Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

84/2023 Lækjarmelur

Árið 2023, þriðjudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 84/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 16. júní 2023 um að fella niður byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi með bílgeymslu á lóðinni nr. 5 við Lækjarmel í Melahverfi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júlí 2023, er barst nefndinni 9. s.m., kæra eigendur Lækjarmels 5, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðar­sveitar frá 16. júní 2023 að fella niður byggingarleyfi kærenda fyrir einbýlishúsi með bílgeymslu á lóðinni nr. 5 við Lækjarmel í Melahverfi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 25. september 2023.

Málavextir: Árið 2005 samþykkti byggingarnefnd Skilmannahrepps umsókn kærenda um leyfi til að reisa einbýlishús með bílgeymslu á lóðinni nr. 5 við Lækjarmel í Melahverfi. Ári síðar sameinaðist hreppurinn þremur öðrum sveitarfélögum í sveitarfélagið Hvalfjarðarsveit. Hinn 16. janúar 2014 sendi byggingarfulltrúi sveitarfélagsins kærendum bréf þar sem m.a. kom fram að tæpum níu árum eftir samþykki byggingarleyfisins væri húsið enn á byggingarstigi 2, sem væri ekki viðunandi, auk þess sem hann teldi að lóðin og byggingin væru hættuleg. Fór byggingarfulltrúi fram á að brugðist yrði við bréfi hans svo ekki þyrfti að beita dagsektum eða heimildum í þágildandi gr. 2.4.7. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem fjallaði m.a. um niðurfellingu byggingarleyfis. Kærendur og byggingarfulltrúi funduðu saman 17. febrúar 2014 þar sem byggingarfulltrúi upplýsti kærendur um að þau hefðu fjögurra vikna frest til að ráðast í tilteknar úrbætur. Í kjölfar þess munu framkvæmdir hafa haldið áfram en samkvæmt fast­eignaskrá Þjóðskrár var húsið að Lækjarmel 5 skráð á byggingarstig 3 árið 2015.

Byggingarfulltrúi sendi kærendum tölvupóst 8. október 2021 þar sem hann tiltók sjö atriði sem lagfæra þyrfti til að „komast hjá óþarfa aðgerðum“, en meðal þess var úttekt á ástandi þak­eininga. Kærendur öfluðu matsgerðar frá húsasmíðameistara vegna hússins að Lækjarmel 5 og lá hún fyrir 27. júní 2022. Var það niðurstaða matsmanns að límtré hússins stæðist allar burðarþolskröfur. Lagði hann til að unnið yrði við þekju yfir bílgeymslu vegna umtalsverðra rakaskemmda og myglu.

Með bréfi, dags. 14. apríl 2023, sendi byggingarfulltrúi kærendum aðvörun vegna fyrir­hugaðrar niðurfellingar byggingarleyfis. Í bréfinu kom fram að framkvæmdir hefðu tekið óhóflega langan tíma en síðasta áfangaúttekt hefði farið fram 12. nóvember 2015. Fyrir lægi mats­gerð um umtalsverðar rakaskemmdir og myglu en ekki væri séð að mygla hefði verið fjarlægð með fullnægjandi hætti. Þá hefði byggingarfulltrúi orðið þess áskynja að mannvirkið hefði verið tekið í notkun sem iðnaðarhúsnæði, en innandyra væri mikið magn verkfæra, tóla og tækja sem væru byggingarframkvæmdunum óviðkomandi auk þess sem þar væri unnið að við­gerð á bifreið. Þar sem byggingarframkvæmdir hefðu stöðvast lengur en eitt ár veitti byggingar­fulltrúi kærendum aðvörun á grundvelli 2. mgr. 14. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem til stæði að fella byggingarleyfið úr gildi. Í bréfinu kom jafnframt fram að til stæði að fella leyfið úr gildi á grundvelli 4. mgr. sömu lagagreinar þar sem það teldist alvarlegt brot gegn 9. gr. laganna að breyta notkun mannvirkis án samþykkis byggingarfulltrúa og gegn 35. gr. laganna að taka mannvirki í notkun áður en vottorð um öryggisúttekt hefði verið gefið út. Þá tilkynnti byggingarfulltrúi kærendum að framkvæmdir og notkun skyldi stöðva tafarlaust. Með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var kærendum veittur frestur til að koma að and­mælum eða athugasemdum til 4. maí 2023. Byggingarfulltrúi sendi svo byggingarstjóra hússins tölvupóst hinn 18. apríl s.á. þar sem fram kom að í kjölfar stöðuskoðunar byggingarfulltrúa á verkstað 15. mars s.á. væri það mat hans að enn væru sýnilegar rakaskemmdir víðsvegar í þekju og því væri „ekki óhætt“ að hylja eða loka af þekju á nokkurn hátt. Einnig krafðist hann þess að óháður fagaðili yrði fenginn til að gera ítarlega ástandsskoðun á þakinu.

Með bréfi kærenda, ranglega dagsett 27. nóvember 2022, var fyrirhugaðri afturköllun greinds byggingarleyfis mótmælt. Framkvæmdir hefðu ekki legið niðri frá árinu 2015 heldur væri búið að vinna við húsið, m.a. við að uppræta myglu í þaki bílgeymslu, glerja húsið og smíða lista. Engin atvinnustarfsemi væri í húsinu þó stöku sinnum hefði verið unnið þar að viðgerð á gömlum bíl. Ekki hefði verið gætt að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga þar sem sannarlega hefðu verið til vægari leiðir en afturköllun byggingarleyfisins. Í svarbréfi, dags. 25. apríl 2023, benti byggingarfulltrúi á að hann hefði tekið myndir reglulega frá árinu 2021 og af þeim væri ekki séð að nokkrar framkvæmdir hefðu átt sér þar stað. Ítrekuð voru sjónarmið um að húsið hefði verið tekið í notkun vegna viðgerðar á bíl og auk þess bent á að í húsinu væri að finna þvottavél sem hefði verið tengd. Fundur var haldinn vegna málsins 31. maí 2023 þar sem mættu byggingarfulltrúi, lögmaður sveitarfélagsins, kærendur og lögfræðingur þeirra. Af hálfu kærenda kom fram varðandi framkvæmdir að þótt lítið hefði verið gert undanfarin tvö ár hefði eitthvað verið gert varðandi myglu og hreinsun á lóðinni. Töldu þeir eðlilegt að geyma þar ökutæki og vinna að lagfæringu þess, tengja þvottavél og geyma þar verkfæri. Þó svo að rúm væri geymt í einu herbergja hússins þýddi það ekki að flutt væri í húsnæðið, heldur væri það notað í neyð, ef t.d. væri ófært. Fóru kærendur fram á að byggingarleyfið yrði ekki afturkallað en í stað þess myndu kærendur fá að skila inn framkvæmdaáætlun.

Með bréfi, dags. 16. júní 2023, vísaði byggingarfulltrúi til þess að farið hefði verið yfir sjónarmið kærenda og málið í heild sinni og væri niðurstaðan sú að ekki yrði hjá því komist að fella byggingarleyfið úr gildi. Með hliðsjón af því sem fram hefði komið á fundi 31. maí s.á. taldi byggingarfulltrúi að ekki væri hægt að líta á stöðuna með öðrum hætti en að byggingar­framkvæmdir hefðu legið niðri undanfarin tvö ár, þó svo að eitthvað hefði verið gert varðandi hreinsun á lóð og myglu. Þá hefði eignin verið tekin í notkun. Tilkynnti byggingar­fulltrúi því að byggingarleyfið væri fellt úr gildi þar sem framkvæmdir hefðu stöðvast í lengur en eitt ár, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 160/2010, og þar sem notkun mannvirkisins hefði verið breytt án samþykkis byggingarfulltrúa og það tekið í notkun áður en vottorð um öryggisúttekt hefði verið gefið út, sbr. 4. mgr. sama ákvæðis.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þó byggingartími hússins að Lækjamel 5 sé orðinn langur þá eigi það sér skýringar, en fjármálahrunið hafi stöðvað framkvæmdir um nokkur ár auk þess sem heimsfaraldur Covid-19 hafi stöðvað framkvæmdir aftur. Einnig hafi annar kærenda orðið óvinnufær um langan tíma eftir alvarlegt slys. Þá hafi að sögn byggingarstjóra hússins gengið erfiðlega að fá svör frá byggingarfulltrúa hvort byggingarleyfi væri enn í gildi. Í nóvember 2022 hafi verið sendur tölvupóstur á byggingarfulltrúa hvort svo væri en engin svör hafi borist.

Byggingarfulltrúi hafi um nokkuð langt skeið gert ýmsar athugasemdir vegna framkvæmdanna og farið offari í þeim efnum. Gerðar hafi verið athugasemdir við að byggingarefni hafi fokið í óveðri en aðallega hafi verið um að ræða steinull sem hafi átt að fara á þak hússins. Kærendum hafi verið gert að fjarlægja byggingarkrana, en hann hafi verið felldur á bakvið húss og einungis verið óskoðaður þar sem framkvæmdir hafi legið niðri utandyra. Þá hafi verið gerðar athuga­semdir við skæralyftu sem hafi heldur ekki verið skoðuð, en samkvæmt upplýsingum frá Vinnueftirliti ríkisins hafi þeim verið heimilt að nota hana í eigin þágu en ekki lána hana eða leigja. Annað sem byggingarfulltrúi hafi gert athugasemdir við hafi kærendur gengist við og lagfært eins og mögulegt hafi verið.

Byggingarfulltrúi hafi farið á svig við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þegar hann hafi krafist þess við byggingarstjóra hússins að ekki mætti loka þekju hússins þar sem enn mætti sjá myglu. Ekki hafi verið tekið neitt próf til að sannreyna mygluna heldur hafi matið einvörðungu byggst á sjónskoðun byggingarfulltrúa, en ekki einu sinni færustu sérfræðingar séu færir um að gera það. Sjá hafi mátt grágeit í borðum sem sé sveppur sem sé skaðlaus. Þá sé það ávísun á áframhaldandi myglu að leyfa ekki lokun þekjunnar. Að lokum sé bent á að sú krafa að fenginn verði fagaðili til að taka út þekjuna þrátt fyrir að það hafi þegar verið gert sé mjög íþyngjandi og ekki í samræmi við meðalhófsregluna.

Í kjölfar matsgerðar á myglu í júní 2022 hafi kærendur farið að vinna við hreinsun á myglu í samræmi við fyrirmæli skýrslunnar. Þá hafi verið unnið við smíði innandyra, s.s. listasmíði í þaki hússins, auk þess sem einangrun hafi verið sett í lofti bílgeymslu og gengið hafi verið frá rakavörn. Því sé það rangt hjá byggingarfulltrúa að ekkert hafi verið unnið við húsið í tvö ár. Bent sé á að ekkert í lögum eða byggingarreglugerð nr. 112/2012 segi til um hversu mikið þurfi að vinna við bygginguna til að „ákvæði um afturköllun leyfis sé réttlætanleg eða heimil.“ Á fundi 31. maí 2023 hafi kærendur upplýst byggingarfulltrúa um að byggingarstjóri hússins væri í startholunum við að halda áfram vinnu við húsið og því hafi þeir óskað eftir að leyfið yrði ekki afturkallað en í stað þess yrði skilað inn áætlun um framhald framkvæmda. Sú leið hafi verið vægari en afturköllun byggingarleyfis en meðalhófsregla stjórnsýslulaga kveði á um að ákvarðanir stjórnvalda megi ekki ganga lengra en nauðsyn krefji til að ná lögmætu markmiði. Afturköllun sé mjög íþyngjandi og hafi í för með sér kostnað og vinnu við að safna öllum undirskriftum allra meistara og byggingarstjóra á ný. Kærendur séu komin á eftirlaun og hafi því ekki mikið laust fé, en þau hafi byggt húsið fyrir eigið fé allan tímann.

Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er því haldið fram að hin kærða ákvörðun hafi bæði verið í samræmi við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í þau rúmlega 18 ár sem liðið hafi frá því byggingarleyfi hafi verið samþykkt hafi kærendum verið sýndur mikill skilningur og þeim veitt mikið svigrúm vegna framkvæmdarinnar. Áður en ákvörðun um afturköllun leyfisins hafi verið tekin hafi kærendum ítrekað verið veittur kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Af þeim myndum sem byggingarfulltrúi hafi tekið 6. apríl 2021, 6. júlí s.á., 10. ágúst s.á, 7. október 2022, 1. nóvember s.á. og 15. mars 2023 verði ekki séð að nokkrar framkvæmdir hafi átt sér stað. Því liggi fyrir að byggingarfulltrúa hafi verið heimilt að fella byggingarleyfið niður á grundvelli 2. mgr. 14. gr. laga um mannvirki. Bent sé á að í samræmi við ákvæðið hafi aðvörun fyrst verið gefin auk þess sem kærendur hafi í tvígang verið veitt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á fram­færi. Hafi því ákvörðunin ekki brotið gegn meðalhófs- og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Því til viðbótar liggi fyrir að mannvirkið hafi verið tekið í notkun og notað sem iðnaðarhúsnæði, m.a. til viðgerðar á bifreið. Feli þetta í sér brot gegn 9. gr. og 35. gr. laga um mannvirki, en viðbrögð kærenda við þeim sjónarmiðum séu ekki önnur en að halda því fram að þeim sé greind notkun heimil. Áréttað sé að hús kærenda standi í grónu íbúðarhverfi en myndir byggingar­fulltrúa sýni glöggt ástand hússins og eldhættu. Þessi alvarlegu brot gegn fyrrgreindum ákvæðum laga um mannvirki geri það að verkum að niðurfelling leyfisins styðjist einnig við 4. mgr. 14. sömu laga.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Af hálfu kærenda eru fyrri sjónarmið ítrekuð. Þá er vísað til yfirlýsingar byggingarstjóra hússins þess efnis að byggingarfulltrúi hafi stöðvað fram­kvæmdir í nóvember 2021 þar til ástandsskýrsla lægi fyrir. Byggingarstjóri hafi strax farið í framkvæmdir eftir að matsgerðin hafi legið fyrir í júní 2022. Því sé það ekki rétt að ekki hafi verið unnið við húsið í tvö ár.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Hval­fjarðarsveitar frá 16. júní 2023 að fella niður byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi með bílgeymslu á lóðinni nr. 5 við Lækjarmel í Melahverfi í Hvalfjarðarsveit.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki getur leyfisveitandi að undan­genginni aðvörun fellt byggingarleyfi úr gildi ef byggingarframkvæmdir stöðvast í eitt ár eða lengur. Þá segir í 4. mgr. sömu lagagreinar að leyfisveitandi geti að undangenginni aðvörun fellt byggingarleyfi úr gildi ef eigandi mannvirkisins eða aðrir þeir sem bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum samkvæmt lögum þessum sinna ekki fyrirmælum eftirlitsaðila við byggingareftirlit eða gerast sekir um alvarleg eða ítrekuð brot gegn lögunum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim. Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa um að fella niður byggingar­leyfi kærenda byggði í senn á 2. og 4. mgr. 14. gr. laganna.

Hvorki í lögum nr. 160/2010 né lögskýringargögnum er að finna viðmið um það hvenær fram­kvæmdir teljast hafa stöðvast í skilningi 2. mgr. 14. gr. laganna. Þó segir í 2. málsl. 2. mgr. gr. 2.4.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að það teljist ekki nægjanleg framvinda verks að byggingarefni sé flutt á byggingarstað án þess að unnið sé frekar úr því, en 1. málsl. sömu málsgreinar er samhljóða 2. mgr. 14. gr. laganna. Með hliðsjón af því, orðalagi ákvæðisins og þar sem um verulega íþyngjandi úrræði er að ræða verða ekki gerðar ríkar kröfur til framvindu verks við mat á því hvort framkvæmdir hafi stöðvast eða ekki.

Fyrir úrskurðarnefndinni liggur yfirlýsing byggingarstjóra Lækjarmels 5 þess efnis að í kjölfar matsgerðar í júní 2022 hafi vinna hafist við að hreinsa myglu úr þakvirki. Þá hafa kærendur haldið því fram að unnið hafi verið við ýmis verk innandyra. Hefur sveitarfélagið ekki mótmælt því sérstaklega að þau verk hafi verið innt af hendi en í stað þess bent á að vart verði séð af framlögðum myndum að nokkrar framkvæmdir hafi átt sér stað frá því í apríl 2021. Þó svo að fallast megi á að lítil framvinda hafi verið á framkvæmdum verður að virtum framangreindum sjónarmiðum ekki talið að framkvæmdir hafi stöðvast í skilningi 14. gr. laga nr. 160/2010. Var byggingarfulltrúa því ekki heimilt að fella niður byggingarleyfið á þeim grundvelli að fram­kvæmdir hefðu stöðvast í eitt ár eða lengur.

Kemur þá næst til álita hvort byggingarfulltrúa hafi verið rétt að fella niður byggingarleyfið á grundvelli þess að kærendur hafi gerst sekir um alvarleg brot gegn lögum nr. 160/2010, sbr. 4. mgr. 14. gr. laganna. Taldi byggingarfulltrúi að kærendur hefðu brotið 9. gr. laganna með því að breyta notkun mannvirkis án samþykkis byggingarfulltrúa og 35. gr. með því að taka mann­virkið í notkun áður en byggingarfulltrúi hefði gefið út vottorð um öryggisúttekt. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að unnið hafi verið að viðgerð bifreiðar í fasteigninni, þvottavél hafi verið tengd og að ýmis tól og tæki ótengd byggingarframkvæmdunum væru þar geymd. Virðist sem byggingarfulltrúi hafi þar með litið svo á að kærendur hafi breytt notkun hússins úr íbúðarhúsnæði í atvinnuhúsnæði án samþykkis leyfisveitanda og byrjað að nota húsnæðið í þeim tilgangi.

Í athugasemdum við 14. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 160/2010 segir hvað varðar ákvæði 4. mgr. að í henni felist nauðsynlegt úrræði til að tryggja að lögunum sé fylgt. Við ákvarðanir byggingaryfirvalda vegna slíkra brota gildi að sjálfsögðu stjórnsýslulög sem tryggi að gætt sé meðalhófs og annarra reglna laganna við beitingu slíkra úrræða. Þá segir að leyfis­veitandi geti þannig valið að beita fyrst dagsektarákvæðum 56. gr. áður en hann fellir leyfi úr gildi.

Við mat á því hvort kærendur hafi án leyfis breytt notkun Lækjarmels 5 úr íbúðarhúsnæði í atvinnuhúsnæði verður að líta til þess að ekki er óalgengt að eigendur bílgeymsla noti þær til ýmissa annars en að geyma þar bíl, þ. á m. að geyma þar verkfæri eða gera við bíl. Verður að telja að annað og meira þurfi að koma til en viðgerð á bíl og geymsla verkfæra svo hægt sé að líta svo á að notkun hússins hafi verið breytt úr íbúðarhúsnæði í iðnaðarhúsnæði. Verður því ekki talið að kærendur hafi gerst brotlegir við 9. gr. laga nr. 160/2010 með því að breyta notkun hússins án tilskilins leyfis. Á hinn bóginn verður fallist á með byggingarfulltrúa að kærendur hafi tekið húsnæðið í notkun áður en öryggisúttekt fór fram, en það brýtur í bága við 35. gr. laganna. Þrátt fyrir það verður að telja, með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo og fyrrgreindum lögskýringarsjónarmiðum að baki 4. mgr. 14. gr. laga nr. 160/2010, að byggingarfulltrúa hefði verið rétt að beita öðrum og vægari úr­ræðum til að fá kærendur til að láta af hinni ólögmætu notkun áður en til greina kæmi að fella niður byggingarleyfið, t.d. þeim úrræðum sem mælt er fyrir um í 55. og 56. gr. mannvirkjalaga. Hefur sveitarfélagið ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að ekki hafi verið raunhæft eða mögulegt að beita þeim úrræðum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að fella hina kærðu ákvörðun byggingar­fulltrúa úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 16. júní 2023 um að fella niður byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi með bílgeymslu á lóðinni nr. 5 við Lækjarmel í Mela­hverfi í Hvalfjarðarsveit.