Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

127/2023 Hörgá E-9

Árið 2023, þriðjudaginn 21. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 127/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 31. október 2023 um að samþykkja umsókn fyrir 56.286 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. nóvember 2023, er barst nefndinni þann sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið, þá ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 31. október 2023 að samþykkja umsókn fyrir 56.286 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hörgársveit 13. nóvember 2023.

Málavextir: Hin kærða framkvæmd er efnistaka á svæði E-9 í Hörgá í Hörgársveit. Á fundi sveitarstjórnar 31. október 2023 var samþykkt umsókn fyrir 56.286 m3 efnistöku á efnistökusvæðinu og gaf skipulags- og byggingarfulltrúi út framkvæmdaleyfi þann sama dag. Leyfið gildir til 31. desember s.á. Fyrir liggur umhverfismat vegna heildstæðs mats á efnistöku á 795.000 m3 úr áreyrum og árfarvegi Hörgár og lauk því ferli með áliti Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2015. Þá liggur fyrir að með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 29. september 2023, í kærumáli nr. 53/2023, var felld úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 22. september 2022 um að samþykkja umsókn fyrir 100.000 m3 efnistöku á þessu sama efnistökusvæði.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ljóst sé af gögnum málsins að framkvæmdaraðili hafi óskað nýs framkvæmdaleyfis fáeinum dögum eftir að úrskurðarnefndin hafi ógilt fyrra framkvæmdaleyfi sem hann hafi áður starfað eftir. Álykta megi að efnistaka fari fram og muni að óbreyttu halda áfram í þessum mánuði og næsta. Kæruheimild væri þýðingarlaus ef efnistakan ætti að geta farið fram á meðan málsmeðferð standi og séu verulegir almannahagsmunir af því að ekki sé tekið efni á meðan fjallað sé um málið hjá úrskurðarnefndinni.

Málsrök Hörgársveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda verði hafnað þar sem ekki séu uppfyllt lagaskilyrði fyrir stöðvunarkröfunni. Það sé meginregla í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttararáhrifum kærðrar ákvörðunar og heimildir til frestunar réttaráhrifa beri að skýra þröngt. Aðeins mikilsverðar og ríkar ástæður eða veigamikil rök geti réttlætt að framkvæmdir séu stöðvaðar og sé þeim ekki til að dreifa í málinu.

Það verði ekki séð að kærandi hafi neina knýjandi hagsmuni af úrlausn kærumáls þessa. Stöðvun framkvæmda muni hins vegar valda öðrum tjóni og raska gildandi fyrirkomulagi efnistöku. Þar sem stöðvun framkvæmda sé afar íþyngjandi inngrip í sjálfstjórnarrétt sveitarfélags, ráðstöfunarheimild eiganda yfir landi sínu og eignarrétt þeirra sem rétt eigi til efnistöku beri að gera afar ríkar kröfur til þess að skilyrði séu uppfyllt til stöðvunar framkvæmda. Allt séu þetta hagsmunir sem verndaðir séu af ákvæðum stjórnarskrárinnar. Af þessu leiði að gera verði ríkar sönnunarkröfur um nauðsyn svo alvarlegs inngrips í réttindi þeirra sem hlut eigi að máli og hafi kærandi í engu axlað þá sönnunarbyrði. Rétt sé að hafa í huga að efnistaka úr Hörgá sé mikilvægur liður í bakkavörnum, en farvegur Hörgár raskist mjög í leysingum og það mæli gegn því að stöðva framkvæmdir. Þetta eigi ekki síst við um svæði E-9 eins og sjá megi t.d. í umfjöllun í áliti Skipulagsstofnunar frá 4. júní 2015.

——

Í máli þessu er aðeins fjallað um sjónarmið kæranda og leyfisveitanda, sem varða kröfu um stöðvun framkvæmda. Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að tjá sig en ekki bárust athugasemdir frá honum við kæruna.

Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Ákvörðun um slíka stöðvun er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Ekki er um það deilt í málinu að framkvæmdir séu yfirstandandi. Skírskotar kærandi til þess að kæra hans yrði þýðingarlaus ef ekki yrði við kröfu hans um stöðvun framkvæmda.

Með vísan til athugasemda um 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 verður að telja að kæruheimild kunni að verða þýðingarlaus í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið hafi úrskurðarnefndin ekki framangreindar heimildir, en mikilvægt sé að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru. Af hálfu kæranda hefur verið hreyft margvíslegum sjónarmiðum og álítur hann m.a. að skilyrðum skipulagslaga til útgáfu framkvæmdaleyfis hafi ekki verið fullnægt við töku hinnar kærðu ákvörðunar og ekki hafi verið gætt að lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd. Að auki telur kærandi að hin kærða ákvörðun hafi ekki uppfyllt skilyrði annarra laga, svo sem laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, vatnalaga nr. 15/1923 og laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Samkvæmt þessu eru ýmis álitaefni uppi í málinu sem geta haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Þarf úrskurðarnefndin tóm til að kanna málsatvik frekar og eftir atvikum að afla frekari gagna.

Sem fyrr segir er ekki um það deilt í máli þessu að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi eru yfirstandandi og er gildistími leyfisins til 31. desember 2023. Verður því að telja að ekki hafi þýðingu að fjalla efnislega um málið nema tryggt sé að efnistaka fari ekki fram úr áreyrum og árfarvegi á svæði E-9 í Hörgá á meðan málið er til úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni. Þá þykir af framansögðu ljóst að fram séu komin atriði sem þarfnist nánari rannsóknar og séu því efnisleg rök að baki kæru. Þykir því fullnægt skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 til stöðvunar framkvæmda.

Rétt þykir að árétta að framkvæmdir eru alfarið á áhættu leyfishafa á meðan efnisleg niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur ekki fyrir, en hann getur jafnframt krafist þess að mál þetta sæti flýtimeðferð samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

 Úrskurðarorð:

Stöðvaðar eru framkvæmdir sem hafnar eru samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi á svæði E-9 í Hörgá, Hörgársveit, á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.