Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

27/2006 Heiðargerði

Ár 2008, fimmtudaginn 24. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 27/2006, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 15. mars 2006 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreits vegna lóðarinnar að Heiðargerði 76. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. apríl 2006, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Marteinn Másson hrl., f.h. G, Heiðargerði 76, Reykjavík, þá samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 15. mars 2006 að synja um breytingu á deiliskipulagi svokallaðs Heiðargerðisreits vegna lóðarinnar að Heiðargerði 76. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir skipulagsráð að taka umsókn kæranda fyrir að nýju til löglegrar meðferðar og afgreiðslu.  Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin samþykki umsókn kæranda frá 18. janúar 2006 um breytingar á deiliskipulagi Heiðargerðisreits. 

Málavextir:  Mál þetta á sér langa forsögu.  Lóðinni nr. 76 við Heiðargerði í Reykjavík, sem er 480m² að flatarmáli, var úthlutað til byggingar smáíbúðar snemma árs 1952.  Sama ár veitti byggingarnefnd leyfi til að byggja á lóðinni 80m² einbýlishús með geymslurisi.  Ári síðar veitti byggingarnefnd leyfi fyrir kjallara undir húsinu og hækkun mænis um einn metra.  Jafnframt var þá veitt leyfi fyrir nokkurri hækkun aðalgólfplötu hússins.  Á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur árið 1954 var samþykkt portbygging á risi ásamt kvisti á norðurþaki og íbúð samþykkt í rishæðinni.  Á árunum 1962 og 1963 var veitt leyfi til að byggja 40m² bílgeymslu við húsið og til þess að byggja við og stækka verulega aðalhæð og kjallara hússins.  Eftir þessar breytingar á húsinu var heildarflatarmál þess orðið 343,1m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,71. 

Á árinu 1989 sótti eigandi eignarinnar um leyfi til þess að byggja ofan á áður samþykkta viðbyggingu við húsið og hækka gamla risið að hluta.  Þessi áform sættu andmælum nágranna og synjaði byggingarnefnd umsókninni á fundi sínum í ágúst 1989.  Var sú ákvörðun sérstaklega rökstudd síðar eftir að húseigandi hafði bréflega óskað rökstuðnings.  Ítrekaðri umsókn húseiganda um leyfi til svipaðra breytinga á húsinu var synjað í byggingarnefnd í apríl 1992.  Þá lagðist skipulagsnefnd gegn áformum húseiganda um slíkar breytingar á fundi í júlí 1994 og var umsókn hans um breytingarnar þá enn synjað.  Allar höfði þessar umsóknir húseigandans verið kynntar nágrönnum og höfðu þeir ætíð lýst sig mótfallna fyrirhuguðum framkvæmdum. 

Á árinu 1999 sótti eigandi hússins enn um leyfi til að hækka þak og byggja við.  Var erindið fyrst tekið fyrir á fundi byggingarnefndar í júlí 1999 og þá vísað til umsagnar skipulags- og umferðarnefndar.  Var málið eftir það til meðferðar hjá borgaryfirvöldum og fór grenndarkynning fram í febrúar og mars árið 2000.  Bárust allmargar athugasemdir frá nágrönnum á kynningartímanum.  Eftir að umsögn Borgarskipulags um framkomnar athugasemdir lá fyrir var málið tekið fyrir á ný á fundi skipulags- og umferðarnefndar og varð það niðurstaða nefndarinnar að hún gerði ekki athugasemd við að veitt yrði byggingarleyfi á grundvelli kynntra teikninga.  Með vísun til þessarar umsagnar samþykkti byggingarfulltrúi að veita umbeðið leyfi.  Var ákvörðun þessi staðfest á fundi borgarráðs.  Íbúar í næsta nágrenni vildu ekki una þessari niðurstöðu og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar sem felldi byggingarleyfið úr gildi með úrskurði, uppkveðnum hinn 10. nóvember árið 2000.  Málið kom til kasta dómstóla og var úrskurður úrskurðarnefndarinnar staðfestur með dómi Hæstaréttar hinn 20. september 2001. 

Á árinu 2003 var samþykkt deiliskipulag svokallaðs Heiðargerðisreits þar sem m.a. kemur fram að nýtingarhlutfall fyrir lóð kæranda sé 0,5.  Þó er tekið fram að miðað við samþykkt byggingarmagn, 343,1 m², sé nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,71 og verður skipulagið ekki skilið öðru vísi en svo að þær byggingar á lóðinni, sem skipulagið nær til, megi standa óraskaðar. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 25. janúar 2006 var lögð fram umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreits er varðaði lóðina að Heiðargerði 76.  Laut umsóknin að því að hækka hluta þaks og gera þrjá kvisti á eldra húsi.  Hefði þetta í för með sér stækkun um 6,6 m².  Á fundinum samþykkti skipulagsráð að grenndarkynna tillögu vegna þessa sem óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi með eftirfarandi bókun:  „Samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Heiðargerði 72, 74, 78, 80, 88, 90, 92 og 94. Ráðið leggur þó sérstaka áherslu á að gerðir eru allir fyrirvarar um endalega afstöðu til tillögunnar þar til hagsmunaaðilar hafa kynnt sér hana.“  Á fundi ráðsins 15. mars 2006, að lokinni grenndarkynningu, var erindið lagt fram að nýju en athugasemdir bárust frá íbúum að Heiðargerði 90, 92 og 94.  Jafnframt var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 15. mars 2006.  Skipulagsráð synjaði umsókninni með eftirfarandi bókun:  „Synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Ráðið felur byggingarfulltrúa að hlutast til um að óleyfisbyggingarmagn umfram heimildir í samþykktu deiliskipulagi verði fjarlægt af húsinu.“ 

Skaut kærandi ofangreindri synjun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að umsókn hans um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreitsins hafi verið í réttu og lögmætu formi og að umsókninni hafi fylgt fullnægjandi gögn til þess að hún hlyti lögmæta meðferð og afgreiðslu. 

Bent sé á þá sérstöðu sem lóðin að Heiðargerði 76 hafi, en í húsinu séu skráðar tvær samþykktar íbúðir.  Það sé því ekki einbýlishús heldur sambýlishús og hafi svo verið allt frá árinu 1954 þegar samþykkt hafi verið að tvær íbúðir yrðu í húsinu.  Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 hafi verið lagðar línur með nýtingarhlutfall lóða eftir húsagerð á hverri lóð.  Að því er sambýlishús varði hafi nýtingarhlutfallið verið ákveðið 0,4-0,8.  Húsið að Heiðargerði 76 hafi því verið fyllilega innan ramma nýtingarhlutfallsins, hvort sem nýtingarhlutfallið á lóðinni væri 0,71, 0,73 eða 0,77. 

Kærandi telji að það hafa verið ólögmæt aðgerð og ákvörðun af hálfu borgaryfirvalda að samþykkja og staðfesta deiliskipulagið fyrir Heiðargerðisreit árið 2003, þar sem nýtingarhlutfall hafi verið ákveðið 0,5 með vísun til þess að húsin á reitnum væru nær öll einbýlishús.  Hafi þannig verið gengið freklega gegn lögmætum réttindum og hagsmunum kæranda og annarra fasteignaeigenda þar sem nýtingarhlutfallið hafi allt í einu orðið of hátt vegna þess hvernig nýtingarhlutfallið hafi verið ákveðið í deiliskipulaginu.  Skyndilega hafi verið komið upp ólögmætt ástand, óþolandi fyrir skipulagsyfirvöld og fasteignaeigendur.  Kærandi telji að skipulagsyfirvöldum borgarinnar hafa verið skylt að leggja sitt af mörkum til að lagfæra ástandið að þessu leyti, að teknu tilliti til réttmætra hagsmuna hlutaðeigandi. 

Bent sé á að kærandi hafi áður sótt um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreitsins vegna lóðar sinnar.  Hinn 7. júlí 2004 hafi umsókn hans verið hafnað með vísan til umsagnar skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 24. júní 2004.  Í umsögninni hafi verið lagt til að umsókninni yrði synjað.  Annars vegar með vísan til andmæla nokkurra nágranna og hins vegar með vísan til þess að breytingin, ef samþykkt yrði, samræmdist ekki sjónarmiði um jafnræði borgaranna, þar sem hún hefði í för með sér hækkun á nýtingarhlutfalli lóðar, sem þegar væri með hærra nýtingarhlutfall en aðrar lóðir á reitnum.  Athyglisvert sé að breytingin hafi verið talin hafa óveruleg grenndaráhrif hvort sem litið væri til skuggavarps eða útsýnisskerðingar. 

Tekið sé fram að með umsókn um breytt deiliskipulag sé kærandi að leitast við að koma á lögmætu ástandi vegna lóðar sinnar, auk þess sem honum sé brýn nauðsyn á, vegna lekavandamála, að hafa þakið á húsinu með því lagi sem fylgigögn með umsókninni hafi gert ráð fyrir. 

Umsóknin frá 18. janúar 2006 hafi verið tekin til efnismeðferðar og grenndarkynnt.  Fyrir hafi legið að mjög margir íbúar á Heiðargerðisreitnum væru samþykkir breytingunum sem kærandi hafi sótt um, þar á meðal eigendur aðliggjandi lóða að Heiðargerði nr. 74 og 78.  Í grenndarkynningunni hafi aðeins komið fram athugasemdir frá eigendum þriggja lóða, sem allar liggi sunnan við Heiðargerði 76.  Á engri lóðanna gæti skuggavarps frá húsi kæranda og frá engri þeirra skerðist útsýni vegna breytinganna. 

Af tölvupósti fyrrverandi formanns skipulagsráðs, dags. 1. apríl 2006, megi ráða að skipulagsráð hefði samþykkt umsókn kæranda, hefðu engar athugasemdir borist frá nágrönnum.  Fái þetta stoð í þeirri ákvörðun ráðsins að senda umsóknina til grenndarkynningar.  Verði þessi orð formannsins ekki skilin á annan veg en þann að skipulagsráð hafi talið vera til staðar lagalegar og skipulagslegar forsendur fyrir samþykki umsóknarinnar.  Kærandi bendi á að kynning af því tagi, sem fram hafi farið í tilefni umsóknar hans, hafi ekki falið í sér einhvers konar neitunarvald eins eða fleiri nágranna gegn tillögu um deiliskipulagsbreytingu vegna Heiðargerðis 76, heldur einungis umsagnarrétt.  Af orðum fyrrverandi formanns skipulagsráðs verði þó ekki annað ráðið en að skipulagsráð hafi í raun ákveðið fyrirfram að einstaka fasteignaeigendur á Heiðargerðisreitnum hefðu neitunarvald að því er umsókn kæranda varði.  Slík ákvörðun eigi sér enga lagastoð og sé því með öllu ólögmæt. 

Bent sé á að í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. mars 2006, sem skipulagsráð hafi vísað til við afgreiðslu málsins, sé m.a. greint frá því að við kynningu á umsókn kæranda hafi komið fram athugasemdir frá eigendum lóðanna Heiðargerðis 90, 92 og 94.  Skipulagsfulltrúi hafi mælt með því að erindið yrði ekki samþykkt, m.a. með vísan til þessara athugasemda:  „… auk þeirra athugasemda og raka sem fram komu við fyrri málsmeðferð …“  Athugasemdirnar hafi m.a. lotið að því að gerð væri krafa um að dómi Hæstaréttar frá 20. desember 2001 yrði framfylgt og hafi þeir er athugasemdir hafi gert lýst furðu sinni á því að tillagan skyldi kynnt í ljósi dómsins og lýst þeirri skoðun að með henni væri verið að vanvirða réttinn.  Misskilnings virðist hafa gætt hjá eigendum Heiðargerðis 90, 92 og 94, um þýðingu hæstaréttardómsins fyrir þá umsókn kæranda sem kynnt hefði verið.  Viðbrögð borgaryfirvalda við dóminum hafi auðvitað verið þau að deiliskipuleggja Heiðargerðisreitinn.  Á grundvelli deiliskipulags svæðisins yrði síðan hægt að taka afstöðu til byggingarleyfisumsókna, hvort sem þær kæmu frá kæranda eða öðrum íbúum á svæðinu.  Fullkomlega sé heimilt að sækja um breytingar á deiliskipulagi og hafi niðurstaðan í dómsmálinu þar engin áhrif.  Kærandi telji með ólíkindum ef þessar athugasemdir hafi ráðið einhverju um afstöðu  skipulagsráðs þegar umsókninni hafi verið synjað, enda eigi borgaryfirvöld að vita betur um það hvaða þýðingu hæstaréttardómurinn hafi eða hafi ekki í málinu. 

Kærandi haldi því fram að svo lítt upplýsandi sjónarmið og illa ígrunduð geti ekki verið fullnægjandi, lögmætur grundvöllur að stjórnvaldsákvörðun.  Ríkari kröfur verði að gera til borgaryfirvalda um undirbúning og rannsókn máls og rökstuðning fyrir stjórnvaldsákvörðun.  Kærandi telji verulega hafa skort á þessi atriði í meðferð skipulagsráðs á umsókn hans og afgreiðslu. 

Kærandi telji jafnframt að vegna þess mikla vægis, sem umsagnir eigenda að Heiðargerði 90, 92 og 94 virðast hafa haft við ákvörðun skipulagsráðs um að synja umsókninni, bæði fyrirfram og eftir kynningu umsóknarinnar fyrir hagsmunaaðilum, hafi ráðinu borið að kynna honum þessar umsagnir og gefa kost á að gera við þær athugasemdir.  Kæranda hafi hvorki verið kunnugt um efni þessara umsagna né gefinn kostur á að andmæla þeim.  Þar sem hann hafi ekki fengið upplýsingar um mikilvæg gögn í málinu, og ekki fengið að tjá sig um þau áður en ákvörðun hafi verið tekin, beri að ógilda hina kærðu ákvörðun. 

Kærandi haldi því enn fremur fram að í hinni kærðu ákvörðun skipulagsráðs felist brot gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.  Regla þessi eigi sér m.a. stoð í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en hún hafi jafnframt mun víðtækara gildissvið en þar komi fram. 

Kærandi bendi á að hafi skipulagsráð talið vera fyrir hendi lagalegar og skipulagslegar forsendur fyrir því að samþykkja umsókn hans, eins og lesa megi úr orðum fyrrverandi formanns ráðsins, hafi því borið að samþykkja umsóknina nema veigamikil, málefnaleg rök stæðu því í vegi.  Engin slík rök hafi hins vegar komið fram í málinu, hvorki við grenndarkynningu né í umsögn skipulagsfulltrúa borgarinnar.  Raunar megi segja að þau rök sem þar sé teflt fram, þ.e. að gæta þurfi jafnræðis að því er nýtingarhlutfall varði, eigi ekki við í þessu tilviki vegna sérstöðu lóðar kæranda sem sambýlishúsalóðar. 

Kærandi bendi einnig á að meginsjónarmiðin að baki meðalhófsreglunni séu þau að stjórnvaldi sé ekki aðeins skylt að líta til þess markmiðs, sem stefnt sé að heldur beri því einnig að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra aðila, sem ákvarðanir stjórnvaldsins beinist að.  Hagsmunir kæranda í þessu samhengi séu augljósir.  Hagsmunir eigenda Heiðargerðis 90, 92 og 94 séu það hins vegar ekki.  Að minnsta kosti hafi engin grein verið gerð fyrir þeim.  Í þessu ljósi telji kærandi að skipulagsráð hafi ekki gætt að meðalhófsreglunni þegar ákvörðun hafi verið tekin um að synja umsókn hans.  Telji kærandi að af þeim sökum beri að ógilda ákvörðun ráðsins. 

Kærandi vísi, máli sínu til stuðnings, til grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins um rannsókn og undirbúning fyrir töku stjórnvaldsákvörðunar, upplýsinga- og andmælarétt málsaðila, jafnræði og meðalhóf, m.a. eins og þessar reglur birtist í stjórnsýslulögum nr. 37/1993.  Einnig sé vísað til eignarréttar og ráðstöfunarréttar kæranda á eign sinni, sem njóti verndar samkvæmt stjórnarskrá landsins. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið fram að óumdeilt sé að umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreits og fylgigögn með henni hafi verið í lögmætu horfi eins og kærandi haldi fram.  Þótt kærandi hafi uppfyllt formskilyrði varðandi uppsetningu og útlit uppdrátta og umsóknar hafi það að sjálfsögðu ekki sjálfkrafa í för með sér að sveitarfélaginu beri skylda til að samþykkja umsóknina.  Slík túlkun á ákvæðum skipulags- og byggingarlaga sé í andstöðu við ákvæði sveitarstjórnarlaga um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. 

Því sé vísað á bug að skráningarreglur um fasteignir og ákvæði Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 hafi nokkurt vægi í máli þessu, hvað þá yfirlýsing um að deiliskipulag Heiðargerðisreits sé ólögmætt.  Í skipulags- og byggingarlögum komi fram sú meginregla að allt landið sé deiliskipulagsskylt.  Í samræmi við þá meginreglu hafi Reykjavíkurborg ráðist í að vinna deiliskipulag reitsins, sem auglýst hafi verið og staðfest í samræmi við gildandi málsmeðferðarreglur, og hafi gildistaka þess verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.  Deiliskipulag Heiðargerðisreits hafi þar að auki verið kært á sínum tíma og hafi kærandi þá borið fyrir sig sömu röksemdir við meðferð þess máls og nú.  Í úrskurði í máli nr. 45/2003 hafi úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að skipulagsyfirvöldum hafi verið heimilt að ákveða nákvæmlega það nýtingarhlutfall innan reitsins sem talið hafi vera hæfilegt með hliðsjón af markmiðum skipulagsforsagnar og almennri stefnu nýs aðalskipulags Reykjavíkur um þéttleika byggðar.  Úrskurðarnefndin hafi einnig talið að ekki yrði annað ráðið en að málefnalegar ástæður hafi legið að baki ákvörðun borgaryfirvalda um nýtingarhlutfall í deiliskipulagi Heiðargerðisreits og að ákvarðanir skipulagsins fullnægðu lagaskilyrðum.  Úrskurðarnefndin hafi því ekki fallist á að ógilda bæri þá deiliskipulagsákvörðun og sé þess krafist af hálfu Reykjavíkurborgar að svo verði einnig nú. 

Ekki sé fallist á þær skýringar kæranda að skipulagsráð hafi ákveðið fyrirfram að nágrannar kæranda myndu hafa eins konar „neitunarvald“ eins og haldið sé fram.  Bent sé á að samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga sé það sveitarstjórn á hverjum stað sem fari með skipulagsvaldið.  Það hafi því verið réttur aðili samkvæmt lögum, skipulagsráð Reykjavíkur, sem tekið hafi við umsókn kæranda, ákveðið að um málsmeðferð skyldi fara samkvæmt 26. gr. skipulags- og byggingarlaga og synjað umsókninni með vísan til framlagðrar umsagnar skipulagsfulltrúa.  Yfirlýsingar fyrrverandi formanns skipulagsráðs í tölvupóstum til kæranda hafi enga þýðingu að því er varði málsmeðferðina auk þess sem því sé mótmælt nú sem órökstuddri fullyrðingu að synjunin hafi byggst á ólögmætum sjónarmiðum. 

Í ákvæðum skipulags- og byggingarlaga sé kveðið á um málsmeðferð eftir að sveitarstjórn hafi samþykkt að auglýsa eða grenndarkynna tillögu að deiliskipulagi, eða breytingu á því.  Í lögunum komi m.a. fram að taka skuli afstöðu til þess hvort breyta skuli skipulagstillögu vegna framkominna athugasemda.  Ekki sé kveðið á um að sú umsögn skuli kynnt hagsmunaaðilum sérstaklega en senda skuli þeim sem athugasemdir hafi gert umsögn sveitarstjórnar um þær eftir að hún hafi afgreitt tillöguna.  Því sé mótmælt að efni umsagnarinnar eða framkominna athugasemda hafi verið þess eðlis að Reykavíkurborg hafi borið einhver umframskylda til að kynna kæranda umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir svo sem kærandi haldi fram, enda sé slík málmeðferð ekki áskilin að lögum. 

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök kröfum sínum til stuðnings sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið grenndarkynntu skipulagsyfirvöld tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi svonefnds Heiðargerðisreits.  Laut tillagan að því að hækka hluta þaks og gera þrjá kvisti á eldra húsi  á lóðinni nr. 76 við Heiðargerði.  Fól tillagan í sér 6,6 m² stækkun húss, eða um tæp 2%, og samsvarandi hækkun nýtingarhlutfalls.  Verður að fallast á að breytingin hafi verið óveruleg. 

Skipulagsráð hafnaði tillögunni og synjaði umsókn kæranda um breytt skipulag með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Í umsögninni er greint frá því að fram hafi komið fjögur erindi með athugasemdum þar sem þeir er að þeim hafi staðið hafi lýst þeirri skoðun sinni að tillagan færi í bága við dóm Hæstaréttar í máli nr. 114/2001 frá 20. september 2001 og því væri ekki unnt að fallast á hana.  Hvergi er hins vegar vikið að því í þessum athugasemdum hvernig hin kynnta tillaga snerti einstaklega og lögvarða hagsmuni þeirra sem að þeim stóðu og ekki er í umsögn skipulagsfulltrúa tekin nein afstaða til réttmætis framkominna athugasemda en lagt til að erindinu verði synjað. 

Úrskurðarnefndin telur að ekki hafi verið rétt að leggja til grundvallar við úrlausn málsins sjónarmið um réttarvörslu og gæslu almannahagmuna sem birtust í framkomnum athugasemdum, enda var það ekki hlutverk þeirra sem að þeim stóðu að leggja mat á réttaráhrif tilvitnaðs Hæstaréttardóms eða hvort hann stæði í vegi fyrir samþykkt hinnar umdeildu tillögu.  Verður því ekki talið að umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið reist á málefnalegum grundvelli en hvergi er að því vikið að umdeild breyting hefði raskað einstaklegum hagsmunum þeirra er athugasemdirnar gerðu.  Var skipulagsráði því ekki rétt að leggja umsögn skipulagsfulltrúa til grundvallar við úrlausn málsins og verður að telja að bæði hafi skort á viðhlítandi rannsókn máls og rökstuðning er hin kærða ákvörðun var tekin. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 15. mars 2006, um að synja um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreits vegna lóðarinnar að Heiðargerði 76, er felld úr gildi. 

 

_________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________         ____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson