Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

31/2008 Hólmsheiði

Ár 2008, fimmtudaginn 24. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 31/2008, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 16. apríl 2008 um að veita framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. maí 2008, er barst nefndinni næsta dag, kærir Guðbjarni Eggertsson hdl., f.h. Þ, eiganda landspildu í landi Reynisvatns, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 16. apríl 2008 að veita framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði á grundvelli deiliskipulags sem samþykkt var í borgarráði hinn 15. nóvember 2007 og birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 29. nóvember s.á. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú tækt til endanlegs úrskurðar og verður því ekki fjallað um stöðvun framkvæmda í sérstökum úrskurði. 

Málavextir:  Á árinu 2001 beindi gatnamálastjóri erindi til skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um nýtingu jarðvegs sem til félli í borgarlandinu til landmótunar á Hólmsheiði, skammt austan og sunnan við heitavatnsgeyma Orkuveitu Reykjavíkur á svæðinu.  Samþykkti borgarráð í kjölfar þessa deiliskipulag 20 ha landsvæðis á Hólmsheiði er heimilaði losun allt að 1,5 milljón m³ jarðvegs á fyrrgreindum stað. 

Á fundi umhverfis- og heilbrigðisnefndar 8. mars 2001 var fært til bókar að nefndin féllist á fyrirhugaða landmótun á Hólmsheiði með þeim skilyrðum m.a. að jarðvegsefni sem fyrirhugað væri að nota væru hrein og ómenguð af mannavöldum og að uppgræðsla landmótunarsvæðisins hæfist eins fljótt og kostur væri.  Var fundargerðin lögð fram á fundi borgarráðs 20. mars 2001. 

Hinn 13. júní 2007 tók skipulagsráð fyrir tillögu að deiliskipulagi hluta Hólmsheiðar.  Var um að ræða 12 ha stækkun til suðurs á svæði því er áður hafði verði deiliskipulagt vegna jarðvegsfyllingar og yrði heimilað að urða svæðinu 2,5 milljónir m³ jarðvegs til viðbótar.  Var samþykkt að auglýsa tillöguna.  Athugasemdir bárust, m.a. frá kæranda.  Á fundi ráðsins hinn 7. nóvember 2007, að lokinni auglýsingu, var tillagan lögð fram að nýju ásamt m.a. uppdrætti svæðisins og svörum við athugasemdum.  Var eftirfarandi fært til bókar:  ,,Samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulags- og byggingarsviðs.  Vísað til borgarráðs.“ 

Afgreiðsla skipulagsráðs var staðfest á fundi borgarráðs hinn 15. nóvember 2007.  Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi, dags. 22. nóvember 2007, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þegar uppdráttur yrði leiðréttur.  Birtist auglýsing hinn 29. nóvember 2007.  Var samþykkt skipulagsráðs, um deiliskipulag fyrir Hólmsheiði, kærð til úrskurðarnefndarinnar. 

Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkurborgar hinn 16. apríl 2008 var lögð fram umsókn framkvæmdasviðs, dags. 15. apríl 2008, þar sem farið var fram á að veitt yrði framkvæmdaleyfi á grundvelli fyrrgreinds skipulags.  Var umsóknin samþykkt með vísan til c-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð. 

Hefur kærandi skotið ákvörðun skipulagsráðs frá 16. apríl 2008 til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að gefið hafi verið út framkvæmdaleyfi á grundvelli deiliskipulags sem sé ólögmætt og því beri að fella leyfið úr gildi. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að afgreiðsla skipulagsráðs verði staðfest enda hafi ekkert fram komið í málinu sem leitt geti til ógildingar þeirrar ákvörðunar.  Vísar borgin í því sambandi til greinargerðar sinnar vegna framkominnar kæru á deiliskipulaginu þar sem þess sé krafist að ákvörðun borgarráðs frá 15. nóvember 2007 standi óhögguð. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er krafa kæranda um ógildingu hins umdeilda framkvæmdaleyfis studd þeim rökum að leyfið byggist á deiliskipulagi sem sé ólögmætt og hafi verið kært til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar.  Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði fyrr í dag fallist á kröfu kæranda um ógildingu umrædds deiliskipulags.  Á leyfið því ekki stoð í skipulagi, sbr. 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og verður það af þeim sökum fellt úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 16. apríl 2008, um að veita framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði, er felld úr gildi. 

 

_________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________    ____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson