Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

118/2007 Fífuhvammur

Með

Ár 2007, mánudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2007, kæra á ákvörðun byggingarnefndar  Kópavogs frá 22. ágúst 2007 um að veita leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr ásamt skyggni yfir innkeyrslu á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. september 2007, er barst úrskurðarnefndinni 13. sama mánaðar, kærir Guðmundur Ágústsson hdl., f.h. eigenda fasteignarinnar nr. 27 við Fífuhvamm í Kópavogi þá ákvörðun byggingarnefndar  Kópavogs frá 22. ágúst 2007 að veita leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr ásamt skyggni yfir innkeyrslu á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 11. september 2007.

Kærendur krefjast þess að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi.  Þá krefjast þeir þess að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarnefndinni hafa borist andmæli Kópavogsbæjar og byggingarleyfishafa og er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulagsnefndar þann 3. apríl 2007 var tekið fyrir erindi frá lóðarhafa að Fífuhvammi 25 þar sem óskað var eftir leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr austan við húsið að Fífuhvammi 25.  Í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 samþykkti skipulagsnefnd að senda málið í kynningu til lóðarhafa Fífuhvammi 23 og 27 og Víðihvammi 16, 18 og 20.  Kynningartíma lauk 15. maí 2007 og bárust athugasemdir frá lóðarhafa að Fífuhvammi 27.  Á fundi skipulagsnefndar þann 19. júní 2007 var erindið lagt fram að nýju ásamt umsögn bæjarskipulags.  Skipulagsnefnd ákvað á þeim fundi að fela skipulagsstjóra að ræða við aðila máls. 

Á fundi skipulagsnefndar þann 3. júlí var erindið tekið fyrir að nýju og samþykkt með nokkrum breytingum.

Þann 23. júlí barst erindi til skipulagsnefndar þar sem gerðar voru athugasemdir við afgreiðslu nefndarinnar en á fundi bæjarráðs þann 16. ágúst 2007 var ákvörðun skipulagsnefndar samþykkt.

Þessa málsmeðferð skipulagsnefndar kærðu kærendur til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 3. september 2007, sem barst nefndinni hinn 7. september og er það kærumál jafnframt til meðferðar hjá nefndinni.

Umsókn byggingarleyfishafa var tekin fyrir í byggingarnefnd Kópavogs hinn 22. ágúst 2007 og afgreidd með svofelldri bókun: „Samþykkt, þar sem teikningar eru í samræmi við byggingar- og skipulagslög nr. 73/1997, með síðari breytingum. Nefndin leggur til að bæjarstjórn samþykki afgreiðslu byggingarnefndar.“  Var afgreiðsla byggingarnefndar staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn  11. september 2007.

Skutu kærendur þessari ákvörðun byggignarnefndar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi sem móttekið var hinn 13. september 2007 svo sem að framan greinir.

Af hálfu Kópavogsbæjar er á því byggt að málsmeðferð hafi verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997.  Grenndaráhrif hinnar umdeildu byggingar séu óveruleg þagar tillit sé tekið til hávaxinna trjáa á lóðamörkum.  Engin efni séu því til þess að fallast á kröfur kærenda, þvert á móti beri að hafna þeim.

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda mótmælt.  Mótmælir hann, sem röngum og órökstuddum, staðhæfingum kærenda um að framkvæmdir muni hafa í för með sér  mikla röskun á svæðinu. Þá mótmælir hann þeirri fullyrðingu kærenda að fyrirhuguð bygging sé veruleg breyting á þegar staðfestu skipulagi svæðisins. Á þessu svæði séu bílskúrar nánast við hvert hús, nema hús byggingarleyfishafa.  Þá muni magn bygginga á lóð hans ekki verða meira eftir byggingu greinds bílskúrs en á öðrum lóðum á svæðinu.

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin í úrskurði þessum en nefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar er ekki tekin með tilvísun til þeirrar grenndarkynningar sem skipulagsnefnd hafði staðið fyrir, en ætla verður að niðurstaða grenndarkynningarinnar hafi átt að verða grundvöllur ákvörðunar um byggingarleyfi.  Ekki er heldur neitt að því vikið í hinni kærðu ákvörðun hvernig staðið skuli að framkvæmdum með tilliti til þeirra trjáa sem eru á lóð kærenda, nærri mörkum hennar gagnvart lóð byggingarleyfishafa.  Kemur þó fram í endurskoðaðri umsögn bæjarskipulags um framkomnar athugasemdir að umrædd tré verði væntanlega til trafala við byggingu bílgeymslunnar.  Er rökstuðningi byggingarnefndar hvað þetta varðar stórlega áfátt og fer það í bága við ákvæði 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Af málsgögnum verður einnig ráðið að skipulagsyfirvöld hafi talið að samkomulag væri komið á milli kærenda og byggingarleyfishafa um hinar umdeildu framkvæmdir, en þeirri staðhæfingu hefur verið mótmælt af hálfu kærenda og hefur ekkert undirritað samkomulag verið lagt fram í málinu.  Þá þykja áhöld um það hvort hið kærða byggingarleyfi rúmist innan heimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eins og það ákvæði hefur verið skýrt, en ekki mun vera í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði.

Þegar litið er til þess sem að framan er rakið þykir svo veruleg óvissa ríkja um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar að fallast beri á kröfu kærenda um að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Ber bæjarstjórn að framfylgja úrskurði þessum, sbr. 6. mgr. 8. gr. l. nr. 73/1997.  Jafnframt er lagt fyrir bæjaryfirvöld að hlutast til um að öryggi á verkstað verði tryggt meðan stöðvun framkvæmda varir.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem hafnar eru samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi við byggingu bílskúrs á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm í Kópavogi, skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Jafnframt er lagt fyrir bæjaryfirvöld í Kópavogi að hlutast til um að öryggi á verkstað verði tryggt meðan stöðvun framkvæmda varir.

 

    
__________________________ 
                           Hjalti Steinþórsson                          

 

_____________________________         ____________________________              
      Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson                                

96/2007 Heiðaþing

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2007, kæra á ákvörðunum byggingarnefndar  Kópavogs frá 4. apríl 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir húsunum að Heiðaþingi 2 og 4, Kópavogi

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. september 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðjón Ólafur Jónsson hrl., f.h. Ö og S, lóðarhafa Heiðaþings 6, Kópavogi, þær ákvarðanir byggingarnefndar Kópavogs frá 4. apríl 2007 að veita byggingarleyfi fyrir húsunum að Heiðaþingi 2 og 4, Kópavogi. Bæjarstjórn staðfesti hinar kærðu ákvarðanir á fundi sínum hinn 10 apríl 2007.

Gera kærendur þá kröfu að fyrrgreind byggingarleyfi verði felld úr gildi.  Jafnframt hefur verið gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni en eftir atvikum þykir nú rétt að taka málið til endanlegrar úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfunnar.

Málavextir:  Á árinu 2005 tók gildi deiliskipulag fyrir suðursvæði Vatnsenda er tekur m.a. til umræddra lóða við Heiðaþing í Kópavogi.  Samkvæmt deiliskipulagsskilmálum skyldu fyrirhuguð hús á lóðunum vera einnar hæðar parhús með innbyggðum bílageymslum, en heimilt var að hafa kjallara fyrir geymslur undir húsunum að hluta.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 6. júní 2006 var lagt fram erindi lóðarhafa Heiðaþings 2-4 er fól í sér frávik frá gildandi skipulagi að því leyti að heimilað yrði að nýta kjallararými sem íbúðarherbergi og að svalir næðu út fyrir byggingarreit.  Var samþykkt að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 og að Gulaþingi 1 og 3.

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 8. ágúst 2006 þar sem lá fyrir umsögn bæjarskipulags um fram komnar athugasemdir frá lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 varðandi skuggavarp og frágang á lóðamörkum.  Skipulagsnefnd fjallaði um erindið á fundi 22. ágúst 2006 ásamt tillögum um útfærslu og frágang á lóðamörkum vegna athugasemda kærenda.  Var skipulagsstjóra falið að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum og í kjölfarið gáfu lóðarhafar Heiðaþings 2 og 4 út yfirlýsingu þar sem samþykkt var að reistur yrði skjólveggur á lóðamörkum Heiðaþings 4 og 6 og því lýst yfir að lóðarhafar Heiðaþings 4 myndu setja upp stoðvegg á lóð sinni.

Skipulagsnefnd samþykkti síðan tillögu um útfærslu deiliskipulags varðandi Heiðaþing 2 og 4 og vísaði málinu til bæjarráðs sem samþykkti tillöguna á fundi hinn 7. september 2006.   Var þeirri ákvörðun skotið til úrskurðarnefndarinnar af hálfu kærenda í máli þessu.

Hinn 4. apríl 2007 voru umsóknir lóðarhafa að Heiðaþingi 2 og 4 teknar fyrir á fundi byggingarnefndar sem samþykkti byggingarleyfi fyrir Heiðaþing 2 og 4 með vísan til þess að erindin hefðu hlotið afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarráðs í samræmi við 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Byggingarfulltrúi gaf síðan út umrædd leyfi hinn 3. maí 2007.

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að hin kærðu byggingarleyfi eigi ekki stoð í gildandi skipulagi umrædds svæðis en kærendur hafi efnislegar athugasemdir við greind byggingarleyfi. 

Kærendum hafi ekki verið kunnugt um útgefin byggingarleyfi eða efni þeirra fyrr en með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 6. september 2007.   Þeir hafi enga ástæðu haft til að ætla að byggingarfulltrúi myndi gefa út byggingarleyfi í andstöðu við gildandi deiliskipulag og hafi í raun mátt treysta að svo yrði ekki.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er gerð krafa um frávísun málsins en að öðrum kosti að umdeild byggingarleyfi standi óröskuð.

Kærendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu en þar að auki sé kæran of seint fram komin.  Kærendum hafi mátt vera ljóst að leyfi hafi verið gefið út þar sem framkvæmdir hafi byrjað í kjölfar útgáfu byggingarleyfis.  Samkvæmt byggingarsögu hafi úttektir farið fram á jarðvegsgrunni 4. júní 2007 og úttekt á sökklum þann 17. júlí sama ár.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Haldið er fram af hálfu byggingarleyfishafa að kæra kærenda hafi borist að liðnum kærufresti og komi kröfur þeirra því ekki til álita.    Þar að auki verði ekki séð að kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi umdeild leyfi þar sem heimilaðar byggingar raski í engu grenndarhagsmunum þeirra enda hafi ekki verið sýnt fram á það og málið sé vanreifað.  Því sé mótmælt að leyfin eigi ekki stoð í gildandi skipulagi.  Hvað sem líði skipulagsbreytingunni frá september 2006 eigi leyfin stoð í eldra skipulagi þar sem einungis hafi verið um að ræða breytingar á nýtingu kjallara umræddra húsa.

Niðurstaða:  Lóð kærenda liggur að lóðarmörkum Heiðaþings 4.  Ákvörðun um nýtingu húsanna að Heiðarþingi 2 og 4 eða nærliggjandi húsa getur snert lögvarða hagsmuni kærenda enda voru þeim grenndarkynntar fyrirhugaðar breytinga á deiliskipulagi vegna lóðanna að Heiðaþingi 2 og 4.  Verður máli þessu því ekki vísað frá sökum aðildarskorts.  Þá liggur ekki fyrir í málinu að kærendum hafi verið kunnugt um efni umdeildra byggingarleyfa fyrir þann tíma er þeir sjálfir halda fram enda varð ekki ráðið framkvæmdum þeim sem hafnar voru hvort byggingarleyfin væru í samræmi við gildandi skipulag.  Má og fallast á með kærendum að þeir hafi mátt treysta því að svo væri.  Eins og atvikum er háttað verður því ekki talið að kæra í máli þessu hafi borist að liðnum kærufresti og verður frávísunarkröfu af þeim sökum einnig hafnað.

Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð fyrr í dag í kærumáli vegna deiliskipulagsbreytingar er m.a. heimilaði breytta notkun kjallararýma húsanna að Heiðaþingi 2 og 4.  Var því kærumáli vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem meðferð skipulagsbreytingarinnar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 var ekki talið lokið.

Í hinum umþrættu byggingarleyfum er heimilað að hafa íbúðarherbergi í kjallara umræddra húsa en gildandi skipulag heimilar slíkt ekki.  Liggur því fyrir að hin kærðu byggingarleyfi víkja frá gildandi deiliskipulagi sem fer í bága við 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Verða hin kærðu byggingarleyfi því felld úr gildi.  

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir byggingarnefndar Kópavogs frá 4. apríl 2007, um að veita byggingarleyfi fyrir húsum að Heiðaþingi 2 og 4, eru felldar úr gildi.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                             __________________________
         Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

 

 

 

 

 

52/2007 Heiðaþing

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 52/2007, kæra á samþykkt skipulagsnefndar Kópavogs frá 5. september 2006, er bæjarráð Kópavogs staðfesti hinn 7. sama mánaðar, um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna að Heiðaþingi 2-4, Kópavogi, er fól m.a. í sér breytta notkun kjallararýmis í íbúðarherbergi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. júní 2007, er barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, framsendi Skipulagsstofnun kæru, dags. 29. maí 2007, er móttekin var hinn 30. sama mánaðar, þar sem A og S, lóðarhafar Heiðaþings 6, Kópavogi, kæra samþykkt skipulagsnefndar Kópavogs frá 5. september 2006, er bæjarráð Kópavogs staðfesti hinn 7. sama mánaðar, um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna að Heiðaþingi 2-4, Kópavogi, er fól m.a. í sér breytta notkun kjallararýmis í íbúðarherbergi.  Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málsatvik og rök:  Á árinu 2005 tók gildi deiliskipulag fyrir suðursvæði Vatnsenda er tekur m.a. til umræddra lóða við Heiðaþing í Kópavogi.  Samkvæmt deiliskipulagsskilmálum skyldu fyrirhuguð hús á lóðunum vera einnar hæðar parhús með innbyggðum bílageymslum, en heimilt var að hafa kjallara fyrir geymslur undir húsunum að hluta.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 6. júní 2006 var lagt fram erindi lóðarhafa Heiðaþings 2-4 er fól í sér frávik frá gildandi skipulagi að því leyti að heimilað yrði að nýta kjallararými sem íbúðarherbergi og að svalir næðu út fyrir byggingarreit. Var samþykkt að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum Heiðaþings 6-8 og Gulaþings 1 og 3.

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 8. ágúst þar sem lá fyrir umsögn bæjarskipulags um fram komnar athugasemdir frá lóðarhöfum Heiðaþings 6-8 varðandi skuggavarp og frágang á lóðarmörkum.  Skipulagsnefnd fjallaði um erindið á fundi 22. ágúst 2006 ásamt tillögum um útfærslu og frágang á lóðarmörkum vegna athugasemda kærenda.  Var skipulagsstjóra falið að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum og í kjölfarið gáfu lóðarhafar Heiðaþings 2-4 út yfirlýsingu þar sem samþykkt var að reistur yrði skjólveggur á lóðamörkum Heiðaþings 4 og 6 og því lýst yfir að lóðarhafar Heiðaþings 4 myndu setja upp stoðvegg á lóð sinni.

Skipulagsnefnd samþykkti síðan tillögu um útfærslu deiliskipulags varðandi Heiðaþing 2-4 og vísaði málinu til bæjarráðs sem samþykkti tillöguna á fundi hinn 7. september 2006.   Kærendur skutu nefndri ákvörðun til Skipulagsstofnunar með bréfi, dags. 29. maí 2007, og framsendi stofnunin erindið til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 4. júní sama ár, eins og að framan greinir.

Vísa kærendur til þess að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda þeirra við hina kærðu ákvörðun varðandi stoðmúr á lóðamörkum Heiðaþings 4 og 6 og á það bent að breyting umræddra parhúsa úr einni í tvær hæðir geti ekki talist útfærsla á skipulagi og hefði grenndarkynning átt að vera víðtækari.  Kærendum hafi ekki verið gerð grein fyrir kærurétti sínum og sé kæran því svo seint fram komin sem raunin sé.

Kópavogsbær gerir kröfu um frávísun málsins en ella að kröfu kærenda verði hafnað.  Er á því byggt að kærendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta vegna hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar sem einungis lúti að innra fyrirkomulagi parhúsanna að Heiðaþingi 2-4.  Þá hafi kæra í máli þessu borist að liðnum kærufresti.

Niðurstaða:  Þegar um óverulega deiliskipulagsbreytingu er að ræða er heimilt samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að falla frá auglýsingu tillögunnar en hún skal þess í stað grenndarkynnt samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Var farið með hina kærðu deiliskipulagsbreytingu samkvæmt nefndu ákvæði.  Þá skal sveitarstjórn senda Skipulagsstofnun ákvörðun um óverulega deiliskipulagsbreytingu sem samþykkt hefur verið ásamt yfirlýsingu um að sveitarstjórn taki að sér að bæta það tjón er einstakir aðilar kunni að verða fyrir við breytinguna.  Í 3. mgr. 26. gr. sömu laga er síðan kveðið á um að birta skuli auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda.

Fyrir liggur að hin samþykkta deiliskipulagsbreyting var ekki send Skipulagsstofnun til yfirferðar ásamt fyrrnefndri yfirlýsingu sveitarstjórnar og að auglýsing um gildistöku hennar hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Samkvæmt framansögðu er lögboðinni meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar ekki lokið og hefur hún ekki tekið gildi.  Ber því að vísa kæru vegna hennar frá úrskurðarnefndinni samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________                  ______________________________
            Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

7/2006 Öldutúnsskóli

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2006, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 6. janúar 2006 vegna framkvæmda við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði.    

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. febrúar 2006, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. eigenda íbúða að Víðihvammi 1 í Hafnarfirði, afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 6. janúar 2006 vegna framkvæmda við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði.   

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá er þess óskað, telji úrskurðarnefndin að hin kærða ákvörðun sé ekki kæranleg, að nefndin láti í ljós álit sitt á því hvort umrædd framkvæmd sé byggingarleyfisskyld.   

Málavextir og rök:    Hinn 25. október 2005 ritaði lögmaður kærenda bréf til Hafnarfjarðarbæjar vegna framkvæmda við gerð sparkvallar á lóð Öldutúnsskóla en skólinn er í næsta nágrenni við hús kærenda.  Í bréfinu var því haldið fram að framkvæmdin væri ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins og að kærendum hafi hvorki verið kynnt breyting á deiliskipulagi né byggingarleyfisumsókn.  Þá var þess óskað að framkvæmdin yrði stöðvuð.  Í svarbréfi bæjaryfirvalda, dags. 7. nóvember s.á., var greint frá því að á árinu 1997 hafi íbúum á svæðinu verið kynnt áform um viðbyggingu við skólann og frágangi lóðar og að hin umdeilda framkvæmd væri í samræmi við skipulag svæðisins.  Í kjölfar þessa ritaði lögmaður kærenda bæjaryfirvöldum bréf á ný þar sem framangreindu var mótmælt og því haldið fram að bæði hafi átt að sækja um leyfi til stækkunar skólalóðarinnar og byggingarleyfi vegna framkvæmdarinnar.  Þá var þess krafist að byggingarfulltrúi stöðvaði framkvæmdina og að mannvirkin yrðu fjarlægð.  Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 6. janúar 2006 var samþykkt svarbréf til lögmanns kæranda þar sem ítrekað var að framkvæmdin væri í samræmi við skipulag.  Var lögmanni kærenda tilkynnt framangreint ásamt upplýsingum um kærustjórnvald.  Hafa kærendur kært þá afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að ofan greinir. 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að grenndaráhrif sparkvalla séu umtalsverð og af þeim stafi hávaði og ónæði. 

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er krafist frávísunar málsins þar sem ekki verði talið að kærendur eigi lögvarða hagsmuni því tengda að fá hinni kærðu ákvörðun hnekkt. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kært svar skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 6. janúar 2006 við bréfi lögmanns kærenda, dags. 12. desember 2005, í tilefni framkvæmda við gerð sparkvallar við Öldutúnsskóla.  Umrætt svar felur ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls.  Meint ákvörðun sem kærð er í máli þessu sætir því ekki kæru skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og ber af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.  

Framkvæmd þeirri sem um er deilt í málinu er lokið og verður því ekki séð að kærendur eigi hagsmuni því tengda að fá álit úrskurðarnefndarinnar á því hvort byggingarleyfis hafi verið  þörf vegna framkvæmdarinnar og er beiðni um úrlausn um það álitaefni því einnig vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.  Beiðni um álit er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

     ____________________________________
             Hjalti Steinþórsson            

 

 _____________________________                   ______________________________
      Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson

37/2005 Ólafsgeisli

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. apríl 2005 um að heimila breytt útlit og innra fyrirkomulag hússins nr. 24 við Ólafsgeisla.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. maí 2005, er barst nefndinni samdægurs, kæra Þórður Þórðarson, Ólafgeisla 22, Björn Zoëga, Ólafsgeisla 26, Kamilla Sveinsdóttir, Ólafsgeisla 26, Ágúst Gunnlaugsson, Ólafsgeisla 28 og Rebekka Guðmundsdóttir, Ólafsgeisla 28, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 5. apríl 2005 að heimila breytt útlit og innra fyrirkomulag hússins nr. 24 við Ólafsgeisla.  Var hin kærða ákvörðun lögð fram á fundi skipulagsráðs hinn 6. sama mánaðar og staðfest á fundi borgarráðs hinn 14. apríl 2005. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að eigendum hússins nr. 24 við Ólafsgeisla verði gert að halda sig við upprunalegar teikningar og koma sameiginlegri lóð í fyrra horf. 

Málavextir:  Húsið að Ólafsgeisla 24 er eitt fjögurra húsa á lóðinni nr. 22-28 við Ólafsgeisla.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 27. apríl 2004 var lögð fram umsókn um leyfi m.a. til að loka stigaopi milli 1. og 2. hæðar hússins og fjölga gluggum og setja nýjan inngang á austurhlið 1. hæðar þess.  Var erindinu synjað.  Hinn 3. maí 2004 ritaði embætti byggingarfulltrúa umsækjanda bréf og stöðvaði framkvæmdir við byggingu hússins.  Eigi að síður héldu byggingarframkvæmdir áfram og í kjölfarið var lögð fram fyrirspurn til skipulags- og byggingarnefndar um hvort unnt væri að breyta deiliskipulagi lóðarinnar þannig að gera mætti ráð fyrir þremur íbúðum í húsunum á lóðinni.  Á fundi hinn 29. september 2004 hafnaði nefndin breytingum á deiliskipulagi.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 18. janúar 2005 var sótt um leyfi fyrir breyttri aðkomu og breyttum útitröppum við húsið nr. 24 við Ólafsgeisla.  Þá var og sótt um leyfi fyrir breyttu útliti og innra fyrirkomulagi.  Var erindinu frestað en á fundi embættisins hinn 8. febrúar s.á. var samþykkt að kynna málið meðlóðarhöfum.  Bárust tvö mótmælabréf.   Á fundi skipulagsráðs hinn 9. mars 2005 var eftirfarandi fært til bókar varðandi umsóknina:  „Ráðið gerir ekki athugasemd við að veitt verði byggingarleyfi þegar teikningar hafa verið lagfærðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði og í samræmi við tillögu byggingarfulltrúa. Málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.“  Í kjölfarið var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 5. apríl 2005 samþykkt byggingarleyfi vegna umrædds húss.  Fól leyfið í sér heimild til að breyta útliti og innra fyrirkomulagi hússins, nánar tiltekið að settur yrði nýr gluggi á vesturhlið þess, tveir nýir gluggar á austurhlið ásamt útidyrum á fyrstu hæð, svalir við suðurhlið annarrar hæðar stækkaðar, minnkun á opi milli fyrstu og annarrar hæðar ásamt breyttu innra fyrirkomulagi á öllum hæðum.  Í fundargerð afgreiðslufundarins var bókað að breytingar utanhúss væru flestar þegar framkvæmdar.  Jafnframt var bókað að erindinu fylgdi ódagsett bréf meðlóðarhafa, móttekið 7. mars 2005, og bréf eins meðlóðarhafa, dags. 16. febrúar 2005.  Að lokum var eftirfarandi fært til bókar:  „Áður en samþykkt öðlast gildi skal rífa þær óleyfisframkvæmdir á lóð sem ekki eru sýndar á þeim uppdrætti sem fylgdi umsókn.“  Var afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest í borgarráði þann 14. apríl 2005.

Framangreindri ákvörðun byggingarfulltrúa hafa kærendur skotið til úrskurðanefndarinnar svo sem fyrr greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 18. júní 2004, hafi framkvæmdum þeim er um ræði í máli þessu verið hafnað.  Í bréfinu komi einnig fram að byggingarfulltrúi hafi synjað breytingum hinn 27. apríl 2004 og hótað þvingunarúrræðum ef húsið yrði ekki fært til fyrra horfs.  Það hafi aldrei verið gert.  Þrátt fyrir þennan aðdraganda hafi framkvæmdirnar verið samþykktar og mótmæli nágranna að engu höfð. 

Þá sé á það bent að hin kærða breyting á húsinu nr. 24 við Ólafsgeisla samræmist ekki samþykktu skipulagi, þ.e. að þrír inngangar séu á húsinu í stað tveggja.  Þetta fyrirkomulag hafi það í för með sér að eiganda hússins sé veitt færi á að koma aukaíbúð fyrir í húsinu.  

Með þriðja innganginum í húsið hafi lóðarlínan verið lækkuð um a.m.k. þrjá metra sem geri það að verkum að lóðinni halli frá Ólafsgeisla 26 niður á við og að Ólafgeisla 24.  Þessar framkvæmdir hafi verið gerðar á sameiginlegri lóð og án nokkurs samráðs við meðlóðarhafa og þeim haldið áfram þrátt fyrir mótmæli þeirra. 

Að mati kærenda sé það óforsvaranlegt að aðilar geti hafið framkvæmdir án tilskilinna leyfa og í trássi við gildandi skipulag og leyfi, séð hvað þeir komist langt og fengið svo leyfi með lítilsháttar breytingum á þeim óleyfisframkvæmdum sem þegar sé lokið.     

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að óleyfisframkvæmdum vegna byggingarinnar að Ólafsgeisla 24 hafi verið hafnað hinn 27. apríl 2004 og hafi sú ákvörðun verið kæranleg.  Því hafi verið eðlilegt að beðið hafi verið með frekari aðgerðir í málinu af hálfu embættis byggingarfulltrúa fram yfir kærufrest en hann hafi runnið út í byrjun júní s.á.  Tilkynning byggingarfulltrúa um synjunina hafi verið dagsett 28. apríl 2004 og hafi í henni verið leiðbeint um kæruleið og kærufrest.

Venja sé að embætti byggingarfulltrúa geri ekki tillögu um beitingu þvingunarúrræða fyrr en sýnt sé að málsaðilar láti undir höfuð leggjast að framfylgja tilmælum byggingaryfirvalda, sbr. ákvæði 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Um miðjan júní 2004 hafi þótt sýnt að fyrrnefnd synjun um byggingarleyfi yrði virt að vettugi og hafi óleyfisframkvæmdir haldið áfram á lóðinni þar til þær hafi verið stöðvaðar og þvingunarúrræði boðuð.  Í kjölfarið hafi verið óskað eftir breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar.  Því hafi verið hafnað af skipulags- og byggingarnefnd hinn 29. september 2004.  Eðlilega hafi frekari aðgerðum verið frestað af hálfu embættis byggingarfulltrúa meðan ósk um breytingu á deiliskipulagi hafi verið til umfjöllunar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fullyrðing kærenda um að byggingarfulltrúi hafi samþykkt óleyfisframkvæmdir nánast óbreyttar sé röng.  Hið rétta sé að með samþykkt umsóknarinnar hafi útitröppum milli 1. og 2. hæðar að austan verið synjað sem og inngangi í þvottahús á 3. hæð að austan og svölum á vesturhlið á 2. og 3. hæð.  Umsækjanda hafi verið gert að hafa stiga milli 1. og 2. hæðar innanhúss sem og að setja hindranir á flöt vestan við tvö bílastæði við bílgeymslur hússins til að hindra að hún yrði notuð sem tvö viðbótarbílastæði á sameiginlegri lóð.  Í samþykktinni hafi falist að heimilt yrði að setja einn glugga á vesturhlið 1. hæðar ásamt breytingu á jarðvegsfyllingu, inngang og tvo glugga á 1. hæð austurhliðar ásamt stækkun á svölum 2. hæðar.  Við afgreiðslu málsins hafi verið tekið tillit til mótmæla meðlóðarhafa.

Bent sé á að við afgreiðslu málsins hafi verið leitað venjubundins álits skipulagsfulltrúa sem hafi staðfest að umrædd umsókn félli að skipulagsskilmálum.  Í þeim sé ekki kveðið á um fjölda innganga en sagt að möguleiki sé á inngangi íbúða eftir hvorri langhlið.  Það séu getsakir að tveir inngangar í íbúð á 1. og 2. hæð leiði til þess að gerð verði þriðja íbúðin í húsinu enda slík framkvæmd byggingarleyfisskyld.  Á það sé bent að unnt sé að komast út á lóð allra húsanna af 1. hæð.  Hvað fjölgun glugga varði séu engin ákvæði um slíkt í skipulagsskilmálum.  Stækkun á svölum 2. hæðar sé í samræmi við áður samþykktar svalir á 3. hæð, sem ekki hafi verið gerð athugasemd við af skipulagsyfirvöldum við upphaflegt samþykki á húsinu.

Fullyrðing um að með samþykkt á nýjum inngangi á austurhlið hafi lóðarlína verið lækkuð um a.m.k. 3 metra sé algerlega röng.  Landhæð við innganginn á 1. hæð sé u.þ.b. 1,1 metra lægri en fram komi á uppdrætti frá 20. nóvember 2001.  Mjög líklegt sé að lækkun frá óhreyfðu landi sé um 0,50 metrar og sé þá miðað við þann halla sem sýnilegur sé á lóðinni, þ.e. óhreyft land.  Ekki sé annað að sjá á staðnum en breytt hæðarlega falli betur að landi en áður hafi verið áformað.  Hæðaraðlögun sé auðvelt að taka upp á því svæði sem hreyft hafi verið og hafi ekki nokkur áhrif á frágang heildarlóðar.  Endanlegur frágangur lóðarinnar innan lóðarmarka sé á forræði allra lóðarhafanna en frágangur á lóðarmörkum skuli unninn í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Tekið sé undir með kærendum að illþolanlegt sé að lóðarhafar ráðist í byggingarframkvæmdir án tilskilinna leyfa, en því mótmælt að í samþykkt frá 5. apríl 2005 hafi byggjandi fengið vilja sínum framgengt.

Með vísan til framangreinds ítreki Reykjavíkurborg þá kröfu sína að úrskurðarnefndin staðfesti samþykkt byggingarfulltrúa frá 5. apríl 2005 með því skilyrði sem þar sé sett, enda hafi kærendur ekki á nokkurn hátt sýnt fram á að lögvörðum hagsmunum eða væntingum þeirra hafi verið raskað.

Byggingarleyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru með bréfi, dags. 26. júlí 2005, og honum gefin kostur á að tjá sig um efni hennar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en það hefur hann ekki gert.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi fimmtudaginn 6. september 2007.
  
Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að heimila breytt útlit og innra fyrirkomulag hússins nr. 24 við Ólafsgeisla.  Nánar fólst í hinu kærða byggingarleyfi m.a. heimild til að koma fyrir dyrum og tveimur gluggum á austurhlið neðstu hæðar hússins ásamt einum glugga á vesturhlið sömu hæðar.  Til þess að framkvæma framangreint varð að fjarlægja jarðveg af lóðinni næst húsinu og varð yfirbragð hennar þar með nokkuð öðrum hætti en fyrirhugað var samkvæmt eldra byggingarleyfi hússins.    

Húsið að Ólafsgeisla 24 er á sameiginlegri lóð húsanna nr. 22-28 við Ólafsgeisla.  Mikill landhalli er undan húsunum og standa þau í jaðri íbúðarsvæðis næst borgarlandi.  Í gildi er deiliskipulag svæðisins, Grafarholt svæði 2, frá árinu 2000, og samkvæmt því er ætlast til þess að land umræddra lóða sé svo ósnortið sem kostur er og yfirbragð náttúrulegt.  Verður að telja að enda þótt yfirborð lóðar hafi verið lækkað nokkuð meðfram sunnaverðum langhliðum hússins frá því sem upphaflega var áformað sé hæðarsetning og frágangur lóðar í samræmi við skipulag og að hin umdeilda breyting hafi verið innan þeirra marka sem búast megi við að gerðar kunni að vera á meðan á byggingu húss stendur.

Af hálfu kærenda er því haldið fram að hið kærða byggingarleyfi sé andstætt deiliskipulagi svæðisins þar sem heimilað hafi verið að setja nýjan inngang á austurhlið 1. hæðar hússins að Ólafsgeisla 24.  Á þetta verður ekki fallist enda engar skorður reistar við slíku fyrirkomulagi í deiliskipulagi svæðisins.  Verður og til þess að líta að inngangur  var fyrir á 1. hæð að sunnanverðu samkvæmt upphaflegu byggingarleyfi hússins.  

Kærendur krefjast einnig ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar með vísan til þess að með þriðja innganginum hafi eiganda hússins verið veitt færi á að hafa aukaíbúð á neðstu hæð hússins.  Á þetta verður heldur ekki fallist.  Í hinu kærða leyfi er aðeins veitt heimild fyrir tveimur íbúðum í húsinu líkt og áður hafði verið og er fermetrafjöldi þess nánast sá hinn sami eftir breytinguna.  Sé húsrými aftur móti hagnýtt með öðrum hætti en leyfi standa til er það hlutverk byggingarfulltrúa að bregðast við slíku.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. apríl 2005 um að heimila breytt útlit og innra fyrirkomulag hússins nr. 24 við Ólafsgeisla verði felld úr gildi.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                           Þorsteinn Þorsteinsson 

 

54/2005 Ytri-Hólmur

Með

Ár 2007, þriðjudaginn 18. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 54/2005, kæra á synjun hreppsnefndar Innri- Akraneshrepps frá 9. júní 2005 um að taka fyrir að nýju ósk um að setja inn í aðalskipulagstillögu fyrirhugaða 18 húsa byggð í landi Ytra-Hólms I, Innri-Akraneshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. júlí 2005, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir K, Ytra-Hólmi I, Hvalfjarðarsveit, áður Innri-Akraneshreppi, synjun hreppsnefndar Innri- Akraneshrepps frá 9. júní 2005 um að taka fyrir að nýju ósk um að setja inn í aðalskipulagstillögu fyrirhugaða 18 húsa byggð í landi Ytra-Hólms I, Innri-Akraneshreppi. 

Málsatvik og rök:  Með bréfi, dags. 27. apríl 2003, sendu eigendur jarðarinnar Ytra-Hólms I hreppsnefnd Innri-Akraneshrepps erindi þar sem m.a. var óskað eftir áliti sveitarstjórnar á skipulagningu fjögurra hektara svæðis í landi nefndrar jarðar undir 18 húsa íbúðarbyggð.  Var erindið útlistað nánar í bréfi til hreppsnefndar, dags. 11. maí sama ár.  Hreppsnefndin tilkynnti með bréfi, dags. 20. maí 2003, að samþykkt hefði verið að taka erindið til skoðunar við gerð aðalskipulagstillögu fyrir hreppinn sem þá var hafin vinna við.  Landeigendum Ytra-Hólms I var hins vegar tilkynnt í bréfi, dags. 24. september 2003, að fyrirhuguð 18 húsa íbúðarbyggð félli ekki að hugmyndum hreppsnefndar um þróun íbúðarbyggðar í hreppnum og því ekki fallist á að auglýsa tillögu að aðalskipulagi þar sem gert væri ráð fyrir umsóttri byggð.  Eigendur jarðarinnar lýstu vonbrigðum sínum með afstöðu hreppsnefndar til málsins og gerðu ítarlega grein fyrir sjónarmiðum sínum og athugasemdum í bréfi til hennar, dags. 21. október 2003.  Þar var farið fram á að sveitarstjórn endurskoðaði afstöðu sína og tæki upp í aðalskipulagstillögu hugmyndir um íbúðarsvæði austast í landi Ytra-Hólms I.  Með bréfi til hreppsnefndar Innri-Akraneshrepps, dags. 24. maí 2005, fór kærandi máls þessa síðan fram á með skírskotun til erindisins frá 27. apríl 2003 að hugmyndir um fyrrgreinda íbúðarbyggð yrðu teknar fyrir að nýju og settar á aðalskipulagstillögu.  Erindið var tekið fyrir á fundi hreppsnefndar hinn 9. júní 2005 þar sem fyrri afstaða hennar var áréttuð og vísað til þess að engar forsendur hafi breyst frá því að fyrri ákvörðun hafi verið tekin.

Kærandi vísar til þess að með hinni kærðu afgreiðslu sé atvinnufrelsi hennar og réttur til frjálsrar nýtingar á eign hennar skert.  Ákvörðunin sé ekki í samræmi við stjórnsýslulög og gangi gegn markmiðum skipulags- og byggingarlaga.  Hún styðjist ekki við almannahagsmuni og sé í raun órökstudd.  Farið sé fram á að hreppsnefnd breyti svæðisskipulagi eða felli inn á aðalskipulagstillögu greinda íbúðarbyggð í landi Ytra-Hólms I og auglýsi deiliskipulag fyrir þá byggð.

Hreppsnefnd bendir á að umbeðin íbúðabyggð hafi verið í andstöðu við þágildandi svæðisskipulag og hafi hreppsnefnd, sem handhafi skipulagsvalds, ekki talið rétt að taka umrædda spildu úr landbúnaðarnotum.  Engin fullmótuð deiliskipulagstillaga hafi verið lögð fram  til kynningar vegna umdeildra hugmynda að íbúðarbyggð.  Kröfugerð kæranda sé misvísandi og ekki verði talið að úrskurðarnefndin geti tekið afstöðu til krafna um að hreppsnefnd samþykki deiliskipulag fyrir umrædda byggð, sem yrði í andstöðu við svæðisskipulag og aðalskipulagstillögu hreppsins.  Jafnframt  verði að telja að báðir eigendur umræddrar jarðar, þyrftu að standa að kærumáli því sem hér sé til meðferðar.

Kærandi og hreppsnefnd Innri-Akraneshrepps hafa fært fram frekari rök og gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Innri-Akraneshreppur hefur sameinast þremur öðrum sveitarfélögum og tók sameiningin gildi í kjölfar sveitarstjórnarkosninga árið 2006.  Hið sameinaða sveitarfélag nefndist Hvalfjarðarsveit.  Svæðisskipulag sveitarfélaga sunnan Skarðsheiðar féll úr gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 939/2005 en gildistökuauglýsing vegna Aðalskipulags Innri-Akraneshrepps 2002-2014 birtist hinn 2. júní 2006 í sama riti.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var hafnað beiðni um endurupptöku á erindi kæranda og eiginmanns hennar frá árinu 2003 um að tekin yrði upp í aðalskipulagstillögu Innri-Akraneshrepps ráðagerð um 18 lóðir undir íbúðarhús á svæði í landi jarðarinnar Ytri-Hólms I. 

Samkvæmt 13. og 19. gr. laga nr. 73/1997 staðfestir ráðherra svæðis- og aðalskipulag, eða breytingar á því og taka slíkar skipulagsákvarðanir gildi þegar staðfestingin hefur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Af þessu leiðir að það er á valdsviði ráðherra að taka afstöðu til lögmætis svæðis- og aðalskipulags eða breytinga á þeim áætlunum. 

Umræddar ákvarðanir ráðherra eru lokaákvarðanir æðra stjórnvalds og hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum talið að hana bresti vald að stjórnsýslurétti til þess að endurskoða þær.  Hefur þessi túlkun nú fengið stoð í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005.

Verður kærumáli þessu af framangreindum ástæðum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

                                                   __________________
                                                        Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ______________________________
            Þorsteinn Þorsteinsson                                           Aðalheiður Jóhannsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

32/2006 Jöklasel

Með

Ár 2007, þriðjudaginn 18. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 32/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. apríl 2006 um að veita leyfi til að byggja steinsteypta bílskúra fyrir fjóra bíla norðaustanvert við lóð nr. 21-23 við Jöklasel í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. maí 2006, er barst nefndinni sama dag, kæra G og Í, Fjarðarseli 31, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. apríl 2006 að veita leyfi til að byggja steinsteypta bílskúra fyrir fjóra bíla norðaustanvert við lóð nr. 21-23 við Jöklasel í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarráðs hinn 16. apríl 2006. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var þess krafist að framkvæmdir, sem hafnar voru samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, yrðu stöðvaðar.  Með úrskurði uppkveðnum hinn 18. maí 2006 var kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda hafnað. 

Málsatvik:  Ráðið verður af málsgögnum að snemma árs 2004 hafi komið fram ósk frá eigendum íbúða að Jöklaseli 21-23 um að fá að byggja fjóra bílskúra á landspildu í eigu Reykjavíkurborgar norðaustan við lóð umræddra húsa.  Var erindið tekið til athugunar hjá embætti skipulagsfulltrúa og hlaut jákvæðar undirtektir.  Var því beint til umsækjenda að láta vinna tillögu að breyttu skipulagi svæðisins þar sem gert væri ráð fyrir byggingu umræddra skúra.  Létu umsækjendur vinna tillögu að breyttu skipulagi og var samþykkt á fundi skipulagsráðs hinn 8. júní 2005 að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Jöklaseli 1-19 (oddatölur). 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir að nýju í skipulagsráði og tillagan samþykkt á fundi ráðsins hinn 20. júlí 2005, með vísan til 12. gr. samþykkta fyrir skipulagsráð, en engar athugasemdir höfðu borist við tillöguna.  Var tillagan send Skipulagsstofnun til afgreiðslu með bréfi, dags. 22. júlí 2005.  Með bréfi, dags. 28. júlí 2005, lýsti Skipulagsstofnun þeirri afstöðu sinni að ekki væri gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda og var sú auglýsing birt hinn 17. ágúst 2005. 

Hinn 16. ágúst 2005 sóttu húsfélögin að Jöklaseli 21 og 23 um byggingarleyfi fyrir fjórum bílskúrum í samræmi við hið breytta skipulag.  Endanlegir uppdrættir, dags. 3. febrúar 2006, voru samþykktir af byggingarfulltrúanum í Reykjavík hinn 14. febrúar s.á. og var sú ákvörðun staðfest á fundi borgarráðs hinn 16. sama mánaðar. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að bygging bílskúra suðaustan við eign þeirra að Fjarðarseli 31 muni skerða útsýni frá eigninni og skyggja verulega á sól í garði.  Þarna hafi áður verði grænt svæði samkvæmt deiliskipulagi sem í gildi hafi verið allt frá árinu 1978.  Engin grenndarkynning hafi farið fram gagnvart hagsmunaaðilum við Fjarðarsel og hafi því ekki verið farið að lögum við undirbúning málsins.  Þá sé stærð og hæð fyrirhugaðra bílskúra meiri en eðlilegt geti talist og bent sé á að byggingarfulltrúi hafi gert athugasemd vegna þessa.  Verulega hafi skort á að rök byggingarleyfishafa, sem færð hafi verið fram vegna framkominna athugasemda byggingarfulltrúa, hafi verið fullnægjandi og ekki hafi verið tekið tillit til næsta umhverfis.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld hafa lagt fram gögn í máli þessu og vísa til þeirra máli sínu til stuðnings en ekki hefur verið lögð fram sérstök greinagerð af þeirra hálfu í málinu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá nefndinni.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var gerð breyting á deiliskipulagi umrædds svæðis haustið 2005 þar sem gert var ráð fyrir byggingu bílskúra þeirra sem um er deilt í málinu.  Var auglýsing um skipulagsbreytinguna birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. ágúst 2005 og verður að líta svo á að hún teljist almenningi kunn frá þeim tíma.  Skipulagsákvörðun þessi var ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar og hefur henni ekki verið hnekkt.  Er hún því bindandi fyrir stjórnvöld og borgara, sbr. 2. mgr. greinar 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Af málsgögnum verður ekki annað ráðið en að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við fyrrgreint deiliskipulag.  Verða íbúar skipulagssvæðis að sætta sig við framkvæmdir sem stoð eiga í gildandi skipulagi, en geta eftir atvikum átt bótarétt skv. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi gildistaka skipulagsins valdið þeim tjóni. 

Með vísan til þess sem að ofan greinir er ekki fallist á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. apríl 2006 um að veita leyfi til að byggja steinsteypta bílskúra fyrir fjóra bíla norðaustanvert við lóð nr. 21-23 við Jöklasel í Reykjavík verði felld úr gildi.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ____________________________
   Þorsteinn Þorsteinsson                                       Aðalheiður Jóhannsdóttir

59/2007 Hólmsheiði

Með

Ár 2007, þriðjudaginn 18. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir voru tekin mál nr. 59/2007 og 60/2007, kærur á afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2007 um afmörkun lands á Hólmsheiði fyrir tímabundna aðstöðu Fisfélags Reykjavíkur. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. júní 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Magnús Guðlaugsson hrl., f.h. Græðis, félags landeigenda í Óskoti og Reynisvatnslandi, afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2007 um afmörkun lands á Hólmsheiði fyrir tímabundna aðstöðu Fisfélags Reykjavíkur.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. júní 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Árni Ingason, formaður Fjáreigendafélags Reykjavíkur, f.h. félagsins, einnig fyrrgreinda afgreiðslu skipulagsráðs frá 16. maí 2007.  Hagsmunir kærenda fara saman og ákvað úrskurðarnefndin því að sameina síðara kærumálið hinu fyrra, sem er númer 59/2007. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.   Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Engar framkvæmdir eru hafnar á svæðinu og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda en málið er nú tekið til úrlausnar um framkomna frávísunarkröfu.

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulagsráðs hinn 6. september 2006 var lagt fram bréf Fisfélags Reykjavíkur varðandi aðstöðu fyrir félagið á Hólmsheiði og var eftirfarandi fært til bókar:  „Ráðið gerir ekki athugasemd við tillögu skipulagsfulltrúa um tímabundna aðstöðu fyrir Fisfélagið.  Tillögunni er vísað til umsagnar Flugmálastjórnar, umhverfisráðs, Hestamannafélagsins Fáks og hagsmunafélags sumarhúsaeigenda á svæðinu.“  Á fundi skipulagsráðs hinn 16. maí 2007 var erindið tekið fyrir að nýju ásamt athugasemdum og var eftirfarandi fært til bókar:  „Tillaga að tímabundinni afmörkun svæðis samþykkt.  Vísað til borgarráðs.“  Var framangreint staðfest á fundi borgarráðs hinn 31. maí 2007. 

Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að svæði það er um ræði sé skilgreint samkvæmt aðalskipulagi sem opið svæði til sérstakra nota.  Það að úthluta því undir flugvöll og flugskýli án þess að breyta áður gildandi aðalskipulagi sé óheimilt samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Þá sé svæðið í aðeins 400 metra fjarlægð frá sumarbústöðum þeim er næstir séu og yrði hávaðinn af farartækjunum slíkur að á góðviðrisdögum yrðu bústaðirnir ónothæfir. 

Þá sé bent á að Fjáreigendafélag Reykjavíkur hafi haft hluta svæðisins til afnota allt frá árinu 1970 samkvæmt samkomulagi við þáverandi borgarstjóra um notkun á Hólmsheiði.  Ljóst sé að staðsetning fisflugvallar í næsta nágrenni muni valda verulegu ónæði ásamt því að geta valdið hestamönnum miska eða jafnvel lífsháska. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.  Hin kærða afgreiðsla feli í sér leyfi fyrir tímabundnum afnotum af landi.  Hvorki liggi fyrir kæranleg skipulagsákvörðun né kæranlegt byggingarleyfi vegna þessara tímabundnu afnota. 

Kærendur mótmæla framkominni frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar og halda því fram að búið sé að veita Fisfélaginu framkvæmdaleyfi þrátt fyrir að málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulagsráðs Reykjavíkur þar sem samþykkt var tillaga að afmörkun landspildu fyrir tímabundna starfsemi Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði.  Umrædd spilda er á svæði sem skilgreint er í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sem opið svæði til sérstakra nota, en helst verður ráðið af uppdrætti þess að áformað hafi verið að nýta svæðið til skógræktar. 

Í grein 4.12.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 eru opin svæði til sérstakra nota skilgreind sem svæði með útivistargildi þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar er stunduð og eru í ákvæðinu tilfærð dæmi um ýmis konar starfsemi sem talin er geta fallið undir umrædda landnotkun.  Í 2. mgr. gr. 4.12.2 sömu reglugerðar segir að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir mannvirkjagerð, efnisnotkun og litavali, gróðri og girðingum, bílastæðum og frárennsli o.fl. 

Samkvæmt framangreindu ákvæði þarf að gera deiliskipulag að þeim mannvirkjum sem áformuð eru á umræddri spildu áður en til mannvirkjagerðar getur komið á svæðinu.  Jafnframt þarf, á grundvelli þess skipulags, að veita framkvæmda- og byggingarleyfi fyrir einstökum framkvæmdum og mannvirkjum eftir því sem við á.  Hin kærða ákvörðun felur einungis í sér ráðstöfun á landi í eigu Reykjavíkurborgar til tímabundinna afnota fyrir umsækjanda.  Er hún fyrst og fremst einkaréttarlegs eðlis en felur hvorki í sér lokaákvörðun um skipulag né heimild til framkvæmda sem sætt gætu kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ____________________________
         Þorsteinn Þorsteinsson                                     Aðalheiður Jóhannsdóttir

25/2006 Hagamelur

Með

Ár 2007, þriðjudaginn 11. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 25/2006, kæra eigenda íbúðar í fjöleignarhúsinu að Hagamel 52, Reykjavík á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. mars 2006 um úttekt á burðarvirki er kom í stað burðarveggjar í íbúð á fyrstu hæð fjöleignarhússins.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. mars 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir Dýrleif Kristjánsdóttir lögfræðingur, f. h. B og H, eigenda íbúðar í fjöleignarhúsinu að Hagamel 52, Reykjavík synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. mars 2006 um úttekt á burðarvirki er kom í stað burðarveggjar í íbúð á fyrstu hæð fjöleignarhússins.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að gera úttekt á greindu burðarvirki.

Málsatvik og rök:  Í maímánuði 2005 höfðu kærendur samband við embætti byggingarfulltrúa og bentu á að verið væri að rífa niður burðarvegg í íbúð á fyrstu hæð hússins að Hagamel 52 án samþykkis þeirra og án tilskilinna leyfa.  Í kjölfarið sendi embætti byggingarfulltrúa eigendum íbúðarinnar bréf, dags. 14. júní 2005, þar sem þeir voru krafðir skýringa. Svar barst frá verkfræðingi íbúðareigenda þar sem upplýst var að hann hefði umsjón með verkinu. Var honum bent á að sækja um byggingarleyfi vegna framkvæmdanna.  Sótt var um leyfi fyrir umdeildum framkvæmdum og veitti byggingarfulltrúi leyfi til að fjarlægja burðarvegg milli eldhúss og borðstofu í umræddri íbúð á afgreiðslufundi hinn 1. nóvember 2005.  Með bréfi, dags. 14. nóvember 2005, fóru kærendur fram á að byggingarfulltrúi léti taka út greindar framkvæmdir svo hafið yrði yfir allan vafa að burðarþol umrædds húss væri fullnægjandi.  Kærendum var tilkynnt með bréfi, dags. 12. desember 2005, að embætti byggingarfulltrúa myndi ekki aðhafast frekar í málinu í ljósi þess að fyrir lægi að verkið hefði verið unnið samkvæmt uppdrætti burðarþolshönnuðar og starfsmaður embættisins staðfest að hönnunin væri í fullkomnu lagi.  Krafa um úttekt á verkinu af hálfu óháðs aðila var ítrekuð í bréfi lögfræðings kærenda, dags. 6. febrúar 2006 en í svari við því bréfi skírskotaði byggingarfulltrúi til bréfs síns til kærenda dags. 12. desember 2005.

Kærendur byggja á því að umdeildar framkvæmdir hafi verið ólögmætar og háðar samþykki meðeigenda fjöleignarhússins.  Hönnunarteikningar og yfirlýsingar um burðarþol hafi komið til löngu eftir að umdeildar framkvæmdir í íbúð á fyrstu hæð hússins hafi verið um garð gengnar.  Embætti byggingarfulltrúa hafi sjálft viðurkennt að umdeild breyting hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur.  Telji kærendur að byggingarfulltrúa beri, skv. 41. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 9. og 61. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, að framkvæma úttekt á burðarvirki því er komið hafi í stað burðarveggjar þess sem fjarlægður hafi verið.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er krafist frávísunar málsins.  Kærendum hafi verið tilkynnt skriflega um synjun á erindi þeirra með bréfi, dags. 12. desember 2005, en ákvörðunin hafi ekki verið kærð fyrr en með kæru dags. 30. mars 2006.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun er kæra skal.  Ekki sé reynt að færa rök að því í kæru hvers vegna víkja ætti frá nefndu ákvæði laganna og hljóti því kæran að teljast alltof seint fram komin.

Niðurstaða:  Byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum var veitt af hálfu byggingarfulltrúa hinn 1. nóvember 2005 og svar hans við málaleitan kærenda um úttekt vegna þeirra framkvæmda er dagsett 12. desember sama ár.  Lögmaður kærenda  áréttaði erindi þeirra með bréfum, dags. 6. febrúar og 7. mars 2006, en í svari byggingarfulltrúa við þeim bréfum frá 9. mars 2006 skírskotaði hann til bréfs frá 12. desember 2005 um afstöðu embættisins til málsins.

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Hin kærða afgreiðsla byggingarfulltrúa á frekari úttekt á heimiluðum framkvæmdum samkvæmt byggingarleyfinu frá 1. nóvember 2005 var tilkynnt kærendum með bréfi dags. 12. desember sama ár eins og fram er komið.  Liggur því fyrir að kærufrestur var liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni hinn 30. mars 2006 enda skapar svar byggingarfulltrúa frá 9. mars 2006 ekki nýjan kærufrest þar sem svarbréfið fól ekki í sér nýja ákvörðun heldur aðeins áréttingu á fyrri afstöðu embættisins til erindis kærenda.

Að þessu virtu og með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni enda liggja ekki fyrir þau atvik í málinu er gefa tilefni til að taka málið til efnismeðferðar samkvæmt undanþáguákvæðum 1. eða 2. tl. greinds lagaákvæðis.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

     ____________________________                   ______________________________
              Ásgeir Magnússon                                              Geirharður Þorsteinsson

17/2005 Sóltún

Með

Ár 2007, þriðjudaginn 11. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson skipulagshönnuður.  

Fyrir var tekið mál nr. 17/2005, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur um breytt deiliskipulag fyrir Sóltún-Ármannsreit.  

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. febrúar 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir V, Sóltúni 5, Reykjavík, f.h. húsfélagsins að Sóltúni 5, samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2005 um breytt deiliskipulag Sóltúns-Ármannsreits.  Á fundi borgarráðs hinn 3. febrúar 2005 var afgreiðsla nefndarinnar staðfest.  

Skilja verður kröfugerð kæranda á þann veg að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Að öðrum kosti verði hinni kærðu ákvörðun breytt þannig að umferð að Sóltúni 8-18 og fræðslustofnun sem fyrirhuguð er á svæðinu verði einnig frá Hátúni. 

Málavextir:  Á árinu 2000 var samþykkt deiliskipulag fyrir svokallaðan Sóltúns-Ármannsreit sem markast af Sóltúni til suðurs, Hátúni til vesturs, Miðtúni til norðurs og Nóatúni til austurs.  Á árinu 2001 voru gerðar lítilsháttar breytingar á skipulaginu.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 6. október 2004 var lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi svæðisins og á fundi nefndarinnar hinn 13. s.m. var samþykkt að auglýsa framkomna tillögu.  Fól hún m.a. í sér heimild til hækkunar hjúkrunarheimilisins að Sóltúni 2 um eina hæð ásamt fjölgun bílastæða á lóðinni, heimild til byggingar fjögurra hæða húss fyrir hjúkrunartengda þjónustu að Sóltúni 4 ásamt bílastæðum sem og að á lóðinni að Sóltúni 6 myndi rísa fræðslustofnun.  Þá fól og tillagan í sér heimild til að reisa á lóðinni Sóltún 8-18 allt að átta hæða fjölbýlishús með 70 íbúðum ásamt bílastæðum, en deiliskipulagið frá árinu 2000 gerði ráð fyrir stækkun íþóttahúss er þar stóð ásamt 5000 m² byggingu á tveimur hæðum. 

Tillaga að breyttu deiliskipulagi Sóltúns-Ármannsreits var auglýst til kynningar frá 10. nóvember 2004 til 20. desember s.á. og bárust þrjár athugasemdir, þ.á.m. frá kæranda.              

Á fundi skipulagsráðs hinn 26. janúar 2005 var málið tekið fyrir að nýju.  Voru þar lagðar fram athugasemdir ásamt umsögn skipulagsfulltrúa.  Var eftirfarandi fært til bókar:  „Auglýst tillaga samþykkt.  Vísað til borgarráðs.“  Borgarráð samþykkti afgreiðsluna á fundi sínum þann 3. febrúar 2005.  Skipulagsstofnun tilkynnti í bréfi, dags. 16. febrúar 2005, að hún gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og birtist auglýsing um gildistökuna hinn 18. febrúar 2005.

Framangreindri samþykkt skipulagsráðs skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að með hinu kærða deiliskipulagi sé gerð veruleg breyting á nýlegu skipulagi svæðisins.  Í innsendum athugasemdum hafi kærandi lagst gegn auknu byggingarmagni á lóðinni að Sóltúni 8-18 og farið fram á að fjölbýlishúsin er þar muni rísa yrðu lækkuð um a.m.k. eina hæð.  Þá vísi kærandi og til þess að slæm aðkoma sé að fjölbýlishúsunum og fræðslustofnuninni á lóðinni nr. 6 við Sóltún þar sem hún fari aðeins um Sóltún.  Þetta hafi í för með sér mikið álag með ófyrirsjáanlegum afleiðingum sem geti leitt til alvarlegra umferðaróhappa og því þurfi aðkoman einnig að vera frá Hátúni.  Ljóst sé að umferð um svæðið eigi eftir að margfaldast, sérstaklega þegar litið sé til þess að á svokölluðum Bílanaustsreit eigi eftir að byggja um 200 íbúðir til viðbótar þeim byggingarheimildum sem hið kærða deiliskipulag feli í sér.  Þá bendi kærandi og á að ekki sé nægilega gerð grein fyrir stærð lóðar fræðslustofnunarinnar eða fyrirkomulagi leiksvæðis. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að umtalsvert byggingarmagn verði á lóðinni nr. 8-18 við Sóltún.  Byggingarnar séu þó þannig staðsettar að þær varpi litlum skugga á íbúðabyggð við Sóltún 5 að sumarlagi.  Því sé þó ekki að neita að þær hafi áhrif á útsýni. 

Þá sé og vísað til þess að arkitekt hússins hafi verið beðinn um að kanna möguleika þess að færa aðkomu fjölbýlishússins þannig að hún yrði frá Hátúni.  Hann hafi ekki talið sig geta fundið viðunandi lausn enda myndi þá aðkoman að fræðslustofnuninni færast vestar og vera nær Sóltúni 5 og valda meiri óþægindum.  Einnig hafi verið óskað eftir umsögn verkfræðistofu sem ekki hafi gert athugasemd við fyrirkomulag gatnatenginga og aðkomu að fræðslustofnuninni og fjölbýlishúsunum.

Varðandi umferðarálag sé bent á að með góðri útfærslu stíga innan lóðar fræðslustofnunarinnar megi tryggja að foreldrar barna á leikskólanum leggi bílum sínum við vesturkant Hátúns og gangi með börn sín um 70 metra að inngangi leikskólans en lóðinni hafi verið úthlutað til Waldorfskólans.  Í samræmi við framangreint verði gert ráð fyrir að dreifa umferðarálagi að skólanum.  Inngangar að skólanum verði þrír til fjórir og  gert sé ráð fyrir því að hluti nemenda geti gengið inn í skólann úr suðaustri þannig að hentugt verði fyrir foreldra að leggja bílum sínum meðfram Hátúni aki þeir börnum sínum í skólann.

Deiliskipulagið geri ráð fyrir lítilsháttar færslu á götunni fjær Sóltúni 5.  Á þeirri spildu sem myndist við færsluna sé æskilegt að koma fyrir trjágróðri eða hlöðnum vegg sem dregið gæti úr áhrifum aukinnar umferðar um götuna.  Varðandi athugasemdir um skólalóð og leiksvæði sé gert ráð fyrir að hanna nánar leiksvæði og skólalóð í tengslum við uppbyggingu á lóðinni.  Samkvæmt umsögnum umferðarsérfræðinga muni umferð ekki aukast meira en það sem hægt sé að leggja á götur hverfisins.

Sérstaklega sé minnt á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulagsbreytingar fyrir Sóltúns-Ármannsreit og gerð krafa um að úrskurðarnefndin felli hana úr gildi m.a. með þeim rökum að auknar byggingarheimildir á svæðinu og útfærsla umferðarmannvirkja hafi í för með sér aukna umferð sem erfitt verði að stýra.  Á skipulagsuppdrættinum er greinargerð sem lýsir markmiðum skipulagsbreytingarinnar, gerð er grein fyrir afmörkun svæðisins, skipulagsskilmálum, nýtingarhlutfalli og útfærslu fyrirhugaðra bygginga, bílastæða og aðkomu að svæðinu.  Verður ekki annað séð en að framsetning skipulagsuppdráttar og greinargerðar sé nægjanlega skýr með hliðsjón af 4. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og gr. 5.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Að auki verður ekki annað af málsgögnum ráðið en að skipulagsyfirvöld hafi við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar kannað nægilega áhrif skipulagsbreytingarinnar með tilliti til umferðar um svæðið.  Verður hin kærða ákvörðun því ekki felld úr gildi vegna ágalla á undirbúningi eða framsetningu hennar.

Með hinni kærðu ákvörðun var gerð breyting á deiliskipulagi er tók gildi á árinu 2000.  Almennt verður að gjalda varhug við því að gera miklar breytingar á nýlega samþykktu deiliskipulagi enda má ætla að þeir er hagsmuna eigi að gæta hafi væntingar til þess að því verði ekki breytt þannig að gengið sé gegn hagsmunum þeirra.  Eigi að síður verður að telja að skipulagsyfirvöldum borgarinnar hafi verið heimilt að samþykkja hinar umdeildu skipulagsbreytingar eins og hér stóð á, enda var svæði það sem um ræðir skilgreint þéttingarsvæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Verður og að líta til þess að hafi kærandi sannanlega orðið fyrir fjárhagslegu tjóni við gildistöku skipulagsins er honum tryggður réttur til skaðabóta samkvæmt 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hins kærða deiliskipulags.

Kærandi gerir og kröfu um að úrskurðarnefndin breyti hinni kærðu ákvörðun þannig að umferð og aðkomu að svæði því er um ræðir verði breytt ásamt því að hæð fjölbýlishúsa verði lækkuð.  Í þessari kröfu felst að úrskurðarnefndin taki skipulagsákvörðun en til þessa er nefndin ekki bær og verður þessum kröfulið því vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tímafrekrar gagnaöflunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu samþykktar skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 26. janúar 2005 um breytt deiliskipulag Sóltúns-Ármannsreits.       

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kæranda um að hinni kærðu ákvörðun verði breytt.  

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                         Geirharður Þorsteinsson