Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

114/2023 Krossavík

Árið 2024, miðvikudaginn 31. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 114/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 19. júlí 2023, um að samþykkja nýtt deiliskipulag Krossavíkurbaða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi að Hraunsási 18, Hellissandi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 19. júlí 2023, að samþykkja nýtt deiliskipulag Krossavíkurbaða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 10. nóvember 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá bæjarstjórn Snæfellsbæjar 23. október 2023.

Málavextir: Krossavík er vík vestan við kauptúnið Hellissand þaðan sem áður fyrr var útgerð. Að undangenginni auglýsingu skv. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samþykkti sveitarstjórn Snæfellsbæjar á fundi sínum 17. júlí 2023 tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Snæfellsbæjar 2015-2031 vegna fyrirhugaðs baðstaðar í Krossavík. Tók breytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. ágúst s.á. Samhliða aðalskipulagsbreytingunni var unnið að gerð deiliskipulags fyrir svæðið en í deiliskipulagstillögunni kom fram að svæðið hentaði einkar vel fyrir baðstað þar sem slík starfsemi styddi við verndun hafnarmannavirkja í Krossavík auk þess að fram kom að á svæðinu væri mikið útsýni. Uppbygging gerði ráð fyrir byggingum allt að 500 fermetrum að stærð, með þjónustubyggingu á einni hæð, með búningsherbergjum, móttöku og þjónustusvæði fyrir gesti, aðstöðu fyrir starfsfólk, tæknirýmum o.fl. Fram kom að á svæðinu yrði aðstaða til gufubaða og mismunandi gerðir af pottum með heitu og köldu vatni. Gert var einnig ráð fyrir 1.800 m² svæði fyrir um 40 bílastæði og umferðarsvæði milli baðs og bílastæða. Deiliskipulagstillagan fékk meðferð samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010 og var samþykkt í bæjarstjórn Snæfellsbæjar 19. júlí 2023. Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 30. ágúst 2023.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að undirbúningur hins kærða deiliskipulags hafi verið haldinn verulegum annmörkum. Með hinu nýja deiliskipulagi verði náttúru í Krossavík og á Brimnesi stórlega spillt og mikil áhætta tekin með fágætar vistgerðir með hátt verndargildi og fuglalíf. Engir brýnir almannahagsmunir standi til þess að þessi leið verði farin heldur þvert á móti krefjist almannahagsmunir þess að hentugri staðsetning verði fundin fyrir baðstað. Aðrir raunhæfir og sambærilegir staðarvalkostir hafi aldrei verið skoðaðir. Ekki hafi verið sinnt af hálfu Snæfellsbæjar að ráðast í grunnrannsóknir sem umsagnaraðilar hafi ítrekað bent á að skorti og séu nauðsynlegar. Við gerð umhverfismatsskýrsla hafi sveitarfélagið brotið gegn b. og c. lið 12. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Hafi kynning og afgreiðsla bæjarstjórnar á nýju deiliskipulagi auk þess hvorki verið í samræmi við 4. mgr. 40. gr. og 3. mgr. 41 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 né 1. mgr. 41. gr. laga nr. 138/2011

 Þá sé framsetning hins kærða deiliskipulags ekki verið í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Hafi Skipulagsstofnun bent á það í bréfi  til sveitarfélagsins, dags. 2. ágúst 2023, að áður en deiliskipulagið yrði birt með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þyrfti að lagfæra m.a. hnitsetningu lóða. Því hafi ekki verið sinnt af hálfu sveitarfélagsins. Einnig hafi umhverfismat nýs deiliskipulags í Krossavík ekki verið í samræmi við c. lið 14. gr laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þá séu athugasemdir gerðar við umfjöllun í umhverfismatsskýrslu. Sem dæmi sé mikið gert úr því að svæðið sé raskað og þar hafi verið athafnasvæði áður. Hið rétta sé að engin starfsemi, utan við rekstur á lágstemdri listamannaíbúð og litlu galleríi í stuttan tíma hafi verið í Krossavík í yfir 50 ár.

 Málsrök Snæfellsbæjar: Bent er á að hið kærða deiliskipulag sé í samræmi við aðalskipulag sem tekið hafi gildi með auglýsingu Skipulagsstofnunar í ágúst 2023. Deiliskipulagið sé einnig í samræmi við meginstefnu Snæfellsbæjar sem mótuð hafi verið við síðustu endurskoðun aðalskipulags um afþreyingar og ferðamannasvæði vegna fjölgunar ferðamanna. Lýsingar vegna aðalskipulagsbreytingar og nýs deiliskipulags og vinnslutillögur beggja skipulagsstiga hafi verið kynntar á almennum auglýstum fundum. Áður en lýsing og matslýsing hafi verið kynntar hefði staðsetning baðlóns í gömlu sundlauginni á Hellissandi verið metin en hafnað þar sem metið var að hún hefði valdið verulegri slysahættu fyrir börn. Eftir kynningu lýsingar hafi verið skoðað að koma baðlóni fyrir á Rifi, en það hafi einnig verið metið óraunhæft. Þar færi umferð um gönguleiðir og leiksvæði barna ef núverandi vegir yrðu notaðir, en að öðrum kosti hefði þurft að útbúa nýjan aðkomuveg með tilheyrandi raski fyrir svæðið. Einnig hafi verið metnir staðir milli Hellisands og Rifs en þeir hefðu kallað á nýjan veg og rask á ósnortnu landi. Alvanalegt sé að skoðaðir séu ýmsir kostir sem ekki sé fjallað frekar um séu þeir álitnir ónothæfir.

Umhverfismatsskýrslan sé miðuð við Krossavík, á þegar röskuðu svæði, og sé gerð miðað við að um litla framkvæmd sé að ræða, sem hvorki sé tilkynningarskyld né matsskyld í samræmi við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í umhverfisskýrslu sé gert ráð fyrir að annað hvort verði fyrirhugaðar framkvæmdir við Krossavík eða engar framkvæmdir, því aðrir kostir hafi þegar verið útilokaðir. Eftir kynningu lýsingar og gerð nákvæmrar gróðurgreiningar hafi verið gerð tillaga um að færa fyrirhuguð mannvirki úr fjöru og upp fyrir gróðurkant við fjöru og minnka framkvæmdasvæðið verulega.

 Viðbótarathugasemdir kæranda:  Í tilefni af málsrökum Snæfellsbæjar er bent á að í stefnu bæjarins í umhverfismálum í aðalskipulagi komi fram í kafla 2 á bls. 15: „Í Snæfellsbæ er rík meðvitund um gildi umhverfisverndar og vilji til að stuðla að sjálfbærri uppbyggingu innan sveitarfélagsins, með áherslu á samþættingu náttúru, efnahags og mannlífs. Lögð er áhersla á vitundarvakningu um landslag og verndun þess. Leitað er leiða til að geta tekið á móti vaxandi umferð um svæðið, án þess að umhverfið verði fyrir skaða. Tekið verði tillit til þolmarka íbúa.” Hið kærða deiliskipulag stangist á við þessa stefnu í öllum meginatriðum. Vegna viðkvæms gróðurs og fuglalífs á svæðinu sé alls ekki æskilegt að ýta undir frekari umferð fólks í Krossavík þar sé fyrir. Sérstaklega ekki þar sem rannsóknir skorti á fuglalífi og mati á þolmörkum þess. Það sama gildi um þolmörk íbúa gagnvart ferðamönnum.

Málsrök framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna málsins en engar bárust.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 19. júlí 2023 um að samþykkja deiliskipulag Krossavíkurbaða á Hellissandi.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.

Kærandi er íbúi að Hraunási 18, á Hellissandi og hefur greint frá því að hann hafi útsýni til Krossavíkur þar sem ráðgert er samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi að reisa baðstað og leggja bílastæði. Hann nýti sér svæðið til útivistar og heilsubótar með daglegum gönguferðum og fuglaskoðunarferðum í fjörunni og á fjörukambinum og hafi látið sig málefni svæðisins varða sem náttúruperlu og útivistarsvæðis. Hjá því verður þó eigi litið að fasteign kæranda er í nokkurri fjarlægð, eða rúmlega 800 metra frá ráðgerðum byggingum og verður ekki með hliðsjón því séð að hagsmunir hans muni skerðast á nokkurn hátt að því er varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn. Þá verður ekki séð að grenndaráhrif verði vegna aukinnar umferðar við hús kæranda. Þrátt fyrir að ásýnd umrædds landsvæðis muni breytast og ráðgerð mannvirki verði greinanleg frá húsi kæranda verður ekki talið að grenndaráhrif slíkrar útsýnisbreytingar séu með þeim hætti að varðað geti hagsmuni hans á þann veg að hann eigi með því einstaklingsbundna hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun umfram aðra. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.