllum, en þó ekki þannig að á álitinu eða mati á umhverfisáhrifum yrði ekki byggt við ákvörðun um framkvæmdaleyfi. Er afstaða nefndarinnar óbreytt að þessu leyti. Í málum þessum gerði úrskurðarnefndin ekki athugasemd við þá niðurstöðu álitsins að af lagningu Suðurnesjalínu 2 samkvæmt valkosti C yrðu meiri áhrif en af öðrum valkostum, þótt ekki væri mikill munur milli valkosta. Þá benti nefndin á að sveitarstjórnum bæri að líta til nefndra ágalla teldu þær þá hafa þýðingu við ákvörðun sína.

Svo sem fyrr greinir samþykkti bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hið kærða framkvæmdaleyfi á fundi sínum 30. júní 2023, að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Á fundinum var jafnframt samþykkt greinargerð með framkvæmdaleyfinu, dags. í júní s.á. Í 5. kafla hennar kemur m.a. fram að bæjarstjórn hafi kynnt sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kannað hvort framkvæmdin sé sú sama og lýst sé í matsskýrslu. Sé það mat bæjarstjórnar að sú framkvæmd sem sótt sé um og lýst sé í umsókn um framkvæmdaleyfi sé ein af þeim framkvæmdaleiðum sem lýst sé í matsskýrslu, þ.e. valkostur C, loftlína samsíða Suðurnesjalínu 1 um Hrauntungur. Tekin er afstaða til þess hvort framkvæmdin sé í samræmi við skipulagsáætlanir og talið að hún sé í samræmi við Svæðisskipulag Suðurnesja og Aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga 2008–2028. Fram kemur að bæjarstjórn hafi gengið úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd og annarra laga og reglugerða og eins hvaða skilyrði beri að setja fyrir útgáfu framkvæmdaleyfisins. Þá er tekið fram að niðurstaða bæjarstjórnar sé að matsskýrsla Landsnets um Suðurnesjalínu 2 uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum.

Í greinargerðinni er tekið undir þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að umhverfismat Suðurnesjalínu 2 sýni að lagning línunnar sem jarðstrengs sé best til þess fallin að draga eins og kostur sé úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar, sbr. markmiðsákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Hafi framkvæmdaraðili sótt um framkvæmdaleyfi fyrir valkosti C, loftlínu meðfram Suðurnesjalínu 1, sem óumdeilt sé að hafi flest neikvæð umhverfisáhrif allra skoðaðra valkosta. Er vísað til þess sem fram komi í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 41/2021 um að ekki sé gerð athugasemd við þá niðurstöðu en að ekki skilji mikið á milli valkosta, auk þess sem nokkrir ágallar séu á áliti Skipulagsstofnunar vegna sumra þátta. Þeir annmarkar séu þó ekki svo verulegir að á álitinu og fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum verði ekki byggt við afgreiðslu umsóknar um framkvæmdaleyfi.

Jafnframt er í greinargerðinni vísað til þess að í úrskurði nr. 53/2021 hafi verið talið að skort hefði á að í niðurstöðu Skipulagsstofnunar hefði verið fjallað um þá umsögn Umhverfisstofnunar að neikvæð áhrif loftlínu yrðu óveruleg varðandi áhrif á landslag og ásýnd og að tilefni hefði verið til fyrir bæjarstjórn að skoða þetta. Hafi bæjarstjórn sérstaklega kynnt sér umsögn Umhverfisstofnunar frá 11. júlí 2019 sem nánar er rakin. Tekið er fram að bæjarstjórn geri sér grein fyrir því að áhrif jarðstrengs verði nokkuð meiri á jarðmyndanir en lagning loftlínu. Áhrif jarðstrengs meðfram Reykjanesbraut á jarðmyndanir verði þó minni en jarðstrengs við línustæði Suðurnesjalínu 1. Á móti komi að áhrif jarðstrengja séu minni sjónrænt. Þar sem sveitafélagið og Landsnet hafi gert samkomulag um að Suðurnesjalína 2 verði lögð samkvæmt valkosti C, þ.e. loftlína meðfram núverandi línu innan sveitarfélagsins, sé ekki sérstök ástæða nú til að fjalla nánar um afstöðu Umhverfisstofnunar hvað varði 220kV jarðstreng enda fallist á þá leið sem Umhverfisstofnun telji besta kostinn innan sveitarfélagsins. Áhrif á eldhraun og jarðmyndanir verði því minni en við framkvæmdir vegna 220kV jarðstrengs.

Fram kemur að aflað hafi verið ítarlegra umsagna óháðra aðila um náttúruvá á svæðinu og möguleg áhrif hennar á línuleið og tegund línu, þ.e. loftlínu og jarðstreng. Óskað hafi verið eftir nýrri skýrslu frá sérfræðingum hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands um náttúru- og eldgosavá í sveitarfélaginu. Jafnframt hafi verið óskað eftir skýrslu jarðeðlisfræðings hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands um bergsprungur í nágrenni Sveitarfélagsins Voga. Telji Landsnet enn að lagning Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu eftir valkosti C sé sú leið sem heppilegust sé með tilliti til náttúruvár, m.a. með tilliti til hagkvæmni. Bæjarstjórn telji hins vegar að ekki verði dregin önnur ályktun af skýrslu sérfræðinganna hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands en að vegna áhættu á hraunrennsli sé, hvað sem öðru líði, ekki skynsamlegt að byggja Suðurnesjalínu 2 við hlið Suðurnesjalínu 1, á miðju áhættusvæði sem erfitt sé að verja fyrir hraunrennsli. Lína á öðrum stað hljóti að auka afhendingaröryggi. Jafnframt liggi fyrir, með tilliti til framangreindra skýrslna, að því norðar sem farið sé með línuna, þ.e. nær Reykjanesbraut eða norðan við hana, þá auki það öryggi línunnar óháð því hvort línan sé lögð í lofti eða jörðu. Það sé því enn mat bæjarstjórnar að valkostur B, jarðstrengur með Reykjanesbraut, kunni að vera heppilegri en valkostur C með tilliti til jarðvár þar sem Reykjanesbrautin sé í jaðri áhættusvæðis auk þess sem hugsanlega sé hægt að verja brautina fyrir hraunrennsli, a.m.k. um tíma.

Sveitarfélagið tekur fram að það telji að brýn nauðsyn sé á framkvæmdinni. Önnur sveitarfélög á línuleiðinni hafi þegar samþykkt framkvæmdaleyfi vegna línunnar. Ljóst sé að samþykki sveitarfélagið ekki umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi samkvæmt valkosti C muni það enn leiða til ágreinings um málið og tafa á brýnum og nauðsynlegum úrbótum á raflínuneti Landsnets á Reykjanesi. Muni það mögulega hamla uppbyggingu og raforkuöryggi á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Munur á umhverfisáhrifum valkosta B og C sé ekki verulegur samkvæmt matsskýrslu og áliti Skipulagsstofnunar þó ljóst sé að sjónræn áhrif valkostar C séu meiri en valkostar B og áhrif valkostar B á eldhraun/jarðmyndanir séu meiri en af valkosti C. Vísað er til þess að andstaða sveitarfélagsins við valkost C hafi að mestu byggt á sjónrænum áhrifum af nýrri og stærri línu við hlið núverandi línu og sjónarmiðum um öryggi línunnar, einkum vegna jarðvár.

Þá er tekið fram í greinargerðinni að með samkomulagi á milli sveitarfélagsins og Landsnets sé komið til móts við sjónarmið sveitarfélagsins um að til framtíðar liggi ekki tvær háspennulínur í lofti um sveitarfélagið með tilheyrandi sjónrænum áhrifum. Rask á eldhrauni sé óhjákvæmilegt sama hvaða leið sé valin en þessi málamiðlun hafi í för með sér minna rask á eldhrauni en lagning Suðurnesjalínu 2 sem jarðstrengs. Með því að leggja Suðurnesjalínu 1 í jörðu, norðan við línustæði núverandi línu, einkum ef það verði gert norðan Reykjanesbrautar, s.s. meðfram Vatnsleysustrandarvegi, verði afhendingaröryggi kerfisins í heild einnig aukið m.t.t. jarðvár eftir að þeim framkvæmdum verði lokið. Bæjarstjórn sé þó jafnframt ljóst að framkvæmdir og breytingar á Suðurnesjalínu 1 séu háðar frekari hönnun með tilheyrandi málsmeðferð og leyfisveitingum, s.s. samkvæmt ákvæðum skipulagslaga, laga um mat á umhverfisáhrifum o.fl.

Að framangreindu virtu verður að telja að málefnalegar ástæður hafi legið að baki samþykki bæjarstjórnar fyrir hinu kærða framkvæmdaleyfi og að álit Skipulagsstofnunar hafi með rökstuddum hætti verið lagt því til grundvallar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000. Fyrir liggur að bæjarstjórn tók saman greinargerð um afgreiðslu leyfisins og gerði grein fyrir því hvers vegna var vikið frá niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000. Jafnframt verður með hliðsjón af því umhverfismati sem áformuð framkvæmd hefur sætt, svo og að teknu tilliti til þeirra viðbótarupplýsinga sem bæjarstjórn aflaði í kjölfar úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 53/2021 og snýr að mögulegum áhrifum náttúru- og eldgosavár á línukosti innan marka sveitarfélagsins, að líta svo á að bæjarstjórn hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína skv. 10. gr. stjórnsýslulaga. Breytir engu í þeim efnum þó bæjarstjórn hafi áður synjað framkvæmdaleyfisumsókn Landsnets á þeim grundvelli að um loftlínu væri að ræða. Hefur rökstuðningurinn að geyma vegið mat þar sem fallist er á framkvæmdina samkvæmt valkosti C með vísan til þeirra brýnu og nauðsynlegu úrbóta sem gera þurfi á raflínuneti Landsnets á Reykjanesskaga sem álitnar eru forsenda öryggis raforkuafhendingar og atvinnuuppbyggingar.

—–

Af hálfu kærenda er því haldið fram að hin kærða ákvörðun sé haldin annmörkum að því leyti að áform um lagningu Suðurnesjalínu 1 í jörð að hluta til, sem um var fjallað í samkomulagi sveitarfélagsins við Landsnet frá 30. júní 2023 og var meðal forsendna fyrir samþykki bæjarstjórnar, hafi hvorki verið hluti af umhverfismati framkvæmdar Suðurnesjalínu 2 né undirgengist umhverfismat sem sjálfstæð framkvæmd. Til þess er þá að líta að samkomulagið varðar ekki þá framkvæmd sem um var fjallað í matsskýrslu þeirrar framkvæmdar sem um er deilt í máli þessu, enda þótt þar sé fjallað ítarlega um uppbyggingu meginflutningskerfis raforku í sveitarfélaginu. Samkomulag þetta varðar markmið aðalskipulags um byggðar- og atvinnuuppbyggingu sem álitin er háð öruggri afhendingu raforku úr flutningskerfi jafnframt því að horft er til þess að til frambúðar litið liggi ekki tvær háspennulínur í lofti um sveitarfélagið með tilheyrandi sjónrænum áhrifum. Verði af þeirri framkvæmd sem lýst er í samkomulaginu getur hún, eftir atvikum, verið háð mati á umhverfisáhrifum.

—–

Samkvæmt 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga skal sveitarstjórn við útgáfu framkvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Í greinargerð bæjarstjórnar með framkvæmdaleyfinu er tekið fram að hún sé í samræmi við Svæðisskipulag Suðurnesja 2008–2024 og Aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga 2008–2028 sem geri ráð fyrir loftlínu.

Kærendur byggja á því að grenndarkynna hefði þurft þá framkvæmd sem hér um ræðir. Í 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag og í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Heimilt er að falla frá grenndarkynningu ef gerð er grein fyrir framkvæmdinni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi. Ekki er í gildi deiliskipulag á framkvæmdasvæðinu. Við mat á því hvort nægilega ítarlega hafi verið fjallað um framkvæmdina í aðalskipulagi til að falla hafi mátt frá grenndarkynningu verður að líta til eðlis þeirrar framkvæmdar sem leyfi er veitt fyrir. Þrátt fyrir að almennt verði gerðar meiri kröfur til ítarlegrar umfjöllunar eftir því sem framkvæmd er meiri að umfangi getur við það mat einnig verið rétt að horfa til annarra atriða, svo sem hvort fjallað hafi verið um framkvæmdina á öðrum vettvangi.

Á þéttbýlis- og dreifbýlisuppdrætti Aðalskipulags Sveitarfélagsins Voga 2008–2028 er gert ráð fyrir tveimur samhliða raflínum í lofti þar sem Suðurnesjalína 1 liggur. Í greinargerð aðalskipulagsins er að finna kafla um rafveitu. Þar kemur m.a. fram að gert sé ráð fyrir að nýjar rafmagnslínur verði lagðar í jörð, þar sem því sé við komið. Þar sem rafmagnslínur verði ofanjarðar (loftlínur) verði leitast við að draga úr sjónrænum áhrifum eins og frekast sé kostur. Þá er tekið fram að í gegnum sveitarfélagið, sunnan Reykjanesbrautar, liggi 132kV háspennulína í lofti og nefnist hún Suðurnesjalína. Geri aðalskipulagið ráð fyrir að heimilt verði að byggja eina nýja 220kV loftlínu samsíða núverandi loftlínu. Þá sé gert ráð fyrir að núverandi loftlína verði tekin niður og í sama línustæði komi önnur 220kV loftlína. Aðalskipulagið geri því ráð fyrir tveimur 220kV háspennulínum í lofti sunnan Reykjanesbrautar. Þá sé gert ráð fyrir 220kV jarðstreng samsíða Reykjanesbraut sunnanverðri. Jarðstrengurinn skuli liggja utan veghelgunarsvæðis Reykjanesbrautar sem sé 30 m frá miðlínu brautarinnar. Er því ljóst að aðalskipulagið markar þá stefnu að nýjar rafmagnslínur verði lagðar í jörð, þar sem því verði við komið, en allt að einu er jafnframt gert ráð fyrir að heimilt sé að byggja eina nýja loftlínu samsíða núverandi loftlínu. Að framangreindu virtu og þegar litið er til Svæðisskipulags Suðurnesja 2008–2024, þar sem skilgreint er lagnabelti fyrir háspennulínur á því svæði sem fyrirhuguð lína fer um, svo og með hliðsjón af tilgangi grenndarkynningar og þeirri viðamiklu umfjöllun sem fyrirhuguð framkvæmd hefur fengið á opinberum vettvangi, til að mynda við umhverfismat hennar, verður ekki talið að ástæða hafi verið til þess að grenndarkynna hina umdeildu framkvæmd.

—–

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið eru ekki þeir form- eða efnisannmarkar á undirbúningi eða meðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

110/2023 Landmannalaugar

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 18. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur. Geir Oddsson auðlindafræðingur og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður tóku þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 13. september 2023 um að veita Rangárþingi ytra framkvæmdaleyfi vegna gerðar grjótvarnargarðs við fyrirhuguð bílastæði við Námskvísl við Landmannalaugar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2023, er barst nefndinni 14. s.m., kærir Náttúrugrið þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 13. september 2023 að veita Rangárþingi ytra framkvæmdaleyfi vegna gerðar grjótvarnargarðs við fyrirhuguð bílastæði við Námskvísl við Landmannalaugar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 12. október 2023.

Málavextir: Árið 2014 var efnt til samkeppni til að kalla eftir hugmyndum að skipulagi og hönnun svæðisins á og við Landmannalaugar að Fjallabaki sem væri í samræmi við meginstefnu í þágildandi aðalskipulagi Rangárþings ytra og í rammaskipulagi fyrir Suðurhálendið. Ein tillaga varð hlutskörpust og var unnið deiliskipulag fyrir svæðið á grundvelli hennar. Deiliskipulagið var birt í B-deild Stjórnartíðinda 1. mars 2018, sbr. auglýsingu nr. 234/2018. Þar er m.a. gert ráð fyrir varnargörðum og bifreiðastæði við svonefnda Námskvísl, en auk þess er gert ráð fyrir bifreiðastæði við Námshraun sem er fjær laugasvæðinu. Í skilmálum er m.a. gerður fyrirvari um að uppbyggingaráform geti breyst vegna upplýsinga sem fram komi í umhverfismati, en með ákvörðun Skipulagsstofnunar dags. 16. febrúar 2018 var ákveðið að fyrirhugaðar framkvæmdir á og við Landmannalaugar skyldu sæta umhverfismati sökum óvissu um varanleg áhrif þeirra á ásýnd og náttúru svæðisins og verndargildi þess.

Í áliti Skipulagsstofnunar um tillögu að matsáætlun vegna umhverfismats fyrir þjónustumiðstöð í Landmannalaugum, dags. 2. mars 2022, voru gerðar ýmsar bendingar um hvað fjalla yrði um við vinnslu matsskýrslu. Gerð var m.a. bending um markmið í lands­skipulagsstefnu um að uppbygging ferðamannastaða tæki mið af þoli svæða gagnvart uppbyggingu og að gerðar yrðu ráðstafanir til að draga úr ágangi á viðkvæma náttúru. Fjalla yrði um forsendur þess að ferðamönnum mundi ekki fjölga með bættri aðstöðu og þjónustu og þær aðgerðir sem framkvæmdaraðili teldi að mundu koma í veg fyrir slíka fjölgun. Með þessu var m.a. vísað til framboðs á bílastæðum og gjaldtöku vegna þeirra sem og fjölda gistirýma. Gera yrði grein fyrir niðurstöðum úr nýjustu könnunum á afstöðu ferðamanna og ferðaþjónustuaðila gagnvart fyrirhugaðri uppbyggingu sem og niðurstöðum þolmarka­greiningar sem tæki mið af uppbyggingunni. Með hliðsjón af niðurstöðu slíkrar greiningar þyrfti í umhverfismatsskýrslu að vera umfjöllun um þolmarkaviðmið og eftirfylgni með þeim.

Í álitinu var lögð áhersla á að metnir yrðu ólíkir valkostir varðandi uppbyggingu í Landmannalaugum og að samanburður valkosta yrði sambærilegur, þ.e. að lagt yrði mat á áhrif framkvæmda á sömu umhverfisþætti í öllum tilfellum og þá einkum á útivist og ferðaþjónustu, landslag og ásýnd, en einnig gróður, jarðmyndanir og vatnafar. Þessir valkostir væru annars vegar framlögð tillaga framkvæmdaraðila um uppbyggingu á nýjum svæðum við Námshraun og Námskvísl og hins vegar að dregið yrði úr uppbyggingu á núverandi þjónustusvæði við Laugahraun, auk valkosts sem fæli í sér að dregið yrði úr þjónustu í Landmannalaugum. Þá þyrfti að fjalla um núllkost, þ.e. líklega þróun umhverfisins án þess að til framkvæmda kæmi. Hvað snerti jarðmyndanir var bent á að gera yrði grein fyrir öðrum möguleikum á efnistöku en af áreyrum Jökulgilskvíslar í ljósi verndargildis þeirra.

Umhverfismatsskýrsla framkvæmdaraðila vegna þjónustumiðstöðvar í Landmannalaugum er dagsett í mars 2023. Þar eru kynnt áform um uppbyggingu nýrrar þjónustuaðstöðu fyrir ferðamenn við Námshraun í Landmannalaugum í stað núverandi aðstöðu við Laugahraun sem verði í lágmarki. Þó verði enn um sinn gistiaðstaða í skála Ferðafélags Íslands, sem þar stendur, auk þess sem aðstaða við laug verði bætt. Jafnframt verði aðstaða ferðamanna við Námskvísl bætt, endurbættir núverandi varnargarðar og byggðir nýir við ána sem og við Jökulgilskvísl. Í skýrslunni er fjallað um alla helstu umhverfisþætti framkvæmdarinnar sem og mat á valkostum. Fram kemur að matið byggi á tillögu Rangárþings ytra að matsáætlun, áliti Skipulagsstofnunar um matsáætlun framkvæmdarinnar, fyrirliggjandi rannsóknum og skýrslum og er m.a. vísað til fuglaúttektar Náttúrustofu Suðurlands og samanburðarrannsóknar um viðhorf ferðamanna á árunum 2000, 2009 og 2019.

Álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar er frá 13. júlí 2023. Fram kemur að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, en tekið fram að í ljósi hás verndargildis svæðisins hefði verið ástæða til ítarlegri samanburðar á valkosti framkvæmdar aðila (valkostur B) og þeim valkostum að byggja upp núverandi aðstöðu við Laugahraun (valkostur A) eða færa meginhluta þjónustu við ferðamenn frá Landmannalaugasvæðinu (valkostur C). Einnig segir í áliti stofnunarinnar: „Í umhverfis­matsskýrslu er um að ræða mjög almenna umfjöllun og samanburð á áhrifum ofangreindra valkosta á umhverfisþætti m.a. þar sem valkostir A og C eru mjög lítt mótaðir.“ Í ljósi þessa álítur Skipulagsstofnun að ekki séu forsendur til að fjalla frekar um áhrif þessara valkosta á umhverfisþætti. Undir liðnum leyfisveitingar og skilyrði í álitinu kemur fram sú afstaða að áður en til leyfisveitinga komi sé ástæða til að fram fari viðhorfskönnun meðal ferðamanna og ferðaþjónustuaðila til ráðgerðrar uppbyggingar við Námshraun.

Með bréfi, dags. 17. ágúst 2023, sótti sveitarfélagið Rangárþing ytra, sem framkvæmdaraðili, um framkvæmdaleyfi til uppbyggingar á grjótvörn vegna fyrirhugaðrar stækkunar bílastæða við Námskvísl í Landmannalaugum, sem var einn þáttur í ráðgerðum framkvæmdum við fyrri áfanga þeirra framkvæmda sem fjallað var um í matsskýrslu. Sveitarfélagið er í senn leyfisveitandi og framkvæmdaraðili og var umsóknin tekin fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar 7. september 2023. Á þeim fundi var samþykkt að leggja til við sveitarstjórn að heimild yrði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfisins á grundvelli heimilda aðalskipulags og gildandi deiliskipulags. Á fundi sveitarstjórnar 13. s.m. var niðurstaða skipulags- og umferðarnefndar samþykkt og framkvæmdaleyfi veitt með fyrirvara um að forsætisráðuneytið gerði ekki athugasemdir við veitingu þess.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að í áliti Skipulagsstofnunar frá 13. júlí 2023 hafi verið sett ákveðin skilyrði fyrir framkvæmdaleyfi og/eða mælst til að ákveðin atriði yrðu uppfyllt áður en slíkt leyfi yrði samþykkt. Óháð því hvort skilyrði þessi væru bindandi hafi sveitarfélagið ekki lagt álitið til grundvallar að neinu leyti við töku hinnar kærðu ákvörðunar og jafnframt vanrækt að taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis. Fari slíkt í bága við 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skilyrði hins kærða leyfis um að forsætisráðuneytið geri ekki athugasemdir leiði ekki af áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina. Fram­kvæmdirnar séu innan þjóðlendu og háðar leyfi ráðuneytisins sem ekki liggi fyrir. Með þessu sé leyfið ekki í samræmi við 3. mgr. 14. gr. laga nr. 123/2010 þar sem tæmandi séu talin þau skilyrði sem binda megi framkvæmdaleyfi. Þá hafi engin greining legið fyrir við töku ákvörðunarinnar á því hvort forsendur hefðu breyst verulega frá umhverfismatsskýrslu og áliti um umhverfismat, svo sem skylt sé skv. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Skipti þar engu hvort skýrslan hafi verið unnin fyrir áratug eða á árunum 2019 til 2022, eins og fram komi í umhverfismatsskýrslu á bls. 12.

Kærendur benda á að í áliti Skipulagsstofnunar um matsáætlun, dags. 2. mars 2022, hafi verið fjallað um vöktun og viðbragðsáætlun í tengslum við þolmarkagreiningu. Samkvæmt síðari málslið 3. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 skuli skilyrði um mótvægisaðgerðir og vöktun koma fram samhliða veitingu leyfis. Þau skilyrði hafi ekki komið fram að neinu leyti er hið kærða stjórnvald veitti sjálfu sér leyfi til framkvæmda. Þá komi skýrt fram í áliti stofnunarinnar um matsskýrsluna að ekki hafi farið fram mat á valkostum í umhverfismati framkvæmdar. Með því hafi ekki verið uppfyllt ákvæði c-liðar 1. mgr. 22. gr. laga nr. 111/2021, áður sambærilegt ákvæði laga nr. 106/2000, um að meta skuli raunhæfa kosti. Því geti umhverfismatsskýrslan ekki verið sá grundvöllur leyfisveitinga sem lög bjóði. Megi um þetta vísa til dóms Hæstaréttar frá 16. febrúar 2017 í máli nr. 575/2016.

Í áliti Skipulagsstofnunar um matsáætlun framkvæmdaraðila hafi verið lögð áhersla á að fjallað yrði um forsendur þess að ferðamönnum mundi ekki fjölga með bættri aðstöðu og þjónustu í umhverfismatinu, ásamt aðgerðum þeim sem framkvæmdaraðili teldi að komið gætu í veg fyrir slíkt. Með þessu væri m.a. átt við með hvaða hætti aðgangi yrði stýrt á annan hátt en með því að takmarka framboð bílastæða. Þá þyrfti að vera skýrt hver yrði endanleg fjölgun á gistirýmum. Þessa hafi ekki verið gætt í matsskýrslu þar sem engin umfjöllun sé um aðgangsstýringu og sé hún því í ósamræmi við matsáætlun.

Í 4. tölulið álits Skipulagsstofnunar um matsáætlun hafi verið gerð krafa um að settar yrðu fram niðurstöður úr nýjustu könnunum meðal ferðamanna og ferðaþjónustuaðila um viðhorf þeirra til fyrirhugaðrar uppbyggingar sem og niðurstöður þolmarkagreiningar sem tæki mið af uppbyggingunni. Ef ekki lægi fyrir í fyrirliggjandi könnunum afstaða til áformaðra framkvæmda þyrfti að gera ráð fyrir nýrri könnun sem byggja mundi á skýrum myndrænum gögnum frá helstu sjónarhornum um áhrif framkvæmdanna á ásýnd lands. Matsskýrslan hafi ekki verið í samræmi við þessa bendingu sem hafi verið ætlað að þjóna þeim tilgangi að sett yrðu viðmið um þolmörk, vöktun þeirra og hvernig brugðist yrði við ef þeim yrði náð.

Fleira sé í áliti um matsáætlun sem ekki hafi gengið eftir. Þar hafi m.a. verið kveðið á um að gera yrði grein fyrir öðrum möguleikum á efnistöku en af áreyrum Jökulgilskvíslar í ljósi verndargildis þeirra. Þá hafi ekki verið lagt mat á það að hvaða leyti fyrirhugaðar framkvæmdir geti haft áhrif á að Torfajökulssvæðið verði skráð á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og ekkert mat lagt á þörf á heitu og köldu vatni vegna uppbyggingarinnar né gerð grein fyrir þeim athugunum sem vatnsöflun og vatnsnotkun byggi á. Vakin sé athygli á að straumvatnshlotin Jökulgilskvísl 1 (103-896-R) og Námskvísl (103-898-R) virðast ekki hafa verið könnuð í umhverfismatinu, en gögn málsins bendi til þess að gæði þeirra, sem og mögulega grunnvatnshlots, kunni að rýrna. Með því hafi bindandi umhverfismarkmiðum, skv. lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, verið vikið til hliðar. Að lokum sé framkvæmdaraðili einnig leyfisveitandi. Leyfisumsóknin sé hvorki dagsett né komi þar fram hver undirriti hana. Með því séu ekki uppfyllt ákvæði laga sem ætlað sé að koma í veg fyrir nauðsynlegan aðskilnað svo ekki komi til hagsmunaárekstra líkt og skylt sé samkvæmt tilskipun þeirri sem lög nr. 111/2021 séu sett til innleiðingar á.

Málsrök Rangárþings ytra: Sveitarfélagið hafnar því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi ekki verið lagt til grundvallar við ákvörðunartöku. Vísað hafi verið til álitsins í umsókn um framkvæmdaleyfi og engu breyti þótt tilvísun til þess hafi ekki verið bókuð sérstaklega í fundargerð sveitarstjórnar við töku ákvörðunarinnar dags. 13. september 2023, enda hafi álitið verið hluti af gögnum málsins. Skylda stjórnvalda til að skrá upplýsingar sé takmörkuð við þær upplýsingar sem ekki sé þegar að finna í gögnum máls, sbr. 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í fundargerðinni sé sett fram yfirlýst afstaða sveitarfélagsins, sem leyfisveitanda, þess efnis að framkvæmdin samræmist fyrirliggjandi umhverfismati og áliti Skipulagsstofnunar þar að lútandi. Með því feli bókun sveitarstjórnar í sér ígildi greinargerðar sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarfélagið hafi borið ábyrgð á gerð umhverfismats framkvæmdarinnar og hafi sveitarstjórnarmenn verið öllum hnútum kunnugir og þekkt vel bæði umhverfismatið sjálft og þá framkvæmd sem þar sé lýst. Ítarlegri greinargerð hefði engu breytt um útgáfu framkvæmdaleyfis eða fyrirkomulag.

Það sé misskilningur að framkvæmdirnar séu háðar leyfi forsætisráðuneytisins. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. þjóðlendulaga sé það sveitarstjórnar að veita leyfi til nýtingar þeirra réttinda sem séu til skoðunar. Þar sem um sé að ræða landnýtingu, sem ætlað sé að vara til langs tíma, hafi sveitarfélagið þó talið rétt og skylt að afla samþykkis ráðuneytisins, en ekkert mæli gegn því að sveitarstjórn taki ákvörðun um hvort rétt sé að heimila framkvæmd áður en samþykkis ráðherra sé aflað.

Því sé hafnað að valkostamati í matsskýrslu hafi verið áfátt. Vissulega hafi Skipulagsstofnun talið í áliti sínu að umfjöllun um aðra valkosti væri of almennur. Það sé þó ekki það sama og að samanburðurinn hafi ekki farið fram. Þrátt fyrir þetta hafi stofnunin álitið að matsskýrslan væri fullnægjandi. Sú valkostagreining sem matsskýrslan hafi að geyma byggi á vinnu sem hafi farið fram í tengslum við gerð skipulagsáætlana. Í greinargerð með deiliskipulagi svæðisins segi að skipulagið miði að því að endurheimta tilfinningu fyrir ósnortnum víðernum hálendisins á svæðinu við Laugahraun, þar sem finna megi hinar eiginlegu Landmannalaugar. Af þessum sökum séu öll mannvirki og bílaumferð skipulögð utan við hið eiginlega laugasvæði.

Hvað varði aðra valkosti til efnistöku sé gert ráð fyrir að stórgrýti í grjótgarðinn verði sótt í núverandi námur í nágrenninu utan friðlands, en fyllingarefni verði úr aurum Jökulgilskvíslar. Fyllingarefni úr aurum Jökulgilskvíslar verði sótt úr námu sem sé skilgreind sem E86 Jökulgils­kvísl í Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028, en hún sé malarnáma, allt að 0,5 ha af stærð. Áætluð leyfileg efnistaka úr námunni sé allt að 10.000 m3. Efnistakan úr Jökulgilskvísl muni hafa tímabundin áhrif á afmörkuðu svæði en þó sé ekki um að ræða varanlegar breytingar á árfarvegi. Í matsskýrslu sé rakið að áhrif efnistökunnar í farveginum verði óveruleg þar sem ummerki um efnistökuna hverfi fljótt vegna mikils og stöðugs framburðar árinnar. Ekki væri ákjósanlegt að sækja fyllingarefni í aðrar námur enda séu um 12 km í næstu námu, sem kennd sé við Dómadal, en hún sé einnig innan friðlands að Fjallabaki. Þá sé búið að loka eldri námu sem hafi verið í Landmannalaugum og nýttist m.a. við gerð núverandi varnargarða á svæðinu. Því hafi verið tilgangslaust að fjalla nánar um aðra möguleika til efnistöku enda séu þeir óraunhæfir.

Varðandi athugasemd um að engin greining hafi farið fram á því hvort forsendur umhverfismats hafi breyst verulega frá því að matsskýrsla og álit um hana hafi legið fyrir sé bent á að skýrslan sé frá mars 2023, álitið sé dags. 13. júlí s.á. og umsókn um framkvæmdaleyfi sé dags. 17. ágúst s.á. Því sé ljóst að heimildir þessar hafi verið í fullu gildi þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin en í umsókn um framkvæmdaleyfið hafi verið vísað til álits Skipulagsstofnunar og að framkvæmdin væri í samræmi við fyrirliggjandi umhverfismat.

Ábendingum sem fram hafi komið í áliti Skipulagsstofnunar frá 2. mars 2022 hafi verið fylgt eftir við gerð matsskýrslu. Skipulagsstofnun hafi þannig ekki gert athugasemdir um þolmarka­viðmið í áliti sínu um matsskýrsluna en fyrir liggi viðamiklar greiningar á þolmörkum Landmannalauga sem vísað sé til í matsskýrslunni. Skylda til að mæla fyrir um mótvægis­aðgerðir hvíli auk þess eingöngu á leyfisveitanda þegar Skipulagsstofnun hafi mælt þar fyrir um í áliti sínu um umhverfismat framkvæmdar.

Fyrir liggi umfangsmiklar kannanir og rannsóknir á afstöðu ferðamanna sem fjallað sé um í matsskýrslu og fylgigögnum hennar. Því til viðbótar hafi Skipulagsstofnun sett skilyrði fyrir því að framkvæmd verði ný viðhorfskönnun meðal ferðamanna og ferðaþjónustuaðila til uppbyggingarinnar við Námshraun, sem verði að öllum líkindum framkvæmd áður en leyfi verða veitt vegna framkvæmda þar. Hin kærða ákvörðun fjalli hins vegar um gerð grjótgarðs í Námskvísl.

Ranghermt sé í kæru að engin umfjöllun sé í matsskýrslu um áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á áform um að Torfajökulssvæðið verði skráð á heimsminjaskrá UNESCO. Í skýrslunni sé rakið að svæðið sé eitt af sex svæðum sem Ísland hafi tilnefnt á yfirlitslista heimsminjaskrár UNESCO. Til þess sé að líta að framkvæmdin miði öll að því að raska sem minnst náttúru og lífríki Landmannalauga, sem sé í samræmi við almenn markmið UNESCO á Íslandi sem eru m.a. vernd og aukinn skilningur á mikilvægi náttúruarfs.

Því sé hafnað að athuganir á þörf á heitu og köldu vatni hafi nokkuð að gera með hina kærðu ákvörðun, sem varði eingöngu grjótgarð í Námskvísl. Aftur á móti verði farið í ítarlegri skoðun á þeim atriðum, þ.m.t. vatnsveituþörf, við undirbúning leyfisveitingar vegna hinnar eiginlegu þjónustumiðstöðvar og annarra mannvirkja sem þurfi tengingu við vatn. Þá bendi ekkert til þess að hin kærða ákvörðun sé í ósamræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála.

Upplýst sé um að dagsett og undirritað frumrit umsóknar um framkvæmdaleyfi hafi verið lagt fram við afgreiðslu málsins hjá sveitarfélaginu. Eintakið sem birst hafi með fundargerð á vefsíðu sveitarfélagsins hafi ekki verið innskannað frumrit.

Svæðið sé utan eignarlanda. Sveitarfélögum sé ætlað lögbundið hlutverk í þjóðlendum. Komi sú aðkoma til viðbótar við lögbundið hlutverk samkvæmt skipulags- og mannvirkjalöggjöf. Af þeim sökum m.a. hafi Rangárþing ytra tekið að sér að vera framkvæmdaraðili. Sveitarfélagið fái þó engar undanþágur frá lögboðnu ferli við undirbúning ákvörðunar um leyfisveitingu. Hafi því afgreiðsla leyfisins verið háð sömu kröfum og málsmeðferð og almennt gildi um veitingu sambærilegra leyfa í sveitarfélaginu til einkaaðila.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Vegna sjónarmiða í kæru varðandi skort á mati á valkostum framkvæmdarinnar vísi stofnunin til samskipta við framkvæmdaraðila þar sem fjallað hafi verið um samanburð á valkostum. Lög geri á hinn bóginn ekki kröfu um að framkvæmdaraðili meti umhverfisáhrif þeirra valkosta sem hann hafi skoðað á sama hátt og hann meti áhrif þeirrar útfærslu sem hann hyggst ráðast í. Framkvæmdaaðili geti lagt fram fleiri en einn jafngildan kost í umhverfismati og tekið ákvörðum um hvern þeirra skuli ráðist í að umhverfismatinu loknu. Í öðrum tilvikum geti framkvæmdaraðili lagt fram einn eiginlegan kost til umhverfismats og fjallað með almennari hætti um aðra valkosti. Í matsskýrslunni sé slíka umfjöllun að finna á valkostum A og C. Þeir valkostir hafi verið lítt mótaðir og geti umhverfismatið því ekki verið lagt til grundvallar útgáfu leyfa í samræmi við þá valkosti. Hvað varði efnistöku hafi í matsskýrslu verið rakið að aðrir kostir væru að sækja efni í nálægar námur.

Það sé ekki fullt samræmi á milli álits stofnunarinnar um matsáætlun og efni matsskýrslu. Hins vegar sé stofnuninni ekki skylt að hafna því að taka matsskýrslu til skoðunar við þær aðstæður heldur sé stofnuninni „heimilt“ að gera það, sbr. orðalag 3. mgr. 23. gr. laga nr. 111/2021. Með því hafi löggjafinn ákveðið að það geti verið mögulegt að víkja frá áliti Skipulagsstofnunar um matsáætlun við gerð matsskýrslu. Sama fyrirkomulag hafi verið við lýði samkvæmt eldri lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum en skv. 1. mgr. 22. gr. þágildandi reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum hafi framkvæmdaraðili getað rökstutt frávik í frummatsskýrslu frá samþykktri matsáætlun. Skipulagsstofnun hafi verið skylt að taka afstöðu til þeirra röksemda. Varðandi sjónarmið um að matsskýrsla sé ekki í samræmi við álit stofnunarinnar um þolmarkagreiningu og þolmarkaviðmið sé vísað til ítarlegrar umfjöllunar í kafla 6.1.3 í umhverfismatsskýrslu. Þar sé að finna rökstuðning framkvæmdaraðila fyrir því af hvaða ástæðum vikið sé frá matsáætlun varðandi þau atriði.

Skipulagsstofnun hafi bent framkvæmdaraðila á að ef ekki væri gert ráð fyrir að reyna að stýra aðgengi á annan hátt en með framboði bílastæða og bílastæðagjaldi, yrði það að koma fram í umhverfismatsskýrslu sem það og geri á bls. 45–46. Það sé ekki rétt að fram hafi komið í áliti stofnunarinnar um matsáætlun að gerð hafi verið krafa um ítarlega umfjöllun um aðgangsstýringu. Óskað hafi verið eftir umfjöllun um forsendur þess að ekki verði um fjölgun ferðamanna að ræða þrátt fyrir bætta þjónustu og aðstöðu.

Í áliti stofnunarinnar frá 13. júlí sl. komi skýrt fram í kafla 3.1.3 að stofnunin telji tilefni til að framkvæmdaraðili láti fara fram viðhorfskönnun meðal ferðamanna og ferðaþjónustuaðila til uppbyggingarinnar. Með þessu árétti stofnunin að ástæða sé til þess að slík könnun fari fram áður en til leyfisveitingar komi. Ekki hafi verið um skilyrði að ræða heldur ítrekun á fyrri ábendingu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Ítrekuð er m.a. umfjöllun í kæru um tengsl skilyrða Skipulagsstofnunar og krafna um viðeigandi aðskilnað þegar leyfisveitandi er jafnframt framkvæmdaraðili. Varðandi viðhorf sveitarfélagsins um að vanræksla á að leggja fram greinargerð um afgreiðslu leyfis hafi engar afleiðingar, sé ítrekuð fyrri umfjöllun í kæru og ákvæði 3. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 og 2. mgr. 14. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafnað sé því sjónarmiði að minni kröfur eigi að gera til forms ákvörðunar þar sem kærði sé bæði leyfisveitandi og framkvæmdaraðili. Sé um það vísað til umfjöllunar í kæru um kröfur Evróputilskipunar sem lög nr. 111/2021 eru innleiðing á, um aðskilnað slíkra aðila.

Meðal annarra viðbótarröksemda kærenda eru að ákvæði deiliskipulags sem gera ráð fyrir aukinni uppbyggingu í Landmannalaugum séu hvorki í samræmi við áðurgildandi né núgildandi aðalskipulag sveitarfélagsins og því að engu hafandi, án breytinga á aðalskipulagi, sbr. 7. mgr. 12. gr. laga nr. 123/2010 um rétthæð skipulags. Jafnframt að deiliskipulag svæðisins samrýmist ekki þeirri Landsskipulagsstefnu sem Alþingi setti með þingsályktun 2016.

Athugasemdir kæranda við málsrök Skipulagsstofnunar: Sjónarmiðum stofnunarinnar sé vísað á bug en mat á áhrifum valkosta liggi ekki fyrir og um sé að ræða einn grundvallarþátta umhverfismats. Þá sé hafnað þeim skilningi að skilyrði í kafla um leyfisveitingar í áliti um matsskýrslu hafi einungis falið í sér áréttingu á tilmælum og að stofnunin hefði kveðið fastar að orði hefði hún ætlast til þau yrðu bindandi. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 111/2021 hafi komið fram að skilyrði í áliti Skipulagsstofnunar séu bindandi fyrir leyfisveitanda og skylt sé að taka þau upp í ákvörðun um leyfisveitingu. Þessi staða álits Skipulagsstofnunar gagnvart leyfisveitanda sé talin tryggja hlutleysi leyfisveitanda í samræmi við kröfur tilskipunar 2011/92/ESB eins og henni hafi verið breytt með tilskipun 2014/52/ESB.

——

Rangárþingi ytra var gefið tækifæri til að tjá sig um viðbótarathugasemdir kæranda. Þá hefur kærandi gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði aðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta þegar um er að ræða ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Kærendur eru náttúruverndarsamtök sem uppfylla skilyrði kæruaðildar skv. 4. mgr. 4. gr laga nr. 130/2011 og verður þeim því játuð kæruaðild að máli þessu.

Með bréfi, dags. 17. ágúst 2023, sótti sveitarfélagið Rangárþing ytra um framkvæmdaleyfi til uppbyggingar á grjótvörn vegna fyrirhugaðrar stækkunar á bílastæði við Námskvísl í Land­mannalaugum. Fram kom í umsókninni að um væri að ræða hluta af heildarframkvæmd vegna uppbyggingar þjónustumiðstöðvar í Landmannalaugum sem sætt hafi umhverfismati. Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar sveitarfélagsins 7. september 2023, þar sem samþykkt var að leggja til við sveitarstjórn að heimild yrði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli heimilda aðalskipulags og gildandi deiliskipulags. Erindið var tekið fyrir og samþykkt á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra 13. s.m.

Verður nú fjallað um hvort skilyrðum til veitingar framkvæmdaleyfis hafi verið fullnægt. Kemur þar til skoðunar málsmeðferð við hina kærðu leyfisveitingu, m.a. að teknu tilliti til umhverfismatsins sem fram fór og er hluti af undirbúningi hennar. Ljóst er að skyldur sveitar­stjórnar sem leyfisveitanda eru ríkar við útgáfu leyfis til framkvæmdar sem undirgengist hefur umhverfismat og er í lögum kveðið á um ákveðna málsmeðferð og skilyrði þess að leyfi verði veitt. Auk skipulagslaga nr. 123/2010 og laga nr. 111/2021 geta komið til skoðunar ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ásamt ýmsum verndarákvæðum laga, þar með talinna laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Í þessu sambandi athugast að með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 354/1979 voru Landmannalaugar ásamt víðáttumiklu svæði milli Torfajökuls og Tungnaár friðlýst með heimild í 24. gr. þágildandi laga um náttúruvernd nr. 47/1971. Samkvæmt 8. gr. núgildandi laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, skulu ákvarðanir stjórnvalda sem varða náttúruna eins og kostur er byggjast á vísindalegri þekkingu á verndarstöðu og stofnstærð tegunda, útbreiðslu og verndarstöðu vistgerða og vistkerfa og jarðkerfa landsins. Í athugasemdum sem fylgdu 8. gr. frumvarps þess sem varð að lögunum er fjallað ítarlega um það markmið að vernda til framtíðar fjölbreytni íslenskrar náttúru. Fram kemur að krafan um þekkingu skuli vera í samræmi við eðli ákvörðunar og væntanleg áhrif hennar á náttúruna. Séu því gerðar meiri kröfur þegar um er að ræða stærri framkvæmdir. Einnig verði að taka mið af því hversu mikil áhrif ákvörðunin sé líkleg til að hafa.

—–

Í kæru er að því vikið að sveitarfélagið sé í senn framkvæmdaraðili og leyfisveitandi. Staðhæft er að enginn aðskilnaður ábyrgðar hafi verið gerður við afgreiðslu hins kærða leyfis til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur. Ljóst sé af gögnum málsins að starfsmenn sveitarfélagsins hafi, með aðstoð sérfræðinga og ráðgjafa, annast og borið ábyrgð á öllu ferli umhverfismats fram­kvæmdarinnar, þar á meðal gerð matsskýrslu.

Fyrirmælum um almennt hæfi í stjórnsýslu sveitarfélaga, eins og þau koma fyrir í 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sem og II. kafla stjórnsýslulaga, er ætlað að girða fyrir að tilteknir einstaklingar, sem teljast vanhæfir vegna m.a. hagsmunaárekstra eða fyrri starfa, geti komið að eða átt þátt í undirbúningi og töku ákvörðunar. Er þar ekki vikið að mögulegu sérstöku hæfi lögaðila, en reifað hefur verið í fræðum hvort beita megi sjónarmiðum um sérstakt hæfi um lögaðila á grundvelli óskráðra meginreglna. Yrði þá um leið að huga að, eftir því sem við ætti, að stjórnvöld fara með gæslu almannahagsmuna og því myndu önnur sjónarmið gilda um mat á hæfi þeirra auk þess að takmarkaðir möguleikar til setningar staðgengils gætu verið af þýðingu þegar stjórnvaldi væri skylt eða rétt að taka ákvörðun.

Sveitarstjórnir sækja umboð sitt til íbúa og ber að rækja skyldur sínar lögum samkvæmt, sbr. 8. gr. laga nr. 138/2011. Verður því ekki talið að annmarka sé til að dreifa á málsmeðferð sveitarfélagsins, eins og á stóð, en um leið standa eðlisrök til þess að sveitarstjórnir vandi vel til við rökstuðning ákvarðana um leyfisveitingu þegar svo hagar til að sveitarfélag stendur sjálft að umsókn.

—–

Samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 21. gr. laga nr. 111/2021 skal framkvæmdaraðili leggja álit Skipulagsstofnunar um matsáætlun til grundvallar við umhverfismat framkvæmdar og skal álitið fela í sér leiðbeiningar til framkvæmdaraðila um vinnslu, efni og framsetningu umhverfis­matsskýrslu, m.a. með hliðsjón af framkomnum umsögnum, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Þá skal gerð og efni umhverfismatsskýrslu vera í samræmi við matsáætlun og álit Skipulags­stofnunar um hana, sbr. 2. mgr. 22. gr., og skal skýrslan innihalda lýsingu og mat á raunhæfum valkostum sem framkvæmdaraðili hefur kannað ásamt upplýsingum um helstu ástæður fyrir þeim valkosti sem var valinn, með tilliti til umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar, sbr. c-lið 1. mgr. 22. gr. nefndra laga.

Álit Skipulagsstofnunar um matsskýrslu þarf að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald. Þar skal koma fram rökstudd niðurstaða stofnunarinnar um umhverfismat framkvæmdarinnar og, eftir því sem við á, skilyrði um mótvægisaðgerðir og vöktun sem beint er til leyfisveitenda, sbr. 1. mgr. 24. gr. laganna. Skyldur leyfisveitanda ná til þess að kanna hvort einhverjir þeir annmarkar séu á áliti Skipulagsstofnunar að á því verði ekki byggt. Lýtur lögmætiseftirlit úrskurðarnefndarinnar að hinu sama, sem og því hvort leyfisveitandi hafi sinnt skyldum sínum með fullnægjandi hætti. Í máli þessu hefur kærandi haldið því fram að ekki verði byggt á fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum hvað varði einkum valkostamat og lýsingu umhverfisáhrifa, en þeir þættir sem greina, lýsa og meta skal í matsskýrslu með tilliti til viðkomandi framkvæmdar eru taldir í a-f liðum 4. gr. laga nr. 111/2021.

Í 4. kafla matsskýrslu framkvæmdarinnar kemur fram að markmið hennar sé að styrkja ímynd Landmannalauga sem stórbrotins náttúrusvæðis og þannig raska sem minnst náttúru og lífríki svæðisins. Gert sé ráð fyrir bílastæðum við Námskvísl, við áningarstað vestan Námshrauns og við Námshraun. Við Námskvísl eigi bílastæðin í fyrstu að þjóna daggestum, en hanna þurfi stæðin þannig að „hluti þeirra sé auðveldlega afturkræfur“, þ.e. unnt sé að fjarlægja þau síðar. Eftir uppbyggingu við Námshraun verði unnt að draga úr umferð ökutækja inn fyrir Námshraun. Á bílastæðunum við Námskvísl sé gert ráð fyrir stæðum fyrir 10 rútur eða lengri bíla og 60 smærri bíla. Bílastæðin verði hönnuð í jafnvægi við náttúruna og jarðefni á svæðinu og verði mótuð í samhengi með göngustígum sem liggi meðfram Jökulgilskvísl. Til þess að draga úr sýnileika bílastæða verði gerð mön og/eða lágreistur veggur sem jafnframt sé hluti af rofvörn. Varðandi efnisþörf og efnisöflun sé gert ráð fyrir að stórgrýti í rofvörn verði sótt í námu við Sigöldu, en fyllingarefni verði úr aurum Jökulgilskvíslar. Heildarefnismagn verði um 20.000 m3, þar af um helmingur stórgrýti. Þetta verði gert í góðu samráði við Umhverfisstofnun og eigi alls ekki að hafa í för með sér sýnilegt rask eða neikvæð áhrif á svæðið. Efnisþörf vegna annarra framkvæmda, s.s. vegna viðhalds vega, bílastæða og göngustíga, liggi ekki fyrir, en mikill framburður af möl og leir berist yfir áreyrarnar og talið sé að þar megi sækja nánast allt fyllingarefni sem þurfi vegna framkvæmdanna.

Landmannalaugar eru einn fjölsóttasti ferðamannastaður hálendisins og laut umfjöllun í matsskýrslu að verulegu leyti að áhrifum framkvæmda á útivist og ferðamennsku. Svo sem fjallað er um í kæru var í áliti Skipulagsstofnunar um matsáætlun, dags. 2. mars 2022, bent á að fjalla þyrfti ítarlega um forsendur þess að ferðamönnum mundi eigi fjölga samfara bættri aðstöðu og þjónustu í Landmannalaugum og um leið þær aðgerðir sem framkvæmdaraðili teldi að myndu koma í veg fyrir fjölgun og með hvaða hætti aðgengi yrði stýrt á annan hátt en með því að takmarka framboð bílastæða og með bílastæðagjaldi. Var í því sambandi bent á að „setja þyrfti fram í umhverfismatsskýrslu niðurstöður úr nýjustu könnunum meðal ferðamanna og ferðaþjónustuaðila til fyrirhugaðrar uppbyggingar sem og niðurstöður þolmarkagreiningar sem tæki mið af uppbyggingunni.“ Með hliðsjón af slíkri greiningu þyrfti að vera umfjöllun um þolmarkaviðmið í skýrslunni og hvernig fyrirhugað væri að fylgjast með eða vakta hvort að þolmörkum væri náð og hvort að til staðar yrði viðbragðsáætlun ef til þess kæmi. Var í þessu samhengi jafnframt vísað til markmiðs 1.2 og greinar 1.2.1 í landsskipulagsstefnu, þar sem áhersla væri lögð á að uppbygging ferðamannastaða tæki mið af þoli svæða gagnvart upp­byggingu og gerðar væru ráðstafanir til að draga úr ágangi á viðkvæma náttúru.

Í kafla 6.1. í matsskýrslu var fjallað um áhrif ráðgerðra framkvæmda á útivist og ferðaþjónustu. Þar voru raktar upplýsingar um fjölda ferðamanna og dvalartíma þeirra. Fram kom að þegar fjöldi bílastæða hafi verið ákveðinn við undirbúning deiliskipulags fyrir svæðið hafi verið fjallað um forsendur um fjölda ferðamanna. Áform miði við að þegar svæðið verði fullbyggt verði 220 bílastæði fyrir fólksbíla, 10 stæði fyrir stóra bíla og 20 stæði fyrir rútur. Ef reiknað sé með þremur mönnum að meðaltali í hverjum fólksbíl, 40 í hverri rútu og fimm í hverjum stórum bíl megi áætla heildarfjölda sem sé að hámarki 1510 manns. Fjöldi bílastæða taki með þessu nokkurt mið af þeim fjölda sem þegar komi á svæðið og verði bílastæðin takmarkandi þáttur fyrir hversu margir geti verið þar samtímis. Ekki sé gert ráð fyrir því að svo komnu máli að stýra aðgengi á annan hátt. Með sama hætti er fjallað um svæði sem áætluð séu fyrir tjöld og húsbíla, en það sé nokkru minna en núverandi tjaldsvæði við skála Ferðafélags Íslands. Gert sé með því ráð fyrir óverulegri eða engri fjölgun í tjaldgistingu. Með þessu hefur matsskýrslan að geyma lýsingu á því með hvaða hætti aðgengi í Landmannalaugar verði takmarkað með áformum framkvæmdaraðila.

Í kafla 6.1.3. í matsskýrslu er rakið að árið 2020 hafi komið út skýrsla um viðhorf ferðamanna í Landmannalaugum þar sem borin voru saman árin 2000, 2009 og 2019. Í þeirri skýrslu var greint frá niðurstöðum langtímarannsóknar á félagslegum þolmörkum ferðamanna í Land­mannalaugum. Rannsóknin var byggð á þversniðsgögnum, þ.e.a.s. spurningum sem lagðar voru fyrir ferðamenn í Landmannalaugum sumrin 2000, 2009 og 2019. Skýrslan gefi góða mynd af því hver þolmörk svæðisins séu út frá upplifun ferðamanna í Landmannalaugum, en ekki hafi verið farið í sérstaka þolmarkarannsókn á viðhorfi ferðamanna um fyrirhugaða uppbyggingu sem fjallað hafi verið um í matsáætlun. Fram kemur að þetta frávik frá mats­áætluninni helgist af því að ekki hafi þótt ástæða til að ráðast í slíka rannsókn, þar sem niðurstöður skýrslunnar frá 2020 gefi nokkuð skýra mynd af viðhorfi til frekari uppbyggingar á svæðinu og þar sem í niðurstöðukafla séu einnig rakin sjónarmið um uppbyggingu annars staðar en á núverandi skálasvæði Landmannalauga. Gerð og efni matsskýrslu skal vera í sam­ræmi við matsáætlun og álit Skipulagsstofnunar um hana, sbr. 22. gr. laga nr. 111/2021, en með vísan til þeirra skýringa sem með þessu voru færðar fram í matsskýrslunni, sem Skipulags­stofnun féllst á fyrir sitt leyti, verður ekki talið til annmarka að slík sérstök rannsókn á þolmörkum svæðisins hafi ekki farið fram.

Í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdarinnar var rakið að stofnunin álíti ákveðna óvissu vera um áhrif uppbyggingarinnar á útivist og ferðamennsku, en hún kunni að hafa neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna á Landmannalaugasvæðinu. Í niðurstöðum segir að aðstaða muni koma til með að batna, en óvissa sé um hvort fyrirhuguð uppbygging komi til með að hafa neikvæð áhrif á óbyggðaupplifun og náttúrugæði, m.a. þar sem ekki hafi verið könnuð viðhorf og fengin afstaða ferðamanna til umfangs uppbyggingarinnar við Námshraun eins og henni væri lýst í umhverfismatsskýrslu. Stofnunin áleit það því ákveðinn galla á umhverfismatinu að ekki hafi legið fyrir viðhorfskönnun á afstöðu ferðamanna til fyrirhugaðrar uppbyggingar við Námshraun. Þessi umfjöllun skýrir það sem segir seinast í álitinu, undir liðnum „Leyfisveitingar og skilyrði“, þ.e. að Skipulagsstofnun telji að áður en komi til leyfis­veitinga sé ástæða til að fram fari viðhorfskönnun meðal ferðamanna og ferðaþjónustuaðila til uppbyggingarinnar við Námshraun. Þessa var eigi gætt við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Fyrir liggur á hinn bóginn að Skipulagsstofnun hefur upplýst, svo sem rakið hefur verið, að í þessu hafi ekki falist bindandi skilyrði heldur ítrekun á fyrri bendingu.

Í niðurstöðum álits Skipulagsstofnunar um matsskýrslu segir að stofnunin telji óljóst hvernig komið verði í veg fyrir fjölgun ferðamanna, þar sem ljóst sé að bætt aðstaða kalli gjarnan á aukinn ferðamannafjölda sem og breytta samsetningu þeirra. Efast megi um að takmarkanir á fjölda bílastæða dugi einar sér til að stýra aðsókn að Landmannalaugasvæðinu. Því sé hætta á að fyrirhuguð uppbygging fjölgi ferðamönnum, bæði daggestum og þeim sem komi til með að gista. Með því geti álag aukist vegna lengri viðveru gesta og aukins ágangs, þótt svæðið við Laugahraun kunni að njóta góðs af fyrirhugaðri uppbyggingu við Námshraun og Námskvísl. Í þessu sambandi má einnig geta umsagnar Umhverfisstofnunar við matsskýrsluna, þar sem sagði að þótt umfjöllun í skýrslunni væri ítarleg og góð, hefði gjarnan mátt setja fram skýrari hugmyndir um stýringu á fjölda ferðamanna til að draga úr álagi á svæðinu. Í matsskýrslunni var samkvæmt þessu fjallað um áhrif framkvæmda á útivist og ferðaþjónustu, m.a. með hliðsjón af ólíkum valkostum og verður sú umfjöllun talin fullnægjandi, enda þótt óvissu um mögulega fjölgun ferðamanna verði enn til að dreifa. Um leið verður að athuga að skipulagsáætlanir eru skýrar um landnotkun á svæðinu og virðist það ekki síður viðfangsefni annarra opinberra aðila að móta almennari tillögur um stýringu á umferð eða álagi á ferðamannastaði á hálendinu.

—–

Í matsskýrslu framkvæmdar skal vera lýsing og mat á raunhæfum valkostum sem framkvæmdaraðili hefur kannað og upplýsingar um helstu ástæður fyrir þeim valkosti sem var valinn, með tilliti til umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar, sbr. c-lið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021. Í 2. tl. 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana er í dæmaskyni nefnt að valkostirnir geti verið í tengslum við hönnun fram­kvæmdarinnar, tækni, staðsetningu, stærð og umfang. Gert sé ráð fyrir að valkostir tengist fyrirhugaðri framkvæmd og sérstökum eiginleikum hennar og skulu í skýrslu vera upplýsingar um helstu ástæður fyrir þeim valkosti sem framkvæmdaraðili hefur valið, að teknu tilliti til samanburðar umhverfisáhrifa.

Í kafla 4.4. í matsskýrslunni var almenn umfjöllun um þá valkosti sem fjallað yrði um í skýrslunni auk valkosts B, valkosts framkvæmdaraðila. Færð voru þar fram meginrök fyrir þeim valkosti, þ.e. að við mótun sameiginlegrar stefnu Rangárþings ytra, Rangárþings eystra og Skaftárhrepps um skipulagsmál, ferðaþjónustu og samgöngur á Fjallabakssvæðinu hafi verið ákveðið að flytja alla meginþjónustu í Landmannalaugum nær vegamótum við Fjalla­baksleið nyrðri. Í þeirri vinnu hafi verið bornir saman þrír valkostir um ferðaþjónustu í Landmannalaugum auk núllkosts. Með því yrði stærsti hluti núverandi þjónustu færður frá Laugasvæðinu, en gert ráð fyrir að bílaumferð inn í Laugar yrði takmörkuð og þannig skapist meiri friður yfir því svæði. Þar yrði aðstaða fyrir daggesti, eftir atvikum takmörkuð gisting og bílaumferð. Jafnframt yrðu byggð bílastæði við Námskvísl. Fram kom að valkostur A, um uppbyggingu innan Laugasvæðisins, myndi væntanlega auka umferð og álag á það svæði. Með valkosti C, þar sem meginstarfsemin væri flutt burt úr Laugum, voru leiddar líkur að því að þeim mundi fækka sem hefðu viðdvöl í fleiri daga.

Umfjöllun um báða þessa valkosti, A og C, auk núllkosts er hluti af umfjöllun um einstaka umhverfisþætti í matsskýrslunni þannig að þeir eru á hverjum stað bornir saman við valkost framkvæmdaraðila, B. Þegar hefur verið rakin í nokkru umfjöllun matsskýrslu um áhrif framkvæmda á útivist og ferðaþjónustu. Um áhrif framkvæmda á fornleifar, gróður og jarðveg var einkum byggt á gróðurfarsrannsókn Náttúrufræðistofnunar Íslands frá árinu 2014. Þar var fjallað um gróðurfarslegt gildi svæðisins, sem álitið hafi verið mjög verðmætt, einkum vegna votlendis sem liggi undir vel grónu líparíthrauni, en fram kom að mestur hluti ráðgerðrar uppbyggingar væri innan svæðis sem væri flokkað sem melar. Innan framkvæmdasvæðisins væru um 2,2 ha skilgreint deiglendi, en mögulegt rask innan þess væri um 0,2 ha. Fram kom að áhrif valkosts framkvæmdaraðila væru jákvæð á gróðurfar, meðan kostir A og C hefðu í för með sér minnkandi álag, en núllkostur hefði aukið álag.

—–

Meðal þeirra umhverfisþátta sem lýsa skal í matsskýrslu, eftir því sem við á, eru áhrif á vatn og eru í dæmaskyni nefndar „vatnsformfræðilegar breytingar, magn og gæði“, sbr. c. lið 4. tl. 15. gr. reglugerðar nr. 1381/2021. Takmörkuðum leiðbeiningum er til að dreifa á grundvelli 2. mgr. 6. gr., sbr. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 111/2021 um hvernig nánar verði að mati þessu staðið. Um áhrif á vatn var fjallað í kafla 6.7. í matsskýrslu um vatnafar og var rakið að með framkvæmdunum yrðu gerðar breytingar, styrktir og gerðir nýjir varnargarðar við Jökulgilskvísl og Námskvísl en þar séu þegar víða varnargarðar meðfram ánum. Meðal annars ætti að færa Námskvísl aðeins frá hlíðinni þar sem fyrirhugað væri að koma fyrir byggingum. Færslan væri mest um 20 metrar og yrði farveginum breytt á um 150 m kafla. Fjallað var um hönnun varnargarðanna með hliðsjón af umhverfisaðstæðum og ásýnd þeirra. Í matsáætlun hefði verið gert ráð fyrir því að metin yrðu áhrif tilfærslu Jökulgilskvíslar á um 150 m kafla á vatnafar og rofkraft en sú rannsókn hafi átt að fara fram sumarið 2021, en af því hafi ekki orðið, þar sem ekki lægi enn fyrir hönnun á rofvörnunum. Ljóst sé þó að Jökulgilskvísl breyti árfarvegi sínum árlega og hvernig hún flæði um aurana sé breytilegt eftir árum. Fram kom einnig að talið væri að fyrirliggjandi vatnsból og vatnsveita gætu annað fyrirhugaðri uppbyggingu og væri ekki gert ráð fyrir framkvæmdum við vatnsveituna. Var um þetta vísað til úttektar verkfræðistofu sem hafi reiknað út vatnsþörf svæðisins og var gerð grein fyrir niðurstöðum.

Í áliti Skipulagsstofnunar var bent á athugasemdir Veðurstofunnar við matsskýrsluna um að huga þyrfti að rofmætti Jökulgilskvíslar við Námshraun og varnargarða þegar unnið yrði að hönnun þeirra sem og flóðahættu og kom fram að það yrði gert í samráði við Veðurstofuna. Var í því sambandi tekið undir með henni að kanna þyrfti nánar þegar kæmi að hönnun varnargarða hvort nýta mætti rennslisgögn Landsvirkjunar úr Jökulgilskvísl til að meta stærð og endurkomutíma flóða. Í niðurstöðum um þennan þátt í áliti sínu benti Skipulagsstofnun á að við núverandi aðstæður væru varnargarðar meðfram báðum ánum en nú væri ráðgert að styrkja þá og byggja nýja þannig að nokkuð inngrip yrði  í vatnafar svæðisins og þrengt yrði að ánum. Þá var einnig álitið að ganga yrði útfrá því að núverandi vatnsveita geti annað þessari auknu uppbyggingu. Þá var rakið að um verulega aukna hreinlætisaðstöðu yrði að ræða á svæðinu og leggja yrði áherslu á að fráveitukerfi og hreinsun fráveitu yrði í samræmi við þær kröfur sem kveðið væri á um í reglugerð um fráveitur og skólp og kynni að vera ástæða til að setja ákvæði í starfsleyfi um vöktun með fráveitu og virkni hreinsivirkis.

Sá ágalli er á þessari umfjöllun að hún er ekki sett í nægilegt samhengi við þær skyldur sem leiða af lögum um stjórn vatnamála. Með þeim lögum eru m.a. gerðar kröfur til leyfisveitingarstjórnvalds um rökstuðning fyrir því að framkvæmdir á borð við þær sem hér eru til umfjöllunar, feli eigi í sér hnignun vatnsgæða sem fari í bága við meginreglur laga um stjórn vatnamála. Úrskurðarnefndin bendir á að í 2. mgr. 11. gr. laganna segir að mat á yfirborðsvatnshloti skuli byggja á fyrirliggjandi gögnum hverju sinni og taka fyrir hverja vatnshlotsgerð mið af skilgreindum líffræðilegum gæðaþáttum auk vatnsformfræðilegra og efna- og eðlisefnafræðilegra þátta eftir því sem við eigi. Einnig kunna að skipta máli ákvæði reglugerðar nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun og aðgerðir samkvæmt vatnaáætlun og fylgiáætlun hennar. Verður þó eigi talið, með hliðsjón af þeirri lýsingu sem þó er í matsskýrslu á ráðgerðum framkvæmdum og almennu orðalagi tilvísaðra fyrirmæla reglugerðar nr. 1381/2021, að af þessum sökum verði eigi byggt á matsskýrslunni um áhrif framkvæmda á vatn og vatnafar.

—–

Ástæða er til að geta sérstaklega lýstum áhrifum framkvæmda á jarðmyndanir. Um þau var vísað til sömu skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 2014 og áður er getið. Rakið var að helstu verðmæti Landmannalauga og næsta nágrennis fælust í því að á svæðinu væru einstakar jarðminjar á heimsvísu sem og einstakar eða fágætar jarðmyndanir á landsvísu. Auk þess væru litbrigði landslags á svæðinu einstök á landsvísu. Valkostur framkvæmdaraðila gerði ráð fyrir nokkrum rofvörnum við Jökulgilskvísl og Námskvísl. Áreyrar Jökulgilskvíslar hefðu hátt verndargildi, en væru þó mörg hundruð hektarar að stærð og í ánni yrðu miklir vatnavextir í vorleysingum þar sem hún flæmdist um allt. Hverfi því strax það rask sem verði í ánni og það efni sem verði flutt til sé mjög lítill hluti af heildarmagninu. Tekið var fram að talverður munur væri á áhrifum á milli valkosta. Þau væru óveruleg í öllum tilvikum, nema að áhrifin af valkosti framkvæmdaraðila væru nokkuð neikvæð vegna efnistöku, en væru þó ekki talin varanleg. Þá var fjallað í skýrslunni um tilhögun göngustíga, gerð mannvirkja og efnistöku með hliðsjón af vernd jarðminja og kom fram hvernig reynt yrði að hlífa þeim jarðminjum sem taldar væru upp í 61. gr. laga um náttúruvernd, svo sem eldhrauni sem hafi myndast eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma. Heildarniðurstaða umhverfismatsskýrslunnar var sú að áhrif framkvæmda við uppbyggingu þjónustumiðstöðvar í Landmannalaugum, samkvæmt valkosti framkvæmdaraðila, væru í flestum umhverfisþáttum metin óveruleg samkvæmt valkosti B. Var í niðurstöðum fjallað um áhrif annarra valkosta með samanburði við þann valkost.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands voru gerðar margvíslegar athugasemdir við mats­skýrslu, sem vert er að greina frá. Þar er m.a. efnistaka úr áreyrum gagnrýnd sem óásættanleg, þar sem hún sé innan friðlands. Fram kemur að með áformum þeim sem lýst sé í skýrslunni verði komið upp tveimur nýjum þjónustusvæðum við Námskvísl og Námshraun. Bílastæði séu stór og fyrirferðarmikil, nýir umfangsmiklir varnargarðar og byggingar staðsettar upp við hraunjaðar Námshrauns. Manngerð ummerki innan svæðisins verði mun meiri og á stærra svæði en nú sé á leiðinni í Landmannalaugar sem komi til með að hafa neikvæð áhrif á verndargildi landslags og jarðminja. Stofnunin sjái ekki skynsemi í því að raska nýjum svæðum innan friðlandsins til að endurheimta svæði sem þegar hafi verið raskað. Þá séu ný þjónustu­svæði ekki trygging fyrir því að álag á öðrum svæðum komi til með að minnka. Bæta þyrfti aðstöðu við Landmannalaugar, en ekki sé sama hvernig það sé gert. Náttúrufræðistofnun var ekki sammála heildarniðurstöðu umhverfismats fyrir valkost B um að ásýnd og landslag verði nokkuð neikvæð og að áhrif á landnotkun og jarðmyndanir séu metin óveruleg eða engin. Þessir þættir verði fyrir verulega neikvæðum eða talsvert neikvæðum umhverfisáhrifum ef af framkvæmdum verði.

Í áliti Skipulagsstofnunar var fjallað efnislega um umsögn Náttúrufræðistofnunar. Um efnis­töku úr líparítáreyrum sagði í álitinu að það fæli í sér rask, en þess konar jarðmyndanir nytu ekki verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á ásýnd og landslag væru nátengd áhrifum framkvæmdanna á ferðamennsku og útivist. Áhrifin varði bæði fyrirhugaða mannvirkjagerð og aukna ásókn ferðamanna tengt auknu þjónustuframboði. Í niðurstöðum um áhrif framkvæmda á ásýnd og landslag var bent á að fyrirhuguð uppbygging muni raska tæplega 10 ha svæði sem sé að mestu óraskað. Þótt niðurstöður sýnileikaathugunar gefi til kynna að sýnileiki fyrirhugaðra mannvirkja frá völdum sjónarhornum, þar sem vænta megi gangandi vegfarenda, sé ekki mikill, sé um nálgun að ræða og óvíst að hvað miklu leyti líkanmyndir gefa rétta mynd af raunverulegum sýnileika. Við svo umfangsmikla uppbyggingu á nýju og að mestu óröskuðu svæði innan friðlands sem einkennist af sérstæðu landslagi, væru óhjákvæmilega líkur á að hún gæti haft „talsvert neikvæð“ áhrif á ásýnd og landslag og þar með á óbyggða- og víðernisupplifun ferðamanna.

Samkvæmt þessu áleit Skipulagsstofnun líkur á því að samantekin áhrif ráðgerðra framkvæmda á ásýnd og landslag væru fremur „talsvert neikvæð“ heldur en „nokkuð neikvæð“ svo sem þeim var lýst í matsskýrslunni (bls. 79). Stofnunin rakti ennfremur að fyrir lægju rannsóknir sem sýndu að víðerni væru ekki einungis bundin við skilgreiningu laga um náttúruvernd heldur væru einnig huglæg, þ.e. með hliðsjón af því hvort að ferðamenn upplifi svæði sem slík. Var í þessu tilliti vísað til framangreindrar skýrslu um viðhorf ferðamanna í Landmannalaugum, sem fylgdi matsskýrslunni sem viðauki, þar sem fram komi að rúmlega 90% ferðamanna í Landmannalaugum upplifi að víðerni séu hluti af aðdráttarafli svæðisins þrátt fyrir þann fjölda ferðamanna sem heimsæki svæðið og þau mannvirki sem þar séu fyrir. Það sé ekki ljóst hvort og þá á hvaða hátt fyrirhuguð uppbygging kunni að breyta þessari upplifun þar sem afstaða ferðamanna til hennar liggi ekki fyrir. Hvað sem líður þessari umfjöllun verður ekki hjá því litið að í matsskýrslunni er allnokkur umfjöllun um áhrif ráðgerðra framkvæmda, m.a. á ásýnd og landslag, þar sem auk frásagnar eru settar fram nokkuð skýrar tölvugerðar myndir sem draga  fram umtalsverð áhrif framkvæmdanna, þ.m.t. bifreiðastæðis við Námskvísl, á ásýnd svæðisins. Verður með vísan til þessa ekki álitið að matsskýrslan sé háð þeim annmörkum að á henni verði ekki byggt um þennan umhverfisþátt.

Tilgangur mats á mismunandi valkostum er einkum að sá sem beri ábyrgð á matinu velti fyrir sér raunhæfum valkostum og mótvægisaðgerðum í þeim tilgangi að draga úr umhverfisáhrifum og er samanburður umhverfisáhrifa raunhæfra valkosta höfuðatriði við mat á umhverfis­áhrifum. Þá ber að kynna bæði matsáætlun og umhverfismatsskýrslu fyrir almenningi og veita með því tækifæri á athugasemdum, sbr. 2. mgr. 21. gr. og 1. mgr. 23. gr. laga nr. 111/2021. Geta athugasemdir frá almenningi og aðilum sem hafa hagsmuna að gæta haft verulega þýðingu, t.a.m. um það hvaða valkosti umhverfismat lýtur að.

Skipulagsstofnun hefur lýst sjónarmiðum fyrir úrskurðarnefndinni um hvernig skuli fjalla um valkosti framkvæmdar í matsskýrslu. Fallast verður á þau sjónarmið í höfuðdráttum. Það verður ekki álitið skylt að lýsa til fullnustu umhverfisáhrifum allra valkosta með sama hætti og valkosti framkvæmdaraðila. Hefur þótt ásættanlegt að umfjöllun um aðra valkosti hafi að geyma samanburð sem geti auðveldað stjórnvöldum og almenningi að leggja mat á áformaða fram­kvæmd og að af þeirri umfjöllun verði um leið ráðið hvers vegna sá valkostur var valinn sem lagður var til grundvallar. Álíta verður að umfjöllun í matsskýrslu sé fullnægjandi hvað þetta varðar. Þá er ljóst af matsskýrslunni að margþætt sjónarmið hvíla að baki valkosti fram­kvæmdaraðila, en þar virðist vega þyngst að með honum sé dregið úr umferð um Lauga­hraunssvæðið og að þjónusta þar miðist við að sinna daggestum, sem skapi meiri friðsæld á því svæði.

Í ljósi framangreinds verður álitið að engir þeir annmarkar séu á matsskýrslu framkvæmdarinnar né heldur áliti Skipulagsstofnunar að á þessum heimildum verði ekki byggt við útgáfu framkvæmdaleyfis.

—–

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana er óheimilt að gefa út leyfi til framkvæmda fyrr en álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Í 27. gr. síðarnefndu laganna eru nánari fyrirmæli um leyfisveitingu vegna mats­skyldrar framkvæmdar. Þannig segir í 1. mgr. 27. gr. að með umsókn um slíkt leyfi skuli fylgja greining framkvæmdaraðila á því hvort forsendur umhverfismats og álits um framkvæmdina hafi breyst af nánar tilgreindum ástæðum. Í ljósi þess að einungis rúmur mánuður leið frá því að álit Skipulagsstofnunar lá fyrir og þar til sótt var um framkvæmdaleyfi verður ekki talið til verulegs annmarka að ekki verður séð að þessara fyrirmæla hafi verið gætt við samþykkt hins kærða leyfis.

Við töku ákvörðunar um leyfi til framkvæmdar sem sætt hefur umhverfismati skal leyfis­veitandi kynna sér umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og leggja álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat hennar til grundvallar, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021. Í 3. mgr. sömu greinar er mælt fyrir um að tekin skuli saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð sé rökstudd grein fyrir samræmi við niðurstöðu álits Skipulags­stofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar. Hafi Skipulagsstofnun sett skilyrði um mótvægisaðgerðir eða vöktun, sbr. 24. gr., skal það einnig koma fram í leyfinu. Sama skylda leiðir af fyrirmælum 2. mgr. 14. gr. laga nr. 123/2010, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Markmið þessa er að sveitarstjórn taki upplýsta ákvörðun um útgáfu fram­kvæmdaleyfis á grundvelli allra þeirra upplýsinga sem fyrir liggi um umhverfismat viðkomandi framkvæmdar.

Umsókn um hið kærða leyfi var tekin fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra 7. september 2023. Í umsókninni var greint frá því að um væri að ræða hluta heildar­framkvæmdar sem kynnt væri í umhverfismatsskýrslu, þ.e. uppbyggingu grjótvarnargarðs vegna bílastæðis við Námskvísl. Tilgangurinn væri sá að verja fyrirhuguð bílastæði sem væri ætlað að stýra og skilgreina betur umferð um Landmannalaugar og færa bílastæðin frá núverandi þjónustusvæðum. Tekið var fram að fyllingarefni verði úr aurum Jökulgilskvíslar. Gert væri ráð fyrir að framkvæmdin hæfist í lok ágúst og væri gildistími leyfisins fimm ár. Fram kom að rofvarnir meðfram Námskvísl væru um 550 m langar og lögð væri áhersla að varnir þessar yrðu eins og kostur væri byggðar úr efnivið af staðnum til þess að ekki þyrfti að flytja efni um langan veg og að mannvirkin féllu að litum svæðisins.

Samþykkt var á fundi skipulags- og umferðarnefndar að leggja til við sveitarstjórn að heimild yrði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis „á grundvelli heimilda aðalskipulags og gildandi deiliskipulags.“ Fram kom um leið að framkvæmdinni hafi verið lýst í umhverfismati og fyrir lægju jákvæðar umsagnir frá Umhverfisstofnun og Landgræðslunni. Á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra 13. september 2023 var gerð grein fyrir niðurstöðu skipulags- og umferðarnefndarinnar og hún samþykkt, án frekari rökstuðnings. Samkvæmt þessu var við málsmeðferðina ekki tekin saman greinargerð um afgreiðslu leyfisins þar sem gerð væri rökstudd grein fyrir samræmi leyfisveitingar við niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar.

Lögbundin skylda til rökstuðnings er mikilvægur þáttur í málsmeðferð leyfisveitingar vegna framkvæmdar sem sætt hefur mati á umhverfisáhrifum, enda til þess fallin að stuðla að því að markmiðum b-liðar 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verði náð, sem og markmiðum laga nr. 111/2021 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana, sem talin eru upp í 1. gr. þeirra laga. Má hér einnig benda á sem áður er rakið að eðlisrök standa til þess að sveitarstjórnir vandi vel til við rökstuðning ákvarðana um leyfisveitingu þegar svo hagar til að sveitarfélag stendur sjálft að umsókn. Auk þess verður almennt ekki við það búið að fjalla eingöngu um stakar framkvæmdir, sem eru hluti af heildstæðu mati á umhverfisáhrifum, án þess að huga að samhengi þeirra við framkvæmdirnar í heild sinni. Verður í ljósi þessa að telja það hvernig staðið var að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar til verulegs annmarka á málsmeðferð sem varða verði gildi hennar.

—–

Við útgáfu framkvæmdaleyfis er sveitarstjórn skylt að fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Þessa var gætt við afgreiðslu umsóknar um hið kærða leyfi þar sem kom fram að framkvæmdin væri í samræmi við heimildir aðalskipulags og gildandi deiliskipulags. Þess skal þó getið að í deiliskipulaginu er fyrirvari gerður um að framkvæmdir séu að hluta háðar því að undanþága fáist frá ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um fjarlægðir mannvirkja frá ám og vötnum, sbr. gr. 5.3.1.14 í skipulagsreglugerð. Af þessu tilefni leitaði úrskurðarnefndin upplýsinga hjá ráðuneyti umhverfismála og liggur fyrir að með bréfi ráðuneytisins til Rangárþings ytra dags. 30. október 2018 var því hafnað að veita slíka undanþágu vegna áforma um byggingu fjögurra húsa á Landmannalaugasvæðinu nær Jökulgilskvísl og Námskvísl en nemi 50 metrum, sökum m.a. óvissu um flóðahættu á byggingarsvæði. Tveimur af þessum húsum er ætlað að nýtast til að þjónusta svæðið í tengslum við aðkomu að laugunum og eru áform um byggingu þeirra því væntanlega tengd áformum hins kærða leyfis um nýtt bifreiðastæði við Námskvísl. Hefði því verið tilefni til þess að fjalla um þennan fyrirvara deiliskipulagsins við undirbúning hins kærða leyfis.

Meðal þess sem haldið er fram af kæranda er að ráðgerðar framkvæmdir samrýmist ekki ákvæðum aðalskipulags og fari því í bága við 7. mgr. 12. gr. laga nr. 123/2010 um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana, en þar er mælt fyrir um að aðalskipulag sé rétthærra en deiliskipulag og að við gerð nýrra skipulagsáætlana eða breytinga á skipulagsáætlunum skuli sveitarstjórnir taka mið af gildandi landsskipulagsstefnu.

Í greinargerð Aðalskipulags Rangárþings ytra 2016–2028 er fjallað um stefnumörkun fyrir friðlýst svæði í kafla 2.7.1. og er þar greint frá því að unnið sé að verndaráætlun fyrir Friðland að Fjallabaki í starfshópi sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar, sem var að störfum þegar aðalskipulagið var sett. Með aðalskipulaginu var gerð sú breyting frá fyrra skipulagi að gert er ráð fyrir því að meginstarfsemi í Landmannalaugum flytjist norður fyrir Námshraun og einungis verði dagdvalaraðstaða á „núverandi svæði.“ Í aðalskipulaginu teljast Landmanna­laugar til afþreyingar- og ferðamannasvæðis, en skv. i-lið gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 eru slík svæði „fyrir afþreyingu og móttöku ferðafólks, þ.m.t. þjónustumiðstöðvar á hálendi og verndarsvæðum, fjallaskálar, tjald- og hjólhýsasvæði og skemmtigarðar“. Verður á grundvelli þessa ekki álitið að hinar ráðgerðu framkvæmdir gangi í bága við aðalskipulag svæðisins.

Auk þessa álítur kærandi að áform um uppbyggingu þjónustumiðstöðvar í Landmannalaugum fari í bága við landsskipulagsstefnu. Þar séu Landmannalaugar tilgreindar sem skálasvæði, þar sem gert sé ráð fyrir þjónustu, þ.m.t. gistingu, en þjónustustarfsemi á slíkum svæðum felist fyrst og fremst í rekstri gistiskála og tjaldsvæða auk fræðslu og eftirlits. Áform um þjónustumiðstöð/móttökuhús/gestastofu með veitingasal og verslun með viðlegubúnað fari gegn þessu og sama gildi um uppbyggingu gistingar og áform um manngerða baðlaug, sem sé „fráleit aðstaða“ innan skálasvæðis í skilningi landsskipulagsstefnu.

Í skýringum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 123/2010 er reifað að landsskipulags­stefna feli í sér almenna skipulagsstefnu ríkisins sem ætlað sé að móta umgjörð um skipulags­gerð sveitarfélaga, en það sé í höndum sveitarfélaga að taka ákvörðun um að samræma og útfæra þá stefnu í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Telji sveitarstjórn að ekki beri að taka mið af samþykktri landsskipulagsstefnu við gerð skipulagsáætlana, sem kunni að leiða til þess að viðkomandi skipulagsáætlun sé í ósamræmi við samþykkta landsskipulagsstefnu, sé eðlilegt að sveitarstjórn geri grein fyrir ástæðum þess þegar hún sendi Skipulagsstofnun tillögu sína að skipulagsáætlun. Í samræmi við þetta er fyrirmælum 7. mgr. 12. gr. laga nr. 123/2010 einungis ætlað að vera af þýðingu við gerð nýrra skipulagsáætlana eða breytingar á skipulagsáætlunum.

Þess má geta að kærandi hefur lagt fram bréf Skipulagsstofnunar til Rangárþings ytra varðandi tillögu að deiliskipulagi fyrir Landmannalaugar, dags. 15. mars 2017, en þar var gerð bending um að fjalla yrði nánar um áhrif landsskipulagsstefnu 2015–2026 á fyrirhugaða uppbyggingu, m.a. um samræmi áformanna við markmið stefnunnar um verndun víðerna og náttúrugæða á miðhálendinu, takmarkaða uppbyggingu ferðaþjónustu og flokkun Landmannalauga sem skálasvæði. Var um þetta vísað nánar til markmiðs 1.2. í landsskipulagsstefnu og skýringa við það markmið á bls. 18–20 í stefnunni. Við yfirlit um greinargerð þá sem fylgdi deiliskipulagi Landmannalauga, verður ekki annað ráðið en að leitast hafi verið við að bregðast við þessum athugasemdum í nokkru, m.a. með umfjöllun um að gert væri ráð fyrir því að á skálasvæðum byggist upp aukin þjónusta frá því sem verið hafi og var í því sambandi m.a. lýst áformum um gistingu og tjaldsvæði.

—–

 Í lögum nr. 123/2010 er eigi mælt beinum orðum fyrir um að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli önnur leyfi eða samþykki liggja fyrir. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laganna getur sveitarstjórn bundið framkvæmdaleyfi þeim skilyrðum er fram kunna að koma í áliti Skipulagsstofnunar að svo miklu leyti sem aðrir sem veita leyfi til framkvæmda samkvæmt sérlögum hafa ekki tekið afstöðu til þeirra. Jafnframt er sveitarstjórn heimilt að binda framkvæmd skilyrðum sem sett eru í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir sveitarfélagsins. Í 5. tl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 kemur síðan fram að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja fyrirliggjandi samþykki og/eða leyfi annarra leyfisveitenda sem framkvæmdin kann að vera háð samkvæmt öðrum lögum, ásamt upplýsingum um önnur leyfi sem framkvæmdaraðili er með í umsóknarferli eða hyggst sækja um.

 Hið kærða leyfi varðar framkvæmd innan þjóðlendu. Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta er tiltekið að til að nýta land og landsréttindi innan þjóðlendu þurfi leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, en sé nýting heimiluð til lengri tíma en eins árs þurfi jafnframt samþykki ráðherra. Samþykki ráðherra lá ekki fyrir við samþykkt hins kærða leyfis sem var því bundið eðlilegum fyrirvara um öflun þess. Upplýsa má að samkvæmt gögnum sem úrskurðarnefndin hefur aflað var með tölvubréfi forsætis­ráðuneytisins til sveitarfélagsins frá 14. september 2023 tekin nokkur afstaða til beiðni um slíkt samþykki. Þar voru rakin ákvæði laga nr. 58/1998 og reglugerðar nr. 630/2023 um meðferð og nýtingu þjóðlendna. Fram kom að við mat á beiðnum um samþykki væri almennt litið til þess hvort afnot samrýmist landsskipulagsstefnu og aðgerðaráætlun sem væri hluti af stefnunni, skipulagsáætlunum sveitarfélags, verndar- og orkunýtingaráætlun eða niðurstöðu um mat á umhverfisáhrifum, ef við ætti. Einnig var í tölvubréfinu vísað til sjónarmiða um sjálfbæra nýtingu. Þar sem leyfi til framkvæmdarinnar hefði verið kært til úrskurðarnefndarinnar hygðist ráðuneytið, að svo stöddu, ekki taka afstöðu til beiðninnar.

Það verður ekki ráðið af gögnum þessa máls hvort lagt hafi verið mat á það við veitingu hins kærða leyfis hvort tilkynna bæri Orkustofnun um hana, en skv. 1. mgr. 144. gr. vatnalaga nr. 15/1923 skal tilkynna stofnuninni um allar framkvæmdir sem er fyrirhugað að ráðast í og tengjast vatni og vatnafari. Í 4. mgr. 144. gr. segir að stofnuninni sé heimilt að setja skilyrði fyrir leyfis- eða tilkynningarskyldri starfsemi og framkvæmdum sem talin eru nauðsynleg af tæknilegum ástæðum eða ef ætla megi að framkvæmdir eða starfsemi geti spillt þeirri nýtingu sem fram fer í eða við vatn eða möguleikum á að nýta vatn síðar. Slík skilyrði skuli vera í samræmi við markmið laganna, reglugerðir og vatnaáætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Heimild Orkustofnunar til þess að setja slík skilyrði nær þó ekki til starfsemi og framkvæmda á friðlýstum svæðum sem háðar eru leyfi Umhverfisstofnunar. Með þessu er til að dreifa tilkynningarskyldu til Orkustofnunar, feli framkvæmd í sér áhrif á vatnafar, en gert er ráð fyrir því að Orkustofnun miðli upplýsingum um efni slíkra tilkynninga síðan til Umhverfisstofnunar.

Þá skal þess getið að í bréfi Fiskistofu til Skipulagsstofnunar, dags. 17. mars 2023 kemur fram það viðhorf að ráðgerðar framkvæmdir í Landmannalaugum geti verið háðar leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Jafnframt verður að benda á 3. mgr. 28. gr. laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011, en þar er mælt fyrir um að leyfisveitandi skuli við afgreiðslu umsóknar um leyfi til nýtingar vatns og við aðra leyfisveitingu til framkvæmda á grundvelli vatnalaga, laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og um leyfi á grundvelli skipulagslaga og laga um mannvirki, tryggja að leyfið sé í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun. Til hvorugra þessara fyrirmæla var tekið tillit, að því séð verði, við undirbúning hins kærða leyfis, en ekki verður útilokað að til þess hefði verið ástæða með hliðsjón af legu hins ráðgerða grjótvarnargarðs.

Hinar ráðgerðu framkvæmdir eru innan friðlýsts svæðis svo sem fjallað er ítarlega um í matsskýrslu og í sjónarmiðum kæranda. Í mars 2021 var sett stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Friðland að Fjallabaki 2021–2030, með heimild í 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, sbr. auglýsingu nr. 422/2021 í B-deild Stjórnartíðinda. Í áætluninni kemur m.a. fram að með gildistöku núgildandi laga um náttúruvernd hafi skilgreining á friðlöndum breyst nokkuð og séu þau nú skilgreind sem svæði sem vernduð séu með það að markmiði að vernda tilteknar vistgerðir og búsvæði og að styrkja verndun tegunda lífvera sem séu sjaldgæfar eða í hættu samkvæmt útgefnum válistum. Einnig til að vernda lífríki sem sé sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt. Verndargildi Friðlands að Fjallabaki felist hins vegar fyrst og fremst í fjölbreyttu landslagi, landslagsheildum og breytileika jarðminja og jarðhitafyrirbæra ásamt því að hluti svæðisins séu ósnortin víðerni. Samkvæmt 5. tl. friðlýsingarinnar, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 354/1979, er mannvirkjagerð, efnistaka og annað jarðrask í friðlandinu háð samþykki Umhverfisstofnunar.

Með bréfi dags. 18. ágúst 2023 leitaði Rangárþing ytra eftir umsögn Umhverfisstofnunar um ráðgerða framkvæmd við varnargarða við Námskvísl. Í umsögn stofnunarinnar, dags. 1. september 2023, var álitið að verkefnið væri líklegt til að hafa neikvæð, staðbundin áhrif á náttúrufar svæðisins, en væri þó jákvætt fyrir verndargildi þess þar sem nauðsynlegt væri að styrkja innviði sökum álags. Bent var á að ráðgerð efnistaka úr áreyrum Jökulgilskvíslar muni valda tímabundnu raski, en líklegt sé að áhrif efnistökunnar hverfi tiltölulega fljótt sé vel að staðið sökum staðsetningar námu á miðjum áreyrum. Áður hafi verið sótt efni á þetta sama svæði og hafi það jafnað sig tiltölulega hratt. Fram kemur að Umhverfisstofnun vinni að útgáfu leyfis til framkvæmda samkvæmt friðlýsingarskilmálum, en óskað hafi verið eftir frekari upplýsingum varðandi efnistökusvæði sem ekki hafi borist og hafi leyfið því enn ekki verið afgreitt. Áður en úr því greiddist hafi framkvæmdaleyfið verið kært og hafi því afgreiðsla leyfisins farið í bið hjá stofnuninni.

Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar getur verið af þýðingu fyrir málsmeðferð þeirra aðila sem hafa með höndum skyldur samkvæmt skilmálum friðlýsingar landsvæða. Í stefnukafla stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Friðland að Fjallabaki 2021–2030 er raunar fjallað í nokkru um ráðgerðar framkvæmdir í Landmannalaugum, þ.m.t. að endurbyggja þurfi bílastæði við Námskvísl í samræmi við deiliskipulag og að takmarka skuli fjölda bíla sem leggi sunnan megin við Námskvísl þegar framkvæmdum við bílastæðin við Námskvísl verði lokið, en bílastæðin verði „stjórntæki“ til að stýra fjölda gesta hverju sinni. Tilefni hefði verið til þess í umsókn um framkvæmdaleyfi að gerð hefði verið grein fyrir því hvort sótt hafi verið um greinda heimild Umhverfisstofnunar á grundvelli friðlýsingar.

Þess skal að lokum getið að af hálfu kæranda hefur því verið haldið fram að þörf sé á undanþágu frá skilmálum friðlýsingar skv. 38. gr. sbr. 41. gr. laga nr. 60/2013, þar sem áform framkvæmdaraðila stríði gegn markmiði greindrar friðlýsingar eða geti skaðað verndargildi friðlýstra náttúruminja. Úrskurðarnefndin leitaði viðhorfa Umhverfisstofnunar af þessu tilefni og kom fram í tilsvari að stofnunin áliti svo væri eigi, þar sem með þeim yrði létt á álagi við skálasvæðið í Landmannalaugum og þannig stutt við verndun landslags og gróðurfars sem hafi verið markmiðið með friðlýsingu landsvæða sem friðlönd, sbr. 24. gr. laga nr. 47/1971. Úrskurðarnefndin bendir á að þessi afstaða stofnunarinnar á ekki undir nefndina til endurskoðunar, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 60/2013.

—–

 Með vísan til framangreinds verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 13. september 2023 um að veita Rangárþingi ytra framkvæmdaleyfi vegna gerðar grjótvarnargarðs við fyrirhuguð bílastæði við Námskvísl við Landmannalaugar.