Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

142/2023 Efnistaka austan Karlseyjarvegar

Árið 2024, mánudaginn 29. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 142/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps frá 11. október 2023 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í námu E-27.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 14. desember 2023, kærir eigandi, Miðjanesi, Reykhólahreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps frá 11. október 2023 að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í námu E-27, austan Karlseyjarvegar á Reykhólum. Er þess krafist að leyfið verði fellt úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykhólahreppi 15. janúar 2024.

Málsatvik og rök: Samkvæmt Aðalskipulagi Reykhólahrepps 2022–2034 eru í hreppnum nokkur fjöldi efnistökusvæða. Með óverulegri breytingu á skipulaginu, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 29. september 2023, var nýrri námu bætt við austan Karlseyjarvegar á Reykhólum, E27. Í kjölfar þeirrar breytingar eru í sveitarfélaginu 20 efnistökusvæði. Framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í námunni var gefið út í nóvember s.á. en áður hafði sveitarstjórn á fundi sínum 11. október s.á. falið skipulagsfulltrúa að gefa leyfið út. Er ákvörðun sveitarstjórnar hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Kærandi vísar m.a. til þess að með vinnubrögðum sveitarstjórnar sé bæði brotið gegn meðalhófi og jafnræði. Stjórnsýsla við breytingu á aðalskipulagi hafi verið óvönduð. Hagsmunir kæranda felist fyrst og fremst í því að hinn almenni íbúi sitji við sama borð og stjórnvald, en hann hafi sjálfur þurft að ganga í gegnum tæplega tveggja ára ferli til að fá landnotkun á jörð sinni breytt. Hagsmunir hans séu einnig fjárhagslegir en í landi kæranda sé opin grjótnáma og sé kærandi eigandi einu löglegu grjótnámunnar á Reykjanesi í Reykhólahreppi. Gert hafi verið ráð fyrir námu hans í aðalskipulaginu og sveitarfélagið hefði getað keypt efni úr henni. Verðmæti þeirra 20.000 m3 sem sveitarfélaginu vanti í framkvæmdir sé sennilega á milli 300-400 kr. pr. m3 og því ljóst að hagsmunir hans séu ríkir. Til staðar séu þúsundir rúmmetrar af góðu og sprengdu efni sem tilbúið sé til mölunar í rétta stærð. Þá hefur kærandi komið á framfæri varakröfu um að ákvörðun um „breytingu á aðalskipulagi varðandi námu E-27 verði tekin upp“.

Af hálfu Reykhólahrepps er m.a. bent á að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og eigi því ekki kæruaðild, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærandi er eigandi jarðarinnar Miðjanes í Reykhólahreppi. Sú jörð er í nokkurri fjarlægð frá hinni umdeildu námu austan við Karlseyjarveg. Verður því ekki séð að leyfi til námunnar geti varðað grenndarhagsmuni hans og er heldur ekki á því byggt. Aftur á móti hefur kærandi fært fram sjónarmið um fjárhagslega eða samkeppnislega hagsmuni. Almennt leiða þeir óbeinu hagsmunir sem kærandi hefur með því vísað til ekki til kæruaðildar samkvæmt stjórnsýslurétti og verður ekki séð að í skipulagslögum nr. 123/2010 sé gert ráð fyrir því við töku ákvörðunar um veitingu framkvæmdaleyfis, sbr. 13. gr. laganna. Þar sem ekkert liggur fyrir um að kærandi hafi aðra þá lögvörðu hagsmuni sem veitt geta honum kæruaðild verður kröfu hans vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kærandi hefur einnig krafist þess að úrskurðarnefndin láti sig breytingu á Aðalskipulagi Reykhólahrepps 2022–2034  varða. Í 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga kemur fram að aðalskipulag er háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Þær ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta verða ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga.

 

Af framangreindu virtu verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.