Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

89/2023 Hjarðarból

Árið 2023, þriðjudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss frá 24. maí 2023 um stöðvun framkvæmda og notkunar, ásamt lokun mannvirkja á Hjarðarbóli, lóð 2, og að fjarlægja skuli skemmu á sömu lóð í heild sinni og afmá jarðrask.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júlí 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Hjarðarbóls lóðar 2 og Silfurbrautar B þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss frá 24. maí 2023 að stöðva framkvæmdir og notkun ásamt lokun mannvirkja á Hjarðarbóli, lóð 2, og að fjarlægja skuli skemmu á sömu lóð í heild sinni og afmá jarðrask. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 30. ágúst 2023.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss 18. febrúar 2021 var lögð fram um­­sókn kæranda um byggingarleyfi fyrir bílgeymslu og geymslu/vinnustofu á Hjarðarbóli, lóð 2. Var umsókninni synjað með þeim rökum að ekki lægi fyrir deiliskipulag. Vísaði nefndin málinu til byggingarfulltrúa og fól honum að beita sér fyrir því að mál er varðaði ósamþykktar byggingar færi í „lögformlegt ferli“. Var afgreiðslan staðfest á fundi bæjarstjórnar 25. s.m.

Kæranda barst bréf frá byggingarfulltrúa, dags. 20. desember 2022, þar sem fram kom að sveitarfélagið hefði orðið þess áskynja að byggingarleyfisskyldar framkvæmdir hefðu átt sér stað á Hjarðarbóli, lóð 2, án þess að leyfi hefði verið fengið fyrir þeim. Vísaði byggingarfulltrúi til 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og kafla 2.3 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í bréfinu kom fram að til skoðunar væri hvort tilefni væri til að gera kröfu á hendur eiganda fasteignarinnar um að hin ólöglegu mannvirki yrðu fjarlægð. Var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum sínum við fyrirhugaða ákvörðun. Með bréfi, dags. 30. s.m., andmælti kærandi því sem kom fram í bréfi byggingarfulltrúa og vísaði m.a. til þess að meint mannvirki á lóðinni væru gámaeiningar sem áður hefðu verið notaðar vegna vegaframkvæmda. Þær hefðu staðið á lóð Hjarðarbóls og hefði kærandi flutt þær til innan lóðarinnar. Hann teldi að gáma­einingarnar uppfylltu ekki skilgreiningu mannvirkis samkvæmt 55. tl. 1.1.2. gr. í byggingar­reglugerð og hið sama ætti við um skemmu sem stæði á lóðinni og bréf byggingar­fulltrúa hefði einnig tekið til.

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 24. mars 2022 var lagt fram erindi um deiliskipulag fyrir Hjarðarból í Ölfusi. Í tillögunni fólst að hluta af Hjarðarbóli lóð 1 var skipt upp í átta nýjar íbúðarlóðir og teknar voru tvær lóðir úr Hjarðarbóli lóð 2, annars vegar fyrir hótel og starfs­mannaskála og hins vegar verkstæði. Beindi nefndin því til bæjarstjórnar að skipulags­fulltrúa yrði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Stað­festi bæjarstjórn afgreiðslu málsins á fundi 31. s.m. Deiliskipulag fyrir Hjarðarból í Ölfusi var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 11. maí 2023 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. s.m.

Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 24. maí 2023, var tekið fram að þrátt fyrir andmæli kæranda teldi hann að umræddar framkvæmdir féllu undir skilgreiningu á mannvirki, sbr. 13. tl. 3. gr. mannvirkjalaga, „enda [hefðu] verið steyptar undirstöður undir þau og þau tengd rafmagni og vatni“. Þar sem ekki hefði verið fengið leyfi fyrir framkvæmdunum væri nauðsynlegt að beita úrræðum 1. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga og kafla 2.9 í byggingarreglugerð um stöðvun framkvæmda og notkunar tafarlaust ásamt lokun svonefndra gámaeininga og 2. mgr. sama ákvæðis um að gera kröfu um að skemma yrði fjarlægð í heild sinni og jarðrask afmáð. Er það sú ákvörðun sem til úrlausnar er fyrir úrskurðarnefndinni í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að í hinni kærðu ákvörðun virðist vera byggt á deiliskipulagstillögu frá 14. febrúar 2022. Gildandi deiliskipulag sé hins vegar frá 15. mars 2023 og hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 16. maí s.á. Þar komi skýrt fram að byggingarreit hafi verið breytt en gámaeiningar á lóð kæranda séu vel innan hans. Þá séu í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 24. maí 2023, ranglega tilgreind númer fasteigna en þau eigi við aðrar fasteignir en deilt sé um í máli þessu.

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að framkvæmdir þær sem fjallað sé um í máli þessu falli skýrlega undir skilgreiningu mannvirkis samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 13. tölul. 3. gr. laganna, enda hafi verið steyptar undirstöður og þau tengd rafmagni og vatni. Ekki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir mannvirkjunum og falli þau undir gildissvið þvingunarúrræða 55. gr. mannvirkjalaga. Ákvæði laganna um þvingunarúrræði séu heimildarákvæði og sé beiting þeirra háð mati byggingarfulltrúa að teknu tilliti til aðstæðna og alvarleika, en ávallt skuli gæta meðalhófs við beitingu heimildanna. Við það mat megi m.a. byggja á sjónarmiðum sem komi fram í markmiðsákvæðum laga nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012. Meðal markmiða þeirra sé að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt, sbr. 1. gr. laga nr. 160/2010. Svo unnt sé að fylgja þessum markmiðum sé grundvallarforsenda að sótt sé um byggingarleyfi og það samþykkt áður en framkvæmdir hefjist svo eftirlitsaðilum sveitar­félagsins sé fært að kanna viðeigandi atriði í undirbúningi mannvirkjagerðar og meðan á fram­kvæmdum standi. Vægari úrræði dugi ekki til þess að tryggja að kröfur um öryggi mannvirkja og heilnæmi séu uppfylltar. Í máli þessu séu skilyrði uppfyllt til að beita úrræðum 1. og 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga og kafla 2.9 í byggingarreglugerð enda sé það nauðsynlegt til þess tryggja að markmiðum skv. a-lið 1. gr. mannvirkjalaga verði náð.

Þá hafi byggingarfulltrúi ekki verið upplýstur um að deiliskipulagstillaga hefði tekið gildi þegar ákvörðun í málinu hafi verið undirrituð og birt kæranda. Jafnframt hafi hann ekki verið upplýstur um að byggingarreitur á lóðinni hefði verið stækkaður í endanlegri útgáfu deili­skipulagsins, en sú breyting virðist hafa átt sér stað í maí 2023, án þess að það hefði verið tilgreint með öðrum hætti en breyttum línum byggingarreits í drögum deiliskipulagsins.

Þrátt fyrir framangreint standi óhaggaður sá aðalgrundvöllur fyrir ákvörðun byggingarfulltrúa að mannvirkin hafi verið reist áður en umrætt deiliskipulag hafi verið samþykkt á svæðinu, ásamt því að ekki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum og því ekki unnt að hafa eftirlit með þeim jafnóðum samkvæmt skýru lagaboði þar um. Kærandi hafi reist mannvirkin á landi sínu og tengt þau við raf- og vatnsveitu sveitarfélagsins án nokkurrar heimildar og í andstöðu við gildandi skipulag. Í því ljósi séu skilyrði 1. og 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga áfram uppfyllt fyrir beitingu þvingunarúrræða. Þá hafi verið farið eftir málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar við meðferð málsins og meðalhófs gætt, en byggingar­fulltrúi hefði haft fulla heimild á grundvelli skýrra lagaákvæða til að kveða á um niðurrif þess ólögmæta mannvirkis sem um ræði. Afar mikilvægt sé í uppbyggingu allra mannvirkja að gætt sé að reglum laga um veitingu tilskilinna leyfa og úttekta svo unnt sé að ganga úr skugga um að mannvirkin séu örugg og af þeim stafi ekki hætta og að tilskildum gæðakröfum sé fullnægt.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að um sé að ræða lausar gámaeiningar, sem ekki séu jarðfastar og ekki mannvirki í skilningi laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012. Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 8. ágúst 2013 í máli nr. 63/2013 og rökstuðnings sem þar komi fram.

Fjallað sé um gámaeiningarnar í gildandi deiliskipulagi og þá hafi arkitekt einnig sent inn teikningar til sveitarfélagsins árið 2021 til þess að fá þær samþykktar. Kærandi hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að gera hlutina með réttum hætti. Óeðlilega langur tími hafi liðið frá samþykkt deiliskipulagsins á fundi bæjarstjórnar 31. mars 2022 þar til það hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Einnig hafi tímasetningar ákvarðana byggingarfulltrúa reynst sérstakar, t.d. að birta ákvörðun fyrir kæranda 22. desember 2022 með sjö daga andmælafresti.

Ekki gangi upp að taka ákvörðun um þvingunaraðgerðir byggða á deiliskipulagstillögu eftir að endanlegt deiliskipulag hafi verið samþykkt. Því sé um ólögmæta ákvörðunartöku að ræða. Um sé að ræða lausar gámaeiningar sem standi á landi kæranda, fjarri öðrum byggingum og því sé erfitt að sjá að röksemdir um að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt, sbr. a-lið 1. gr. mannvirkjalaga, eigi við í málinu. Ekki sé um óleyfisframkvæmd að ræða heldur gámaeiningar sem ekki teljist mannvirki í skilningi laga. Þótt vatnsslanga liggi inn í aðra eininguna og hún sé tengd rafmagni og vatni til bráðabirgða breyti ekki þeirri staðreynd.

Þá standist forsendur hinnar kærðu ákvörðunar ekki þar sem þvingunarúrræðum virðist beint að öðrum mannvirkjum en hinum umþrættu gámaeiningum. Í bréfum byggingarfulltrúa, dags. 20. desember 2022 og 24. maí 2023, sé vísað til byggingarleyfisskyldra framkvæmda á fasteigninni Hjarðarbóli, lóð 2, með fasteignanúmerið F2211514 og landeignarnúmerið L222537. Á þeirri lóð séu hins vegar vinnubúðir ÍAV en það séu útteknar fasteignir sem skilgreindar séu sem svefnskáli og starfsmannahús. Þetta séu ekki þær gámaeiningar sem ágreiningur í málinu standi um. Með nýju deiliskipulagi hafi lóðin sem fyrrnefndar vinnubúðir standi verið skilgreindar sem Silfurbraut, lóð A, með landeignarnúmerið L236191, en lóðin sem umþrættar gámaeiningar standi á sé nú skilgreind sem Silfurbraut, lóð B, með landeignar­númerið L236192. Ekki verði betur séð en að hin kærða ákvörðun snúi að því að fjarlægja vinnubúðir ÍAV en ekki geti verið að gámaeiningar séu á sama fasteignanúmeri og vinnubúðir ÍAV. Því sé hin kærða ákvörðun gölluð og fella beri hana úr gildi af þeirri einu ástæðu að henni sé beint að rangri byggingu.

Hvað varði vatnstöku hafi kærandi heimild frá ÍAV til að tengja sig inn á vatnslögn þeirra er liggi í vinnubúðir ÍAV og sé fyrir innan vatnsmæli þar.

Að teknu tilliti til málsatvika og aðstæðna verði ekki séð að byggingarfulltrúi hafi gætt meðalhófs. Þá megi gera þá kröfu til byggingarfulltrúa að hann fylgist með deiliskipulagsvinnu sem unnin sé af hálfu sveitarfélagsins. Hin kærða ákvörðun sé byggð á forsendum sem séu ekki fyrir hendi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss að beita þvingunarúrræðum skv. 1. og 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki vegna tveggja bygginga á Hjarðarbóli, lóð 2. Með samþykkt deiliskipulags fyrir Hjarðarból í Ölfusi, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 16. maí 2023 voru stofnaðar tvær lóðir innan þeirrar lóðar, Silfurbraut A og B. Standa nú umdeildar byggingar, svonefndar gáma­einingar og skemma, á lóðinni Silfurbraut B. Að sögn kæranda er um verkfæraskúr og verk­stæði að ræða og samkvæmt gögnum málsins hafa byggingarnar verið tengdar vatns- og rafveitu.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Hin kærða ákvörðun var birt kæranda 13. júní 2023 og barst kæra í máli þessu 21. júlí s.á. Fram kemur í kæru að fylgigögn hafi vantað við upphaflega birtingu ákvörðunarinnar og hafi af hálfu byggingarfulltrúa verið úr því bætt með tölvupósti 23. júní 2023 en þar hafi einnig komið fram að kærufrestur vegna ákvörðunarinnar myndi byrja að líða frá og með þeim degi.

Mælt er fyrir um í 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kærufrestur hefjist ekki fyrr en rökstuðningur fyrir kærðri ákvörðun hefur verið tilkynntur aðila máls. Í máli þessu var rökstuðningur veittur samhliða fyrir hinni kærðu ákvörðun og var kærufrestur því liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Fjallað er um kærur sem berast að liðnum kærufresti í 28. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. tölul. nefndrar greinar kemur fram að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr. Í ljósi þess að kæranda hafði verið leiðbeint um að upphaf kærufrests miðaðist við 23. júní 2023 þegar fylgigögn voru send honum verður að telja afsakanlegt í skilningi 1. tölul. 28. gr. stjórnsýslulaga að kæra hafi borist úrskurðarnefndinni eftir að kærufresti lauk. Verður kæran því tekin til efnismeðferðar. Rétt þykir að taka fram að lægra sett stjórnvald hefur ekki heimild að lögum til að víkja frá eða framlengja lögákveðinn kærufrest til æðra stjórnvalds, sbr. 6. mgr. 27. gr. laganna.

Í mannvirkjalögum er byggingarfulltrúa veitt úrræði til þess að halda uppi og verja þá hagsmuni sem búa að baki lögunum. Meðal annars getur hann stöðvað framkvæmdir sem hafnar eru án lögmælts byggingarleyfis, sbr. 1. mgr. 55. gr. laganna. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að stöðva framkvæmdir og notkun tafarlaust og fyrirskipa lokun gámaeininga á umræddri lóð var studd þeim rökum að deiliskipulagsgerð á svæðinu væri á lokastigum en samkvæmt deiliskipulagstillögu væri gert ráð fyrir byggingarreit á því svæði sem gámaeiningarnar stæðu. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 24. maí 2023, segir svo: „Í því ljósi telur sveitarfélagið ekki tilefni að svo stöddu til þess að krefjast þess að umræddar einingar verði fjarlægðar í heild sinni að því gefnu að eigandi sæki um tilskilin leyfi þegar hið nýja deiliskipulag um lóðina hefur tekið gildi. Fram að þeim tímapunkti að gefið verður eftir atvikum út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni er nauðsynlegt að beita úrræðum 1. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og kafla 2.9 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um stöðvun framkvæmda og notkunar ásamt lokun þess mannvirkis, enda er það nauðsynlegt til þess m.a. að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning og virkt eftirlit samkvæmt a-lið 1. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.“ Ber bréf byggingarfulltrúa með sér að vera liður í meðferð máls að því er varðar umræddar gámaeiningar og að um bráðabirgðaúrræði sé að ræða til að knýja á um að kærandi sæki um tilskilið leyfi. Þess ber þó að geta að ekki liggur fyrir í málinu að framkvæmdir standi yfir á lóðinni eða séu yfirvofandi og ekki verður fallist á að almanna­hætta fylgi notkun gámaeininganna sem geymslu. Þá liggur fyrir að lokun og bann við notkun gáma­eininganna hefur nú staðið yfir í um sex mánuði.

Í máli þessu er einnig deilt um skemmu sem að sögn kæranda sé ekki jarðföst og falli ekki undir skilgreiningu mannvirkis í skilningi mannvirkjalaga og byggingar­reglugerðar. Meðal gagna máls þessa eru tölvupóstsamskipti lögmanns kæranda og lögmanns sveitarfélagsins frá janúar 2023. Þar vísar lögmaður sveitarfélagsins til þess að í andmælum kæranda vegna bréfs byggingarfulltrúa, dags. 20. desember 2022, hafi ekki verið að finna afstöðu til umræddrar skemmu á lóðinni. Af hálfu lögmanns kæranda kemur fram að sömu sjónarmið eigi við um skemmuna og um gámaeiningarnar, þ.e. að ekki sé um mannvirki í skilningi laga að ræða. Skemman hafi verið flutt í heilu lagi á staðinn, sé ekki jarðföst og ekki ætluð til dvalar fyrir menn eða til svefns, en undir henni sé steypt plata sem skemman hafi verið hífð á og sitji þar laus. Þá kemur einnig fram að rafmagn og vatn hafi verið tengt í skemmuna, líkt og sé með lausa vinnuskúra, en þar sé ekki salerni.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Mannvirki er skilgreint í 13. tölul. 3. gr. laganna sem hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús eða aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir eða húsvagnar.

Í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga er kveðið á um að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki verði fjarlægt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slíkt verk á hans kostnað. Gefur ákvæðið sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, s.s. skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum.

Ákvörðun byggingarfulltrúa um að krefjast þess að kærandi fjarlægði umrædda skemmu og afmáði jarðrask var studd þeim rökum að þar sem „skemman standi að hluta utan þess svæðis sem er skipulagður byggingarreitur skv. tillögu að deiliskipulagi á svæðinu sé nauðsynlegt að gera kröfu um að mannvirkið verði fjarlægt í heild sinni skv. 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og kafla 2.9 í byggingarreglugerð nr. 112/2012.“

Svo sem fyrr greinir tók deiliskipulag fyrir Hjarðarból í Ölfusi gildi 16. maí 2023. Í umsögn sveitarfélagsins í máli þessu kemur fram að byggingarfulltrúi hafi ekki verið upplýstur um að deiliskipulagstillaga, sem hann hafi vísað til í hinni kærðu ákvörðun, hefði verið samþykkt endanlega af bæjarstjórn og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Þá hafi hann jafnframt ekki verið upplýstur um að byggingarreitur á lóðinni hefði tekið breytingum til stækkunar í endanlegri útgáfu deiliskipulagsins, en sú breyting virðist hafa átt sér stað með breytingum á drögum deiliskipulagsins í maí 2023 án þess að það væri tilgreint með öðrum hætti en breyttum línum byggingarreits.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er lóð 2 á Hjarðarbóli ætluð undir hótel og önnur lóð, Silfur­braut B, ætluð fyrir verkstæði. Á skipulagsuppdrætti er afmarkaður byggingar­reitur á lóðinni fyrir verkstæði þar sem umrædd skemma stendur. Var ákvörðun byggingar­fulltrúa er laut að því að kærandi skyldi fjarlægja skemmuna og afmá jarðrask ekki reist á viðhlítandi rökum, en ekki verður séð af rökstuðningi ákvörðunarinnar að önnur sjónarmið en þau að skemman stæði utan byggingarreits samkvæmt deiliskipulagstillögu hafi legið þar að baki.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar það áfátt að fella beri hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss frá 24. maí 2023 um stöðvun framkvæmda og notkunar, ásamt lokun mannvirkja á Hjarðarbóli, lóð 2, og að fjarlægja skuli í heild sinni skemmu á sömu lóð í heild sinni og afmá jarðrask.