Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

120/2007 Lækjarbotnar

Ár 2008, þriðjudaginn 15. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 120/2007, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 7. ágúst 2007 um að synja umsókn um leyfi til að byggja við og breyta sumarbústað á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnalandi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. september 2007, er barst úrskurðarnefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Þ, Bræðraborgarstíg 21b, Reykjavík, eigandi sumarbústaðar á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnalandi í Kópavogi, synjun skipulagsnefndar frá 7. ágúst 2007 á umsókn um  leyfi til að byggja við og breyta núverandi sumarbústað á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnalandi. 

Kærandi krefst þess að hin kærða synjun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Árið 2002 var auglýst tillaga að deiliskipulagi lóðanna nr. 40 og 43 í landi Lækjarbotna.  Í tillögunni sagði að í henni fælist m.a. heimild til að byggja við núverandi sumarbústað í Lækjarbotnalandi 40.  Var tillagan samþykkt og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 15. janúar 2003. 

Með umsókn um byggingarleyfi, dags. 1. september 2006, óskaði kærandi eftir heimild til að byggja við og breyta núverandi sumarbústað á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnum.  Var umsókn hans vísað til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu, sbr. bréf byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 7. september 2006.  Var umsóknin lögð fram á fundi skipulagsnefndar hinn 19. september 2006 og erindinu frestað.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 3. október s.á. var erindið lagt fram að nýju og óskað eftir umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs.  Á fundi hinn 17. október 2006 var umsókninni hafnað þar sem hún var ekki talin vera í samræmi við gildandi skipulag.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 7. ágúst 2007 var erindið enn lagt fram ásamt bréfi kæranda.  Skipulagsnefnd hafnaði erindinu með vísan til samþykktar bæjarráðs frá 26. júlí 2007 þess efnis að ekki væri fyrirhugað að framlengja lóðarleigusamningum í Lækjarbotnum þegar þeir rynnu út. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnalandi hafi verið sumarbústaður allar götur frá árinu 1935 og hafi kærandi eignast hann árið 1984.  Kópavogsbær hafi á sínum tíma samþykkt kaupin og framlengt leigusamningnum tvívegis síðan þá, í seinna skiptið árið 1994 til ársins 2010.  Þá hafi Kópavogsbær tvívegis heimilað stækkun lands til skógræktar.  Árið 1985 hafi byggingarnefnd veitt heimild til viðbótarbyggingar á elsta hluta bústaðarins sem þá hafi verið hruninn.  Þá hafi skipulagsnefnd í október 2002 veitt heimild til endurbyggingar og/eða viðbótabyggingar þess hluta gamla bústaðarins sem ekki hafi verið endurnýjaður árið 1985.  Fram hafi komið að tekið hafi verið tillit til stækkunarbeiðninnar við útfærslu nýs deiliskipulags.  Kærandi hafi þá ekki haft tök á að byggja samkvæmt heimildinni sem hafi verið fyrirvaralaus, bæði skipulagslega og tímalega.  Nú hagi svo til að þak þessa hluta sé illa farið vegna snjóþyngsla á síðasta áratugi liðinnar aldar ásamt því að endurgera þurfi þakið og einn vegg bústaðarins. 

Í ágúst 2006 hafi kærandi sent inn teikningar að endurbyggingu sumarbústaðarins ásamt lítilsháttar stækkun hans.  Teikning þessi hafi af skipulagsyfirvöldum verið túlkuð sem útfærsla skipulags og því haldið fram að með teikningunni væri farið væri út fyrir heimildir deiliskipulags um 1,9 metra.  Að mati kæranda sé um fyrirslátt að ræða enda hafi á árinu 2002 verið samþykkt deiliskipulag þar sem gert hafi verið ráð fyrir endurbyggingu sumarbústaðar hans ásamt viðbyggingu við hann. 

Bent sé á að hinn 3. október 2006 hafi erindi kæranda verið tekið fyrir að nýju í skipulagsnefnd og því vísað til umsagnar skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs.  Málinu hafi aldrei verið vísað til byggingarnefndar heldur í allt annan farveg. 

Af hálfu kæranda er því haldið fram að gróflega hafi verið brotið á áður samþykktum skilyrðislausum rétti hans til að endurreisa gamla og leka byggingu og bæta eilítið við hana. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er því haldið fram að afstaða skipulagsnefndar frá 7. ágúst 2007 sé ekki kæranleg stjórnvaldsákvörðun þar sem með henni sé nefndin að ítreka fyrri afstöðu og vísi til eldri ákvörðunar í málinu.  Sé því ekki um sjálfstæða stjórnvaldsákvörðun að ræða og beri af þeim sökum að vísa kærumálinu frá úrskurðarnefndinni. 

Verði ekki fallist á framangreint sé bent á að lóðarréttindi kæranda byggi á lóðarleigusamningi sem gerður hafi verið hinn 7. nóvember 1994.  Samkvæmt samningnum sé lóðin leigð til 1. maí 2010.  Í 9. gr. hans segi svo:  „Vilji landeigandi ekki að loknum leigutímanum, með nýjum leigusamningi, endurnýja hann, skal leigutaki fjarlægja mannvirki þau, er á landinu standa Kópavogskaupstað að kostnaðarlausu.“ 

Ákvörðun Kópavogsbæjar um að synja umsókn kæranda byggi m.a. á því að sveitarfélagið hyggist ekki endurnýja lóðarleigusamninga í Lækjarbotnum að leigutíma loknum, en langflestir samningar á jörðinni séu útrunnir eða renni út þann 1. maí 2010.  Ástæða þess sé sú að gert sé ráð fyrir breytingum á landnotkun á jörðinni. 

Í ljósi þessa sé afstaða Kópavogsbæjar sú að ekki verði veitt frekari leyfi fyrir varanlegum mannvirkjum á svæðinu.  Byggi sú ákvörðun m.a. á framangreindu ákvæði leigusamnings, sem sé staðlað og að finna í öllum samningum. 

Ákvörðun Kópavogsbæjar byggi því annars vegar á því að umsókn kæranda sé ekki í samræmi við skipulagsáætlun og landnotkun sem fyrirhuguð sé á svæðinu, auk þess að réttindi kæranda geri ekki ráð fyrir varanlegum mannvirkjum á lóðinni, líkt og sótt hafi verið um. 

Niðurstaða:  Í máli því er hér er til úrlausnar er kærð sú ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja við og breyta núverandi sumarbústað á lóðinni nr. 40 í landi Lækjarbotna.  Krefst Kópavogsbær frávísunar málsins þar sem í erindi kæranda felist aðeins beiðni um afgreiðslu erindis er skipulagsyfirvöld hafi áður tekið afstöðu til.  Á þetta verður ekki fallist enda var hin kærða ákvörðun studd nýjum rökum og var kæranda bent á kærurétt og kærustjórnvald er honum var tilkynnt um ákvörðunina.  Verður því að líta svo á að um nýja ákvörðun hafi verið að ræða, sem ekki verði vísað frá á þeim grundvelli sem frávísunarkrafa bæjaryfirvalda byggist á. 

Fyrir liggur að byggingarfulltrúi vísaði umsókn kæranda um byggingarleyfi til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Virðist skipulagsnefnd hafa tekið til skoðunar hvort erindið samræmdist ófullkomnu deiliskipulagi sem skipulagsyfirvöld munu hafa sett á árinu 2003 fyrir tvær lóðir á umræddu svæði, þrátt fyrir ákvæði gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, en í deiliskipulagi þessu skortir auk þess á að kveðið sé á um stærðir byggingarreita, fjarlægðir frá lóðamörkum og ýmsar aðrar nauðsynlegar forsendur til túlkunar þess.  Lauk nefndin síðar málinu með hinni kærðu ákvörðun án þess að það kæmi til frekari umfjöllunar af hálfu byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar. 

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fjalla byggingarnefndir um umsóknir um byggingarleyfi sem berast og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Heimilt er, með sérstakri samþykkt er ráðherra staðfestir, að fela byggingarfulltrúa afgreiðslu umsókna um byggingarleyfi en hvergi er stoð fyrir því í lögum að skipulagsnefnd sé bær til þess að afgreiða mál sem eiga undir byggingarnefnd eða byggingarfulltrúa.  Það var því ekki á færi skipulagsnefndar að taka umsókn kæranda til meðferðar svo sem hún þó gerði.  Fór nefndin þannig út fyrir valdmörk sín er hún synjaði umsókninni. 

Að auki liggur fyrir að engin afstaða var tekin til þess hvort synja ætti erindi kæranda eða samþykkja það er fundargerð skipulagsnefndar frá 7. ágúst 2007 var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 16. ágúst 2007.  Þá verður heldur ekki séð að bæjarstjórn hafi fjallað um erindið.  Verður ákvörðun skipulagsnefndar því ekki talin hafa hlotið staðfestingu bæjarráðs eða bæjarstjórnar og var því ekki bundinn endi á meðferð máls með hinni kærðu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Sætir hin kærða ákvörðun því ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar og eru af þeim sökum ekki efni til að taka afstöðu til lögmætis hennar eða til þess hvort hún hafi haft einhverja þýðingu við afgreiðslu á erindi kæranda. 

Samkvæmt framansögðu hefur erindi kæranda um heimild til að byggja við og breyta núverandi sumarbústað á lóðinni nr. 40 í landi Lækjarbotna ekki hlotið rétta meðferð bæjaryfirvalda og liggur ekki fyrir í málinu lögmæt ákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Ber af þeim sökum að vísa kærumáli þessu frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  _______________________________
         Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson