Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

55/2007 Lindir IV

Ár 2008, fimmtudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2007, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. febrúar 2007 um deiliskipulag fyrir Lindir IV, Skógarlind nr. 1 og 2, og á samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. ágúst 2007 um breytt deiliskipulag fyrir sama svæði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. júní 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir P, Krossalind 35, Kópavogi, samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. febrúar 2007 um deiliskipulag fyrir Lindir IV.  Kærandi hefur jafnframt með bréfi, dags. 2. nóvember 2007, er barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, kært breytingu sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 28. ágúst 2007 á ofangreindu skipulagi.  Þykir ekkert standa því í vegi að það kærumál, sem er nr. 149/2007, verði sameinað máli þessu.  Eru málin því sameinuð.

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Málavextir og málsrök:  Hinn 19. júlí 2005 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Lindir IV.  Í auglýsingu um tillöguna kom m.a. fram að á umræddu svæði, sem afmarkast af Reykjanesbraut í vestur og norður, Lindarvegi í austur og Fífuhvammsvegi í suður, væri gert ráð fyrir nýju verslunar- og þjónustusvæði og að breytingar yrðu gerðar á umferðarmannvirkjum á svæðinu.

Annars vegar væri um að ræða eins til þriggja hæða byggingu meðfram Lindarvegi, sem áætluð væri um 15.500 m² að flatarmáli.  Við húsið væri gert ráð fyrir 460 bílastæðum og hluti þeirra, eða um 180 stæði, fyrirhuguð á þaki hússins með aðkomu frá Lindarvegi.  Hins vegar væri gert ráð fyrir byggingu meðfram Fífuhvammsvegi sem væri ráðgerð þrjár hæðir auk kjallara, samtals um 9.500 m² að flatarmáli.  Áætluð væru 315 bílastæði við húsið, að stærstum hluta í tveggja hæða bílgeymslu. 

Aðkoma að svæðinu væri fyrirhuguð frá Lindarvegi í austri og af tengirampa milli Fífuhvammsvegar og Reykjanesbrautar úr vestri.  Einnig yrði gert ráð fyrir nýjum akfærum undirgöngum undir Reykjanesbraut sem tengja myndu Dalveg og Lindir IV.  Þá væri gert ráð fyrir nýju hringtorgi á gatnamótum Núpalindar og Lindarvegar og breikkun Lindarvegar milli þess og Fífuhvammsvegs. 

Kom kærandi máls þessa á framfæri athugasemdum við tillöguna.  Málið var til meðferðar hjá bæjaryfirvöldum næsta árið og á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 28. febrúar 2006 var tillagan samþykkt að hluta.

Hinn 13. febrúar 2007 var tillaga að deiliskipulagi fyrir Lindir IV, Skógarlind nr. 1 og 2, með nýrri útfærslu vegtenginga samþykkt á fundi bæjarstjórnar Kópavogs ásamt umsögn bæjarskipulags og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. maí s.á.

Stuttu síðar, eða hinn 12. júní 2007, var á fundi bæjarstjórnar Kópavogs samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir Lindir IV og gerði kærandi máls þessa athugasemdir við tillöguna.  Að loknum kynningartíma var málið tekið fyrir að nýju á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 28. ágúst 2007 og var tillaga að breyttu deiliskipulagi samþykkt.

Fól tillagan m.a. í sér að lóðinni yrði skipt upp í tvær lóðir og yrði heildarlóðarstærð 4,5 ha, þ.e. lóð Skógarlindar 1 yrði 1,4 ha og lóð Skógarlindar 2 yrði 3,1 ha. Heildarbyggingarmagn yrði 27.200 m² í stað 25.000 m².  Nýtingarhlutfall yrði 0,6.  Bílastæði er ráðgerð höfðu verið á þaki byggingar Skógarlindar 2 með aðkomu frá Lindarvegi yrðu felld út ásamt aðkomuleiðum og þeim komið fyrir að vestanverðu við bygginguna.  Fyrirhuguð bygging yrði eins að formi til með mestu hæð útveggjar til vesturs allt að 12 metra.  Þak skyldi hallast niður til austurs.  Hæðarskilum í norðurenda hússins yrði breytt.  Þá var jafnframt gert ráð fyrir að á lóðinni að Skógarlind 1 yrði heimilt að nota kjallararými undir atvinnustarfsemi.

Auglýsing um gildistöku hins breytta deiliskipulags birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 4. október 2007.

Framangreindum samþykktum bæjarstjórnar hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Kærandi vísar m.a. til þess að við gerð umrædds deiliskipulags hafi ekki verið haft samráð við íbúa svæðisins og að svörum skipulagsnefndar við framkomnum athugasemdum kæranda hafi verið ábótavant.  Umrætt skipulagssvæði beri ekki fyrirhugað byggingarmagn og umferðarmannvirki sveitarfélagsins muni ekki anna þeirri aukningu á umferð sem því muni fylgja, enda hafi við hönnun þeirra verið byggt á þeim forsendum að umferð yrði mun minni um svæðið en nú sé reiknað með.

Af hálfu Kópavogsbæjar er aðallega krafist frávísunar málsins.  Í fyrsta lagi með vísan til þess að frestur til að skila inn kæru til úrskurðarnefndarinnar hafi verið liðinn er kæra barst nefndinni.  Kærufrestur sé einn mánuðir frá því að kæranda hafi orðið kunnugt um þá samþykkt sem hann kæri.  Deiliskipulagið hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 21. maí 2007 en kæra hafi borist rúmum mánuði síðar eða þann 25. júní s.á.

Í öðru lagi byggi frávísunarkrafa á því að kærandi eigi hvorki einstaklegra né verulegra hagsmuna að gæta varðandi deiliskipulag fyrir Lindir IV.  Breytingin feli hvorki í sér veruleg né óveruleg grenndaráhrif fyrir kæranda og leiði ekki til skuggamyndunar, sjónmengunar, útsýnisskerðingar, né annars ónæðis eða skerðingar á beinum hagsmunum kæranda.  Athugasemdir kæranda beinist aðallega að umferðarmálum en fullt samráð hafi verið haft við Vegagerðina.

Til vara sé þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.  Hið kærða deiliskipulag sé í fullu samræmi við gildandi Aðalskipulag Kópavogs 2000-2012 en þar sé umrætt svæði skipulagt sem verslunar- og þjónustusvæði.  Sé byggingarmagn sem og nýting lóðar í samræmi við aðalskipulag og nýtingu á aðliggjandi lóðum.

Niðurstaða:  Kærandi máls þessa er búsettur að Krossalind 35 í Kópavogi.  Frá húsi hans og að svæði því er um er deilt í máli þessu eru um 500 metrar.  Húsið er parhús og er afstaða þess til skipulagssvæðisins þannig að lítilla sjónrænna áhrifa gætir á lóð hans af mannvirkjum þar.

Byggir kærandi málatilbúnað sinn að efni til fyrst og fremst á skipulagslegum atriðum, svo sem að umrætt svæði þoli ekki heimilað byggingarmagn samkvæmt skipulagi eða þá umferðaraukningu sem vænta megi af þeim sökum.

Deiliskipulagstillögur og tillögur um breytingar á deiliskipulagi skulu auglýstar til kynningar og geta þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta komið að ábendingum og athugasemdum við auglýsta tillögu samkvæmt 25. gr. og 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr., skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Geta aðilar í þeim tilvikum eftir atvikum byggt athugasemdir sínar á almennum hagsmunum íbúa svæðis eða sveitarfélags.  Aðild að stjórnsýslukæru hefur hins vegar að stjórnsýslurétti verið talin bundin við þá aðila sem teljast eiga einstaklega og verulega hagsmuni tengda tiltekinni stjórnvaldsákvörðun.  Hefur og verið áréttað í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að kæruaðild sé háð því að kærandi eigi lögvara hagsmuni af úrlausn máls.

Úrskurðarnefndin telur að kærandi eigi ekki einstaklegra eða verulegra hagsmuna að gæta hvað varðar uppbyggingu á Lindum IV.  Telur nefndin ljóst að deiliskipulagið skerði ekki útsýni eða hafi í för með sér svo verulegar breytingar á umferð eða áhrif á umhverfi kæranda að það geti snert lögvarða hagsmuni hans þegar miðað er við staðsetningu húss hans og afstöðu þess til bygginga þeirra er heimilaðar eru samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi.  Þar sem kærandi telst samkvæmt framansögðu ekki eiga slíka hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið sem áskilið er, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________      _______________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson