Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

44/2008 Urðarmói

Ár 2008, þriðjudaginn 15. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 44/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að endurnýja leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6, Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. júlí 2008, er barst nefndinni næsta dag, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. M og S, lóðarhafa Urðarmóa 10 og A og B, lóðarhafa Urðarmóa 12, Selfossi, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að endurnýja leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6.  Bæjarráð staðfesti greinda ákvörðun 27. sama mánaðar. 

Kærendur krefjast þess að byggingarframkvæmdir á lóðinni að Urðarmóa 6 verði stöðvaðar þar til efnisúrskurður hafi verið kveðinn upp um lögmæti byggingarleyfisins.  Þá er þess jafnframt krafist að leyfi, sem samþykkt hafi verið til byggingar á umræddri lóð, verði fellt úr gildi og að leyfishafa verði gert að afmá framkvæmdir á lóðinni. 

Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda, en hinn 6. maí 2008 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 14. febrúar 2008 um að heimila byggingu einbýlishúss á lóðinni nr. 6 við Urðarmóa.  Niðurstaða nefndarinnar var á því byggð að byggingarleyfið færi í bága við gildandi deiliskipulag umrædds svæðis en veitt hafði verið heimild til byggingar einbýlishúss með 42° þakhalla en samkvæmt skipulagi svæðisins mátti þakhalli einungis vera 14° til 25°.  Hafði því eigi verið gætt lagaskilyrða 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við útgáfu leyfisins og það þar að leiðandi fellt úr gildi. 

Í kjölfar úrskurðarins var hinn 8. maí 2008 birt auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um breytt deiliskipulag umræddrar lóðar í þá veru að heimilt væri að hafa á lóðinni hús með 42° þakhalla.  Lögð var fram umsókn um endurnýjun á byggingarleyfi á lóðinni að Urðarmóa 6 á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar hinn 12. júní 2008 og var hún samþykkt.  Staðfesti bæjarráð þá fundargerð á fundi sínum 27. júní s.á. 

Kærendur hafa nú skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir hafi jafnframt kært til úrskurðarnefndarinnar breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Urðarmóa 6.  Velti gildi byggingarleyfisins á gildi þeirrar breytingar og verði breytingin felld úr gildi leiði það til þess að fella beri hið kærða byggingarleyfi úr gildi. 

Húsið á lóðinni nr. 6 við Urðarmóa hafi verið reist í andstöðu við gildandi deiliskipulag.  Óheimilt sé samkvæmt 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Hafi framkvæmdum verið haldið áfram þrátt fyrir úrskurð nefndarinnar frá 6. maí sl. og húsið ekki fjarlægt. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur kærandi krafist þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan mál er til meðferðar fyrir nefndinni.  Er ákvæðinu ætlað að gera nefndinni kleift að tryggja að réttarstöðu aðila verði ekki breytt til muna meðan mál er þar til meðferðar án þess að afstaða hafi verið tekin til efnis máls. 

Í máli þessu liggur fyrir að einbýlishús það, sem hin kærða samþykkt heimilar, er risið og byggingu þess langt komið.  Verður ekki séð að stöðvun framkvæmda hafi hér eftir neina sérstaka þýðingu með tilliti til hagsmuna kærenda, enda verða allar framkvæmdir við umrædda byggingu að teljast unnar á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan kærumál um lögmæti byggingarleyfisins er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við byggingu einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6, Selfossi, skuli stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                    ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                     Þorsteinn Þorsteinsson