Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

70/2009 Barðastaðir

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 26. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 70/2009, kæra á gróðursetningu í landi Reykjavíkurborgar, norðan og vestan við hús nr. 61 við Barðastaði, breytingar á borgarlandi næst lóðum við hús nr. 61 og 63 við Barðastaði og hækkun lands. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. október 2009, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kærir Jóhannes Albert Sævarsson hrl., f.h. J og K, Barðastöðum 63, Reykjavík gróðursetningu í landi Reykjavíkurborgar, norðan og vestan við hús nr. 61 við Barðastaði, breytingar á borgarlandi næst lóðum við hús nr. 61 og 63 við Barðastaði og hækkun lands. 

Gera kærendur þá kröfu að Reykjavíkurborg verði gert skylt að færa allt land utan lóðarmarka Barðastaða 61 til upprunalegs horfs, að allur gróður verði fjarlægður og allt rask þar lagfært til samræmis við skipulag og skilmála fyrir Staðahverfi.  Þá er gerð krafa um að kærendum verði ákvarðaður málskostnaður. 

Málavextir og rök:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að nágrannar þeirra að Barðastöðum 61 hafi sett niður hávaxinn trjágróður utan marka lóðarinnar og byrgi gróðurinn fyrir útsýni og frá húsi kærenda og kvöldsól.  Hafi kærendur allar götur frá árinu 2002 kvartað yfir þessu við borgaryfirvöld án árangurs. 

Kærendur vísi til þess að þeim hafi borist bréf frá skipulags- og byggingarsviði, dags. 13. maí 2009, þar sem fram komi að embætti byggingarfulltrúa hafi ekki haft neina aðkomu að málinu og hafi ekki heimild til að taka ákvörðun í ágreiningi vegna gróðursetningar íbúa að Barðastöðum 61 og helgunar þeirra á landi borgarinnar fyrir utan lóðarmörk.  Því hafi erindið verið áframsent til skrifstofu náttúru og útivistar til þóknanlegrar meðferðar.  Þar hafi hvorki ákvörðun né afstaða verið tekin til kvörtunar kærenda. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er krafist frávísunar málsins þar sem ekki liggi fyrir kæranleg ákvörðun skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Bent sé á að eigendur hússins að Barðastöðum 61 hafi fengið leyfi hjá garðyrkjustjóra borgarinnar á árinu 2002 til að planta plöntum í borgarlandið utan við lóð sína og fengið til þess plöntur hjá borginni. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð gróðursetning í landi Reykjavíkurborgar, norðan og vestan við hús nr. 61 við Barðastaði, breytingar á borgarlandi næst lóðum við hús nr. 61 og 63 við Barðastaði og hækkun lands.  Hafa kærendur um nokkurra ára skeið komið á framfæri kvörtunum sínum vegna þessa við borgaryfirvöld.  Gera kærendur þá kröfu að borginni verði gert skylt að færa allt land utan lóðarmarka Barðastaða 61 til upprunalegs horfs, að allur gróður verði fjarlægður og allt rask þar lagfært til samræmis við skipulag og skilmála fyrir Staðahverfi. 

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 kveður úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurði um ágreiningsmál um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á, sbr. 5. mgr. fyrrnefnds ákvæðis.  Í sömu málsgrein er áréttað að stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga sæti kæru til nefndarinnar. 

Í máli þessu liggur ekki fyrir nein ákvörðun borgaryfirvalda á grundvelli skipulags- og byggingarlaga er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 26. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Lagaheimild skortir til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni og kemur krafa kærenda um málskostnað því ekki til álita. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                 ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

119/2008 Tunguheiði

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 20. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 119/2008, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 21. október 2008 um deiliskipulag vegna lóðarinnar að Tunguheiði 8. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. desember 2008, er barst nefndinni hinn 30. sama mánaðar, kæra S og S, til heimils að Tunguheiði 8 í Kópavogi, afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 21. október 2008 er varðar deiliskipulag vegna lóðarinnar nr. 8 við Tunguheiði. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Frá árinu 2001 hafa kærendur, sem búsettir eru að Tunguheiði 8 í Kópavogi, óskað eftir heimild skipulags- og byggingaryfirvalda í Kópavogi til byggingar þakhýsis á hluta húseignarinnar, án þess að við henni hafi orðið.  Með bréfi kærenda til bæjarskipulags, dags. 12. febrúar 2007, lögðu þau enn fram beiðni þessa efnis ásamt samþykki meðeigenda.  Samþykkti skipulagsnefnd á fundi 6. maí 2008 að kærendur myndu vinna deiliskipulagstillögu fyrir lóðina.  Þá var samþykkt á fundi nefndarinar 20. maí 2008 að hönnuður myndi gera húsakönnun og tillagan í kjölfarið auglýst, sbr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var tillagan auglýst og bárust athugasemdir vegna hennar.  Á fundi skipulagsnefndar 21. október 2008 var tillögunni hafnað á grundvelli innsendra athugasemda.  Var fundargerð skipulagsnefndar afgreidd án umræðu á fundi bæjarstjórnar 28. s.m.  Með bréfi arkitekts kærenda til bæjarskipulags, dags. 6. nóvember s.á., var farið fram á rökstuðning skipulagsnefndar og óskað eftir heimild til að vinna tillögu með tilliti til athugasemda nágranna.  Á fundi nefndarinnar 18. nóvember 2008 var bréf þetta lagt fram og var formanni hennar falið að rökstyðja synjunina.  Með bréfi formanns skipulagsnefndar til kærenda, dags. 2. desember 2008, var rökstuðningur nefndarinnar settur fram. 

Hafa kærendur kært framangreint til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður getur. 

Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að í nágrenni við þau hafi bæjaryfirvöld veitt heimild til byggingar þakhýsa á tveimur húsum og séu þau þess fullviss að unnt sé að hanna þakhýsi á húsið að Tunguheiði 8 þar sem tekið væri tillit til athugasemda nágranna. 

Af hálfu Kópavogsbæjar er m.a. bent á að erindi kærenda um byggingu þakhýsis hafi verið hafnað í skipulagsnefnd á árinu 2001 sem og deiliskipulagstillögu á árinu 2005 er laut að aukinni hæð húsa á svæðinu. 

Niðurstaða:  Skipulagsnefnd Kópavogs hafnaði á fundi sínum hinn 21. október 2008 tillögu að deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 8 við Tunguheiði.  Fundargerð skipulagsnefndar frá þeim fundi var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs hinn 23. s.m., þar sem afstaða var tekin til tiltekinna liða hennar.  Þar er þó ekki að finna bókun ráðsins varðandi afstöðu þess til áðurnefndrar afgreiðslu skipulagsnefndar.  Þá var og fyrrgreind fundargerð skipulagsnefndar á dagskrá fundar bæjarstjórnar hinn 28. október 2008, þar sem bókað var eftirfarandi:  „Fundargerðin afgreidd án umræðu.“ 

Samkvæmt 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tekur sveitarstjórn ákvarðanir um deiliskipulag.  Þeir annmarkar eru á meðferð málsins að ekki kemur fram í bókunum viljaafstaða bæjarráðs eða bæjarstjórnar til þess.  Verður framangreind afgreiðsla ekki talin fela í sér ákvörðun er bindi endi á meðferð máls og ber því, skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa málinu frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________             ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

73/2008 Sörlaskjól

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 20. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 73/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. júní 2008 um veitingu byggingarleyfis fyrir hækkun húss, gerð tveggja nýrra kvista, breytingu eldri kvists og glugga, greftri frá kjallara og breytinga á innra skipulagi einbýlishússins að Sörlaskjóli 24 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júlí 2008, er barst úrskurðarnefndinni 7. ágúst sama ár, kærir K, íbúðareigandi að Sörlaskjóli 26, persónulega og fyrir hönd T, íbúðareiganda að Ægissíðu 117 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. júní 2008 að veita byggingarleyfi fyrir hækkun húss, gerð tveggja nýrra kvista, breytingu á eldri kvisti og glugga, greftri frá kjallara og breytingu á innra skipulagi einbýlishússins að Sörlaskjóli 24 í Reykjavík.  Borgarráð staðfesti hina kærðu ákvörðun hinn 26. júní 2008.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. mars 2008 var tekin fyrir leyfisumsókn fyrir áður gerðri stækkun bílskúrs og hækkun húss, byggingu tveggja nýrra kvista, breytingu á kvisti og gluggum sem fyrir voru, stækkun svala, greftri frá kjallara og breytingu á innra skipulagi einbýlishússins að Sörlaskjóli 24.  Málinu var vísað til umsagnar skipulagsstjóra sem afgreiddi erindið neikvætt á embættisafgreiðslufundi sínum 7. mars 2008 með vísan til umsagnar sinnar, dags. sama dag.

Erindið var síðan til meðferðar hjá byggingarfulltrúa sem ákvað á fundi sínum hinn 22. apríl 2008 að vísa því til skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 25. apríl 2008 var samþykkt að grenndarkynna framlagða umsókn fyrir hagsmunaaðilum að Sörlaskjóli nr. 22 og 26 ásamt Ægissíðu nr. 115 og 117 og bárust athugasemdir frá kærendum.  Ákvað skipulagstjóri að vísa málinu til skipulagsráðs sem afgreiddi það á fundi sínum 11. júní 2008 með svofelldri bókun:  ,,Ráðið gerir ekki athugasemdir við að byggingarleyfi verði gefið út þegar uppdrættir hafa verið lagfærðir.  Vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.“  Byggingarfulltrúi samþykkti síðan umsóknina á fundi hinn 24. júní 2008 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 26. sama mánaðar.  Felur hið kærða byggingarleyfi m.a. í sér heimild til hækkunar útveggja hússins að Sörlaskjóli 24 um einn metra og samsvarandi hækkunar á þaki auk tveggja nýrra kvista á norðurfleti þaks.  Á samþykktum byggingarteikningum er stækkun húss sögð vera 47 m2 og hækkun nýtingarhlutfalls úr 0,55 í 0,64. 

Skutu kærendur veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að þeim hafi verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir að Sörlaskjóli 24 og fá nánari upplýsingar hjá skipulags- og byggingarsviði borgarinar.  Kærendur hafi leitað nánari upplýsinga um áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á skuggavarp og útsýni gagnvart fasteignum sínum.  Engin svör hafi hins vegar borist við athugasemdum kærenda en aðeins tilkynning um að umræddar framkvæmdir hafi verið samþykktar.  Ætla megi að það stafi af því að upplýsingar um áðurgreind grenndaráhrif hafi ekki legið fyrir hjá borgaryfirvöldum en það hljóti að vera lágmarksréttur íbúa að fá slíkar upplýsingar um áhrif framkvæmda á eignir þeirra svo unnt sé að taka upplýsta ákvörðun. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu boraryfirvalda er farið fram á að hin kærða ákvörðun um veitingu byggingarleyfis standi óhögguð. 

Við grenndarkynningu umsóttra breytinga á fasteigninni að Sörlaskjóli 24 hafi athugasemdir borist frá báðum kærendum sem að mestu hafi lotið að áhrifum á útsýni og skuggavarp á fasteignir þeirra að Sörlaskjóli nr. 26 og Ægissíðu nr. 117.  Í skjalasafni skipulags- og byggingasviðs liggi fyrir svör við þeim athugasemdum, dags. 6. júní 2008.  Þar komi eftirfarandi fram:  ,,Hækkun hússins mun lengja skugga frá því sem nú er um 1-2 metra.  Skipulagsstjóri tekur ekki undir þær athugasemdir sem borist hafa, enda ljóst að um óveruleg áhrif á nálæga byggð er að ræða.  Yfir sumartímann nær skuggi hússins fyrir breytingu ekki yfir á lóð nr. 117 við Ægissíðu, en mun lítillega fara yfir þau eftir breytinguna.  Ekki fæst séð að skugginn skerði nýtingu á garðinum yfir sumartímann.“

Kærendum hafi verið sent bréf, dags. 25. júní 2008, þar sem þeim hafi verið greint frá endanlegri afgreiðslu umdeildrar byggingarleyfisumsóknar en þau mistök virðist hafa orðið að láðst hafi að láta svör við athugasemdum kærenda fylgja.  Þessi mistök beri að harma en þó verði ekki talið að þau eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Meðferð málsins hafi að öðru leyti verið lögum samkvæmt, afstaða tekin til athugasemda og þeim svarað með vönduðum hætti þótt farist hafi fyrir að senda þeim þau svör sem athugasemdir gerðu. 

Niðurstaða:  Af málatilbúnaði kærenda verður ráðið að þeir óttist skuggavarp og útsýnisskerðingu gagnvart fasteignum sínum vegna heimilaðrar hækkunar hússins að Sörlaskjóli 24 og að málsmeðferð hafi verið ábótavant þar sem nefnd grenndaráhrif hafi ekki verið könnuð og athugasemdum þeirra við grenndarkynningu ekki verið svarað.

Í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er fjallað m.a. um grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar í þegar byggðum hverfum sem ekki hafa verið deiliskipulögð.  Annast skipulagsnefnd grenndarkynninguna áður en málið er afgreitt af hálfu byggingaryfirvalda og tekur afstöðu til framkominna athugasemda í niðurstöðu sinni í málinu með sama hætti og þegar um er að ræða kynningu skipulags skv. 1. mgr. 25. gr. laganna.  Tekið er fram að þeir sem tjáð hafi sig um málið skuli tilkynnt um niðurstöðu skipulagsnefndar auk niðurstöðu byggingarnefndar. 

Óumdeilt er í málinu að láðst hafi að senda kærendum niðurstöðu skipulagsráðs Reykjavíkur í kjölfar grenndarkynningar hinnar umdeildu byggingarleyfisumsóknar þegar þeim var tilkynnt um samþykkt hennar.  Hins vegar liggur fyrir að hugað var að grenndaráhrifum vegna kynntra breytinga á fasteigninni að Sörlaskjóli 24 í tilefni af athugasemdabréfum kærenda áður en skipulagsráð tók afstöðu í málinu.  Í ljósi þess verður umræddur annmarki ekki talinn leiða til ógildingar ákvörðunarinnar. 

Hús kærenda standa norðan og austan við húsið að Sörlaskjóli 24 í um 12-15 metra fjarlægð.  Samkvæmt samþykktum teikningum fer nýtingarhlutfall lóðarinnar að Sörlaskjóli 24 úr 0,55 í 0,64 við hina umdeildu breytingu en samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá er nýtingarhlutfall nágrannalóða eftirfarandi:  0,64 að Sörlaskjóli 22, 0,74 að Sörlaskjóli 26, 0,85 að Ægisíðu 115 og 0,57 að Ægisíðu 117.  Hæðir húsa á svæðinu eru áþekkar og sker húsið að Sörlaskjóli 24 sig ekki úr að því leyti eftir heimilaða hækkun. 

Með hliðsjón af framangreindum aðstæðum og þar sem hækkun hússins að Sörlaskjóli 24 um einn metra og aðrar breytingar verða ekki taldar hafa umtalsverð grenndaráhrif gagnvart nágrannafasteignum þykja ekki efni til að raska gildi umdeildrar ákvörðunar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. júní 2008, er borgarráð staðfesti 26. sama mánaðar, um að veita byggingarleyfi fyrir hækkun húss og fleiri breytingum á fasteigninni að Sörlaskjóli 24 í Reykjavík. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

__________________________             __________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

86/2009 Miðskógar

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 5. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 86/2009, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Álftaness frá 16. nóvember 2009 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 8 við Miðskóga. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. desember 2009, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kæra K og K S, til heimilis að Miðskógum 6, Álftanesi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Álftaness frá 16. nóvember 2009 að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 8 við Miðskóga.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar 19. nóvember 2009. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Engar framkvæmdir hafa átt sér stað á grundvelli hins kærða leyfis.  Þykir málið nú vera tækt til efnisúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Mál þetta á sér nokkra forsögu og hefur úrskurðarnefndin áður fjallað um deilumál er varða lóðina að Miðskógum 8.  Gera kærendur kröfu til þess að þeir nefndarmenn í úrskurðarnefndinni sem áður hafi fjallað um mál tengd lóðinni og deiliskipulagi svæðisins taki ekki þátt í afgreiðslu málsins.  Á þetta verður ekki fallist enda veldur það ekki vanhæfi þótt nefndarmenn hafi áður, á sama stjórnsýslustigi, leitt til lykta mál tengd úrlausnarefni máls. 

Jafnframt gera kærendur kröfu til þess að nefndin vinni að úrlausn málsins „óháð fyrri úrskurðum eða hugsanlegum dómum“.  Verður ekki fallist á þessa kröfu kærenda um meðferð máls enda væri hún andstæð eðli máls og meginreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rannsókn máls.  Verður nefndin þvert á móti að líta til fyrri úrlausna, hvort sem er eigin úrskurða eða niðurstöður dómstóla er varða sakarefni málsins, enda er hún bundin af þessum niðurstöðum. 

Kærendur rekja í löngu máli aðdraganda málsins sem þau telja leiða til þess að fyrri niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um gildi deiliskipulags á svæðinu fái ekki staðist.  Þykir ekki ástæða til að reifa hér málatilbúnað kærenda hvað þetta varðar, þar sem í úrskurði nefndarinnar frá 21. október 2009 er þegar fengin sú niðurstaða að í gildi sé deiliskipulag fyrir umrætt svæði frá árinu 1981 þar sem gert er ráð fyrir byggingarlóð að Miðskógum 8.  Kemur sú niðurstaða hvorki til endurskoðunar í máli þessu né í sérstöku máli fyrir úrskurðarnefndinni enda hefur ekki komið fram formleg beiðni um endurupptöku þess máls.  Verður tilvitnaður úrskurður því lagður til grundvallar við úrlausn máls þessa eftir því sem við á. 

Þar sem fyrir liggur sú niðurstaða að í gildi sé deiliskipulag fyrir svæði það sem hér um ræðir, sem fullnægi skilyrðum laga um samræmi við aðalskipulag, kemur það eitt til skoðunar í máli þessu hvort hið kærða byggingarleyfi samræmist gildandi deiliskipulagi. 

Málavextir:  Samkvæmt Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Álftaness 2005-2024 stendur lóðin að Miðskógum 8 á íbúðarsvæði.  Á deiliskipulagsuppdrætti fyrir svæðið frá árinu 1981 eru sýndar lóðir og byggingarreitir, auk götu og aðkomu að lóðum.  Á uppdrættinum er m.a. sýnd lóðin að Miðskógum 8.  Í skilmálum deiliskipulagsins er meðal annars að finna ákvæði um að á skipulagssvæðinu megi reisa einnar hæðar íbúðarhús og skuli ris á þaki ekki vera meira en 20°.  Hæð útveggja frá gólfplötu að þakrennukanti megi ekki vera meira 2,6 m, en um hæðarafsetningu íbúðargólfs er vísað til hæðarblaðs með nánar tilteknum skýringum.  Bifreiðageymsla skuli að jafnaði vera í húsinu og minnst tvö bílastæði á hverri lóð. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 16. nóvember 2009 var samþykkt að veita leyfi til byggingar 284,1 m² einbýlishúss auk 39,9 m² bílskúrs á lóðinni nr. 8 við Miðskóga.  Var afgreiðslan staðfest á fundi bæjarstjórnar 19. sama mánaðar og er það sú ákvörðun sem kærð er. 

Málsrök kærenda:  Kærendur kveða deilur hafa staðið um veitingu byggingarleyfis vegna Miðskóga 8 frá árinu 2005.  Þá fyrst hafi komið opinberlega fram hugmynd um að byggja á lóðarskika sem fram að því hafi verið talinn óhæfur til byggingar.  Það ár hafi tekið til starfa nýr bæjarstjóri sem lagt hafi ofuráherslu á að þarna skyldi byggt íbúðarhús og síðan þá hafi skipulagsnefnd og sveitarstjórn margsinnis fjallað um málið.  Með fulltingi fjölmiðla hafi málinu verið stillt upp í pólitísku samhengi og sú staðreynd að heimili fyrrverandi forseta bæjarstjórnar, annar kærenda máls þessa, sé á aðliggjandi lóð og hafi það verið gert að höfuðatriði.  Kærendur hafi ekki haft nein stjórnsýslutengd afskipti af umfjöllun eða afgreiðslum í máli þessu.  Þau hafi hins vegar, með fullum rétti, tjáð afstöðu sína á forsendum leikmanna sem búi á aðliggjandi lóð.  Frá árinu 2005 hafi þrír meirihlutar starfað í sveitarfélaginu og mismunandi stefna ríkt hjá hverjum þeirra.  Deilt hafi verið um afgreiðslur fyrri sveitarstjórna og skipulagsnefnda á stöðu og gildi deiliskipulags á svæðinu.  Stjórnsýslu sveitarfélagsins hafi ekki borið gæfa til þess í upphafi að skoða og skrásetja sögu málsins samkvæmt fundargerðum og fyrirliggjandi skjalasafni. 

Byggingarleyfi hafi nú verið samþykkt á umræddri lóðarspildu.  Í ljósi þess sé ekki hægt að líta framhjá annmörkum sem augljóslega séu á byggingarhæfi lóðarinnar, annmörkum sem samrýmist hvorki lögum og reglugerðum um byggingar- og skipulagslagsmál né tengdum lögum og reglugerðum hvað umhverfismál varði. 

Hverjum þeim sem skoði svæðið verði ljóst á staðnum að lóðarspildan sé að þriðjungi neðan grjótgarðs er umlyki Skógtjörn.  Samkvæmt aðalskipulagi Sveitarfélagsins Álftaness falli verulegur hluti spildunnar utan íbúðarbyggðar og ofan í fjöru, sem sé hverfisvernduð.  Frá upphafi skipulags þessa svæðis hafi aðalskipulag gert ráð fyrir göngustíg meðfram Skógtjörninni.  Við raunverulegar aðstæður megi sjá að lega göngustígsins yrði að hluta í gegnum byggingarreitinn eða í fjöruborðinu þrátt fyrir að augljóst sé að göngustígur verði aðeins byggður á þurru landi.  Landfyllingar hafi ekki verið á döfinni enda illframkvæmanlegar og hvergi getið á skipulagsuppdráttum.  Engin fordæmi séu fyrir sambærilegri staðsetningu lóðar á Álftanesi og tæplega þótt víðar væri leitað.  Hið kærða byggingarleyfi heimili byggingu íbúðarhúss á fjörukambi, ofan á grjótgarði sem þar hafi staðið svo lengi sem elstu menn muni, sjór muni flæða fast að húsinu tvisvar á sólarhring.  Sé í þessu sambandi vísað til gr. 4.15.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998  þar sem segi að í svæðis- og aðalskipulagi skuli auðkenna núverandi og fyrirhugaða vatnsfleti vatna, fallvatna og sjávar og greina frá ef fyrirhugaðar séu breytingar á legu þeirra vegna stífla, breytinga á árfarvegum eða landfyllinga. 

Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi virðist nær engar takmarkanir vera eða fyrirvarar gerðir við framkvæmdir á spildunni.  Þó komi fram að umhverfisnefnd þurfi að samþykkja landfyllingar innan lóðar.  Sú túlkun hafi komið fram að þessi fyrirvari muni ekki halda þar sem um eignarlóð sé að ræða, nema að fyrirvaranum verði þinglýst á lóðina.  Eigenda sé þannig heimilað að nýta lóðina á þann hátt sem almennt megi ætla að byggingarlóðir séu nýttar.  Því megi ætla að byggingarleyfishafi hafi fengið heimild til að fylla upp í Skógtjörnina og fjöruna að því leyti sem sú landfylling sé innan lóðarmarka.  Vakin sé athygli á að uppfyllingin þurfi að vera allt að 15 m út í fjöru, um 3-5 m á hæð og úr stórgrýti til öldubrots.  Hér virðist því heimild gefin til stórfelldra jarðvegsframkvæmda og landfyllingar án þess að hugað sé að lögum og reglum sem gildi þar um.  Byggingarleyfið sé ekki í samræmi við aðalskipulag Álftaness sem gefi ekki heimild til uppfyllinga, landmótunar neðan fjöru eða jarðrasks af þessari stærðargráðu á hverfisverndarsvæði. 

Þá hafi útfærsla á fyrirhuguðum göngustíg meðfram Skógtjörninni hvergi verið sýnd en samkvæmt aðalskipulagi eigi hann að vera neðan við íbúðarsvæðið.  Ekki verði annað séð en að það verði að koma honum fyrir á lóðinni Miðskógum 8 eða með frekari landfyllingum út í tjörnina. 

Athygli sé vakin á að fjara Skógtjarnar sé hverfisvernduð og á náttúruminjaskrá.  Umhverfisstofnun þurfi lögum samkvæmt að gefa umsögn um fyrirhugað jarðrask og breytingar á svæðum sem þannig séu friðuð.  Umhverfisstofnun hafi ekki gefið umsögn um óumflýjanlegar og nauðsynlegar breytingar á fjörunni eftir að byggingarleyfið hafi verið samþykkt.  Byggingaleyfið sé því ekki í samræmi við umhverfislög. 

Málsrök Sveitarfélagsins Álftaness:  Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 109/2008 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að sveitarfélaginu hafi verið óheimilt að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir Miðskóga 8.  Niðurstaða málsins hafi verið byggð á því að í gildi hafi verið deiliskipulag fyrir umrætt svæði frá 1981.  Þeirri málsástæðu sveitarfélagsins að á svæðinu hafi gilt annað deiliskipulag, m.a. á þeim grundvelli að tillagan frá 1981 hafi aldrei verið samþykkt af bæjarstjórn, hafi verið hafnað af hálfu úrskurðarnefndarinnar.  Þá hafi ekki verið fallist á önnur rök sveitarfélagsins fyrir synjuninni.  Í kjölfar þessarar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar hafi sveitarfélaginu borist ný umsókn um byggingarleyfi á lóðinni að Miðskógum 8.  Á grundvelli ofangreinds úrskurðar hafi umsóknin verið samþykkt. 

Kærendur séu lóðarhafar á lóðinni Miðskógum 6 sem liggi við hlið Miðskóga 8.  Í kæru sinni reki kærendur ítarlega skipulagslega sögu svæðisins.  Í öllum aðalatriðum sé þarna um að ræða sambærilegar röksemdir og gögn og sveitarfélagið hafi áður vísað til, undir rekstri málsins sem lokið hafi með úrskurði nefndarinnar í fyrrgreindu kærumáli nr. 109/2008. 

Sveitarfélagið telji að úrskurðarnefndin hafi nú þegar tekið afstöðu til þeirra röksemda og gagna sem kærendur byggi á. Lögskylt hafi verið að veita hið umrædda byggingarleyfi, enda hafi umsóknin verið að öllu leyti í samræmi við skipulag á svæðinu eins og skipulaginu sé háttað samkvæmt úrskurðum úrskurðarnefndarinnar. 

Þar sem engin ný gögn, röksemdir eða sjónarmið hafi komið fram sem réttlæti að úrskurðarnefndin komist að annarri niðurstöðu nú en þeirri sem nefndin hafi komst að í máli nr. 109/2008 um skipulag á svæðinu sé óhjákvæmilegt að hafna öllum kröfum kærenda. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að mál þetta hafi verið hjá sveitarfélaginu frá því að hann hafi fyrst lagt fram umsókn sína um byggingarleyfi nærri áramótum 2005-2006.  Málið hafi frá þessum tíma verið skoðað mjög gaumgæfilega af Skipulagsstofnun, Hæstarétti (dómur 444/2007) og úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.  Niðurstöður þessara aðila liggi fyrir.  Ekki sé unnt að álykta annað en kæran sé til þess ætluð að valda lóðareiganda enn frekara tjóni en orðið sé. 

Göngustígur, eða stiklur eins og sveitarfélagið vilji nefna það samkvæmt nýjustu áformum, liggi meðfram fjölda lóða á svæðinu.  Forsenda slíkrar framkvæmdar sé sú að hún sé unnin í samráði við eigendur allra lóða.  Fjallað hafi verið ítarlega um legu göngustígs meðfram lóðinni, m.a. af arkitekt sveitarfélagsins, úrskurðarnefndinni og sveitarfélaginu.  Niðurstaðan hafi verið sú að áform sveitarfélagsins hefðu ekki áhrif á útgáfu hins kærða byggingarleyfis.  Tvívegis hafi verið kallað eftir áliti Siglingamálastofnunar varðandi byggingu húss á lóðinni með tilliti til sjávarfalla.  Ekki hafi verið lögð fram nein sjónarmið er styðji fullyrðingu kærenda þess efnis að lóðin að Miðskógum 8 sé ekki byggingarhæf vegna ágangs sjávar. 

Með vísan kærenda til gr. 4.15.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 virðist sem þeir deili á skipulagsgerð sveitarfélagsins þar sem reglugerðin gildi um gerð skipulagsáætlana, meðferð og framsetningu þeirra.  Kærendur haldi því fram að samkvæmt samþykktu byggingarleyfi séu engar takmarkanir eða fyrirvarar gerðir við framkvæmdir byggingarleyfishafa á lóðinni neðan sjávargarðs og í fjörunni og að leyfið sé í andstöðu við umhverfislög.  Þessu sé hafnað og þurfi ekki annað en að lesa bókun skipulags- og byggingarnefndar á fundi nefndarinnar 8. nóvember 2009 þar sem segi:  „Samþykktin nær til framkvæmda á lóðinni ofan núverandi sjávargarðs.  Framkvæmdir á lóðinni neðan núverandi sjávargarðs, þar sem gert er ráð fyrir göngustíg skv. Aðalskipulagi Álftaness 2005-2024 og fráveitu, eru ekki heimilaðar án samráðs við umhverfisnefnd Álftaness.“ 

Þá bendi byggingarleyfishafi á að lóðin sé skilgreind sem íbúðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi og að strandlengjan sé á náttúruminjaskrá sem og strandlengjan frá Hafnarfirði og vestur í Skerjafjörð.  Lóðin sé hvorki friðlýst né séu á lóðinni friðlýstar minjar. 

Andsvör kærenda við málsrökum Sveitarfélagsins Álftaness og byggingarleyfishafa:  Við skoðun á athugasemdum sveitarfélagsins vegna máls Miðskóga 8 veki athygli sú grundvallarbreyting sem orðin sé á afstöðu þess.  Greinargerðina undirriti sami lögmaður og undirritað hafi fyrri greinargerð sveitarfélagsins þegar kærð hafi verið synjun á byggingarleyfi.  Lögmaður sveitarfélagsins ómerki þar með faglegt álit sitt í fyrri greinargerð án þess að nokkur faglegur rökstuðningur skýri þau óvæntu sinnaskipti. 

Mótmælt sé fullyrðingu byggingarleyfishafa þess efnis að kæran sé sett fram í þeim tilgangi að valda honum enn frekara tjóni en þegar sé orðið.  Þessi fullyrðing sé röng.  Kærendur hafi aldrei haft í hyggju að valda byggingarleyfishafa tjóni af neinu tagi heldur krefjist þeir þess einungis að rétt sé rétt. 

Því sé mótmælt að lóðir hafi verið skilgreindar á aðalskipulagi.  Strandlengja Skógtjarnarfjöru sé vernduð og sérstök vernd sé á sjávarfitjum sem séu á stórum hluta lóðarinnar.  Rangt sé að gert sé ráð fyrir göngustíg og fráveitu neðan sjóvarnargarðs samkvæmt aðalskipulagi, ekki sé sérstakur sjóvarnargarður við fjöruna, aðeins gamall grjótgarður.  Þurfi vart að árétta að göngustígur geti aldrei verið annars staðar en ofan fjörunnar. 

Hús það sem nú hafi verið heimilað að byggja með hinu kærða leyfi sé mun stærra en falist hafi í fyrri áformum byggingarleyfishafa en samkvæmt samþykktum teikningum fylli húsið nær allan byggingarreitinn.  Það útiloki möguleika á að setja göngustíg meðfram húsinu en minnka þurfi byggingarreitinn til að koma göngustígnum fyrir. 

——-

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 1. febrúar 2010. 

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir er í máli þessu deilt um gildi leyfis skipulags- og byggingarnefndar Álftaness frá 16. nóvember 2009 til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 8 við Miðskóga. 

Hið kærða leyfi heimilar byggingu 284,1 m² einbýlishúss auk 39,9 m² bílskúrs.  Samkvæmt skilmálum deiliskipulags svæðisins frá 1981 er heimilt að reisa þar einnar hæðar íbúðarhús og skal ris á þaki ekki vera meira en 20°.  Þá má hæð útveggja frá gólfplötu að þakrennukanti ekki vera meira en 2,6 m.  Bifreiðageymsla skal að jafnaði vera í húsum og minnst tvö bílastæði á hverri lóð.  Við samanburð á hinu kærða leyfi og skilmálum deiliskipulags svæðisins verður ekki annað séð en að byggingarleyfið rúmist að fullu innan heimilda deiliskipulagsins og sé í samræmi við það. 

Samkvæmt Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Álftaness 2005-2024 er gert ráð fyrir göngustíg neðan lóðarinnar nr. 8 við Miðskóga.  Á aðaluppdráttum hússins er gerð grein fyrir þessari gönguleið og verður af þeim ráðið að með tæknilegri útfærslu hafi tekist að fullnægja skilmálum skipulags um mannvirki á lóðinni og umferð um hana. 

Með vísan til framanritaðs verður ekki fallist á kröfur kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Álftaness frá 16. nóvember 2009 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 8 við Miðskóga. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________      _____________________________                 Ásgeir Magnússon                            Þorsteinn Þorsteinsson

30/2008 Lokastígur

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 20. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 30/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2008 um að veita leyfi til að breyta innra skipulagi og innrétta kaffihús á 2. hæð hússins að Lokastíg 28 og samþykkja íbúð í risi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. apríl 2008, er barst nefndinni hinn 30. sama mánaðar, kærir Á, Lokastíg 26 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2008 að veita leyfi til að breyta innra skipulagi og innrétta kaffihús á 2. hæð hússins að Lokastíg 28 og samþykkja íbúð í risi.  Var ákvörðun byggingarfulltrúa staðfest á fundi borgarráðs hinn 10. sama mánaðar. 

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gild. 

Málavextir:  Mál þetta á sér nokkra forsögu og hefur úrskurðarnefndin áður haft til meðferðar kæru vegna Lokastígs 28.  Í febrúar árið 2006 sótti byggingarleyfishafi um leyfi til að innrétta verslun á fyrstu hæð hússins ásamt því að koma fyrir kaffihúsi á fyrstu, annarri og þriðju hæð.  Var umsóknin grenndarkynnt hagsmunaaðilum.  Á fundi skipulagsráðs hinn 28. júní 2006 var erindið tekið fyrir og því synjað. 

Í ágúst 2006 lagði eigandi hússins inn nýja byggingarleyfisumsókn þar sem sótt var um leyfi til að innrétta kaffihús á annarri hæð en þriðja hæð yrði áfram nýtt til íbúðar.  Var umsóknin tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 15. ágúst 2006.  Henni fylgdu undirskriftir 34 nágranna þar sem þeir gáfu yfirlýsingu um að þeir væru því ekki mótfallnir að kaffihúsi yrði komið fyrir á miðhæð hússins.  Var afgreiðslu erindisins frestað og því vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 18. sama mánaðar var samþykkt að grenndarkynna erindið hagsmunaaðilum.  Að lokinni grenndarkynningu var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 27. september 2006 og því þá synjað.  Var þeirri ákvörðun skotið til úrskurðarnefndarinnar sem ógilti hana með úrskurði uppkveðnum 25. október 2007.  Í kjölfarið sótti eigandi hússins um leyfi byggingarfulltrúa til að breyta innra skipulagi og innrétta kaffihús á 2. hæð og koma fyrir fjölskylduherbergi í risi.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. desember 2007 var málinu frestað og vísað til umsagnar skipulagsstjóra sem tók það fyrir á embættisafgreiðslufundi 7. desember 2007 og samþykkti að kynna byggingarleyfisumsóknina hagsmunaaðilum.  Að lokinni grenndarkynningu, sem stóð yfir frá 12. desember 2007 til 14. janúar 2008, var málið aftur tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 18. janúar 2008 þar sem lagðar voru fram athugasemdir hagsmunaaðila.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 25. janúar 2008 var málinu vísað til skipulagsráðs sem tók það fyrir á fundi sínum 30. janúar 2008.  Þar voru athugasemdir kynntar og málinu frestað.  Skipulagsráð tók málið fyrir að nýju á fundi 6. febrúar 2008 þar sem lögð var fram umsögn skipulagsstjóra, dags. sama dag.  Eftirfarandi var bókað á fundinum:  ,,Ráðið gerir ekki athugasemdir við að veitt verði byggingarleyfi þegar teikningar hafa verið lagfærðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði með vísan til niðurstöðu í umsögn skipulagsstjóra.  Málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.“  Byggingarfulltrúi tók málið fyrir á afgreiðslufundi 26. febrúar 2008 þar sem málinu var frestað og eftirfarandi bókað:  ,,Umsækjandi skal óska íbúðarskoðunar byggingarfulltrúa og gera grein fyrir aldri íbúðar, að öðru leyti vísað til athugasemda á umsóknarblaði.“  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. mars 2008 var lögð fram íbúðarskoðun byggingarfulltrúa, dags. 10. mars 2008.  Málinu var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. apríl 2008 var minnisblað lögfræði- og stjórnsýslu, dags. sama dag, lagt fram og eftirfarandi bókað:  ,,Samþykkt.  Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997 með vísan til minnisblaðs yfirlögfræðings skipulags- og byggingarsviðs, dags. 8. apríl 2008.  Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.  Áskilin samþykkt heilbrigðiseftirlits.“ 

Hefur kærandi skotið ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að fasteignin að Lokastíg 28 sé á íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og í fasteignaskrá sé allt húsið skilgreint sem íbúðarhúsnæði auk bílskúrs.  Á íbúðarsvæðum sé atvinnustarfsemi heimiluð sem hvorki valdi óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né dragi að sér óeðlilega umferð.  Því sé ekki fyrir að fara í máli þessu þar sem einkahagsmunir byggingarleyfishafa séu teknir fram yfir hagsmuni heildarinnar.  Hagsmunaaðilar hafi verið hunsaðir við afgreiðslu málsins og byggingarfulltrúi hafi í óþökk þeirra veitt umrætt leyfi.  Þá bendi kærandi á bílastæðavanda íbúa við Lokastíg, tilkoma veitingahúss skapi enn fleiri vandamál.  Hið kærða leyfi muni auka umgang við Lokastíg að kvöldlagi, hávaði frá fólki og bifreiðum muni aukast sem og umferð leigubifreiða.  Hópar fólks sem komi og fari skapi hávaða.  Kærandi mótmæli innrás í einkalíf íbúa og að friðhelgi einkalífs sé raskað með atvinnustarfsemi að kvöldlagi.  Með tilkomu veitingahúss að Lokastíg 28 sé öruggt að ef fólk neyðist til að selja eignir sínar fáist ekki sama verð sökum veitingastarfsemi í garðinum.  Séu mannréttindi íbúa fótum troðin. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að fasteignin að Lokastíg 28 sé innan skilgreinds íbúðarsvæðis samkvæmt afmörkun og skilgreiningu Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024.  Í gr. 4.2.1 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 sé að finna skilgreiningu íbúðarsvæða.  Þar komi fram að á íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði.  Þó megi einnig gera þar ráð fyrir starfsemi sem eðlilegt sé að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis, s.s. verslunum, hreinlegum iðnaði, handiðnaðarfyrirtækjum, þjónustustarfsemi og leiksvæðum, eða annarri starfsemi sem hvorki verði ætlað að muni valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né draga að sér óeðlilega mikla umferð.  Eins og fram komi í umsögn skipulagsstjóra, dags. 6. febrúar 2008, hafi á jarðhæð hússins verið rekinn söluturn.  Skipulagsstjóri telji óhætt að líta svo á að hávaði, rusl og annar óþrifnaður muni ekki aukast þótt í húsinu verði rekið kaffihús án vínveitinga.  Í sömu umsögn sé bent á að borgarráð hafi samþykkt á fundi 12. júlí 2007 málsmeðferðarreglur um veitinga- og gististaði í borginni þar sem segi svo í 5. gr. reglnanna:  „Óheimilt er að veita áfengisveitingastöðum á skilgreindu íbúðasvæði rekstrarleyfi. Þetta gildir þó ekki um áfengisveitingastaði, sem áður hafa fengið leyfi, enda sé ekki heimilaður lengri veitingatími áfengis en til kl. 23.30 alla daga, þó til kl. 01.00 aðfaranætur laugardaga, sunnudaga og almennra frídaga. Um veitingastaði, sem staðsettir eru þar sem gert er ráð fyrir verslun og þjónustu innan íbúðarsvæða, gilda ákvæði 6. gr.“  Með vísan til reglnanna og minnisblaðs yfirlögfræðings, dags. 8. apríl 2008, sem hið kærða byggingarleyfi byggist á, megi sjá að það sé skoðun borgaryfirvalda að það sé með öllu óheimilt að veita vínveitingaleyfi á skilgreindu íbúðarsvæði.  Sé veiting byggingarleyfisins háð því að á staðnum fari fram veitingarekstur í flokki I, kaffihús án vínveitinga. 

Reykjavíkurborg fallist ekki á að umferð um Lokastíg muni aukast vegna samþykktarinnar.  Lokastígur 28 standi á horni Lokastígs og Njarðargötu, á fjölförnu og opnu svæði með fjölsóttum opinberum byggingum.  Gengið sé inn á umrætt kaffihús á horni þessara tveggja gatna.  Ekki sé heldur fallist á að með samþykktinni sé um að ræða innrás í einkalíf íbúa og að friðhelgi einkalífs sé raskað með atvinnustarfsemi að kvöldlagi.  Vísað sé til þess að áður hafi söluturn verið starfræktur í húsnæðinu ásamt því að íbúar miðsvæðis megi gera ráð fyrir einhverju mannlífi í nágrenni sínu, t.d. vegna gangandi vegfarenda og ferðamanna sem leið eigi um svæðið. 

——-

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi í tilefni fyrra kærumáls í október 2007. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um gildi þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2008 að veita leyfi til að breyta innra skipulagi og innrétta kaffihús á 2. hæð hússins að Lokastíg 28 og samþykkja íbúð í risi. 

Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag og kusu skipulags- og byggingaryfirvöld að neyta undanþáguheimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Verður að telja að það hafi verið heimilt eins og þarna stóð á, enda verður ekki talið að mynstur eða yfirbragð byggðarinnar breytist við tilkomu hins umdeilda kaffihúss.  Líta verður og til þess að húsið að Lokastíg 28 stendur á horni Lokastígs og Njarðargötu, í jaðri þéttbyggðs svæðis, þar sem bílaumferð er allmikil.  Auk íbúðarhúsa eru m.a. Hallgrímskirkja, Listasafn Einars Jónssonar og Gistiheimili Leifs Eiríkssonar í nágrenni við húsið. 

Kærandi heldur því fram að með hinu kærða leyfi sé með ólögmætum hætti gengið gegn grenndarhagsmunum hans, m.a. vegna aukinnar umferðar og hávaða.  Úrskurðarnefndin fellst ekki á framangreint.  Líta verður til þess að í húsinu að Lokastíg 28 var til langs tíma starfræktur söluturn á jarðhæð og er ólíklegt að rekstur kaffihúss hafi í för með sér aukið ónæði frá því sem áður hafði verið.  Verður og til þess að líta að hið kærða byggingarleyfi var samþykkt með vísan til þess að óheimilt væri að veita rekstrarleyfi til áfengisveitinga á skilgreindum íbúðarsvæðum og að útgáfa byggingarleyfisins væri því bundin við rekstur veitingahúss í flokki I, kaffihúss án vínveitinga.  Rúmast starfsemin, með þessum takmörkunum, innan Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024 hvað landnotkunar varðar.

Óveruleg breyting sem gerð var á skilgreiningu rýmis á 3. hæð þykir ekki gefa tilefni til endurskoðunar hinnar kærðu ákvörðunar enda verður ekki séð að hún geti haft áhrif á hagsmuni kæranda eða annarra nágranna. 

Þegar litið er til framanritaðs fellst úrskurðarnefndin ekki á að umdeilt byggingarleyfi hafi slík grenndaráhrif eða sé haldið neinum annmörkum er leiða eigi til ógildingar og verður kröfu kæranda því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2008 um að veita leyfi til að breyta innra skipulagi og innrétta kaffihús á 2. hæð hússins að Lokastíg 28 og samþykkja íbúð í risi. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

14/2010 Bergstaðastræti

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 21. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 14/2010, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. febrúar 2010 á beiðni um afturköllun á samþykki hans fyrir innréttingu og nýtingu íbúðar á annarri hæð hússins að Bergstaðastræti 28A í Reykjavík sem gististaðar. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. mars 2010, er barst nefndinni 11. sama mánaðar, kærir L, Gunnarsbraut 26, Reykjavík, eigandi íbúðar í húsinu að Bergstaðastræti 28A, Reykjavík, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. febrúar 2010 á beiðni hennar um afturköllun á samþykki hans fyrir innréttingu og nýtingu íbúðar á annarri hæð hússins að Bergstaðastræti 28A sem gististaðar. 

Málavextir og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. október 2009 var samþykkt umsókn um leyfi fyrir þegar breyttu innra fyrirkomulagi í íbúð á 2. hæð og til reksturs gististaðar í fl. II/E í sömu íbúð í húsinu að Bergstaðastræti 28A.  Í bókun byggingarfulltrúa er sérstaklega tekið fram að meðfylgjandi umsókninni sé samþykki meðeigenda, dags. 13. júlí 2009.  Þá var og eftirfarandi bókað:  „Í samþykktinni felst ekki leyfi til rekstrar gististaðar enda er það utan valdsviðs byggingarfulltrúa.   Umsækjanda er bent á að leita með þann þátt til leyfisdeildar lögreglunnar og heilbrigðiseftirlits.“ 

Með bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 1. febrúar 2010, tilkynnti kærandi um afturköllun samþykkis síns fyrir rekstri gististaðar á 2. hæð að Bergstaðastræti 28A þar sem undirskrift hennar væri annað hvort fölsuð eða fengin með blekkingum.  Einnig var þess krafist að byggingarfulltrúi veitti neikvæða umsögn til leyfisdeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins.  Embætti byggingarfulltrúa svaraði kæranda með bréfi, dags. 10. febrúar 2010, þar sem erindi hennar var hafnað. 

Kærandi vísar m.a. til þess að ekki liggi fyrir raunverulegt samþykki hennar sem meðeiganda fyrir gististað í húsinu, þrátt fyrir meinta undirskrift hennar á undirskriftalista meðeigenda.  Þá hafi hún afturkallað hið meinta samþykki sitt. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er krafist frávísunar málsins þar sem ekki liggi fyrir kæranleg ákvörðun sem borin verði undir úrskurðarnefndina, sbr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

—————–

Málsaðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kært svar embættis byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 10. febrúar 2010, við erindi kæranda, dags. 1. sama mánaðar, þar sem kærandi tilkynnir embættinu afturköllun samþykkis síns fyrir rekstri gististaðar á annarri hæð hússins að Bergstaðastræti 28A.  Þá krefst kærandi þess ennfremur að byggingarfulltrúi veiti neikvæða umsögn til leyfisdeildar lögreglunnar.  Umrætt svar í bréfi byggingarfulltrúa felur ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls og hefur þar að auki hvorki verið afgreitt í skipulagsráði né komið til staðfestingar borgarráðs.  Verður því ekki litið á umrætt svar embættis byggingarfulltrúa sem kæranlega stjórnvaldsákvörðun og ber því, samkvæmt sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa málinu frá. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________    ___________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson

22/2009 Farbraut

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 5. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 22/2009, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 24. október 2008 um að synja umsókn um  byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi og geymslu að Farbraut 3 í landi Norðurkots í Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 8. apríl 2009, kærir B, Gvendargeisla 22, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 24. október 2008 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi og geymslu að Farbraut 3 í landi Norðurkots.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 6. nóvember 2008.  Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Kærandi er eigandi sumarbústaðarlóðar í landi Norðurkots í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Á svæðinu er í gildi deiliskipulag fyrir frístundabyggð.  Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins, eins og þeim var breytt sumarið 2006, skulu sumarhús á svæðinu ekki vera stærri en 200 m².  Þá er heimilt að reisa útihús, geymslu, svefnhús eða gróðurhús, innan hvers byggingarreits, þó ekki stærri en 25 m². 

Haustið 2008 sótti kærandi um leyfi til að byggja á lóð sinni gróðurhús og geymslu, alls 41,3 m².  Var erindinu synjað á fundi skipulags- og byggingarnefndar 24. október 2008 með þeim rökum að skipulagsskilmálar svæðisins heimiluðu aðeins 25 m² aukahús.  Var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi, dags. 27. október 2008.  Þessi afgreiðsla var staðfest á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 6. nóvember 2008 og var kæranda tilkynnt um

Kærandi vildi ekki una þessari niðurstöðu og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Kærandi tekur fram að dregist hafi að ganga frá kæru í málinu vegna þess að hann hafi, með tölvubréfi hinn 30. desember 2008, kynnt byggingarfulltrúa fyrirhugaða kæru en jafnframt óskað rökstuðnings fyrir afgreiðslu málsins.  Sú ósk hafi verið ítrekuð í febrúar 2009 en engin svör hafi borist og hafi málinu því verið vísað til úrskurðarnefndarinnar. 

Kærandi vísar til þess að sumarhús hans sem fyrir sé að Farbraut 3 sé aðeins 86 m² og með þeim byggingum sem um hafi verið sótt hefði byggingar á lóðinni aðeins orðið 131 m².  Byggingarnefnd hafi ekki unnið faglega að málinu og ekki skoðað þau efnislegu rök sem færð hafi verið fram til stuðnings umsókn kæranda. 

Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er áréttað að ekki hafi verið talið að það samrýmdist skipulagsskilmálum að verða við umsókn kæranda vegna þeirrar takmörkunar sem gildi um stærð aukahúsa sem aðeins megi aðeins vera 25 m².  Því hafi umsókninni verið hafnað.

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Liggur fyrir í máli þessu að kærandi kynnti byggingarfulltrúa áform sín um kæru hinn 30. desember 2008 og var honum því, a.m.k. frá þeim tíma kunnugt, um kærurétt sinn í málinu.  Kæra barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 8. apríl 2009 og var kærufrestur þá liðinn. 

Kærandi hefur afsakað þann drátt sem varð á kæru með því að hann hafi óskað rökstuðnings og síðan beðið svara.  Eins og hér stendur á verður ekki talið að beiðni kæranda um rökstuðning eigi að hafa áhrif á kærufrest enda þarf slík beiðni að koma fram innan 14 daga frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Í máli þessu kom beiðni um rökstuðning ekki fram fyrr en að kærufresti liðnum og gat hún því ekki haft áhrif á lengd kærufrests, sbr. 3. mgr. 27. gr. sömu laga. 

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.  Verður ekki séð að neinar slíkar ástæður séu fyrir hendi í máli þessu og ber því, með hliðsjón af 1. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar, að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

__________________________       __________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson

18/2009 Barmahlíð

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 21. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2009, kæra á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. mars 2009 á umsókn um leyfi fyrir áður gerðu opi í svalahandrið, brú af svölum íbúðar 01-0101 yfir á þak bílskúrs, gerð þaksvala sem afmarkaðar væru með blómakerjum úr timbri og stiga af bílskúrsþaki niður í garð við fjölbýlishúsið að Barmahlíð 54 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. mars 2009, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir Ó, Barmahlíð 54, Reykjavík, synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. mars 2009 á umsókn um leyfi fyrir áður gerðu opi í svalahandrið, brú af svölum íbúðar 01-0101 yfir á þak bílskúrs, gerð þaksvala sem afmarkaðar væru með blómakerjum úr timbri og stiga af bílskúrsþaki niður í garð við fjölbýlishúsið að Barmahlíð 54.  Borgarráð staðfesti nefnda ákvörðun skipulagsráðs hinn 26. mars 2009.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Forsaga þessa máls er sú að í apríl 2007 barst embætti byggingarfulltrúa erindi þess efnis að yfir stæðu óleyfisframkvæmdir við fasteignina að Barmahlíð 54.  Verið væri að saga í sundur svalahandrið til að komast út á þak bílskúrs við hlið hússins.  Ætlunin væri að setja upp skjólvegg og nýta þakið sem svalir eða sólverönd.  Kæranda barst bréf byggingarfulltrúa, dags. 18. apríl 2007, þar sem krafist var stöðvunar framkvæmda enda um óleyfisframkvæmdir að ræða.  Var kærandi með bréfinu krafinn skýringa innan 14 daga og bent á úrræði byggingaryfirvalda í tilefni af óleyfisframkvæmdum. 

Í kjölfar þessa sendi kærandi fyrirspurn til byggingarfulltrúa um hvort leyft yrði að setja upp handrið og festingar fyrir færanlegan skjólvegg á bílskúrsþak að Barmahlíð 54, ásamt færanlegri brú af bílskúrsþaki að svölum á suðvesturhlið 1. hæðar fjölbýlishússins á lóðinni.  Yrði þessi umbúnaður aðeins notaður á tímabilinu frá apríl til október.  Var erindið tekið fyrir á fundi embættisins hinn 8. maí 2007 og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Af hans hálfu var ekki gerð athugasemd við erindið svo framarlega sem samþykki meðlóðarhafa og lóðarhafa að Barmahlíð 52 lægi fyrir og sótt yrði um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum sem yrðu grenndarkynntar.  Kærandi sendi þrjár aðrar fyrirspurnir til byggingarfulltrúa varðandi umræddar framkvæmdir á árinu 2007 og 2008.  Var tekið jákvætt í málið en ítrekuð krafa um að byggingarleyfisumsókn yrði lögð fram ásamt samþykki meðlóðarhafa og samþykki lóðarhafa að Barmahlíð 52 fyrir handriði á þaki bílskúrs.  Að öðrum kosti yrði kæranda gert að koma hlutum í fyrra horf að viðlögðum dagsektum. 

Hinn 24. júní 2008 var byggingarleyfisumsókn kæranda fyrir brú af svölum íbúðar á fyrstu hæð yfir á þak bílskúrs og gerð þaksvala þar, með stiga niður í garð hússins að Barmahlíð 54, tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa.  Var málinu vísað til umsagnar skipulagsstjóra sem frestaði afgreiðslu þess á fundi sínum hinn 4. júlí 2008 með þeim rökum að samþykki lóðarhafa að Barmahlíð 52 lægi ekki fyrir.  Var málið á dagskrá afgreiðslufundar byggingarfulltrúa hinn 8. júlí 2008 og eftirfarandi bókað:  „Samþykki lóðarhafa í Barmahlíð 52 liggur ekki fyrir vísað er til bókunar byggingarfulltrúa á afgreiðslufundi þann 20. maí 2008 en þar sagði: Er fyrirspyrjanda uppálagt að framvísa samþykki eigenda Barmahlíðar 52 innan 14 daga. Verði það ekki gert mun embætti byggingarfulltrúa halda áfram áður boðuðum aðgerðum.“  Var umsókninni svo synjað á fundi byggingarfulltrúa hinn 15. júlí 2008 með svohljóðandi bókun:  „Enn vantar samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar í Barmahlíð 52 en það er forsenda þess að samþykkja megi málið. Er vísað til fyrri bókana skipulags- og byggingarsviðs vegna þessa.“  Kærandi skaut þessari afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum 27. nóvember 2008 þar sem á þótti skorta rökstuðning fyrir ákvörðuninni og að grenndarkynna hefði þurft byggingarleyfisumsókn kæranda. 

Ný umsókn kæranda var síðan tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. janúar 2009 þar sem sótt var um leyfi fyrir áður gerðu opi í svalahandrið, brú af svölum íbúðar 01-0101 yfir á þak bílskúrs, gerð þaksvala sem afmarkaðar væru með blómakerjum úr timbri og stiga af bílskúrsþaki niður í garð við  fjölbýlishúsið nr. 54 við Barmahlíð.  Erindinu fylgdi samþykki meðeigenda Barmahlíðar 54 og eigenda Barmahlíðar 56.  Byggingarfulltrúi vísaði málinu til umsagnar skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu og ákvað skipulagsfulltrúi að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaðilum að Mávahlíð 43, 45 og 47 ásamt Barmahlíð 50, 52 og 56. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 25. mars 2009 þar sem m.a. lágu fyrir framkomnar athugasemdir og umsögn skipulagsstjóra, dags. 26. febrúar 2009.  Var umsókninni hafnað með eftirfarandi bókun:  „Synjað með vísan til a-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð og umsagnar skipulagsstjóra…“  Staðfesti borgarráð afgreiðsluna 26. mars 2009.  Kærandi skaut þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því andmælt að þær framkvæmdir sem um er sótt muni valda útsýnisskerðingu, skuggavarpi eða óþægindum af návist svo nokkru nemi fyrir þá nágranna sem grenndarkynning umsótts byggingarleyfis hafi náð til. 

Ljóst sé að umræddar framkvæmdir muni að mjög litlu leyti skerða útsýni úr glugga íbúðar fyrstu hæðar að Barmahlíð 52 og þá helst inn um glugga á íbúð kæranda.  Engin fagleg úttekt hafi verið gerð á hugsanlegu skuggavarpi vegna framkvæmdanna, en að mati kæranda hafi þær engin áhrif á birtu inn um glugga hússins að Barmahlíð 52 við sumar- og vetrarsólstöður.  Óþægindi íbúa greindrar fasteignar af návist ættu ekki að verða meiri en þau séu nú þegar þótt fallist yrði á þær breytingar að Barmahlíð 54 sem sótt sé um.  Nýting garðs til útivistar hljóti alltaf að hafa í för með sér einhver óþægindi fyrir íbúa næstu lóðar, en þó ekki meiri en búast megi við í þéttbýlu íbúðarhverfi sem Hlíðunum í Reykjavík. 

Hagsmunir kæranda séu miklir af því að fá að hagnýta eign sína og koma upp viðunandi flóttaleiðum úr íbúð sinni í samræmi við 205. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Hagsmunir þessir vegi þungt í ljósi greindra aðstæðna og ekki síður þess að eignarréttindi séu stjórnarskrárvarin. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld fara fram á að kröfu kæranda í máli þessu verði hafnað. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. maí 2009 hafi verið tekin fyrir og samþykkt umsókn kæranda um leyfi til að saga úr svalahandriði, byggja timburstiga af svölum niður í garð, að útbúa hlið milli bílskúrs og húss og að útbúa sólpall í garðinum við fjölbýlishúsið á lóð nr. 54 við Barmahlíð.  Þar sem kærandi hafi þannig fengið samþykkta sambærilega ákvörðun og þá sem undir sé í máli þessu að undanskyldum þaksvölum á bílskúr, snúist mál þetta nú einungis að því hvort synjun skipulagsráðs varðandi nefndar þaksvalir verði staðfest eða felld úr gildi.  Sé því rétt að efni hinnar kærðu ákvörðunar að öðru leyti verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verði séð að kærandi hafi lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar í því efni. 

Það sé mat Reykjavíkurborgar að skipulagsráði hafi verið heimilt að afgreiða málið með þeim hætti sem gert hafi verið.  Byggðamynstrið á svæðinu sé í meginatriðum þannig að íbúðarhús séu tvær hæðir, kjallari og ris, en bílskúrar á einni hæð með flötu þaki standi á milli húsanna, innst eða innarlega á lóðum.  Þegar heimilaðar séu breytingar á svæðum sem þessum sé horft til þess að þær falli sem best inn í byggðamynstrið.  Sé þess m.a. gætt, þegar heimiluð sé bygging bílskúra, að þeir séu litlir og lágir með tilliti til áhrifa á umhverfið og þá einkum ef þeir standi innarlega í görðum.  Um sé að ræða gróið og þéttbýlt svæði þar sem fólk búi við mikla nálægð.  Ef heimila eigi notkun á þaki mannvirkis sem standi í slíku umhverfi þurfi að ríkja um það víðtæk sátt við þá aðila sem mestra grenndarhagsmuna eigi að gæta.  Fjöldi athugasemda hafi borist við grenndarkynningu á umsókn kæranda er lotið hafi að útliti og umhverfisáhrifum.  Þá hafi borist hafi athugasemd frá eigendum Barmahlíðar 52 um að samþykki þeirra skorti fyrir girðingu ofan á bílskúrsþaki kæranda á lóðarmörkum Barmahlíðar 52.  Af framangreindum ástæðum hafi umdeildri umsókn kæranda verið synjað. 

Málsástæðu kæranda, um að synjun skipulagsráðs brjóti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, sé hafnað af þeirri ástæðu að ákvarðanataka í skipulags- og byggingarmálum sé í höndum sveitarfélaga en ekki einstakra lóðarhafa.  Skipulags- og byggingarlög geri ráð fyrir að samþykkis skipulagsyfirvalda sé krafist fyrir framkvæmdum þeim sem hér um ræði, en við afgreiðslu slíkra umsókna sé m.a. litið til skipulags- og grenndarsjónamiða.  Grenndarkynning sé lögboðin aðgerð sem framkvæmd sé í því skyni að fá fram viðbrögð þeirra er kunni að eiga hagsmuna að gæta vegna umsóttra breytinga. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er fyrst og fremst uppi það álitaefni hvort heimila eigi gerð þaksvala á bílskúr á lóðinni að Barmahlíð 54 í Reykjavík.  Fyrir liggur að kærandi fékk leyfi fyrir opi á svalahandriði íbúðar sinnar og stiga þaðan niður í garð og  sólpalli þar, eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni í máli þessu. 

Nýting þakflatar bílskúrs undir svalir er óhefðbundin og getur eftir atvikum haft veruleg áhrif á nýtingarmöguleika nágrannalóða, svo sem vegna hljóðvistar og yfirsýnar yfir næstu lóðir.  Verður að telja að slík nýting á þaki bílskúrs að Barmahlíð 54 snerti grenndarhagsmuni lóðarhafa Barmahlíðar 52 enda stendur bílskúrinn á mörkum þeirrar lóðar.  Er það álit úrskurðarnefndarinnar að þegar nýting þakflatar bygginga til útivistar hafi áhrif á grenndarhagsmuni þurfi hún að hafa stoð í deiliskipulagi, en svæði það sem hér um ræðir hefur ekki verið deiliskipulagt. 

Af framangreindum ástæðum var borgaryfirvöldum rétt að hafna umsókn kæranda um nýtingu þakflatar áðurgreinds bílskúrs og verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.  Raskar sú niðurstaða þó ekki gildi þess leyfis sem síðar var veitt fyrir hluta þeirra framkvæmda sem synjað var með hinni kærðu ákvörðun. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. mars 2009, sem borgarráð staðfesti 26. mars sama ár, um að hafna umsókn kæranda um leyfi fyrir áður gerðu opi í svalahandrið, brú af svölum íbúðar 01-0101 yfir á þak bílskúrs, gerð þaksvala sem afmarkaðar væru með blómakerjum úr timbri, og stiga af bílskúrsþaki niður í garð við fjölbýlishúsið að Barmahlíð 54 í Reykjavík. 

 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

74/2008 Efri-Klöpp

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 21. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 74/2008, kæra á synjun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 9. júlí 2008 á beiðni um leyfi til stækkunar húss að Efri-Klöpp í Mosfellsbæ um 50 m², um deiliskipulagningu lands og um breytta skráningu í Fasteignaskrá Íslands. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. ágúst 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir G, Efri-Klöpp, Mosfellsbæ, synjun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 9. júlí 2008 á beiðni um leyfi til stækkunar húss að Efri-Klöpp um 50 m², um deiliskipulagningu lands og um breytta skráningu í Fasteignaskrá Íslands.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fund bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 13. ágúst 2008. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða synjun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Af málsgögnum verður ráðið að kærandi, sem búsettur er að Efri-Klöpp í Mosfellsbæ, hafi um nokkurt skeið átt í samskiptum við skipulags- og byggingaryfirvöld í Mosfellsbæ vegna óska hans um leyfi til stækkunar hússins að Efri-Klöpp um 50 m² og um deiliskipulagningu lands.  Með bréfi hans til skipulagsfulltrúa, dags. 10. júní 2008, fór hann fram á framangreint.  Var erindið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 9. júlí 2008 og eftirfarandi fært til bókar af því tilefni:  „Efri-Klöpp, … , ósk um stækkun húss.  Gunnar Júlíusson óskar þann 10. júní 2008 eftir heimild til að stækka hús um 50 m² og að deiliskipuleggja landið.  Einnig óskar hann eftir að skráningu húss og lóðar verði breytt úr sumarbústað og sumarhúsalóð í íbúðarhús og íbúðarlóð.  Lögð fram eldri gögn sem tengjast erindinu.  Frestað á 233. fundi.  Erindinu hafnað þar sem það samræmist ekki gildandi aðalskipulagi Mosfellsbæjar.“ 

Þessari niðurstöðu vildi kærandi ekki una og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er í gögnum málsins vísað til þess að ósamræmi sé á milli Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2002-2024 og gildandi svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins.  Í svæðisskipulaginu sé svæði það við Geitháls er hús hans standi á merkt sem frístundabyggð en samkvæmt aðaskipulaginu sé svæðið hluti af opnu óbyggðu svæði.  Með vísan til 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skuli vera innbyrðis samræmi milli svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana og sé aðalskipulagið því gallað hvað varði svæðið við Geitháls.  Með vísan til þessa hafi kærandi farið fram á heimild til stækkunar hússins að Efri-Klöpp, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, deiliskipulagningar lands og skráningu hjá Fasteignamati ríkisins í samræmi við not, þ.e. íbúðarlóð og íbúð. 

Málsrök Mosfellsbæjar:  Af hálfu Mosfellsbæjar er vísað til þess að árið 2003 hafi farið fram endurskoðun á aðalskipulagi bæjarins og hafi þá verið gerðar töluverðar breytingar á afmörkun svæða fyrir frístundabyggð.  Nokkur svæði sem hafi áður verið skilgreind sem frístundabyggð hafi verið minnkuð verulega, s.s. við Hafravatn og norðvestan Selvatns, auk þess sem einstök minni frístundasvæði hafi verið felld brott.  Formlegri skilgreiningu þessara svæða hafi því verið breytt úr „sumarbústaðarlandi“ í „opið óbyggt svæði“ og hafi svæðið sem Efri-Klöpp, eignarland kæranda, standi á verið þar á meðal.  Markmiðið með þessu hafi verið að koma skipulagsmálum bæjarins í þann farveg að sumarhúsabyggðir yrðu afmarkaðri og samfelldari en áður. 

Gerð svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins hafi verið í höndum sveitarstjórna á svæðinu, sbr. 1. mgr. 12. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Svæðisskipulag hafi að geyma stefnu sveitarstjórna um þróun byggðar og landnotkun á hverjum tíma.  Sveitarstjórn hvers sveitarfélags beri hins vegar ábyrgð á að gert sé aðalskipulag fyrir sveitarfélagið, sbr. 1. mgr. 16. gr. laganna, og í því sé sett fram stefna sveitarstjórnarinnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar í sveitarfélaginu á minnst 12 ára tímabili.  Bæði svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulag Mosfellsbæjar hafi hlotið staðfestingu umhverfisráðherra og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Rétt og skylt hafi verið að synja kæranda um byggingarleyfi á grundvelli þess að það væri ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Ljóst sé að samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé sumarhús kæranda á svæði sem skilgreint sé sem opið óbyggt svæði og hafi það verið svo síðan 2003.  Á slíku svæði sé óheimilt að byggja við, endurbyggja eða byggja ný sumarhús.  Þeim sumarhúsum sem standi utan frístundabyggðar, s.s. á óbyggðum opnum svæðum, megi aðeins viðhalda með eðlilegum og nauðsynlegum framkvæmdum.  Þar sem 50 m² viðbygging geti ekki talist til eðlilegs og nauðsynlegs viðhalds sé bygging hennar ekki í samræmi við aðalskipulag.  Deiliskipulagning lands hefði af sömu ástæðu ekki komið til álita. 

Í 4. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 séu landnotkunarflokkar í skipulagi skilgreindir.  Ákvæði kaflans séu almennt orðuð en þó sé ljóst að íbúðarhúsnæði skuli hvorki vera á svæðum fyrir frístundabyggð né á opnum óbyggðum svæðum.  Nauðsynlegt og eðlilegt viðhald sumarhúsa séu einu leyfilegu framkvæmdir sem gera megi á óbyggðum opnum svæðum skv. gildandi aðalskipulagi.  Þar segi jafnframt að á frístundabyggðarsvæðum skuli ekki vera hús sem séu ætluð eða notuð til heilsársbúsetu.  Af þessu megi ljóst vera að kærandi hafi hvorki fyrir né eftir aðalskipulagsbreytingar mátt hafa réttmætar væntingar til þess að fá að breyta sumarhúsi og sumarhúsalóð í íbúðarhús og íbúðarlóð. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun á beiðni kæranda um leyfi til stækkunar húss að Efri-Klöpp um 50 m², um deiliskipulagningu lands og um breytta skráningu í Fasteignaskrá Íslands. 

Gildandi aðalskipulag Mosfellsbæjar var samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hinn 12. febrúar 2003 og staðfest af umhverfisráðherra hinn 8. júlí 2003.  Samkvæmt aðalskipulagsuppdrættinum er lóð kæranda að Efri-Klöpp innan opins óbyggðs svæðis og er ekki gert ráð fyrir sumarhúsum á svæðinu.  Enda þótt aðalskipulagið sýnist ekki vera í samræmi við gildandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins hvað varðar landnotkun á umræddu svæði verður að leggja aðalskipulagið til grundvallar við úrlausn málsins, enda hefur því ekki verið hnekkt.  Er það ekki heldur á færi úrskurðarnefndarinnar að endurskoða gildi þess. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti.  Þá segir í 2. mgr. 43. gr. laganna að framkvæmdir sem byggingarleyfi heimilar skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Fallist er á þau rök bæjaryfirvalda fyrir hinni kærðu ákvörðun að beiðni kæranda um deiliskipulag og um byggingarleyfi samrýmist ekki gildandi aðalskipulagi.  Hafi því ekki verið unnt að fallast á erindi kæranda þar sem með því hefði verið gengið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.  Af sömu ástæðum skorti skilyrði til þess að fallast á beiðni kæranda um breytta skráningu fasteignar hans í fasteignaskrá.  Verður kröfu kæranda um ógildingu á hinni kærðu synjun bæjarstjórnar því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu synjunar skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 8. júlí 2008 á beiðni hans um leyfi til stækkunar húss að Efri-Klöpp um 50 m², um deiliskipulagningu lands og um breytta skráningu í Fasteignaskrá Íslands. 

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________    ____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

4/2010 Skipulagsgjald

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 4/2010, kæra á álagningu skipulagsgjalds vegna fasteigna á fyrrum umráðasvæði Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. janúar 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Þórunn Guðmundsdóttir hrl., f.h. Keflavíkurflugvallar ohf., álagningu skipulagsgjalds með gjalddaga 1. september 2009 að upphæð kr. 1.685.976 vegna fasteignanna Háaleitishlaðs 13, 15 og 17 og Haraldsvallar 10 ásamt álagningu skipulagsgjalds með gjalddaga 1. janúar 2010 að upphæð kr. 10.408.326 vegna fasteignanna Háaleitishlaðs 4, 8, 20, 22 og 24-26 og Grænavallar 4, öllum á fyrrum umráðasvæði Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða álagning verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Kærandi bendir á að hann hafi tekið yfir greindar fasteignir hinn 1. janúar 2009, en um hafi verið að ræða fasteignir sem hafi verið á fyrrum umráðasvæði Bandaríkjahers í áratugi.  Kærandi hafi nú þegar greitt álagt skipulagsgjald með gjalddaga 1. september 2009.  Hins vegar sé skipulagsgjald með gjalddaga 1. janúar 2010 ógreitt en kæranda hafi borist innheimtuseðlar vegna þeirrar álagningar hinn 29. desember 2009.

Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skuli skipulagsgjald lagt á nýreist hús eða viðbyggingar við eldri hús, en umræddar fasteignir í eigu kæranda hafi varnarliðið reist á síðustu áratugum liðinnar aldar.  Geti þær því ekki talist vera nýreist hús í skilningi fyrrgreinds ákvæðis.  Til stuðnings þeirri ályktun vísi kærandi til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 72/2009 frá 14. janúar 2010, en þar sé um að ræða sambærileg atvik og hér séu til umfjöllunar.  Í því kærumáli hafi verið felld úr gildi  álagning skipulagsgjalds á fasteignir á umráðasvæði Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli sem þar hafi staðið um árabil og síðar komist í eigu kæranda í tilvitnuðu máli. 

Kæranda hafi ekki verið leiðbeint um málskotsrétt sinn til úrskurðarnefndarinnar vegna álagningar umdeilds skipulagsgjalds eða um kærufrest svo sem kveðið sé á um í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verði því að telja afsakanlegt í skilningi 1. mgr. 28. gr. laganna að kæra vegna álagðs skipulagsgjalds með gjalddaga 1. september 2009 hafi borist að liðnum kærufresti.  Kæra vegna álagningar skipulagsgjalds með gjalddaga 1. janúar 2010 sé hins vegar innan kærufrests. 

Í bréfi Fasteignarskrár Íslands til úrskurðarnefndarinnar vegna málsins er tekið fram að kærandi hafi ekki beint kvörtun um álagningu og innheimtu skipulagsgjaldsins vegna umræddra fasteigna til stofnunarinnar.  Af þeim sökum sé ekki tilefni til athugasemda vegna málsins. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kæra á.  Samkvæmt því var kærufrestur vegna álagningar skipulagsgjaldsins með gjalddaga 1. september 2009 liðinn þegar kæra barst í máli þessu hinn 27. janúar 2010. 

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að berist kæra að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. 

Ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið leiðbeint um málskotsrétt sinn til úrskurðarnefndarinnar skv. 7. gr. reglugerðar um skipulagsgjald eða um kærufrest svo sem kveðið er á um í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Með hliðsjón af þessum atvikum þykir afsakanlegt að kæra vegna umdeildrar álagningar með gjalddaga 1. september 2009 hafi borist svo seint sem raun ber vitni.  Verður því ágreiningur um þá álagningu tekinn til efnismeðferðar ásamt álagningu skipulagsgjaldsins með gjalddaga 1. janúar 2010, sem kærð var innan kærufrests. 

Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta.  Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús, ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss.  Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignaskrá Íslands hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs, en sú stofnun gefur fyrirmæli um álagningu og innheimtu skipulagsgjalds skv. 3. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Skipulagsgjald er sérstakt gjald sem ætlað er að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana.  Er það lagt á fullbyggðar nýbyggingar og á sér lagastoð í 35. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Gjaldinu fylgir lögveð í þeirri fasteign sem það er lagt á. 

Eins og háttað er reglum um álagningu skipulagsgjalds má við því búast að hún geti farið fram nokkru eftir að viðkomandi bygging hefur verið tekin í notkun og hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum fallist á að réttlætanlegt kunni að vera að leggja gjaldið á nokkru eftir að byggingu mannvirkis hafi lokið.  Á hitt ber að líta að miðað er við að gjaldið sé lagt á nýreist hús og nýjar viðbyggingar.  Verður ekki á það fallist að umræddar fasteignir, sem ekki liggur annað fyrir um en að reistar hafa verið fyrir áratugum, verði talin nýreist hús í skilningi 35. gr. skipulags- og byggingarlaga er umdeild álagning fór fram.  Engin eðlis- eða efnisrök leiða til þess að beitt verði svo rúmri lögskýringu við túlkun þess lagaákvæðis, sem umdeild álagning styðst við, þegar litið er til orðalags þess.  Verður og að líta til þess að um er að ræða eldri fasteignir á svæði sem löngu hafði verið byggt upp og skipulagt á kostnað framkvæmdaaðila er skipulagsgjaldið var lagt á. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að fella úr gildi álagningu skipulagsgjalds á tilgreindar fasteignir kæranda eins og nánar greinir í úrskurðarorði. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds með gjalddaga 1. september 2009 að upphæð kr. 1.685.976 vegna fasteignanna Háaleitishlaðs 13, 15 og 17 og Haraldsvallar 10 og álagning skipulagsgjalds með gjalddaga 1. janúar 2010 að upphæð kr. 10.408.326 vegna fasteignanna Háaleitishlaðs 4, 8, 20, 22 og 24-26 og Grænavallar 4, öllum á Keflavíkurflugvelli. 

__________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson