Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

45/2008 Hvammur

Ár 2008, miðvikudaginn 6. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 45/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 3. júní 2008 um að veita stöðuleyfi til eins árs fyrir tveimur færanlegum kennslustofum við leikskólann Hvamm í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kæra G, Staðarhvammi 3, H og S, Staðarhvammi 5, G og H, Staðarhvammi 7, A og M, Staðarhvammi 9, S, Staðarhvammi 11, J og J, Staðarhvammi 17, H og G, Staðarhvammi 19 og Þ, K og H, Staðarhvammi 21, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 3. júní 2008 að veita stöðuleyfi til eins árs fyrir tveimur færanlegum kennslustofum við leikskólann Hvamm í Hafnarfirði.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, gera 10 af ofangreindum kærendum þá kröfu að úrskurðarnefndin stöðvi umdeildar framkvæmdir til bráðabirgða á meðan málið sé til meðferðar hjá nefndinni.  Verður stöðvunarkrafan nú tekin til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Á fundi framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar 2. maí 2008 var tekið fyrir erindi vegna færanlegra húsa við leikskólann Hvamm við Jófríðarstaðatún í Hafnarfirði samkvæmt fyrirliggjandi uppdrætti.  Lagði ráðið fyrir að óskað yrði eftir samþykki skipulags- og byggingarráðs bæjarins fyrir stöðuleyfi vegna húsanna og umferðar- og bílastæðamál á svæðinu yrðu skoðuð sérstaklega. 

Haldinn var kynningarfundur með íbúum 14. maí 2008 og málið síðan tekið fyrir í skipulags- og byggingarráði 20. sama mánaðar.  Féllst ráðið ekki á fyrirhugaða staðsetningu húsanna, þar sem þau yrðu innan hverfisverndaðs svæðis, en fallist var á staðsetningu þeirra norðar og austar, utan hverfisverndaða svæðisins.  Nýr uppdráttur, dags. 29. maí 2008, var lagður fyrir skipulags- og byggingarráð 3. júní sem samþykkti umbeðið stöðuleyfi til eins árs en að þeim tíma liðnum skyldu mannvirkin fjarlægð og svæðið fært í fyrra horf.  Munu framkvæmdir hafa hafist hinn 8. júlí 2008. 

Í kjölfar þess barst bæjaryfirvöldum bréf frá Fornleifavernd ríkisins, þar sem gerð var athugasemd við að raskað hefði verið fornleifum þegar umræddum bráðabirgðakennslustofum hefði verið komið fyrir.  Um væri að ræða traðir milli bæjarstæðis Jófríðarstaðabæjarins og tófta af útihúsum á Lambhúsahæð.  Var gerð krafa um stöðvun framkvæmda þar til rannsókn á málinu væri lokið. 

Fyrrgreint stöðuleyfi var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarráðs bæjarins hinn 22. júlí sl. og var þar m.a. gerð eftirfarandi bókun: 

„Skipulags- og byggingarráð ítrekar bókun sína frá 03.06.2008 að stöðuleyfi er aðeins veitt til eins árs, og að þeim tíma liðnum skulu mannvirkin fjarlægð og gengið frá svæðinu í sama ástandi og nú er.  Skipulags- og byggingarráð samþykkir að fela skipulags- og byggingarsviði og framkvæmdasviði að kynna fyrir íbúum minnisblað Línuhönnunar dags. 14.07.2008 um úrbætur umferðarmála í Staðarhvammi.  Skipulags- og byggingarráð felur skipulags- og byggingarsviði að ljúka máli varðandi fornleifar í samráði við Byggðasafn og Fornleifavernd ríkisins.  Þar til því máli er lokið og niðurstaða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála varðandi stöðvun framkvæmda liggur fyrir, leggur skipulags- og byggingarráð til að öllum framkvæmdum við færanlegar kennslustofur við leikskólann verði frestað.“

Kærendur benda á að þeir hafi mótmælt umdeildri stækkun leikskólans.  Aðkoma að leikskólanum sé erfið og um íbúðargötu þeirra, en búast megi við aukinni umferð, m.a. stærri bíla, vegna stækkunarinnar.  Umdeildar framkvæmdir, sem séu utan lóðar leikskólans, geti ekki stuðst við stöðuleyfi samkvæmt gr. 71.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, þar sem um sé að ræða færanlegar kennslustofur en ekki gáma.  Til framkvæmdanna þurfi byggingarleyfi sem ekki liggi fyrir.  Samkvæmt byggingarreglugerð hefði átt að grenndarkynna hina breyttu tillögu að stækkun umrædds húsnæðis og breyta lóðaskipulagi með formlegum hætti með tilliti til staðsetningar húsanna.  Umdeildar framkvæmdir brjóti í bága við gildandi deiliskipulag svæðisins og beri því að stöðva þær nú þegar. 

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er bent á að umræddar framkvæmdir, sem séu á vegum framkvæmdasviðs Hafnarfjarðar, hafi verið á lokastigi um það leyti er stöðvunarkrafa barst úrskurðarnefndinni.  Húsin séu risin og verið sé að ljúka vinnu utanhúss.  Aðeins sé eftir að tengja skolplögn og rafmagn við húsin og vinna innanhúss.  Búið sé að innrita 40 börn og ráða 10 starfsmenn vegna hins nýja bráðabirgðahúsnæðis, sem áætlað sé að verði tekið í notkun um eða eftir miðjan ágúst nk. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur kærandi krafist þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan mál er fyrir nefndinni.  Er ákvæðinu ætlað að gera nefndinni kleift að tryggja að réttarstöðu aðila verði ekki breytt til muna meðan mál er þar til meðferðar án þess að afstaða hafi verið tekin til efnisatriða. 

Fyrir liggur að bráðabirgðahúsnæði það sem um er deilt í máli þessu er risið og frágangi þess að ljúka.  Verður ekki séð að stöðvun framkvæmda hafi hér eftir neina sérstaka þýðingu með tilliti til hagsmuna kærenda, enda verða allar framkvæmdir við umrædda byggingu að teljast unnar á ábyrgð og áhættu leyfishafa meðan kærumál um lögmæti heimilaðra framkvæmda er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða stöðuleyfi.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                          ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir