Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

117/2023 Sölubann glugga

Árið 2023, þriðjudaginn 21. nóvember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 117/2023, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 8. september 2023 um að banna Starover ehf. að framleiða, selja og afhenda glugga og að fyrirtækið skuli taka auglýsingu um framleiðslu glugga af heimasíðu sinni..

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

 um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. október 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Starover ehf., þá ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 8. september 2023 um að banna Starover ehf. að framleiða, selja og afhenda glugga og að fyrirtækið skuli taka auglýsingu um framleiðslu glugga af heimasíðu sinni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 16. október 2023.

Málsatvik og rök: Kærandi er fyrirtæki sem stendur í atvinnurekstri við byggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Hinn 20. ágúst 2023 barst Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tilkynning um að gluggar sem kærandi framleiddi fyrir tiltekið fjölbýlishús væru gallaðir í skilningi laga nr. 114/2014 um byggingarvörur. Með bréfi, dags. 23. s.m., óskaði stofnunin eftir því að kærandi afhenti tiltekin gögn, þ.e. yfirlýsingu um nothæfi, CE-merkingu, leiðbeiningar um notkun og upplýsingar um öryggi. Í svari kæranda, dags. 2. september s.á. kom fram að fyrirtækið framleiddi ekki glugga á lager eða til endursölu, heldur sérhæfði fyrirtækið sig í viðgerðum á gluggum og hurðum. Kom fram af hálfu kæranda að hann teldi III. kafla laga nr. 114/2014 eiga við um framleiðsluna og að reglur um CE-merkingu ættu því ekki við. Með bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 8. s.m., kom fram að stofnunin teldi þá glugga sem kærandi framleiddi ekki vera löglega markaðssetta til notkunar í útveggi hérlendis. Var kæranda því bannað að framleiða og selja glugga, sem og afhenda þá glugga sem þegar hefðu verið seldir. Þá var kæranda gert að taka auglýsingu um framleiðslu glugga af heimasíðu sinni.

Kröfu sína um frestun réttaráhrifa byggir kærandi á því að ákvörðunin sé honum verulega íþyngjandi.

Húsnæðis og mannvirkjastofnun fer fram á að kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa verði hafnað. Bent sé á að ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 byggi á almennum reglum stjórnsýsluréttar. Af athugasemdum að baki því ákvæði er orðið hafi að 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 komi fram að heimild til að fresta réttaráhrifum sé talin nauðsynleg „þar sem kæruheimild getur í raun orðið þýðingarlaus ef æðra stjórnvald hefur ekki heimild til þess að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.“ Því fari fjarri að slíkar aðstæður fyrir hendi í máli þessu. Kærandi geti gert úrbætur og óskað þess að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun taki málið til endurskoðunar á þeim grunni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Sé um að ræða ákvörðun sem ekki felur í sér heimild til framkvæmda getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls, en sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar og ber því að skýra hana þröngt.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggi á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins  einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að banna kæranda að framleiða, selja, auglýsa og afhenda glugga. Lýtur ágreiningur málsins að því hvort ákvörðunin eigi sér nægilega skýra stoð í lögum og reglugerðum.

Kærandi hefur nýtt sér lögbundinn rétt sinn til að bera lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar undir úrskurðarnefndina. Ljóst er að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða, sem beinist einungis að kæranda og að hann á fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Þá er og litið til þess að gera verður ráð fyrir að meðferð málsins hjá nefndinni verði lokið innan lögbundins málsmeðferðartíma skv. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þykir því rétt að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

 Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 8. september 2023 um að banna Starover ehf. að framleiða, selja og afhenda glugga og að fyrirtækið skuli taka auglýsingu um framleiðslu glugga af heimasíðu sinni.