Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

151/2022 Naustavör

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 151/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 6. september 2022 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir lokun svala íbúðar 0302 að Naustavör 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. desember 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Naustavör 4–12, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 6. september 2022 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir lokun svala íbúðar 0302 að Naustavör 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 27. febrúar 2023.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar samþykkti umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi fyrir Naustavör 2–18 hinn 27. nóvember 2012. Síðar var númerum húsanna breytt í Naustavör 2–12. Í húsinu eru rekin tvö húsfélög, annars vegar húsfélagið Naustavör 4–12, sem er kærandi í máli þessu, og hins vegar húsfélagið Naustavör 2. Fram-kvæmdir við byggingu hússins nr. 2 við Naustavör hófust fyrst og var fokheldisvottorð fyrir húsið gefið út 26. febrúar 2015. Framkvæmdir við byggingu hússins nr. 4–12 hófust síðar og var fokheldisvottorð fyrir þá byggingu gefið út 10. desember s.á. Þegar framkvæmdir við byggingu nr. 2 við Naustavör hófust var í gildi deiliskipulag bryggjuhverfis við Kársnes sem samþykkt hafði verið í bæjarstjórn 22. mars 2005. Á þeim tíma var ekki búið að hanna göturými Vesturvarar og gatnamót Vesturvarar, Naustavarar og Litluvarar.

Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 3. desember 2018 var samþykkt að kynna tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir framangreind göturými. Umhverfisþættir sem skipulagsbreytingin var helst talin hafa áhrif á voru umferð, hljóðvist og andrúmsloft. Var tillagan auglýst til kynningar 17. desember s.á. og barst ein athugasemd frá eiganda íbúðar 0302 að Naustavör 2. Var hún á þann veg að með því að fjarlæga hluta af hljóðvarnarvegg sem væri til staðar kæmi breytingin til með að rýra hljóðvörn sem þegar væri fyrir íbúðina og einnig fyrir íbúð merkta 0202, sem væri á hæðinni fyrir neðan.

Á fundi skipulagsráðs 4. febrúar 2019 var tillagan tekin fyrir að nýju ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar Kópavogsbæjar, dags. 1. febrúar 2019. Í umsögninni er tekið undir athugasemdir eiganda íbúðar 0302 að Naustavör 2 um að breytingin fæli í sér neikvæð áhrif á hljóðvist á suðvesturhorni Naustavarar 2. Benti skipulags- og byggingardeild á að koma yrði til móts við framangreind sjónarmið með hljóðvörnum sem yrðu útfærðar í samráði við eigendur og íbúa Naustavarar 2. Var vísað til þess að framangreint kæmi fram á skipulags-uppdrætti og í greinargerð með deiliskipulagstillögunni. Afgreiðsla skipulagsráðs var staðfest á fundi bæjarstjórnar 12. febrúar s.á. Breyting á deiliskipulagi göturýmis Vesturvarar, Litlu-varar og Naustavarar, Kársnes vesturhluti, tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 16. apríl 2019.

Hinn 6. september 2022 samþykkti byggingarfulltrúi Kópavogs umsókn Kópavogsbæjar um leyfi til að setja lokun á svalir framangreindrar íbúðar 0302 að Naustavör 2.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að húsið að Naustavör 2–14 teljist eitt og sama húsið í skilningi 1. og 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Samkvæmt 6. og 8. gr. laganna sé allt ytra byrði hússins sameign allra eigenda í húsinu. Skipti þar engu um hvort mismunandi hús-félög séu til staðar fyrir mismunandi stigaganga. Á grundvelli 1. og 2. mgr. 30. gr. laganna verði að liggja fyrir samþykki sameigenda í húsinu fyrir framkvæmdum og breytingum á ytra byrði og útliti hússins. Að sama skapi geti stjórnvöld ekki heimilað framkvæmdir eða breytingar á sameign án lögbundins leyfis sameigenda. Þá sé ljóst að 1. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús geri þá kröfu að allir sameigendur í öllu húsinu þurfi að samþykkja slíkar breytingar á húsfundi ef um verulegar breytingar sé að ræða á sameign og útliti hússins. Séu slíkar breytingar ekki verulegar séu engu að síður kröfur um fundarsókn sbr. 2. mgr. 42. gr. framangreindra laga. Hafi þessi skilyrði laganna ekki verið uppfyllt þar sem húsfélagið Naustavör 4–12 hafi ekki gefið lög- og skyldubundið samþykki til umþrættrar svalalokunar og framkvæmda henni tengdri.

Í 1. mgr. 29. gr. laga um fjöleignarhús segi svo: „Rúmist bygging innan samþykktrar teikningar og sé byggingarrétturinn í eigu ákveðins eiganda, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 28. gr., getur hann ráðist í framkvæmdir að fengnum nauðsynlegum byggingarleyfum, enda taki hann sanngjarnt tillit til annarra eigenda við framkvæmdirnar og kosti kapps um að halda röskun og óþægindum í lágmarki.“ Ljóst sé að umþrætt svalalokun sé ekki á teikningum og hafi aldrei staðið til að breyta teikningum hússins. Einnig verði að líta til skyldu Kópavogsbæjar um að tryggja að samþykki sameigenda liggi fyrir þegar leyfi fyrir slíkum framkvæmdum sé veitt sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Það samþykki sem Kópavogsbær leggi fram í samskiptum sínum við kæranda vegna um-þrættrar framkvæmdar snúi einungis að samþykki sameigenda á stigaganginum að Naustavör 2 sem taki til minna en 20% samþykkis allra sameigenda í húsinu. Með vísan til framangreindra skilyrða laga um samþykki sameigenda sé því ljóst að um ólögmæta framkvæmd hafi verið að ræða. Auk þess hafi framkvæmdaraðili verið í „vondri trú“ um réttmæti leyfisveitingar húsfélagsins vegna framkvæmdanna. Af þeim sökum hafi Kópavogsbæ ekki átt að verið kleift að heimila framkvæmdina þar sem grundvallar formskilyrði leyfisveitingarinnar voru ekki til staðar. Þetta hafi starfsmönnum Kópavogsbæjar einnig átt að vera kunnugt um vegna fyrri samskipta.

Málsrök Kópavogsbæjar: Vísað er til greinargerðar VSÓ Ráðgjafar, dags. í desember 2016, sem unnin var fyrir Kópavogsbæ í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu á Kársnesi. Samkvæmt niðurstöðum greinargerðarinnar hafi hljóðvistarútreikningar sýnt að aukning á umferð hækki hljóðstig miðað við óbreyttar ferðavenjur.

Í kjölfar gildistöku breytinga á deiliskipulagi göturýmis Vesturvarar, Litluvarar og Naustavarar (Kársnes vesturhluti) hafi verið unnið að því að bæta hljóðvist í samvinnu við eigendur íbúða 0202 og 0302 á suðvesturhorni Naustavarar 2. Eftir skoðun og mat á mismunandi kostum hafi niðurstaðan verið að setja upp hljóðvarnargirðingu við svalir íbúðar á 2. hæð og svalalokun á íbúð 0302 að Naustavör 2. Þessa einu svalalokun hafi hönnuður hússins samþykkt sem einungis hafi verið ætluð fyrir umrædda íbúð.

Deiliskipulag bryggjuhverfis við Kársnes hafi verið unnið af Birni Ólafssyni arkitekt sem einnig hafi hannað Naustavör 2–12. Í greinargerð með deiliskipulaginu sé fjallað um hljóð-varnir, sbr. grein 1.3.7. Komi þar fram að gert sé ráð fyrir hljóðvörnum vegna bílaumferðar eftir því sem reglur segi til um. Að jafnaði sé reglum fylgt eftir með fjarlægð milli vega og bygginga og með skjólveggjum. Einnig sé gert ráð fyrir að reglum um hljóðvarnir sé svarað með sérstökum ráðstöfunum í útfærslu bygginga í samræmi við gildandi reglur. Þá komi einnig fram að hávaðamælingar hafi verið gerðar af Almennu verkfræðistofunni hf. og brugðist hafi verið við umsögn hennar frá 26. maí 2005 með eftirfarandi hætti: „Engin mikilvæg umferðaræð liggur nálægt svæðinu og hljóðverndun er ekki nauðsynleg nema í húsum sem næst eru Vestur-vör og eystri innkeyrslu. Fyrrgreindar ráðstafanir eru því eingöngu nauðsynlegar þar. Gert er ráð fyrir um 2 m háum skjólvegg meðfram þessum hluta Vesturvarar og sérútfærslu næstu bygginga þar þurfi, þ.e. á efri hæðum nokkurra húsa.“ Byggingarleyfið fyrir svalalokun á íbúð merktri 0302 í Naustvör 2 eigi því stoð í gildandi deiliskipulagi sbr. grein 1.3.7.

Samkvæmt skipulagsskilmálum fyrir svæðið, þ.m.t. Naustavör 2–12, skuli varast að líta á byggingu, þar sem séu tvö eða fleiri stigahús, sem eina heild eða eitt „verk“, heldur skuli líta á hvert stigahús sem augljósa einingu. Í þeim tilgangi megi nota einfaldar aðferðir eins og liti, mismunandi innganga og frágang útveggja á sökkli og jarðhæð. Einnig skuli forðast að hanna láréttar línur, reglulegar endurtekningar sömu gluggagerða eða önnur einkenni blokka, sbr. grein 2.6.

Svalalokunin hafi verið hönnuð fyrir Kópavogsbæ af Sigurði Á. Grétarssyni, verkfræðingi. Tilgangurinn hafi verið að bæta hljóðvist í íbúð 0302 að Naustavör 2 í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags göturýmis Vesturvarar, Litluvarar og Naustavarar. Hafi umrædd teikning fylgt umsókn umhverfis- og skipulagssviðs um leyfi fyrir svalalokuninni og samþykki allra eigenda íbúða í Naustavör 2. Við mat á umsókn um byggingarleyfi hafi byggingarfulltrúi sérstaklega litið til þess að hávaði í íbúð 0302 af völdum umferðar við hringtorgið, sem staðsett sé einungis nokkrum metrum frá íbúðinni, væri mun meiri en eigendur íbúðarinnar hafi með réttu geta búist við. Hafi byggingarfulltrúi talið umrædda svalalokun vera eina kostinn til að tryggja viðunandi hljóðvist í íbúðinni.

Samkvæmt áðurnefndri greinargerð VSÓ Ráðgjafar megi ætla að hávaði í íbúðinni af völdum ökutækja við hringtorgið á gatnamótum Vesturvarar og Naustavarar sé um og yfir 65 dB(A). Sé slíkur hávaði heilsuspillandi og langt umfram það sem eðlilegt geti talist. Eins og fram komi í greinargerðinni sé stöðugur hávaði heilsuspillandi. Í reglugerð um hávaða nr. 724/2008 sé lagt til að þar sem dvalarsvæði á lóð sé skilgreint skuli þess gætt að hljóðstig sé undir 55 dB(A). Að baki ákvörðuninni hafi því legið brýnir heilbrigðishagsmunir eigenda íbúðar 0302 sem kröfðust þess að gripið yrði til úrræða gagnvart hávaða frá umferð við gatnamót Vesturvarar og Naustavarar.

Þá hafi byggingarfulltrúi einnig litið til þess að húsið Naustvör 2–12 sé um margt óvenjulegt með tilliti til útlits og hönnunar. Form hússins sé óreglulegt og fjölbreytt í mörgum litum, stærð og útlit á svölum sé með um 40–50 mismunandi útfærslum. Þá séu sumar svalir með þaki en aðrar ekki. Samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu séu tveir matshlutar í húsinu, annars vegar matshluti 01, sem sé Naustavör 2 með 12 íbúðum, og hins vegar matshluti 02 sem sé Naustavör 4–12 með 50 íbúðum. Þá sé einn stigagangur fyrir Naustavör 2, en í Naustavör 4–12 séu þeir fimm talsins. Enn fremur sé húsið frábrugðið öðrum hefðbundnum fjöleignarhúsum að því leyti að Naustavör 10–12 standi eitt og sé ekki sambyggt Naustavör 2–8. Í Naustavör 2 sé sjálfstætt húsfélag sem fari með málefni hússins og annað sjálfstætt húsfélag í Naustavör 4–12 sem fari með málefni þess.

Enn fremur hafi byggingarfulltrúi litið til þess að umrædd svalalokun teldist smávægileg breyting á útliti hússins og því væri samþykki allra íbúa hússins að Naustavör 2 fullnægjandi. Íbúum í Naustavör 2–12 hefði mátt vera ljóst að gera þyrfti sérstakar ráðstafanir varðandi hljóðvarnir á suðvesturhorni hússins að Naustavör 2 til að tryggja ásættanlega hljóðvist í íbúðum á 2. og 3. hæð sbr. áðurnefnt deiliskipulag göturýmis Vesturvarar og deiliskipulags bryggjuhverfis við Kársnes sem gilda um Naustavör 2–12. Hafi allur undirbúningur og máls-meðferð umræddra deiliskipulagsákvarðana verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010, óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar og meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Verði að meta heildstætt málsmeðferð byggingarfulltrúa vegna hinnar kærðu ákvörðunar með hliðsjón af tilgangi og markmiðum laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Í því ljósi verði ekki fram hjá því litið að eigendur íbúðar 0302 í húsinu Naustavör 2 hafi búið við heilsuspillandi hávaða frá bílaumferð við nýtt hringtorg á gatnamótum Vestur-varar og Naustavarar. Hafi það verið mat hönnuðar hússins og byggingarfulltrúa að önnur lausn en svalalokun kæmi ekki til greina með hliðsjón af því markmiði að lausnin hefði uppfyllt markmið um einfaldleika og lágmarks útlitsbreytingu hússins. Ákvörðun byggingarfulltrúa frá 6. september 2022 hafi samrýmst lögum nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. III. kafla laganna og kafla 4.2. og 4.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2010.

Að lokum sé athygli vakin á að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. september 2022. Kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni 29. desember s.á. og hafi þá verið tæpir fjórir mánuðir liðnir frá upphafi kærufrests. Hafi kærufrestur því verið löngu liðinn og vísa beri kröfunni frá sbr. 27. gr. og 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá sé skv. 2. mgr. 28. gr. sömu laga óheimilt að sinna kæru sé meira en ár liðið frá töku ákvörðunar.

Málsrök framkvæmdaraðila: Eigandi íbúðar 0302 í húsinu Naustavör 2 vísar til athugasemda sinna sem gerðar voru við kynningu deiliskipulagstillöguna þess efnis að rýra ætti hljóðvörn sem þegar hafi verið fyrir íbúðina og íbúð 0202 á hæðinni fyrir neðan. Deiliskipulagsbreytingin hafi verið samþykkt með fyrirvara um að bæta ætti hljóðvörn umræddra íbúða. Settur hafi verið upp timburveggur til að bæta hljóðvörn neðri íbúðarinnar en sú ráðstöfun hafi ekki dugað fyrir þá efri. Eftir ýmsar vangaveltur hafi eina raunhæfa leiðin reynst vera að setja svalalokun til að bæta hljóðvörn íbúðar 0302.

Vísað er til áður framkominna sjónarmiða Kópavogsbæjar um heilsuspillandi hávaða og greinargerðar deiliskipulags bryggjuhverfis við Kársnes. Einnig vísar framkvæmdaraðili til tölvupósts, dags. 22. september 2020, þar sem fram komi álit arkitekts hússins um umrædda svalalokun. Komi þar fram að hún „sé gott svar við þessu viðkvæma vandamáli“ og hans álit sé jafnframt að svalalokunin sé „ekki fordæmi fyrir aðrar íbúðir í húsinu sem eiga ekki við sama vandamál að stríða.“

Viðbótarathugasemdir kæranda: Ítrekað er að íbúar Naustavarar 4–12 hafi fyrst orðið þess áskynja að Kópavogsbær hefði veitt tiltekið byggingarleyfi þegar framkvæmdir á svalalokun voru hafnar, þ.e. 1. desember 2022. Hefði Kópavogsbæ verið nær að tilkynna húsfélaginu um að til stæði að taka slíka ákvörðun og veita íbúðareigendum andmælarétt áður en farið væri í framkvæmdirnar að frumkvæði og á kostnað Kópavogsbæjar. Virðist sem engin raunveruleg hljóðmæling hafi átt sér stað og eingöngu hafi verið stuðst við einhverskonar áætlun eða mat sem byggðist á öðrum forsendum en núverandi gatnaskipulag gefi í raun. Megi því ætla að allar forsendur hinnar kærðu ákvörðunar sem varði hljóð séu reistar á órannsökuðum grundvelli. Að auki sé mörgum spurningum ósvarað eins og þeirri hver beri ábyrgð á viðhaldi og endurnýjun þessarar svalalokunar, en það virðist vera húsfélagið þar sem slíkur búnaður fellur undir ytra byrði alls hússins.

Niðurstaða: Í máli þessu er farið fram á að því verði vísað frá þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Fram kemur í kæru að eigendum íbúða í húsinu Naustavör 4–12 hafi fyrst verið kunnugt um framkvæmdir við umdeilda svalalokun 1. desember 2022 og komist þá að því að byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar hefði samþykkt byggingarleyfi til breytinga á fasteigninni 6. september s.á. Ekki liggja fyrir gögn eða upplýsingar sem benda til að kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun fyrir þann tíma og verður því við það miðað að kæra í máli þessu, sem barst úrskurðarnefndinni 29. desember 2022, hafi borist innan kærufrests. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Hið kærða byggingarleyfi fyrir svalalokun íbúðar 0302 að Naustavör 2 er tilkomið vegna fyrirsjáanlegs hávaða frá umferð um hringtorg á gatnamótum Vesturvarar og Naustavarar. Við slíkar aðstæður bar Kópavogsbæ að bregðast við og tryggja að íbúðareigendur nefndrar íbúðar búi við hljóðvist sem uppfylli skilyrði laga um mannvirki nr. 160/2010, byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og reglugerðar um hávaða nr. 724/2008. Ekki liggja fyrir í málinu hljóðmælingar er feli í sér upplýsingar um hljóðvist á greindum svölum fyrir svalalokun.

Fjöleignarhúsið Naustavör 2–12 er eitt fjölbýlishús í skilningi 1. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Samkvæmt 8. tl. 5. gr. laganna er innra byrði svalaveggja og gólfflötur svala sér-eign, en húsfélag hefur ákvörðunarvald um allar breytingar, búnað og annað á svölum sem áhrif hefur á útlit hússins og heildarmynd. Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 er kveðið á um hvað skuli fylgja með umsókn um byggingarleyfi. Þar segir að í fjöleignarhúsum þurfi að liggja fyrir samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um nr. 26/1994 eftir því sem við eigi.

Umdeild svalalokun felur ekki einungis í sér framkvæmdir við umbúnað innan séreignar, sbr. 27. gr. laga nr. 26/1994. Breytingin er fyrst og fremst á ytra útliti húss þar sem ekki hefur verið gert ráð fyrir svalalokunum á endanlega samþykktri teikningu hússins að Naustavör 2–12. Umþrætt svalalokun getur þó ekki talist veruleg í skilningi 30. gr. nefndra laga. Um er að ræða einfalda smíð sem auðvelt er að fjarlægja, en ekki er gert ráð fyrir breytingum á útveggjum hússins. Fyrir liggur að kostnaður við uppsetninguna var greiddur af Kópavogsbæ og áhrif á notkun sameignar og viðhaldskostnaður sameigenda mun ekki fylgja framkvæmdinni. Bar Kópavogsbæ samkvæmt framansögðu að leita samþykkis húsfélagsins Naustavarar 2–12 fyrir umdeildri svalalokun og byggingarfulltrúa að gæta að því að slíkt samþykki lægi fyrir áður en umrætt byggingarleyfi var veitt.

Með vísan til þess sem að framan greinir eru þeir ágallar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að fallast ber á kröfu um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 6. september 2022 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir lokun svala íbúðar 0302 að Naustavör 2.

42/2023 Skor

Með

Árið 2023, mánudaginn 22. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Kristín Benediktsdóttir dósent.

 Fyrir var tekið mál nr. 42/2023, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 31.  mars 2023, um að gefa út tímabundið starfsleyfi til þriggja mánaða fyrir veitingastaðinn Skor, Geirsgötu 24.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. apríl 2023, er barst nefndinni dags. 4. s.m, kærir stjórn húsfélags Geirsgötu 2–4 og eigendur og íbúar 16 íbúða í fasteigninni að Kolagötu 1, áður Geirsgötu 2, og 19 íbúða í fasteigninni að Kolagötu 3, áður Geirsgötu 4, í Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 31. mars 2023 að veita Rollsinum ehf. tímabundið starfsleyfi til þriggja mánaða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 10. maí 2023.

Málavextir: Hinn 29. mars sl. kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í máli nr. 102/2022. Fellt var úr gildi starfsleyfi til að reka veitingastað í flokki II til 12 ára að Geirsgötu 2–4, sem gefið var út af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 5. ágúst 2022, með vísan til þess að undirbúningi og rannsókn hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið hagað með þeim hætti að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði, 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hinn 30. mars sl. lagði rekstraraðili Skor fram nýja umsókn til heilbrigðiseftirlitsins um starfsleyfi fyrir reksturinn. Óskað var eftir að gefið yrði út nýtt tímabundið starfsleyfi til áframhaldandi óbreytts reksturs veitingastaðar í flokki II skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Var óskað eftir því af hálfu rekstraraðila að málið fengi flýtimeðferð hjá heilbrigðiseftirlitinu.

Umbeðin flýtimeðferð var samþykkt af hálfu heilbrigðiseftirlitsins og var málið tekið fyrir á sérstökum aukafundi 31. mars s.m. Á fundinum var rekstraraðila Skor veitt tímabundið starfsleyfi til óbreytts reksturs veitingastaðarins sbr. skilgreiningu framangreindra laga á veitingastað í flokki II. Gildir leyfið frá 31. mars 2023 til og með 30. júní nk.

 Málsrök kærenda: Kærendur telja að Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafi verið með öllu óheimilt að veita hið tímabundna starfsleyfi til reksturs Skor, í fasteigninni að Geirsgötu 2–4 og verði ákvörðunin að teljast ógildanleg eða markleysa.

 Fyrir liggi tveir úrskurðir úrskurðarnefndarinnar vegna deilna um lögmæti útgáfu heilbrigðiseftirlitsins á starfsleyfum til Skorar. Annars vegar úrskurður nr. 77/2022 vegna tímabundins starfsleyfis og hins vegar nýr úrskurður nr. 102/2022, þar sem starfsleyfi til 12 ára hafi verið fellt úr gildi. Af síðastnefndum úrskurði virtum, leiði það af sér, eðli málsins samkvæmt, að ætli heilbrigðiseftirlitið sér að taka nýja ákvörðun í málinu um veitingu nýs starfsleyfis, beri stofnuninni að byrja málið frá grunni. Sé þar átt við að hefja beri nýtt formlegt umsóknarferli, veita öllum hagsmunaaðilum andmælarétt, fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga og fyrirmælum úrskurðarins, áður en ný ákvörðun verði tekin þannig að hún verði samræmd ákvæðum gildandi laga um töku stjórnvaldsákvörðunar. Við þá málsmeðferð bæri heilbrigðiseftirlitinu að leggja sjálfstætt mat á, og rökstyðja sérstaklega hvert sé eðli starfsemi Skorar með tilliti til þess í hvaða flokk hún falli sé henni haldið óbreyttri sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007. Sé það gert ætti ekki að liggja fyrir nokkur vafi um að veitingastaður sem auglýsi starfsemi sína á þann hátt að hann geti með nýtingu karaoke-kerfis kallað fram hávaða sem mælist allt að 123 dB(A), falli ekki undir framangreinda skilgreiningu veitingastaðar í flokki II. Þá sé ekki séð að nokkur þau sjónarmið hafi verið uppi sem réttlættu þá flýtimeðferð sem málið hafi fengið.

Í samræmi við gildandi lög og réttarframkvæmd séu úrskurðir nefndarinnar, sem æðra setts stjórnvalds, bindandi fyrir aðila máls og það stjórnvald sem tók hina kærðu ákvörðun. Hið lægra setta stjórnvald geti því ekki lagt mál sem svona hátti um í nýjan farveg, þvert á niðurstöðu æðra setta stjórnvaldsins, án þess að uppfylla til þess nein skilyrði. Þá hafi kærendur hinn 31. mars sl., sama dag og ákvörðunin var tekin, óskað eftir því að heilbrigðiseftirlitið afhenti fundargerð, umsóknina og öll gögn sem málið varðaði. Við þeirri beiðni hafi heilbrigðiseftirlitið ekki orðið.

Undirbúningur og rannsókn málsins af hálfu heilbrigðiseftirlitsins, er varðaði veitingu starfsleyfis til 12 ára fyrir Skor, hafi ekki uppfyllt kröfur gildandi laga. Af þeirri ástæðu hafi ákvörðunin verið felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 102/2022. Af þeim sökum telji kærendur að ný ákvörðun verði ekki tekin í sama máli, á grunni þeirra upplýsinga sem heilbrigðiseftirlitið byggði á, sem síðar voru úrskurðaðar andstæðar lögum.

Fyrir liggi að engin viðhlítandi rannsókn hafi farið fram áður en ákvörðun um veitingu hins tímabundna starfsleyfis var tekin sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hefði það þó verið nauðsynlegt ef heilbrigðiseftirlitið hefði ætlað að lagfæra þau atriði sem misfórust í upphaflegri rannsókn og taka nýja ákvörðun sem byggði á gildandi lagareglum og lögmætum sjónarmiðum. Þá hafi kærendur í engu verið upplýstir um þá atburðarrás sem hófst strax eftir birtingu úrskurðar í máli nr. 102/2022 og hafi heilbrigðiseftirlitið þar með ekki gætt neins jafnræðis milli aðila sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Að auki hafi kærendum ekki verið gefinn kostur á að koma að andmælum við ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins um útgáfu hins tímabundna starfsleyfis sbr. 13. gr. nefndra laga. Ljóst sé að stjórnvaldi er skylt að kalla eftir andmælum aðila þegar  ágreiningur er til staðar milli þeirra um efni máls, réttindi og skyldur. Því sé óhlutdrægni heilbrigðiseftirlitsins í málinu dregin í efa sbr. 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga.

Með ákvörðun sinni hafi heilbrigðiseftirlitið gert að engu þau réttindi borgaranna að fá skotið ákvörðunum lægra setts stjórnvalds til endurskoðunar hjá æðra settu stjórnvaldi. Í því felist freklegt brot gegn grundvallarréttindum borgaranna.                                                                                                         

 Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Áréttað er að hlutverk heilbrigðiseftirlits sé að gefa út starfsleyfi skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, og lögum nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, ásamt því að fara með eftirlit með þeirri löggjöf. Almennar miðborgarheimildir gildi á lóðinni sem um ræðir og þar séu heimilar allar tegundir veitingastaða í flokki I-III, að skemmtistöðum undanskildum, og megi opnunartíminn vera lengst til kl. 03:00 um helgar. Þá séu útiveitingar heimilar til kl. 23:00

Mat heilbrigðiseftirlitsins sé að starfsemi rekstraraðilans falli undir skilgreininguna á krá, skv. reglugerð nr. 1277/2016, enda fari lágmarksmatargerð þar fram, takmörkuð þjónusta í boði og aðaláhersla lögð á áfengisveitingar. Sé því ekki um skemmtistað að ræða líkt og kærendur haldi fram enda ekki boðið upp á fjölbreyttar veitingar á staðnum né er lögð áhersla á dans gesta, tónlist og langan afgreiðslutíma. Heilbrigðiseftirlitið sé umsagnaraðili hvað þessa löggjöf varði, en ein af forsendum þess að heilbrigðiseftirlit geti gefið jákvæða umsögn til sýslumanns um rekstrarleyfi sé að staðurinn hafi einnig starfsleyfi. Embætti sýslumannsins á höfuðborgar-svæðinu fari með útgáfu og eftirlit með rekstrarleyfum og taki stjórnvaldsákvarðanir með bindandi hætti um rétt og skyldur rekstraraðila á grundvelli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Úrskurðarnefndin veiti ákveðnar leiðbeiningar í úrskurði nr. 102/2022, um hvað myndi teljast fullnægjandi rannsókn, skv. 10. gr. stjórnsýslulaga, með vísan til þeirra eftirlitsheimilda sem heilbrigðisnefndir hafi til framkvæmda á mælingum á hávaða, sbr. 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 724/2008. Vísi nefndin til þess að rauntímamælingar inni í íbúðum sem næstar eru starfseminni myndu varpa skýrara ljósi á það hvort hávaði frá starfseminni teldist innan viðmiðunarmarka reglugerðar nr. 724/2008. Að mati heilbrigðiseftirlitsins sé erfitt að sjá hvernig hægt sé að framkvæma slíkar rauntímamælingar án þess að staðurinn sé í rekstri. Stöðvun rekstursins myndi óhjákvæmilega verða til þess að ekki væri hægt að afla rauntímahljóðmælingagagna sem sýndu raunverulegan hávaða sem berst frá staðnum í nærliggjandi íbúðir og þar með ganga þvert á þá rannsóknarhagsmuni sem bæði íbúar og rekstraraðili hafa af hljóðmælingum.

Vert sé að geta þess að leyfi hafi fengist til rauntímahljóðmælinga hjá eiganda íbúðar 201 sem hafi samþykkt að veita heilbrigðiseftirlitinu aðgang að íbúðinni um óákveðinn tíma. Íbúar hafi bæði verið tregir til að heimila hljóðmælingar heilbrigðiseftirlits sem og að óska eftir slíkum mælingum og hafi það háð rannsókn málsins, enda ekki heimilt að fara inn í íbúðarhús án samþykkis eigenda eða umráðamanns húsnæðis nema að fengnum úrskurði dómara, sbr. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 160/2010. Slíkar aðgerðir væru á þessu stigi málsins í andstöðu við 12. gr. stjórnsýslulaga um meðalhóf. Þegar horft sé til framangreinds, að teknu tilliti til 10. gr., 11. gr. og 12. gr. stjórnsýslulaga, sem og skyldu stjórnvalda til að afgreiða mál svo fljótt sem unnt er, hafi heilbrigðiseftirlitið fallist á að veita umsókn Skor flýtimeðferð í málinu. Slíkar afgreiðslur á aukaafgreiðslufundum eigi sér margar hliðstæður hjá stofnuninni.

Heilbrigðiseftirlitið hafi ítrekað verið í sambandi við deiluaðila síðan málið hófst í janúar 2022, bæði rekstraraðila sem og íbúa. Hafi m.a. verið fundað með íbúum þar sem raktar voru málsástæður, sjónarmiðum komið á framfæri og farið yfir mikilvægi þess að geta staðfest kvartanir m.a. með hljóðmælingum, sem og afleiðingar þess að hljóðmæling geti ekki farið fram. Samskipti hafi verið virk, bæði í gegnum kvartanir sem og sjálfstæðar rannsóknir heilbrigðiseftirlitsins á málinu. Frá því starfsleyfi fyrir Skor var gefið út þann 5. ágúst 2022 hafi 35 kvartanir borist frá íbúum og hafi heilbrigðiseftirlitið verið í sambandi við íbúa og rekstraraðila vegna þeirra. Þá hafi heilbrigðiseftirlitið ítrekað lýst því yfir að alltaf væri hægt að óska eftir heimsóknum þeirra til hljóðmælinga og mati á ónæði í íbúðum. Farið hafi verið í eftirlit í íbúð 205 í nóvember sl. og íbúð 301 í mars sl. eftir ítrekaðar kvartanir um ónæði í íbúðinni af völdum karíókí. Í heimsókninni hafi ekki verið unnt að staðfesta ónæði í íbúðinni né frá staðnum. Fullyrðingar um að engin rannsókn hafi farið fram áður en ákvörðun um veitingu tímabundins starfsleyfis hafi verið tekin eigi ekki við rök að styðjast. Málið hafi verið í virkri rannsókn hjá heilbrigðiseftirlitinu allan tímann og sé enn í virkri rannsókn, bæði á hljóðvist og lyktarmengun. Eftir að umþrætt starfsleyfi var gefið út hafi rauntímahljóðmælingar staðið yfir í þrjár vikur í íbúð 201 frá 5.-21. apríl sl., en niðurstöður þeirra mælinga séu í vinnslu. Einnig hafi verið farið í eftirlitsferðir vegna hljóðmælinga og lyktarkvartana eftir útgáfu umþrætts starfsleyfis.

Að lokum er því harðlega andmælt að stofnunin dragi taum rekstraraðila. Stofnunin einseti sér að vinna mál ávallt af fagmennsku og með vandaða og góða stjórnsýsluhætti að leiðarljósi.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi færir fram athugasemdir við aðild kærumálsins, en húsfélag geti ekki staðið að kærunni, þar sem ekki liggi fyrir umboð frá því til lögmannsins sem borið hafi málið undir úrskurðarnefndina.

Leyfishafi bendir á að almennar miðborgarheimildir gildi á lóðinni sem um ræði, sem heimili allar tegundir veitingastaða, að skemmtistöðum undanskildum. Starfsleyfi sé gefið út uppfylli viðkomandi starfsemi þau skilyrði sem sett séu í lögum og reglugerðum. Hafi kærendur haft ótal tækifæri til þess að vinna með aðilum að því að mæla hljóðvist, en ekki haft til þess áhuga.

Fráleitt sé að tengja allan hávaða í miðbænum við Skor. Um sé að ræða fjölfarna götu þar sem stöðug umferð sé öll kvöld og langt fram eftir nóttu um helgar. Í næsta nágrenni sé fjöldi veitingastaða og einn vinsælasti nætursöluvagn landsins. Þá sé bílakjallari í húsnæðinu opinn allan sólarhringinn. Af þessari upptalningu sé ljóst að umgangur um húsið að Geirsgötu 2–4 muni aukast á næstu misserum. Þeir sem kaupi sér eign í hjarta miðbæjarins hljóti að gera sér grein fyrir því hvernig umhverfið sé og sé því hafnað með öllu að rekstur Skor hafi áhrif til lækkunar á verðmæti eigna í nágrenni sínu.

Með vísan til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í úrskurði í máli 102/2022, sé með engu móti hægt að gagnálykta að nefndin hafi þar með tekið afstöðu til þess hvort að gefið yrði út starfsleyfi eða ekki. Réttaráhrif niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar hafi verið þau að fella úr gildi starfsleyfið til 12 ára sem gefið hafi verið út 5. ágúst 2022, en ekki að allur rekstur væri bannaður í húsnæðinu um aldur og ævi.

 Með greindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar hafi staðurinn misst starfsleyfi. Því hafi leyfishafar óskað eftir nýju leyfi til bráðabirgða, enda telji þeir sig uppfylla öll almenn skilyrði þess að starfrækja veitingastað í flokki II á Geirsgötu 2–4. Rekstraraðilar hafi frá upphafi kappkostað við að uppfylla öll skilyrði sem þeim hafi verið sett. Öllum ábendingum um hávaða hafi verið tekið alvarlega og brugðist við þeim á viðeigandi hátt. Þess beri þó að geta að kærendur hafi engin gögn lagt fram um hljóðvist. Fáir íbúðareigendur hafi heimilað fulltrúum leyfisveitanda eða Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að mæla hljóðvist innan íbúða þeirra. Þvert á móti hafi flestir meinað aðilum að mæla hljóðvist hjá sér og hafi sjálfir ekki látið gera slíka mælingu.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka sjónarmið um réttaráhrif ákvarðana æðra setts stjórnvalds gagnvart ákvörðun hins lægra setta í tilvikum þar sem ákvörðun þess síðarnefnda er ógilt. Fyrir liggi að með ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins frá 31. mars sl. um að gefa út tímabundið starfsleyfi til Skor hafi stjórnvaldið tekið sömu efnislegu ákvörðun og þá sem felld hafi verið úr gildi með úrskurði æðra setts stjórnvalds án þess að nokkur málsmeðferð hafi farið fram. Verði fallist á að slík ákvarðanataka sé í samræmi við lög gæti heilbrigðiseftirlitið endurtekið leikinn að nýju að liðnum þeim leyfistíma sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun. Forsenda þess að hægt sé að endurupptaka mál og taka sömu ákvörðun sé að lögmæt málsmeðferð hefjist að nýju og að öll form- og efnisskilyrði lögmætrar málsmeðferðar séu uppfyllt og málið þannig upplýst lögum samkvæmt áður en tekin er ný ákvörðun sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

Seinni viðbótarathugasemdir kærenda: Ítrekuð eru fyrri sjónarmið um andmælarétt. Grundvöllur hagsmuna íbúðareigenda samkvæmt fyrirliggjandi umboði sé eigna- og afnotaréttur á íbúðum og sameign húsanna sem um ræðir. Íbúðareigendur í fasteignunum eiga ríkra lögvarinna hagsmuna að gæta, bæði hver fyrir sig og saman. Aðilar máls séu því annars vegar einstaka íbúðaeigendur í fasteignunum við Geirsgötu 2–4, sbr. fyrirliggjandi umboð og hins vegar rekstraraðili Skor, sem sé handhafi hins umþrætta starfsleyfis, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Heilbrigðiseftirlitið eigi því ekki aðild að kærumáli þessu, enda standi lög ekki til þess. Stjórnvaldinu sé eingöngu ætlað það að lögum að gefa umsögn við meðferð kærumálsins. Af þeim sökum sé stofnuninni óheimilt að lögum að hafa uppi sjálfstæðar kröfur í málinu um það hver skuli vera niðurstaða hins æðra setta stjórnvalds.

Í greinargerð heilbrigðiseftirlitsins sé staðfest af hálfu stofnunarinnar að málið hafi ekki verið rannsakað sem skyldi og hafi því ekki verið upplýst í samræmi við ákvæði laga. Af þeim sökum uppfylli málsmeðferð stofnunarinnar ekki kröfu 10. gr. stjórnsýslulaga. Við þær aðstæður sé heilbrigðiseftirlitinu óheimilt að lögum að taka stjórnvaldsákvörðun um útgáfu starfsleyfis, hvort heldur um sé að ræða leyfi til lengri eða skemmri tíma. Grundvallaratriði rannsóknarreglunnar sé að mál sé upplýst á þeim tímapunkti þegar stjórnvaldsákvörðun er tekin. Í því máli sem hér um ræði hafi verið teknar nokkrar stjórnvaldsákvarðanir, sem allar hverfist um útgáfu starfsleyfa til lengri eða skemmri tíma og lúta eiga reglum stjórnsýsluréttarins við framkvæmd þeirra. Það sé því með engu móti hægt að fallast á það sjónarmið stofnunarinnar að taka hinnar umþrættu bráðabirgðaákvörðunar, sé liður í því að tryggja rannsóknarhagsmuni aðila, eins og það sé orðað í greinargerðinni.

Áréttað er að skilgreining Skor sem veitingastaðar í flokki II, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007, sé ekki í samræmi við umrætt ákvæði laga um veitingastaði. Í tilvitnuðu ákvæði segi að veitingastaðir í flokki II skuli vera: „Umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist og kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu“. Raunin sé sú að heilbrigðiseftirlitið hafi metið starfsemi staðarins sem svo, að hann valdi verulegu ónæði í nágrenninu, m.a. með háværri tónlist (karókí). Því liggi fyrir samkvæmt takmörkuðum mælingum heilbrigðiseftirlitsins að staðurinn starfi ekki samkvæmt þeim reglum sem gilda um veitingastað í flokki II, sökum þess að hann valdi ónæði.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti tímabundins starfsleyfis til þriggja mánaða fyrir veitingastaðinn Skor að Geirsgötu 2–4. Aðilar að málinu eru þeir sömu og nutu aðildar að máli nr. 102/2022 fyrir nefndinni og njóta kæruaðildar. Ekki hefur verið lagt fram umboð frá stjórn húsfélagsins í húsinu og verður því ekki fallist á aðild hennar að kærumálinu.

Um það hvort starfsemi umrædds veitingastaðar samrýmist landnotkun samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 og hvort starfsemin sé réttilega flokkuð sem veitingastaður í flokki II, við útgáfu starfsleyfis, sem fjallað er um í kæru þessari, vísar úrskurðarnefndin til umfjöllunar í úrskurði nefndarinnar nr. 102/2022 þar sem fram kemur að rekstur veitingastaðar í flokki II í húsinu að Geirsgötu 2–4 samrýmist deiliskipulagi svæðisins og með því sé gert ráð fyrir að hann samrýmist búsetu á sama svæði. Nefndin telur að ekki sé tilefni til þess að endurskoða þá afstöðu í máli þessu sem varðar útgáfu tímabundins starfsleyfis til þriggja mánaða. Að gefnu tilefni bendir nefndin um leið á að heilbrigðisnefnd ber ábyrgð á því að ákvæðum laga nr. 7/1998 og reglugerða settra samkvæmt þeim sé fylgt eftir sbr. 47. gr. nefndra laga.

Hvað snertir sjónarmið kærenda um aðild Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að máli þessu skal athugað að úrskurðarnefndin hefur gefið stjórnvaldinu færi á að koma að sjónarmiðum við hina framkomnu kæru sem varðar stjórnvaldsákvörðun sem það hefur tekið á lægra stjórnsýslustigi. Er heilbrigðiseftirlitið því ekki aðili að máli þessu í skilningi stjórnsýsluréttarins.

—–

Í máli þessu reynir á lögmæti útgáfu tímabundins starfsleyfis til veitingastaðar að Geirsgötu 2–4. Í úrskurði nefndarinnar nr. 102/2022, var fellt úr gildi starfsleyfi til 12 ára vegna annmarka við undirbúning og rannsókn máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í úrskurðinum var rakið að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 skuli gefa út starfsleyfi til tiltekins tíma og skv. 4. mgr. lagagreinarinnar sé útgefanda starfsleyfis heimilt að framlengja gildistíma starfsleyfis á meðan nýtt starfsleyfi er í vinnslu, að hámarki til eins árs, hafi fullnægjandi umsókn um nýtt starfsleyfi borist útgefanda.

Á það var bent í greindum úrskurði að heilbrigðiseftirlitinu hefði verið heimilt að gefa út starfsleyfi til skemmri tíma en 12 ára, meðan unnt væri að leggja nánar mat á hávaða frá starfseminni. Með hliðsjón af þeirri heimild sem heilbrigðisnefndir hafa til að framkvæma eftir þörfum, eða láta framkvæma, eftirlitsmælingar á hávaða, sbr. 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 724/2008, hefði með því verið unnt að framkvæma eða láta framkvæma mælingar á rauntíma inni í íbúðum sem næstar eru atvinnustarfseminni, sem hefðu getað varpað skýrara ljósi á það hvort hávaða gætir frá starfseminni í íbúðum í húsinu þannig að yfirstígi viðmiðunarmörk reglugerðarinnar. Var talin sérstök ástæða til þessa þar sem umræddur veitingastaður hafði verið starfræktur á tímabundnu starfsleyfi vegna krafna um endurbætur á hljóðvist og þeirra fjölmörgu athugasemda sem gerðar höfðu verið við hávaða frá starfseminni.

—–

Um starfsleyfi til atvinnurekstrar er fjallað í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998. Í 2. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að starfsleyfi skuli gefið út til tiltekins tíma. Af afgreiðslu hins sérstaka aukafundar hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 31. mars 2023 verður ekki annað séð en að um nýtt tímabundið leyfi sé að ræða fremur en að hið eldra leyfi, sem fellt hafi verið úr gildi, hafi verið framlengt. Verður það lagt hér til grundvallar.

Í 8. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 er mælt fyrir um þau gögn sem fylgja skulu umsókn um starfsleyfi sem heilbrigðisnefndir gefa út, þ.e. upplýsingar um rekstraraðila, lýsingu á tegund starfseminnar, umfangi hennar og umfangi einstakra rekstrarþátta, uppdrætti af staðsetningu og önnur gögn ef þurfa þykir. Öll þessi gögn lágu fyrir hjá heilbrigðiseftirlitinu við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Í 9. gr. reglugerðarinnar segir síðan að í starfsleyfi skuli tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um eftirlit, umgengni, hreinlæti, öryggisráðstafanir, sóttvarnir, gæðastjórnun og innra eftirlit eftir því sem við á hverju sinni. Verður ekki annað ráðið af hinu útgefna starfsleyfi en það fullnægi þessum áskilnaði. Þá voru þar sett sérstök skilyrði, sem áður höfðu verið í eldra starfsleyfi, sem ætlað er að draga úr hávaða frá starfseminni, sbr. 22. gr. téðrar reglugerðar.

—–

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeim hafi ekki verið gefinn kostur á því að koma að andmælum við ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins um útgáfu hins tímabundna starfsleyfis.

Almennt við útgáfu starfsleyfa er ekki gert ráð fyrir því að leitað sé sjónarmiða þeirra sem hugsanlega eiga hagsmuna að gæta af því að sú starfsemi verði heimiluð sem starfsleyfisumsókn nær til. Tillögur að starfsleyfum skv. lögum nr. 7/1998 geta sætt opinberri auglýsingu, en svo hagar ekki til um starfsemi veitingastaða í flokki II. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar var heilbrigðiseftirlitinu vel kunnugt um þann ágreining sem verið hafði um rekstur umrædds veitingastaðar. Hefði við þær aðstæður, með hliðsjón af vönduðum stjórnsýsluháttum og þeirra andstæðu hagsmuna sem um er að ræða í málinu, verið eðlilegt að upplýsa húsfélagið Geirsgötu 2–4 og íbúðareigendur nærliggjandi íbúða við veitingastaðinn um að fyrir lægi ný umsókn rekstraraðila um starfsleyfi og veita þeim með því möguleika á að koma sjónarmiðum á framfæri, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulagalaga nr. 37/1993. Þar sem kærandi hefur nú átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum að hér fyrir nefndinni verður að telja að þessi annmarki varði ekki ógildingu þeirrar ákvörðunar sem um er að ræða sem sætir endurskoðun.

—–

Með hinni kærðu ákvörðun var rekstraraðila Skor veitt tímabundið starfsleyfi til þriggja mánaða meðan brugðist væri við úrskurði nefndarinnar í máli nr. 102/2022 þar sem starfsleyfi veitingastaðarins var fellt úr gildi vegna skorts á undirbúningi og rannsókn málsins af hálfu heilbrigðiseftirlitsins og því ekki ljóst hvort skilyrði til útgáfu starfsleyfisins væru uppfyllt að teknu tilliti til reglugerðar nr. 724/2008. Í umræddum úrskurði var heilbrigðiseftirlitinu bent á að sérstök ástæða hefði verið til frekari hljóðmælinga í íbúðum í húsinu til að varpa skýrara ljósi á það hvort hávaða gætti frá starfsemi veitingahússins í íbúðum í húsinu þannig að hann færi yfir viðmiðunarmörk þeirrar reglugerðar. Fallist verður á að til þess að uppfylla þessa rannsóknarskyldu hafi heilbrigðiseftirlitinu reynst nauðsynlegt að gefa út tímabundið starfsleyfi. Í gögnum málsins kemur fram að unnið mun vera að framkvæmd hávaðamælinga og greiningu niðurstaðna úr þeim. Ljóst sýnist að þessar mælingar verði grundvöllur ákvörðunar um það hvort starfsleyfi til veitingastaðarins verði gefið út til lengri tíma eða ekki. Er þetta í samræmi við þær ábendingar sem fram komu í umræddum úrskurði og hvíla á meðalhófssjónarmiðum.

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar verður hin kærða ákvörðun staðfest. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 31. mars 2023 um að gefa út tímabundið starfsleyfi til þriggja mánaða fyrir veitingastaðinn Skor, Geirsgötu 2–4.

22/2023 Stöðuleyfi

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 11. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Múlaþings frá 10. janúar 2023 um að synja umsókn um framlengingu á stöðuleyfi fyrir listaverkið Stýrishús – Brú á svæði til hliðar við lóðina Austurveg 17b á Seyðisfirði.

 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. febrúar 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi þá ákvörðun byggingarfulltrúa Múlaþings frá 10. janúar 2023 að synja umsókn um framlengingu á stöðuleyfi fyrir listaverkið Stýrishús – Brú. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá gerir kærandi kröfu um að henni verði gefið tækifæri á að kynna mál sitt fyrir heimastjórn Seyðis­fjarðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Múlaþingi 14. febrúar 2023.

Málavextir: Kærandi fékk útgefið stöðuleyfi fyrir listaverkið Stýrishús – Brú hinn 10. júlí 2020. Leyfið var framlengt um eitt ár eða til 3. september 2022. Með tölvupósti 2. maí 2022 sótti kærandi um að leyfið yrði framlengt út september 2023. Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi heimastjórnar Seyðisfjarðar 23. júní 2022 þar sem umsókninni var hafnað. Synjaði byggingar­fulltrúi umbeðinni framlengingu stöðuleyfis og tilkynnti umsækjanda með bréfi, dags. 24. s.m. Ákvörðun byggingar­fulltrúa var kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 22. júlí s.á. Með bréfi, dags. 12. september s.á., afturkallaði byggingarfulltrúi synjun á framlengingu stöðuleyfisins og í kjölfarið afturkallaði kærandi kæru sína til úrskurðar­nefndarinnar.

Með bréfi, dags. 10. janúar 2023, synjaði byggingarfulltrúi beiðni um framlengingu stöðu­leyfisins að nýju með vísan til minnisblaðs framkvæmda- og umhverfismálastjóra Múlaþings þar sem fram kom að sveitarfélagið, sem landeigandi, myndi ekki veita áfram­haldandi stöðu­leyfi verksins á umræddum stað.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að synjun um framlengingu stöðuleyfisins hafi ekki verið rökstudd. Höfnun heimastjórnarinnar og byggingarfulltrúa sé byggð á þeim rökum að listaverkið sé staðsett í íbúðarbyggð og að í listaverkinu sé fyrirhugað að vera með veitingar og við­­burði sem samræmist ekki þeirri staðsetningu. Þau rök séu haldlaus og röng þar sem á því svæði sem listaverkið sé staðsett séu í næstu húsum verslanir, atvinnufyrirtæki í útleigu kajaka, vinnu­stofur listamanna og sýningarrými. Allt í kringum Lónið á Seyðisfirði sé lifandi starfsemi og listaverkið eigi ekki á neinn hátt að skera sig úr eða valda ónæði umfram aðra starfsemi þar. Þá megi benda á að þær auðu lóðir sem standi því nærri séu til úthlutunar atvinnustarfsemi s.s. sam­vinnu­húsnæði og húsnæði Tækniminjasafns Austurlands.

Ekki hafi verið gætt jafnræðis við ákvörðun heimastjórnar né viðhöfð vönduð vinnubrögð líkt og sjá megi af fundargerð nefndarinnar frá 23. júní 2022. Þar hafi erindið verið tekið til umfjöllunar en umsækjanda hafi ekki verið gert kunnugt um fundinn eða tímasetningu hans né boðið að kynna mál sitt eins og öðrum höfundum innsendra erinda. Þar sem umsækjandi hafi ekki íslenskan bakgrunn hafi þurft að gæta sérstaklega að því að upplýsa um réttindi og ferla í stjórnsýslunni.

Draga megi hlutleysi starfsmanns nefndarinnar í efa þar sem hann hafi persónulegar skoðanir á listaverkinu og hafi meðal annars viðrað þær í tölvupósti sem ekki hafi átt að berast til umsækjanda. Starfsmaðurinn sé búsettur á Seyðisfirði en formaður nefndarinnar sé nýkjörinn sveitarstjórnarmaður sem sé búsettur á Egilsstöðum og því líklegt að ákveðið traust sé sett á upplýsingar sem berist frá starfsmanni til heimastjórnarmanna. Þá sé [byggingarfulltrúi] tengdur fjölskylduböndum einum af þeim sem kvartað hafi yfir verkinu. Meirihluti nágranna sé sáttur við listaverkið og styðji framlengingu leyfisins.

 Málsrök Múlaþings: Bent er á að um sé að ræða stýrishús af báti sem flutt hafi verið á lóð við Austurveg 17b á Seyðisfirði og sé notað meðal annars sem veitingarsala. Byggingarfulltrúi hafi metið að um svokallað torgsöluhús væri að ræða og því væri um stöðuleyfisskyldan hlut að ræða í skilningi gr. 2.6.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Synjun á stöðuleyfi hafi byggt á því að leyfi landeiganda hafi ekki legið fyrir, en það sé eitt af ófrávíkjanlegum skilyrðum þess að hægt sé að veita stöðuleyfi, sbr. 2. mgr. gr. 2.6.1. byggingarreglugerðar. Fyrir hafi legið bréf frá landeiganda, sem sé sveitarfélagið Múlaþing, þar sem fram hafi komið að ekki yrði veitt leyfi fyrir stýrishúsinu á þessum stað. Sveitarfélagið sé hins vegar tilbúið að skoða þann mögu­leika með kæranda að setja listaverkið upp á Ferjuleiru, sem sé skilgreint svæði fyrir upp­setningu listaverka.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreining­smálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa um synjun á framlengingu stöðuleyfis til endurskoðunar en tekur ekki afstöðu til kröfu kæranda um að fá að kynna mál sitt fyrir heimastjórn Seyðisfjarðar.

 Í 9. tl. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er tekið fram að í reglugerð skuli setja ákvæði um skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa fyrir gáma, báta, torgsöluhús, stór samkomutjöld og þess háttar sem ætlað sé að standa utan skipulagðra svæða fyrir slíka hluti í lengri tíma en tvo mánuði. Í reglugerð skuli kveða á um atriði sem varði öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingarfulltrúa til að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir ef ekki séu uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar.

Fjallað er um stöðuleyfi í kafla 2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Um veitingu stöðuleyfis segir í gr. 2.6.1. að ef lausafjármunum sem upptaldir séu í ákvæðinu sé ætlað að standa í lengri tíma en tvo mánuði utan svæða þar sem sérstaklega sé gert ráð fyrir geymslu þeirra skuli sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda. Umsókn um stöðuleyfi á að vera skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðarmanni viðkomandi hlutar og á henni að fylgja samþykki eiganda eða lóðar­­hafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað er að lausafjármunirnir standi á. Þá skal í umsókn gera grein fyrir tilgangi og lengd stöðuleyfis og henni eiga að fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauð­synleg eru til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausa­fjármunanna. Stöðuleyfi skulu mest veitt til 12 mánaða nema ákvæði skipulags mæli fyrir um annað.

Samkvæmt minnisblaði framkvæmda- og umhverfismálastjóra sveitarfélagsins stendur hið umrædda listaverk á óbyggðu svæði við hlið lóðar nr. 17b við Austurveg á Seyðisfirði. Þá kemur fram að sveitarfélaginu hafi á fyrra leyfistímabili borist athugasemdir frá íbúum vegna stað­setningar verksins auk þess sem það standi utan lóðamarka og að þar sé ekki gert ráð fyrir tengingum við veitulagnir. Í ljósi þessa hafi sveitarfélagið ákveðið, sem landeigandi, að veita ekki leyfi fyrir áframhaldandi stöðuleyfi verksins á þessum stað.

Byggingarfulltrúi Múlaþings fer með vald til að taka ákvörðun um útgáfu stöðuleyfis í hverju tilviki eða eftir atvikum að synja um slíkt leyfi. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun lá fyrir að sveitarfélagið, sem landeigandi, samþykkti ekki staðsetningu listaverksins á þeim stað sem það hefur hingað til verið og óskað var framlengingar stöðuleyfis fyrir. Í ljósi þessa var skilyrði 2. mgr. gr. 2.6.1. byggingarreglugerðar um samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað sé að lausafjármunir standi á ekki uppfyllt og byggingarfulltrúa því ekki heimilt að veita kæranda framlengingu á hinu umdeilda stöðuleyfi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Múlaþings frá 10. janúar 2023 að synja umsókn um framlengingu á stöðuleyfi fyrir listaverkið Stýrishús – Brú til hliðar við Austurveg 17b á Seyðisfirði.

19/2023 Skotvöllur í Álfsnesi

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 11. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2023, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 25. janúar 2023 um að samþykkja umsókn um starfsleyfi til handa Skotfélagi Reykjavíkur til reksturs skotvallar á Álfsnesi og útgáfu leyfisins sama dag.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 31. janúar 2023, kæra eigendur, Stekk, Reykjavík, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 25. janúar 2023 að samþykkja umsókn um starfsleyfi til handa Skotfélagi Reykjavíkur til reksturs skotvallar á Álfsnesi og útgáfu leyfisins sama dag. Er þess krafist að leyfið verði fellt úr gildi.

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er bárust nefndinni 26. og 27. febrúar 2023, kæra 6 aðrir hagsmunaaðilar sömu ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur og útgáfu sama starfsleyfis. Skilja verður málskot kærenda svo að þess sé krafist að umrætt starfsleyfi verði fellt úr gildi. Verða þau kærumál sem eru nr. 32/2023 og 33/2023 sameinuð máli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð í öllum málunum til ógildingar og hags­munir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar 8. og 27. mars 2023.

Málavextir: Á annan áratug hafa tvö félög rekið sinn hvorn skotvöllinn á Álfsnesi, þ.e. annars vegar Skotfélag Reykjavíkur sem er leyfishafi í fyrirliggjandi máli og hins vegar Skot­veiði­félag Reykjavíkur og nágrennis. Með úrskurðum, uppkveðnum 24. september 2021, í málum nr. 51/2021 og 92/2021 felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi ákvarðanir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar frá 11. mars og 4. maí 2021 um að gefa út starfsleyfi þeim til handa til reksturs skotvalla á Álfsnesi þar sem starfsemin samræmdist ekki gildandi landnotkun Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 fyrir umrætt svæði.

Nýtt Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. janúar 2022 og kemur þar m.a. fram að framtíð skotæfingasvæðis á svæði I2, Álfsnes – Kollafjörður, verði viðfangsefni í endurskoðun aðalskipulags á Kjalarnesi og opnum svæðum utan þéttbýlis en þar til að þeirri endurskoðun komi sé heimilt að endurnýja leyfi skot­æfinga­svæðisins. Sótti leyfishafi í þessu máli, Skotfélag Reykjavíkur, um nýtt starfsleyfi með umsókn, dags. 31. maí 2022, en áður hafði Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis sótt um nýtt starfs-leyfi og fékk það leyfi útgefið 26. júlí s.á. Það leyfi var fellt úr gildi með úrskurði úrskurðar­nefndarinnar, uppkveðnum 30. desember 2022, í máli nr. 94/2022 vegna sama annmarka og áður, þ.e. að leyfið væri ekki talið í samræmi við landnotkun samkvæmt aðalskipulagi.

Auglýsing um tillögu að starfsleyfi fyrir skotvöll Skotfélags Reykjavíkur var auglýst á vef­svæði Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar 25. nóvember 2022 í samræmi við 6. gr. reglu­gerðar nr. 550/2018. Sérstök tilkynning var send á hagsmunaaðila. Í tillögunni var lagt til að um starfsemi skotvallarins giltu almenn starfsleyfisskilyrði heilbrigðisnefndar Reykjavíkur fyrir mengandi starfsemi og sértæk starfsleyfisskilyrði. Auk þess var lagt til að gildistími starfsleyfisins yrði til 31. október 2026 sem væri vel innan tíma­marka aðalskipulags í samræmi við umsögn skipulagsfulltrúa. Frestur til að koma að athuga­semdum var til 28. desember 2022. Alls bárust 11 athugasemdir við tillöguna á auglýsingatíma og var gerð grein fyrir þeim og svörum í greinargerð heilbrigðiseftirlitsins vegna auglýsingar á starfsleyfistillögu og útgáfu starfsleyfis. Á fundi heilbrigðisnefndar hinn 25. janúar 2023 var umsókn um greint starfsleyfi samþykkt og gaf heilbrigðiseftirlitið leyfið út sama dag til tveggja ára.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að landnotkun svæðisins hafi ekki verið breytt frá því úrskurður í máli nr. 51/2021 hafi verið kveðinn upp. Hinn umdeildi skotvöllur sé á iðnaðar­svæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 og sé rekstur skotvallar þar því óheimill. Starfsleyfið fari í bága við ákvæði skipulagsreglugerðar um landnotkunarflokka en í reglu­gerðinni sé ekki að finna heimild til að víkja frá gildandi landnotkun samkvæmt skipulagi. Þá séu „skeet“ vellir Skotfélagsins ekki á iðnaðarsvæði heldur á opnu svæði.

Kærendur fari fram á „að hlutlausir verkfræðilærðir með sérmenntun í hljóðmælingum verði látnir framkvæma hljóðmælingar með mæliaðferð sem [Umhverfisstofnun] hefur leiðbeint [heilbrigðiseftirlitinu] að nota.“ Þar sem heilbrigðiseftirlitið hafi viðurkennt í rannsóknar­skýrslu sinni að blý/stál högl berist niður í fjöru og sjó vilji kærendur einnig að hlutlausir aðilar verði látnir rannsaka blýmengunin á þeim svæðum fyrir neðan skotsvæðið.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er vísað til þess að starfsemi skotvallar Skotfélags Reykjavíkur sé í samræmi við skipulag og sé ákvörðun um það byggð á umsögn tveggja starfsmanna borgarinnar frá 23. janúar 2023, þ.e. deildarstjóra Aðalskipulags 2040 og lögmanns á umhverfis- og skipulagssviði. Þá renni minnisblað Skipulagsstofnunar frá 27. janúar s.á. enn styrkari stoðum undir það mat að starfsemin sé heimil á svæðinu m.t.t. skipulags til skemmri tíma. Rétt hafi verið staðið að veitingu starfsleyfis fyrir umræddan skotvöll á Álfsnesi og gætt hafi verið að öllum lagalegum skilyrðum. Þá hafi máls­meðferðarreglum stjórnsýsluréttarins verið fylgt í hvívetna.

 Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

———-

Kærendur og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu sem verður ekki rakið nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft það til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er tekið fram að allur atvinnurekstur sem sótt sé um starfsleyfi fyrir skuli vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum eða lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Var þessu ákvæði skeytt við 1. mgr. 6. gr. með 18. gr. laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Í athuga­semdum við 18. gr. í frumvarpi því sem varð að þeim lögum segir að með ákvæðinu séu lagðar til þær breytingar á nokkrum lögum er varði leyfisveitingar að þar komi skýrt fram að útgáfa skuli samræmast gildandi skipulagi, en í sumum tilvikum hafi jafnvel skort á að í umræddum lögum væri kveðið skýrt á um að leyfisveitingar skyldu samræmast skipulagi sveitarfélaga.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu felldi úrskurðarnefndin úr gildi starfsleyfi Skotfélags Reykjavíkur og Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis með úrskurðum, dags. 24. september 2021, þar sem starfsemi skotæfingasvæða var ekki talin sam­ræmast landnotkun umrædds svæðis samkvæmt þágildandi aðalskipulagi. Í kjölfar þess tók gildi nýtt Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 þar sem m.a. var gerð sú breyting að heimild var veitt til að endurnýja umrædd starfsleyfi en landnotkun svæðisins var ekki breytt. Eftir það var sótt um starfsleyfin að nýju. Með úrskurði, uppkveðnum 30. desember 2022, í máli nr. 94/2022 felldi úrskurðarnefndin úr gildi starfsleyfi fyrir skotvöll Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis á Álfsnesi frá júlí­mánuði s.á. þar sem heimiluð starfsemi var ekki talin samræmast gildandi landnotkun svæðisins samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2040.

Hinn 23. janúar 2023 barst heilbrigðiseftirlitinu umsögn deildarstjóra aðalskipulags Reykja­víkur og lögmanns á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar þar sem m.a. kom fram að starfsemi Skotfélagsins væri innan svæðis I2 í aðalskipulagi, sem til framtíðar væri ráðgert sem iðnaðarsvæði. Sett hefðu verið sérstök ákvæði í landnotkunarskilgreiningu iðnaðarsvæðis, I2, í Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, sem kvæðu á um að heimilt væri að stunda skotíþróttir tímabundið innan svæðisins enda sú starfsemi þegar til staðar á svæðinu. Kom og fram að land-notkunarákvæðið grundvallaðist á gr. 6.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem sérstaklega væri vísað til þróunarsvæða líkt og ætti við um umrætt svæði, þ.e. I2. Þá var vísað til kafla 20.4 í aðalskipulaginu sem grundvallaðist á áðurnefndu ákvæði í skipulagsreglugerð. Kaflinn kvæði á um að heimilt væri að endurnýja starfsleyfi fyrir rekstur og starfsemi sem væri til staðar til skemmri tíma litið, en það væri ávallt háð mati og nánari upplýsingum um tíma­setningu og framvindu uppbyggingar samkvæmt framtíðarlandnotkun. Í niðurstöðu umsagnarinnar var ekki lagst gegn því að starfsleyfi Skotfélags Reykjavíkur yrði endurnýjað til skemmri tíma og lagt til að leyfið takmarkaðist við tvö ár. Tveimur dögum síðar var tekin ákvörðun um að hið kærða starfsleyfi yrði gefið út og var það gert samdægurs.

Samkvæmt 1. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð skal stefna um landnotkun sýnd með einum landnotkunarflokki. Sé gert ráð fyrir landnotkun á sama reit sem falli undir fleiri en einn land­notkunarflokk skuli sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem er ríkjandi en umfang annarrar land­notkunar tilgreint í skilmálum. Á reitnum sem hér um ræðir er í gildi landnotkunarflokkurinn „iðnaðarsvæði“, I2, og að hluta „opið svæði“, OP28. Samkvæmt f-lið gr. 6.2. í skipulags­reglugerð er iðnaðarsvæði skilgreint svo: „Svæði fyrir umfangsmikla iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem er talin geta haft mengun í för með sér, svo sem verksmiðjur, virkjanir, þ.m.t. vatnsfallsvirkjanir, jarðhitavirkjanir, sjávarfallavirkjanir og vindmyllur, tengivirki, veitu­stöðvar, skólpdælu- og hreinsistöðvar, endurvinnslustöðvar, brennslustöðvar, förgunarstöðvar, sorpurðunarsvæði, flokkunarmiðstöðvar og birgðastöðvar fyrir mengandi efni.“ Í i-lið sömu greinar eru opin svæði skilgreind með þeim hætti að það séu svæði fyrir útivist, aðallega í tengslum við þéttbýli, með aðstöðu sem almennri útivist tilheyrir, svo sem stígum og áningar­stöðum, auk þjónustu sem sé veitt á forsendum útivistar. Þá er í j-lið sömu greinar að finna skilgreiningu fyrir landnotkunarflokkinn „íþróttasvæði“ og kemur þar fram að íþróttasvæði sé fyrir landfreka íþróttaaðstöðu aðra en þá sem þjóni tilteknu hverfi, svo sem skeiðvelli, hesthúsa­byggð, akstursíþróttasvæði, skotæfingasvæði, golfvelli og stærri íþróttamiðstöðvar. Fellur um-deilt skotæfingasvæði því undir síðastnefndan landnotkunarflokk. Í greinargerð með Aðal­skipulagi Reykjavíkur 2040 er kveðið á um heimild sem tekur til svæðis I2, Álfsnes – Kolla­fjörður, til að „endurnýja leyfi skotæfingasvæðisins til skemmri tíma“. Ekki er þó mælt fyrir um að landnotkunarflokkurinn „íþróttasvæði“ gildi á svæði I2 eða OP28, að hluta eða öllu leyti.

Samkvæmt gr. 6.1. skipulagsreglugerðar er veitt ákveðið svigrúm þegar landnotkun er breytt með nýju skipulagi og skal þá gerð grein fyrir því hvenær og hvernig breytingin kemur til framkvæmda og hvað gildi fram að því. Ekki liggur fyrir að landnotkun umrædds svæðis hafi verið breytt frá því að úrskurðir nefndarinnar í fyrrnefndum málum voru kveðnir upp og getur umrætt ákvæði því ekki átt við. Í fyrri úrskurðum nefndarinnar var starfsemi skotæfingavalla á svæðinu ekki talin í samræmi við gildandi landnotkun umrædds svæðis samkvæmt eldra aðal­skipulagi og þess sem nú gildir svo sem áskilið er í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998. Fer starfsleyfið auk þess í bága við ákvæði skipulagsreglugerðar um landnotkunarflokka en í þeirri reglugerð er ekki að finna heimild til að víkja frá gildandi landnotkun samkvæmt skipulagi með ákvörðunum um veitingu starfsleyfa sem fari í bága við gildandi landnotkun. Þess ber að geta að umrædd starfsemi hefur um árabil verið stunduð í bága við gildandi landnotkun aðal­skipulags en með aðalskipulagi setja sveitarstjórnir fram stefnu sína um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. ákvæði 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gildir sú landnotkun frá gildistöku aðalskipulags og breytinga á því.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hið kærða starfsleyfi fellt úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 25. janúar 2023 um að samþykkja umsókn um starfsleyfi til handa Skotfélagi Reykjavíkur til reksturs skotvallar á Álfsnesi og útgáfa leyfisins sama dag.

145/2022 Hraunbraut

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 11. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 145/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. nóvember 2022 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir íbúð á jarðhæð hússins að Hraunbraut 14, Kópavogi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 22. desember 2022, kærir eigandi Hraunbrautar 14 þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. nóvember 2022 að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir íbúð á jarðhæð hússins að Hraunbraut 14, Kópavogi. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunarinnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 13. mars 2023.

Málavextir: Kærandi sótti um að breyta bílskúrsþaki í dvalarsvæði og rými í kjallara hússins að Hraunbraut 14, Kópavogi, í íbúð. Erindið var lagt fram á fundi skipulagsráðs 7. desember 2020. Ráðið hafnaði erindinu og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarráði 22. s.m. Kærandi lagði þá fram tvær aðskildar umsóknir, dags. 11. mars 2021, annars vegar um að breyta bílskúrsþaki í dvalarsvæði og hins vegar um að breyta rými í kjallara í íbúð. Á fundi skipulags­ráðs 29. mars 2021 var samþykkt að grenndarkynna umsókn kæranda um dvalarsvæði á bílskúrsþaki en umsókn hans um að breyta rými í kjallara í íbúð var hafnað. Bæjarstjórn samþykkti hina síðarnefndu afgreiðslu á fundi sínum 13. apríl s.á. Kærandi sótti að nýju um að breyta rými í kjallara í íbúð 11. nóvember 2022. Þeirri umsókn var hafnað á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 25. s.m. með vísan til afgreiðslu skipulagsráðs 29. mars 2021 og bæjarstjórnar 13. apríl s.á. auk tilvísunar til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að afgreiðsla byggingarfulltrúa innihaldi þá rangfærslu að umrædd íbúð sé í kjallara. Það sé rangt enda hafi byggingarfulltrúi áður staðfest að íbúðin sé á jarðhæð. Ekki sé um að ræða ósk um breytingu á notkun eða uppskiptingu eignar. Ófullnægjandi upplýsingar hafi ítrekað legið til grundvallar ákvörðunum skipulagsráðs vegna erinda kæranda.

Tilvísun í afgreiðslu fyrra erindis eigi sér enga stoð þar sem það erindi hafi verið afgreitt á þeim röngu forsendum að kljúfa ætti geymslu frá íbúð á efstu hæð og stofna nýtt fasteignanúmer og breyta í íbúð. Hið rétta sé að umrædd íbúð hafi frá upphafi verið sérstakur eignarhluti en hafi um árið 1990 verið ranglega skráð hjá Þjóðskrá sem hluti af annarri eign. Um tvö ár hafi tekið að fá þau mistök leiðrétt. Byggingarfulltrúi virðist gefa sér að um sömu umsókn sé að ræða og áður hafi verið hafnað með þeim rökstuðningi að „nær væri að setja skýra stefnu hvað varðar fjölgun íbúða innan tiltekins hverfis“. Í þessu samhengi skuli bent á þá skýru stefnu Kópavogs­bæjar í hverfinu að fjölga íbúum svo þúsundum skipti. Benda megi á byggingu fjölbýlishúsa í stað einbýlishúsa inn á milli eldri húsa í næsta nágrenni við Hraunbraut 14, t.d. Ásbraut 1, Kársnesbraut 21 o.fl. auk yfirstandandi þéttingar á vesturhluta Kársness og við Fossvog. Óskiljanlegt sé að skipulagsnefnd snúi jákvæðu áliti sínu í neikvætt um viðurkenningu einnar stúdíóíbúðar í hverfinu sem full sátt hafi verið um í þau 37 ár sem þar hafi verið búið og feli ekki í sér neinar breytingar fyrir hagsmunaaðila.

Í 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé fjallað um grenndarkynningu og hafi umrædd íbúð marg­sinnis farið í grenndarkynningu og alltaf hlotið samþykki allra nágranna.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að kærandi hafi sótt um sömu breytingu og mál þetta snúist um 18. nóvember 2020. Á fundi skipulagsráðs 7. desember s.á. hafi erindi kæranda um að breyta 57,6 m2 rými undir bílskúr í íbúð á eigin fasteignanúmeri verið synjað. Sambærileg umsókn hafi verið lögð inn 11. mars 2021 sem skipulagsráð hafi synjað á fundi 29. s.m.

Kærandi hafi í kjölfarið óskað eftir endurupptöku málsins. Bæjarráð hafi hafnað beiðni um endurupptöku á fundi sínum 16. júní 2021. Til grundvallar þeirri ákvörðun hafi legið umsögn lögfræðideildar Kópavogsbæjar þar sem fram komi að þau fordæmi sem kærandi hafi vísað til væru ekki sambærileg þeirri breytingu sem hann hafi sótt um, að einu tilviki undanskildu, sem samþykkt hafi verið árið 1994. Skipulagsráð hafi ekki talið sig bundið af þeirri afgreiðslu enda um að ræða tæplega þrjátíu ára gamalt fordæmi. Í janúarmánuði árið 2022 hafi enn borist erindi frá kæranda þar sem gerðar hafi verið athugasemdir við málsmeðferð og ákvörðun skipulags­ráðs. Erindi kæranda hafi verið svarað og fyrri sjónarmið og rök ítrekuð, m.a. um að skipulags­ráð teldi varasamt að setja fordæmi um samþykkt íbúðar á þessu svæði án þess að fyrir lægi stefna um fjölgun íbúða í grónum hverfum og án þess að litið væri til þess hvaða heildaráhrif fjölgun íbúða og íbúa myndi hafa á hverfið.

Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 sé Hraunbraut 14 á skilgreindu íbúðasvæði á Kársnesi. Í greinargerð aðalskipulagsins sé fjallað um rammahluta þess en markmið hans sé að útfæra nánari markmið fyrir fimm hverfi, þ.m.t. Kársnes, í takt við meginstefnu aðal­skipulagsins. Markmiðið sé m.a. að viðhalda kostum og sérkennum hverfisins. Samkvæmt aðal­skipulaginu gildi rammaákvæði nr. 1–4 fyrir Hraunbraut 14. Eitt af markmiðunum fyrir Kársnes sé að stuðla að því að draga úr neikvæðum áhrifum umferðar og auka sjálfbærni með vistvænum áherslum. Í aðal­skipulaginu sé miðað við áframhaldandi uppbyggingu á Kársnesi, þó aðallega á vestanverðu nesinu á þróunarsvæði og í Bryggjuhverfinu.

Með hliðsjón af framangreindu og þar sem að um sé að ræða ákvörðun sem veiti skipulags­yfirvöldum ákveðið svigrúm í skjóli lögbundinna skipulagsheimilda til að móta og þróa gróin hverfi telji Kópavogsbær að ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja umsókn kæranda byggi á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að umsókn kæranda um byggingarleyfi, dags. 11. nóvember 2022, hafi ekki fengið neina efnislega umfjöllun. Umsókninni hafi verið hafnað með vísan til afgreiðslu skipulagsráðs og bæjarstjórnar rúmu einu og hálfu ári áður. Slík máls­meðferð sé í andstöðu við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga um mannvirki nr. 160/2010. Útgáfa byggingarleyfis sé stjórnvaldsákvörðun sem lúti reglum stjórnsýslulaga, m.a. rannsóknarreglu 10. gr. laganna. Það að vísa einungis til ákvörðunar sem tekin hafi verið einu og hálfu ári áður gangi þvert gegn rannsóknarreglunni. Með umsókn kæranda frá 11. nóvember 2022 hafi fylgt ítarlegur rökstuðningur sem og gögn sem ekki hafi legið fyrir með fyrri umsóknum að öllu leyti, þ. á m. leiðrétting á rangri skráningu fasteignarinnar í fasteignaskrá. Byggingaryfirvöldum í Kópavogi hafi borið að taka efnislega afstöðu til erindisins óháð afgreiðslu þeirra á fyrri umsóknum kæranda. Sérstök ástæða sé til að benda á að í rökstuðningi fyrir höfnun skipulagsráðs og bæjarstjórnar Kópavogs í mars og apríl 2021 hafi sérstaklega verið vísað til þess að verið væri að vinna nýtt aðalskipulag fyrir Kópavogsbæ þar sem m.a. kæmi fram tillaga varðandi möguleika á fjölgun íbúða í þegar byggðum hverfum. Þegar kærandi sendi inn umsókn sína hafði nýtt aðalskipulag fyrir Kópavogsbæ tekið gildi, en það hafi verið staðfest í bæjarstjórn 28. desember 2021. Í ljósi þess hefði verið eðlilegt að erindið fengi umfjöllun og skoðun með hliðsjón af nýju aðalskipulagi, frekari rökstuðningi og nýjum gögnum. Þessu til viðbótar sé afgreiðsla byggingarfulltrúa ekki í samræmi við þá rannsóknarskyldu sem m.a. komi fram í 10.-11. gr. laga nr. 160/2010.

Fasteign kæranda sé á skilgreindu íbúðasvæði skv. Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040. Svæðið hafi ekki verið deiliskipulagt og það sé ekki á skilgreindu þróunarsvæði. Rammaákvæði 1–4 gildi á svæðinu en ekkert þessara ákvæða standi því í vegi að hægt sé að samþykkja umsókn kæranda um byggingarleyfi. Rétt sé að eitt af markmiðum rammahluta aðalskipulagsins sé að viðhalda kostum og sérkennum hverfanna en samtímis sé einnig gert ráð fyrir breytingum og þróun í hverfunum. Kostir og sérkenni Kársness muni á engan hátt breytast við að umsókn kæranda verði samþykkt. í rammahluta aðalskipulagsins segi: „Markmið með fjölgun íbúða í rað-, par- og einbýlishúsahverfum verða sett fram í hverfisáætlunum hvers hverfis fyrir sig (skv. markmiði í kafla 2.1.1.1. í greinargerð þessari). Skoðaðir verða möguleikar á að fjölga íbúðum (séríbúðum og aukaíbúðum) í þegar byggðum hverfum með áherslu á greiningu á reitum þar sem par-, rað- og einbýlishús eru ríkjandi. Ávallt skal meta áform um fjölgun íbúða á grundvelli markmiða og viðmiða sem sett eru í aðalskipulagi þessu, m.a. um gæði byggðar og fjölda bílastæða.“ Í samræmi við meginmarkmið aðalskipulagsins og hverfisáætlanir séu sérstök markmið fyrir Kársnes í rammahluta aðalskipulagsins. Þar komi m.a. fram að ekki sé mælt með að atvinnuhúsnæði á jarðhæðum í hverfiskjörnum verði breytt í íbúðir. Húsnæði kæranda sé ekki atvinnuhúsnæði. Þá sé gert ráð fyrir mikilli fjölgun íbúða á Kársnesi á skipulagstímabilinu og ráðgert að fjölgunin geti verið um 1.400 íbúðir.

Unnið hafi verið að gerð hverfisáætlana fyrir einstök hverfi Kópavogsbæjar allt frá árinu 2014, eða í rúm níu ár, og muni sú vinna nú vera langt komin. Markmið og leiðarljós hverfisáætlana sé m.a. að skoða hvernig auka megi gæði hverfisins, þróa verklagsreglur um hvernig fella megi nýja byggð að eldri byggð í hverfunum, stuðla að fjölbreyttri íbúðarbyggð, verslun og þjónustu og stuðla að vistvænum samgöngumátum. Í drögum að hverfisáætlun fyrir Kársnes sé m.a. fjallað um íbúðaþéttleika á Kársnesinu. Fasteign kæranda sé á svæði sem merkt sé sem K3, en fyrir liggi að þéttleiki íbúða á því svæði sé með því minnsta sem gerist á Kársnesi. Mesti þétt­leikinn sé á svæðum K2 og K4 og viðbúið að þéttleikinn á svæði K1 verði enn meiri þegar uppbyggingu á því svæði verði lokið á komandi árum. Þéttleiki íbúða sé og verði minnstur á svæðum K3 og K5 en stærstu opnu svæði Kópavogsbæjar séu á svæði K5.

Mikil aukning íbúða hafi verið á síðustu árum og sé fyrirhuguð á Kársnesi á komandi árum og í ljósi þess sé röng sú röksemd Kópavogsbæjar að hafna umsókn kæranda um byggingarleyfi sem snúi eingöngu að því að fá samþykkta íbúð í húsnæði sem nýtt hafi verið til íbúðar í hartnær 37 ár í sátt við allt nærumhverfi, hafi verið sérstakur eignarhluti í húsinu frá byggingu þess og sé skráð með sérstakt fasteignanúmer í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, áður Þjóðskrár. Að umsókn kæranda hafi verið hafnað á þeim forsendum „að nær væri að setja skýra stefnu hvað varðar fjölgun íbúða innan tiltekins hverfis“ sé með ólíkindum, enda standi það upp á sveitar­félagið að marka slíka stefnu að svo miklu leyti sem hún sé ekki nú þegar til. Slík stefna hafi þó verið mótuð í nýlegu aðalskipulagi sem tekið hafi gildi í árslok 2021 og í hverfisáætlunum. Umsókn kæranda falli mjög vel að þeirri stefnu.

Þegar erindi kæranda var hafnað hafi verið vísað til 44. gr. skipulagslaga, en sú lagagrein fjalli um grenndarkynningu og standi greinin ekki í vegi fyrir umsókn kæranda um byggingarleyfi. Hins vegar kunni að vera rétt að láta fara fram grenndarkynningu vegna umsóknarinnar og hafi kærandi ekki lagst gegn því. Þá hafi með umsókninni fylgt samþykki annarra íbúðareigenda og lóðarhafa í húsinu svo og í næsta nágrenni. Umrætt íbúðarrými hafi verið nýtt sem íbúð í rúm 37 ár. Að samþykkja umsókn kæranda hafi þannig í raun enga breytingu í för með sér fyrir sveitarfélagið, aðra íbúa hússins eða íbúa í næsta nágrenni.

Það húsnæði sem hér um ræði uppfylli öll þau skilyrði og þær kröfur sem gerðar séu til íbúðar­húsnæðis í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Íbúðin hafi verið tekin út af byggingarfulltrúa Kópavogs, sem hafi staðfest að eignin uppfyllti allar þær almennu kröfur sem gerðar séu til íbúða og fram komi í gr. 6.7. byggingarreglugerðar. Fullnægjandi teikningum og uppdráttum hafi einnig verið skilað til byggingaryfirvalda og hafi aldrei komið fram athugasemdir við innsend gögn.

Kópavogsbær sé bundinn af ákvæðum stjórnsýslulaga og meginreglum stjórnsýsluréttar við afgreiðslu á umsókn kæranda. Ekki verði annað séð en að ákvörðun bæjarins gangi gegn jafnræðisreglu 11. gr. laganna og meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga. Í málinu liggi fyrir fjöldinn allur af fordæmum þar sem byggingaryfirvöld í Kópavogi hafi samþykkt fjölgun íbúða í þegar byggðum hverfum. Allar þær ákvarðanir hafi haft í för með sér fjölgun íbúða á Kársnesinu og varðað þéttleika byggðar. Þær eignir sem nefndar hafi verið hér að framan séu allar á sama reit og fasteign kæranda á Kársnesi og sé viðbúið að finna megi fleiri sambærileg dæmi bæði á Kársnesi og í öðrum þegar byggðum hverfum Kópavogs. Einnig megi velta fyrir sér hvort þessar byggingarleyfisumsóknir hafi haft í för með sér einhver áhrif, t.d. á umferð í hverfinu, en í greinargerð Kópavogs sé m.a. vísað til þess að mikilvægt sé að draga úr neikvæðum áhrifum umferðar á Kársnesi og auka sjálfbærni með vistvænum áherslum.

Í ljósi byggðaþróunar á svæðinu verði ekki séð að nýting kæranda á fasteign sinni sem íbúð fari hvorki í bága við markmið skipulagsyfirvalda um byggðamynstur á svæðinu né ákvæði aðal­skipulags eða hverfisáætlana. Þvert á móti virðist umsóknin falla mjög vel að byggðaþróun, ákvæðum aðalskipulags og hverfisáætlun svæðisins. Benda megi á fordæmi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 60/2000, en í því tilviki var samþykkt íbúð á svæði þar sem bæði aðal- og deiliskipulag hafi gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði sem gæti verið í íbúðabyggð. Í því máli sem hér um ræði sé fasteign kæranda hins vegar á skilgreindu íbúðasvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi.

Þó svo að um matskennda stjórnvaldsákvörðun sé að ræða sé mikilvægt að hafa í huga að sveitarfélagið sé bundið af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og meginreglum stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulaga, m.a. varðandi rannsóknarskyldu, andmælarétt, meðalhóf og jafnræði við meðferð og afgreiðslu á umsókn kæranda. Svigrúm sveitarfélagsins í skjóli lögbundinna skipulagsheimilda takmarkist m.a. af fyrrgreindum ákvæðum. Það eitt að um matskennda ákvörðun sé að ræða þýði ekki að sveitarfélag geti hagað sér að vild við afgreiðslu slíkra umsókna. Ákvörðunin verði að grundvallast á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum. Það hafi ekki verið gert við hina umdeildu afgreiðslu og byggi hin kærða ákvörðun á ólögmætum og ómálefnalegum sjónarmiðum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. nóvember 2022 um að synja umsókn kæranda um leyfi til að breyta rými í kjallara hússins að Hraunbraut 14 í íbúð.

Í fundargerð skipulagsráðs 29. mars 2021 kemur fram að á lóðinni sé steinsteypt þriggja hæða hús með þremur íbúðum og sambyggðum bílskúr, byggt 1968. Þar kemur einnig fram að í erindi kæranda sé óskað eftir að breyta 57,6 m2 rými, staðsettu undir tvöföldum bílskúr á lóðinni, í íbúð á eigin fastanúmeri. Á upphaflegum teikningum að húsinu sé þetta rými merkt sem geymsla en frá árinu 1985 hafi það verið notað sem íbúð. Samþykki meðeiganda og nágranna liggi fyrir. Líkt og fram kom í málavöxtum hafnaði skipulagsráð erindinu og vísaði því til afgreiðslu bæjarstjórnar sem hafnaði erindinu á fundi sínum 13. apríl 2021. Í hinni kærðu ákvörðun var vísað til þessara afgreiðslna og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir höfnun skipulagsráðs, sbr. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem var veittur 19. apríl 2021. Í rökstuðningi bæjaryfirvalda kom fram að skipulagsráð hafi hafnað erindi kæranda á þeim forsendum að nær væri að setja skýra stefnu hvað varðaði fjölgun íbúða innan tiltekins hverfis. Í nýju aðalskipulagi sem væri í vinnslu væri að finna tillögu um að skoða möguleika á fjölgun íbúða í þegar byggðum hverfum með áherslu á greiningu á reitum og fjölgun íbúða yrði metin á grundvelli markmiða og viðmiða sem sett séu í aðalskipulagi, m.a. um gæði byggðar og fjölda bílastæða. Verður að líta svo á að byggingarfulltrúi hafi gert framangreindan rökstuðning að sínum með vísan til afgreiðslu skipulagsráðs við ákvörðun sína frá 25. nóvember 2022 um að synja umsókn kæranda.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skal í rökstuðningi vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Í rökstuðningi Kópavogsbæjar er vísað til þess að nær væri að setja skýra stefnu hvað varðaði fjölgun íbúða innan tiltekins hverfis og í því samhengi vísað til nýs aðalskipulags sem væri í vinnslu. Verður ekki talið að slík almenn tilvísun til framtíðaráforma sveitarfélagsins uppfylli áskilnað 1. málsl. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga um rökstuðning. Hin kærða ákvörðun varðaði erindi kæranda, sem dagsett var 11. nóvember 2022, en nýtt aðalskipulag Kópavogsbæjar tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. desember 2021. Samkvæmt framansögðu var byggingarfulltrúa því ekki rétt að hafna erindi kæranda með vísan til afgreiðslu skipulagsráðs 29. mars 2021 og bæjarstjórnar 13. apríl s.á.

Í hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa var einnig vísað til 44. gr. laga nr. 123/2010, en í þeirri grein er fjallað um grenndarkynningu. Ekki er nánar tiltekið í afgreiðslu byggingar-fulltrúa hvað í 44. gr. mæli gegn því að erindi kæranda fáist samþykkt. Í 1. mgr. 44. gr. segir að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar að undan-genginni grenndarkynningu. Í 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að ef mannvirki er háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skuli hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Hafi byggingarfulltrúi litið svo á að umsókn kæranda gæti farið í bága við gildandi skipulag hefði honum verið rétt að leita umsagnar skipulagsfulltrúa. Það var ekki gert við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og getur afgreiðsla skipulagsráðs frá gildistíð eldra aðalskipulags ekki komið í þess stað.

Með vísan til alls framangreinds var málsmeðferð og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar svo áfátt að fella ber hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. nóvember 2022 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir íbúð á jarðhæð hússins að Hraunbraut 14, Kópavogi.

122/2022 Kópaskerslína

Með

Árið 2023, föstudaginn 5. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 122/2022, kæra á ákvörðunum Skipulagsstofnunar frá 21. september 2022 um að lagning 66 kV jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 skuli ekki háð umhverfismati og frá 11. október 2022 um að styrking Kópaskerslínu 1 skuli ekki sæta umhverfismati.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið, ákvarðanir Skipulagsstofnunar frá 21. september 2022 um að lagning 66 kV jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 skuli ekki háð umhverfismati og frá 11. október 2022 um að styrking Kópaskerslínu 1 skuli ekki háð umhverfismati.

Þess er krafist að ákvarðanir þessar verði felldar úr gildi og lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að taka nýja ákvörðun í málunum. Til vara er þess krafist að ákvörðun um lagningu jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki verði felld úr gildi að hluta til, hvað varði nútímahraun.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 21. nóvember 2022.

Málavextir: Kópaskerslína 1 er loftlína sem liggur milli Laxárvirkjunar og Kópaskers. Línan er um 83 km löng og liggur m.a. um Reykjaheiði, Þeistareykjahraun, Kelduhverfi og Öxarfjörð.

Hinn 9. maí 2022 barst Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu tilkynning fram­kvæmdaraðila, Landsnets hf., um framkvæmdir á Kópaskerslínu 1 skv. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka við lögin. Í greinar­gerð sem fylgdi tilkynningunni kom fram að nokkrar bilanir hefðu orðið á línunni frá því hún hefði verið tekin í rekstur, þar af þrjár umfangsmiklar. Markmið framkvæmdarinnar væri að auka afhendingaröryggi á svæðinu. Samkvæmt greinargerð framkvæmdaraðila felst fyrir­­huguð framkvæmd í að styrkja Kópaskerslínu 1 á tveimur stöðum annars vegar með lagningu 2,5 km jarðstrengs í stað loftlínu og hins vegar endurnýjun loftlína á 5,5 km löngum kafla.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Norðurþings, Minjastofnunar Íslands, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og Skógræktarinnar. Töldu þessir aðilar ekki þörf á umhverfismati vegna framkvæmdarinnar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 11. október 2022. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri fyrirhuguð fram­kvæmd ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Hinn 2. ágúst 2022 barst Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu tilkynning fram­kvæmdaraðila um lagningu 66 kV jarðstrengs frá Þeistareykjum norður að Kópaskerslínu 1 skv. 19. gr. laga nr. 111/2021, sbr. liði 10.16 og 13.02 í 1. viðauka við lögin. Í greinargerð framkvæmdaraðila sem fylgdi tilkynningu kom m.a. fram að talsverðar rekstrartruflanir hefðu orðið á Kópaskerslínu 1 frá tengivirkinu á Þeistareykjum að mastri 172. Framkvæmdin fælist í því að leggja nýjan háspenntan 7,8 km langan jarðstreng og taka á móti niður loftlínuna. Nauðsynlegt sé að styrkja línuna þar sem hún sé hvað útsettust fyrir óveðrum til að viðhalda afhendingaröryggi á svæðinu. Með því að koma hluta línunnar í jörð sé hún vernduð gegn veðurálagi.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Norðurþings, Þingeyjasveitar, Minja­stofnunar Íslands, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og Náttúrufræðistofnunar Ísland um það hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Töldu þessir aðilar ekki þörf á umhverfismati vegna framkvæmdarinnar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu fram­kvæmdarinnar lá fyrir 21. september 2022. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri fyrirhuguð framkvæmd ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að hin kærða ákvörðun sé háð verulegum annmörkum og hana skuli því ógilda. Varða málsrök kæranda aðallega ákvörðun Skipulags­stofnunar dags. 21. september 2022 um lagningu jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu. Það svæði sem strengurinn verði lagður um og er í kæru nefnt Skildingahraun njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd. Íslenskar orku­rannsóknir (ISOR) meti hraunið merkilegt í jarðsögulegu samhengi. Hraunið og hár aldur þess segi sögu jökulhörfunar snemma á síðjökultíma af hálendi Þeistareykjasvæðisins og setji í samhengi við jökulhörfun nærliggjandi svæða. Hrauninu verði raskað varanlega með því að leggja tæplega átta kílómetra langan jarðstreng frá Þeistareykjavirkjun að Kópaskerslínu 1.

Í greinargerð framkvæmdaraðila, sem fylgt hafi tilkynningu til Skipulagsstofnunar, komi ekki fram berum orðum að til standi að raska hrauninu, en af hinni kærðu ákvörðun megi sjá að nútímahrauni í skilningi 61. gr. náttúruverndarlaga verði raskað með framkvæmdinni. Lög mæli fyrir um að forðast skuli að raska slíkum fyrirbærum, en allt rask á nútímahrauni sé eðli máls samkvæmt varanlegt og óafturkræft. Í greinargerð framkvæmdaraðila sé ekki fjallað um áhrif á jarðminjar eða verndargildi þeirra, lög eða neitt sem tengist náttúruvernd, heldur eingöngu hvar sé hentugt fyrir framkvæmdaraðila að leggja strenginn í vegkanti gamals vegar. Einungis komi fram að strengleiðin sé öll í hrauni sem runnið hafi á síðjökultíma og það njóti sjálfkrafa verndar. Þá virðist eina tilvísun til hraunsins tengjast hverfisvernd í deiliskipulagi fyrir Þeistareykjasvæðið.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem aflað var við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar, sé fullyrt að hraunið hafi að einhverju leyti glatað verndargildi sínu vegna jarðvegs og gróðurhulu. Þá kemur fram að ráðgerð strengleið sneiði fram hjá rishólum og sprungum í hrauninu „að mestu“ og með því sé rask á hrauninu lítið. Á Íslandi séu fjöldi nútímahrauna vel gróin, en allt að einu sérstæð og mikilvæg án þess að hafa glatað verndargildi sínu og því sé þetta byggt á misskilningi. Ekki hafi verið sýnt fram á með vísindalegum hætti að Skildingahraun hafi glatað verndargildi sínu eða að hraun geri það almennt séu þau undir gróðurhulu. Samkvæmt a- og b-lið 3. gr. náttúruverndarlaga séu verndarmarkmið fyrir jarðminjar annars vegar að varðveita skipulag heildarmynd af jarðfræðilegum ferlum og fyrirbærum sem gefi samfellt yfirlit um jarðsögu landsins og hins vegar að vernda jarðmyndanir sem séu sérstakar eða einstakar á lands- eða heimsvísu. Ástæða sérstakrar verndar eldhrauna, markmið um verndun jarðminja, varúðarregla 9. gr. náttúruverndarlaga og orðalag 61. gr. sömu laga styðji ekki þá ályktun að rask á hrauninu teljist ekki mikið vegna þess að lítið sjáist í hraunmyndanir.

Samkvæmt 4. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga beri að forðast að raska hrauninu nema brýna nauðsyn beri til. Ekki liggi fyrir í máli þessu hvort skilyrðið um brýna nauðsyn sé uppfyllt, enda hafi aðrir kostir ekki verið kannaðir við meðferð málsins. Svo ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga nái tilgangi sínum verði slíkt mat að fara fram. Í greinargerð fram­kvæmdaraðila hafi ekki verið gerð grein fyrir valkostum um aðgerðir við lagningu strengsins eða legu hans. Þá verði ekki séð að Skipulagsstofnun hafi rannsakað hvort aðrir valkostir séu fyrir hendi. Þannig hafi ekki verið fjallað um þann kost að leggja jarðstrenginn í sjálft vegstæðið og koma þar með í veg fyrir rask á hrauninu, en ekkert hafi komið fram við meðferð málsins sem útiloki þann kost. Skipulagsstofnun hafi brotið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 þar sem umfjöllun um sérstaka vernd nútímahrauna sé „í skötulíki“ og aðrir valkostir hafi ekki verið kannaðir. Með hliðsjón af 2. viðauka laga nr. 111/2021, skyldu til að bera saman valkosti í umhverfismati, sbr. c-lið 1. mgr. 22. gr. laganna, sem og varúðarreglu náttúruverndarlaga sé það ótæk niðurstaða að fyrirhuguð framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum að því er varði áhrif mögulegra framkvæmdakosta á hraunið.

Í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 sé mælt fyrir um að framkvæmdaraðili skuli, þar sem við eigi, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdar, til þess að unnt sé að ákvarða hvort tiltekin framkvæmd skuli sæta umhverfismati. Í greinargerð fram­kvæmdaraðila komi fram að fyrirhuguð framkvæmd sé „hluti af styrkingu Kópaskerslínu 1 og valkostur 2 sem lýst er í kafla 3.6.8. í áætlun um framkvæmdaverk 2022–2024 í kerfisáætlun Landsnets 2021–2030.“ Einhvers konar mat á áhrifum jarðstrengsins hafi legið fyrir í kerfisáætluninni, en annarra valkosta sem fjallað hafi verið um í umhverfismati áætlunarinnar hafi ekki verið getið í greinargerð framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar. Í kerfisáætluninni er jarðstrengurinn sagður ekki raska svæðum undir sérstakri vernd 61. gr. náttúruverndarlaga og að hann verði lagður að mestu í núverandi línustæði. Hvorutveggja sé rangt, sé tekið mið af gögnum í máli þessu, enda raski jarðstrengur varanlega nútímahrauni svo til alla leið hans og hann sé ekki að neinu leyti meðfram núverandi línustæði. Þar af leiðandi sé verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun að þessu leyti, en hvorki hafi verið skoðuð fyrirliggjandi gögn frá framkvæmdaraðila né hafi verið aflað gagna um áhrif jarðstrengsins og valkosta hans á jarðminjar sem njóti sérstakrar lagaverndar.

Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að sökum stærðar sé ekki hægt að plægja strenginn í jörð heldur þurfi að grafa um 80 cm breiðan og 120 cm djúpan skurð. Þetta skipti höfuðmáli og Skipulagsstofnun hafi borið að taka sérstaklega til athugunar hvort unnt væri að koma svo djúpum skurði fyrir í vegstæðið, fyrst ótækt hafi verið að plægja hann niður, og komast hjá raski á hrauninu. Í kerfisáætlun framkvæmdaraðila sé fjallað um aðra valkosti. Jarðstrengurinn, sem hin kærða ákvörðun lúti að, sé hluti af einum þeirra valkosta sem settir hafi verið fram í umhverfismati áætlunarinnar. Samkvæmt matinu skerði hinir kostirnir eldhraunið annað hvort ekki eða minna, auk þess sem sá kostur sem um ræði í máli þessu hafi verið metinn dýrastur. Samþykkt Orkustofnunar á kerfisáætlun feli í sér leyfi stofnunarinnar til framkvæmdar samkvæmt aðalvalkosti kerfisáætlunarinnar, sbr. 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Ekki liggi fyrir leyfi Orkustofnunar fyrir framkvæmdum sem tilkynntar hefðu verið til Skipulags­stofnunar, þar sem framkvæmdirnar séu ekki aðalvalkostur samkvæmt umhverfismati kerfisáætlunar.

Þau atriði sem líta beri til við ákvörðun um hvort framkvæmd sé háð umhverfismati séu tilgreind í 2. viðauka við lög nr. 111/2021. Þá séu einnig bein fyrirmæli um þetta í viðauka II.A við tilskipun 2011/92/ESB. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið beri að túlka íslensk lög til samræmis við EES-samninginn og gerðir hans. Í samræmi við grunnrök 2. viðauka við lög nr. 111/2021, sbr. 19. gr. laganna, sbr. einnig 4. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/92/ESB, sé framkvæmdaraðila skylt að veita nauðsynlegar upplýsingar til þess að Skipulagsstofnun geti metið þessi atriði við töku slíkrar ákvörðunar. Í máli þessu hafi framkvæmdaraðili ekki lagt fram upplýsingar um mótvægisaðgerðir, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021, eins og þeim sé lýst í kerfisáætlun framkvæmdaraðila, þar sem umræddur jarðstrengur hafi ekki verið sá valkostur sem komið hafi best út í umhverfismatinu.

Þá hafi ekki verið lögð fram lýsing á allri framkvæmdinni skv. a-lið 1. tölul. viðauka II.A við tilskipun 2011/92/ESB. Í greinargerð framkvæmdaraðila komi fram að fyrirhuguð framkvæmd sé viðbót við aðra framkvæmd, án þess þó að gerð sé grein fyrir því hvaða framkvæmd um ræði. Einnig segi að jarðstrengurinn sé hluti af styrkingu Kópaskerslínu, þ.e. framkvæmdinni sem ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. október 2022 fjalli um. Þar sem sú framkvæmd hafi ekki farið fram geti jarðstrengurinn ekki talist vera breyting eða viðbót á þeirri framkvæmd í skilningi töluliðar 13.02 í viðauka 1 við lög nr. 111/2021. Í fyrrnefndri kerfisáætlun séu framkvæmdir þær, sem hinar kærðu ákvarðanir lúti að, taldar sem ein og sama framkvæmdin. Af því leiði að ekki hafi legið fyrir skýrar upplýsingar um samlegðaráhrif með öðrum framkvæmdum skv. tölulið 1.ii í 2. viðauka við lög nr. 111/2021. Skipulagsstofnun hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort um sé að ræða nýja framkvæmd eða viðbót við eldri framkvæmd. Hinar kærðu ákvarðanir fjalli um tvo hluta sömu framkvæmdar og því hafi borið að fjalla um hana sem slíka.

Framkvæmdaraðili hafi hvorki uppfyllt upplýsingaskyldu sína né gert fullnægjandi grein fyrir möguleikum til að takmarka áhrif framkvæmdarinnar á hraunið, þ.e. með því að leggja jarð­strenginn í vegstæðið sjálft eða þá koma í veg fyrir röskun hraunsins með því að velja hina valkostina sem fjallað sé um í kerfisáætlun. Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/92/ESB verði matsskylduákvörðun m.a. að byggja, þar sem við eigi, á niðurstöðum annars mats en umhverfismats framkvæmdar. Skipulagsstofnun hafi því verið skylt að taka tilhlýðilegt tillit til þess umhverfismats sem unnið hefði verið vegna kerfisáætlunar framkvæmdaraðila, en það hafi stofnunin ekki gert. Þá hafi stofnuninni einnig borið að vísa til viðeigandi viðmiða í viðauka 2 með lögum nr. 111/2021, sbr. einnig b-lið 5. mgr. 4. gr. áðurnefndrar tilskipunar, og greina frá þeim mótvægisaðgerðum sem framkvæmdar­aðili kunni að hafa lagt til. Ekki verði séð að stofnunin hafi vísað til viðmiðanna með tilhlýðilegum hætti og sé það verulegur ann­marki á málsmeðferð.

Þá hafi almenningur ekki notið réttar til að gera athugasemdir við meðferð málsins. Með því að komast að niðurstöðu sinni í hinni kærðu ákvörðun og án þess að fjalla efnislega um sjálfan grundvöll ákvarðana á svæðum sem njóti verndar samkvæmt náttúruverndarlögum hafi Skipulagsstofnun í raun svipt almenning þátttökurétti sem honum hafi verið tryggður í Árósasamningnum og EES-samningnum. Fái hin kærða ákvörðun að standa hafi ekki farið fram neitt mat á áhrifum framkvæmdarinnar á hið verndaða hraun. Kærandi telur að fyrirhugaðar framkvæmdir séu leyfisskyldar samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010, sbr. 4. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga. Ákvæði laganna um hvernig leyfisveitandi skuli standa að útgáfu framkvæmdarleyfis komi ekki í stað þess þátttökuréttar sem almenningur eigi varðandi allar framkvæmdir sem líklegar séu til að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið samkvæmt Árósa­samningnum, Evróputilskipunum og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Fyrirmæli í 2. og 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga komi ekki í stað raunverulegs mats á áhrifum á svæði sem njóti verndar, með tilheyrandi þátttökurétti almennings.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er tekið fram að umfjöllun um jarðmyndanir hefði mátt vera ítarlegri í hinni kærðu ákvörðun en því er um leið hafnað að litið hafi verið hjá verndargildi þeirra. Í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar komi fram að fram­kvæmdarsvæðið sé allt í hrauni sem njóti sérstakrar verndar en hafi þó að einhverju leyti glatað verndargildi sínu vegna jarðvegs og gróðurhulu. Með tilliti til sjónarmiða, sem þar séu rakin, megi ætla að rask á hrauni verði takmarkað og áhrif á jarðminjar verði ekki mikil.

Staðsetning framkvæmdar innan svæðis sem falli undir 61. gr. náttúruverndarlaga leiði ekki sjálfkrafa til þess að hún skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Í athugasemdum við 57. gr. frum­varps þess er varð að 61. gr. náttúruverndarlaga sé tekið fram að eldhraun sem sé að öllu leyti sandorpið eða hulið jarðvegi og gróðri og ekki sé lengur hægt að greina hvort um hraun sé að ræða hafi að öllu jöfnu tapað þeim einkennum sem myndi verndargildi þess sem jarðmyndunar eða hraunvistgerðar og njóti það því ekki sérstakrar verndar samkvæmt lagagreininni.

Við töku matsskylduákvörðunar falli það ekki í verkahring Skipulagsstofnunar að meta hvort skilyrðið um „brýna nauðsyn“ samkvæmt 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga sé uppfyllt. Sam­kvæmt 2. tl. í 2. viðauka við lög nr. 111/2021 beri stofnuninni að athuga hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, einkum með tilliti til verndarsvæða. Eigi það við um svæði sem falli undir ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga. Í þessu sambandi megi nefna úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22 og 27/2020.

Hin kærða ákvörðun sé lokaþáttur í tilkynningarskylduferli en ekki í umhverfismatsferli. Í fyrrnefnda ferlinu geri lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og IV. kafli reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana ekki ráð fyrir að fram fari valkostagreining og samanburður á áhrifum valkosta á umhverfið. Því hafi Skipulags­stofnun ekki getað óskað eftir því að framkvæmdaraðili myndi skoða annan valkost en þann sem tilkynning hafi lotið að.

Í 2. viðauka við lög nr. 111/2021 sé ekki vikið að því að stofnunin eigi að líta til umhverfismats kerfisáætlunar við ákvörðun um matsskyldu. Aðeins sé vikið að skipulagsáætlunum, sbr. i- og f-liði í 2. tölul. viðaukans. Þá sé ákvæði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 ekki fortakslaust. Verði komist að þeirri niðurstöðu í máli þessu að framkvæmdaraðila hafi borið að taka tillit til umhverfismats kerfisáætlunar leggi Skipulagsstofnun áherslu á að valkostur 2, sem hin kærða ákvörðun lúti að, hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Umhverfismat umræddrar kerfisáætlunar leiði það í ljós. Að því virtu sé ekki um að ræða verulegan annmarka á ákvörðuninni. Þá hafi Skipulagsstofnun lagt mat á þá þætti sem tilgreindir séu í 2. viðauka við lög nr. 111/2021 og átt hafi við í málinu, sbr. umfjöllun í niðurstöðu kafla hinnar kærðu ákvörðunar. Það fari ávallt eftir eðli viðkomandi framkvæmdar hvaða þættir vegi þyngra en aðrir eða hafi meiri þýðingu fyrir úrlausn máls.

Þá falli enn fremur ekki undir verksvið Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 111/2021 að taka afstöðu til þess hvort tilkynnt framkvæmd á borð við þá sem um ræðir í máli þessu sé í samræmi við samþykkta framkvæmdaáætlun framkvæmdaraðila. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna beri framkvæmdaraðili ábyrgð á tilkynningu framkvæmdar til Skipulags­stofnunar til ákvörðunar um hvort hún skuli háð umhverfismati. Framkvæmdaraðili hefði haft samband við stofnunina 7. september 2022 og bent á að eftir að málsmeðferð hófst vegna styrkingar á Kópaskerslínu 1 hefði þurft að ráðast í nánari greiningu á kerfinu á svæðinu. Sú greining hefði leitt til þess að nauðsynlegt hefði verið að bæta við tengingu frá Þeistareykjum að Kópaskers­línunni. Óskað hefði verið eftir, þrátt fyrir nálægð og kerfislega tengingu framkvæmdanna, að teknar yrðu aðskildar ákvarðanir um matsskyldu þeirra. Hefði framkvæmdaraðili einnig vakið athygli stofnunarinnar á því að í tilkynningu hefði ranglega verið vísað til texta í kerfisáætlun sem ekki ætti við og sent réttan texta. Þar komi m.a. fram að í kjölfar landshlutagreiningar og nýrra markmiða hafi endurnýjunarverkefni Landsnets verið endurskilgreint og feli nú í sér að auki tengingu frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu 1 og því viðbót frá því sem kynnt hafi verið í síðustu útgáfu kerfisáætlunar Landsnets og hafi Orkustofnun verið upplýst um málið.

Vikið sé að mótvægisaðgerðum í greinargerð framkvæmdaraðila, en þar komi fram að í hönnunarferli hefði strengleiðin verið höfð í vegkanti alla leið til að lágmarka rask við framkvæmdir. Svarðlag ofan af skurði verði geymt þar sem unnt verði og endurnýtt við uppgræðslu að framkvæmdum loknum. Fyrri reynsla sýni að besta raun gefi að geyma svarðlagið í sem skemmstan tíma. Því verði verkinu áfangaskipt og svarðlag sem verði tekið upp sé lagt strax niður á fyrri áfanga. Auk þess sé vísað til kafla 3.6.8. í kerfisáætlun framkvæmdaraðila í greinargerðinni. Framkvæmdaraðili hafi lagt fram lýsingu á eiginleikum allrar framkvæmdarinnar í skilningi viðauka II.A tilskipunar nr. 2011/92/ESB. Þótt hinar kærðu ákvarðanir, þ.e. jarðstrengur frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu 1 annars vegar og styrking Kópaskerslínu 1 hins vegar, tengist, sé ekki um sömu framkvæmdina að ræða og ekki unnt að líta svo á að styrking línunnar sé hluti af jarðstrengnum.

Í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar komi fram að áhrif framkvæmdarinnar verði fyrst og fremst af völdum rasks á gróðri en með þeim mótvægisaðgerðum sem framkvæmdaraðili lýsi í greinargerð sinni verði áhrif á gróður takmörkuð. Einnig að ætla megi að rask á hrauni verði takmarkað og að áhrif á jarðminjar verði ekki mikil. Strengurinn muni liggja meðfram gamla vegslóðanum að Þeistareykjum. Mótvægisaðgerðir séu skilgreindar í 8. tl. 3. gr. laga nr. 111/2021 sem aðgerðir til að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir neikvæð umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar eða áætlunar.

Lög nr. 111/2021 geri ekki ráð fyrir því að almenningur eigi rétt á að tjá sig áður en Skipulags­stofnun taki matsskylduákvörðun. Í 1. mgr. 20. gr. laganna sé kveðið á um að stofnunin skuli leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við eigi hverju sinni en skv. 11. tölul. 3. gr. sömu laga teljist þeir vera opinberar stofnanir, stjórnvöld eða aðrir lögaðilar sem sinni lögbundnum verkefnum sem varði framkvæmdir sem falli undir lögin eða umhverfisáhrif þeirra.

Því sé hafnað að lagagrundvöllurinn sé ekki skýr. Í greinargerð framkvæmdaraðila og hinni kærðu ákvörðun sé vísað til tölul. 10.16 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021. Varðandi tilvísun í tölul. 13.02 bendi stofnunin á að háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík hafi sætt umhverfismati á sínum tíma. Hægt sé að líta svo á að tilkynning um jarðstrenginn frá Þeistareykjum sé breyting eða viðbót við þær framkvæmdir sem fjallað hafi verið um í því umhverfismati.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili álítur að í kæru sé ekki vísað til neinna brota á formreglum sem geti leitt til svo íþyngjandi ákvörðunar að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi en engin lagarök eða lögmæt sjónarmið hvíli að baki kröfu kæranda um að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Í 2. kafla greinargerðar framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar um lagningu jarðstrengs frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu 1 hafi orðið þau mistök að gera ekki betur grein fyrir tilurð þess að ákveðið hefði verið að leggja umræddan streng. Um það leyti sem málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi farið fram vegna framkvæmdar um styrkingu Kópaskerslínu 1 hafi framkvæmdaraðili unnið að frekari greiningu á raforkukerfi Landsnets á umræddu svæði, umfram þá sem unnin hafi verið við gerð kerfisáætlunar. Niðurstaðan hafi verið sú að ráðast þyrfti í kerfislegar styrkingar svo óhætt yrði að uppfylla loforð um að fjarlægja Laxárlínu 1 og ná betri svæðisbundinni tengingu. Sú styrking sem hafi þótt best hafi falist í að bæta við tengingu frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu 1. Þar sem málsmeðferð vegna styrkingar á Kópaskerslínu 1 hafi verið langt komin hefði verið ákveðið að tilkynna fyrirhugaða nýja strenglögn sérstaklega í stað þess að blanda framkvæmdunum saman.

Það hafi láðst að upplýsa um að öðlast þyrfti sérstakt leyfi Orkustofnunar á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 þar sem framkvæmdin væri ekki í samræmi við aðalvalkost í framkvæmdaáætlun 2022–2024 í kerfisáætlun Landsnets 2021–2030. Skipulagsstofnun hafi rekist á þetta ósamræmi og óskað skýringa. Framkvæmdaraðili hafi orðið við þeirri beiðni í tölvupósti 7. september 2022 þar sem færð voru fram rök um framkvæmdina og hafi Orkustofnun verið upplýst um málið.

Framkvæmdaraðila séu ljós þau ákvæði náttúruverndarlaga um að forðast beri að raska jarðminjum, líkt og eldhrauni, nema brýna nauðsyn beri til. Aftur á móti sé ljóst að það svæði sem verið sé að styrkja sé að mjög stórum hluta á eldhrauni og því verði vart komist hjá einhverri röskun á þeim, sama hvaða aðferð verði fyrir valinu, þ.e. loftlína eða jarðstrengur. Á myndum með tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar megi sjá að framkvæmdir spilli frekar gróðri en eldhrauni. Þá megi sjá rishóla beggja vegna vegslóðar en þeir liggi fjarri fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Strenglögnin frá Þeistareykjum muni liggja við veg og veg­slóða og því sé framkvæmdasvæðið þegar raskað að hluta. Gróflega sé áætlað rask á um 0,6 ha lands og sé það gróið hraun með nokkuð þykkum jarðvegi að hluta. Bent er á umsögn Náttúrufræði­stofnunar Íslands, sem aflað var við meðferð málsins, þar sem talið hafi verið að ekki yrði mikið rask á jarðminjum. Skipulagsstofnun hafi því haft fullnægjandi gögn og upp­lýsingar til að taka upplýsta ákvörðun í málinu. Hvað varði jarðstrengslögnina í núverandi loft­línu Kópaskerslínu 1, næst Kópaskeri, þá muni hún liggja í röskuðu landi meðfram vatnslögn sem sé þar fyrir.

Tilgangur framkvæmdarinnar sé m.a. að undirbúa styrkingu kerfisins svo hægt sé að taka niður Laxárlínu 1, tæplega 60 km loftlínu, sem lofað hefði verið að yrði gert í kjölfar þess að Hólasandslína 3 kæmist í rekstur. Auk þess sé framkvæmdin hluti af því að auka rekstraröryggi fyrir svæðisbundna kerfið á svæðinu, en núverandi staða hafi leitt til tjóns og rekstrartruflana. Framkvæmdin sé því mjög brýn, sérstaklega fyrir íbúa og samfélagið á þessu svæði og því verði að skoða mikilvægi þess þáttar í samhengi við þá skerðingu sem verði á eldhrauninu.

Tilkynning hafi verið unnin skv. 9. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat fram­kvæmda og áætlana sem greini frá þeim upplýsingum sem koma eigi fram í tilkynningu. Ekki sé þar gerð krafa um að fjallað sé um valkosti líkt og farið sé fram á vegna matsskyldra fram­kvæmda. Benda megi þó á að við undirbúning framkvæmdarinnar hafi verið ræddir aðrir möguleikar, t.d. að leggja strenginn í sjálfan vegslóðann. Ein meginástæða þess að ákveðið hafi verið að gera það ekki hafi verið að þar sem slóðin sé víða þröng yrði væntanlega að fara með tæki og efni á afmörkuðum köflum út fyrir hana á framkvæmdatíma. Því hafi þótt betri kostur að nýta vegslóðann á framkvæmdatíma og halda raski eingöngu í skurðstæði í kanti slóðans. Þá sé ljóst að loftlína á þessum kafla, með tilheyrandi mastra­plönum og aðkomuslóðum, komi ekki til greina enda myndi hún ekki raska eldhrauninu minna og að auki næði sjónrænt áhrifasvæði yfir mun stærra svæði Skildingahrauns.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar sé nauðsynlegur hluti leyfisferlis framkvæmdarinnar, sbr. 25. gr. laga nr. 111/2021, og forsenda þess. Þannig geti það ekki verið ógildingarástæða ákvörðunar Skipulagsstofnunar að lögbundin leyfi séu ekki til staðar, þ.m.t. leyfi Orkustofnunar. Því sé ekki annmarki á hinni kærðu ákvörðun að ekki hafi verið skoðuð gögn frá framkvæmdaraðila sem liggi til grundvallar, eins og kerfisáætlun, og ekki aflað gagna um áhrif jarðstrengs og valkosta hans á jarðminjar sem njóti sérstakrar lagaverndar.

Í báðum hinum kærðu ákvörðunum sé gerð grein fyrir lagagrundvelli þeirra, leitað hafi verið umsagna og gögn tiltekin, þ.m.t. viðbótargögn. Lögbundið mat hafi farið fram og engar athugasemdir hafi verið gerðar við upplýsingar eða framlögð gögn. Því sé ekki unnt að fallast á að ekki hafi verið vísað til nauðsynlegra upplýsinga eða að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin. Þá hafi Skipulagsstofnun vísað til viðmiðana í 2. viðauka við lög nr. 111/2021 með tilhlýðilegum hætti, en í hinni kærðu ákvörðun sé sérstaklega vísað til 1.-3. töluliðar viðaukans.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar að Skipulagsstofnun sé bundin af ákvæðum 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og meginreglum þeirra laga við töku ákvarðana sinna. Samanburður valkosta sé ekki hluti málsmeðferðar skv. 19. gr. og 20. gr. laga nr. 111/2021. Hins vegar sé staðreynd að í „fyrirliggjandi niðurst[öðum] um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar“ í skilningi 2. mgr. 19. gr. laganna hafi fyrirhuguð framkvæmd ekki verið talinn hagfelldasti valkosturinn. Framkvæmdaraðili hafi ekki gert grein fyrir því við meðferð málsins. Útilokað sé að túlka gildandi lög þannig að Skipulagsstofnun hafi ekki verið skylt að rannsaka niðurstöðu umhverfismats kerfisáætlunar framkvæmdaraðila áður en hún hafi komist að niðurstöðu. Því hafi ekki verið farið að lögum við meðferð málsins þar sem ekkert tillit hafi verið tekið til umhverfismats kerfisáætlunarinnar. Þar sem tilkynningin hafi ekki verið í samræmi við kerfisáætlun framkvæmdaraðila hafi Skipulagsstofnun borið að rannsaka hvers vegna ekki hafi verið tekið tillit til niðurstaðna umhverfismats áætlunarinnar. Í gögnum málsins séu samskipti þar sem stofnunin hafi óskað alls kyns upplýsinga hjá framkvæmdaraðila við meðferð málsins. Því standist ekki sú fullyrðing að Skipulagsstofnun sé ekki rétt og skylt að óska eftir ýmiss konar upplýsingum, enda gildi rannsóknarreglan hér sem endranær.

Samkvæmt Evróputilskipun 2011/92/ESB, svo sem henni hafi verið breytt með tilskipun nr. 2014/52/ESB, sé skýrt að í rökstuðningi með matsskylduákvörðun þurfi að taka tillit til „fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar“ þar sem slíkt liggi fyrir. Í 20. gr. laga nr. 111/2011 séu ekki ákvæði um hvaða kröfur séu gerðar til rökstuðnings með ákvörðun Skipulagsstofnunar um að umhverfismat þurfi ekki að fara fram. Beri þá að beita skýringu sem uppfylli ákvæði Evróputilskipunar nr. 2011/92/ESB, sbr. tilskipun nr. 2014/52/ESB. Skv. 5. mgr. 4. gr. tilskipunar nr. 2011/92/ESB sé gerð sú afdráttarlausa krafa að stjórnvaldið taki „tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar“ í framangreindum skilningi. Hafna verði sjónarmiðum Skipulagsstofnunar um að vikið sé einungis að skipulagsáætlunum í 2. viðauka með lögum nr. 111/2021 en ekki að kerfisáætlun og því hafi hún ekki þurft að taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif fram­kvæmdarinnar. Þvert á móti séu það einmitt niðurstöður kerfisáætlunar sem Skipulagsstofnun eigi að fjalla um í rökstuðningi og slík áætlun lúti umhverfismati samkvæmt lögum.

Þá varpi forsaga lagaákvæða um vernd eldhrauna ljósi á mögulegar lögskýringar á núgildandi ákvæðum. Lagaskilningur Skipulags­stofnunar og Náttúrufræðistofnunar kunni að hafa litast af lagaskilningi sem hefði talist fullgildur áður fyrr en ekki í dag. Þegar vernd eldhrauna hafi fyrst komið í lög með gildistöku náttúruverndarlaga nr. 44/1999 hafi verið litið á eldhraun sem „landslagsgerð“ en það sé ekki gert lengur. Tveimur árum eftir gildistöku laganna hafi Alþingi samþykkt breytingu á lögunum og orðinu skipt út fyrir orðin „jarðmyndanir og vistkerfi“. Samkvæmt athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi sem varð að breytingalögum nr. 140/2001 hafi ekki þótt rétt að skilgreina þessi náttúrufyrirbæri sem landslagsgerðir þar sem landslag hefði verið skilgreint sem form og útlit náttúrunnar og tæki þannig til útlits og ásýndar lands, þ.m.t. lögunar þess, áferðar og lita. Um væri að ræða jarðmyndanir og vistkerfi en heiti hugtaka hefðu þróast. Því hafi greininni verið breytt til samræmis við þessa þróun. Ákvæði 61. gr. núgildandi náttúruverndarlaga hafi einnig verið breytt m.a. vegna þess að ákvæðið hafi talist veikt og hefði t.a.m. ekki haft áhrif á ákvarðanir Skipulagsstofnunar um það hvort fram­kvæmdir væru matsskyldar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögunum hafi markmiðið m.a. verið að stuðla að því að betur yrði vandað til málsmeðferðar stjórnvalda þegar teknar væru ákvarðanir sem snerti náttúrufyrirbæri sem falli undir ákvæðið. Auk breytinga á greininni sjálfri hafi verið lagðar til breytingar á skipulagslögum og lögum um mat á umhverfis­áhrifum í þeim tilgangi að auka áhrif greinarinnar og styrkja þá vernd sem hún kveði á um. Ekki hefði einungis verið skerpt á ákvæðinu um sérstaka vernd, heldur hefði einnig verið bætt ákvæði í 3. viðauka þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda beinlínis í þeim tilgangi „að auka áhrif greinarinnar og styrkja þá vernd sem hún kveði á um“. Í þessu máli reyni á samhljóða ákvæði í 2. viðauka með núgildandi lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Skýra eigi 61. gr. náttúruverndarlaga eftir orðanna hljóðan en vernd nútímahrauna takmarkist samkvæmt ákvæðinu ekki við yfirborð hraunanna.

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Hefur úrskurðarnefndin kynnt sér þau sjónarmið, en ekki þykir efni til að rekja þau nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvarðanir Skipulagsstofnunar þess efnis að fyrirhugaðar fram­­kvæmdir vegna lagningar jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 og styrking Kópaskerslínu 1 skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, þar sem þær séu ekki líklegar til að til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Kærandi í máli þessu eru umhverfisverndarsamtök sem byggja kæruaðild sína á 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna tilgreindra ákvarðana enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Meðal þeirra ákvarðana sem framangreind samtök geta kært eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. tilvitnaðra laga teljast umhverfisverndarsamtök samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Samtökin skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.

Félagsmenn kæranda eru fleiri en 30 en um aðild að félaginu segir í samþykktum þess að allir sem lýsi sig samþykka tilgangi félagsins á aðalfundi þess geti orðið félagsmenn. Samkvæmt samþykktum félagsins er tilgangur þess „að standa vörð um líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni í náttúru Íslands.“ Einnig hefur kærandi gefið út ársskýrslu fyrir 2021–2023. Telur úrskurðarnefndin samkvæmt þessu að um umhverfisverndarsamtök sé að ræða í skilningi 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

—–

Fyrirhugaðar framkvæmdir voru tilkynntar til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um mats­skyldu samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 sem framkvæmdir í flokki B, sbr. liði 10.16 og 13.02 í 1. viðauka við lögin. Skulu tilkynningaskyldar framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka við lögin. Í tilkynningu skal framkvæmdaraðili leggja fram upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar. Skal hann, þar sem við á, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfismat framkvæmdarinnar og leggja fram, þar sem við á, upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna.

Í 20. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um að Skipulagsstofnun skuli innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati samkvæmt lögunum. Áður skal stofnunin leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við á hverju sinni og sé niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að tilkynningarskyld framkvæmd sé ekki háð umhverfismati getur stofnunin gert ábendingar um tilhögun fram­kvæmdarinnar. Þá verður að líta svo á að Skipulagsstofnun beri að rökstyðja niðurstöðu sína með hliðsjón af þeim viðmiðum sem talin eru upp í 2. viðauka laganna, en vægi hvers þáttar er, eðli málsins samkvæmt, breytilegt eftir því hvaða framkvæmd um ræðir hverju sinni.

Málsrök kæranda varða að mestu aðra hinna kærðu ákvarðana, þ.e. að lagning jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 skuli ekki háð umhverfismati. Það er um leið sá þáttur sem gerð er krafa um til vara að verði felldur úr gildi. Með hliðsjón af því varðar umfjöllun hér á eftir aðeins þá ákvörðun uns kemur að umfjöllun um möguleg samlegðaráhrif hinna kærðu ákvarðana.

—–

Við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar um lagningu jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 aflaði Skipulagsstofnun álits umsagnaraðila á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svo sem fyrr segir töldu umsagnaraðilar að í tilkynningu framkvæmdaraðila væri nægjanlega gerð grein fyrir fyrir­huguðum framkvæmdum og mótvægisaðgerðum. Framkvæmdirnar væru ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og myndi fullt umhverfismat ekki bæta við fyrirliggjandi upplýsingar. Hin kærða ákvörðun lýsir fyrirhugaðri framkvæmd og mótvægisaðgerðum, fjallar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eins og þeim var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og áliti umsagnaraðila og víkur að þeim leyfum sem framkvæmdin er háð.

Í niðurstöðukafla sínum vísar Skipulagsstofnun til þess að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð umhverfismati skuli taka mið af eðli framkvæmdar, svo sem stærð og umfangi framkvæmdar og mengun, sbr. 1. tölul. 2. viðauka laga nr. 111/2021. Einnig skuli taka mið af staðsetningu framkvæmdar og hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, svo sem með tilliti til verndarákvæða, einkum svæða sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Einnig beri að líta til álagsþols náttúrunnar, svo sem með tilliti til votlendissvæða og sérstæðra jarðmyndana, sbr. 2. tölul. 2. viðauka fyrrnefndra laga. Þá beri að taka mið af eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmdar, meðal annars með tilliti til umfangs, eðlis og fjölbreytileika áhrifa, hverjar líkur séu á áhrifum, afturkræfni áhrifanna og möguleika á að draga úr áhrifum, sbr. 3. tölul. 2. viðauka laganna.

Hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar er skipt í nokkra kafla og eru þar m.a. reifuð fram-komin sjónarmið umsagnaraðila og framkvæmdaraðila um umhverfisáhrif framkvæmdar­innar á gróður, jarðmyndanir og verndarsvæði. Niðurstaða stofnunarinnar er í 6. kafla og vísar hún í rökstuðningi sínum sérstaklega til fyrrgreindra viðmiða um eðli framkvæmdar skv. 1.-3. tölul. 2. viðauka laga nr. 111/2021. Er á því byggt að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki umfangsmikil og fari fram á svæði sem er að einhverju leyti nú þegar raskað vegna vegarslóða. Strengurinn verði niðurgrafinn og muni því ekki sjást þegar gróðurrask á yfirborði hefur gróið með tímanum. Framkvæmdasvæðið sé allt í hrauni sem njóti sérstakrar verndar sem hafi þó að einhverju leyti glatað verndargildi sínu vegna jarðvegs og gróðurhulu. Áhrif á jarðminjar verði því ekki mikil. Lítill hluti leiðarinnar fari um fjarsvæði vatnsverndar, en vatnsbólið sjálft sé í nokkurri fjarlægð og framkvæmdaraðili hyggst vera í samráði við Heilbrigðiseftirlit Norður­lands eystra vegna vinnu innan svæðisins. Áhrif framkvæmdarinnar verði fyrst og fremst af völdum rasks á gróðri en með þeim mótvægisaðgerðum sem framkvæmdaraðili hefur kynnt verði áhrif á gróður takmörkuð. Að mati Skipulagsstofnunar kalli þeir þættir sem falla undir eðli, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar ekki á að framkvæmdin undirgangist mat á umhverfisáhrifum.

—–

Í 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Nær verndin m.a. til eldhrauna, gervigíga og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma, sbr. 2. mgr. ákvæðins, en í 3. mgr. er tiltekið að m.a. beri að forðast að raska jarðminjum sem taldar séu upp í 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Við lagningu jarðstrengsins verður raskað í einhverju jarðminjum sem falla undir lagagreinina, en streng­leiðin er öll á hrauni sem nýtur verndar. Um verndargildi hraunsins má vísa til umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands, en þar kemur fram að á hrauninu sé jarðvegs- og gróðurhula svo lítið sjáist í hraunmyndanir. Þá sneiði strengleiðin að mestu fram hjá rishólum og sprungum í hrauninu og telur stofnunin því að ekki verði mikið rask á jarðminjum. Í hinni kærðu ákvörðun er af hálfu Skipulagsstofnunar vísað til þess að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki umfangsmikil og fari fram á svæði sem er að einhverju leyti nú þegar raskað vegna vegarslóða. Auk þess liggur fyrir að svæðið sem slóðinn liggur um er að mestu hulið jarðvegi og gróðri, þannig að verndargildi hraunsins er minna en ella væri. Verður ekki gerð athugasemd við umfjöllun Skipu­­lags­­stofnunar að þessu leyti þótt hún hefði e.t.v. mátt vera ítarlegri um staðhætti.

Af hálfu kæranda er bent á að ekki sé gerð grein fyrir valkostum um útfærslu við lagningu strengsins eða legu hans í tilkynningu framkvæmdaraðila. Slíkra upplýsinga er að jafnaði ekki krafist þegar tekin er ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar og er ekki gerð krafa í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um að slíkir valkostir séu reifaðar. Þar er á hinn bóginn mælt fyrir um að taka skuli tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og leggja fram, þar sem við á, upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir. Mat á valkostum fer jafnan fram á síðari stigum verði niðurstaðan sú að um matsskylda framkvæmd sé að ræða.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að samþykki Orkustofnunar liggi fyrir í Kerfisáætlun Landsnets 2021–2030, en fyrir liggur að þegar tilkynning um framkvæmdina barst Skipulags­stofnun var ekki gert ráð fyrir henni í framkvæmdaáætlun 2022–2024 í fyrrnefndri kerfisáætlun Landsnets. Skipulagsstofnun óskaði nánari skýringa um þetta, eins og rakið er í umsögn stofnunarinnar til úrskurðarnefndarinnar, og var upplýst um að upphaflega hafi staðið til að styrkja Kópaskerslínu 1 á tveimur stöðum og að sú framkvæmd sem tilkynnt hefði verið til Skipulagsstofnunar 9. maí 2022 væri aðalvalkostur kerfisáætlunar. Eftir frekari greiningu hafi verið ákveðið að bæta við tengingu frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu 1 og hefði Orkustofnun verið upplýst um það. Í tilkynningu til Skipulagsstofnunar um lagningu jarðstrengsins hafi ranglega verið vísað til þess að framkvæmdin væri valkostur 2 sem fjallað væri um í kerfisáætlun. Við meðferð málsins hefur þetta verið upplýst nánar. Þá hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur til kynna að áform um legu jarðstrengsins að Þeistareykjum séu ekki reist á málefnalegum sjónarmiðum. Hvað snertir möguleika á að leggja jarðstrenginn í vegarstæði gamla vegarslóðans að Þeistareykjum má benda á að fram kemur í umsögn Landsnets til úrskurðarnefndarinnar að hætta hefði verið á auknu jarðraski við það.

Af hálfu kæranda hefur verið gagnrýnt að hinar kærðu ákvarðanir fjalli um tvo hluta sömu framkvæmdar og því hafi borið að fjalla um þær í einu lagi. Þannig sé fjallað um fram­kvæmdirnar í áðurnefndri kerfisáætlun. Af því leiði að ekki hafi legið fyrir skýrar upplýsingar um samlegðaráhrif með öðrum framkvæmdum, sbr. tölulið ii. í 1. lið 2. viðauka við lög nr. 111/2021. Hinar kærðu framkvæmdir eru þrátt fyrir þetta að verulegu leyti landfræðilega aðgreindar. Báðar fela þó í sér framkvæmdir á Reykjaheiði og Þeistareykjahrauni, annars vegar endurnýjun loftlínu og hins vegar lagningu jarðstrengs. Hvorug framkvæmdin er mikil að umfangi og gætir ekki samlegðaráhrifa vegna þeirra. Að áliti úrskurðarnefndarinnar hefði verið eðlilegt að tilkynna þessar framkvæmdir sam­eigin­lega og hefði Skipulagsstofnun getað krafist þess við málsmeðferð. Þar sem ekki verður þó álitið að framkvæmdirnar séu líklegar til þess að hafa veruleg umhverfisáhrif þótt þær væru metnar sameiginlega verður þetta látið óátalið.

Að virtum gögnum málsins, kynntrar tilhögunar framkvæmdarinnar og mótvægisaðgerða er það álit úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi við undirbúning hinna kærðu ákvarðana tekið viðhlítandi tillit til þeirra viðmiða sem eru í 2. viðauka við lög nr. 111/2021. Er enda ekki um að ræða framkvæmd sem telja verður að líkleg sé til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfis­áhrif með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hennar. Verður og ekki annað ráðið en að fyrir Skipulagsstofnun hafi legið nauðsynlegar upplýsingar um fram-kvæmdina og forsendur hennar sem stofnunin gat reist ákvarðanir sínar á.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið eru hinar kærðu ákvarðanir ekki haldnar þeim form- eða efnisannmörkum er ógildingu geta valdið og verður kröfum kæranda, bæði aðal- og varakröfu, þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvarðana Skipulagsstofnunar frá 21. september 2022 um að lagning 66 kV jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 skuli ekki háð umhverfismati og frá 11. október 2022 um að styrking Kópaskerslínu 1 skuli ekki sæta umhverfismati.

26/2023 Laufásvegur

Með

Árið 2023, föstudaginn 5. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2023, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023 um að samþykkja byggingarleyfisumsóknir til að innrétta búsetuúrræði í annars vegar matshlutum 02 og 03 í húsi á lóð nr. 19 við Laufásveg og hins vegar í íbúðar- og skrifstofuhúsi á lóð nr. 21–23 við sömu götu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 23. febrúar 2023, kærir eigandi, Laufásvegi 22, þær ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023 að samþykkja byggingarleyfisumsóknir til að innrétta búsetu-úrræði í annars vegar matshlutum 02 og 03 í húsi á lóð nr. 19 við Laufásveg og hins vegar í íbúðar- og skrifstofuhúsi á lóð nr. 21–23 við sömu götu. Verður að skilja málatilbúnað kæranda sem svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Með tveimur kærum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er bárust nefndinni 26. febrúar 2023, kæra eigendur, Laufásvegi 19, sömu ákvarðanir með kröfu um ógildingu þeirra. Verða þau mál, sem eru nr. 30 og 31/2023, sameinuð kærumáli þessu þar sem um sömu ákvarðanir er að ræða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Í kærum íbúa að Laufásvegi 19 var þess jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeim kröfum var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 31. mars 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 31. mars 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. desember 2022 tók byggingarfulltrúi fyrir umsókn Mannverks ehf. um leyfi til að innrétta búsetuúrræði í matshlutum 02 og 03 í húsi á lóð nr. 19 við Laufásveg. Þá tók byggingarfulltrúi á sama fundi fyrir umsókn sama félags um leyfi til að innrétta búsetuúrræði í íbúðar- og skrifstofuhúsi á lóð nr. 21–23 við Laufásveg. Vísaði byggingarfulltrúi báðum málum til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndar-kynningu. Skipulagsfulltrúi samþykkti á fundi sínum 15. s.m. að grenndarkynna umsóknirnar fyrir hagsmunaaðilum að Laufásvegi 14, 17, 18, 18a, 19, 20, 22 og 25, Skálholtsstíg 6 og Þingholtsstræti 30 og 34. Umsóknirnar voru grenndarkynntar sameiginlega 29. desember 2022 með athugasemdafresti til 30. janúar 2023. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 22. febrúar s.á. var grenndarkynningin samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 16. s.m. og a-liðar 1. gr. í viðauka 1.1. við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgar-stjórnar. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. mars s.á. voru byggingar­leyfisumsóknirnar samþykktar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að íbúar hafi við grenndarkynningu byggingarleyfis­umsóknanna fært ítarleg rök fyrir því að fyrirhuguð búsetuúrræði væru ekki í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 þar sem skammtímagisting sé einungis heimil við aðalgötu, en Laufásvegur sé íbúðargata en ekki aðalgata. Í minnisblaði skipulagsfulltrúa, dags. 16. febrúar 2023, sé því beinlínis haldið fram að í grenndarkynntri byggingarlýsingu hafi e.t.v. verið „villandi“ að tala um „búsetu­úrræði“. Trúlega sé um að ræða tilraun til að sneiða hjá skýrum ákvæðum aðalskipulagsins um að búsetuúrræði, þar sem krafist sé gæslu allan sólarhringsins og/eða umfang starfsemi sé umtals­vert, sé háð gerð deiliskipulags. Fyrir liggi að gæsla verði til staðar allan sólarhringinn fyrir búsetuúrræðið og að umfang starfseminnar verði umtalsvert, en gert sé ráð fyrir 80 íbúum í 40 svefnrýmum í samtals þremur íbúðum.

Tvær af íbúðunum séu mjög fjarri því að geta boðið upp á aðstöðu sem dugi þeim fjölda sem þar eigi að dvelja á hverjum tíma og margir íbúa muni þurfa að fara langan veg milli íbúða til að nýta aðstöðu. Vakin sé athygli á ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um kröfu til rýma íbúða. Þá sé bent á að í kynningarbréfi til íbúa komi fram að fyrirhugaður rekstur verði tímabundinn til tveggja ára, en þrátt fyrir það sé ekki kveðið á um tímalengd rekstursins í samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs eða byggingarlýsingu. Gera verði kröfu um að slíkt ákvæði sé hluti lögmætrar samþykktar.

Bent sé á að baklóð Laufásvegar 19 hafi verið seld til sendiráðs Bandaríkjanna árið 1996 án vitundar íbúðareigenda á lóðinni, en þeir hafi borgað opinber gjöld af lóðinni og fasteigninni alla tíð síðan. Við hafi tekið aldarfjórðungslöng deila við borgaryfirvöld og sendiráðið. Þegar sendiráðið hafi flutt af Laufásveginum árið 2020 hafi því verið sent bréf þar sem bent hafi verið á að við söluna á húsnæðinu ætti að koma fram að eignarhlutdeildin að baklóðinni væri umdeild, auk þess sem fasteignasalan sem séð hafi um söluna hafi fengið afrit af bréfinu. Leyfishafa eigi því að vera fullkunnugt um að ýmsum spurningum sé enn ósvarað um eigna­stöðu baklóðarinnar. Íbúðareigendur Laufásvegar 19 hafi hvorki samþykkt framkvæmdirnar við bílskúrana né gefið leyfi fyrir búsetu þar. Séu framkvæmdirnar því ólögmætar.

Ef af framkvæmdunum verði þá muni íbúafjöldi að Laufásvegi 19, 21 og 23 verða alltof mikill. Gríðarlegt ónæði muni fylgja auknum fjölda íbúa auk þess sem það muni skerða möguleika kærenda á að selja íbúðir sínar.

Málsrök Reykjavíkurborg: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að hin kærðu byggingaráform feli í sér breytta notkun, þ.e. atvinnuhúsnæði hafi verið breytt í íbúðarhúsnæði, en ekkert deiliskipulag sé í gildi á svæðinu. Um sé að ræða íbúðarhúsnæði sem verði tímabundinn dvalarstaður umsækjenda á meðan þeir bíði úrlausnar á umsóknum sínum hjá íslenskum stjórn­völdum um alþjóðlega vernd hér á landi. Byggingarleyfisumsóknin hafi verið grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi málsmeðferðin verið í samræmi við máls­meðferðarreglur þeirra laga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Laufásvegur 19 og 21­­–23 séu á svæði íbúðarbyggðar (ÍB) samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Umrædd áform samræmist meginmarkmiðum aðalskipulagsins í húsnæðis­málum og landnotkun svæðisins og þeim sérákvæðum sem gildi um landnotkunarflokkinn. Í markmiðum um íbúðarbyggð komi fram að leitast „verði við að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta fyrir alla félagshópa.“ Enn fremur segi að tryggt „verði að hvers konar búsetuúrræði, fyrir alla félagshópa, rúmist innan íbúðarbyggðar, miðsvæða þar sem gert er ráð fyrir íbúðarhúsnæði eða í annarri blandaðri byggð.“ Með íbúðarhúsnæði sé átt við „[í]búðir sbr. kröfur byggingarreglugerðar, námsmannaíbúðir, aukaíbúðir sbr. skilgreiningar hverfisskipulags, stúdíóíbúðir, þjónustuíbúðir, íbúðarherbergi sem leigð eru tímabundið og íbúar deila eldhúsi með öðrum, auk hvers kyns búsetuúrræða fyrir hópa með sérstakar húsnæðis og þjónustuþarfir og eru með lögheimili í viðkomandi húsnæði.“ Í skilgreiningunni segi enn fremur að innan íbúðarbyggðar megi „gera ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi, enda sé um að ræða þrifalega starfsemi sem ekki veldur ónæði, og almennri opinberri þjónustu (þ.m.t. búsetukjarnar).“ Skilgreining íbúðarbyggðar í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé þannig í grunninn víð og heimili húsnæðislausnir og úrræði fyrir félagshópa, auk þess sem almenn samfélagsþjónusta sé heimil og önnur þrifaleg atvinnustarfsemi.

Húsið að Laufásvegi 19 sé byggt árið 1933 og í því séu nú sex íbúðir. Lóð hússins, sem sé eignarlóð, hafi áður verið hluti af lóðinni nr. 17–19 við Laufásveg, sem þá hafi verið samtals 1.222 m2 að stærð. Að beiðni lóðarhafa hafi byggingarnefnd samþykkt skiptingu lóðarinnar 9. mars 1995 þannig að lóð nr. 19 hafi orðið 795 m2. Þegar fyrstu íbúðirnar hafi verið seldar í íbúðarhúsi nr. 19 við Laufásveg hafi þær verið seldar án þess að þeim hafi fylgt hlutdeild í lóð, nema þeim hluta sem sé undir húsinu sjálfu. Þannig hafi t.d. með afsali útgefnu 1959 verið seld íbúð á 2. hæð og hafi sérstaklega verið tekið fram að undanskilin væri „[óbyggð] baklóð, lóð, sem [bílskúrar] standa á svo og lóð undir innkeyrsluplani.“ Sama orðalag sé að finna í síðari afsölum.

Bílskúrar á baklóðinni hafi verið samtals níu og hafi þeir verið samþykktir í byggingarnefnd 30. maí 1963 og byggðir á árunum 1963 og 1964. Bílskúrarnir séu í dag auðkenndir með fasteignanúmerinu F2006769, en byggingarfulltrúinn í Reykjavík og skráningardeild fasteigna hafi staðfest það með yfirlýsingu árið 1995. Með leigusamningum, fyrst frá 23. nóvember 1981, hafi sendiráð Bandaríkjanna fengið baklóðina að Laufásvegi 19 og bílskúrana á leigu. Með kaupsamningi, dags. 30. desember 1994, hafi eigendur bílskúranna selt sendiráði Banda­ríkjanna baklóðina. Hinn 8. júní 1995 hafi níu bílskúrum og eignalóðarréttindum við Laufásveg 19 verið afsalað til utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna. Umrædd skjöl séu þinglýst og megi finna í bókum þinglýsingarfulltrúa.

Í afsalinu komi fram að hin óbyggða baklóð og bílskúrar séu séreign, þ.e.a.s. ekki sameign með öðrum eigendum Laufásvegar 19. Samkvæmt afsali, dags. 13. maí 2022, sé Laufásvegur 21 ehf. núverandi eigandi bílskúranna á baklóðinni ásamt lóðarhluta. Hinum opinberu gögnum hafi ekki verið hnekkt. Ekki þurfi samþykki íbúðareigenda í Laufásvegi 19 til að breyta bíl­skúrum á baklóð í íbúðarhúsnæði.

Telji kærendur að þeir verði fyrir tjóni vegna umræddra breytinga sé bent á að hægt sé að hafa uppi bótakröfu, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Hvað varði ónæði bendi borgaryfirvöld á að alltaf megi búast við fleira fólki á ferli þegar skrifstofuhúsnæði sé breytt í íbúðir. Aftur á móti verði ekki séð að mikill umgangur verði um baklóðina að Laufásvegi 19 þar sem mjög takmarkaður umgangur verði um lóðina í ljósi þess að inn- og útgangur sé í aðalbyggingu á lóð nr. 21–23 við Laufásveg. Það séu einungis flóttaleiðir sem snúi að baklóðinni.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærandi að Laufásvegi 22 bendir á að í umsögn Reykjavíkurborgar hafi engin tilraun verið gerð til að skilgreina hvers kyns starfsemi veitt væri heimild fyrir eða hvernig hún samrýmist Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Í aðalskipulaginu segi m.a. að búsetuúrræði þar sem krafist sé gæslu allan sólarhringinn og/eða umfang starfsemi sé umtalsverð geti einnig verið heimil, en sé háð því að gerð sé grein fyrir þeim í deiliskipulagi. Orðalagið „[geti] einnig verið heimil“ staðfesti að um sé að ræða undantekningu en ekki reglu en orðalagið „en eru háð því að gerð sé grein fyrir þeim í deiliskipulagi“ feli í sér afdráttarlaust skilyrði. Borgaryfirvöld hafi ekki hrakið að annað hvort sé um að ræða búsetuúrræði með umtalsverðu umfangi eða að krafist sé gæslu allan sólarhringinn, en annað hvort skilyrðið nægi til að skylt sé að gera deiliskipulag. Rekstur á búsetuúrræði fyrir allt að 85 manns, þar sem öll aðstaða sé meira og minna sameiginleg öllum, jafnist að umfangi á við afar stórt gistiheimili eða miðstærð af hóteli.

Reykjavíkurborg vísi til ákvæða um heimila atvinnustarfsemi á íbúðarsvæðum í gildandi aðal­skipulagi. Vakin sé athygli á að þar sé áherslan öll á smárekstur sem hafi lítil áhrif á nær­umhverfið auk þess sem rekstur gistiþjónustu sé óheimil óháð umfangi. Þá sé vakin athygli á drögum ríkisstjórnar að frumvarpi um tímabundnar undanþágur vegna búsetuúrræða fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, þar sem stjórnvöld hafi hug á því að skapa lagalegar forsendur fyrir því að hægt sé að víkja frá ákvæðum gildandi skipulags viðkomandi sveitar­félaga og þá að hámarki til 18 mánaða. Frumvarpið hafi hvorki verið lagt fram né orðið að lögum og því séu engar forsendur til að víkja frá afdráttarlausum ákvæðum aðalskipulags og það til tveggja ára. Skortur á skýrri afmörkun tímalengdar, þrátt fyrir ákvæði í grenndar­kynningu, sé einnig á meðal þeirra atriða sem ekki hafi verið vikið að í umsögn borgaryfirvalda.

Á uppdráttum sjáist hversu fjarri innra skipulag sé öllum þekktum fordæmum um búsetuúrræði, stúdentaíbúðir eða önnur búsetuform sem þekkist á skilgreindum íbúðarsvæðum. Í athuga­semdum eins kæranda við grenndarkynningu hafi verið óskað eftir því að umhverfis- og skipulags­svið rýndi vandlega hvernig fyrirhugaðar íbúðir samrýmdust skilyrðum samkvæmt byggingar­reglugerð, t.a.m. gr. 6.7.1. þar sem segi að öll rými íbúða skuli vera nægjanlega stór þannig að þar rúmist innréttingar af þeim gerðum sem henti stærð íbúða.

Þá sé að lokum bent á að þegar bornar væru saman endanlegar samþykktar teikningar við grenndarkynningu megi sjá að hætt sé að tala um „íbúðir“ og hugtakið „úrræði“ notað í staðinn. Með því séu öll líkindi við hefðbundnar námsmannaíbúðir eða venjulega búsetu við íbúagötur endanlega fyrir bí. Líkleg skýring á þessari breyttu hugtakanotkun sé að sjö herbergja einingin „úrræði 3“ með einu salerni og einni sturtu, bakvið sömu dyr, sé nú án eldhúss og geti því ekki talist „íbúð“ í skilningi byggingarreglugerðar þar sem hún standist ekki kröfur í grein 6.7.1. Sú fullyrðing á forsíðu teikninga að tekið sé mið af kröfum byggingarreglugerðar fyrir íbúðar­húsnæði sé því efnislega röng.

—–

Leyfishafa var tilkynnt um framkomnar kærur og honum gefinn kostur á því að koma á framfæri athugasemdum við þær, en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. febrúar 2023 um að samþykkja byggingarleyfisumsóknir til að innrétta búsetu­úrræði í annars vegar matshlutum 02 og 03 í húsi á lóð nr. 19 við Laufásveg og hins vegar í íbúðar- og skrifstofuhúsi á lóð nr. 21–23 við sömu götu. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki veitir byggingarfulltrúi byggingarleyfi og skv. 11. gr. sömu laga samþykkir hann byggingaráform. Verður því litið svo á að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023 að samþykkja téðar umsóknir.

Byggingarleyfisumsóknir þessar voru grenndarkynntar íbúum nærliggjandi húsa, en ekki liggur fyrir deiliskipulag fyrir svæðið. Fram kom í grenndarkynningunni að óskað væri eftir tíma-bundinni breytingu á notkun húsnæðisins. Með breyttri notkun yrði húsnæðinu, sem er í heild rúmir 1.600 m2, skipt í þrjár íbúðir og opnað tímabundið á milli. Tekið væri mið af kröfum byggingarreglugerðar fyrir íbúðarhúsnæði. Af gögnum málsins má ráða að húsnæðið sé ætlað sem tímabundinn dvalar­staður umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi.

—–

Af hálfu kærenda hefur verið bent á að við útgáfu samþykktra teikninga hafi fallið brott eldhús í einni íbúðinni, sem merkt er „úrræði 3“, en þar séu annars sjö herbergi, eitt salerni og ein sturta. Með þessu geti úrræðið ekki talist íbúð í skilningi byggingarreglugerðar nr. 112/2012, sbr. grein 6.7.1. Í þeirri grein er kveðið á um að hvert deilihúsnæði, svo sem hér um ræðir, skuli hafa að lágmarki eitt íbúðarherbergi, eldunaraðstöðu og baðherbergi. Öll slík rými innan íbúðar skuli tengd innbyrðis og ekki skuli þurfa að fara um sameign á milli rýmanna. Auk þess skuli öll rými íbúða vera nægjanlega stór þannig að þar rúmist innréttingar af þeim gerðum sem henta stærð íbúða og er heimilt að krefjast rökstuðnings hönnuðar um að svo sé miðað við áætlaðan fjölda íbúa. Deilihúsnæði er skilgreint í 24. tölul. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð sem íbúðarhúsnæði með sameiginlegt eldhús eða alrými. Á samþykktum uppdráttum kemur fram að húsið verði nýtt sem þrjár íbúðir. Við skoðun teikninganna er ljóst að ekki er eldhús í rými því sem nefnist „úrræði 3“ sem upphaflega var bílgeymsla á lóð hússins á Laufásvegi 19. Mögulegt virðist hins vegar að íbúar þar geti haft aðgang að öðrum eldhúsum í húsinu. Þetta bendir til þess að annmarki sé á samþykktum teikningum, en ekki er tilefni til að fjalla nánar um það hvort svo sé í úrskurði þessum.

—–

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr skipulagslaga nr. 123/2010 gildir sú meginregla að gera skal deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Finna má undantekningu frá þeirri meginreglu í 1. mgr. 44. gr. laganna þar sem segir að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggur ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við land­notkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndar­kynningu. Í máli þessu er m.a. tekist á um það hvort útgefin byggingarleyfi samrýmist aðal­skipulagi Reykjavíkur sem og hvort heimilt hafi verið að veita þau að undangenginni grenndar­kynningu eða hvort þurft hefði að gera deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis.

Með hinum kærðu ákvörðunum er notkun húseignarinnar að Laufásvegi 21–23 breytt úr atvinnu­húsnæði í íbúðarhúsnæði. Húsið er á svæði íbúðarbyggðar (ÍB) samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Í aðalskipulaginu segir að leitast skuli við að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta fyrir alla félagshópa og er í dæmaskyni með íbúðum m.a. vísað til íbúðarherbergja sem leigð eru tímabundið og íbúar deila eldhúsi með öðrum auk hvers kyns búsetuúrræða fyrir hópa með sérstakar húsnæðis- og þjónustuþarfir og eru með lögheimili í viðkomandi húsnæði. Verður með hliðsjón af þessari víðu skilgreiningu ekki álitið að land­notkun samkvæmt aðalskipulagi girði fyrir útgáfu byggingarleyfis til íbúða í húsinu af þeirri gerð og í þeim tilgangi sem hér um ræðir.

Í kafla 3.4.1 í aðalskipulaginu eru sérákvæði um sérstök búsetuúrræði og kemur þar fram að slík úrræði geti verið heimil innan íbúðarbyggðar. Þá segir einnig að innan íbúðarbyggðar sé staðsetning búsetuúrræða almennt háð gerð deiliskipulags. Það gildi þó ekki ef um sé að ræða búsetukjarna fyrir fatlað fólk í húsnæði sem sé til staðar, þar sem ekki sé þörf á sérstakri öryggisgæslu og þjónusta kalli ekki á mikinn starfsmannafjölda (2–12 starfsmenn á vakt). Eru sérstök búsetuúrræði skilgreind í aðalskipulaginu sem „húsnæðislausnir fyrir félagshópa með sérstakar húsnæðis- og/eða þjónustuþarfir, til lengri eða skemmri dvalar.“ Fram kemur að slík úrræði nái til fjölbreyttra hópa og húsnæðislausnir geti falist í því að ráðist verði í nýbyggingu eða endurbætur á húsnæði sem þegar sé til staðar. Enn fremur segir í kafla um íbúðarbyggð að búsetuúrræði þar sem krafist sé „gæslu allan sólarhringinn og/eða umfang starfsemi er umtalsvert“ geti einnig verið heimil, en háð því að gerð sé grein fyrir þeim í deiliskipulagi.

Fram kom á grenndarkynntum uppdráttum að leigutaki myndi meta þörf á sólarhringsvakt. Við meðferð málsins kom fram í svörum starfsmanns skipulagsfulltrúa að samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum og Vinnumálastofnun yrðu 40 herbergi í húsinu, fyrir 75–85 umsækjendur um alþjóðlega vernd. Öryggisgæsla yrði í húsinu allan sólarhringinn og ávallt yrði öryggisvörður til staðar. Einnig yrði sett upp myndavélakerfi sem myndi „dekka“ sameiginleg rými í húsinu. Á samþykktum uppdráttum kemur fram að Vinnumálastofnun verði með starfs­mann á staðnum allan sólarhringinn sem verði íbúum til taks ef eitthvað komi upp á inni í húsnæðinu. Sá starfsmaður verði einnig tengiliður íbúa við aðra starfsmenn stofnunar-innar og aðra hlutaðeigandi aðila utan húsnæðisins. Í svörum fulltrúa Reykjavíkurborgar við meðferð hinna kærðu ákvarðana kom síðar fram að með „sólarhringsvakt“ í byggingarlýsingu sé einungis átt við að húsvörður verði á staðnum og ekki sé um öryggisgæslu að ræða. Þá sé óeðlilegt að horfa á starfsemina sem búsetuúrræði en henni svipi meira til námsmannaíbúða.

Af málsgögnum hinna kærðu ákvarðana, m.a. samþykktum teikningum, virðist ljóst að gert sé ráð fyrir því að í húsunum að Laufásvegi 19 og 21–23 verði búsetuúrræði fyrir viðkvæman félagshóp. Umfang starfseminnar er verulegt með hliðsjón af staðsetningu hennar í íbúðargötu. Auk þess virðist ljóst að gert sé ráð fyrir einhverri tegund af gæslu eða eftirliti og þjónustu sem krefjist stöðugrar viðveru. Þar sem fyrirmæli aðalskipulags kveða á um að slík búsetuúrræði innan íbúðarbyggðar séu háð því að gerð sé grein fyrir þeim í deiliskipulagi verður að telja að ekki hafi verið heimilt að láta nægja að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknirnar samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipu­lagslaga. Var undirbúningur hinna kærðu ákvarðana því haldinn verulegum annmörkum og ekki hjá því komist að fella þær úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felldar eru úr gildi ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023 um að samþykkja byggingarleyfisumsóknir til að innrétta búsetuúrræði í annars vegar matshlutum 02 og 03 í húsi á lóð nr. 19 við Laufásveg og hins vegar í íbúðar- og skrifstofuhúsi á lóð nr. 21–23 við sömu götu.

150/2022 Kerhraun

Með

Árið 2023, föstudaginn 28. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 150/2022, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 5. október 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Kerhrauns C88.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. desember 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lóðarinnar Kerhrauns C89 í Grímsnes- og Grafningshreppi þá ákvörðun sveitarstjórnar frá 5. október 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Kerhrauns C88. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Gerði kærandi jafnframt kröfu um að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og að framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Þeim kröfum var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 9. janúar 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 5. janúar 2023.

Málavextir: Með umsókn, dags. 28. júní 2022, var sótt um breytingu á deiliskipulagi frístunda­byggðar í Kerhrauni vegna lóðarinnar Kerhrauns C88. Umsóknin fól í sér að bílastæði yrðu flutt frá norðurmörkum að austurmörkum lóðarinnar. Auk þess átti byggingarreitur að stækka þannig að hann yrði samsíða austurmörkum lóðarinnar í 10 m fjarlægð frá þeim. Fyrir hafði byggingar­reitur verið 10 m frá lóðarmörkum nyrst en 19,6 m syðst. Skipulagsnefnd Umhverfis- og tæknisviðs uppsveita bs. lagði til að umsóknin yrði grenndarkynnt og sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti þá tillögu á fundi sínum 17. ágúst 2022 og fór grenndarkynningin fram frá 23. ágúst til 22. september s.á. Kærandi sendi inn athugasemdir á kynningartíma og voru þær teknar fyrir á fundi skipulagsnefndar 27. september s.á. Á fundinum var lagt til að tekið yrði tillit til athugasemda kæranda hvað varðaði breytta aðkomu að lóðinni en að sá hluti breytingartillögunnar, er varðaði staðsetningu byggingarreits, yrði samþykktur. Sveitarstjórn samþykkti tillögu skipulagsnefndar á fundi sínum 5. október s.á. og birtist aug-lýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 23. nóvember s.á.

Sveitarstjórn samþykkti jafnframt nýtt deiliskipulag Kerhrauns, svæði A, B og C, á fundi sínum 21. september 2022. Birtist auglýsing um gildistöku þess skipulags í B-deild Stjórnartíðinda 12. desember s.á., þar sem fram kom að um væri að ræða endurskoðað deiliskipulag sem tæki til Kerhrauns, svæða A, B og C. Með gildistöku þess féll eldra deiliskipulag úr gildi.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að tilfærsla byggingarreits á lóðinni Kerhrauni C88 skerði hagsmuni hans. Lóðarhafi ætli að byggja sumarhús sitt um 10 m nær lóð kæranda en áður hafi verið heimilt. Á tiltölulega litlum lóðum skipti hver metri máli hvað varði nálægð húsa og grenndaráhrif og 10 m skipti verulegu máli. Muni breytingin hafa umtalsverð áhrif á nýtingu og rýmistilfinningu kæranda á sinni lóð. Í ljósi upprunalegs deiliskipulags eigi kærandi ekki að þurfa að þola þau áhrif.

Kæranda sé ekki kunnugt um hvort byggingarfulltrúi hafi af vanrækslu útsett hús á lóðinni nr. C88 þar sem grunnur þess hafi verið grafinn fyrir útgáfu byggingarleyfis eða hvort eigandi þeirrar lóðar hafi virt að vettugi fyrirmæli byggingarfulltrúa eða grafið grunninn án vitneskju hans. Nauðsynlegt sé að þetta verði upplýst við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni. Hafi byggingarfulltrúi gert mistök við útsetningu hússins og staðsett það langt fyrir utan upphaflega byggingarreitinn sé ekki við hæfi að samþykkja slík mistök með því að annað stjórnvald sveitar­félagsins samþykki deiliskipulagstillögu sem feli í sér að blessun sé lögð yfir slík mistök. Hið sama eigi við ef lóðarhafinn hafi ekki farið eftir fyrirmælum byggingarfulltrúa um staðsetningu hússins. Í hvorugu tilvikinu eigi hagsmunir kæranda af staðsetningu byggingarreits að víkja fyrir ólögmætum aðgerðum lóðarhafa.

Skipulagsyfirvöld hafi ákveðið að grenndarkynna deiliskipulagstillöguna samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 í stað þess að auglýsa hana samkvæmt 40. gr. laganna. Tillagan hafi víðtækara gildi en eingöngu fyrir sig og lóðarhafa. Hið breytta deiliskipulag, þ.e. stækkun og tilfærsla byggingarreitsins á lóðinni nr. C88, feli í sér fordæmi fyrir aðra lóðarhafa á svæðinu og vafalaust séu margir sem vilji ekki fá byggingarreiti á aðliggjandi lóðum nær húsum sínum en upphaflega deiliskipulagið segði til um. Nauðsynlegt sé því að deiliskipulagstillagan verði kynnt samkvæmt meginreglu 1. mgr. 43. gr., sbr. 40. gr. skipulagslaga.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Bent er á að ekki séu fyrir hendi annmarkar á ákvörðun sveitarfélagsins eða málsmeðferð þess sem leitt geti til ógildingar á ákvörðuninni. Öll málsmeðferð hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um hafi verið að ræða óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi og því hafi 2. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010 átt við. Því hafi verið rétt að grenndarkynna breytinguna í samræmi við ákvæði 44. gr. laganna svo sem gert hafi verið. Meint fordæmisgildi ákvörðunar hafi engin áhrif á þessa niðurstöðu.

Við meðferð málsins hafi verið tekið tillit til athugasemda kæranda. Synjað hafi verið um að breyta aðkomu lóðarinnar en fallist á stækkun byggingarreits. Staðsetning byggingarreits sé í samræmi við fyrirmæli gr. 5.3.2.12 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um fjarlægð frá lóðar­mörkum. Hafi sveitarstjórn talið að hagsmunir kæranda myndu ekki skerðast hvað varði land­notkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn umfram heimildir þágildandi skipulags þrátt fyrir greinda breytingu á byggingarreitnum, auk þess sem sú breyting sé í samræmi við fyrirmæli skipulagsreglugerðar.

Sveitarstjórnir fari með skipulagsvaldið og beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Í því felist víðtækt vald sveitarfélaga og tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Við breytingu umrædds deiliskipulags hafi öllum málsmeðferðarreglum verið fylgt, þ. á m. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, meðalhófsreglu 12. gr. og málshraðareglu 9. gr. sömu laga. Ekki hafi verið sýnt fram á annað, en rétt sé að nefna að ógilding deiliskipulagsbreytingar verði ekki einvörðungu á því byggð að kærandi telji gengið á hagsmuni sína. Væri gengið með afar óvarlegum hætti á eignarrétt lóðarhafaef nýting hans á lóð sinni yrði takmörkuð með svo víð­tækum hætti. Telji kærandi sig hafa orðið fyrir tjóni standi honum réttarúrræði til boða á grund­velli 51. og 51. gr. a. skipulagslaga en hann geti ekki krafist ógildingar á deiliskipulaginu.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar fyrri athugasemdir sínar og bendir á að ekki hafi verið tilviljun að byggingarreitur lóðarinnar hafi verið töluvert fjær lóðarmörkum en 10 m. Lóð kæranda komi í spíss þar sem hún liggi að lóð nr. C88. Hús sem standi svo nærri lóð nr. C89, sem hið breytta skipulag heimili, eyðileggi nýtingarmöguleika hans á spíssinum og nærliggjandi svæði lóðarinnar. Kærandi hafi ekki gert ráð fyrir þessari röskun á rétti hans sem lóðarhafa. Skipulagsyfirvöld sveitarfélaga geti ekki beitt skipulagsvaldi sínu að vild án þess að taka tillit til aðstæðna og afstöðu þeirra sem verði fyrir áhrifum af deiliskipulagsbreytingu. Breytingin raski verulega nýtingarmöguleikum þess hluta lóðarinnar sem liggi næst lóð nr. C88, sérstaklega vegna spíss-lögunar lóðarinnar. Verið sé að leggja blessun yfir óleyfisframkvæmd eiganda lóðar nr. C88 sem virðist hafa grafið húsgrunn 10 m nær lóð kæranda en heimilt hafi verið eða grafið húsgrunninn vegna mistaka byggingarfulltrúa sveitarfélagsins. Því sé hafnað að í skipulagsvaldi sveitarfélags felist vald til þess að leiðrétta mistök eða vanrækslu við útgáfu byggingarleyfis og/eða í byggingarframkvæmdum á kostnað nágranna.

———-

Umsækjanda um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um kærumál þetta.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi Kerhrauns vegna lóðarinnar nr. C88. Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting var samþykkt í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafnings­hrepps 5. október 2022 og tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 23. nóvember s.á. Sveitarstjórn samþykkti einnig nýtt deiliskipulag fyrir svæðið á fundi sínum 21. september s.á. og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. desember s.á. Í auglýsingu hins nýja deiliskipulags kemur fram að eldra skipulag falli úr gildi við gildistöku hins nýja deiliskipulags. Var hin kærða deiliskipulagsbreyting því þegar fallin úr gildi þegar kæra barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 27. desember 2022. Hefur kærandi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu deiliskipulags-breytingar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda-mála, og verður kröfu hans hvað það varðar því vísað frá nefndinni.

Í hinu nýja deiliskipulagi Kerhrauns, svæða A, B og C, er skipulag lóðarinnar Kerhrauns C88 með sama hætti og í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. Ekki verður séð að kæranda hafi verið leiðbeint um að sú deili­­skipulagsbreyting sem hann kærði hafi verið fallin úr gildi og að nýtt skipulag, sem hvað lóðina Kerhraun C88 varðar, væri efnislega eins og sú breyting sem kærð var. Þykir ekki rétt að kærandi verði af kærurétti vegna þessa. Verður því litið svo á að kært sé deiliskipulag Kerhrauns, svæða A, B og C, hvað varðar lóðina Kerhraun C88.

Í auglýsingu vegna deiliskipulags Kerhrauns, svæða A, B og C, í B-deild Stjórnartíðinda kemur fram að tilgangur skipulagsgerðarinnar sé að uppfæra eldra skipulag í samræmi við núgildandi lög og skilgreina helstu bygginga- og framkvæmdaskilmála innan svæðisins með skýrum hætti. Deiliskipulagið taki til þeirra breytinga sem gerðar hefðu verið á upprunalegu deiliskipulagi svæðisins.

Í deiliskipulagi Kerhrauns kemur fram í kafla 1.3 að þar sem um sé að ræða uppfærslu á eldra deiliskipulagi hafi ekki verið tekin saman lýsing um skipulagsverkefnið. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal sveitarstjórn, þegar vinna við deiliskipulagstillögu hefst, taka saman lýsingu á skipulagsverkefni þar sem fram komi áherslur sveitarstjórnar við deiliskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Samkvæmt 3. mgr. 40. gr. laganna er sveitarstjórn heimilt að falla frá gerð slíkrar lýsingar ef allar meginforsendur deiliskipulagsins liggja fyrir í aðalskipulagi. Þá kemur fram í 1. mgr. 43. gr. að ekki sé skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. vegna breytinga á deiliskipulagi.

Í Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020, sem var í gildi þegar deiliskipulag Kerhrauns, svæða A, B og C, tók gildi er hin umdeilda lóð Kerhraun C88 á skipulögðu frístundasvæði F24a. Í undirkaflanum „Stefnumörkun 2008-2020“ í 2. kafla aðalskipulagsins um svæði fyrir frístundabyggð eru allítarleg ákvæði um stærðir lóða, nýtingarhlutfall þeirra, fjarlægðir húsa frá lóðamörkum o.fl. Eins og máli þessu er háttað verður því að telja að megin­forsendur deiliskipulagsins liggi fyrir í aðalskipulagi, sér í lagi í ljósi þess að hið nýja deili­skipulag hafði ekki nýmæli að geyma, heldur var tilgangur þess að uppfæra eldra skipulag með þeim breytingum sem á því höfðu verið gerðar, þ. á m. með umdeildri skipulagsbreytingu sem var felld óbreytt inn í deiliskipulagið.

Í áðurnefndum kafla aðalskipulagsins „Stefnumörkun 2008-2020“ kemur fram að við deiliskipulagningu sumarhúsasvæða skuli taka mið af því að fjarlægð húss frá lóðamörkum skuli vera minnst 10 m eða í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Í 3. málsl. gr. 5.3.2.12.  skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, sem fjallar um frístundabyggð, kemur fram að ekki skuli byggja nær lóðamörkum en 10 m. Er byggingarreitur lóðarinnar Kerhrauns C88 í samræmi við framangreint.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir ágallar á deiliskipulagi Ker-hrauns, svæða A, B og C, hvað varðar lóðina Kerhraun C88, sem raskað geta gildi þess og verður kröfu um ógildingu deiliskipulagsins því hafnað.

 Úrskurðarorð:

 Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 5. október 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Kerhrauns C88 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. september 2022 um að samþykkja deiliskipulag Kerhrauns, svæða A, B og C, hvað varðar lóðina Kerhraun C88 er hafnað.

134/2022 Vistarvegur

Með

Árið 2023, föstudaginn 28. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson, varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 134/2022, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 31. október 2022 um að eigandi sumarhúss að Vistarvegi 12 færi það til á lóð þannig að það sé innan byggingarreits og í 5 m fjarlægð frá mörkum lóðar-innar Vistarvegi 10, fyrir 28. febrúar 2023 að viðlögðum dagsektum að upphæð 25.000 krónum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. nóvember 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi fasteignarinnar að Vistarvegi 12, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 31. október 2022 að hann færi sumarhús sitt til á lóð þannig að það sé innan byggingarreits og í 5 m fjarlægð frá mörkum við lóðina Vistarveg 10 að viðlögðum dagsektum að upphæð 25.000 krónum frá 28. febrúar 2023. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi eystra 28. desember 2022.

Málavextir: Árið 1944 gáfu eigendur jarðanna Austurbæjar og Vesturbæjar Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu samtals 69% af jörðinni Ytri-Skógum. Gáfu forfeður kæranda sem áttu Vesturbæ allan sinn hluta af jörðinni sem var 40%. Austurbær gaf 29% af sínum hluta og seldi sýslunum 31%. Gjöfin var skilyrt um að þar yrði byggður héraðsskóli og rekið þar skólabú sem sæi fyrir aðföngum fyrir skólann. Samhliða gjöfinni lá fyrir samkomulag um að gefendur myndu reisa tvö sumarhús til eigin nota á landi sem tæki til 5 ha sem hvorki mætti selja né leigja og myndu þau ekki erfast. Sumarhúsin sem reist voru eru Vistarvegur 10, sem er sumarhús Austurbæjar, og Vistarvegur 12, sem er sumarhús Vesturbæjar. Sýslunefndir Rangárþings og Vestur-Skaftafellssýslu afléttu kvöðinni um að sumarhúsin erfðust ekki árið 1993. Frá þeim tíma hefur kærandi verið skráður eigandi að Vistarvegi 12 hjá Fasteignamati ríkisins og var lóðin skráð 2.500 m² skv. Fasteignamati. Deilur hafa staðið yfir frá árinu 2007 um hver sé raunveruleg stærð lóðarinnar Vistarvegi 12. Sveitarfélagið telur lóðina nú vera 1.070 m² og skráð sem slík en lóðareigandi kveðst aldrei hafa gefið eftir hluta lóðarinnar og telur hana vera 2.500 m².

Hinn 29. mars 2019 var samþykktur aðaluppdráttur fyrir byggingu sumarhúss að Vistarvegi 12. Samkvæmt uppdrættinum var byggingin staðsett innan skilgreinds byggingarreits og 5,0 m frá aðliggjandi lóðarmörkum. Í júní 2021 framkvæmdi EFLA verkfræðistofa mælingar á lóðamörkum Vistarvegar 10 og 12 sem byggðust á þinglýstum og hnitsettum lóðamörkum. Samkvæmt mælingunum var sumarhúsið, sem reist hafði verið að Vistarvegi 12, u.þ.b. 3,4 m út fyrir byggingarreit í austurátt og þannig einungis 1,6 m frá lóðamörkum. Sveitarfélagið telur að mælingarnar sýni að ljóst sé að sumarhúsið að Vistarvegi 12 hafi verið reist í ósamræmi við samþykktan aðaluppdrátt, byggingarleyfi og ákvæði byggingarreglugerðar um bil milli bygginga. Kærandi telur að mælingar EFLU eigi ekki við rök að styðjast þar sem miðlína á milli lóðanna hafi raskast og hafi hann því ekki farið út fyrir byggingarreit sinn.

 Málsrök kæranda: Bent er á að frá árunum 1964-1968, hafi land gefenda, þar sem umrædd sumarhús standa, verið skorið niður í 5.000 m², eða 10% af upprunalegri stærð. Hafi það verið gert í mikilli óþökk þálifandi gefenda. Hafi lóðin að Vistarvegi 12 því verið skráð 2.500 m² síðan stærðin var fyrst skráð í tölvukerfi Fasteignaskrár árið 1994. Þá sé lóðin einnig skráð sem 2.500 m² í byggingarlýsingu sem samþykkt var 29. mars 2019.

Árið 2007 kveðst kærandi sér hafa borist athugasemdir frá Fasteignamatinu um að ekki væri samræmi í skráningu fasteignamatsins og skráningu landsins. Í framhaldinu hafi hann sent bréf, dags. 5. júní s.á., til beggja héraðsnefndanna þar sem vakin hafi verið athygli á framangreindum athugasemdum.

Kæranda og eiganda sumarhússins að Vistarvegi 10 hafi borist bréf, dags. 10. febrúar 2007, frá Héraðsnefnd Vestur- Skaftafellssýslu. Í bréfinu hafi komið fram að nefndin samþykki fyrir sitt leyti að gerður verði lóðarleigusamningur við þau og verði lóðirnar 0,5 ha að stærð umhverfis núverandi hús. Í kjölfarið hafi þau sent bréf til Héraðsnefndar Rangárvallasýslu og vísað til fyrrnefndrar afstöðu Héraðsnefndar Vestur-Skaftafellssýslu. Hafi erindinu verið svarað 6. júní 2008 á þann veg að samþykkt yrði að þau fengju afmarkaðan reit umhverfis húsin. Þá hafi komið fram á fundi skipulagsnefndar Rangárþings 21. maí 2010 að héraðsnefndir Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu hafi lagt fram teikningu sem sýni afmörkun umræddra lóða að Ytri-Skógum. Komi þar fram að um sé að ræða lóðir sem hafi verið til í Fasteignaskrá Íslands en ekki áður fengið afmörkun. Lóð 3 (Vistarvegur 10), landnr. 172778, sé skráð 2.500 m² en verði skráð sem lóð 2.2 og verði 1.410 m². Lóð 4 (Vistarvegur 12), landnr. 172776, sé 2.500 m² en verði skráð sem lóð 2.1 og verði 1.032 m². Hafi skipulagsnefnd samþykkt þá afmörkun og hafi með þessu átt að minnka lóðirnar verulega miðað við það sem samið hafi verið um.

Hafi kærandi og eigandi að Vistarvegi 10 sent bréf, dags. 2. febrúar 2011, til beggja héraðs-nefndanna þar sem bent hafi verið á að ítrekað hefði verið samþykkt að hvor lóð væri 2.500 m² og óskað eftir að unnið yrði að lausn málsins í samráði við þau. Hafi ekkert svar borist við því bréfi og hafi beiðnin verið ítrekuð með bréfi, dags. 4. mars s.á. Daginn eftir kveðst kærandi hafa fengið upplýsingar um ákvörðun skipulagsnefndar árinu áður um að minnka lóðirnar með framangreindum breytingum. Þá hafi hann síðar fengið þær upplýsingar að lóðareigandi Vistar-vegar 10 hafi verið í sambandi við sveitarfélagið um að fá stærri lóð en kærandi og hafi það verið samþykkt. Hafi síðan hinn 12. s.m. borist bréf frá oddvita héraðsnefndar Rangæinga. Hafi þar verið upplýst að formönnum og varaformönnum beggja héraðsnefnda hafi verið falið að leiða málið til lykta fyrir 15. maí s.á. og að kallað yrði til fundar. Hafi sér þó aldrei borist slíkt fundarboð.

Haldin hafi verið sameiginlegur fundur beggja héraðsnefnda 16. maí 2012 þar sem fram hafi komið að unnið væri að deiliskipulagi þar sem m.a. sé gert ráð fyrir umræddum lóðum. Á fundinum hafi komið fram að Fannbergi ehf. væri falið að ganga frá lóðarleigusamningum við eigenda Vistarvegar 10 og 12 þegar deiliskipulagið hafi verið samþykkt. Aldrei hafi þó heyrst frá umræddum aðila. Hafi kærandi í framhaldinu gert athugasemdir við deiliskipulagstillöguna 31. júlí 2012 ásamt því að hafa ítrekað skrifað bréf um að leysa þurfi málið. Hinn 5. desember 2016 hafi hann fengið í hendur teikningu þar sem sýnd sé möguleg stækkun á umræddum tveimur lóðum í samræmi við það sem gert hafi verið ráð fyrir í upphafi. Þeirri tillögu hafi hins vegar verið hafnað á sameiginlegum fundi nefndanna 28. júní 2017.

Kveðst kærandi aldrei hafa afsalað sér rétti til 2.500 m² lóðar og því staðið í viðræðum, bréfaskriftum og fundahöldum frá árinu 2007 við að fá rétt sinn staðfestan. Hafi honum marg-sinnis verið lofað því en þegar á hafi reynt hafi raunin verið önnur. Hins vegar hafi hann neyðst til þess að skrifa undir lóðarleigusamninginn svo honum væri kleift að tryggja húsið, en það hafi ekki verið hægt fyrr en búið væri að skrifa undir hann.

Því sé hafnað að farið hafi verið 3,4 m út fyrir byggingarreit. Teikning af húsinu hafi verið samþykkt 29. mars 2019 af byggingarfulltrúa og hafi húsið verið byggt innan byggingarreits „eins og hægt var “ og sé ekki 3,4 m lengra en samþykkt hafi verið. Húsið sem stóð þar áður hafið verið 60-80 cm frá girðingunni vestan megin við húsið. Þegar nýja húsið hafi verið byggt þótti nauðsynlegt að staðsetja það aðeins lengra frá girðingunni. Hafi það m.a. verið vegna öryggissjónarmiða svo hægt væri að komast með fram húsinu og vegna landrofs sem hafi myndast og komi til með að aukast. Hafi lækurinn brotið niður bakkann. Staurinn sé á landrofi og hangi í lausu lofti og sé landið að „naga sig“ nær húsinu. Húsið sem reist hafi verið sé því um 150 cm frá girðingunni og hafi því í mesta lagi verið fært sig 90 cm austur vegna þessa.

Kærandi telur að þær mælingar EFLU, sem ákvörðun byggingarfulltrúa byggja á, eigi ekki við rök að styðjast. Annað hvort séu forsendur mælinganna rangar, þ.e. að miðlínan hafi verið mæld 5 m frá húsinu að Vistarvegi 10, en kærandi telji að eigandi þess húss hafi farið út fyrir byggingarreitinn eða það hafi aldrei verið 10 m á milli byggingarreita.

Þar sem eigendur Vistarvegar 10 hafi byggt húsið sitt út fyrir byggingarreit, hafi bilið milli þess húss og byggingarreits kæranda ekki verið 10 m þegar hann byggði húsið. Sökum þessa hafi miðlínan færst inn á lóð kæranda í stað þess að hún sé tekin milli byggingarreita lóðanna tveggja eins og hún eigi að vera. Þessar skýringar eigi sér m.a. stoð í samþykktri teikningu frá 5. maí 2010. Þar sjáist að jafnlangt bil sé frá byggingarreitum beggja lóða að lóðarmörkum. Hafi því annað hvort ekki verið 10 m á milli byggingarreita eða Vistarvegur 10 farið út fyrir byggingarreitinn í vestur og því hafi miðlínan færst til. Í byggingarlýsingu Vistarvegar 10 komi fram að bústaðurinn verði lengdur um 100 cm til vesturs. Þessu til stuðnings vísar kærandi til þess að húsið sem hann reisti sé hvorki 3,4 m lengra en samkvæmt samþykktum teikningum né hafi það verið fært um 3,4 m austar á byggingarreitnum.

Eigendur Vistarvegar 10 og 12 hafi ávallt átt sama rétt til lóðarstærða en talið hafi verið að 2.500 m² tilheyrðu hvorum eiganda. Sveitarfélagið hafi hins vegar ákveðið að mismuna eigendum og hafa lóð kæranda töluvert minni. Hafi byggingarfulltrúi skrifað undir lóðar-leigusamninginn, staðsett byggingarreitina á lóðunum og samþykkt teikningar sem geri ráð fyrir 10 m milli byggingarreita. Sé tilefni til að vekja athygli á því að við þá vinnu hafi ekki verið hugað að því að byggingarreitur kæranda nái út að lóðarmörkum í vestur að svæði sem erfitt sé að staðsetja byggingu á í stað þess að færa byggingarreit Vistarvegar 10 lengri austur. Töluvert svæði sé austan við húsið að Vistarvegi 10 svo það væri hægt að byggja þar en svigrúmið sé ekkert við Vistarveg 12. Sé þetta sérstaklega athyglisvert sökum þess að sveitar-félagið hafi ákveðið að hafa lóðina Vistarveg 10 mun stærri sjáist að miðað við miðlínu á mæliblaði EFLU sé nú rotþró fyrir Vistarveg 12 komin inn á lóðina Vistarveg 10, sem aldrei hafi verið. Þurfi skipulags- og byggingarfulltrúi að upplýsa af hverju svo sé og af hverju embættið hafi samþykkt húsið að Vistarvegi 12 ef það kæmist ekki fyrir á byggingarreitnum.

Sé kæranda hulin ráðgáta hvernig sér eigi að vera fært að færa húsið lengra til vesturs á lóðinni enda sé ljóst að bilið að gaddavírsgirðingunni og þverhnípis við hana sé um 150 cm. Sé því lágmarkskrafa að skipulags- og byggingarfulltrúi upplýsi hvernig það sé framkvæmanlegt áður en krafa sé gerð um slíka íþyngjandi aðgerð að viðlögðum dagsektum, enda húsið samþykkt af byggingarfulltrúa og ekkert svæði fyrir hendi til að færa það vestar. Samkvæmt framangreindu sé því álitið að skilyrðum 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010, sbr. 2. mgr. 56. gr., sé ekki fullnægt enda ekki um ólöglegt mannvirki að ræða eða brjóti staðsetning hússins gegn kröfum greinar 9.7.5 byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

 Málsrök Rangárþings eystra: Vísað er til þess að eins og fram komi í gögnum málsins hafi 29. mars 2019 verið samþykktur og stimplaður aðaluppdráttur fyrir sumarhús að Vistarvegi 12. Samkvæmt uppdrættinum hafi húsið verið staðsett innan skilgreinds byggingarreits og 5,0 m frá lóðarmörkum aðliggjandi lóðar. Samkvæmt lóðablöðum fyrir Vistarveg 12 og 10 skyldi bil frá byggingarreit hvorrar lóðar að lóðarmörkum vera 5,0 m og þ.a.l. bil á milli byggingarreita alls 10,0 m. Hafi sú tilhögun byggst á ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012, n.t.t. ákvæða gr. 9.7.5. um bil á milli bygginga. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins sé meginreglan að bil milli bygginga sé nægilega mikið til að ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra. Í ákvæðinu sé kveðið á um viðmiðunarreglur og í töflu 9.09 komi fram lágmarks-fjarlægðir á milli bygginga. Ysta klæðning húsanna á lóðunum að vistarvegi 10 og 12 sé í flokki 2. Samkvæmt framangreindum ákvæðum byggingarreglugerðarinnar skuli bil á milli þeirra vera 10 m til að uppfylla lágmarkskröfur um fjarlægð milli bygginga. Á grundvelli þess hafi byggingaráform kæranda verið samþykkt.

Í júní 2021 hafi EFLA verkfræðistofa framkvæmt mælingar á lóðamörkum milli lóðanna Vistarvegar 10 og 12, sem byggst hafi á þinglýstum og hnitsettum lóðamörkum. Hafi mælingarnar sýnt að sumarhúsið að Vistarvegi 12 væri 3,4 m út fyrir byggingarreit í austurátt og þannig einungis 1,6 m frá lóðamörkum. Hafi með því verið ljóst að byggingin væri í ósamræmi við samþykktan aðaluppdrátt, byggingarleyfi og ákvæði byggingarreglugerðar um bil milli bygginga. Á þeim grundvelli og að gættum reglna stjórnsýslulaga, þ. á m. um andmælarétt málsaðila, hafi sveitarfélagið tekið þá ákvörðun sem deilt sé um.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Ítrekuð eru fram komin sjónarmið. Auk þess bendir kærandi á að byggingarfulltrúi Rangárþings eystra hafi gert úttekt á húsinu 12. ágúst 2019 og í kjölfarið gefið út fokheldisvottorð. Hafi byggingarfulltrúi vart gefið út slíkt vottorð ef um ólöglegt mannvirki eða byggingarhluta væri að ræða eins og hann haldi nú fram.

Verði ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunarinnar er gerð krafa um að frestur til að færa húsið verði lengdur þar sem mjög erfitt eða jafnvel ómögulegt sé að færa húsið á þessum árstíma. Óskað er eftir að veittur verði frestur til 1. september 2023.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra um að eigandi sumarhúss að Vistarvegi 12 færi það til á lóð þannig að það sé innan byggingarreits og í 5 m fjarlægð frá mörkum lóðanna Vistarvegar 10 og 12 að viðlögðum dagsektum. Ástæðu umræddrar kröfu byggingarfulltrúa má rekja til mælinga verkfræðistofunnar EFLU frá 8. júní 2021. Niðurstöður mælinganna sýndu að bilið á milli húsanna að Vistarvegi 10 og 12 mætti ekki kröfum ákvæðis gr. 9.7.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um bil á milli bygginga.

Hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags er að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Beiting nefndra þvingunarúrræða er verulega íþyngjandi ákvörðun sem er háð mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Þótt beiting sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun að vera studd efnislegum rökum. Þá ber stjórnvaldi einnig að fylgja meginreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. um meðalhóf og rannsókn máls.

Árið 2019 fékkst samþykkt leyfi til byggingar 128 m² sumarhúss á lóðinni Vistarvegi 12, í stað  eldra húss sem var um 40 m². Ekki er að sjá annað af gögnum máls en að húsið sem reist var á lóðinni sé í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti frá árinu 2019. Eftir að leyfishafi hafði lokið við byggingu hússins kom í ljós að bilið á milli sumarhúsanna að Vistarvegi 10 og 12 væri einungis 6,53 m þar sem það er minnst og gengur því gegn fjarlægðarkröfum í gr. 9.7.5 í byggingarreglugerð með tilliti til brunavarna. Liggja þar af leiðandi efnisleg sjónarmið að baki ákvörðun sveitarfélagsins um að auka þurfi bilið á milli umræddra húsa.

Til hins ber þó að líta að ef framfylgja ætti ákvörðun byggingarfulltrúa í máli þessu yrði að færa hús kæranda um 3,4 m til vesturs, en af gögnum málsins verður ráðið að húsið yrði þá komið út fyrir byggingarreit og jafnvel út fyrir mörk lóðar kæranda. Auk þess verður ekki séð að litið hafi verið til annarra úrræða sem kynnu að ganga skemur en hin kærða ákvörðun og gætu uppfyllt brunaöryggiskröfur gr. 9.7.5 í byggingarreglugerð, svo sem með því að klæða aðlægar hliðar húsa með viðeigandi klæðningu. Þá liggur fyrir í málinu ágreiningur um atriði sem áhrif gætu haft á mat um beitingu umræddra þvingunarúrræða svo sem um stærðir lóða, lóðamörk og þar af leiðandi forsendur að baki þeirri mælingu sem framkvæmd var af verkfræðistofu og sveitarstjórn studdist við ákvörðun sína.

Með vísan til þess sem að framan greinir þykja þeir ágallar hafa verið á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar, m.a. með tilliti til rannsóknar máls og meðalhófs, sbr. 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að fella beri hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 31. október 2022 um að eigandi sumarhússins að Vistarvegi 12 færi það til á lóð þannig að það sé innan byggingarreits og í 5 m fjarlægð frá mörkum lóðarinnar Vistarvegi 10, fyrir 28. febrúar 2023 að viðlögðum dagsektum að upphæð 25.000 krónum.

 

 

46/2023 Mjódalsvegur, heitavatnsgeymir

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 27. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 46/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjarvík frá 21. febrúar 2023 um að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi, matshluta nr. 07, á lóð nr. 16 við Mjódalsveg, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 10. apríl 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Mjódalsvegar 6, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. febrúar s.á. að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi, matshluta nr. 7, á lóð nr. 16 við Mjódalsveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. febrúar 2023 tók byggingarfulltrúi fyrir umsókn um leyfi til að reisa hitaveitugeymi, matshluta 7, á lóð nr. 16 við Mjódalsveg. Var umsóknin samþykkt og staðfesti borgarráð afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi sínum 2. mars s.á. með samþykkt á b-hluta fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 1. s.m. Byggingarleyfi var gefið út 29. mars s.á.

Kærandi telur að hinn fyrirhugaði hitaveitugeymir sé ekki í samræmi við skilyrði og heimildir í deiliskipulagi. Samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags hafi borið að gera öryggismön umhverfis miðlunargeymana og ganga frá henni, eða hlutum hennar, samhliða uppbyggingu á lóðinni. Ekki hafi enn verið byrjað á öryggismöninni sem samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins hefði átt að vera tilbúin árið 2008, samhliða byggingu dæluhúss. Byggingarfulltrúa hafi borið að vísa umsókn um byggingarleyfi til skipulagsfulltrúa til umsagnar og vegna bindandi skilmála í deiliskipulagi hafi borið að skilyrða umsókn um byggingarleyfi við það að fyrir lægi samþykkt framkvæmdarleyfi vegna skilyrða um öryggismön. Þá eigi lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda- og áætlana við um leyfi til framkvæmda eins og hér um ræði.

Reykjavíkurborg bendir á að fyrir umrætt svæði sé í gildi deiliskipulag, Hómsheiði-jarðvegslosun, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 4. nóvember 2010 og birt í b-deild stjórnartíðinda 14. desember s.á. Byggingarleyfið sé í samræmi við gildandi deiliskipulag og undirbúningur sé hafinn við að afla framkvæmdaleyfis vegna öryggismanarinnar. Afgreiðsla byggingarfulltrúa byggi á lögum nr. 160/2010 um mannvirki og hafi hann engar heimildir til að gera kröfu um eða samþykkja framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir. Gæta verði meðalhófs, en ógilding byggingarleyfisins eða stöðvun framkvæmda myndi valda byggingarleyfishafa ómældu óþarfa tjóni.

Leyfishafi vísar til þess að útgefið byggingarleyfi sé í samræmi við aðal- og deiliskipulag og hafi málsmeðferðin verið í fullu samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Markmið þess að fjölga hitaveitugeymum á Reynisvatnsheiði sé  að auka afhendingaröryggi á heitu vatni til íbúa höfuðborgarsvæðisins og jafna út sveiflur í rekstri. Mikilvægt sé að geymirinn rísi fyrir haustið 2023 til að draga ekki úr afhendingaröryggi næsta vetur. Farið hafi verið í útboð og samið við verktaka um byggingu geymisins. Því geti hlotist af því fjárhagslegt tjón að þurfa að hætta við eða seinka framkvæmdum. Ekki verði séð að knýjandi nauðsyn sé, með tilliti til hagsmuna kæranda, að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og séu heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Hið kærða byggingarleyfi felur í sér heimild til að reisa hitaveitugeymi á lóð nr. 16 við Mjódalsveg, en á umræddri lóð standa fyrir þrír sambærilegir hitaveitugeymar. Þegar litið er til framangreindra lagaákvæða með tilliti til hagsmuna kæranda, og að um er að ræða afturkvæmar framkvæmdir, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Rétt er að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja framkvæmdir áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða að Mjódalsvegi 16.